Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2022

Alþjóðaveturinn 2021-22

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.

w-blogg280222

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1823 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,7 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt -0,6 stigum undir meðaltali áranna 1991 til 2020, -0,9 stigum neðan  meðaltals síðustu 10 ára og fjórðikaldasti alþjóðavetur á þessari öld. Ekki munar miklu á hitanum nú og hita þeirra þriggja köldustu. 

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 20. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil) á 78 árum.

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.

Veturinn nú er býsna ólíkur vetrinum í fyrra. Þá fór lengst af mjög vel með veður, óvenjusnjólétt var og lítið varð úr illu útliti. Veturinn nú byrjaði ekki illa, að vísu var umhleypingasamt í haust, en desember var sérlega hagfelldur. Um áramót skipti um og síðan hefur verið erfið tíð, sérstaklega í febrúar sem virðist ætla að verða með snjóþyngra móti, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Snjólétt hafði verið fram að því. Austanlands telja menn tíðina hafa verið allgóða, þrátt fyrir fáein skæð illviðri þar um slóðir.

Sem stendur virðast langtímaspár benda til þess að umhleypingatíðin haldi áfram - kannski verða austlægar áttir þó algengari en verið hefur og hiti ívið hærri. Við tökum þó hóflega mark á - oftast er ekki mikið á spár að treysta.


Hversu óvenjuleg er illviðratíðin?

Ekkert einhlítt svar er til við þeirri spurningu, en hér á eftir fer einfaldur samanburður sem byggist á stormdagavísitölu ritstjóra hungurdiska. Oft hefur hér verið fjallað um þessa vísitölu áður. Hún er þannig gerð að á hverjum degi er talið á hversu mörgum stöðvum í byggðum landsins vindur hefur náð 20 m/s og síðan deilt í þá tölu með heildarfjölda stöðva. Þá fæst hlutfallstala - af sérvisku einni notar ritstjórinn yfirleitt þúsundustuhluta. Næði vindur 20 m/s á öllum stöðvum væri þessi hlutfallstala því 1000 - nái vindur 20 m/s á engri er talan auðvitað núll. 

Hér á eftir hefur ritstjórinn lagt þessar hlutfallstölur hvers dags saman frá 1.júlí á síðasta ári allt til dagsins í dag - og stóð summan í morgun í 13840. Sú tala ein og sér segir ekki mikið - ekki fyrr en hún er borin saman við það sem hefur verið undanfarin ár - eða lengri tíma. Myndin á að sýna slíkan samanburð 9 ára.

w-blogg260222

Byrjað er að telja 1.júlí ár hvert - síðan haldið áfram allt til 30.júní. Tölurnar hækka mjög hægt í fyrstu - ekki er mikið um illviðri í júlí og ágúst, en eftir það fer að draga til tíðinda. Línurnar hækka síðan oftast ört sérstaklega eftir að kemur fram í desember. Í flestum árum er hækkunin ör allt þar til seint í mars - þá dregur úr og eftir 1. maí er oftast rólegt (þó ekki alveg alltaf). 

Núlíðandi vetur er merktur í rauðum lit (og með dálítið feitari línu en aðrir). Línan hækkaði nokkuð ört fyrst í haust - var fremst meðal jafningja í október - eftir talsverða illviðrasyrpu septembermánaðar. Síðan kom rólegt tímabil (miðað við það sem oftast er) - og um áramótin var staðan orðin sú að núlíðandi vetur var orðinn næstlægstur á línuritinu - enda var desember með rólegra móti - engin stórillviðri þá eins og sjá má 2014, 2015 og 2019. Í janúar og það sem af er febrúar hefur veturinn tekið fram úr hverjum á fætur öðrum og er nú kominn með næsthæstu summuna (af þessum 9). Það er aðeins illviðraveturinn mikli 2014 til 2015 sem er framar. Síðast var tekið fram úr 2019 til 2020 - nú fyrir nokkrum dögum. 

Það er alveg ljóst að veturinn nú verður ofan við 2013 til 2014, en auðvitað er ekki útséð með 2019 til 2020 - sá vetur átti mikinn sprett um mánaðamótin mars/apríl. Það er enn alveg hugsanlegt líka að hann muni ná 2014 til 2015 - en illviðrum má þá vart linna fyrr en í maí. 

Veturinn er nú þegar kominn framúr öðrum vetrum aldarinnar, nema 2007 til 2008, en hann endaði á svipuðum slóðum og 2019 til 2020. Nokkrir eldri vetur eru í flokki með 2014 til 2015 (sjá myndina) - en nákvæmur samanburður verður óljósari eftir því sem við förum lengra aftur - vegna stórfelldra breytinga á stöðvakerfinu og breytinga á athugunarháttum.

Af hægviðrasömum vetrum má nefna þann í fyrra, 2020 til 2021, sem var sá illviðraminnsti frá 1984 til 1985. Illviðraminnstur allra allt frá 1949 að minnsta kosti, var veturinn 1963 til 1964 - frægur fyrir hlýindi og góðviðri - mun maður vart lifa aftur annan slíkan. 

Svar við spurningunni í fyrirsögninni? Jú, þetta er með snarpara móti - (hvað sem svo verður). 


Enn eitt landsynningsveðrið

Eftir nokkuð fallegan dag (fimmtudag 24.febrúar) nálgast enn ein lægðin - líklega ekki alveg jafn illskeytt og þær sem ollu vandræðum mánudaginn 7. og mánudaginn 21. - en samt umtalsverð. Veldur miklu hvassviðri, trúlega rigningu á láglendi, en hríð til fjalla - þar á meðal á flestum fjallvegum. Ekkert ferðaveður satt best að segja - og varla innanbæjar einu sinni - þá vegna vatnselgs og tilheyrandi skyggnisleysis. Gangstéttir og stígar meira eða minna ófær.

w-blogg240222ib

Kortið gildir kl.15 síðdegis á morgun (föstudag) - þá er stutt í að skil lægðarinnar komi inn á land. Þá dregur talsvert úr afli veðursins. Litafletirnir sýna loftvogarbreytingu á milli kl.12 og 15. Þar sem mest er hefur hún fallið um nærri 15 hPa - ekki ósvipaður fallhraði og var í mánudagslægðinni síðustu. 

Myndin hér að neðan ber saman suður/norður-þversnið við Vesturland í fjórum illviðrum í þessum mánuði (skýrist talsvert sé myndin stækkuð). Litirnir sýna vindhraða, vindörvar líka vindátt (eins og væri um hefðbundið veðurkort að ræða). Jafnmættishitalínur eru heildregnar.

w-blogg240222ia

Öflugur landsynningurinn er sameiginlegur myndunum fjórum. Efst til vinstri er spá fyrir veður morgundagsins (gildir kl.12 á hádegi). Vindröstin kemur fram eins og pylsa á myndinni. Á fjólubláa svæðinu er vindur meiri en 40 m/s, mest um 45 m/s í um 850 hPa-hæð (um 1200 metrar). Bæði ofan og neðan við er vindur minni. Efst á myndinni má sjá í heimskautaröstina sjálfa, í 300 hPa eða hærra. 

Efst til hægri má sjá samskonar snið frá því á mánudaginn (21.). Þá var enn meiri vindur í landsynningsröstinni, um 53 m/s þar sem mest var - en í svipaðri hæð (850 hPa). Í grunninn er það hallinn sem sjá má á jafnmættishitalínunum í námunda við röstina sem knýr hana - kaldara er hægra megin á sniðinu heldur en vinstra megin. Auk þessa verða til nokkur þrengsli þegar loftið þarf annað hvort að beygja frá landinu - eða þvingast yfir það. Gróflega er röstin samspil þessara tveggja þátta. Sé rýnt í - má einnig sjá halla á jafnmættishitalínum við veðrahvörfin - hjálpar til. 

Neðst til vinstri er illviðrið mánudaginn 14. febrúar. Það er minnst þessara veðra - en samt er það nákvæmlega sömu ættar. Vindur er mestur rúmlega 40 m/s - og umfang rastarinnar heldur minna en á hinum myndunum.

Neðst til hægri er hins vegar mánudagsveðrið 7.febrúar. Það var nærri því eins öflugt og það 21. Hér er vindur umhverfis landssynningsröstina líka meiri en á hinum myndunum - einhver lítilsháttar bragðmunur í upphæðum - niðurstaðan hér í mannheimum þó svipuð. 

Tíma þeirra sem áhuga hafa á veðri er ágætlega varið við skoðun á þversniðum - en ekki fást þó allir til þess. 

Svo er að sjá sem lítið lát sé á umhleypingatíðinni. Næstu lægðar (að afloknum morgundeginum) er síðan að vænta á aðfaranótt mánudags. Spár virðast þó benda til þess að hún kunni að fara fyrir austan land - ekki sama bragð af henni og þeim hér að ofan, líklega leiðindi samt. Síðan er minnst á enn eitt landsynningsveðrið um miðja næstu viku. 

En ritstjóri hungurdiska hvetur alla til að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar - þar er vel fylgst með. 

 


Loft að vestan - og síðan að norðan

Nú í kvöld - þriðjudaginn 22. febrúar - er komið skaplegt veður víðast hvar á landinu eftir rúmlega sólarhringsátök. Lægðin sem sótti inn yfir landið vestanvert í nótt - miðjuþrýstingur náði niður undir 945 hPa - er nú farin að grynnast og hún hefur hörfað vestur á Grænlandshaf. Þar tekur hún hring - verður svo gripin af kaldri háloftalægð sem fer til austurs fyrir sunnan land á morgun. 

Lægðin dró mikla stroku af köldu kanadalofti út yfir Atlantshaf - það er nú um það bil að ná til okkar - spurning hversu langt það fer norður á landið áður en það hörfar undan norðanáttinni sem nær undirtökum á landinu síðdegis og annað kvöld (miðvikudag). 

Á miðnætti í kvöld verður staðan þessi (að sögn harmonie-líkansins).

w-blogg220222a

Úrkomubakkinn við Suðurland er jaðar köldu strokunnar ð vestan. Ólgar þar og hrærist - vel blandað í glasi. Töluverð úrkoma virðist vera í þessum bakka. Þess vegna er spurning hvort bætir á snjóinn hér suðvestanlands í nótt eða í fyrramálið. Stendur það glöggt - því norðanáttin sækir fram fyrir norðan okkur. Við sjáum gríðarmikinn streng úti á Grænlandssundi. Heldur dregur úr honum þegar hann fellur suður yfir landið - en er þó nægilega öflugur til þess að Veðurstofan er með aðvaranir í gildi vegna hans um landið norðvestanvert - við tökum mark á þeim. 

w-blogg220222b

Hér má sjá ratsjármynd Veðurstofunnar kl. 21:20 nú í kvöld. Allmikill kraftur er í úrkomubakkanum - og svo sýnist sem hann hafi undið eitthvað upp á sig. 

w-blogg220222c

Það sést jafnvel betur á þessari mynd. Þar sýnist sem bakkinn sé samsettur úr fjölda lítilla kuðunga sem liggja hlið við hlið - væntanlega skiptast á snörp uppstreymissvæði með töluverðri úrkomu og síðan úrkomuminni belti á milli. Rétt fyrir ferðalanga sunnan- og suðvestanlands að gefa þessum bakka gaum í nótt og fram eftir morgni - sömuleiðis skefur ábyggilega á vegum þegar norðanstrengurinn nær undirtökum síðdegis.

Illviðrið í gær og í dag (21. og 22.) febrúar er í flokki þeirra verri hér á landi - miðað við vindhraða sennilega í flokki 10 til 15 verstu á þessari öld. Foktjón varð víða um land - auk þess sem vatnsagi olli sköðum og samgöngur röskuðust. Raflínur sködduðust. 

Nokkur tími verður þar til vindhraðamet á einstökum stöðvum verða staðfest - en líklega eru þau flest í lagi. Ársvindhraðamet voru slegin á þessum veðurstöðvum (upphafsár í sviga - aðeins stöðvar sem hafa mælt í meir en 18 ár eru tilgreindar): Haugur í Miðfirði (2003), Kálfhóll á Skeiðum (2003), Veiðivatnahraun (1993), við Gullfoss (2001), Skálholt (1998), Víkurskarð (1995) og Vatnsskarð eystra (1999). Uppgjör dagsins í dag (þriðjudags) hefur ekki borist þannig að hugsanlega bætast fleiri stöðvar við listann. Fjöldi febrúarmeta féll. 

Eins og minnst var á hér að ofan er þetta kalda loft sem sækir að landinu úr suðri sérlega vel hrært. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg220222d

Þetta er þversnið frá suðri (vinstra megin) til norðurs (hægra megin) - eftir 23°V, frá  63 til 67°N. Litir og vindörvar sýna vindátt og vindstyrk, en heildregnar línur mættishita. Það óvenjulega á þessari mynd er það hversu fáar jafnmættishitalínurnar eru. Yfir Faxaflóa er enga línu að finna fyrr en upp í um 700 hPa (3 km hæð) og þar fyrir ofan eru línurnar mjög gisnar, allt upp að veðrahvörfum í um 400 hPa hæð. Ofan veðrahvarfa (sem eru til þess að gera neðarlega) eru jafnmættishitalínur mjög þéttar að vanda. Eftir sólarhring verða 5 jafnmættishitalínur neðan 700 hPa ofan Faxaflóa - mun venjulegra ástand. Þéttni jafnmættishitalína sýnir hversu vel loftið er blandað (hrært) - því færri sem þær eru því betur er blandað. Þeir (fáu) sem fylgjast með myndum af þessu tagi ættu að gefa þessu gaum. 


Fylgst með þrýstibreytingum

Veðurnörðin fylgjast að sjálfsögðu með breytingum á loftþrýstingi - bæði í heimabyggð sem og á veðurkortum, ekki síst þegar þessar breytingar eru óvenjuhraðar. Þannig háttar til á landinu í dag, mánudaginn 21. febrúar. Ört dýpkandi lægð nálgast landið og loftvog þegar tekin við að hríðfalla þegar þetta er skrifað um kl.15. Frá hádegi hefur loftvogin í Reykjavík fallið um 8,6 hPa - og enn eykst hraði fallsins.

w-blogg210222i

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 nú síðdegis mánudaginn 21.febrúar. Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Lægðin mikla á að hafa náð nærri því fullri dýpt, 950 hPa (miðjuþrýstingi er spáð niður í um 949 hPa síðar í kvöld - spennandi að sjá hvort þrýstingur fer enn neðar. Daufar strikalínur sýna þykktina, þeir sem rýna í mega taka eftir því að þykktin á að fara mest upp í um 5340 metra yfir landinu sunnanverðu síðar í kvöld (4 til 5 stiga hita þar sem mest verður - snjóbráðnun heldur hitanum þó niðri).

Lituðu fletirnir sýna þrýstibreytingu síðastliðnar 3 klst (milli kl.15 og 18). Þrjár klukkustundir voru hér á árum áður venjulegt bil á milli þess sem lesið var af kvikasilfursloftvog - og varð þar með eins konar staðaltími þrýstibreytinga. Nú gætum við þó hæglega talað um styttri tíma. Litakvarðarnir á kortinu eru þannig að þeir fara yfir í hvítt sé breytingin meiri en 16 hPa (fall eða ris). Það er mjög mikið á hverjum stað. Allt yfir 20 telst óvenjulegt og 25 hPa breyting á þrýstingi á 3 klst sést sárasjaldan. Þrýstifall hefur ekki náð 30 hPa á 3 klst hér á landi - svo vitað sé - gæti þó hafa átt sér stað en mælingar verið of gisnar til að grípa það. Íslandsmet í þrýstirisi er 33 hPa á 3 klst. 

Nú stefnir í að þrýstifall verði á bilinu  -16 til -18 hPa á 3 klukkustundum á Suðvestur- eða Suðurlandi. Séu spár réttar verður risið ekki jafnmikið - það verður farið að fletjast út (þótt það sé meira en fallið á þessu korti). Kannski 8 til 10 hPa á 3 klst. Það yrði sunnanlands, milli kl. 6 og 9 í fyrramálið (þriðjudag) í þann mund sem vestanáttin fellur inn á land. 


Fyrstu 20 dagar febrúarmánaðar

Fyrstu 20 dagar febrúar voru kaldir. Meðalhiti í Reykjavík var -1,9 stig, -2,6 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2000, en -3,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og það næstkaldasta á öldinni. Kaldara var sömu daga árið 2002, meðalhiti þá -2,3 stig. Hlýjastir á öldinni voru þessir sömu dagar árið 2017, meðalhiti +4,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 120 sæti (af 150). Hlýjastir voru sömu dagar 1965, meðalhiti +4,8 stig, en kaldastir voru þeir 1892, meðalhiti -4,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -3,7 stig, -3,2 stig neðan meðallags 1991 til 2020 og -3,7 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Lítillega kaldara var á Akureyri sömu daga árið 2009.
 
Á spásvæðunum er þetta næstkaldasti febrúar aldarinnar við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum, en annars sá kaldasti. Vik frá meðallagi síðustu tíu ára er minnst á Gjögurflugvelli, -2,2 stig, en mest í Veiðivatnahrauni, -5,4 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 53,3 mm í Reykjavík og er það um fimmtung undir meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 68,6 mm og er það langt í tvöföld meðalúrkoma.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 47,4 í Reykjavík, um 9 fleiri en í meðalári, en 21,3 á Akureyri og er það í meðallagi.

Hugleiðingar í köldum febrúar

Það sem af er hefur febrúar nú verið kaldur. Víða um land hinn kaldasti á þessari öld. Hann keppir helst við hinn sérkennilega nafna sinn árið 2002. Sá mánuður kólnaði eftir því sem á leið - þannig að enn er allsendis óvíst að sá núlíðandi geti slegið honum við. Febrúar 2002 er einn af sárafáum mánuðum þessarar aldar sem getur kallast kaldur - í hvaða tímasamhengi sem er. 

Fyrir utan mjög slæmt norðanveður sem gerði fyrstu daga febrúar 2002 var tíð furðugóð - svona lengst af. Ritstjóri hungurdiska var alla vega hissa á blíðunni - blíða og kuldi gat sumsé farið saman. Ekki hefur það oft gerst nánast mánuðinn út í huga ritstjórans - en sýnir að veðrið á sér margar hliðar.  

Einhverjir muna e.t.v. eftir illviðrinu í upphafi mánaðarins - um það segir í atburðayfirliti ritstjórans:

Fyrstu helgi mánaðarins gerði mikið norðanveður sem olli tjóni allvíða um vestan- og norðvestanvert landið og samgöngutruflunum víða um land. Talsvert tjón varð á nokkrum bæjum í Staðarsveit. Margar rúður brotnuðu í Lýsuhólsskóla og fólk varð þar veðurteppt, þar skemmdist einnig bíll, hesthús skemmdist á Lýsuhóli, hluti af fjárhúsþaki fauk á Bláfeldi og þar urðu fleiri skemmdir, gömul fjárhús og hlaða fuku í Hlíðarholti og refahús skemmdist í Hraunsmúla. Gamall fjárhúsbraggi eyðilagðist á Framnesi í Bjarnarfirði. Bílar fuku af vegum á Kjalarnesi, undir Ingólfsfjalli og tveir í nágrenni við Blönduós. Á Blönduósi varð mikið foktjón í iðnaðarhúsnæðinu Votmúla, rúður brotnuðu þar í fleiri húsum og bifreiðastjórar í nágrenninu óku út af vegum. Skaðar urðu á Hvammstanga.  Nokkuð foktjón varð í Reykjavík og loka þurfti Sæbrautinni vegna sjógangs. Víða urðu miklar rafmagnstruflanir. Bifreiðir fuku út af vegi undir Ingólfsfjalli og í Kollafirði, báðir bílstjórar slösuðust. Bíll sem kviknaði í við Haukaberg á Barðaströnd fauk síðan út af veginum. Brim olli talsverðu tjóni á Drangsnesi. Prestsetrið í Reykholti skemmdist lítillega þegar byggingarefni fauk á það. Mikill sjógangur var á Suðurnesjum og flæddi sjór í nokkra kjallara í Keflavík og þar skaddaðist sjóvarnargarður og hluti Ægisgötu fór í sjóinn. Flutningaskip lentu í vandræðum í höfninni á Sauðárkróki.

Á kalda tímabilinu 1965 til 1995 hafði febrúarmánuður þá sérstöðu að vera eini mánuður ársins sem ekkert kólnaði - miðað við hlýindaskeiðið næst á undan. Meðalhiti á landsvísu var meira að segja um 0,4 stigum hærri 1961 til 1990 heldur en 1931 til 1960. Bæði janúar og mars voru hins vegar talsvert kaldari heldur en verið hafði á hlýskeiðinu. Væri janúar kaldur var maður eiginlega farinn að gera ráð fyrir talsvert hlýrri febrúar - en aftur mjög köldum mars. En svona „reglur“ eiga sér þó enga langtímastoð. 

Á tímabilinu frá 1961 fram til 2002 höfðu febrúarmánuðir áranna 1989, 1973, 1969 og 1966 þó allir verið kaldir eða mjög kaldir. Bakgrunnur þessara kulda var þó ekki hinn sami.

w-blogg180222i

Hér að ofan má sjá kort sem sýna veðurstöðuna í fjórum köldum febrúarmánuðum, 2002, 1989, 1969 og 1947. Notast er við endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar - í aðalatriðum treystandi. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, strikalínur þykktina en þykktarvik eru lituð, bláleit eru neikvæð og sýna kulda, en hlýindi eru gul og rauð. Myndin verður talsvert skýrari sé hún stækkuð. 

Árin 2002 og 1989 getum við gróflega sagt að kuldinn sé af vestrænum uppruna. Sérlaga kalt er vestan Grænlands og þaðan liggur strókur af kulda í átt til Íslands. Í febrúar 1969 ber svo við að hlýtt er vestan Grænlands, en neikvæðu vikin eru mest við Bretlandseyjar. Þykktin er ekki mjög langt undir meðallagi hér við land - í raun var töluvert kaldara heldur en þykktin ein segir. Árið 1947 var alveg sérlega kalt í Evrópu - þetta er einn frægra kulda- og vandræðavetra þar um slóðir. Einnig var kalt hér við land - við vitum hins vegar ekki hvort þykktin var í raun svona lítil - má vera að óvissa sé í greiningunni (sem er ekki 1969). Þó mánuðurinn væri kaldur hér - var hann samt talsvert hlýrri heldur en þykktin gefur til kynna. 

Við lítum nú á samband mánaðarmeðalhita á landsvísu og þykktar í febrúar.

w-blogg180222a

Lárétti ásinn sýnir meðalþykkt, en sá lóðrétti meðalhita hvers febrúarmánaðar. Ártöl eru sett við hvern mánuð. Við sjáum að febrúarmánuðir áranna 2002 og 1989 falla ekki langt frá aðfallslínunni - þykktin fer nærri um hitann. Þessir mánuðir voru þó allólíkir að veðri. Eins og áður sagði var tíð í febrúar 2002 furðugóð miðað við kulda og snjóalög - en heldur ömurleg og erfið í febrúar 1989, snjór mikill og samgöngur erfiðar. 

Hér sést vel að hiti í febrúar 1969 er langt neðan aðfallslínunnar. Landsmeðalhiti var þá um -4,4 stig (er í kringum -3 stig það sem af er þessum mánuði), en „hefði átt að vera“ um -1,6 stig - hefði þykktin ráðið. Þetta er að vísu undir meðallagi, en hátt í 3 stigum kaldara en vænta mætti. Loft í neðri hluta veðrahvolfs var ekki sérlega kalt - en kalt var í neðstu lögum. Skýringin er tiltölulega einföld - norðanátt var sérlega þrálát og hafísútbreiðsla gríðarleg í norðurhöfum, allt að Íslandsströndum. Loftið var mun stöðugra heldur en venjulega. Við sjáum að fleiri febrúarmánuðir eru ámóta langt frá aðfallslínunni - 1955, 1968 og 1966 - allt saman norðanáttamánuðir þegar „austurgrænlandsloft“ hafði undirtökin hér á landi. Í febrúar 1947 er eitthvað annað uppi á teningnum - þá var mun hlýrra heldur en aðfallslínan segir að það hefði átt að vera. Kannski var þykktin ekki svona lítil - en kannski var sjór í norðurhöfum hlýr. Þarfnast nánari skoðunar? 

Langhlýjasti febrúarmánuður alls þessa tímabils (eftir 1920) var 1932. Hann er á nákvæmlega sínum stað (giski endurgreiningin rétt á þykktina - það vitum við ekki). 

Þó þykktin ráði miklu um hitafar er hún samt að miklu leyti afleiðing af ríkjandi vindáttum. Hvaðan er loftið að koma? Ritstjóri hungurdiska hefur lengi fylgst náið með stöðunni í háloftunum - lengst af með hjálp svonefndra hovmöllerstika eða mælitalna. Þessar mælitölur voru skýrðar í löngu máli í pistli sem birtist hér 3. maí 2918. Mældur er styrkur vestan- og sunnanátta yfir Íslandi - en þriðji þátturinn er hæð 500 hPa flatarins. Reynslan sýnir að því sterkari sem vestanáttin er því kaldara er hér á landi, því meiri sem sunnanáttin er því hlýrra er og því hærra sem 500 hPa-flöturinn liggur, því hlýrra er í veðri. Hæðarþátturinn segir að nokkru leyti frá því af hvaða breiddarstigi loftið er komið. Áhrif vestanþáttarins eru minni en hinna tveggja.

Við reiknum meðaltöl þessara þriggja þátta í hverjum mánuði og finnum samband við hitann. Í ljós kemur að fylgnistuðull er mjög hár (0,84) - við giskum síðan á meðalhita hvers mánaðar. Febrúarmyndin er svona:

w-blogg180222b

Ágiskaður hiti er á lóðrétta ásnum, en sá mældi á þeim lárétta. Höfum bak við eyrað að endurgreiningin er ekki endilega rétt - og sömuleiðis er nokkur óvissa í reikningum landsmeðalhita. Febrúar 1932 sker sig úr sem fyrr - þá var bæði mjög mikil sunnanátt - og 500 hPa-flöturinn óvenjuhár (loftið af óvenjusuðrænum uppruna). Við sjáum að hér er febrúar 1969 heldur nær aðfallslínunni heldur en á fyrri mynd - og febrúar 1947 sker sig ekki úr. Það gerir hins vegar febrúar 2014 - sumir muna að það var sérlega óvenjulegur mánuður. Hann er hér mun hlýrri heldur en háloftastikarnir gefa einir til kynna. 

Ritstjórinn getur bent á það að á köldu hliðinni (þeir febrúarmánuðir sem liggja langt til hægri við aðfallslínuna) eru engir „nýlegir“ mánuðir - febrúar 2002 að vísu þeim megin línunnar. Meira er af nýlegum febrúarmánuðum ofarlega í skýinu (lengst frá línunni til vinstri) þar á meðal áðurnefndur febrúar 2014 sem og febrúar 2020.  

Þegar tíu dagar eru eftir af febrúar 2022 er tilfinningin sú að líklega verði meðalhæð 500 hPa-flatarins mjög lág þegar upp er staðið - sunnanáttin verður trúlega undir meðallagi (það er þó ekki útséð) - en vestanáttin kannski nærri meðallagi (heldur ekki útséð). Það verður því líklega hinn lági 500 hPa-flötur sem stendur fyrir kuldanum nú - loft af norrænum uppruna - í þessu tilviki að vestan, svipað og 2002 og 1989. Hvorum þeirra mánuðurinn verður svo líkari í minningunni vitum við ekki. Þrátt fyrir margs konar leiðindi í veðri hefur samt hingað til „farið vel með“ - miðað við aðstæður.


Fyrstu 15 dagar febrúarmánaðar

Fyrstu 15 dagar febrúar hafa verið kaldir hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík er -2,1 stig, -2,5 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, og -3,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Í Reykjavík er hitinn í næstkaldasta sæti aldarinnar (aðeins var kaldara sömu daga 2002, -2,2 stig). Hlýjastir voru dagarnir 2017, meðalhiti +4,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 118. sæti (af 150). Kaldastir voru þessir dagar 1881, meðalhiti þá -5,9 stig, en hlýjast var 1932, meðalhiti +4,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú -4,3 stig, -3,4 stig neðan meðallags 1991 til 2020 og -4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi eru dagarnir þeir köldustu á öldinni, en næstkaldastir á öðrum spásvæðum.

Kaldast að tiltölu hefur verið í Möðrudal, þar er hiti -5,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Minnst er hitavikið miðað við síðustu tíu ár á Reykjanesbraut, -2,6 stig.

Tvö landsdægurlágmarksmet hafa verið sett, þann 13. og 14. í Möðrudal - og slá út eldri met sem líka voru sett á þeim stað, annað 1988 (13.) og hitt 1888 (14.). Hiti fór niður í -26,8 stig þann 14. (hafði komist í -26,2 stig 1888 - en þá var reyndar ekki lágmarkshitamælir á staðnum og þar með er ekki víst að mælingin sýni lægsta hita þann dag). 

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 43 mm, og er það í tæpu meðallagi. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 56 mm, rúmlega tvöföld meðalúrkoma sömu daga 1991 til 2020.

Sólskinsstundir hafa mælst 32,5 í Reykjavík, en 16,3 á Akureyri - í rétt rúmu meðallagi á báðum stöðum.

Ekki virðast miklar breytingar á veðurlagi á döfinni - þó hiti gæti komist upp fyrir frostmark á hluta landsins dag og dag.


Fyrstu 10 dagar febrúarmánaðar

Fyrstu tíu dagar febrúar hafa verið kaldir á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er -2,2 stig. Það er -2,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -3,3 stig neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 18. hlýjasta (5.kaldasta af 22) á öldinni. Kaldastir voru þessir dagar árið 2009, meðalhiti þá -3,7 stig, hlýjast var 2017, meðalhiti +3,4 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 112. sæti (af 150). Kaldast var 1912, meðalhiti -7.8 stig, en hlýjast 1965, meðalhiti þá +6,0 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -4,5 stig, -3,5 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -4,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast við Faxaflóa og á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar raðast hitinn í 18. sætið, en á Vestfjörðum, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og á Miðhálendinu er þetta næstkaldasta febrúarbyrjun á öldinni.
 
Vik frá meðallagi síðustu 10 ára er mest á Gagnheiði og Fjarðarheiði, -5,0 stig, en minnst á Garðskagavita og á Reykjanesbraut, -2,6 stig.
 
Úrkoma hefur mælst 26 mm í Reykjavík og er það um 80 prósent meðalúrkomu, en 56 mm á Akureyri, þreföld meðalúrkoma.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 23,4 í Reykjavík, rétt ofan meðallags, en 4,3 á Akureyri - eða helmingur meðallags.

Liggur í loftinu

Þó veðrið sé rólegt í dag - og verði það sennilega líka næstu daga - liggja samt ákveðin vandræði í lofti. Vetrarbragð. 

w-blogg100222a

Myndin sýnir stöðuna á morgun, föstudaginn 11. febrúar - eins og evrópureiknimiðstöðin hugsar sér hana. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og vindstefnu í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd með litum, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Grænu litunum fylgir almennt frostleysa - eða frostlint veður, ljósasti blái liturinn nokkuð óráðinn sitt hvoru megin frostmarksins - en dökkbláu litirnir eru kaldir - þeir fjólubláu ofurkaldir. 

Við sjáum tvo meginkuldapolla norðurhvels, sem við til hagræðis köllum Stóra-Bola og Síberíu-Blesa. Sá síðarnefndi er í slakara lagi - eins og lengst af í vetur. Stóri-Boli hefur náð sér nokkuð vel á strik upp á síðkastið - og hefur eðlilegt og heilbrigt útlit - án mjög mikilla öfga þó á þessu korti. Við þurfum þó alltaf að gefa honum og hreyfingum hans gætur. 

Á morgun (föstudag) verður lægð að fara hratt til suðurs fyrir sunnan land. Hún virðist aðallega meinlítil - og nær ekki að grafa um sig í námunda við landið. Síðan kemur dálítill hæðarhryggur (rauð punktalína) í kjölfarið - allt í rólegheitum meðan hann fer hjá. Eitthvað eru spár hins vegar að velta upp möguleika á smálægðardragi við Suðvesturland á sunnudag - eða sunnudagskvöld. Það myndi bæta í snjóinn um landið suðvestanvert.

Næstu bylgjur eru síðan vestur yfir Ameríku (svartar strikalínur). Reiknilíkönin eru dálítið óráðin með örlög þeirra. Helst er því haldið fram að svo stutt sé á milli draganna að það fyrra nái sér lítt á strik og renni aðallega til austurs fyrir sunnan land. Gæti þó hæglega valdið leiðindum hér á mánudag - ekki þarf mikið til vegna stöðu Bola. 

Síðan er allt í óvissu. Reikningar eru þó helst á því að vetrarríki haldi áfram. Fari svo er mjög líklegt að annað hvort sé (talsvert) meiri snjór í vændum - eða fleiri óskaplega djúpar lægðir (rigning og snjór). Kannski hvort hvort tveggja. 

Aldrei þessu vant eru reiknimiðstöðvar nokkuð sammála um að lægðagangur haldi áfram afgang mánaðarins og áfram allan marsmánuð. En slíkar spár eru auðvitað frægar fyrir að bregðast (en ekki er einu sinni hægt að vera viss um að þær séu rangar) - og ekkert segja þær um það hvort lægðirnar verði slakar eða snarpar. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband