Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2022

Lítið lát á

Eins og hér hefur komið fram áður hefur janúarmánuður verið heldur órólegur. Þó hefur lengst af ekki farið illa með. Mjög slæmir dagar hafa ekki verið margir, veðrakerfi hafa staðið mjög stutt við og flest þeirra hafa lítt náð sér á strik. Þó hafa fjórir dagar mánaðarins komist á óopinberan „ofviðralista hungurdiska“ - jafnmargir og komust á listann allt síðastliðið ár (2021). Árið 2020 var hins vegar illviðraár og þessir dagar voru þá 17 á árinu í heild. Meðaltalið á öldinni er 11 dagar á ári.

Við vitum ekki hversu lengi þessi ákafi háloftavinda yfir landinu heldur áfram. Enga reglu er að finna í því. Sé leitað að ámóta stríðum vestanáttarjanúarmánuðum og athugað hvað síðan gerðist er engin regla í augsýn. Stundum varð umsnúningur, stundum ekki. 

w-blogg270122a

Myndin sýnir norðurhvel jarðar. Smáar vindörvar sýna vindátt og styrk í 300 hPa-fletinum, en litir merkja þau svæði þar sem vindur er stríður. Guli liturinn byrjar þar sem vindhraði er meiri en 60 hnútar (um 30 m(s), grænir og bláir litir sýna enn meiri vindhraða. Við tökum eftir því að vindurinn liggur í strengjum - vindröstum. Fyrirferðarmest er svonefnd hvarfbaugsröst (kallast „sub-tropical jet“ á erlendum málum). Vindhraði í henni er reyndar mestur ofar, uppi í 250 eða jafnvel 200 hPa - þannig að við sjáum aðeins hes hennar á þessari mynd. Svo má heita að hún nái hringinn í kringum norðurhvel (og svo er önnur á suðurhveli). Bylgjur eru á þessari miklu röst, en þó mun minni heldur en á þeirri sem legið hefur nærri okkur mestallan mánuðinn. Hana köllum við ýmist heimskautaröst eða pólröst. Sumir nota orðið „skotvindur“ eða „skotvindurinn“ - ritstjóri hungurdiska hefur í sjálfu sér ekki neitt á móti því orði - nema hversu ógagnsætt það er í þessu samhengi - en það venst sjálfsagt. Gott væri að eiga skotvindinn á lager fyrir eitthvað annað fyrirbrigði - t.d. styttri rastir sem liggja neðar - ótengdar meginröstum. [En þetta er auðvitað þus í gömlum karli].  

Pólröstin liggur almennt neðar heldur en hvarfbaugsröstin, í 8 til 10 km hæð á okkar slóðum og hún sveiflast mun meira til norðurs og suðurs heldur en hin öfluga suðlæga systir hennar. Hún getur beint mjög hlýju lofti langt til norðurs - en köldu langt til suðurs. Loft er þó almennt „lítið hrifið“ af því að skipta um breiddarstig - og mótmælir slíkum flutningum með því að snúa upp á sig. Snúningarnir verða oft það miklir að röstin slitnar í sundur - hlýir hólar verða þá til norðan hennar, en kaldar (afskornar) lægðir sunnan við. 

Í þessum janúar hefur röstin ausið hverjum skammtinum af hlýju lofti á fætur öðrum frá vestanverðu Atlantshafi til norðausturs yfir Ísland og áfram, ýmist til norðausturs, austurs eða suðausturs. Kalt loft hefur hvað eftir annað þurft að hörfa undan til suðurs um Rússland og jafnvel suður á Miðjarðarhaf austanvert þar sem kalt hefur verið í veðri og venju fremur snjóasamt - jafnvel í lágsveitum. Svo er að sjá að það ástand haldi áfram.

Bylgjurnar á röstinni hafa verið mjög stuttar - þar með hraðskreiðar og lítt náð sér á strik sem stórar og miklar lægðir. En þó svo sé má litlu muna - þessir sterku háloftavindar geta teygt sig í átt til jarðar eða styrkt neðri vindrastir, líkt og gerðist hér í fyrradag (þriðjudag) þegar mjög hvasst varð á hluta landsins. Fleiri slík skammvinn áhlaup eru í kortunum næstu daga, þó varla nái þau til landsins alls. 

Kuldapollurinn mikli, sem við höfum stundum til hagræðingar kallað Stóra-Bola, hefur lítt haft sig í frammi hér við land í vetur fram að þessu, við þökkum bara fyrir það afskiptaleysi sem hefur valdið því að hríðarbyljir hafa verið færri en vænta hefði mátt í jafnáköfum umhleypingum um miðjan vetur. Er á meðan er, en rétt að fylgjast vel með hreyfingum kuldans - hann gæti fyrirvaralítið rásað í átt til okkar.

En lægðagangurinn heldur áfram - með ónæði. Mikilvægt er að fólk haldi áfram að hagræða seglum eftir vindi, hafa ferðaáætlanir milli landshluta sveigjanlegar og fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila.  


Enn af órólegri stöðu

Spurt var hvort óvenjuvindasamt hafi verið það sem af er janúarmánuði. Eins og venjulega fer svarið eftir því hversu kröfuharður sá sem svarar er á það hvað telst óvenjulegt og hvað ekki. Meðalvindhraði hefur verið í meira lagi fyrstu 24 daga mánaðarins, reiknast 7,7 m/s í byggðum landsins. Það er að vísu minna en í hitteðfyrra (2020) þegar meðalvindhraði sömu daga var 8,5 m/s, en það var líka það mesta á öldinni - og var þá sá mesti þessa sömu daga frá 1975 að telja. Vindhraði nú er sá næstmesti þessa daga á öldinni, en á því tímabili sem við getum auðveldlega reiknað (aftur til 1949) var hann meiri en nú 1998, 1995, 1994, 1991, 1983, 1975, 1969 og 1952. Við skulum þó hafa í huga að nokkur óvissa fylgir meðaltölum sem þessum. 

Meðalvindhraði og illviðrafjöldi haldast nokkuð í hendur - og teljum við aðeins þau tilvik þegar vindhraði er meiri en 20 m/s - og berum saman við önnur ár - er útkoman svipuð í keppnisröðinni, miðað við sömu daga (1. til 24. janúar) erum við að upplifa þá næststormasömustu á öldinni - en samt talsvert á eftir 2020.

En mánuðurinn er alls ekki búinn, heil vika, 7 dagar, eftir og illviðrin ekki búin. Þegar þetta er skrifað stefnir snörp lægð til landsins. Hún er ekki sérlega djúp, en nokkuð kröpp og spáð er töluverðu illviðri að minnsta kosti á hluta landsins á morgun (þriðjudag). Við látum Veðurstofuna auðvitað alveg um aðvaranir, tímasetningar og smáatriði öll - hungurdiskar eru ekki spámiðill. 

w-blogg240122a

Megi trúa spám verður lægðin einna snörpust rétt fyrir hádegi á morgun - evrópureiknmiðstöðin kemur henni fyrir á Breiðafirði um kl.9 á nokkuð hraðri leið til austurs eða austnorðausturs. Landsynningurinn á undan lægðinni kemur strax í kvöld og nótt - verður að sögn ekki mjög hvass - en hins vegar gæti vestanáttin í kjölfar lægðarinnar orðið það og rétt að gefa henni gaum. Litirnir á þessu korti sýna þrýstibrigði - þriggja stunda breytingu á sjávarmálsþrýstingi. Risið á Grænlandshafi sprengir litakvarðann - þar á loftvog að rísa um meir en 16 hPa milli kl. 6 og 9. 

Eftir þetta fer lægðin að grynnast - en sennilega ekki nægilega hratt til þess að við sleppum við storminn. Það er svo annað mál að norðvestanátt á erfitt uppdráttar við Faxaflóa - sérstaklega hann norðanverðan og verður oftast að þvervestri. Fólk á vegum úti, sjófarendur og aðrir sem eru nærri sjó ættu að huga vel að og fylgjast með veðri og spám. 

Svo er gert ráð fyrir því að einhvers konar skak haldi áfram svo langt sem séð verður. Ívið kaldara í fáeina daga - þá gæti eitthvað snjóað - en síðan fljótlega aftur hvass og blautur. 

Nóg að gera á vaktinni - sem og hjá veðurnördum. 


Tuttugu janúardagar

Meðalhiti fyrstu 20 daga janúarmánaðar í Reykjavík er +1,4 stig. Það er +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 8. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjast var þessa daga árið 2002, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2007, meðalhiti -2,5 stig. Á langa listanum er hiti nú í 33 sæti (af 150). Hlýjast var 1972, meðalhiti +4,7 stig, en kaldast 1918, meðalhiti -10,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +0,3 stig. Það er +1,1 stigi ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,5 stigum ofan meðallags síðust tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðaustur- og Suðurlandi, hiti þar raðast í 7. hlýjasta sæti aldarinnar. Kaldast hefur verið á Austfjörðum þar sem hitinn raðast í 12. hlýjasta sæti.
 
Miðað við síðustu tíu ár hefur að tiltölu verið hlýjast á Eyrarbakka. Þar er hiti +1,0 stig ofan meðallags. Kaldast að tiltölu hefur verið á Skagatá, þar er hiti -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma hefur verið mikil suðvestanlands, hefur mælst 106,6 mm í Reykjavík - hátt í tvöföld meðalúrkoma sömu daga, en ekki nærri meti þó. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 34,6 mm og er það um 80 prósent meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 8,9 í Reykjavík. Er það í tæpu meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 2,6.
 
Veður hefur verið mjög umhleypingasamt - oftar þó hlýtt en kalt. Í nótt (aðfaranótt 21.) fór hiti í 17,6 stig á Bakkagerði á Borgarfirði eystra, og 17,3 stig á Seyðisfirði. Þetta eru ný landshámarkshitadægurmet, slíkt met var einnig slegið í gær. Sýnist ritstjóra hungurdiska að þetta sé líka hæsti hiti sem mælst hefur á landinu bóndadaginn, fyrsta dag þorra. Þó þetta séu háar tölur eru þær þó lægri heldur en landshitamet janúarmánaðar, 19,6 stig, sett á Dalatanga 15.janúar árið 2000.

Snjóalagameðaltöl

Við förum nú í endurtekið efni (eins og fleiri fjölmiðlar) - en höfum þó endurnýjað það til síðustu áramóta (eitthvað nýtt má því finna).

Við reiknum meðalsnjóhulu hvers mánaðar á öllum veðurstöðvum. Tala hvers mánaðar eru prósentur. Sé jörð alhvít allan mánuðinn á veðurstöð er snjóhulan 100 prósent, sé alautt er hún núll prósent. Næst er reiknað meðaltal allra stöðva - og út kemur tala frá núll og upp í 100 (snjólagstala heils mánaðar á öllum veðurstöðvum landsins hefur reyndar aldrei orðið 100 prósent á því tímabili sem hér er undir). 

Þvínæst leggjum við saman öll mánaðarmeðaltölin. Væri alhvítt allt árið á öllum veðurstöðvum yrði útkoman 1200 - en núll væri alautt allt árið. Við sjáum nú að talan 100 jafngildir því að alhvítt hafi verið í einn mánuð á landinu, 200 að alhvítt hafi verið í tvo mánuði - og svo framvegis. Meðaltal áranna 1924 til 2021 er 347. Alhvítt er á landinu í um þrjá og hálfan mánuð. Á þessari öld er meðaltalið 311, um 36 lægra en 98-ára meðaltalið, og  46 lægra heldur en meðaltal áranna 1924 til 2000 - snjóhula hefur rýrnað um 14 daga eða þar um bil - miðað við það sem áður var. Við vitum að sjálfsögðu ekkert um það hversu viðvarandi þetta ástand er.

w-blogg190122a

En myndin sýnir hvernig einstök ár hafa staðið sig (súlurnar). Við sjáum að 2021 var í rýrara lagi hvað snjó snertir, en sker sig þó ekki úr. Rauða línan sýnir 10-árakeðju. Hún var lægri heldur en nú fyrstu ár aldarinnar. Minnstur var snjórinn þá árið 2003. Sömuleiðis var mjög snjórýrt um og upp úr 1960 - sem ritstjóri hungurdiska man hvað best - snjóhula áranna 1960 og 1964 var enn minni heldur en 2003. Aftur á móti var snjóþungt um 1950 og svo um 1980 - og alveg fram á tíunda áratuginn. Árið 1999 er það síðasta snjóþunga - 2008 teygði sig líka nokkuð hátt. Enga marktæka leitni er að finna sé litið til tímabilsins alls.

Flestir athugunarmenn líta einnig til fjalla og meta snjóhulu þar í um 500-700 metra hæð. Þó sjálfsagt sé mismikið að marka þessar athuganir gefa þær allar saman þó alltrúlega mynd.

w-blogg190122b

Ekki var byrjað að skrá fjallasnjóhulu fyrr en 1935. Fjallasnjóhulan fylgir allvel þeirri í byggð - en einstök ár skera sig þó aðeins úr. Árið í fyrra 2021 er t.d. ekki sérlega snjórýrt á fjöllum miðað við það sem oft hefur verið á öldinni. Meðaltal fyrir aldamót er 651, sex og hálfur mánuður. Meðaltal þessarar aldar er 632, um 10 dögum lægra heldur en hið fyrra. Mestur var snjór til fjalla á þessari öld árið 2015, en minnstur 2010.

En við verðum líka að spyrja hvernig snjóhula og hiti hafa fylgst að. Næsta mynd sýnir það. Hér bregðum við þó aðeins út af. Við reiknum snjóhulusummuna og meðalhitann fyrir það sem kallað er snjóár. Snjóárið byrjar 1.október, en endar 30. september. Ártöl eru hér sett við síðara ár meðaltals/summu.  

w-blogg190122c

Lárétti ásinn sýnir ársmeðalhita í byggðum landsins, en sá lóðrétti snjósummuna. Góð fylgni er á milli hita og snjóhulu. Reiknað samband gefur til kynna að hlýnun (kólnun) dragi úr snjóhulu sem nemur 23 alhvítum dögum á 1°C hlýnun (öfugt við kólnun). Fleira skiptir þó auðvitað máli. Þeir sem nenna að rýna í myndina (hún skýrist við stækkun) sjá t.d. að í efri jaðri punktadreifarinnar eru ár þessarar aldar nokkuð áberandi (frekar mikill snjór miðað við hita), en þau eru talsvert færri neðst í dreifingunni (frekar lítill snjór miðað við hita). Kannski dugar að bæta í vetrarúrkomuna til að halda snjóhulunni óbreyttri? Eins vitum við fyrir víst(?) að alls ekki er víst að það hætti alveg að festa snjó þótt hiti fari upp í 8 stig. Mynd sem þessi er því aðeins vísbending - sambandið gæti alveg breyst við hækkaðan hita (eða lækkaðan). 

w-blogg190122d

Síðasta myndin sýnir það sama og sú næsta á undan, nema hér er litið á snjóhulu til fjalla. Snjóárið 2013 til 2014 sker sig nokkuð úr - þá hefur verið mikill snjór í fjöllum - þrátt fyrir hlýindi - eins hefur verið snjóleitt umfram væntingar veturinn 1941 til 1942. Hér eru ár þessarar aldar ekki eins áberandi efst í punktadreifinni og var á fyrri mynd - aftur á móti tökum við eftir því að hafísárin svonefndu liggja flest hver neðarlega í dreifinni, snjór til fjalla hefur þá verið minni en vænta mátti miðað við hita. Þá var líka þurrt. Við vitum að sumir frostavetur fyrri tíðar voru sérlega þurrir. Líklega hefðu þau ár legið talsvert neðan línunnar, snjóhula mun minni heldur en vænta mætti miðað við hita. En - hafi slík mjög köld en snjólítil ár verið mörg hefði það áhrif á halla línunnar - og við teldum þá að aukin hlýnun myndi skila minni snjórýrð heldur en sú sem við reiknum hér að ofan. Við verðum að hafa margt í huga áður en við förum að trúa spágildum (allsherjarsannleiksgildum) tölfræðilegra sambanda. 

Ritstjórinn hefur auðvitað reiknað út ámóta raðir aðskilið fyrir Norður- og Suðurland - en lætur umræður um þá reikninga liggja á milli hluta að sinni að minnsta kosti.


Viðvarandi umhleypingar

Veður hefur verið harla órólegt það sem af er mánuði, sérstaklega var illviðrasamt fyrstu vikuna, en síðan hefur ekki verið alveg jafnhvasst þótt fjölmörg veðurkerfi hafi farið hjá. Helstu spár gera ráð fyrir því að litlar breytingar verði á. Stríð háloftavindröst á að liggja nærri landinu flesta daga, stundum óvenjuöflug. Það bendir til óróa í veðri - en ekki endilega mikilla illviðra en aftur á móti má mjög lítið út af bregða.

w-blogg170122a

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á morgun þriðjudag 18. janúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd í lit, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Oftast er hláka (alla vega við sjávarsíðuna) sé þykktin í grænu litunum og þeir gulu sýna mikil hlýindi - þá sjaldan þá ber yfir á þessum tím árs. Bláu litirnir eru kaldir - og þeir fjólubláu mjög kaldir - ná ekki oft hingað. 

Við sjáum á kortinu að jafnhæðarlínur eru mjög þéttar um Atlantshafið þvert - þar á meðal yfir Íslandi. Allmikil hæð hefur verið - og verður - viðloðandi suðvestur af Bretlandseyjum og beinir röstinni og bylgjugang hennar til okkar. Í dag gekk mjög hlýr hryggur yfir landið, hiti komst í 13,7 stig á Seyðisfirði - og í Grundarfirði var úrkoman þegar þetta er skrifað komin vel yfir 100 mm frá því um miðnætti. En hryggurinn fer hratt hjá og verður strax síðdegis á morgun kominn austur til Noregs - og bætir í bleytuna þar líka (rauð ör). 

Kaldara loft fylgir í kjölfarið og á þykktin að fara niður fyrir 5100 metra aðra nótt yfir Norðausturlandi - en bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru ámóta þéttar - og liggja samsíða þannig að vonandi verður ekki mjög hvasst. 

Næsti hryggur er síðan á leiðinni (hin rauða örin). Á morgun er hann að sækja í sig veðrið við Grænland og kemur síðan hingað með mjög hlýtt loft í farteskinu. Reiknað með að þykktin fari jafnvel upp í gula litinn (5460 metra) yfir landinu á fimmtudag eða aðfaranótt föstudags - um 18 stigum munar á hita neðri hluta veðrahvolfs í 5100 og 5146 metrum. Met virðast þó ekki í hættu - þó er landsdægurhámarksmet 20. janúar (fimmtudag) ekki „nema“ 14,1 stig - og því rétt innan seilingar. Met þess 21. (bóndadagur) er 14,9 stig - og því aðeins erfiðara. Ritstjóra hungurdiska sýnist í fljótu bragði að „bóndadagslandshámarksmetið“ sé 15,0 stig, sett 1991 - en þá bar bóndadag upp á 25. janúar (en án ábyrgðar).

Eftir að hryggurinn verður kominn hjá eigum við (sé að marka spár) að lenda beint undir gríðaröflugum hluta rastarinnar - og má þá ekki á milli sjá hvort hefur betur hæðar- eða þykktarbratti - gefi þykktarbrattinn eftir verður versta veður. 


Af árinu 1780

Það er rétt svo að ritstjóri hungurdiska hafi sig í að fara að lýsa veðri og veðurfari á 18. öld frá ári til árs. Að vísu hefur hann nú þegar birt lýsingar fáeinna ára, en löng er leiðin öll. Málið er líka það að finna má allgóðar lýsingar í annálum þeim sem Bókmenntafélagið gaf út (Annálar 1400 til 1800) og varla ástæða til að tyggja það allt upp. Þorvaldur Thoroddsen fór líka í gegnum þessa annála flesta (en ekki þó alla) auk þess að líta á ýmsar aðrar ritaðar heimildir. Samantekt hans á tíðarfari frá ári til árs má finna í riti hans „Árferði á Íslandi í þúsund ár“. Þetta rit er aðgengilegt á netinu. Varla er því sérstök ástæða til að endurtaka hinar ágætu samantektir hans. 

Á móti kemur að heimildir eru fleiri, Þorvaldur nýtir sér t.d. ekkert þær mælingar sem gerðar voru (þó hann hafi vitað af þeim flestum). Þessar mælingar, þótt ófullkomnar séu, gefa að sumu leyti fyllri mynd en hinar almennu lýsingar. Sama má segja um dagbækur frá þessum tíma - þær eru ekki margar - og flestar illlæsilegar - samt eru í þeim upplýsingar sem lítt hafa komið fram. Ritstjóri hungurdiska efast um að samantekt hans sjálfs úr annálunum yrði nokkuð betri heldur en samantakt Þorvaldar, en það má e.t.v. reyna að vitna beint í annálana (en ekki endursegja þá eins og Þorvaldur gerði) - og hið rafræna form hungurdiska hefur alltént þann kost að hægt er að láta allt flakka án prentkostnaðar. 

Það sem hér fer á eftir er eins konar tilraun - ekki endilega víst að henni verði fylgt frekar eftir. Kannski er þó rétt að ná inn árunum 1780 til 1785, örlagatíma Móðuharðindanna.

Árið 1780 voru nokkrir hitamælar og loftvogir í landinu. Samfelldar mælingar eru aðgengilegar úr Skálholti og úr Lambhúsum við Bessastaði þetta ár - og athyglisvert að bera þær saman. Í Lambhúsum athugaði Rasmus Lievog konunglegur stjörnuathugunarmeistari - en í Skálholti Helgi Sigurðsson konrektor. Sömuleiðis er til önnur veðurbók úr Skálholti, sem Hannes Finnsson biskup hélt, en ekki hefur ritstjórinn borið þær saman við athuganir Helga. Mælar Helga voru báðir innivið, hitamælirinn í óupphitaðri skemmu. Sést tregða skemmunnar allvel í mælingunum. Þetta hefur þrátt fyrir allt þann kost að sól skein aldrei á mælana. Hitamælir Rasmusar var hins vegar utandyra - sól gat skinið á hann að morgni dags - og e.t.v. gat óbein geislun frá jörð eða húsum haft einhver áhrif á hann á öðrum tímum. Sömuleiðis var mælirinn óvarinn fyrir úrkomu. Hefur það haft áhrif á mælingarnar stöku sinnum. 

Myndin hér að neðan sýnir mælingar þeirra beggja á árinu 1780. Helgi mældi aðeins einu sinni á dag (rauðir þríhyrningar á myndinni) - en Rasmus þrisvar - og veldur það óróleika Lambhúsferilsins (grá lína) - við sjáum allar mælingarnar. 

ar_1780t

Ánægjulegt er hversu vel mælingunum ber saman - undravert nánast. Fyrst tökum við eftir því að skemman er lengur að hlýna að vorinu heldur en mælir Rasmusar - sennilega hafa veggir hennar og þak borið í sér kulda vetrarins. 

Annars hefur þetta ekki verið sérlega kaldur vetur. Ákveðið kuldakast í kringum miðjan janúar - og síðan leiðindakuldi í kringum sumarmálin. Vorið fær þó mjög slæma dóma - og sumarið líka, einkum framan af. Mjög eindregið kuldakast er upp úr miðjum september og svalt með vetri - fram yfir miðjan nóvember. 

Giskað er á að ársmeðalhiti í Lambhúsum hafi verið 3,9 stig. Sumarið var kalt. Meðalhiti í júní ekki nema 7,0 stig, 9,0 í júlí og 9,4 í ágúst. Desember var hins vegar mjög hlýr, meðalhiti 3,2 stig og einnig virðist hafa verið hlýtt í febrúar, meðelhiti þá 1,8 stig. Mars kaldasti mánuður ársins, meðalhiti -1,4 stig. Einnig var kalt í apríl, meðalhiti 0,6 stig.

ar_1780p

Þrýstimælingum ber líka allvel saman (rétt þó að geta þess að fáeinar villur eru greinilega í skráningu úr handritum og hafa þær ekki verið leiðréttar hér). Við sjáum að fyrstu tvo mánuði ársins var ekki mikið um djúpar lægðir - eða mikinn háþrýsting. Mikið lægðasvæði er viðloðandi stóran hluta marsmánaðar (talað um fannir á góu) og aftur eftir miðjan október, en þá gerði mikið illviðri - sem stóð þó ekki mjög lengi. Þá tekur aftur við hærri þrýstingur. Mikið illviðri gerði 16.desember. Sumarþrýstingurinn er með allra lægsta móti - enda var víða votviðrasamt. 

Við skulum nú líta á það sem annálarnir segja. Hér er reynt að skipta þeim upp eftir ártíðum (sem ekki tekst alltaf). Ekki er tiltekið í hvaða bindi annálasafnsins hver annáll er - en aftur á móti er blaðsíðutal tilgreint. 

Vetur - annálarnir eru til þess að gera fáorðir um hann: 

Vatnsfjarðarannáll yngsti [vetur]: Vetrarveðurátta mikið góð frá nýjári og fram á einmánuð á Austur-, Suður- og Vesturlandi, en norðanlands ekki lengur en fram um miðþorra, ...

Úr Djáknaannálum [vetur]: Vetur yfrið góður á Íslandi frá nýári fram á góu. Gjörði mikla hláku og þíðviðri eftir miðþorra í 10 daga samfleytt svo snjólaust varð uppí háfjöll og sýndist grænka í hlaðvörpum. Kom skorpa með góu með hörkum, snjó og hríðum svo jarðbönn urðu í sumum sveitum, varaði þetta í 6 vikur frá 22. febr. til 6tta apr. Kom þá hagstæð hláka og góður bati. 

Höskuldsstaðaannáll [vetur]: Veturinn fyrir jól 1780 oftast með sterkum frostum, stundum hríðum og ógæftum til sjós, linari að veðuráttu um og eftir jól, oft þítt. Þorri stilltur og frostalítill. Á hans síðara parti 10 daga samfleytt (nótt og dag) þíðviðri. Þá kom með gói skorpa með sterkum frostum og hríðum, sem varaði í fullar 6 vikur, frá 22. Februarii til 6. Aprilis, svo jarðbann varð í miðju héraðinu og til dala, og varð útigangspeningi hey gefa. Þar eftir kom hagstæð hláka og góður bati og komust vermenn ei fyrr vestur aftur. 

Íslands árbók [vetur]: Gjörðist vetur í meðallagi vel lengi og ekki stóráhlaupum fram til gói, en upp þaðan tók til að þyngja með áfreðum og jarðbönnum.

Espihólsannáll [vetur]: Vetur allgóður sunnan og norðan lands frá nýári og fram í þorralok. Eins var austur um land.Ketilsstaðaannáll [vetur]: Vetur allgóður fram í þorralok, en úr því harðnaði veðrátt með hríðum, kuldum og umhleypingum.

Vor - hið versta hret upp úr miðjum apríl. Virðist hafa haft afleiðingar langt fram á sumar. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti [vor] síðan hret og köföld með frostum og kuldum miklum fram um (s396) fardaga. Þann 20. Apr., eður sumardag fyrsta, og næsta dag eftir, sem var bænadagurinn, gjörði soddan norðanstorm og stórkafald, að víða hraktist fé manna, fennti og fékk stóran skaða. Vorið var því mjög hart að segja yfir allt, þó helst norðanlands, þar snjór var ekki víða af túnum tekinn um Jónsmessu. Peningahöld hin lökustu og frábær harðindi meðal fólks, helst norðan- og austanlands. 

Úr Djáknaannálum [vor] Vor eitt hið harðasta í manna minnum frá sumarmálum til þess fram yfir Urbanum [25. maí] með sífelldum norðan- og austanstormum og sterkum frostum nætur og daga. Þá var í 12 daga bærilegt veður. Aftur kalt og þurrt fram til Jónsmessu, svo þá var snjór sumstaðar á túnum og í 11tu sumarviku var ei allstaðar búið að vinna á þeim í Húnavatnssýslu. 

Höskuldsstaðaannáll [vor] Aftur norðanfjúk í síðustu vetrarviku. (s573) ... Í  þeirri stóru sumarmálahríð [sem ekki er frekar skýrt frá í annálnum] varð skaði á skipum. Fiskibátur nýr í Höfðakaupstað fór í sjóinn. Sexæringur brotnaði þar, ei bætandi, og fleiri skip brotnuðu á Skagaströnd, þó bætandi. Kaupmanns nýja hús reif nokkuð til skaða á efsta þaki, og víðar varð nokkur skaði á hrossum og húsum. Þessi tvö skip sem fórust áttu danskir. Vesöld af bjargarleysi var að spyrja hvarvetna. Í sumum sveitum landsins fólk kennt við hrossakjötsát. Stór peningafellir sagður vera í austursveitum, ei síst á Skógarströnd, Helgafells- og Eyrarsveit, líka syðra og kringum Jökul, og þetta ei einasta á sauðfé, heldur og kúm. Í greindri sumarmálahríð hafði og orðið töpun sumstaðar á fé hrossum og skipum. Um vorið frá téðri sumarmálahríð gengu miklir sífelldir norðan- og austanstormar með sterkum frostum nætur og daga allt fram yfir Urbanum [25. maí] svo það var hið mesta kulda-, neyðar-, sultar- og hungurvor hjá allmörgum. Þá í 12 daga viðunarlegt veður. Aftur kalt og þurrt með náttfrostum. (s574) ... 

Íslands árbók [vor] En með sumarmálum gjörði allt um eitt, á sumardaginn fyrsta [20. apríl] gjörði hrakviður með bleytu, á föstudaginn sem var [Kóngs-] bænadagurinn, hið mesta stórviðri af austri með krepju, en á laugardaginn hina mestu snjóhríð úr hafi. Ruddi þá niður ógnasnjófönn. Í þessum hríðum misstu menn fé sitt í Vesturlandi sums staðar, sem keyrði út á sjó. ... Var þessi vetur hinn harðasti að spyrja yfir allt land og eins vorið kalt og gróðurlaust allt til Jónsmessu, so engir treystust að norðan eða austan að ríða til þings. ... 

Espihólsannáll [vor] Úr því harðnaði veðurátt og var hin bágasta yfir mikinn part landsins fram á messudaga eður til þess síðla í Junio með hríðum, kuldum og umhleypingum. Fyrir austan fennti víða fé um sumarmál, en í Ísafjarðarsýslu (s165) fyrir vestan og líka í Barðastrandarsýslu etc. Hrakti fé í sjó í þeirri sokölluðu sumarmálahríð. Víða  lá snjór á völlum fram um Jónsmessu, hvers vegna peningur varð gagnslaus norðan lands víða, og víða var ekki lokið vallarvinnu (að berja á og ausa tún) fyrr en í 12 viku sumars. Mestu bjargræðisharðindi voru nú víða um landið, so fólk neyddist til að lóga nautpeningi sér til bjargar, og af harðindum var þó allra bágast undir Jökli, hvar fólk leið stóran skort, og fáeinir dóu af hor og hungri. 

Ketilsstaðaannáll [vor] Þá gjörðust þau minnisstæðu austrænu sumarmála krapa- og snjóveður, er á lágu í full 6 dægur og sagt er að um land allt komið hafi. Hrakti þá fé víða í sjó í Ísafjarðar-, Barðastrandar-, og Strandasýslum fyrir vestan, en fennti í Múlasýslu, hvar jarðlaust var fyrir sauðfé og hesta fram í fardaga, en snjór lá á völl- (s446) um víða, svo norðan lands sem austan, fram um Jónsmessu, og sumstaðar var ei vallarvinnu lokið fyrr en í 11. og 12. viku sumars. Og til enn meira marks, hvað þetta vor hart verið hafi, er það að þann 27. Maii, þá sýslumaður Pétur Þorsteinsson hélt manntalsþing að Ási í Fellum, var hestís á öllu Lagarfljóti allt upp í fljótsbotn, og þann 10. Junii var það ennþá með hestís, þó varlegum, á Egilsstaðaflóa. Mikill sultur og seyra var þá víðast á landinu, svo fólk neyddist til að lóga naut- og sauðpening sér til bjargar, en þó var tilstandið bágast undir Jökli, hvar nokkrar manneskjur fórust af hungri. 

Sumar: Nokkuð misjafnt - greinilega talsverð hrakviðri, en skárra á milli. 

Vatnsfjarðarannáll yngsti [sumar og haust] Sumarið vætusamt, haustið mjög óstöðugt, með hretum og köföldum mitt í Septembri, sem oftast öðru hverju viðhélst allt til komanda nýja árs. (s397)

Úr Djáknaannálum [sumar] Fyrst sauðjörð í Fljótum um Jónsmessu; eftir hana brá veðráttu til sunnanáttar með votviðrum. Þá áleið sumar voru ákafleg úrfelli syðra og vestra. Haustið óstöðugt, komu fjúk snemma, viðraði stirt frá veturnóttum til jólaföstu, þá miklar hlákur svo allar ár voru þíðar. Af vorharðindum féll sauðfé hrönnum á Vesturlandi af megurð og nokkrar kýr, því allstaðar var mjög heylítið, einkum á Skógarströnd, Helgafells- og Eyrarsveitum. Hrossadauði nokkur syðra. Í sumarmálahríðinni hróflaðast líka af fé og hestum. 

Höskuldsstaðaannáll [sumar og haust] Haustið fyrir forgekk, að sagt var, nokkurt flutningaskip syðra. Um veturinn skiptapi 6 manna við Suðurnes. Tvö skip fórust í Ísafjarðarsýslu með 5 mönnum hvort um sig. Item skiptapi í Bervik 5 eða 6 manna. ... Kom sauðjörð upp fyrst í Fljótum um Jónsmessu (25. Junii). ... Grasvöxtur yfir allt kom seint, víða lítill, sumstaðar í meðallagi, á túnum betri en útengjum, þó víða í betra lagi. En heyin skemmdust sumstaðar, þar iðuglegur óþerrir var af suðvestanátt og stundum regn. Að austan var að spyrja (ei síður en að sunnan) ásamt fiskaflaleysi, að töður hefðu fúnað á túnum og ei hirt verið í 18. viku sumars. Viðlíkt að fregna úr (s575) Þingeyjarsýslu og Eyjafirði, en betra í Svarfaðardal og Ólafsfirði etc. (s576) ... Frá veturnóttum til aðventu stirð og óstöðug veðurátta og sjóbönn. ... Um Michaelsmessu sendi klausturhaldari á Reynistað ... tvo syni sína, Bjarna og Einar ... austur í Hreppa .. Með því þessara heimkomu móti von seinkaði enn nú, sendi hann í þriðja sinn tvo menn, sem fóru austur fjöllin, því þá gengu góðviðri og snjóleysur. Þessum var sagt, þá til byggða komu, að hinir hefðu upp á fjöllin lagt að austan laugardaginn þriðja í vetri (sem var 4. Novembris) með vel hálft annað hundrað fjár og (s578) hér um 20 hesta 5 menn að tölu. Hafa þeir farist í þeim krapahríðum og fjúkstormum, er þá uppkomu. (s579) 

Íslands árbók [sumar] Var gróðurlítið og næsta seingróið um sumar, heyja- (s97) nýting hin versta, bæði vegna hvassviðra, sem gjörðu mikinn heyskaða á túnum manna, so og óþerra, so hey lágu víðast úti um Michaelsmessu. Sama tilstand eður enn nú verra var að heyra úr Suðurlandi. ...  

Espihólsannáll [sumar] Þar eftir gafst gott sumar um tíma fyrir norðan og austan, en bágborið fyrir sunnan og vestan sökum óþurrka og regna, hvar af bæði töður og úthey víða skemmdust.

Ketilsstaðaannáll [sumar og haust] Sá efri partur sumarsins var góður allt fram að höfuðdegi, hvers vegna tún vel spruttu og hirtust, en víðast varð ei sláttur byrjaður fyrr en þann 7. Augusti. Eins og það grasvöxturinn varð á túnunum í betra lagi, svo varð og temmilegur á engjunum, en sökum óþurrka og regna, sem viðhéldu frá höfuðdegi og til veturnótta, varð það slegna, sem þá fyrst var farið að hirða, að litlum notum, sem nærri má geta, og sumstaðar fyrir norðan og vestan höfðu menn ei fengið tækifæri til að samanbera þennan heyfrakka (svo) fyrr en á jólaföstu. (s447) Laugardaginn fyrsta í vetri [21. okt] gjörði hríðaráhlaup fyrir vestan, sem viðhélst í 4 daga. Í því hrakti bát frá eyjunni Sviðnum og rak síðan á land undir Jökli með árum óbrotinn, en fólk, er á var hafði týnst ... (s450)

Haust - og vetur til áramóta. Mikið hret upp úr miðjum október - síðan öllu skárra. Þarna um haustið var hin ólukkulegi leiðangur sem kenndur er við Reynistaðarbræður farinn. 

Úr Djáknaannálum [haust] Um haustið fennti fé eystra en hrakti í sjó vestra. Sultur og hallæri syðra og vestra og þröngt um bjargræði nyrðra, svo sumum lá við uppflosnun. Nokkrar manneskjur dóu úr hor undir Eyjafjöllum og víðar. Grasvöxtur varð víða sæmilegur, þó seint kæmi, betri á útengi en túnum, en hey skemmdust víða af ákaflegum óþerrir, helst syðra og vestra, eins innkomin í garða, líka fyrir austan, hvar töður fúnuðu á túnum. Í Þingeyjarþingi og Eyjafirði lágu töður sumstaðar á túnum eftir Michaelismessu [29. sept.] og það innkomst þar skemmdist, svo að sumu var kastað út úr görðum og tóftum. Nokkuð betri nýting heyja var í Svarfaðardal, Ólafsfirði og Húnavatnssýslu. (s220) ...

Íslands árbók [haust] Um haustið bar svo til, að Halldór Vídalín, klausturhaldari að Reynisstað, tók fyrir sig að senda suðaustur í Skaftafellsýslu til fjárkaupa menn úr seinni sveit. ... þá skeði það óráð, [á bakaleiðinni] að þeir tóku sig upp á laugardaginn síðasta í sumri og lögðu upp á fjöllin. Þá var hér norðan lands mikið stórviðri á sunnan, so (s98) varla var hestfært, með regni og krepju, sem ætla má, að snúist hafi upp í snjóhríð og fjúk, er á leið, so þeir hafi ei enst til að rata frá sér vegin, og hér í Eyjafirði gjörði hið mesta hrakviðri, og menn, sem hér voru á ferð innsveitis, leituðu til bæja. (s99)

Espihólsannáll [haust] Sömuleiðis urðu og úti hey fyrir norðan og austan, þar menn urðu að hætta útheysönnum sökum íhlaupa og óveðra í miðju kafi og sumstaðar varð mikið hey undir snjó og sumir náðu fyrst því heyi á jólaföstu. Þá slógu nokkrir og heyjuðu á Langanesi norður, nokkrir drógu að sér ísastör. Vetrardag hinn fyrsta gjörði mikla hríð, og fennti fé norður um land. Aftur þann 16. Decembris kom mesta stormviðri með hríð, sem bæði skemmdi hús og hey, en braut skip manna sumstaðar. Þá varð úti maður við Stóruvörðu og Heljardalsheiði. (s166) 

Úr Djáknaannálum [Skaðar og slysfarir] Um vorið skiptapi í Höfnum syðra með 8 mönnum ... 1 í (s222) Dritvík 19da Apríl með 5 mönnum. 1 á Ísafirði með 14 mönnum, 1 á Hvammsfirði með 3 karlmönnum og 1 kvenmanni. ... Laugardaginn 1tan vetrar (21. Oct.) hraktist skip frá Sviðum á Breiðafirði, týndust af því 3 karlmenn og 1 kona. Skagastrandarkaupfar forgekk á útsiglingu við Buðlungavík austan til við Hornbjarg, tapaðist þar gjörsamlega fólk, skip og góss allt. ... Þann 19. Apr. urðu úti 2 kvenmenn og barn eitt í Mávahlíðarplássi, og Skafti Hallsson milli Ber- og Dritvíkur. Um haustið urðu úti á Kjalvegi 5 menn, sem lögðu frá Hamarsholti í Hreppum laugardag 3ja vetrar, 4ða Nóv. Með 1 1/2 hundrað fjár og 17 hesta og ætluðu norður. ... Enginn maður né skepna fannst lifandi aftur af  þessum hópi. [Þetta var leiðangur Reynistaðarbræðra]. Piltur einn lamdist til dauðs á Heljardalsheiði. (s223) ... Í sumarmálahríðinni 19da Apr. fór bátur í sjóinn frá Höfðakaupstað og 6æringur brotnaði þar og fleiri skip á Skagaströnd löskuðust. Þá reif kaupmannsstofuna þar, nýbyggða, svo að skemmdist þak hennar. Þann 16da Desember gjörði mikið útsynningsveður, brotnuðu þá 5 skip á Vatnsnesi og fleiri annars staðar; þá reif líka freðin hús og hey. (s224) 

Í árbókum Espólíns er stutt yfirlit um tíðarfar ársins - og helstu óhöpp og slysfarir. 

Árbækur Espólíns: XXIII. Kap. Eftir nýárið var vetur góður til gói, en þaðan af harðnaði, voru menn þá lítt staddir, þvíað kúpeningur var ganglítill, en sauðfé mjög fátt, sakir fjársýkinnar, en undan hafði farið, urðu nú og ill peningahöld, en vorið þungt fram á messur, svo bæði fennti sauðfé manna og hrakti í sjó, en nokkrir fáir dóu af megurð undir Eyjafjöllum. Um sumarmál og bænadag gekk yfir á Vestfjörðum kafaldshríð svo mikil, að drap sauðfé margt og nokkur hross; hrakti í sjó af einum bæ í Ísafjarðarsýslu 60 fjár, og öðrum 30, og drap 80 í Búðardal; týndist þá skip af Ísafirði með 4 mönnum, en hinn fimmti lifði, og brotnuðu tvö skip prestsins í Aðalvík, og eitt í Oddbjarnarskeri á Barðaströnd; tvö týndust eystra, var annað í Fáskrúðsfirði. (s 23).

Fiskafli var þá all lítill, en misfarir ýmsar; voru hvalrekar miklir fyrir norðan land. Voru góðviðri um hríð það sumar, og grasvöxtur í betra lagi. (s 24). XXIV. Kap. Það haust komu mikil áhlaupaveður, og braut skip, en fennti fénað víða; þá gjörði hríðarveður laugardaginn fyrstan í vetri, og stóð í 4 daga, hrakti skip frá Sviðnum vestra, og rak að landi undir Jökli óbrotið með árum en menn höfðu týnst af. (s 26).

Brot úr dagbókum Sveins Pálssonar – uppskrift Haraldar í Gröf [1779 til 1787]:

8-2 1780 (Í Skagafirði) Ógna stórviðri á suðvestan með regni reif hús
11-2 Gressilegt veður nótt - reif hús

5-4 mikill kuldi á sunnan gressilegt frost
7-4 gjörði blessaðan bata með hita og hlýju - sólskin
8-4 sama blessað blíðuveður
15-4 Norðan fjúk með frosti og rosa

1-5 yrja á norðaustan, kom ís á Eyjafjörð

12-6 fréttist til íss á hafinu
18-6 gott veður, vatnavextir
24-6 sár norðan kuldi með grimmd stórri

26-7 farið að slá hér

23-8 ei slegið hér fyrir hvassviðir á útvestan

14-10 þennan 1/2 mánuð hafa gengið mollur og þoka, stundum frost

26-11 þennan mánuð hafa verið að sönnu óstöðugt en ætíð bætt úr með góðri hláku

Færeyskur maður Nicolai Mohr dvaldist hér á landi veturinn 1780 til 1781 á vegum danskra stjórnvalda og leitaði að leir til postulínsgerðar. Þorvaldur Thoroddsen segir frá því máli í Landfræðisögu sinni, 3. bindi (s.61 og áfram í nýrri útgáfunni): Árið 1786 kom út bók um ferð hans: „Forsög til en Islandsk Naturhistorie“, Kaupmannahöfn, 1786. Bókin lýsir fyrst náttúrunni, dýrum, plötum og steinum. Síðan er eins konar ferðasaga og að lokum sérstakur (en sundurlaus) kafli um veður á þessum tíma. „Tillæg om Veirets Beskaffenhed samt Kulde og Varme“ (s384 og áfram). Bókina má finna á netinu. Mohr kom til Skagastrandar 7. ágúst og vakti athygli hans að snjóskafl var þar enn undir bakka í fjörunni - þó ofan á bakkanum hefðu jurtir blómgast og myndað þroskuð fræ. Mikið hefur skafið á Skagaströnd þetta vor. Við heyrum meira af Mohr - á árinu 1781. 

Ég legg veðuryfirlitið í viðhengi (á dönsku) - en þetta er það helsta:

Ágúst 1780: 8. til 11. blástur og skúrir, 12. til 15. stillt og heiðríkt veður, 10-12 stiga hiti. 16. til 18. mikil rigning, nokkur blástur. 19. lygnt, bjart og þægilegt. 20. stormur með miklu regni. 21. og 22. Skúraveður. 23. haglhryðjur með blæstri, 5 stiga hiti. 24. til 26. aftur fagurt veður. 27. þoka með regni og blæstri. 28. til 31. hægur og fagur. 10 stiga hiti.

September 1780: 1. til 11. aðallega hægur, stundum nokkur þoka 7. til 10. stig. 12. upphófst sterkur stormur af norðaustri með þéttri snjókomu sem stóð til 19. 4. til 7. stiga hiti. 19. til mánaðarloka. Lítill vindur, oftast stillt og bjart.

Október 1780: Sama fagra veðrið til 8. 9. til 11. ísing og snjór. 12. til 14. bjart veður og næturfrost. 15. til 18. þoka með regni og blæstri, 4 til 8 stiga hiti. 19. og 20. stormur, þétt snjókoma, 3 stiga frost. 21. hægur og bjartur, 5. stiga frost, þegar hallaði að nóttu var 4 stiga hiti. 22. og til mánaðamóta mest hægur, 4 til 8 stiga hiti.

Nóvember 1780: 1. og 2. blástur og regn. 3. stormur og snjókoma 2 stiga frost, 4. og 5. sama veður, 5 stiga frost. 6. þykkt loft og hægur vindur, 4 stiga hiti. 7. og 8. sama veður, 7 stiga hiti. 9. og 10. skarpur vindur 2 stiga frost. 11. þykkt loft 2 stiga hiti, 12. hægur, 6 stiga frost. 13. til 20. sama veður, 4 til 7 stiga frost. 21. og 22. blástur og snjókoma 2 stiga frost. 23. og 24. blástur með snjókomu 2 stiga frost. 25. og 26. blástur og rigning, 27. hægur 1 stigs frost. 28. og 29. hægur og bjartur, 6 stiga hiti. 30. blástur með þéttri snjókomu, 0 stig.

Desember 1780: 1. til 7. mest hægur og bjartur, 5 til 7 stiga hiti. 7. og 8. hægur og bjartur 3. stiga frost. 9. til 11. breytilegt loft, næstum logn 4 stiga hiti. 12. til 15. dálítill vindur fagurt veður 3 stiga frost. 16. kröftugur stormur af suðri, líkur fárviðri, á Ufsaströnd fuku tveir bátar út á sjó. 17. til 20. lítilsháttar vindur, fagurt veður 7 stiga hiti. 21. hægur 0 stig. 22. og 23. sama veður 3 stiga frost. 24. til 29. óstöðugt veður, 1 til 4 stiga hiti. 30. hægur og bjartur 6 stiga frost. 31. norðanblástur með þéttri snjókomu allan daginn.

Hér lýkur umfjöllun hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 1780. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir mestallan innslátt annála og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hálfur janúar

Fyrri hluti janúar hefur verið mjög umhleypingasamur. Fyrsta vikan var beinlínis illviðrasöm, en í þeirri næstu fór betur með - þó veðurlag afi verið órólegt. Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stig og er það +0,2 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, en -0,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 11 hlýjasta sæti á öldinni (af 22). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá +4,2 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti -2,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 52. sæti (af 150). Þessir dagar voru hlýjastir árið 1972, meðalhiti þá 5,9 stig. Kaldast var 1918, meðalhiti -9,5 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta janúar -0,3 stig, +0,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðurlandi og á Miðhálendinu. Þar er hiti í 10 hlýjasta sæti aldarinnar. Kaldast að tiltölu hefur verið á Norðurlandi eystra, þar raðast hiti í 14. hlýjasta sætið á öldinni.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast á Eyrarbakka, hiti +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Brú á Jökuldal, þar hefur hiti verið -1,4 stigum neðan tíuárameðaltalsins.
 
Úrkoma hefur mælst 86,6 mm í Reykjavík, rúmlega tvöföld meðalúrkoma (þó langt frá meti þó mikið sé), en 25,8 mm á Akureyri og er það um 70 prósent meðalúrkomu sömu daga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 7,8 í Reykjavík - og er það í meðallagi.

Sprenging á Kyrrahafi kemur fram á þrýstiritum um heim allan

Um kl. 4 síðastliðna nótt (að íslenskum tíma) (15.janúar 2022) varð gríðarleg sprenging í eldstöð við Tonga-eyjar á Kyrrahafi. Sprenging þessi olli flóðbylgju þar um slóðir og flóðbylgjuaðvörun var gefin út við strendur Kyrrahafs - allt austur til Bandaríkjanna. Sprengingin náði að hrista veðrahvörfin og heiðhvolfið svo um munaði og barst þrýstibylgja á hljóðhraða um allan hnöttinn (svipað og jarðskjálftabylgjur gera oft). Þessi bylgja kom fram á loftþrýstimælum um allan heim, þar á meðal hér á landi. Það var um laust fyrir kl. hálfsex nú síðdegis, um 13 og hálfri klukkustund eftir að sprengingin varð.

w-blogg150122a

Hér má sjá þrýsting á 10-mínútna fresti í Reykjavík og á Dalatanga. Þegar bylgjunnar varð vart reis þrýstingur ört, en féll síðan skyndilega þegar hún gekk hjá. Við þykjumst sjá að hún hafi komið nokkrum mínútum fyrr í Reykjavík heldur en á Dalatanga. Trúlega kæmi bylgjan enn betur fram með háupplausnarskráningu. Vegna þess að hún stendur svo stutt hittir hún misvel á mælitímann á hinum mismunandi stöðvum, týnist kannski nærri því á sumum, en kemur að sama skapi enn betur fram á öðrum. Sömuleiðis er bylgjan sjálfsagt ekki alveg hrein - í rauninni bylgjulest þar sem styttri bylgjur hníga og rísa á víxl. Sömuleiðis hittir hún um síðir sjálfa sig fyrir (komin hringinn) og getur þar orðið víxlverkun þannig að bylgjan styrkist eða dofnar. 

w-blogg150122b

Blái ferillinn sýnir hér meðaltal þrýstings á 50 veðurstöðvum á Íslandi nú síðdegis. Rauði ferillinn sýnir hins vegar meðaltal þrýstibreytingar 10-mínútna á þessum 50 stöðvum. Meðaltalið rís nokkuð skarpt um kl.17:20 en fellur hraðast um kl.17:50 - breytingin reiknast minni þess á milli - líklega vegna þess að tímamunur er á komu bylgjunnar austanlands og vestan. 

Nær Tonga-eyjum var tíðni þessa sprengihljóðs mun meiri - inni á heyranlega sviðinu. Síðan lengist bylgjan og lengist eftir því sem lengra dregur. Ekki er gott að segja hvort mælingar á 10-mínútna fresti á Tonga hafi sýnt bylgjuna á þennan hátt. Til þess hefur e.t.v. þurft sérstaka skynjara - slíkir skynjarar hafa verið notaðir hér á landi - ritstjóri hungurdiska veit að sprengingin sást einnig á slíkum mælum hér á landi - og má finna fréttir um það á öðrum miðlum. 

Viðbót 16. janúar kl.15:30:

Svo fór að bylgjan barst líka hingað „hina leiðina“ og kom sá hluti sem lengra hafði farið hingað rétt um kl.3 síðastliðna nótt. Myndin hér að neðan sýnir samanburð á þessum tveimur atburðum. 

w-blogg150122ia

Nú er spurning hvort við sjáum bylgjuna koma annan hring - ef það verður ætti það að sjást í kringum miðnæturbil í kvöld - eða skömmu síðar - og svo aftur um kl.10 til 11 í fyrramálið. En kannski er slíkt harla ólíklegt - jafnlíklegt að allt hafi jafnast út. 


Breyttir tímar

Þegar ritstjóri hungurdiska leit á veðurkortin í dag (hann gerir það nærri því alltaf) komu honum (rétt einu sinni) í hug þær miklu breytingar sem orðið hafa í veðurspám frá því um 1980 - þegar hann sjálfur var á spávaktinni. Reynt var (með mjög misjöfnum áragri) að gera tveggja daga spár - en mestur hluti tímans fór í spár sem aðeins giltu sólarhring fram í tímann. Tölvuspár voru að vísu farnar að berast til landsins á þessum árum, en maður varð sjálfur að teikna þær margar upp úr tölum sem komu frá útlöndum í sérstökum skeytum. Spár komu líka á „fax-i“ frá bresku og bandarísku veðurstofunum - stundum ágætar auðvitað - en oft ekki. Gríðarlegt stökk fram á við varð síðan haustið 1982 þegar spár fóru að berast frá evrópureiknimiðstöðinni og skömmu síðar uppfærðu bæði breska og bandaríska veðurstofan líkön sín svo um munaði - þá bættist annar sólarhringurinn við svo marktækt gæti talist - og sá þriðji birtist við sjóndeildarhring - það voru framfaratímar.

En fyrir þann tíma ríkti nær alltaf mikil óvissa þegar lægðir nálguðust landið. Skýjakerfin sáust á óskýrum gervihnattamyndum (þær komu 2 til 5 sinnum á dag - ef tækið var ekki bilað). 

w-blogg130122a

Myndin er frá því í dag, fimmtudaginn 13. janúar. Hér má sjá mikið skýjabelti - verður til í tengslum við háloftavindröst - sýnir okkur hvernig hún liggur. Neðarlega á myndinni má sjá lægð - hún stefnir í átt til landsins. Hér hefði ritstjórinn hiklaust sett bæði hita- og kuldaskil - og afmarkað mjög stóran hlýjan geira. Hann hefði hins vegar varla getað ákvarðað áframhaldandi þróun hans með vissu. Það hlaut að verða nokkuð ágiskunarkennt. Hversu langt norður komast hitaskilin? Fylgir þeim mikil snjókoma? Rignir síðan mikið - og hvar þá? Nær lægðin að dýpka? Er hún e.t.v. illrar ættar og dýpkar hún ofsalega? Fleiri upplýsingar lágu þó fyrir.

w-blogg130122b

Háloftaathuganir bárust nokkuð greiðlega til landsins - alveg vestan frá vestasta hluta Kanada og austur til Finnlands. Eitt verkefnanna á vaktinni var að teikna þrjú háloftakort tvisvar á sólarhring, fyrir 700, 500 og 300 hPa þrýstifletina. Jafnhæðarlínur voru dregnar á öll þessi kort. Jafnhitalínur líka á 700 og 500 hPa kortin, en vindrastir á 300 hPa - svipað og sýnt er á þessu korti sem gildir kl.18 í dag (fimmtudaginn 13. janúar). Á kortinu sjá vön augu að ekki er líklegt að lægðin fari í einhvern ofurvöxt - en háloftavindar eru stríðir og lítið má út af bera. 

w-blogg130122c

Á þessu korti má sjá sjávarmálsþrýsting kl.18 í dag (heildregnar línur) og þriggja stunda þrýstibreytingu (í lit). Um 1980 barst hingað slatti af skeytum frá farskipum á leið um Atlantshafið - verulegt gagn var af þeim. Þau gerðu mögulegt að greina þrýstisviðið og leita þrýstikerfi uppi. Auk farskipanna voru nokkur „veðurskip“ á föstum stöðum. Um 1980 voru veðurskipin Alfa, Bravó og Indía horfin, Bravó alveg, en í stað Alfa var veðurdufl sem loftskeytamenn Veðurstofunnar fylgdust með hljóðmerkjum frá. Alltaf spennandi að fylgjast með þeim skeytum. Þegar veðurskipin Indía og Júlía voru lögð af, kom skipið Líma í þeirra stað - sunnar en Indía hafði verið. Charlie og Metró voru enn á sínum stað eftir 1980. Sérlega vel var fylgst með skeytum frá Charlie - þaðan komu margar illskeyttustu lægðirnar. 

Hefði þessi staða sést 1980 - og lægðin fundist - hefði tekið við spennandi tími - engar fréttir af henni næst þar til þrýstingur færi að falla á Suðvesturlandi á undan lægðinni. Hversu ört yrði það þrýstifall? Lítið að gera nema bíða þess sem verða vildi - og vera fljótur að breyta spánni ef lægðin færi eitthvað öðru vísi en ráð var fyrir gert. 

Á móti allri þessari óvissu kom að kröfur til „óskeikulleika“ veðurfræðinga voru hóflegar. Alltaf var skrifuð spá - nokkuð hiklaust og án teljandi samviskubits - þrátt fyrir að margar þeirra þyrfti að éta með húð og hári - strax nokkrum klukkustundum síðar. En því er samt ekki að neita að þessar misheppnuðu spár voru harla þurrar undir tönn - en þær vel heppnuðu að sama skapi ljúffengar - og raunverulegur ánægjuauki. 

Þó margt sé orðið léttara eru nákvæmniskröfur miklu meiri, mun fleiri dagar undir og hlutskipti spáveðurfræðingsins ábyggilega þannig ekkert léttara en var fyrir 40 árum. Ritstjóri hungurdiska vildi alla vega ekki skipta - en þakkar bara auðmjúkur því ágæta fólki sem nú stendur vaktina - og þeim sem hafa unnið alla þá vinnu sem að baki nútímaveðurspám liggur. Veðurfræðingar ársins 1980 stóðu líka talsvert betur að vígi heldur en þeir sem voru í spám fjörutíu árum áður, árið 1940 - svo ekki sé talað um næstu 40 ár þar á undan - að ekkert var nema hyggjuvitið eitt - misjafnt að vanda.  


Fyrstu 10 dagar janúarmánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga janúarmánaðar er +0,3 stig, -0,5 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 13. hlýjasta sæti aldarinnar (af 22). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2019, meðalhiti þá +4,9 stig, kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti -4,7 stig. Á langa listanum er hiti nú í 64. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjast var 1972, meðalhiti +6,7 stig, en kaldast 1903, meðalhiti -7,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -1,2 stig, -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,8 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið kaldast á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar raðast hitinn í 17. hlýjasta sæti aldarinnar. Hlýjast hefur aftur á móti verið við Faxaflóa og á Suðausturlandi þar sem hiti raðast í 13. hlýjasta sætið.
 
Hiti er undir meðallagi síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum. Minnst er neikvæða vikið í Skaftafelli og í Öræfum, -0,2 stig, en mest -3,3 stig á Brú á Jökuldal.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 63,3 mm, meiri en tvöföld meðalúrkoma, og sú fjórða mesta sömu daga á öldinni. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 14,8 mm, eða um 70 prósent meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 7,2 í Reykjavík, svipað og í meðalári.

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband