Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Júlímet í Vestmannaeyjum?

Þegar þetta er skrifað (kl. 16:15 31. júlí) vantar aðeins þrjár athuganir upp á júlímánuð á mönnuðum veðurstöðvum landsins. Meðalhiti júlí það sem af er stendur nú í 11,89°C á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 11,79°C á sjálfvirku stöðinni á sama stað og 12,57°C á stöðinni í kaupstaðnum.

Mælingar í júlí á Stórhöfða ná aftur til 1922. Hæstu júlígildin síðan þá eru:

     1936    11.61°C
     1933    11.66°C
     2010    11.75°C

Munurinn er ekki mikill. Í júlí 1880 var meðalhiti í Vestmannaeyjakaupstað 12,66°C - ætti þá að hafa verið 11,91 á Stórhöfða miðað við þær færslur sem hafa verið í notkun. Auðvitað er ekkert að marka tvo aukastafi - og sömuleiðis eru mæliaðstæður talsvert aðrar nú heldur en 1880.

Uppgjör ætti að koma frá Veðurstofunni á morgun (1. ágúst).


Kemur ekki við hér

Nú gera spár ráð fyrir því að á miðvikudag dýpki lægð niður í 973 hPa vestan við Írland. Margir muna e.t.v. metlægðina sem hér fór hjá nýlega. Hún var reyndar enn dýpri - en samt er merkilegt að sjá tvær svona djúpar lægðir með skömmu millibili á Norður-Atlantshafi á þessum tíma árs. Þessi nýja lægð hefur ekki bein áhrif hér á landi - nema helst til bóta. Kortið gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag 1. ágúst.

w-blogg310712

Hér má sjá sjávarmálsþrýsting sem svartar heildregnar línur - afskaplega þéttar nærri lægðarmiðju. Ekki skemmtilegt fyrir seglbáta sem lenda í því ofsaveðri. Lægðin sem olli slysinu mikla í Fastnet siglingakeppninni í ágúst 1979 var ekki alveg jafndjúp - 15 fórust (aðrar heimildir segja 19). Frú gúgl skilar leitarniðurstöðum á svipstundu fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar.

Það er mikið skaðræði að fá veður sem þetta á þeim slóðum þar sem smábátaumferð er mikil. En nú ættu menn að hafa betri fyrirvara heldur en var 1979. Enn bætir í bleytuna á Bretlandseyjum. 


Norðurhvel í júlílok

Nú er sumar í hámarki á norðurhveli og héðan í frá fer að halla til hausts. Hafið er þó enn að hlýna og ís mun bráðna í Norðuríshafi í nokkrar vikur til viðbótar. Víðast hvar hér á landi er meðalhiti hæstur síðustu vikuna júlí en lætur lítið á sjá fyrr en um það bil tíu dagar eru liðnir af ágústmánuði. Lítillega er farið að kólna í heiðhvolfinu en sumarhæðin mikla sem nær um allt norðurhvel sýnir enn enga veikleika.

En lítum nú á spá dagsins. Hún er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins á norðurhveli suður undir hitabelti á hádegi þriðjudaginn 31. júlí. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin er mörkuð með litaflötum. Hún er einnig tilfærð í dekametrum og mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því hærri sem hitinn er því meiri er þykktin. Mörkin á milli grænu og gulbrúnu litanna liggja við 5460 metra. Við viljum helst vera ofan við þessi mörk að sumarlagi.

w-blogg300712

Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd en Ísland rétt neðan miðjunnar við 20°V en sá baugur er lóðréttur á myndinni. Kortið batnar mjög við smellastækkun og verður kvarðinn mun skýrari. Enginn blár litur sést nú á kortinu - í fyrsta sinn í sumar. Þykktin er hvergi minni en 5280 metrar. En kuldapollarnir eru samt nógu krassandi.

Hæðarhryggurinn mikli við Grænland hefur hér tengst öðrum yfir Norður-Noregi og lokar inni kuldapoll sem á kortinu er með miðju norður af Skotlandi en teygir sig til vesturs fyrir sunnan land. Svona eða svipuð verður staðan næstu daga. Það er auðvitað leiðinlegt að þykktin hér á landi sé ekki meiri en þrátt fyrir allt er ekki langt í hlýja loftið og vel má vera að molar af því berist á borð okkar næstu daga. Hér ríkir alla vega hásumar - vonandi sem lengst.

Bláa örin bendir á þann kuldapoll sem gæti helst raskað stöðunni hér við land - en spár greinir enn á um leið hans. Sú reikniruna evrópureiknimiðstöðvarinnar sem þetta kort er úr sýnir hann rúlla alla leið til Íslands - en vonandi verður sá möguleiki horfinn í næstu runu.

Við skulum líka líta á kort sem sýnir hæð 30 hPa-flatarins í rúmlega 24 km hæð. Eins og nefnt var að ofan ríkir þar hæð um allt hvelið og austlægar áttir eru ríkjandi. Á næstu vikum fer hæðin að falla saman og mun um síðir breytast í miklu meiri lægð. Áhugasamir lesendur mega gjarnan leggja stöðuna á minnið. Kortið er úr safni bandarísku veðurstofunnar. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar - merktar í dekametrum. Línan næst hæðarmiðju sýnir 2450 dam (= 24,5 km). Litafletirnir sýna hita, kvarðinn verður greinilegri sé myndin smellastækkuð.

w-blogg300712b


Korpa - Geldinganes (meðalhitamunur)

Í pistli gærdagsins var fjallað um árstíðasveiflu hitamunar á Akureyri og í Bolungarvík. Þessar stöðvar eru í sitt hvorum landshlutanum. Nú lítum við á árstíðabundinn hitamun á stöðvum sem eru nærri því á sama stað - og þó ekki. Önnur stöðin er Korpa, rétt hjá Korpúlfsstöðum - sjálfvirk stöð þar sem athugað hefur verið síðan 1997 og Geldinganes þar sem athugað hefur verið síðan 2004. Við lítum á vindhraðann í leiðinni.

Talsverður trjágróður hefur vaxið upp í kringum Korpustöðina - svo mikill að sumir telja að athuganir fari að líða fyrir það. Geldinganes er á berangri (nema að gróður hafi vaxið mikið við stöðina alveg nýlega). Það er einnig nær sjó heldur en Korpustöðin.

w-blogg290712

Hitakvarðinn er til vinstri á myndinni og það er blái ferillinn sem sýnir meðalhitamun staðanna tveggja. Hann er afskaplega lítill. Aðeins hlýrra er þó á Korpu í febrúar til júní og í nóvember og desember. Munurinn er mestur í mars - en í júlí til október og í janúar er hitinn á stöðvunum jafn.

Skyldi skjólið á Korpu valda því að hlýrra sé þar á sólardögum seint á vorin heldur en úti á Geldinganesi? Sé litið á dægursveifluna (ekki sýnd hér) komumst við að því að ívið hlýrra er á Korpu heldur en á Geldinganesi yfir hádaginn. Lágmarkshiti sólarhringsins er lægri á Korpu í öllum mánuðum nema mars - þegar hann er sá sami á báðum stöðvum.

Munur á vindhraða (hægri kvarði - rauður ferill) er minnstur í maí. Athugið að allar tölur eru neikvæðar - það þýðir að vindhraði er meiri á Geldinganesi heldur en við Korpu allt árið - lengst af munar 1,2 til 1,4 m/s. Hvassviðri eru líka algengari á Geldinganesi og þar hefur hámarksvindhraði mælst meiri á samanburðartímabilinu heldur en á Korpu.

Frost hefur mælst í öllum mánuðum ársins á Korpu - en enn hefur ekki mælst frost á Geldinganesi í júní, júlí og ágúst.

Í framhjáhlaupi má geta þess að nú er silfurskýjatímabilið hafið. Ritstjórinn sá fyrstu silfurskýjabreiðuna í kringum miðnætti aðfaranótt laugardags (28. júlí). Silfurský myndast að sumarlagi við miðhvörf lofthjúpsins í um 90 km hæð frá jörðu. Hér sjást þau ekki fyrir 25. júlí vegna næturbirtu - og tímabilinu lýkur um 15. ágúst en þá eru þau hætt að myndast.

Allt of fáir taka eftir þessum fallegu skýjum. Svo virðist sem tíðni þeirra hafi aukist á síðustu áratugum miðað við það sem áður var - sumir telja það stafa af veðurfarsbreytingum af mannavöldum. Ekkert skal um það fullyrt hér. Ritstjórinn hefur nú gefið þeim auga í nærri 40 ár. Hann verður nú orðið helst hissa ef þau sjást ekki á umræddum tíma ef léttskýjað er. - En það kemur fyrir og mjög mismikil eru þau. Um silfurský er fjallað í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.


Akureyri - Bolungarvík (meðalhitamunur)

Við lítum á mun á mánaðarmeðalhita á Akureyri og í Bolungarvík og notum til þess línuritið hér að neðan. Þar er munurinn reiknaður á tveimur tímabilum, annars vegar er öll 20. öldin undir (blár ferill) en síðan fyrstu tíu ár nýrrar aldar (rauður ferill).

w-blogg280712

Akureyri hefur vinninginn frá því í mars og fram í september, en Bolungarvík er hlýrri frá október fram í febrúar. Ástæða árstíðasveiflunnar er nær örugglega sú að minni munur er á sumar- og vetrarhita í útsveitum heldur en inn til landsins. En það er samt í nóvember sem vinningur Bolungarvíkur er mestur. Það er einmitt í nóvember sem Vestfirðir eru hlýjastir að tiltölu miðað við landið í heild - apríl er í þessu hlutverki í Reykjavík en janúar á Austfjörðum. Voru hungurdiskar ekki búnir að fjalla um það merkilega mál?

Stöðin vestra hefur ekki verið á sama stað allt tímabilið - reynt er að leiðrétta fyrir flutningum milli staða - sömuleiðis er Akureyrartímaröðin ekki alveg hrein. Vonandi hafa slík vandamál ekki mikil áhrif á línuritið hér að ofan.

Smámunur er á tímabilunum tveimur - ekki gott að segja hvort hann er marktækur. Fyrstu tíu ár 21. aldar voru um það bil 1,0 stigi hlýrri á Akureyri heldur en 20. öldin öll. Munurinn í Bolungarvík er nærri því sá sami eða 0,95 stig - eigum við að hækka það upp í 1,0 eða lækka í 0,9? En við sjáum að árstíðasveiflan á myndinni hefur heldur minnkað, nú er minni munur á stöðvunum bæði vetur og sumar en áður var. Ekki skulum við draga neinar magnþrungnar ályktanir af þessu.

Í framhjáhlaupi má minnast á að það hrökk upp úr dönsku veðurstofunni í dag (sjá vef þeirra) að mesti hiti sem mælst hafi í Scoresbysundi sé 17,5 stig, en hámarkshiti dagsins í dag (föstudagsins 27. júlí) var 17,1 stig. Höggvið var nærri meti. Það var um 1980 að stöðin var flutt frá Tobinhöfða inn í þorpið í Scoresbysundi. Ekki er ljóst af fréttinni hvort miðað er við þann tíma eða hvort Tobinhöfðaskeiðið er talið með. Í skrá um norræn veðurmeðaltöl og útgildi er sagt að hæsta hámark á Tobinhöfða sé 23,0 stig - og kvu það hafa gerst í júlí 1976 - kannski það hafi verið um svipað leyti og hitametið eftirminnilega var sett í Reykjavík? 


Spár um merkilegt veður (eru ekki endilega réttar)

Enn ber svo við að von er á hlýju lofti norður yfir Grænland. Ekki er þó víst að hlýindanna gæti í byggðum þar í landi - en samt er aldrei að vita. Við notum tækifærið og njótum öfganna sem ríkja vestan við okkur - úr hæfilegri fjarlægð. Hafa verður í huga að tölvuspár eru alls ekki alltaf réttar þótt þær virðist langoftast sannfærandi - en afbrigðilegir hlutir gerast ekki nema að þeir gerist hvað sem líður spám.

En við lítum á fáein kort. Það fyrsta sýnir mættishita í veðrahvörfunum yfir N-Atlantshafi eins og hann var í dag (fimmtudag kl.18). Mættishiti er einnig nefndur þrýstileiðréttur hiti og sýnir hversu hlýtt loft yrði ef það væri flutt úr sinni hæð niður undir sjávarmál (í 1000 hPa-flötinn).

Kortið er ágæt ágiskun um lögun veðrahvarfanna hverju sinni en mættishiti þar er líka bærilegur mælikvarði á stöðugleika loftsins undir hverjum stað. Óstöðugt loft fylgir gjarnan lágum veðrahvörfum - bólstraský eru algeng. Undir háum veðrahvörfum er loft stöðugra og mest ber á breiðuskýjum, blikum og flákum - jafnvel þokuskýjum í allra neðstu lögum.

Á kortum sem þessum má einnig glöggt sjá bratta veðrahvarfanna og jafnvel brot í þeim. Á kortinu sjást brotin best þar sem koma saman litir sem ekki eru næstu nágrannar á litakvarðanum. Þar er oft mikil ókyrrð sem farþegar í millilandaflugi verða varir við - þótt reynt sé að nota ámóta kort til að forðast slíkt.

En hér er fyrsta kortið - það sýnir ástandið síðdegis í dag - fimmtudag.

w-blogg270712a

Kortið nær sunnan frá Spáni og norðvestur til Baffinslands - Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Rauður hringur sýnir eins konar kjarna hlýja loftsins austur af Nýfundnalandi. Allar tölur eru í Kelvingráðum - með því að draga 273 frá fæst hitinn í °C. Myndin skánar talsvert við smellastækkun og tölurnar verða læsilegri á litakvarðanum.

Hæsta talan innan rauða hringsins er 279K (=106°C). Síðdegis á morgun á hlýi kjarninn að fara yfir Suður-Grænland - þá á þykktin yfir Nassarsuaq að fara yfir 5650 metra - en í mikilli rigningu sé eitthvað að marka spána. Norðvestur af Skotlandi er hins vegar kuldapollur sem fer í hringi um sjálfan sig. Þar er mættishiti veðrahvarfanna ekki nema 300K (=27°C). Það þýðir að ekki þarf mikið til að miklar skúradembur falli.

Ísland er hér undir tiltölulega lágum veðrahvörfum og í dag var ekki langt í skúrademburnar þótt þeirra hafi lítið gætt - miklu minna en í gær (miðvikudag).

Síðari veðrahvarfamyndin sýnir ástandið eins og það reiknast kl. 6 á sunnudagsmorgun (29. júlí).

w-blogg270712c

Hlýi kjarninn er nú kominn til Norðaustur-Grænlands. Mættishitinn þar er yfirleitt um 350K (80°C). Við sjáum reyndar töluna 400K en hún er ekki marktæk vegna þess að reikningarnir sem liggja til grunvallar kortinu finna ekki veðrahvörfin í einum punkti vegna bylgjubrots yfir Stáníngölpunum eða þar um kring og reikniforritið grípur þess í stað mættishita í föstum fleti - 16 km hæð eða þar um bil ö til að setja á kortið. - En 350 stigin eru væntanlega nærri lagi.

Þarna er kuldapollurinn enn á svipuðum slóðum en á því miður að teygja anga sína til Íslands eftir helgina og stugga hlýjasta loftinu frá landinu. Ekki á af Bretum að ganga í ótíðinni þótt næstu dagana rigni mest í Skotlandi - en heldur minna syðst á Englandi þar sem rignt hefur í mestallt sumar.

En við horfum á tvö kort til viðbótar - þetta eru úrklippur sem ekki batna að ráði við stækkun. Satt best að segja sjást tölurnar á kortunum ekki oft á okkar norðlæga breiddarstigi og er ástæða til að halda að reikningarnir séu að gera ívið of mikið úr hitanum - en það kemur fljótt í ljós hvor svo sé.

Fyrst er það hefðbundið þykktarkort. Jafnþykktarlinur eru hér svartar og heildregnar - einingin er dekametrar (1 dam = 10 m). Því meiri sem þykktin er því hærri er hitinn í neðri hluta veðrahvolfs. Mesta þykkt sem vitað er um með vissu hér á landi er 5660 metrar - það var í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 og trúlega líka í hitabylgjunni í júní 1939 þegar íslandsmet í hita var sett og enn stendur. Þýskur háloftamælingaflokkur var þá í Reykjavík.

w-blogg270712d

Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í kringum 1500 metra hæð yfir sjávarmáli). Innsta jafnþykktarlínan við strönd Grænlands er 5660 metrar (metþykktin okkar) og þar er sýndur 18 stiga hiti í 850 hPa. Hæsti hiti sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í þeim fleti er rúm 12 stig. Rétt er að taka fram að Grænland sjálft á þátt í því hversu hár hitinn er - og tölur yfir 15 stigum í 850 eru algengari við Grænlandsströnd heldur en hér á landi.

Mikill þykktarbratti er til austurs, línan sem strýkur Vestfirði sýnir 5580 metra - en sú sem kemur við ystu nes eystra er ekki nema 5440 metrar, 140 metrar á milli. Mikill norðanstrengur er yfir landinu, 20 til 25 m/s í um 5 km hæð.

Síðasta kortið hnykkir á óvenjulegu ástandi í 850 hPa - búið er að reikna hitann þar niður í 1000 hPa - mættishita.

w-blogg270712e

Mættishiti yfir Austfjörðum er um 16°C, um 22°C yfir Vestfjörðum og nær mest 30°C í hvítu blettunum yfir Grænlandsfjöllum. Hér er líklegt að líkanið ofreikni - en 25°C svæðið er býsna stórt. Því miður á kuldapollurinn við Skotland að trufla framsókn þessa lofts til Íslands - þannig að hér á landi gerist svosem ekki neitt.

Hlýindin í 700 hPa (rúmlega 3 km hæð) eru líka óvenjuleg - þar er spáð meir en 6 stiga hita en það er svipað og mest hefur mæst yfir Keflavíkurflugvelli. Í 500 hPa er því spáð að hiti verði jafnvel hærri en -10 stig, á sama róli og hæst hefur nokkru sinni mælst yfir Keflavík.

En höfum enn í huga að spár eru spár. Það er þó gagnlegt að líta á tilvik af þessu tagi því þau stimpla inn þann kvarða sem alltaf er nauðsynlegur þegar lesið er úr veðurkortum. Til að meta það sem er óvenjulegt í náttúrunni þarf maður að vita hvað er venjulegt.


Hlýrra fyrir vestan en austan - hversu algengt er það?

Pistill dagsins er mjög úti á kantinum - gamanið óljóst og gagnið sömuleiðis. En látum slag standa.

Meðalhiti er hærri vestanlands heldur en austan og hlýrra er á Vestur-Grænlandi heldur en við austurströnd sama lands. Eins er með hafstrauma við strendur landanna beggja. Þessi skipan er þó aðeins smátilbrigði við megindreifingu hitafars við Norður-Atlantshaf, því að jafnaði er kaldara vestan hafsins heldur en austan við það. Þetta á einnig við í neðri hluta veðrahvolfs þar sem við notum þykktina sem mælikvarða á hitafar.

Þykktin er því að meðaltali lítillega hærri fyrir austan land heldur en vestan við. Frá degi til dags er þó ekki hægt að sjá neina reglu í þessu. En hér á eftir er litið á mánaðameðaltöl þar er frekar sjaldgæft að hlýrra sé vestur við Grænland heldur en austur í Noregshafi. Í ljós kemur við einfalda talningu að þetta ástand kemur upp innan við einu sinni á ári að jafnaði.

Sé litið á vor og sumarmánuði eingöngu er hlutfallið ívið hærra. Í ár bregður svo við að þykktin var meiri vestan við land heldur en fyrir austan alla mánuðina apríl, maí og júní - þrjá mánuði í röð. Hversu óvenjulegt skyldi það vera?

Með hjálp endurgreiningarinnar bandarísku sem nær aftur til 1871 má auðveldlega telja - en hafa verður í huga að nítjándualdargreiningin er talsvert ónákvæmari heldur en það sem síðar fer.

Niðurstaðan er sú að á öllum þessum tíma hafi aðeins komið 16 þriggja mánaða tímabil með þessu háttalagi - heildarfjöldi tímabila er 1698. Nú er það svo að inni í tölunni 16 eru líka fjögur fjögurra mánaða tímabil og þar í eitt fimm mánaða.

Tölur fyrir núlíðandi júlí berast vonandi fljótlega upp úr mánaðamótum þannig að við fréttum af því hvort hann bætir fjórða mánuðinum við - sem ekki er víst.

En hvaða tímabil eru það sem líkjast nútímanum þá best? Sé haldið aftur á bak þarf ekki að fara nema til ársins 2010 til að finna ámóta - en það ár var líka einstakt í veðurfarssögu síðustu hundrað ára eða meir.

Næst þar á eftir eru júlí, ágúst og september 1986. Man einhver eftir þeim? Síðan þarf að fara aftur til 1932 til að finna ámóta - þá komu fimm mánuðir í röð. En staðan kom líka upp sumrin 1929, 1928 og 1925 - einhver klasi greinilega í gangi þau árin. Er svo nú með bæði 2010 og 2012? Langt aftur í fortíðinni finnum við svo 1879 - en það ár og fleiri um það leyti voru sérlega afbrigðileg hvað hita- og þrýstifar varðar.

Því má svo bæta við að séu allar tölur teknar trúanlegar hefur þykktarmunur (hitamundur) á milli Grænlandsstrandar og Noregshafs aldrei verið jafn mikill á þennan (öfuga) veg í heilum mánuði og nú í júní.


Af hlýindum á Grænlandi

Áskrifendur frétta frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA (þar á meðal ritstjóri hungurdiska, góður lesandi, Jón Frímann, og eflaust fleiri hungurdiskaáhangendur) fengu í dag sendan tengil á nótu um hlýindi á Grænlandi. Fréttin gengur út á það að gervihnettir hafi aldrei „séð“ „bráðnun“ eiga sér stað á jafn stórum hluta Grænlandsjökuls á sama tíma og um miðjan mánuðinn.

Ekki skal efast um sannleiksgildi fréttarinnar - en það er samt dálítið fyrirkvíðanlegt að hún verði í framtíðinni rifin úr samhengi - sérstaklega þó myndin. Í textanum er bent á að þetta virðist ekki vera í fyrsta sinn sem eitthvað bráðni mjög víða hátt á jöklinum sama sumarið og er árið 1889 nefnt sérstaklega í því sambandi. Síðan er sagt að ískjarnar sýni að þetta hafi gerst á um það bil 150 ára fresti á ónefndu tímabili. Töluna má alls ekki taka bókstaflega - miklu frekar táknar hún fimm til sex sinnum á hverjum þúsund árum - að jafnaði.

Í fréttinni kemur réttilega fram að ástæða hlýindanna nú sé margnefndur hæðarhryggur sem endurtekið hefur verið að rísa til norðurs úr vestanvindabeltinu frá því síðari hluta maí. Þótt bráðnunaratvik fyrri ára hafi örugglega verið tengd ámóta hryggjum eða fyrirstöðuhæðum nær samlíkingin ekki lengra - það er ekkert sem segir að nákvæmlega þessi staða endurtaki sig á um það bil 150 ára fresti. Hún er miklu algengari - en hittir e.t.v. ekki alltaf jafnvel i árstíðasveifluna.

Sumur hafa verið hlý á Grænlandi síðustu árin - rétt eins og hér á landi. En þar - eins og hér - var ámóta hlýtt á fjórða áratug síðustu aldar og nú. Mjög lausleg yfirferð bendir til þess að sumarið 1948 hafi verið það hlýjasta í Nuuk, en hlýjasti júlímánuðurinn hafi komið 1936. - Nema það hafi verið 2010 en ritstjórinn er ekki með þær tölur við höndina - bætir vonandi úr því síðar.

En hlýindin í sumar eru óvenjuleg á Vestur-Grænlandi. Hugsanlegt er að meðalhiti júlímánaðar í Nassarsuaq fari í 13 stig og jafnvel yfir 12 í Syðri-Straumfirði. Lítum á stöðuna á Grænlandi eins og hún er í dag (24. júlí) í töflu. Gera má ráð fyrir talsverðri ónákvæmni í reikningum og því má helst ekki taka tölurnar hátíðlega - heldur er þetta aðeins til umræðu. Svo er mánuðurinn ekki búinn. Gögnin eru þau sem borist hafa Veðurstofunni í mánuðinum.

Nauðsynlegt er að skýra töfludálkana. Fyrst koma ár og mánuður, síðan er meðaltal allra athugana - ekki er víst að það sé rétt meðaltal miðað við sólarhringinn. Þar á eftir fylgir hæsti hiti á athugunartíma og þar næst er hæsta hámark. Hæsti hitinn er hafður hér með vegna þess að Veðurstofan fær ekki hámarksskeyti frá öllum stöðvum.

Síðan fylgja á sama átt lægsti hiti á athugunartíma og loks lægsta lágmark. # þýðir að upplýsingar vanti. Þar á eftir er dálkur sem sýnir fjölda skeyta sem eru á bakvið hverja stöð og loks er stöðvarnafn. Þær efstu eru í námunda við Thule - en síðan er farið suður með vesturströndinni og endað í Eystribyggð.

Austurströndin er einnig tekin úr norðri, byrjað á nyrsta odda Grænlands Morrisjesuphöfða en endað í góðkunningja gamalla veðurfréttahlustenda - Kristjánssundi við Hvarf. Þar á eftir er Summit stöðin efst á hvalbak Grænlandsjökuls í meir en þrjú þúsund metra hæð. Stafsetning nafnanna er sótt í nafnatöflu alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og er margt hvorki með íslenskum, norrænum né grænlenskum hætti.

ármánmhitihæsti hhæsta hámlægsti hlægsta lágmfjöldinafn
201275,512,4#1,9#182KITSISSUT (CAREY OEER)                  
201276,712,9#3,8#181KITSISSORSUIT (EDDERFUGLE OEER)         
201278,616,419,0-1,2#186AASIAAT (EGEDESMINDE)                   
201279,120,621,14,43,9186ILULISSAT (JAKOBSHAVN)                  
2012712,222,824,74,03,5183KANGERLUSSUAQ (Syðri-Straumfjörður)        
201279,114,919,04,5#82NUUK (GODTHAAB)                         
2012710,619,220,34,64,1186MITTARFIK NUUK (GODTHAAB LUFTHAVN)      
201277,522,222,71,51,1186PAAMIUT (FREDERIKSHAAB)                 
2012713,221,123,66,24,8185NARSARSUAQ                              
2012710,318,719,52,01,6186QAQORTOQ (JULIANEHAAB)                  
201273,312,5#-1,3#182KAP MORRIS JESUP                        
201275,716,0#-2,8#182STATION NORD AWS                        
201273,19,8#-1,2#181HENRIK KROEYER HOLME                    
201275,214,317,5-0,7#154DANMARKSHAVN                            
201275,814,6#0,4#181DANEBORG                                
201276,116,317,6-0,4#186ILLOQQORTOORMIUT (SCORESBYSUND)         
201272,79,6#-3,2#182APUTITEEQ                               
201277,315,616,00,6#186TASIILAQ (AMMASSALIK)                   
201276,513,814,40,10,1184KULUSUK                                 
201277,813,314,70,80,1178PRINS CHRISTIAN SUND                    
20127-8,92,2#-26,7#156SUMMIT                                  

Tölurnar ættu að skýra sig sjálfar. Enn hefur Apútíteeq ekki náð 10 stigum en sú stöð er handan Grænlandssunds norðvestur af Vestfjörðum, en 17,6 stiga hiti hefur mælst í Scoresbysundi í júlí.

Veðurnördum til ánægju fylgir í viðhengi langur listi með sömu upplýsingum frá öllum nafngreindum veðurstöðvum sem Veðurstofan hefur frétt af í júlímánuði. Athugið að hugsanlegt er að velja þurfi annan textaritil heldur en þann sjálfgefna til að geta lesið skjalið í réttum dálkum - gangi það illa má reyna beint úr excel.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rís grænlandshryggurinn upp rétt einu sinni?

Í sumar hefur viðloðandi hæðarhryggur við Grænland einkennt veður hér á landi. Fyrir nokkrum dögum hneig hann niður og hleypti að bylgjunni miklu sem bjó til eina dýpstu lægð sem vitað er um í júlí hér um slóðir. En nú er hugsanlegt að hann rísi upp aftur.

Við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa flatarins og þykktarinnar um hádegi á fimmtudaginn kemur (26. júlí).

w-blogg240712

Hér eru tákn öll með venjulegum hætti - jafnhæðarlínur eru heildregnar og svartar, en þykktin táknuð með litaflötum. Hvoru tveggja er mælt í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Mörkin á milli grænna og gulleitra flata eru sett við 5460 metra þykkt, síðan er skipt um lit á 60 metra fresti. Mikil þykkt þýðir að mjög hlýtt er í neðri hluta veðrahvolfs. Á sumrin viljum við helst vera inni í gulu og brúnu litunum.

Hér hefur kalt loft brotist til suðurs meðfram Austur-Grænlandi - svipað og sífellt hefur verið að gerast í allt sumar. Mikill og hlýr hæðarhryggur er yfir Grænlandi. Vestan við hann streymir mjög hlýtt loft til norðurs.

Nú er spurningin hvað um hrygginn verður. Haldist hann kyrrstæður halda kuldapollarnir áfram að rúlla til suðurs á austurjaðri hans - rétt eins og í mestallt sumar. Færist hann vestur á bóginn lendum við í viðvarandi kuldatíð - en þokist hann til austurs koma hlýindin yfir okkur - þá myndi vindstaða niður undir jörð ákveða hvar hlýtt yrði á landinu.

Sumar spár gera ráð fyrir því að hryggurinn yfirskjóti - ef svo má taka til orða - og myndi fyrirstöðuhæð á norðurslóðum -. Aðrar gera ráð fyrir því að hann falli fram yfir sig og tengist austur um.

Það er nú sem oftast að spár dreifast til allra átta eftir þriggja til fjögurra sólarhringa reiknirunur. En við lifum enn í veikri von um að fá að sjá í verulega hlýtt loft yfir okkur. Hámarkshiti sumarsins til þessa er allt of lágur til að það megi spyrjast inn í framtíðina.


Hversu lágur getur loftþrýstingur orðið í júlí hér á landi?

Nú er ljóst að gamalt lágþrýstimet júlímánaðar hér á landi hefur verið slegið. Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldi 22. júlí) er nákvæm tala ekki alveg á hreinu en trúlega verður hún á bilinu 972 til 973 hPa. Þetta er rétt neðan við gamla metið, 974,1 hPa, sem sett var í Stykkishólmi 1901. Ekki er munurinn mikill - en samt.

En í framhaldi af þessu vaknar sú spurning hversu langt niður loftþrýstingur getur farið niður í júlímánuði. Greiningar reiknimiðstöðva benda til þess að þrýstingur í þessari lægð hafi lægstur orðið um 966 hPa - en hún er nú farin að grynnast. Hún hefði auðvitað getað orðið svona djúp yfir íslenskri veðurstöð. 

Oft er gott að líta á þrýstinginn sem sambland tveggja þátta, annars vegar hæð veðrahvarfanna en hins vegar meðalhita veðrahvolfsins. Mjög náið samband er á milli veðrahvarfahæðar og hæðar 500 hPa-flatarins - liggi veðrahvörfin óvenju lágt má gera ráð fyrir því að hæð 500 hPa-flatarins sé einnig mjög lág. Þykktin - en hún kemur oft við sögu hér á hungurdiskum mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - oftast er mjög gott samband á milli hennar og hita veðrahvolfsins alls.

Lítum á hæð og þykkt við lægðarmiðjuna um hádegi í dag á korti.

w-blogg230712

Hér eru öll tákn eins og venjulega. Jafnhæðarlinur eru svartar og heildregnar, en jafnþykktarlínur rauðar og strikaðar. Tölurnar eru dekametrar (1 dam = 10 metrar). Iðan (kemur okkur ekki við í umræðu dagsins) er bleiklituð. Þar sem hæðin er lægst er lægðarmiðja og þar sem jafnhæðarlínur eru þéttar er mikill vindur í 500 hPa (ekki endilega við jörð).

Innsta jafnhæðarlínan á myndinni sýnir 5280 metra og liggur í kröppum hring um lægðarmiðjuna. Þar yfir eru mjög lág veðrahvörf. Ekki er ólíklegt að í miðju lægðarinnar sé flatarhæðin um 5250 metrar. Á þessu korti er ekki mikil samsvörun milli hæðar- og jafnþykktarlina - það þýðir að enn er bylgjan í heild ekki búin að ná jafnvægi. Það er þó eftirtektarvert að ekki er að sjá að vindur kringum lægðarmiðjuna sé að ná í hlýrra loft en það sem þegar er í henni.

Nú kemur smáreikningur - þeir sem ekki telja sig þola hann eða hafa einfaldlega ekki áhuga geta því yfirgefið samkomuna - eða laumast til að lesa svarið við spurningunni í fyrirsögn pistilsins í lokamálsgreininni - alveg neðst.

Við vitum að þykktin er mismunur hæðar 500 hPa og 1000 hPa-flatanna. Sá mismunur er 5520 metrar við lægðarmiðjuna. Við sáum að hæð 500 hPa er 5250 og getum því auðveldlega reiknað hæð 1000 hPa-flatarins. Hún er 5250 - 5520 = -270 metrar. Mínustalan táknar að flöturinn reiknast í 270 metrum undir yfirborði jarðar. Þrýstingur við sjávarmál er því lægri en þúsund hPa. Auðvelt er að breyta metrum í hPa ef við munum að þrýstingur fellur um 1 hPa á hverjum 8 metrum. Deilum 8 í 270 og fáum út 33,75 eða nokkurn veginn 34. Reiknistykkinu lýkur með því að draga 34 frá 1000 (til að komast að sjávarmáli). Útkoman er 966 - sem er þrýstingurinn í lægðarmiðjunni.

Lægsta 500 hPa-hæð sem vitað er um hér við land í júlí er um 5210 metrar - um 40 metrum lægri heldur en hún er minnst á kortinu. Það eitt og sér gefur 5 hPa (40 deilt með 8). Ef 5210 hæðarmetrar hitta fyrir 5520 metra þykkt í framtíðarlægð yrði miðjuþrýstingur hennar um 961 hPa. Ef svo ólíklega tekst til að 5210 metrarnir hittu fyrir 5580 metra þykkt yrði afkvæmið 954 hPa í miðju. Við sjáum á kortinu að stefnumót við 5580 metra geigaði ekki nema um 700 km að þessu sinni.

Síðan er ekki ólíklegt að 5210 metrar séu ekki allra lægsta hugsanlega hæð í júlí.

Svarið um lægsta hugsanlega loftþrýsting í júlí gæti því verið á bilinu 953 til 956 hPa. Erfiðleikarnir við að slá metið frá 1901 benda þó til þess að þetta sé samt eitthvað mjög ólíklegt. Mjög erfitt er að segja til um hvort hlýnandi veðurfar auki eða minnki líkur á stefnumótum lágra hæðarflata og mikillar þykktar í júlí. Hlýnun færir jafnþykktarlínur að meðaltali til norðurs - þannig að 5580 metra línan ætti að sjást oftar og lengur við Ísland en nú er. En hvernig fer með kuldapolla norðurslóða? Því virðist enginn geta svarað enn sem komið er.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 2341369

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 906
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband