Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

Undir vestanstrengnum

Nú (þriðjudag 29. september) er óvenjuöflug hæð yfir Danmörku, þrýstingur þar mældist meiri en áður er vitað um í september, fór yfir 1040 hPa. Gamla danmerkurmetið var frá 1904, 1038,8 hPa. - Hér á landi er mest vitað um 1038,3 hPa í september (Akureyri, 1983). 

Hæðin lætur heldur undan síga næstu daga - en teygir sig til vesturs á móts við aðra hæð vestur í Ameríku - sú á líka að fara upp fyrir 1040 hPa síðar í vikunni. Vesturhæðin er ekki eins öflug í háloftunum og sú fyrri. 

Lítum á spákort sem gildir síðdegis á fimmtudaginn, 1. október. 

w-blogg300915a

Miðja eystri hæðarinnar er hér yfir Bretlandseyjum - en miðja þeirrar vestari er rétt við vesturjaðar kortsins. Hryggurinn hefur lokað af lægð við Asóreyjar og aðra yfir Miðjarðarhafi. Vestanveður - nýgengið yfir Ísland - er við Vestur-Noreg. Kalt loft, við sjáum -10 jafnhitalínu 850 hPa-flatarins við Norðaustur-Grænland. Úrkomubólgið lægðardrag er við Nýfundnaland. Austan við það er mjög hlýtt loft. 

Hvað gerist svo? Í fljótu bragði sýnist sem kerfið við Nýfundnaland ætti að fara hratt til austurs fyrir sunnan land - þá með töluverðu norðankasti hér á landi - en ekki líst reiknimiðstöðvum á þá einföldu (en leiðinlegu) lausn. Tekst afskornu lægðinni að brjótast aftur úr búrinu? -

En við bíðum spennt eftir framhaldinu. Það gera líka fleiri því nú hefur hitabeltisstormur (sem kannski verður að fellibyl) allt í einu holdgerst á hroðasvæðinu sem fjallað var um í pistli hungurdiska fyrir nokkrum dögum. Reiknimiðstöðvar (og þar með flestir aðrir) vita hreinlega ekkert hvað við hann á að gera og hoppa til og frá. 


Rífur í?

Eins og fjallað var um í pistli í gær (sunnudag 27. september) eru veðurspár sérlega óvissar þessa dagana. Í gær gerði evrópureiknimiðstöðin allt í einu mjög lítið úr lægð sem fara á yfir landið aðfaranótt þriðjudags (29. sept.) - eftir að hafa sýnt hana nokkuð öfluga áður. - Nú ber svo við að aftur er skipt um skoðun - og heldur betur - jafnvel svo að óvenjulegt hlýtur að teljast. 

Í sunnudagshádegisspárunu reiknimiðstöðvarinnar er lægðin allt í einu gerð gríðaröflug. Ritstjóri hungurdiska rekur augun í ýmislegt óvenjulegt í spánni - en velur að nefna tvennt sérstaklega.

w-blogg280915a

 

Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar á kortinu, en 3-klukkustunda þrýstibreyting er sýnd með litum. Rauðir litir sýna svæði þar sem þrýstingur hefur fallið, en blá þar sem hann hefur stigið. Yfir Norðausturlandi er stór, hvít skella þar sem þrýstirisið er svo mikið að það sprengir kvarða kortsins - og má þar sjá töluna 25,3 hPa.

Í fljótu bragði finnst svona há tala ekki í september í gagnagrunni Veðurstofunnar - og vantar reyndar talsvert upp á. Til er nærri því jafnhá tala í október (1963) - talsvert tjón varð í því veðri.

Harla óvenjulegt - svo ekki sé meira sagt. 

 

Reiknimiðstöðin gerir sömuleiðis ráð fyrir sérlegum hlýindum í háloftunum. Hæsta þykktartalan sem sést við landið er 5610 metrar - það yrði reyndar ekki septembermet. En lítum á spá um hita í 500 hPa.

w-blogg280915b

Spáin gildir kl. 3 aðfaranótt þriðjudags 29. september. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti með litum. Skammt undan Austurlandi má sjá töluna -6,2°C. Svo hár hiti hefur aldrei mælst í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli - hvorki í september né öðrum mánuði. - En samt er auðvitað hugsanlegt (og trúlegt) að jafnhlýtt loft eða hlýrra hafi einhvern tíma skotist hjá landinu án þess að mæling næðist. - En þetta er óvenjulegt. 

Þykktin er ekki í meti samfara þessum háa hita vegna þess að kalda loftið að baki kuldaskilanna hefur hér þegar náð inn undir þann stað þar sem hitinn efra er hæstur - og það kalda loft kemur í veg fyrir þykktarmet. 

En - þetta eru sýnishorn úr sýndarheimum - raunveruleikinn verður einhver annar - en rétt er að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. 

Enn skal tekið fram að ritstjóri hungurdiska gerir ekki veðurspár - fjallar hins vegar gjarnan um þær. 


Hvarfbaugshroði

Þegar sól lækkar á lofti hressist vestanvindabeltið mjög eftir sumardoðann, heimskautaröstin lifnar öll og lægðir fóðrast betur. Kólnunin gengur hraðar fyrir sig á norðurslóðum heldur en suður í höfum - og sumarið lifir lengst yfir hafsvæðum hlýtempraða beltisins. 

Hitabelti jarðarinnar er gjarnan talið ná að hvarfbaugum - en þeir eru á 23,5 gráðum norður- og suðurbreiddar. Sól er í hvirfilpunkti yfir nyrðri hvarfbaug á sumarsólstöðum norðurhvels (21. júní) en yfir þeim syðri á sólstöðum á vetri. Á jafndægrum fer hún yfir miðbaug. 

Tempruðu beltin eru síðan sögð ná frá hvarfbaugum til heimskautsbaugs hvors hvels, þar taka heimskautasvæðin við. Oft er talað um syðri (nyrðri á suðurhveli) hluta tempraða beltisins sem sérstakt svæði, hlýtempraða beltið. Orðasafn bandaríska veðurfræðifélagsins segir það gróflega ná frá hvarfbaugum að 35 gráðum norður. 

Á þessum árstíma er hlýtempraði hluti Atlantshafsins að jafnaði sunnan heimskautarastarinnar - en hún teygir sig þangað endrum og sinnum og nær í hlýtt og rakabólgið loft sem þá gengur inn í vestanvindabeltið og getur valdið þar alla konar usla. 

Stóru tölvulíkönin virðast vera farin að ráða betur við spár á þessu svæði heldur en áður - að minnsta kosti 2 til 3 daga fram í tímann - og sýnast gera það lengra fram í tímann - ef nákvæmlega ekkert er um að vera. En að undanförnu hefur það hvað eftir annað sýnt sig að í raun og veru ræðst illa við samskipti þessa svæðis og heimskautarastarinnar. Reiknimiðstöðvar hafa sent frá sér hverja furðuspána á fætur annarri og ótrúlegt hring hefur verið frá einni spárunu til annarrar. 

Þegar þetta er skrifað, laugardagskvöldið 26. september stefnir til okkar kerfi sem ber með sér þátt úr hlýtempraða beltinu. Ritstjórinn hefur kosið að kalla svona nokkuð „hvarfbaugshroða“ - orðið aðallega valið vegna þess að það hljómar vel - frekar en að gegnheil skilgreining standi að baki. Lesendur hafi það í huga. 

Við lítum á gervihnattamynd sem fengin er af vef kanadísku veðurstofunnar nú í kvöld og sýnir svæði allt frá Íslandi í norðri suður í hitabelti. 

w-blogg270915a

Mest áberandi á myndinni eru háský heimskautarastarinnar (gulbrún) sem liggja í miklum sveig frá Íslandi langt suðvestur í haf og síðan til vesturs nærri 40. breiddargráðu. Hlýja loftið er þar sunnan við. Þar má sjá að enn er dálítið líf í hitabeltislægðinni Ídu (dökki bletturinn fyrir neðan miðja mynd) - en örvarnar benda á fleiri klakkakerfi (hroða) - fremur saklaus að sjá - en þau sýna vel hvar rakt og hlýtt loft er að finna. 

Heimskautaröstin er nú við það að teygja fingur sína suður í raka loftið og reynir að grípa það með sér til norðurs. Það má e.t.v. sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg270915b

Kortið gildir kl. 6 að morgni sunnudags (27. september). Örvarnar sýna vindstefnu í 300 hPa-fletinum (í um 9 km hæð) og litirnir vindhraðann (sjá kvarðann). Röstin tekur mikla dýfu til suðurs yfir Labrador og teygist suður fyrir 40. breiddarstig. Til verður orkuþrungið stefnumót. 

w-blogg270915c

Þriðja kortið sýnir sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa nú á miðnætti (laugardagskvöld 26. september). Hringrás Idu er harla aumingjaleg - og á stefnumótaslóðum er aðeins aflöng og sakleysisleg lægð. Hvað gerist svo? 

Um það eru evrópureiknimiðstöðin og bandaríska veðurstofan ótrúlega ósammála - þótt þetta sé um það bil að gerast. 

Lítum fyrst á bandaríska spá sem gildir kl. 6 á þriðjudagsmorgun.

w-blogg270915d

Ekki lítur það vel út. Gríðarkröpp lægð rétt komin norður fyrir land með miklum en skammvinnum ofsa um landið austanvert - og hugsanlega víðar.

Evrópureiknimiðstöðin á sama tíma:

w-blogg270915e

Hvar er lægðin? Jú, mikill sunnanstrengur er skammt fyrir austan landið - en heimskautaröstin hefur straujað hana - hefur náð hlýja loftinu - en ekki tekist að vinda upp á það. Það er reyndar ekki auðvelt að vinda upp krappa lægð langt sunnan úr höfum - til þess þarf hjálp úr vestri - eða mjög mikla losun dulvarma. 

Eitthvað er greinilega öðru vísi í greiningum líkananna - eða í eðli þeirra - hvort er vitum við ekki. Þegar ósamkomulag sem þetta kemur upp er það oftar evrópureiknimiðstöðin sem hefur á réttu að standa - ritstjórinn hefur ákveðnar skoðanir á þessari stöðu - en hann gefur ekki út spár - ekki heldur nú. Við látum Veðurstofuna alveg um að fylgjast með þróun lægðarinnar. 

Að undanförnu hefur mikill óróleiki verið í spánum - sérstaklega þegar komið er meir en fjóra daga fram í tímann og hvað eftir annað komið í ljós að rétt er að taka þeim með varúð. 


Hvar skyldi veturinn halda sig?

Það á reyndar varla við að spyrja þessarar spurningar - rétt að koma að jafndægrum að hausti - en við spyrjum samt. Enda er hann, ef vel er að gáð, að byrja að brýna klærnar yfir Norður-Íshafi. Kortið sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á morgun, mánudaginn 21. september.

w-blogg210915a

Hér má sjá norðurslóðir, Ísland er alveg neðst á myndinni - norðurskaut rétt ofan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.

Ísland er enn við sumarástand hvað þykkt varðar - gula litnum fylgir að jafnaði sumarhiti - grænir litir geta líka talist til sumars - ef við gerum ekki miklar kröfur - en þegar blái liturinn fer að leggjast að okkur hvað eftir annað er hins vegar komið haust. En sá blái hefur lítt sýnt sig hér í þessum hlýja septembermánuði. 

Og staðan er þannig að kuldinn er ekki sérlega ógnandi næstu vikuna - en hann er þarna norðurfrá og mun smám saman breiða úr sér.

Við tökum eftir því að almennt er mikil flatneskja í hæðarsviðinu yfir bláa litnum - hersveitir halda kyrru fyrir. Svo eru þarna tveir sæmilega myndarlegir kuldapollar - fullir af vetri - í þeim sem er nær Síberíu er kuldinn meira að segja á 5. bláa lit, þykktin er komin niður fyrir 5040 metra - niður í vetrarkulda. 

Þessir kuldapollar eiga að reika um íshafið næstu vikuna - án þess að valda usla. Bláa flatneskjan yfir kanadísku heimskautaeyjunum (haustið) á hins vegar að sleppa til suðurs til Labrador - og er gott fóður fyrir djúpar atlantshafslægðir þegar þangað er komið. 

En kuldinn virðist ekki á leið til okkar - í bili. 


Myndarleg helgarlægð

Svo virðist sem föstudagurinn (18.september) verði hægur - en þeir sem rýna þá í himininn munu sjá háský þeytast yfir himininn á 180 km hraða á klukkustund frá vestri til austurs - útjaðar myndarlegs lægðakerfis sem kemur inn á Grænlandshaf úr suðri. Laugardagurinn fer í landsynning þessarar lægðar - hann er blautur að vanda á landinu sunnan- og vestanverðu.

w-blogg180915a

Kortið sýnir hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna kl. 18 síðdegis á laugardag. Þá er úrkoma og vindur sennilega nærri hámarki.

Lægðin á síðan að grynnast ört og þokast austur. Hefðbundinn útsynningur kemur ekki. Mjög hlýtt loft fylgir lægðinni en það fer fljótt hjá - en raunhæfur möguleiki er á 18 til 21 stigs hita norðaustanlands á laugardaginn þar sem þykktinni er spáð í 5560 metra og mættishita í 850 hPa verður meiri en 20 stig undir kvöld. 


Hæsti septemberhiti í Vestmannaeyjum (?)

Í dag, miðvikudaginn 16. september, mældist hæsti hiti sem vitað er um í Vestmannaeyjum í september, 17,4 stig. Mælingin var gerð á sjálfvirku stöðinni í kaupstaðnum. Fyrra Vestmannaeyjamet september var frá þeim 3. árið 1890 þegar hitinn mældist 16,4 stig.  

Samfelldar mælingar í Vestmannaeyjum ná aftur til 1877. Mælt var í kaupstaðnum til 1921 en síðan á Stórhöfða. Hæsti hiti sem mældist á mönnuðu stöðinni þar í september var 15,4 stig - þann 30. árið 1958. Í dag fór hiti á Stórhöfða í 16,3 stig - nýtt met fyrir staðinn. Einnig var sett septembermet í Surtsey, 15,0 stig, en þar hafa mælingar einungis verið gerðar í fáein ár. 

Fleira um hita dagsins og um stöðuna fyrri hluta mánaðarins má lesa á fjasbókarsíðu hungurdiska. 


Af sjávarhitavikum í N-Atlantshafi í miðjum september

Við lítum nú á vik sjávarhita frá meðallagi í Norður-Atlantshafi - eins og þau eru í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar í dag - miðvikudaginn 16. september.

w-blogg170915a

Grænir og bláir litir sýna neikvæð vik, en gulir og brúnir jákvæð. Neikvæðu vikin sem mynduðust þarsíðasta vetur - og sá næstliðni hélt við - eru enn áberandi og verða það líklega áfram.

Fremur hlýtt er í norðurhöfum - enda hafa verið mikil hlýindi þar í sumar á veðurstöðvunum á Jan Mayen, Bjarnarey og á Svalbarða. En kortið sýnir aðeins yfirborðshitavik en ekki hvernig háttar til í þeim sjó sem mun blandast upp í illviðrum hausts og vetrar. Almennt má segja að sjávarhitavik séu mun þrálátari heldur en hitavik í lofti - en við getum þó ekkert um það sagt af þessu korti einu hvort um þrálát eða skammvinn vik er hér að ræða. 

Vikin eru mjög óregluleg í kringum Grænland og á hafísslóðum og rétt að taka slíku með varúð - meðaltölin sem byggt er á í kringum ísinn eru ekki mjög áreiðanleg. Við sjáum þó kaldan blett við sunnanverða Austfirði - hann er trúlega raunverulegur, meðalhiti fyrrihluta septembermánaðar er undir meðallagi síðustu tíu ára í Seley. Þetta er eina [1] veðurstöð landsins þar sem hiti er undir meðallagi - reyndar í því á Vattarnesi.  Trúlega er það sunnanáttin að undanförnu sem veldur - hún dregur yfirborðssjóinn við Austfirði til austurs og kaldari sjór að neðan leitar upp í staðinn. - Þetta er alla vega einfalda skýringin - hvort aðrar koma til greina veit ritstjórinn ekki. 

Hann veit heldur ekki um ástæður hinna gríðarmiklu jákvæðu vika suður af Nýfundnalandi, en þau ná reyndar suður með austurströnd Bandaríkjanna - einhver sagði að hægt hefði á Golfstraumnum á þessum slóðum og hann breitt úr sér - rétt að ritstjórinn haldi froðu sinni vel í skefjum hvað það varðar. - En stöku félagar hans í bandarískri veðurfræðingastétt hafa lýst áhyggjum af hlýindum þessum - og telja þeir að þau gefi bandarískum austurstrandarillviðrum meiri vaxtarmöguleika nú í haust og framan af vetri en góðu hófi gegnir. - Fleira kemur þó við sögu þeirra veðra - og þar með fátt fast í hendi. 

[1] Samkvæmt töflu er hitinn raunar undir meðallagi á Ölkelduhálsi líka - en það þarfnast nánari staðfestingar - gæti verið. 


Fremur mildar austan- og norðaustanáttir

Eftir sunnanhlýindin í vikunni sem leið hefur vindur aftur snúist til austurs og norðausturs. Kalt loft er þó ekki nærri og virðist ekki vera á leið hingað næstu vikuna - séu spár reiknimiðstöðva réttar.

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar næstu 10 daga að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg140915a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna mikið lægðardrag í háloftum fyrir sunnan land allt frá Baffinslandi í vestri og austur til Bretlands og Danmerkur, en hæðarhrygg fyrir norðaustan land. Að meðaltali er því gert ráð fyrir því að suðaustanátt ríki í háloftum yfir Íslandi næstu tíu daga. 

Strikalínur sýna þykktina, en litirnir þykktarvikin, það er hversu mikið þykktin víkur frá meðallagi septembermánaðar áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hún er hér í sumarstöðu, það er 5460 metra jafnþykktarlínan sem liggur þvert yfir landið frá norðri til suðurs.

Gríðarlegum hlýindum er spáð við Norður-Noreg, mesta þykktarvikið er um 110 metrar sem þýðir að hiti er þar um 5 stigum yfir meðallagi - það er mikið yfir 10 daga tímabil. Þykktarvikið yfir Íslandi er um 50 metrar og hiti í neðri hluta veðrahvolfs því um 2,5 stigum yfir meðallagi. Venjulega eru hitavik minni niðri í mannheimum heldur en þau í veðrahvolfinu - en 1 til 2 stiga jákvæð vik eru alltaf vel þegin. 

Stærstu neikvæðu vikin eru eins og oft áður í sumar vestur af Bretlandseyjum, hiti 2 til 3 stig undir meðallagi. En sjórinn hitar þar baki brotnu og loftið mjög óstöðugt - þarna er illviðratíð um þessar mundir - og jafnvel skaðaveður bæði í upphafi vikunnar og svo aftur um hana miðja.

En þetta er bara spá - og einstakir dagar geta einnig vikið mjög frá meðaltali sem þessu. Við höfum slíkt í huga - eins og venjulega.  


Hlýjasta loftið hörfar (að minnsta kosti í bili)

Óvenjuhlýtt hefur verið á landinu síðustu daga. Á landsvísu hafa þeir verið hinir hlýjustu á árinu og fyrir nokkrum dögum mældist hæsti hiti ársins til þessa (24,1 stig) á Seyðisfirði. Það er óvenjulegt að septembermánuður eigi alla þrjá hlýjustu daga ársins eins og nú, gerðist þó bæði 1956 og 1958. 

En nú kólnar heldur og ríkjandi áttir snúast úr suðri og suðvestri yfir í suðaustur og austur. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna síðdegis á laugardag að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

w-blogg110915a

Ekki er langt í hlýja loftið fyrir austan land og gæti því slegið niður norðaustanlands hluta dags - en landið er annars í öllu svalara lofti - sem samt getur varla talist kalt. 

Meðan hlýja loftið sleikir landið austanvert má búast við töluverðri rigningu áveðurs á þeim slóðum og fleiri regnsvæði munu vera á dagskrá síðar því háloftavindar haldast suðaustlægir. 

Háþrýstisvæðið yfir Skandinavíu er bæði óvenjuöflugt og óvenjuhlýtt og virðist auk þess ekkert á förum. Reiknimiðstöðvar eru gefandi í skyn að hlýindi þess hafi ekki alveg yfirgefið okkur fyrir fullt og allt - og að fleiri hlýir dagar kunni að leynast handan helgarinnar og þá ekki aðeins um landið norðaustanvert. En það er allt sýnd veiði en ekki gefin - það er stöðugt verið að lofa (nú eða hóta) einhverju - en við reynum að halda sönsum. 


Einkunn sumarsins í Reykjavík 2015

Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað sumareinkunn Reykjavíkur á sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár. Leggja verður áherslu á að hér er um leik að ræða en ekki endanlegan dóm, enda smekkur misjafn. Aðferðinni er lauslega lýst í viðhengi, þar er einnig listi um einkunn einstakra mánaða og ára.

Sumarið 2015 kemur vel út í Reykjavík - eins og sjá má á línuritinu.

sumareinkunn_1923-2015_rvk

Lárétti ásinn sýnir tíma - sá lóðrétti sumareinkunn. Hæsta mögulega einkunn er 48, en sú lægsta núll. Sumarið 2009 fær hæstu einkunnina, 41, en sumrin 1928 og 1931 fylgja fast á eftir. Öll sumur áranna 2007 til 2012 eru með meira en 35 í einkunn. Þetta tímabil er einstakt. Sumarið 1983 er á botninum. 

Mikil umskipti urðu 2013. Þá kom hraklegasta sumar í Reykjavík í nærri 20 ár. Sumarið í fyrra (2014) þótti einnig fá heldur laka einkunn - þó náði hún meðallagi áranna 1961 til 1990 (græn strikalína á myndinni).

En sumarið í sumar er með 31 í einkunn - hefði talist með bestu sumrum á kalda skeiðinu 1965 til 1995 - og í góðum hóp á hlýskeiði fyrr á öldinni - en jafnast ekki á við öndvegissumrin 2007 til 2012. 

Rauði ferillinn sýnir 10-ára meðaltöl og tímabilaskiptingin kemur vel fram. 

Á Akureyri er sumarið í sumar neðarlega á lista. Virðist fá lægstu einkunn allra sumra frá 1993 að telja.

Fyrir viku (2. september) var fjallað um sumardagatalningar í Reykjavík og á Akureyri. Kom þar fram að slíkir dagar hafa verið fáir á Akureyri í sumar. Þeir voru þá orðnir 15. Nú hafa sex bæst við og sumarið 2015 hefur aðeins bætt sinn hlut, aldrei að vita nema enn fleiri bætist við.

Nördin huga að viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 14
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 982
  • Frá upphafi: 2341356

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 900
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband