Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

Á loftvogarvaktinni

Þótt hvassviðri séu leiðinleg getur verið gaman að fylgjast með hegðan loftvogarinnar í smáatriðum undir slíkum kringumstæðum. Á fyrri tíð voru engar tölvuspár og loftvogin mikilvægt spátæki - kvikasilfursloftvogir voru mjög óvíða til og spámenn notuðust við dósarloftvogir. Þær skástu gátu komið að miklu gagni - þá var bankað í vogina á 15-mínútna fresti (ef hreyfingin var mikil) og staðan rituð niður á millimetrapappír. Mátti þá sjá helstu þrýstikerfi fara hjá - jafnvel hin smæstu.

En nú segja tölvurnar okkur þetta allt fyrirfram - reyndar hafa þær ekki alltaf rétt fyrir sér og því síður eftir því sem þrýstikerfin eru smærri og lengra er spáð fram í tímann. Við lítum á 4 kort úr spárunu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi á mánudag 29. september. Þau sýna þrýstibreytingar næstu tvo sólarhringana. Þær eru býsna stórgerðar - miðað við smæð kerfanna.

w-blogg30914a

Fyrsta kortið gildir kl. 6 að morgni þriðjudags. Þá fer snarpasta kerfið hjá. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, þykktin er sýnd með daufum strikalínum en þrýstibreyting síðustu 3 klst. er sýnd í lit. Rauður litur sýnir þrýstifall, en blár þrýstiris. 

Lægðin litla fyrir suðvestan land er mjög kröpp, þrýstingur fellur um nærri 18 hPa þar sem mest er á undan henni. Enda er fárviðri sunnan við lægðarmiðjuna - sé að marka spána. Við virðumst ætla að sleppa að mestu - en þó slær landsynningsstrengur sér inn á landið um það leyti sem kortið gildir og næstu klukkustundirnar þar á eftir. Önnur lægð (sú sem olli illviðrinu í dag - mánudag) er vestast á Grænlandshafi og sækir aðeins í sig veðrið. Lægðirnar snúast nú í hring um hvor aðra - um einhverja sameiginlega miðju ofar í veðrahvolfinu. 

Næsta kort sýnir stöðuna kl. 21 annað kvöld (þriðjudagskvöld 30. september).

w-blogg30914b 

Hér er gamla lægðin (merkt 2) gengin í endurnýjun lífdaga og er á norðvesturleið rétt fyrir vestan land. Henni fylgir þrýstifall - ekki nærri því eins mikið og á undan morgunlægðinni - en samt -9,0 hPa á þremur klukkustundum. Það táknaði einhvern tíma stormstyrk (>20 m/s). Hin lægðin er hér á suðausturleið á hringleið sinni. 

Á næsta korti, en það gildir kl. 9 á miðvikudagsmorgni 1. október, er sú lægð (erfitt er að fylgja þessu eftir) komin upp að Vesturlandi.

w-blogg30914c

Hafa nú lægðirnar nærri því sameinast í eina. Ekki er verulegt þrýstifall á undan þessari hrinu - en þess í stað er ískyggilegt þrýstiris, tæp 12 hPa sem fylgir í kjölfarið. Svona nokkuð var á fyrri tíð enn óþægilegra heldur en þrýstifallið. Þrýstifall - þótt mikið sé - gefur smáaðdraganda að illviðrinu - ekki langan - en samt. Mjög mikið þrýstiris er oft ákafast strax eftir að það byrjar - þá skellur illviðrið einfaldlega á um leið og loftvog fer að rísa. 

Það róar okkur nokkuð nú á dögum að tölvuspárnar gefa miklu meiri fyrirvara heldur en loftvogin ein auk þess sem þær eru endurnýjaðar á ýmist 6 eða 12 tíma fresti. Spá reiknimiðstöðvarinnar í dag gefur sterklega til kynna að þrýstiórói sé yfirvofandi. Við vitum nú hvers konar lægðir eða önnur kerfi eru á ferðinni - og við hverju má búast - jafnvel þótt spáin gangi ekki eftir í smáatriðum. 

En svo áframhaldið? Síðasta kortið í þessari syrpu sýnir þrýstibreytingar á miðvikudagskvöld kl. 24.

w-blogg30914d 

Lægðirnar eru nú sameinaðar fyrir norðan land - en ný og mjög vaxandi lægð er suður í hafi. Þriggja stunda þrýstifall samfara henni er hér mest um 11 hPa - ekki sérlega efnilegt. 

Skyldu einhver veðurnörd enn stunda loftvogarbank? 


Lægðagangur

Nú kemur upp sígild veðurstaða. Við verðum í skotlínu illviðra - það er hins vegar ekkert sérstaklega verið að miða á okkur, tilviljun ræður mestu hvar verstu vindstrengirnir lenda - kannski sleppum við að mestu. 

En við lítum á veðurkort úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir það kl. 18 síðdegis á mánudag.

w-blogg290914a

Þetta er hefðbundið veðurkort. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum eru strikaðar og 6 klukkustunda uppsöfnuð úrkoma er sýnd með litum. Kvarðinn batnar við stækkun. 

Hin sígilda staða er sú að mjög djúp og víðáttumikil lægð nær fullum þroska nærri suðurodda Grænlands. Hún beinir mjög köldu lofti frá Norður-Kanada út yfir Atlantshaf - til móts við hlýjan loftstraum sem kemur úr suðvestri á norðvesturhlið Asóreyjahæðarinnar. 

Lægðin djúpa veldur sunnanstormi á landinu, mikilli úrkomu um landið sunnan- og vestanvert. Nýjar lægðir myndast nú á mótum hlýja og kalda loftsins langt suðvestur í hafi. Þessar lægðir eru eins mismunandi og þær eru margar - sumar litlar en aðrar allstórar eða stórar. Þær eiga það þó sameiginlegt að dýpka mjög snögglega og að veður í kringum þær er oft mjög hart. 

Lægð dagsins, við Suður-Grænland, er djúp miðað við árstíma - um 955 hPa í miðju. Þrýstingur hér á landi á enn eftir að mælast undir 950 hPa hér á landi í september [að því mun koma]. Loftið sem frá Kanada kemur er býsna kalt - við sjáum -15 stig í 850 hPa yfir Baffinslandi og að -5 stiga jafnhitalínan liggur í stórum sveig langt austur á Atlantshaf. Sömuleiðis sjáum við +15 stig þar sem rauða örin á myndinni byrjar. 

Lægðin litla suðvestur í hafi er hér mjög ört dýpkandi og reiknimiðstöðvar spá fárviðri sunnan við hana á þriðjudag. En hún er ekki stór um sig og því eru mestar líkur á því að við sleppum alveg við það versta. - En rétt er að fylgjast með textaspám Veðurstofunnar. 

Eftir að þessi lægð er búin að skila sér - gæti önnur komið í kjölfarið, kannski á fimmtudag - of snemmt er að velta vöngum yfir braut hennar, eðli og afli.  


Hitafar yfir Keflavíkurflugvelli síðustu sex áratugi - 3. áfangi

Í fyrri pistlum sömu fyrirsagnar var fjallað um hitafar í háloftunum yfir Keflavík síðustu sex áratugina rúma. Í fyrsta pistlinum litið á yfirborðsmælingar og í 850 hPa hæð, en í öðrum um hitafar í 700 hPa og 500 hPa-flötunum, í þriggja og fimm kílómetra hæð. Hitaþróun er ekki alveg með sama hætti í þessum hæðum öllum - en á það þó sameiginlegt að hiti hefur verið hærri á þessari öld heldur en á fyrstu árum þessara athugana og sérstaklega hlýrri en fyrir um 30 árum.

Nú förum við upp í 300 hPa og 200 hPa-fletina. Sá fyrri er nærri 9 kílómetra frá jörð (hæðin sveiflast þó mikið frá degi til dags), 200 hPa flöturinn er að jafnaði í um 11 kílómetra hæð. Hér á norðurslóðum er 300 hPa flöturinn í svipaðri hæð og veðrahvörfin - ýmist neðan eða ofan þeirra. Heimskautaröstin - aðalvindröst á okkar slóðum er oftast þar nærri. 

Fræðin segja að hlýnun í veðrahvolfinu af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa þýði að kólna muni í heiðhvolfinu - ef ekkert annað breyttist. Auðveldast er að gera sér þetta í hugarlund með því að gera ráð fyrir því að veðrahvolfið bólgni lítillega við hlýnunina - við það lyftast veðrahvörfin upp. Það sem lyftist kólnar.

Lægri flötur þessa pistils, 300 hPa eru nærri veðrahvörfum. Hlýnar þar eða kólnar? Það er ekki gott að segja - tilfærsla heimskautarastarinnar getur ráðið jafnmiklu um þróun hitans. Efri flöturinn, 200 hPa er nærri því alltaf ofan veðrahvarfa hér við land. Skyldi hafa kólnað þar á síðustu áratugum?

Fyrri myndin sýnir hitaþróun að vetrarlagi (miðað við desember til febrúar). Daufgrá lína sýnir meðalhita vetrar frá ári til árs í 300 hPa, en þykkdregin lína sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. Grænar strikalínur sýna vetrarhita í 200 hPa en þykkdregin græn lína sýnir 10-ára keðjumeðaltöl. 

 w-blogg250914d

Vinstri kvarðinn sýnir hita í 300 hPa - en sá til hægri vísar til 200 hPa-flatarins. Eins og sjá má munar ekki nema um 4 stigum á meðalhita í flötunum tveimur. Vetrarhiti í 300 hPa virðist ekki hafa breyst mikið á síðustu 60 árum - en greinilega hefur kólnað í 200 hPa. Aðalkólnunin átti sér stað á 8. áratugnum - en ekki nýlega. 

Síðari myndin sýnir sumarástandið - merkingar eru þær sömu, nema hvað á kvörðunum er nú 1 stig á milli merkinga - en eru 2 stig á myndinni að ofan.  

w-blogg250914c

Á sumrin hefur kólnað nokkuð hratt á 8. áratugnum í 200 hPa - rétt eins og á vetrum. En hér er hitinn á almennri niðurleið allan tímann í báðum flötum. 

Allt sem við höfum séð til þessa er samrýmanlegt hugmyndinni um veðurfarsbreytingar af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa. Tímasetningar eru þó ekki auðskýranlegar. Fleira gæti ráðið jafnmiklu eða meira um hitaþróunina - t.d. breytingar á vindáttum - eða breytingar á legu eða styrk heimskautarastarinnar. Rétt er að draga ekki of miklar ályktanir - ástæðurnar hafa ekki verið negldar niður og enn verður að árétta að ósamfellur geta leynst í gögnunum og ekki fullvíst að þróunin hafi verið nákvæmlega svona í raun og veru.

Einn eða tveir pistlar til viðbótar í sama efnisflokki bíða birtingar.  


Lægðir gerast skæðari

Dæmi finnast um illviðri af fullum vetrarvindstyrk í september - en algeng eru þau ekki. September í ár hefur að mestu sloppið við skæð veður, stormdagar í byggð hafa að vísu verið níu en enginn þeirra hefur náð máli. Stormur hefur mest orðið á sex byggðarstöðvum sama daginn - það er ekki mikið.

En nú er staðan þannig að spár eru farnar að sýna lægðir sem bíta. Vonandi sleppum við samt við bit þeirra - alla vega virðumst við sleppa alveg við mjög krappa lægð sem á að fara hratt til austnorðausturs skammt fyrir suðaustan land annað kvöld (laugardagskvöldið 27. september).

Lítum á vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl. 21 á laugardagskvöld.

w-blogg270914a

Hér er lægðin skammt suður af Öræfum. Nú er auðvitað óvíst hvort spáin hittir rétt í - en auðvitað eiga hagsmunaaðilar að gefa textaspám Veðurstofunnar gaum þar til lægðin er gengin hjá. 

Vindátt er sýnd með örvum - því lengri sem þær eru því meiri er vindhraðinn. Vindhraði (10-mínútna meðaltal) er líka sýndur í lit, kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Á rauðleita svæðinu er spáð meiri vindhraða en 24 m/s - tíu vindstigum eða meir. Athuga ber að spáin gildir aðeins kl. 21 - fyrr um kvöldið er rauða svæðið vestar og síðar verður það komið austar. Við sjáum líka smátt brúnleitt svæði, þar er vindur meiri en 32 m/s - 12 vindstig eða fárviðri. 

Á kortinu má einnig sjá hvítar heildregnar línur. Þær gefa hámarkshviðu næstliðna klukkustund til kynna - jafnhámarkshviðulínur (heldur langt orð). Innsta línan sýnir 45 m/s og í gulum ferningi má sjá 49 m/s. Hreint ískyggilegar tölur yfir opnu hafi - svona tölur sjást alloft í bylgjubrotum við há fjöll - en sjaldnar úti á sjó. 

Vindurinn er miklu sterkari sunnan við lægðarmiðjuna heldur en norðan hennar. Slíkt er algengt í lægðum sem dýpka með aðstoð heimskautarastarinnar og fá snúning sinn úr niðurdrætti hennar á veðrahvörfunum. En ekki meira um það að sinni.  


Hitafar yfir Keflavíkurflugvelli síðustu sex áratugi - 2. áfangi

Í fyrri pistli var fjallað um hita á Keflavíkurflugvelli og í um 1400 metra hæð yfir honum frá því skömmu eftir 1950. Nú verður litið aðeins ofar í lofthjúpinn, upp í 700 hPa og 500 hPa fletina. Fyrrnefndi flöturinn er í tæplega 3 kílómetra hæð en sá síðarnefndi í rúmlega 5 kílómetrum - er þá komið upp í mitt veðrahvolf - eða rúmlega það. 

Meginatriði hitans á stöðinni og í 850 hPa var mikil hlýnun eftir 1985 - hátt í tvö stig á vetrum sé miðað við 10-ára meðaltöl. Áður hafði kólnað nokkuð - við jörð byrjaði kólnunin strax á hafísárunum svonefndu (1965 til 1971) - en sú kólnun var talsvert minni suðvestanlands heldur en í flestum öðrum landshlutum. Hafískuldans gætti ekki alveg eins mikið í 850 hPa og við jörð og 10-ára meðaltalið náði hámarki uppi á árunum 1962 til 1971, en 1956 til 1965 niðri. 

Sumarhitinn var einnig í lágmarki um 1980 - en hækkaði mun meira eftir það heldur en hann hafði lækkað áður.

En hvað gerðist í 3. og 5. kílómetra hæð? Fyrri myndin sýnir vetrarhitann. Við notum hér alþjóðaveturinn (desember til febrúar). Það er gert vegna þess að í efstu flötunum sem við lítum á í þessari pistlaröð er vetri farið að halla í mars. 

w-blogg250914a 

Gráu ferlarnir vísa til 700 hPa-flatarins og það gerir kvarðinn til vinstri einnig, strikaðar línur einstök ár, en breiðari línan sýnir 10-ára meðaltöl. Meðaltölin eru skráð á síðasta ár hvers 10-ára tímabils. Grænu ferlarnir sýna hita í 500 hPa á sama hátt - hér er það kvarðinn til hægri sem gildir.

Það sem fyrst má vekja athygli er að hafísárakuldinn sést alls ekki - kaldara er á vetrum fyrir 1960 heldur en á sjöunda áratugnum. Það er hinn frægi hlýindavetur 1964 sem rís lengst upp. Þess má geta í framhjáhlaupi að hafísárakuldinn sést líka illa eða ekki í samsætumælingum úr borkjörnum Grænlandsjökuls. Við verðum að hafa þessa vitneskju í huga þegar mælingar úr grænlandsborkjörnum langt aftur í tímann eru túlkaðar sem mæling á hitafari einstakra ára eða stuttra tímabila hér á landi. 

Frá og með 1974 kólnar verulega, 10-ára meðalhiti í 700 hPa hrapar um hátt í 2 stig og litlu minna í 500 hPa. Eftir 1985 hækkar hitinn aftur - hægt í fyrstu - en síðan mjög ákveðið upp úr aldamótum og hefur síðan þá verið mjög hár - en ekki þó hærri heldur en í fyrra hámarki. Þetta síðara hámark er þó orðið lengra en það fyrra. 

Þá er það sumarið, júní, júlí og ágúst á sama veg.

w-blogg250914b 

Þessi mynd er ólík hinni fyrri. Hér sést kuldi á hafísárunum - en síðan hlýnar hratt fram til 1985 [0,8 stig í 700 hPa og um 1,0 stig í 500 hPa]. Síðan þá hefur hlýnað um 0,5 stig í 700 hPa, en heldur minna í 500 hPa. Í 500 hPa eru sumrin 1995 og 2010 hlýjust. Þetta er býsna ólíkt því sem er niður við jörð. 

En getum við treyst þessum mælingum? Mjög líklega er ósamfellur að finna í þeim - aðeins spurning hvenær og hversu mikið. Háloftakannar hafa breyst mjög á tímabilinu sem og fleiri atriði mælinganna. Hin ólíka hegðan sumars og vetrar - og gott samband mælinga í 850 hPa og niður við jörð auka þó traust okkar. En frekari úrvinnsla gæti breytt myndunum. 

Það sem ritstjórinn er hræddastur um er að endurgreiningar stóru reiknimiðstöðvanna muni verða látnar valta yfir mælingarnar - taldar réttari. Sú er tilhneigingin. Það er auðvitað hið besta mál þegar mælingum og reikningum ber saman í stórum dráttum.

Í næsta háloftapistli verður litið á hitafar í 300 og 200 hPa-flötunum yfir Keflavíkurflugvelli á sama tímabili.  


Smávegis um sumarhita á Skálafelli

Við lítum á sumarhita á Skálafelli í tilefni umræðu um skaflinn í Gunnlaugsskarði, en varla er annað að sjá en hann lifi sumarið 2014 af. 

Hitamælingar hafa verið gerðar á Skálafelli austan Esju frá því vorið 1996. Þetta er erfiður staður til veðurmælinga. Gríðarlegur vindur er algengur og auk þess oft mikil ísing. Samt er mesta furða hvað hitamælingarnar eru heillegar. Fáeinir vetrarmánuðir hafa þó dottið alveg út og stöðin var samfellt í ólagi frá því í júní 2009 þar til seint í júlí 2010. Sumur þeirra tveggja ára vantar því í mælingarnar.

Taflan hér að neðan sýnir meðalhita mánaðanna júní til ágúst (sumarh) í °C, fjölda athugana þegar hiti var meiri en 10 stig (t>10) og hitasummu ofan 10 stiga (sum>10). Klukkustund þegar hiti mælist 11 stig fær telst eitt summustig, klukkustund með 20 stiga hita fær 10 summustig. Neðst er lína með meðaltali tímabilsins.

árt>10sum>10sumarh
199699146,05,01
1997177448,05,47
1998104137,45,81
1999214559,95,37
2000166356,95,47
20011511,54,69
2002111203,75,20
2003229578,06,93
20042391007,46,41
2005148271,25,38
200688113,15,09
2007177235,66,04
2008213652,46,14
2009   
2010   
2011124167,35,29
2012266428,66,70
2013156537,95,10
20146165,65,95
    
með152348,35,65

Hiti mánaðanna júní til ágúst 2014 var 0,3 stigum yfir meðallagi allra áranna. Aftur á móti var fjöldi athugana með hærri hita en 10 stigum ekki nema 61, 91 færri en í meðalsumri. Þetta er næstlakasta sumar tímabilsins hvað þetta varðar (2001 var enn slakara). Einnig er sérlega athyglisvert hversu lág summan er, 307,7 stigum undir meðallagi (líka næstlægst). 

Á Skálafelli var júnímánuður hlýjastur mánaðanna júní til ágúst, í Reykjavík var hann kaldastur þeirra. Júnímánuður 2014 var reyndar hlýjasti júní sem mælst hefur á Skálafelli (athuga að 2009 og 2010 vantar). Meðalhitinn var 6,2 stig.

Svo geta menn velt vöngum yfir þessum tölum og lífi Gunnlaugsskarðsskaflsins. 


Hitafar yfir Keflavíkurflugvelli síðustu sex áratugi - 1. áfangi

Eins og oft áður hallast texti dagsins í átt til veðurnörda - óvíst um almennan áhuga. Ætlunin er í nokkrum pistlum að fjalla um hitafar í háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli síðan um 1950. Kemur þá ýmislegt í ljós. Því er ekki að neita að ritstjórinn er ekki alveg rólegur yfir samfellu gagnaraðanna og trúlegt er að hún þarfnist heldur meiri yfirlegu en ráðið verður við á þessum vettvangi.

En leggjum samt á djúpið. Myndir dagsins sýna hita á stöðinni sjálfri og hita í 850 hPa-fletinum. Sá flötur er oftast í 1300 til 1400 metra hæð yfir sjávarmáli. Samband hans við jörð er oftast nokkuð gott og samræmis að vænta í hitafari - enda kemur í ljós að svo er.

w-blogg240914a

Myndin sýnir meðalhita mánaðanna desember til febrúar (alþjóðavetrarins) á Keflavíkurflugvelli frá ári til árs 1953 til 2014 (dauf grá lína), tíu ára meðaltal sömu gagna (breið svört lina). Græn strikalína sýnir hita í 850 hPa-fletinum sömu ár (byrjar reyndar 1952) og breiða græna línan 10-ára keðjumeðaltal hans. 

Lóðrétti kvarðinn til vinstri sýnir meðalhita á stöðinni, en sá til hægri meðalhita í 850 hPa. Um 6,8 stigum munar á flötunum tveimur.  

Við sjáum strax að hiti í 850 hPa og við jörð fylgist vel að. Kaldir vetur í 850 hPa eru líka kaldir niðri á stöðinni. Þetta er líka nokkuð kunnuglegur ferill - frekar hlýtt um 1960 - síðan kólnandi veðurfar - kaldast um 1980 en síðan hlýnandi - og sérstaklega á nýju öldinni. Þetta góða samræmi eykur á traust okkar á háloftamælingunum.

Síðan er það sumarið. Þá er samband jarðar við 850 hPa-flötinn ekki alveg eins gott og að vetrarlagi. 

w-blogg240914b

Þrátt fyrir allt er samræmi gott á milli flatanna. Köld ár fylgjast að. Meðalhitamunur er aðeins meiri en að vetrum eða 7,8 stig. 

Það sem mesta athygli vekur er að munurinn er nokkuð breytilegur eftir tímabilum. Hann helst ámóta mikill frá upphafi og fram undir 1980 - minnkar síðan og vex loks aftur eftir aldamót. Hitamunurinn á nýju öldinni er samt ámóta mikill og hann var mestur um og upp úr 1960 (sýnist meiri en hann er). En hér verður að játa að samfeldni mælinganna á Keflavíkurflugvelli sjálfum hefur ekki verið negld - né samfeldni háloftaathugana. Það er t.d. hugsanlegt að ósamfella hafi orðið þegar stöðin var flutt fyrir nokkrum árum. Hlýnun er mikil bæði uppi og niðri en, að sjá, meiri niðri. 

Hér má líka benda á smáatriði eins og sumarið 1984. Þá er að tiltölu mun hlýrra uppi í 850 hPa heldur en við jörð - völlurinn var allt sumarið í svölu sjávarlofti - en ekki 850 hPa-flöturinn. Sumarið áður (1983) voru bæði hiti á vellinum og uppi nánast í botni.  

En framhald síðar - ofar í lofti. 


Aðeins meira af eldmistri

Fyrir nokkrum dögum var þess getið hér á hungurdiskum að ritstjórinn minntist þess að hafa séð eldmistur tvisvar áður (en nú). Sérlega minnisstætt var mistur í júlí 1980 - en þá flykktust menn að gosstöðvum í Gjástykki í sérlega góðu veðri - og töluverðu mistri - sumir hafa sjálfsagt hóstað. Ritstjórinn var reyndar ekki í þeim hópi en minnist mistursins vel er það lá yfir Suðvesturlandi.

Eitthvað voru menn efins um að mistrið væri í raun frá jarðeldinum - og meira að segja má sjá um það talað í blöðum að það kæmi frá Evrópu. En svo var örugglega ekki. Hitt tilvikið sem liggur í minni ritstjórans er frá dögum Öskjugossins 1961 - að vísu var þá ekki léttskýjað og hið dularfulla mistur stóð ekki nema í einn dag á heimaslóðum í Borgarfirði.

Hægt er að finna þessi tvö tilvik í veðurathugunum - Kröflumistrið er til þess að gera greinilegt þar - enda ekki mikið um forgangsveður þá. Það er nefnilega þannig að mistur hefur mjög lágan forgang í veðurathugunum - eiginlega gengur allt annað fyrir. Sé einhver úrkoma - er misturs ekki getið, ekki heldur sé sandfok eða skafrenningur. Mistur verður meira að segja að víkja fyrir úrkomu í grennd. 

Það gerir líka erfitt fyrir að iðnaðarmistur frá Evrópu var mjög algengt á árum áður - miklu algengara heldur en á síðari áratugum - varla er nokkur leið að finna Öskjumistrið nema að vita af því fyrirfram þegar farið er að leita. Ekki er það sérlega vísindalegt - en verður samt að duga.

Fjöldi annarra gosa hefur gengið yfir síðustu sex áratugi - en þau hafa flest verið þvegin. Við munum lítilsháttar mistri í gosinu á Fimmvörðuhálsi - en önnur gos hafa aðallega skilað ösku út í andrúmsloftið - gosið í Eyjafjallajökli 2010 og það stóra í Grímsvötnum 2011 skiluðu sér greinilega inn í veðurathuganir sem sandfok og moldrok - en síður sem eldmistur. 

Til viðbótar þessum skavönkum við leit á mistri í nútímanum er að mönnuðum athugunum sífækkar - en þegar um jafn stóran atburð eins og mistrið núna um helgina er að ræða - skiptir það ekki svo miklu - hann skilar sér vel.

En lítum nú á hlutfallstölur misturs í þessum þremur mánuðum, október 1961, júlí 1980 og í september 2014 (þar til nú).

w-blogg230914c

Lóðrétti ásinn sýnir hlutfallstölu - hæsta möguleg er þúsund, þá væru mistur við allar athuganir. Lárétti ásinn sýnir daga í október 1961. Það er ekki tilviljun að misturhluturinn hækkar þegar gosið byrjar. Vindur var mjög hvass þann 29. og 30 - en fremur hægur 27. og 28. 

w-blogg230914d 

Kröflumistrið í júlí 1980 kemur mjög vel fram um miðjan mánuðinn. Enda var það haft eftir fræðingi að þetta væri að verða mesta sprungugos frá Skaftáreldum. Hvað um það - þótt sum síðari Kröflugos væru meiri - minnist ritstjórinn ekki misturs frá þeim - e.t.v. finnst það ef vel er leitað. Sjá má misturhlutfallið hrökkva upp úr öllu valdi í lok mánaðarins - þetta er hið hefðbundna Evrópumistur og fylgdi því ein minnisstæðasta hitabylgja á síðari hluta 20. aldar. 

Að lokum er hér línurit fyrir gosið nú. Í ljós kemur að það skýtur hinum báðum ref fyrir rass.

w-blogg230914e 

Á laugardaginn var (þann 20.) var mistur gefið í um það bil þriðju hverri athugun - auk þess hefur mistur verið viðloðandi fleiri daga en ekki - enda mun vera um eitt mesta sprungugos að ræða - síðan... Ritstjórinn leyfir sér að segja gosið vera í Holu - er það eitthvað verra en annað? Holugosið 2014 hljómar nokkuð vel?

Ef til vill má finna mistur Heklugossins 1947 og Öskjugosanna á þriðja áratugnum í veðurathugunum sé eftir þeim leitað.  


Í leit að hausti 6 [úrkoma - slydda - snjór]

Haustleitin heldur áfram. Við lítum í dag á úrkomumagn - og skiptin yfir í slyddu og snjókomu. Hvenær verða þau? Eykst úrkoman snögglega á haustin?

w-blogg210914a 

Þessi mynd sýnir uppsafnaða, daglega úrkomu á öllum veðurstöðvum 1949 til 2013. Lóðrétti ásinn sýnir magnið - en tölurnar skipta ekki máli í þessu samhengi. Það sem við viljum fræðast um er hversu úrkoman breytist frá degi til dags, hlutfallslega. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins, reyndar bítur árið í halann á sér - 18 mánuðir eru á kvarðanum. Við sjáum árstíðirnar í heild betur með þessu lagi heldur en að klippa um áramótin til beggja handa. 

Grái ferillinn sýnir alla úrkomu. Við sjáum að á vorin og fram eftir sumri er úrkoman um helmingur þess sem gerist á síðari hluta ársins. Reyndar virðist draga úr úrkomunni strax frá því um miðjan nóvember frá því sem hún er mest í októbermánuði. Á þessari mynd er 15. október úrkomumesti dagur ársins - en 4. júní sá þurrasti. Við skulum hafa í huga að snjór skilar sér áberandi síður í úrkomumæla heldur en regn - úrkoma yfir veturinn er því trúlega talsvert vanmetin. 

Ártíðasveifla úrkomunnar ræðst mest af stöðugleika lofts, rakamagni og vindhraða. Loft er að jafnaði stöðugast á vorin, auk þess sem þá dregur úr vindhraða. Stöðugleikinn og rakamagn ákvarða ákefð úrkomunnar - en vindur stuðlar að því að færa rakt loft að sunnan til norðurs þar sem það þéttist - auk þess sem hann hefur mjög mikil áhrif á myndun úrkomu við fjöll - hann kemur í sífellu með rakt loft upp að fjalli, stuðlar að því að það lyftist þar og skili rakanum sem úrkomu til jarðar. Fjalla- og skilaúrkoma er því meiri þann tíma ársins sem vindur er meiri - og þegar hvað styst er í mjög hlýtt loft fyrir sunnan land. Skúraþáttur úrkomunnar er hins vegar tvískiptur - annar vegar er hann stór yfir blásumarið - þá er loft óstöðugast yfir landi og síðan aftur á vetrum þegar sjór er hlýjastur miðað við loft yfir honum. 

Á myndinni sjáum við að haustið einkennist af vaxandi úrkomu, en hvenær byrjar það á myndinni? Það er engin ein dagsetning sem æpir á okkur og segir: Haustið byrjar hér. En samt er greinilegt að einhver breyting verður um og upp úr miðjum ágúst - kannski að höfuðdagurinn (29. ágúst) henti sem upphafsdagur „haustrigninga“.  

Blái ferillinn á myndinni sýnir árstíðasveiflu slyddu- og snjókomumagns. Ferillinn byrjar að hreyfast upp á við í september, en talsvert stökk verður í kringum 24. október. Þá settu forfeður okkar fyrsta vetrardag. Menn eru þó sammála um það haustið hljóti að byrja fyrr - en greinileg þáttaskil verða nærri fyrsta vetrardegi. Það er skemmtilegt að samsvarandi þrep á vorin er í kringum sumardaginn fyrsta. 

Hin myndin sem við lítum á í dag sýnir hlut snjókomu og slyddu í heildarúrkomunni.

w-blogg210914b 

Hér sýnir grái ferillinn hlut slyddu og snjókomu samanlagt í heildarúrkomu hvers dags. Hér sést þrepið í kringum 24. október mjög vel - en annað þrep, í kringum 15. september, er líka býsna áberandi. Blái ferillinn sýnir snjókomuna eina og sér - þar er ekkert sérstakt þrep í síðari hluta október - frekar að slíkt finnist í kringum miðjan desember. Fyrir 15. september má heita að snjókomuhlutfallið sé í núlli. Hæst er hlutfallið í kringum jól og áramót - hvort það er raunverulegt hámark eða tilviljanakennt vitum við ekki. 

Samandregið má segja að við sjáum hér þrjá áfanga í komu haustsins. (i) Úrkoma vex síðari hluta ágústmánaðar, (ii) um miðjan september fer að bera á slyddu í úrkomunni og snjór fer aðeins að gera vart við sig og (iii) um 25. október stekkur tíðni slyddu og snævar upp - síðasti hluti haustsins tekur þá við (veturinn ákveðum við að árstíðirnar séu ekki nema tvær). 


Smávegis um hafísmál í norðurhöfum

Bráðnunarskeiði sumarsins er nú lokið í norðurhöfum og hafísþekja fer aftur að aukast. Þekjulágmarkið í ár var svipað og í fyrra en meira heldur en í sumarlok 2012. Svipað mun vera með heildarrúmmálið - það er öllu meira heldur en 2012. 

Heimildir um heildarþekjuna þykja nokkuð áreiðanlegar aftur til upphafs samfelldra gervihnattamælinga 1979. Unnið er baki brotnu við að samræma eldri athuganir og mælingar. Menn hafa líka reynt að reikna rúmmál íssins aftur í tímann - og nota til þess mælingar og líkön. Telja verður að síðustu árin hafi tekist að mæla rúmmálið allvel, og bæta þær mælingar líka rúmmálsáætlanir aftur í tímann.

Áætla er að nú í ágústlok hafi heildarrúmmál íssins verið um 8150 rúmkílómetrar, 37% minna en meðallag í ágústlok á árunum 1981 til 2010. - Lítilsháttar bráðnaði eftir það - en varla teljandi. Meðalþykkt nú er talin vera um 30 cm meiri heldur en bæði í fyrra og 2012. Meðallágmarksrúmmál tímabilsins 1981 til 2010 er talið hafa verið 12.300 rúmkílómetrar. 

Í gögnum sem taka til áranna fyrir 1980 [þegar ritstjórinn var nýkominn úr námi] var talað um að lágmarksrúmmálið í lok sumars sé um 21.000 rúmkílómetrar. Ekki ber þessu alveg saman við nýrri tölur um rúmmál 1979 - en látum það vera. 

En mælingar benda þó til þess að ísmagnið hafi að jafnaði rýrnað um tæpa 300 rúmkílómetra á ári á þessu 35 ára tímabili. Sveiflur eru þó töluverðar - einkum áratugakvarða - sé gagnaröðum trúandi.  

Á vetrum er heildarísþekja á Norðuríshafinu sjálfu og í Kanadíska norðurslóðaeyjaklasanum nánast alltaf hin sama - ís þekur þessi svæði alveg - nema örfáar vakir. Hins vegar er töluverður breytileiki frá ári til árs á jaðarslóðum íssins, t.d. við Austur-Grænland og enn meiri í Barentshafi, við Labrador og austur í Beringshafi. 

Hafísinn er hluti af ferskvatnsbirgðum Norðuríshafsins. Yfirborðssjór er mun seltuminni í íshafinu heldur en suður í Atlantshafi - og reyndar er selturýri sjórinn ekki þykkur - undir er alls staðar saltari sjór.

Ferskvatnsbirgðirnar eru skilgreindar á nokkuð sérviskulegan hátt - það er það magn af ósöltu vatni sem þarf til þess að þynna seltu sjávar úr 34,8 seltueiningum niður í þann seltustyrk sem raunverulega er til staðar. Þessir reikningar hafa verið gerðir. Útkoman er sú að í íshafinu séu að jafnaði 84.000 rúmkílómetrar af ferskvatni - þar af eru 10.000 rúmkílómetrar bundnir í ís í lok sumars. 

Þessum birgðum er viðhaldið af afrennsli af landi, innstreymi seltuminni sjávar (<34,8 einingar) í gegnum Beringssund og mismun á úrkomu og uppgufun. 

Birgðirnar liggja ekki jafndreifðar - miklu meira af ferskvatni er Alaskamegin í Íshafinu. Myndin sýnir ágiskun sem birtist í grein 2006 [tilvitnun sést betur sé myndin stækkuð].

w-blog170914-hafisrummal-a

Hér er birgðadreifingin sýnd í metrum. Langmest af ferskvatni liggur í Beauforthafi þar sem hæðarhringrás ríkir að meðaltali í lofthjúpnum. Slík hringrás veldur samstreymi sjávar inni í hringnum. Við skulum til hægðarauka (en ekki eftirbreytni) tala um ferskvatnslinsuna í Beauforthafi. 

Nú er þónokkur breytileiki í bókhaldsliðunum, mismikið af ís og ferskum sjó berst t.d. suður um Framsund milli Grænlands og Svalbarða frá ári til árs. Ekki er enn búið að ná alveg utan um alla liði ferskvatnsbókhaldsins. Ritstjórinn þekkir ekki nýjustu óvissutölur - en þegar þessi mynd var gerð var hún að minnsta kosti 500 rúmkílómetrar ferskvatns á ári. 

Að auki er líklegt að einhverjar sveiflur séu í dreifingu ferskvatns Íshafinu. Það hefur verið nefnt (sjá sömu grein) að aðeins þurfi örfá prósent af ferskvatnslinsunni að leka út um Framsund til þess að búa til seltulágmark eins og það sem plagaði okkur, Grænland og Labrador á sjöunda og áttunda áratugnum. Það gæti ýtt undir tímabundna aukningu á hafís við Austur-Grænland og þar með hér við land - þrátt fyrir að heildarrúmmál íss haldi áfram að minnka í Norðuríshafi. Sveiflur í styrk og umfangi linsunnar skipta okkur furðumiklu máli. 

Að lokum má rifja upp að það eru um 3000 rúmkílómetrar af ís sem venjulega koma út í gegnum Framsund á ári hverju (áraskipti þó mikil), heildarárstíðavelta Grænlandsjökuls er um 600 rúmkílómetrar. Síðustu árin hefur þar bráðnað um 200 rúmkílómetrum meira en ákoma hefur ráðið við. 

Greinin [sjá texta á mynd] sem vitnað er til er aðgengileg á netinu - leitið. Ýmsar tölur eru fengnar af vefsíðunni:

http://psc.apl.washington.edu/wordpress/research/projects/arctic-sea-ice-volume-anomaly/ 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 2341357

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 901
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband