4.3.2021 | 21:58
Af árinu 1844
Árið 1844 þótti almennt hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig, en reiknast 3,4 stig í Stykkishólmi, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Mjög kalt var í febrúar og einnig var nokkuð kalt í apríl, en hlýtt í maí, júní, ágúst og desember. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum frá Norður- og Austurlandi.
Fjórtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík (sjá lista í viðhengi), kaldastur 24.apríl (síðasti vetrardagur). Þá fór frost í -10 stig í Reykjavík og hámarkshiti dagsins var -5,0°C. Átta dagar voru mjög hlýir og komst hiti í 20 stig 14 sinnum um sumarið. Hafa verður í huga að nákvæmni í aflestri var ekki mikill, átta þessara daga var hitinn nákvæmlega 20 stig. Allur kaflinn frá 20. til 30.júní hefur verið óvenjugóður.
Árið var úrkomusamt í Reykjavík, mældist úrkoman 992 mm. Einna þurrast var í febrúar, júní og júlí, en úrkoma í nóvember óvenjumikil.
Þrýstingur var sérlega lágur í apríl og þá var þrýstiórói einnig mjög mikill. Miðað við meðallag var þrýstingur einna hæstur í maí og júní. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 959,3 hPa, þann 26.nóvember, en hæstur 1028,7 hPa þann 26.maí.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Við getum sum sé vel áttað okkur á veðri frá degi til dags þetta ár, en menn virðast ekki hafa haft mjög mikið um það að segja. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1844, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:
Ár 1844, gott ár, frostlítið, en veðrátta ókyrr og úrfellamikil. Hagabann fyrir útigangsfénað varð hvergi langvinnt. Grasár gott, helst á úthaga, og nýting hagfeld. Hlutir við sjó í betra lagi, vetrarhlutir undir Jökli frá hálfu þriðja til fimm hundraða. Í Dritvík mjög lítill afli, vegna ógæfta, 60 fiska hlutir hæstir. Aftur aflaðist betur í veiðistöðvum vestra. Ennþá var kvefsótt í landinu. Árið 1844 engir skipskaðar [á Vesturlandi].
Suðurnesjaannáll:
Skipstapi á Vatnsleysuströnd í marsmánuði. ... Ofsaveður með sjávarangi 2. apríl, svo að skip tók upp og brotnuðu. Skipstapi um vorið frá Landakoti að Miðnesi. Drukknuðu þrír menn. ... 50 fjár flæddi á Býjaskerjum og 80 í Leiru. Ufsaveiði mikil í Hafnarfirði. Þá fórust tveir bátar með ufsafarm þaðan í ofsaviðri. Annar var úr Njarðvíkum, en hinn úr Keflavík.
Jón Jónsson í Dunhaga í Hörgárdal er erfiður í lestri að vanda - en vonandi hér í stórum dráttum rétt eftir honum haft (ekki þó orðrétt):
Janúar má teljast í betra lagi, febrúar allstilltur að veðráttufari og oftast nægar jarðir, áköf frost. Lagís mikill á Eyjafirði en hafís utar. Marsyfirlitið er torlesið en að sjá sem hart hafi verið með köflum - en ekki alslæm tíð. Fyrri hluti apríl sæmilega góður, en síðan mjög óstöðug tíð. Að sjá sem maí hafi ekki verið harður - en samt stormasamur og erfiður að því leyti. Júní góður. Júlí heldur kaldur. Ágúst sæmilega hagstæður. September í meðallagi, en heldur óstilltur. Heyskap má yfirhöfuð telja í meðallagi, sumstaðar í betra lagi. Október má kallast mikið góður. Góð veðrátta í nóvember og næg jörð. Desember merkilega stilltur að veðurátt, oft þíðviðri og jörð auð.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Veður stillt og frostamikið til 13. jan., þá 4 daga hláka og aftur þítt 21.-24. Í febrúar óstöðugt, köföld og hart frost á milli, 19. jarðleysi allvíða og hross tekin á gjöf, en í lágsveitum gengu þau af. Alla góu harðviðrasamt og gaddmikið til dalanna.
Einar Thorlacius skrifar: Saurbæ 6.febrúar 1844 (s110) Vetur allt að þessu í betra lagi með jarðsæld, engin teljandi illviðri né sterk frost, síst lengi, og ekki yfir 12 gráður hafa enn komið, en óstöðugt heldur veðráttufarið.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 13. mars 1844 (s214) Vetur er í meðallagi.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Með einmánuði bati góður og blíðviðri, sólbráð og stillt veður, 5 daga fyrir sumar frostmikið og sumardag fyrsta [25.apríl] sunnanhríð mikil, en föstudag [26.] hastarlegur norðanbylur; brátt aftur hláka. 4. maí heiðarleysing og flóð í ám og allan þann mánuð (s148) vorblíða og góður gróður.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní lengi náttfrost með norðanátt og stilltu veðri. Seint fært frá og í júlíbyrjun sterkir hitar 6 daga, þá til 16. þokur og hretviðrasamt og gaf illa í kaupstaðarferðum, en vel í lestaferðum suður, er stóðu yfir seinast í júní. Sláttur byrjaði 18.-20. júlí. Var þá rekjusamt og lítið um þerri til 7. ágúst. Skemmdust töður mjög, þar miður voru hirtar. Þá notagott veður til 25. ágúst. Á sunnudagskvöld [25.], upp á góðan þerri, kom hret og eftir það votviðri til 3.-5. sept. Þann 10. kom ógnarrigning, mörgum til skemmda, þar sæti var óhirt, sem þó víða var. Um gangnatímann mátti hirða allt hey. Þó ónýting yrði allvíða, varð nýting góð hjá þeim, er haganlega notuðu stuttan þerri og litlar flæsur og ekki geymdu hey sitt í föngum, eins og mörgum er tamt sér til skaða. Nú varð gangnafærsla austan Blöndu vegna rímspillis-sumarauka. Annars bar nú réttardag á 25. sept.
Jón Austmann í Ofanleiti segir að 5.júní hafi hiti farið niður í 2° í norðvestan kafþykkum slyddubyl og að snjóað hafi á fjöll.
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 8. júlí 1844: (s216) Hér er nú heldur gott í ári.
Hiti fór í 24°C á Valþjófsstað 28.júlí og þann 4.september varð þar jarðskjálfti um kvöldið.
Páll Melsteð fer snjöllum orðum um landsynninginn í bréfi til Jóns Sigurðssonar: Landakoti, 22.september 1844 Ég kom hér suður [til Reykjavíkur] eins og kjörstjóri í besta veðri með 3 hesta. Nú fer ég héðan af stað eins og förukarl, búinn að missa frá mér 2 hesta, og veðrið svo illt að varla er sigandi út hundi fyrir regni og stormi. Minnir þig nokkuð til þess hvernig landsynningurinn var á stundum, þegar hann hafði lengi legið undir fyrir norðanvindinum, en reis á fætur aftur. Ekki hefir honum farið aftur síðan. Og því skyldi honum fara aftur núna í þessu landi sem nú er nýbúið að fá alþing, og þar sem allt er að lifna við og byrja nýjar framfarir.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið varð mikið gott, eitt hret 9. okt. Frá veturnóttum til 7. nóv. blíðviðri besta, svo berja og ausa mátti af túnum. 8.-12. nóv. hart frost, svo lækir botnfrusu mörgum til vandræða og náðu ei farveg aftur lengi. Veður var stillt og gott, snjólítið oftast, auð jörð og hláka á jólunum, allvíða ei farið að gefa lömbum. Ár þetta má kalla, sem 6 ár undanfarin, hagsældar- og blómgunarár, þeim sem notuðu tíðina réttilega. (s149)
Ingibjörg Jónsdóttir skrifar: Bessastöðum 10. nóvember 1844: (s220) Haustið hefur verið heldur gott ...
Grímur Jónsson segir í bréfi dagsettu á Möðruvöllum 6.febrúar 1845 (lengri kafli úr bréfinu er hér settur á árið 1845]: Á jólum lukum við upp öllum gluggum með 5 gráða varma.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1844. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2021 | 23:51
Af nýliðnum febrúar
Eins og kemur fram í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn febrúar hlýr og tíð var hagstæð. Hann fer einnig í bækur sem veðragóður mánuður. Meðalvindhraði var undir meðallagi, á landsvísu sá minnsti í febrúar í nokkur ár - eða frá 2010. Illviðradagar voru einnig fáir.
Þetta riss sýnir stormavísitölu febrúarmánaða aftur til 1949. Fjallað hefur verið um gerð hennar áður á þessum vettvangi. Há vísitala bendir til þess að mánuður hafi verið óvenjuillviðrasamur - en lág vísitala segir frá góðviðrum. Þó ekki sé allt einhlítt má sjá greinilegan mun á milli mánaða. Við sjáum t.d. að síðustu árin, frá 2015 til 2020, hefur febrúar lengst af verið illviðrasamur og að febrúar 2013 aftur á móti ámóta hægur og nú. Enga leitni er að sjá á myndinni - allt harla tilviljanakennt þó votti fyrir klasamyndun.
Skipti frá mönnuðum athugunum yfir í sjálfvirkar valda smávegis tengivanda - en í aðalatriðum eru vísitölur beggja kerfa samhljóða að mestu. Hálendisstöðvar eru ekki inni í talningunni. Ritstjórinn fylgist sérstaklega með þeim. Vísitala hálendisstöðvanna var nú hin lægsta í febrúar frá 2010. Græna strikalínan sýnir vísitölu sem reiknuð er frá stöðvum Vegagerðarinnar. Fyrstu árin sýnir hún áberandi hærri gildi en hin stöðvakerfin - en verður síðan samstíga. Ástæðan er líklega sú að fyrstu árin var vegagerðarstöðvunum beinlínis komið fyrir á sérlega vindasömum stöðum - en eftir því sem árin hafa liðið hefur stöðvum á stöðum þar sem vindur er venjulegri fjölgað og svo virðist nú sem munur á kerfunum sé ekki mjög mikill hvað þetta varðar. Meðalvindhraði vegagerðarstöðvanna er þó að jafnaði lítillega hærri en að meðaltali í byggðum landsins - þrátt fyrir að hæð mælis sé lægri (6 m í stað 10 m).
Hér má sjá stöðuna í háloftunum í febrúar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, daufar strikalínur sýna þykktina, en litir vik þykktarinnar frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Hún var undir meðallagi á bláu svæðunum, en yfir því á þeim gulu og rauðbrúnu. Með afbrigðum hlýtt var í norðanverðum Labrador. Hér á landi ríkti eindregin sunnanátt - út frá legu jafnhæðarlína einni og sér hefði mátt búast við að úrkoma væri vel yfir meðallagi, en svo var ekki. Mánuðurinn var frekar þurr - nema á Austfjörðum og Suðausturlandi. Þó áttin hafi verið jafneindregin af suðri og hér er sýnt var hún mun austlægari við sjávarmál - eins og sunnanáttin hafi staðið í stöðugri baráttu við kalt loft úr norðri - en langoftast haft svo miklu betur að ekkert varð úr átökum.
Leit að nánum ættingjum skilar ekki miklu. Þetta virðist vera fremur óvenjuleg staða. Nánastur ættingjanna er febrúar 1926. Á svæðinu næst landinu var staðan þá afskaplega svipuð og var nú, en þegar litið er lengra til beggja átta sést skyldleikinn síður.
Rétt að benda á að viðmiðunartímabil þykktarvikanna er ekki hið sama og á fyrri mynd - hér nær hún til allar 20.aldarinnar. Jákvæðu vikin væru heldur minni á síðari myndinni væri sama tímabil notað.
Veðráttan (tímarit Veðurstofunnar) gefur þetta yfirlit um febrúar 1926:
Einmuna veðurblíöa um allt land. Tíðin mjög hagstæð fyrir landbúnað og einnig fyrir sjóróðra fyrri hluta mánaðarins. Fremur óstöðugt síðari hlutann.
Við gætum notað svipað orðalag um þann nýliðna - alla vega þvældist veðrið fyrir fáum og flestir hafa vonandi notið þess til fulls. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
1.3.2021 | 22:52
Smávegis af jarðskjálftum 1789
Ekki þarf að fletta lengi eða mikið í gömlum blöðum til að finna eitthvað um jarðskjálfta á Reykjanesskaganum. Það er þó misjafnt hvar meginvirknin hefur verið hverju sinni. Ritstjóri hungurdiska er ekki fræðimaður á þessu sviði, veit lítið og ætti því að segja sem minnst um málið. Honum finnst þó freistandi að minnast á jarðskjálftana 1789, en snemma sumars það ár gekk mikil jarðskjálftahrina yfir landið suðvestanvert. Hún er almennt talin hafa átt upptök sín á Hengilssvæðinu - en ekki þar sem nú skelfur. Þorvaldur Thoroddsen nefnir í riti sínu Landskjálftar á Suðurlandi ýmsar heimildir um skjálftana og segir meðal annars (s.36):
Miklir jarðskjálftar i Árnessýslu og víðar um suðvesturlandið svo hús hrundu á allmörgum bæjum; þó voru jarðskjálftar þessir ekki nærri eins harðir eins og kippirnir 1784. Landskjálftarnir byrjuðu 10. júní, og í viku á eftir var varla nokkurn tíma kyrrt nótt eða dag, og voru varla 10 mínútur milli hræringanna; oft urðu menn síðan varir við jarðskjálftana fram eftir sumri.
Síðan lýsir Þorvaldur ýmsum breytingum sem urðu við skjálftana, einna mestar virðast þær hafa orðið á Þingvöllum og sökum skemmda og breytinga þeirra, sem urðu, varð jarðskjálfti þessi meðfram tilefni til þess, að alþingi var flutt frá Þingvöllum og breyttist í yfirrétt i Reykjavík. Væntanlega hefur Þorvaldur þetta síðasta eftir Magnúsi Stephensen.
Í bókinni Sendibréf frá íslenzkum konum 1784-1900, sem Finnur Sigmundsson bjó til prentunar (Rvk, 1952) er að finna bréf sem Guðrún Skúladóttir (landfógeta) ritar Sveini Pálssyni, en hann var þá náttúrufræðinemi í Kaupmannahöfn:
Viðey 16. ágúst 1789: Þann 8. júní um kvöldið komu þrír jarðskjálftar, og (s16) þar eftir aftur og aftur nætur og daga í heila viku. Þann 10. taldi eg 108, en nóttina þar eftir taldi stúlka, sem vakti, 39. Flestir voru þeir smáir, þó nokkrir æði miklir, en hér um pláss varð ei skaði af þeim. Hér og hvar duttu og skemmdust gömul hús. Í Ölvesi féll bær, sem heitir Þurá, og í Selvogi annar, heitir Hlíð, nema eitt hús stóð, og þar lá í vanfær manneskja, sem ei gat hrært sig. Fólkið þorði ekki að liggja í bæjunum á nóttunni, meðan á þessu stóð, og lá úti í tjöldum og undir berum himni. Í Þingvallahrauni urðu stórar umbreytingar, 2 gjár komu í Þingvallatún, Öxará er orðin þurr hjá Þinginu, því hún rennur ofan í jörð, en vatnið rennur uppheftir farvegnum langtum lengra en fyrri, því að er orðið miklu dýpra Þingvallamegin en það var, en hitt landið á móts við sjást upp úr því steinar, þar sem var 7-8 faðma djúp. Í jarðskjálftunum kom upp á Hellisheiði vellandi hver og 3 austur í Ölvesi, þar enginn var áður. Eftir þetta sást hér nokkra daga jarðeldsreykur eða einhver móða honum lík, og sagt var að eldur væri í Krýsivíkurfjalli. En norðanvindur kom, og þá hvarf móðan, og síðan hefur ei verið getið um eldinn. Síðan vindurinn kom á austan, hefur móðan sézt öðru hverju.
Þorvaldur segir (og hefur eftir Mannfækkun af hallærum eftir Hannes Finnsson):
Grundvöllur Þingvallavatns sökk að norðan og dýpkaði það þeim megin og hljóp á land, en suðvestan grynnkaði það svo, að þar sem áður var 4 faðma dýpi var þurrt á eftir.
Trúlega er ítarlegustu upplýsingar um jarðskjálftana sjálfa að finna í athugasemdum Rasmusar Lievog stjörnuathugunarmeistara í Lambhúsum við Bessastaði. Þó ritstjóri hungurdiska eigi í ákveðnum erfiðleikum með að lesa skrift hans er hún þó mun viðráðanlegri en flestir þeir dagbókartextar og bréf sem hann hefur séð frá þessum árum. Ekki leggur hann þó í uppskrift - slíkt ætti að vera vanari augum auðvelt verk. Myndin sýnir blaðsíðu úr skýrslu Lievog. [Þann 6.júní segist hann sjá Snæfellsjökul - [Vester-Jökelen saet] - eins og slíkt sé viðburður.
Fyrsta hræringin sem Lievog minnist á þetta vor (1789) er 31.maí. Þá segir hann að kl.1 1/4 að kvöldi hafi komið temmelig stærkt Jordstød, eller Rystelse. Nokkuð sterkur jarðskjálfti eða hræring. Síðan kemur að 8. júní. Þá segir hann (lauslega eftir haft): Kl. 9:42 að kvöldi. Kom fyrst lítill, en eftir fáeinar sekúndur, nokkuð meiri jarðskjálfti, sem virtist koma úr suðvestri.
Mest var síðan um að vera þann 10.júní. Lýsing á atburðum þess dags tekur hátt á þriðju síðu í yfirliti Lievog. Segir að hann hafi talið 88 nokkuð sterka skjálfta þennan dag - en ábyggilega hafi þeir verið fleiri. Hálfleiðinlegt veður var þennan dag, sunnanstrekkingur með skúrum eða rigningu - en svo virðist sem hann hafi samt ákveðið að sofa í tjaldi - morguninn eftir vakti skjálfti hann kl.6 og frá kl.10 árdegis til 6 síðdegis hafi komu að sögn 6 skjálftar. Næstu daga voru einhverjir skjálftar á hverjum degi, til og með 16. Síðan kom nokkurra daga hlé, til þess 21. að vart varð við hræringar.
Magnús Ketilsson sýslumaður í Búðardal (á Skarðsströnd) getur skjálftanna í dagbók sinni í júní 1789:
Jarðskjálftar oft til þess 14da svo stundum brakaði í húsinu.
Í dagbókum Sveins Pálssonar er sagt að vart hafi orðið jarðskjálfta í Viðey bæði 1785 og 1786 - ekki er vitað hvar upptök þeirra kunna að hafa verið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.2.2021 | 21:34
Af árinu 1843
Fremur svalt var í veðri árið 1843, meðalhiti þó nærri næstu tíu árum á undan. Sumarið byrjaði með þurrkum, sólskini og jafnvel hlýindum á daginn, en kuldum á nóttu. Síðan þótti það nokkuð erfitt sökum vætu, en fékk þó misjafna dóma. Meðalhiti ársins í Reykjavík var 4,0 stig, en reiknast 3,0 í Stykkishólmi. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum á Norður- og Austurlandi. Októbermánuður var óvenjukaldur, og einnig var kalt í janúar, febrúar og nóvember. Fremur hlýtt var hins vegar í ágúst og nokkuð hlýtt í maí, júní og september.
Fimmtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, 2.febrúar kaldastur að tiltölu. (Listi yfir dagana er í viðhengi). Einn dagur var mjög hlýr, 6.ágúst. Hiti marði 20 stig tvisvar sinnum í Reykjavík, 23. og 29.júlí.
Árið var úrkomusamt í Reykjavík og mældist 926 mm. Desember var fádæma úrkomusamur, þá mældist úrkoman 246 mm, það mesta sem vitað er um í þeim mánuði. Úrkoma var einnig mikil í nóvember, janúar og ágúst, en óvenjulítil í október, þá mældust aðeins 2 mm - það langminnsta sem vitað er um í Reykjavík í október.
Loftþrýstingur var sérlega lágur í ágúst og einnig lágur í janúar og júlí, en sérlega hár í maí og einnig hár í febrúar, mars, júní, september og október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 5.desember, 950,1 hPa, en hæstur 1035,7 hPa þann 14.febrúar.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. Rétt er að geta þess að um sumarið gekk mjög skæð landfarsótt með beinverkjum og hita. Flestir urðu fyrir henni og kom hún víða illa niður á heyskap. Mikill fjöldi lést.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1843, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:
Ár 1843 var gott meðalár. Fyrstu tvo mánuði ársins var vetrarfar hart og hagleysur; komu þá hagar upp, nema í Strandasýslu, þar var harðara, og lengi vetrar hafís fyrir landi. Vorið var jafnaðarlega þurrt og kalt, sumarið vætumeira, haustið og síðustu mánuðir ársins umhleypingasamir, vetur lagðist að með blotum og jarðleysum, þó leysti nokkuð jökul af jörð fyrir sólstöður. Meðal-grasár og nýting góð. Vetrahlutir undir Jökli hæstir fjögur hundruð; í Dritvik meðalhlutir; steinbítsafli vestra í besta lagi. Árið 1843 um veturinn týndist skip í hákallalegu frá Önundarfirði, og á því 8 menn [Annáll 19.aldar segir þetta hafa verið 29.mars]; þá fórst og skip með 5 mönnum frá Skutulsfirði.
Suðurnesjaannáll segir um árið:
Oftast hörkur og byljir á góu. Frusu lömb í hel, sem eigi voru tekin í hús. ... Óþurrkar miklir um sláttinn og hraktist hey mjög. Þá drukknuðu fyrir jólaföstu tveir menn í Garði, í lendingu í myrkri, en þeir komu úr Keflavík. Var haldið, að þeir drukknir og votir úr sjónum hafi komist upp í fjöruna og lagt sig þar fyrir. Hafi þeim liðið í brjóst, en frost var mikið um nóttina. Fundust þeir um morguninn fyrir ofan flæðarmálið örendir og frosnir í hel.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Eftir nýár varð fyrir sunnan bleytuhríð, jarðlaust til lágsveita, en brotajörð um tíma til hálsa og fjalllanda. Hélst norðan-og austanátt oft með snjókomu og kafaldi til 3. viku þorra. Var þá gaddur og fannkyngja mikil komin. Þá um 3 vikur stillt og gott veður, hjarnaði og gaf vermönnum vel suður. 7. mars skipti um aftur með fönn og 11. byrjaði harður hríðarkafli. Í góulok kom góður bati, vikuþíða. Voru þá hey sumra nærri þrotin. Ýmsir höfðu líka létt og skemmd hey eftir óþurrkasumar, helst Laxdælingar.
Saurbæ 8-2 1843 [Einar Thorlacius] (s109) Hér norðanlands var vetur frostmildur og veðráttublíður allt til sólstaðna, síðan hefur viðrað stirt og fallið af austri ákafur snjór.
Bessastöðum 2-3 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s207) Vetur hefur verið harður með köflum eða frá nýári til miðþorra. Sést hefur hafís fyrir Norðurlandi, um það ber öllum saman. Að hann sé landfastur segja sumir, en aðrir bera það aftur. ... en hér er nú stillt veður venju fremur.
Sr. Jón Austmann í Ofanleiti), úr veðurskýrslu: Febrúar 1843: 14. Nóttina til þessa dags var fádæma rigning og stormur; Frost -14°R 3. febrúar. Apríl 1843: Ofsaveður aðfaranótt 2.apríl, var eitthvert hið mesta er menn muna. Þ.19. ofsaveður síðdegis af suðvestri. Í dögun þann 24. var -8 stiga frost.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Vorið varð gott, þurrt, stillt og hretalaust, oft hitar, en meðfram náttfrost.
Bessastöðum 8-6 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s209) Héðan er að frétta kalt vor og gróðurlítið.
Annáll 19.aldar segir í löngu máli frá sjóskaða sem varð í róðri frá Skinneyjarhöfða í Mýrasveit í Hornafirði þann 3.maí. Frásögnin er að líkindum fengin úr Austra 1886 og hefst hún í 29.tölublaði, 11.desember. Vísum við áhugasömum þangað. Stóðu þar 8 bátar á sandi þennan morgunn. Einn þeirra lagði reyndar ekki frá landi - því formaður taldi eftir langa umhugsun að norðanveður væri í vændum. Þar segir að nálægt miðmunda [milli hádegis og nóns] hafi dregið yfir kófél í logni, er varaði í svosem hálfan klukkutíma, en þegar því linnti hafi brostið á ofsalegt norðanveður með grimmdarfrosti, svo að ekkert varð við ráðið. Í þessu veðri dóu 14 menn og marga til viðbótar kól. Þessa daga fór frost í -6,3 stig í Reykjavík og hámarkshiti þann 4. var þar -2,5 stig. Ólafur á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir þann 3.maí: Norðan hríð, mikill stormur, heljarfrost.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Um fráfærur voru sterkir hitar og þar til 7. júlí, að skipti um til votviðra, svo grasvöxtur varð góður. Sláttur átti að byrja 17. júlí. Gáfust þá rekjur, en lítill þerrir mánuðinn út. Varð heyskapur mistækur vegna veikindanna. Með ágúst þornaði upp. Hirtu þeir þá töðu, er minnstan fatla fengu, en margir luku túnaslætti í miðjum ágúst. Eftir þann 6. kom aldrei þerridagur til kvölds. 16. ágúst gerði óviðráðanlegt sunnanveður (s141). Allt hey blés og þornaði í gegn og sæti reif allt í sundur. Um kvöldið, nóttina og daginn eftir rigndi ógnarlega af vestri og norðri, svo allt vöknaði í gegn, en engu varð bjargað. Lagði snjó mikinn á fjöll og hálsa. Þiðnaði það brátt og varð vatnsagi mikill, þó norðanstormar með rigningu kæmi á eftir. Kvaldist mjög veikt og kraftalítið fólk við að ná upp og þurrka mikið hey. Hirtu flestir túnin 26.ágúst. Út allan sláttinn kom aldrei regnlaus dagur, þó oft væri stormar og góð þerristund, en hjá heilbrigðu fólki þurftu ei heyskemmdir að verða með góðri fyrirhyggju allan sláttartímann. Gras dofnaði snemma, en almennt heyjaðist mikið í september, þá fólk var heilbrigt orðið. Þann 25. hirtu flestir og urðu miklar slægjur eftir. Allt sumarið var mikill vöxtur í jökulvötnum og stórflóð 12.-16. sept.
Þann 22.ágúst er minnst á snjó í byggð bæði í Hvammi í Dölum og á Valþjófsstað. Þorleifur í Hvammi segir að frost hafi þá verið þar í morgunsárið kl.4 5il 5.
Friðriksgáfu 29-8 1843 [Grímur Jónsson] (s127) Sumarið er og hefur verið það versta sem ég man, með hráslaga og kulda, +2 til 6° daglega, og frost um nætur þegar upp hefur birt, en annars snjóað niður í mið fjöll oftlega.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
1.október kom fyrsta hausthret. Það hey, er þá var úti, náðist ekki. Fyrri part hans [sennilega átt við október] var snjór og stillt veður, en síðari kafaldasamt og lagði mikla fönn á útsveitir, en minni til framdala. 11. nóv. tók upp snjóinn vel fremra og eftir það meðalvetrartíð, óstöðugt, útsynningasamt og frostalítið, utan 3 hörkudaga fyrir nýárið. Þó vorið væri gott, varð mörgum málnyt í versta lagi vegna ofþurrka eftir fráfærur og hirðingarleysis um veikindatímann [landfarsótt mikil gekk í júlí] og skemmd á töðum, en, hvar þetta náði ei til, í meðallagi. Grasmaðkurinn gjörði enn skemmdir miklar að austanverðu í dölum, þar sem þurrlent var. Voru menn því óvanir í Norðurlandi. (s142)
Bessastöðum 13-11 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s212) Hér er nú árferði heldur í lakara lagi. Heyskapur varð bágur vegna sjúkdóma og svo rigning.
Einar Thorlacius í Saurbæ segir í bréfi 6. febrúar 1844: (s110) Fyrri hluti næstl. sumar var með svo sterkum hitum, að ekki einasta sólbrann allt harðvelli, heldur elnaði við það umgangssóttin. Haustið var til þrauta rigningasamt, svo vart (s111) fékkst þurr dagur.
Dagbók Jóns Jónssonar (hins lærða) í Dunhaga er ekki auðlesin, frekar en venjulega. Ritstjórinn ábyrgist ekki að þau brot sem hér eru tínd upp (ekki orðrétt) séu rétt eftir höfð:
Janúar: Má kallast mjög harður - þó helst vegna jarðbanna. Febrúar fyrri partur í harðara lagi en síðari partur stilltur. Fyrstu dagar marsmánaðar voru stilltir og þann 18.nefnir Jón að fullt sé af hafís útifyrir og lagnaðarís á Eyjafirði. Apríl allur stilltur að veðráttu en jarðleysur fyrsta hluta, en með skírdegi birtist jörð smám saman. Maí í harðara lagi og loftkuldi mikill og náttfrost. Júní allur mjög bágur, loftkaldur og þurr - mikill maðkur í jörðu [Þó er minnst á mjög hlýja og sólríka daga innan um]. Júlí að sönnu sæmilegur upp á veðráttuhlýindi, en óþurrkar. Ágúst að vísu ei mjög kaldur að veðráttu en votsamur í frekara lagi. September má seinast og fyrst heita allgóður. Svo er að sjá að talvert hafi verið um frost í október. Jarðlaust að mestu í lok nóvember.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
27.2.2021 | 23:15
Alþjóðaveturinn 2020 til 2021
Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.
Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1824 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,1 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt 0,1 stigi ofan meðalhitans í fyrra, en lítillega (-0,3 stig) neðan meðalhita síðustu 20 ára.
Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 21. Fari svo fram sem horfir verða 45 vetur ofan frostmarks á 21.öld. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks á 77 árum (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil).
Á hlýskeiðinu 1925 til 1965 komu 15 (alþjóða-)vetur þar sem meðalhitinn var undir -1,0 stigi. Aðeins einn slíkur hefur komið á núverandi hlýskeiði (-1,01 stig, 2015-2016). Þeir verða væntanlega fleiri (annars er illt í efni).
En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar tekið út meiri hlýnun en okkur ber og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.
Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.
Þó meðalhiti alþjóðavetrarins nú sé nánast sá sami og í fyrra hefur veðurreyndin verið allt önnur. Í fyrra var í raun versta tíð, nánast stöðug illviðri og umhleypingar. Nú hefur hins vegar farið vel með veður um stóran hluta landsins (leiðinlegir kaflar hafa sýnt síg á Norðaustur- og Austurlandi) og lítið orðið úr illu útliti oftast nær. Sýnir þetta að hitinn einn og sér segir ekki alla söguna varðandi tíðarfarið.
Veturinn hefur til þessa verið sérlega snjóléttur um landið suðvestanvert og enn er fræðilegur möguleiki á að hann nái meti hvað það varðar - en verður þó að teljast ólíklegt. Alhvítir dagar að vetri urðu fæstir í Reykjavík 1976-77. Fram til þessa eru þeir orðnir 6 í vetur. Til að metið falli mega alhvítir dagar úr þessu til vors ekki vera nema fjórir. Meðalfjöldi alhvítra daga í mars til maí er 16. Verði snjóalög í meðaltali í mars og apríl verða alhvítir dagar vetrarins því um 22. Á þessari öld hafa alhvítir dagar að vetri fæstir orðið 16, það var 2009 til 2010. Heldur meiri líkur eru á að við höldum okkur neðan þeirrar tölu. Mesti fjöldi alhvítra daga í mars til maí eru 44 (1990). Það hefur einu sinni gerst að snjó hefur ekki fest frá 1.mars til vors (1965) og þrisvar hefur aðeins 1 alhvítur dagur komið eftir 1.mars, síðast 1974.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2021 | 00:50
Góugróður?
Góa er 5.mánuður íslenska vetrarmisserisins. Í grein sem Árni Björnsson ritaði um góu í Árbók Fornleifafélagsins 1990 má lesa margvíslegan fróðleik um góu, sem hófst með konudegi síðastliðinn sunnudag (21.febrúar). Þar er einnig fjallað um veðurspeki sem tengist mánuðinum. Hún rifjast upp í blíðunni þessa dagana. Árni bendir réttilega á að ekki sé algjört samkomulag hvað hana snertir og nefnir dæmi úr orðskviðabók Guðmundar Jónssonar prests á Staðarstað [1830]: Góður skyldi góudagur hinn fyrsti, annar og þriðji, þá mun góa góð verða - þar er grimmur í sviga á eftir góður. Geta spakir rifist um hvort er sér til heilsubótar - annað eins er nú rifrildistilefnið á samfélagsmiðlunum.
Flestir eru hins vegar sammála um að gróður sem kviknar á góu sé heldur viðkvæmur og ekki líklegur til að endast til vors. Sumir ganga svo langt að telja að hann boði beinlínis illt vor - eins og segir í vísunni (Árni vitnar í margar gerðir hennar):
Ef hún góa öll er góð,
öldin skal það muna,
þá mun harpa hennar jóð
herða veðráttuna.
Harpa er sem kunnugt er fyrsti sumarmánuður misseristímatalsins gamla - byrjar á sumardaginn fyrsta. Einmánuður er á milli góu og hörpu. Þegar flett er í erlendum alþýðuveðurspáritum kemur fljótt í ljós að þessi vantrú á mildum vetrarköflum einskorðast ekki við Ísland - slíkir kaflar eru oftar en ekki taldir illis viti - eins og flestöll gömul veðurspeki er hér um innfluttan varning að ræða.
Blaðaklippan sem hér fylgir er úr Morgunblaðinu 27.febrúar 1964 - en þá var tíð fádæma góð. Blaðið ræddi við Jón Eyþórsson veðurfræðing, það er dálítið skondið [fyrir ritstjóra hungurdiska] að hann minnist á að menn séu þá þegar búnir að gleyma blíðunni í fyrra (1963) - en þá fór í raun og veru mjög illa. Vorið 1964 slapp hins vegar til - og vel hugsanlegt að einhver góugróður hafi lifað af. Svipað gerðist svo tíu árum síðar, 1974. [Textinn verður læsilegur sé myndin stækkuð].
En lítum nú á hita á góu og hörpu. Við notum mælingar úr Stykkishólmi 1846 til 2020 og reiknum meðalhita þessara mánaða. Góa nær venjulega yfir tæpan þriðjung febrúar og rúma tvo þriðju hluta mars, en harpa tæplega síðasta þriðjung apríl og fyrstu tvo þriðjunga maímánaðar.
Ekki alveg einfalt að sjá - en einfalt samt (skýrari og mjögstækkanlega pdf-gerð má finna í viðhengi). Hiti á góu er sýndur á lárétta ásnum, kaldast var á henni 1881, en hlýjast 1929. Hiti á hörpu er á lóðrétta ásnum. Köldust var hún 1882, en hlýjust 1935. Fylgnin reiknast marktæk (fylgnistuðull er 0,33) - en sannleikurinn er sá að megnið af henni orsakast af almennri hlýnun beggja mánaða. Við ættum strangt tekið að byrja á því að taka hana burt - einnig á strangt tekið líka að taka tillit til þess að breytileiki hitans í mánuðunum tveimur er mjög mismunandi - mun meiri á góunni heldur en á hörpu. [Staðalvik á góu er 2,4°C, en 1,6°C á hörpu, munur á hæsta og lægsta góumeðalhita er nærri 16 stig, en ekki nema 8,8 stig á hörpu].
Strax vekur athygli að meðalhiti á hörpu var svipaður árið 1881 og 1929 - nánast í meðallagi tímabilsins alls, góa 1881 er hin kaldasta, en 1929 sú hlýjasta. Þess er að vænta að tilfinningin hafi samt verið gjörólík þessi tvö ár. Harpa 1881 virtist mild og hlý miðað við veðráttuna frostaveturinn mikla 1880-1881, en heldur svöl 1929 miðað við hin sjaldgæfu vetrarhlýindi þá. Kalt var á góu 1882 - og mjög kalt á hörpu. Hlýtt var á góu 1974 og líka hlýtt á hörpu. Erfitt er greinilega að nota góuhitann sem spá um hita á hörpu.
Sé leitni reiknuð kemur í ljós að síðustu 170 árin hefur að jafnaði hlýnað um 1,7 stig á öld á góu, en aðeins 0,7 stig á öld á hörpu. Þetta sést vel á næstu mynd.
Súlurnar sýna mun á hita þessara tveggja mánaða frá ári til árs, rauða línan markar 10-árakeðjumeðaltal. Munur hefur minnkað - ekki þó jafnt og þétt. Hann hefur lítið breyst síðustu 50 árin. Hann var meiri á hlýskeiðinu fyrir miðja öldina (1925 til 1965) heldur en á núverandi hlýskeiði og töluvert miklu meiri á 19.öld heldur en nú. Það hefur þrisvar gerst að góa hefur verið hlýrri heldur en harpa, það var 1929, 1932 og 1963. Góa var afbrigðilega hlý öll þessi ár - og viðbrigðin því mikil.
En hitafar var ekki það eina sem skipti máli á hörpu - leiðin til hins fullkomna vors er flóknari en svo.
Þó góa byrji vel nú og þorrinn hafi verið harla hagstæður um meginhluta landsins (ekki þó alveg allstaðar) hefur hiti enn sem komið er ekki verið í hæstu hæðum og keppir ekki í bili að minnsta kosti við hlýjustu vetur. Við lítum á meðalhita fyrstu þriggja vetrarmánaðanna um næstu helgi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2021 | 22:02
Enn fer vel með
Enn fer vel með veður eins og oftast nær í vetur - þó ekki hafi allir landsmenn sloppið alveg jafn vel. En síðustu dagana hefur veðrið verið sérlega blítt um meginhluta landsins og á fimmtudaginn (18.febrúar) var meðalvindhraði á landinu einn sá minnsti sem búast má við að verði á þessum árstíma, aðeins 2,2 m/s. Svo lítill hefur meðalvindhraði aðeins orðið tvisvar í febrúar á þessari öld, 2005 að vísu í nokkra daga í röð. Samanburður er erfiður langt aftur í tímann. Fyrir tíma vindhraðamæla var tíðni stafalogns ofmetin - þó tæknilega hafi e.t.v. verið logn (vindhraði <0,5 m/s) og vindhraði sem mælist 0,4 m/s teljist logn - er hann ögn en það núll sem var ritað í bækur fyrri tíðar. Um þessa ögn munar í metametingi.
Hægastir allra febrúardaga sem við vitum um frá og með 1949 að telja eru 16. og 17. árið 1964. Meðalvindhraði á landinu reiknast aðeins 1,2 m/s. Hefðu þessir dagar lent í núverandi mælikerfi er líkleg að meðaltalið hefði orðið eitthvað hærra - kannski 1,5 til 1,7 m/s, svipað og var þann 23. árið 2005 (1,6 m/s) - örlítið minni en nú á fimmtudaginn.
Kannski man ritstjóri hungurdiska ekki nákvæmlega þessa daga - en samt eru þessir mánuðir báðir, febrúar 1964 og febrúar 2005 honum mjög minnisstæðir - og kannski eru það einmitt þessir dagar sem hafa greipst í hugann - ómerktir.
Veturinn 1963 til 1964 var auðvitað nánast einstakur að blíðu og hlýindum - og ekki hefndist fyrir hana á jafn afgerandi hátt og árið áður, 1963. Þó má auðvitað finna einhverja bletti á orði hans. T.d. féllu stór og óvenjuleg snjóflóð á Siglufirði um jólaleytið - og skemmtileg tilbrigði voru í veðri í janúar, og í upphafi febrúar féll einhver mesti snjór sem ritstjórinn man eftir í Borgarnesi æsku sinnar - en hann hvarf fljótt í blíðunni miklu sem á eftir fylgdi. Það er einkennilegt að sum lög Bítlanna taka ritstjórann beint aftur til þessa febrúarmánaðar - fyrstu plötur þeirra tvær dembdust yfir hann í blíðunni.
Febrúar 2005 var einnig afskaplega óvenjulegur (en engir bítlar - bara Anton Webern) - þá voru vindáttir í Grænlandssundi nægilega afbrigðilegar til að hreinsa út að allmiklu leyti gamla og þétta fyllu af hafís sem lá við Grænlandsströnd suður af Scoresbysundi og Angmaksalik. Suðvestanáttir í sundinu rifu ísinn til austurs með norðurströnd Íslands og komst hann allt austur fyrir Langanes og stakir jakar suður á móts við Norðfjarðarflóa. - En íslaust var fyrir norðan fylluna og hún bráðnaði mjög fljótt - áður en hún gat valdið usla hér á landi. Þetta er samt mesta hafískoma hér við land á öldinni - fyrr á tíð hefði varla nokkur tekið eftir þessu.
En lítum á kort þessa ljúfu liðnu daga. Myndin skýrist sé hún stækkuð.
Dæmið frá 1964 er til vinstri á myndinni. Allar lægðir eru langt í burtu - en mikil hæð yfir norðanverðri Skandinavíu teygir anga sína til Íslands. Háloftakortið er neðan við - þar er hlýtt háþrýstisvæði yfir Íslandi. Dæmið frá 2005 er til hægri - ekki ósvipuð staða nema að hæðin í háloftunum er enn óvenjulegri. Sumarhlýtt loft er fyrir norðan land og situr þar - algjör viðsnúningur á eðlilegu ástandi. Neðri hluti veðrahvolfs er að jafnaði um 7 til 8 stigum kaldari á 70°N heldur en á 60°N. - Hér er hann nærri 8 stigum hlýrri. Þessi mikli viðsnúningur er sá mesti sem við vitum um í febrúar, allt aftur til 1949. Viðsnúningur var líka 1964 - en miklu minni.
Staðan sem hefur lengst af verið uppi í vetur er ekki sú sama og 1964 - en samt eru ættartengsl. Kuldapollurinn mikli, sem við höfum kallað Stóra-Bola hélt sig þá fjarri okkur - rétt eins og í vetur og illviðri tengd honum og lægðagangi heimskautarastarinnar hafa mikið til látið okkur í friði - afskaplega ólíkt því sem var í fyrra. En enn hafa þó stórhlýindi látið á sér standa hjá okkur.
Við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega, mars og apríl fylgja ekki endilega því sem á undan er komið - en geta gert það. Við ljúkum þessu lauslega spjalli með því að líta á spákort fyrir norðurhvel. Það gildir á mánudaginn kemur, kl.18.
Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, en þykktin sýnd í litum. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hér má sjá báða kuldapollana stóru, Stóra-Bola yfir Norður-Íshafi norður af Alaska, hann hefur undanfarna daga mjög sótt í sig veðrið og hefur náð fullum styrk árstímans - en er kannski þó heldur minni um sig en algengast er. Síberíu-Blesi er grynnri, en mun stærri um sig. Hæð er yfir Balkanlöndum og miklum hlýindum spáð í Þýskalandi, Póllandi og víðar - mikil viðbrigði eftir kuldana að undanförnu. Mikil lægð er suðvestur í hafi - spár gera ráð fyrir því að hún hringi sig þar og viðhaldi hóflegum hlýindum hér á landi - litla sem enga aðstoð fær hún frá meginkuldanum í norðvestri.
Þessi staða virðist fremur óstöðug, en flest okkar vonum að hann haldi áfram að fara vel með veður. Við verðum samt að muna að mars er kaldasti mánuður vetrarins í 1 tilviki af sex - að jafnaði og að apríl getur stundum sýnt á sér óvenjuhörku.
Hita hefur verið nokkuð misskipt á landinu fyrstu 20 daga febrúarmánaðar. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +2,2 stig, 1,5 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en +1,1 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 5.hlýjasta sæti aldarinnar (af 21). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,3 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 26.hlýjasta sæti (af 147). Hlýjast var 1965, hiti þá +4,8 stig, en kaldast var 1892, meðalhiti -4,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú -1,0 stig, -0,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -0.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, hiti þar í fjórðahlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi, þar sem hiti er í 14.hlýjasta sætinu.
Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið mest á Skarðsfjöruvita, +1,7 stig, en neikvætt vik er mest á Sauðárkróksflugvelli, -2,5 stig.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 28 mm og er það tæpur helmingur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 22 mm og er það um helmingur meðalúrkomu.
Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 52,8 og er það 14 stundum umfram meðallag. - Loftþrýstingur telst ekki lengur óvenjulegur.
Vísindi og fræði | Breytt 21.2.2021 kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2021 | 20:54
Af árinu 1842
Árið 1842 var umhleypinga- og úrkomusamt, en sennilega eitt af fimm hlýjustu árum 19.aldar. Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig, 1,5 stigi ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Aðeins einn mánuður ársins var kaldur, það var nóvember, en sjö mánuðir hlýir, janúar, mars til maí, og júlí til september. Óvenjulega hitabylgju gerði í júlí og mjög hlýir dagar komu einnig seint í apríl og snemma í október. Sjaldan frysti að ráði á útmánuðum. Rigningar spilltu fyrir heyskap um landið sunnanvert.
Mjög kaldir dagar í Reykjavík voru aðeins þrír, 8.maí, 23.ágúst og 24.október. Mjög hlýir dagar voru fimm.
Árið var mjög úrkomusamt, alla vega um landið sunnanvert. Úrkoma í Reykjavík mældist 1201 mm, það mesta á tíma úrkomumælinga Jóns Þorsteinssonar (1829 til 1854) og hefur aðeins einu sinni mælst meiri, það var 1921. Úrkoma var sérlega mikil í janúar og febrúar, en nóvember var þurr (tölur í viðhenginu).
Loftþrýstingur var sérlega lágur í febrúar og ágúst, en mjög hár í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 11.febrúar, 943,6 hPa, en hæstur þann 18.október 1031,9 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í desember, en óvenjulítill í september.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Annállinn segir þó: 19. febrúar fórst bátur úr Svarfaðardal á heimleið frá Siglunesi. Drukknuðu þar fimm menn. 19.mars (næsta laugardag fyrir páska) fórust 4 bátar nálægt Brunnastöðum á leið til Njarðvíkur. Voru þeir úr Kjós og af Hvalfjarðarströnd með 9 eða 10 mönnum.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1842 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:
Ár 1842 voru umhleypingar miklir; þá var vetur þíður og snjóalitill; sunnanáttir langvinnar, veður ókyrr og úrfelli mikil. Svo voru hægviðri sjaldgæf, að hina þrjá seinustu mánuðina komu ekki nema fjórir logndagar, hinn 2. okt., 7da, 28da og 29da des. Grasár varð í góðu meðallagi, og var sumstaðar tekið til sláttar um sólstöður, en nýting bág, á öllum þeim afla, er þurrkast þurfti, fyrir votviðra sakir. Hlutir undir Jökli tvö hundruð og þaðan af minni; í Dritvík líkt og árið áður, en vestur á Sveitum aflaðist steinbítur vel.
Árið 1842 í janúar týndust 2 drengir á Skutulsfirði. Í marsmánuði fórust 2 skip frá Gufuskálum og 1 frá Ólafsvík, öll í fiskiróðri með 30 manns. Um haustið týndist kaupskip frá Búðum á framsiglingu með 8 mönnum, var þar á Guðmundur kaupmaður Guðmundsson, ungur maður, virtur og saknaður. Þá fórst og skúta ein frá Ísafirði á framsiglingu sama haustið með 12 mönnum, og önnur á siglingu hingað út vorið eftir. Tjáist og, að skip hafi þá týnst á framsiglingu frá Hafnarfirði og hafi því verið 18 manns.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Um nýár leit vetur út þunglega, því jarðlaust var yfir allt. Mundu menn, að mestu harðindavetur voru 1802, 1812 og 1822 og allhart 1832 og líkur til þess yrði eins. Í janúar var nú blotasamt, frostalítið og fjúkasamt, oft snöp, en svellalög þau mestu. Mátti allt láglendi á skautum fara. Fyrri part febrúar stóðu hross við. Var þeim hér að mestu inni gefið 14 vikur. 8.-9. febr. hláka og gaf vermönnum vel suður. Í febrúar oft stormar og bleytiköföld, en frostalítið. Í mars stillt. Annars var á Ásum og Skagafirði á láglendi hrossajörð eftir þrettánda, utan þar ísar lágu á. Með einmánuði hláka, svo víðast kom upp jörð. ... Nóttina 15. febr. brann frambærinn í Blöndudalshólum; nýbyggt eldhús, bæjardyr og stofa ... Veður var þá hvasst og kafald. (s140)
Í veðurbók frá Odda á Rangárvöllum segir af jarðskjálfta 6.janúar.
Séra Þorleifur í Hvammi segir frá óvenjulegri snjódýpt 1.febrúar.
Séra Jón Austmann í Ofanleiti segir í veðurskýrslu í mars: Það umgetna (ofsa) veður þann 28. þ.m., tjáist elstu mönnum, það mesta sem þeir til minnir.
Brekku 2-3 1842 (Páll Melsteð): Það hefur ekki verið gaman að ferðast í vetur síðan um nýár, því veðrin hafa verið svo mikil að allt hefur ætlað í loft upp, og ennþá eru stormar á hverjum degi, svo sjaldan verður á sjóinn komist, og þó er fiskur fyrir hér á Sviði; eins hefi ég frétt að fiskur sé kominn í Þorlákshöfn. Nú er hart í sveitum hér syðra, því snjóa rak niður í útsynningunum fyrir fáum dögum, en allir sveitamenn eru vel birgir af heyi.
Bessastöðum 5-3 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s201) Vetur var frostamikill til jóla, síðan geysistormar og umhleypingar, sem enn haldast við. Frostin, þegar þau voru mest, hafa líklega verið hér um bil sextán gráður.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Á miðjum einmánuði [snemma í apríl] (s138) kom rigning mikil og vatnsgangur með skriðuárennsli um tún og engi. Síðar lá snjór á vikutíma og fyrir sumarmál vorblíða, svo tún litkuðust og nægur sauðgróður með maí. Fóru kýr víða út um sumarmál, en lambahey allmargra var þrotið á góu. Vorið varð allt gott og blítt.
Magnús Jónsson segir af veðri í Grímsey: 23. apríl: Mistur allt í kring, 28. apríl: Hitamóða allt í kring og 26.maí: Mistur allt í kring.
Annáll 19.aldar segir um sumarið:
Sumarið var þurrt og gott til hundadaga. Eftir það stórfelldar rigningar fram yfir Mikaelsmessu [29.september]. Nýttust töður vel, en úthey miður. Varð heyjafengur norðanlands í betra lagi, en lakari syðra.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
[Þ]urrkasamt í júní, lestarferðir búnar með júlí og kauptíð úti þann 10. júlí. Sláttur hófst í 12. viku og stóð yfir um 10 vikur. Tíðin gafst vel, rekjur nógar og þurrkar meðfram og töðufengur mikill, útheyskapur eins og á þurrlendi, en votengi flóði mjög seint í ágúst. Hraktist þá hey mikið allvíða og á Suðurlandi var ónýting. Um göngur náðist allt hey inn utan á Laxárdal.
Jón Austmann í Ofanleiti segir frá byl að kvöldi 2.júní og frost þá næstu nótt. [ath]
Séra Þorleifur í Hvammi segir 7.júní af stórflóði í vötnum, þann 9. júní frá mistri í suðurlofti, þrumuleiðingum kl.4.e.h. þann 10.júní og næturfrosti 18.júní.
Næturfrost var þann 12.júlí í Odda á Rangárvöllum.
Magnús í Grímsey segir: 17. júní Snjóél um morguninn og aftur um kvöldið [hiti var 2-3 stig allan daginn], 18. júní: Sleit úr honum snjór um morguninn, 20. júní: Krapi um morguninn. 4. júlí: Stinningskaldi í morgun og krapahryðjur. 6.ágúst: Ísjakar á stangli norðvestur og norðaustur af eynni. 9. ágúst: Frost í nótt. 23. ágúst: Gránaði í rót af éli. 24. ágúst: Alhvítt land hvar sem til sást niður til byggða. 30. ágúst: Gerði storm á SV með krapahryðjum. 31. ágúst: Alhvítt í landi hvar sem tilsást.
Þann 17. og 19.júlí gerði óvenjulega hitabylgju á landinu, e.t.v. þá mestu á allri 19.öld. Hámarkshitamælir var aðeins í Reykjavík. Hiti fór mjög víða yfir 20 stig og á fjölmörgum stöðvum yfir 25 stig. Í Reykjavík mældist hitinn 20 stig eða meira 6 daga í röð (17. til 22.), fór hæst í 27,5 stig þann 18. og 26,3 stig þann 19. Vegna mæliaðstæðna er þó ekki hægt að staðfesta þetta sem met. Á Valþjófsstað mældist mesti hiti 29°C þann 19.- þar var enginn hámarkshitamælir. Í Odda á Rangárvöllum fréttist mest af 26 stigum þann 18.júlí. Í Saurbæ í Eyjafirði mældust mest 25 stig þann 19., 24 stig mældust á Reynivöllum í Kjós þann 19. Í Glaumbæ í Skagafirði var hiti 25 stig bæði þann 18. og 19. Á Gilsbakka í Hvítársíðu mældist hiti mest 23 stig (að morgni). Athugunarmaður segir: 18.júlí. Víða í sveitinni varð fólki illt af höfuðverki og uppköstum. Hiti virðist ekki hafa náð 20 stigum í Hítardal, í Grímsey fréttist mest af 19 stigum [þann 19. - kafþoka var um kvöldið] og á Eyri í Skutulsfirði (Ísafirði) mest af 16 stigum, þann 18., 20. og 21. og minna á Hrafnseyri í Arnarfirði. Á Ofanleiti í Vestmannaeyjum fréttist mest af 18°C. Ekki hafa allar veðurskýrslur verið rannsakaðar og líklegt að fleira leynist í þeim um þennan merka viðburð.
Á Melum í Melasveit fór hiti í 25 stig þann 18. - Jakob Finnbogason athugunarmaður segir mælinn kvarðaðan í R, en það er 31°C - eiginlega handan marka hins trúlega - nema að sólarylur komi eitthvað við sögu. En hann mælir þó þrisvar á dag. Hann lýsir veðri þessa daga og mældi hita kl.7, 12, og 18:
17. Austan stinningskaldi. Jafnþykkt loft, mistur- og morfullt. Létti til kl.9, varð heiðríkur, gekk í norðanaustankalda mor til kvölds. [Hiti 16, 21, 24 stig] 18. Norðaustan kaldi, fögur heiðríkja um allt loft. Þerrir, útræna á áliðnum degi. [Hiti 25, 25 og 20 stig] 19. Logn og norðan andvari. Heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, útræna á áliðnum degi. Þoka um kvöldið. [Hiti 22, 22, 20 stig] 20. Norðankaldi. Fögur heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, snörp útræna um hádegi, lygndi með kvöldinu. [Hiti 20, 15, 15 stig].
Úr veðurbók á Valþjófsstað 15. ágúst: Sólin blóðrauð kl. 6-8 fm.
Þann 30.ágúst snjóaði niður í byggð í Hítardal.
Bessastöðum 25-9 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s205) Sumarið hefur verið vott og kalt, nýting í lakara lagi. Norðanlands hefur það verið betra, einkum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
Saurbæ 6-10 1842 [Einar Thorlacius] (s103) Vorið og sumarið eitthvert það fegursta og veðurblíðasta. Í apríl var hitinn í skugganum oft liðugar 20 gr. og í dag er hann 12. Þó hafa sífelldir þurrkar ásamt þeim sterka hita ollað víða á harðvelli grasbresti, og sumstaðar urmull af grasmaðki gjört mikið tjón. Þar á móti er mikið látið yfir tjóni af rigningum á Suður- og Vesturlandi.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haustið þíðusamt og þrisvar stórrigning fyrir miðjan október. Flóði þá mikið yfir flatlendi, síðan frost og snjór með smáblotum. Með nóvember vikuþíða, síðan landnyrðingur og meðallagi vetrarveður, á jólaföstu lengi auð jörð. Á jóladaginn brast á norðan stórhríð og lagði þá að vetur með fönn og frostum. Sunnanlands varð bágt árferði, rigningavetur og slæm peningshöld, aflalítið og slæm verkun á fiski, heyskemmdasumar og urðu kýr gagnslitlar.
Þann 16.október segir veðurbók af miklum skruggum snemma að morgni í Odda á Rangárvöllum og þann 28.nóvember segir: kl. 6 e.m. sást í hálofti líða til vesturs teikn á himni að stærð viðlíka og stór stjarna, og var birtan af því eins mikil og af skæru tunglsljósi, var líka sem ljósrák eftir þar sem það leið um og eins að sjá sem daufari og minni stjarna þar sem það endaði. Aðfaranótt 16.desember var þar mikill skruggugangur.
Annáll 19.aldar segir frá því að 13. nóvember hafi tveir ríðandi menn horfið niður um ís á Þjórsá. Lík annars þeirra fannst, en hitt ekki. Þetta gerðist á leið milli Kambs og Skeiða-Háholts.
Jón Austmann í Ofanleiti segir af óstjórnandi ofsaveðri aðfaranótt 1.desember og sömuleiðis þann 5. desember var eitthvert hið mesta ofsaveður suðvestan. Hófst það síðdegis og varaði allt til miðrar nætur, og nóttina millum nær 23. og 24. desember var líka ófært veður frá suðri, aftur hljóp í suðvestur.
Þorleifur í Hvammi segir þann 30.nóvember: 8 e.m. hófust svo mikið leiftur, áður snæljós, sem ljós væri borið fyrir dyr og glugga.
Magnús í Grímsey segir: 21. október: Heyrðist undarlegur gegnum(kringandi) hvinur í sjónum í kvöld, sem þeir kalla hér náhljóð sjóar, og segja að boði annað hvort skiptjón eða illviðri. 24. október: Urðu -9 stig milli hádegis og dagmála 21.nóvember: Varð vart við þrjár jarðskjálftahræringar. 22. nóvember: Jarðskjálftahræringar. 20. desember: Mesta sjórót sem komið hefir í Grímsey á þessu ári. Í lok mánaðar er þessi athugasemd: Mestallan þennan mánuð hefir verið undarleg óstilling og tíðast blásið af tveimur áttum á dag.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
17.2.2021 | 00:54
Af árinu 1841
Árið 1841 þótti hagstætt þrátt fyrir nokkra vorkulda, slæm sumarhret og mikinn kulda seint um haustið. Í heild var árið fremur kalt (að okkar tíma mati), meðalhiti í Reykjavík var 3,6 stig, -0,2 stigum neðan meðaltals næstu tíu ára á undan. Munaði mest um sérlega kaldan nóvember, þá var morgunhiti á Gilsbakka í Hvítársíðu -10°C eða lægri í 13 daga í röð. Ámóta kalt var í desember - en það er samt venjulegra. Auk þessa var einnig kalt í janúar, júlí, ágúst og október, en aftur á móti hlýtt í febrúar, mars, apríl og september, að tiltölu hlýjast í febrúar og mars, enda vel um tíð talað.
Í Reykjavík voru 24 dagar sérlega kaldir, þar af 9 í ágúst, sá 22. kaldastur að tiltölu. Enginn dagur var sérlega hlýr í Reykjavík.
Árið var þurrt í Reykjavík, ársúrkoman ekki nema 535 mm. Þurrast var í júní og júlí, en úrkoma var mest í mars. (Tölur í viðhengi).
Þrýstingur var sérlega hár í janúar og september og einnig hár í júlí, október og nóvember. Hann var fremur lágur í mars, apríl, maí og ágúst. Þann 4.janúar mældist þrýstingur hærri en nokkru sinni fyrr eða síðar hér á landi, 1058,0 hPa. Nákvæm tala er e.t.v. aðeins á reiki (vegna óvissu í hæð loftvogar og nákvæmni hennar) en ljóst að Jóni Þorsteinssyni athugunarmanni í Reykjavík þótti þetta mjög óvenjulegt, hann fylgdist með loftvoginni og skrifaði niður sér hæstu töluna sem hann sá. Þessi háþrýstingur stóð ekki lengi. Nánar er um þetta merka met fjallað í sérstökum metpistli á vef Veðurstofunnar.
Þetta var auðvitað hæsti þrýstingur ársins, en sá lægsti mældist í Reykjavík rúmum mánuði síðar, þann 19.febrúar, 948,4 hPa. Þrýstiórói var með minnsta móti í ágúst, september og október - sem bendir til hægra veðra.
Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins hófust víða um land um mitt ár - og síðan árið eftir. Um þetta merka átak má m.a. lesa í skýrslu í ritasafni Veðurstofunnar. Nokkuð hefur verið unnið úr mælingum og athugunum og heldur sú vinna vonandi áfram á næstu árum. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.
Annállinn getur þó þess tvö systkin frá Ægissíðu hafi orðið úti á Vatnsnesi 2.janúar. Þann 28.júlí sleit frá tveimur akkerum í norðaustan rokviðri hollenska fiskiskútu á Haganesvík í Fljótum og rak að landi. Menn komust af nema skipstjórinn. Tveir bændur frá Vík í Héðinsfirði fórust í snjóflóði 22.nóvember.
Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1841 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:
Árið 1841 var talið eitt með helstu góðárum landsins. Tvo hina fyrstu mánuðina [janúar og febrúar], og hinn níunda og tíunda [september og október], voru langvinn og sífeld staðviðri; hagar voru alltaf nægilegir, og sumstaðar gekk sauðfé sjálfala úti. Grasár varð gott, því tún og harðvelli spruttu vel, nýting sæmileg. Sjávarafli í meðallagi, vetrarhlutir undir Snæfellsjökli 4 hundruð og þaðan af minni, allt að 2 hundruð; vorhlutir í Dritvík tvö hundruð og minni, en að sínu leyti lakari í hinum verstöðunum vestra.
Árið 1841, í janúar, dóu 2 menn af róðrarskipi, sem hraktist frá Jökli til Barðastrandar. Það ár drukknuðu 2 menn af bát úr Skálavík, 7 menn. af hákarlaskipi frá Ögri í Ísafirði og 4 menn frá Felli í Tálknafirði.
Erfitt er að lesa hönd Jóns Jónssonar í Dunhaga í Hörgárdal, en þó má greina þetta (ekki orðrétt eftir haft):
Janúar mátti kallast yfirhöfuð í mikið betra lagi, þó um tíma gerði jarðbönn. Febrúar allur mikið góður að veðráttu. Mars merkilega góður. Apríl yfir höfuð að segja góður þó síðari partur (eitthvað neikvætt). Maí mestallur mjög kaldur. Júní má kalla í betra lagi. Júlí að sönnu allsæmilegur. Ágúst má kallast hér í meðallagi og þó betri. Október misjafn mjög, þó teljast í meðallagi. Nóvember má heldur teljast í lakara lagi. Desember jarðlítið mjög.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Þriðja janúar var mikil norðanhríð. Rak þá fjölda af svartsmáfugli, er kallast haftyrðill, mest í Hegranesi og Hrútafirði. Meintu margir það vissi á ís og harðindi, en veturinn varð mikið góður, því aldrei tók fyrir jörð. Snjóakafli með þorra 2 vikur, lengst stillt og mjúkt veður. 13. mars kom heiðarleysing og úr því gott vorveður.
Tíðarfari er lýst í fáeinum bréfum:
Frederiksgave [á Möðruvöllum í Hörgárdal] 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): Vetur þessi hefir verið hinn besti það sem af er ... (s154)
Frederiksgave 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): ... veturinn þann besta það sem af er, (s255)
Brekku 2-3 1841 (Páll Melsteð). Menn mun ekki eins góðan vetur, að minnsta kosti hér syðra, það má segja að eigi hafi lagt glugga oftar en tvisvar, nokkru fyrir jól og svo fáum dögum eftir nýár.
Bessastöðum 3-3 1841 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s194) Vetur hefur verið blíður og hartnær snjólaus til þessa.
Frederiksgave 23-3 1841 (Bjarni Thorarensen): Veturinn hefir hér verið einhver hinn allrabesti enda þurfti þess með. (s175)
Frederiksgave 20-4 1841: Vetur hinn allrabesti (s298)
Frederiksgave 22-4 1841 (Bjarni Thorarensen): ... góður vetur ... menn vona að hafís komi ekki í ár, því austan átt hefir lengi dominerað og óvenjulega mikið brim með hverri norðangolu, hann er því langt í burtu. (s176)
Þann 10.febrúar segir Ólafur í Uppsölum frá mikilli námafýlu - trúlega á hann við brennisteinslykt. Annars er veðurlýsing þess dags: Sunnan stormur, hríð og frost fyrst, þá oftar rigning.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir jafndægur unnið á túnum og þau grænkuðu á sumarmálum. Með maí frost og ofurmiklir þurrkar, er stöðugt hélst allt vorið. Fór grasvexti seint fram. Þó varð hann mikill í útsveitum, hálsum og votlendi.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
29. júní kom eitthvert mesta hret á þeim tíma. Mesta fannkoma var 3 dægur, síðan frost mikið, svo hestheldar urðu fannir á heiðum. Ei náði það suður yfir Sand og hálfan mánuð var snjór hér í fjöllum í góðu sumarveðri. Sláttur byrjaði 16.-17. júlí og varaði í lengsta (s136) lagi. Veðurátt varð hagstæð, rekjur góðar og nægur þerrir. 27.-28. ágúst stórfelld rigning. Skemmdist þá sæti, þar sem það var úti. Aftur 14.-18. sept. ógnarrigning. Varð þó allt hey hirt um göngur. Hélst góðviðrið út september.
Árgæska varð nú í flestum sveitum. Þó varð mikill málnytarhnekkir við fráfærnahretið. Fáheyrt var líka hér um slóðir að grasmaðkur gjöreyddi gróðri í Langadal, frá Buðlunganesi að Auðólfsstaðaá [neðanmáls: Fjallið varð hvítt og haglaust], svo skepnur flúðu á háfjöll, en Hlíðarfjall varð frítt, en skaði varð að þessu í Svartárdal og Blöndudal mót vestri og mjög víða í Skagafirði, einkum í Djúpadal. Maðkadyngjan færðist yfir í þykkum röstum, og varð hvít jörð eftir hann, færðist að túnum og þar mátti merja það mesta með fótum, eins og mola röst á túni. Spratt þar fljótt gras aftur af fitu hans, sem er ljósefni. Ei fór hann í velgróið tún, heldur jaðra og ræktarlitla bletti. Tíminn var milli fardaga og Jónsmessu. Á því maðk- (s137) étna svæði varð dáðlaust hey og hagar til mjólkurnota. Lítið varð vart við hann á hríslendinu. (s138)
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir af veðri síðustu daga júnímánaðar:
Sunnudagur 27.júní. Kyrrt og þoka fyrst, þá hafgola, stundum sólskin. Skúrir áliðið, aftur kyrrt og þoka seinast. Veðrið alltaf hlýtt. 28. Sunnan hvass, sólskin, hlýtt, þykknaði áliðið, mistur. 29. Suðvestan frameftir, þá vestan og stundum norðan seinast og kaldur, éljaleiðingar, stundum sólskin. 30. Fyrst sunnan, þá norðan og þá úr ýmsum áttum. Kuldi, hríðarkólga útí og éljaleiðingar, sjaldan sólskin, áttin alltaf af vestri. 1.júlí. Norðan kaldur, þykkur hríðardimma í fjöllum fyrst og þá éljaleiðingar, þá sólskin, seinast kyrrt og blítt.
Frederiksgave 23-8 1841 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir hér verið í betra meðallagi en ekki meir, því strax eftir Jónsmessu kom eftir langa sunnan- og vestanátt, hafís, svo kuldaköst hafa síðan gengið, þar á meðal nú seinustu viku af hundadögunum. Á Húsavík gat ég með góðu komið því á, að menn lögðu saman til að gera gryfju til að láta brennisteinsskol renna í þegar hann er þveginn, svo þau flytu ekki einmitt í sjó út, því menn kenndu mest um það aflaleysið sem hefir nokkur undanfarin ár verið á Skjálfandaflóa síðan brennisteinsþvottur tók þar aftur að tíðkast, en þegar gryfjan kom hefir svo viðbrugðið að á Flóanum sama hefir í sumar rétt vel fiskast, og þetta virðist að sanna meiningu almúga um skaðvæni brennisteins fyrir fiskiafla. (s257) [Bjarni lést snögglega aðeins 2 dögum síðar og jarðaður þann 4.september. Séra Jón í Dunhaga jarðsöng].
Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af næturfrosti í Eyjum aðfaranótt 3.september.
Þann 1. september segir Magnús í Grímsey snjóa- og kuldalegt, og að þann 3.september hafi alsnjóað. Einnig segir séra Þorleifur í Hvammi frá því að þar hafi snjóað niður að sjávarmáli 3.september.
Brekku 7-10 1841 (Páll Melsteð). Héðan er fátt að frétta af Suðurlandi, nema tíðin er svo góð og blessuð alltaf, að ég hefi aldri lifað í betra veðri eða hagstæðara til allra aðdrátta og útivinnu. Heybændur eru líklega vel byrgir að heyjum, svo það er líklegt, ef veturinn verður góður, að þeir komi vel fótum undir sig. Hér við sjóinn er nú allt lakara, vertíðin var með lakara móti, vorið ekki betra.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur í áramóta]:
Í október fyrst stillt og þurr norðanátt. 11. og einkum 19. okt. lagði á fannir miklar, 30.-31. blotaði og tók upp til lágsveita, en varð gaddur á hálendi. Með nóvember aftur fönn, svo öll lömb voru tekin inn. Varð Langidalur þá fyrir meiri gaddi en aðrar sveitir. 3.-13. nóv. var stillt veður, en lítil snöp; aftur langur landnyrðings-hörkukafli og langvinn hríð ytra. 22. nóv. kom allt fé á gjöf, braut aðeins niður framan í hálsbrúnum, en sléttur gaddur yfir alla jörð neðra. Í miðjum desember voru öll hross komin á gjöf. Hörkur og óstöðugt var lengst á jólaföstu. Um nýár var meira hey uppgengið en nokkru sinni áður.
Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af desember 1841: Þann 20. þ.m. var frostið um dagmál 9° en um kvöldið kl.8 -15°.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1841. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2021 | 01:57
Fyrri hluti febrúar
Meðalhiti fyrstu 15 daga febrúarmánaðar er +2,1 stig í Reykjavík, +1,7 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +1,0 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og raðast í 6.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 27.hlýjasta sæti (af 147), fyrri hluti febrúar var hlýjastur árið 1932, meðalhiti +4,5 stig, en kaldastur var hann 1881, -5,9 stig.
Meðalhiti á Akureyri er nú -1,7 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Allmiklu munar nú í vikum landshlutanna. Hlýjast að tiltölu hefur verið við Faxaflóða og á Suðausturlandi þar sem hiti raðast í 6.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðausturlandi þar sem hitinn raðast í 16.hlýjasta sætið.
Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið mest á Skrauthólum, +1,8 stig, miðað við síðustu tíu ár, en neikvætt vik er mest á Sauðárkróksflugvelli, -3,7 stig - er þetta óvenjumikill munur.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 20,6 mm og er það aðeins 40 prósent meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 12 mm og er það einnig í þurrara lagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 38 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það um 9 stundir umfram meðallag.
Loftþrýstingur hefur verið í hærra lagi - en hefur dálítið látið undan síga síðustu daga.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.3.): 19
- Sl. sólarhring: 212
- Sl. viku: 2375
- Frá upphafi: 2010529
Annað
- Innlit í dag: 19
- Innlit sl. viku: 2042
- Gestir í dag: 19
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010