Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

Landsmeðalhiti í maí

Nú er óhætt að líta á landsmeðalhita maímánaðar og samanburð við fyrri ár. Fremur svalt hefur verið í veðri um landið suðvestanvert, en góð hlýindi norðaustanlands - nánast óvenjulegt hversu viðsnúinn hitinn hefur verið. Úrkoman hefur líka verið óvenjumikil um landið vestanvert, og ekki hefur hana heldur skort annars staðar. Loftþrýstingur líka næsta lágur. 

En meðalhiti í byggðum landsins í heild er ekki lágur, reiknast 5,9 stig, sjónarmun hærri heldur en meðalhitinn í Reykjavík. Slíkt er líka óvenjulegt í maí - og við könnum það síðar þegar alveg endanlegar tölur liggja fyrir (í metingsleikjum viljum við jafnvel meiri nákvæmni en staðið verður undir). 

w-blogg310518c

Línuritið sýnir landsmeðalhita maímánaðar aftur til 1874 (og líka um 50 ár fyrir þann tíma - en þær tölur eru varla hafandi eftir). Við sjáum að maí 2018 er nokkuð hlýr í langtímasamanburði, talsvert kaldari að vísu en maí í fyrra, en samt 0,1 stigi ofan við meðallag síðustu tíu maímánaða - og sá sjöttihlýjasti á öldinni (af 18). Já, sá sjöttihlýjasti á öldinni. - Þessu er öðruvísi farið á Suðvesturlandi - þannig að vegið meðaltal af upplifun landsmanna á hitanum er væntanlega nokkuð neðar á lista. 

Á hitalista sem nær til allra maímánaða frá 1874 er sá sem nú er rétt að líða í 40.sæti af 145. Munar mest um „klasa“ hlýrra maímánaða á árunum 1928 til 1947, en á þeim 20 árum voru 11 maímánuðir hlýrri en nú. 

Hlýjastur maímánaða frá 1874 er enn 1935, meðalhiti þá reiknast 7,6 stig, kaldastur var hins vegar maí 1979, meðalhiti 0,1 stig. Hugsanlega var enn kaldara í maí 1866. Maí 2017 er enn sá hlýjasti á þessari öld, meðalhiti hans var 7,4 stig, kaldastur það sem af er aldar er maí 2015, meðalhiti hans var 3,4 stig (mjög hlýr miðað við 1979). 

Maíhitinn virðist vera nokkuð frjáls - hirðir lítt um hvernig mánuðurinn hegðaði sér árið áður - eða hver almenn hitatíska er á hverjum tíma. Maí 2019 gæti því tekið upp á hverju sem er - við bíðum eftir því. 

En útaf stendur að hringrás mánaðarins (þrýstingur og vindáttir) var næsta óvenjuleg og rétt að athuga hvort eitthvað ámóta hefur átt sér stað áður. Sú athugun bíður síðari pistils. 


Reikað um á sjávarhitahillunni

Við lítum á sjávarhitavikakort dagsins frá evrópureiknimiðstöðinni (29.maí). Ekki kemur fram á kortinu við hvaða tímabil vikin eru miðuð - en líklega síðustu 20 árin eða svo - það skiptir ekki öllu máli hér.

w-blogg300518a

Litirnir sýna vikin - nema á hafíssvæðum - þar sýna blágrænir tónar hafísþéttleika. Rauða línan á þeim slóðum sýnir meðalútbreiðslu hafíss á þessum tíma árs. Neikvæð vik eru blá og græn, þau mestu suðaustur af Nýfundnalandi og þaðan í stefnu til norðausturs. Jákvæð vik eru sýnd gul, brún og rauð, langmest í Eystrasalti og þar um kring, en einnig eru allmikil jákvæð vik langt suður í hafi og fyrir norðan Ísland.

Neikvæðu vikin suðvestur í hafi eru heldur stærri en þau voru seint í vetur - yfirborð sjávar virðist hafa hlýnað heldur hægar með vori en venjulega á þessum slóðum. Margs konar ástæður geta verið fyrir vikadreifingu sem þessari og varla nokkur leið í fljótu bragði að vita hver þeirra er sú rétta - e.t.v. sambland - eða þá eitthvað sem alls ekki er nefnt. 

Nefnum nokkrar ástæður.

1) Straumar úr norðri eru öflugri eða kaldari en venjulega - það er að segja - kuldinn er aðkominn. Lögun vikanna rétt fyrir austan Nýfundnaland gæti gefið til kynna að þar hefi eitthvað slíkt átt sér stað. (Með góðum vilja má þar sjá bókstafinn d). Vetrarís var með meira móti við Vestur-Grænland í vetur og þetta er einmitt leið ísleifa og bráðar úr honum. Þetta er til þess að gera ferskur sjór og sekkur ógjarnan þó kaldur sé. Hér við land fáum við stundum heimsóknir af þessu tagi úr Austur-Grænlandsstraumnum. Sumir segja að ástæða þess að ísinn hafi verið með meira móti á þessum slóðum sé sú að mikil sumarbráð úr Grænlandsjökli undanfarin ár hafi safnast saman og yfirborðslög á þessum slóðum því orðið ferskari en áður um nokkra hríð - auðveldara er fyrir ís að myndast í slíku lagi en í fullsöltum sjó og auki blandast það síður. 

2) Þrálát norðvestanátt í vetur og vor hefur kælt yfirborð sjávar sunnan Grænlands og veldur vikunum. Í fljótu bragði kann að virðast einkennilegt að vikin séu þá ekki stærst vestast - en það er í raun eðlilegt. Þegar kemur út fyrir strandstrauminn við Labrador (sem er tiltölulega ferskur) verður fyrir hafsvæði þar sem sjór er heldur saltari og getur sokkið kólni yfirborðið niður fyrir 2 til 3 stig - það er einmitt hinn „eðlilegi“ sjávarhiti á þeim slóðum. Það er því þykkt lag sem kólnar og veltur - jafnvel 1000 metra þykkt. Um þetta var fjallað nokkuð ítarlega í gömlum pistli hungurdiska og árstíðasveifla veltunnar kynnt. Austar er yfirborðssjórinn hins vegar ekki nægilega kaldur til að geta misst flot. Þar kólnar venjulega aðeins þunnt lag. Venjulega segjum við því að séu hvassviðri þrálát getur kuldinn borist neðar. 

3) Svo skýjað hefur verið á svæðinu í vor að sólarvarmi hefur ekki náð að hita yfirborð sjávarins eins mikið og venjulega. Þetta er auðvitað möguleg skýring - en ritstjóra hungurdiska finnst hún ekki sérlega líkleg - vegna þess hversu vestanáttin kalda hefur verið þrálát. Þar með verða ský frekar að bólstrum heldur en breiðum og sól nær til yfirborðs á milli bólstranna. Seinkun vorhitunar vegna skýja gæti hins vegar frekar átt sér stað í sunnanátt - en líka í vestanátt seinna í sumar. 

Ástæða neikvæðu vikanna er því að þessu sinni líklega einhver blanda af 1) og 2) hér að ofan. Ritstjórinn er þeirrar skoðunar (en það er bara skoðun) að 2) sé mun veigameiri að slepptum lykkjunum við Nýfundnaland. Hann er líka þeirrar skoðunar að venjuleg vorsólarhitun hafi átt sér stað - en vindblöndun hafi falið hana. Sólarylurinn á vorin hitar mjög þunnt lag - rétt eins og sést vel í stóru jákvæðu vikunum við Danmörku. Hvöss vestanáttin hefur hins vegar séð til þess að koma sólarvarmanum niður - við eigum hann á lager til næsta vetrar - rétt eins og venjulega. 

Vestanátt var mjög þrálát á svæðinu sunnan Grænlands í vetur. Hún er mjög köld, loftið hefur kólnað yfir heimskautasvæðum Kanada. Mikil orka hefur farið í að hita það upp - við höfum auðvitað notið þess. Ef sjávarins nyti ekki við væri vetrarútsynningurinn miklu kaldari hér heldur en hann er. En varmi berst frá sjávaryfirborði í kalt loft á tvennan hátt (reyndar fleiri - en látum það vera). Í fyrsta lagi með snertingu lofts og yfirborðs, en líka við uppgufun sjávar. Uppgufun er mjög orkuríkt ferli sem kælir yfirborðið - vatnsgufan sem myndast inniheldur mikinn dulvarma. Sá dulvarmi skilar sér síðan í loftið þegar rakinn þéttist sem úrkoma. Úrkomugusurnar sem gengið hafa hér yfir hafa - í þéttingarhæð - skilað miklu af varma sjávar til loftsins (en langt fyrir ofan okkur). Þetta hlýja loft hefur síðan borist til austurs og norðurs í háloftunum - og ekki er ótrúlegt að hlýindin í Skandinavíu séu að hluta til því að þakka. Niðurstreymið austan úrkomunnar leysir upp ský og auðveldar sólinni að skína þar - og hún sér um að hita yfirborð jarðar og þar með neðri loftlög mun meira en venjulega. 

Kaldur og fyrirferðarmikill loftstraumur úr vestri breytir þar að auki legu háloftastrauma, vindátt verður suðlægari en ella austast í Atlantshafi (jafnvel líka hjá okkur) - og þar með berst meira af hlýju lofti til Vestur-Evrópu en annars. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli á hvaða tíma árs hlýnun af völdum dulvarmalosunar á sér stað á þessum slóðum. Að vor- og sumarlagi veldur heiðríkja háloftahlýinda því að inngeislun sólar nýtur sín og háloftahlýindin stuðla óbeint að hlýindum við yfirborð - að vetrarlagi kólnar meira í heiðríkjunni heldur en í skýjuðu. Afleiðingarnar eru því gjörólíkar. 

Á kortinu er einnig mjög hlýtt svæði langt suðvestur í hafi (bókstafurinn c). Þarna hefur sólin greinilega fengið að vinna sína vinnu við hitun yfirborðs í friði. Við höfum hins vegar ekki græna glóru um það hversu þykkt þetta hlýja lag er. Kannski er frekar kalt undir því. Svipað á við um svæði neikvæðra vika vestur af Spáni - það nær reyndar til suðurs með Afríku vestanverðri og þaðan vestur í haf. Við vitum ekki hvort kuldinn er afleiðing af því að sjór sé raunverulega kaldari á þessum slóðum en venjulega (jú - yfirborðið er það enginn neitar því) - eða hvort hitastigull með dýpi er eitthvað öðruvísi en venjulega - blöndun sé meiri en venjulegt er. Sé svo er varminn í raun og veru allur á sínum stað - en hefur dreifst betur (lóðrétt) en oftast er. Vegna þess að hlýr sjór er léttari en kaldur (miðað við sömu seltu) gæti þessi yfirborðskuldi horfið á svipstundu - dragi úr vindi.

En niðurstaðan á að vera sú að margs konar staða getur leynst að baki sama sjávarhitavikakortsins. Slíkt kort getur eitt og sér verið nokkuð misvísandi - og túlkun margræð. 


Hlýtt norðaustanlands

Nú fór hiti í Ásbyrgi í 24,3 stig - þetta er (sýnist ritstjóra hungurdiska) að sé hæsti hiti þar á bæ í maímánuði - og jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á sjálfvirkri veðurstöð í maí (ekki hefur ritstjórinn þó enn gert smásmugulega leit). En nokkuð vantar enn upp á hæsta hita sem nokkru sinni hefur mælst í maí hér á landi. Það voru 25,6 stig sem sýndu sig á hámarksmælinum á Vopnafirði 26. dag mánaðarins 1992. Ég held að nimbus hafi nýlega tekið eitthvað saman um þá hitabylgju (gæti misminnt). 

Þann 28. árið áður fór hiti í 25,0 stig á Egilsstöðum, þann 22. árið 1980 fór hiti í 24,6 stig á Akureyri og í 24,4 stig á Hallormsstað þann 11.maí árið 1941 - eru þá tilvik daga hærri maíhita en nú talin (að því best er vitað).

Þar til pistill um fyrstu 20 stig að vori verður endurnýjaður geta menn rifjað upp þann gamla.


Svipað áfram - eða?

Svo virðist sem hlýrra verði í komandi viku heldur en verið hefur - sérstaklega þá á Norðaustur- og Austurlandi. Þeirra hlýinda mun væntanlega gæta minna hér um landið suðvestanvert vegna þrálátra suðvestlægra átta. Korti dagsins er ætlað að sýna í grófum dráttum hvað er á seyði.

w-blogg270518a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd í litum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þetta kort er aðeins öðruvísi en þau sem við oftast höfum fyrir augunum að því leyti að hæðar- og þykktargildi eru meðaltöl 50 spáa sem evrópureiknimiðstöðin hefur gert og gilda allar síðdegis á fimmtudag 31.maí. Ef vel er að gáð má sjá á kortinu daufar strikalínur. Af þeim má ráða eins konar óvissu í spánni - vísi um það hversu mikið spárnar 50 greinir að um hæð flatarins í hverjum punkti. Óvissan er greinilega mest nærri lægðarmiðjunum tveimur suður í höfum - trúlega er bæði óvíst hvar þær verða - og einnig greinir spárnar að um það hversu öflugar þær eru. 

Hér takast fjögur kerfi á. Í fyrsta lagi hæðin hlýja við Suður-Noreg. Litlu munar að hlýindi hennar nái hingað til lands. Suður í hafi er önnur hlý framsókn - austan við lægðina við Nýfundnaland. Á milli hlýindanna er söðull - hvorug hlýja framsóknin nýtist okkur að marki svo lengi sem við sitjum í eða mjög nærri honum. Kalda loftið er síðan enn nokkuð öflugt vestan Grænlands og sækir líka að - þó því sé ekki beinlínis spáð yfir okkur veldur nærvera því samt því að hlýja loftið úr suðri á engan veginn greiða leið til okkar - sæki það nær vex vestanáttin í háloftunum til muna - og venjulega táknar slíkt dumbungsveður um landið vestanvert - og endar slíkur leikur oftast í kaldri norðanátt á þessum tíma árs. 

En lítum líka á „aðalspá“ evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir sama tíma (síðdegis á fimmtudag):

w-blogg270518b

Við sjáum hér öll sömu atriði og á fyrri mynd - en þó er sá munur að hér er dálítill kuldapollur norðan söðulsins fyrir sunnan land. Hvað skyldi sá blettur vera að gera af sér? 

Og við lítum líka á álit bandarísku veðurstofunnar:

w-blogg270518c

Hún hefur líka fundið kuldapollinn litla - hann er trúlega raunverulegur - en meðalspáin segir okkur að hann geti verið hvar sem er á nokkuð stóru svæði. 

Öll kortin eru þó sammála um að við verðum í gula þykktarlitnum - þeim sem táknar sumarið. Það er sum sé mætt á svæðið og spár segja að hiti fari vel upp fyrir 20 stig norðaustanlands næstu daga. 


Af árinu 1896

Ekki þótti 1896 vera hart ár á sínum tíma, en tíð aftur á móti afskaplega óhagstæð. Þar komu þrálátar úrkomur mest við sögu. Meðalhiti í Reykjavík var ekki nema 3,9 stig, en samt 0,3 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Við sem nú lifum fengum síðast svona kalt ár árið 1995, þá var meðalhiti í Reykjavík 3,8 stig. Á landsvísu teljast þrír mánuðir ársins í hlýja flokknum, febrúar, maí og desember. Reyndar voru ekki margir febrúarmánuðir 19. aldar hlýrri, þessi var sá hlýjasti í 24 ár. Sex mánuðir voru kaldir á landsvísu, mars - og síðan allt sumarið, júní, júlí, ágúst og september. Að tiltölu varð október þó langkaldastur. Síðustu 200 árin finnast aðeins þrír kaldari, einn með fullri vissu, 1917, hinir í nokkurri grámóðu óvissunnar, 1824 og 1855. 

Hæsti hiti ársins mældist á Teigarhorni 2.ágúst, 23,5 stig. Allmargir hlýir dagar virðast hafa komið um landið austanvert um sumarið (meðan Suðvesturland sat í sudda), en því miður voru engar opinberar mælingar gerðar á Fljótsdalshéraði eða á norðanverðum Austfjörðum. Mesta frostið mældist í Möðrudal þann 19.janúar, -30,7 stig. Þann sama dag fór frostið á Akureyri niður í -24,9 stig og -18,0 í Reykjavík, næsta óvenjulegt. 

ar_1896t-rvk

Fyrir utan fáeina daga er samt varla hægt að tala um frostamikið ár. Leit ritstjóra hungurdiska að köldum dögum í Reykjavík skilaði aðeins fimm slíkum, tveimur í janúar, tveimur í júní, þá var næturfrost þann 1. og 2. og einn mjög kaldur dagur fannst í ágúst (24.). Í Stykkishólmi fundust einnig sex mjög kaldir dagar, þrír í janúar, tveir í ágúst og einn í október. Einn hlýr dagur kom fram í Reykjavík, 9.ágúst, en hámarkshiti varð þó ekki nema 16 stig, en lágmarkið óvenju hátt, 12,6 stig. 

En úrkoman var mikil. Þann 23.febrúar mældist hún t.d. 50,1 mm í Stykkishólmi, með því mesta sem þar gerist og sama dag 48,2 mm í Reykjavík, líka með því mesta sem gerist. Þá gekk ofsaveður yfir Austurland. Sama var á Teigarhorni, þar fór úrkoman tvisvar upp í eitthvað sem telst óvenjulegt (meir 6 prósent af ársúrkomu á einum sólarhring), það var 13.júní, þegar 108,1 mm mældust og 3.desember, 83,4 mm. 

Lægsti loftþrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 19.febrúar, 951,1 hPa, en hæstur á Teigarhorni 8.janúar 1050,3 hPa. 

ar_1896_01-08-12_1000

Kortið sýnir hæðina miklu 8.janúar. Endurgreiningin bandaríska nær henni vel. Athugið að tölurnar sýna hæð 1000 hPa-flatarins, 400 metrar jafngilda 1050 hPa, en 0 metrar 1000 hPa. Það er ekki mjög oft sem þrýstingur er ofan við 1000 hPa á jafnstóru svæði í kringum Norður-Atlantshaf í janúar (ritsjórinn þykist þó muna fleiri dæmi). Það er aðeins á litlu svæði milli Labrador og Grænlands þar sem þrýstingurinn er lægri en 1000 hPa. Í hinni endurgreiningunni bandarísku er svæðið lítillega stærra. 

Þessi mikla hæð entist ekki lengi, hún hörfaði strax til Bretlands, en þar var háþrýstingur viðloðandi með köflum næstu vikurnar og sá um hlýindin og ókyrrðina hér á landi í febrúar. 

Ísafold fjallar 10.janúar 1897 um árið 1896:

Landskjálftarnir og fleiri áföll valda því, að árið 1896 mun lengi bera lakan orðstír í sögu landsins. Árið á undan (1895) var eitthvert besta ár á öldinni að tíðarfari hér á landi; en þetta nýliðna ár var raunar engan veginn harðindasamt, en tíðarfar samt mjög óhagstætt yfirleitt, einkanlega fyrir óþurrka sakir að sumrinu og hrakviðra haustið og veturinn fram til áramóta. Framan af árinu, veturinn í fyrra, var og óvenju-rigningasamt, en frostalítið. Rigningaárið mikla mundi það sjálfsagt hafa verið kallað, árið 1896, ef ekki hefðu landskjálftarnir komið og tekið að sér langsamlega að ráða heiti þess í annálum vorum.

Sakir sumaróþurrkanna varð heyskapur rýr og ónotasæll. þar við bættist enn mesta fiskileysi við helstu veiðistöð landsins, Faxaflóa, eins og árið fyrir, og þar á ofan í Árnessýsluveiðistöðunum að meiru leyti. En líklega meðalár austanlands og vestan til sjávarins. Það er, á opnum bátum. Á þilskip aftur yfirleitt mikið góður afli. Verslun sæmilega góð að verðinu til, einkum útlend nauðsynjavara með vægu verði. Auk landskjálftatjónsins, einhvers hins mesta síðan land byggðist, beið landið þungar búsifjar af yfirgangi útlendra fiskimanna, botnverpinganna ensku, og er því miður síður en eigi séð fyrir endann á þeim ófögnuði enn.

Janúar: Nokkuð hagstæð tíð og ekki illviðrasöm. Fremur kalt, einkum um miðjan mánuð.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíðarfari í mánuðinum (dagsetningar í hornklofum):

[16.] Frá 4. - 11. þ.m. gengu hér suðvestan rosar, og rigningar öðru hvoru, en 12.þ.m. sneri til snjóa og norðanáttar; hafa og síðan verið frost nokkur, 13 stig á R., og norðanbylur síðustu dagana.

[24.] Norðanhretið, sem hér hófst 12.þ.m. stóð í samfellda viku, og var oft svartur bylur, og frosthörkur all-miklar, allt að 11 stigum á Reaumur; 20. þ.m. gerði gott veður í svip, en reif sig upp aftur daginn eftir, og hafa síðan oftast verið ofsaveður og hríðar, og mjög óstöðug og hættuleg tíð til lands og sjávar.

[31.] Tíðarfarið hefir nú um hríð verið mjög umhleypinga- og stormsamt, skipst á snjóar og rigningar, norðan- og suðvestanhríðir. svo að vart hefir komið kyrr stund.

Þjóðviljinn ungi birtir 13.mars bréf úr Rangárvallasýslu dagsett 21.janúar: „Í vetur hefir verið mild tíð undir hinum sólsælu Eyjafjöllum; um jólin og nýárið voru vel ræktaðir túnblettir algrænir, en nú eru komin harðindi, og á jólaföstu var snjór mikill um tíma“. Og af Fljótsdalshéraði 31.janúar: „Tíðin ágæt; menn muna varla snjóléttari vetur hér á Héraði, því þótt tvisvar hafi snjóað nokkuð í vetur, hefir hlánað jafnharðan aftur“.

Þjóðólfur birti 14.febrúar bréf úr Dalasýslu dagsett 29.janúar:

Tíðin hefur síðan um þrettánda verið heldur úfin, snjókomur og rigningar, en stundum stormar, en þangað til vóru líka miklar blíður.

Febrúar: Miklir umhleypingar og skiptust á regn og hríðar. Mjög úrkomusamt vestanlands. Fremur hlýtt.

Ísafold birtir veðuryfirlit fyrir janúar og febrúar í Vestmannaeyjum 25.mars (stytt hér):

Vestmannaeyjum 12. mars. Í janúarmánuði var veðrátta köld frá þeim 10. til þess 28. ... Febrúarmánuður var aftur á móti hlutfallslega mjög heitur, aðeins 8 sinnum næturfrost ... Úrkoma var nálega á hverjum degi, alls 140 millimetrar. Vindstaða var nálega allan mánuðinn á sunnan eða suðvestan, sömu vindstöður voru einnig tíðastar í janúar. Það sem af er þessum mánuði [mars] hafa verið sífeld frost, mest rúm 11° aðfaranótt þess 9. Dagana 8. og 9. voru stormviðri á norðan og vestan með býsnamikilli snjókomu og skafbyl.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í febrúar í nokkrum pistlum:

[8.] Það, sem af er þessum mánuði, hafa haldist stöðugir umhleypingar, og dyngt niður kynstrum af snjó, svo að hvívetna eru nú hagleysur, og ófærðir mestu á landi.

[20.] Sömu ofsarnir og umhleypingarnir, sem verið hafa, síðan um þrettándann, haldast enn, og slotaði aðeins í svip 12.—15. þ.m., en síðan hafa aftur gengið rosar og rigningar.

[26.] Tíðarfar sífellt mjög óstöðugt og veðrasamt, ýmist stórrigningar eða fannkomur, og væri óskandi að góan yrði nú ögn stilltari en þorrinn.

Austri segir frá þann 21.febrúar:

Tíðarfar er alltaf mjög milt, og snjókoma lítil, en áköf rigning og hvassviður mikið var hér í Fjörðunum 19. þ.m. Frost hafa verið hér svo lítil, að sumstaðar horfir til vandræða með að fá ís í íshúsin, og er það all-undarlegt á Íslandi. Hvergi hefir spurst til hafíssins ennþá, og er óskandi að sá voðagestur heimsæki oss eigi þetta árið.

Og sama blað segir þann 29. frá miklu illviðri sem gerði þar eystra sunndaginn 23.:

Ofsaveður gjörði hér á Austurlandi aðfaranótt sunnudags þ. 23. þ.m. sem einkum gekk hér yfir innri hluta Seyðisfjarðar með voðalegum krafti, og helst við allan fyrri hluta sunnudagsins þangað til stundu eftir hádegi, er því slotaði með ákaflegri rigningu. Dagana á undan hafði loftþungamælirinn staðið mjög lágt, en var heldur farinn að stíga upp á laugardaginn fyrir ofviðrið, svo menn voru farnir að vona, að hinn yfirvofandi stormur gengi að þessu sinni framhjá. Þó sagði oss hinn ágæti sjómaður, kaupmaður og kapteinn T.L. Imsland, storminn fyrir um nóttina, er vér áttum tal við hann síðast á laugardagskvöldið.

Framan af sunnudagsnóttunni var hér eigi hvasst, en fór að hvessa seinni hluta nætur, en undir daginn var veðrið komið í algleyming. Stóð veðrið af suðvestri innan úr dal, og æddi með ákaflegum krafti yfir Fjarðaröldu, en var miklu linara á Búðareyri og Vestdalseyri og utar í firðinum. En hér inn á Fjarðaröldu lék hvert einasta hús á reiðiskjálfi, og menn hristust til i rúmunum, og munu flestir hafa flýtt sér á fætur, því menn gátu búist við því að húsin fykju ofanaf þeim þá og þegar, í þessum ósköpum. En einstöku menn hlupu í kjallara þar sem þeir voru til, og höfðust þar við þar til mesta ofviðrið lægði. Í byljunum, sem voru svo ákaflega knappir, sem þeim væri skotið úr byssu - gátu menn eigi staðið, heldur urðu að fleygja sér niður, en sjóinn skóf svo sem blindbylur stæði út eftir „Kringlunni og „Lónið" rauk svo yfir húsin í „Tanganum“, að þau sáust eigi af árbakkanum í byljunum, fyrir vatnshríðinni sem yfir þau gekk, og eru þó aðeins fáir faðmar af árbakkanum og ofan í „Tangann".

Vegna hinna tíðu ofviðra hér á Seyðisfirði hafa flestir bæjarbúar hlera fyrir gluggum, og það varnaði víst því, að hús fykju hér fleiri, en varð, því mölin og grjótið gekk eins og stórhríð á húsunum á Fjarðaröldu, uppúr þeim íburði, er bæjarstjórn kaupstaðarins hafði látið bera í bæjargrunninn. En sá galli er á þessum gluggahlerum, að þeir ná óvíðast efst á rúðurnar, heldur er þar dálítil rifa skilin eftir, svo birta geti komist inn í húsin, er aftur þarf að hafa hlerana vegna ofviðris. Og þar komst bæjarstjórnarmölin að til að mölva gluggana fyrir allmörgum bæjarbúum, er bjuggu nálægt „Torginu". En stórskaðar urðu eigi að þeim rúðubrotum, af því að hlerarnir voru fyrir mestum hluta glugganna. Þá skekkti stormurinn nokkuð hús skósmiðs Andr. Rasmussens, er mölin hafði brotið glugga í, og stormurinn svo komist inn í og fleiri hús röskuðust svo, að hurðir fellu þar ekki að stöfum eftir ofviðrið.

Í veðrinu fauk allt sem ekki var því betur njörvað niður og grjótborið, og það mátti heita mannhætta að vera úti á götunum fyrir því, sem ofviðrið var að feykja hingað og þangað með áakaflegum hraða og krafti. Skemmdir urðu fjarska miklar að þessu ólátaveðri hér innan til í firðinum. Í Fjarðarseli reif timburþak af tveim heyhlöðum, og tók stormurinn annað þakið, í heilu líki og fleygði því langt útá tún og braut það. Þar reif og torfþök af heyjum og fauk og spilltist töluvert af heyjum. Í bænum Firði reif stormurinn þak af hlöðu og klauf baðstofuna að endilöngu. Hér niðri á Fjarðaröldu tók veðrið í loft upp og mölbraut myndatökuhús Eyjólfs skraddara Jónssonar, og tapaðist mest af því sem þar inni var geymt, og telur hann skaða sinn um 300 kr. Bát tók á loft inn af húsi Stefáns Th. Jónssonar, og feykti ofviðrið honum á húsið, ofan við glugga, og braut nokkuð ytri klæðninguna, og molaðist báturinn síðan í smáagnir. — Nokkur hluti af slátrunargálga og gamall bátur fauk af lóð stórkaupmanns V. T. Thostrups. — Geymsluskúr fauk úr „Tanganum" frá Lárusi barnakennara Tómassyni, svo ekkert sást eftir af honum, nema kolin sem í honum voru.

Annar geymsluskúr fauk frá húsi Skapta Sveinssonar útá sjó, með talsverðu af munum í, er hann og tengdasonur hans, Kristján Jónsson, áttu, og er það tilfinnanlegur skaði fyrir efnalitla menn. Allstór kjötskúr, er stóð rétt innan við söluhúð kaupmanns Sig. Johansons, fauk í veðrinu og brotnaði í spón. Fleygðust brotin úr honum á búðina, og skemmdu hana töluvert. Báðir málþræðirnir slitnuðu. Framantil á Búðareyri var sama ofsaveðrið sem hér á Öldunni, og tók þar upp hinn gamla ferjubát Einars Pálssonar á Ósi, og flutti hann i loftinu langa leið neðan frá sjó, rétt framhjá húshorni bókhaldara Bjarna Siggeirssonar, og beint á geymsluskúr, er Bjarni geymdi hey í, og mölbrotnaði skúrinn, og fuku spítur og hey sem hráviður út um alla Búðareyri, og var það allmikill skaði, er Bjarni varð þar fyrir.

Það má nokkuð marka ofurafl stormsins á því, að hann sleit upp barkskip O. Wathnes, er lá hér á „Kringlunni" fyrir landfesti og afarsterkri akkerisfesti, er slitnaði þó í sundur rétt upp við borðstokk, þar hún var hérumbil 3 þml. að þvermáli. Barkinn rak svo út fyrir Vestdalseyri, útað húsum þeim, er Grude kaupmaður á, og lagðist þar upp að þeim, að menn halda óskemmdur. Margar aðrar skemmdir urðu hér á Fjarðaröldu, t.d. á girðingum, reykháfum o.fl., sem of langt yrði hér upp að telja. Hefir þetta veður komið hér einna mest á síðari árum, því byljirnir voru svo ákaflega knappir og harðir, og komu sem örskot, svo eigi var annað undanfæri, en fleygja sér niður, ef þeir náðu manni útá víðavangi; en slys urðu þó engin á mönnum í ofviðrinu, það er til hefir spurst.

Á Melstað hér útí firðinum raskaði ofviðrið enda af húsi Jóns útvegsbónda Vestmanns, er hann hafði bætt við það í haust, en feykti eigi. Víða annarsstaðar að hefir frést, að mjög hafi verið hvasst á sama tíma og hér, en hvergi nálægt því eins og hér innan til í Seyðisfirði, enda litlir skaðar tilspurðir annarsstaðar frá nema af Vopnafirði. Daginn eftir, þ. 24. þ.m., var hér hið blíðasta veður, sólskin og stillilogn, og sást þá nálega annar hver maður, er um bæinn gekk, með rúður undir hendinni, en allir ofboð glaðir yfir að hafa komist  klakklaust frá þessum himnaspretti.

Góð tíð var í Skagafirði að sögn bréfs sem dagsett var þar 22.febrúar og birtist í Þjóðólfi 17.mars:

Tíðin hefur verið hin indælasta, sífelldar hlákur og blíða, ár eru orðnar íslausar út í sjó, og oft í flóðum, eins og á vordag.

Mars: Hagstæð tíð eftir nokkuð stríða norðanátt fyrstu vikuna. Fremur kalt.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 13. og 21.

[13.] [Þ.] 5. þ.m. gerði að nýju norðanhret með allt að 10 stiga frosti, og fannkomu nokkurri, og hélst það hret til 9. þ.m., en síðan hefir verið nokkru stilltari veðrátta, og hrein og köld norðanátt. Hafís. Nokkra hafísjaka hefir rekið hér inn Djúpið undanfarna daga, og liggur nú hafíshroði hér úti fyrir öllum norðvesturkjálka landsins, allt vestur fyrir Önundarfjörð að minnsta kosti, og þykir trúlegt, að allir firðir séu nú fullir af hafís fyrir norðan land.

[21.] Tíðarfar enn mjög óstöðugt, dimmviðri, þokur og éljahríðir, en þó oftast frostlaus veðurátta. Hafís. Eftir því sem fréttist nú í vikunni norðan af Hornströndum, og úr Steingrímsfirðinum, þá var Húnaflói allur orðinn fullur af hafís, svo að naumast sá í auða vök.

Jónas Jónassen segir þann 21.: „Mesta veðurhægð undanfarna viku, oftast bjart og fagurt veður. Í morgun (21) logn og fegursta veður“, og þann 28. segir hann: „Undanfarna viku hefir verið besta vedur; snjór fallið við og við einkum aðfaranótt h. 27. og þann dag var hér logn og við og við ofanfjúk. Í morgun (28.) logn og bjart veður“.  

Í Ísafold 6.maí er greint frá því að í Vestmannaeyjum hafi fyrstu 10 dagar marsmánaðar verið kaldir en úr því hafi veðrátta þar verið hlý með nær samfelldum sunnanáttum. Veðrátta hafi ekki verið mjög stormasöm í mars og sjógæftir því oftast góðar fram að bænadögum (skírdagur var þann 2.apríl). 

Apríl: Óstöðug, en ekki erfið tíð. Hiti í meðallagi.

Þjóðviljinn ungi segir þann 24. frá hvassviðri þann 16.:

Þilskipið „Karen", eign Tangsverslunar, sem sent hafði verið með salt út i Bolungarvík, varð að höggva mastrið þar á Víkinni i ofviðrinu 16. þ.m., með því að það myndi ella hafa rekið þar í land. 

Bréf frá Seyðisfirði, dagsett 23.apríl (fyrsta sumardag), birtist í Ísafold þann 20.maí:

Kveðja vetrarins hina síðustu dagana hefir ekki verið amaleg, og að sama skapi gengur sumarið í garð með hinni indælustu veðurblíðu. Láglendi allt er nú að kalla örsnjóa, og þegar farið að verða lítið eitt aflavart. Hafís hefir fyrir nokkrum dögum sést hér úti fyrir norðanverðum Austfjörðum og rak töluvert af honum inn a Borgarfjörð; annars halda menn, að hafís sá, er kominn er, sé alls ekki mikill. Ísalög á landi hafa svo sem aldrei verið nein í vetur; má svo að orði kveða að hörgull hafi verið á ís til íshúsanna, en þó munu á endanum hafa fengist nægar sumarbirgðir.

Ísafold birti 16.maí bréf úr Strandasýslu (miðri) dagsett 4.maí:

Fram yfir sumarmálin voru kuldar og smáuppþot, en síðan hefir tíðin farið dagbatnandi og er nú snjór að mestu leystur í byggð; hefir veðráttan verið einkar hagstæð síðan um skipti, með því úrfelli hafa verið lítil og veður oftast lygnt. Lítið vottar enn fyrir gróðri. Um fyrstu sumarhelgina reiddi hér inn allmikið af hafís, miklu meiri en nokkurn tíma á vetrinum; leit út fyrir, að nú ætlaði að rætast draumur ísfirska málgagnsins um það, „að Húnaflói væri fullur af ís“; en sem betur fór, átti ísinn að þessu sinni skamma dvöl hér, því vindur sneri sér þegar til suðurs, svo „sá hvíti“ sigldi beggja skauta byr norður fyrir Skaga og er nú Húnaflói alauður. Þarf ekki í ár að kenna hafísnum um það, þó aldrei sjáist eimskipsreykur á Húnaflóa.

Maí: Mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en annars góð tíð. Hlýtt lengst af.

Jónas Jónassen lýsir veðrinu í Reykjavík í þessum mikla úrkomumánuði svo í nokkrum pistlum:

[2.] Hinn 27. [apríl] var hér hvasst norðanveður en bjartur og ýrði snjór úr lofti og sama veðrið var h. 28. en hægði undir kveldið og var logn og fegursta veður h. 29. Síðan hæg austan eða landátt með hlýindum.

[9.] Hefir oftast verið við suður-útsuður með talsverðri úrkomu, hvass með köflum en oftast hægur. Í morgun (9.) dimmur, hægur á sunnan.

[16.] Hefur verið við sunnan útsunnanátt með talsverðri úrkomu við og við; gekk til austurs h. 15. hvass um morguninn með regni, svo aftur síðari part dags til landsuðurs, nokkuð hvass og dimmur, lygndi síðast um kveldið. Í morgun (16.) logn, dimmur, rigning.

[23.] Hefir verið við vestur-útsuður alla vikuna með miklum kalsa og snjóað við og við í fjöll. Í morgun (23.) sami útsynningur með kalsa, hefir snjóað mikið til fjalla í nótt og hér útsynningsbylur í morgun.

[30.] Hefir alla vikuna verið á sunnan suðvestan, með mikilli úrkomu má heita dag og nótt, oftast hægur, hefir rignt í 23 daga af þessum mánuði. Í morgun (30.) sama veðrið.

Ísafold birti þann 27. bréf dagsett á Eyrarbakka þann 22.maí:

Veðrátta hefir verið hér mjög votviðrasöm um nokkrar undanfarnar vikur. Hefir vatn sett niður mjög mikið og til stórskaða og erfiðleika nú um sauðburðinn, einkum þar sem láglent er. Gróður er kominn allgóður, en mundi þó meiri, ef hlýindi hefðu verið samfara úrkomunni.

Þjóðviljinn ungi segir frá þann 30.maí:

Síðan síðasta nr. blaðsins kom út hefir tíðin verið mjög stormasöm og kaldhryssingsleg, og suma dagana enda komið hagl eða snjókrap úr lofti, og stafar þessi kuldatíð óefað af hafísnum, sem jafnan er slæmur gestur. Hafís. 28. þ.m. fyllti Skutulsfjörð, og allt Út-Djúpið að vestanverðu, með hafís, svo að allar skipaferðir hingað til kaupstaðarins hafa síðan vorið tepptar. Og róðrar verða ekki stundaðir í vestanverðu Djúpinu eins og nú stendur. 

Júní: Nokkuð úrkomusamt. Kalt.

Þjóðviljinn ungi segir þann 12. og 22.:

[12.] Tíðarfar einatt fremur kalt, svo að illa horfist með gróður, ef ekki breytist tíð. Hafísinn rak héðan af firðinum i öndverðum þ.m., svo að innsiglingin var aðeins teppt um vikutíma.

[22.] Sama kuldatíðin helst enn, svo að vor þetta má yfirleitt teljast eitt af köldustu vorum hér vestra.

Austri segir þann 12.:

Tíðarfar er alltaf mjög kalt og hefir við og við snjóað hér ofan í sjó. Gróður var kominn góður fyrir kuldana, en fer nú aftur. Sauðburður hefir þó gengið vel, því fé var vænt undan vetrinum Hafísinn kvað liggja norður af Langanesi, en eigi er víst að hann sé þar landfastur, og enginn ís var þann 9. þ.m. hérna megin við Langanes. „Thyra" lá 24 tíma við ísinn í Ísafjarðardjúpi, og komst ekki inn á Skutulsfjörð.

Ísafold birti 27.júní bréf ritað í Vestur-Skaftafellssýslu þann 18.:

Þó tíðin sé köld og hretviðrasöm, verður árferðið þó að teljast með betra móti hvað landbúnaðinum viðvíkur. Jörð er orðin sæmilega sprottin; þó hefir grasi lítið farið fram nokkra stund vegna kulda og storma. Kýr hafa ekki getað staðið á fyrir kulda og annar fénaður hefir sótt eftir skýli. Samt eru kýr farnar að græðast, og vonandi er, að ær og allur málnytupeningur gjöri gott gagn, þegar veður stillir, sem menn vonast eftir að bráðum verði.

Mikið hlýnaði eystra undir lok mánaðarins, Austri segir frá þann 30. Því miður voru engar opinberar hitamælingar á þessum árum norðantil á Austfjörðum og hvergi varð mjög heitt á veðurstöðum í júní 1896, hæst 20,3 stig í Möðrudal þann 22.:

Veðurlag hefir síðustu vikuna verið hér ákaflega heitt. Þetta allt fram undir 20° á R í skugganum og hefir grassprettu nú mikið farið fram.

Júlí: Óþerrasamt um stóran hluta landsins, en þó gerði þurrkkafla á Suður- og Vesturlandi síðari hlutann. Fremur kalt.

Ísafold ber saman tíð syðra og eystra þann 8.júlí:

Veðrátta virðist hafa verið mun sumarlegri fyrir norðan og austan undanfarna viku, heldur en hér um slóðir. Á Seyðisfirði t.d. voru líttþolandi hitar seinustu vikuna af fyrra mánuði. Hér hefir verið mjög vætusamt margar vikur samfleytt, og með kaldasta móti um þennan tíma árs.

Tíð var góð eystra að sögn Austra þann 20. og 28.:

[20.] Seyðisfirði 19. júlí 1896. Tíðarfar er áframhaldandi hagstætt, hitar og úrkomur í milli. einkum hér niðri í Fjörðunum en þurrari uppi á Héraði, og því grasspretta þar nokkru lakari.

[28.] Tíðarfar er alltaf fremur hagstætt en þó snjóaði nokkuð í fjöll nóttina milli þess 20. og 21. þ. m. en sá snjór er nú mestur horfinn fyrir eftirfarandi blíðviðri.

Þann 15.má lesa eftirfarandi í Ísafold:

Enn helst framúrskarandi ótíð hér um slóðir að óþurrkum til. Er þetta sjálfsagt eitthvert hið mesta óþurrkavor og sumar (það af er), sem menn muna. Ekki nema 3 dagar þurrir í maímánuði (28 rigningardagar), 9 í júní alls og 1 í júlí hingað til, dagurinn í gær; rignt 14 daga af 15 liðnum, og oft stórum, jafnvel með stórviðri á stundum. Grasvöxtur rýr, vegna kalsans og einkum þess, að sjaldan sem aldrei nýtur sólar. Stórvandræði með eldivið til sveita sumstaðar; engin móflaga þornar; eru dæmi þess, að menn hafa neyðst til að láta gamlan heyrudda undir pottinn hjá sér.

En þann 22. og 25. er hljóðið örlítið betra í blaðinu:

[22.] Í fyrradag létti loks úrfellisótíðinni. Var góður þerrir í gær, norðanveður, kalt í meira lagi; í dag hægri, brakandi þerrir, með glaðasólskini, sem örsjaldan hefir sést í allt vor og sumar. Sláttur mun hafa almennt byrjað i sveit hér nærlendis um helgina núna, og kemur þerririnn sér þá ljómandi vel. En hér í Reykjavik voru mörg tún slegin fyrir allt að 3 vikum, en engin tugga hirt fyrr en í gær. Mjög hefir eldiviður farið illa víða í óþurrkunum, og fiskur skemmst, þótt meiri brögð hefðu að því orðið, ef hlýrra hefði verið.

[25.] Rifaþerrir alla þessa viku. Glaðasólskin dag eftir dag 4 daga vikunnar í röð (þriðjudag - föstudag); daufara í dag. Mikil töðuhirðing og almenn hér í bænum.

Jónas Jónassen lýsir samfelldum óþurrkum í Reykjavík fram til þess 20, lítum á júlípistla hans:

[4.] Undanfarna viku sama kalsaveðrið með talsverðri úrkomu og aldrei sést til sólar; virðist enn engin breyting á veðráttu.

[11.] Undanfarna viku veðurhægð en ekki nokkur dagur þurr til kvelds, sólarlítið mjög - frámunaleg óþurrkatíð. Í morgun (11.) hvass á austan með dynjandi rigningu.

[18.] Sama úrkoman dag og nótt, sést ekki til sólar. Í morgun líkast haustveðri, hvass á austan með regni.

[25.] Um miðjan dag h.20. birti loksins upp er hann gekk til útnorðurs og hefir síðan verið fegursta sólskin á degi hverjum, hægur á útnorðan. Í morgun (25.) hægur á suðvestan, bjartur.

[1. ágúst] Bjart og fagurt veður undanfarna daga, þar til hann gekk í suður síðari part dags h. 30 með nokkurri úrkomu. Í morgun (1.) sunnan dimmur með regnskúrum.

Þjóðviljinn ungi segir frá nokkurra daga þurrki í frétt þann 31.júlí:

Blíðviðrin og þerrarnir, sem hófust hér 21. þ.m , stóðu ekki lengi, því að 26. þ.m. byrjuðu óþurrkamir aftur, og jafnframt mesta kuldatíð, svo að enda snjóaði á fjöllum aðfaranóttina 27. þ.m., og varð hvítt af mjöll ofan i miðjar fjallahlíðar.

Ísafold birti þann 15. ágúst bréf úr Seyðisfirði dagsett þann 5.:

Tíðarfarið hér í firðinum hefir verið einmuna gott síðan, byrjun júnímánaðar., nema hvað hér var nokkuð kalt fyrstu dagana og fram til kringum 15. júní; þá fór að hitna í veðri og síðan farið allt af batnandi til júlíbyrjunar, að þá byrjuðu fyrir alvöru hinir heitu sumardagar, og hafa þeir haldist allt til þessa tíma með hagstæðri veðráttu. Grasspretta var hér fremur góð á túnum, en aftur lakari á útengjum og mun það stafa helst frá kuldum þeim, sem hér komu í júnímánuði, þegar grasið einmitt þá var farið að lifna; en það sem hjálpaði til er hin indæla tíð síðan, fyrst með hægri rigningu og góðu náttfalli, og svo síðan byrjað var að slá heimatún, þá hafa hin miklu blíðviðri og hitar gjört nýtinguna svo ágæta sem kostur er á.

Ágúst: Allmikil úrkoma einkum um tíma kringum miðjan mánuð. Fremur kalt. Að kvöldi 26. ágúst varð mikill jarðskjálfti á Suðurlandi og varð tjón mjög mikið. Um hann er aðeins lítillega fjallað hér á hungurdiskum, sömuleiðis þá sem urðu vestar á Suðurlandi 5. og 6. september og líka ollu gríðarlegu tjóni. Langítarlegustu skjálftafrásagnirnar eru í blaðinu Ísafold í ágústlok og byrjun september. Áhugasamir eru hvattir til að fletta því. 

Austri segir frá hlaupi í Markarfljóti í frétt þann 23.september:

Ákaflegt jökulhlaup kom í Markarfljót í f.m. [ágúst] og tók af mikið á engjum á ýmsum bæjum og sumstaðar hey og fénað.

Mun ítarlegri frásögn af hlaupinu birtist í Ísafold þann 22.ágúst:

Hlaup í Markarfljóti. Fyrra þriðjudag, 11. þ.m., kom óvanalegt hlaup í Markarfljót og kvíslum þess (Þverá ofl.), meira en dæmi eru til í hálfa öld, og olli talsverðum skemmdum á engjum, meðfram Þverá einkanlega, svo að ónýtt er til slægna þetta ár, þar á meðal talsverð skák af Safamýri. Um 2000 hesta slægjur er sagt að ónýst hafi á einum bæ á Rangárvöllum, Dufþekju, og 600 á Móeiðarhvoli, auk þess sem flóðið fór þar með 100 hesta af heyi. Það er brennisteinskennd jökulleðja, sem hylur jarðveginn og límir grasið niður. Ekki spillir það honum til frambúðar: sprettur vel næsta ár og ef til vill öllu betur en áður. Eitthvað af fénaði vissu menn til að orðið hefði fyrir hlaupinu; fundust nokkrar kindur dauðar í byggð og búist við meira tjóni ofar. Silungur fannst og dauður í hrönnum, er hlaupið rénaði, og þótti taka fyrir veiði í Þverá eftir, nema af nýgengnu, þegar frá leið. Heppni var það, að ekki voru menn á ferð yfir vötn þessi eða um leirana milli þeirra, þegar flóðið kom; ólíklegt talið, að hægt hefði verið að forða sér. Kaupstaðarlest frá Odda með 10—12 hestum, á heimleið neðan úr Landeyjum, var nýkomin upp úr Þverá, er hlaupið kom; mundi það hafa farið með hana alla, eins og hún var. Giskað er á að flóðið hafi verið allt að 2 mannhæðum á dýpt í farvegum. Það kom stundu eftir hádegi og fór ekki að réna til muna fyrr en um miðaftan, en ekki fulldregið úr vötnunum fyrr en rúmri viku eftir. Hlaup þessi stafa af vatnsstíflu upp í jöklum, er úr verður með tímanum stórt lón, sem grefur sig fram að lokum og rýfur stífluna eftir ef til vill svo tugum ára skiptir frá því að fyrst fór að safnast fyrir.

Þjóðólfur segir frá sama hlaupi þann 11.september - í lok langs bréfs úr Landsveit sem dagsett er 2.september og fjallar um jarðskjálftana miklu og tjón af þeim:

Þess má ennfremur geta, að snemma í ágúst kom flóð mikið í Markarfljót og Þverá, sem skemmdi mjög engjar með jökul-leðju og forarleir; er mönnum ókunnugt um, hvaðan það hefur komið. Í jarðskjálftunum uxu vötn og lækir og runnu fram mórauðir, sumstaðar kom vatn upp úr sprungunum, og var jökul-litað; þar sem jarðvegur er gljúpur, svo sem í mýrum og á söndum sumstaðar, kom vatn upp úr jörðinni, en sumstaðar þverruðu lindir og lækir (t.d. Minnivallalækur). Vatn í laugum varð ljósblá-litað. Víða sigu jarðspildur, þar sem sprungið hafði, sumstaðar meira en alin, einkum þar sem vatn var nálægt.

Þjóðviljinn ungi segir frá óþurrkum í pistli þann 20.:

Stöðugir óþerrar og þokur haldast enn hér vestra, svo að til stórra vandræða horfir með heyþurrk til sveita, og þá ekki síður með þurrkun fisks hjá kaupmönnum, sem full hart mun, að varinn verði skemmdum.

Á höfuðdaginn, þann 29.ágúst, mátti lesa eftirfarandi pistil í Ísafold:

Nú er loks eða lítur út fyrir að vera skipt um til batnaðar, um höfuðdaginn, eins og þjóðtrúin kennir, eftir hið mesta kulda-, rosa- og votviðrasumar, sem elstu menn muna, að minnsta kosti um Suður- og Vesturland, og nokkuð austur eftir Norðurlandi. Fyrra laugardag, 22. ágúst, fylgdi landsunnan stórviðri og rigningu svo mikill sjávargangur hér við Faxaflóa norðanverðan, að miklum heysköðum olli í Borgarfirði að minnsta kosti, bæði í Andakíl (Hreppi, Hvanneyri, Hvítárósi) og einkum norðan fram með firðinum (á Ölvaldsstöðum o.fl. bæjum). Sunnudagskveldið eftir og nóttina þá snjóaði hann mjög á fjöll og stóð hálfgert hausthret fram eftir vikunni. Nú í dag er heiðskírt veður og afbragðsþerrir, á norðan.

Ísafold segir frá veðri í Vestmannaeyjum í pistli 5.september:

Vestmannaeyjum 28. ágúst. Veðrátta hefir veríð mjög umhleypingasöm; mikið regn með köflum, mest var úrferðin 16. þ.m. 30 mm. Síðustu 5 daga hefir verið mjög kalt, og norðanstormur 24.- 26., sem skemmdi mjög kartöflugarða; er því útlit fyrir mjög slæma jarðeplauppskeru.

Þann 31. ræðir Þjóðviljinn ungi um hafísinn - og getur um jarðskjálfta. Stórskjálftarnir á Suðurlandi fundust allt vestur á firði:

Hafísinn liggur einatt örskammt hér út undan vesturkjálka landsins, og segja þilskipamenn, sem inn komu fyrir síðustu helgi, að ísinn hafi þá legið rétt upp í landsteina á Ströndum. Jarðskjálftar. Tveir hægir jarðskjálftakippir fundust hér í kaupstaðnum að kvöldi 26. þ.m. um kl. 10, og sumir urðu einnig varir jarðskjálfta daginn eftir.

September: Góðviðrasamt lengst af, en úrkomuhryðja kringum miðjan mánuð. Fremur kalt.

Athyglisverð er flóðbylgja sem jarðskjálfti olli í Ölfusá þann 6. september og nefnd í framhjáhlaupi í bréfi í Þjóðólfi þann 11.:

Ölfusá ruddist fram með óumræðilegum ofsa, varð flóðbylgjan í henni, eftir því sem næst verður komist, um 16 feta há. Hugðum vér, sem við hana búum, að hún væri að koma yfir oss, gínandi og mundi sópa öllu burtu, sem lífs hafði sloppið úr jarðskjálftanum. 

Austri birti 10.október bréf úr Austur-Skaftafellssýslu dagsett 14.september:

Nú fer að líða að lokum heyskapar hér um slóðir og má heita, að hann hafi yfirleitt gengið vel. Í vor var gróðrartíð góð fram til vordaga, því þá voru lengstum blíðviðri, ýmist sólskin eða skúrir. Seint í maí kólnaði veðrátta, og gjörði kuldakast allsnarpt um mánaðamótin, sem spillti mjög grasvexti, er áður var komin vel á veg. Héldust kuldar fram yfir fardagana, en 13.júní kom stórrigning, og hlýnaði eftir það og var góð tíð til mánaðarloka. Með byrjun júlímánaðar dró til rigninga, sem héldust öðru hvoru til hins 20., þá komu góðir þerrar, en frá 9. ág, fór enn að dragast i óþurrkakafla, og komu eigi aftur stöðugir þurrkar fyrr en 24.ágúst — þá gjörði norðanveður allhvasst, svo hey fauk sumstaðar til skaða, en eftir það hafa verið stöðug góðviðri, þangað til skipti um hinn 12. þ.m. til úrkomu. Í gær og í dag hefir verið stórrigning.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð vestra í september:

[12.] Síðan veður breyttist til batnaðar um endaða hundadagana hefir hér vestra haldist mild og hagstæð veðrátta.

[22.] Norðanhrinu gerði hér all-snarpa 16.—18. þ.m., og snjóaði ofan i miðjar hlíðar; en síðan hefir verið bjart og fagurt veður.

[30.] Tíðarfarið er orðið all-haustlegt, norðan-snjóhret 27. þ.m., og síðan oft frost um nætur.

Bréf frá Seyðisfirði dagsett 30.september birtist í Ísafold 21.október:

Tíðarfarið hér í firðinum hefir verið framúrskarandi gott, þar til nú fyrir rúmum 3 vikum. Fyrst komu ákafar rigningar, en þó ekki með svo mjög miklu hvassviðri, heldur  hægð, og stóðu þessar rigningar meira og minna yfir í 16—20 daga. Svo létti nú dálitið óþurrkatíðinni, og komu þá kalsaveður og fylgdu því snjókoma ofan í mið fjöll, og nóttina milli þess 27. og 28, var alhvít jörð ofan í byggð með svo miklu frosti, að vel héldu pollar fram eftir morgni þess 28., og var lengi fram fram eftir degi mjög kalt, og hryssingsveður.

Október: Óstillt, en lengst af fremur þurrt. Mjög kalt.

Í byrjun mánaðarins gerði mikið hríðarveður. Olli það miklum fjársköðum, einkum eystra. Veðurhæð virðist ekki hafa verið jafnmikil og í veðrinu sömu daga árið áður, en vel má rugla þessum veðrum saman. Ítarlega frásögn má finna í bók Halldórs Pálssonar, „Skaðaveður 1891-1896“.  

Austri segir lauslega frá þann 10.október:

Tíðarfarið hafði lengi verið stirt og úrkomusamt, svo illa hafði gengið að þurrka fisk og hey, en útyfir tók nú fyrstu dagana af þ.m., þá er hér skall yfir allt Austurland versta bleytuhríð i 3 daga, frá 3.— 6., og er hætt við að fé hafi fennt, en ófært var yfir heiðar með öllu, og situr fé flest uppí Héraði enn og verður líklega mjög örðugt að koma því ofanyfir.

Yfirlit um helstu fjárskaða eystra birtist í Austra þann 6.nóvember:

Eins og áður er getið um hér í blaðinu urðu fjárskaðarnir langmestir í Skriðdal og Fellum. Í Skriðdal er sagt að hafi farist undir snjó nálægt 1400 fjár, og mest af því á Vaði, um 200, á Mýrum full 200 og margt fé á Þorvaldsstöðum. Í Fellum er sagt að fjártjónið muni hafa orðið nær 1000 fjár. Langmest fórst á Skeggjastöðum. nálægt 250 fjár þess má geta sem dæmi um það, hvað fannfergjan var fjarskaleg í fyrstu hríðinni, að hestar fórust í annarri eins góðviðrasveit og Vellirnir eru vanalega, og einn hestur á Miðhúsum í Mið-Héraði. Í hinum sveitum Fljótsdalshéraðs hafa engir ákaflegir fjárskaðar orðið, þó missti bláfátækur barnamaður í Ármótaseli í Jökuldalsheiðinni eina hestinn sem hann átti og um 30 fjár, er var víst helmingur af allri hans fjáreign. Á Arnórsstöðum á Jökuldal vantaði nærri allt féð eftir hríðina, en hefir nú fundist flestallt lifandi aftur, og engir fjárskaðar hafa orðið til muna á Jökuldal eða Fjöllum. Sunnanpóstur sagði miklu snjóléttara fyrir sunnan Breiðdalsheiði og enga sérlega fjárskaða úr þeim sveitum.

Dagskrá í Reykjavík segir af veðrinu þann 8.október:

Norðanveður ofsafengið hefur verið hér síðustu dagana; hvessti á sunnudagsnótt [aðfaranótt 4.] og stóð veðrið þann dag allan og svo mánudag. Á þriðjudagsmorguninn slotaði nokkuð, en hvessti þó aftur fyrri hluta dags. Allmörg skip hafa legið hér á höfninni; eitt þeirra, „Ingolf", innlent fiskiskip, sleit upp á þriðjudagsnóttina og rak í land. Skipið er þð að mestu óskemmt.

Þjóðviljinn ungi segir lauslega frá veðrinu í pistli þann 8.:

[Fyrsta] þ.m. gerði hér norðan garð, og hélst það veður, með fannfergju nokkurri og hríðarbyljum, í samfleytta viku, slotaði loks í gær.

Veðrið olli einnig vandræðum í Skagafirði. Ísafold birtir 21.nóvember bréf dagsett þar 20.október:

Veðráttan i haust vond. Byljir við og við. Skip kom eftir pöntunarfélagssauðunum til Sauðárkróks hinn 1. þ.m. En aðfaranótt h.4. kom norðaustanhríð mikil; var þá búið að skipa fram í skipið aðeins litlu af pöntunarsauðunum, en deildasauðirnir komnir nær framskipunarstaðnum, og nokkrir voru á Sauðárkrók, er hríðin byrjaði. Voru hin mestu vandræði með sauðina yfir hríðarbylinn, sem hélst hinn 4., 5. og 6. þ.m. með mikilli snjókomu. Þegar birti upp, var haldið áfram framskipun sauðanna, og hélt skipið af stað með þá hinn 10. þ.m. Furða er, hve litlir skaðar urðu hér i þessum byl. Mest hefir bóndinn Sigurjón i Eyhildarholti misst af fé; en eigi höfum vér heyrt með vissu, hve margt hann missti.

Þjóðólfur birtir þann 23. bréf dagsett á Seyðisfirði þann 11.október:

Áfelli mikið hefur nú gert hér á Austurlandi. Gekk í dimmviðrisbyl að kveldi 3. þ.m. sem heita má að héldist þangað til i gærkveldi [10.]. Verst var veðrið 6 fyrstu dægrin (4.- 6.), austan stórviðri og bleytuhríð, þá létti hríðinni að mestu og var allgott veðrið hinn 8.; en í fyrradag og þó einkum í gær var hánorðan harðneskjuveður og dimmviðri; hefur sett niður mikinn snjó og mun því víðast jarðlaust sem stendur.

Skárri dagar komu nokkrir þegar veðrið hafði lokið sér af. Austri segir þann 23.október (dagsetur 20.):

Tíðarfar hefur verið breytilegt þessa síðustu viku. Frá 12. til 15. voru blíðviðri og þíður, og tók snjó þá óðum. En 15. kom rosaveður, sem hefir haldist síðan, í gær og í dag með töluverðri snjókomu. Fjárskaðar munu hafa orðið töluverðir í veðrinu 3. til 6. þ.m. einkum i Skriðdal og á Jökuldal og víðar, en greinilegar fregnir hafa ekki borist. Á stöku stað er sagt að fennt hafi hesta. Maður varð úti frá Birnufelli í Fellum.

Ísafold lýsir tíð þann 21., 24. og 28.október:

[21.] Hér [í Reykjavík] hefir verið bleytukafald 2—3 daga undanfarið með allmikilli fannkomu, sem töluvert frost hefir fest í nótt, svo að haglítið er orðið hér um slóðir fyrir sauðfé, eða sama sem haglaust nú í bili.

[24.] Veturinn ríður heldur hart í garð í dag með bálviðri á norðan og allmiklu frosti, en jörð alsnjóa og illa, með klakabrota er gera mun jarðbann nema í skóglendi. Er kvíðvænlegt að hugsa til áhrifanna af þessari veðráttu á landsskjálftasvæðinu, þar sem mjög mikið af peningshúsum liggur niðri og jafnvel nokkuð af bæjarhúsum sumstaðar.

[28.] Sami vetrarbragur enn á tíðarfari og síðast. Snjóbreiða yfir allt, sem smáblotar gera ekki annað en spilla. Sagður hnésnjór austanfjalls á láglendi; versta brotaófærð. Austfirðingar með „Bremnæs“ segja vonda tíð þar líka og fannir miklar.

Nóvember: Óstöðug tíð og mjög úrkomusöm syðra. Hiti í meðallagi.

Bréf úr Suður-Múlasýslu ritað 9.nóvember birtist í Ísafold 19.desember:

Stirð hefir tíðin verið hér í haust, varla komið þurrkadagur allt haustið frá 15. ágúst. Þá dyngdi niður áköfum snjó með októberbyrjun, svo að fé fennti stórkostlega, einkum i Héraði í Skriðdal. Í Héraðinu, sem er lítil [?] sveit, fenntu 1200 fjár, sem eigi var fundið, er siðast fréttist. Á einum bæ fórust 200 fjár, helmingur alls fjárins. En í Fjörðunum, þar sem menn voru að þurrka fisk sinn, eiginlega næstum allan sumarfisk sinn, því að framan af sumrinu fiskaðist mjög litið, fennti alla fiskistakka í kaf, og hafa menn verið að grafa þá úr fönn og bera inn hálfblauta og meira og minna skemmda, svo að litið er um innleggið, og skuldir við kaupmenn því meiri.

Ísafold segir frá hrakviðrum þann 21.:

Veðrátta hefir verið mjög storma- og hrakviðrasöm þessa viku. Mesta afspyrnurok aðfaranótt mánudags {16.] og eins aðfaranótt fimmtudagsins [19.]. Mjög slæma veðráttu að frétta af Austfjörðum fyrir viku rúmri.

Þjóðviljinn ungi lýsir veðri 14., 21. og 30.:

[14.] Norðan-snjóhret var hér framan af þessari viku, en síðan hlákur og frostlin veðrátta.

[21.] Tíðarfar hefir verið fjarska óstöðugt þessa síðustu viku, sífelldir stormar af ýmsum áttum, skipst á hríðarbyljir og stórfelldar rigningar. [30.] Hríðarbyljunum, sem stóðu hér í samfleytta 1 1/2 viku, slotaði loks 25. þ.m., og hafa síðan haldist logn og þíðviðri.

Austri birti 12.desember bréf úr Austur-Skaftafellssýslu ritað 24.nóvember:

... tíðin lengstum verið mjög óstillt og rosasöm, og svo er enn. Í október voru oft ofsaveður og á síðasta sumardag [23.október] gjörði hér blindbyl, fennti þá nokkrar kindur i Lóni en annars hafa eigi orðið hér fjárskaðar né önnur slys. 

Desember: Óstöðugt veðurlag. Útsynningshríðar um jólaleytið. Fremur hlýtt.

Úr Strandasýslu sunnanverðri var ritað 8.desember (Ísafold 19.):

Nú er fyrir hálfum mánuði skipt um til bærilegrar veðráttu, eftir eitthvert versta og rosasamasta haust, sem lengi hefir komið. Mikill snjór var kominn og mjög hagskarpt orðið, allstaðar farið að gefa fé, og að því komið, að öll hross þyrfti að taka inn. En nú um 2 síðastliðnar vikur hefir verið hagstæð tíð og þíða oftast, svo að góður hagi er kominn. 

Veðri síðari hluta árs í Skagafirði er lýst í bréfi dagsettu 14.janúar 1897, birtist í Austra 9.mars (orðalag er óvenjulegt):

Næstliðið sumar var hér mjög votviðrasamt og grasvöxtur kortlega í meðallagi, varð því heyskapur almennt í rýrara lagi og heyin slæm og illa verkuð og skemmdust viða að mun í tóftum fyrir þær miklu úrkomur síðari part sumarsins, flest hús láku meira og minna, og jörðin varð eins og heili. Haustið var einnig með verri haustum með illviðrum og óstillingum svo ekki varð hægt að gjöra nokkuð af vanalegum haustverkum, svo sem bera á tún og flytja heim eldivið, og horfir víða til vandræða með eldiviðarleysi. Veturinn síðan með jólaföstuinngangi hefir mátt heita ágætur allt til þessa tíma en nokkuð stormasamur, oftast á sunnan og suðvestan, og nú er alauð jörð uppí mið fjöll.

Þingeyingar kvörtuðu líka undan sumri og hausti ef trúa má bréfi sem birtist í Þjóðólfi 9.apríl 1897. Á þessum tíma vildu menn frekar þurrka í miðri viku heldur en um helgar eins og nú er:

Sumarið 1896 var eitt hið leiðinlegasta, sem komið hefur í manna minnum. Það var ekki kuldasamt, en svo vætusamt og þurrkalaust, að varla náðist nokkurt heyhár með almennilegri verkan. Grasspretta var í meðallagi víðast hvar. Þá sjaldan sem þurrkur kom, var það helst um helgar. Áttin var stöðugt austræn, en fremur hæg og mild, svo rann hann (Kári) norður í, gerði illviðrahrinu, og rofaði svo oftast til úr hafi á laugardögunum. Himininn heiddi að norðan, og þokuslæðurnar flæktust suður á bóginn og gengu undir sjónhringinn suður frá. — Svo var oftast þurrkflæsa á sunnudaginn. Þeir sem notuðu sunnudagaþurrkinn náðu heyjum sínum nokkurn veginn óhröktum, en illa þurrum samt. Hinir urðu á hakanum og áttu sumir hey sín úti í haust. Sumir þeirra náðu heyinu í fúlgur, og notuðu þær fyrri hluta vetrarins; en sumir áttu það flatt, og liggur það nú undir fönn og gaddi.

Í Suður-Þingeyjarsýslu náðust heyin á flestum stöðum á endanum, þó seint væri, — sumstaðar ekki fyrr en undir veturnætur. En í Norður-Þingeyjarsýslu varð mikið hey úti á ýmsum stöðum. Á Víkingavatni urðu t.d. um 200 hestar úti o.s.frv. — Þó tók haustið út yfir allan þjófabálk. Þvílíkt illviðrahaust þykist enginn lifandi sála muna. Það má svo að orði kveða, að þrotlausar norðaustanstórrigningar væru frá miðjum september til mánaðarloka. En um mánaðarmótin gekk hann í norðaustan krapahríðar með svo miklu veðri, að firnum sætti, og kyngdi þá niður afarmikilli fönn í hásveitum og til fjalla, svo víða varð jarðlaust, og voru þá lömb tekin víðast hvar á gjöf — 3 vikum fyrir vetur. Fjallskilum var þá ekki lokið; heimtur voru illar af afrétt, og það sem þó var heimt, fennti sumt en sumt flæktist í óskilum og kom seint til skila og illa til reika. Hlákublota gerði tveim sinnum fyrir veturnætur. En ekki batnaði tíðin neitt til muna fyrr en með jólaföstu, eða litlu fyrr. Þá gerði hlákur og síðan hefur veturinn verið snjóléttur, mjög frostavægur og hlákur góðar öðruhvoru.

Þjóðviljinn ungi lýsir tíð í pistlum 14. og 31.desember:

[14.] Hér hafa haldist stillviðri, eður hæg sunnanveður, frá byrjun þ.m. [31.] Eftir lognin og hlýviðrin, tók veðráttan að breytast á Þorláksmessu og gerði snjóa nokkra og hvassviðri, sem hafa haldist lengstum síðan.

Lýkur hér að sinni umfjöllun um árið 1896. 


Hugleiðing um horfinn kosningadag

Þegar ritstjóri hungurdiska leit út um glugga í morgun (laugardag 26.maí) flaug hugurinn ósjálfrátt aftur til sveitarstjórnakosningadagsins 27.maí 1962. Grámyglulegur líka.

Veðráttan, tímarit Veðurstofunnar, segir maí 1962 hafa verið þurrviðrasaman og tíðarfar hafi þótt frekar óhagstætt. Í mánaðarlok var víðast hvar klaki í jörð og gróðri hafði lítið farið fram. Vegir voru víða ófærir vegna aurbleytu og umferð bönnuð eða takmörkuð fram eftir mánuði á ýmsum vegum af þeim sökum. Norðlægar áttir voru ríkjandi lengst af. 

En aðfaranótt þess 25.snerist til suðvestanáttar með rigningu vestanlands. Langmest rigndi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum - en líka sums staðar sunnanlands - þar rigndi mest þann 26. Þetta veðurlag hélst þann 26. - sem var laugardagur eins og nú. Víða var mjög hlýtt fyrir norðan, m.a. fór hiti í 20,8 stig á Akureyri, varð hæstur eftir kl.18 og skráist hámarkið því á daginn eftir (en þá var hæsti hitinn í raun 14,8 stig) - svona eru reglurnar. Laugardagshitinn fór hæst í 22,0 stig á Egilsstöðum. Kaldara var syðra - en Skarðsheiðin sá þó til þess að koma hitanum í Andakílsárvirkjun upp í 16 stig og víða varð furðuhlýtt á Vestfjörðum.

Á þessum tíma var að jafnaði kosið til sveitarstjórna á sunnudögum. Í þéttbýli í lok maí, en í dreifbýli í lok júní. Ritstjórann minnir þó að þetta hafi verið í eitt fyrsta skipti sem kosið var í maí í Reykjavík - að bæjarstjórnarkosningar hafi yfirleitt verið haldnar þar í janúarmánuði, t.d. 1958. 

Á kosningadaginn birtist þetta veðurkort í Morgunblaðinu, og sýndi veðurlag á Norður-Atlantshafi laugardaginn 26.maí kl.6:

w-blogg260518a

Mikið háþrýstisvæði skammt vestur af Bretlandseyjum beinir hlýju og röku lofti í átt til landsins. Ekki ólíklegt að kalt háloftalægðardrag leynist yfir Grænlandi. 

Japanska endurgreiningin sýnir veðrið síðdegis á kosningadaginn sjálfan, sunnudaginn 27.maí:

w-blogg260518b

Hér hefur verið skorið á sunnanáttina við jörð og kaldara loft skýtur sér inn undir úr vestri og norðri. Dumbungsveður var um landið vestanvert, en ekki mikil úrkoma og undir kvöld reif hann aðeins af sér og skyggni batnaði. 

w-blogg260518c

Kalda lægðardragið þrýsti á hæðina meðan það fór framhjá, áttin snerist til vesturs og síðar norðvesturs í háloftum - hlýja loftið þokaðist vestar og kaldara loft úr norðri sleikti landið, sérstaklega þann 30. - þá var næturfrost víða um land. 

Á laugardagskvöld fyrir kosningar, þann 26. féll mikil skriða úr Laugardalsfjalli og stefndi á þéttbýlið á Laugarvatni, náði skriðan alveg niður á veg. Skemmdir urðu á trjágróðri í hlíðinni. Var þessi skriða enn mjög í minnum höfð - og far hennar sást vel - þegar ritstjórinn dvaldi þar veturinn 1970 til 1971. 

Þann 25. - daginn áður en hlýindin náðu mestri útbreiðslu, mældist hiti á Þórustöðum í Önundarfirði 22,6 stig. Þessi tala hefur löngum þótt með nokkrum ólíkindum. Giskað hefur verið á að hún hafi átt að vera 17,6 stig. Málið er hins vegar það að nægilega hlýtt var í háloftum til þess að skjóta 22 stigum niður að yfirborði - og vindur var þar töluverður líka. Við getum því ekki samviskulaust skotið þessa tölu niður (eins og sumar ólíklegar tillögur aðrar) - og hún verður að fá að standa. 


Dálítið lúmskt

Snemma í nótt (aðfaranótt 25.maí) fer nokkuð snarpt háloftalægðardrag hratt yfir landið úr suðvestri. Því fylgir úrkomubakki sem sjá má á gervihnattamynd frá því kl.22 í kvöld (af vef Veðurstofunnar).

w-blogg240518a

Eins og sjá má er hér um nokkuð háreista flóka að ræða - sennilega kembir ofan af klakkaflækjum í bakkanum - blika gekk hratt upp úr suðvestri séð frá Reykjavík í kvöld, gráblika sem þó er ekki eiginleg gráblika - sýndarblika? Það sem gerir bliku af þessu tagi lúmska er að miklu styttra er í það veður sem hún er að segja frá heldur en í frásögn venjulegrar bliku. Á árum áður þurftu menn að átta sig á þessu - því þó ekki sé neinn stormur á ferð er vindur í bakhlið bakkans samt hættulegur opnum bátum. 

Lítum á spá iga-harmonie-líkansins sem gildir kl.1 í nótt:

w-blogg240518b

Hér má sjá að vindur er mjög hægur á sjó næst undan Reykjanesi - jafnvel logn á blettum. En óreglulegur jaðar á vindstreng er skammt suður undan. Þegar hann fer yfir vex vindur á örskotsstund upp í 10 til 13 m/s - getur verið afar óþægilegt fyrir smábáta, töluverð úrkoma verður svo um stund lendi menn að auki undir aðalklökkunum. - Líklega snjóar skamma stund á Hellisheiði þegar garðurinn fer þar hjá ekki svo löngu síðar en hér er sýnt. 

Það er skarpt lægðardrag á hraðferð í háloftunum sem „leyfir“ þetta.

w-blogg240518c

Uppi í rúmlega 5 km hæð er vindurinn allt að 40 m/s. Lóðstreymi í éljaklökkunum getur gripið eitthvað af skriðþunganum niður í átt til jarðar og valdið hviðum sem eru nokkru sterkari en meðalvindurinn við sjávarmál. 

Eins og oft hefur verið minnst á á hungurdiskum áður hafa garðar af þessu tagi eða líku drepið fjölmarga forfeður okkar, bæði á sjó og landi. Einmitt ekki síst vegna þess hve stuttur tími líður á milli blikuppsláttar og þess að veðrið skelli á - sérstaka reynslu hefur þurft til að átta sig á muninum. 

En þéttbýlisbúar nútímans verða varla varir við - bara enn ein hryðjan í blautum maímánuði.

Smáviðbót - daginn eftir.

Ekki var þetta stórt í sniðum - en telst samt með.

w-blogg240518d

Myndin sýnir hvað gerðist á Keflavíkurflugvelli. Hak kom í þrýstirita - loftvog fór snögglega að stíga þegar garðurinn gekk hjá. Vindátt snerist skyndilega úr 170 gráðum í 270 og vindhraði jókst úr tæpum 5 m/s í 10 m/s, vindhviða komst upp í 14,4 m/s. Úti á sjó gætu umskiptin hafa orðið enn snarpari. 


Af árinu 1885

Árið 1885 var hart. Meðalhiti í Reykjavík ekki nema 2,7 stig, 2,1 stig í Stykkishólmi og 1,2 á Akureyri. Á landsvísu reiknast meðalhiti í byggð 1,6 stig. - Þó var ekki mjög mikill hafís. Norðanáttir voru óvenjutíðar og hafa ráðið miklu um það hversu lágur hitinn varð. Framan af var mjög þurrt sunnanlands og vestan og í febrúar mældist úrkoman á Eyrarbakka ekki nema 1,2 mm og var innan við 10 mm bæði í Reykjavík og Stykkishólmi.

Aðeins einn mánuður ársins telst hlýr, það var janúar, allir aðrir mánuðir voru kaldir, febrúar og júní í flokki köldustu almanaksbræðra frá upphafi mælinga. 

Hitamælingar voru hvergi gerðar í efri byggðum norðaustanlands þetta ár. Lægsti hiti ársins mældist á Borðeyri 2.apríl, -22,3 stig, en sá hæsti á Hrísum í Eyjafirði 20.ágúst, 23,7 stig. Talsverð næturfrost voru víða um land snemma í júní, m.a. 5 nætur í röð í Reykjavík, 3. til 7. og tvo daga þar á eftir var hiti rétt ofan frostmarks. Aðfaranótt þess 6. fór lágmarkið niður í -2,4 stig sem er það lægsta nokkru sinni í júnímánuði. Þann 2.júlí mældist hámarkshiti dagsins í Reykjavík ekki nema 6,6 stig - það lægsta nokkru sinni í júlímánuði. Sömuleiðis fraus víða rétt fyrir miðjan ágúst og spillti mjög garðuppskeru. Frost mældist þá að vísu ekki í Reykjavík, en það hefur samt örugglega frosið illa víða í kringum bæinn því hiti fór niður í 1,4 stig þann 12. 

Það er sömuleiðis óvenjulegt að dagana 29.janúar til 4.mars var nánast samfellt frost í Reykjavík, það var aðeins þann 19.febrúar að hámarkið komst í +0,2 stig. 

ar_1885_rvk-t

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík. Það var 20.ágúst sem hámarkið komst í 18,2 stig - það langhæsta á árinu. Þessi dagur sá eini sem flokkast sem hlýr í Reykjavík á öllu árinu og virðist hafa verið hlýr um land allt. Hann telst líka hlýr í Stykkishólmi og eins og áður sagði mældist þá líka hæsta hámark landsins allt árið. Daginn áður mældist hæsti hiti ársins á Akureyri. 

Fjölmörg dægurlágmarksmet standa enn í Reykjavík frá 1885, 20 alls. Ritstjóri hungurdiska telur 21 kaldan dag í Reykjavík og 17 í Stykkishólmi. 

Snjór sást óvenjuoft á jörð í Reykjavík þetta vor og framan af sumri. Ökklasnjór var þar á sumardaginn fyrsta [23.apríl] - hefur svosem gerst oftar. Þann 8.júní varð alhvítt seinni hluta nætur í Reykjavík og sömuleiðis varð alhvítt af éli skamma stund aðfaranótt 1.júlí. Morguninn eftir var Esjan alhvít niður fyrir miðjar hlíðar. 

ar_1885_rvk-p

Myndin sýnir loftþrýsting í Reykjavík frá degi til dags 1885. Árstíðasveiflan er óvenjulítið áberandi og lítið um að þrýstingur hafi farið niður fyrir 970 hPa. Ekki fór hann afbrigðilega hátt heldur. Við nánari athugun má sjá að sumarið var mjög tvískipt. Fyrri hlutann, frá því rétt fyrir miðjan júní og langt fram í júlí var hann óvenjulágur, en síðan óvenjuhár í ágúst. Mánaðarþrýstingurinn í ágúst er sá hæsti frá upphafi mælinga. 

Lægsti þrýstingur ársins mældist 961,4 hPa á Teigarhorni þann 4.janúar, en sá hæsti á Akureyri 16.október, 1041,2 hPa.

Fréttir frá Íslandi segja frá árferði:

Veðrátta var yfir höfuð í lakara meðallagi þetta ár. Þegar eftir nýár voru geysimiklar fannkomur og harðindi um allt land, og héldust þau lengi fram eftir. Á Suðurlandi var þó frost lítið, en stórviðri og umhleypingasamt framan af janúar og jarðbann algert, svo að þá var í austursýslunum þegar farið að skera af heyjum. Í vesturhlutanum og eins um Norðurland brá þó til hláku og hlýinda síðari hluta janúar, og kom þá víða upp góð jörð. Framan af febrúar var stórviðri mjög mikið sunnanlands; þannig urðu þá í Reykjavík um 8 menn veðurtepptir úti í póstskipinu á höfninni í 3 daga, og frost og ofsaleg norðanátt hélst út allan febrúar og fram í mars í vestursýslum Suðurlands, en jörð að kalla auð; síðan brá til útsynninga og svo landsynninga með nokkrum snjó, en eigi miklu frosti.

Seinast í apríl brá þar til hlýrrar vorveðráttu; þó féll ökklasnjór [í Reykjavík] á sumardaginn fyrsta. Í austursýslunum vóru ennþá meiri og stöðugri harðindi og stormar; þannig var slíkt sandrok á Rangárvöllum um hálfan mánuð framan af febrúar, að líkast var vorinu 1882; menn máttu þar þó illa við þeim harðindum eftir hina dæmafáu óveðráttu sumarið á undan, eins og sýndi sig. Á Vestfjörðum voru sífelldir norðanbyljir með fannkomum og frosti mjög miklu fram yfir sumarmál; þannig reið póstur í mars á ísum beina leið úr Ögri í Vatnsfjörð og þaðan aftur beint að Arngerðareyri (yfir Reykjarfjörð og Ísafjörð þveran). Sömuleiðis var Hvammsfjörður allur lagður þá, svo fara mátti á ís beint frá Dagverðarnesi í Stykkishólm, og sunnudaginn fyrstan í sumri var hann lagður hestís út undir eyjar, og þá (í apríl) fór póstur á ís yfir Álftafjörð og ísafjörð. Um páskana varð póstur að fara selflutning á sleðum með koffortin norður yfir Holtavörðuheiði, enda urðu vetrarharðindin norðanlands enn þá meiri úr því janúar lauk, heldur en sunnanlands, einkum í austursýslunum, eins og vant er. Fannfergjan varð þar svo mikil um langan tíma af vetrinum, einkum þó í febrúar, að elstu menn mundu eigi aðra eins, og bæir fóru víða í kaf; þó tóku snjókyngjurnar út yfir á Austurlandi; janúar var þó víða góður, en svo hlóð snjó niður í sífellu mestallan febrúar, og sökum þeirra dæmalausu snjóþyngsla, er þá komu, urðu þar tíð geysimikil snjóflóð, er gerðu ógurlegan skaða og manntjón, eins og síðar verður getið. Frost voru þó ekki eins sterk að sínu leyti (þó 10—18 R í Fljótsdalshéraði t.d. fyrstu dagana af mars).

Eftir þennan dæmalausa snjóavetur víðast um land tók við eitthvert kaldasta vor, svo að jörð leysti mjög seint alstaðar; voru sífelldir kuldanæðingar og náttfrost allt fram í júlí, og frostbyljir enda alloft á Vesturlandi, Norðurlandi og Austfjörðum; þar var fullkomið jarðbann í öllum sjávarsveitum frá því fyrir sunnan Mjóafjörð og norður fyrir Vopnafjörð af gömlum gaddi viku eftir fardaga, og á Vestfjörðum sumstaðar, t.a.m. á Snæfjallaströnd, voru tún undir fönn um sama leyti, og því fremur í norðursýslunum norðanlands. Fyrri hluta júlímánaðar (11 vikur af sumri) var allvíða enn þá ekki leyst af túnum á Austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru allt til þess tíma, og eins í Þingeyjarsýslu og víðar nyrðra. Á Vesturlandi kól tún víða jafnóðum og af þeim leysti, og í júlíbyrjun var þar víða varla fært yfir fjallvegi öðruvísi en skaflajárnað, og sumstaðar enda ókleyft fyrir snjó og frosthríð. Þótt sumarið byrjaði þannig allstaðar í langseinasta lagi, þá varð það þó ekki slæmt þann litla tíma, er þess naut (ágústmánuð einn hér um bil).

Í lok júlímánaðar kom loksins alstaðar hagstæð sumarveðrátta, mild og þó þerrisöm víðasthvar; urðu þau umskipti snöggust víða norðanlands, og varð af því vatnagangur mikill, einkum í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, er snjó tók að leysa upp; urðu þar skaðar miklir af vatnavöxtum á engjum, er ár gengu yfir og báru leir á; þannig var um Eyjafjarðará, er aldrei í manna minnum hafði vaxið eins. Vegir spilltust, einkum á fjöllum, og braut þá af brú á Valagilsá og víðar.

Í ágústmánuði vóru þerrar og blíðviðri víðast um land, en með september tók veður að spillast; þá gengu rigningar miklar sumstaðar um Austurland um hálfan mánuð, og seinni hluta september fóru krapahryðjur og snjóar að koma víðast um land, svo að hey fennti, einkum þó á Norður- og Austurlandi. Haustið varð því eigi sem best; þó mátti það allgott heita á Suðurlandi, og þar héldust meðfram hlákur og hægviðri fram til nýárs; þó lagðist vetur snemma að, einkum á Austurlandi, og snjór var kominn víða allmikill snemma í nóvember. Bærileg tíð var þó yfir höfuð allt til nýárs.

Hafís gerði eigi sérlegt mein þetta ár; hann gerði vart við sig fyrir Vestfjörðum snemma í apríl, og var svo á slæðingi þar fram með og allmikill skammt undan landi fram eftir öllu sumri, enn þó ekki mjög mikið eða til stórbaga. Í maí varð strandferðaskipið að hverfa aftur á Reykjarfirði fyrir íshroða, og var hann þá á reki inn á Húnaflóa; þó hélst hann þar eigi lengi, og varð eigi landfastur við Norðurland, svo að hann tálmaði ekkert siglingum þangað.

Jarðskjálfti varð 25. janúar. Hans varð vart í Reykjavík lítið eitt og víðar um land, enn mest þó á Norðurlandi og Austurlandi, og stórkostlegastur varð hann í Kelduhverfi. Allur ís brotnaði af Jökulsá (í Axarfirði) frá sjó lengst upp á öræfi; hestar fældust, hús skekktust og hrundu, og margir hlutir skemmdust, og á 2 stöðum sást þar rjúka upp úr jörðu. Í Fljótsdalshéraði hafði áður orðið vart öskufalls, svo að fé varð kolótt í haga, og þar kom jarðskjálftinn úr vestri. [Rétt að taka fram að jarðskjálftar í Reykjavík sama dag voru ekki á sama tíma - og upptökin því trúlegast önnur]. 

Grasvöxtur varð almennt lítill, sem von var. Sláttur byrjaði því mjög seint, almennt ekki fyrr enn undir mánaðamótin júlí og ágúst, einkum norðan- og austanlands. Tún spruttu svo illa, að varla fékkst meira enn helmingur af þeim móts við meðalár og sumstaðar varla það, einkum á Vesturlandi. Engjar spruttu betur, enda voru þær að því fram til septemberbyrjunar; aflaðist úthey því næstum eins og í meðalári víðast hvar. Nýting varð allvíðast dágóð, þó hraktist hey nokkuð í rigningum víða upp á síðkastið, og sumstaðar urðu hey úti (t.a.m. um 100 hestar á Grenjaðarstöðum). Menn héldu slætti áfram svo lengi sem mögulegt var fyrir frosti og illviðrum, þannig var sumstaðar á austurlandi stör slegin á ís.

Fjárskaðar urðu talsverðir um veturinn sökum óveðranna, einkum á Vesturlandi; þannig fórst 120 fjár í á (Selá) frá Skjaldfönn á Langadalsströnd.

Slysfarir og skaðar urðu talsverðir og sumir á dæmalausan hátt, eins og hið voðalega snjóflóð á Seyðisfjarðaröldu 18.febrúar. Það kom kl.8 um morguninn úr fjalli þar rétt fyrir ofan kaupstaðinn; voru menn ekki almennt risnir úr rekkju; dimmdi svo yfir, þegar snjóflóðið féll, að sýnilegur munur varð á birtu í kaupstaðnum; sópaði flóðið 15 íveruhúsum að miklu leyti út á sjó eða skildi þau eftir mölbrotin í fjörunni auk fjölda úthúsa; urðu eitthvað um 80 menn fyrir flóðinu og létust þar af 24, en margir limlestust að auki; var hryllilegt að koma þar að: úr öllum áttum heyrðist óp og vein, og menn komu naktir alstaðar að um snjóinn.

Þann 31. varð maður frá Stóru-Ökrum í Blönduhlíð úti á heimleið af Sauðárkróki; hafði lagt drukkinn af stað. Í febr. varð Skaftfellingur einn úti í Skriðdal milli bæja, og í fyrstu viku góu fórst bátur úr fiskiróðri með 4 mönnum frá Hnífsdal við Ísafjörð, og 2 menn urðu úti milli bæja frá Hraundal á Langadalsströnd að Melgraseyri um sama leyti. 6. varð smali frá Draghálsi úti í Svínadal í Borgarfirði. 7. varð 15 vetra stúlka frá Bollastöðum í Flóa úti milli bæja; var að sækja mjólk. Í mars fórst bátur með 4 mönnum á leið frá Bjarneyjum til Stykkishólms. Í desember (4.) varð bóndi einn úti á Hrútafjarðarhálsi, og rétt fyrir jólin annar ungur bóndi, milli Keflavíkur og Grindavíkur, ölvaður, 15.fórst bátur með 3 mönnum á heimleið frá Mjóafirði til ísafjarðar.

Austri birti þann 18.febrúar 1886 yfirlit um tíðarfar ársins 1885, að sögn ritað af manni á Fljótsdalshéraði. Við nýtum okkur það og köllum „yfirlit Austra“ hér að neðan. Í lok þess segir: „Þetta ár má teljast eitt hið versta ár víðast hvar hér á Austurlandi“.

Janúar: Miklar fannkomur, harðindi talin viðloðandi, þó var fremur hlýtt. Síðasta vikan mildust. Skást tíð austanlands.

Yfirlit Austra: 

Janúarmánuður. Hlánaði af austri með nokkurri úrkomu í byrjun mánaðarins svo gott varð í högum, en spillti þegar þann 4. með áfrerum og hríðum einkum upp til lands sem héldust öðru hverju til hins 15., hlánaði þá nokkuð af vestri svo mátti heita gott i högum, þar til hinn 23. að hlánaði á ný, svo hagval var einkum niður til sveita, sem hélst til hins 30. og 31. að veður komst af norðaustri með miklu snjófalli. 

Fróði skrifar um tíð þann 30.janúar, en segir að auki frá jarðskjálfta sem fannst á Akureyri þann 25.janúar:

Póstur kom að vestan 24. þ.m. Af Suðurlandi er að frétta mikinn snjó, og jarðleysur fyrir fénað. Póstur sá er gengur milli Reykjavíkur og Staðar skildi eftir mikið af póstflutningnum hingað norður fyrir sunnan Holtavörðuheiði, svo ekkert kom hingað af Reykjavíkurblöðunum. Í Langholti í Borgarfirði hafði brunnið mikið af bænum.

Norðanfari birtir þann 14.mars bréf úr Seyðisfirði dagsett 30.janúar:

Það sem af er vetri hefir mátt heita sérlega hagstæð tíð, einkum fyrir landbóndann; nærri alltaf jarðir víðast einkum til Héraðs og í hinum snjóléttu fjörðum, enda öllum stöðum, því þó tekið hafi fyrir jörð, hefir það staðið mjög skamma stund, en fjarska hefir verið umhleypinga- og rosasamt. Hefir því verið óstöðugt sjóarúthald manna hér í Seyðisfirði. En ekki er það tíðin ein, heldur allt, sem virðist banna björg úr sjó hér.

Febrúar: Stórviðrasamt, óvenju eindregnar norðanáttir voru í mánuðinum og oft ofsaveður. Óvenjulegt fannfergi austan- og norðanlands, en mun minni snjór suðvestanlands. Mjög kalt.

Yfirlit Austra (18.2. 1886):

Febrúarmánuður. byrjaði með stórhríðum, feiknalegu snjófalli og jarðbönnum nærfellt á hverjum degi; hélst mánuðinn út. Kom þá svo mikill snjór að elstu menn mundu ei annan eins.

Ísafold segir frá illviðri í Reykjavík í frétt þann 4.:

Hér var vikuna sem leið mesta stórviðri á norðan, frá föstudegi [30.janúar] til þriðjudags [3.febrúar]; á laugardaginn einkum einhver hin mestu aftök, sem hér koma. Eitthvað 8 manns voru veðurtepptir í póstskipinu úti á höfninni í þrjá daga.

Þann 18.febrúar féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar á Seyðisfirði. Einhver  gagnorðasta samtímablaðafréttin af því birtist í Norðanfara 31.mars, höfð eftir bréfi sem ritað var á Seyðisfirði þann 3.mars - en frásagnir má allvíða finna sem greina nánar frá:

Hér hafa gengið stöðugar stórhríðar fast að því í 5 vikur og er meiri snjór fallinn á þessum tíma en elstu menn muna eftir. Seyðisfjörður hefir líka á mjög tilfinnanlegan  hátt fengið að kenna á afleiðingum snjókomunnar, því að allur miðhluti verslunarstaðarins er eyddur af snjóflóði.

Það var hinn 18 febr. um morguninn að afarmikið snjóflóð tók sig upp efst í fjalli því, er hér er fyrir ofan Ölduna og tók af 14 stærri og smærri íbúðarhús og 24 menn týndust i flóðinu, og er það nærri því furða að eigi fórust fleiri menn, því að í þessum húsum bjuggu um 90 manns og margt af því kvenfólk og börn; ... Af þeim 24 sem fórust eru aðeins 9 lík fundin ennþá. Auk framannefndra húsa, skemmdust 2 íbúðarhús mikið og fleiri geymsluhús og fiskiskúrar og bátar er farið með; eignatjónið er fjarska mikið því að mikið af þessu lenti í sjóinn, og hefir skolast burtu. Þetta snjóflóð tók hús, sem hingað til hefir verið álitið óhætt svo sem „Glasgow“, elsta húsið hér á Öldunni, sem, hefir staðið síðan fyrir 1850. Það er eigi ennþá séð fyrir, hvað mikið verður standandi af húsum hér á Öldunni því að öll út-Aldan er í veði og eru allir, bæði menn og málleysingjar flúnir þaðan hingað neðst, á Ölduna í þau fáu hús sem líklega er óhætt, en svo eru aftur sumir flúnir héðan út á Vestdalseyri. Meðal húsa þeirra sem fórust var „Hótel Ísland“ í annað sinn.

Hér utar í firðinum hefir snjóflóð tekið tvö fiskihús og úr Dalakjálka í Mjóafirði hefir frést að 2 bæir væru farnir, fólk komst af, en fénaðurinn drapst. Í Norðfirði hefir tekið af 2 bæi og eitthvað af mönnum farist, en eg hefi eigi fengið greinilegar fréttir þaðan. Víðar hefir eigi frést að ennþá.

Í Norðanfara þann 31.mars er frétt úr Norðfirði, höfð eftir Grímsstaðapósti:

Í sömu hríðunum og snjóflóðið hljóp á Seyðisfirði kvað annað snjóflóð hafa hlaupið i Norðfirði á bæinn Naustahvamm og þar farist inni 3 menn, 2 kýr, 30 kindur og eitt hross.

Austri birti þann 25.apríl nánari fréttir af Naustahvammsflóðinu - það féll rúmri viku eftir Seyðisfjarðarflóðið:

Í því hinu mikla áfelli er byrjaði síðast í janúar og stóð í fullan mánuð þannig að daglega snjóaði meira og minna urðu viðar skaðar af snjóflóðum en hér í Seyðisfirði. Þannig féll snjóflóð á Naustahvamm í Norðfirði kl.2 um nóttina til hins 26. febrúar og tók af 2 býli hjá ekkjum 2 er þar bjuggu. Þegar er flóðið féll varð vart við það af mönnum er bjuggu þar í öðrum kofum. Sendu þeir þegar um nóttina á næstu bæi til að safna mönnum. Var þá tekið að grafa upp fólkið og fundust allir lifandi á öðrum bænum 4 að tölu eftir að hafa legið 7 stundir í snjónum. Á hinum bænum fundust 2 börn lifandi, en örend var gömul kona og 2 börn á 4. og 1. ári. Móðir barnanna var ekki heima þegar flóðið féll. Á báðum býlunum brotnuðu nær því öll bæjarhús og eitthvað af úthýsum. Matbjörg eyddist öll, 1 kýr og hestur auk nokkurra sauðkinda fórst. Talsvert tapaðist af heyi, flest innanstokks ónýttist og yfirhöfuð varð skaðinn mikill og sártilfinnanlegur þar sem bláfátækir áttu í hlut.

Í sama áfellinu féll snjóflóð á Stærri-Dali í Dalakjálka í Mjóafirði. Braut það niður fjárhús með 40 til 50 kindum, tók af heystakka og flutti allt fram í sjó. Í Mjóafirði braut og snjóflóð niður stórt norskt síldarveiðahús og allstórt fiskihús. Á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði féll í sömu ótíðinni flóð á sauðahús. Tók heyin af, niður við tóftarveggi en húsin sjálf sakaði ekki. „Austri" hefur áður sagt frá hinu mikla snjóflóði á Fjarðaröldu, og þeim skemmdum er það olli, en honum hefur gleymst að geta þess að um sömu mundir tók snjóflóð 2 fiskihús í Selstaðavik svo og fiskihjalla milli Eyrar og Öldu. Og í sambandi við hina miklu skaða, er víðsvegar hafa orðið af snjóflóðum, má geta þess að allvíða hér í Seyðisfirði hafa hjallar skekkst og sligast og bátar skemmst undir hinum afarþykka og þunga snjó.

Úr Dölum er skrifað 18.febrúar og birt í Ísafold þann 4.mars:

Hér eru einlægt hríðarmoldir dag eftir dag núna að kalla samfleytt í 3 vikur.

Fróði segir þann 20.febrúar - dagsetur fréttina á Akureyri þann 18.:

Í þrjár vikur samfleytt hefir verið hríð og dimmviðri. Veður hefir verið af norðaustri, mikill snjór hefir fallið að vonum. Frést hefir að í byrjun þessara illviðra hafi maður orðið úti milli Sauðárkróks og Sauðár í Skagafirði. Nokkuð af smáum hákarli hefir aflast fyrirfarandi daga upp um ís hér á höfninni.

Þann 14.mars er í Norðanfara bréf úr Axarfirði, dagsett 21.febrúar, þar sem segir m.a. frá miklum jarðskjálfta þann 25.janúar:

Það er lítið að frétta héðan, nema hríðar miklar síðan viku af þorra, og er afarmikill snjór kominn hér niður í Norður-Þingeyjarsýslunni. Þó hefir ávallt verið heldur frostalitið (mest -11°R) og stundum næstum frostalaust. Jarðskjálfti kom hér óvanalega mikill og langur fyrsta sunnudag í þorra kl.10:45 f.m. og stóð hann hér um 5 mín. Varð mest af honum neðan til á Kelduhverfi (á Vatnsbæjunum) og hrundu þar hús og löskuðust allmikið; síðan verður hér jarðskjálfta vart á hverjum degi má heita, en þeir eru nú litlir. Hvergi spyrst til, að annarstaðar hafi skaði orðið af honum.

Frá jarðskjálftanum segir líka í öðru bréfi í Norðanfara 31.mars, það er dagsett í Axarfirði 10.mars:

25. janúar kom hér allharður jarðskjálfti, jörðin gekk í bylgjum, svo fólk gat ekki á fótum staðið, mynduðust víða gjár og sprungur og vall upp vatn og sandur, hús skekktust og jafnvel hröpuðu, sumstaðar hefir að líkindum orðið mikið jarðrask og skemmdir á engjum, og vitnast það ekki fullkomlega fyrr enn í sumar. Kippur þessi var mestur hér í Kelduhverfi og Axarfirði.

Fram kemur í Norðanfara þann 20.mars að skjálftans hafi einnig orðið vart austur í Norðfirði og þar töldu menn sig verða varir við öskuryk á fé. 

Í Austra, 18.apríl er bréf úr Þistilfirði dagsett 19.febrúar. Þar er fjallað um jarðskjálftann mikla:

Sunnudaginn hinn 25.[janúar] um hádegisbilið gjörði hér um sveitir afarmikinn jarðskjálfta. Kippurinn var í það sinn aðeins einn, en mun hafa varað um fulla mínútu, allt lék á reiðiskjálfi, hús hristust svo, að brakaði í hverju tré og allt sem lauslegt var skrölti til; ilát sem stóðu naumt á hillum eða hirslum duttu ofan, víða hrundi úr veggjum, einkum þó þeim sem hrörlegir voru. Í kirkjunni á Svalbarði í Þistilfirði hrundi altaristaflan, sem fest var upp a 4 krókum, niður og brotnaði; efri krókarnir er að vísu voru nokkuð veikir, höfðu brotnað um þvert. Hestar fældust sem úti voru. Fé hrökk saman í haga. Menn sem voru á ferð eða gangi úti fundu glöggt hvernig jörðin gekk í öldum undir fótum þeirra. Smásprungur komu víða í jörð, svell og hjarn.

Langmestur varð jarðskjálfti þessi í Kelduhverfi og mestar afleiðingar hans. Allur ís brotnaði af Jökulsá frá sjó lengst upp á öræfi, hús skekktust, matur skemmdist. Ný gjá myndaðist eitthvað í miðju hverfinu, að sögn nálægt Grásíðu, varasöm yfirferðar; á tveim stöðum sást þar rjúka upp úr jörðu. Er vonandi að Keldhverfingar lýsi þessum
náttúruumbrotum hjá sér nákvæmlega í dagblöðunum. Annarstaðar hefur ekki jarðskjálfti þessi valdið stórskemmdum eða tjóni, það frést hefur. Hér austan Axarfjarðarheiðar fóru miklir dynkir og skruðningar rétt á undan honum, sem virtust koma úr suðvestri, eins og líka hristingurinn virtist vera frá vestri til austurs.

Bréfið heldur svo áfram og lýsir tíð - fyrst í janúarlok en síðan í febrúar:

Vetrartíðin var hér um sveitir hin æskilegasta allt til janúarloka, þá skipti um. 26. f.m. daginn næsta eftir jarðskjálftann gjörði molludrífu mikla, sem varaði aðeins 3 klukkutíma. Svo aftur stillt og bjart veður til 29., en að kveldi þess dags var loftsútlit skuggalegt. Hinn 30. var skollin á norðaustan kafaldshríð; hafa síðan staðið yfir stórkafalds norðan- og norðaustanhríðar í samfleytta 19 daga, aðeins tvisvar dálítil upprof hinn 4. og 13. þ.m. þó engin veruleg uppbirta fyrr en i dag. Eru því hin mestu kyngi fallin af snjó um þessar sveitir. Frost hafa mátt teljast væg i samanburði við veðurofsann og fannfergið; merki sjást engin til þess að hafís sé í nánd og eigi hefur orðið vart við trjáreka. Margir eru hér á þeirri trú að jarðskjálftinn mikli hafi verið fyrirboði þessarar miklu tíðarumbreytingar, þó að þorvaldur Thoroddsen efist um það í Andvara, að jarðskjálfti geti staðið í nokkru sambandi við tíðarumskipti. Svo virðist þó oftar hafa átt sér stað.

Í sama tölublaði Austra er einnig bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 3.mars:

Frá nýári og fram undir janúarmánaðarlok mátti heita öndvegistíð og góðir hagar fyrir sauðfé og hross; síðan brá til norðaustanáttar með ákafri snjókomu og stormi, sem hélst í samfleyttar 3 vikur úrtakalaust, snerist hann þá meir til austurs og snjóaði þá meira um allan efri hluta Héraðsins, og nú síðustu 4 dagana (3.mars) hefur verið bjart veður og kyrrt af norðvestri með 10-18 gráða frosti (á R), en áður í veðrunum var mjög frostlítið (frá 0-6°R). Á þessum tíma hefur fallið svo mikill snjór um Hérað og Jökuldal, að valla eru dæmi til annars eins á jafnstuttum tíma og því haglaust að kalla, það sem til hefur frést, og líklega eins um alla Austfjörðu, þó kvað hafa snjóað minna fyrir sunnan Berufjarðarskarð.

Dagana fyrir 25. janúar bar á öskufalli um efra hluta Fljótsdalshéraðs, og varð fé víða kolótt í haganum, enda sást vottur þess á snjó, en eigi á jörð. Þennan sama dag varð
hér allharður jarðskjálfti úr vestri og fylgdi allhörð reiðarduna, svo hross fældust t.d. á nesjunum i Fljótsdal. Seint í veðrunum varð unglingspiltur, Páll nokkur Hallsson. Skaftfellingur, úti í Skriðdal milli bæja; hann var til heimilis í Flögu.

Norðanfari segir þann 24.febrúar frá snjóþyngslum á Akureyri og í grennd:

Í meir en 3 vikur, að 2 dögum fráskildum, sem hríðar-upprof var, hafa hér fyrir norðan Yxnadalsheiði dag og nótt, verið sífelld norðanhvassviður með mikilli snjókomu og aðfenni, svo að sum hús hér í bænum eru nær því komin í kaf, hvað þá í snjóþungum sveitum. Hvorugur póstanna, að austan eða vestan eru enn komnir hingað. Síðan illviðrin byrjuðu hefir varla orðið á sjó komið og því aflalaust af síld og fiski, en venju framar aflast hér upp um ís á pollinum ...

Ísafold segir af Rangárvöllum þann 4.mars (eftir bréfi dagsettu þann 24.febrúar):

Eftir hina ágætu hálfsmánaðarhláku í janúar frysti aftur og rauk í norðanbálviður 27.jan . Var þá í Landssveit og á Rangárvöllum slíkt sandrok um hálfan mánuð, til ll.febrúar, að líkast var sandkastinu vorið 1882. Ekki ber enn á veiki í skepnum af sandinum, því allir gáfu inni, en jarðir nokkrar fóru svo í kaf við það í sveitum þessum og aðrar skemmdust svo, sem áður voru óskemmdar, að óumflýjanlegt virðist að láta meta þær upp að nýju fyrir þing. Norðanáttin er enn mjög köld og sendin. Allvíða er farið að tala um heyskort, ofan á það sem skorið var í vetur.

Í Norðanfara 31.mars er bréf frá Blönduósi dagsett 24.febrúar:

Veturinn hefir verið góður, en þó mjög stormasamur þangað til um mánaðamótin, þá skipti um, og síðan hafa verið hér látlausar hríðar oft með óstandandi ofveðrum og í dag þegar loksins birti upp sést hafísinn, kominn inn með öllum Ströndum, allt inn að Reykjafirði. Svo fréttist í morgun að talsverður íshroði væri kominn að Skaganum ...

Suðri birtir bréf úr Skaftafellssýslu 19.mars - klakinn var að hluta til afleiðingar austurhlaups Kúðafljóts haustið áður:

Að austan (úr Skaftafellssýslu) er oss skrifað 2. þ.m.: Veturinn hefur mönnum þótt harður yfir höfuð það sem af honum er, en þó langverstur, á sléttlendinu, svo sem í Meðallandi, því par er klaki og ís nær því yfir allt og þar sem jörð gæti sest, þá er hún þakin foksandi, sem bar á í hinu langvinna norðanveðri á þorranum. Þannig hafa jarðir í Meðallandi og Landbroti skemmst svo, að margar jarðir eru skemmdar að þriðjung á túni, slægjum og högum.

Eg verð að nefna helstu orsakirnar til þess, að Meðallendingar eru svo verr en aðrir á vegi staddir. þeirra engi er allt mýrlendi og gátu þeir því ekki í rosunum í sumar heyjað á aðalengi sínu; þar á ofan bættist að í fyrstu byljunum í vetur hljóp Kúðafljót austur um allt Útmeðalland, svo flýja varð með fénað úr sumum húsum; síðan lagði íshellu yfir alla jörð, svo jörð kemur þar ekki upp fyrr en langvinn þíðviðri og vorblíða kemur. Nú er allstaðar hagleysi fyrir fádæmilegan snjó.

Mars: Umhleypingasöm og vond tíð.

Yfirlit Austra:

Marsmánuður. Fyrstu dagana bjartviðri á vestan með 18—20° frosti, oftast bjartviðri til þess 12. og 13. að leysing kom og nokkur jörð, eftir það vestan og norðvestan oftast með miklu frosti þar til hinn 25. að brá til útsynninga með nokkurri snjókomu; 29. og 30. norðvestan bjartviðri; 31. norðvestan él með miklum stormi.

Þann 31.mars birti Norðanfari frétt úr Vopnafirði og af Jökuldal (ódagsetta):

Úr Vopnafirði sjálfum er hið sama að frétta, sem annarstaðar, [...] svo mikill gaddur að engir þykjast muna jafnstórkostlegan. Sumstaðar eru fjárhúsin farin að brotna inn undan snjóþyngslunum, því þar sem lítil mannaráð eru, anna því ekki litlir kraftar að moka burt slíkum ósköpum; það hefir t.d. frést að á Jökuldal væru menn farnir að reka niður 6-8 álna langar spítur ofan á mænir fjárhúsanna til að fínna þau.

Norðanfari birti 17.apríl bréf úr Strandasýslu dagsett 20.mars:

Tíðin hefir verið nokkuð stórkostleg í vetur hér um pláss þó út yfir tæki hinn hvíldarlausi norðanvindur á þorranum, sem mátti heila að stæði með jöfnu ofsaveðri i 3 vikur, en frost var aldrei hér meira við sjóinn en 10° á Reaumur, en sjókuldinn var mikill, þá lagði Kollafjörð allan út fyrir Nesjabæi, og árfreðar urðu þar víða yfir 2 mannhæðir; í þeim stormi varð víða rekavart, en gat óvíða komist að vegna kraps og fjar[ða]freðanna. Síðan norðanveðrinu slotaði, hefir tíðin verið óstöðug en ekki stórgerð. Víðast hér er góð jarðsnöp þegar á hana gefur. 

Apríl: Umhleypingasamt, en hláka og hlýindi síðustu vikuna.

Yfirlit Austra:

Aprílmánuður. Bjartviðri á vestan fyrstu dagana, leysing nokkur hinn 4.; austan og norðaustan öðru hverju með nokkurri snjókomu til hins 12., þá bjartviðri á vestan. Hinn 15. útsynningur sem hélst af og til til hins 20., þá norðaustan með nokkurri snjókomu til hins 26., þá austan leysingar með regni það eftir var mánaðarins.

Ísafold hrósar tíð syðra þann 15.apríl:

Blíðviðri hér síðan á páskum [5.apríl]. Þá mun og hafa komið batinn annarstaðar um land, að því er frekast hefir spurst með póstum, eftir einhvern hinn mesta snjóavetur í manna minnum. Ekki varð hestum komið við; norður yfir Holtavörðuheiði um páskana og varð póstur að fara selflutning á sleðum með koffortin norður yfir, í 3-4 ferðum, með því að ekki fékkst mannafli til að koma þeim í einu lagi. Við hafís hvergi vart.

Norðanfari birtir 22.maí bréf af Melrakkasléttu dagsett 2.maí:

Veðuráttan fremur stirð og mikill snjór ennþá, þó hefur hann talsvert tekið þessa síðustu daga, því það hefur verið frostlaust og austan þokur. Hafís sást héðan fyrst 21 mars en hvarf aftur; síðan kom hann aftur 21.apríl og varð þá landfastur, en ekki er það sem sést annað en hroði, sem aðeins fyllir víkur og voga hér nálægt en íslaust fyrir utan, vonast menn ekki eftir neinu af ísnum í þetta sinn, enda kæmi það sér betur.

Maí: Óhagstæð og köld tíð. Skárra sums staðar í skjóli fjalla syðra.

Yfirlit Austra:

Maímánuður. Austlægur með kulda og þoku til hins 5., þá norðaustanhríðar til hins 10., svo vestan og sólbráð annað slagið til hins 21.að vestanleysing kom. Eftir það norðaustan með snjókomu nokkurri öðru hverju, til hins 28., þá þoka á austan en úrkomulítið út mánuðinn.

Austri segir þann 12.maí (nokkuð stytt hér):

Tíðarfar hér eystra eins og líka allstaðar þar sem vér höfum til frétt er einlagt mjög kalt, og þiðnar litið hinn afarmikli gaddur sem niður kom í mánaðarhríðunum i vetur. Er í mörgum sveitum, bæði á Úthéraði og Fjörðum næstum alveg jarðlaust enn, þótt hálfur mánuður sé af sumri. Upphérað er þó orðið autt fyrir löngu, enda er það altítt að þar sé að mestu snjólaust þótt á Úthéraði og Fjörðum sé haglaust.

Hin kalda þokufulla veðrátta, sem nú er búin að standa um langan tíma, svo að sólar hefur ekki notið virðist benda á að hafís hljóti að vera nálægur. Þó er hreinn sjór út af Langanesi, þar sem ísinn átti að vera landfastur, eins og sagt er i 5. tbl. „Austra". en sú frétt var höfð eftir norskum skipstjóra, er hingað kom á skipi er sneri aftur við nesið af því hann þóttist sjá ís. Líklega hafa það verið Geirlaugarsjónir. Á Eyjafirði var þegar póstur fór þaðan allur pollurinn lagður ísi; kaupskipin komust ekki inn á leguna og var því öllum vörunum ekið úr þeim á sleðum í land.

Þann 22. maí birti Norðanfari bréf frá Seyðisfirði - í því eru hugleiðingar vegna snjóflóðsins mikla sem við skulum líta á:

Seint tekur upp af húsarústunum hér af Öldunni, þó eru alltaf að finnast ýmislegir munir, en margt af því er skemmt og sumt eyðilagt alveg. Enn hafa eigi fundist 2 börn, þó mikið hafi verið leitað, og heppnasta, má telja þá, sem dóu í flóðinu hjá þeim sem náðust teygðir og limlestir, en því betur eru þeir fáir. Það er víst kvenmaður einn, sem missti foreldra sína, er fór verst, og lítur út fyrir að hún verði aldrei jafngóð.  Það er annars hryggilegt að vita til þess, að menn skuli með fávisku sinni hafa bakað sér allan þennan ófagnað. Eða hvað var það annað en skammsýni að flytja búsið eftir fyrra flóðið 1882, um nokkra faðma, og hugsa sér að snjóflóð gæti ómögulega fallið öðruvísi en þá. Barnaskólahúsið átti líka að setjast á það svæði, sem síðasta flóð gekk yfir og munaði einungis einu atkvæði á fundi sem haldinn var, það var sett á annan stað neðar, annars hefði það nú farið.

Verst er þó af öllu að þetta skuli enn sitja fast í höfðum á mönnum, að tanginn eða neðri hluti kaupstaðarstæðisins, sé óhultur fyrir snjóflóðum, enn það er öðru nær en svo sé að margra manna áliti hér. Efri hluti kaupstaðarins, þar sem hinar norsku sölubúðir standa, og Liverpool, er þaðan af síður óhultur. Sumir af þeim sem fengu hús sín skemmd í flóðinu og að mestu eyðilögð, tala um að reisa þau við aftur á sama stað, en heyrst hefir að sýslumaður hafi bannað það. Tveir hafa flutt hús sín alveg burt af Öldunni, þau stóðu skammt frá Liverpool og má vera að fleiri gjöri það, sem búa þar ofan til. Gísli Jónsson gullsmiður ók húsi sínu í heilu lagi ofan á tangann, og ætlar hann að láta þar fyrirberast. Þar skammt frá, er einnig verið að reisa nýtt hús. svo á því sést, að menn þykjast þar úr allri hættu fyrir snjóflóðum, þó sumir séu á hinu gagnstæða.

Júní: Mjög óhagstæð og köld tíð. Kyrkingur í gróðri.

Yfirlit Austra:

Júnímánuður byrjaði með norðaustan hríðum og mikilli snjókomu, var landstæður þann 7., af vestri og suðvestri til hins 18., þá austan og norðaustan til hins 21., svo vestan og suðvestan, var þá eigi úthagi betur gróinn í 9. viku sumars en að það gæti kallast sauðgróður. Þann 24. norðaustan krapahríð með stormviðri, eftir það nokkuð hvassir vestanvindar mánuðinn á enda.

Jónas Jónassen segir frá í Ísafold 10.. 17. og 24.júní, heldur aum sumartíð:

[10.] Þessa vikuna hefir haldist sama norðanáttin með sífelldum kulda og náttfrosti; aðfaranóttina h. 8. gjörði hér alhvítt seinni part nætur og haglhryðjur voru um morguninn; Esjan var alhvít, rétt eins og um hávetur. Í dag [9.] bjart sólskinsveður, logn hér, norðan til djúpanna. Loftþyngdarmælir stendur hátt.

[17.] Um kveldið hinn 9. gekk veður til landsunnanáttar og hefir verið við sömu átt þessa viku, oftast hvass og með mikilli úrkomu dag og nótt, einkum var úrhellisrigning kveldið 13. Við og við hefir hann gengið í vestur-útnorður með haglhryðjum; kalsi hefir verið mikill í loftinu. Í dag landsunnan hvass með regni.

[24.] Alla vikuna hefir hann verið við norðanátt, oftast hægur og bjartur, 21. gekk hann til landssuðurs með regni; aðfaranótt h. 22. snjóaði í Esjuna og var hér hvass fyrri part dags á vestan útnorðan, logn að kveldi. Í dag 23, norðvestan, hvass, dimmur; ýrði regn úr lofti stutta stund fyrri part dags.

Ísafold segir frá tíð í pistli þann 24.júní:

Þetta vor hefir verið eitthvert hið harðasta, er dæmi eru til, víðast um land. Megnustu kuldar fram yfir fardaga og gjörsamlegt gróðurleysi; frostbyljir öðru hvoru, einkum fyrir norðan og á Austfjörðum. Þar, á Austfjörðum, var viku eftir fardaga fullkomið jarðbann í öllum sjávarsveitum frá því fyrir sunnan Mjóafjörð og norður fyrir Vopnafjörð, og það af gömlum gaddi; sást varla á dökkan díl. Mundu fáir trúa slíkum firnum. Á Vestfjörðum sumstaðar, t.d. á Snæfjallaströnd og víðar, voru tún undir fönn um sama leyti. Mundi eflaust hafa orðið kolfellir af fénaði um meiri hluta lands, hefði almenningur ekki verið óvenjuvel undir veturinn búinn víðast, nema á Suðurlandi, en þar kom vorbatinn fyrr en annarstaðar og þó seint og síður en eigi vel.

Í Norðanfara 10.júlí er bréf úr Bjarnarnesi í Austur-Skaftafellssýslu dagsett þann 6. sama mánaðar - á trúlega að vera 6.júní. Blaðið hætti að koma út í lok ágúst). Í bréfinu úr Hornafirði segir m.a.: „Tíðin hefir verið frábærlega köld og stormasöm og aldrei komið votur dropi úr lofti í allt vor, en stöku sinnum hrotið snjókorn í fjöllum, enda verða kýr ekki út látnar hjá þeim, sem geta gefið þeim, en flestir eru alveg heylausir og verða að gjöra sér að góðu að beita þeim þó ekkert sé grasið, og lygnutjarnir allagðar með ís á hverjum morgni, fyrir utan norðan og norðaustan storma, sem stöðugt hefir minnt á, síðan í fyrstu viku þorra, að til þeirra brá. Hér í sveit var sjaldan haglaust í vetur, hefði verið hægt vegna sífelldra storma og snjóbylja, að nota þá, en í nærsveitunum Mýrum og Lóni, voru stöðugar hagleysur lengstum í vetur, og komu hingað töluverðu af hrossum og sauðfénaði, einkum af Mýrunum“.  

Bréfið úr Grímsey - dagsett 14.júlí (á trúlega að vera 14.júní - fyrsta frostlausa nótt júnímánaðar í eynni var þann 9. - lágmarkshiti var -4 stig bæði þann 4. og 5. Ekkert frost mældist þar í júlí, en fjóra daga er þá snjókomu getið):

Veturinn hefur verið veðrasamur í meira lagi, aldrei gefið á sjó, frost stígið hæst, 16°, en þar neðan undir 11-13 og nú allt að þessu 4-5° á hverjum morgni og í fæstum orðum að segja, hefur það verið einhver sá versti vetur. Árna á Sandvík, varð ónýtur í vor bjargpartur sem heitir Fótur og liggur norðan á eynni, en er nú sem Klakastólpi til að líta, fyrir þetta tapar hann þar öllum fugli og eggjum ...

Júlí: Mjög köld og óhagstæð tíð fram eftir mánuðinum, en þá brá til betra, óvenju síðbúin leysingaflóð urðu víða norðanlands.

Yfirlit Austra:

Júlímánuður. Fyrstu dagana kaldur á norðan og norðvestan., þann 4. krapaél norðaustan og snjóaði í fjöll, svo vestan til hins 8. þá norðaustan og austan með kulda til hins 23., komst hann þá suðvestan. Um þetta leyti munu flestir hafa byrjað slátt, þótt lítill væri grasvöxtur 13 vikur af sumri. Suðvestan og vestan þurrkar héldust það eftir var mánaðarins.

Jónas segir frá þann 8.júlí - enn sami kuldinn:

Þessa vikuna hefir verið óstöðugt, hlaupið úr einni átt í aðra, og má segja, að óvenjulegur kuldi sé í loftinu; [Þann] 1. gjörði hér alhvítt skömmu fyrir miðnætti af hagléljum og sama átti sér stað að morgni daginn eftir; þá varð Esjan alhvít niður til miðs rétt sem um hávetur; njóti eigi sólarinnar er hitamælir óðara kominn niður í 5-6 stig á daginn. Í dag 7. hægur á landsunnan dimmur og væta í lofti; mikil úrkoma síðan í gær.

Fróði birtir 10.ágúst bréf úr Patreksfirði dagsett 27.júlí:

Hér lítur almennt út fyrir hið stakasta grasleysi, Svo sem engir eru enn farnir að slá. Fremur var aflalítið á vorinu helst sökum mikilla ógæfta. Það er næstum eintómur steinbítur, sem aflast hefir. Þilskipin hafa aflað dável. Útlit með ástæður almennings framvegis er hið langversta sem nokkru sinni hefir verið. Vorkuldarnir og þurrkarnir hafa dregið úr öllum grasvexti. Frost um nætur var jafnvel fram í þennan mánuð og snjór í fjöll. Óþiðinn snjór enn í dag í giljum á túnum. Mörg þeirra kalin. Úthagar nú fyrst að grænka, eins engjar.

Norðanfari greinir þann 1.ágúst frá batnandi tíð nyrðra:

Í næstliðnar 3 vikur hefir hér nyrðra verið æskileg veðurátta, oftar sunnanátt með hlýindum og stöku sinnum úrkomur, hitinn á daginn í forsælunni orðið mestur 14-16 stig, en á nóttunni 8-11 á R. Vatnavextir hafa því orðið fjarska miklir. Grasvextinum hefir farið furðu mikið fram. 

Þann 8.heldur Norðanfari áfram:

Vatnavextir hafa víða hér norðanlands verið dæmafáir í þessum næstliðna mánuði, einkum þann 28., vegna hinnar miklu fannfergju, sem þá var enn eftir á fjöllum, afréttum  og sumstaðar í byggð, svo að allar stærri ár, sem renna eftir héruðum og margar þverár urðu svo vatnsmiklar að þær flóðu yfir bakka sína, svo víða spilltust slægjulönd og enda bithagi; brýr brotnuðu af þverám og fyrirhleðslugarðar ónýttust, víða hlupu og fram skriður, vegir spilltust, og er þjóðvegurinn yfir Yxnadalsheiði nú sagður illfær. Á Stóruvöllum í Bárðardal hefir skriða hlaupið úr fjallinu og tekið þar part af túninu.

Ágúst: Þurrkar og blíðviðri víðast hvar á landinu.

Yfirlit Austra:

Ágústmánuður. Vestan hægviðri og sólskin til hins 6. þá austan, síðan norðaustan kraparegn í byggð en snjór á fjöllum, svo mikill að nær því var umbrot fyrir hesta. Þann 12. kom veður norðan og norðvestan með stormi öðru hverju til hins 16., svo vestan og og suðvestan. til 22., þá suðlægur með regni til hins 24., svo norðvestan hægviðri til 28., eftir það vestan þerrir.

Fróði birtir 10.október bréf úr Austur-Skaftafellsýslu og Patreksfirði dagsett snemma í september:

[Austur-Skaftafellssýslu 8.september] Tíðin hagfelld, svo að segja úrkomulaus síðan um mánaðamót júlí og ágúst nema nú 3 daga rigning og óveður. Valllendi sprottið með minna móti, en mýrar í meðallagi. Góð nýting á því sem fengist hefur af heyi.

[Patreksfirði 4.september] Tíðin hefir verið góð og stillt um tíma, en lítill þerrir svo fólk á mikið hey úti víða. Töður eru jafnvel eigi allstaðar innkomnar. Óhætt mun að segja, að þær verði helmingi til þriðjungi minni, en í meðalári. Engjar eru víða í langsneggsta lagi. Ameríkanskt heilagfiskisskip strandaði við Barðaströnd er sagt að hafi haft 150,000 pund af heilagfiski.

September: Rigningasamt, einkum austanlands.

Yfirlit Austra:

Septembermánuður byrjaði með suðvestan hægviðri og skúradrögum til hins 4., þá austan af og til með mikilli úrkomu og hvassviðri til hins 16., birti þá upp af norðri og norðvestri með nokkru snjófalli til fjalla, héldust hreinviðri til hins 19. að hann komst austan á ný, mátti heita að óþurrkar héldust stöðugt til 28. að mánuðurinn enti með vestan þurrkum.

Austri segir 22.september frá heyskapartíð og fleiru:

Jafnvel þótt hin afarkalda vortíð héldist stöðugt langt fram eftir sumri, svo að snjóa leysti sumstaðar af túnum ekki fyrr en í júlímánuði, varð þó grasvöxtur á túnum í sumum sveitum ekki afleitur. Og þar sem svo seint tók að gróa, hélt útengi áfram að vaxa allt fram að septembermánaðarbyrjun. Var þá nær því allstaðar hér austanlands, þar sem vér höfum frétt til, engi orðið í meðallagi og víða í besta lagi. Gátu menn því vænst, þótt heyskapur yrði byrjaður með seinasta móti í Múlasýslum, almennt um 15. sumarhelgi, að heyföng kynnu á endanum að verða í meðallagi, ef þerrisamt yrði, og tíð góð langt fram á haust.

En þar sem með september brá til óþurrka og nú hefur að undanförnu allt til 17. þ.m. stöðugt rignt um 2 vikur i fjörðum og á Úthéraði, svo engjar hafa víða fyllst af vatni, en áður var votengi jafnvel í blautara lagi, þó er útlit fyrir að heyafli verði víða með langminnsta móti. Rigningagusa sú sem nú er nýafstaðin gerði mönnum mikinn skaða ekki einungis það er til heyskaparins kom, heldur og það er fisk snerti. Fyrir rigningarnar höfðu margir þvegið mikið út af fiski, sem úr þessu er litlar líkur til að þorni, svo að verslunarvara verði úr, enda hafa þegar margir saltað hann aftur niður. Og var þó mörgum áríðandi skuldanna vegna, að geta sem fyrst komið fiski sínum til kaupmanna. Af Norðurlandi var að frétta með síðasta póstskipi dágóðan grasvöxt, en bæði á Suðurlandi og Vesturlandi þótti mjög illa vaxið, og var þar útlit hið ískyggilegasta, þar sem bæði sjór og land hefur brugðist þar.

Fróði birtir 27.nóvember bréf úr Árnessýslu dagsett 25.september:

Framan af sumrinu voru þurrkar og kuldar til júnímánaðarloka, þá gerði rigningarkafla um nokkra daga, og þá fyrst mátti telja að bithagi kæmi á jörðu; en svo þornaði aftur og kólnaði og kom kyrkingur í allan grasvöxt nema votengi, þau spruttu allvel. Sláttur byrjaði ekki fyrr en um mánaðamótin (júlí-ágúst), fyrr voru tún ekki sláandi; varð þó helmings töðubrestur að jafnaði. Um túnasláttinn var vætusamt og hirtust töður víða nokkuð illa; hefir hitnað í þeim til skemmda. En þá fór útjörð helst að spretta og mun engjaheyskapur í meðallagi, eða nærfellt það í hinum láglendari sveitum. Enda þornaði aftur, svo votengi notaðist að góðum mun. Þó rigndi allmikið í byrjun september svo það fór í vatn aftur.

Í efri og þurrlendari sveitum er heyskapur svo rýr að menn muna eigi slíkt nema ef vera skyldi sumarið 1881, því þá var fádæma grasbrestur; en þó ekki meiri en nú. Þá var aftur nýting á öllu heyi hin ágætasta en nú var hún talsvert misbrestasöm; þá áttu og flestir meiri eða minni fyrningar frá fyrra ári, enn varla nokkur nú. Kál- og kartöflugarðar hafa einnig almennt brugðist; bæði fór það saman með öðru grasleysi og svo reið það baggamuninn að grimmdarfrost gerði tvær nætur saman 12. og 13.ágúst; þá dó allt kartöflugras út, og kál hefir heldur ekki þroskast síðan, fyrr enn nú næstliðna viku litið eitt því nú hefir verið væta og hlýtt veður.

Október: Bærileg tíð. Kalt norðaustanlands.

Yfirlit Austra:

Októbermánuður. Norðaustanstormur og hríðarbyljir til hins 12., fenntu þá og skemmdust mjög hey manna. Hægviðri á norðaustan og vestan þar til hlánaði af suðvestri þann 15., komu þá vestan hreinviðri til 20., þá norðaustan með snjóéljum af og til. 26. austan með kulda regni til 30.; þá suðlægur með úrkomu nokkurri síðustu daga mánaðarins.

Austri birtir 7.nóvember bréf úr Hornafirði dagsett 22.október (stytt hér):

Tíðarfarið á þessu útlíðanda sumri hefur verið gott síðan í júlímánuði því að þá brá til blíðviðra og stillingar, og hefur það haldist til þessa, nema snemma í þessum mánuði kom nokkuð kuldakast, og þá snjóaði nokkuð i fjöll, en mjög lítið á sléttu, en svo hafa nú aftur verið blíðviðri síðan. Grasvöxtur var fremur lítill hér í sumar, einkum voru tún mjög illa sprottin, svo að víða kom þriðjungi minna af þeim en i meðalári. Útengi var líka heldur illa sprottið, en það var að vaxa lengi fram eftir sumri, svo að það varð að lokum um það í meðallagi. En af því að tíðin var svo einstaklega hagfelld um heyjatímann, varð heyskapur almennt undir það í meðallagi. 

Nóvember: Bærileg tíð, nokkur snjór austanlands.

Yfirlit Austra:

Nóvembermánuður. Nærfellt stöðugt austan og norðaustan með krapableytum og áfrerum, stundum mikilli snjókomu og jarðbönnum til hins 14., hlánaði á uppsveitum og í Vopnafirði en ekki á Úthéraði þann 16., þann 17. norðan stormviðri með snjókomu, héldust norður og norðaustur með nokkurri snjókomu til 22., þá vestlægur með frosti nokkru til 25., eftir það austan með miklu regni út mánuðinn, kom þá upp nokkur jörð á Úthéraði.

Austri segir frá tíð og fleiru þann 7. og 28.nóvember:

[7.] Veturinn byrjar heldur harðindalega, á fjöll og heiðar er komið mesta fannkyngi og mun viðast til fjalla vera mjög vont til jarðar. Í byggðum er víðast alautt enn, að fráteknu föli er liggur yfir allt. Sem stendur er gott til haga í sveitum. En hláni ekki, lítur þó út fyrir harðindi. Föstudaginn 30. [október] fórst norsk smáskúta tilheyrandi Hansen kaupmanni á Seyðisfirði, í ofsaveðri úti fyrir Mjóafirði; skútunni var kollsiglt. Menn komust allir af, nema kvenmaður einn, að nafni Ragnheiður Ingimundardóttir; var undir þiljum niðri er skipinu hvolfdi. Hinir mennirnir komust í skipsbátinn.

[28.] Seyðisfirði 27. nóvember. Tíðarfar hefur um tíma verið bærilegt og allstillt, snjó þann er kom snemma í þessum mánuði, tók víða aftur að miklu leyti í byggð; þó er í sumum sveitum, einkum Úthéraði sagt vont til jarðar fyrir sakir storku, og útlit fyrir að jarðlaust verði, ef þar bætir snjó á áður en betur hlánar. 17. þ.m. var ofsa norðanveður hér i Seyðisfirði, bátur og 1 skúr fauk en skemmdust þó ekki mikið. Sama daginn var mesta ólátaveður í Jökulsárhlið sem þar er svo títt af þeirri átt, reif upp viða jarðveg þótt jörð væri frosin, og olli það miklum skemmdum á jörðu það er til útbeitar kemur. Kindur hrakti á stöku stöðum til dauðs. Og fremst i Tungunni á Stórabakka, þar sem norðanveðrin eru engu minni en i Hlíðinni, rotaðist maður er var að ganga við fé; fannst hann meðvitundarlaus úti en raknaði þó aftur við er búið var að flytja hann heim.

Þann 6.janúar 1886 birti Ísafold nokkur haustbréf utan af landi. Tíðar er þar stuttlega getið:

[Barðastrandarsýslu vestanverðri 17.nóvember]: „Hausttíð góð. ... Svo er heyskortur hér mikill eftir sumarið að menn eru nú almennt að fella af fénaði sínum þess vegna“. [Ísafirði 2.desember]: „Tíð í betra lagi til lands, lömb enn óvíða komin á gjöf“. [Húnavatnssýslu 4.desember]: „Tíðarfar gott hér um slóðir til landsins, en ekkert fæst úr sjó“. [Suður-Múlasýslu 11.nóvember]: „Tíðarfar í haust og það sem af er vetri fremur óstöðugt, en þó oftast hægviðri. Nú síðast snjóa- og úrfellasamt. Illt yfir fjöll fyrir póstana, verða að bera allt á bakinu, því ekki verður hesti komið við“. 

Suðri segir 31.desember fréttir af stjörnuhrapi. Þessi drífa sást víða um lönd, er fræg og lesa má um hana í fróðleikspistlum á netinu. Hún sást líka í Reykjavík, en þar var skýjað að miklu leyti og bar minna á:

Óvenjulegt stjörnuhrap. Frá Ísafirði er oss skrifað: Að kvöldi hins 26. og 27. [nóvember] var hér svo mikið stjörnuhrap um allt loftið, að mestu furðu gegndi, einkum síðara kvöldið; loftið var allt í einu leiftri og stjörnuglampinn svo bjartur, að björt rák var lengi eftir hrapið á loftinu í 10—15 sekúndur. Mest bar á þessu kl. 6-7 en hélt þó áfram til kl. 9, að loft þykknaði af landnorðan stormi með regni.

Desember: Tíð var talin allgóð - en umhleypingasamt var.

Yfirlit Austra:

Desembermánuður. Gerði krapastorku svo jarðillt varð og norðaustan hríðar til hins 6. Þá vestlægt og síðan norðaustlægt veður. Hinn 10. sunnan þíðviðri, svo áfreri norðaustan með snjókomu öðru hverju til hins 17., þá suðvestan leysing i 3 daga svo gott varð í högum, skiptust á útsynningar og suðaustan leysing og stormur á mis til hins 26., voru þá á lofti marglit ský nærfellt á hverjum degi með fegurstu regnbogalitum. Þann 26. var leysing með ofviðri á vestan, svo vatn og skara reif sem lausamjöll. Síðan norðvestan og norðaustan hríðar með miklu frosti til hins 30. Þá norðvestan stilling, og hinn 31. norðanveður með stormi og snjókomu.

Austri segir frá tíð 31.desember:

Seyðisfirði 28. desember. Tíðarfar hefur verið óstöðugt, en mjög milt, sjaldan komið mikil frost það sem af er vetrinum. Fyrir jólin voru stórmiklar hlákur af suðvestri, 10 stiga hiti á Réaumur 2 daga í senn. Byggðir eru nú viða næstum sumarauðar og til fjalla hefur snjórinn þynnst mikið. Í sumum sveitum t.d. á Upphéraði og Fjörðum gengur allt fé og hestar enn úti og hefur því ekkert enn verið gefið. Á Úthéraði var orðið hart áður en hlánaði fyrir jólin, hestar víðast komnir í hús og magrir orðnir, og allvíða farið að gefa fullorðnu fé til nokkurra muna.

Þjóðólfur segir þann 1.janúar 1886:

Tíðarfar er alltaf óstöðugt. Vikuna, sem leið, voru hlákur með sunnan- og útsunnanhvassviðri. Á sunnudagsnóttina [27.desember] frysti og kom dálítill snjór. Á mánudaginn var norðanstormur með talsverðu frosti (10°). Á miðvikudagsnóttina [30.] hlánaði aftur. Ofan úr sveitunum að frétta bestu jörð fyrir fénað.

Þann 8.janúar birti Þjóðólfur bréf úr Borgarfirði, dagsett 24.desember:

Það, sem af er vetrinum tíðast landátt; snjór lítill og sjaldan staðið viku lengur. Rigningar miklar. Frost mest mánudaginn 7. þ. m. 12°R. Fullorðnu fé eigi gefið enn; en lömb viðast tekin í fyrstu viku jólaföstu. Nær snjólaust nú. Verslun engin. Tveir kaupmenn (nýir) farið um koll. Lítur út fyrir bjargarskort og bágindi. 

Þann 5. febrúar birti Austri bréf frá Akureyri dagsett 8.janúar - þar segir um tíð fyrir áramót - og glitskýjasýn: 

Seinnihluta desembermánaðar mátti heita hér heldur góð tíð, oft þíður en var þó nokkuð óstillt. Í ofsaveðri 19. des. fauk hér bátur og braut í spón. Daginn eftir fannst í svonefndum Oddeyrarós vogmeri, og náðist hún lifandi, en þess vita menn engin dæmi áður, því hana rekur ætíð dauða og þó heldur sjaldan, og má því heita fágætur fiskur, og veit enginn hvar hún hefst við að jafnaði. Frá miðjum desember og allt að þessum tíma, og þó einkum rétt fyrir jólin, var oft einkennilega fagur litur á suðurloftinu, og þá mest á morgnana kl. 8-10. Skýin voru með regnbogalitum og öllum fegurstu lithreytingum, er hugsast geta. Tóku þessir litir sífelldum breytingum, dofnuðu á einum stað og skírðust á öðrum. Flestir er sáu sögðust aldrei hafa séð fegurri lit á loftinu. Loftið hefur alltaf verið mjög þrungið af vatni, og mun það vera orsök loftbreytinga þessara.

Lýkur hér að segja frá hinu erfiða ári 1885. - Í viðhenginu má finna ýmsar tölur - hitameðaltöl úrkomumagn og fleira.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ámóta staða - en þó heldur hlýrri

Landsynningsskotið í dag (þriðjudag 22.maí) var nokkuð snarpt og úrkoma mikil víða um landið sunnan- og vestanvert. Útlit er fyrir áframhaldandi úrkomutíð á þeim slóðum. Næstu lægðir verða þó varla jafnöflugar og þær síðustu tvær, ( - en engu að síður). 

w-blogg230518a

Norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á fimmtudag og eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn í fletinum. Litir sýna þykktina, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Sjá má lægðarbylgju yfir landinu á gildistíma kortsins - og síðan þá næstu við Nýfundnaland. Sú á að valda töluverðri rigningu hér á landi á föstudag-laugardag. Að sögn fylgja fleiri í kjölfarið. 

Þó heildarfyrirferð kalda loftsins minnki áberandi með hverri vikunni er það samt þaulsetið. Skipting á milli hlýja og kalda loftsins er nokkuð „eðlileg“ á þessu korti. Kalt loft er yfir þeim svæðum þar sem undirlagið er kalt - og hlýtt þar sem undirlagið er hlýtt. Staðan er því stöðugri en stundum áður - hlýindin yfir Evrópu þurrka yfirborð jarðar og auðvelda þar með þaulsetu hlýrrar hæðar. Snjórinn yfir Labrador og kaldur sjór þar austurundan kæla loftið og búa lægðardraginu kalda frekari framtíð. 

Við sjáum að sérlega hlýtt er yfir Skandinavíu. Þar má sjá að þykktin er meiri en 5580 metrar þar sem mest er - gerist vart betra hér á landi um hásumar. 

En það kemur samt trúlega að því að þessi staða riðlast. Langtímaspár eru stöðugt að gera því skóna að Skandinavíuhæðin hrökkvi til vesturs í áföngum - það myndi bæta veðurlag og hita hér umtalsvert (líka austanlands þar sem tíð hefur þó talist góð í maímánuði). 

Hins vegar hafa þessar spár ekki ræst hingað til og engin vissa fyrir því að þær muni gera það í framtíðinni. Svo er sá leiði möguleiki alltaf fyrir hendi að hæðin renni of langt til vesturs fari hún á skrið á annað borð. Við viljum varla að hún fari alveg vestur fyrir Grænland því sú staða færir okkur kaldasta loft norðurhvels á fáeinum dögum. 

Skammt öfganna á milli - háloftavindar fjörugir. 


Af árinu 1807

Ekki eru upplýsingar um tíðarfar ársins 1807 mjög ítarlegar, en harðindaár virðist það hafa verið - sérstaklega norðanlands. Samantektir byggja mjög á tíðarvísum þeirra Þórarins Jónssonar í Múla og Jóns Hjaltalín sem og árbókum Jóns Espólín sýslumanns í Skagafirði. Við nána athugun kemur hins vegar í ljós að tíðarvísurnar eru mjög almennar og Jón sýslumaður er nokkuð þungorður um tíðina. Björn á Brandstöðum er vægari í orðalagi - Þorvaldur Thoroddsen virðist ekki hafa séð þann annál og ekki vitnar hann heldur í bréf Geirs biskups Vídalín - sem síðar voru notuð í Annál Reykjavíkur. 

Fleiri upplýsingar eru fyrir hendi, dagbækur Jóns á Möðrufelli, illlæsilegar að vanda (ritstjóra hungurdiska) og (stopular) mælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla í Fljótshlíð. Í september hófust svo samfelldar mælingar danska strandmælingaflokksins á Akureyri. Fleiri hitamælar voru í landinu, en ekkert hefur fundist skráð. Ein tala þó nefnd, -26°R (=-32,5°C) á mæli Séra Péturs Péturssonar á Miklabæ í Skagafirði. Ekki er útilokað að frost hafi í raun orðið svo mikið þar - en dagsetningar er ekki getið.

Áætlanir um meðalhita sem gerðar hafa verið út frá mælingunum í Kotmúla og á Akureyri segja okkur að árið hafi verið kalt - giskað á 2,7 stig í Reykjavík. Sé eitthvað vit í því er þetta eitt af köldustu árum þar um slóðir - ívið kaldara en 1979. Febrúar var sérlega kaldur. Einhverjar upplýsingar eru til um að hafís hafi truflað siglingar verulega við Norður- og Austurland þetta sumar. Þorvaldur Thoroddsen segir t.d. að von Scheel sem var einn strandmælingamannanna hafi ekki komist til Akureyrar fyrr en 22. september, eftir 3 vikna hrakninga í þoku og ís undan Norðausturlandi - og 6 vikna ferð frá Kaupmannahöfn. 

Við lítum fyrst á samantekt séra Péturs í Grímsey í annál 19.aldar. Takið eftir því að Pétur efast um frásögn Espólín af Akureyrarferð Grímseyinga.  

Annáll nítjándu aldar:

Frá nýári var allgóð tíð til kyndilmessu [2.febrúar], svo hörð til miðgóu. Kom þá góð hláka, en kólnaði brátt aftur. Var mest frost á Miklabæ í Blönduhlíð, 26°R, en einu stigi minna í Hofsós. Vorið var kalt og hafþök af ís í kringum land allt, nema Faxafjörð (svo) að nokkru leyti. Var þar þó svo mikill lagís að eigi varð róið. Fyrir norðan land sá enginn út yfir hafísinn af háfjöllum, og Espólín segir að Grímseyingar hafi komið á honum inn á Akureyri, en þó er mjög ólíklegt að nokkur hafi dirfst að áræða slíkt. Sumarið var mjög kalt og gróðurlaust öndvert, tók af nautajörð í Skagafirði í júlí. Síðan varð óveðrasamt og hríðar, er verst þótti gegna og varð nýting hin bágasta norðanlands. Seint í ágúst og snemma í september lagði að með frosti og fjúki, og því meir sem norðar kom. Urðu þá fjárskaðar miklir; bæði voru heyin lítil og ill nyrðra, en fyrir suðaustan var nýting allgóð. Síðan var haustveðrátta bærileg, en þó norðlæg og köld, og stórhríð um allraheilagramessu [1.nóvember], þó létti brátt af aftur, en gekk á með umhleypingum allt til ársloka. 

Þenna vetur rak mergð mikla af dauðum svartfugli milli Langaness og Hrútafjarðar og hrönnum fannst hann dauður suður um fjöll og heiðar. Líks fugladauða er getið árið 1327 og aftur 1797. 

Þvínæst förum við yfir það sem Espólín hefur að segja um árið - og er ekkert að draga úr. Eins og sjá má er annálssamantektin að mestu fengin frá honum. Athyglisvert er það sem hann segir um vestanáttina - ef rétt er. 

X. Kap. Sá vetur var stríður ok harður, með miklum hörkum, og var mælt frostið at Miklabæ í Blönduhlíð 26 tröppur, eftir hitamæli Réaumurs, en einni tröppu minna í Hofsós; þar var þá Jakob Havstein faktor; voru hafísar svo miklir, at enginn mundi þá slíka, og komu þeir helst með vestan átt, þeirri er löngum hafði við haldist, síðan snjóaveturinn mikla, er þá var kallaður, og verið hafði þá fyrir 5 sumrum [1802]; var hafþök fyrir norðan og vestan og austan land, og svo fyrir sunnan, nema nokkuð af Faxafirði var autt; voru þar svo miklir lagnaðarísar, að ekki varð róið, en fyrir norðan land sá enginn út fyrir ísinn af háfjöllum, og komu Grímseyingar á honum í land, og inn á Akureyri, og sögðu hafþök fyrir utan Grímsey; lítt var þó gagn að honum, nema það, at höfrungar nokkrir voru drepnir á Eyjafirði, og var illt at bjarga sér um vorið, komust og eigi skip að landinu. (s 8).

Var vor hart og gjörði felli mikinn á peningum í Múlasýslu, hlífði það eitt við felli í Norðurlandi, at menn höfðu miklu skammtlegar sett á en fyrrum; og voru þessi ár hingað til engu betri syðra en nyrðra, en héðan af tók að skipta um það og harðna æ miklu meir norðanlands. (s 8).

XIII. Kap. Mjög var þá illt sumar, kalt og gróðurlaust öndvert, og tók af nautjörð í Skagafirði í Julio, en síðan voru jafnan óvedur og gjörði hríðir þá verst gegndi, og hin versta var nýting norðanlands, þangað til er seint í Augusto og öndverðum Septembri lagði að með frostum og fjúkum, og því verra sem norður kom, urðu þar stórir fjárskaðar, og bæði lítil og ill heyin; en fyrir suðaustan land var allgóð nýting; stigu þá æ jafnan vörur Dana á samt í verði, en ei hinar íslensku. (s 10).

XIV. Kap. Frá miðjum septembermánuði voru ýmist regn eða snjóar með frostum, og leit þá út til hinna mestu harðinda í öllum sveitum fyrir norðan land, urðu sumir sauðlausir þegar um haustið, en margir felldu kýr til helminga, og þó enginn meir en þurfti. Á því hausti rak upp 147 hnýðinga eða marsvín á Þingeyrasandi, og höfðu margir menn gagn af í Húnavatnsþingi. (s 11). XV. Kap. Var þá öndverður vetur þegar eigi góður, en menn undirbúnir hið versta, spurðist það úr Þingeyjarþingi, að þangað var komið margt umferðarfólk austan að. (s 13).

a1807_hiti

Myndin sýnir kvöldhitamælingar Sveins Pálssonar í Kotmúla í Fljótshlíð (grátt) og mælingar strandmælingamanna á Akureyri (rautt) - einnig kvöldhiti. Í janúar er hitinn sitt hvoru megin frostmarks. Frosthörkur eru með köflum í febrúar - en í lok mars virðist sem gert hafi nokkuð eindregna hláku. Lítið hefur verið um hlý sumarkvöld fyrr en í ágúst, en að vísu eru mælingarnar mjög gisnar yfir sumarið og segja kannski ekki svo mikið. Upplýsingar eru samfelldar frá 1.september og þá daga sem athugað er á báðum stöðum ber tölum ekki illa saman, töluverð frost síðari hluta nóvember og síðan hláku um miðjan desember, en mikil frost undir áramótin. 

Í veðurdagbók Sveins er getið um næturfrost 11., 12. og 13.ágúst og aftur þann 23., 26. og 27. Flóð segir hann hafa orðið í ám í hlákunni um 10.desember. 

Við skulum athuga hvernig Brandstaðaannál ber saman við þetta: 

Á nýársdag ofsaveður og rigning mikil, svo alveg tók upp fönnina. Eftir það góð tíð og jörð auð til 16. jan. að snjóakafli varð til 28. jan., en eftir þetta var óstöðugt með köföldum og blotum og sterkum frostum á milli, einkum fyrstu vikur góu hörkur og hreinviðri, þó meðfram góðir dagar nokkrir. Sunnudag annan í góu yfirtaksveður og hláka mikil, svo vel tók upp svellalögin; eftir það góðviðri; aftur landnyrðingur og bitur frost á auðri jörð síðustu viku góu.

Hér skulum við taka sérstaklega eftir því að talað er um hörkur og hreinviðri fyrstu viku góu - síðan ofsaveður og loks góða hláku í framhaldi af því í sennilega hálfan mánuð - svo aftur frost. 

Þá með einmánuði góð vortíð, svo vinna mátti á túnum, þó snjó legði á í miðjan einmánuð, sem hélst um 10 daga. Á vetrinum var alls 3 vikna jarðleysi og þar að auki 15 innistöður. Útigönguhross góð voru ei tekin inn allvíða, en allmargir hýstu þau lengi og borga þau oft fóðrið með áburðinum, sem þanninn fæst af ónýtu moðrusli og úrgangi frá fé og kúm. Lagnaðarís og hafís lá mikill við Norðurland.

Einmánaðartíðina góðu sjáum við á hitamælingum Sveins - og líka kastið í miðjum þeim mánuði sem Björn segir hafa staðið í 10 daga, e.t.v. eitthvað skemur syðra, hjá Sveini. 

Vorið var stillt og þurrt, en oft næturfrost. Greri seint, svo fyrst í fardögum spratt lauf á hrísi og var sífellt kalsaveður til útsveita. Í júlí næturfrost og smáhret. Alltaf rigningarlaust um vorið, en oft þokur og varð nú grasbrestur mikill á túni og harðlendi, en hálsa og flóaland betra. Sláttur byrjaði í 14. viku sumars. Varð nú taða á óræktartúnum hálfu minni en undanfarin 2 ár. Fylgdu nú þokur og þerrileysi, er hélst til 11. ágúst og eftir það nýting allgóð, þó rekjusamt.

Með september gerði eitthvert mesta hret. Varð í lágsveitum ei hrært við heyi 4 daga, en i uppsveitum varð hagleysa þann tíma og kýr inni í viku. Var þar víða lokið heyskap og sumstaðar tók ei upp af heyi, er var með brekku eða í gili og varð á útsveitum heyleysisneyð, en þar á móti hálsaheyskapur fremra í meðallagi. Eftir seinni göngur var að venju kauptíð og fjártaka í annað sinn í Höfða. Gerði þar þá hríð mikla, fönn og storku, svo fólk tók út þraut mikla. Nokkrir luku ferð sinni af um göngurnar, en í (s54) þeim gaf vel. Eftir jafndægur varð ekki gert að torfverkum vegna frosta. Þó var veður stillt, norðlægt og snjólítið neðra til allraheilagramessu.

Í nóvember voru snjóar, þó ei miklir og oft hörkur. Þar á milli blotar, er gengu hart á jörð og áfreða og hagleysi til fjallabyggða. Hrakaði fé mjög, þó ei væri gefið, því lítil voru heyin. 9. des. kom bati góður og 15. góð hláka, er varaði til jóla. Tók þá að nokkru snjó, er kom til fjalla á slætti. Eftir jólin mikið frost og hríð ytra. Var þá ákomið hallæri og komu sumir þar ám í fóður fram til dalanna, en dalamenn bjuggu að allmiklum heyfyrningum. Í framsveitum var velmegun allgóð. (s55)

 

Björn og mælingar eru sammála um desemberhlákuna - og síðan hörkuna í árslokin. 

a1807_pp

Myndin sýnir loftþrýsting í Kotmúla og á Akureyri. Geta verður þess að loftvog Sveins (rauður ferill) var illa kvörðuð - en ætti samt að sýna breytileika frá degi til dags allvel, sem og tímabil þegar þrýstingur var óvenjuhár eða lágur. Ekki er mikið af lágum loftþrýstingi í athugunum og verulegur háþrýstingur var ekki algengur heldur ef undan er skilin góan. Þá hefur mikið háþrýstisvæði verið í námunda við landið (hreinviðri og hörkur, en síðan góð tíð). 

Syðra skrifar Geir Vídalín biskup. Hann segir meðal annars frá lagnaðarísum við Reykjavík. Þeir eru trúlega órækt merki um mikla frosthörku í nokkra daga að minnsta kosti. Annars er lítið vitað um skilyrði til myndunar ísalaga á þessum slóðum (full ástæða er til að velta vöngum yfir því - en verður ekki gert hér):

Reykjavík 17-4 1807: Með nýári gjörði góðan bata, en veður spilltist aftur seint í janúar. Rak þá niður svo mikinn snjó fyrir austan fjall, að varla var komist milli næstu bæja. Tók þar og víðast fyrir jarðir, en hér um kring voru alltaf snöp nokkur, en gaf sjaldan að standa á. Frost voru þá bæði hörð og langvinn, svo lagði alla firði, og af Valhúsinu sást hvergi í auðan sjó. Riðu menn þá og runnu alla firði innanverða þvers og langs. Þessi veðurátt varðaði allt fram að jafndægrum, þá kom æskilegur bati, og hefur það góða veður varað allt til fyrir skemmstu. Nú eru aftur komin frost og kuldar. Á þorra kom svo mikill hafís norðanlands, að nálega fyllt hverja vík. ...

(s71) Verði ekki vorið því harðara, er hér ekkert peningatjón að óttast sunnanlands, og víst er, að markir munu fyrna hey til muna. Ekki get eg kallað þennan vetur þann harðasta, en víst hefur hann verið í harðara lagi. En það er satt að miklu skiptir, hvernig vorið verður. Í norður parti Strandasýslu, Þingeyjar- og Múlasýslum var mesta vætusumar [1806], svo í Krossvík voru ekki alhirt tún um Mikjálsmessu [haustið 1806]. ... En Múlasýslumenn hafa flestir oftraust á guði, þegar þeir eru búnir að koma fé upp. Vetur var þar harður, allt fram yfir jól, og mjög óttast eg, að menn hafi misst eða missi þar stórum fé, hafi veðurátt hagað sér þar eins og hér. (s72)

Skemmtileg athugsemd hjá biskupi um bændur í Múlasýslum (varla hann eigi við sýslumennina sjálfa[. 

Um haustið skrifar Geir og lofar sumarið í Reykjavík:

Reykjavík 14-9 1807: Veðurátt hagstæð og nýting góð á heyjum, svo eg held hér verði heyskapur í meðallagi, þó grasvöxturinn væri eigi stór. ... Fyrir norðan land hefur sumarið verði óþurrkasamt og þar hjá mikið grasleysi, en miklu betra í Múlasýslu. (s86)

Tíðarvísur Þórarins og Jóns eru oft skýrari í veðurlýsingum en þetta ár. Hér að neðan er að finna aðeins úrval úr bálkunum. 

Ritstjóri hungurdiska þykist helst lesa í dagbókum Jóns á Möðrufelli - til viðbótar því sem að ofan er nefnt að fyrsta vika ársins hafi þar verið stillt og góð, en síðan hafi orðið harðara. Jarðir hafi þó verið sæmilegar bæði í janúar og framan af febrúar. Sá mánuður hafi þó verið með grimmilega frostamikill. Maí hafi verið mjög kaldur og bágur og júní þurr en andkaldur mjög. Frosta er þá getið seint í mánuðinum. September var stórlega harður nema fyrsta vikan. Snjó hafi tekið upp í desember. Hafísþök hafi verið dæmalaus á árinu. 

Brot úr tíðavísum Þórarins Jónssonar í Múla í Suður-Þingeyjarsýslu 1807:

Fannar-hökli fast á hlóð,
fjánum ók til bana;
Herklædd jökli storðin stóð,
stormar skóku hana.

Sjórinn flestum mjög til meins,
meður krafa slökum,
norðan, vestan, austan eins,
undir hafís þökum.

Ísa þök um ufsa beð
ollu stærstum föllum;
auða vök gat enginn séð
af þeim hæstu fjöllum.

Storma rosa stór við él
stakt þó reynast megi,
að átta frosið hafi' í hel
hestar á einum degi,

Ísa mikil lög um lá
loksins gliðna fóru;
sextán vikur sumars þá
síðst afliðnar vóru.

Sjaldan hlýtt, en fjúkafar,
fjalla niður af brúnum,
greri lítt og grátlegt var
grasleysið á túnum.

Hér í sveit við höfgan slátt
hófust baggar stærri,
kulda-bleytur þungar þrátt,
en þerrir daga færri.

Tíðum virtist töpuð stoð
tíman stutta þenna;
túnin hirt en töðumoð
tók heim flutt að brenna.

Horfði kviku fullt til falls
í fóður pressum stumri
þegar vikur átján alls
af vóru þessu sumri.

Fyrri tíða fáleg regn
fólki kvíða jóku,
en snjóhríða áköf megn
yfir síðast tóku.

Byggð um víða bundin ei
búið að slá og raka
urðu síðast úti hey
undir bláum klaka.

Síðan koma fréttir af eldgosi - sem hvergi virðist annars staðar getið. Þorvaldur Thoroddsen giskar helst á Vatnajökul. Sigurður Þórarinsson setur líka spurningarmerki [Vötnin stríð], en nefnir þó þann möguleika að gos hafi orðið í Vatnajökli eða norðan við hann þá um haustið. 

Angursboðið ei sig fól,
illt sem leiða kunni:
Eldi roðin sýndist sól
sveima í heiðríkjunni.

Banvæn sýra brennisteins,
böli menguð hríðar
jörð og dýrin undir eins
auglýst fengu síðar.

Bein með hnútum blaut og þunn,
bagi fóður-tanna,
leit eins út og lýð fyrr kunn
leif eld-móðu hranna.

Þórarinn segir svo að minna hafi orðið úr tjóni en menn óttuðust. Ekki er ótrúlegt að almennur eldgosaótti hafi enn ríkt í landinu um þetta leyti, enda aðeins liðin rúm 20 ár frá móðuharðindunum. 

Oss má fæðast af því traust,
einna mest líðandi,
að sumar er gæða sagt og haust
á Suður- og Vestur-landi.

Brot úr tíðarvísum Jóns Hjaltalín um árið 1807:

Vetrartíðin kulda kennd
kafaði snjó á jörðu,
mörg var hríðin sveitum send,
svana hlíðin ísum rennd.

Vorið nærði vetur stór,
varnaði hafís gróða,
Lýð þó hrærði lagar jór,
lítinn færði afla sjór.

Töðubrestur víðast varð,
vallar sinu blandað,
reifi mest með rýran arð
rubbaðist flest í soltinn garð.

Frera brautum fönn út bar,
fjúk á slætti nyrðra,
féð í lautum fennti þar,
fóður nautum gefið var.

Haustveðráttan hefur góð,
hörð þó norðan kylja,
hrini þrátt um haf og flóð,
heita mátt á ísaslóð.

Annáll 19. aldar greinir frá ýmsum slysum og óhöppum,sum þeirra eru greinilega eitthvað tengd veðri en lítið er um dagsetningar. Hér skal þó nefnt að maður hafi farist ofan um ís við Víðines í Kollafirði syðra og að gamlan mann hafi kalið til bana á Kópavogshálsi og annan á Álftanesi (sá var að koma úr gildi). 

Sumarið 1807 var þurrt á Bretlandi, en september var þar í hópi hinna allraköldustu sem vitað er um og talað er um gróðurskemmdir vegna frosta. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir uppskrift á Brandstaðaannál og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar - mistök við þá aðgerð eru hans). 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 2341357

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 901
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband