Af árinu 1904

Árið 1904 var hagstætt lengst af, talsvert snjóaði þó í útsveitum nyrðra, leiðindakast kom í maí og haustið þótti skakviðrasamt svo af bar um landið sunnan- og vestanvert. Ekki bar á víðtæku tjóni í eintökum veðrum.  

Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 3,0 stig í Stykkishólmi og 2,8 stig á Akureyri. Hlýtt var í júní, júlí og september, en síðustu þrír mánuðir ársins voru kaldir. Aðrir mánuðir voru nærri meðallagi. Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 21.júlí, 25,0 stig, en munum að hámarkshitamælingar voru varasamar þar á bæ um þetta leyti. Næstmestur mældist hitinn á Gilsbakka í Hvítársíðu, 21,1 stig. Í Reykjavík komst hiti hæst í 19,1 stig, þann 20.júlí. 

Lægsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 10.desember -30,0 stig. Þá mældist frostið á Akureyri -21,1 stig. 

ar_1904t

Myndin sýnir hæsta hita hvers dags í Reykjavík - og daglegan meðalhita í Stykkishólmi. Við getum tekið eftir því að það voraði nokkuð snögglega í maí - eftir nokkuð daufan apríl - og hiti var sæmilega hár fram yfir 20.september að það kólnaði nokkuð snögglega. Ekki voru margir mjög hlýir dagar sunnanlands - kvartað var um súld og þurrkdeyfð lengi framan af þó menn hafi verið sammála um að veður hafi verið sérlega blíð. Því miður voru engar mælingar gerðar á Héraði þetta sumar og ekki heldur inni á fjörðum eystra - þar sem sumarhitinn hefur ábyggilega náð allgóðum hæðum meðan súldarveðrið ríkti syðra. Í Möðrudal var ágúst ekki hlýr. Hitameðaltöl einstakra mánaða á stöðvunum má sjá í viðhenginu. 

Þar sem dagleg hitameðaltöl hafa enn ekki verið reiknuð fyrir Reykjavík er ekki hægt að leita að sérlega köldum eða hlýjum dögum. Mjög kaldir dagar voru fimm í Stykkishólmi, 20.febrúar, 20. og 21. nóvember og 11. og 12. desember. Engin dagur var sérlega hlýr í Stykkishólmi. 

Úrkoma var nokkuð langt ofan meðallags í Reykjavík og einnig á þeim fáu stöðvum öðrum þar sem mælt var. Vestanlands var úrkoma einna mest að tiltölu í mars og október, en í maí á Suðurlandi. 

ar_1904p

Myndin sýnir loftþrýsting í Reykjavík frá degi til dags - nokkuð órólegur, sérstaklega í október og nóvember og lágur í apríl. Ekki mikið þó um þrýstiöfgar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum 29.janúar, 947,2 hPa, en hæsta tala ársins var lesin í Stykkishólmi 21.nóvember, 1037,0 hPa. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1904 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. 

Einar Helgason lýsir tíð ársins 1904 í Búnaðarriti 1905:

(s233) Árið má heita sældarár, þegar á allt er litið, eins hér sunnanlands, þrátt fyrir rigningarnar.

(s228) Vetur frá nýári fremur snjólítill um mestan hluta landsins, fannfergja þó mikil á útsveitum Eyjafjarðar og Suður-Þingeyjarsýslu. Umhleypingasöm og óstillt tíð á vestur- og norðurkjálkanum, austur fyrir Eyjafjörð. Í Norður-Þingeyjarsýslu góður vetur sérstaklega við sjávarsíðuna. Á Melrakkasléttu gengu lömb af allan veturinn án þess að koma í hús. Á Austur- og Suðurlandi mild veðrátta; rigninga- og umhleypingasamt í Vestmannaeyjum. í Austur-Skaftafellssýslu mátti rista ofan af þýfi seint í mars. Vorið kalt um land allt, best látið af því í Skaftafellssýslunum. Rigningasamt hér í nærsýslum Reykjavíkur. Í Barðastrandarsýslu var óvíða komin grænka í tún seint i maímánuði; 17. maí stórhríð í Eyjafirði komu þá klofskaflar, 20. s.m. brá til hlýinda sem héldust; á Austfjörðum kom ágætur bati um sama leyti.

Sumarið sólskinslítið og vætusamt sunnanlands en þurrkatíð hin besta vestan, norðan og austan. Heita mátti að ekki kæmi dropi úr lofti í Barðastrandarsýslu frá því um fardaga og fram á haust, en fremur var þar kalt og stormasamt af norðri, í ágústmánuði stundum snjókoma í austurhreppunum. Vegna þurrkanna, var víða þar um pláss, skortur á neysluvatni, var það einna tilfinnanlegast í Sauðeyjum, varð að sækja neysluvatn þaðan til annarra byggðra eyja og til lands, um og yfir mílu vegar, frá því í ágúst og þangað til eftir veturnætur. Grasspretta ágæt á öllu Norður- og Austurlandi og annarstaðar í meðallagi. Í Eyjafirði flest tún mikið tvíslegin þar sem mannafli var til þess. Heyskapur byrjaði þar fyrir og um 1. júlí, á útsveitum talsvert seinna. 1.júlí var [enn] mikill snjór í Siglufirði. Heyskapur varð með talsvert mesta móti, oftast hægt að hirða vikuheyin. Fram til dala hröktust töður dálitið og úthey í september. Næturfrost komu ekki fyrr en í október í Eyjafirði, aðaláttin þar suðlæg austan átt. Á Austfjörðum byrjaði sláttur með fyrsta móti, sumstaðar seinast í júní. Heyföng urðu með mesta og besta móti. Þegar suður kom í Skaftafellssýslurnar fór að verða votviðrasamara, varð því að hirða heyin hálf illa þurr. Eftir 24. ágúst gengu þar sífelldir óþurrkar svo það sem heyjað var eftir þann tíma var meira og minna skemmt og hjá sumum lítt nýtt, lá allmikið úti af heyi þangað til í október og sumt náðist aldrei. Mun heyskapur naumast hafa orðið í meðallagi í þeim sýslum. Nýting á heyjum varð lakleg víða hér um Suðurland, einkum á mýrarjörðum. Þeir sem snemma byrjuðu slátt náðu töðunni óhraktri.

Haustið og veturinn til nýjárs. Tíðarfarið óstöðugt, rigninga- og rosasamt á öllu Suðurlandi og á Vesturlandi. Frá jólaföstu til áramóta hagstæð tíð í Barðastrandarsýslu, nær því enginn snjór um áramót. Í Húnavatnssýslu óstöðug tíð fram á jólaföstu, þá mikil frost en ekki sjóþungt; með sólstöðum gerði þar þíðviðri og bestu tíð. Í Eyjafjarðar- Þingeyjar- og Múlasýslum var tíðarfarið gott; snjókoma ekki fyrir alvöru í Eyjafirði fyrr en með vetri, um jól alautt þar upp í háfjöll. Á Austfjörðum varð jarðlaust fyrst i desember og hélst það til ársloka. Í Vestur-Skaftafellssýslu svo mikil snjókoma 11.—12. nóvember að fé og hross fennti, en desember mátti kalla góðan, var þá snjór aftur uppleystur.

Matjurtir spruttu í góðu meðallagi um land allt, nema á Barðaströnd, þar misheppnuðust þær vegna hinna sífeldu norðanstorma ef garðarnir voru ekki í því betra skjóli, en garðrækt er þar mikil einkum um miðbik sýslunnar.

Janúar. Nokkuð hagstæð tíð. Tveir stuttir kuldakaflar. Talsverður snjór með köflum nema suðvestanlands. Hiti nærri meðallagi.

Jónas Jónassen lýsir veðurlagi í janúar svo:

Allan þennan mánuð hefur verið mesti umhleypingur með talsverðri snjókomu og þá oftast af útsuðri, oft með svörtum éljum og hvass. Stöku sinnum hlaupið í norðanátt en ekki staðið lengi. 

Þjóðólfur segir þann 8.:

Veðurátta hefur verið mjög umhleypingasöm síðan fyrir jól, úrkoma óvenjulega mikil, en frost lítil. Jörð að mestu alþíð enn.

Austri lýsir janúartíðinni eystra í stuttum pistlum:

[9.] Tíðarfar hefir að undanförnu verið mjög blítt, en í fyrrinótt féll lítill snjór, en þó jörð enn góð.

[19.] Veðráttan var liðna viku mjög frostasöm og áfreðar svo miklir að víða var hér lítil jörð. En í fyrradag kom góð hláka svo nú er komin næg jörð. í Héraði mun nú víðast marautt.

[29.] Veðráttan hefir verið mjög góð nú undanfarandi. 26. setti þó niður nokkurn bleytusnjó. Í dag er snjókoma nokkur.

Þjóðviljinn (á Bessastöðum) lýsir tíð í janúar:

[9.] Nýja árið heilsaði oss stillilega og þýðlega, eins og gamla árið kvaddi, og héldust stillurnar og þíðviðrin til þrettándans, er tíð fór að gjörast óstilltari og úrkomusamari, og hefir síðan haldist óstöðug tíð.

[16.] Síðan Þjóðviljinn var siðast á ferðinni, hafa haldist frost nokkur, en stillt veður frá 9.—12. þ.m., og síðan umhleypingar. Fögur norðurljós voru á himninum að kvöldi 9. þ. m., og njóta menn þeirrar dýrðlegu sjónar mun sjaldnar hér syðra, en á Norður- og Vesturlandi.

[24.] Tíðarfar hefir síðasta vikutímann verið mjög óstöðugt, frost og kafald aðra stundina, en rigning hina.

[30.] Tíðarfar hefir þessa síðustu viku verið fremur umhleypingasamt, og kafaldsél öðru hvoru.

Norðurland segir lítillega af tíð í janúar:

[16.] Tíðin hefir verið stirð þessa viku, töluvert frost með norðanvindi oftast, en snjókoma ekki mjög mikil.

[23.] Tíðafar óstöðugt þessa viku, stormar sífelldir og frost og þíður til skiptis.

Þann 13.febrúar birti Ísafold alllangt fréttabréf af Síðu, dagsett 15.janúar. Það fjallar reyndar aðallega um tíðarfar á árinu 1903. Við látum það samt hér:

Fréttakafli af Síðunni, ritað 15. jan. 1904 [P. ritar] — Þetta er fyrsti dagur vetrarins, sem ber með sér frost og fannir. Stráin ýla ömurlega i hinni nöpru kylju og loftið er hörkulegt. Fénaðurinn sækir að húsunum og gengur rakleitt inn en jöturnar eru enn þá tómar. Skepnunum virðist renna í skap; sauðirnir herjast og hrossin hitast. Og það er ekki að undra, þótt þeim þyki tími til kominn, að smakka á heyjaforðanum. Það er svo áliðið. En áður en ég tala meira um áhrif þau, er þessi kylja kann að hafa, virðist mér sanngjarnt að minnast hins liðna sumars og þess, sem af vetrinum er, að nokkru. En ég verð að byrja nokkuð framarlega, til að komast fyrir orsakir ýmsra atvika, sem verður síðar minnst á.

Síðari hluta maímánaðar og fyrri hluta júní var hér sífelldur þurrkur og rumba; varð grasvöxtur því í minna lagi, og þó einkum vegna þess, að eldurinn í Vatnajökli huldi oft hina vermandi vorsól þykkum reykjarmekki. Þetta hefði þó ekki orðið tilfinnanlegt tjón, hefði ekki ill vættur sótt sveitina heim. En það var maðkurinn. Gein hann yfir vallendi allt og heiðar og eyddi alt, er fyrir varð (grassvörðinn), nema þar sem vatn var yfir. Varð jörð öll, þar sem hann fór yfir, fyrst hjúpuð hvítri blæju, sem væri þar dauðinn nálægur; seinna varð blæjan dökk, en það var líkklæðið sjálft; enda kom þar ekki stingandi strá sumarlangt. Og svo var mergðin mikil, að þar sem voru gamlar rústir og kafagras, er hann gekk yfir, varð grámosi eftir, svo mikill, að huldi skóvörp þess, er um það gekk. Afleiðingin af plágu þessari varð bæði mikil og ill; tún, sem máttu heita allvel ræktuð, eftir því sem hér gerist, urðu ekki slegin fyrr en um höfuðdag og þó ekki öll. Það var því ekkert undarlegt, þótt búfræðiskandidat Guðjóni Guðmundssyni fyndist ekki til um túnræktina á Síðunni. En ónákvæmt er þar frá skýrt, er hann segir i 60. tbl. Ísafoldar, að hér sé erfitt að ná í góðan mó. Getur hann þess því til afsökunar, hve túnin séu illa ræktuð. Mér kemur ekki til hugar að segja góða hirðingu á áburðinum hér í sveit, svo sem vera ætti, en hitt er víst, að mór hefir enginn fundist hér á milli Sanda, svo tækur sé, nema lítið eitt við Skaftá. En það má engum að gagni vera, nema þeim búendum: Kirkjubæjarklausturs og Hólms. Get ég þessa til skýringar við umsögn Guðjóns. Taðan varð hjá sumum bændum helmingi minni en áður og 2/3 hjá öðrum. Af því leiðir tilfinnanleg fækkun á kúm hér í sveit. Sumarið var yfirleitt þurrkasamt, dembur þó tíðar, en mjög var hlýtt og þökkuðu menn það brennunni miklu á jöklum uppi. Oft kom þar upp reykur svo mikill, að eystri helft sjóndeildarhringsins huldi um miðjan dag. Að nokkrum tíma liðnum, gekk krapaskúr yfir, ærið dropastór, og gegnvætti heyið allt. Var að því mikill bagi.

Seinni hluta septembermánaðar var hér rosasamt og rigningar stórfeldar; uxu þá vötnin ákaflega og sýndi Skaftá þess ljós merki, að eigi er brúin óþörf, svo sem Árna Zakariassyni þótti, er hann vann að byggingu stöplanna í sumar. En þá var áin óvenjulega vatnslítil; ollu því hinir miklu þurrkar, þann tíma allan, sem að brúarsmíðinni var unnið. Rann nú stór áll aftan við brúna og sópaði mikilli hrúgu af sandi burt, en þar er sker undir, sem hann vann ekki á. En erfið er uppgangan á brúna síðan. Nú um jólin braust áin yfir, milli tveggja aðalbrúnna, þar sem vegurinn var hlaðinn upp en ekki steyptur. Bar hún ofaníburðinn burt, en hleðslan stendur. Er þar nú mittisdjúpt ker og ófært lestum. Má Árni af þessu ráða, að Skaftá getur orðið ill yfirferðar, þótt á sumri sé. Er honum vorkunn nokkur, þótt hann vissi það ekki, en trúa mátti hann mönnum hér, er þeir sögðu honum sannleik einan. Veturinn má telja ágætan, það sem af er; reyndar var frostharka nokkur nóvember allan og nokkurn hluta desembermánaðar, en sífelld staðviðri og auð jörð.

Ekki er eldurinn i jöklinum slokknaður enn, og þykir mönnum sem það verði varla vetrarlangt; eldsneytið virðist óþrjótandi. 12. þ.m. [janúar] gengu tveir menn frá Hörgslandi á fjall. Urðu þeir seint fyrir og er þeir gengu eftir dal einum djúpum, sló sorta yfir svo miklum, að þeir sáu varla handa sinna skil. En er þeir komu upp á dalbrúnina, sáu þeir að sortinn kom úr þeirri átt, sem eldurinn var. Litlu síðar rofaði til i sömu átt; þótti þeim þá því líkast, sem árroða slægi yfir jökulinn allan, en það var eldurinn. Þetta var um kl. 9 að kveldi. Eru þeir menn til hér, sem þakka vilja eldinum mikla blíðviðri það, er staðið hefir svo lengi, en sjálfsagt er það ímyndun ein.

Febrúar. Nokkuð hagstæð tíð. Fremur kalt.

Jónas segir: 

Talsverður kuldi allan mánuðinn, allt til h. 22., er gerði góða hláku með dynjandi rigningu af landsuðri og var þá hvass; hefur verið hægur síðan, oftast með éljum af útsuðri við og við.

Fjallkonan birti þann 24.febrúar bréf úr Rangárvallasýslu ofanverðri, dagsett þann 3.:

Frá því blíðutíðinni um hátíðarnar sleppti, um 6. [janúar], hefir veðráttan verið óstöðug og umhleypingasöm, viðrað sinn daginn hverju og suma daga tvennslags og þrennslags veður. Aftur hefir verið nokkur snjókoma, en oftast þó hagar, því jafnóðum reif af. Mest hefir frostið verið 15. f.m. c. 13°R. Tvo daga hefir verið öskubylur, 26. og 29. jan., þó harðari sá síðari; var þá lítt stætt veður og 9° frost. Nokkrir hlákudagar og þíðu hafa þó komið. Síðan 1. þ.m. hefir kyngt niður miklum snjó í logni, svo að í gær var nálega hnéþykkt snjólagið á jafnsléttu og haglaust með öllu. Í dag dálætisblíða, og hefir snjór sjatnað nokkuð. Haglaust þó enn. Tíðustu áttirnar hafa verið útsynningur og landnyrðingur. Landnyrðingur er naprasta vetraráttin hér.

Þjóðviljinn segir af febrúartíð:

[8.] Fyrri part liðinnar viku dyngdi niður all-miklum snjó, og er það í fyrsta skipti á vetrinum, er nokkuð hefir snjóað til muna hér syðra. Snöggvast sá til sólar á kyndilmessu (2. þ.m.), og á það að boða snjóa-tíð, eftir því sem gömlu mennirnir sögðu.

[13.] Fyrri part þessarar viku hélst norðanátt, og væg frost, en síðan 11. þ.m. hafa verið frostleysur.

[19.] Síðan síðasta nr. Þjóðviljans kom út, hefir veðráttan all-oftast verið við norðanátt, og talsverð frost öðru hvoru.

[29.] Síðan góan byrjaði (21. þ.m.) hefir tíð verið rysjótt og umhleypingasöm. — 22. þ.m. var hellirigning, og tók þá upp mikið af snjónum, sem legið hefir á jörðu, síðan með þorrabyrjun.

Norðurland minnist lítillega á tíð þann 20.:

Snjór er nú kominn allmikill. Þessa viku hefir verið snjókoma á hverjum degi, flesta daga töluverð. En oftast frostvægt og alltaf logn hér, þar til er stórhríð kom í gær síðdegis.

Austri segir af febrúartíð og allmiklum krapa- og snjóflóðum á Seyðisfirði:

[6.] Veður hið besta undanfarandi daga. En í dag hefir verið hríðarhraglandi.

[17.] Veðrátta hefir nú um tíma verið mjög hörð, snjókoma mikil, nálega á degi hverjum, svo nú er komið hið mesta fannfergi hér í Fjörðum, og líklega töluverður snjór líka á Héraði.

[27.] Tíðarfarið hefir þessa vikuna verið mjög blítt á hverjum degi og snjó tekið töluvert upp, en þó er eigi jörð komin upp að nokkru ráði hér í firðinum, því snjóþyngslin voru orðin svo mikil á undan blotanum, En í Héraði kvað nú vera víðast komin upp góð jörð. ... Á mánudaginn 21. þ.m. gjörði hér mikla þíðu með stormi og mikilli rigningu, svo hlaup kom víða í læki,er spýttu fram miklu vatni og snjó, víða til töluverðra skemmda; þannig pöntunarhúsin og tók þar 4 báta, er þar voru á hvolfi og rak bátana upp um nóttina norðanverðu við fjörðinn, suma töluvert brotna. Þá fór og lækurinn fyrir innan Madsenshúsin í gegnum íbúðarhús Gunnars Sveinssonar með svo miklu afli, að hann reif upp hurðina á næsta húsi fyrir neðan og flaut þar inn á gólf. Fjarðaröldumegin hlupu víðast lækir, en eigi til stórskemmda. Hádegisáin hljóp [svo] miklum krafti, að snjóflóðið úr henni fór yfir um Fjarðará. Snjóflóð féll og töluvert fyrir nokkru í gamla snjóflóðsstaðnum og um Hjarðarholt, Bræðraborg og Fornastekk, án þess að gjöra nokkurt verulegt tjón.

Austri segir áfram af snjó- og vatnsflóðum í pistli 6.mars - þau urðu í febrúar:

Snjóflóð og vatnsflóð hafa nú alls fyrir skömmu, er þiðna tók, gjört mikinn skaða bæði í Fjörðum og Héraði, Á Brekkugerði í Fljótsdal hljóp snjóflóð á fjárhús og drápust þar 21 sauður. Snjóflóðið hafði stefnt á bæjarhúsin, en klauf sig á hlöðu stórri er stóð á túninu beint upp af bænum. Á Klausturseli á Jökuldal hljóp vatnsflóð á fjárhús og drap 30 ær. Á Fagradal hljóp snjóflóð yfir Skriðurnar, þar sem Lagarfljótsbrúartrén liggja, og sópaði 14 stórtrjám niður í árgil, 6 af þeim eru mölbrotin, en hin lítið sem ekkert skemmd. Á Reyðarfirði og Eskifirði urðu nokkrir skaðar. Þannig kom vatnsflóð á Lambeyri, þar sem sýslumaður A.V. Tulinius býr, Urðu þar töluverðar skemmdir á heyjum og svo hljóp vatnið í kjallarann undir íbúðarhúsinu og eyðilagði þar mikið af matvælum. Á Mjóafirði hljóp snjó- eða vatnsflóð á hús Berg hvalaveiðamanns og olli þar miklum skemmdum. 

Norðurland segir af sömu flóðum/atburðum í pistli þann 12.mars og segir þau hafa orðið þann 23.febrúar:

Í ofsastormi og gífurlegri úrkomu urðu skaðar allmiklir sumstaðar á Austurlandi aðfaranótt þ. 23. f.m. Á Klausturseli á Jökuldal hljóp vatn í fjárhús og kæfði 25 — 30 kindur. Á Brekkugerði i Fljótsdal lenti snjóflóð á fjárhúsi, braut það og drap 21 sauð. Mest tjónið varð í Reyðarfirði. Í Breiðuvík þar í firðinum brotnuðu þrír bátar, möl barst þar á túnið og skemmdir urðu töluverðar á húsum. Á Helgastöðum í sömu sveit hljóp snjóflóð á fjárhús og drap 9 kindur. Á Sigmundarhúsum þar í grenndinni brotnaði einn bátur. Á Hólmum í Reyðarfirði varð þó tjónið tilfinnanlegast. Þar lenti krapflóð á útihúsi fyrir ofan íveruhúsið og braut þakið á húsinu; skepnur, sem inni voru, héldu lífi. Flóðið lenti svo á geymsluhúsi, fleygði því af grunninum og ónýtti það, svo að ekki var annars kostur en rífa það. Ýmislegt, sem í húsinu var, skemmdist stórlega. Flóðið tók og þriðjunginn af kirkjugarðinum, sem var úr timbri, og loks vatnsmyllu, sem var að mestu ófundin, þegar fréttist. A Kollaleiru hafði brotnað hlaða og hey skemmst. Og víðar hafði tjón orðið.

Mars. Nokkuð hagstæð tíð. Mjög úrkomusamt sunnanlands. Hiti í meðallagi.

Jónas segir um marstíðina:

Framan af mánuðinum veðurhægð og frostlítið, hæg austanátt og nokkur ofanhríð; fór svo að kólna mikið, en logn nokkra daga; gekk svo til suðurs, oft hvass með éljum, síðar með miklu regni, svo allur snjór hvarf af jörð.

Austri segir af tíð í mars:

[6.] Veðrátta hefir að undanförnu verið mjög blíð, og snjó tekið svo upp, að nú mun víðast komin góð jörð.

[14.] Veðrátta hefir undanfarandi daga verið nokkuð rosasöm og köld með hríðarhraglanda.

Norðurland segir þann 5.: „Tíðarfar hefir verið milt síðustu tvær vikurnar og jörð er komin hvarvetna þar, sem til hefir spurst“. 

Þjóðólfur birti 15.apríl stutta fregn úr Árnessýslu, dagsetta 16.mars:

Tíðin var fremur góð fram að þorra — þó víðast gefið öllum skepnum frá því mánuð af vetri — en síðan með þorra hefur verið alveg haglaust; ekki heyrist samt neitt talað um heyskort ennþá; hey eru víðast með besta móti. 

Þjóðviljinn segir stuttlega af marstíð syðra:

[9.] Það sem af er þ.m., hefir oftast verið suðlæg vindstaða, en þó útsynnings- eða landsunnanél öðru hvoru framan af mánuðinum.

[22.] Frost með norðanátt hélst, uns l5. þ.m. sneri til þíðviðris og rigninga.

[30.] Síðan einmánuður hófst (22. þ.m.) hafa hér gengið sífelldir rosar og rigningar.

Þann 30. birti Þjóðviljinn fregn frá Ísafirði, dagsetta 18.mars:

Tíðin hefir verið hér afar-stirð síðustu dagana, norðan frostgarður og snjókoma, enda hafði „Ceres", er hún kom um miðjan dag í gær, hreppt mjög slæmt veður, svo að hún var öll hvít af klaka til toppa, og klakinn svo mikill á þilfarinu annars vegar, að hún hallaðist á miðja síðu, er hún kom hér inn fjörðinn, og voru því þegar fengnir 12 menn, til að berja utan af henni.

Norðurland segir þann 26.:

Frost var mikið fyrri hluta vikunnar, á þriðjudag [22.] um 20 stig. En á miðvikudagsnóttina kom hláka og síðan hefir verið góðviðri.

Apríl. Nokkuð hagstæð tíð, en snjóhraglandi með köflum. Hiti í meðallagi.

Jónas ræðir apríltíðina:

Framan af var oftast norðan- og landnorðanátt, fór svo til útsuðurs með éljum síðari partinn, en hljóp oft til úr einni átt í aðra. Snjókoma talsverð með köflum; snjóaði mikið aðfaranótt h.24.

Vestri segir þann 2.:

Tíðarfar er einmuna gott, þíðviðri og besta vorveður. Heybirgðir munu nægar allstaðar hér um slóðir og sama sagði sunnanpóstur að væri á sinni leið, enda hefir veturinn verið mildur og jarðsamt.

Austri lýsir apríltíðinni:

[2.] Tíðarfar hefir nú lengi verið hér mjög blítt og hitar töluverðir, svo snjór er nú mjög tekinn upp niður á láglendinu.

[9.] Veðrátta hefir að undanförnu verið mjög óstillt og töluverð snjókoma hér í gær, og í dag stormur og blindhríð á fjöllum.

[19.] Tíðarfar hefir undanfarandi verið mjög óstillt og þó nokkur snjókoma flesta dagana, en nú er veður gengið til batnaðar, í dag sólskin og 10° hiti.

[30.] Veðrátta hefir mátt heita ill undanfarandi, harðviðri, snjókoma og bleytuhríð skipst á.

Þjóðviljinn segir af apríltíð:

[7.] Það, sem af er einmánuði, hefir mátt heita all-góð tíð, enda þótt öðru hvoru hafi verið væg frost að nóttu. Páska-hretið, 3. til 5. þ.m., var fremur vægt hér sunnanlands, aðeins stinnur norðan-kaldi, með fannkomu á fjöllum, og 5. þ.m. snjóhret í byggð; en sennilegt, að mun meira hafi að því kveðið á Norður- og Vesturlandi.

[13.] Síðan páskahretinu linnti hefir tíð verið fremur óstöðug, og öðru hvoru væg frost að nóttu. Snjórinn, sem féll í byggð 5. þ.m., er þó löngu horfinn fyrir apríl-sólinni.

[18.] Tíðarfar má heita fremur hagstætt, oftast stillt hreinviðri, en frost að nóttu, nema sunnanrosar og rigningar í gær og í dag.

[26.] 20. þ.m. dyngdi niður all-miklum snjó, svo að jörð varð alhvít, og mátti því segja, að veturinn kveddi oss fremur kuldalega. Á sumardaginn fyrsta (21. þ.m.) var á hinn bóginn sól og blíða, svo að snjórinn hvarf þá algjörlega í sjávarsveitum; en síðan hefir tíðin veríð fremur kaldhryssingsleg, haglhreytingar öðru hvoru, og 24. þ.m. dyngdi enn niður allmiklum snjó, og gerði norðan byl, með nokkru frosti; en vonandi, að tíðin batni nú vel á eftir.

Norðurland segir af tíð:

[9.] Dymbilvikuna var mesta veðurblíða, en á páskadag var norðankuldi með fjúki. Síðan hefir flesta daga verið nokkurt fjúk, en venjulega um það bil frostlaust.

[30.] Tíðarfar mjög stirt, vorbati enginn og í útsveitum sér ekki á dökkan díl. Einna verst er látið af horfunum hér úti í fjörðunum vestanmegin; en nákvæmari fregnir eru væntanlegar þaðan með pósti í næstu viku. Sumstaðar í Þingeyjarsýslu er og látið illa af skepnuhöldum.

Fjallkonan birti 17.maí bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 30.apríl og greinir frá ólíkri vetrartíð í sýslunni:

Veturinn byrjaði í útkjálkasveitunum hér illa, en þó er verst hans hin síðasta ganga, og allur hefir hann að heita má verið vondur og gjaffeldur, en frostavægur yfirleitt; mest frost hafa komið 16°R í sunnanátt, en í norðanátt vanalega verið frostalítið mjög og þökkum við það ísleysinu. Tveir kaflar hafa komið vel góðir, um jólin og fram yfir nýár og aftur fyrir páskana. Jarðlaust varð allvíða á jólaföstunni, og aftur síðan á páskum hefir viða verið hagskarpt og nú 30. apríl sér hvergi dökkan díl hér í útsveitum. En fram til dala hefir annar kostur snúið að bændum hjá blessaðri náttúrunni; þar hefir, að sögn, ekki komið eitt öðru hærra og segja þeir, að þetta sé sá besti vetur, sem þeir hafa fengið i 20 ár; en í útsveitum hefir hann verið einhver sá versti. Til samanhurðar má geta þess, að einn bóndinn í Blöndudal hefir gefið lömbum sínum inni aðeins 4 daga; en á Vatnsnesi austanverðu er kominn 24 vikna innistaða á lömbum. Enda fer afkoman eftir því. Fram til dalanna eru sagðar góðar heybirgðir; en í útsveitunum eru menn að verða heylausir hver um annan þveran og horfir til vandræða, ef vorharðindi verða, en vonandi rætist úr betur en nú áhorfist.

Ísafold birti 18.maí bréf úr Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 30.apríl:

Nú er annar laugardagur í sumri. En óslitin harðindi, fannkyngi ógurlegt i öllum útsveitum og heyskortur í þeim og vandræði. En snapir til dala. Sífeld norðaustan-bleytuhríð, að kalla má síðan á páskadag. Þó er hafís óvanalega langt undan landi. Það sést á því, að hafrót er óvenjulegt öðru hvoru. Veturinn verstur þar, sem sumarið var ekkert — úti á útkjálkum og í eyjum. „Köld ertu móðurmold“. 

Ísafold birti þann 21.maí bréf úr Trékyllisvík [og kallar svæðið Víkursveit], dagsett 3.maí:

Héðan er að frétta verstu tíð í allan vetur. Það er að eins tvennt illt, sem ekki hefir kveðið mikið að: hafís ekki komið, og verið fremur frostalítið, þó að stundum hafi verið kalt. En aldrei síðan ég kom hér fyrir rúmum 50 árum hefir komið eins mikill snjór og þennan vetur. Fjárhúsið á túninu fór alveg i kaf og sér nú að eins ofan á mæninn á því. Hesta varð að taka hér inn á jólaföstu, og hefir síðan aldrei verið jörð fyrir þá. Hey voru bæði ill og lítil eftir sumarið i fyrra. En þó sett full-ríflega á þau sumstaðar; því að svo hefir verið á sumum bæjum, að ekki hefir verið hægt að gefa nauti a meðan verið var að brúka það.

Maí. Nokkuð kalt fram yfir miðjan mánuð, en síðan betri tíð. Hiti í meðallagi. Nokkuð var um skipskaða, en ekki ljóst að hve miklu leyti þeir tengjast veðri. 

Jónas segir um maíveðrið í Reykjavík:

Framan af mánuðinum hæg norðanátt, bjart og fagurt veður, en austanátt með mikilli rigningu síðari hlutann; stöku sinnum hvass mjög með mikilli úrkomu.

Fjallkonan birti þann 25.maí bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett þann 5.:

Loksins er kominn góður bati — fyrsta frostlausa nóttin í fyrri nótt, og fyrsta þíðan og verulega hlýjan í í gær og i dag eftir hinn langa og að ýmsu leyti leiða vetur. Leiðastur hefir hann verið vegna snjóanna, er verið hafa mjög tíðir, og samanlagðir óhemju kyngi. Síðasta snjókoma var 30. apríl; þá var alhvítt, ökklasnjór. Annars sífeldir kuldanæðingar frá páskum. Alls enginn gróður til þessa. 

Þjóðviljinn (á Bessastöðum) segir af maítíð:

[3.] Tíðarfar er oftast mjög storma- og kalsasamt, svo að naumast markar enn fyrir neinum gróðri, enda öðru hvoru frost á nóttu, og fjöllin í hvítum hjúpi niður að byggð.

[9.] 5. þ.m. gerði loks hlýindi, og blíðviðri, og hefir síðan oftast haldist sunnanátt, svo að jörð lifnar nú óðum, ef lík veðrátta helst.

[14.] Tíðarfar hefir verið einkar blítt og fagurt þessa vikuna, svo að tún eru nú víða farin ögn að litkast.

[21.] Veðrátta rosasöm fremur og hlýindalítil, tún litið eitt farin að gróa.

[29.] Veðrátta enn köld og óstöðug; þó hefir heldur brugðið til hlýju síðastliðna daga.

Austri greinir frá maítíð (og fjársköðum):

[7.] Veðrátta hefir verið æði óstillt, en virðist nú fara batnandi síðustu dagana.

[14.] Veðrátta hér í fjörðum alltaf fremur köld og snjór víða nokkur, nær því ofan að sjó. En aftur kvað vera að mestu autt fyrir löngu á Upphéraði og þar sól og sumar á degi hverjum.

[27.] Veðrátta hefir síðustu vikurnar tvær verið mjög óstöðug hér austanlands. Í vikunni fyrir og eftir hvítasunnu [22.maí] töluverð snjókoma og jafnvel meiri á Úthéraði en hér í Fjörðunum, en stöku daga á milli hefir verið hér sumarblíða og jörð farin mikið að grænka. ... Fjárskaðar hafa orðið á nokkrum bæjum í Héraði í hríðunum um hvítasunnuna [22.]; fennti þá sumstaðar meira eða minna af fé þar efra.

[31.] Vér höfum nú frétt nokkuð nákvæmar af fjársköðunum, sem urðu í Héraði í hríðunum fyrir hvítasunnuna. Mestir skaðar urðu í Fellunum, þar fórust; á Ási 60, Meðalnesi 40 og Hof 20 fjár. Á Ketilsstöðum á Völlum fórust 18 kindur. Minni fjárskaðar urðu hingað og þangað yfir allt Hérað, féð ýmist fennti eða það hrakti í vötn og krapablár. — Í Fljótsdal festi ekki snjó í þessum hríðum. ... Tíðarfar hefir undanfarandi daga verið hið indælasta. Sólskin og sunnanvindar á hverjum degi og hefir grassprettu farið ákaflega mikið fram því nægur er vökvi í jörðu, og má nú heita orðið gott útlit til landsins.

Norðurland segir af tíð í maí:

[7.] Siglufjarðarpóstur, sem kom á miðvikudagsnóttina var [4.], segir vondar horfur í útsveitunum. í Fljótum, Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði er allt undir gaddi, engin björg úti fyrir nokkurra skepnu, nema þar sem fjörubeit er. Í Svarfaðardal er komin jörð á nokkrum parti. Á Árskógsströnd allt fram undir Hillur má heita jarðlaust. Á Siglufirði lifa skepnur á fjörubeit og kornmat, en heylaust orðið. Í Héðinsfirði og Ólafsfirði eru horfurnar einna verstar; mjög lítið um hey og kornmatarlítið í Ólafsfirði og búið að taka fóðrið frá nautgripum, svo að til mestu vandræða horfir. Talsvert af fé hefir verið rekið úr firðinum vestur í Sléttuhlíð og ráðgert að reka fleira. Þar er nokkur jörð, en hey ófáanleg. Heykreppa er hér og þar í Fljótum. Í Langhúsum bjargarlaust fyrir 17 nautgripi. Af utanverðri Árskógsströnd hefir sauðfé og hross verið rekið inn í Möðruvallapláss. Stórhríð segir póstur að hafi verið á sunnudaginn í Fljótum, svo að hann var veðurtepptur þann dag. ... Vorveður hefir loks verið hér síðari hlut vikunnar; leysing þó ekki verulega mikil.

Í ódagsettu bréfi úr Þingeyjarsýslu segir: „Tíðin víst orðin geggjuð. Sólin á engan yl lengur, er ísköld, verri en tunglið. Hver dagurinn öðrum argari síðan á páskum. Gaddur afarmikill. Öll Þingeyjarsýsla í voða. — Vér stöndum í sömu sporum og 1804. Ég vil nota gaddavírspeningana til að kaupa fyrir þá brekán ofan á okkur, meðan við erum að drepast.

Og áfram í Norðurlandi:

[14.] Vorbatinn fer fremur hægt. Leysing er samt nokkur á hverjum degi og tún eru ofurlítið farin að grænka hér um slóðir. Í útsveitum, þar sem gaddurinn var mjög mikill, kennir batans víst lítið enn. Norðanstormur kaldur með úrkomu í dag.

[21.] Töluverðan snjó rak niður fyrri hluta þessarar viku með vonskuveðri, og má nærri geta, hvernig það hefir komið sér um sauðburðinn. Almennt nokkuð kvartað um heyskort. Í hörðustu útsveitum eru víst jarðbönn enn. í dag er hláka.

[28.] Tíðarfar hefir verið ágætt þessa viku, enda flestum fundist tími til kominn að skipti um til batnaðar.

Þjóðviljinn segir þann 8.júlí:

Það er nú talið víst að hákarlaveiðiskipið „Christian" frá Akureyri hafi farist í uppstigningardagshretinu [12.maí], með því að ekkert hefir enn til þess spurst. Á skipi þessu voru 12 menn, allir úr Svarfaðardal í Eyjafjarðarsýslu, og hét skipstjórinn Sigurður Halldórsson, bóndi á Grund.

Fjallkonan birti 31.maí brot úr bréfi úr Landeyjum, dagsett þann 24.:

... Tíðindafátt héðan. Veðráttan nú í viku líkust haustveðráttu, krapakennd úrkoma og stormar; gróður þó furðanlegur. Þverá voðaleg og allt ætlar í kaf að keyra hér útum.

Norðurland birti þann 4.júní bréf úr Vatnsdal, dagsett þann 28.maí:

Mikil og blessuð breyting hefir orðið á tíðarfarinu síðan á hvítasunnu; allur snjór er nú leystur að kalla má úr fjöllum, tún orðin algræn og Vatnsdalsá liggur yfir enginu til að bera á það til sumarsins. Kýr eru farnar að geta bjargað sér talsvert úti, enda eru allir að verða töðulausir. Síðan rjómabúið reis upp, hefir kúm fjölgað að mun, meira en svo að túnin fóðri þær.

Þjóðólfur birti þann 7.júní bréf úr Höfðahverfi í Suður-Þingeyjarsýslu, dagsett 20.maí (aðeins stytt hér): 

Tíðin mjög bág. Aldrei komið hlýr dagur það sem af er sumrinu í rúmar 4 vikur. Einlægir austan umhleypingar með úrkomu nær því á hverjum degi, en það virðist sama, hvað úr loftinu fer, því alltaf er það fullt með úrkomu, svo sjaldan sér sólina. Mikill gaddur upp til sveita, að eins roði með sjó fram. Á heiðunum okkar sér ekki á dökkvan díl; gróður enginn enn eða hans gætir ekki. Stórhríð gerði hinn 17. og setti niður mikla fönn, nú aðeins skárra en enginn bati enn sjáanlegur. Gamlir menn muna ekki eftir öðru eins vori og nú, er jafnvel verra en mislingavorið 1882, og er þá mikið sagt. Heyleysi svo til stórvandræða horfir.

Vestri segir þann 30.maí:

Norðangarðurinn um daginn gerði all-mikinn óskunda á ýmsum skipum. Tvö skip af Akureyri misstu út sinn manninn hvort, og þriðja skipið þaðan „Júlíus“ rak í land á Hornvík, en var talið lítið eða ekkert skemmt og von um að það næðist fram aftur. Racilian sigldi langan tíma gegn um hákarlalifur, plankabrot og kassa fram undan Sléttunesinu og er getið til að eitthvert hákarlaskip hljóti að hafa farist þar. En hvaða skip það getur verið vita menn enn ekki.

Ingólfur segir þann 5.júní frá því að bátur hafi farist í fiskiróðri þann 19.maí í landsunnanofsaveðri. 

Þjóðviljinn birti þann 22.júní bréf úr Dýrafirði, dagsett 30.maí:

Héðan er nú sem stendur fátt að frétta, nema óstöðuga tíð, einkum eru stormar all-tíðir og oft úrfelli, þó tók yfir allt vikuna fyrir hvítasunnu, eða allt frá uppstigningardegi til hvítasunnu, þá var hvíldarlaus ofsastormur og oft kafaldshríð í sjó; verra veður kemur hér mjög sjaldan, en þá var, og aldrei verra á vordegi. Þó urðu hér í grennd ekki fjárskaðar, enda hvervetna vel að gætt, og gefið korn og kornmatur, þar sem hey voru þrotin. Strax þann 21. þ.m. brá til bata. og eru tún víða farin að grænka, enda mun nú alls staðar vera búið að vinna á þeim, og byrjað að yrkja matjurtagarða, og ganga þó votviðri öðru hvoru.

Júní. Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.

Jónas segir:

Fyrri partinn oftast við sunnanátt og talsverð væta; síðari partinn þurr oftast nær, þó oft við suðvestanátt með skúrum.

Austri lýsir góðri júnítíð eystra:

[10.] Veðráttan er viðvarandi hin indælasta og oft 15—17° hiti í skugganum um hádaginn.

[18.] Veðráttan nú aftur nokkru svalari, en beita grassprettuveður, því votviðri og þurrkar skiptast hagalega á fyrir gróðurinn, og er nú grasspretta orðin þegar eins mikil og í sláttarbyrjun mörg undanfarandi ár.

[25.] Tíðarfar má heita gott undanfarandi daga, en þó eigi mjög heitt.

Fjallkonan birti 14.júní bréf úr neðanverðri Rangárvallasýslu, dagsett 4.júní - þar segir af tíð og ágangi Þverár:

Veðráttan er hér nú mjög óhagstæð, hvíldarlaust landsynningsrok og kalsi. Vöruskip þau, sem eiga að komast að hér á hafnleysissvæðinu, verða að hrekjast úti fyrir. — Skip Stokkseyrarfélagsins lagði út frá Englandi 3.maí og kom undir Vestmanneyjar um lok (11.maí); en síðan hefir það verið að rekast fram og aftur hér fyrir landi. ... Hvíldarlausan usla og eyðileggingu gerir Þverá í Vestur-Landeyjunum; 11 jarðir eru komnar í eyði, þyrftu að vera 20; því engin er fyrirsjón á því, að vera við sumar þær, sem þó lafa í byggð. Sigurður gamli dannebrogmaður á Skúmstöðum má muna tvenna tímana. Má segja, að hann lifi nú sem fangi á eyðiey; kemst enginn að Skúmsstöðum nema á skipi, og það stundum við illan leik.

Þjóðviljinn lýsir júnítíðinni syðra:

[7.] Veðrátta köld og rosasöm enn, aðeins hlýtt er til sólar sér, sem ekki er oft.

[17.] Síðustu þrjá dagana hefir verið bjart og blítt sólskinsveður, og eru það góð umskipti, eftir dimmviðrin og suddana, sem lengstum hafa verið hér syðra í vor.

[22.] Síðan Þjóðviljinn var síðast á ferðinni hafa haldist þurrviðri, og sólbjartir dagar, en þó oftast kaldur norðan-andi, er sólar ekki nýtur.

[27.] Jarðskjálftakippur fannst í Landsveitinni í Rangárvallasýslu aðfaranóttina 15. júní. — Fólk vaknaði á flestum bæjum við hristinginn, enda hrikti í húsunum, og lausir munir færðust úr stað. ... Veðráttan er einatt mjög hagstað, daglega hreinviðri og sólskin, en þó sjaldan veruleg hlýindi, er sólar eigi nýtur.

Norðurland segir þann 4.:

Indælistíð er nú hvarvetna þar, sem til spyrst. Gróður er kominn meiri hér um slóðir en hann var hálfum mánuði til þrem vikum seinna á sumrinu í fyrra.

Norðurland birti þann 11.júní kvæði eftir G.F. (Guðmundur Friðjónsson?). Það heitir 17.maí 1904. Fyrsta og þriðja erindi hljóða svo:

Þessi vortíð freðna fætur
fengið hefir í páskagjöf;
förlast sól við fannarköf.
Hríðardagar, hörkunætur
hrista nú sín brynju-löf.
...
Fimm missira Fimbulvetur
farið hefir um Norðurland,
reitt um öxl sér beran brand.
Strandhögg varla stórum getur
stærri en hans, né meira grand.

Norðurland segir þann 18.júní:

Úti í fjörðunum vestan megin Eyjafjarðar eru skepnuhöld betri en áhorfðist um tíma. Fé hefir ekki fallið þar, svo orð sé á gerandi. — Þegar póstur var staddur í Siglufirði á mánudaginn var, var jörð ekki nema hálfauð í fremri hluta fjarðarins, og sagt að snjóskaflar á Skarðdalstúni væru þá enn 2—3 álna djúpir. Sumstaðar var ekki búið að vinna á túnum í Fljótum um síðustu helgi.

Júlí. Hagstæð tíð. Nokkuð úrkomusamt norðanlands framan af. Fremur hlýtt.

Jónas segir um júlítíð í Reykjavík:

Framan af mánuðinum var norðanveður í nokkra daga, en síðan má heita að verið hafi logn, með úða og því þerrilaust.

Austri segir frá júlítíð eystra í mjög stuttu máli:

[4.] Tíðarfar hið sama og undanfarandi, en heldur meiri þokur. [16.] Veðrátta nú síðustu dagana fremur vætusöm, svo töður liggja enn viðast úti. [23.] Veðrátta nú hin besta og skiptast á hitar og smáúrkomur og lítur vel út með töðuhirðinguna.

Þjóðviljinn segir af júlítíð syðra:

[1.] Tíðarfar einatt fremur hagstætt hér syðra, en dimmviðri all-oftast síðustu dagana. Grasspretta er þegar orðin allgóð hér syðra, svo að sláttur byrjar að líkindum í fyrra lagi. Reykvíkingar eru þegar farnir að slá smáblettina þar í kaupstaðnum.

[8.] Veðrátta fremur stormasöm og hlýjulítil nema þar sem sólar nýtur, grasspretta samt víðast hvar orðin í betra lagi, og allvíða byrjað að slá tún.

[14.] Blíðviðri og deyfa síðustu dagana.

[19.] Síðan síðasta blað kom út hefir verið ágætistíð hér syðra, norðanátt og sólskin.

[27.] Veðráttan er fremur hagstæð, en þó þurrkalítil.

Ingólfur segir frá þann 7.ágúst:

Eldur uppi. 15 júlí heyrðist duna mikil norður við Mývatn og í Reykjahverfi í Þingeyjarsýslu. Sama dag heyrðust dynkir austur við Djúpavog. Tveim dögum seinna, (sunnudag 17. júlí) féll aska þar eystra, svo að gerla mátti sjá á diskum er út voru bornir. — Ókunnugt er enn, hvar eldgosið er.

Þjóðólfur segir af tíð þann 29.júlí:

Veðurátta hefur verið allóþurrkasöm hér syðra meiri hluta þ.m., að vísu ekki stórrigningar, heldur oftast molluveður og þerrilaust. Það eru því sárfáir, sem enn hafa getað hirt nokkuð til muna af túnum, og margir alls ekkert, svo að til vandræða horfir, ef sama veðurátta helst enn nokkra hríð.

Norðurland hrósar júlítíð:

[23.] Tíðarfar hið ákjósanlegasta og grasvöxtur í besta lagi. Lítið vantaði á að bændur alhirtu nú tún sín þá dagana, sem þeir byrja slátt í lakari árum. Hvarvetna af landinu er að frétta árgæsku til sveita.

[30.] Tíðarfar hið ákjósanlegasta. Stöðug góðviðri og þurrkar lengstum þessa viku. Menn muna varla jafnlangan góðviðriskafla, síðan um hvítasunnu, að kalla má óslitinn. 

Norðurland segir 10.september:

Dynkur heyrðist í sumar um alla Þingeyjarsýslu 19. júlí, hálfum mánuði á undan landskjálftanum, sem getið er um í Norðurlandi í sumar. Hann var meiri að heyra en fallbyssuskot, og menn hafa spurnir af því, að hann heyrðist á svæðinu frá Fnjóskárdal og austur að Jökulsá á Fjöllum. Veður var heiðskírt.

Ágúst. Hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.

Jónas segir af tíð:

Fyrri part mánaðarins besta veður og þurrkur dag eftir dag, en síðari partinn rigning og það einkum um og eftir höfuðdaginn; oftast logn.

Austri segir í stuttu máli af ágústtíð:

[4.] Veðrátta hefir verið mjög hagstæð fyrirfarandi, svo töðuhirðing mun nú víðast lokið [13.] Tíðarfarið allaf hið besta og nýting á heyi má heita góð. [27.] Tíðafar hið hagfelldasta.

Þjóðólfur segir þann 5.:

Veðurátta frábærlega góð á Norðurlandi öllu og Austfjörðum og enn lengra suður, allt suður í Mýrdal, grasspretta góð og nýting þó enn betri. Það má því segja, að flest leiki nú í lyndi á Norður- og Austurlandi. En hér syðra er þvf öðruvísi háttað, því að enn haldast sömu óþurrkarnir, og töður því víða teknar mjög að skemmast. En rigningar eru samt ekki miklar, og veður blítt og hlýtt oftast, en þerrilaust.

Ísafold segir tíðarfréttir þann 6.ágúst:

Býsna-þurrkalítið. Töður varla nema hálfhirtar og liggja undir skemmdum, ekki síst vegna þess, hve heitt er í veðri. Grasspretta mikið góð að heyra hvarvetna. Mun og vera  þurrkasamara norðanlands og eystra. Meðal annars er Ísafold skrifað úr Suðurmúlasýslu 27. f. mán.: Nú nær hálfan mánuð hafa mátt heita brakaþurkar á hverjum degi, aldrei dropi úr lofti; áttin vestur og suðvestur.

Norðurland segir í pistlum þann 6.ágúst:

Hafís hafði verið fastur við Horn skömmu áður en Skálholt fór þar um. Þá kom færeyskt skip að ísnum, austan að, en varð að snúa frá og sagði frá ferðum sínum á Siglufirði. Af Skálholti sást til hafíssins frá því er lagt var út af Aðalvík til þess er Norðurfjörður blasti við. Fyrir Horni fór skipið gegnum íshroða, en aðalísinn var rúma mílu undan landi. Fæsta hefir víst grunað, í annarri eins tíð og nú er, að ís gæti valdið farartálma hér við land. ... Snjór er enn mjög mikill á fjöllum, sem Siglufjarðarpóstur fer um. Hann segir, að aldrei hafi verið þar jafnmikill snjór um þetta leyti árs — langir kaflar, þar sem ekki verður af snjó stigið — þrátt fyrir sífelda hita.

Þjóðviljinn birti þann 17.ágúst bréf frá Ísafirði, dagsett 6.ágúst:

[Tíð hefir] verið góð hér vestra, nema fremur óþerrasamt seinni part júlímánaðar, og það, sem af er þessum mánuði, að undanteknum 2—3 góðum þurrkdögum um mánaðamótin. — Nýlega fréttist, að Strandaflói hefði verið fullur af hafís um mánaðamótin, og af þeim leiða gesti hefir að líkindum stafað þessi svarta þoku-þvæla, sem verið hefir hér öðru hvoru.

Ingólfur segir þann 7. ágúst: „Veðrátta hefur nú lengi verið hin hagstæðasta á Norðurlandi og Austurlandi“.

Ingólfur segir af ís þann 28.ágúst:

Hafíshroði var nokkur austarlega á Húnaflóa er Ceres fór þar um 19. þ.m. þó ekki svo mikil að hann tefði verulega fyrir skipinu. Hitamælirinn komst niður í 1 1/2, meðan skipið fór í gegnum ísinn, en um kveldið er komið var út úr honum hækkaði hann í 6°.

Þjóðviljinn lýsir ágústtíð:

[11.] Sólbráð og besti þerrir síðustu daga, enda eru nú allir önnum kafnir að hirða hey sitt, sem lá við skemmdum eftir mollurnar sem verið hafa í margar vikur. [17.] Sólskin og besti þurrkur daglega. [24.] Sama einmunatíð, norðan andvari, sól og blíða. [31.] Veðrátta hefir verið fremur vætusöm um tíma, en þó ekki stórrigningar, enn sem komið er.

Þjóðviljinn birti þann 23.september bréf af Hornströndum, dagsett 12.ágúst:

Heldur vildi herða hér að hnútunum seinni part síðastliðins vetrar, og síðan bættust við vorharðindin, sífelldar kafaldshríðir, með frostnæðingum og grenjandi sjávarólgu, er stóð að kalla mátti samfleytt til fardaga, svo að eigi varð sagt, að veruleg sumarblíða kæmi, fyrr en með sólstöðum, og er slíkt mjög sjaldgæft, og varla, að menn muni jafn kalt vor í ísleysi; en síðan um messur má heita indælistíð, bæði til lands og sjávar, svo að grasspretta mun víðast hvar í meðal-lagi. — Eggja- og fugla-tekja hefir og heppnast í allgóðu meðallagi, nema hvað allt varð nú heldur seinna, en venjulegt hefir verið.

September. Úrkomusamt um mikinn hluta landsins, einkum síðari hlutann. Hlýtt.

Jónas segir:

Í þessum mánuði hefur rignt mjög mikið; má heita að varla hafi komið þurr dagur; hefur verið óhemjurigning síðustu dagana. Hinn 28.sept. varð hér vart við vægan jarðhristing um kl. 7 1/2 að morgni.

Austri segir af septembertíð:

[7.] Tíðarfar óstillt, í gær ákafleg rigning fyrri hluta dags.

[17.] Tíðarfar er nú orðíð all-haustlegt, kalt og rigningasamt.

[26.] Tíðarfar má nú heita mjög hagstætt á degi hverjum, hlýindi og allgóður þurrkur, svo menn ná nú sjálfsagt vel inn heyjum sínum, þurrka töluvert af fiski, sem er mikilsvirði, ... verðlag á honum er svo hátt; og gefur loks vel í fjallgöngum.

Þann 17. segir Vestri af hörmulegu slysi á Patreksfirði (sennilega ótengt veðri) - en látum þess samt getið:

Þriðjudaginn, 6. þ.m., vildi það hörmulega slys til á Patreksfirði, að bát frá fiskiskipinu „Bergþóra“ úr Reykjavík hvolfdi þar á höfninni með 13 manns á, er allir drukknuðu. Höfðu þeir verið að sækja ís og vatn í land, en sjór gekk á bátinn og færði hann í kaf.

Norðurland segir þann 10.:

Hvassviður mikið var á Siglufirði aðfaranótt mánudagsins var [5.]. Skip löskuðust mörg að sögn, en nákvæmlega hefir ekki frést af því tjóni, sem orðið hefir.

Þjóðviljinn segir mjög stuttlega af septembertíð:

[7.] Veðrátta óþurrkasöm og fremur köld. [19.] Veðrátta fremur vætusöm og rosaleg. [23.] Veðrátta sem fyrr óstöðug og rysjótt.

Þjóðviljinn birti þann 23.september bréf frá Ísafirði, dagsett þann 9.:

Aðfaranóttina 1. þ.m. gerði hér norðangarð, með allmiklu brimróti, og voru þá fjöllin með hvítgráa kollana að morgni, svo að mörgum þótti haustið heilsa í fyrra lagi, enda stóð ótíð þessi í fulla viku, og slotaði loks i gær. 

Vestri segir þann 29.:

Tíðarfar hefir mátt heita ágætt nú um langan tíma, að vísu hefir verið nokkuð úrkomusamt, — en hitar eins og best á vordag. 16. þ.m. kl. 4 1/2 e.m., kom hér sú helliskúr, er varði um 15. mínútur, að slíks muna elstu menn engin dæmi. Á svipstundu flóði öll „borgin“ í vatni og menn og málleysingjar, er lífsanda drógu, hlupu með æði og óhljóðum um „strætin“ þar til þeir fundu skýli.

Þann 11.október birti Þjóðviljinn bréf frá Ísafirði, dagsett 1.október:

Eftir að norðanveðrinu, sem stóð fyrstu vikuna í septembermánuði, slotaði loks 8. september, hélst bærileg tíð í 3—4 daga, en síðan gerði hálfsmánaðar suðvestan hvassviðri, með sífelldum blotum, eða stórrigningum, og loks kom svo ofsa-norðanhret síðustu daga septembermánaðar, er dyngdi niður miklum snjó, hæði á hæðum og láglendi. — Allur septembermánuður hefir því verið almenningi mjög óhagstæður, ekki síst þar sem menn hafa eigi getað leitað sér bjargar til sjávarins.

Október. Umhleypingasamt og mikil úrkoma syðra. Fremur kalt.

Jónas segir af októbertíð:

Hefur verið ýmist á útsunnan, ýmist á landsunnan, oft rokhvass með köflum; stöku sinnum hlaupið stutta stund í norður; yfirleitt hefur verið versta ótíð þennan mánuð.

Austri segir af októbertíð:

[3.] Tíðarfar nú nokkuð kólnað, en þó engir verulegir snjóar í fjöllum, og kýr fyrst nú teknar á gjöf. [9.] Tíðarfarið er nú fremur svalt. Frost nokkuð á hverjum degi en snjór lítill. [15.] Veðráttan nú hin hagstæðasta. [21.] Veðráttan er hin blíðasta á degi hverjum. Í gær var 14° hiti á R. [31.] Tíðarfar alltaf mjög blítt, á laugardaginn [29.] 10°R og autt upp í mið fjöll.

Ingólfur segir þann 9.: „Veðrátta hefur verið hagstæð um allt land í sumar og heyskapur orðið góður“.

Fjallkonan segir þann 11.október: „Blindbylur mátti heita hér niður á sjávarbakka á laugardaginn [8.]. Má því geta nærri, hvernig hann hefir verið til sveita“.

Ingólfur segir af sköðum í pistli þann 16.:

Veðrabálkur allmikill hefir verið nú um skeið. Gnýja vindar héðan og handan með hreggi og hafróti. Hefir farmönnum hlekkst á og brotið skip sín, en ekki hafa menn farist. — Er þess fyrst að geta, að kaupfar strandaði suður í Vogavík 2. þ.m. Það var fermt norsku timbri til Thorsteinssonar kaupmanns í Hafnarfirði. Formaður var Waardal, er stýrði „Reykjavikinni“ á fyrrum. — Þá strandaði Oddur litli, eimknörr Eyrbekkinga, aðfaranótt sunnudagsins 9. þ.m., suður í Grindavík. — Sömu nótt sleit upp kaupfar norskt á Brákarpolli og rak til lands. Braut það nokkuð og er talið ósjófært, enda fornt áður og hrörlegt. Bryggjur braut hér til skemmda á sunnudaginn var [9.] gekk sjór hátt um flóðið.

Þjóðólfur segir af veðri þann 21.október:

Veðurátta hér sunnanlands hefur síðan um miðjan f.m. verið afarill, aldrei komið þurr dagur að kalla má, en sífelldar rigningar, snjókoma og stórviðri. Vestanpósturinn, Árni Gíslason, sem kom nú í vikunni, sagðist aldrei hafa hreppt eins vont veður eða jafn illa færð í þessum mánuði, eins og nú. Það hafði verið umbrotaófærð á fjalllendi en hnésnjór á láglendi í Borgarfirði. Hefur og fé fennt sumstaðar, t.d. á nokkrum bæjum i Kjós, og er það fátítt fyrir veturnætur hér á Suðurlandi.

Þann 12.nóvember segir Vestri frá fjársköðum í október - en getur ekki dagsetninga:

Fjárskaði. 40 fjár hafði farið í sjóinn á einum bæ vestanvert á Snæfellsnesi í [október], og var það öll fjáreign bóndans. 30 af því rak yfir þveran Breiðaflóa [svo], á land á Barðaströnd, og á sama stað rak upp bát með árum um líkt leyti; menn héldu því fyrst að bátur hefði farist með fjárfarmi, en síðar fréttist að bát þennan hefði slitið mannlausan aftan úr öðrum bát, á Grundarfirði í Snæfellsnessýslu. Eitthvað af fé hafði einnig farið í sjóinn frá Hvalgröfum á Skarðströnd í Dalasýslu, því kindur þaðan fundust sjóreknar, en óvíst hve margt fleira hefir farist.

Þjóðviljinn lýsir októbertíð:

[11.] Tíðarfar einatt mjög óstöðugt, sífelldir stormar og rigningar, svo að ýmis haustverk bænda ganga eðlilega í seinna lagi.

[17.] Tíðarfar afar stórviðra- og rigningasamt, svo að um langa hríð hefir eigi komið sá dagur, er stillviðri hafi haldist til kvölds.

[24.] Eftir öll ókjörin, stormana og stórrigningarnar, sem gengið hafa hér syðra í haust, gerði loks stillviðrisdag 18. þ.m., með vægu frosti, og hefir tíðin síðan verið öllu skaplegri, og þó rosar og rigningar öðru hvoru.

[28.] Tíðarfar einatt mjög óstöðugt, kaldhryssingslegt og rigningasamt. — Hausrið yfir höfuð afaróhagstætt, bæði til lands og sjávar.

Norðurland segir 22.október:

Veðrátta hefir verið lakari fyrirfarandi tíma vestur undan en hér. Á Vatnsnesi hafði fennt eitthvað af fé, og víða í Húnavatnssýslu búið að taka fé til hýsingar.

Enn segir Ingólfur af slysi í frétt þann 23.:

Báti hvolfdi á Seilunni við Bessastaði í ofsaroki 13. þ.m. og drukknaði maður einn, er Jón hét Jónsson. Hafði nýlega flust hingað austan úr Holtum. Þrem mönnum öðrum var bjargað, þeim er á bátnum voru.

Ísafold segir þann 29.:

Hlýviðri hafa verið þessa viku, sem af er vetrinum; en hvass stundum. Haustið annars eitthvert hið versta. Hrakviðri og byljir. Sjaldan friður til að gera neitt úti. 

Austri birti þann 7.desember bréf úr Lóni, dagsett 28.október:

Sumarið er nú á enda, og hefir það hér um sveitir eigi verið svo hagstætt sem það var yfirleitt góðviðrasamt. Fyrst framan af var köld tíð og umhleypingasöm, en með hvítasunnu brá til rigninga og hlýinda og eftir það komu góðviðri og stillingar, sem héldust allatíð til höfuðdags, lengstum linir þurrkar og litlar úrkomur; en eftir það hefir veðráttan verið svo óstillt og svo mikið um úrkomur og umhleypinga að slíks munu fá dæmi, jafnvel hér í rigningasveitum. Grasvöxtur var í besta lagi, en nýting heyja í lakara lagi, og seinast urðu eigi allir að skilja eftir úti talsvert af heyi sem ónýttist með öllu, þó mun heyskapur hafa orðið í meðallagi.

Nóvember. Umhleypingasamt sunnanlands og vestan. Fremur kalt.

Jónas segir:

Mikil ókyrrð á veðrinu; hlaupið úr einni átt í aðra; oftast verið við útsuðrið með éljum; logn og svækjuþoka nokkra daga eftir 20; austanrigning mikil 28; genginn til norðurs um mánaðamótin og farinn að frysta. Hér er nú auð jörð, en talsverður klaki, sem kom um 20. og (21).

Austri segir af nóvembertíð og sköðum:

[10.] Tíðarfar hefir nú verið mjög úrkomusamt, og nú fallinn hér síðustu dagana mikill snjór, og hætt við að eitthvað hafi máski fennt af fé hér í fjörðum.

[18. - lýsing dagsett 17.] Tíðarfarið hefir verið mjög milt allan fyrri hluta vikunnar og góð hláka á hverjum degi, svo snjó er nú mikið tekið upp og líklega komin góð jörð i flestum sveitum hér austanlands. Ofsaveður af suðvestri gekk yfir allan ytri hluta Seyðisfjarðar aðfaranótt mánudagsins, þann 14.þ.m. Brotnuðu í veðrinu 2 bátar á Vestdalseyri. Þök fuku af heyhlöðum á Sörlastöðum og Hánefsstöðum og um 20 hestar af töðu, skúr fauk líka á Sörlastöðum. En á Eyrunum skekktist hið svokallaða Ólafarhús töluvert. Á Brimbergi sleit upp skektu, er bundin var niður á báðum stöfnum, svo eigi varð eftir nema stafnarnir.

[29.] Tíðarfarið hefir töluvert gengið til batnaðar og snjó tekið mikið, svo víðast mun nú næg jörð.

Ísafold segir þann 19.nóvember:

Vetrarbragur kominn nú á tíðarfar. Frost og fjúk þessa dagana, eftir langvinn þíðviðri og rosa. Mun hafa verið um 10 stiga frost í nótt (C).

Þjóðviljinn segir af nóvembertíð:

[7.] Tíðarfar all-oftast mjög óstöðugt, rigningar og hvassviðri nær daglega. — Jörð alauð, uns í gær snjóaði í byggð.

[12.] Tíðarfarið hefir í þessari viku verið nokkru hagstæðara, en að undanförnu, stillviðri, og væg frost, all-oftast, uns í gær sneri til landsunnanáttar, með éljum.

[19.] Tíðarfar hefir í þessari viku verið afar-óstöðugt, hellirigningar og ofsa-rok einatt öðru hvoru og í gær útsynnings kafaldshríð, svo að jörð varð
alhvít.

[25.] 19.—21. þ.m. var all-stinnur norðangarður hér syðra, með töluverðri frosthörku, allt að 8 stig R við sjóinn. — Síðan frostlin stillviðri og blotar.

Norðurland segir þann 26.nóvember:

Aðfaranótt laugardagsins hinn 19. þ.m. rákust fiskiskipin Samson og Talisman á, í ofsaveðri, á vetrarlægi skipanna, í svonefndri Krossanesbót. Skemmdir urðu töluverðar á báðum skipunum. Er óhætt að fullyrða að þær nema mörgum hundruðum króna. Ekki hefði svona farið ef þau hefðu verið í skipakví. 

Desember. Þurrt, nema syðst á landinu. Hiti í meðallagi.

Jónas segir af tíð:

Framan af mánuðinum var talsverður kuldi; úr 16. fór að hlýna, og hefur síðan verið hlýtt veður og oftast lygnt. Að morgni h. 27., laust fyrir kl. 5, varð hér vart við einn snöggan jarðskjálftakipp.

Austri segir af desembertíð:

[16. - lýsing dagsett þann 15.] Tíðarfarið hefir verið ákaflega stirt undanfarandi, fyrst snjókomur miklar, og síðan frosthörkur, og mun víða vera jarðbann. Mun líklega ekki veita af hinum góðu heybirgðum frá sumrinu, ef þessum harðindum heldur áfram. Síðustu daga samt frostlaust.

[31.] Tíðarfar fremur óstillt og frostasamt, en þó mun nú jörð uppi í flestum sveitum.

Þjóðviljinn segir af tíð:

[1.] Tíðarfar fremur umhleypingasamt í þessari viku, ýmist rigningar. eða væg frost, og stórviðri.

[9.] Í þessari viku hafa hér syðra haldist stillviðri all-oftast, og talsverð frost, allt að 11 stigum á R. Norðurljósin hafa að undanförnu leikið sér leiftrandi um himinhvolfið á kvöldin, og ætti enginn að neita sér þeirrar sjónar stutta stund.

[15.] Síðan síðasta nr. blaðsins kom út, hafa haldist stillviðri, og all-miklar frosthörkur, uns úr frostinu dró í gær.

[22.] Tíðarfar fremur hagstsett. — Síðustu dagana hæg votviðri.

[29.] Einkar mild veðrátta hefir haldist um jólin, og jörð öll marauð, enda getur naumast heitið, að snjó hafi fest á láglendi hér syðra þann tíma vetrar, sem liðinn er. ... Jarðskjálftakipp, all-snarpan, varð vart við að morgni 27. þ.m., kl. nær 6; munir hristust, en féllu þó ekki.

Vestri segir frá:

[17.] Pollinn allagði um fyrri helgi og fyrrihluta þessarar viku. Var það svo háll og spegil-sléttur ís að fágætt þótti. Hugðu margir gott til glóðarinnar, að skemmta sér á skautum þegar ísinn væri orðinn traustur, einkum ef hann héldist fram yfir hátíðar. En nú eru þessar vonir úti. Ísinn tók burt á einni nóttu og er nú Pollurinn alauður og engin von um skautasvell í bráð.

[31.] Jólaveðrið hefir verið aðdáanlega fagurt og skemmtilegt. Stillur, frostleysa og heiðríki með tunglsljósi, og minnast fáir að þeir hafi lifað skemmtilegri jól að því er veðrið snertir.

Þjóðviljinn birti þann 13.janúar 1905 bréf úr Árneshreppi á Ströndum, dagsett 11.desember:

Tíð hefir verið hér framúrskarandi vond, síðan viku eftir göngur, og öðru hvoru haglaust fyrir allar skepnur, síðan um veturnætur. Virðist tíðarfarið helst benda á, að hafísinn sé nálægur, enda þótt hann sé ókominn enn. — Mest frost voru hér 12 stig, um næstliðin mánaðamót.

Þjóðólfur birti þann 25.janúar 1905 bréf úr Austur-Barðastrandarsýslu, dagsett 28.desember:

Vorið næstliðna var ákaflega kalt og hríðasamt, og útlit illt um tíma með heybirgðir, en úr því rættist þó furðu vel. Þegar sumarið gekk í garð fyrir alvöru var veður hið indælasta dag eftir dag, snjóinn leysti, gróðurinn þaut upp í vorblíðunni og sólin sendi geisla sína til að endurlífga grös og jurtir og færa hina kæru fóstru vora í græna möttulinn og lífga allt, sem lifnað gat í skauti hennar. Grasspretta varð í betra lagi, og sumarið með staðviðrum sínum og sólbjörtu dögum átti sinn þátt í því, að heyafli bænda varð í betra lagi. Seinast í september skipti um veðuráttufar. Stormar, snjóar og illviðri skiptust á í allt haust og vetur, þar til eftir miðjan desember að brá til þíðu. Hagi er því hinn besti.

Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af árinu 1904. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 355
  • Sl. sólarhring: 358
  • Sl. viku: 1929
  • Frá upphafi: 2350556

Annað

  • Innlit í dag: 272
  • Innlit sl. viku: 1721
  • Gestir í dag: 258
  • IP-tölur í dag: 257

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband