Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019
28.5.2019 | 21:07
Af hreti í maílok 1952
Þó kuldakastið sem nú gengur yfir (aðallega um landið norðaustan- og austanvert) sé leiðinlegt er það engan veginn í hópi þeirra skæðari á þessum árstíma - alla vega ekki enn sem komið er. Það hefur samt valdið því að ritstjóri hungurdiska hrökk í dálítinn upprifjunargír á dögunum. Auðvitað rifjuðust upp mörg skæð köst eða hret síðustu viku maímánaðar og langt fram eftir júní - flest tengd árásum kuldapolla úr norðri eða vestri.
Margir muna enn mikil hret á þessum tíma árið 2011, 2006, 1997, 1975 og 1973 - og sjálfsagt mun fleiri. Eitt þeirra skæðustu kom seint í maí árið 1952 - fyrir tíma langminnis ritstjórans - en samt eru enn margir á lífi sem gætu munað það. Ekki víst þó að þeir minnugu séu meðal lesenda þessara pistla.
Við skulum til gamans rifja upp þetta hret - og einkum þó blaðafréttir af því. Kuldanum nú veldur útrás úr norðurhöfum - afmarkaður kuldapollur ættaður frá ströndum Síberíu. Svo vel vill til að aðalafl hans beinist til suðurs nokkuð fyrir austan land - og við sleppum við verulegt illviðri.
Kuldapollurinn sem olli kastinu í maí 1952 var annarrar ættar - kom eiginlega þvert yfir Grænland og náði jafnframt í mjög hlýtt loft sunnan úr höfum. Afskaplega hættuleg staða á öllum árstímum.
Eftir sérlega erfiðan desember 1951 og janúar 1952 skánaði veðurlag hér á landi þannig að febrúar og mars voru tíðindaminni og víða hagstæðir. Apríl er merkastur fyrir mikið illviðri sem náði þó ekki svo mjög til landsins en olli gríðarlegum mannsköðum norska selveiðiflotans fyrir norðan land og við Jan Mayen - held að nærri því hundrað sjómenn hafi þar drukknað.
Maí byrjaði kuldalega, en um miðjan mánuð hlýnaði og vorið virtist blasa við. Veðráttan segir um maítíðina:
Tíðarfarið var fremur óhagstætt að undanskildum hlýviðrakafla upp úr miðjum mánuði. Tún voru víðast farin að grænka um miðjan mánuð, en seinast í mánuðinum kippti mjög úr gróðri. Samgöngur voru oftast erfiðar vegna aurbleytu og snjóa.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum seint að kvöldi sunnudagsins 25.maí 1952. Þá er köld háloftalægð rétt í þann mund að taka stökkið yfir hábungu Grænlandsjökuls og mætir kuldi hennar hlýjum straumi langt sunnan úr höfum. Lægð myndast þá á Grænlandshafi og dýpkar hún ört og hreyfist austur meðfram norðurströndinni. Sunnan lægðarinnar var vindur hvass úr vestri. Kalda loftið kom fyrst inn yfir land úr vestri upp úr hádegi þann 26. - en vindur snerist að kvöldi þess dags til norðurs og hvessti verulega.
Daginn eftir, þriðjudag 27.maí var lægðin komin austur fyrir land - svipað og kortið hér að ofan sýnir. Athugið að sýndar eru jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins, lína merkt 0 er sú sama og 1000 hPa jafnþrýstilínan og 40 metrar sýna 1005 hPa. Eins og venjulegt er í endurgreiningum er snerpa lægðarinnar heldur vanmetin.
Íslandskortið kl.9 að morgni þriðjudags sýnir veðrið ekki fjarri hámarki. Þrýstispönn yfir landið - frá Dalatanga vestur í Bolungarvík er sú þriðjamesta sem við vitum um í maímánuði og meiri en sú mesta sem vitað er um í júní. Samanburður nær aftur til 1949. Sjá má að á Nautabúi í Skagafirði er blindhríð, skyggni 200 metrar og hiti við frostmark. Ofsaveður er á Kirkjubæjarklaustri og sandbylur og fárviðri á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Frost fór í -10,2 stig í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli daginn eftir og hefur aðeins einu sinni orðið meira síðar að vori. Það var í júníhretinu mikla 1997.
Við skulum nú fara yfir fréttir af veðrinu og tjóni í því sem birtust í Tímanum og Morgunblaðinu næstu daga á eftir. Þar kemur vel fram hversu slæmt þetta hret var. Við skulum hafa í huga að talsverðar breytingar hafa orðið á þjóðfélagsháttum og samgöngum á þessum tæpu sjö áratugum sem liðnir eru - og gerði sama veður eða ámóta nú á dögum yrðu áhrifin önnur.
Þess má geta að kuldinn hélt áfram fram í júní og þann 2. varð alhvítt á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, snjódýpt mældist 2 cm.
Vindhraði komst í 10 vindstig á Reykjavíkurflugvelli, en höfum í huga að vindmælirinn var í ólöglegri hæð um þessar mundir. Einkennilegasta tjónið varð á Geirlandi á Síðu.
Tíminn 28.maí:
Í fyrrinótt gerði hið versta veður, sem náði um mestan hluta landsins. Var veðrið af norðri og víða ofsarok sunnanlands, en snjókoma og frost norðan lands. Fregnir af veðrinu á Norðurlandi eru þó ekki ljósar enn vegna þess að símasambandslaust var norður um land og einnig austur um til Hornafjarðar.
Á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum komst veðurofsinn sums staðar allt að 12 vindstigum. Nokkurt næturfrost var og sunnanlands og allmikið norðan lands en hiti 34 stig í gær en um frostmark á Norðurlandi.
7000 kálplöntur eyðilögðust. Veðurofsinn fór vaxandi fram eftir nóttu í fyrrinótt og um klukkan sex í gærmorgun náði hann hámarki sunnanlands. Á Laugarvatni var veðrið afskaplegt svo til fádæma má telja, enda varð þar mikið tjón, sem lauslega er talið nema 30-40 þúsund krónum. Rúður brotnuðu úr gróðurhúsum, og 7000 kálplöntur sem nýbúið var að setja niður, eyðilögðust. Er talið óvíst, hvort hægt verður að fá plöntur í þeirra stað, og er hætt við að kálræktin á Laugarvatni bíði mikinn hnekki af þessu í sumar. Veðurofsinn var svo mikill, að bát tók á loft og brotnaði hann. Talin er hætta á að um 10 tunnur af kartöflum, sem búið var að setja í rásir í görðum en ekki hylja mold, hafi eyðilagst í næturfrosti. Margvíslegt tjón annað varð á garðagróðri á Laugarvatni. Mun tjón af svipuðu tagi hafa orðið víðar á Suðurlandi í fyrrinótt, þótt ekki sé það eins stórfellt.
Sandgræðslan á Stjórnarsandi stórspillist. Veðurofsinn náði hér hámarki klukkan 78 í gærmorgun, sagði fréttaritari Tímans á Kirkjubæjarklaustri. Var hann þá svo mikill í byljunum, að fádæmi eru. Margvíslegar skemmdir hafa orðið af veðrinu. Sandgræðslan á Stjórnarsandi hefir stórspillst. Var orðið þar vel gróið yfir að líta eftir einmuna vortíð, og sandfaxið orðið vel sprottið. Í dag er þar svart yfir að líta. Sandfokið var geysilegt, og víða liggja nú sandskaflar þar sem áður var grænt gras. Áveitan út á sandinn frá Skaftá hefir og spillst, þar sem sandskaflar lögðust í áveiturennur. Er augljóst, að sandgræðslan, sem þarna var komin vel á veg fyrir ötult starf og merkilegt átak hefir beðið allmikinn hnekki.
Rafstöðin á Geirlandi skemmist. Rafstöðin við Geirland, sem fjögur heimili á Geirlandi og Mörk fá rafmagn frá, og er dýrt mannvirki, Skemmdir á henni urðu með þeim hætti, að vatn fauk í veðurofsanum úr aðveituskurðinum og uppistöðulóni út í grasi gróna brekku, og kom þar svo mikill vatnsagi, að aurskriða rann ofan á aðrennslispípur, braut þær og raskaði. Eru skemmdir þessar allmiklar.
Þök af mörgum útihúsum. Á Síðu og í Landbroti fuku þök af útihúsum, einkum hlöðum. Mestar skemmdir af því tagi urðu í Nýjabæ í Landbroti, Hörgslandi og Keldunúpi á Síðu. Skemmdir urðu víða í görðum, fauk áburður og kálplöntur eyðilögðust.
Flugvöllurinn ónothæfur í bili. Flugvöllurinn við Klaustur er ónothæfur í bili vegna sandfoksins. Fauk sandur inn í allstóra sandskafla á flugbrautinni, og þarf að ýta honum af með ýtu áður en völlurinn verður lendingarhæfur á ný.
Meiddist í baki. Fréttaritari blaðsins í Vík í Mýrdal sagði, að veðrið hefði ekki verið eins hvasst þar og austar, en ýmislegt fauk þó úr skorðum, og næturfrost var þar í fyrrinótt, þó vonandi hafi það ekki orðið til skemmda í kartöflugörðum, þar sem farið var að koma upp. Sigurður Sigurðsson bóndi í Skammadal meiddist lítilsháttar í baki, er hann var að hagræða einhverju við bæ sinn og koma í veg fyrir fok. Fauk þá spýta í bak hans. Meiðsli hans var þó ekki talið hættulegt. Í gærkvöldi var farið að lægja og hlýna í veðri.
Snjókoma á Norðurlandi. Fregnir af Norðurlandi voru af skornum skammti í gærkvöldi vegna símabilana, sem virðast hafa orðið þar allmiklar. Þar var þó allmikil snjókoma í fyrrinótt og fram eftir degi í gær, og allmikið frost í uppsveitum. Mun hret þetta hafa komið mjög illa við, þar sem sauðburður stendur sem hæst, og mun kannski sumstaðar hafa verið búið að sleppa lambfé, þar sem tíð hefir verið einmuna góð að undanförnu og kominn góður gróður.
Morgunblaðið 28.maí 1952:
Miðþorraveður á Norður- og Austurlandi í gærdag. Snögg veðrabrigði hafa orðið. Um allt Norður- og Austurland var norðan stormur í gær með hríð. Víða var frost í fyrrinótt og náði það niður til uppsveita í Árnessýslu. Veðrið var öllu meira um sunnanvert landið þar sem það olli skemmdum á mannvirkjum. Á Norðurlandi króknuðu lömb í hríðinni og kuldanum. Skemmdir urðu á símalínum. Er frá þessu sagt í fréttum hér í blaðinu í dag. Veðurstofan skýrði Mbl. svo frá í gær, að mest frost í gærmorgun hefði verið í innsveitum á Norðurlandi þar sem það mældist 3 stig. Víðast annars staðar þar og á Austurlandi var hiti rétt um frostmark. Það eru horfur á að norðanáttin verði hér alls ráðandi næsta sólarhring a.m.k. og er hætt við að á Norður- og Austurlandi verði næturfrost. Vindur mun verða hægur. Um Suðvesturland mun veður verða bjart.
Djúpavík 27. maí. Eftir látlaust þíðviðri hér um slóðir frá því um miðjan maí, brá til norðaustanáttar í gærkvöldi með hvassvíðri og snjókomu. Í alla nótt voru bændur við smalamennsku til að bjarga lömbum í hús. Óttast er að lömb hafi króknað. Fram til 16. maí voru hér stöðugir kuldar og frost á hverri nóttu og snjókoma öðru hvoru. Þá sást tæplega á dökkan díl, jörð öll þakin snjó og sumstaðar var snjórinn mannhæðardjúpur, þar sem hann var jafnfallinn. Þá voru margir bændur komnir í heyþrot. En þennan fyrrnefnda dag brá til þíðviðris, sem svo hefur staðið yfir síðan. Snjó hafði mikið tekið upp og flestir bændur búnir að sleppa fé sinu og sauðburður stóð sem hæst.
Í gærkvöldi brá skyndilega til norðaustanáttar með hvassviðri og snjókomu. Hún stóð í alla nótt og fram á dag. Allmiklum snjó hefur kyngt niður á þessum tíma og hér er nú frost. Bændum hér í sveit varð lítið svefnsamt í nótt, því flestir voru í smalamennsku að bjarga lömbunum í hús í hvassviðri og hríð. Talið er víst að lömb muni hafa króknað í kuldanum í nótt. Hér er það von manna að hret þetta standi stutt. Að öðrum kosti má búast við fjárfelli.
Í því óvenju harða norðanveðri sem gekk yfir landið í fyrrinótt og í gær, bilaði talsímalínan milli Reykjavíkur og Akureyrar. Kunnugt var um að í Húnavatnssýslu brotnuðu 4 símastaurar vegna ísingar á vírum línunnar, þunga víranna og veðurofsans og ekki var mögulegt að gera við línuna í gærdag vegna veðurs. Þessi bilun hafði í för með sér að talsímasambandslaust var við Norður- og Austurland. Einnig var talsímasambandslaust austur á Hornafjörð, en fregnir höfðu ekki borist um hve alvarleg sú bilun var.
Akureyri, 27. maí. Í morgun vöknuðu menn hér við norðan grenjandi stórhríð. Vindhraðinn var um 7 vindstig hér í bænum og hiti um frostmark. Háspennulínan frá Laxá bilaði í morgun, og var bilunin ekki fundin um hádegi og því allt í óvissu um hvenær rafmagn kemur. Veður var að sjálfsögðu ákaflega óhagstætt til viðgerðar á línunni. Strax og kemur út fyrir bæinn, er veðurhæðin mun meiri, og mun snjó hafa fest á vegum, svo að bílar eiga erfitt yfirferðar. Eru t.d. þeir vörubílar tepptir austur í Fnjóskadal, er ætluðu inn yfir Vaðlaheiði. Áætlunarbílar Norðurleiða voru rúma tvo og hálfan tíma á leiðinni í Bakkasel, en eru venjulega um eina klukkustund, að keyra þá leið. Mun ófærðin hafa verið mest neðan til í Öxnadal, en færi sæmilegt úr því. Nokkrir bændur úr nágrenninu mun hafa verið búnir að sleppa fé, og er hætt við, að unglömb krókni i hríðinni. Vignir.
Húsavík 27. maí. Í nótt gerði hér vonskuveður af norðri og snjóaði í fjöll. Grátt var í rót niður undir sjó. Í dag hefir verið stórsjór, eins og á vetrardegi, en heldur fór hann minnkandi er á daginn leið. Áætlunarferðir til Akureyrar hófust um s.l. helgi, en Vaðlaheiði er nú orðin ófær, svo að ferðir falla niður þar til aftur birtir. Fréttaritari.
Ísafirði 27. maí. Um kl.7 í fyrrakvöld gerði hér slyddu og kl.9 skall á fárviðri. Járnplötur fuku víða af húsum, svo sem af Hraðfrystihúsinu og af bílskúr. Skúr, sem stóð við Knattspyrnuvölinn, fauk inn á hann og gereyðilagðist. Kappróðrarbátar, sem notaðir eru á sjómannadaginn, hvolfdi, þar sem þeir lágu við legufæri. Var mikil mildi, að enginn skyldi slasast í þessu veðri, því að járnplötur fuku víða yfir og milli húsa. Veðrinu slotaði ekki fyrr en um kl.3.
Morgunblaðið 29.maí:
Hofi í Vatnsdal, 28. maí Aðfaranótt þriðjudags gekk hér yfir ofsa norðvestan og norðan krepjuhríð með mikilli snjókomu. Veðurhæðin komst allt upp í 10 vindstig. Gil og lautir fylltust af snjó og fennti fé á ýmsum stöðum eða varð fast í sköflum. Ákaflegir erfiðleikar voru að koma lambám í hús, þar sem lömbin urðu máttlaus af kulda og var lambadauði mikill. ... Það var lítið um svefn þessa nótt, þar sem hver verkfær maður var við björgunarstörf til morguns. Voru mörg lömbin vermd og lífguð í eldhúsunum af kvenfólkinu, sem einnig tók virkan þátt í því starfi, sem þarna þurfti að vinna. ... Elstu menn muna ekki slíkt voða-áhlaup í maí-lok. Enn þá er hvasst og kalt. Jörð var áður vel gróin og sprettu útlit gott, hvaða afleiðingar sem þetta fárviðri kann að hafa í för með sér. Ágúst.
Árnesi, S-Þing., 28. maí: Hér gerði aftaka veður með frosti og snjókomu í gærmorgun. Hefir hríðarveður haldist í dag og kominn er töluverður snjór í innsveitum. Eru þar jafnvel mannhæðardjúpir skaflar. Skemmdir urðu í veðrinu á húsum og mannvirkjum. Háspennulínan til Akureyrar rofnaði, járnþök fuku af gripahúsum í Mið-Hvammi og Hvammi i Aðaldal og fleiri skemmdir urðu. Margir bændur voru búnir að sleppa lambfé og náðist það með naumindum í hús. Er allt sauðfé á gjöf í dag. Mun það valda bændum miklum óþægindum, ef löng innistaða verður, enda fara hey að ganga til þurrðar sumstaðar. H.G.
Morgunblaðið 30.maí:
Skriðuklaustri 28. maí: Eftir tíu daga einmuna veðurblíðu, suðvestan vinda og hlýindi gerði í gær norðan ofsaveður með krapahríð fram eftir degi, en undir kvöldið frysti og minnkaði nokkuð úrkoma. Er þetta með verstu veðrum, er hér hafa komið á þessum árstíma. Í morgun var alhvítt og hefir gengið á með skörpum éljum í dag. Tekið hefir þó af láglendi, en segja má að þorrasvipur sé á að horfa til heiðabrúnanna. Ágætur gróður var kominn og sauðfé var alls staðar komið af húsi. Í gær var víða margt tekið í hús, eftir því sem til náðist. Sauðburður stendur nú yfir. Slík hörkuáfelli um sauðburðinn kosta jafnan einhver lambslíf, en ekki munu mikil brögð að því hér í nágrenninu. J.P.
Tíminn 29.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í fyrradag og fram eftir degi í gær var hér um slóðir hið versta veður með slyddu og festi snjó á láglendi. Bifreiðaumferð um Fagradal er nú alveg stöðvuð, og varð að yfirgefa tvo bíla á fjallinu. Var þar ofsaveður og ófærð og aðrir bílar voru ýmist mjög lengi að komast yfir eða sneru aftur. ... Ferðafólkið náði þó allt til byggða, en var sumt mjög hrakið og illa til reika. Bændur áttu erfiða daga við að smala saman lambfé, þar sem víða var búið að sleppa nokkru af því. Sauðburður stendur sem hæst. Tún illa kalin. Túnávinnslu var víðast hvar lokið áður en áhlaupið kom, og eru tún viða mjög illa kalin, jafnvel svo að sjaldgæft er að svo mikið kal sé í túnum hér um slóðir. Byrjað var að setja niður í garða.
Frá fréttaritara Tímans í Trékyllisvík. Í óveðrinu á þriðjudagsnóttina tók þak af íbúðarhúsi í Norðurfirði. Húsið er timburhús með bárujárnsþaki og fletti óveðrið járninu af helmingi þaksins. Snjókoma var töluverð þar vestra og varð jörð hvít niður að sjó, en snjóinn var að taka upp í gær. Ennþá er jörð gróðurlaus og líta túnin mjög illa út. Ekki mun nein teljandi vanhöld hafa orðið á skepnum í óveðrinu, enda allar kindur á húsi um nætur. Sums staðar urðu þó töluverðir erfiðleikar við að koma fénu í hús. Talsvert hefir borið á fjöruskjögri í lömbum að undanförnu.
Tíminn 30.maí:
Frá fréttaritara Tímans á Reyðarfirði. Í fyrradag fór ýta yfir Fagradal, sem lokaðist algerlega í bylnum á dögunum. Í slóð ýtunnar fóru 10 bifreiðar til Egilsstaða, og voru þeir 1112 klukkustundir yfir heiðina. Snjókoma var enn á Fagradal, og snjór orðinn þar svo mikill, að traðirnar, sem voru með veginum eftir ruðninginn í vor, voru alveg fullar. Ýtan ruddi leiðina að nýju, en snjókoma og renningur fyllti þær aftur jafnharðan, svo að nú er ófært á ný, þangað til ýta hefir enn rutt veginn.
Lýkur hér upprifjun hungurdiska af illviðrinu 27.maí 1952.
Vísindi og fræði | Breytt 29.5.2019 kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.5.2019 | 15:15
Í grunninn vel sloppið
Næstu daga fer nokkuð snarpur kuldapollur til suðurs fyrir austan land. Reiknimiðstöðvar hafa dálítið hringlað með nákvæma braut hans og afl, en virðast nú orðnar nokkuð stöðugar.
Fyrri mynd dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og hæð 500 hPa-flatarins (litir) síðdegis á morgun, mánudaginn 27.maí. Lægðin hreyfist til suðurs og fer að grynnast. Vestan við meginkerfið er myndarleg stroka af köldu heimskautalofti á suðurleið. Svo virðist sem kaldasti skammturinn fari yfir okkur - og þá einkum landið norðan- og austanvert á þriðjudaginn.
Sú staða sést vel á kortinu hér að neðan.
Hér eru jafnþykktarlínur heildregnar, en litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli). Mikill munur er á þykktinni yfir landinu suðvestanverðu, á kortinu sést 5340 metra jafnþykktarlínan yfir Reykjavík, en við norðausturströndina er þykktin minni en 5200 metrar, hefur lækkað um meir en 100 metra frá því sem er nú þegar þetta er skrifað (síðdegis á sunnudag) - það kólnar sum sé um 5 stig í neðri hluta veðrahvolfs.
Sjórinn kringum landið (og sólarglæta yfir því á daginn) sjá til þess að snarpasti kuldinn gengur fljótt yfir þannig að á fimmtudag (uppstigningardag) er gert ráð fyrir því að lægsta þykkt yfir landinu verði um 100 metrum hærri en á kortinu hér að ofan. Kulda gætir einnig suðvestanlands - og hætt er við næturfrosti víða, en slíkt ætti líka að taka fljótt af.
Kuldi sem þessi síðustu daga maímánaðar er ekki beinlínis sjaldgæfur - en ekki alveg algengur heldur. Við höfum samt í huga að ekki munaði mjög miklu að illa færi - kuldapollurinn átt vestlægari braut en hann virðist nú fylgja. Slíku hefði fylgt enn kaldara loft, mun meiri úrkoma (snjókoma) og skýjaþykkni sem hindrað hefði aðstoð sólar.
25.5.2019 | 15:25
Hið (ómögulega) fullkomna ár
Sem kunnugt er var aprílmánuður síðastliðinn sérlega hlýr á landinu. Sá hlýjasti allra í Reykjavík og víðar um vestan- og norðanvert landið - og sá næsthlýjasti á landsvísu. Hitinn var meir en 2 staðalvik ofan meðallags áranna 1931 til 2010.
Pistillinn hér að neðan er tvískiptur. Í fyrsta lagi lítum við stuttlega á tíðni tveggjastaðalvikamánaða í Reykjavík (hana þekkjum við að vísu að mestu út frá skilgreiningu staðalviks)- á um 54 mánaða fresti að meðaltali (fjögur og hálft ár) - en við beinum sjónum að dreifingu þessara mánaða í tíma. Í Reykjavík frá 1871 til okkar daga.
Reynt er að sýna þetta á myndinni. Lárétti ásinn sýnir ár, en sá lóðrétti tíma sem liðinn er frá því að mánaðarmeðalhiti náði síðast tveimur staðalvikum. Svo vill til að einn slíkur kom strax í upphafi þess tímabils sem hér er undir. Það var júní 1871, á eftir honum fylgdi síðan ágúst 1880 - rúmum 9 árum síðar. Það er fyrsti punkturinn á þessari mynd. Síðan liðu 35 ár - þar til í október 1915. Svo voru ekki nema 5 ár í þann næsta - og á hlýindaskeiðinu fram til 1964 liðu oftast ekki nema fá ár á milli mjög hlýrra mánaða [um 3 ár að meðaltali] - þó voru þau tæplega 12 frá október 1946 til september 1958.
Á kuldaskeiðinu 1965 til 1995 var lengri tími á milli, ekki komu nema þrír tveggastaðalvika hlýindamánuðir í Reykjavík á þeim tíma öllum (apríl 1974, desember 1987 og júlí 1991) - einu sinni á áratug - eða tæplega það. Frá og með árinu 2002 skipti hins vegar rækilega um, frá og með desember það ár hafa 13 tveggjastaðalvikahlýir mánuðir komið í Reykjavík, á um 17 mánaða fresti - tvöfalt oftar en á hlýskeiðinu á síðustu öld. Þetta er heldur meira en víðast hvar annars staðar á landinu, en mánuðirnir eru þó 11 í Stykkishólmi og 10 í Vestmanneyjum.
Af myndinni sjáum við greinilega að tíðni afburðahlýrra mánaða og almenn hlýindi fylgjast nokkuð vel að. Það má þó segja að þeir fáu afburðahlýju mánuðir sem komu á síðari hluta 19. aldar hafi á sinn hátt verið enn afbrigðilegri heldur en stakir hlýir mánuðir þessarar aldar - tilvera þeirra gæti bent til þess að við gætum átt enn meira inni í því tíðarfari sem nú er ríkjandi.
Í síðari hluta pistilsins lítum við á eitthvað sem er ímyndun ein. Við spyrjum hversu hlýtt er ár þegar allir mánuðir þess eru jafnhlýir (að tiltölu) og nýliðinn apríl. Sem stendur verða líkur á slíku ári að teljast engar - en við reiknum samt.
Þrjár gerðir af súlum eru á myndinni. Lárétti ásinn sýnir mánuði árisins, en sá lóðrétti meðalhita. Brúnu súlurnar sýna hæsta meðalhita hvers mánaðar í Reykjavík - þær bláu meðalhita mánaðar væri hann jafnhlýr og nýliðinn apríl. Grænu súlurnar sýna mismuninn. Sé munurinn stærri en núll hefur viðkomandi mánuður einhvern tíma orðið hlýrri (að tiltölu) heldur en nýliðinn apríl, sé munurinn minni en núll vantar enn upp á. Við sjáum t.d. að við eigum jafnhlýjan janúar inni, en aftur á móti hafa bæði febrúar (1932) og mars (1929) verið enn hlýrri að tiltölu heldur en nýliðinn apríl. Við eigum enn eftir að fá 9 stiga maímánuð, kæmi maímánuður jafnhlýr nýliðnum apríl yrði meðalhiti hans 9,5 stig - sá hlýjasti til þessa er 8,9 stig. Svipað er með júlí, þeir hlýjustu hingað til eru 13,0 stig - en við virðumst eiga 13,3 stiga júlí inni (eða þannig).
Ef við nú veljum hærri tölu hvers mánaðar á myndinni hér að ofan og reiknum ársmeðalhita fáum við út 8,2 stig. Slík tala er ekki möguleg í núverandi veðurlagi. Hæsti ársmeðalhiti í Reykjavík til þessa er 6,1 stig (2003). Hæsta 12-mánaða keðjumeðaltalið er hins vegar 6,6 stig. - Það er alveg mögulegt að ársmeðalhiti nái að jafna það. En við erum þá samt 1,6 stigum neðan hita hins fullkomna árs hér að ofan. Þegar (og ef) hiti á heimsvísu hefur hækkað um 1,5 stig (frá því sem nú er) gætum við farið að sjá eitthvað þessu líkt svona stöku sinnum. Svartsýnar spár segja það gerast innan 50 ára. Við sem munum vel meir en 50 ár finnst það ekki langur tími.
En lítum líka á samsvarandi mynd fyrir Akureyri.
Þar kemur í ljós að enn skortir nokkuð á að mánuðir hafi yfirleitt nokkru sinni náð þeim miklu vikum sem voru í nýliðnum apríl - október 2016 og febrúar 1932 eru einu ámóta mánuðirnir á tímabilinu (nær aftur til 1882). Þetta stafar að einhverju leyti af því að staðalvikareikningar gera ráð fyrir að gögnin séu máldreifð sem kallað er (normaldreifð) - útgildi dreifist jafnt til beggja handa - kulda og hita. Á Akureyri er kaldi halinn nokkru lengri en sá hlýi. Erfiðara er því að ná stórum jákvæðum vikum heldur en neikvæðum. Ef vel ætti að vera þyrfti að leiðrétta fyrir þessu (og er vel hægt). - En við erum hér ekki í háfleygum vísindum heldur aðeins þukli og nokkurnveginnfræðum. En hærri talan til hægri á myndinni, 8,6 stig sýnir hversu hár árshiti yrði á Akureyri ef allir mánuðir þess væru jafnhlýir og nýliðinn apríl. Lægri talan (8,1 stig) sýnir meðaltal hæsta meðalhita sem mælst hefur.
Hæsti ársmeðalhiti sem við vitum um á Akureyri er 5,6 stig. Það var 1933. Hæsta 12-mánaða meðaltalið er hins vegar 5,8 stig - aðeins tveggja ára gamalt.
Í pistli hér á hungurdiskum var fjallað um ársmeðalhita þess árs sem jafnaði hámarkshitamet á hvers dags (á landsvísu). Í Reykjavík yrði meðalhiti slíks árs 14,3 stig, en 17,4 á Akureyri.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2019 | 21:30
Af árinu 1909
Árið 1909 þótti hagstætt til lands og sjávar. Lítið var um slæm illviðri ef frá eru talin mjög skammvinn vorhret og erfiður kafli fyrri hluta októbermánaðar. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 3,6 stig í Stykkishólmi og 2,8 á Akureyri. Júnímánuður var sérlega hlýr, á landsvísu sá hlýjasti síðan 1871 og síðan þá hafa aðeins júní 1933 og 2014 verið hlýrri - en hiti hefur í nokkur skipti önnur verið svipaður, síðast 2017.
Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal, 25,0 stig, en við höfum enn horn í síðu hæstu talna úr Möðrudal - eins og árin á undan. Aðstæður voru ekki alveg ákjósanlegar. Næsthæsta talan er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, þar fór hiti í 22,0 stig þann 5.júní. Hiti fór einnig í 22,0 stig á Seyðisfirði 1.júlí. Hámarkshitamælar voru ekki á þessum stöðvum og vel mögulegt að slíkir hefðu sýnt eitthvað hærri tölur. Óvenjulegt má telja að hiti mældist 20,0 stig á Stóranúpi í Gnúpverjahreppi þann 7.maí. Daginn eftir mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík, 18,3 stig. Hiti komst í 20,1 stig í Vestmannaeyjum 14. júní og þá fór hiti aftur yfir 20 stig á Stóranúpi.
Mesta frost ársins mældist í Möðrudal þann 21.desember, -27,0 stig. Litlu minna frost mældist á Grímsstöðum. Það er athyglisvert að viku áður, þ.14. hafði hiti farið í 13,3 stig á Seyðisfirði og talan 10,1 stig er í gögnum frá Grímsstöðum á Fjöllum sama dag (lesið af hámarksmæli þann 15.) - þykir það á mörkum hins trúverðuga, en varla rétt að sleppa.
Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík árið 1909. Athuga ber að hvorki var lágmarks- né hámarkshitamælir á staðnum. Við sjáum að veturinn 1909 var ekki mikið um hörð frost að slepptri viku síðari hluta janúar. Mikil hitasveifla varð í maí, þá mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík þann 8., en aðeins viku síðar gerði frost. Snögglega kólnaði undir lok septembermánaðar og mesta frost ársins mældist um jólaleytið, eins og á landsvísu.
Ekki voru nema fimm mjög kaldir dagar í Reykjavík á árinu, 16.mars, 19.maí, 27. og 28. október og 27.desember. Tveir dagar teljast mjög hlýir, 8.maí og 15.júní. Síðarnefndi dagurinn var einnig mjög hlýr í Stykkishólmi - og víða á landinu.
Engar úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík eða í grennd á árinu 1909. Júnímánuður var þurr um landið sunnanvert - og sennilega um mestallt land. Ágúst var úrkomusamur. Ársúrkoma í Stykkishólmi var sú minnsta síðan 1892, en varð síðan enn minni 1915. Á Eyrarbakka var ársúrkoman sú minnsta frá 1895, en hún var aftur á móti ekki fjarri meðallagi í Vestmanneyjum og á Teigarhorni.
Loftþrýstingur var óvenjuhár í júní (miðað við árstíma). Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 17.janúar, 952,1 hPa, en hæstur 1042,6 hPa á Teigarhorni þann 26.febrúar. Myndin sýnir þrýsting að morgni dags í Reykjavík. Vel sést að mikill háþrýstingur fylgdi hlýindunum í maí, en féll síðan með kuldakastinu í kjölfarið - kuldapollur af norðurslóðum trúlega ruðst suður í kjölfar hlýrrar fyrirstöðu - eins og algengt er. Þrýstingur var viðvarandi lágur fyrri hluta október. Þrýstiórói var með meira móti í júlí og ágúst.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1909 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Jakob Möller lýsir tíð í Skírni 1909:
Tíðarfar hefir verið afbragðs gott þetta ár. Veturinn mjög mildur og voraði snemma, enda byrjaði sláttur um land allt einni til tveim vikum fyrr en í venjulegu árferði, og þótt vel ári. Sumarið miklu heitara en undanfarið, og þó með talsverðri vætu, enda grasvöxtur meiri miklu þetta sumar en undanfarin ár. En óþurrkakast gerði á túnaslætti um land allt, um 35 vikur, svo töður manna velktust nokkuð, einkanlega á Norðurlandi, en þó ekki til neinna verulegra skemmda. Haustið hefir verið sérlega gott allan októbermánuð [fáir voru sammála því - (ritstjóri hungurdiska)], en úr því fara veður að harðna, og í desember eru meiri frost en mörg undanfarin ár. ... Snjór er talsverður fyrir norðan.
Einar Helgason ritar í Búnaðarrit 1910:
(s322) Vetur frá nýjári var mildur og snjólítill um allt Suðurland. Jörð tekin að gróa um sumarmál. Aðeins einu sinni gerði mikinn snjó í Borgarfjarðarhéraði; það var 17. og 18. febrúar. Þá hlóð niður fádæma miklum snjó í logni, en þann snjó tók fljótt upp aftur. Á Vestfjörðum var veturinn frostvægur og umhleypingasamur með töluverðri snjókomu og áfreðum, svo að haglaust var tímum saman. Á Norðurlandi var snjólítið og jarðsælt fram í miðjan mars. Þá fór að verða snjóasamt. Tók þann snjó tiltölulega fljótt upp í Eyjafirði, svo þar var jörð nær alauð fyrir sumarmál, en í Þingeyjarsýslu leysti snjó fremur seint. Þar var fádæma mikill snjór um páska. Í Vopnafirði var óstillt tíð í janúar, bleytutíð í febrúar, lítil frost. Sumarblíða suma daga seint í mánuðinum. Sveitin nær öll alauð síðari hluta febrúar. Mars fremur slæmur, en apríl bætti úr því. Fé fór viða að liggja úti eftir 10. apríl. Á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum yfirleitt var tíðarfarið líkt og í Vopnafirði. Á Héraðinu var jörð farin að gróa og túnvinna langt komin um sumarmál. Í suðurhluta Suður-Múlasýslu og í Austur-Skaftafellssýslu var veturinn ágætur fram undir sumarmál; þá fór að kólna.
Vorið. Á Suðurlandi var vorið fremur kalt framan af, en hlýtt og gott eftir 20. maí. Jörð, nær klakalaus um lok þess mánaðar. Á vesturkjálkanum öllum og á Vestfjörðum var gott vor, og greri snemma. Á Norðurlandi var vorið fremur kalt. Í Eyjafirði sást gróður nærfellt enginn fyrr en í byrjun júní. Í Þingeyjarsýslu snjóaði í lok maímánaðar. Á Austfjörðum var maí fremur kaldur, en júní blíðviðrasamur.
Sumarið. Júlí var þurrviðrasamur sunnanlands, en með ágúst brá til óþurrka, og voru þerrar úr því til sláttuloka stuttir og stopulir. Heyverkun því mjög misjöfn. Sláttur byrjaði miklu fyrr en venjulegt er, á nokkrum stöðum fyrir 20. júní, en almennt í júnílok. Spretta yfirleitt góð, á valllendi ágæt. Heyskapur með mesta móti, víða meira en dæmi eru til áður. Líkt er að segja um Borgarfjörð og Dali, en á Snæfellsnesi var tíðin enn þá votviðrasamari. Þeir, sem þar fóru fyrst að slá, náðu töðum vel verkuðum, hjá hinum hröktust þær. Heyföng með meira móti að vöxtum. Á Vestfjörðum var þurrkatíð í júlí, en með ágúst brá til rigninga, og var sumarið fremur óþerrisamt eftir það. Úthey því nokkuð hrakin, en nýting á töðum ágæt. Grasvöxtur yfirleitt í besta lagi og sláttur byrjaði allt að hálfum mánuði fyrr en vanalega.
Lík var tíðin á Norðurlandi, og grasspretta þar í betra lagi. Þurrkatíð þangað til kom fram í seinni hluta júlí og svo aftur eftir miðjan september. Hey urðu í meira lagi. Heyskapartími almennt um 10 vikur í Þingeyjarsýslu. Grasspretta góð á Austfjörðum, þó brunnu hólatún viða á Héraði. Óvenjulega hagstæð heyskapartíð. Í Vopnafirði byrjaði sláttur síðustu dagana í júlí. Í Skaftafellssýslum var hagstæðasta heyskapartíð til sláttuloka, og varð heyskapur þar með langmesta móti. Grasmaðkur geisaði óvenjulega mikið á Út-Síðu og í Skaftártungum á harðvelli, bæði á túnum og út-valllendi. Grasspretta varð með allra besta móti þar sem grasmaðkurinn náði ekki til að skemma, og það sem fyrst hvítnaði undan honum spratt furðanlega, er á leið sumarið. Nokkrir bændur fengu ekki meðalheyskap vegna maðksins.
Haustið og veturinn til nýjárs. Um Suðurland á svæðinu austur að Eyjafjöllum var fremur góð hausttíð, þó kom frost snemma í jörð. Fé víða tekið á gjöf mánuð af vetri (eftir miðjan nóv.) og lömb sumstaðar um októbermánaðarlok. Óvenju-snörp frostköst er á leið, alt að 25°C. mest. Um Borgarfjörð var milt og hagstætt tíðarfar. Um veturnætur fór að frjósa og héldust sífeldar kælur úr því fram að nýjári. Mest frost var á þriðja í jólum, um 22°C. Alltaf nógir hagar; þó var alstaðar farið að gefa fé fyrir nýjár. Hrjóstug og rosasöm tíð um Snæfellsnes. Í Dölum voru köld norðaustanveður með mikilli snjókomu allan október og fyrri hluta nóvember. Komu þá þíður og blíðviðri um tíma. Síðustu daga ársins þíður og suðlæg átt. Á Vestfjörðum gerði stórhríð með ofsaveðri og aftaka snjógangi í öndverðum október, og stóð það um þriggja vikna tíma, en eftir það var góð tíð til ársloka. Slæm hausttíð á Norðurlandi. Í Fljótum voru lömb tekin á gjöf sumstaðar 3 vikum fyrir vetur. Um Eyjafjörð gekk í norðaustan-bleytuhríð 1. október, og héldust þær samanhangandi þar til 20. nóvember, og var víða jarðlaust í sveitum, en þá gerði ágæta hláku nokkra daga, en stóð stutt. Umhleypingasöm tíð til nýjárs. Hríðar og frosthörkur um jólin. Í Þingeyjarsýslu var haustið eitt hið lakasta frá því 3. október. Lagðist þá að með snjóum, og tók ekki til ársloka. Hey skemmdist í hlöðum og görðum, og fjárrekstrar tepptust. Sumstaðar fór sauðfé alveg á gjöf hálfum mánuði fyrir vetur. Hláku gerði síðari hluta í desember, svo jörð kom upp á láglendi.
Í Vopnafirði hvassar austnorðanhríðar 1.10. október. Fé fennti á heiðum og heimalöndum. Rigningar komu 12.14. okt., tók þá snjó úr byggð. Erfið og óstöðug tíð, en ekki snjómikið til nóvemberloka. Lömb tekin á gjöf á Hofi 13. nóvember. Snjókoma mikil fyrstu viku desember. Öllu fé gefið þá í húsi nema við sjó. Hláka síðustu dagana. Árið endaði unaðslega. Á Fljótsdalshéraði var hin versta tíð allan október. Víða haglaust, og fjárrekstrar allir til Seyðisfjarðar tepptust, en oftast mátti reka fé eftir akbrautinni til Reyðarfjarðar. Seint í október rigndi svo mikið, að elstu menn mundu ekki annað eins. Flóð varð mikið á Út-Héraði og skemmdir af því sumstaðar. Á Kóreksstöðum týndust um 70 lömb, sem flest rak þó upp út á söndum. Nóvember allgóður; þá var fé ekkert gefið. Í byrjun desember lagðist að með harðindum, svo að allt fé komst á gjöf og hross víðast hvar. Á suðaustur-kjálkanum hretasamt en frostvægt í október. Eftir það kaldranaleg hörkutíð, en ekki jarðleysur. Fé og hross tekið með fyrsta móti. Í Vestur-Skaftafellssýslu hagstæð tíð til veturnótta, en þá setti niður feikna-snjó, einkum með fjöllunum, svo elstu menn mundu ekki annan eins um það leyti. Þó fennti tiltölulega fátt fé. Á Holti á Síðu voru menn í 6 daga að bjarga fé úr stöðum". Eftir viku batnaði veðráttan, en skammvinnt var það. Gekk svo í hvern snjóbylinn á fætur öðrum, og tók fyrir alla haga víðast hvar 3 vikur af vetri. Sumstaðar var hestum og lömbum gefið frá veturnóttum til áramóta. Fullorðið fé gjafalaust á helstu hagajörðum allt fram til jóla. Frost voru til áramóta öðru hvoru með mesta móti.
Uppskera úr görðum var allstaðar í góðu meðallagi og sumstaðar meira. (s326)
Janúar. Nokkuð hagstæð tíð, en umhleypingasöm. Hiti í meðallagi.
Norðri segir þann 21: Tíðarfar hefir verið afar óstillt undanfarandi tíma, einlægir ofsar, og skiptast á hlákublotar og hríðar, er nú vont til jarðar á fremstu bæjum.
Reykjavík 23.: Tíðin ill þessa viku. Oftast nær rok og byljir.
Fjallkonan segir þann 23.janúar:
Ofsarok af útsuðri gerði hér aðfaranótt 21.þ.m. og olli það ýmsum skemmdum hér á bryggjum og öðrum mannvirkjum. Hefir verið ærið stormasamt nú um stund, og umhleypingasöm tíð.
Þjóðviljinn segir um janúartíð: [18.] Snjór all-mikill á jörðu, og frost nokkur að undanförnu. [31.] Tíðin hefir vorið rosasöm undanfarið, en frost og hægviðri síðustu dagana, en þó fennt dálítið.
Þjóðviljinn segir í fréttum þann 31.:
Snjóflóð féll i Önundarfirði um miðjan janúar þ.á. og brotnuðu nokkrir ritsímastólpar. ... Fimm menn drukkna. Báti, sem var á ferð úr Reykjavík upp á Kjalarnes, hlekktist á í ofsa-roki um nónbilið 28. janúar síðastliðinn við Brimnestanga í grennd við Saltvík. Veður hafði verið sæmilegt, er lagt var af stað úr Reykjavik, en ofsa-hvessti, er á leið daginn, og sást báturinn vera kominn í grennd við fyrr greindan Brimnestanga, er seglin sáust hverfa. Fimm menn voru á bátnum, er allir drukknuðu. ... Skipstrand. Aðfaranóttina 28. þ.m. rak enskt botnvörpuveiðagufuskip, er lá hér á höfninni, upp í klettana við Klapparvör, og komu göt á það, svo sjór féll inn. Liggur það þar enn, og er óvíst hvort því verður náð út. Skipið heitir City of London" og er frá Grimsby.
Vestri segir af tíð: [9.] Tíðarfarið afar óstöðugt undanfarið, og gefur því nær aldrei á sjó. [16.] Tíðarfar líkt og áður, sífeldir stormar og frost, og hefir aldrei gefið á sjó þessa síðustu viku.
Vestri greinir af sköðum í pistlum þann 23.
Bátur fórst af Akranesi á leið frá Reykjavík 20. þ.m. A honum voru fimm menn: Bóndinn í Móum, hreppsstjórinn, einn karlmaður til og tvær stúlkur. Allir drukknuðu. ... Stúlka varð úti á Laugabóli í Laugadal í Ögurhreppi um helgina sem leið (sunnudaginn?) Hún hét Jakobína Jónsdóttir. Hún hafði farið með mjólkina úr fjósinu örstutta leið, 40-50 faðma, og mest með veggjum að fara. Bóndinn, sem var með henni í fjósinu, varð eftir til að hlúa að því, en þegar hann kom heim var stúlkan ókomin. Var þegar'tarið að leita hennar, en hún fannst ekki fyrr en daginn eftir, og var þá látin.
Lögrétta segir þann 20.janúar:
Veðrið hefur verið kaldara en áður undanfarna tíð og hefur töluvert snjóað. Í gær var heiðskírt veður og dálítið frost, en í nótt kom hláka og vindur á sunnan.
Þjóðviljinn birti þann 11.febrúar bréf frá Bíldudal dagsett 1. sama mánaðar;
Tíðarfar hefir verið hér all-bærilegt í vetur, oftast nær nóg jörð fyrir sauðpening, og nú í dag er hláka. Samt hefir einatt verið fremur umhleypingasöm tíð, og nú síðast 27. f.m. gjörði ofsaveður af suðvestri, svo að menn muna varla eins mikið veður; fauk þá hér á Bíldudal frá grunni hús, sem í var geymd steinolía, einnig rauf þak af geymsluhúsi og hliðar að nokkru, og var þetta hvorttveggja eign hlutafél. P.J. Torsteinsson & Co., nokkrar skemmdir urðu og á túngarði, er sama verslun átti; á Fossi í Suðurfjörðum og Laugabóli í Mosdal fuku og 2 hlöður ofan að veggjum,og urðu þar jafnframt heyskaðar nokkrir; i Otrardal færðist og til á grunni timbur- og járnhlaða, um freka alin. Fleiri skemmda af nefndu ofveðri hefir eigi spurst til hér.
Þjóðviljinn birti þann 15.mars bréf úr Beruneshreppi í Suður-Múlasýslu, dagsett 10.febrúar:
Tíðin ágæt, og muna menn vart jafn góðan þorra, alltaf auð jörð, og blíðviðri, frost nær engin. Fé víða aldrei hýst nú, og lömbum sumstaðar enn ekki kennt át. Sjávarrót gerði mikið milli jóla og nýárs, og brotnuðu hér þrír bátar í spón og bryggja Örum & Wulf's á Djúpavogi. Við Fáskrúðsfjörð brotnuðu þá tíu bátar.
Lögrétta segir þann 3.febrúar:
Enskan botnvörpung rak upp í klettana hér austan við höfnina miðvikudagskvöldið 27. [janúar] Hann liggur þar enn og er hálffullur af sjó, því að steinarnir standa gegnum skipsbotninn. Skipið heitir City of London.
Febrúar: Góð tíð. Snjólétt eystra og suðvestanlands. Hlýtt.
Þjóðviljinn segir af febrúartíð í Reykjavík:
[11.] Tíðin var einstaklega góð síðustu viku. Hæg frost og stillur, en umhleypingasamari það sem af er þessari viku, stormar og úrkoma, rigning, bleytukafald öðru hvoru.
[28.] Indælasta tíðarfar hér syðra nú um hríð, stillviðri og frostleysur. Jörð allstaðar marauð í byggðum.
Ingólfur segir af jarðskjálfta í frétt 28.febrúar:
Jarðskjálftakippur allsnöggur fannst að Laugarvatni og fleirum bæjum í Laugardal aðfaranótt þriðjudagsins var [23.], um kl. 3 3/4 árdegis.
Og Ingólfur bætir við þann 14.mars:
Jarðskjálftakippir hafa aftur fundist í efri sveitum Árnessýslu aðfaranótt 26. og 27. f.m. Voru minni en kippurinn aðfaranótt 23 f.m., er áður var getið í blaðinu.
Mars: Tíð talin mjög góð suðvestanlands, en annars var nokkuð næðingasamt. Hríðarhraglandi norðaustanlands. Fremur kalt.
Vestri segir þann 6.mars: Skautasvell er nú óvanalega gott hér á Pollinum, og er þar því fjölmenni mikið að skemmta sér á hverju kvöldi.
Þjóðviljinn segir af marstíð:
[10.] Frosthörkur all-miklar í þ.m., en fór þó draga úr þeim fyrir siðistu helgi.
[19.] Kuldar all-miklir, og norðan-beljandar, síðustu dagana. Frostið þó eigi meira en 5 stig.
[25.] Indælasta tíð síðasta vikutímann, sem á sumardegi.
Þjóðviljinn segir þann 20.apríl:
Aðfaranóttina 27.mars varð maður úti á Óshlíð í Norður-Ísafjarðarsýslu, milli Seljalands og Bolungarvíkur.
Apríl: Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.
Vestri segir þann 3.:
Skortur á vatni var hér talsverður um daginn, áður en þíðurnar komu. Nauðsynlegt væri að bæta úr því, að slíkt komi svo títt fyrir, því gott og nóg vatn er skilyrði fyrir góðum þrifum og vellíðun bæjarmanna.
Þjóðviljinn greinir frá apríltíðinni:
[7.] Tíðarfarið hefir verið hið ákjósanlegasta, einlæg þíðviðri, og er slíkt fátítt um þenna tíma árs.
[20.] Síðan blað vort var siðast á ferðinni, hefir haldist sama ágætis tíðin, sem að undanförnu.
[24.] Ágætis veðrátta hefir haldist, sem einmánuð allan, og 22. þ.m. heilsaði sumarið mjög þýðlega og hlýindalega.
Þann 30. segir Þjóðviljinn frá fjársköðum:
Snemma í apríl missti Jón bóndi Halldórsson á Galtará í Gufudalssveit allt fé sitt í sjóinn. Um svipað leyti missti og Arnór bóndi Einarsson á Tindum í Geiradal 53 kindur í sjóinn.
Þjóðólfur gerir veturinn upp í pistli þann 23.apríl:
Veturinn sem kvaddi oss í fyrradag, hefur verið einhver hinn besti í manna minnum, að minnsta kosti hér á Suðurlandi, frost nálega engin, og snjókoma óvenju lítil, yfirleitt sífelldar stillur og góðviðri og úrkoma með langminnsta móti, engin ofviðri verið síðan um áramót, og jörð oftast nær auð. Skepnuhöld ágæt í sveitum og sumstaðar búið að sleppa öllu fé.
Maí: Tíð talin hagstæð, þó var fremur kalt og úrkomusamt eftir hlýja byrjun.
Ingólfur segir þann 9. fréttir úr Berufirði dagsettar þann 3.maí:
Veðrátta hefir verið óstillt og köld hér um slóðir síðan um páska [11.apríl]. Fjúk hér í gær og frost, svo að gluggar voru hélaðir. Norðanveður í dag með litlu fjúki.
Lögrétta lýsir tíð í maí:
[5.] Kuldakast, norðanátt og miklir þurrkar hafa verið undanfarandi um tíma, þar til í morgun, að komin eru hlýindi og dálítið regn.
[8.] Hlýindi mikil hafa verið nú í nokkra daga.
Lögrétta segir þann 8.:
Af Eyrarbakka er skrifað 2. þ.m.: Veðrátta hin blíðasta fyrstu 3 vikur góunnar og allan einmánuðinn. Norðankast gerði í 3ju viku góu og nú aftur eftir sumarmálin og helst það enn. Eigi hefur fiskur fengist nema í net, en gæftir mjög stirðar; hefur aflinn því verið minni og lakari en ella mundi og kostnaður þó meiri.
Fréttabréf undan Eyjafjöllum. Veturinn sem nú er liðinn, var með þeim allra bestu vetrum sem menn muna. Fram að nýjári var alltaf snjólaust að kalla mátti, en desembermánuður var stórviðrasamur, einkum síðari hlutinn, þó ofviðrið þann 29. tæki yfir. Skemmdust þá víða hús, og hey tapaðist á nokkrum bæjum. Mestan hluta janúarmánaðar voru harðindi, en úr því mátti kalla að hver dagurinn væri öðrum betri, oftast frostlaust, aðeins tvisvar gránað af snjó. Jörð er því orðin klakalaus fyrir löngu, enda hafa menn notað tímann til jarðabótavinnu, þeir sem hafa haft ástæður til þess. Fénaður er í ágætu standi og heyfyrningar með mesta móti.
3. þ.m. gerði stórviðri fyrir sunnan land. Vestmanneyingar voru á sjó, en hleyptu heim, er veðrið tók að hvessa. Skammt frá lendingu bilaði vélarbáturinn Von, svo að hann komst ekki áfram. Var mönnunum bjargað af öðrum báti, en Von sökk rétt á eftir. Annar vélarbátur, Fálki, með 5 mönnum, náði landi á Eyrarbakka eftir 2 sólarhringa hrakning. Þriðji vélarbáturinn, Vestmanney, lenti einnig í hrakningum, og var mönnum af honum bjargað af franskri fiskiskútu, og kom hún hingað inn með þá til Reykjavíkur, en báturinn fórst.
Þjóðviljinn segir frá maítíð:
[5.] Norðan-kalsa næðingar síðustu dagana, en heiðir og sólbjartir dagar.
[15.] Tíðin indæl, hreinviðri og sólskin nær daglega. Túnin farin að grænka hér syðra, en kýr þó óvíða komnar út enn.
[25.] Hlý vorveðrátta að undanförnu, eftir dálítið uppstigningardagshret, að gömlum vanda, 19.20. þ.m.
[31.] Tíðin enn indæl, eins og verið hefir vorið, að kalla má.
Þann 26.birti Ingólfur fréttabréf úr Dalasýslu (ódagsett, en ritað í maí):
Tíðin hefir verið einmuna góð í vetur, naumast komið snjór eða frost, að við köllum. Hey því víðast nóg. En illa mundi víða hafa farið, ef veturinn hefði orðið harður, því að nú setja menn víða illa á á haustin.
Austri segir af maítíð: [15.] Veðrátta slæm, kuldastormur og hríðarhraglandi. [25.] Veðráttan nú gengin til batnaðar. Veðurblíða í dag.
Ísafold segir þann 19. - ritað úr Borgarnesi(?):
Eftir bestu sumarhlýindi fáeina daga í fyrri viku brá til kulda aftur með snarpri norðanátt, jafnvel aftökum um helgina síðustu [16.]. Þá var 5 stiga frost á Grímstöðum á Fjöllum, og um 12 á Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði. Eina nóttina hafði verið 7 stiga frost hér í Borgarnesi. Kafaldsfjúk í nótt og í dag fyrri partinn, á norðan uppstigningardagshret [20.maí].
Júní: Hagstæð tíð. Mjög þurrt. Hlýtt, einkum fyrir norðan.
Austri segir af hlýindum þann 12.júní:
Hitar miklir hafa verið nú lengi undanfarið, 1520 stig á R. ... Vatnavextir ákaflega miklir hafa verið nú í hitunum. Lagarfljót flæddi svo yfir farveg sinn, að menn, sem komu nú í vikunni norðan yfir fljótið, urðu að sundríða frá brúarsporðinum all-langan spöl yfir á hæð á Egilsstaðanesinu.
Þjóðólfur birti fréttir af tíð og sprettu þann 25.júní:
Grasvöxtur verður ágætur í þetta sinn hér sunnanlands, einkum á túnum, og byrjar sláttur því í langfyrsta lagi, og er þegar byrjaður sumstaðar. Valllendi er einnig vel sprottið, en mýrlendi fremur illa, vegna of mikilla þurrka í vor. Tíðin yfirleitt einhver hin besta, er menn muna, síðan um nýár.
Þann 17.júní varð almyrkvi á sól - deildarmyrkvi hér á landi og átti sér stað seint að kvöldi, enda var hámark myrkvans nærri norðurpólnum. Vestri birti þann 19.júní frásögn af myrkvanum þar vestra. Hún verður ekki öll tekin upp hér - en við lítum á brot:
Og svo rann þá sá dagur upp. Árdagshimininn var heiður og fagur; sólin helti vermandi geislastraumum yfir hauður og sjó; og hádegið varð heitt; og vindblær enginn. Það held ég, að sólmyrkvinn sjáist í kvöld," var sagt. En um nón fór að koma snögg hreyfing á loftöldurnar; hann hvessti skyndilega með allsnöggum hviðum, og skýflókar fóru að sýna sig í landsuðri. Og undir miðaftan var himininn orðinn alskýjaður, nema hvað eitt heiðskírt belti var að sjá í útnorðri. Skyldi hann ætla að þykkna svona allur með kvöldinu?" Og illa líst mér á það, að maður sjái sólmyrkvann í kvöld." Þannig fórust sumum þeirra orð, sem hittust á malarstrætum Ísafjarðarkaupstaðar, kvöldið þetta. Skýflókarnir þykknuðu, og þokuskrýmslín teygðu armana hvert til annars, svo að þau tóku saman og urðu eins og samfeld breiða, sem vafðist og þandist um himininn. Aftanskinið á fjöllunum hvarf. Loftvogin féll. En alltaf var bjart heiðríka beltið í útnorðri i sólarlagsáttinni. Og þess vegna lögðu hóparnir af stað, sumir menn þó með hálfum huga, eftir því sem veðurspásagnaandinn snerist.
Frá Ísafirði gat sólmyrkvinn ekki sést, því að fjöllin loka þaðan útsýn yfir Djúpið. Menn fóru því ýmist landveg yfir á Arnarnes, eða fengu sér bát þangað. En við lögðum nokkur í hóp út á Djúpið, á norsku línuveiðaskipi. Við héldum alllangt út; svo var skipið stöðvað. Djúpið lá opið fyrir, Við sáum nú greinilega heiðbjarta beltið, en það var norðar að sjá en svo, að nokkur líkindi væru til þess, að sólin gæti lent í því, hnígandi að öldum; hún huldist nú, að mestu, skýjablæju, en skýjajaðrarnir loguðu og ljómuðu eins og gulleldar; en á Bjarnarnúp sló daufum kvöldroða; við réðum því af halda ferðinni lengra áfram, í áttina til norðurs, og nær fjallinu; og þegar þangað var komið, var afstaðan orðin þannig, að sólin sást koma niður undan skýi, sem lá yfir heiðríkjunni, og ljómaði hún þar í allri töfradýrð sinni, fór þá að glaðna yfir okkur eins og sólinni; en ekki leyfði hún okkur, framar venju, að horfa lengi á sig með berum augum; við tókum því upp ós-litað gler úr pússi okkar, og gafst nú heldur en ekki á að líta, nýja tunglið var búið að setja allstórt skarð í hana að neðanverðu og upp hægra megin, enda var þá kl.15 mínútur yfir 10. Þarna ljómaði nú kvöldsólin í skýlausa loftbeltinu, og skugginn smáóx, þegar svartur máninn færðist yfir hana, upp eftir. Og þegar kl. var langt gengin 11, var myrkvinn mestur, svo að seinast var sólin að sjá ekki ósvipuð tveggjanátta tungli, fagurleiftrandi þó, með logaröndina efst, og gullhornin hangandi niður, jafnt til beggja hliða, og eins og mistur-rökkri sló yfir fjöll og sjó. [undir pistilinn ritar L.Th.]
Þjóðviljinn segir mjög stuttlega af hagstæðri júnítíð:
[12.] Tíð einatt hin ákjósanlegasta. [23.] Tíðin einatt mjög ákjósanleg; all-oftast sólskin, og heiðríkja, en þó stundum gróðrarskúrir. [30.] Tíðin einatt mjög hagstæð.
Norðri segir af júnítíð í pistli þann 1.júlí:
Ágæt tíð hefir nú verið í langan tíma. Grasspretta er með allra besta móti allstaðar hér norðanlands, og hér í Eyjafirði er sláttur byrjaður á flestum bæjum. Er það yfirleitt viku fyrr en í fyrra, og er það sumar þó talið ágætt heyskaparsumar.
Júlí: Nokkuð úrkomusamt nyrðra, en góðir þurrkkaflar á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi.
Austri segir frá júlítíð:
[3.] Grasvöxtur er nú mjög góður hér austanlands, sérstaklega á votengi. Þurrkarnir hafa verið helst til of miklir fyrir harðvelli og hólatún eru nokkuð brunnin sumstaðar.
[10.] Veðurblíða á hverjum degi. Sláttur mun nú almennt byrjaður á túnum hér eystra, og hirðist heyið jafnóðum.
Norðri birti þann 23.júlí bréf af Skagaströnd, dagsett þann 3.:
Tíðin hefir verið afarhlý og stillt en þurrkar til baga. Er gras í harðlendum túnum og harðvelli mjög rýrt, en fremur gott á mýrum og votri jörð. Sláttur alstaðar byrjaður og að byrja. Í gær og í dag er norðan kuldi og úrfelli. Sú væta hefði átt að koma fyrri.
Lögrétta birti þann 21. bréf frá Guðmundi Björnsyni landlækni, þessi kafli er ritaður á Austfjörðum þann 7.júlí:
Það má segja, að allstaðar láti vel í ári. Á Síðunni og í Fljótshverfi hefur orðið geysimikil skemmd á jörðu af grasmaðki. Þar sá ég víða stórar engjaspildur og búfjárhaga rótnagaða af maðki, grátt og svart, ekkert grænt strá; hef aldrei séð neitt því líkt. Annars er grasspretta ágæt. Um helgina sem leið var túnasláttur byrjaður víða í Héraði. Allstaðar hefur verið óvenjumikil þurrkatíð. Ég hef fengið tvisvar skúr á mig á allri leiðinni, austan til á Mýrdalssandi, sólmyrkvakvöldið, og aftur austan til á Síðunni, sunnudaginn 20. júní.
Þjóðólfur greinir frá komu skemmtiferðaskips og veðri í pistli þann 16.:
Oceana" þýska skemmtiskipið, er hingað hefur komið fyrirfarandi sumur, kom hingað aðfaranóttina 11. þ.m., og fór héðan áleiðis til Spitzbergen nóttina eftir. Daginn sem ferðamennirnir stóðu hér við (sunnudaginn) var slæmt veður, stórrigning og stormur allan daginn að heita mátti, og hittist það óheppilega á.
Norðri greinir frá heyskapartíð í pistli þann 29.júlí:
Heyskapartíð hefir verið ágæt síðustu vikuna. Ágætir þurrkar síðan á sunnudag [25.], enda hefir náðst upp mjög mikið af heyjum, sem safnast höfðu fyrir í óþurrkakaflanum á dögunum. Vestur í Húnaþingi er allvíða búið að hirða tún, og töðufall allstaðar með langmesta móti, nema á mjög harðlendum túnum.
Þjóðviljinn greinir frá júlítíðinni í örstuttum pistlum:
[9.] Stöðugt sama einmunatíðin, hitar og stillur. [16.] Stöðugt sama einmunatíðin. Þurrkar og vætur skiptast heppilega á. [24.] Enn helst sama blessuð blíðan. [31.] Stöðugt sama einmunatíðin.
Vestri segir frá þann 31.:
Heyskapur hjá bændum gengur nú með lang-besta móti, grasspretta víðast góð, þó hefir nokkuð brunnið af hörðum túnum. Kaupafólk nóg að fá, en margir kynoka sér við að taka það vegna kaupgjaldsins.
Ágúst: Mjög úrkomusamt um mikinn hluta landsins, tíð talin góð suðvestanlands, en erfiðari heyskapartíð á Norðausturlandi. Hiti í meðallagi.
Fjallkonan segir frá þann 7.:
Þjóðhátíð Reykvíkinga. Hún stóð dagana 1. og 2. þ.m. Veðrið dró mjög úr ánægjunni; tók upp á því að verða eitt hið leiðinlegasta sem komið hefir á sumrinu. Og svo leiðinlegt var líka sumt af fólkinu, að það flýði brott úr bænum. Menn taka upp á alls konar duttlungum, þegar sólskinið vantar.
Austri segir af heyskap og ágústtíð:
[2.] Heyafli af túnum mun vera með allrabesta móti almennt hér eystra, og nýting ágæt, svo að viðast mun nú búið að hirða tún.
[21.] Veðráttan hefir verið óhagstæð þessa umliðnu viku, stormur og rigning á hverjum degi, svo að bátar hafa eigi getað farið til fiskjar.
Norðri segir af ágústtíð:
[5.] Veðrátta hefir verið hlý síðustu viku, en þurrkar fremur óstöðugir.
[12.] Veðrátta hefir verið mjög óstöðug síðustu vikuna og mjög ótryggir þurrkar.
[19.] Tíðarfar hefir verið óvanalega votviðrasamt síðustu vikuna. Getur ekki heitið að nokkur sólskinsstund hafi komið, og er því mjög mikið úti af heyjum.
Þjóðviljinn greinir frá ágústtíðinni í Reykjavík:
[10.] Það sem af er þessum mánuði hefir lengst af verið vindasamt og votviðri all-mikil.
[18.] Nú um helgina [15.] síðustu breyttist veðráttan aftur til batnaðar og hefir verið besta veður síðustu dagana, hægviðri, sólskin og hiti.
[24.] Veðrátta nokkuð óstöðug, en þó stillt veður síðustu dagana.
[31.] Ágætt veður síðustu dagana. Góður þerrir, enda hans ekki vanþörf.
Ingólfur segir fréttir af grasmaðki þann 26.ágúst:
Grasmaðkur hefir gert víða mikinn skaða í vor og sumar. Kvað einna mest af þessum skemmdum í Gnúpverjahreppi ofanverðum, Landmannasveit, ofanverðum Rangárvöllum og svo í Skaftártungunni, Síðunni og Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu. Mest hefi borið á þessum maðki og eyðileggingu hans á valllendi og heiðarlendi. Bitfjárhagar í Skaftártungunni víða hálf eyðilagðir. Einnig hefir maðkurinn farið í túnin sumstaðar og valdið tjóni t.d. í Hvammi á Landi, Geirlandi og Mörk á Síðu og víðar Sagt og, að á einum bæ, Finnstungu í Húnavatnssýslu, hafi maðkur skemmt túnið.
Vestri segir frá þann 28.ágúst:
Geymsluhús úr timbri fauk á Bakka í Skálavík 20. þ.m. Tveir menn höfðu sofið í húsinu um nóttina og var annar þeirra farinn út, en hinn var í rúminu. Rúmið stóð eftir og hluti af gólfinu kring um það, svo að manninn sakaði ekki; hafði full sementstunna staðið þar á gólfinu, rótt við rúmstokkinn. Vörur og fleira, sem inni var, ónýttist og skemmdist, og varð eigandinn, Jón bóndi Magnússon fyrir all miklu tjóni.
Óþurrkatíð hefir verið nú um langan tíma hér á Vestfjörðum og horfir til vandræða með þurrk á heyi og fiski. Hey eru viða orðin hrakin og skemmd og ýmsir hættir heyskap á meðan þessu heldur áfram.
September: Tíð talin hagstæð. Úrkomusamt framan af á Suður- og Vesturlandi. Fremur hlýtt.
Norðri segir af laklegri heyskapartíð þann 2.september:
Tíðarfar hefir verið óvenjulega vætusamt nú í langan tíma. Hefir gengið mjög illa að þurrka hey og er víða talsvert mikið úti hér í Eyjafjarðarsýslu en þó miklu meira í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, enda getur naumast heitið, að þar hafi komið nokkur verulegur þurrkdagur í samfleyttar vikur. Síðustu dagana hefir þó verið allgóður þurrkur hér og sennilega einnig vestur um sýslur, enda er nú komin sunnanátt. Vonandi er því að mestöll hey hér norðanlands náist inn þessa daga, en hrakin munu þau vera orðin allvíða. Hefir þessi óþurrkatíð einnig tafið mjög heyskapinn, enda sumstaðar orðið að flytja hey til langan veg til þess að koma því á þurrkvöll, því að víða hefir vatn flætt yfir engjar, sem vel má þurrka á í meðal þurrkasumrum. Rætist nú úr með þurrkinn mun þó heyfengurinn víðast hvar verða með mesta móti, því að grasspretta er allstaðar ágæt og heyskapur var almennt byrjaður óvanalega snemma.
Þjóðviljinn greinir frá septembertíð:
[18.] Tíðin fremur hagstæð að undanförnu. [25.] Tíðin óþurrkasöm, svo að örðugt veitir um þurrk á fiski, og á heyi, sem enn er úti a sumum stöðum hér syðra. [30.] Tíð einkar mild undanfarna daga.
Þann 23.október birti Fjallkonan tvö bréf utan af landi:
Árnessýslu 30.september. Kalla má að stöðugt blíðviðri hafi staðið hér fjóra síðastliðna mánuði, þurrkasamt fyrri hlutann, en fremur vætusamt síðari hlutann, og þó blíðviðri, því jafnan var logn. Aðeins stöku daga kom vindur, er teljandi væri, og þó aldrei svo að undan óveðri væri kvartandi. Grasvöxtur varð með besta móti allstaðar, nema á þeim mýrum, sem vatni eru vanar, en hafa ekki áveitu, og svo var að sjálfsögðu graslítið á þeim stöðum, sem maðkurinn eyðilagði í fyrra. Nýting var góð fyrri hluta sláttar, enda byrjaði sláttur fyrr en vant var. Síðari hlutann var nýting eigi jafngóð, en þó hafa nú allir náð heyi sínu lítt skemmdu, að talið er.
Eskifirði 12. október 1909. Þetta sumar, sem bráðum er á förum, er eitthvert hið indælasta er menn muna. Sífeld lognblíða og hiti fram til septemberloka. Grasvöxtur og nýting með besta móti. Matjurtarækt er hér mjög lítil og ófullkomin, en nú spratt þó með besta móti. Ber spruttu mjög vel, enda hagnýtti fólk sér þau óvenjulega mikið til þess að spara sér saftkaup frá útlöndum. Með október fór veðrið að breytast og hefir mátt heita óstöðug tíð síðan. Í Fljótsdalshéraði kyngdi niður mjög miklu af snjó, 34 fet á jafnsléttu, svo að algerlega tók fyrir haga.
Október: Úrkomusamt, einkum framan af. Kalt.
Austri segir þann 2.október:
Storm og stórflóð gjörði hér í nótt og olli það miklum skaða, braut báta og bryggjur, meira og minna. Mótorbátinn Aldan" sleit upp og rak á land og brotnaði hann mjög mikið, ennfremur sleit upp nótabát með nót í og brotnaði hann í spón og nótin skemmdist allmikið fleiri skaðar urðu og hingað og þangað.
Enn segir Austri af sköðum í sama veðri í fréttapistli þann 9. október:
Í óveðrinu 1.þ.m, strandaði gufuskipið Reidar", eign gufuskipafélagsins Thor", á Borgarfirði skammt frá Höfn, rak þar í land undan óveðrinu og stórsjónum. Allir skipverjar björguðust á land. Í sama veðri sleit upp mótorbát á Borgarfirði og rak hann á land og brotnaði í spón. Hann var óvátryggður og er tjónið því mikið fyrir eigendur bátsins. ... Mikinn snjó setti niður á fjöll nú í ofsaveðrinu 1. þ.m. og alla leið niður í byggð, þá er nú autt hér í fjörðunum upp í miðjar fjallshlíðar en á Mið-Héraði er allmikill snjór, svo varla var bægt að beita þar fé. Voru Héraðsmenn margir lagðir af stað með fé sitt á leið til Seyðisfjarðar, en komust eigi lengra en undir Fjarðarheiði að Egilstöðum, og hefir þeim til þessa þótt ókleyft að koma fénu hér ofanyfir heiðarnar. Munu sumir bændur þegar hafa rekið fé sitt heim aftur, og ætla að bíða þar til færðin batnar yfir heiðarnar. Fleiri þúsund fjár er það sem enn er ókomið af Héraði víðsvegar hingað ofan á Seyðisfjörð, og er það mikið tjón bæði fyrir bændur og kaupmenn, ef svo illa gengur lengi, að eigi verður hægt að koma fénu ofan yfir fjöllin.
Austri greinir líka frá illviðrum í pistli þann 18.október:
Ofveður hefir verið nú undanfarið um allt land að kalla má, stormur og kraparigning. Þó mun lítinn snjó hafa lagt á fjöll þessa síðastliðnu viku, en snjór sá er féll þar um daginn blotnaði mjög og orðið að krapa, að minnsta kosti á heiðunum hér í kring. ... Símaslit varð nú s.l. viku á Haug; hafði Seyðisfjörður í gær og dag eigi samband lengra norður en til Vopnafjarðar. Símamenn frá Hofi lögðu á stað til Haugs á föstudaginn, en urðu að snúa aftur vegna óveðurs, en nú mun vera langt komið að gjöra við bilanir þessar.
Maður varð úti á Jökuldalnum nú i hríðarveðrinu um daginn, Ívar Magnússon að nafni, rúmlega tvítugur að aldri. Hann átti heima í Hjarðarhaga, en hafði verið lánaður að Merki, meðan bóndinn þaðan var í kaupstað, og átti hann að gæta fénaðarins. Hríðardaginn versta var hann að ganga við fé, en kom eigi heim aftur að kvöldi; en daginn eftir fannst hann örendur allskammt frá bænum; hefir eflaust villst og örmagnast svo af þreytu og kulda.
Austri segir frá þann 30.október:
Veðráttan er alltaf fremur stirð, hefir nú lagt dálítinn snjó alveg ofan i sjávarmál hér í firðinum, þó er næg beit allstaðar, nema yst í firðinum að sunnanverðu, þar kvað snjórinn vera mestur, jafn-fallinn í mjóalegg og kné.
Norðri segir líka af erfiðri tíð í október:
{7.] Veðrátta hefir verið afar óhagstæð síðustu viku. Síðan á föstudag [1.] hefir daglega snjóað og er nú komin allmikil fönn. Frostlaust hefir alltaf verið að mestu. Fé er alstaðar hér í nærsveitum óvíst, enda illmögulegt að ná því sakir ófærða og dimmviðra. Er jafnvel mjög illt á jörð nú og mun fé orðið illa útleikið. - Sakir ófærðarinnar hefir verið afar erfitt að koma slátrunarfé hingað til bæjarins, enda mjög þungfært með hesta.
[21.] Á föstudaginn er var [15.], var hér ofsaveður af norðri og krapahríð. Þá um kvöldið og nóttina rak upp mótorbáta frá Höfða, er lágu við Kljáströnd, annan á land, er brotnaði í spón og hinn á grynningar og sökk hann þar, inn og fram af Höfðabænum. Bátar þessir hétu Fáfnir og Agnes, voru báðir næstum nýir, yfirbyggðir, með 8 hesta mótorum. Báðir voru þeir vátryggðir í Bátaábyrgðarfélagi Eyfirðinga, Fáfnir fyrir 2200 kr en Agnes fyrir 2400 kr. Er það lítið meira en hálfvirði og bíða eigendur því mjög tilfinnanlegan skaða. Ábyrgðarfélagið má heldur eigi vel við slíku tjóni því að það er nýlega stofnað af litlum efnum, sem og kunnugt er. Þrír aðrir mótorbátar lágu þenna sama dag við Kljáströnd og var þeim með naumindum og mannhættu bjargað frá að reka á land. Á engum bátnum bilaði legufæri en stórsjórinn var svo mikill að akkerin héldu eigi, enda telja Höfðabræður, að þá hafi verið þar við ströndina einn hinn mesti sjór, er þeir muna.
Tepptar samgöngur á sjó. Gufuskipið Ceres, er fór héðan fyrra laugardagskvöld [líklega 8.] til Sauðárkróks, lá þar til fimmtudags [14.], en þá gat hún ekki lengur haldist þar við sakir sjógangs og hleypti yfir að Þórðarhöfða, en komst loks á laugardagskvöld [16.] til Sauðárkróks aftur og gat þá loks á sunnudaginn er var afgreitt sig þar. Skálholt fór héðan fyrra sunnudagsmorgun, lá við Hrísey á annan sólarhring, fór þaðan til Siglufjarðar á þriðjudaginn og lá þar til laugardags. Hólar fóru á mánudagsmorgun [líklega 11.] til Húsavíkur en héldust þar eigi við og hleyptu þaðan inn fyrir Hrísey og lágu þar fram yfir síðustu helgi. Vendsyssel lá í byrjun illveðursins á Ísafirði en lagði út úr Djúpinu á miðvikudag. Var þá svo mikill ósjór og og rok úti fyrir, að skipverjar gátu við ekkert ráðið. Annar björgunarbáturinn brotnaði og ýmislegt fleira á þilfarinu; sjór komst niður í skipið og vélin bilaði. Gátu þeir eigi snúið aftur og létu því reka austur. Náðu þeir loks landi á Blönduósi á mánudaginn er var [18.].
Norska gufuskipið Flóra, er hér var á vestur- og suðurleið um fyrri helgi, og fór héðan til Siglufjarðar og Húsavíkur, lagði af stað þaðan fyrra mánudagskvöld [11.] kl. 6.e.h. áleiðis til Ísafjarðar. Var þá norðan illviður og stórsjór og jókst hvortveggja um nóttina. Hélt skipið alltaf í norðvestur, en vegna illveðurs sáu skipverjar eigi land á Vestfjörðum, enda þorðu ekki að leita þess í slíku veðri og sjógangi. Veðrið hélst látlaust í fjóra sólarhringa, og áttuðu skipverjar sig ekki fyrr, en þeir voru komnir alla leið að austurströnd Grænlands. Sneru þeir þá til baka, og er þeir komu í nánd við Ísland, vildi svo vel til, að þeir sáu snöggvast til sólar, og gátu reiknað út, hvar þeir voru. Var það all-langt vestur af Patreksfirði, og komust þeir þangað inn eftir 5 sólarhringa útivist. Alla þessa daga var ógurlegur stórsjór, enda brotnaði stjórnpallurinn mjög. Voru þá þar uppi 2 menn, er báðir slösuðust all-mikið, annar þeirra rifbrotnaði. Tveir kolamokarar höfðu og meiðst talsvert mikið. Allt lauslegt á þilfari fór í sjóinn, allir bátar ýmist brotnuðu eða skoluðust yfir borð. Leiðarsteinninn bilaði og að miklum mun. Mun oft hafa legið við borð, að skipið færist með öllu, enda mun enginn þeirra 150 manna eða fleiri, er í skipinu voru, þóst hafa komist í slíka raun. Frá Patreksfirði fór Flóra til Ísafjarðar og þaðan fór hún aftur á þriðjudaginn áleiðis til Reykjavíkur.
Ingólfur birti 24.október bréf úr Strandasýslu - dagsetningar ekki getið:
Tíðarfarið hefir yfirleitt verið hagstætt þetta ár. Síðastliðinn vetur var góður og hagasamur, og heyfyrningar því allmiklar undan vetrinum. Það voraði vel og hélst fyrirtakstíð fram í byrjun ágústmánaðar, hlýviðri og sólfar mikið, en þurrviðrasamt um of fyrir harðvelli. Á engjaslætti kom 5 vikna óþurrkakafli, en þó voru eigi stórrigningar, og hélst fram til leita. Tún spruttu vel, nema harðbalar. Þar brann gras af til skaða. Sláttur byrjaði með júlímánuði og náðust töður óhraktar á undan óþurrkunum.
Þjóðviljinn birti þann 24.desember bréf af Hornströndum, dagsett 23.október:
Í byrjun októbermánaðar skipti hér um veðráttu. Gerði þá svo grimmílega fannhríð, með ofsa-veðri á norðaustan, að á sumum bæjum voru allar skepnur komnar á gjöf, einnig hestar, hálfum mánuði fyrir vetur. Veðri þessu fylgdi svo mikil sjávarólga, að menn muna varla slikt, og á stöku stöðum flutti sjór smásteina, og rekavið sex álnir upp yfir venjulegt flæðarmál, neðan brattar brekkur. Mest kvað að þessu 14.15., og var það eigi ólikt flóðöldum, sem sagt er frá í öðrum löndum.
Vestri lýsir októbertíð fyrir vestan:
[2.] Kuldatíð hefir nú verið þessa síðustu daga, norðanstormur og kafald, og er jörð nú alhvít niður undir sjó. [16.] Sama ótíðin alla þessa viku, norðanstormar með kafaldi eða krapahríðum. Í dag er þó þurrt og heldur hlé á veðrinu. [30.] Tíðarfar yfirleitt stillt og gott þessa síðustu viku.
Þjóðviljinn segir af tíð og slysi þann 19.október:
Frá Ísafirði fréttist kuldatíð, norðanhret í öndverðum október og jörð orðin alhvít til sjávar.
Tveir menn drukkna. Vélarbátur, sem 9. okt. þ.á. fór frá Vestmannaeyjum til Víkur í Vestur-Skaftafellssýslu, slitnaði þar upp, með því að slæmt var í sjóinn, og brimasamt. Rak vélabátinn síðan á Þykkvabæjarfjörum í Landeyjum í Rangárvallasýslu 10.október, og var þá mannlaus, svo að talið er víst að tveir menn, sem á bátnum voru, hafi farist. Segl var uppi á bátnum, og þykir því líklegt að vélin hafi bilað. Þegar báturinn lagði af stað frá Vestmanneyjum til Víkur, voru á honum sex menn, en fjórir þeirra voru í landi í Vik, er bátinn sleit upp.
Reykjavík: Tíðin hvassviðrasöm í vikunni, sem leið, norðanstórviðri, en þó engir snjóar enn fallnir á láglendi hér syðra.
Þjóðviljinn segir 30.október:
Veturinn gekk í garð 23. þ.m. og snjóaði þá nokkuð á láglendi hér syðra, og jörð alhvít morguninn eftir.
Þjóðólfur segir þann 29.október:
Veðurátta hefur verið stillt síðari hluta þessa mánaðar en töluverður snjór fallið á jörð hér syðra, og nú síðustu dagana hafa verið óvenjumikil frost um þetta leyti árs, t.d. 9°C. hér niður á sjávarbakka í gærmorgun, en í morgun 15° á Grímsstöðum á Fjöllum.
Austri segir þann 6.nóvember frá vatnasköðum eystra í október:
Skaðar allmiklir urðu á heyjum og fénaði í Hjaltastaðaþinghá í votviðrunum og vatnavöxtunum um daginn. Þannig er mælt að bændurnir á Kóreksstöðum og Kókreksstaðagerði hafi misst um 70 lömb í Selfljótið, er flæddi langt yfir farveg sinn; en á Hjaltastað urðu heyskaðarnir mestir.
Nóvember: Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Norðri segir um tíðina og útlitið í pistli þann 6.nóvember:
Veðrátta hefir nú í heilan mánuð verið óvenjulega ill og köld. Hefir fé hér norðanlands verið á gjöf að mestu leyti allan þennan tíma og sumstaðar algerlega staðið inni að heita má, og það jafnvel í góðum útbeitarsveitum í Suður- Þingeyjarsýslu. Snjór hefir verið óvenjulega mikill, einkum til dala. Í fyrradag gerði blota og var allgóð hláka í gær, en í dag er snjókoma allmikil og mun nú víðast hvar í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum vera jarðlaust með öllu. Bera flestir veðurfróðir menn kvíðboga fyrir mjög hörðum vetri, enda kváðu draummenn ýmsra spakra manna hafa sagt þeim, að sannkallaður fimbulvetur væri í aðsigi. Kemur það í góðar þarfir, að heybirgðir manna eru allstaðar með langmesta móti og munu í öllum sveitum vera fleiri eða færri búendur, er hvernig sem viðrar hafa birgðir aflögu og geta því hjálpað, ef með þarf. Sjaldan eða aldrei munu búendur hafa verið færari um að taka á móti hörðum vetri og er því engin ástæða til þess að æðrast, þótt kaldan blási og kyngi niður fönn.
Norðri segir stuttlega frá tíð þann 18. og 24.nóvember:
[18.] Tíðarfar hefir verið allgott hér norðan lands, síðustu vikuna. Er nú snjólítið hér í Eyjafirði og víðast hvar góð jörð. [24.] Veðrátta hefir verið hin ákjósanlegasta síðustu daga, logn og bjartviðri með litlu frosti. Snjór er víða lítill í lágsveitum, en víðast hvar mikill er dregur til fjalla.
Vestri segir:
[6.] Tíðin er hér nú allgóð, nýafstaðin vorhlýindi, en nokkur snjókoma á eftir. Og þó að snjói og hvessi lítið eitt á vetur, þá er það ekki til þess að æðrast af. [13.] Norðanveður úti fyrir, en stillt veður og gott hér inni í fjarðarbotni.
Þjóðviljinn er líka stuttorður:
[13.] Tíðarfar stillt síðastliðna viku, og frost töluverð, en fannkoma eigi að mun. [24.] Tíðin fremur hagstæð undanfarna daga, þíður, og lygn veður.
Desember: Talsverð snjókoma nyrðra, en hagstæð tíð syðra. Kalt.
Þjóðviljinn segir af desembertíð:
[3.] Talsverður snjór féll á jörðu dagana fyrir helgina, svo að jörð hefir verið alhvít.
[13.] Snjóað hefir töluvert að undanförnu, og jafnvel komið svartar kafaldshríðar, en þó heiðskírt veður öðru hvoru.
[24.] Sudda-veður, og dimmviðri að undanförnu, síðustu daga frost og kuldi. Jörð orðin marauð hér syðra, svo bændum sparast heyin þennan tímann.
[31.] Heiðskírt og glaða tunglsljós, um jólin og rennihjarn á jörðu. Sveitafólkinu hefir því gefið vel, að sækja kirkjur og aðrar skemmtisamkomur um jólin. Óvanalega fagrar litbreytingar, eða litskrúð á himni öðru hvoru að undanförnu.
Þjóðviljinn birti þann 31. bréf úr Dýrafirði, ritað í desember en ódagsett:
Fréttir eru héðan fáar, nema versta ótíð, frost, og fannkomur sífelldar, síðan jólafasta byrjaði; og var þó áður úr litlu að spillast, nema hvað veður var þá hægra um tíma. Nú mun víða vera orðið jarðlaust, þar sem ekki nær til fjöru, og gefa verður hér nær því fulla gjöf, og er það snemmt, því að kýr og lömb komu að öllu á gjöf um mikaelsmessu [29.september]. Meira, en viku, hefir verið hér svo mikil snjóhríð, að með köflum hefir verið illfær bæja milli.
Austri segir af símslitum og snjóflóðum í frétt þann 11.desember:
Í stórhríðarveðrinu nú um næstliðna helgi [5.] urðu símaslit á nokkrum stöðum hér eystra. Á símalínunni hér í bænum, milli Vestdalseyrar og Öldu, brotnaði 1 staur af snjóflóði, og á Mjóafjarðarlínunni tók snjóflóð 5 staura á fjallinu Mjóafjarðarmegin; ennfremur höfðu 45 staurar farið í snjóflóð á línunni út að Brekku í Mjóafirði, milli Hesteyrar og Skóga.
Enn greinir Austri af snjóflóði í frétt þann 18.desember:
Tveir menn fórust í snjóflóði 9. þ.m. í svonefndu Skriðuvíkurgili sunnan við Njarðvíkurskriður, milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar. Voru þeir þrír saman og komu ofan af Krosshöfða, þangað sem þeir voru að sækja steinolíu, því steinolíulaust var að sögn við verslanir í Borgarfirði. Og er menn þessir komu í áðurnefnt Skriðuvíkurgil féll snjóflóð mikið og reif með sér tvo mennina, er fremstir gengu. En hinn þriðja sakaði ekki og fór hann strax til bæja og sótti hjálp; fundust brátt lík félaga hans undir snjódyngjunni niðri í fjöru.
Austri segir frá þ.22.:
Lagís, allþykkan, lagði hér á kringluna aðfaranótt 17. þ.m. Mótorbáta þá, er lágu fyrir festum út á höfninni, rak töluvert með ísnum, og einn mótorbáturinn, sá stærsti sem er hér í firðinum, Eva", eign Páls Árnasonar, sökk.
Norðri segir þann 16.desember:
Viðarreki hefir verið óvenjulega mikill víða hér norðanlands í haust, einkum á Skaga og í síðustu norðanhviðunni fyrir rúmri viku síðan rak svo mikið í Ólafsfirði, Svarfaðardal og utanverðri Árskógsströnd, að elstu menn muna ekki annan eins reka, að sögn. Mest af þessum trjáviði hefir verið fremur smátt, en þó allmikið góðir máttarviðir í peningshús. Sennilega hefir einnig mikið rekið í þessari hríð austanverðu fjarðarins og norður á Tjörnesi og Sléttu, því það eru bestu rekastaðirnir hér, aðrir enn Skaginn. Trjáviðarreki hefir nú í næstum heilan mannsaldur verið miklum mun minni, en áður var og hefir verið kent um skógarhöggi og aukinni byggð í Ameríku og Síberíu, en þaðan kemur mestur rekaviður hingað, að fróðra manna sögn, eins og kunnugt er. Hefir flestum verið horfin öll von um, að þetta mundi nokkurn tíma breytast til batnaðar, enda hafa rekahlunnindi jarða verið að litlu metin síðustu árin. Hver veit nema nú sé ný rekaöld að renna upp, þrátt fyriralla vantrú á slíku. Var rekinn í fyrri daga Íslandi mjög mikils virði, og væri betur, að enn mætti svo verða.
Norðri segir af frostum þann 30.desember:
Frost hafa verið óvanalega mikil nú um jólin, alt að 20° á C; er það sjaldgæft hér svo snemma vetrar. En í gær brá til sunnanáttar og þíðu og helst það enn.
Ísafold birti 20.janúar 1910 bréf af Snæfellsnesi, dagsett 31.desember:
Árið byrjaði með nokkuð óstöðugri veðráttu, snjókomu & milli og oftast frostlítið fram í þorralok, en með góu byrjaði hin hagstæðasta tíð, mjög úrkomulitið, en þó ekki mikil frost, en stundum nokkuð vindasamt til sjávar. Þessi ágæta veðrátta hélst til júlímánaðarloka. Gras mjög mikið, sérstaklega á túnum þeim, sem eru í nokkurnveginn góðri rækt, en hún er nú víða lakari en vera ætti; vonandi, að menn taki sér fram í því efni. Í ágústbyrjun byrjuðu óþurrkar, að eins einn og einn þerridagur í einu og hraktist þá mjög hey víða. September var þurrviðrasamari og náðust þá hey manna, svo heyfengur varð með besta móti. Líka varð uppskera úr matjurtagörðum mjög góð. Hafa margir stundað matjurtarækt venju fremur á næstliðnu vori. Ekki ólíklegt, að koma Einars Helgasonar hafi heldur glætt áhuga manna við garðrækt. Væri betur að oft væru slíkir menn a ferð, sem hvetja til framfara í búnaðinum. Í 24. viku sumars [snemma í október] kom talsvert snjóhret, svo að kindur fennti jafnvel sumstaðar. Síðan hefir verið fremur góð veðrátta, og nú við árslokin er alauð jörð.
Lögrétta birti þann 12.janúar 1910 bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett 31.desember 1909:
Þegar á allt er litið, má telja þetta ár, sem nú er að kveðja, yfirleitt gott ár. Veturinn frá nýári var ágætur, voraði snemma og heybirgðir alstaðar nógar. Grasspretta með allra besta móti, og því byrjað að slá 12 vikum fyrr en vanalega. Heyskapur almennt góður, þótt miklar tafir yrðu víða af vætu meira og minna í ágústmánuði, en það hjálpaði öllum, hve snemma var farið að slá. Haustið hefur verið snjóa og frostasamt, snjóaði strax með október, sem er óvanalega snemmt hér, og síðan hefur snjóað öðru hvoru, en gert góðar hlákur á milli; snörp frost hafa einnig verið með köflum, mest 19.29. þ.m. frá 1018 stig.
Austri birti þann 21.maí 1910 brot úr veðurlýsingu ársins 1909 (líklega af Héraði):
Veðurlag var hagstætt fyrri hluta janúarmánaðar, og hagbeit var góð til hins 13. Byrjuðu þá norðaustanhríðar til hins 19. Var þá víða haglítið vegna snjódýptar. Þann 20 hlánaði nokkuð, en dagana 24. 26. var suðvestan hláka, svo hagar voru góðir til mánaðarloka. Allur febrúarmánuður var veðursæll og jörð snjólítil í byggð. Tíðarfar var snjóa- og umhleypingasamt í marsmánuði, en hagbeit nokkur þegar til gaf.
Allur aprílmánuður var góðviðrasamur. Um miðjan mánuðinn var alauð jörð í byggð; komu þá lóurnar í vorblíðunni. Jörð var stunguþíð. Var þá unnið að túnsléttun og öðrum jarðabótastörfum. Byrjuðu menn þá almennt að vinna á túnum. Eftir 20. þess m. sást vottur til að jörð var byrjuð að gróa.
Veðurátt breyttist þann 10. maí, og gekk til norðurs og norðausturs með hvassviðri og kulda, og snjóum einkum til fjalla. Hnekkti þá mjög gróðri þeim er kominn var. Eftir 20. s.m. hlýnaði veður af suðvestri, greri jörð þá allvel síðari hluta þ.m. svo um mánaðamótin var farið að beita nautgripum. Allur búpeningur manna gekk vel undan vetri. Sérstök blíða var í júnímánuði, hitar miklir og þurrkar, einkum síðari hluta þess m. Þótt bæri á bruna í harðlendum túnum og ofþurrki í mýrum, varð þó grasvöxtur góður. Enda var sláttur" byrjaður, síðustu daga þ.m. Grastíð var góð í júlímánuði. Snemma morguns þ.15. fraus kartöflugras í görðum, einkum fölnaði grasið þar sem sól náði til fyrri hluta dags, en ekki annarsstaðar. Bendir þetta á það að haganlegt sé að kartöflugarðar halli undan sól fyrri part dags. Eftir 20. þess m. komu nokkrir regn og þurrkleysisdagar. Útengi spruttu vel þennan mánuð. Tún voru í betra meðallagi vaxin, og taða birtist vel.
Heyskapartíð var hin besta í ágústmánuði. Nokkrir úrkomu- og kuldadagar með þurrkdögum á milli. Hey manna hirtust vel. Þann 13. þess m. snjóaði í fjöll, og enn gerði skaða í kartöflugörðum, svo uppskera varð lítil þar sem kartöflugras fraus og fölnaði. Tíðarfar var allgott í septembermánuði. Heyannir enduðu almennt 18.25. Hey voru mikil almennt yfir og vel hirt. Fjársöfn, ferðalög og önnur haustverk gengu vel frá hendi í þessum mánuði.
Veðurlag í októbermánuði var mjög úrkomusamt. Gjörði mikla snjóa 2.10. þ.m. Fjársöfn, ferðalög og önnur vinna gekk mjög illa. Í stórrigningarveðri 15.16. þ.m. skemmdust mjög mikið hey manna og eldiviður. Vatnsflóð brutu brýr og vegi, skriður féllu víða og fleiri skaðar urðu. Tíðarfar var umhleypingasamt í nóvembermánuði, en sem oftast allgott í högum. Veðurlag var misjafnt í desembermánuði. Gjörði snjóa nokkra til hins 12. Þann 13.15. mikil leysing svo alautt varð i byggð. Þá gjörði mikla snjóa, með bjartviðrisdögum á milli, og langvinn óvanalega mikil frost sem urðu hæst 1920° á C þ.21. og 28. þ.m. Hinn 29. gjörði hláku um kvöldið til hins 30. Síðasta dag ársins var logn og góðviðri og regnskúrir um nóttina.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1909. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhita, úrkomu og fleira í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 30.5.2019 kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2019 | 01:38
Tuttugu maídagar
Þá eru 20 dagar liðnir af maímánuði 2019. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 7,1 stig, +1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990 en +1,0 ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ára og í 7.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2008, meðalhiti þá +8,1 stig. Kaldastir voru dagarnir árið 2015, meðalhiti +3,7 stig. Á langa listanum er meðalhitinn í 28. sæti af 143. Hlýjast var 1960, meðalhiti +9,3 stig, en kaldast 1979, +0,5 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga maímánaðar nú 5,8 stig, +1,3 stigum ofan meðallags sömu daga 1961-1990, en +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er ofan meðallags á um 80 prósentum stöðva landsins. Hlýjast að tiltölu hefur verið á hálendinu vik +2,2 stig við Hágöngur. Kaldast að tiltölu hefur verið á Fagurhólsmýri, þar er hiti fyrstu 20 daga mánaðarins -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 33,5 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri er hefur úrkoma mælst aðeins 6,9 mm, langt innan meðallags - en þó ekki sérlega óvenjulegt - maí er oft þurr.
Sólskinsstundir hafa mælst 108,9 í Reykjavík, það er í tæpu meðallagi.
Meðalloftþrýstingur er enn með hærra móti, nú í 12.efsta sæti af 198.
18.5.2019 | 16:42
Á norðurslóðum
Við lítum nú á háloftastöðuna á norðurslóðum (spá bandarísku veðurstofunnar sem gildir kl.18 á morgun sunnudag 19.maí).
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og segja okkur af vindátt og vindhraða í rúmlega 5 km hæð. Litirnir vísa til þykktarinnar, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Íslend er alveg neðst á kortinu, sunnan við hæðarhrygg sem verndar okkur frá kulda norðurslóða - í bili að minnsta kosti. Mörkin á milli gulu og grænu litanna eru við 5460 metra, guli liturinn segir af sumarhita (á íslenska vísu), en nú er sá tími kominn að okkur finnst blái liturinn kaldur - hann viljum við forðast. Grænu litirnir mega hins vegar heita í lagi. Það eru 60 metrar á milli lita - það eru um 3 stig í hitamun í neðri hluta veðrahvolfs. Við sjávarmál er munurinn heldur minni, 2 til 2,5 stig (að jafnaði).
Hér er þykktin yfir landinu meiri en 5400 metrar, meðaltal árstímans er um 5360 metrar: Þess er því að vænta að sunnudagshitinn verði almennt um 2 stigum ofan meðallags - sem telst nokkuð hagstætt - þó talsvert hefi kólnað miðað við þau hlýindi sem hér gengu yfir fyrr í vikunni. Útlit er helst fyrir að þessi staða haldist lítið breytt fram í miðja næstu viku - en þó mun anda eitthvað af norðaustri og þá kólnar auðvitað meira um landið norðan og austanvert heldur en syðra.
Svo er spurning hvað kuldapollar norðurslóða gera. Spár eru ekki sammála um það. Í gær leit frekar illa út - kuldapollurinn við Síberíu er mjög kaldur (þykktin hér minni en 5100 metrar - veturinn lifir enn í honum) og spár gerðu þá ráð fyrir því að hann tæki strikið nánast beint hingað upp úr næstu helgi með tilheyrandi stórleiðindum. En í dag er ekkert slíkt í spánum - kannski að jaðar hans - við mörk grænu og bláu litanna rétt snerti landið. Spárnar eiga sjálfsagt eftir að hringla eitthvað með þetta áfram.
Við vonum auðvitað það besta og að blíðan haldist sem lengst. Veðurnörd fylgjast þó að vanda glöggt með kuldapollum, fyrirstöðuhæðum, hryggjum og lægðardrögum háloftanna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2019 | 01:47
Hálfur maí
Hitinn í maí er aftur á uppleið. Meðaltal fyrstu 15 daganna í Reykjavík er nú 6,5 stig, +1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961-90 og +0,5 ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í áttundahlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2008, meðalhiti 8,3 stig, en kaldastir voru þeir 2015, meðalhiti 2,8 stig. Á langa listanum (143 ár) er hitinn í 43.sæti. Hlýjastir voru sömu dagar 1960, meðalhiti 9,4 stig, en kaldastir voru þeir 1979, meðalhiti aðeins +0,3 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga maímánaðar 4,7 stig. Það er +0,7 stigum ofan meðallags sömu daga 1961-1990, en -0,7 neðan meðalhita þeirra síðustu tíu árin.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á tæplega helmingi veðurstöðva. Mest er jákvæða vikið á Keflavíkurflugvelli, +1,0 stig, en neikvæðast er vik á Gagnheiði, -1,8 stig.
Úrkoma hefur mælst 18,6 mm í Reykjavík og er það vel innan við meðallag, og á Akureyri hafa aðeins mælst 6,9 mm. Austur á Dalatanga er úrkoma það sem af er mánuði aðeins fjórðungur meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 99,2 í Reykjavík og er það ekki fjarri meðallagi.
Fyrir nokkru var hér fjallað um hinn gríðarólíka loftþrýsting maímánaðar nú og í fyrra. Meðalþrýstingur til þessa í Reykjavík er nú 1023 hPa, sá 11. mesti í 198 ára sögu þrýstimælinga, en sömu daga í fyrra var hann aðeins 995 hPa, sá næstlægsti í sögunni. Ólíkt hafast þessir tveir mánuðir að. Maí í fyrra hafði úthald í lágþrýstingnum - spurning með þennan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2019 | 02:02
Af árinu 1904
Árið 1904 var hagstætt lengst af, talsvert snjóaði þó í útsveitum nyrðra, leiðindakast kom í maí og haustið þótti skakviðrasamt svo af bar um landið sunnan- og vestanvert. Ekki bar á víðtæku tjóni í eintökum veðrum.
Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 3,0 stig í Stykkishólmi og 2,8 stig á Akureyri. Hlýtt var í júní, júlí og september, en síðustu þrír mánuðir ársins voru kaldir. Aðrir mánuðir voru nærri meðallagi. Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 21.júlí, 25,0 stig, en munum að hámarkshitamælingar voru varasamar þar á bæ um þetta leyti. Næstmestur mældist hitinn á Gilsbakka í Hvítársíðu, 21,1 stig. Í Reykjavík komst hiti hæst í 19,1 stig, þann 20.júlí.
Lægsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 10.desember -30,0 stig. Þá mældist frostið á Akureyri -21,1 stig.
Myndin sýnir hæsta hita hvers dags í Reykjavík - og daglegan meðalhita í Stykkishólmi. Við getum tekið eftir því að það voraði nokkuð snögglega í maí - eftir nokkuð daufan apríl - og hiti var sæmilega hár fram yfir 20.september að það kólnaði nokkuð snögglega. Ekki voru margir mjög hlýir dagar sunnanlands - kvartað var um súld og þurrkdeyfð lengi framan af þó menn hafi verið sammála um að veður hafi verið sérlega blíð. Því miður voru engar mælingar gerðar á Héraði þetta sumar og ekki heldur inni á fjörðum eystra - þar sem sumarhitinn hefur ábyggilega náð allgóðum hæðum meðan súldarveðrið ríkti syðra. Í Möðrudal var ágúst ekki hlýr. Hitameðaltöl einstakra mánaða á stöðvunum má sjá í viðhenginu.
Þar sem dagleg hitameðaltöl hafa enn ekki verið reiknuð fyrir Reykjavík er ekki hægt að leita að sérlega köldum eða hlýjum dögum. Mjög kaldir dagar voru fimm í Stykkishólmi, 20.febrúar, 20. og 21. nóvember og 11. og 12. desember. Engin dagur var sérlega hlýr í Stykkishólmi.
Úrkoma var nokkuð langt ofan meðallags í Reykjavík og einnig á þeim fáu stöðvum öðrum þar sem mælt var. Vestanlands var úrkoma einna mest að tiltölu í mars og október, en í maí á Suðurlandi.
Myndin sýnir loftþrýsting í Reykjavík frá degi til dags - nokkuð órólegur, sérstaklega í október og nóvember og lágur í apríl. Ekki mikið þó um þrýstiöfgar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum 29.janúar, 947,2 hPa, en hæsta tala ársins var lesin í Stykkishólmi 21.nóvember, 1037,0 hPa.
Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1904 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Einar Helgason lýsir tíð ársins 1904 í Búnaðarriti 1905:
(s233) Árið má heita sældarár, þegar á allt er litið, eins hér sunnanlands, þrátt fyrir rigningarnar.
(s228) Vetur frá nýári fremur snjólítill um mestan hluta landsins, fannfergja þó mikil á útsveitum Eyjafjarðar og Suður-Þingeyjarsýslu. Umhleypingasöm og óstillt tíð á vestur- og norðurkjálkanum, austur fyrir Eyjafjörð. Í Norður-Þingeyjarsýslu góður vetur sérstaklega við sjávarsíðuna. Á Melrakkasléttu gengu lömb af allan veturinn án þess að koma í hús. Á Austur- og Suðurlandi mild veðrátta; rigninga- og umhleypingasamt í Vestmannaeyjum. í Austur-Skaftafellssýslu mátti rista ofan af þýfi seint í mars. Vorið kalt um land allt, best látið af því í Skaftafellssýslunum. Rigningasamt hér í nærsýslum Reykjavíkur. Í Barðastrandarsýslu var óvíða komin grænka í tún seint i maímánuði; 17. maí stórhríð í Eyjafirði komu þá klofskaflar, 20. s.m. brá til hlýinda sem héldust; á Austfjörðum kom ágætur bati um sama leyti.
Sumarið sólskinslítið og vætusamt sunnanlands en þurrkatíð hin besta vestan, norðan og austan. Heita mátti að ekki kæmi dropi úr lofti í Barðastrandarsýslu frá því um fardaga og fram á haust, en fremur var þar kalt og stormasamt af norðri, í ágústmánuði stundum snjókoma í austurhreppunum. Vegna þurrkanna, var víða þar um pláss, skortur á neysluvatni, var það einna tilfinnanlegast í Sauðeyjum, varð að sækja neysluvatn þaðan til annarra byggðra eyja og til lands, um og yfir mílu vegar, frá því í ágúst og þangað til eftir veturnætur. Grasspretta ágæt á öllu Norður- og Austurlandi og annarstaðar í meðallagi. Í Eyjafirði flest tún mikið tvíslegin þar sem mannafli var til þess. Heyskapur byrjaði þar fyrir og um 1. júlí, á útsveitum talsvert seinna. 1.júlí var [enn] mikill snjór í Siglufirði. Heyskapur varð með talsvert mesta móti, oftast hægt að hirða vikuheyin. Fram til dala hröktust töður dálitið og úthey í september. Næturfrost komu ekki fyrr en í október í Eyjafirði, aðaláttin þar suðlæg austan átt. Á Austfjörðum byrjaði sláttur með fyrsta móti, sumstaðar seinast í júní. Heyföng urðu með mesta og besta móti. Þegar suður kom í Skaftafellssýslurnar fór að verða votviðrasamara, varð því að hirða heyin hálf illa þurr. Eftir 24. ágúst gengu þar sífelldir óþurrkar svo það sem heyjað var eftir þann tíma var meira og minna skemmt og hjá sumum lítt nýtt, lá allmikið úti af heyi þangað til í október og sumt náðist aldrei. Mun heyskapur naumast hafa orðið í meðallagi í þeim sýslum. Nýting á heyjum varð lakleg víða hér um Suðurland, einkum á mýrarjörðum. Þeir sem snemma byrjuðu slátt náðu töðunni óhraktri.
Haustið og veturinn til nýjárs. Tíðarfarið óstöðugt, rigninga- og rosasamt á öllu Suðurlandi og á Vesturlandi. Frá jólaföstu til áramóta hagstæð tíð í Barðastrandarsýslu, nær því enginn snjór um áramót. Í Húnavatnssýslu óstöðug tíð fram á jólaföstu, þá mikil frost en ekki sjóþungt; með sólstöðum gerði þar þíðviðri og bestu tíð. Í Eyjafjarðar- Þingeyjar- og Múlasýslum var tíðarfarið gott; snjókoma ekki fyrir alvöru í Eyjafirði fyrr en með vetri, um jól alautt þar upp í háfjöll. Á Austfjörðum varð jarðlaust fyrst i desember og hélst það til ársloka. Í Vestur-Skaftafellssýslu svo mikil snjókoma 11.12. nóvember að fé og hross fennti, en desember mátti kalla góðan, var þá snjór aftur uppleystur.
Matjurtir spruttu í góðu meðallagi um land allt, nema á Barðaströnd, þar misheppnuðust þær vegna hinna sífeldu norðanstorma ef garðarnir voru ekki í því betra skjóli, en garðrækt er þar mikil einkum um miðbik sýslunnar.
Janúar. Nokkuð hagstæð tíð. Tveir stuttir kuldakaflar. Talsverður snjór með köflum nema suðvestanlands. Hiti nærri meðallagi.
Jónas Jónassen lýsir veðurlagi í janúar svo:
Allan þennan mánuð hefur verið mesti umhleypingur með talsverðri snjókomu og þá oftast af útsuðri, oft með svörtum éljum og hvass. Stöku sinnum hlaupið í norðanátt en ekki staðið lengi.
Þjóðólfur segir þann 8.:
Veðurátta hefur verið mjög umhleypingasöm síðan fyrir jól, úrkoma óvenjulega mikil, en frost lítil. Jörð að mestu alþíð enn.
Austri lýsir janúartíðinni eystra í stuttum pistlum:
[9.] Tíðarfar hefir að undanförnu verið mjög blítt, en í fyrrinótt féll lítill snjór, en þó jörð enn góð.
[19.] Veðráttan var liðna viku mjög frostasöm og áfreðar svo miklir að víða var hér lítil jörð. En í fyrradag kom góð hláka svo nú er komin næg jörð. í Héraði mun nú víðast marautt.
[29.] Veðráttan hefir verið mjög góð nú undanfarandi. 26. setti þó niður nokkurn bleytusnjó. Í dag er snjókoma nokkur.
Þjóðviljinn (á Bessastöðum) lýsir tíð í janúar:
[9.] Nýja árið heilsaði oss stillilega og þýðlega, eins og gamla árið kvaddi, og héldust stillurnar og þíðviðrin til þrettándans, er tíð fór að gjörast óstilltari og úrkomusamari, og hefir síðan haldist óstöðug tíð.
[16.] Síðan Þjóðviljinn var siðast á ferðinni, hafa haldist frost nokkur, en stillt veður frá 9.12. þ.m., og síðan umhleypingar. Fögur norðurljós voru á himninum að kvöldi 9. þ. m., og njóta menn þeirrar dýrðlegu sjónar mun sjaldnar hér syðra, en á Norður- og Vesturlandi.
[24.] Tíðarfar hefir síðasta vikutímann verið mjög óstöðugt, frost og kafald aðra stundina, en rigning hina.
[30.] Tíðarfar hefir þessa síðustu viku verið fremur umhleypingasamt, og kafaldsél öðru hvoru.
Norðurland segir lítillega af tíð í janúar:
[16.] Tíðin hefir verið stirð þessa viku, töluvert frost með norðanvindi oftast, en snjókoma ekki mjög mikil.
[23.] Tíðafar óstöðugt þessa viku, stormar sífelldir og frost og þíður til skiptis.
Þann 13.febrúar birti Ísafold alllangt fréttabréf af Síðu, dagsett 15.janúar. Það fjallar reyndar aðallega um tíðarfar á árinu 1903. Við látum það samt hér:
Fréttakafli af Síðunni, ritað 15. jan. 1904 [P. ritar] Þetta er fyrsti dagur vetrarins, sem ber með sér frost og fannir. Stráin ýla ömurlega i hinni nöpru kylju og loftið er hörkulegt. Fénaðurinn sækir að húsunum og gengur rakleitt inn en jöturnar eru enn þá tómar. Skepnunum virðist renna í skap; sauðirnir herjast og hrossin hitast. Og það er ekki að undra, þótt þeim þyki tími til kominn, að smakka á heyjaforðanum. Það er svo áliðið. En áður en ég tala meira um áhrif þau, er þessi kylja kann að hafa, virðist mér sanngjarnt að minnast hins liðna sumars og þess, sem af vetrinum er, að nokkru. En ég verð að byrja nokkuð framarlega, til að komast fyrir orsakir ýmsra atvika, sem verður síðar minnst á.
Síðari hluta maímánaðar og fyrri hluta júní var hér sífelldur þurrkur og rumba; varð grasvöxtur því í minna lagi, og þó einkum vegna þess, að eldurinn í Vatnajökli huldi oft hina vermandi vorsól þykkum reykjarmekki. Þetta hefði þó ekki orðið tilfinnanlegt tjón, hefði ekki ill vættur sótt sveitina heim. En það var maðkurinn. Gein hann yfir vallendi allt og heiðar og eyddi alt, er fyrir varð (grassvörðinn), nema þar sem vatn var yfir. Varð jörð öll, þar sem hann fór yfir, fyrst hjúpuð hvítri blæju, sem væri þar dauðinn nálægur; seinna varð blæjan dökk, en það var líkklæðið sjálft; enda kom þar ekki stingandi strá sumarlangt. Og svo var mergðin mikil, að þar sem voru gamlar rústir og kafagras, er hann gekk yfir, varð grámosi eftir, svo mikill, að huldi skóvörp þess, er um það gekk. Afleiðingin af plágu þessari varð bæði mikil og ill; tún, sem máttu heita allvel ræktuð, eftir því sem hér gerist, urðu ekki slegin fyrr en um höfuðdag og þó ekki öll. Það var því ekkert undarlegt, þótt búfræðiskandidat Guðjóni Guðmundssyni fyndist ekki til um túnræktina á Síðunni. En ónákvæmt er þar frá skýrt, er hann segir i 60. tbl. Ísafoldar, að hér sé erfitt að ná í góðan mó. Getur hann þess því til afsökunar, hve túnin séu illa ræktuð. Mér kemur ekki til hugar að segja góða hirðingu á áburðinum hér í sveit, svo sem vera ætti, en hitt er víst, að mór hefir enginn fundist hér á milli Sanda, svo tækur sé, nema lítið eitt við Skaftá. En það má engum að gagni vera, nema þeim búendum: Kirkjubæjarklausturs og Hólms. Get ég þessa til skýringar við umsögn Guðjóns. Taðan varð hjá sumum bændum helmingi minni en áður og 2/3 hjá öðrum. Af því leiðir tilfinnanleg fækkun á kúm hér í sveit. Sumarið var yfirleitt þurrkasamt, dembur þó tíðar, en mjög var hlýtt og þökkuðu menn það brennunni miklu á jöklum uppi. Oft kom þar upp reykur svo mikill, að eystri helft sjóndeildarhringsins huldi um miðjan dag. Að nokkrum tíma liðnum, gekk krapaskúr yfir, ærið dropastór, og gegnvætti heyið allt. Var að því mikill bagi.
Seinni hluta septembermánaðar var hér rosasamt og rigningar stórfeldar; uxu þá vötnin ákaflega og sýndi Skaftá þess ljós merki, að eigi er brúin óþörf, svo sem Árna Zakariassyni þótti, er hann vann að byggingu stöplanna í sumar. En þá var áin óvenjulega vatnslítil; ollu því hinir miklu þurrkar, þann tíma allan, sem að brúarsmíðinni var unnið. Rann nú stór áll aftan við brúna og sópaði mikilli hrúgu af sandi burt, en þar er sker undir, sem hann vann ekki á. En erfið er uppgangan á brúna síðan. Nú um jólin braust áin yfir, milli tveggja aðalbrúnna, þar sem vegurinn var hlaðinn upp en ekki steyptur. Bar hún ofaníburðinn burt, en hleðslan stendur. Er þar nú mittisdjúpt ker og ófært lestum. Má Árni af þessu ráða, að Skaftá getur orðið ill yfirferðar, þótt á sumri sé. Er honum vorkunn nokkur, þótt hann vissi það ekki, en trúa mátti hann mönnum hér, er þeir sögðu honum sannleik einan. Veturinn má telja ágætan, það sem af er; reyndar var frostharka nokkur nóvember allan og nokkurn hluta desembermánaðar, en sífelld staðviðri og auð jörð.
Ekki er eldurinn i jöklinum slokknaður enn, og þykir mönnum sem það verði varla vetrarlangt; eldsneytið virðist óþrjótandi. 12. þ.m. [janúar] gengu tveir menn frá Hörgslandi á fjall. Urðu þeir seint fyrir og er þeir gengu eftir dal einum djúpum, sló sorta yfir svo miklum, að þeir sáu varla handa sinna skil. En er þeir komu upp á dalbrúnina, sáu þeir að sortinn kom úr þeirri átt, sem eldurinn var. Litlu síðar rofaði til i sömu átt; þótti þeim þá því líkast, sem árroða slægi yfir jökulinn allan, en það var eldurinn. Þetta var um kl. 9 að kveldi. Eru þeir menn til hér, sem þakka vilja eldinum mikla blíðviðri það, er staðið hefir svo lengi, en sjálfsagt er það ímyndun ein.
Febrúar. Nokkuð hagstæð tíð. Fremur kalt.
Jónas segir:
Talsverður kuldi allan mánuðinn, allt til h. 22., er gerði góða hláku með dynjandi rigningu af landsuðri og var þá hvass; hefur verið hægur síðan, oftast með éljum af útsuðri við og við.
Fjallkonan birti þann 24.febrúar bréf úr Rangárvallasýslu ofanverðri, dagsett þann 3.:
Frá því blíðutíðinni um hátíðarnar sleppti, um 6. [janúar], hefir veðráttan verið óstöðug og umhleypingasöm, viðrað sinn daginn hverju og suma daga tvennslags og þrennslags veður. Aftur hefir verið nokkur snjókoma, en oftast þó hagar, því jafnóðum reif af. Mest hefir frostið verið 15. f.m. c. 13°R. Tvo daga hefir verið öskubylur, 26. og 29. jan., þó harðari sá síðari; var þá lítt stætt veður og 9° frost. Nokkrir hlákudagar og þíðu hafa þó komið. Síðan 1. þ.m. hefir kyngt niður miklum snjó í logni, svo að í gær var nálega hnéþykkt snjólagið á jafnsléttu og haglaust með öllu. Í dag dálætisblíða, og hefir snjór sjatnað nokkuð. Haglaust þó enn. Tíðustu áttirnar hafa verið útsynningur og landnyrðingur. Landnyrðingur er naprasta vetraráttin hér.
Þjóðviljinn segir af febrúartíð:
[8.] Fyrri part liðinnar viku dyngdi niður all-miklum snjó, og er það í fyrsta skipti á vetrinum, er nokkuð hefir snjóað til muna hér syðra. Snöggvast sá til sólar á kyndilmessu (2. þ.m.), og á það að boða snjóa-tíð, eftir því sem gömlu mennirnir sögðu.
[13.] Fyrri part þessarar viku hélst norðanátt, og væg frost, en síðan 11. þ.m. hafa verið frostleysur.
[19.] Síðan síðasta nr. Þjóðviljans kom út, hefir veðráttan all-oftast verið við norðanátt, og talsverð frost öðru hvoru.
[29.] Síðan góan byrjaði (21. þ.m.) hefir tíð verið rysjótt og umhleypingasöm. 22. þ.m. var hellirigning, og tók þá upp mikið af snjónum, sem legið hefir á jörðu, síðan með þorrabyrjun.
Norðurland minnist lítillega á tíð þann 20.:
Snjór er nú kominn allmikill. Þessa viku hefir verið snjókoma á hverjum degi, flesta daga töluverð. En oftast frostvægt og alltaf logn hér, þar til er stórhríð kom í gær síðdegis.
Austri segir af febrúartíð og allmiklum krapa- og snjóflóðum á Seyðisfirði:
[6.] Veður hið besta undanfarandi daga. En í dag hefir verið hríðarhraglandi.
[17.] Veðrátta hefir nú um tíma verið mjög hörð, snjókoma mikil, nálega á degi hverjum, svo nú er komið hið mesta fannfergi hér í Fjörðum, og líklega töluverður snjór líka á Héraði.
[27.] Tíðarfarið hefir þessa vikuna verið mjög blítt á hverjum degi og snjó tekið töluvert upp, en þó er eigi jörð komin upp að nokkru ráði hér í firðinum, því snjóþyngslin voru orðin svo mikil á undan blotanum, En í Héraði kvað nú vera víðast komin upp góð jörð. ... Á mánudaginn 21. þ.m. gjörði hér mikla þíðu með stormi og mikilli rigningu, svo hlaup kom víða í læki,er spýttu fram miklu vatni og snjó, víða til töluverðra skemmda; þannig pöntunarhúsin og tók þar 4 báta, er þar voru á hvolfi og rak bátana upp um nóttina norðanverðu við fjörðinn, suma töluvert brotna. Þá fór og lækurinn fyrir innan Madsenshúsin í gegnum íbúðarhús Gunnars Sveinssonar með svo miklu afli, að hann reif upp hurðina á næsta húsi fyrir neðan og flaut þar inn á gólf. Fjarðaröldumegin hlupu víðast lækir, en eigi til stórskemmda. Hádegisáin hljóp [svo] miklum krafti, að snjóflóðið úr henni fór yfir um Fjarðará. Snjóflóð féll og töluvert fyrir nokkru í gamla snjóflóðsstaðnum og um Hjarðarholt, Bræðraborg og Fornastekk, án þess að gjöra nokkurt verulegt tjón.
Austri segir áfram af snjó- og vatnsflóðum í pistli 6.mars - þau urðu í febrúar:
Snjóflóð og vatnsflóð hafa nú alls fyrir skömmu, er þiðna tók, gjört mikinn skaða bæði í Fjörðum og Héraði, Á Brekkugerði í Fljótsdal hljóp snjóflóð á fjárhús og drápust þar 21 sauður. Snjóflóðið hafði stefnt á bæjarhúsin, en klauf sig á hlöðu stórri er stóð á túninu beint upp af bænum. Á Klausturseli á Jökuldal hljóp vatnsflóð á fjárhús og drap 30 ær. Á Fagradal hljóp snjóflóð yfir Skriðurnar, þar sem Lagarfljótsbrúartrén liggja, og sópaði 14 stórtrjám niður í árgil, 6 af þeim eru mölbrotin, en hin lítið sem ekkert skemmd. Á Reyðarfirði og Eskifirði urðu nokkrir skaðar. Þannig kom vatnsflóð á Lambeyri, þar sem sýslumaður A.V. Tulinius býr, Urðu þar töluverðar skemmdir á heyjum og svo hljóp vatnið í kjallarann undir íbúðarhúsinu og eyðilagði þar mikið af matvælum. Á Mjóafirði hljóp snjó- eða vatnsflóð á hús Berg hvalaveiðamanns og olli þar miklum skemmdum.
Norðurland segir af sömu flóðum/atburðum í pistli þann 12.mars og segir þau hafa orðið þann 23.febrúar:
Í ofsastormi og gífurlegri úrkomu urðu skaðar allmiklir sumstaðar á Austurlandi aðfaranótt þ. 23. f.m. Á Klausturseli á Jökuldal hljóp vatn í fjárhús og kæfði 25 30 kindur. Á Brekkugerði i Fljótsdal lenti snjóflóð á fjárhúsi, braut það og drap 21 sauð. Mest tjónið varð í Reyðarfirði. Í Breiðuvík þar í firðinum brotnuðu þrír bátar, möl barst þar á túnið og skemmdir urðu töluverðar á húsum. Á Helgastöðum í sömu sveit hljóp snjóflóð á fjárhús og drap 9 kindur. Á Sigmundarhúsum þar í grenndinni brotnaði einn bátur. Á Hólmum í Reyðarfirði varð þó tjónið tilfinnanlegast. Þar lenti krapflóð á útihúsi fyrir ofan íveruhúsið og braut þakið á húsinu; skepnur, sem inni voru, héldu lífi. Flóðið lenti svo á geymsluhúsi, fleygði því af grunninum og ónýtti það, svo að ekki var annars kostur en rífa það. Ýmislegt, sem í húsinu var, skemmdist stórlega. Flóðið tók og þriðjunginn af kirkjugarðinum, sem var úr timbri, og loks vatnsmyllu, sem var að mestu ófundin, þegar fréttist. A Kollaleiru hafði brotnað hlaða og hey skemmst. Og víðar hafði tjón orðið.
Mars. Nokkuð hagstæð tíð. Mjög úrkomusamt sunnanlands. Hiti í meðallagi.
Jónas segir um marstíðina:
Framan af mánuðinum veðurhægð og frostlítið, hæg austanátt og nokkur ofanhríð; fór svo að kólna mikið, en logn nokkra daga; gekk svo til suðurs, oft hvass með éljum, síðar með miklu regni, svo allur snjór hvarf af jörð.
Austri segir af tíð í mars:
[6.] Veðrátta hefir að undanförnu verið mjög blíð, og snjó tekið svo upp, að nú mun víðast komin góð jörð.
[14.] Veðrátta hefir undanfarandi daga verið nokkuð rosasöm og köld með hríðarhraglanda.
Norðurland segir þann 5.: Tíðarfar hefir verið milt síðustu tvær vikurnar og jörð er komin hvarvetna þar, sem til hefir spurst.
Þjóðólfur birti 15.apríl stutta fregn úr Árnessýslu, dagsetta 16.mars:
Tíðin var fremur góð fram að þorra þó víðast gefið öllum skepnum frá því mánuð af vetri en síðan með þorra hefur verið alveg haglaust; ekki heyrist samt neitt talað um heyskort ennþá; hey eru víðast með besta móti.
Þjóðviljinn segir stuttlega af marstíð syðra:
[9.] Það sem af er þ.m., hefir oftast verið suðlæg vindstaða, en þó útsynnings- eða landsunnanél öðru hvoru framan af mánuðinum.
[22.] Frost með norðanátt hélst, uns l5. þ.m. sneri til þíðviðris og rigninga.
[30.] Síðan einmánuður hófst (22. þ.m.) hafa hér gengið sífelldir rosar og rigningar.
Þann 30. birti Þjóðviljinn fregn frá Ísafirði, dagsetta 18.mars:
Tíðin hefir verið hér afar-stirð síðustu dagana, norðan frostgarður og snjókoma, enda hafði Ceres", er hún kom um miðjan dag í gær, hreppt mjög slæmt veður, svo að hún var öll hvít af klaka til toppa, og klakinn svo mikill á þilfarinu annars vegar, að hún hallaðist á miðja síðu, er hún kom hér inn fjörðinn, og voru því þegar fengnir 12 menn, til að berja utan af henni.
Norðurland segir þann 26.:
Frost var mikið fyrri hluta vikunnar, á þriðjudag [22.] um 20 stig. En á miðvikudagsnóttina kom hláka og síðan hefir verið góðviðri.
Apríl. Nokkuð hagstæð tíð, en snjóhraglandi með köflum. Hiti í meðallagi.
Jónas ræðir apríltíðina:
Framan af var oftast norðan- og landnorðanátt, fór svo til útsuðurs með éljum síðari partinn, en hljóp oft til úr einni átt í aðra. Snjókoma talsverð með köflum; snjóaði mikið aðfaranótt h.24.
Vestri segir þann 2.:
Tíðarfar er einmuna gott, þíðviðri og besta vorveður. Heybirgðir munu nægar allstaðar hér um slóðir og sama sagði sunnanpóstur að væri á sinni leið, enda hefir veturinn verið mildur og jarðsamt.
Austri lýsir apríltíðinni:
[2.] Tíðarfar hefir nú lengi verið hér mjög blítt og hitar töluverðir, svo snjór er nú mjög tekinn upp niður á láglendinu.
[9.] Veðrátta hefir að undanförnu verið mjög óstillt og töluverð snjókoma hér í gær, og í dag stormur og blindhríð á fjöllum.
[19.] Tíðarfar hefir undanfarandi verið mjög óstillt og þó nokkur snjókoma flesta dagana, en nú er veður gengið til batnaðar, í dag sólskin og 10° hiti.
[30.] Veðrátta hefir mátt heita ill undanfarandi, harðviðri, snjókoma og bleytuhríð skipst á.
Þjóðviljinn segir af apríltíð:
[7.] Það, sem af er einmánuði, hefir mátt heita all-góð tíð, enda þótt öðru hvoru hafi verið væg frost að nóttu. Páska-hretið, 3. til 5. þ.m., var fremur vægt hér sunnanlands, aðeins stinnur norðan-kaldi, með fannkomu á fjöllum, og 5. þ.m. snjóhret í byggð; en sennilegt, að mun meira hafi að því kveðið á Norður- og Vesturlandi.
[13.] Síðan páskahretinu linnti hefir tíð verið fremur óstöðug, og öðru hvoru væg frost að nóttu. Snjórinn, sem féll í byggð 5. þ.m., er þó löngu horfinn fyrir apríl-sólinni.
[18.] Tíðarfar má heita fremur hagstætt, oftast stillt hreinviðri, en frost að nóttu, nema sunnanrosar og rigningar í gær og í dag.
[26.] 20. þ.m. dyngdi niður all-miklum snjó, svo að jörð varð alhvít, og mátti því segja, að veturinn kveddi oss fremur kuldalega. Á sumardaginn fyrsta (21. þ.m.) var á hinn bóginn sól og blíða, svo að snjórinn hvarf þá algjörlega í sjávarsveitum; en síðan hefir tíðin veríð fremur kaldhryssingsleg, haglhreytingar öðru hvoru, og 24. þ.m. dyngdi enn niður allmiklum snjó, og gerði norðan byl, með nokkru frosti; en vonandi, að tíðin batni nú vel á eftir.
Norðurland segir af tíð:
[9.] Dymbilvikuna var mesta veðurblíða, en á páskadag var norðankuldi með fjúki. Síðan hefir flesta daga verið nokkurt fjúk, en venjulega um það bil frostlaust.
[30.] Tíðarfar mjög stirt, vorbati enginn og í útsveitum sér ekki á dökkan díl. Einna verst er látið af horfunum hér úti í fjörðunum vestanmegin; en nákvæmari fregnir eru væntanlegar þaðan með pósti í næstu viku. Sumstaðar í Þingeyjarsýslu er og látið illa af skepnuhöldum.
Fjallkonan birti 17.maí bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 30.apríl og greinir frá ólíkri vetrartíð í sýslunni:
Veturinn byrjaði í útkjálkasveitunum hér illa, en þó er verst hans hin síðasta ganga, og allur hefir hann að heita má verið vondur og gjaffeldur, en frostavægur yfirleitt; mest frost hafa komið 16°R í sunnanátt, en í norðanátt vanalega verið frostalítið mjög og þökkum við það ísleysinu. Tveir kaflar hafa komið vel góðir, um jólin og fram yfir nýár og aftur fyrir páskana. Jarðlaust varð allvíða á jólaföstunni, og aftur síðan á páskum hefir viða verið hagskarpt og nú 30. apríl sér hvergi dökkan díl hér í útsveitum. En fram til dala hefir annar kostur snúið að bændum hjá blessaðri náttúrunni; þar hefir, að sögn, ekki komið eitt öðru hærra og segja þeir, að þetta sé sá besti vetur, sem þeir hafa fengið i 20 ár; en í útsveitum hefir hann verið einhver sá versti. Til samanhurðar má geta þess, að einn bóndinn í Blöndudal hefir gefið lömbum sínum inni aðeins 4 daga; en á Vatnsnesi austanverðu er kominn 24 vikna innistaða á lömbum. Enda fer afkoman eftir því. Fram til dalanna eru sagðar góðar heybirgðir; en í útsveitunum eru menn að verða heylausir hver um annan þveran og horfir til vandræða, ef vorharðindi verða, en vonandi rætist úr betur en nú áhorfist.
Ísafold birti 18.maí bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 30.apríl:
Nú er annar laugardagur í sumri. En óslitin harðindi, fannkyngi ógurlegt i öllum útsveitum og heyskortur í þeim og vandræði. En snapir til dala. Sífeld norðaustan-bleytuhríð, að kalla má síðan á páskadag. Þó er hafís óvanalega langt undan landi. Það sést á því, að hafrót er óvenjulegt öðru hvoru. Veturinn verstur þar, sem sumarið var ekkert úti á útkjálkum og í eyjum. Köld ertu móðurmold.
Ísafold birti þann 21.maí bréf úr Trékyllisvík [og kallar svæðið Víkursveit], dagsett 3.maí:
Héðan er að frétta verstu tíð í allan vetur. Það er að eins tvennt illt, sem ekki hefir kveðið mikið að: hafís ekki komið, og verið fremur frostalítið, þó að stundum hafi verið kalt. En aldrei síðan ég kom hér fyrir rúmum 50 árum hefir komið eins mikill snjór og þennan vetur. Fjárhúsið á túninu fór alveg i kaf og sér nú að eins ofan á mæninn á því. Hesta varð að taka hér inn á jólaföstu, og hefir síðan aldrei verið jörð fyrir þá. Hey voru bæði ill og lítil eftir sumarið i fyrra. En þó sett full-ríflega á þau sumstaðar; því að svo hefir verið á sumum bæjum, að ekki hefir verið hægt að gefa nauti a meðan verið var að brúka það.
Maí. Nokkuð kalt fram yfir miðjan mánuð, en síðan betri tíð. Hiti í meðallagi. Nokkuð var um skipskaða, en ekki ljóst að hve miklu leyti þeir tengjast veðri.
Jónas segir um maíveðrið í Reykjavík:
Framan af mánuðinum hæg norðanátt, bjart og fagurt veður, en austanátt með mikilli rigningu síðari hlutann; stöku sinnum hvass mjög með mikilli úrkomu.
Fjallkonan birti þann 25.maí bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 5.:
Loksins er kominn góður bati fyrsta frostlausa nóttin í fyrri nótt, og fyrsta þíðan og verulega hlýjan í í gær og i dag eftir hinn langa og að ýmsu leyti leiða vetur. Leiðastur hefir hann verið vegna snjóanna, er verið hafa mjög tíðir, og samanlagðir óhemju kyngi. Síðasta snjókoma var 30. apríl; þá var alhvítt, ökklasnjór. Annars sífeldir kuldanæðingar frá páskum. Alls enginn gróður til þessa.
Þjóðviljinn (á Bessastöðum) segir af maítíð:
[3.] Tíðarfar er oftast mjög storma- og kalsasamt, svo að naumast markar enn fyrir neinum gróðri, enda öðru hvoru frost á nóttu, og fjöllin í hvítum hjúpi niður að byggð.
[9.] 5. þ.m. gerði loks hlýindi, og blíðviðri, og hefir síðan oftast haldist sunnanátt, svo að jörð lifnar nú óðum, ef lík veðrátta helst.
[14.] Tíðarfar hefir verið einkar blítt og fagurt þessa vikuna, svo að tún eru nú víða farin ögn að litkast.
[21.] Veðrátta rosasöm fremur og hlýindalítil, tún litið eitt farin að gróa.
[29.] Veðrátta enn köld og óstöðug; þó hefir heldur brugðið til hlýju síðastliðna daga.
Austri greinir frá maítíð (og fjársköðum):
[7.] Veðrátta hefir verið æði óstillt, en virðist nú fara batnandi síðustu dagana.
[14.] Veðrátta hér í fjörðum alltaf fremur köld og snjór víða nokkur, nær því ofan að sjó. En aftur kvað vera að mestu autt fyrir löngu á Upphéraði og þar sól og sumar á degi hverjum.
[27.] Veðrátta hefir síðustu vikurnar tvær verið mjög óstöðug hér austanlands. Í vikunni fyrir og eftir hvítasunnu [22.maí] töluverð snjókoma og jafnvel meiri á Úthéraði en hér í Fjörðunum, en stöku daga á milli hefir verið hér sumarblíða og jörð farin mikið að grænka. ... Fjárskaðar hafa orðið á nokkrum bæjum í Héraði í hríðunum um hvítasunnuna [22.]; fennti þá sumstaðar meira eða minna af fé þar efra.
[31.] Vér höfum nú frétt nokkuð nákvæmar af fjársköðunum, sem urðu í Héraði í hríðunum fyrir hvítasunnuna. Mestir skaðar urðu í Fellunum, þar fórust; á Ási 60, Meðalnesi 40 og Hof 20 fjár. Á Ketilsstöðum á Völlum fórust 18 kindur. Minni fjárskaðar urðu hingað og þangað yfir allt Hérað, féð ýmist fennti eða það hrakti í vötn og krapablár. Í Fljótsdal festi ekki snjó í þessum hríðum. ... Tíðarfar hefir undanfarandi daga verið hið indælasta. Sólskin og sunnanvindar á hverjum degi og hefir grassprettu farið ákaflega mikið fram því nægur er vökvi í jörðu, og má nú heita orðið gott útlit til landsins.
Norðurland segir af tíð í maí:
[7.] Siglufjarðarpóstur, sem kom á miðvikudagsnóttina var [4.], segir vondar horfur í útsveitunum. í Fljótum, Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði er allt undir gaddi, engin björg úti fyrir nokkurra skepnu, nema þar sem fjörubeit er. Í Svarfaðardal er komin jörð á nokkrum parti. Á Árskógsströnd allt fram undir Hillur má heita jarðlaust. Á Siglufirði lifa skepnur á fjörubeit og kornmat, en heylaust orðið. Í Héðinsfirði og Ólafsfirði eru horfurnar einna verstar; mjög lítið um hey og kornmatarlítið í Ólafsfirði og búið að taka fóðrið frá nautgripum, svo að til mestu vandræða horfir. Talsvert af fé hefir verið rekið úr firðinum vestur í Sléttuhlíð og ráðgert að reka fleira. Þar er nokkur jörð, en hey ófáanleg. Heykreppa er hér og þar í Fljótum. Í Langhúsum bjargarlaust fyrir 17 nautgripi. Af utanverðri Árskógsströnd hefir sauðfé og hross verið rekið inn í Möðruvallapláss. Stórhríð segir póstur að hafi verið á sunnudaginn í Fljótum, svo að hann var veðurtepptur þann dag. ... Vorveður hefir loks verið hér síðari hlut vikunnar; leysing þó ekki verulega mikil.
Í ódagsettu bréfi úr Þingeyjarsýslu segir: Tíðin víst orðin geggjuð. Sólin á engan yl lengur, er ísköld, verri en tunglið. Hver dagurinn öðrum argari síðan á páskum. Gaddur afarmikill. Öll Þingeyjarsýsla í voða. Vér stöndum í sömu sporum og 1804. Ég vil nota gaddavírspeningana til að kaupa fyrir þá brekán ofan á okkur, meðan við erum að drepast.
Og áfram í Norðurlandi:
[14.] Vorbatinn fer fremur hægt. Leysing er samt nokkur á hverjum degi og tún eru ofurlítið farin að grænka hér um slóðir. Í útsveitum, þar sem gaddurinn var mjög mikill, kennir batans víst lítið enn. Norðanstormur kaldur með úrkomu í dag.
[21.] Töluverðan snjó rak niður fyrri hluta þessarar viku með vonskuveðri, og má nærri geta, hvernig það hefir komið sér um sauðburðinn. Almennt nokkuð kvartað um heyskort. Í hörðustu útsveitum eru víst jarðbönn enn. í dag er hláka.
[28.] Tíðarfar hefir verið ágætt þessa viku, enda flestum fundist tími til kominn að skipti um til batnaðar.
Þjóðviljinn segir þann 8.júlí:
Það er nú talið víst að hákarlaveiðiskipið Christian" frá Akureyri hafi farist í uppstigningardagshretinu [12.maí], með því að ekkert hefir enn til þess spurst. Á skipi þessu voru 12 menn, allir úr Svarfaðardal í Eyjafjarðarsýslu, og hét skipstjórinn Sigurður Halldórsson, bóndi á Grund.
Fjallkonan birti 31.maí brot úr bréfi úr Landeyjum, dagsett þann 24.:
... Tíðindafátt héðan. Veðráttan nú í viku líkust haustveðráttu, krapakennd úrkoma og stormar; gróður þó furðanlegur. Þverá voðaleg og allt ætlar í kaf að keyra hér útum.
Norðurland birti þann 4.júní bréf úr Vatnsdal, dagsett þann 28.maí:
Mikil og blessuð breyting hefir orðið á tíðarfarinu síðan á hvítasunnu; allur snjór er nú leystur að kalla má úr fjöllum, tún orðin algræn og Vatnsdalsá liggur yfir enginu til að bera á það til sumarsins. Kýr eru farnar að geta bjargað sér talsvert úti, enda eru allir að verða töðulausir. Síðan rjómabúið reis upp, hefir kúm fjölgað að mun, meira en svo að túnin fóðri þær.
Þjóðólfur birti þann 7.júní bréf úr Höfðahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 20.maí (aðeins stytt hér):
Tíðin mjög bág. Aldrei komið hlýr dagur það sem af er sumrinu í rúmar 4 vikur. Einlægir austan umhleypingar með úrkomu nær því á hverjum degi, en það virðist sama, hvað úr loftinu fer, því alltaf er það fullt með úrkomu, svo sjaldan sér sólina. Mikill gaddur upp til sveita, að eins roði með sjó fram. Á heiðunum okkar sér ekki á dökkvan díl; gróður enginn enn eða hans gætir ekki. Stórhríð gerði hinn 17. og setti niður mikla fönn, nú aðeins skárra en enginn bati enn sjáanlegur. Gamlir menn muna ekki eftir öðru eins vori og nú, er jafnvel verra en mislingavorið 1882, og er þá mikið sagt. Heyleysi svo til stórvandræða horfir.
Vestri segir þann 30.maí:
Norðangarðurinn um daginn gerði all-mikinn óskunda á ýmsum skipum. Tvö skip af Akureyri misstu út sinn manninn hvort, og þriðja skipið þaðan Júlíus rak í land á Hornvík, en var talið lítið eða ekkert skemmt og von um að það næðist fram aftur. Racilian sigldi langan tíma gegn um hákarlalifur, plankabrot og kassa fram undan Sléttunesinu og er getið til að eitthvert hákarlaskip hljóti að hafa farist þar. En hvaða skip það getur verið vita menn enn ekki.
Ingólfur segir þann 5.júní frá því að bátur hafi farist í fiskiróðri þann 19.maí í landsunnanofsaveðri.
Þjóðviljinn birti þann 22.júní bréf úr Dýrafirði, dagsett 30.maí:
Héðan er nú sem stendur fátt að frétta, nema óstöðuga tíð, einkum eru stormar all-tíðir og oft úrfelli, þó tók yfir allt vikuna fyrir hvítasunnu, eða allt frá uppstigningardegi til hvítasunnu, þá var hvíldarlaus ofsastormur og oft kafaldshríð í sjó; verra veður kemur hér mjög sjaldan, en þá var, og aldrei verra á vordegi. Þó urðu hér í grennd ekki fjárskaðar, enda hvervetna vel að gætt, og gefið korn og kornmatur, þar sem hey voru þrotin. Strax þann 21. þ.m. brá til bata. og eru tún víða farin að grænka, enda mun nú alls staðar vera búið að vinna á þeim, og byrjað að yrkja matjurtagarða, og ganga þó votviðri öðru hvoru.
Júní. Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.
Jónas segir:
Fyrri partinn oftast við sunnanátt og talsverð væta; síðari partinn þurr oftast nær, þó oft við suðvestanátt með skúrum.
Austri lýsir góðri júnítíð eystra:
[10.] Veðráttan er viðvarandi hin indælasta og oft 1517° hiti í skugganum um hádaginn.
[18.] Veðráttan nú aftur nokkru svalari, en beita grassprettuveður, því votviðri og þurrkar skiptast hagalega á fyrir gróðurinn, og er nú grasspretta orðin þegar eins mikil og í sláttarbyrjun mörg undanfarandi ár.
[25.] Tíðarfar má heita gott undanfarandi daga, en þó eigi mjög heitt.
Fjallkonan birti 14.júní bréf úr neðanverðri Rangárvallasýslu, dagsett 4.júní - þar segir af tíð og ágangi Þverár:
Veðráttan er hér nú mjög óhagstæð, hvíldarlaust landsynningsrok og kalsi. Vöruskip þau, sem eiga að komast að hér á hafnleysissvæðinu, verða að hrekjast úti fyrir. Skip Stokkseyrarfélagsins lagði út frá Englandi 3.maí og kom undir Vestmanneyjar um lok (11.maí); en síðan hefir það verið að rekast fram og aftur hér fyrir landi. ... Hvíldarlausan usla og eyðileggingu gerir Þverá í Vestur-Landeyjunum; 11 jarðir eru komnar í eyði, þyrftu að vera 20; því engin er fyrirsjón á því, að vera við sumar þær, sem þó lafa í byggð. Sigurður gamli dannebrogmaður á Skúmstöðum má muna tvenna tímana. Má segja, að hann lifi nú sem fangi á eyðiey; kemst enginn að Skúmsstöðum nema á skipi, og það stundum við illan leik.
Þjóðviljinn lýsir júnítíðinni syðra:
[7.] Veðrátta köld og rosasöm enn, aðeins hlýtt er til sólar sér, sem ekki er oft.
[17.] Síðustu þrjá dagana hefir verið bjart og blítt sólskinsveður, og eru það góð umskipti, eftir dimmviðrin og suddana, sem lengstum hafa verið hér syðra í vor.
[22.] Síðan Þjóðviljinn var síðast á ferðinni hafa haldist þurrviðri, og sólbjartir dagar, en þó oftast kaldur norðan-andi, er sólar ekki nýtur.
[27.] Jarðskjálftakippur fannst í Landsveitinni í Rangárvallasýslu aðfaranóttina 15. júní. Fólk vaknaði á flestum bæjum við hristinginn, enda hrikti í húsunum, og lausir munir færðust úr stað. ... Veðráttan er einatt mjög hagstað, daglega hreinviðri og sólskin, en þó sjaldan veruleg hlýindi, er sólar eigi nýtur.
Norðurland segir þann 4.:
Indælistíð er nú hvarvetna þar, sem til spyrst. Gróður er kominn meiri hér um slóðir en hann var hálfum mánuði til þrem vikum seinna á sumrinu í fyrra.
Norðurland birti þann 11.júní kvæði eftir G.F. (Guðmundur Friðjónsson?). Það heitir 17.maí 1904. Fyrsta og þriðja erindi hljóða svo:
Þessi vortíð freðna fætur
fengið hefir í páskagjöf;
förlast sól við fannarköf.
Hríðardagar, hörkunætur
hrista nú sín brynju-löf.
...
Fimm missira Fimbulvetur
farið hefir um Norðurland,
reitt um öxl sér beran brand.
Strandhögg varla stórum getur
stærri en hans, né meira grand.
Norðurland segir þann 18.júní:
Úti í fjörðunum vestan megin Eyjafjarðar eru skepnuhöld betri en áhorfðist um tíma. Fé hefir ekki fallið þar, svo orð sé á gerandi. Þegar póstur var staddur í Siglufirði á mánudaginn var, var jörð ekki nema hálfauð í fremri hluta fjarðarins, og sagt að snjóskaflar á Skarðdalstúni væru þá enn 23 álna djúpir. Sumstaðar var ekki búið að vinna á túnum í Fljótum um síðustu helgi.
Júlí. Hagstæð tíð. Nokkuð úrkomusamt norðanlands framan af. Fremur hlýtt.
Jónas segir um júlítíð í Reykjavík:
Framan af mánuðinum var norðanveður í nokkra daga, en síðan má heita að verið hafi logn, með úða og því þerrilaust.
Austri segir frá júlítíð eystra í mjög stuttu máli:
[4.] Tíðarfar hið sama og undanfarandi, en heldur meiri þokur. [16.] Veðrátta nú síðustu dagana fremur vætusöm, svo töður liggja enn viðast úti. [23.] Veðrátta nú hin besta og skiptast á hitar og smáúrkomur og lítur vel út með töðuhirðinguna.
Þjóðviljinn segir af júlítíð syðra:
[1.] Tíðarfar einatt fremur hagstætt hér syðra, en dimmviðri all-oftast síðustu dagana. Grasspretta er þegar orðin allgóð hér syðra, svo að sláttur byrjar að líkindum í fyrra lagi. Reykvíkingar eru þegar farnir að slá smáblettina þar í kaupstaðnum.
[8.] Veðrátta fremur stormasöm og hlýjulítil nema þar sem sólar nýtur, grasspretta samt víðast hvar orðin í betra lagi, og allvíða byrjað að slá tún.
[14.] Blíðviðri og deyfa síðustu dagana.
[19.] Síðan síðasta blað kom út hefir verið ágætistíð hér syðra, norðanátt og sólskin.
[27.] Veðráttan er fremur hagstæð, en þó þurrkalítil.
Ingólfur segir frá þann 7.ágúst:
Eldur uppi. 15 júlí heyrðist duna mikil norður við Mývatn og í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Sama dag heyrðust dynkir austur við Djúpavog. Tveim dögum seinna, (sunnudag 17. júlí) féll aska þar eystra, svo að gerla mátti sjá á diskum er út voru bornir. Ókunnugt er enn, hvar eldgosið er.
Þjóðólfur segir af tíð þann 29.júlí:
Veðurátta hefur verið allóþurrkasöm hér syðra meiri hluta þ.m., að vísu ekki stórrigningar, heldur oftast molluveður og þerrilaust. Það eru því sárfáir, sem enn hafa getað hirt nokkuð til muna af túnum, og margir alls ekkert, svo að til vandræða horfir, ef sama veðurátta helst enn nokkra hríð.
Norðurland hrósar júlítíð:
[23.] Tíðarfar hið ákjósanlegasta og grasvöxtur í besta lagi. Lítið vantaði á að bændur alhirtu nú tún sín þá dagana, sem þeir byrja slátt í lakari árum. Hvarvetna af landinu er að frétta árgæsku til sveita.
[30.] Tíðarfar hið ákjósanlegasta. Stöðug góðviðri og þurrkar lengstum þessa viku. Menn muna varla jafnlangan góðviðriskafla, síðan um hvítasunnu, að kalla má óslitinn.
Norðurland segir 10.september:
Dynkur heyrðist í sumar um alla Þingeyjarsýslu 19. júlí, hálfum mánuði á undan landskjálftanum, sem getið er um í Norðurlandi í sumar. Hann var meiri að heyra en fallbyssuskot, og menn hafa spurnir af því, að hann heyrðist á svæðinu frá Fnjóskárdal og austur að Jökulsá á Fjöllum. Veður var heiðskírt.
Ágúst. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Jónas segir af tíð:
Fyrri part mánaðarins besta veður og þurrkur dag eftir dag, en síðari partinn rigning og það einkum um og eftir höfuðdaginn; oftast logn.
Austri segir í stuttu máli af ágústtíð:
[4.] Veðrátta hefir verið mjög hagstæð fyrirfarandi, svo töðuhirðing mun nú víðast lokið [13.] Tíðarfarið allaf hið besta og nýting á heyi má heita góð. [27.] Tíðafar hið hagfelldasta.
Þjóðólfur segir þann 5.:
Veðurátta frábærlega góð á Norðurlandi öllu og Austfjörðum og enn lengra suður, allt suður í Mýrdal, grasspretta góð og nýting þó enn betri. Það má því segja, að flest leiki nú í lyndi á Norður- og Austurlandi. En hér syðra er þvf öðruvísi háttað, því að enn haldast sömu óþurrkarnir, og töður því víða teknar mjög að skemmast. En rigningar eru samt ekki miklar, og veður blítt og hlýtt oftast, en þerrilaust.
Ísafold segir tíðarfréttir þann 6.ágúst:
Býsna-þurrkalítið. Töður varla nema hálfhirtar og liggja undir skemmdum, ekki síst vegna þess, hve heitt er í veðri. Grasspretta mikið góð að heyra hvarvetna. Mun og vera þurrkasamara norðanlands og eystra. Meðal annars er Ísafold skrifað úr Suðurmúlasýslu 27. f. mán.: Nú nær hálfan mánuð hafa mátt heita brakaþurkar á hverjum degi, aldrei dropi úr lofti; áttin vestur og suðvestur.
Norðurland segir í pistlum þann 6.ágúst:
Hafís hafði verið fastur við Horn skömmu áður en Skálholt fór þar um. Þá kom færeyskt skip að ísnum, austan að, en varð að snúa frá og sagði frá ferðum sínum á Siglufirði. Af Skálholti sást til hafíssins frá því er lagt var út af Aðalvík til þess er Norðurfjörður blasti við. Fyrir Horni fór skipið gegnum íshroða, en aðalísinn var rúma mílu undan landi. Fæsta hefir víst grunað, í annarri eins tíð og nú er, að ís gæti valdið farartálma hér við land. ... Snjór er enn mjög mikill á fjöllum, sem Siglufjarðarpóstur fer um. Hann segir, að aldrei hafi verið þar jafnmikill snjór um þetta leyti árs langir kaflar, þar sem ekki verður af snjó stigið þrátt fyrir sífelda hita.
Þjóðviljinn birti þann 17.ágúst bréf frá Ísafirði, dagsett 6.ágúst:
[Tíð hefir] verið góð hér vestra, nema fremur óþerrasamt seinni part júlímánaðar, og það, sem af er þessum mánuði, að undanteknum 23 góðum þurrkdögum um mánaðamótin. Nýlega fréttist, að Strandaflói hefði verið fullur af hafís um mánaðamótin, og af þeim leiða gesti hefir að líkindum stafað þessi svarta þoku-þvæla, sem verið hefir hér öðru hvoru.
Ingólfur segir þann 7. ágúst: Veðrátta hefur nú lengi verið hin hagstæðasta á Norðurlandi og Austurlandi.
Ingólfur segir af ís þann 28.ágúst:
Hafíshroði var nokkur austarlega á Húnaflóa er Ceres fór þar um 19. þ.m. þó ekki svo mikil að hann tefði verulega fyrir skipinu. Hitamælirinn komst niður í 1 1/2, meðan skipið fór í gegnum ísinn, en um kveldið er komið var út úr honum hækkaði hann í 6°.
Þjóðviljinn lýsir ágústtíð:
[11.] Sólbráð og besti þerrir síðustu daga, enda eru nú allir önnum kafnir að hirða hey sitt, sem lá við skemmdum eftir mollurnar sem verið hafa í margar vikur. [17.] Sólskin og besti þurrkur daglega. [24.] Sama einmunatíð, norðan andvari, sól og blíða. [31.] Veðrátta hefir verið fremur vætusöm um tíma, en þó ekki stórrigningar, enn sem komið er.
Þjóðviljinn birti þann 23.september bréf af Hornströndum, dagsett 12.ágúst:
Heldur vildi herða hér að hnútunum seinni part síðastliðins vetrar, og síðan bættust við vorharðindin, sífelldar kafaldshríðir, með frostnæðingum og grenjandi sjávarólgu, er stóð að kalla mátti samfleytt til fardaga, svo að eigi varð sagt, að veruleg sumarblíða kæmi, fyrr en með sólstöðum, og er slíkt mjög sjaldgæft, og varla, að menn muni jafn kalt vor í ísleysi; en síðan um messur má heita indælistíð, bæði til lands og sjávar, svo að grasspretta mun víðast hvar í meðal-lagi. Eggja- og fugla-tekja hefir og heppnast í allgóðu meðallagi, nema hvað allt varð nú heldur seinna, en venjulegt hefir verið.
September. Úrkomusamt um mikinn hluta landsins, einkum síðari hlutann. Hlýtt.
Jónas segir:
Í þessum mánuði hefur rignt mjög mikið; má heita að varla hafi komið þurr dagur; hefur verið óhemjurigning síðustu dagana. Hinn 28.sept. varð hér vart við vægan jarðhristing um kl. 7 1/2 að morgni.
Austri segir af septembertíð:
[7.] Tíðarfar óstillt, í gær ákafleg rigning fyrri hluta dags.
[17.] Tíðarfar er nú orðíð all-haustlegt, kalt og rigningasamt.
[26.] Tíðarfar má nú heita mjög hagstætt á degi hverjum, hlýindi og allgóður þurrkur, svo menn ná nú sjálfsagt vel inn heyjum sínum, þurrka töluvert af fiski, sem er mikilsvirði, ... verðlag á honum er svo hátt; og gefur loks vel í fjallgöngum.
Þann 17. segir Vestri af hörmulegu slysi á Patreksfirði (sennilega ótengt veðri) - en látum þess samt getið:
Þriðjudaginn, 6. þ.m., vildi það hörmulega slys til á Patreksfirði, að bát frá fiskiskipinu Bergþóra úr Reykjavík hvolfdi þar á höfninni með 13 manns á, er allir drukknuðu. Höfðu þeir verið að sækja ís og vatn í land, en sjór gekk á bátinn og færði hann í kaf.
Norðurland segir þann 10.:
Hvassviður mikið var á Siglufirði aðfaranótt mánudagsins var [5.]. Skip löskuðust mörg að sögn, en nákvæmlega hefir ekki frést af því tjóni, sem orðið hefir.
Þjóðviljinn segir mjög stuttlega af septembertíð:
[7.] Veðrátta óþurrkasöm og fremur köld. [19.] Veðrátta fremur vætusöm og rosaleg. [23.] Veðrátta sem fyrr óstöðug og rysjótt.
Þjóðviljinn birti þann 23.september bréf frá Ísafirði, dagsett þann 9.:
Aðfaranóttina 1. þ.m. gerði hér norðangarð, með allmiklu brimróti, og voru þá fjöllin með hvítgráa kollana að morgni, svo að mörgum þótti haustið heilsa í fyrra lagi, enda stóð ótíð þessi í fulla viku, og slotaði loks i gær.
Vestri segir þann 29.:
Tíðarfar hefir mátt heita ágætt nú um langan tíma, að vísu hefir verið nokkuð úrkomusamt, en hitar eins og best á vordag. 16. þ.m. kl. 4 1/2 e.m., kom hér sú helliskúr, er varði um 15. mínútur, að slíks muna elstu menn engin dæmi. Á svipstundu flóði öll borgin í vatni og menn og málleysingjar, er lífsanda drógu, hlupu með æði og óhljóðum um strætin þar til þeir fundu skýli.
Þann 11.október birti Þjóðviljinn bréf frá Ísafirði, dagsett 1.október:
Eftir að norðanveðrinu, sem stóð fyrstu vikuna í septembermánuði, slotaði loks 8. september, hélst bærileg tíð í 34 daga, en síðan gerði hálfsmánaðar suðvestan hvassviðri, með sífelldum blotum, eða stórrigningum, og loks kom svo ofsa-norðanhret síðustu daga septembermánaðar, er dyngdi niður miklum snjó, hæði á hæðum og láglendi. Allur septembermánuður hefir því verið almenningi mjög óhagstæður, ekki síst þar sem menn hafa eigi getað leitað sér bjargar til sjávarins.
Október. Umhleypingasamt og mikil úrkoma syðra. Fremur kalt.
Jónas segir af októbertíð:
Hefur verið ýmist á útsunnan, ýmist á landsunnan, oft rokhvass með köflum; stöku sinnum hlaupið stutta stund í norður; yfirleitt hefur verið versta ótíð þennan mánuð.
Austri segir af októbertíð:
[3.] Tíðarfar nú nokkuð kólnað, en þó engir verulegir snjóar í fjöllum, og kýr fyrst nú teknar á gjöf. [9.] Tíðarfarið er nú fremur svalt. Frost nokkuð á hverjum degi en snjór lítill. [15.] Veðráttan nú hin hagstæðasta. [21.] Veðráttan er hin blíðasta á degi hverjum. Í gær var 14° hiti á R. [31.] Tíðarfar alltaf mjög blítt, á laugardaginn [29.] 10°R og autt upp í mið fjöll.
Ingólfur segir þann 9.: Veðrátta hefur verið hagstæð um allt land í sumar og heyskapur orðið góður.
Fjallkonan segir þann 11.október: Blindbylur mátti heita hér niður á sjávarbakka á laugardaginn [8.]. Má því geta nærri, hvernig hann hefir verið til sveita.
Ingólfur segir af sköðum í pistli þann 16.:
Veðrabálkur allmikill hefir verið nú um skeið. Gnýja vindar héðan og handan með hreggi og hafróti. Hefir farmönnum hlekkst á og brotið skip sín, en ekki hafa menn farist. Er þess fyrst að geta, að kaupfar strandaði suður í Vogavík 2. þ.m. Það var fermt norsku timbri til Thorsteinssonar kaupmanns í Hafnarfirði. Formaður var Waardal, er stýrði Reykjavikinni á fyrrum. Þá strandaði Oddur litli, eimknörr Eyrbekkinga, aðfaranótt sunnudagsins 9. þ.m., suður í Grindavík. Sömu nótt sleit upp kaupfar norskt á Brákarpolli og rak til lands. Braut það nokkuð og er talið ósjófært, enda fornt áður og hrörlegt. Bryggjur braut hér til skemmda á sunnudaginn var [9.] gekk sjór hátt um flóðið.
Þjóðólfur segir af veðri þann 21.október:
Veðurátta hér sunnanlands hefur síðan um miðjan f.m. verið afarill, aldrei komið þurr dagur að kalla má, en sífelldar rigningar, snjókoma og stórviðri. Vestanpósturinn, Árni Gíslason, sem kom nú í vikunni, sagðist aldrei hafa hreppt eins vont veður eða jafn illa færð í þessum mánuði, eins og nú. Það hafði verið umbrotaófærð á fjalllendi en hnésnjór á láglendi í Borgarfirði. Hefur og fé fennt sumstaðar, t.d. á nokkrum bæjum i Kjós, og er það fátítt fyrir veturnætur hér á Suðurlandi.
Þann 12.nóvember segir Vestri frá fjársköðum í október - en getur ekki dagsetninga:
Fjárskaði. 40 fjár hafði farið í sjóinn á einum bæ vestanvert á Snæfellsnesi í [október], og var það öll fjáreign bóndans. 30 af því rak yfir þveran Breiðaflóa [svo], á land á Barðaströnd, og á sama stað rak upp bát með árum um líkt leyti; menn héldu því fyrst að bátur hefði farist með fjárfarmi, en síðar fréttist að bát þennan hefði slitið mannlausan aftan úr öðrum bát, á Grundarfirði í Snæfellsnessýslu. Eitthvað af fé hafði einnig farið í sjóinn frá Hvalgröfum á Skarðströnd í Dalasýslu, því kindur þaðan fundust sjóreknar, en óvíst hve margt fleira hefir farist.
Þjóðviljinn lýsir októbertíð:
[11.] Tíðarfar einatt mjög óstöðugt, sífelldir stormar og rigningar, svo að ýmis haustverk bænda ganga eðlilega í seinna lagi.
[17.] Tíðarfar afar stórviðra- og rigningasamt, svo að um langa hríð hefir eigi komið sá dagur, er stillviðri hafi haldist til kvölds.
[24.] Eftir öll ókjörin, stormana og stórrigningarnar, sem gengið hafa hér syðra í haust, gerði loks stillviðrisdag 18. þ.m., með vægu frosti, og hefir tíðin síðan verið öllu skaplegri, og þó rosar og rigningar öðru hvoru.
[28.] Tíðarfar einatt mjög óstöðugt, kaldhryssingslegt og rigningasamt. Hausrið yfir höfuð afaróhagstætt, bæði til lands og sjávar.
Norðurland segir 22.október:
Veðrátta hefir verið lakari fyrirfarandi tíma vestur undan en hér. Á Vatnsnesi hafði fennt eitthvað af fé, og víða í Húnavatnssýslu búið að taka fé til hýsingar.
Enn segir Ingólfur af slysi í frétt þann 23.:
Báti hvolfdi á Seilunni við Bessastaði í ofsaroki 13. þ.m. og drukknaði maður einn, er Jón hét Jónsson. Hafði nýlega flust hingað austan úr Holtum. Þrem mönnum öðrum var bjargað, þeim er á bátnum voru.
Ísafold segir þann 29.:
Hlýviðri hafa verið þessa viku, sem af er vetrinum; en hvass stundum. Haustið annars eitthvert hið versta. Hrakviðri og byljir. Sjaldan friður til að gera neitt úti.
Austri birti þann 7.desember bréf úr Lóni, dagsett 28.október:
Sumarið er nú á enda, og hefir það hér um sveitir eigi verið svo hagstætt sem það var yfirleitt góðviðrasamt. Fyrst framan af var köld tíð og umhleypingasöm, en með hvítasunnu brá til rigninga og hlýinda og eftir það komu góðviðri og stillingar, sem héldust allatíð til höfuðdags, lengstum linir þurrkar og litlar úrkomur; en eftir það hefir veðráttan verið svo óstillt og svo mikið um úrkomur og umhleypinga að slíks munu fá dæmi, jafnvel hér í rigningasveitum. Grasvöxtur var í besta lagi, en nýting heyja í lakara lagi, og seinast urðu eigi allir að skilja eftir úti talsvert af heyi sem ónýttist með öllu, þó mun heyskapur hafa orðið í meðallagi.
Nóvember. Umhleypingasamt sunnanlands og vestan. Fremur kalt.
Jónas segir:
Mikil ókyrrð á veðrinu; hlaupið úr einni átt í aðra; oftast verið við útsuðrið með éljum; logn og svækjuþoka nokkra daga eftir 20; austanrigning mikil 28; genginn til norðurs um mánaðamótin og farinn að frysta. Hér er nú auð jörð, en talsverður klaki, sem kom um 20. og (21).
Austri segir af nóvembertíð og sköðum:
[10.] Tíðarfar hefir nú verið mjög úrkomusamt, og nú fallinn hér síðustu dagana mikill snjór, og hætt við að eitthvað hafi máski fennt af fé hér í fjörðum.
[18. - lýsing dagsett 17.] Tíðarfarið hefir verið mjög milt allan fyrri hluta vikunnar og góð hláka á hverjum degi, svo snjó er nú mikið tekið upp og líklega komin góð jörð i flestum sveitum hér austanlands. Ofsaveður af suðvestri gekk yfir allan ytri hluta Seyðisfjarðar aðfaranótt mánudagsins, þann 14.þ.m. Brotnuðu í veðrinu 2 bátar á Vestdalseyri. Þök fuku af heyhlöðum á Sörlastöðum og Hánefsstöðum og um 20 hestar af töðu, skúr fauk líka á Sörlastöðum. En á Eyrunum skekktist hið svokallaða Ólafarhús töluvert. Á Brimbergi sleit upp skektu, er bundin var niður á báðum stöfnum, svo eigi varð eftir nema stafnarnir.
[29.] Tíðarfarið hefir töluvert gengið til batnaðar og snjó tekið mikið, svo víðast mun nú næg jörð.
Ísafold segir þann 19.nóvember:
Vetrarbragur kominn nú á tíðarfar. Frost og fjúk þessa dagana, eftir langvinn þíðviðri og rosa. Mun hafa verið um 10 stiga frost í nótt (C).
Þjóðviljinn segir af nóvembertíð:
[7.] Tíðarfar all-oftast mjög óstöðugt, rigningar og hvassviðri nær daglega. Jörð alauð, uns í gær snjóaði í byggð.
[12.] Tíðarfarið hefir í þessari viku verið nokkru hagstæðara, en að undanförnu, stillviðri, og væg frost, all-oftast, uns í gær sneri til landsunnanáttar, með éljum.
[19.] Tíðarfar hefir í þessari viku verið afar-óstöðugt, hellirigningar og ofsa-rok einatt öðru hvoru og í gær útsynnings kafaldshríð, svo að jörð varð
alhvít.
[25.] 19.21. þ.m. var all-stinnur norðangarður hér syðra, með töluverðri frosthörku, allt að 8 stig R við sjóinn. Síðan frostlin stillviðri og blotar.
Norðurland segir þann 26.nóvember:
Aðfaranótt laugardagsins hinn 19. þ.m. rákust fiskiskipin Samson og Talisman á, í ofsaveðri, á vetrarlægi skipanna, í svonefndri Krossanesbót. Skemmdir urðu töluverðar á báðum skipunum. Er óhætt að fullyrða að þær nema mörgum hundruðum króna. Ekki hefði svona farið ef þau hefðu verið í skipakví.
Desember. Þurrt, nema syðst á landinu. Hiti í meðallagi.
Jónas segir af tíð:
Framan af mánuðinum var talsverður kuldi; úr 16. fór að hlýna, og hefur síðan verið hlýtt veður og oftast lygnt. Að morgni h. 27., laust fyrir kl. 5, varð hér vart við einn snöggan jarðskjálftakipp.
Austri segir af desembertíð:
[16. - lýsing dagsett þann 15.] Tíðarfarið hefir verið ákaflega stirt undanfarandi, fyrst snjókomur miklar, og síðan frosthörkur, og mun víða vera jarðbann. Mun líklega ekki veita af hinum góðu heybirgðum frá sumrinu, ef þessum harðindum heldur áfram. Síðustu daga samt frostlaust.
[31.] Tíðarfar fremur óstillt og frostasamt, en þó mun nú jörð uppi í flestum sveitum.
Þjóðviljinn segir af tíð:
[1.] Tíðarfar fremur umhleypingasamt í þessari viku, ýmist rigningar. eða væg frost, og stórviðri.
[9.] Í þessari viku hafa hér syðra haldist stillviðri all-oftast, og talsverð frost, allt að 11 stigum á R. Norðurljósin hafa að undanförnu leikið sér leiftrandi um himinhvolfið á kvöldin, og ætti enginn að neita sér þeirrar sjónar stutta stund.
[15.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út, hafa haldist stillviðri, og all-miklar frosthörkur, uns úr frostinu dró í gær.
[22.] Tíðarfar fremur hagstsett. Síðustu dagana hæg votviðri.
[29.] Einkar mild veðrátta hefir haldist um jólin, og jörð öll marauð, enda getur naumast heitið, að snjó hafi fest á láglendi hér syðra þann tíma vetrar, sem liðinn er. ... Jarðskjálftakipp, all-snarpan, varð vart við að morgni 27. þ.m., kl. nær 6; munir hristust, en féllu þó ekki.
Vestri segir frá:
[17.] Pollinn allagði um fyrri helgi og fyrrihluta þessarar viku. Var það svo háll og spegil-sléttur ís að fágætt þótti. Hugðu margir gott til glóðarinnar, að skemmta sér á skautum þegar ísinn væri orðinn traustur, einkum ef hann héldist fram yfir hátíðar. En nú eru þessar vonir úti. Ísinn tók burt á einni nóttu og er nú Pollurinn alauður og engin von um skautasvell í bráð.
[31.] Jólaveðrið hefir verið aðdáanlega fagurt og skemmtilegt. Stillur, frostleysa og heiðríki með tunglsljósi, og minnast fáir að þeir hafi lifað skemmtilegri jól að því er veðrið snertir.
Þjóðviljinn birti þann 13.janúar 1905 bréf úr Árneshreppi á Ströndum, dagsett 11.desember:
Tíð hefir verið hér framúrskarandi vond, síðan viku eftir göngur, og öðru hvoru haglaust fyrir allar skepnur, síðan um veturnætur. Virðist tíðarfarið helst benda á, að hafísinn sé nálægur, enda þótt hann sé ókominn enn. Mest frost voru hér 12 stig, um næstliðin mánaðamót.
Þjóðólfur birti þann 25.janúar 1905 bréf úr Austur-Barðastrandarsýslu, dagsett 28.desember:
Vorið næstliðna var ákaflega kalt og hríðasamt, og útlit illt um tíma með heybirgðir, en úr því rættist þó furðu vel. Þegar sumarið gekk í garð fyrir alvöru var veður hið indælasta dag eftir dag, snjóinn leysti, gróðurinn þaut upp í vorblíðunni og sólin sendi geisla sína til að endurlífga grös og jurtir og færa hina kæru fóstru vora í græna möttulinn og lífga allt, sem lifnað gat í skauti hennar. Grasspretta varð í betra lagi, og sumarið með staðviðrum sínum og sólbjörtu dögum átti sinn þátt í því, að heyafli bænda varð í betra lagi. Seinast í september skipti um veðuráttufar. Stormar, snjóar og illviðri skiptust á í allt haust og vetur, þar til eftir miðjan desember að brá til þíðu. Hagi er því hinn besti.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1904. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2019 kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2019 | 16:53
Hlýtt í Hólminum (og víðar)
Ritstjórinn sér að hámark dagsins hefur náð 18,3 stigum í Stykkishólmi (þriðjudag 14.maí). Það er það mesta sem sjálfvirka stöðin þar hefur mælt í maí (18,1 stig mældist 30.maí 2004). Ekki vantar nema 0,1 stig upp á síðariáramet mönnuðu stöðvarinnar, 18,4 stig, en sá hiti mældist líka 30.maí 2004. Ein hærri maítala er til úr Hólminum frá eldri tíma, þann 27.maí 1901 voru 19,9 stig á hámarksmælinum. Reyndar var hámarkshiti á þeim tíma aðeins mældur einu sinni á sólarhring, kl.8 að morgni (9 að okkar tíma) og hitinn er því frá deginum áður, 26.maí. Þann dag fór hiti í 20,2 stig í Reykjavík. [Gaman að velta vöngum yfir gömlum hitabylgjum]. En hiti dagsins í dag í Hólminum er sá hæsti sem mælst hefur þar svo snemma vors (sýnist ritstjóranum).
En hæsti hiti dagsins til þessa á landinu eru 19,9 stig (á Végeirsstöðum i Fnjóskadal og við Mývatn) - rétt vantar á að tuttugustigamúrinn hafi verið rofin í fyrsta sinn á árinu.
Viðbót - skrifuð 15.maí:
Í ljós kom að hiti fór í 20,4 stig á Torfum í Eyjafirði í gær (þriðjudag 14.maí). [Stöðin var í sendingarverkfalli síðdegis og fram á morgun - en skilaði síðan sínu]. Það voru þar með fyrstu 20 stig ársins 2019 á landinu. Svo fór hiti í 20,1 stig á Sauðárkróksflugvelli í dag, 15.maí. Í pistli hungurdiska þann 23.júní 2014 var fjallað um það hvenær vors 20 stigum er fyrst náð á landinu - að meðaltali. Meðaldagsetning áranna 1997 til 2014 er einmitt 14.maí - en miðgildisdagur (jafnoft fyrir og eftir) er 17.maí. Koma fyrstu 20 stiga ársins 2019 telst því í meðallagi. Það er svo annað mál að þessi dagur hefur birst fyrr á þessari öld heldur en áður var að jafnaði - virðist muna um það bil viku.
Vísindi og fræði | Breytt 15.5.2019 kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2019 | 16:40
Stundum sleppum við vel
Þó heldur kalt hafi verið undanfarna daga, sérstaklega um landið norðaustanvert, er samt ekki hægt að segja að illa hafi farið - en litlu munar. Ritstjóri hungurdiska hefur stöku sinnum minnst á það sem hann (en enginn annar) kallar þverskorna kuldapolla. Sá sem við sjáum á kortinu hér að neðan er að vísu ekki mjög öflugur - og kannski ekki alveg fullkominn að gerð heldur - en samt.
Þetta kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir á miðnætti síðastliðna nótt (aðfaranótt laugardags 11.maí). Háloftalægð - (kuldapollur) er fyrir norðaustan land. Litirnir sýna hér hæð 500 hPa-flatarins (ekki þykktina), en jafnþrýstilínur sjávarmálsþrýstings eru heildregnar. Eins og sjá má liggja þær um kuldapollinn þveran. Ekki sérlega öflugt kerfi - en nægir samt til þess að búa til leiðindaveður fyrir norðaustan land í dag (laugardag).
Hér má sjá spá reiknimiðstöðvarinnar fyrir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu sem gildir kl.18 síðdegis í dag, laugardag. Mikil leiðindi á ferð vestan og suðvestan við Jan Mayen, í nótt á brúnin á þessu veðri rétt að strjúka norðausturströndina - en svo virðist sem við sleppum annars vel. Stormur og mikið hríðarveður er í norðvestanáttinni - alvöru vorhret - sem við hefðum fengið á okkur hefðu kerfi og þróun verið um 500 km sunnar en reyndin er.
Tilviljun ræður hér mestu - við fáum svona veður auðvitað yfir okkur endrum og sinnum á þessum árstíma - en segjum nú bara sjúkk.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010