Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Fjasbókarsíða hungurdiska

Þeir pistlar sem nú eru að birtast eru eins til tveggja mánaða gamlir - sést það stundum af viðfangsefninu. Nú (31. maí) bíða 27 óútgefnir pistlar birtingar. Um síðir mun birtingin ná nútímanum.

Þeim sem vilja koma að athugasemdum við blogg hungurdiska er nú bent á fjasbókarhóp með sama nafni. Leitið og finnið. Vilji menn verða fullvirkir þar þurfa þeir að ganga í hópinn.


Hæstu hámörk - nördin undirbúa sumarið

Við lítum nú á lista yfir hæsta hita sem mælst hefur á (nærri því) öllum veðurstöðvum. Listinn er ógurlegur hrærigrautur lifandi og dauðra stöðva, mannaðra og sjálfvirkra, sem athugað hafa mislengi. Sumar meira en eina öld, en aðrar hafa varla náð árinu. Metingur um sjálfa hámarkstöluna er því  tilgangslítill. Heppilegast er að gera lista af þessu tagi áður en hlýna fer að ráði að vori - til að eiga til samanburðar - áður en ný met fara að skila sér. Jú, það er nánast víst að fjöldi meta fellur á sumri komanda - hvort sem það verður hlýtt eða kalt.

Listinn er allur í viðhenginu. Við skulum gefa gaum útgildunum á dagatalinu, á hvaða stöðvum hefur hiti orðið hæstur í maí eða september - eru þær einhverjar?

Það er ein stöð sem á sinn hæsta hita í maí - Hellissandur á Snæfellsnesi. Þar var athugað á tímabilinu 1934 til 1970, en hámarksmælir var ekki á staðnum fyrr en 1958. Þetta eru því ekki nema þrettán sumur sem liggja undir. - En á þessu tímabili mældist hæsti hitinn þann 12. maí 1960 klukkan 18, 18,7 stig. Það er hægt að trúa þessu því einmitt þessa daga 1960 standa fjöldamörg hitamet maímánaðar, t.d. Reykjavíkurmetið 20,6 stig sem mældist þann 14. kl. 18. Ströndin við ysta hluta Snæfellsness er ekki tuttugustigavæn, en þó komst hiti í 20 stig á mönnuðu stöðinni á Gufuskálum og síðan sjálfvirku stöðinni líka (sjá listann í viðhenginu).

Þann 2. júní 2007 fór hiti í 19,9 stig á Bjargtöngum og er það mesta sem þar hefur mælst. Þar sem mjög hlýtt var víðar á svipuðum slóðum er rétt að trúa þessari tölu.

Næstu fjögur snemmbæru hámörkin á listanum eru sett 9. júní. Þá virðist sumarið vera komið. Stöðvarnar eru Hjarðarnes í Hornafirði (1988, 23,7 stig) og sjálfvirku stöðvarnar við Patreksfjarðarhöfn, á Súðavík og í Gilsfirði. Allar settu sín met 9. júní 2002. Nördin muna þann góða dag vel. Dagurinn eftir, sá 10. 2002 var líka hlýjastur á fjórum stöðvum vestra, Breiðavík, Kvígindisdal og Þingmannaheiði - og aftur í Súðavík. Þar er ekki hægt að gefa öðrum deginum vinninginn umfram hinn. Þann 9. var hámarkshitinn mældur kl. 15 en þann 10. kl. 19.

Yfir á hinn endann. Það eru tvær stöðvar sem eiga sitt hámark í september, Dalatangi og Gufuskálar (mannaða stöðin). Dalatangahámarkið er orðið gamalt, frá 12. september 1949, 26,0 stig. Þetta er jafnframt hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í september. Við viljum samt meira.

Hæstur mældist hitinn á Gufuskálum 5. september 1984 (við lok rigningasumarsins mikla). Merkilegir þessir tveir septemberdagar.

Þann 2. september 2010 fór hiti á Seljalandsdal við Ísafjörð í 22,3 stig. Mjög hlýtt var á landinu þennan dag og talan gæti þess vegna verið rétt. En hafa verður þó í huga að Seljalandsdalsstöðin er ein af svonefndum hlíðastöðvum landsins en þar eru mæliaðstæður nokkuð frá því að vera eins og staðlar segja til um. Tölur frá þessum stöðvum eru því varla sambærilegar við aðrar.

Lítið er um hæstu hámörk önnur eftir 20. ágúst. Þau eru aðeins þrjú: Siglunes 27. ágúst 1976 (24,0 stig), Skriðuland  í Kolbeinsdal í Skagafirði 23. ágúst 1955 (21,9 stig) og Sandur í Aðaldal 22. ágúst 1947 (27,2 stig).

En lítið á listann í viðhenginu - þar er margt að sjá. Rétt að geta þess að leit að eldri metum stendur enn yfir og trúlega munu slík e.t.v. bætast við síðar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Venjulegri mars (heldur en janúar og febrúar)

Eftir alveg sérlega óvenjulega janúar- og febrúarmánuði, hinn lága loftþrýsting og þráláta austanáttina varð mars (2014) öllu venjulegri. Úrkoma var þó ofan meðaltals á þeim stöðvum sem yfirlit er nú þegar til um og meir en tvöföld meðalúrkoma á sumum stöðvum norðaustan- og austanlands. Hiti var yfir meðallagi um land allt, vikin voru mest austanlands, meir en 2 stig ofan meðallagsins 1961 til 1990, og einnig yfir meðallagi síðustu marsmánaða síðustu tíu ára.

Meðalvindátt var austlæg 19 daga en vestlæg 12. Norðlæg átt var 13 daga en suðlæg 18. Þessi staða mála sést vel á þrýstivikakortinu hér að neðan.

w-blogg030414a

Heildregnu línurnar sýna meðalþrýsting marsmánaðar en litirnir þrýstivikin. Þrýstingur er lægri vestur af landinu heldur en austanvið, en lágþrýstingurinn teygir sig austur um Ísland. Þrýstingur er neðan meðallags á stóru svæði. Í Reykjavík var hann 6,8 hPa undir meðallaginu 1961 til 1990, en á kortinu að ofan er miðað við 1981 til 2010.

Ástandið í háloftunum var mun nær meðallagi í mars heldur en í janúar og febrúar en samt má ráða af þykktarvikakortinu hér að neðan (litafletir) að enn hafi verið mun kaldara að tiltölu yfir Ameríku heldur en Evrópu.

w-blogg030414b

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins en strikalínur meðalþykktina. Af vikunum má greinilega sjá að hlýrra var fyrir austan land heldur en vestan. Vikin við austurströndina sýna um 40 metra - það er ekki fjarri tveimur stigum. Vik í neðri hluta veðrahvolfs og niður við jörð hafa því verið svipuð að þessu sinni. Vikið stóra yfir Evrópu er meir en fjögur stig ofan meðallags við hægri jaðar kortsins, en meir en er sex stigum undir því lengst til vinstri. Marshitinn í Noregi var langt ofan meðallags, fyrir Noreg allan var mánuðurinn þriðji hlýjasti mars sem vitað er um og víða sá allra hlýjasti í sunnanverðu landinu.


Hlýindalegur hæðarhryggur

Nú (föstudaginn 28. mars) er hæðarhryggur að verða til austur af landinu. Hann mun næstu daga beina hlýju lofti (miðað við árstíma) til landsins úr suðaustri. Þrátt fyrir að lægðardrög muni sækja að honum hvert á fætur öðru gera spár ráð fyrir því að hann haldi velli allt fram á fimmtudag.

w-blogg290314a 

Kortið gildir á hádegi á sunnudag (30. mars). Spennandi verður að sjá hversu hlýtt verður þessa daga. Þar sem snjór liggur á jörð kælir hann nægilega mikið til þess að meta er vart að vænta. Annars staðar þar sem strekkingsvindur stendur af fjöllum gæti hitinn hins vegar farið í 12 til 14 stig (heldur er þetta þó í bjartsýnna lagi). En alla vega er mættishitanum í 850 hPa spáð upp í 15 til 18 stig þegar mest verður og þykktinni í 5440 metra þegar best lætur.


Umskipti í tíðarfari?

Í dag (fimmtudaginn 27. mars) virðist ætla að skipta um tíðarfar. Það gerist einmitt þegar heiðhvolfslægðin mikla skiptir sér loksins í tvennt eftir margar misheppnaðar tilraunir fyrr í vetur. Lítum á 30 hPa kort dagsins.

w-blogg270314a 

Það eru ekki bara tvær lægðir - heldur líka tvær hæðir. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en hiti sýndur með litum. Kortið og kvarðinn batna við stækkun. Mikið ójafnvægi er á milli hæðar og hita. Hitinn ræðst mest af tvennu. Annars vegar upp- eða niðurstreymi þarna uppi - í 23 til 24 kílómetra hæð. Niðurstreymi er hlýtt en uppstreymi kalt.

Að auki ræðst hiti í heiðhvolfinu af geislunarjafnvægi - sem aftur ræðst af sólargangi og líka af ósonmagni. Í dag er mikið ósonhámark, 522 dobsoneiningar ekki þar fjarri sem hitinn er hæstur (-35 stig), en lágmarkið sé 296 einingar, við Norður-Noreg en þar er hitinn hvað lægstur. Ósonmagn er ekki fjarri árlegu hámarki á þessum tíma árs á norðurhveli.

Niðri í veðrahvolfinu leggjast vindar nú aftur til suðausturs og austurs - en í þetta sinn verður hæðarbeygja ráðandi við Ísland og 500 hPa-flöturinn stendur ofar en hann hefur gert í vetur. Þetta er því mun hagstæðari austanátt heldur en sú sem við höfum búið við. Þegar komið er fram á einmánuð verður þessi staða að teljast mikill vorboði - hversu lengi sem hann stendur við að þessu sinni.

En þökkum fyrir það svo lengi sem það endist. Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins samkvæmt spá evrópureiknimiðstöðvarinnar næstu 10-daga. Litir sýna vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010.

w-blogg270314b 

 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 28
  • Sl. sólarhring: 85
  • Sl. viku: 996
  • Frá upphafi: 2341370

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 906
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband