Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2019

Hlýr júlí

Svo virðist sem júlímánuður ætli að verða sá hlýjasti sem vitað er um í Reykjavík. Hann er þó varla marktækt hlýrri en fáeinir fyrri - því nokkur óvissa fylgir flutningum stöðvarinnar. En þetta er samt líklegasta niðurstaðan. Einnig stefnir í að mánuðurinn verði sá hlýjasti á öldinni við Faxaflóa. En kaldara hefur verið fyrir norðan og austan. Ekki beinlínis kalt þó - en langt frá methita.

Taflan hér að neðan sýnir stöðuna eins og hún var í morgun.

w-blogg300719va

Dagarnir eru þeir hlýjustu á öldinni (og lengur) við Faxaflóa, næsthlýjastir á Suðurlandi og við Breiðafjörð og í hæsta þriðjungi einnig á Vestfjörðum og á Miðhálendinu. Hiti í öðrum spásvæðum fellur á miðþriðjung - gróflega í meðallagi aldarinnar. Kaldast að tiltölu hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra, hiti -0,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára - en það er reyndar hátt í langtímasamanburði - höfum það í huga. 

Á landsvísu virðist hitinn stefna á 10. til 15. hitasæti (af 140) - það munar litlu á röðinni, en er langt frá meti. 


Smáupprifjun um hitamælingar

Þann 7.maí 2011 birtist á hungurdiskum stuttur pistill um hitamælingar. Ýmislegt sem sést hefur á vefsíðum eftir óvenjuhlýjan dag bendir til þess að ástæða sé til að rifja þennan pistil upp. Það væri reyndar ástæða til að endurskrifa hann - en látum það bíða. Sem fyrr er pistillinn allur í viðhengi - en þar sem mjög fáir nenna að lesa hann eru hér þau atriði sem skipta máli í umræðu dagsins þessi:

„Tilgangur veðurfræðilegra hitamælinga er sá að mæla lofthita, en ekki sá að mæla hita á hitamælinum einum og sér. Mælingar eru tryggastar ef varmaskipti milli mælis og umhverfis hans gerast ekki öðru vísi en við snertingu lofts og yfirborðs mælisins“.

Síðan er fjallað nokkuð um hitamælaskýli og stöðlun hitamælinga - svo segir:

„Fjöldi fólks hefur komið sér upp hitamælum, einnig hafa fyrirtæki eða opinberir aðilar sett upp mæla sem auglýsa hitann stórum stöfum. Oft ræður tilviljun því hvort hugað er að geislunarumhverfi mælanna og langfæstir mæla við staðalaðstæður sem bera má saman við mælaskýli eins og lýst var hér að ofan. Margt truflar. Flestir átta sig á því að bein sólgeislun er skæðust villuvalda og forðast að koma mælum fyrir þar sem sól skín beint á þá. Sá misskilningur veður hins vegar uppi að mikill munur sé á lofthita í sól og skugga. Munur á því sem hitamælar sýna í sól og skugga fellst einkum í mun á hita mælisins sjálfs en síður í mismun lofthitans. Sú mikilvæga undantekning er þó frá þessu að loft er talsvert hlýrra í sólskini en í skugga þar sem varmaflæðis með kvikustraumum gætir. Það er einkum niður við yfirborð á sólhituðum flötum og rétt upp við sólvermda húsveggi.

Fleira veldur þó vandræðum því skuggi einn og sér skýlir mælum ekki. Það er vegna þess að hlutir eins og t.d. veggir og gróður geta bæði endurkastað sólarljósi og líka varpað eigin varmageislum á mæli. Mælirinn þarf því einnig að vera í skugga frá varmageislum. Allir hlutir senda frá sér rafsegulbylgjur, sólin er svo heit að bylgjur sem frá henni berast eru einkum stuttar og mjög orkumiklar. Aðrir hlutir senda líka frá sér bylgjur en á allt öðrum stað í rafsegulrófinu, svonefnda varmageisla. Hitamælar drekka einnig í sig varmageisla séu þeir ekki varðir fyrir þeim. Þess vegna eru þeir hafðir í sérstökum skýlum“ (eins og lýst er í pistlinum).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sundurlausar júlítölur (hæsti júlímeðalhiti)

Við höfum stundum litið á sundurlausar metatölur fyrir einstaka mánuði. Hér er eitthvað af slíku fyrir júlímánuð - kannski fyrsti kafli af fleirum. Þó enn sé möguleiki á því að júlí 2019 verði sá hlýjasti í sögunni í Reykjavík (eða jafni eldri hæstu tölur) er varla hugsanlegt að einhver landsmet verði slegin, hvorki í flokki landsmeðalhita, né hæsta mánaðarmeðalhita á veðurstöð. Júlí 1933 verður enn sá hlýjasti á landsvísu (að minnsta kosti eitt ár í viðbót), meðalhiti þá var 12,0 stig. Það má kannski gagnrýna reikniaðferðirnar - talan er grunsamlega há - en við bíðum með að breyta henni þar til allt hefur verið reiknað aftur (sem næsta kynslóð reiknifíkla gerir). Sömuleiðis verður meðalhitinn á Egilsstöðum í júlí 1955 enn sá hæsti á nokkurri veðurstöð í júlí, 13,7 stig. Fyrst var byrjað að mæla á Egilsstöðum 1943 (þegar Flugfélag Íslands hóf flug til þangað), en allt þar til í október 1954 voru mælingar þar í skötulíki og birtust t.d. ekki í Veðráttunni tímariti Veðurstofunnar.

egilsstadir_1954-10-24

Til „gamans“ er hér mynd af skýlinu á Egilsstöðum  - úr safni Veðurstofunnar - myndina tók Flosi Hrafn Sigurðsson. Það var í notkun á árunum 1945 til 1954 - vonandi eitthvað betur útlítandi framan af - og rétt að taka fram að hurðin hefur sennilega oftast verið lokuð. Þá leysti það af skýli sem Geirmundur Árnason veðurfræðingur lýsir svo í eftirlitsskýrslu sem dagsett er 8.ágúst 1945: „Áhaldakassinn hafði verið settur upp við eldhúsdyr ... og vissi á móti suðri. Hurðin á kassanum hafði fokið af í aftakaveðri og týnst eða eyðilagst og hafði ekkert verið að gert, svo að sól skein beint á hitamælana“.

En þetta var allt lagfært í október 1954 og upp frá þeim degi skulum við trúa athugunum frá Egilsstöðum - þar með þeim sem gerðar voru sumarið 1955 - þá rigndi sem kunnugt er stöðugt á landinu sunnan- og vestanverðu - með sífelldum hvassviðrum þar að auki - en austanlands var eindæma hlýtt. Meðalhiti júlímánaðar var þá 13,6 stig á Hallormsstað og á Skriðuklaustri - ómarktækt lægri en Egilsstaðametið. Meðalhiti í júlí 1880 reiknast líka 13,7 stig á Valþjófsstað í Fljótsdal. Nokkur óvissa er í þeirri tölu - en hún er samt þessi. Veðurnörd vita að ágústtalan á Valþjófsstað 1880 er sú hæsta sem vitað er um í nokkrum almanaksmánuði hér á landi, 14,0 stig. Meðalhiti í júlí hefur nokkrum sinnum til viðbótar reiknast 13,6 stig í júlí, á Írafossi 1991, Hæli í Hreppum 1939, í Möðrudal 1894 (vafasamt) og 1926. Hæsta júlímeðaltalið á höfuðborgarsvæðinu er 13,5 stig á Rafmagnsstöðinni við Elliðaár 1944 - kannski rétt að athuga þá tölu betur. Svo má nefna skrýtna tölu vestan frá Hesteyri í Jökulfjörðum, 13,5 stig í júlí 1936 - óvíst hvort við trúum henni. Fleiri stöðvar eiga 13,5 stig. Við skulum hér nefna 13,4 stig í Birkihlíð í Skriðdal 1991 - því miður eru athuganir frá Hallormsstað úr sama mánuði ekki á lager ritstjóra hungurdiska (hugsanlega til samt). Það er yfirleitt nokkru hlýrra í júlí á Hallormsstað heldur en uppi í Skriðdalnum - ef við förum að reikna út og suður fáum við að meðaltalið á Hallormsstað hafi verið 14,0 stig - en var „því miður“ ekki „nema“ 12,9 stig á Egilsstöðum - og það dregur heldur úr líkum á því að mælingar á Hallormsstað hefðu í raun gefið okkur 14 stigin 1991. 

Hæsta júlítalan á Akureyri er 13,3 stig - það var 1933 - og þá var meðalhiti í Reykjahlíð við Mývatn 13,5 stig. Meðalhitinn á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði var 12,5 stig í júlí 1933, 0,3 stigum hærri en á þeim slóðum í júlí 1955 - kannski var meðalhiti þá 14 stig á Egilsstöðum eða á Hallormsstað? Það er sárt að mælingar vanti þaðan - æ, já. Mælingar voru ekki heldur gerðar á Eiðum þetta merkilega sumar.  


Fáum við sneið af kökunni?

Eins og komið hefur fram í fréttum ganga nú óvenjulegir hitar yfir hluta af Evrópu vestanverðri og síðan næstu daga norður um Skandinavíu. Hér er á ferðinni loft af suðrænum uppruna - kannski frá Norður-Afríku. Að sjálfsögðu dregur úr mestu hlýindunum eftir því sem norðar er komið - en óvenjuleg eru þau líka þar. 

Allmargar spár (en ekki allar) gera nú ráð fyrir því að sneið af þessum hlýindum komist í námunda við Ísland - enn er þó rétt að nota spurningarmerki hvað það varðar - þar eru margir óvissuþættir. Sneiðin gæti einfaldlega farið framhjá landinu - nú eða þá að þykk ský og úrkoma fylgi þeim þannig að aðallega yrði um óvenjuleg úrkomu- eða næturhlýindi að ræða. 

Engu að síður skulum við líta á stöðuna. Fyrst er hefðbundið norðurhvelskort, jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í 5 til 6 km hæð. Þykktin er sýnd í litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg250719a

Kortið gildir síðdegis á laugardag, 27.júlí. Við sjáum að mestu hlýindin eru liðin hjá á þeim slóðum sem hlýjast var á í dag (fimmtudag) og að meginkjarni þeirra er kominn yfir Skandinavíu. Þar er þykktin á stórum bletti meiri en 5700 metrar sem er mjög óvenjulegt norður á 65. breiddarstigi. Þetta minnir að sumu leyti á stöðuna sem var yfir Alaska fyrir nokkru. Það er líka óvenjuhlýtt yfir norðurskautinu og hlýindin hafa sneitt meginkuldasvæðið í tvennt. 

Í þessari spá er hluti hlýja loftsins á leið til Íslands - ekki það hlýjasta að vísu, en samt gæti þykktin komist yfir 5600 metra - jafnvel marga daga í röð rætist spáin. Ekki er langt í kaldara loft fyrir suðvestan land og á milli er allmikið regnsvæði. Spurning hvað það endist eða verður þrálátt. Fari það vestur fyrir land mun gera einhvers konar íslenska hitabylgju. 

Síðara kortið sýnir stöðuna um hádegi á miðvikudag - líkur á því að hún verði nákvæmlega svona eru auðvitað ekki miklar - margt fer úrskeiðis í spám á sex dögum.

w-blogg250719b

Við skulum vara okkur á því að hér sýna litirnir hæð 500 hPa flatarins (ekki þykktina), en heildregnu línurnar eru sjávarmálsþrýstingur. Hér er ákveðin austanátt við sjávarmál - en líka allákveðin austanátt í efri lögum. Við getum flett því upp hversu óvenjuleg þessi staða er - þá kemur í ljós að hún er eiginlega fordæmalaus - svona sterka austanátt með jafnháum 500 hPa-fleti þekkjum við ekki á þessum árstíma. Við höfum slatta af dæmum þar sem flöturinn er ámóta hár yfir landinu, en þá er miðja háþrýstisvæðisins að jafnaði nær okkur - og austanáttin þar af leiðandi minni. Við þekkjum tvo daga - en aðeins tvo - með jafnmikilli austanátt í háloftum í júlí og ágúst - en þá var 500 hPa-flöturinn áberandi lægri en kortið sýnir. Óvenjulegt veður fylgdi í báðum tilvikum. Hið fyrra var 20.ágúst 1950 - daginn áður varð mannskaðaskriðan mikla á Seyðisfirði - mikil hlýindi voru vestanlands um þær mundir. Hitt tilvikið var 29.júlí í fyrra - þegar hæsti hiti á landinu á árinu mældist vestur á Patreksfirði - ekki alveg venjulegt það. 

Við leitina finnum við daga með ákveðinni austanátt - þó minni sé en þetta - en ámóta háum 500 hPa-fleti - oftast þó aðeins staka daga. Í því tilviki sem hér er verið að spá á þessi austanátt að standa í nokkra daga. Við skulum nefna þau tilvik þegar ákveðin austanátt var samfara óvenjuháum 500 hPa-fleti í tvo eða fleiri daga í röð í júlí eða ágúst: a) 1. og 2. ágúst 2008 (hitabylgjuunnendur muna það ástand), b) 9 til 12. ágúst 2004 - jú, ætli sömu unnendur muni það ekki líka, c) 30. og 31. ágúst 1980 - (þeir eldri muna líka þá daga mjög vel).

Svo er stungið upp á tveimur eldri tilvikum - a) 14. og 15.ágúst 1914 - þá var áttin nægilega suðlæg til þess að það voru aðallega íbúar Norðurlands og landsins norðvestanverðs sem nutu mikilla hlýinda - en suðvestanlands var skýjað. b) 11. og 12. ágúst 1893 - þá var hitabylgja um landið suðvestan- og vestanvert. Hiti fór yfir 20 stig í Reykjavík og í tæp 25 stig á Stóranúpi í Hreppum. 

Það er enn allt of snemmt að ræða um þessar spár sem eitthvað raunverulegt - þær eru bara eitthvað í reikniheimum - en eðlisfræðilegur möguleiki engu að síður. 


Af árinu 1876

Árið 1876 var talið „meðalár að veðurgæðum“, og „slysfarir virðast og að hafa verið í minna lagi. Talið er, að drukknað hafi rúmlega 40 manns“ ... „nokkrir urðu og úti í illviðrum, ... enn nokkrir aðrir týndust á annan hátt“. Í landinu bjuggu þá um 71 þúsund manns. 

Vetur var umhleypingasamur og harðnaði þegar á leið - þó fyrri hluti sumars væri ekki tiltakanlega kaldur var hann illviðra- og umhleypingasamur. Undir miðjan ágúst batnaði tíð og var talin ágæt upp frá því til ársloka. 

Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, þá 0,6 stig ofan meðallags „síðustu tíu ára“ og 3,3 stig í Stykkishólmi, einnig 0,6 stig hlýrra en meðallag næstu tíu ára á undan. Ekki var mælt á Akureyri, en ársmeðalhiti þar hefur verið áætlaður 3,1 stig (ekki svo óskaplega kalt). Í langtímasamanburði teljast janúar, október, nóvember og desember hlýir, en mars, apríl, júní og júlí kaldir. Apríl var sérlega kaldur, sá næstkaldasti frá upphafi mælinga. Það er aðeins apríl 1859 sem var áberandi kaldari. Meðalhiti hefur aðeins verið reiknaður fyrir 8 stöðvar - og áætlaður á einni til viðbótar (sjá viðhengi). Engin þessara stöðva er langt inni í landi. 

ar_1876t 

Hæsti hiti ársins mældist í Grímsey þann 18. ágúst, 26,2 stig. Varla þarf að taka fram að hér er um grunsamlega mælingu að ræða, en hiti var þó 20 stig á hefðbundnum mæli bæði kl.14 og 21. Hins vegar gerði óvenjulega hitabylgju um mestallt land í nokkra daga eftir miðjan ágúst. Lítillega var um þessa hitabylgju fjallað í pistli hungurdiska 21. ágúst 2018. Þar segir m.a.:

Þann 18. ágúst 1876 var talan 26°R lesin af mæli á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsýslu. Ekki er sérstök ástæða til að efast um mælinn sjálfan. Hann var mjög lengi í notkun á staðnum - vel fram á 20.öld. Sagt er að sól hafi ekki skinið á hann, en eins og margoft hefur komið fram hér að ofan nægir ekki að komið sé veg fyrir það sé mælirinn opinn fyrir beinni varmageislun frá heitum flötum. En 26°R eru 32,5°C. Hiti fór víða mjög hátt á landinu þessa daga, í meir en 20 stig bæði í Reykjavík (21,6 stig) og í Stykkishólmi (22,0 stig). Á Hvammi í Dölum fór hiti í að minnsta kosti 20°R (25,0°C). Í frétt Norðanfara (sjá hér að neðan) er sagt frá 30°R í forsælu í Kjós - [37,5°C - trúlega ruglingur á kvörðum]. Svo er sýnir bandaríska endurgreiningin þykktina 5610 metra yfir landinu þennan dag (18.ágúst). Endurgreining þessara ára er ekki góð, en staðfestir samt hitabylgjuástand yfir landinu í þrjá daga (16. til 18.). Varla er vafi á að um mjög óvenjulegan atburð er að ræða. 

Mesta frost ársins (á opinberri veðurstöð) mældist einnig í Grímsey, -19,4 stig þann 16.mars. Þann 20.apríl mældist frostið á sama stað -18,8 stig. 

ar_1876p 

Sérlega lágur loftþrýstingur var ríkjandi frá því seint í maí og fram undir miðjan ágúst og hefur meðalþrýstingur júlímánaðar líklega aldrei verið lægri hér á landi síðan mælingar hófust. Aftur á móti var þrýstingur með hærra móti í september. Hæsti þrýstingur sem mældist á árinu var 1038,4 hPa í Stykkishólmi þann 30.október og á Teigarhorni 30.apríl. Lægstur þrýstingur mældist 962,3 hPa í Stykkishólmi þann 1.febrúar. Þrýstibreytingar frá degi til dags voru með minnsta móti í september, nóvember og desember. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1876 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu. 

Sr. Valdimar Briem ritar yfirlit ársins í „Fréttir frá Íslandi“.

Veðuráttufar var fyrri hluta ársins fremur stirt, en síðari hluta ársins ágætt, svo að þá er á allt árið er litið, má telja það með meðalárum að veðurgœðum. Frá nýári og fram í miðjan febrúar var mjög hrakviðrasamt víða, einkum sunnanlands og vestan, og stundum ofsastormar. Mestir urðu stormar aðfaranótt hins 3. janúar, og ollu þeir víða syðra stórskemmdum á heyjum manna og róðrarskipum. Frá miðjum febrúar og fram í miðjan mars voru lengstum hreinviðri, en sjaldan frost mikil, og oftast nokkrir hagar. Þá gjörði um miðjan mánuðinn stórhríð nálega yfir allt land, með miklu frosti og fannkomu. Um þær mundir rak hafísinn að landinu, fyrst að útnesjum, en síðan inn á firði; hann hörfaði þó frá um hríð, en kom skjótt aftur og lagðist þá fyrir allt Norðurland og rak jafnvel langt suður með landinu austanverðu. Þar við stóð þangað til í öndverðum maímánuði; þá rak ísinn aftur til hafs. Meðan ísinn var landfastur, voru lengst af illviðri og hörkur, einkum nyrðra og eystra, og um sumarmál voru harðar norðankólgur um allt land. Sunnanlands voru lengi þurrkar miklir, og urðu sums staðar stórskemmdir af sandfoki, einkum á Rangárvöllum. Snemma í maí kom batinn loksins, og var þá mörgum orðið mál á honum. Um þær mundir urðu sums staðar skemmdir á jörðum í Húnavatnssýslu af vatnavöxtum og skriðum. Vorið var kalt víðast fram að sólstöðum enda var ís nærri; þá voru nokkrir hitadagar, en síðan brá aftur til kalsa, er stóð fram á mitt sumar. Síðari hluta júlímánaðar var víða kalsasamt og úrkomur tíðar. Upp frá því voru blíðviðri, hitar og þurrkar allt fram á haust. Haustið var eitt hið besta. Framan af vetri og allt til ársloka voru lengstum þíður, en nokkuð vindasamt.

Heyskapurinn varð í betra lagi. Grasvöxtur var í meðallagi á túnum, í lakara lagi á harðvelli utan túns, en bestur á mýrlendu engi. Töður hröktust sums staðar, þar sem snemma var tekið til sláttar, en að öðru leyti varð nýting á heyjum einhver hin besta í flestum sveitum allt til sláttuloka. Þó að grasvöxturinn eigi væri nema í meðallagi að öllu samtöldu, varð þó víða sökum nýtingarinnar afbragðsheyskapur. Kálgarða- og jarðeplagarðarœkt virðist hafa heppnast í góðu meðallagi.

Í öskusveitunum austanlands var gróður í besta lagi að mörgu leyti, en þó nokkuð á annan hátt en annars staðar. Tún spruttu þar víða ágætlega; vorkuldarnir virðast hafa gjört þar minna til meins en annars staðar, með því að askan niðri í rótinni hefur verið grasinu til skýlis, meðan það var að vaxa. Sumir hugðu, að í öskunni kynnu að vera einhver áburðarefni, með því að gras það, er upp úr öskunni spratt, þótti bæði frjótt og kostagott. Til þess að fá vissu um þetta, lét Eiríkur Magnússon, bókvörður í Cambridge, rannsaka öskuefnið á efnafrœðilegan hátt, og reyndist það þá, að í því var örlitið frjóvgunarefni, og ekkert það, er á svo stuttum tíma gæti veitt nokkra frjóvgun. Var því einsætt, að að öskunni varð eigi annað gagn en skjól fyrir grasrótina, en það gagn varð líka mikið, þar sem askan var eigi of mikil. Þetta kemur og vel heim við það, að tún eða það land, sem best var hreinsað, spratt best. Utantúns harðvelli spratt þar næst, en grasvöxtur var þar gisinn. Gisnast og lakast sprottið reyndist gras á mýrlendi, — sem annars staðar var best sprottið — en það virðist hafa komið af því, að sú jörð varð síst hreinsuð, og öskuskánin hefur verið þar of mikil. Askan hefur þetta ár töluvert rénað og borist burt, bæði af vindi og vatnsrennsli, en þó sjást enn sums staðar miklar menjar hennar. Á sumum jörðum, þeim er í eyði lögðust á Efra-Jökuldal, hefur aftur verið tekin upp byggð, en sumar eru enn óbyggðar og óbyggilegar.

(s32) Aflabrögð úr sjó voru víðast fremur góð, og sums staðar afbragðs góð. Í Faxaflóa, sem lengi var talinn ein aðalveiðistöð landsins, brást nú þar á mót fiskiafli því nær gjörsamlega allar vertíðir. Laxveiði í ám var góð um sumarið, einkum á Suðurlandi. Rekar urðu nokkrir með hafísnum fyrir norðan land um veturinn. Trjáreka er þó eigi getið.

(s38) Slysfarir virðast og að hafa verið í minna lagi. Talið er, að drukknað hafi rúmlega 40 manns, flestir í sjó. Af þeim drukknuðu 6 undir Jökli, 5 við Seltjarnarnes, 4 á Skerjafirði, 7 við Höfðaströnd. Þessir skipskaðar á sjó urðu mestir. Enn fremur fórst bátur með 6 mönnum í Þykkvabœjarvötnum í Holtasveit í Rangárvallasýslu. 2 hrópuðu til bana í Yxnadal, aðrir 2 í Vestmannaeyjum og 1 í Fljótshlíð (Páll Pálsson, alþingismanns frá Árkvörn). Nokkrir urðu og úti í illviðrum, einkum norðanlands og austan. Enn nokkrir aðrir týndust á annan hátt.

Ísafold tók tíðarfar ársins saman í pistli sem birtist 31.janúar 1877:

Fyrstu vikurnar af árinu var veðrátta rosasöm og úrkomumikil um Suðurland og fyrir vestan, en hin besta fyrir norðan og austan. En úr miðþorra brá til harðviðra og hríða, einkum fyrir norðan og austan, og stóð það að öðruhvoru það sem eftir var vetrar og fram yfir sumarmál. Seint á góu bar hafís allmikinn austan að landinu og færðist smám saman vestur með því að norðan, allt að Hornströndum. Hann var landfastur við útnes fram að fardögum. Vorið var hægviðrasamt, en fremur kalt. Fyrra hlut sumars gengu rosar og rigningar, en nálægt miðjum ágústmánuði skipti um til batnaðar, og muna menn eigi jafnhagstæða veðráttu og það sem eftir var sumars: lengst af logn og þurrviðri. Svipuð veðurblíða hélst framan af vetrinum, og kom varla eitt öðru hærra til ársloka. 

Janúar: Illviðratíð, einkum á Suður- og Vesturlandi. Mjög hlýtt norðaustanlands.

Þjóðólfur segir frá þann 6.janúar:

Aðfaranóttina hins 3.þ.m., gjörði hér hið mesta voðaveður á austan; það hefur ollið töluverðu og almennu tjóni hér um nesin, einkum að því sem enn er spurt, á Álftanesi; fjöldi báta og skipa hefur brotnað eða fokið á sjó út, svo og hjallar og hlöður. Hér i bænum brotnuðu drjúgum gluggar og jafnvel þök á húsum. Þó urðu hér fáar stórskemmdir. Eitt skip (frá Siemsen) lá á höfninni búið til burtfarar, og þótti furða er það lá kyrrt að morgni. Það lá utarlega, þar sem botn er öruggastur. Það er sorglegt, hve mikill fjöldi skipa tekur skaða, nálega af hverju einasta ofviðri, sem kemur hér yfir nesin; enda er jafn-eftirtektarvert, að nálega enginn á naust til að geyma í skip sín. — Veðrátta. Síðan fyrir jól hafa gengið sífelldir blotar og hrakviðri. Róðrar og aflabrögð engin.

Norðanfari birti þann 10.mars bréf úr Dalasýslu, ritað þann 13.janúar:

Haustið og fram til jóla var ágæt veðurátta, en með sólstöðum brá til umhleypinga og rosa. Aðfaranóttina hins 3. þ.m. var hér hið mesta sunnanveður, að því urðu meiri og minni heyskaðar um suðurhluta Dalasýslu, og sama er að frétta úr Mýra- og Hnappadalssýslum. — Bátar höfðu og brotnað við Hrútafjörð. — Ein kona varð úti í vetur á Fellsströnd.

Þjóðólfur segir frá þann 14.janúar:

Veðrátta helst hin sama. Nokkrir dugnaðarformenn hafa þessa daga brotist suður í Garðsjó og komið aftur með talsverðan fisk (stútung og ýsu); bíður því almenningur byrjar í góðri von um batnandi tíð.

Þjóðólfur segir víðar að þann 31.janúar:

Austanpóstur kom aftur 21.þ.m. Sama tíð virðist að hafa gengið síðan í haust um allan þennan landsfjórðung, mildur vetur, en rosasamur síðan með jólaföstu. Almenn tíðindi að norðan hin bestu, gæðatíð til lands, svo lömb hafa sumstaðar gengið úti til nýárs; góður fiskiafli allvíðast. Frá Vopnafirði var nýfrétt, að skip þeirra Örum & Wolffs, „Hjálmar“ hlaðið kjöti, rak þar upp og skemmdist. Að vestan. Um Ísafjarðardjúp hefur síðan fyrir jólin nokkrum bátum borist á; var einu frá Arnardal, og týndust tveir menn — formaðurinn hét Einar Magnússon. Á gamlárskvöld fórst bátur frá Hvítanesi í Ögurþingum; legði hann seint af stað frá Ísafirði um daginn, og hélt hein»leiðis, hét formaðurinn Guðbjartur Friðriksson, var hann og þrír hásetar hans allir vinnumenn Einars bónda og snikkara Hálfdánarsonar, bróður séra Helga í Reykjavík, og missti hann þannig alla vinnumenn sína auk varningsins. Einnig barst á báti í lendingu einni í Aðalvík; fórust þar tveir menn af fjórum. Báti hvolfdi og við Æðey, og týndist einn maður. Er svo «sagt, að þar við Djúpið hafi gengið hin voðalegasta veðrátta fyrir sjófarendur. [Slysin í Aðalvík og Æðey urðu fyrir áramót]. 

Febrúar: Illviðratíð fram í miðjan mánuð, en síðan hreinviðri.

Þjóðólfur segir af tíð þann 16.febrúar:

Nú um miðjan þ.m. hefur hin hryðjusama sunnanveðrátta breyst í norðanátt með björtu blíðviðri. Alls enginn aflabrögð spyrjast enn úr neinum veiðistöðum hér syðra. Jagtir Reykvíkinga og þilbátar eru nú sumpart komnir út eða í tilbúningi til hákarlaveiða. Menn, bréf og blöð, sem nú eru að koma að norðan segja sem fyrr hina bestu tíð hvervetna nyrðra og eystra. Fjárhöld góð vestur að Skagafjarðarsýslu, en þá tók við bráðapestin, er þar og sumstaðar í Húnavatnssýslu hefur enn gjört mörgum bónda stórkostlegasta fjártjón i vetur. Eldgos í Dyngjufjöllum hefur sést til skamms tíma, þó sást síðast aðeins mökkurinn. Á Reykjaheiði hafði og sést gosreykur mikill nýlega.

Ísafold segir þann 22.febrúar:

Tvo síðustu dagana af vikunni sem leið, 18. og 19. þ.m., var hér allsnarpur norðangarður, með 10—11° frosti á C, og er það mesta frost, sem komið hefir hér sunnanlands á þessum vetri. Dagana þar á undan var hreinviðri á norðan, með litlu frosti. Nú er aftur stilltara veður og frostminna, en sama átt.

Mikil eldvirkni var nyrðra árið áður (1875). Ísafold segir framhaldsfréttir þann 18.febrúar:

Svo segja síðustu fréttir að norðan, að enn muni eldur uppi bæði í Dyngjufjöllum og á Mývatnsöræfum. Er svo sagt, að því meira sem rjúki í Dyngjufjöllum, því minna sjáist til eldsins á Mývatnsöræfum, en aftur vaxi gosmökkurinn þar hvenær sem úr honum dregur í Dyngjufjöllum. Sendimaður sem er nýkominn með blöð að norðan, og lagði af stað frá Akureyri 2. þ.m. [febrúar], segir þá hafa verið kominn þangað mann austan úr Mývatnssveit, er sagði nýlega kominn upp allmikinn eld á nýjum stöðvum, á Reykjahlíðarheiði upp frá Kelduhverfi, 2—3 mílur norður frá eldinum í Mývatnsöræfum, í beinni línu þaðan. Lítur útfyrir að ein eldæð gangi sunnan úr Dyngjufjöllum, eitthvað norður úr öllu valdi.

Ísafold birti þann 25.apríl veðurskýrslu af Skógarströnd:

Skógarströnd 28/2 1876: Allan janúarmánuð var hin mesta umhleypinga- og rigningatíð, sú er menn muna. Ofviðri af suðri gjörði aðfaranætur hins 3. og 10., en af þeim veðrum urðu hér engir stórskaðar; en af rigningum hafa spillst hús og hey, holdafar á fénaði og þrif. Skrugguveður voru hér af suðri útsuðri frá 22. til 28. [janúar], og er það mjög fágætt hér. Aðfaranótt hins 3. og þann 31. féll loftþyngdarmælirinn ofan í 26"10' [967,2 hPa]. Mestur kuldi þann 20. -10°R. Meðalhiti -l,3°R og loftþyngd 27"6 [997,1 hPa]. Í febrúarmánuði hélst umhleypingatíðin áfram með vindstöðu frá landsuðri til vesturs og ýmist rigningum eða fönnum til hins 10.; síðan gjörði landsunnan góðviðri til hins 16.; þá brá til norðanáttar með talsverðum frostum og kófköföldum til Dala, og helst sú veðurátta enn. Mest hefir frostið orðið að kvöldi hins 19. [febrúar] 14°R. Meðaltalið um mánuðinn -3°R. og meðaltal loftþungans 27"9 [1001,5 hPa].

Mars: Hreinviðri suðvestanlands, en verri tíð á Norðausturlandi, sérstaklega eftir miðjan mánuð. Kalt.

Jónas Jónassen sagði um marsmánuð 1876 (í viðbót við marsyfirlit 1885): „Mars 1876 norðanveður með miklum kulda allan mánuðinn“.

Þann 25.apríl birti Ísafold bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 10.mars:

Veturinn hefir verið hér einhver hinn hrakviðra- og stormasamasti er menn muna, en frosta- og snjólítill; sakir hrakviðranna búast menn hér eigi við góðum sauðfjárhöldum, því auk þess, hversu féð hrekst í þessum sífelldu rigningum og stormum, sækir og mjög á það lús og önnur óþrif, er valda bæði felli og ullarmissi. Gæftalaust hefir hér mátt heita allan veturinn, og hafa menn svo sem tvisvar á mánuði getað skotist á sjó fáeinar stundir í senn, þó hefir verið fiskilaust að mestu.

Þjóðólfur segir af hægri tíð þann 11.mars:

Síðan um miðjan febrúarmánuð hafa oftast gengið snjó- og froststilltir norðanvindar. Svipað tíðarfar, nefnilega hinn besti vetur, spyrst að úr öllum  héruðum landsins.

Ísafold segir þann 17.mars:

Síðan snemma í fyrra mánuði hefir gengið hér hreinviðrasöm norðurátt, með litlu frosti, þangað til hinn 14. þ.m., að frostið herti og gjörði hríð allmikla sem stóð í 3 daga. Mest frost 15° á C. (15.þ.m.). Ferðamaður að norðan, sem lagði af stað frá Akureyri 5. þ.m., eða 3 dögum síðar en pósturinn, hefir eftir Grímseyingum, sem voru nýkomnir í land, að menn hafi þar (í Grímsey) þóst sjá ýmis merki þess, að hafís mundi allnærri landi.

Norðanfari segir þann 18.:

Þessa viku hafa hér verið norðan harðviðurshríðar með talsverðri snjókomu og miklu frosti, mest 16—17 gr. á R.; enda er nú sagt að hafíshroði sé komin hér í fjarðarmynnið, og nokkrir jakar lengra inneftir firðinum. — Þá seinast var róið til fiskjar, hér yst á firðinum, var nokkur afli.

Þjóðólfur segir enn af tíð þann 27.mars:

Um miðjan þennan mánuð gjörði hér hart norðanveður-kast, svo að frostið hér í Reykjavík nam þrjá daga í senn 10—15°C. Af hinum fáu frostdögum vetrarins hefur það verið langmest hér á Suðurlandi. Allt þar til mun meðaltal hita og kulda síðan veturinn hófst, víða hér á landi hafa náð lítið hærra en 0°C. Nú um hríð hefur gengið góðviðri. Yfir höfuð hefur vetrartíðin verið hingað til í mildasta lagi um land allt, þó miklu meiri hrakviðri og stormar sunnanlands en norðan. Snjókomur nær engar. 

Norðanfari birti 20.apríl bréf af Suðurlandi, dagsett 30.mars - þar segir m.a.:

Þar til 3 vikur af þorra var lík veðurátta og áður var ritað; skipti þá um hana til þráviðris og austræninga með heiðríkjum og frosti nokkru, er mest varð seinustu þorradagana og 11° á þorrarælinn [19.febrúar]. Hinn 11. mars kom norðan kólga með gaddi og snjókomu nokkurri til fjalla, er hélst við til þess 16., var frosthæðin hinn 14.—16. mest 16°R [-20°C]. Með hinum 17. kom blíðviðri með hreinviðri og lognum að mestu, en frost á nóttum, er haldist hefir til þess í dag. - Aflaleysi má telja í kringum Faxaflóa, allt suður að Miðnesi, þar hefir aflast vel af þorski, eins í Grindavík og austan fjalls. Í Vestmannaeyjum aflast vel, bæði af þorski og einkum heilagfiski, hallærið var aldrei eins mikið og orð var á gjört í vetur. Undir Jökli fiskaðist vel í haust, en bæði þar og á Vestfjörðum, var aflalítið sökum storma.

Apríl: Vont tíðarfar og áfreðasamt, einkum norðanlands. Þurrkar til ama syðra. Mjög kalt.

Jónas Jónassen sagði um aprílmánuð 1876 (í viðbót við vikuyfirlit 27.apríl 1887): 

Apríl 1876: Norðanbál með hörkugaddi svo að segja allan aprílmánuð; 20. apríl var 1° hiti á nóttu; annars var meiri og minni gaddur á nóttu allan mánuðinn frá 1. (2-10° frost).

Norðanfari segir þann 20.apríl:

Um þessar mundir hafa verið hér harðviðri og snjókoma, og í morgun var frostið 15 gráður á R [-18,8°C]. 

Ísafold segir þann 25.apríl af tíð og síðan hafís:

Kring um Pálmasunnudaginn [9.apríl] stóð hér 6 daga norðangarður, með miklu frosti, 10—12°C. Síðan hefir áttin verið hin sama, stundum blítt, en oftar þó talsverður kuldi, og telja menn vafalaust, að hann standi af hafís. Sumardaginn fyrsta (20.þ.m.) var 6° frost.

Hafís segir Norðanfari 28. f.m. að frést hafi til „með öllu landi austan frá Langanesi vestur fyrir Grímsey, það augað eygði til hafs“. Aftur segir í bréfi frá Akureyri 6. þ.m., að Grímseyingar hafi þá verið nýkomnir þangað í kaupstaðarferð, og ekki vitað neitt til hafíss; og íslaust var þá fyrir Eyjafirði.

Maí: Hagstæð tíð fram eftir mánuðinum með miklum leysingum. Síðan kaldara.

Þjóðólfur segir frá þann 8.maí:

Veðrátt gengur enn köld og hryssingsleg, en þó frostlaus nú síðastliðinn vikutíma. Aflaleysið við allan Faxaflóa helst enn, svo að nálega er nú útséð um, að almenningur hafi nokkur veruleg not af þessari minnisstæðu vertíð. Fjöldi skipa hefur lítinn sem engan afla séð, en stærstu útvegsmenn munu hafa reitt kringum eitt hundrað til hlutar, en þeir eru svo fáir að þess gætir mjög lítið. Á Suðurnesjum, sumstaðar austanfjalls svo og austur með landinu, hefur aftur á móti víða meðalafli fengist; bestu hlutir á Eyrarbakka. Aflabrögð í öðrum héruðum, t.d. undir Jökli og við Ísafjarðardjúp hafa og orðið mjög endaslepp síðan á leið veturinn, en hvergi kringum land virðast þó venjulegar fiskigöngur að hafa brugðist venju fremur til nokkurra líka við vandræðin hér við Faxaflóa. Póstar komu í seinna lagi sökum illrar færðar, vestanpóstur kom 3.þ.m., en norðanpóstur hinn 5. Hafís girðir síðan snemma í fyrra mánuði þvert fyrir allt Norðurland milli Horns og Langaness, og var hann síðustu daga [apríl] víða kominn inn í fjarðarbotna. Þó er svo að sjá, sem hann sé enn ekki orðinn alveg fastur, heldur víðast hvar jakaís og lausgerður. Harðindi megn mega því heita komin eða fyrir dyrum nálega jafnt yfir allt. Af Vesturlandi kvarta bréfin einkum um heyskort, og nær sá skortur allt hingað á nes; þykja hey hafa reynst afarlétt, og víða gefist upp miklu fyrr en varði. Blöð hafa borist frá 20. f.m. (Norðlingur). Segja þau bæði hríðir og heyskort úr sumum sveitum síðan ísinn kom. Víða hlupu höfrungar inn á fjörðu undan ísnum, náðust 92 í Fjallahöfn í Kelduherfi. Hval rak 20 álna langan á Tjörnesi og 2 á Höfðaströnd. Menn voru og sumstaðar búnir að ná í nokkra veiði af sel og hákarli í sumum  veiðistöðum. Eitt vöruskip hafði komist inn á Skagaströnd undan ísnum, en önnur mega bíða, og er sagt að fleiri skip en eitt muni hafast við fyrir austan Langanes.

Ísafold segir af hafís og harðindum þann 10.maí:

Hafís var fyrir öllu Norðurlandi, þegar póstar voru á ferðinni, og síðan hefir frést,að hann nái austur og suður fyrir land, allt að Ingólfshöfða í Öræfum. Eru því allmikil harðindi að frétta að norðan, og eins að vestan; þar hefir vetur verið með harðara eða harðasta móti sumstaðar allan síðari hlutann.

Norðanfari birti þann 6.júní kafla úr bréfi úr Húnavatnssýslu dagsett 17.maí:

Þegar batinn kom 5. þ.m., varð það flóð i vatnsföllum, að slíkt muna ekki elstu menn, og olli það stórskemmdum á sumum stöðum, einkum í Vatnsdal og Langadal. Mesti og besti hlutinn af engjum í Þórormstungu í Vatnsdal, varð undir aurrennsli úr Tunguá, en um aðrar skemmdir þar í dal, er mér enn ekki kunnugt. Í Langadal bar Blanda svo mikið af sandi og grjóti á Æsustaðaengi, að það er talið eyðilagt með öllu og partur af túninu stórskemmdur. Einnig fór mikið af engjum á Auðólfsstöðum og Gunnsteinsstöðum og víða annarstaðar urðu nokkrar skemmdir. Á nokkrum stöðum urðu skriður að tjóni, einkum í Rugludal í Blöndudal og Leifsstöðum í Svartárdal, hvar þær eyðilögðu stóra parta af túnum. — Áður enn batinn kom, var mikið farið að bera á heyskorti, og margir kvarta nú yfir þróttleysi í fénaði, eins og alltítt er i ísavorum. 

Þann 3.júní segir Ísafold af sjóslysi þann 31.maí:

Hinn 31. [maí] týndist fjögramannafar, frá Hrólfsskála á Seltjarnarnesi á uppsiglingu af Sviði, með 5 mönnum á, í versta hrakviðrisstormi á austan.

Júní: Lengst af fremur köld tíð, hlýindi um sólstöður, síðan aftur kalt.

Þorleifur Jónsson veðurathugunarmaður í Hvammi í Dölum segir að 30.maí hafi verið snjókrapi með stormi af norðvestri og 2.júní að krapafjúksstórhríð hafi verið að kvöldi.

Ísafold segir af tíð og hafís þann 17.júní - þar var einnig sagt frá því að skip hafi snemma í maí rekist á ísjaka við Austfirði:

Veðráttu segja póstar bærilega víðast um land síðan í byrjun [maí], en þó kuldasamt; þá létti frostunum og harðindunum, sem staðið höfðu síðan í þorralok. Þó hefir nú um hríð aftur gengið á norðan stórviðrum með hreggi og miklu fjúki til fjalla. Af hafísnum vitum vér þetta sannast að segja, eftir bréfi að norðan frá áreiðanlegum manni: Hafþök úti fyrir öllu Norðurlandi, milli Horns og Langaness — þangað var ísinn kominn norður af Austfjörðum 15. f.m., nema á Reyðarfirði; en hvergi var hann alveg landfastur, en því nær við Sléttu og Langanes. Firðir og flóar víðast auðir að jafnaði; þó talsverður ís á Eyjafirði að öðru hvoru. — „Grána“ komst við illan leik inn þangað 26. [maí], lagði á tvær hættur milli lands og íss. Ekki voru fleiri skip komin þangað, né á aðrar hafnir nyrðra, nema 1 á Grafarós og hið þriðja á Skagaströnd.

Ísafold segir frá þann 29.júní:

Með sólstöðunum brá til hlýinda og hægviðra hér syðra, og sama er að frétta lengra að, bæði að norðan og vestan. — Hafísinn er líka sagður horfinn undan landi fyrir norðan allt austur að Eyjafirði; lengra hefir eigi til frést. — Aðfaranótt hins 22. þ.m. þóttust menn víða hér syðra verða varir við nokkur merki þess, að eldur mundi uppi einhverstaðar fyrir austan eða norðan, og mikið mistur var hér dagana á eftir. Hefir merkur og skilvís maður úr Hreppunum sagt oss frá, að þaðan hafi þennan morgun sést mökkur mikill eða bólstur í austri, því líkastur sem gos væri, og ekki trútt um, að öskufall sæist á grasi. Bæði þar og annarstaðar þar um sveitir höfðu heyrst dynkir eigi all-litlir um nóttina.

Þjóðólfur birti þann 6.júlí bréf úr bréfi úr Skagafirði, dagsett 27.júní:

Nú í 12 daga hafa gengið miklir hitar oft +30°R í sólunni og +10—14° á nóttinni. 

Norðanfari segir þann 1.júlí:

Veðurátta hefir verið góð síðan 16.[júní], og eru bærilegar horfur á grasvexti.

Júlí: Rigningasamt nyrðra, snjór til fjalla, lengst af kuldar.

Þann 9.september birti Ísafold bréf úr Berufirði, dagsett 5.júlí:

Veðráttan hefir mátt heita á sumri þessu allgóð; þó voru af og til kuldar og snjóveður fram yfir hvítasunnu [4.júní], síðan rigningar um hálfsmánaðartíma, þó var áköfust rigning 15. [júní]; þá króknaði viða fé, varð fyrir skriðuföllum og fórst í ám og þverlækjum. Síðan hafa verið þurrviðri og talsverðir hitar.

Þjóðólfur segir af tíð og fleiru þann 6.júlí:

Síðan um sólstöðurnar hefur veðráttan mátt heita all-hlý, en þó votviðrasöm hér syðra. Fyrir vestan og norðan voru sólstöðuvikurnar óvenjulega heitar. Hefur gróðri síðan daglega mjög farið fram. Eldur uppi. Í Árnessýslu fundust jarðskjálftar þ. 22.[júní] og þóttust menn úr Hreppunum sjá sem reykjarmökk nokkurn í norðri yfir fjöllunum, en frekari vissu vantar enn.

Þjóðólfur segir áfram af júlítíð í tveimur pistlum:

[14.] Veðrátta hefur nú um tíma gengið hagstæð, svo gróður litur ekki illa út. Fiskiafli við og við dálítill af þeim, sem stundað hafa; Laxveiði með betra eða besta móti hér í nærliggjandi fiskiám.

[25.] Veðrátta hefur nú í þrjár vikur verið hin lakasta, sífelldir stormar og hrakviðri. Fiskiafli lítill sem engi á bátum þilskipin koma nú nær tóm úr hverjum „túr“, og er hollur sá sem hlífir, meðan ekkert þeirra týnir tali í ótíð þessari, þau munu og flest hafa góðan útbúnað, sem hér er lífsskilyrði. Töður manna, mór og afli liggur bráðum allt undir skemmdum. Með landpóstum koma fá tíðindi í þetta sinn, grasár virðist muni verða í meðallagi, og sumstaðar, t.a.m í Múlasýslum, rétt gott. Veðrátta gengur lökust hér syðra, slysfarir fáar eða engar.

Ágúst: Blíðviðri, hitar og þurrkar - nema rétt í byrjun.

Ísafold birti þann 9.september bréf úr Vestmannaeyjum og af Skógarströnd, dagsett í ágúst:

Vestmannaeyjum 7.ágúst: Vorið og sumarið hefir verið mjög kalt og votviðrasamt, sjógæftir hafa og verið mjög stirðar og vorafli af sjó því sáralítill. 

Skógarströnd l6/8. Næstliðinn júlímánuð hefir tíðarfarið verið mjög kalsalegt og hreggviðrasamt, og voru aðeins örfáir hlýir dagar. Hjá þeim sem tóku snemma til sláttar, hröktust töður að mun, því ekki komu þerriflæsur fyrr en í enda mánaðarins, og það óskarpar nema einn dag. Tilgönguveður voru oftara að nafninu til, norðanhret 4 síðustu daga mánaðarins og stórfennti þá á fjöll. Meðaltal hitans varð þó 8,2°. Það sem af er þessum mánuði hefir veðráttan verið hlýrri, og í undanfarna 3 daga og í dag mjög hlý 16° í skugganum. Grasvöxtur er nálægt meðallagi og nú hafa allir getað hirt að ljánum, og mun heyafli verða talsverður, komi nú hagstæður kafli sem líkindi eru til. 

Þjóðólfur segir þann 14.ágúst:

Veðrátta síðan eftir miðjan [júlí] hefur farið æ batnandi. Grasvöxtur mun teljast allt að meðallagi á túnum, en betri á engjum hér syðra, en annars staðar á landinu mun grasár kallast gott; nýting viðunanleg til þessa. 

Þjóðólfur birtir þann 31.ágúst „fáein orð frá Skaftfellingi“ - tíð vetrar og vors þar eystra er gerð upp:

Veturinn var hér umhleypingasamur og rigningasamur framan af, og allt fram i síðustu viku þorra, en þá brá til norðanáttar, er síðan hélst fram yfir sumarmál. Var um þennan tíma stundum gott veður og stillt, en stundum ofsaveður af norðri með mikilli frostgrimmd og ógurlegu sandfoki, er kom úr hinum þurru leirum og aurum, er jökulvötnin láta eftir sig, þá er þau liggja niðri um vetur. Gjörði sandfok þetta stórskaða á túnum og engjum, og var allvíða varið miklum tíma og erfiði til að hreinsa tún í vor. Þótt veturinn væri harla snjóalítill, var hann engu að síður mjög óhagstæður í þessum sveitum, því sauðfé hraktist mjög í rigningunum og umhleypingunum. Fyrir og um miðjan vetur drapst mikill fjöldi fjár í bráðafári, og um sumarmálin tók það að stráfalla af allskyns „óáran“. Misstu margir bændur hér á Nesjum og enda víðar mikinn hlut af ærfé sínu og gemlingum. Nokkru eftir sumarmál breyttist tíðin til batnaðar, og hefur síðan verið hagstæð veðrátta yfir höfuð, enda er nú víðast vel sprottið, nema þar sem sandurinn kom of mikill í jörðina, en þó hefur hann rénað ótrúlega. Afli varð hér harla lítill í vetur og vor, enda var hafísinn, er kom um sumarmál og lá hér rúmar þrjár vikur, til fyrirstöðu öllum sjóróðrum, eftir það hann kom.

Ísafold segir þann 1.september:

Tíðarfar er sagt hið besta um allt land síðan á leið sumar, og hafa menn von um góðan heyskap, sumstaðar ágætan.  

September: Hagstæð tíð.

Norðanfari birti þann 20.september bréf að sunnan - þar er veðurlag síðari hluta sumars gert upp.

Júlímánuður mátti á Suðurlandi kallast frá þeim tíma kalsa- og hretafullur sem áður, til enda mánaðarins, og hinn 30. var norðankuldi með krapa til fjalla, svo þau urðu alhvít niður til miðs; fram að þeim 10. [ágúst] hélst lík veðrátta, þá brá til batnaðar, og hefir verið ágætt síðan og hver dagurinn öðrum betri. En nóttina hins 11. kom norðan stormur með frosti til fjalla, og snjóaði talsvert á þau; frá þeim degi batnaði algjörlega, og var hver dagurinn öðrum betri eftir því sem leið á mánuðinn með staðviðrum, heiðríkjum og hitum, var hitinn mestur 18. ágúst 17 gr. á R. inn í húsum, og aftur hinn 20.; þann dag var hitinn móti sólu 27° um morguninn. Í Kjós var hitinn talinn fyrstnefndan dag 30° í forsælu, og 20° í Ölfusi. Það sem af er [september], helst við hin sama veðrátta. Sláttur gengur með besta móti, grasvöxtur allgóður, og nýting á heyi ágæt. Sagt er að Austurvöllur í Reykjavik, hafi verið þrísleginn, og fengist af honum nálægt 30 hestum, mun þó völlurinn eigi full dagslátta; ...

Norðlingur birti þann 22.september fréttir að sunnan og austan - askan sem minnst er á er sú sem féll í gosinu mikla í Öskju árið áður (1875):

Eftir bréfi að sunnan 25.[ágúst]: Tíðarfar gott; óþurrkar framan af túnaslætti, svo töður bliknuðu talsvert hjá mörgum; síðast í júlí kom besti þurrkur með norðanstórviðri; sunnudaginn 30. júlí snjóaði á norðurfjöll, kom þá sumstaðar á Kaldadal hnésnjór og sunnan í Langahrygg kviðfannir. Það sem af er þessum mánuði hefir verið hagstæð tíð, þerridagar, en þykkt loft með nokkru regni með köflum, svo heynýting er einhver hin besta, grasvöxtur nálægt meðallagi á túnum, sumstaðar í betra lagi.

Að austan. Héðan er lítið að frétta, heyskapur hefir verið hinn æskilegasti í sumar, nýting hin besta, og gras venju fremur; öskunnar hefir ekki mikið gætt, svo ástandið hér má yfir höfuð kallast ágætt Fiskirí er nú ákaflega mikið því af síld hefir hér verið mikið, en það kemur ekki allstaðar að fullum notum því sumstaðar er orðið alveg saltlaust (t.d. á Eskifirði), svo menn geta ekki gjört annað við fiskinn en reyna að herða hann, en það er hæpið nú, því nú sýnist vera kominn úrfellisátt, enda hafa lengi gengið þurrkar. Í Héraði þykjast menn vissir um að mikill eldur sé uppi, líklega í Vatnajökli, því mikils hita og brennisteinsfýlu hafa menn þóst verða varir við þegar vindur stóð af þeirri átt.

Þjóðólfur segir af tíð og fleiru þann 26.september - dagsetur fréttina þann 23:

Síðan skipti um veðráttufar í síðastliðnum júlímánuði, hefur tíð verið hin besta og blíðasta um allt þetta land, og heyafli manna og nýting útheyja orðið víðast með besta móti, en þó langbest við votlendi og flæðilönd, sökum hinna stöðugu þurrviðra. Um Ölfus, Flóa og Landeyjar, og hinni fögru og vel ræktuðu Fljótshlið, eru óvenjulegar heybirgðir komnar í garð. Á Skúmstöðum í Landeyjum er sagt að hafi heyjast nálægt 2000 hestum. Líkt má segja úr þeim héruðum fyrir norðan, sem vér höfum haft spurnir af með kaupafólki, er nú er að hverfa heim. Aftur hefur harðvelli sumstaðar brugðist, svo og höfðu töður ekki óvíða skemmst af óþurrkunum hinn fyrri hluta þessa sumars. ... Eldgos. Reykir og eldglampar yfir austurjöklum hafa þóst sjást við og við síðan á leið sumarið, bæði úr Borgarfirði og úr suðursýslunum. Ætla menn það muni vera framhald Vatnajökulseldgosa.

Október: Hagstæð tíð en nokkuð vindasöm. Fremur hlýtt.

Ísafold segir þann 3.október:

Veðrátta hefir verið hin besta og hagstæðasta allan síðara hlut sumars um allt land, það er til hefir spurst, og eins það sem af er haustinu; núna síðustu dagana af september reglulegur hásumarhiti. Varla komið skúr úr lofti allan ágúst og september. Sakir afbragðsnýtingar mun heyafli víðast hvar hafa orðið með besta móti, og sumstaðar svo, að elstu menn muna eigi annan eins.

Þjóðólfur hrósar líka tíð í pistli þann 16.október:

Árferði og veðurátt hefur mátt heita framúrskarandi gott nálega jafnt í kringum allt Ísland síðan í 14. viku sumars [20.júlí].

Norðanfari birti þann 6.nóvember úr bréfi af Vestdalseyri (í Seyðisfirði), dagsettu 15.október:

Haustveðráttan hefir mátt heita hin besta, og jafnvel hver dagurinn öðrum betri.

Í sama blaði er ítarlegra bréf af Suðurlandi:

Sumar þetta er nú þegar á enda, má telja það eitthvert hið besta og hagkvæmasta yfirhöfuð, nema framan af á Suðurlandi, er lengi hefir komið á landi voru, er sjá má af þessa árs tíðaskrám landsins, heilbrigði almenn, veðurblíða, grasvöxtur, nýting og sjávarafli hefir fylgst hvervetna um landið, að undanteknu því síðastnefnda við Faxaflóa, er orðið hefir útundan með hann, að fráteknum hálfsmánaðar tíma sem og kringum miðjan septembermánuð, aflaðist þá dálítið, á Seltjarnarnesi af feitri ýsu og þyrskling. Háfsafli hefir verið mikill og á Vatnsleysuströnd fengist góður lýsisfengur úr honum. Sem áður er sagt, byrjaði  eigi sumarið, að veðráttunni til á Suðurlandi, fyrr enn eftir 12. ágúst, en síðan hefir veðurblíðan verið afbragðs góð, aldrei að kalla má komið deigur dropi úr lofti, sífelld logn, heiðríkjur og hitar, og hefir oft verið 8—10 gr. hiti á nóttunni, fram í miðjan þenna mánuð [október].

Þann 15.desember birti Ísafold bréf af Skógarströnd, dagsett 1.nóvember. Þar er lýst veðri í september og október:

Allan septembermánuð máttu heita sífeld blíðviðri, ýmist austanlandnyrðingar eða vestanútnyrðingar. Skúr kom varla úr lofti. Meðaltal hita 7°R. ... Frá 1. til 20. október voru mestmegnis austan og austnorðanáttir með stormum til sjóvar, en þægilegum þíðviðrum til lands, og var hitinn að öllum jafnaði 5°. Við hinn 20. brá til sunnanátta, og hélst hún svo að segja fram í lok mánaðarins. Meðaltal hita + 3°R.

Þann 29.nóvember segir Norðlingur af skipsköðum þann 27.október:

Þann 27. október fórust í ofviðri 2 bátar af Höfðaströnd við Skagafjörð, voru 3 menn á öðrum en 4 á hinum og drukknuðu þeir allir.

Þann 27.október segir Þorleifur í Hvammi af stórrigningu. Ókjör að nóttu og fyrri hluta dags með flóði í vötnum. 

Nóvember: Hagstæð tíð, unnið að jarðabótum syðra, áfreði sums staðar nyrðra. Hlýtt.

Þjóðólfur segir þann 7.nóvember frá strandi við Akranes:

Í síðasta blaði Þjóðólfs hafði oss gleymst að geta kornvöruskips, sem var nýkomið til félagsverslunar Akranesinga, og sem mjög kom sér vel. Þeir bræður Snæbjörn og Böðvar Þorvaldssynir (sem reka verslun þessa) hlóðu aftur skip þetta slátri, en er það var albúið fyrra laugardag [28.október], sleit það upp í sunnanroki og brotnaði. Farmur skipsins náðist meira og minna óskemmdur og var seldur fyrirfarandi daga við uppboð með sæmilegu verði.

Norðanfari birti þann 30.desember bréf úr Dalasýslu, dagsett 14.nóvember:

Héðan er að frétta almenna heilbrigði og hagsæld, tíðarfarið, síðan óþurrkunum með ágústmánaðar byrjun tók að linna, hefir verið ágætt allt til þessa dags, og jafnvel ómunanlega gott haust og það af er vetri. Heyafli varð almennt góður, því jörð spratt yfir það heila heldur vel; i töðum mun hafa hitnað allvíða, en úthey hirst ágæta vel, sumargagn af fénaði varð í góðu meðallagi.

Þjóðólfur segir þann 25.nóvember:

Með austan- og norðanpóstum bárust engin stórtíðindi, nema veðurblíða hvervetna og nálega alls staðar hin besta tíð til lands og sjóar — að fráleknu  aflaleysinu hér við flóann. — Einkum er sögð árgæska af Austurlandi. 

Desember: Góð tíð um mestallt land.

Norðanfari birti þann 30.desember bréf úr Húnavatnssýslu og Múlasýslu, bæði dagsett snemma í desember:

Úr bréfi úr Húnavatnsýslu, 8. desember 1876. Tíðarfarið hefir verið hið æskilegasta síðan í ágúst. Heyafli varð víðast með betra móti, en sláturfé reyndist fremur illa einkum á mör, og yfir höfuð var allt fé sjaldgæflega ullarlítið. Það er víst fágætt hér norðanlands, að jörð hafi verið eins lengi þíð og nú, því heita mátti að unnið yrði að torfverkum fram um 20. [nóvember], því þótt stöku sinnum hafi fryst og snjóað lítið eitt, þá hefir það ekki varað nema svo sem tvo daga í senn og þiðnað svo aftur.

Úr bréfi austan úr Múlasýslu, 7. desember. Það sem af vetri er, má heita frekar sumar en vetur, og autt enn uppi við fjöll. Aldrei komið nein stórviðri, og oftar stillingar en vindar. Fé því gengið sjálfala; samt eru flestir búnir að taka lömb, einkum þar sem fárhætt er. Bráðafárs hefir enn eigi orðið vart, að heita megi og þakka sumir það öskunni, eða gjörðu í fyrra. Beitilönd eru með loðnasta móti, því grasspretta var víðast í besta lagi í sumar. En hræddir eru menn um, að hey sé létt, og segja að kýr mjólki verr en í fyrra, af sömu gjöf.

Þjóðólfur segir af tíð þann 21.desember:

Tíðarfar er nú nokkuð vindasamt, en þó blítt og frostlaust og alveg fannkomulaust um allt Suðurland. Nokkra undanfarna daga hafa menn aflað töluvert hér um nesin, en nú um tíma hefir sjaldan gefið á sjó.

Ísafold segir af tíð í pistli þann 30.desember:

Veðrátta helst enn hin sama, óvenju blíð; aðeins dálítið frost síðan fyrir jólin og stundum fjúk til fjalla, en sjaldnast meir.

Jónas segir um jólaveðrið 1876 (í pistli í desember 1885): 

Jóladaginn: 1876 Logn, fagurt veður; hér svo að kalla snjólaust.

Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um veðurfar ársins 1876. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhengi.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tuttugu júlídagar

Meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar er 12,7 stig í Reykjavík, +2,2 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990 og +1,0 ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ár. Dagarnir 20 eru þeir fimmtuhlýjustu á öldinni, hlýjast var 2009, meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar þá var 13,5 stig, kaldastir á öldinni voru þessir sömu dagar í fyrra, 2018, meðalhiti 9,9 stig. Sé litið á meðalhita daganna til lengri tíma er hitinn nú í áttundahlýjasta sæti af 145, á þeim langa lista teljast sömu dagar 2009 hlýjastir, en kaldastir voru þeir 1885, meðalhiti þá 8,2 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga júlímánaðar 11,4 stig, +0,9 stigum ofan meðallags 1961-90 og +0,4 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er víðast hvar ofan meðallags síðustu tíu ára á landinu, hlýjast að tiltölu er í Bláfjallaskála, jákvæða vikið er +1,5 stig, en neikvætt vik er mest á Seyðisfirði, -1,1 stig.

blogg210719a

Taflan sýnir hitavikastöðu á spásvæðum landsins fyrstu 20 daga júlímánaðar. Vikin miðast við síðustu tíu ár, en röðin við meðalhita sömu daga á öldinni til þessa (19 ár). Að þriðjungatali (sem miðað er við þessa öld) telst hafa veið hlýtt um landið vestan- og sunnanvert og á hálendinu (brúnmerkt), en hiti hefur verið í meðallagi í öðrum landshlutum. Jákvæða vikið er mest við Faxaflóa, en kaldast hefur verið á Ströndum og norðurlandi vestra.

Úrkoma hefur mælst 41,5 mm í Reykjavík, um fjórðung umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 46,0 mm, tvöföld meðalúrkoma sömu daga.

Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 140,4 og er það í ríflegu meðallagi.


Hlýskeiðametingur enn

Við höfum stundum áður borið saman hitafar tuttugustualdarhlýskeiðsins mikla og núverandi hlýinda og framlengjum nú línurit sem birtist á hungurdiskum í janúar 2016. Þar eru 12-mánaðakeðjur hita í Reykjavík á árunum 1925 til 1945 bornar saman við keðju áranna 1999 til 2015. Nú getum við framlengt fram á mitt ár 2019. 

w-blogg190719a

Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita (reiknaðan 12 sinnum á ári sem 12-mánaða keðjumeðaltal). Grái ferillinn sýnir hitann á tímabilinu 1925 (línan byrjar á meðaltali þess árs) til loka árs 1945, en rauða lína sýnir hita okkar tíma, byrjar í árslok 1999 og nær til til júníloka 2019.

Á síðustu árum hafa verið talsverðar sveiflur milli ára - rétt eins og var mestallt fyrra hlýskeið. Þó hlýjustu topparnir séu ekki ósvipaðir á báðum skeiðum er samt greinilegt að það núverandi er almennt nokkru hlýrra. Meðalhiti þess búts sem við hér sjáum úr fyrra skeiði er 5,0 stig, en 5,3 stig í núverandi hlýskeiði. Tólfmánaðahiti núverandi hlýskeiðs hefur sjaldan farið niður í meðalhita gamla hlýskeiðsins (5 stig). Botn núverandi hlýskeiðs [hingað til] er 4,5 stig, [desember 2014 til nóvember 2015] og [nóvember 2017 október 2018], en köldustu 12-mánuðir þess fyrra voru 0,5 stigum kaldari, 4,0 stig [mars 1930 til febrúar 1931]. Skyldu menn hafa haldið að hlýskeiðinu væri lokið þegar hitinn datt niður vorið 1929 eftir hlýindin miklu þar á undan? Já, sennilega - og þó, fjögur stigin sem ársmeðalhitinn fór þá niður í voru talsvert hærri heldur en venjuleg tólfmánaðalágmörk voru fyrir 1920 - það hljóta menn að hafa munað. - Og hlýskeiðið hélt svo áfram langt handan við myndina - tuttugu ár í viðbót - allt til 1964. Þá voru flestir farnir að halda að það myndi halda áfram í það óendanlega. 

En þetta fyrra skeið segir okkur auðvitað ekki neitt um núverandi hlýskeið né framhald þess - við vitum ekkert hvernig það þróast áfram. Hlýskeiðið sem kennt er við fyrri hluta 19. aldar var svo enn brokkgengara - inn í það komu fáein mjög köld ár - en samt hélt það áfram eftir það þar til að það endanlega rann á enda fyrir 1860.


Af árinu 1944

Mikil breyting varð á tíðarfari hér á landi upp úr 1920. Mest munaði um hversu mikið hlýnaði, en úrkoma varð einnig heldur meiri en áður, snjóalög urðu minni og hríðarveðrum fækkaði. Hafís varð mun minni við strendur landsins en hafði verið um langt skeið. Þrátt fyrir þetta var talsverður munur á veðurlagi frá ári til árs, sum ár þóttu umhleypingasöm og óhagstæð atvinnuvegum, en fleiri voru hagstæð. Hlýnunin var svo mikil að lítill munur var á hita köldustu áranna eftir umskiptin og þeirra hlýjustu fyrir þau. 

Þó hlýindin stæðu í full 40 ár, alveg fram á sjöunda áratuginn var síðari hluti þeirra almennt ekki alveg jafnhlýr og sá fyrri. Mjög hlýjum sumrum fækkaði fyrr en hlýjum vetrum. Árið 1943 var á landinu það kaldasta sem komið hafði í nærri 20 ár og veðurlag heldur hryssingslegt lengst af. Sumarið var t.d. sérlega kalt á Norðurlandi og hafís ekki fjarri ströndum landsins. Sá uggur lagðist að mönnum að nú væri hlýskeiðinu að ljúka. Svo var þó ekki. 

Árið 1944 varð öllu hagstæðara, en samt var það í flokki þeirra svalari á hlýskeiðinu fram að því. Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt nema í júlí og framan af ágústmánuði, þá var einmuna góð tíð. Þegar við hugsum til baka til ársins 1944 ættum við að hafa í huga að heimsstyrjöldin síðari var enn í fullum gangi og landið hernumið, en töluverður efnahagsuppgangur tengdur hernum. Styrjöldin hafði áhrif á allt mannlíf. 

ar_1944-tvik

Kalt var í janúar og nóvember, en hlýtt í júlí. Myndin sýnir hitavik á landsvísu. Hafa ber í huga að vetrarhiti er mun breytilegri en sumarhitinn og jákvæða hitavikið í júlí því í raun ámóta mikið og neikvæðu vikin í janúar og nóvember (1,1 staðalvik). Hiti var nærri meðallagi í öðrum mánuðum.

Dagana 18. til 22. júlí gerði óvenjulega hitabylgju um stóran hluta landsins. [Í gömlum hitabylgjupistli á hungurdiskum má sjá hana talda þá fjórðumestu á landinu frá 1924 til 2011] Það var misjafnt eftir stöðvum hvaða dagur varð hlýjastur. Hæst komst hitinn í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði þann 21. og sama dag mældist hitinn 26,5 stig á Þingvöllum. Þetta reyndist hæsti hiti ársins. Í Reykjavík fór hitinn þessa daga hæst í 22,3 stig og 23,1 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Mánuði áður, þann 23.júní hafði hiti komist í 26,0 stig á Akureyri. Veðurathugunarmaður í Papey segir hámarkshita þar hafa komist í 22,0 stig þann 19.júlí - en ekki hefur það staðið lengi, slíkur hiti er mjög óvenjulegur þar um slóðir. Dægursveifla hitans var mikil þessa daga inn til landsins. Veðurathugunarmaður á Hallormsstað segir t.d. þann 17. að kartöflugras hafi skemmst. Lágmarkshiti næturinnar þar var 0,2 stig, en hámarkshiti dagsins varð 25,0 stig. Aðra mjög væna hitabylgju gerði snemma í ágúst. Nokkrir óvenjuhlýir dagar komu líka í september.

Mesta frost ársins mældist í Núpsdalstungu í Miðfirði þann 9.janúar, -23,5 stig. Morguninn eftir mældist frostið í Reykjavík -15,4 stig. Í lok júlímánaðar, eftir að hitabylgjunni lauk komu fáeinar mjög kaldar nætur og fraus jafnvel á nokkrum stöðvum. Mesta frostið mældist -4,0 stig í Núpsdalstungu að morgni þess 27. Sama morgun fór hiti niður í 0,5 stig á Akureyri, það næstlægsta sem þar hefur nokkru sinni mælst í júlímánuði. Næturfrost gerði einnig í byggð í ágúst. 

ar_1944-rvik

Þurrt var um landið norðanvert í febrúar og mars, og víðast hvar á landinu í júní og júlí. Júlí er einn hinn þurrasti sem vitað er um á landinu norðaustanverðu. Ágúst var úrkomusamari og mjög úrkomusamt var vestanlands í október. Nóvember var í þurrara lagi. 

Lægsti loftþrýstingur ársins mældist á Eyrarbakka 18.janúar, 941,9 hPa, en hæstur á Akureyri 25.febrúar 1046,3 hPa.  

Veturinn 1943—44 (des — mars) var frekar umhleypingasamur, snjólétt var framan af, en mikill snjór um miðjan vetur (janúar til febrúar).

Vorið (apríl — maí) var óhagstætt og umhleypingasamt. Hafís var fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum fram eftir vori.

Sumarið (júní — sept) var óhagstætt framan af, og fór gróðri seint fram. Tíðin breyttist mjög til batnaðar seint í júní og varð sérstaklega hagstæð til heyskapar og nýttust hey með afbrigðum vel.

Haustið (okt — nóv) var umhleypingasamt og kalt en frekar snjólétt. 

Janúar.
Tíðarfarið var umhleypingasamt, votviðrasamt og kalt. Haglítið var og gæftir slæmar.

Þ.10. strandaði flóabáturinn Laxfoss við Örfirisey, Mannbjörg varð, en skipið laskaðist mikið. Þ.11. Lentu bátar frá Vestmannaeyjum og Keflavík í hrakningum. Þök fuku af húsum í Grindavík. Símabilanir urðu og fjallvegir tepptust. Elliðaárnar stífluðust af snjó, og rafstöðin rofnaði úr sambandi. Erlent skip strandaði við Lundey skammt frá Geldinganesi. Mannbjörg varð. Togarinn Max Pemberton fórst út af Snæfellsnesi með allri áhöfn. Þ.17. sökk bátur hjá Húsavík; skipverjar björguðust nauðlega. Þ. 20. bjargaði Sæbjörg vélbát frá Neskaupstað, sem náði ekki til lands vegna veðurs. Þ. 29. strandaði vélbáturinn Baldur frá Stykkishólmi skammt frá Fellsströnd, en skemmdist lítið. Sama dag hvolfdi bát með 11 manns hjá Djúpavogi, og drukknaði einn maður. Undir lok mánaðarins var mikil ófærð suðvestanlands og mjólkurskortur í Reykjavík.

Febrúar.
Tíðarfarið var óhagstætt og umhleypingasamt. Stormasamt var, snjóþungt og mikil svellalög. Búfé var víðast á fullri gjöf. Gæftir voru stopular, en dágóður afli þegar gaf á sjó.

Þ.3. fauk þak af húsi í Berufirði og skemmdir urðu á vindrafstöðvum á Djúpavogi. Í ofviðrinu þ.12. fórust þrír vélbátar, Freyr og Njörður frá Vestmannaeyjum og Óðinn frá Gerðum, með allri áhöfn, samtals 14 mönnum. Vélbátnum Ægi hvolfdi út af Garðskaga, og drukknaði einn maður. Nokkrir aðrir bátar skemmdust og veiðarfæratjón varð gífurlegt. Stýrið brotnaði á strandferðaskipinu Esju, en skipið komst til Reykjavíkur af eigin rammleik. Þ.14. fauk þak af húsi á Höllustöðum í A-Húnavatnssýslu. Nóttina milli 17. og 18. var færeyskt skip hætt komið út af Reykjanesi, en var dregið til hafnar af erlendu skipi.

Þ.4. kl.17:32 varð allsnarpur jarðskjálftakippur norðanlands. Fannst hann bæði á Akureyri og Húsavík, á síðarnefnda staðnum duttu munir úr hillum. Kl.17:57 fannst vægur kippur á Húsavík og smáhræringar voru þar af og til næstu nótt. Þ.6. kl.16:06 varð annar kippur á sömu stöðum. Fannst hann einnig á Akureyri og Húsavík og mun hafa verið álíka sterkur og kippurinn þ.4. kl. 07:32. Kl.16:09 fannst smákippur á Húsavík, og lítils háttar hræringar síðar um daginn. Þessir jarðskjálftar fundust einnig á Hólsfjöllum, í Kelduhverfi og Bárðardal. Þ.10. kl.02:20 varð enn vart við jarðskjálfta í nágrenni Húsavíkur. Fólk vaknaði allvíða.

Mars.
Tíðarfarið var frekar milt nema tvo fyrstu daga mánaðarins. Á Suðurlandi var umhleypingasamt, en hagstæðara á Norður- og Austurlandi. Gæftir voru yfirleitt góðar og afli með betra móti.

Þ.1. rak færeyskt fisktökuskip á land í Djúpavogi og laskaðist það talsvert. Reykjavík var lengst af rafmagnslaus þessa daga vegna þess að krap stöðvaði rennsli að rafmagnsvélum á Ljósafossi. Þ.7. strönduðu þrjú erlend skip milli Veiðióss og Nýjaóss í V-Skaftafellssýslu, og fórust fjórir menn, en 39 komust til byggða. Sama dag skemmdust brýrnar á Tungufljóti í Skaftártungu og Geirlandsá á Síðu vegna vatnavaxta. Einnig urðu skemmdir á smábrúm undir Eyjafjöllum, og í Mýrdal. Þ.10. fauk bátur í Ögurnesi,og hús skemmdust á Eyri í Seyðisfirði. Þ. 23. hrepptu bátar við Faxaflóa illviðri, og varð mikið tjón á veiðarfærum.

Allmikill hafís var úti fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum mestallan mánuðinn. Tálmaði hann siglingum norður fyrir land og olli veiðafæratjóni víða á Vestfjörðum. Þ.7. varð Esja, sem var á leið norður fyrir Langanes, að snúa aftur vegna hafíss. Þ.12. ætlaði togarinn Vörður frá Patreksfirði suður fyrir Látrabjarg, en varð að snúa aftur vegna þess hve ísinn var kominn nærri landi. Næsta dag lokaðist fjörðurinn alveg af þéttri ísbreiðu, en hún hvarf aftur eftir þrjá daga. Þ.16. fylltist Bolungarvík af ís og næstu daga barst ísinn víðar inn í Ísafjarðardjúp og var Djúpið ófært nokkra daga. Í lok mánaðarins lokaði ísinn alveg höfninni á Raufarhöfn.

Apríl.
Tíðarfarið var með mildara móti nema rétt fyrstu daga mánaðarins. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur. Mikið snjóaði sums staðar austanlands. 

Þ.21. strandaði vélbáturinn Rafn við Hornafjarðarós og sökk, mannbjörg varð. Suðvestan stormur sunnan lands þ.26. Þá slitnaði vélbátur upp af bátalegu og sökk á Skerjafirði.

Hafís var landfastur kringum Raufarhöfn mestan hluta mánaðarins. Í byrjun mánaðarins varð ís landfastur við Siglunes, en hvarf aftur á þriðja degi. Um miðjan mánuð rak hafís upp að Horni og voru allar víkur suður með Ströndum fullar af ís til mánaðarloka. Íshrafl sást suðaustur af Dalatanga þ.3.

Maí.
Tíðarfarið. Tíð var köld með köflum, einkum framan af mánuðinum. Gróðri fór seint fram, og mikil vanhöld voru á lömbum. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur. Snjór var nokkur framan af mánuði og um tíma til trafala á vegum fyrir norðan. Öxnadalsheiði varð ófær - og var ekki rudd vegna verkfalls vegavinnumanna. Veðurathugunarmaður á Húsavík segir að stórhríð hafi verið þar þann 12. og frostið var þá meira en -4 stig um miðjan dag. Alhvít jörð var í Reykjavík að morgni þess 13.maí. Ekki kom aftur alhvítur maímorgunn í Reykjavík fyrr en 1963.

Júní.
Tíðarfarið var kalt og þurrviðrasamt, einkum framan af mánuðinum, og óhagstætt öllum gróðri, en hlýnaði síðari hlutann og spruttu tún þá óvenju fljótt.

Rigningin á Þingvöllum á lýðveldisdaginn 17.júní er vafalítið þekktasta veður ársins. Veðurkortið á myndinni sýnir veðrið kl.17 síðdegis þennan dag.

v-kort_1944-06-17_17b

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindörvar sýna vindátt og vindraða, rauðar tölur hita. Að auki er veðurs, skýjafars og loftþrýstings getið. Línan sem dregin er þvert á jafnþrýstilínurnar eru skil sem fóru austur um landið þennan dag. Mest rigndi þegar þau fóru yfir - á Þingvöllum einmitt við lýðveldisstofnunina. Kl.17 hafði var þar gengið í skúraveður. Hiti um landið sunnanvert var yfirleitt á bilinu 9 til 10 stig, en hlýtt var nyrðra. Á Akureyri var t.d. 18 stiga hiti í sunnanþey kl.17. Lægð fór til norðausturs um Grænlandssund. 

Þ.24. urðu talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka í hvassviðri. Aðfaranótt 26. fórust þrír Færeyingar af opnum vélbát nálægt Siglufirði. Varð árekstur milli bátsins og stærra skips. Þ.27. drukknaði maður í Dýrafirði.

Júlí.
Tíðarfarið var óvenju gott um allt landið og nýting heyja með afbrigðum góð. Hitabylgjan sem ritað var um í inngangi hér að ofan varð pistlahöfundi Alþýðublaðsins „Hannesi á horninu“ tilefni til eftirfarandi skrifa [1.ágúst]:

Fyrir nokkru gengu mestu hitar hér á Suðurlandi, sem menn muna eftir. Bændur um sjötugt, sem ég hef hitt, segjast aldrei hafa vitað jafn mikinn hita og hið sama segja gamlir menn hér í bænum. Einn daginn sá ég að brekkurnar á Arnarhóli voru orðnar gular — eins og þær væru að komast í flag. Ég spurði Gísla gamla, sem gætir hólsins eins og sjáaldur auga síns hverju þetta sætti. Hann svaraði að grasið brynni svona af því að ekki væri hægt að vökva það. ... Fólk veiktist í þessum miklu hitum — og var til dæmis flutt hingað til bæjarins veikt af sumargistihúsum. Það er víst líka óhætt að segja að við íslendingar kunnum ekki að lifa í svona miklum hitum. Við erum ekki vanir slíku góðgæti. Fólk kann sér ekki hóf þegar slíkir hitar eru. Mér datt í hug að nauðsynlegt væri að gefa út á einhvern hátt leiðbeiningar til fólks um það hvernig það ætti að haga sér í mikilli sól og miklum hitum. Fólk skaðbrenndist í hitunum og það varð veikt í höfði. Sumt fólk svaf í hitanum og sólinni og vaknaði ringlað og veikt. Svona er allt. Jafn vel mestu dásemdir lífsins er hægt að misnota. Að líkindum koma ekki svona miklir hitar aftur í sumar, en fólk ætti að gæta hófs og muna það vel til dæmis af sofa ekki úti í brennandi sólarhita.

Kartöflugrös gjörféllu í Eyjafirði og víðar í næturfrostunum undir lok mánaðarins.

Ágúst.

Tíðarfarið var með hlýrra móti, en næturfrost voru þó sums staðar norðan lands og austan síðari hluta mánaðarins. Heldur var votviðrasamara en í júlí, en hey nýttust þó sæmilega. Gæftir dágóðar en afli tregur.

Aðfaranótt þess 9. strandaði síldveiðiskip í svartaþoku á Skaga, en náðist út aftur. Sama dag strandaði annað síldveiðiskip út af Vatnsnesi á Húnaflóa. Var það einnig dregið út aftur skömmu síðar, lítið skemmt.

September.
Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt og votviðrasamt, einkum síðari hluta mánaðarins. Uppskera úr görðum var víðast hvar góð.

Vatnavextir urðu miklir sunnanlands þ.12. Brúin yfir Klifanda skemmdist, og hætta varð að ferja yfir Ölfusá, en strengur í hengibrúnni við Selfoss hafði slitnað nokkrum dögum áður svo hún varð ónothæf ökutækjum. Þ.17. hvolfdi flugvél á Miklavatni í Fljótum í suðvestan ofsaveðri. Flugmenn sluppu ómeiddir, en vélin skemmdist mikið. Þök fuku af húsum, hey fauk og síldveiðiskip misstu nótabáta í þessu veðri, en það mun hafa átt uppruna sinn í miklum fellibyl sem fór til norðausturs skammt undan austurströnd Bandaríkjanna nokkrum dögum áður. Aðfaranótt þ.24. tepptist bifreið vegna fannkomu á Hólsfjöllum. Farþegar og bílstjóri höfðust við í bifreiðinni og sæluhúsi og sakaði ekki.

Október.
Tíðarfarið var óstillt og umhleypingasamt.

Þ.9. rak vélbát á stefni Súðarinnar á höfninni í Patreksfirði og sökk hann þar. Í sama veðri rak trillubát yfir Patreksfjörð og brotnaði hann í spón í brimgarðinum í Örlygshöfn. Þ.27. fennti fé norðan lands og símabilanir urðu víða. Þak fauk af fjárhúsi í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og rafstöðin á Blönduósi skemmdist.

Ís. Um miðjan mánuðinn sást jaki á Miðfirði og þ.19. sást stór borgarísjaki á siglingaleið ANA frá Fagradal í Vopnafirði.

Nóvember.
Tíðarfarið var umhleypingasamt og fremur kalt. Snjór var óvenjuþrálátur í Reykjavík, alhvítt var 21 dag í mánuðinum, snjór var þó aldrei mjög mikill. Þann 1. var óvenjuhlýtt fyrir norðan og austan. Hiti fór þá í 17,8 stig á Teigarhorni og 16,8 í Fagradal við Vopnafjörð.

Þ.4. eða 5. hreppti línuveiðarinn Rúna frá Akureyri aftakaveður í Straumnesröst og laskaðist talsvert. Víða varð ófærð á fjallvegum. Þ.10. var „Goðafossi“ sökkt með tundurskeyti á Faxaflóa, 24 manns fórust en 19 var bjargað. Þ.17. strandaði vélbáturinn Gísli Johnsen á fjörunum hjá Knarrarnesvitanum, en náðist út aftur sama dag nærri óskemmdur.

Stór borgarísjaki sást 4—6 sjómílur austur af Dalatanga þ.6. og þ.7. sást stór ísjaki frá Vattarnesi og strandaði hann við Seley út af Reyðarfirði. Þ.8. sáust þrír borgarísjakar út af Berufirði.

Desember.
Tíðarfarið var nokkuð umhleypingasamt en frekar milt. Í kringum þann 10. varð þó mikil ófærð um landið sunnanvert og vegir tepptust illa um tíma. 

Þ.23. strandaði vélskipið Búðaklettur á Reykjanesi. Skipshöfnin bjargaðist en tveir farþegar fórust.

Í viðhenginu eru ýmsar tölur, mánaðameðalhiti og úrkoma allra veðurstöðva, útgildi og ýmislegt fleira (misskiljanlegt). 

Veðráttan, tímarit Veðurstofu Íslands er aðalheimild þessa pistils og meginhluti þess hluta textans sem fjallar um einstaka mánuði og veður þeirra tekinn beint úr henni - en er verulega styttur. Veðráttan er aðgengileg í heild sinni (1924 til 2006) á timarit.is. Aðrar heimildir eru veðurskýrslur, veðurbækur og veðurkort í fórum Veðurstofunnar. Örfá atriði eru sótt beint í fréttablöð ársins 1944. 

Yfirlit þetta er tekið saman að beiðni Vísindavefs Háskóla Íslands.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hálfur júlí

Hálfur júlí. Meðalhiti hans í Reykjavík er 12,1 stig, +1,7 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1961-1990, +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í sjöttahlýjasta sæti á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2007, meðalhiti +13,3 stig, kaldastir voru þeir 2013 og í fyrra (2018) +9,6 stig. Á langa listanum (145 ár) er hitinn nú í 22.sæti. Hlýjast var árið 1991, meðalhiti fyrri helming júlímánaðar þá var 13,5 stig, kaldast var aftur á móti árið 1874, meðalhiti 7,7 stig (nokkuð óviss tala að vísu, næstkaldast var 1885 þegar meðalhiti fyrri hluta júlí var 8,1 stig).

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta júlí nú 10,9 stig, +0,6 stigum ofan meðallags 1961-1990, en -0,1 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin.

Hiti er nú ofan meðallags síðustu tíu ára á ríflega helmingi veðurstöðva, jákvæða vikið er mest á Þverfjalli og í Sandbúðum, +1,6 stig, en það neikvæða mest við Siglufjarðarveg, -1,1 stig.

w-blogg160719a

Taflan sýnir hitavikastöðuna á spásvæðum landsins fyrri hluta júlímánaðar. Vikin miðast við síðustu tíu ár, en röðin við meðalhita sömu daga á öldinni til þessa (19 ár). Að þriðjungatali (sem miðað er við þessa öld) telst hafa veið hlýtt um landið vestan- og sunnanvert og á hálendinu (brúnmerkt), en hiti hefur verið í meðallagi í öðrum landshlutum. Jákvæða vikið er mest á hálendinu, en kaldast hefur verið á Ströndum og norðurlandi vestra.

Úrkoma hefur mælst 24,2 mm í Reykjavík og er það í meðallagi, en 28,4 mm á Akureyri, vel ofan meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 90,8 í Reykjavík, rétt ofan meðallags. Þrír síðustu dagar hafa verið algjörlega sólarlausir í Reykjavík og síðustu sex daga hafa aðeins mælst 0,8 sólskinsstundir. Þetta eru mikil umskipti frá því sem var dagana næst þar á undan.

Síðastliðin nótt (aðfaranótt 15) var sérlega hlý, meðallágmarkshiti á landinu hærri en 10 stig. Nóttin var sú hlýjasta sem vitað er um í júlí á fjölmörgum sjálfvirku stöðvanna, þar á meðal allmörgum sem athugað hafa í 20 ár eða lengur, þar á meðal í Reykjavík, Straumsvík, á Korpu, auk vegagerðarstöðvanna við Reykjanesbraut og á Kjalarnesi. 

Loft var einnig óvenjurakt, daggarmark hefur víða verið hátt og júlímet slegin á fáeinum stöðvum. Þar á meðal á Hvanneyri, Gufuskálum og í Súðavík og Ásbyrgi en á öllum þessum stöðvum hefur verið athugað í meir en 20 ár. 

Við bíðum þó staðfestingar á þessum metum öllum áður en við fögnum (eða hvað það er sem við gerum) - þessu er flett upp í snarhasti.


Gömul frétt af hitum og veðurfarsbreytingum

Í dag, 13.júlí, hefjast hundadagar. Um þá, veðurlag þeirra og „hundadagakvíða“ hefur verið áður fjallað hér á hungurdiskum, auðfundið með því að leita í eldri færslum. Nokkuð skiptar skoðanir voru uppi um það hvort telja skyldi upphaf þeirra 13. eða 23. júlí. Hef ekki enn fundið ritgerð Jóns Árnasonar um það mál og rök hans fyrir þeim 13. En það mun hafa verið á þriðja áratug síðustu aldar að 13. lenti endanlega á síðum almanaksins sem upphafsdagur hundadaga. Í öðrum löndum er oftar vísað til þess 23. Trúlega stafar þetta misræmi einhvern veginn af skiptunum milli Júlíanska og Gregoríska tímatalsins. En hvað um það. Hin árangurslausa leit að greinargerð Jóns skilaði öðru - tveimur smápistlum hlið við hlið í 2. árgangi Heilbrigðistíðinda, 7. til 8. tölublaði 1872, bls.53-54. Þar segir: 

„Ákafur hiti

Allt frá byrjun júlímánaðar og það til enda hundadaganna var hinn megnasti hiti víða um norðurálfuna. Þó tók út yfir með þennan hita í Bandafylkjunum í Vesturheimi, því þar varð hann að miklu tjóni, einkum í Nýju-Jórvík, þar sem fjöldi manna varð bráðkvaddur, og dóu af sólstingjum. Það var mælt, að hitinn í Nýju-Jórvík hefði orðið yfir 34 mælistig á Reaumeurs hitamæli [42,5°C], en það er meira en hiti blóðsins. Ferðamenn, er ég talaði við, og sem komu frá Vesturheimseyjum, báru sig sárilla yfir hitanum í Vesturheimi; þeir kváðu hann óþolandi verið hafa. Fólkið hímdi í kjöllurum og skúmaskotum, og margir misstu svefninn um nætur; nokkrir fengu hita-feber, og dóu á stuttum tíma. Þessi skaðvænlegu áhrif sólarhitans sýndu sig mest í borgunum, en á landsbyggðinni bar allt minna á því. Í Lundúnaborg var reyndar mikill sumarhiti, en þó eigi svo, að til skaða yrði, enda er Lundúnaborg einhver hinn heilnæmasti bær norðurálfunnar. Í Kaupmannahöfn og Edinaborg var og mikill hiti um tíma, en í hvorugri þessari borg voru svo mikil brögð að því, að menn biðu skaða af.

Hitaaukning í Norðurálfunni um hin síðustu 20 ár.
Lærður maður meðal Engla, Glaiser að nafni, nafnfrægur loftsiglari, hefur með samburði við eldri veðurskrár sannað það, að meðalhitinn hefur aukist á hinum síðustu 20 árum, og það svo, að það munar allt að 1 mælistigi á hitamæli Celsiusar. Lærðir menn, sem fyrir 2 árum voru norðarlega á austurströndu Grænlands um og fyrir norðan 70. mælistig norðlægrar breiddar, benda á hið sama, og kveða svo að orði, að það sé auðsjáanlegt, að hitinn hafi vaxið þar um hin síðustu árin. Af þessum aukna loftshita ætti það þá að koma, að ísrekið frá norðurheimskautinu hefur aukist svo mjög um hin síðustu árin. Svona eru skoðanirnar nú meðal lærðra manna, en enginn veit, hversu lengi þetta kann að vara, og eins er það alveg óljóst, við hverjar grundvallar-ástæður það á að að styðjast. Það er nú sjálfsagt, að það væri yfir höfuð að eins þægilegt fyrir oss norðurbúa, ef þessi hitaaukning héldist við, en þó má þess geta, að ef mikil brögð eru að því, getur það haft talsverð áhrif á heilsufar norðurbúa, og jafnvel gefið tilefni til hættulegra sjúkdóma. Þetta á einkum við það að styðjast, að í heitu lofti er mjög hætt við allri rotnun, fremur en þegar kalt er“.

Svo mörg voru þau orð. - En þess má geta að ekki hlýnaði á Íslandi frá 1850 til 1870 - kólnaði heldur. Áratugurinn 1861-1870 var sérlega kaldur hér á landi. En það er alltaf hollt að lesa gamla pistla um veðurfarsbreytingar. 

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 22
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 2284
  • Frá upphafi: 2410273

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2044
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband