Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019

Fyrsti þriðjungur maímánaðar

Fyrsti þriðjungur maímánaðar er nokkru kaldari heldur en allur apríl. Í Reykjavík munar þó ekki miklu. Meðalhiti fyrstu tíu dagana er þar 6,1 stig, +1,4 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og +0,5 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hiti dagana tíu raðast í áttundahlýjasta sæti af 19 á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2011, meðalhitinn var 8,6 stig, en þá kólnaði svo um munaði síðari hluta mánaðarins - eins og sumir muna vel. Kaldastir voru dagarnir tíu árið 2015, meðalhiti 1,7 stig. Á „langa listanum“ er hitinn nú í 46. til 47. sæti (af 142). Hlýjastir voru sömu dagar 1939, meðalhiti 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 1979, meðalhiti -1,0 stig.

Að tiltölu hefur verið mun kaldara um landið norðanvert heldur en syðra. Meðalhiti á Akureyri er aðeins 3,4 stig, þó ekki nema -0,1 stigi neðan meðallags 1961-1990, en aftur á móti -1,6 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á tæplega þriðjungi veðurstöðva, mest er jákvæða vikið á Keflavíkurflugvelli, +1,2 stig, en neikvætt vik er mest á Gagnheiði, -3,2 stig og -2,6 stig á Egilsstaðaflugvelli.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 10,2 mm, það er ríflega helmingur meðalúrkomu. Aðeins 0,7 mm hafa mælst á Akureyri um tíundihluti meðalúrkomu. Kulda sem þessum fylgja oft hríðarveður norðanlands, en ekki er hægt að tala um slíkt nú (enn að minnsta kosti). Loftþrýstingur hefur verið hár, aðeins tíu sinnum verið meiri sömu daga svo vitað sé (síðast 2010).

Sólskinsstundir hafa mælst 72,5 í Reykjavík, það er í ríflegu meðallagi.


Kaldara

Kaldara loft er nú á leið til landsins. Það er raunar ættað frá norðurströnd Síberíu - fer yfir Barentshaf og á að komast hingað. Löng leið - og að miklu leyti yfir sjó að fara. Loftið hlýnar því talsvert á leiðinni - en það verða samt einhver viðbrigði, sérstaklega sé miðað við stöðuna framan af síðustu viku. 

w-blogg060519a

Við sjáum hér stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin giskar á hana síðdegis á þriðjudag, 7.maí. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við höfum nú lengi verið inni í grænu litunum, jafnvel brá fyrir gulu (sumarlitur) á dögunum, en nú stefnir í nokkra bláa daga. Hér liggja mörk grænu og bláu litanna yfir þvert Ísland, en blái liturinn sækir á. Mesti kuldinn á þessu korti er rétt austur af Svalbarða. Þar er þykktin minni en 5100 metrar - sú minnsta á norðurhveli þessa dagana.

Hluti þessa kulda rennur nú til suðvesturs í átt til okkar og fer hjá eftir miðja viku - en hefur þá hlýnað nokkuð - þykktin fer vonandi ekki mikið niður fyrir 5180 metra þegar hingað er komið - og þá aðeins stutta stund. Óþarflega lág tala í maí - en langt í frá óvenjuleg. Meðalþykkt á þessum tíma árs er um 5340 metrar. Minnsta þykkt sem við vitum um yfir Keflavík í maí er 5040 metrar - það var í kuldanum mikla 1982. 

Það er út af fyrir sig ágætt að hreinsa eitthvað af leifum vetrarkuldanna burt af norðurslóðum - yfir á svæði þar sem fljótlegra er að hita loftið - en samt er alltaf leiðinlegt að verða fyrir honum. - En verra gæti það verið og vonandi verða köldu dagarnir ekki margir. Sólin hjálpar syðra. 


Óvenjulegur apríl í háloftunum

Eins og fram kom í pistli gærdagsins á hungurdiskum var það óvenjuleg staða í háloftunum sem færði okkur aprílhlýindin. Við skulum nú líta nánar á hana. Kortin eru úr smiðju Bolla Pálmasonar og evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg020519a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í apríl 2019. Litirnir gefa hæðarvikin til kynna - jákvæð (brún og bleik) og neikvæð (bláleit). Af legu hæðar- og vikalína má ráða vindáttir - og hversu óvenjulegar þær eru. Vikin gefa til kynna að suðaustanáttir hafi verið óvenjutíðar. Við getum með samanburði við fyrri ár sagt til um hversu óvenjulegt þetta er. Þá kemur í ljós að vindur hefur aldrei áður verið jafnsterkur úr austri í 500 hPa yfir landinu. Áreiðanlegar upplýsingar ná aftur til 1949, og alláreiðanlegar aftur undir 1920. Við sjávarmál hefur austanáttin hins vegar verið meiri 5 sinnum áður - mest var hún í apríl 1961.

Sama á við um austanáttina yfir Keflavík, hún hefur ekki verið meiri en nú í öllum þrýstiflötum upp í 200 hPa (11,5 km hæð). Þar fyrir ofan er nokkur viðsnúningur og þegar komið er upp í 30 hPa er svo komið að það er vestanáttin sem var óvenjuþrálát - hefur aðeins tvisvar sinnum verið þrálátari (frá 1973). 

Háloftasunnanáttin hefur aðeins þrisvar verið meiri í apríl heldur en nú, það var 2011, 2003 og 1974. Sama á við um sunnanátt við sjávarmál.

Meðalhæð 500 hPa-flatarins [yfir miðju landi] hefur þrisvar verið meiri í apríl en nú, (1929, 1974 og 1978), en meðalþykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur aldrei verið meiri en nú í aprílmánuði - litlu munar þó á henni í apríl 1974 og 1926 (eldra ártalið ekki eins áreiðanlegt hvað þykktarmatið varðar). 

w-blogg020519b

Næsta mynd sýnir þykktarvikin. Þau voru enn meiri við Norðaustur-Grænland heldur en hér á landi. Þar sem mest er var hiti í neðri hluta veðrahvolfs +8 stigum ofan meðallags áranna 1981-2010 og hitavik í 850 hPa um +9 stigum ofan meðallags sömu ára, en ekki „nema“ +3 til +5 stig yfir Íslandi. 

Þess má einnig geta að þykktarbrattinn yfir landinu (frá suðri til norðurs) hefur aldrei verið jafnlítill eða minni í apríl heldur en nú. Heimskautaloftið greinilega víðsfjarri.

Við skulum einnig athuga hvernig hiti mánaðarins hefur staðið sig í hinum ýmsu þrýstiflötum yfir Keflavíkurflugvelli. Taflan hér að neðan sýnir meðalhita í aðskiljanlegum þrýstiflötum, allt frá 925 hPa (i um 600 metra hæð) og upp í 30 hPa (í um 23,5 km hæð). 

röðafár mánflöturmeðalh
126201949251,3
26920194850-2,0
16920194700-9,4
16920194500-24,7
26920194400-36,3
366920194300-49,7
536920194250-54,1
606920194200-54,1
516920194150-52,1
546920194100-54,0
41472019470-56,3
44472019450-57,8
44472019430-57,9

Fyrsti dálkurinn segir frá því í hvaða hlýindasæti hiti flatarins í nýliðnum apríl er. Upplýsingar um meðalhita í 925 hPa-fletinum ná ekki lengra aftur en 26 ár, en í 850 til 100 hPa eigum við meðaltöl 69 ára, en færri ár fyrir efri fleti. Í fimm neðstu flötunum er hiti mánaðarins annað hvort hæstur eða næsthæstur á tímabilinu. Við sjáum að mikil skil eru á milli 400 og 300 hPa-flatanna. Hiti í 300 hPa var nærri meðallagi og uppi í heiðhvolfinu er hann greinilega undir meðallagi. Í efstu flötunum var aprílmánuður meira að segja meðal hinna köldustu. Eins og minnst var á í pistli gærdagsins er varlegt að ræða um hnattræna hlýnun í þessu samhengi - en kuldi í heiðhvolfi er þó líka almennur fylgifiskur hennar.  

w-blogg020519c

Til samanburðar skulum við líta á þykktarvik þriggja fyrri hlýrra aprílmánaða. Fyrst árið 2003. Þá var apríl nærri því jafnhlýr og nú hér á landi - en ekki nærri því eins hlýr og nú við Norðaustur-Grænland. Háloftavindar voru af suðsuðvestri en ekki suðsuðaustri eins og nú.

w-blogg020519d

Líkt var ástandið í apríl 1974. Þá var meðalhiti á landinu í heild lítillega hærri en nú, en ekki var eins hlýtt um landið norðan- og vestanvert og nú - og ekki heldur í háloftunum yfir Keflavík. Vestanátt var meiri í háloftum en nú.

w-blogg020519e

Að lokum er apríl 1926. Nokkuð óvíst að vísu, en vikin fyrir norðan býsnamikil. Vindur þó mun hægari í háloftum. 

Ekki eigum við áreiðanleg háloftagisk fyrir hlýjustu aprílmánuði 19. aldar t.d. hinn gríðarhlýja árið 1852. 


Meir af apríl

Apríltölur Veðurstofunnar ættu að koma annað hvort á morgun fimmtudag, eða á föstudaginn. Við getum þó fullyrt að þetta var hlýjasti aprílmánuður sögunnar í Reykjavík, Stykkishólmi, Bolungarvík og á Akureyri, næsthlýjasti apríl á Egilsstöðum og sá fjórðihlýjasti á Dalatanga, í 6. til 8. hlýjastasæti á Teigarhorni og því fimmtahlýjasta á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Á landsvísu var hann sá næsthlýjasti. Af röðinni getum við ráðið að metin eru sett þar sem ríkjandi vindátt stóð af landi - áttin var aðallega suðaustlæg. 

Allmikið var um mánaðarhámarkshitamet á einstökum stöðvum, en landshitamet aprílmánaðar var ekki í hættu. Met var m.a. slegið í Reykjavík eins og fram hefur komið í fréttum. Hiti mældist þar mest 17,1 stig þann 30. Þetta er mun hærra en eldra met, 15,2 stig, sem sett var 29.apríl 1942, en er samt ekki út úr myndinni á neinn hátt. Hiti hefur t.d. farið mest í 18,0 stig í borginni þann 7.maí (2006) og 20,6 stig þann 14.maí (1960). 

Í viðhenginu er listi yfir ný mánaðarhámarksmet sem sett voru í maí (aðeins stöðvar sem mælt hafa í 10 ár eða meira). Þar má einnig sjá lista yfir ný met hæsta sólarhringslágmarks aprílmánaðar (hlýjar nætur) - aprílmet var ekki slegið í Reykjavík. 

Hér að neðan er erfiður kafli - rétt fyrir flesta að sleppa honum bara.

Nú spyrja margir (eðlilega?) hvort þessi hlýindi tengist hnattrænni hlýnun á einhvern hátt. Því er að sjálfsögðu ekki hægt að svara á endanlegan hátt - veðurfarsbreytingar eru á margan hátt lúmskar. En vikin eru miklu meiri í mánuðinum heldur en hnattræn hlýnun ein og sér ber með sér. Líkur eru á að loftstraumar hafi einfaldlega verið óvenjuhagstæðir. 

Ritstjóri hungurdiska fylgist nokkuð með slíku og reynir að nota háloftavindáttir (og hita í neðri hluta veðrahvolfs = þykkt) til að giska á hita. Athugaður er styrkur suðlægra og vestlægra vinda, hæð 500 hPa flatarins yfir landinu og þykktin. Eindregin tilhneiging er til þess að hlýindi fylgi sterkum sunnanáttum, sterkar vestlægar áttir draga úr hita, en hæð 500 hPa-flatarins er vísir á það hvort loftið yfir landinu er af suðrænum uppruna eða ekki [loft getur verið af suðrænum uppruna án þess að mikil sunnanátt sé]. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hiti við jörð fylgir henni allvel - hann er þó að jafnaði nokkuð lægri heldur en hrár reikningur gefur til kynna. Það reiknaða samband þykktar og hita (í apríl) sem sýnt er hér að neðan er því eins konar meðaltal - víki hiti einstakra mánaða frá því hefur blöndun lofts að ofan verið annað hvort meiri eða menni í mánuðinum en venja er. 

Veðurfarsbreytingar ættu að raska þessum samböndum á einn eða annan veg. - Eini gallinn er sá að þau segja ekkert um það hvort breytt veðurfar breytir varanlega tíðni vindátta. Þannig er rétt hugsanlegt að hlýindin nú séu afleiðingar veðurfarbreytinga - en aðeins ef þær eru að breyta vindáttatíðni - það finnst ritstjóra hungurdiska einhvern veginn ólíklegt (en hann getur í raun ekkert um það fullyrt). Sömuleiðis hækkar 500 hPa-flöturinn á heimsvísu í samræmi við aukinn hita.

En lítum nú á það hver Reykjavíkurhitinn hefði átt að vera í apríl 2019 ef vindáttir (og hæð 500 hPa-flatarins) réðu eingöngu. 

w-blogg010519a

Ekki auðvelt fyrir óvana að lesa úr þessu - en hvað um það. Lárétti ásinn sýnir reiknaðan hita (þær sem vindáttir og hæð 500 hPa-flatarins segja til um), en lóðrétti ásinn þann hita sem raunverulega mældist. Apríl 2019 er sá hlýjasti á tímabilinu öllu sem hér er undir (frá og með 1949). Ártalið sést efst til hægri á myndinni - nær nákvæmlega við aðfallslínuna - ásamt hinum tveimur hlýjustu aprílmánuðum tímabilsins. Ekki þarf að leita frekari skýringa á hlýindum. - Eins og áður var nefnt hækkar 500 hPa-flöturinn á heimsvísu ef það hlýnar, hlýni um 1 stig hækkar flöturinn um 20 dekametra að jafnaði. Í þessu líkani skilar 20 dekametra hækkun flatarins 0,3 stiga hækkun á hita. Því má segja að séu áhrif hnattrænnar hlýnunar einhver á hlýindin nú felist þau í 0,3 stigum (af +3,6 stiga viki) - þau gætu því verið „tíundihluti“ hlýindanna nú (við notum gæsalappir viljandi). 

Eins og sjá má á myndinni er allur gangur á því hversu vel líkanið skýrir hita einstakra aprílmánaða og í heildina litið skýrir það aðeins um helming breytileikans frá ári til árs - en það er samt býsna mikið.

Þá er það þykktin.

w-blogg010519b

Hér sjáum við svipað - það er ekkert óvenjulegt við nýliðinn aprílmánuð, apríl 2019 er við aðfallslínuna. Stöðugleiki lofts víkur ekkert frá meðallagi. Hitinn er eins og hann „á að vera“ miðað við þykktina. Árið 2003 (ofarlega á myndinni) hefur blöndun hlýrra lofts að ofan verið betri en að meðallagi - og sömuleiðis 2013 (langt út úr hópnum til vinstri) - apríl það ár hefði eiginlega átt að vera sá kaldasti á tímabilinu - en hann var það ekki. Annað hvort er einhver galli í þykktargögnunum (rétt hugsanlegt), eða þá að blöndun að ofan hefur verið óvenjumikil (þar er alltaf hlýrra loft). Árið 1968 var staðan á hinn veginn - apríl var mun kaldari en hann hefði átt að vera. Stöðugleiki hefur verið mun meiri - kannski vegna hafísmagns.

Það er eins hér að hnattræn hlýnun boðar meiri þykkt - um 20 dekametra fyrir hvert stig hlýnunar. Hverjir 20 dekametrar gefa hér um 0,7 stig. 

Kannski hefur hnattræn hlýnun nægt til þess að koma hitanum nú upp fyrir aprílhitann 1974 - en á lítinn þátt í hlýindunum að öðru leyti. Niðurstaðan er sú að einstakir hlýir (eða kaldir) mánuðir segja ekkert um gang hnattrænnar hlýnunar - ekki frekar en hlýir eða kaldir dagar. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 289
  • Sl. sólarhring: 439
  • Sl. viku: 1605
  • Frá upphafi: 2350074

Annað

  • Innlit í dag: 258
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 255
  • IP-tölur í dag: 246

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband