Bloggfærslur mánaðarins, júní 2019

Dálítið af júní

Meðan við bíðum eftir endanlegum tölum Veðurstofunnar um júnímánuð 2019 getum við giskað á landsmeðalhitann - en fyrst er að svara spurningu sem barst. Hún laut að sambandi hlýinda í Reykjavík og sólskinsstundafjölda. Í langflestum mánuðum ársins er því allmennt þannig varið að því meira sem skýjað er í mánuði því líklegri er hann til hlýinda í höfuðborginni. Þessi regla bregst að nokkru í júlímánuði - þá eru sólardagar að meðaltali hlýrri en þeir alskýjuðu í Reykjavík - í júní svona beggja blands. 

w-blogg300619b

Myndin sýnir samband (sem ekkert er) mánaðarmeðalhita og sólskinsstunda í júní í Reykjavík á árunum 1911 til 2019. Sólskinsstundirnar má lesa af lárétta ásnum, en hitann af þeim lóðrétta. Svörtu strikin sem liggja upp og niður og frá vinstri til hægri um myndina þvera sýna meðaltöl hita og sólskinsstundafjölda áranna 1931 til 2010. Þeir sem vilja líta á myndina í smáatriðum öllum geta opnað pdf-viðhengið - þar má stækka myndina svo vel að smáatriði sjáist. 

Júní 2019 lendir innan sporöskju ofantil til hægri á myndinni, ásamt 2008 og 2012 - svipaðir mánuðir, en dálítið hlýrri. Sólskinsstundirnar urðu 303,9, meðalhiti mánaðarins 10,4 stig. Neðar á svipuðu sólarsvæði er blá sporaskja sem nær utan um júní 1924 og 1952 - kaldir sólríkir júnímánuðir. Við getum tekið eftir því að fleiri sólríkir júnímánuðir eru ofan meðalhitalínunnar heldur en neðan við hana - eitthvað dregur sólskinið hitann upp (í keppni við kalda norðanáttina sem viðheldur heiðríkjunni). 

Allra hlýjustu júnímánuðirnir eru þó neðan sólskinsstundameðallagsins (vinstra megin sólskinsmeðaltalslínunnar) - þeir sem horfa á smáatriðin ættu einnig að taka eftir miklum fjölda hlýrra júnímánaða á þessari öld - og að júní 2019 er vel ofan langtímameðaltalsins - þó hann sé rétt við meðaltal júnímánaða þessarar aldar.

Júnímánuður í fyrra, 2018 er hins vegar inni í bláu sporöskjunni til vinstri - sólarlítill og fremur kaldur. Ekki er það þó regla að kaldir júnímánuðir séu sólarlitlir. Fylgni milli sólskinsstundafjölda og mánaðarmeðalhita í júní í Reykjavík er svo lítil að varla getur marktækt talist.  

Hiti á landsvísu í júní reynist vera -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Taflan sýnir vik á einstökum spásvæðum.

w-blogg300619a

Að tiltölu var hlýjast á Suðausturlandi og Suðurlandi, en kaldast á Norðaustur- og Austurlandi. Blái liturinn er látinn tákna að mánuðurinn hafi verið meðal þeirra sex köldustu á öldinni á viðkomandi spásvæði - á öllum öðrum svæðum telst hitinn í meðallagi á öldinni. 

Úrkoman rétti nokkuð úr sér allra síðustu dagana, mánuðurinn reynist þó líklega meðal þurrustu almanaksbræðra sinna á allmörgum veðurstöðvum - ekki síst um landið suðaustanvert (sem lítið hefur verið í þurrkafréttum). Bráðabirgðatölur segja þetta þurrasta júní í Snæbýli (athugað frá 1977), Stafafelli í Lóni (1990), Gilsá í Breiðdal (1998) og Kirkjubóli (nærri Akranesi, 1998). 

Loftþrýstingur er einnig með hærra móti lendir sennilega í 9.sæti á lista sem nær til nærri 200 ára athugana. Við athugum það mál nánar þegar endanlegar tölur hafa borist - ástæða til þess því þrýstingur í maí var einnig óvenjuhár. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Norðarlega á norðurslóðum

Veðurúlfarnir (duglegustu og nákvæmustu veðurnördin) þefa stöðugt uppi veður um heim allan - þar á meðal á hinum afskekktu heimskautaeyjum Kanada og á Norður-Grænlandi. Þeir fylgjast ábyggilega oft á dag með spám dönsku veðurstofunnar (igb-harmonie) sem reiknaðar eru í djúpum (og vonandi köldum) kjallara Veðurstofu Íslands. Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað.

Til gamans lítum við á hitaspá líkansins og gildir hún á laugardagskvöld (29.júní).

w-blogg270619aa

Hér má sjá Grænland norðanvert, Ellesmereeyju - þar sem hiti sleikir 20 stig í innsveitum sem og Svalbarða (ekki eins hlýr). Góð hlýindi eru einnig langt inni í fjörðum Norðaustur-Grænlands - en hiti við frostmark yfir bráðnandi hafísbreiðum úti fyrir ströndum. Við munum auðvitað að á þessum slóðum er sól á lofti allan sólarhringinn - þegar snjór hefur bráðnað og jarðvegur þurrkast nokkuð getur orðið vel heitt. En veðurmælingar frá þessum slóðum eru harla sjaldséðar - helst frá einhverjum útskögum við ströndina þannig að við vitum ekki hversu mikið vit er í tölunum (rétt að hafa það í huga) - upplýsingar um landgerð eru upp og ofan - en mikil vinna hefur nýlega verið lögð í að bæta upplýsingar um Grænland í líkaninu - Kanadalönd eru þar eitthvað óvissari sem stendur. 

Veðurlíkön eru nú farin að vera það nákvæm að upplýsingar (eða upplýsingaskortur) um land- og jarðvegsgerð eru farnar að skipta miklu máli í hitaspám. Mjög mikilvægt er að allt sé sem réttast í þeim efnum. 


Smávegis um sólskinsstundafjölda

Þriðjudagur 25.júní var fyrsti sólarlausi dagur í Reykjavík síðan 18.maí, miðvikudagurinn virðist ætla að verða sólarlaus líka. Næstu 30 daga á undan mældust sólskinsstundirnar alls 377,6. Það er meira en nokkru sinni hefur mælst í einum almanaksmánuði. En sé litið á júnímánuð einan eru sólarstundirnar sem mælst hafa orðnar 296,3, vantar enn 42 til að jafna júnímetið frá 1928. Til að gera það eru enn fjórir dagar - sem spáð er sólarlitlum - helst að von sé um helgina - en júlí tekur við á mánudaginn.

Fyrir allmörgum árum var á hungurdiskum fjallað um „flestar mögulegar sólskinsstundir í mánuði“ hverjum. Dæmi um slíkan pistil birtist þann 20.september árið 2011. Reiknað var hversu margar sólskinsstundir yrðu í Reykjavík í hverjum mánuði væri sólskinsdægurmet hvers dags mánaðarins alltaf jafnað. Má á þennan hátt fara nokkuð nærri um það hver mánaðarsólskinssumma alheiðríks mánaðar yrði. 

Línuritið hér að neðan sýnir þessa summu fyrir almanaksmánuðina 12 - blástrikaðar súlur.

w-blogg260619a

Við sjáum þó af myndinni að ekki hafa allir almanaksdagar hitt á að vera alheiðríkir á mælitímabilinu (sem nær til rúmra 100 ára) því júlísumman er aðeins hærri en summa júnímánaðar. Munar hér um að júlí er degi lengri en júní. - En notum samt þessar tölur. Yrðu allir dagar júnímánaðar eitthvert árið heiðríkir (meðan sól er á lofti og brennir mæliblað) mætti búast við því að sólskinssumma hans væri 536 stundir. 

Rauðu súlurnar sýna hins vegar hversu langt einstakir mánuðir hafa teygt sig í átt að hámarkinu. Eins og fram kom hér að ofan er það júní 1928 sem var sólríkasti mánuður allra tíma í Reykjavík, þá mældust þar 338,3 sólskinsstundir, 63 prósent af hinu mögulega. Grænu súlurnar sýna meðalsólskinsstundafjölda mánaða á árabilinu 1931-2010. Í meðaljúní skín sólin í um 179 stundir - eða um 33,4 prósent af því mögulega. Hámarkið er því nærri því tvöfalt meðaltal. Nýliðin sólskinssyrpa náði eins og nefnt var að ofan 377,6 stundum - og er það 68,3 prósent af mögulegum besta árangri (miðað við sömu daga - ekki almanaksmánuð). Þetta er meira en nokkur almanaksmánuður hefur náð - nema hvað febrúar 1947 á sama hlutfall (68,4 prósent). En sólskinsstundafjöldi er að sjálfsögðu miklu minni í febrúar - hæsta mögulega hámark þá er þó 232 stundir - rúmlega 50 stundum fleiri heldur en í meðaljúní. Sólskinsstundir í Reykjavík í febrúar 1947 mældust 158,8. 

Síðari myndin sýnir hámarks- og meðalhlutfallstölur hvers almanaksmánaðar.

w-blogg260619b

Bláu súlurnar sýna hæstu hlutföll - áðurnefndur febrúar 1947 hæstur með sín 68,4 prósent. Grænu súlurnar sýna meðaltölin. Sjá má að á vetrum er meðaltalið lægra en á öðrum tímum árs. Þegar sól er lægra á lofti er líklegra að geislar hennar hitti fyrir ský á leið sinni - eða einhverja móðu sem kemur í veg fyrir að geislinn brenni pappírinn í mælinum. 

Sólskinið sem ríkt hefur fram að þessu í sumar er því við efri mörk þess sem almennt má búast við - en tilviljanir gætu þó valdið því að mun meira mældist einhvern tíma í framtíðinni. Því er þó ekki að neita að hugsunin um alveg skýlausa mánuði einn eða fleiri er fremur óþægileg - heimsendaleg satt best að segja. En niðurstaðan er sú að staðan nú sé óvenjuleg, en ekki að neinu leyti út úr kortinu eins og kallað er.

Þess má geta að þegar þetta er skrifað (miðvikudag 26.júní) er úrkomulausa tímabilið í Stykkishólmi orðið 37 daga langt (sú tala þó án ábyrgðar) og þar með er það hið lengsta þekkta þar á bæ (áður mest 35 dagar). Ekki eru alveg áreiðanlegar heimildir um jafnlöng eða lengri þurrktímabil annars staðar á landinu, en þó má í gagnagrunni Veðurstofunnar sjá 52 daga langt þurrktímabil á Kirkjubæjarklaustri í janúar til mars 1947 og 48 daga í Loftsölum í Mýrdal á sama tíma. Ritstjóri hungurdiska vill þó ekki slá því alveg föstu að hér sé allt rétt talið (tímabilið slitnaði í Vík í Mýrdal). Benda má þó á að þetta er einmitt nákvæmlega sama tímabil og á var minnst hér að ofan - sólskinsstundahlutfallið í Reykjavík náði hæstu hæðum. 

Þeir lesendur hungurdiska sem áhuga hafa geta flett upp pistlum frá 3.júlí og 2. ágúst 2012 - þar er fjallað um hinn óvenjulega sólskinsstundafjölda um þær mundir - en þá skein sólin líka linnulítið fyrir norðan ólíkt því sem nú hefur verið. - Við förum e.t.v. í frekari meting þegar mánuðinum er lokið.


Hitabylgja og fleira

Nokkuð er rætt í fréttum um yfirvofandi hitabylgju í Evrópu. Þó ritstjórinn hafi gaman af öfgakenndum veðurspám og ræði oft um slíkar er honum jafnan heldur í nöp við útbreiddan fréttaflutning af slíkum - þar til öfgarnar hafa í raun sýnt sig. - En þá ber oft svo við að fjölmiðlar láta sig þær lítt varða. 

w-blogg250619a

Þetta spákort bandarísku veðurstofunnar sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina eins og reiknað er að verði síðdegis á fimmtudag 27.júní. Sjá má allstórt svæði yfir Frakklandi sunnanverðu og Pósléttu Ítalíu þar sem þykktin er meiri en 5820 metrar. Þetta er óvenjumikið - en ritstjóri hungurdiska veit þó ekki hversu óvenjulegt það er á þessum slóðum. Hann veit hins vegar að þykkt meiri en 5760 metrar er harla óvenjuleg á Bretlandseyjum - en sú jafnþykktarlína snertir Cornwallskaga á kortinu - og á föstudag á 5700 metra línan að komast (skamma stund) norður um Skotland - það er ekki algengt. 

Háloftalægðin suðvestur af Írlandi er (að sögn líkana) á leið til norðurs og mun valda því að hiti gerir aðeins mjög stuttan stans á Bretlandi - og kuldastrokur úr norðri fylgja í kjölfarið bæði hér á landi og víða um norðanverða álfuna. Hitar eiga hins vegar að halda áfram í Frakklandi sunnanverðu (ekki þó alveg svona öfgakenndir).

w-blogg250619b

Norðurhvelskortið (frá evrópureiknimiðstöðinni) gildir sólarhring síðar - um hádegi á föstudag. Þá hefur hlýja loftið teygt sig til Bretlands (fyrir helgi var því spáð alla leið hingað - en af því verður víst ekki). 

Það er einhver óróleikasvipur yfir þessu korti - kuldapollarnir ekki sérlega kaldir - en samankrepptir eru þeir umkringdir mörgum jafnhæðarlínum hver um sig. Útilokað að segja til um hvað úr verður í framhaldinu. 


Af árinu 1910

Sýn manna á árið 1910 var ótrúlega misjöfn - „betra en meðalár bæði til lands og sjávar“ - segir í einni umsögn hér að neðan. Í annarri segir hins vegar: „Árið 1910 má heita mjög erfitt að því er tíðarfar snertir, og sjálfsagt hefði það riðið mörgum að fullu fyrir nokkrum tugum ára“. Nú, meir en öld síðar minnast menn ársins helst fyrir snjóflóðin miklu á Vestfjörðum í febrúar og snemma í mars. Í Hnífsdal fórust 20 þann 18.febrúar og síðan fjórir í flóði í Skálavík 1.mars. Fleiri flóð ollu tjóni.

Ársmeðalhiti var 3,8 stig í Reykjavík, 2,8 stig í Stykkishólmi og 2,2 á Akureyri. Kalt var í janúar og febrúar, hlýtt í mars, kalt í apríl og í júní, hlýtt í október, en kalt í nóvember. Slæmt hret gerði snemma í maí. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal 4.júlí, 24,0 stig. Óvenjuhlýtt varð á Seyðisfirði 20.september þegar hiti á athugunartíma komst í 20,1 stig. Hæsta talan úr Reykjavík er 17,6 stig sem mældist 1.ágúst, en hámarksmælir var ekki á staðnum. Mesta frost ársins mældist í Möðrudal 22.janúar, -26,0 stig. Þann 9.maí mældist -9,8 stiga frost á Nefbjarnarstöðum á Héraði. Getið er um -7,3 stig á Sauðanesi í júní, en rétt er að taka þeirri tölu með varúð. Þann 1.júlí fór hiti rétt niður fyrir frostmark í Grímsey. 

ar_1910t

Myndin sýnir hita frá degi til dags í Reykjavík árið 1910. Athuga ber að hvorki var lágmarks- né hámarkshitamælir á staðnum. Sjö dagar voru óvenjukaldir í Reykjavík, sex í apríl og einn í maí. Myndin sýnir vetrarkuldana í apríl vel og sömuleiðis kuldakastið snarpa seint í október og fram eftir nóvember. 

Engar úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík eða í grennd á árinu 1909. Ágústmánuður var sérlega þurr um landið sunnan- og vestanvert og trúlega var einnig frekar þurrt í öðrum landshlutum.  

ar_1910p

Meðalloftþrýstingur var óvenjulágur í febrúar, en óvenjuhár í ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni þann 9.janúar, 953,8 hPa. Hæsti þrýstingur ársins mældist á Ísafirði 18.nóvember, 1036,3 hPa. Þrýstifar var mjög órólegt í mars og september, en með rólegra móti í ágúst og nóvember. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1910 og vitnað í samtímablaðafréttir. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu. 

Þorsteinn Gíslason ritar í Skírni 1911:

(s91) Árið 1910 hefir verið betra en meðalár bæði til lands og sjávar; til sjávarins jafnvel miklu betra en meðalár. Svo segja þeir, sem nánast yfirlit hafa yfir þetta hvort um sig. Veðráttufarið hefir yfirleitt verið þetta: Veturinn fremur harður og snjóasamur, vorið kalt og jörð leysti seint undan snjóum, en sumarið gott og hagstætt, með stuttum regnkafla í byrjun haustsins, en haustið síðan einmunagott og blíðviðrasamt. Hey gengu mjög til þurrðar í vorharðindunum, en heyfengur var góður eftir sumarið, og haustið bætti upp vorið. Talað var um skepnufelli í vorharðindunum bæði vestan lands og norðan, og mun eitthvað hafa verið hæft í þeim fregnum, þótt eigi hafi orðið mikil brögð að. Fjárskaðar urðu á ýmsum stöðum í Fljótsdalshéraði í ofsaveðri 7.—8. maí, og mun einsdæmi um þann tíma.

(s92) Slys á fiskiskipum urðu nokkur. 27. febrúar sleit upp mörg fiskiskip í ofsaveðri á Reykjavíkurhöfn og rak í land, skemmdust ýms meira og minna, en öll hafa þau að lokum náðst út og fengið viðgerð. Frá Eyjafirði fórst hákarlaskipið „Kærstine“, eign Gránufélagsins á Oddeyri, og á því 13 menn, í júní einhvern tíma. Frá Patreksfirði fórust tvö fiskiskip og drukknuðu þar 18 menn. Frá Vík í Mýrdal fórst vélarbátur með 5 mönnum, og fleiri slík slys hafa orðið, sem hér eru eigi talin.

(s94) Auk þeirra slysa, sem áður eru talin, er þess að geta, að snjóflóð mikið féll í Hnífsdal 18. febr. og varð um 20 mönnum að bana. Nokkru síðar féll snjóflóð í Skálavík vestra og deyddi 4 menn.

Einar Helgason ritar í Búnaðarrit 1911:

(s271) Árið 1910 má heita mjög erfitt að því er tíðarfar snertir, og sjálfsagt hefði það riðið mörgum að fullu fyrir nokkrum tugum ára.

(s263) Vetur frá nýári. Árið byrjaði vel, en góða tíðin stóð stutt. Snjókomur miklar, og fannfergja um land allt til jafndægra, en ekki frosthart. Sumstaðar fenntu fjárhús í kaf jafnvel sunnanlands. Þó fundust tvær kindur lifandi á Hellisheiði um vorið, útigengnar, sauður 5 vetra og lamb. Voru þær sín í hvoru lagi; sauðurinn á Núpsfjalli, varla rólfær, lifði þó; lambið í Meitlum, hressara, annað dautt hjá því. Allstaðar að er getið hins sama, að veturinn hafi verið með allra gjafafrekustu vetrum. Samfeld harðindaskorpa um alla Vestfirði. Elstu menn muna ekki annan eins snjó. Bæir og peningshús fóru í kaf á nokkrum stöðum. Í Fljótum var upprofslaus þriggja vikna hríð á þorra. Mörg bæjarhús og peningshús fóru algerlega í kaf, og við bar það, að hús sliguðust sökum snjóþyngsla. Sumstaðar varð að gera milli lO—20 tröppur niður að bæjardyrum, og væri ekki reft yfir þessar útgöngur, fylltust þær jafnóðum. Næstliðin 50 ár hefir aldrei verið eins lengi jarðlaust og þennan vetur. Bata gerði um allt land síðari hluta mars — í páskavikunni — stóð hann fram undir hálfan mánuð. Komu þá víðast upp nokkrar jarðir, ekki þó í útsveitum Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Á Suðurnesjum alauð jörð um páska.

Vorið svalt og síðgróið. 10. apríl spilltist veðráttan frá því sem verið hafði um tíma; kom þá hríðarveður með frosti hér syðra, en nyrðra stórhríð; varaði sá illviðrahamur um mánaðartíma. Fórst þá fé sumstaðar. Í byrjun hríðarinnar fórust 64 kindur á Arnarvatni í Vopnafirði, og 8. maí urðu einnig fjárskaðar þar og í nærsveitunum. Á Ysta-Núpi fórust 114 fjár. Er það eitthvert versta veður, er menn muna. Þá fórust og 300—400 fjár á tveim bæjum í Jökulsárhlíð, 100 sauðir á Hauksstöðum og allmargir á Skeggjastöðum á Jökuldal. Á þessu tímabili rak svo mikinn snjó niður í Breiðdal, að útihús og hey fóru í kaf, svo eigi fannst fyrr en eftir nokkra daga. Í Skaftafellssýslu varð þessi illviðrakafli harðastur 26. og 27. apríl. Þá fórust 80—100 kindur á Höfðabrekku. Í Fljótum voru snjóskaflar á túnum langt fram á sumar. Í Siglufirði og Ólafsfirði byrjaði vorvinna ekki fyrr en í lok júní. Svarfaðardalsá var gengin á ís 20. maí; muna elstu menn ekki eftir slíku. Betri en þetta hefir tíðin verið austar, því að á Hofi í Vopnafirði byrjaði túnvinna 17. maí. Jarðyrkjustörf byrjuðu seint og urðu allstaðar í minna lagi. Gjafatími var óvenjulega langur. Í Dalasýslu er talið að allgóður sauðgróður hafi verið kominn í júnílok, en rýrir hagar fyrir stórgripi. Á Snæfjallaströnd og Ströndum stóðu kýr inni yfir 40 vikur. Í landléttum sveitum sunnanlands var sauðfé gefið 26 vikur.

Sumarið. Sláttur byrjaði með seinna móti um allt land, sökum grasbrests, en þó kom að því, að grasvöxtur varð í meðallagi og sumstaðar betri en það. Á flæðiengjum og mýrum hér sunnanlands varð hann ágætur. Fyrri hluta sláttar var góð heyskapartíð á Suðurlandi, en í ágústlok brá til óþurrka; varð heyskapur að litlum notum eftir það, nema hjá þeim sem björguðu heyi frá skemmdum með súrheysverkun; því óþurrkarnir héldust fram eftir öllu hausti. Heyfengur varð því vart í meðallagi hér syðra. Í Borgarfirðinum var byrjað að slá um miðjan júlí; voru þá tún furðanlega sprottin. September-óþurrkarnir gerðu mikið tjón. Áttu sumir hey úti til veturnótta. Heyskapur varð í meðallagi og sumstaðar jafnvel meira. Í Dölum byrjaði sláttur um 17. júlí, og var almennt hætt um 17. sept. Heyföng í meðallagi. Á Vestfjörðum varð grasvöxtur á túnum allt að því í meðallagi og betur á engjum, en nýting lakari. Heyskapur í meðallagi. Í Strandasýslu byrjaði heyskapur víðast um þann 20. júlí. Töður náðust þar ekki fyrr en um miðjan águst og þá allmikið hraktar. Viku fyrir leitir kom góður þerrir; gátu menn þá alhirt. Norðanlands var sumarið vætusamt; grasvöxtur í meðallagi. Þeir sem snemma byrjuðu slátt náðu töðu með góðri verkun, en víða hraktist hún. Heyskapur varð í meðallagi, þó stuttur yrði. Í Vopnafirði var júlí hlýr og þurrviðrasamur fram til þess 17. Á Hofi var byrjað að slá þann 8. Þokur voru allmiklar í ágúst, en fyrri hluta september var góð heyskapartíð. 18. sept. hvítnaði sumstaðar í byggðum, en þann 29. var kominn svo mikill snjór í byggð, að seinlegt var að fara um og reka fé. Töðufall með minnsta móti á harðlendum túnum, og töður hröktust talsvert. Útheyskapur varð með mesta móti og hirtist vel. Á Fljótsdalshéraði var sumarið þokusamt og þurrklítið framan af; spretta allgóð. Sláttur byrjaði 18. júlí á Úthéraði, efra viku fyrr. Enginn baggi hirtur fyrr en 5. ágúst. Eftir það ágæt heyskapartíð til 27. september; þá gerði snjó og fennti víða hey. Náðu þó allir heyjum seinna. Heyskapur í betra meðallagi. Á suðausturkjálkanum var sumarið þurrt og kalt framan af. Með hundadögum gekk til óþurrka og hlýinda, og fór þá að spretta, svo grasvöxtur varð fullkomlega í meðallagi á útengi. Töður náðust víða ekki fyrr en eftir miðjan ágúst. Heyföng fyllilega í meðallagi, enda ágæt tíð er á leið sláttinn. Á einum bæ í Skaftártungu kviknaði í töðunni.

Haustið og veturinn til nýárs. Tíðin var afar hrakviðrasöm um alt Suðurland vestan Mýrdalssands fram í nóvembermánuð. Gerði þá blíðviðri og sást varla snjór á láglendi til jóla, gerðist svo tíðin umhleypingasöm í lok ársins. Fénaði hvergi gefið að neinum mun fyrir jól. Á Suðurnesjum var ekki farið að taka lömb í hús um áramót. Hrakviðratíminn um haustið virðist ekki hafa verið eins langur í Borgarfirði og Dölum eins og hér fyrir sunnan; þar fór tíðin að batna seinni hluta október, og gerði þá gæða-tíð. Snjólaus jörð á láglendi um árslokin og snjólítið til fjalla. Vestan til á Vestfjörðum mátti tíðin heita góð; lakari var hún í Strandasýslu austanverðri; þar og í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var hrakviðrasöm veðrátta lengi fram eftir. Desember mátti heita góður. Í Fljótum komust allar skepnur á gjöf með vetrarbyrjun; tæplega teljandi léttir á hrossum úr því. Í Svarfaðardal voru stillur og blíður í október, og þá töluvert unnið að jarðabótum; með nóvember byrjaði veturinn. Inn um Eyjafjörð var óhagfelldari tíð um haustið, og meiri snjór í nóvember fram um þann 20., þá voru hestar komnir á gjöf. Gerði þá hláku góða og nær öríst. Eftir það besta tíð til ársloka. Í Vopnafirði var allgóð tíð um haustið, en hvikul og vindasöm. Lítið gefið fyrir áramót. Lömbum kennt át á Hofi 6. nóvember. Á Austfjörðum var hausttíðin ágæt, þó var nóvember allharður fram um þann 20., úr því þíður og góðviðri. Á Suðurfjörðunum hafði fé eigi komið í hús fram að nýjári. Í Skaftafellssýslunni voru hross og lömb víðast tekin á gjöf um jól. Var þá og víða farið að hýsa ær. Á útigangsjörðum var ekki farið að gefa neinu nema kúm um áramót.

(s269) Allstaðar sett niður í garða með seinna móti vegna vorkuldanna; vaxtartíminn varð því heldur styttri en venjulegt er, einkum þegar slæm haustveðrátta bættist við. Garðávextir urðu því víðast rýrari en í meðallagi; svo er talið að verið hafi á Suðurnesjum og á Akranesi, einkum að því er kartöflur snerti. Rófur spruttu í meðallagi.

Janúar: Óhagstæð tíð um norðan- og austanvert landið, en betri tíð suðvestanlands. Fremur kalt.

Þjóðviljinn segir af janúarveðri:

[13.] Aðfaranóttina 4. þ.m. sneri til stórfelldra rigninga, með hvassviðri, og leysti snjó allan af láglendi, en brá fljótt aftur til útsynnings og er sem stendur snjór, sem augað eygir.

[22.] Snjóar miklir að undanförnu, og dimmt í lofti all-oftast, en þó fagrar himin-litbreytingar stöku sinnum, er rofar til í svip. Síðustu dagana hefir þó verið hreint loft, stillur og heiðskírt veður.

[31.] All-þykk snjóbreiða á jörðu, og kafaldsfjúk öðru hvoru, en hægt veður all-oftast, og fremur væg frost.

Að morgni 22. janúar reið gríðarmikill jarðskjálfti yfir landið, kl.8:48 að alþjóðatíma. Upptök hans eru talin hafa verið úti af Axarfirði eða Tjörnesi, ekki fjarri 66,5°N, 27,0°V. Stærð hans er talin vera um 7,1 stig og sá öflugasti sem mælst hefur hér á landi. Styrkurinn ákvarðast af mælingum erlendis. Sama dag, kl.10:45 varð öflugur jarðskjálfti á Reykjanesi, 5,1 að stærð. Eins og eðlilegt er slær honum í heimildum nokkuð saman við þann risastóra. Mikil skjálftahrina fylgdi þeim stóra. 

Norðurland segir frá jarðskjálftunum í pistli 27.janúar og 5.febrúar:

[27.] Á laugardagsmorguninn síðastliðinn voru hér allmiklir jarðskjálftar. Að því er menn vita, byrjuðu þeir á 8.tímanum f.h. En kl. 7,50 kom afarsnarpur kippur, er talið er að staðið hafi yfir nálægt 1/2 mínútu. Jarðskjálftaaldan virtist koma frá suðaustri. Húsin nötruðu og brast í hverju tré, munir köstuðust sumstaðar niður af hillum og ofnar höfðu hrunið að minnsta kosti í 3 húsum. Skemmdir á tréhúsum eru hér engar, eða ekki teljandi, en sprungur komu nokkrar í steinsteypuveggi. Allan þennan dag voru menn að finna hér kippi og jafnvel 2—3 daga á eftir. Veit víst enginn tölu á öllum þeim kippum. Í Reykjavík hafði jarðskjálfti þessi alls ekki gert vart við sig. Í Hrútafirði höfðu menn orðið hans varir, en á Húsavík álíka og hér. Í Þingeyjarsýslu yfir höfuð hefir hann orðið mjög snarpur. Hafði hann valdið skemmdum á húsum á Eyjadalsá, Öxará, Ljósavatni og Landamóti. Á Skarði í Dalsmynni hafði kjallari undir húsinu hrunið niður til stórskemmda. Á Öxará hrundu göngin saman. Fólk var inni, en börn komin út. Óttuðust menn að þau hefðu orðið undir veggjunum, en þau fundust rétt á eftir heil á hófi. Í Mývatnssveit hefir ekki frést um skemmdir. Þykkur ís á Mývatni hafði allur sprungið sundur og óljós frétt um að jörð hafi eitthvað raskast þar í sveitinni. Líklegt er að víða að fréttist um smá skemmdir, en hvergi munu bæir hafa hrunið, eða stórskemmdir orðið, né heldur slysfarir á mönnum eða skepnum.

Síðustu jarðskjálftafréttir segja að jarðskjálfta hafi orðið vart á laugardaginn bæði í Árnessýslu, á Ísafirði og á Seyðisfirði, og gera meira úr jarðskjálftanum í Hrútafirði, en gert er á öðrum stað hér í blaðinu.

[5.febrúar] Jarðskjálftakippi hafa menn fundið hér þessa viku, daglega og stundum oft á dag. Flestir hafa þessir kippir verið litlir og staðið stutt yfir, en þó sumir æði snarpir og húsin titrað til muna.

Fjallkonan segir frá þann 26.janúar:

Jarðskjálfta varð vart norðanlands og austan á laugardagsmorguninn. Fundust einnig tveir kippir hér í Reykjavík. Á laugardagskveldið fundust aftur þrír kippir hér í bænum. ... Reykjanesvitinn dýri, sem Hannes Hafatein lét Kjögx reisa í hitteðfyrra, tók að hallast þegar á fyrsta ári. — Og við jarðskjálftakippina á laugardaginn var komu miklar sprungur í hann, svo að beinn háski getur af staðið.

Norðri segir af skjálftunum í pistli þann 28.:

Að morgni dags, 22. þ.m. klukkan nálægt því 7 1/2 fannst lítill jarðskjálftakippur hér á Akureyri, og þegar klukkuna vantaði 10 mínútur í 8 kom annar kippur miklu meiri, svo hús skulfu mjög og brakaði í hverju tré, lagísinn á höfninni sprakk allur. Jarðhristingurinn stóð yfir óslitinn að minnstakosti 1/2 mínútu. Eldri mönnum ber saman um, að jafn harður jarðskjálfti hafi ekki komið í Eyjafirði síðan 1872. Að öðru hverju um daginn (22.) fundust smákippir, og síðasti kippurinn er menn urðu varir við kom 23. um kvöldið. Enga teljandi skaða gerði jarðskjálftinn á Akureyri svo kunnugt sé. í Suður-Þingeyjarsýslu virðist sem jarðskjálftinn hafi verið harðari en hér. Ís af ám og vötnum sprakk þar og einhverjar skemmdir höfðu orðið á húsum á stöku stað, þó munu ekki mikil brögð að því. Jarðskjálftans mun hafa orðið vart um allt land.

Vestri (á Ísafirði) segir einnig af skjálftanum mikla:

Jarðskjálftakippur fannst hér í bænum þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í átta í morgun. — Klukkur stönsuðu þá, þar á meðal bæjarklukkan, og á stöku stöðum duttu ýmsir hlutir niður af hillum og veggjum.

Febrúar: Snjóþung og óhagstæð tíð, einkum á Norður- og Vesturlandi. Fremur kalt.

Lögrétta segir þann 2.febrúar:

Undanfarandi daga hefur snjóað öðru hvoru, svo að snjór er hér nú töluverður, en frostlítið síðustu dagana. Snjókellingarfrí fékk menntaskólinn í gær og hlóðu skólapiltar stóra og mikla kerlingu sunnan til á skólablettinum og fengu henni í hendur blað með prentaðri kvenréttindakröfu.

Norðri segir af tíð:

[4.] Maður úr Blönduhlíð, er hér var á ferð fyrir skömmu, sagði þar alveg snjólaust nú og í allan vetur síðan snjóinn gerði í haust. Útigönguhestar því í góðum holdum. ... Veðrátta fremur harðneskjuleg það sem af er þorra. Seinkar því Vestu að austan og Ingólfi að vestan.

[25.] Fannfergja er nú mikil yfir öllu Norður- og Austurlandi, eru því allar samgöngur ærið ógreiðar. Póstar eiga erfitt að komast áfram.

Ingólfur segir þan 18.: „Snjór er hér óvenjumikill. Segja elstu menn, að þeir muni eigi annan eins“.

Austri segir þann 19. og 26.:

[19.] Veðráttan hefir verið mjög slæm nú undanfarið, sífelld austannepja með fannkomu mikilli, en litlu frosti, hefir sett niður mjög mikinn snjó, svo að allstaðar mun nú jarðlaust hér austanlands. Er hætt við að heyskortur verði tilfinnanlegur víða, ef þetta jarðbann helst lengi enn.

[26.] Símaslit hafa orðið víða út um land í óveðrunum nú undanfarið, en nú mun allvíðast búið að bæta þau slit aftur. ... Veðráttan breytist lítið til batnaðar, sama snjódyngjan liggur yfir allt, og heftir það mjög alla umferð á landi. Þó mun sækjandi færi á skíðum hér yfir fjöllin.

Þjóðviljinn segir af tíð í febrúar - og slysum:

[11.] Sömu snjó-þyngslin enn á jörðu, og kafaldshríðir nú síðast.

[17.] Úti varð maður nokkur i Garðahrauni aðfaranóttina 3.febrúar þ.á. ... Hjörleifur bóndi í Selsgarði á Álftanesi. — Hann var á heimleið úr Reykjavík, ásamt tveim mönnum öðrum, og missti einn þeirra hest sinn í hraunið, og fór Hjörleifur þá að leita hans, en hinir héldu áfram ferðinni, sem leið liggur út á Álftanes, og reið annar þeirra hesti Hjörleifs, tók hann traustataki, er Hjörleifi seinkaði.

[17.] Fannkomur miklar, sem að undanförnu, og snjór því óvanalega mikill á jörðu, miðað við það, er almennt gerist hér syðra.

[24.] Sömu snjóþyngslin enn á jörðu, sem að undanförnu, og fremur væg frost. ... Úti varð nýskeð maður frá Kaldárholti í Holtamannahreppi í Rangárvallasýslu. ... Gekk hann 13. þ.m. (febrúar) til fjárhúsa, og hefir síðan ekkert til hans spurst. Blindbylur var, og giska menn helst á, að hann hafi villst út á Þjórsá, og drukknað í ánni, farið þar niður um vök.

Þann 18. féll stórt snjóflóð á þorpið í Hnífsdal. Einna ítarlegust er frásögn Vestra og birtist daginn eftir, þann 19. - hún er hér að neðan:  

Hörmulegt slys. Snjóflóð sópar burtu nokkrum hluta Hnífsdalsþorpsins. Nær tuttugu manns farast og margir meiðast.

Fregnin. Kl.9 á föstudagsmorguninn 18.febrúar barst sú fregn út um bæinn, að snjóflóð hefði sópað burtu nokkrum hluta Hnífsdalsþorpsins, margir menn hefðu farist og meiðst og margir mundu grafnir lifandi. — Menn urðu felmtursfullir mjög við fregnina, því að margir áttu skyldmenni, kunningja eða vini í Hnífsdal, og enginn gat vitað hvernig þeim leið, hvort heldur þeir voru lífs eða liðnir, limlestir eða lifandi grafnir. Fjöldi manna brá því við og fór þegar fótgangandi út eftir, því sjór var ófær, til þess að hjálpa til að grafa í rústirnar og bjarga því sem bjargað yrði. Báðir læknarnir og lögreglustjórinn fóru einnig.

Tildrögin. Þorri hefir verið harður mjög og snjóasamur, og nú í síðasta hálfa mánuðinn hafa verið sífelldar norðanstórhríðar. Snjórinn er fádæma mikill og óminnilegar hengjur hafa myndast í öllum fjallabrúnum, er mót suðri vita. — Hnífsdalsþorpið stendur innst við Hnitsdalsvíkina og nokkur hluti þess liggur að norðanverðu víkurinnar, undir snarbröttu og háu fjalli, sem nefnist Búðarhyrna. Undirlendi er ekkert þeim megin víkurinnar.

Snjóflóðið. Kl. 8 og 45 mín. á föstudagsmorguninn heyrðist vábresturinn. Nokkur hluti hengjunnar í Búðarhyrnunni losnaði og valt með ægilegum hraða ofan Búðargilið. Snjóflóðið breiddist út er gilinu sleppti og náði þá yfir nálega 150 faðma breitt svæði. Það náði frá norðurenda Heimabæjarhússins nýja og nokkuð norður fyrir Búðarbæinn. Hraðinn var mikill, og það sópaði burtu öllu, sem varð á vegi þess. íbúðarhús, sjóbúðir og gaddfreðna veggi jafnaði það við jörðu og flutti á sjó út. Eldsnöggt, eins og byssuskot, dundi það yfir; enginn fékk minnsta svigrúm til þess að forða sér.

Tjónið. Það er ægilegt. Nítján menn biðu bana á svipstundu og margir meiddust, óvíst hvort þeir lifa allir af. — Fimm menn voru á gangi á veginum meðfram sjónum; lentu þeir í snjóflóðinu og létust allir. Þeir voru: Sigurður Sveinsson frá Búð (bróðir Guðm. kaupm. Sveinssonar), aldraður maður, og þrjú börn, sem hann var að fylgja í skólann: Sigurður Sigfússon úr Bugnum, á fermingaraldri. Daníel Jósepsson frá Vífilsmýrum í Önundarfirði, til heimilis í Búð, 13 ára gamall, og Guðbjörg Lárusdóttir, einnig til heimilis í Búð, nálega 10 ára gömul. Faðir stúlkunnar, Lárus Auðunsson, miðaldra sjómaður úr Hnífsdal, var sá 5., er á veginum var. Tvær sjóbúðir, sem búið var í og stóðu við sjóinn, sópuðust alveg burtu með öllum, er í þeim voru. — Aðra þeirra áttu þeir bræður Valdimar og Kjartan Þorvarðarsynir, og bjuggu þar þrjár fjölskyldur: Tómas Kristjánsson, maður um sextugt, kona hans og 4 börn þeirra. Tómas og eitt barnið létust þegar, en konan og þrjú börnin náðust lifandi; konan hélt á ungbarni og hlífði því, svo að það var nálega ómeitt, en hún sjálf meiddist svo mjög og Vigfús sonur hennar, að tvísýnt er talið um líf þeirra beggja. — Önnur fjölskyldan, er í búðinni bjó, var Þorlákur Þorsteinsson, miðaldra maður, kona hans og þrjú börn þeirra. Þau fórust öll. — Þriðja fjölskyldan var Magnús Samúelsson, maður rúmlega sextugur, kona hans og tvö börn þeirra, sonur og dóttir. Maðurinn, konan og drengurinn fórust, en dóttur þeirra bar snjóflóðið á sjó út, og varð henni bjargað. Hin sjóbúðin var eign ekkjunnar Helgu Jóakimsdóttur í Heimabæ. Í henni bjuggu fjórir hásetar Páls Pálssonar í Heimabæ, fanggæsla þeirra, Margrét Bárðardóttir frá Látrum í Mjóafirði, ekkja um fertugt, og dóttir hennar 8 ára gömul. Fórust þær mæðgur báðar og tveir hásetarnir, Lárus Sigurðsson frá Ísafirði, um tvítugt, og Ingimundur Benjamínsson, 25—26 ára gamall maður vestan úr Fjörðum. Hinir tveir köstuðust fram í sjó, og varð þeim bjargað. Búðarbærinn lenti í miðju snjóflóðinu. Hann eyðilagðist því nær alveg, og nokkur hluti hans sópaðist burtu. Manntjón varð þar þó ekkert. Fólkið bjargaðist og varð bjagað úr baðstofunni, flestu meiru og minna meiddu. Auk húsa þeirra, sem þegar er getið að eyðilagst hafi, brotnuðu þessi hús: Fjósið í Búð með 4 gripum, sem náðust lifandi, — salthús með áföstu bátaskýli; í bátaskýlinu voru 4 bátar, brotnuðu 3 þeirra í spón, en 1 skemmdist lítið eða ekkert, — 4 hjallar, er þessir áttu: Jóakim Pálsson og Halldór Pálsson í Heimabæ og Hálfdán Hálfdánarson í Búð; — ennfremur 2 heyhlöður. Innri jaðar snjóflóðsins kom á norðurendann á hinu stóra og nýja íbúðarhúsi þeirra bræðra í Heimabæ, en skemmdi það eigi. Í nyrðri jaðri flóðsins lentu fáeinar búðir og hjallar við sjóinn; sem skemmdust ekkert eða eigi til muna.

Eftir snjóflóðið. Það var ægileg aðkoma að vettvangnum. Það mátti búast við nýju snjóflóði á hverri stundu. Hengjurnar í brúninni sáust eigi; allt var hulið þoku og hríðarmekki hið efra. Snjóflóðsferillinn sást glögglega. Hann var dauðafölur, en líktist að öðru leyti nýstorknuðu hrauni. Snjótungurnar teygðu sig fram í sjóinn, brimið sauð á þeim og bræddi og braut þær smátt og smátt og fleygði í land líkum, húsgögnum, klæðnaði og viðarbrotum úr húsunum. Fjaran var alþakin reka. Hér og þar sáust húsrústir og spítuendar upp úr snjónum. Fjöldi manna mokaði snjónum allan daginn, gróf upp líkin og bjargaði því, sem bjargað varð. Fram á kvöld voru líkin að reka í land. Enn eru þó ófundin 2 lík. Enn er ekki hægt að sjá fyrir endann á hörmungunum. Mikill hluti hengjunnar situr enn í brúninni og vofir yfir þorpinu. Komi nýtt snjóflóð verður hættast húsi þeirra Heimabæjarbræðra Halldórs og Jóakims og húsi Helgu Jóakimsdóttur; ennfremur Búðarbúðinni og búð Hálfdánar Hálfdánarsonar. Fólkið hefir þegar flutt úr þessum húsum.

Fyrir nákvæmlega aldarfjórðungi síðan féll stórt snjóflóð á Seyðisfjarðarkaupstað. Það féll kl. að ganga 8 um morguninn 18. febrúar 1885, sama mánaðardaginn og þetta snjóflóð, og varð 24 mönnum að bana og eyðilagði 16 hús. — Síðan hefir allt af verið flaggað í hálfa stöng þennan dag á Seyðisfirði. — Enginn getur sagt, hversu lengi hér verður flaggað i hálfa stöng 18. febrúar, en sorgin er mikil - meiri en svo, að mannlegur kraftur geti bætt úr henni. Á hitt þarf eigi að minna, að allir geri sitt til að bæta það, er bætt verður. Aldrei, mun jafn-banvænt snjóflóð hafa fallið í Hnífsdal fyrr. - Skriður og snjóflóð eru þar þó ekki ótíð, en flest hafa þau fallið nokkru innar, ofan Hraunsgilið og á milli Hrauns og Búðargilsins. Í annálum Magnúsar sýslumanns Magnússonar árið 1673 segir: „Á Nýársdag gjörðe drífufjúk svo hlóð niður drífufyllum og stórsnjóum hvar af viða runnu snjóflóð. Á Hóli í Bolungarvík tók snjóflóð 4 hesta í einu, í Hnífsdal tók hjáleiguna Búð með öllu sem í var utan mönnum, item alla hjalla með fiski utan einn“. Á 18. ö!d eyðilagðist einnig í snjóflóði Augnavellir, býli innan við Hnífsdalsþorpið, og hefir það ekki verið byggt upp síðan. Ofan við Hraunsbæinn er hár grjóthryggur, sem auðsjáanlega er myndaður af ofanfalli úr fjallinu. Menn ættu því að vera varfærnir í því að byggja aftur á þessum stöðum.

Símskeyti geta engin komið í þessu blaði, sökum símslita, er eigi hefir verið hægt að gera við vegna óveðurs og óvenjumikillar fannkomu. — Elstu menn muna ekki eftir, að áður hafi kyngt niður hér eins miklum snjó á jafn skömmum tíma, — enda má heita, að stöðugur bylur hafi verið síðan á mánudag [14.].

Vestri heldur áfram að segja frá þann 26.febrúar:

Eins og getið var í síðasta tbl. blaðs vors, fórust 18 menn í snjóflóðinu í Hnífsdal 18. þ.m. Þar af hafa eigi fundist tvö börn, Guðbjörg dóttir Lárusar og dóttir Margrétar frá Látrum, er bæði fórust í flóðinu. Af þeim, er meiddust, hefir aðeins 1 dáið, Vigfús sonur Tómasar Kristjánssonar, er fórst. — Hinir allir eru, að áliti héraðslæknis, úr lífshættu. Eignatjónið er giskað á að sé um 10 þús. kr., — hefir það eigi orðið metið nákvæmlega enn, vegna ýmsra atvika. — Mestu eignatjóni urðu þau fyrir Helga Jóakimsdóttir og synir hennar og svo Sigríður Össursdóttir í Búð; hún er fjörgömul og margmædd ekkja, en hefir verið við góð efni. — Samskota hefir þegar verið hafist.

Líkfylgdin mikla. Í gær var komið hingað til bæjarins með öll líkin — átján. — Gekk líkfylgdin gegn um bæinn kl. 4 e.m. með 18 líkkistur í röð, — og munu engir, er sáu, gleyma þeirri sorgarsjón, — þótt gamlir verði. Fáni í hálfa stöng var borinn fyrir líkfylgdinni, og fánar í hálfa stöng blöktu um allan bæinn.

Gröfin geigvænlega. Svo var ákveðið, að allir þessir 18 skyldu fá eitt og hið sama hinsta legurúm. — Kirkjugarðurinn hér var stækkaður í haust og er nú tekin í viðbótinni fyrsta gröfin, að þessum 18 líkum, er hvíla sitt í hverri kistu. Hún er 6 x 14 álnir gröfin sú að flatarmáli. Kisturnar eru lagðar í 4 raðir á lengdina og í hverri röð 5, — nema einni 3.

Jarðarförin. Hún fór fram á hádegi í dag að viðstöddu meira fjölmenni, en hér eru dæmi til, enda rúmaði kirkjan ekki helming. — Öllum verslunum og báðum bönkunum var lokað og sorgarfánar blöktu á hverri stöng. — Ræður héldu í kirkjunni: Sóknarpresturinn, præp. hon. Þorvaldur Jónsson, og cand. theol. Bjarni Jónsson. Á milli ræðanna voru sungin erfiljóð eftir skáldin Guðmund Guðmundsson og Lárus Thorarensen. — Við gröfina hélt sóknarpresturinn ræðu og vígði jafnframt viðbótina við garðinn áður en greftrunin fór fram. Jarðarförin stóð yfir fullar 2 stundir. Leiðið þetta hið mikla mun um ókomnar aldir verða sá minnisvarði þessa voða-atburðar, er geri hann ógleymanlegan öldnum og óbornum. Guð græði syrgjenda sárin!

Dagur (Ísafirði) segir ítarlega frá Hnífsdalsflóðinu í fregn þann 23.febrúar. Sú frásögn er að mestu samhljóða frásögn Vestra - en jafnframt segir:

Smáatvik tvo allkynleg komu fyrir, og þykir hlýða að skýra frá þeim: Uppeldisdóttir Þorláks Þorsteinssonar fannst í búðardyrunum með biblíusögurnar í hendinni; hafði hún auðsjáanlega verið að bíða eftir telpu úr hinum búðarhlutanum til þess að verða henni samferða í skólann. Halldór Halldórsson (föðurbróðir Guðmundar Pálssonar beykis á Ísafirði), er lengi bjó í Arnardal og nú er í Búð, 84 ára gamall, og hefur nú verið blindur í undir 20 ár, svaf meðan ósköpin dundu yfir og var alveg óskaddaður og vel málhress, er komið var niður að honum í snjónum. — Segist karl eigi fyrri vitað hafa, en snjór hafi komið í munn sér.

Dagur (á Ísafirði) segir frá þann 9.mars:

Sunnudag og mánudag 27. og 28. [febrúar] gerði austanrok svo mikið á Reykjavíkurhöfn, að elstu menn muna varla annað eins, sjór rauk yfir miðbæinn og óvært við höfnina fyrir sjógangi og roki. Rak 2 skip yfir Engeyjargranda og í land á Seltjarnarnesi og brotnuðu þau svo, að vanséð er, hvort að þeim verður gert. Það voru „Egill" eign h/f „Stapi“ og „Guðrún Soffia" eign Th.Thorsteinssonar kaupm. Tveim skipum var siglt í veðrinu upp á Eiðsgrandann, „Margrjeti" eign Th. Thorsteinssonar og „Skarphjeðni" eign P.J. Thorsteinsson & Co. og stórskemmdust þau einnig. Einnig dreif upp „Keflavík" og „Hafstein", en skemmdust lítið. Var svo lengi, að ekki var annað fyrirsjáanlegt, en að allur þilskipafloti Reykvíkinga færist, — allt fór í eina kássu, festar og akkeri. Vatnsbátur E. Strands brotnaði í spón. Skaðinn er afarmikill, því að fáir yfirmenn voru úti á skipunum, hvorki skipstjóri né stýrimaður á sumum þeim er skemmdust mest og því vanséð, hvort vátryggingargjald fæst útborgað, auk þess sem óbeint tjón og atvinnuskort leiðir af þessu.

Dagur (á Ísafirði) segir frá þann 17.mars:

Ofsaveður var við Djúpið 28. [febrúar]; braut það í spón nýjan bát og reif upp og eyðilagði skúr við bæinn að Skarði í Skötufirði hjá Helga bónda Einarssyni.

Ísafold segir frá þann 16.mars:

Í ofviðrinu mikla í febrúarlok varð mikið tjón og spillvirki i Vestmannaeyjum, enda stórveður þar svo afskaplegt, að menn minnast trauðla neins slíks. Tvo bifbáta [svo] tók upp. Annar lá við stjóra, en slitnaði frá honum, rak upp og mölbrotnaði. Hinn sökk á festinni, dróst út á Eyrarháls og brotnaði þar. Tjón það metið 5000 kr. Þá tók einnig út um 20 smábáta og fóru 9 af þeim í spón, en hinir skemmdust meira og minna. Mjög kunnugur maður metur tjónið ein 2000 kr. Loks skemmdist ný og rammgerð bryggja, er Edinborgarverslun á, og er talið að viðgerð hennar muni kosta nálega 1000 kr. Svo var flóðhæðin óvenjumikil í ofviðrinu, að einn bifbátinn rak nærri efst upp á sýslubryggjuna, en það er jafnhátt veginum, að heita má.

Mars: Umhleypingatíð á Suður- og Vesturlandi, en betri norðaustanlands, en þar var þó mjög snjóþungt. Lítið var um haga norðan- og vestanlands vegna snjóa frá fyrri mánuðum. Fremur hlýtt.

Þjóðviljinn segir þann 4.mars:

Aftakastormur 28. f.m. annars meinlaus veðrátta. Sunnudaginn 27.[febrúar] gerði afskapa rok, af austri og suðaustri, og hélst til mánudagskvölds (28. febrúar). Í veðri þessu urðu nokkur af þilskipum bæjarbúa, er lágu hér á höfninni, fyrir all-miklum skemmdum.

Dagur (á Ísafirði) segir frá mannskaðasnjóflóði í Skálavík í frétt þann 9.mars:

Í Skálavík ytri hljóp snjóflóð að kvöldi 1. þ.m. á Breiðabóli; er þar margbýlt, og lenti snjóflóðið á tveimur bæjunum, er fremstir stóðu, svo að þá tók af. Í öðrum bænum voru: Sigurður Guðmundsson, Jóhanna Hálfdánsdóttir kona hans og fjögur börn þeirra, en í hinum bænum voru gömul hjón: Ari Pjetursson og Lovísa Sigfúsdóttir. Veður var ófært nóttina eftir að snjóflóðið hljóp og næsta dag, svo að Skálvíkingum gaf eigi inn í Bolungarvík til þess að fá mannhjálp þar, fyrr en aðfaranótt 3. þ.m. Brugðu Bolvíkingar þegar við um morguninn og fóru fjölmennir út eftir, og var síðan kappsamlega að gengið að moka upp rústirnar og náðust þar lifandi Jóhanna Hálfdansdóttir og fjögur börn hennar. Varð þeim það til lífs, að sögn, að skápur, er stóð fyrir framan rúm það er hún hvíldi i ásamt börnunum, hélt uppi súðinni svo að hún féll eigi alveg. Höfðu þau legið í þessu hörmungarástandi um 40 klst er þeim var bjargað, en ómeidd voru þau ö11. — Barnið, sem lést, hafði verið í rúmi andspænis móður sinni og féll súðin þar alveg; Sigurður hafði ætlað út, þegar snjóflóðið skall á, og fannst hann klemmdur milli stafs og hurðar, örendur. Gömlu hjónin fundust látin. Á Naustum — hinumegin fjarðarins hér — kom snjóflóð 3. þ.m. og rann á hlöðu og fjárhús, og braut hvorttveggja nokkuð. — Fyllti snjóflóðið húsið og drap átta kindur. Eigandinn er Jón Halldórsson húsmaður þar.

Ísafold segir þann 4.:

Símasamband við Seyðisfjörð hefir ekkert verið þessa viku. Símskeyti frá útlöndum engin komið. Síminn kvað vera slitinn nálægt Hofi, og skyldi þaðan senda mann til Seyðisfjarðar í dag, bæði með skeytin héðan og til þess að sækja skeyti á Seyðisfirði. Á morgun má búast við þeim skeytum.

Norðri segir þann 4.mars:

Snjórinn hefir verið óvenjulega mikill undanfarið. Austanpóstur var á ferðinni frá Grímsstöðum um 20. f.m. og braust áfram alla leið hingað með hesta sína, þótt seint gengi. Vestanpóstur lagði af stað héðan 23. með marga hesta, en komst ekki með þá lengra en fram í miðjan Öxnadal, og varð að senda þá alla heim sökum ófærðar. Hélt hann svo áfram með póstflutninginn á skíðum vestur yfir Vatnsskarð. Í Húnavatnssýslu kom hann við hestum fyrir sleðana; er hann nú á leiðinni að vestan með mjög mikinn flutning frá Stað, sem öllum er ekið á sleðum. Hans er von hingað á mánudag.

Austanveður ofsalegt var hér á þriðjudagsnóttina [1.]. Samsson, fiskiskip Ásgeirs Péturssonar, sem verið var að búa út til fiskjar, rak í land á Oddeyri og braut 3 stólpa í Wathnes-bryggjunni en skemmdist þó lítið sjálfur. ... Snjóflóð hljóp [] nýlega yfir bæ í Flókadal í Fljótum. Bæinn sakaði eigi, því fannfergjan kringum hann hlífði honum.

Norðri birti þann 18. bréf úr Svarfaðardal, dagsett þann 10.mars:

Síðan um síðustu göngur hefir veðrátta verið hér hin örðugasta. Stórkostlegar rigningar voru hér í októbermánuði, hafði það slæmar afleiðingar, því hey manna skemmdust víða en skepnur hröktust og misstu hold óvanalega snemma. Síðan um nýjár hefir hlaðið niður afarmiklum snjó, og má svo að orði kveða að enginn hríðarlaus dagur hafi komið allan febrúarmánuð, og þá daga, sem af eru marsmánuði. Snjór er hér ákaflega mikill, einkum neðan til í sveitinni.

Þann 18.mars greinir Þjóðólfur frá snjóflóðum og illviðrum:

Á Gelti í Súgandafirði hljóp snjófljóð og tók tvö sjávarhús ásamt fiski, og jafnframt er talið víst, að það hafi brotið tvo smábáta. Á Kaldárhöfða við Skutulsfjörð féll snjóflóð og braut bræðsluhús og sópaði burtu keri með 16 lifrarfötum. Tjónið metið 500—600 kr. Snjóflóð kom á Naustum við Ísafjörð 3. þ.m. og rann á hlöðu og fjárhús og braut hvorttveggja nokkuð, og drap 8 kindur. Á Norðureyri [í Súgandafirði væntanlega] hefur snjóflóð komið tvisvar eða oftar i vetur, en ekki orðið að skaða, en þar er bærinn í allmikilli hættu. ... Í ofveðrinu 28. f.m. rak 6 báta á land á Ísafirði af höfninni og skemmdust sumir allmjög. Bryggja brotnaði á Dvergasteini í Álftafirði; þar brotnaði mótorbátur og þar fauk hjallur. ... Harðindi afarmikil hafa verið um allt land. Símaslit afarmikið og hafa margir dagar verið, sem ekki hefir náðst samband við Ísatjörð, og nokkra daga um mánaðamótin var síminn á Smjörvatnsheiði slitinn, en er nú kominn úr lagi.

Dagur (á Ísafirði) segir frá þann 17.mars:

Tíðarfar er enn hið versta, og engin merki um vorið, sem allir þrá, sjáanleg enn þá, nema hvað frostvægt hefur verið. Síðustu dagana hefur snjóað mikið í viðbót, og var síst þörf á því.

Þjóðviljinn segir:

[9.] Tíðin hlýrri síðan laust fyrir helgina, og víða orðið snjólítið, eða snjólaust á láglendi, og hagar því komnir upp fyrir fénað.

[20.] „Laura" strandar. Í ofsa-veðri 15. mars síðastliðinn rak „Lauru", gufuskip sameinaða félagsins á land á Skagaströnd. Símað var til Reykjavíkur, til að fá björgunarbát, til að draga hana á flot, og er vonandi að það takist.

Ísafold segir af örlögum „Lauru“ þann 26.:

Á fimmtudagskvöldið [24.mars - skírdag] gafst björgunarskipið Geir upp við að ná Lauru út. Hafði þá verið að fast við að bjarga henni í 6 daga. Óveður mikið á köflum, er smátt og smátt liðaði skipið sundur og mun nú botninn algerlega undan Lauru. Vörur þær, er hún hafði innanborðs munu og að mestu eyðilagðar.

Vestri segir þann 23.mars:

Tíðarfarið umhleypingasamt mjög, en milt veður og frostlítið undanfarna daga. — Í gær var hæg hláka, en leysti mikið. Í dag er aftur töluverð snjókoma. ... Feikna-fannkyngi hefir verið um allt land í vetur. Á Norðurlandi þykjast elstu menn ekki muna jafn mikinn snjó. Á Vestfjörðum hefir verið innistaða fyrir allan sauðfénað í meira en 17 vikur og allstaðar er haglaust nú sem stendur. Hestar hafa verið óvanalega lengi á gjöf allstaðar hér fyrir vestan, og mjög hagskarpt er talið fyrir útigangshesta á öllu Norðurlandi. Horfir þar til vandræða, að sögn, ef harðindin haldast.

Apríl: Mjög snjóþungt norðan- og norðaustanlands, snjóhraglandi suður eftir Vesturlandi, en úrkomulítið á Suður- og Suðvesturlandi. Kalt.

Norðri segir af veðri og fóðurstöðu í apríl (nokkuð stytt hér):

[8.] Veðrátta hin hagstæðasta þessa viku. Stillt og frostlaust. Víðast komin jörð hér Norðanlands.

[15.] Ísafrétt hefir engin áreiðanleg borist hingað önnur en sú að fiskiskip héðan af Eyjafirði hafi séð íshroða á laugardaginn var fyrir norðan Hornstrandir.

[22.] Veturinn sem nú er á enda hefir verið óvanalega heyfrekur í Múla-, Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu. Hann endaði með mikilli snjókomu. Þó er nú ofurlítil jörð þegar út gefur, en snjóhríðar eru nú annað veifið. Eru því hey bænda víða orðin lítil.

[29.] Harðindin eru að verða stórhættuleg fyrir landbúnaðinn í Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum. Síðan 9. þ.m. hefir fannkoman verið geigvænleg og sjaldan gefið út þótt jörð hafi verið í hinum snjóléttari sveitum. Nýjustu fréttir segja: Á Fljótsdalshéraði hafa flestir enn hey og ekki er farið að skera þótt sumir séu að verða búnir. Jörð er í Fljótsdal og upphéraði þegar út gefur. Einn bóndi í Vopnafirði hefir misst 60 fjár. Bændur á Fjöllum illa staddir með hey, einn bóndi þar heylaus. Mývetningar öruggir, og tveir eða þrír bændur geta hjálpað þar til muna ef þörf gerist, ástandið í Eyjafjarðarsýslu væri afleitt, ef eigi væru nokkrir menn þar sem geta hjálpað sem um munar, t. d. Jóhannes bóndi í Melgerði, Stefán á Munkaþverá, Jósep á Espihóli, Jón í Dunhaga og prestarnir í Svarfaðardal síra Kristján og Stefán. Jörð er að vestanverðu í Eyjafirði innan Akureyrar þegar út gefur. Sumir Öxndælir hafa rekið sauðfé og hesta til Skagafjarðar. Nokkrir eru farnir að taka mat handa skepnum. Gránufélagsverslun á Oddeyri hefir selt töluvert af rúgmjöli og rúg og hefir nokkrar birgðir enn. ... Enginn vafi er á því að Eyfirðingar bjarga búfé sínu fremur á mat en fella það, þar sem eigi er ókleyft fyrir þá að ná honum að sér. Veturinn var miklu snjóléttari í Skagafirði og Húnavatnssýslu og er þar því lítil hætta á ferðum. Frést hefir að Strandasýslumenn væru illa staddir með hey.

Austri segir þann 16.:

Símafregn skýrir svo frá að hafís hafi sést út af Húnaflóa og við Horn. ... Veðráttan hefir verið mjög ömurleg undanfarna viku. Snjókoma mikil og frost nokkurt.

Ísafold greinir frá þann 27. (og varar við falsfréttum):

Snjókoma mikil hér i Reykjavík i nótt, en ekki mjög kalt. Illar horfur upp til sveita, ef þessu heldur áfram. Skotspónafréttir farnar að berast hingað um, að farið sé að skera fé fyrir vestan og ein fréttin hermir, að einn hinn mesti búhöldur í Suðurmúlasýslu sé búinn að láta skera 4 kýr. Varlegast að festa eigi að svo stöddu trúnað á þessar leiðindafréttir.

Þjóðólfur segir þann 29.: „Heyhlaða fauk á Lágafelli 24. þ.m. með talsverðu heyi. Skaðinn um 500 krónur“.

Þjóðviljinn segir frá apríltíð:

[2.] Snjóinn leysti um páskana [27.mars], svo að jörð varð víða alauð að mestu hér syðra, en nú hefir snjóað að nýju og er sem stendur föl á jörðu.

[9.] Þíðviðri, og hlý verðátta undanfarna daga, og óskandi, að vorið verði allt jafn hagstætt.

[16.] Norðanhret gerði 10. þ.m., og var hér nær sjö stiga frost á Celsíus að morgni 11. þ.m.

[24.] (Veðurpistill dagsettur 22.) Veturinn, sem kvaddi oss 20. þ.m., er óefað lang-mesti snjóa-veturinn, sem langa lengi hefur komið hér á landi, og mun því í annálum minnst, sem „snjóa-vetursins mikla", enda kvaddi hann oss með hvítri jörð, og leysti þó þann snjó samdægurs á láglendi. Sumarið heilsaði oss með blíðu veðri, og glaðasólskini 21. þ.m.

[30.] Snjóar miklir undanfarna daga, svo að þykk snjóbreiða hvíldi á jörðu, þar til hlánaði 29. þ.m.

[2.] Snjóflóð féll nýlega á bæ einn í Fnjóskadal, en fannkyngin var svo mikil, að snjóflóðið fór yfir bæinn, svo hann sakaði ekki.

[23.] Fiskiskipið „Víkingur“ strandaði nýlega í Haganesvík og brotnaði svo, að ekki verður við það gert, en menn björguðust allir. ... Bátur fórst úr Bolungarvík á sumardaginn fyrsta, með þrem mönnum. ... Sumarið hefir heilsað heldur hranalega í þetta sinn. — 1. og 2. sumardag gerði versta áhlaupaveður, báða dagana, og í dag er kafaldsbylur. Nokkra mótorbáta, er fóru á sjó í gær, vantar enn, en menn vona, að þeir hafi farið inn á Súgandafjörð. Til mótorbátanna, sem héðan vöntuðu 1. sumardag, hefir frést.

Þjóðviljinn birti þann 5.ágúst fréttir af Gyðuslysinu [minnismerki er um „Gyðu“ á Bíldudal]:

Það er talið víst, að „Gyða“ hafi farist laugardagsnóttina fyrstu í sumri [23.apríl]. — Skip frá Bíldudal mætti henni á innsiglingu úti í mynni Arnarfjarðar föstudagskvöldið fyrsta í sumri, en um kl. 1—2 um nóttina gerði afspyrnuveður af norðri, með frosti og fannkomu, og er álitið, að „Gyða“ muni hafa verið komin inn undin Stapadal, er hún fórst, með því að rekið hefir af henni ýmislegt lauslegt, þar á meðal tvo þiljuhlera, og tvo sjóhatta, á Fífustaðahlíðum, milli Fífustaða og Selárdals, flest á mánudaginn, eftir að slysið varð.

Ísafold birti 21.maí bréf úr Grímsnesi, dagsett 25.apríl:

Það er gömul og góð venja, þegar blöðin flytja fréttir úr sveitunum, að byrja á því að tala um veðráttu og tíðarfar, og er þess þá fyrst að geta, að veturinn sem leið var einhver hinn gjaffelldasti, er menn muna, lömb voru víða tekin í fyrstu viku vetrar og eru á gjöf enn í dag; hefir aldrei verið sleppt síðan; fram að þrettánda voru oft hagar á beitarjörðum, en notaðist illa að þeim vegna storma og frosthörku, sem stundum komst upp í  20 stig á C. Milli þorra og þrettánda lagði hér mikinn snjó, sem fór æ vaxandi til góuloka, nema stormar rifu ofan af honum við og við; síðan hefir hann farið smá minnkandi svo að nú eru komnir góðir hagar niðar i byggðinni, en Lyngdalsheiði, sem er aðalbeitiland margra jarða hér, liggur enn undir jökli niður að byggð. Fénaðarhöld reyndust góð, og heybirgðir víðast nægar við fóðurskoðun þá, er fram fór i síðari hluta marsmán. En síðan hefir verið stöðug gjafatíð og og ekki séð fyrir endann á því enn, sakir stöðugra storma og kulda, því í dag er sama áframhald, norðanstormur með 5 stiga frosti.

Maí: Óhagstæð tíð, einkum framan af. Fremur kalt.

Vestri gerir upp veturinn 7.maí (nokkuð stytt hér):

Dæmafá ótíð hefir verið hér fyrir vestan síðan í haust. — Október byrjaði með snjókomu og vonskuveðri, og má segja að síðan hafi óslitinn hríðargarður haldist, til þessa dags. Í allan vetur og það sem af er sumrinu er naumast hægt að segja, að nokkurntíma hafi hlánað. Elstu menn muna ekki jafn látlausa veðurvonsku og harðindi, — en sem betur fer mun hvergi á öllu landinu hafa verið jafn mikil harðindi eins og hér um slóðir, á norðvesturhluta Vestfjarða. Fannkyngið er dæmalaust með öllu, og þar sem snjólögin eru mest þarf margra daga hláku til þess að sauðjörð komi. — Að norðanverðu við Önundarfjörð, á Hvilftarströndinni, eru fjárhús og bæjarhús allvíða komin í kaf undir fönninni og verður þar að setja loftpípur á húsin til þess að fénaðurinn ekki kafni. Sama er að frétta úr sveitunum að norðanverðu við Djúpið, af Snæfjallaströndinni og úr Aðalvík og Grunnavík. Þar hafa snjóþyngslin verið svo ægileg, að sumstaðar hafa húsin brotnað, t.d. á bænum Sandeyri á Snæfjallaströnd. Fönnin varð þar svo mikil, að nýlega byggð hlaða og fjárhús sliguðust og féllu inn. Varð fénu naumlega bjargað og þá orðið svo loftlaust í húsunum, að ljós lifði þar ekki. Í Inn-Djúpinu og fjörðunum sunnanvert við Djúpið er fannkyngið nokkru minna, þótt það sé óvanalega mikið og víðast alveg haglaust. Haglaust eða haglítið er og talið í Dýrafirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði, en snjórinn þar þó eigi meiri en svo, að jörð kæmi fljótt upp ef þíður kæmu.

Ástandið hér um slóðir er voðalegt. Í hörðustu sveitunum hefir allur fénaður: hestar, kýr og kindur, staðið inni í 30—33 vikur; er það talið dæmalaust. Margir eru nú orðnir heylausir og mjög fáir aflögufærir. Sumstaðar hefir fé þegar verið skorið sökum fóðurskorts; hafa fréttir borist um það úr Önundarfirði, Aðalvík og frá Djúpi, en ekki hefir það þó verið gert nema á fáum bæjum enn sem komið er. Þá hefir fé verið skorið hér í Firðinum, rétt við kaupstaðinn. ... Að því, er frést hefir, munu horfurnar vera betri annarstaðar á landinu. Á öllu Suðurlandi er talið snjólaust og nægileg jörð þegar út gefur. Um og eftir páska leysti snjó mikið og kom góð jörð víðast á Norðurlandi og Austurlandi.

Ísafold fer yfir stöðuna í pistli þann 4.:

Einlægur bati hófst snemma í vikunni þessari, með nokkurra stiga hita víðast um land, jafnvel 9 1/2 á Akureyri í fyrradag að morgni (kl.7). En lengi verður snjóa að leysa, eftir þá ódæmafannfergju, er vera munu mest brögð að í uppsveitum Austanlands (Héraði og Eiðaþinghá m.m.) og á Vestfjörðum norðantil, svo sem Hornströndum, við Djúp og allt suður að Dýrafirði. Yfir fjárhús skefldi svo eitt sinn í Furufirði, að leit varð úr. Líkt sagt af Langadalsströnd utanverðri og Snæfjallaströnd. Fjögurra álna klaki á götum i kauptúninu Bolungarvík. Heyskortur mikill víða, en vandræði þó minni yfirleitt en orð hefir verið á gert. Skilorður strandbátafarþegi kringum land segir svo frá, að kvörtun hafi engin heyrst veruleg fyrr en kom á Eyjafjörð austan um land. Þar talað um vandræði á Fljótsdalshéraði. Og þar í Eyjafirði mikil þröng orðin í útfirðinum; farið að kaupa korn handa skepnum, en um seinan gert — hin gamla alþekkta óforsjálni, að fara ekki til þess fyrr en hey eru alveg þrotin. Hagar höfðu verið í framfirðinum öðru hvoru í allan vetur; bændur þar birgir fyrir sig og aflögufærir fyrir sína sveitunga, þá fáu, er tæpt voru staddir. Ekki látið illa af ástandinu í Skagafirði og Húnavatnssýslu. Engin jarðbönn þar að staðaldri í vetur nema sumstaðar. Fullyrt hiklaust, að þar muni bændur bjargast almennt fyrir skepnur sínar, nema hestar víða magrir, ekki þó farnir að falla nema á einum bæ í Húnavatnssýslu. Miður látið af Ströndum, einkum norðan til. Af Selströnd og úr Bjarnarfirði sauðfé flutt út í Grímsey á Steingrímsfirði upp á guð og gaddinn, sem kallað er; hún þó auð að sjá. Hjá einum hefðarmanni í suðursýslunni löngu skipt upp öllum fénaði á hjálpfúsa nágranna betur stadda. Sextán hestar höfðu verið á gjöf frá því með þorra á einum bæ í Hrútafirði (Kollsá). Við Inn-Djúp eru bændur feiknatæpir orðnir og sumir farnir að fella. Farið að skera á 2 býlum í Bolungarvík, og 1—2 í Önundarfirði. Matvöru nóga að fá í kaupstöðum, en of seint til hennar tekið. Miklu vægara um vesturfirðina. Nægir hagar þar á útnesjum. Þar gekk fé úti. Hafís hvergi að sjá nær en 11 ¼ mílufjórðunga undan Horni. Heldur meira um hann austar; sú áttin stríðust og kalsamest.

Ísafold segir þann 25.maí:

Margar sveitir missa mörg hundruð fjár í ofveðri. Hörmulegar fréttir hafa nýlega borist hingað af stórkostlegum fjárskaða í mörgum sveitum á Austurlandi í ofveðri h. 7. þ. mán. Þann dag kl. 4 e.h. skall á ofsaveður mesta. En um morguninn hafði fé verið beitt almennt, vegna heyleysis, þótt veðurhorfur væru illar. Fréttir eru komnar nokkrar úr Jökulsárhlíð, Jökuldal, Fjöllum, Möðrudalsheiði og Vopnafirði. Á flestum bæjum á Fjöllum, Möðrudalsheiði og í Vopnafirði er sagt að muni hafa farist frá 40 og upp í 100 fjár. En úr Jökulsárhlið og Jökuldal hafa verið greindir þessir fjárskaðar: Stefán bóndi á Sleðbrjót í Jökulsárhlið hefir misst 150 fjár. Elías bóndi á Hallgeirsstöðum hefir misst 180 fjár. Pétur bóndi á Haugsstöðum (Jökuldal) 100 sauði. Jón bóndi á Skeggjastöðum (Jökuldal) 60 fjár. En sjálfsagt hefir einnig margt fé farist á öðrum bæjum í þessum sveitum. — Elías á Hallgeirsstöðum hafði fundið 50 af sínum kindum lifandi, en búist við, að þær muni drepast flestar. Mikið af fénu, er búist við, að farist hafi þann veg, að veðrið hafi hrakið það í fljótin.

Austri segir af fjársköðum í pistli þann 14.maí:

Fjárskaðar miklir urðu á nokkrum bæjum hér eystra í stórhríðinni s.l. sunnudag [8.], höfum vér þegar frétt um þessa skaða: Á Hallgeirsstöðum í Jökulsárhlíð fórust 200 fjár, á Sleðbrjót í sömu sveit 150 fjár, á Nýpi í Vopnafirði 100 fjár, í Fagradal á Fjöllum 100 fjár og á Grundarhóli í sömu sveit 80 fjár. Veðráttan virðist nú loks vera gengin til batnaðar; allgóð hláka síðari hluta vikunnar svo að snjó hefir mikið tekið upp og er þegar komin nokkur beit fyrir fé og hesta hér í firðinum og svo mun einnig á Héraði.

Fjallkonan segir frá þann 10.júní:

Þrjú frakknesk seglskip rak á land í ofsaveðrinu 8. [maí] á Fáskrúðsfirði. Tvö þeirra vóru fiskiveiðaskip, „Daniel" frá Dunkerque og „Moette" frá, Paimpol, en eitt var flutningsskip, „Frivol" frá Paimpol. Talið víst, að „Daniel" yrði strand, en óvíst um hann. Einn maður drukknaði.

Austri segir af ís þann 21.:

Gufuskipið Ceres, sem kom í gær til Ísafjarðar, hafði hitt töluverðan ís út af Horni og siglt all-lengi í gegnum hann, en eigi var hann þéttur, því skipið hélt alltaf fullri ferð. Þoka var, svo skipverjar sáu örskammt útyfir ísinn. Allir björgunarbátar skipsins voru hafðir altilbúnir, með vistaforða og öllum útbúnaði, ef illa skyldi fara.

Þjóðviljinn segir af tíð og fleiru í maí:

[11.] Kuldar og norðan-næðingar, að undanförnu svo að vorgróðurinn byrjar i seinna lagi.

[28.] Mild tíð undanfarna daga, og jörð þegar farin nokkuð að grænka. ... Fiskiskip ferst. 10 menn drukkna. Talið er, að fiskiskipið „Gyða" frá Bíldudal, eign milljónafélagsins svonefnda, hafi farist, og allir menn drukknað, með því að ekkert hefur til skipsins spurst, síðan 22. apríl þ.á. Skipverjar, sem voru alls tíu að tölu, kvað hafa verið heimilisfastir á Bíldudal, eða þar í grenndinni.

Þjóðviljinn segir þann 9.júní:

Fjárskaðarnir í Norður-Múlasýslu, sem getið var í síðasta númeri blaðs vors, kvað hafa orðið öllu meiri, en þar er skýrt frá. Sagt, að alls hafi drepist um 700 fjár í veðrinu mikla, 7.—8. maí.

Austri birti þann 14.júlí bréf úr Lóni, dagsett 18.maí:

Síðan héðan var skrifað seinast (á krossmessu) dundi á síðasta vor-áfellið, er hófst um uppstigningardag (5/5) með frosti og fjúki, og keyrði fram úr með ofsaroki 7—8. dag maímán., en þá var snjólaust veður hér um sveitir, og varð enginn fjárskaði, nema veðrið mun hafa gengið nærri því, sem úti var. Þá lá „Penvie" á fyrstu strandferð sinni úti fyrir Hornafirði, og sást ekki til lands af skipinu fyrir sandroki, og varð það að fara framhjá með miklar vörur, en hefði það farið á réttum tíma frá Reykjavík austur á leið, mundi það ef til vill hafa orðið á undan þessu mikla veðri. Eftir þetta fór veðrátta batnandi þótt regluleg sumarhlýindi hafi ekki komið fyrr en þessa síðustu daga, enda þykir nú grasvöxtur hér í minna lagi um þetta leyti árs.

Ísafold segir frá þann 21.maí:

Tíðarfar mjög gott og hagstætt um land allt frá því er batinn hófst, nær úrkomulaus þíðviðri, með allt að 10 st. hita. Af Reyðarfirði er skrifað fyrir fám dögum (16.): Síðustu viku einmunatíð. Enda mátti batinn ekki koma seinna. Svo illa voru bændur staddir yfirleitt hér eystra, verst í Eiðaþinghá og Hjaltastaða. Þeir eru hræddir um, að fé þoli illa nýgræðinginn; en jörðin kemur græn undan snjónum. Töluvert hey hefir verið pantað frá útlöndum; og hefir Ellefsen sýnt af sér höfðingsskap að vanda og vinarþel við oss íslendinga: flutt fyrir ekki neitt til landsins 20,000 pd. af heyi og hjálpað af sínu enn meira.

Norðri segir lítillega af tíð í maí:

[6.] Um síðustu helgi brá til vestanáttar með þíðu í tvo daga, kom þá víða upp jörð, á miðvikudaginn [4.] gekk aftur til norðaustanáttar og er snjóveður og kuldi nú í tvo daga.

[13.] Þeir trúa gömlu mennirnir á að oft breytist veðrátta með tunglkomum. Sumartunglið byrjaði og endaði með stórhríð, og var óvenjulega hart. Á mánudagsmorguninn er var kom nýtt tungl og stillti þá til og hefir verið milt veður síðan, einkum í gær og í dag. Víðast mun nú því komin upp jörð.

[27.] Veðrátta hefir verið hin hagstæðasta síðastliðna viku og töluverður gróður kominn.

Þann 26.maí drukknuðu 5 er uppskipunarbáti hlekktist á í brimi við Vík í Mýrdal. Ljóð var um það ort: „Alfaðir ræður“ og oft sungið við lag Sigvalda S. Kaldalóns.

Júní: Nokkuð skakviðrasamt vestan- og norðanlands framan af mánuðinum, m.a. gerði alhvíta jörð suður í Borgarfjörð, síðast 13. júní, en annars var betri tíð. Kalt.

Vestri segir þann 4.júní:

Snjóþyngslunum sem voru hér í vetur, er lengi að létta af. Fyrri hluta þessarar viku var fé flutt af Snæfjallaströndinni (frá Sandeyri) og suður fyrir Djúpið, í Hestfjörð. Snæfjallaströndin er enn alhvít nema fjallsbrúnirnar og hæstu bakkar og því ekki komin næg sauðjörð þar enn; sama mun vera víðar norður um strandirnar. En á Langadalsströndinni, og sunnan Djúpsins, er mikið meir leyst, en víðast eru þó skaflar í lautum og undir bökkum, niður í sjó. Það vill til að jörðin kemur ókalin undan snjónum.

Ísafold segir stuttlega af júnítíð:

[1.] Ekki hlýnar svo ennþá, að sumarlegt megi heita. Maí allur helst til kaldranalegur; sólin falið sig sleitulitið.

[8.] Seint kemur sumarið blessað. Hér um slóðir hefir hitinn ekki komist að heita má upp úr 10 stigum enn, það sem af er sumri. Sólarlitið undanfarið, og útsynnings-úrkoma i dag.

[22.] Nú er óðum farið að hlýna hér um slóðir, en sólarlítið er ennþá. Talsverð væta seinustu dagana.

Austri segir 11.júní:

Veðrátta hefir verið góð nú undanfarnar 3 vikur, þar til nú síðari hluta þessarar viku að mjög kólnaði og snjóaði ofan í mið fjöll. Vorvinnan hefir gengið seinlega allvíðast, vegna þess að snjó leysti svo seint, og sumstaðar mun enn eigi búið að bera áburð á tún, enda liggja fannir ennþá nær því niður í sjó víða í giljum hér eystra, en slíkt hefir eigi átt sér stað síðustu 20 árin að minnsta kosti. Gróður er kominn nokkur, þar sem jörð er orðin vel þurr undan snjó.

Norðri segir þann 10.júní af strandi við Kópasker þann 6.:

Seglskipið „Hermod“ verslunarskip Örum & Wulffs rak í land á Kópaskershöfn 6. þ.m. í vestanroki og varð að strandi. Skipið var á lausakaupaferð og hafði töluvert af útlendum vörum. Ekki hefir frést, hvort þær hafi náðst. Ekkert manntjón eða slys varð við strand þetta.

Suðurland (á Eyrarbakka) segir þann 13.júní:

Tíðarfarið hér er sem annarstaðar afar kalt og þarafleiðandi mjög gróðurlítið. Horfur með grasvöxt all ískyggilegar, sem er þeim mun hræðilegra þar sem nálega allir gáfu upp hey sín síðastliðinn vetur. Á Norður- og Vesturlandi er þessa dagana um 2 gráðu hiti. Snjór á Ísafirði í gær eg logndrífa á Blönduósi í dag. Er slíkt allkalt 11 dögum fyrir Jónsmessu. 

Þjóðólfur birti þann 1.júlí bréf úr Skagafirði, dagsett 15.júní:

Hér er kuldatíð og snjóhrakningur nær daglega í byggð niður, og er illt útlit með grasvöxt. Lítill afli við Drangey og gerir það mest tíðin að verkum.

Þjóðviljinn segir af júnítíð:

[9.] Tíðin mjög hagstæð, síðan blað vort var síðast á ferðinni. Tún og úthagar óðum að grænka, þótt smátt hafi enn miðað áfram. ... Nýlega hefur frést, að hafíshroði sé við vesturkjálka landsins.

[14.] Tíðin fremur hagstæð að undanförnu, en þó hlýindi lítil.

[21.] Tíðin fremur hagstæð, en grasspretta þó enn skammt á leið komin, sem bæði stafar af hlýjuleysi, og af því, að vorið hefur verið í þurrviðrasamara lagi.

[27.] Tíðin indæl og sólrík á degi hverjum, en hlýindin þó eigi svo mikil, sem ákjósanlegt væri um þenna tíma árs, og seinkar það grasvextinum að mun.

Þjóðviljinn birti þann 29.júlí bréf úr Dýrafirði, dagsett 21.júní:

Enda þótt komnar séu sólstöður, eru þó enn snjóskaflar á sumum túnum, og á sumum bæjum verða matjurtagarðar eigi stungnir upp vegna klaka og bleytu. Stórar skellur eru alhvítar í túnum, þar sem leysingarvatnið hefir lengi runnið um, og étið úr allan jurtagróður; en þeir blettir, sem grænir eru, eru rótnagaðir, eftir fé, og kýr. sem eigi hafa haldist við í gróðurlausum úthaga, og því hörfað heim til húsa. ... Gjafa-tíminn varð alls 32 vikur, og gat enginn við slíku búist, og það því síður, sem aldrei varð bata-kafli á milli. Snjóþyngslin um alla Ísafjarðarsýslu langt umfram það, sem núlifandi menn muna, því að á stöku bæjum voru hús í kafi á hvítasunnu [15.maí]. Afleiðingarnar eru nú stórskuldir, vegna matvörukaupa  til skepnufóðurs, og skepnur víða sármagrar, og sumstaðar dauðar, þó að til séu stöku menn, sem haldið hafa skepnum sínum vel til fara, og þó skuldlaust. Sumarblíða hér engin komin enn; aðeins stöku dagstundir hlýviðri.

Suðurland birti þann 14.júlí bréf af Langanesströndum dagsett 25.júní:

Veturinn var hér óvenjuharður, snjóþyngsli í mesta lagi og stórviðri afarmikil, mátti heita látlaust fram í þriðju viku sumars, eftir það fór tíðin að smáskána, enda mátti varla tæpara standa, því allvíða voru menn að þrotum komnir með hey, en þar sem batinn kom áður sauðburður byrjaði, munu lambahöld á flestum bæjum í góðu meðallagi. — Grasspretta er mjög léleg enn þá, því þótt snjóar séu leystir upp fyrir löngu síðan, hefir tíðin verið, og er enn, mjög köld og kom því kyrkingur í gróðurinn.

Töluvert var um skipskaða í maí og jafnvel í júní - en fréttir nokkuð ruglingslegar - vonandi slær hér hlutum ekki saman um of:

Þjóðviljinn segir þann 14.júní:

Talið er líklegt, að eitt af fiskiskipunum frá Patreksfirði hafi farist. Það kom inn á Ísafirði, og fór þaðan 2. maí síðastliðinn. — Ráðgerðu skipverjar þá, að fara inn til Patreksfjarðar um hvítasunnuna, en ekkert hafði spurst til skipsins, er síðast fréttist, og menn því mjög hræddir um, að það hafi farist í uppstigningardags-óveðrinu [5.]. Á skipi þessu voru alls 10 menn, og skipherra Guðmundur Jónsson frá Auðkúlu í Arnarfirði.

Þjóðviljinn segir þann 22.júní:

8. maí rak tvö frakknesk fiskiskip í land í Fáskrúðsfirði í Suður-Múlasýslu, enda veður þá ofsahvasst. Annað skipanna var frá Dunkerque, sem er all-álitlegur kaupstaður i fylkinu Nord, við Norðursjóinn, með um 42 þúsund íbúa, og fer þaðan árlega fjöldi skipa, til að stunda fiskiveiðar hér við land, sem og við strendur New Foundlands, o.fl. — Skip þetta hét „Daníel". Hitt skipið hét „Moette", og var frá Paimpol, dálitlu kauptúni (með um 2400 íbúa) í fylkinu Cötes du Nord, við sundið milli Frakklands og Englands. Þriðja skipið, sem strandaði, var vöruflutningaskip, „Prevol" að nafni, og var það einnig frá Paimpol. Skipverjar komust allir lífs af, nema hvað einn maður drukknaði.

Ingólfur segir 14.júlí:

Nú þykja komnar fullar sannanir fyrir því, að hákarlaskipið „Kjærstine" eign Gránufélagsins á Oddeyri hafi farist í vor og er talið víst að það hafi skeð í mikla veðrinu 7. júní, þegar Hektor á Siglufirði var nærri farinn, en tveir menn af því skipi drukknuðu. — Skipsbáturinn hefir fundist, þó eitthvað dálítið brotinn, Tólf menn voru á skipinu ... 

Norðri segir frá sama skipskaða 23.júlí - en nefnir 12.júní sem daginn með vestanroki á hákarlamiðum. 

Suðurland segir þann 23.júní:

Í Landmannahreppi og viðar hér eystra hefir orðið vart við öskufall. Einkum þann 18. þ.m. Askan sást gróft á vatni og gerði hvítt fé dökkgrátt sumstaðar. Eigi vita menn hvaðan aska þessi er komin.

Júlí: Nokkuð hagstæð tíð og allgóðir þurrkar, sístir norðaustanlands síðari hlutann. Hiti í meðallagi.

Vestri lýsir snjóalögum vestra í pistli þann 9.júlí:

Snjókyngíð er afarmikið víða hér vestanlands enn þá og leysir seint, einkum á Snæfjallaströnd, Jökulfjörðunum og Sléttuhreppi, er þar víða óleyst af túnum enn og úthagi á mörgum bæjum allur í kafi nema hæðstu hólar og hlíðargeirar þar sem bratt er; í Jökulfjörðunum sumstaðar ganga margra álna háir snæhamrar fram að sjó. Tveir bæir, Steinólfsstaðir og Steig í Veiðileysufirði hafa lagst í eyði í vor og er nú engin byggð í þeim firði. 3 júlí var gengið á skíðum milli Glúmstaða og Tungu í Fljótum, og sér þar ekki á dökkvan díl á láglendi, nema sandhóla niður við sjóinn og hæstu hólana í túnunum kringum bæina. Í Önundarfirði er enn víða mikill snjór og nú fyrir viku var nokkuð af túnunum á sumum bæjunum undir snjó. Grasvöxtur afleitur yfirleitt alstaðar hér í grennd enda hafa nú gengið sífeldir þurrkar langan tíma. Þar sem snjór er óleystur enn eða nýleystur er auðvitað ekki útlit fyrir nokkurn grasvöxt og yfirleitt horfir til stórra vandræða með heyskap. Nú myndi enginn þurfa lengi að leita til að finna Glámujökul og kæmi Stefán kennari Stefánsson hér um slóðir í sumar, myndi hann sjá að ætt Glámu er ekki útdauð enn.

Norðri segir af júlítíð:

[2.] Veðrátta hefir verið köld meir en í viku, lengst af þykkt loft og norðan næðingur, þó sólskin í dag og í gær.

[9.] Spretta á túnum allstaðar hér Norðanlands er búist við að verði í meðallagi nema á útkjálkum. Sláttur byrjar almennt í næstu viku á túnum. Gróðrarveður hið besta þessa dagana.

[30.] Nú á aðra viku hefir verið erfitt að þurrka hey, er því mikil taða hér óþurrkuð, en flestir búnir að slá tún. Engjar spretta sem óðast, svo haldið er að heyskapur geti orðið sæmilegur, ef veðrátta yrði hagstæð og gott haust.

Þjóðviljinn segir af júlítíð:

[8.] Tíðin fremur hlýindalítil undanfarna daga.

[23.] Tíðin hlý og hagstæð að undanförnu.

[29.] Sól og sumarblíða síðustu dagana, veðrið mun hlýrra, en verið hefir. ... Vegna þurrkanna, sem verið hafa, hefir heyskapurinn gengið að óskum, ... Túnblettirnir hér í bænum flestir, ef eigi allir, alhirtir. Til sveita munu túnin því miður yfirleitt fremur snögg, sakir vorkuldanna, og grassprettan því að miklum mun lakari, en í fyrra.

Suðurland segir þann 28.júlí:

Kunnugir menn, sem búa nálægt Heklu, eru orðnir hálfhræddir um að hún fari bráðum að gjósa. Þykir þeim snjóinn leysa of ört af fjallinu, ekki heitara en verið hefir hér sunnanlands í sumar. ...  Heyskapur er nú stundaður af miklu kappi hér á Eyrarbakka, enda tíðin vel fallin til þess; við sjó er ekki litið.

Ágúst: Þurr og hagstæð tíð um mestallt land. Hiti var í meðallagi.

Austri segir þann 6.ágúst:

Veðráttan hefir verið mjög óhagstæð fyrir landbóndann, stöðugir óþurrkar að heita má hér eystra þrár vikur undanfarið, og hefir nær ekkert af heyi náðst i húsá þeim tíma. Er því hætt við að heyið, sem flatt liggur eða blautt í sátum, fari mjög að skemmast almennt h|á bændum, ef þurrkar koma eigi mjög bráðlega.

Ingólfur segir þann 11.ágúst:

Á föstudagskvöldið [5.] gerði hér þrumuveður meira en menn þykjast vita dæmi til um langan aldur. Eldingarnar voru svo tíðar að sumir kváðust hafa talið undir 100 íkveikjur á liðugum klukkutíma (um miðnættið), en ekki ber mönnum saman um þær tölur. Eldingarnar voru flestar i vestri að sjá út yfir flóann og margar afarfagrar.

Reykjavík segir einnig af þrumuveðrinu í frétt þann 6.:

Þrumur og eldingar óvenju miklar gengu hér yfir Sundin og Kjalarnesið í gærkvöld. Þær byrjuðu kl. 10,45 og stóðu fram yfir miðnætti, en voru þá farnar að fjarlægjast mjög. Töldu menn um eða yfir 100 þrumur alls. Veður var hið blíðasta, logn og hiti.

Ísafold greinir stuttlega frá ágústtíðinni:

[13.] Sama sumarblíðan á degi hverjum;— lítilsháttar væta einstaka sinnum.

[27.] Einstök blíða og heiðríkja allan ágústmánuð um þessar slóðir — fram á síðustu dagana. En dálitið komið úr lofti seinni hluta þessarar viku.

Norðri segir af ágústtíð:

[13.] Alla þessa viku hefir verið þoka hér Norðanlands og einnig eystra, en rigning ekki. Daufir sólskinsþurrkar annað veifið á daginn, hafa því flestir hér nyrðra náð töðu og því heyi er laust var fyrir viku. Engjar hafa víða sprottið fram að þessu og eru víða orðnar vel í meðallagi. Votengi talið með blautasta móti.

[20.] Þessa viku hafa verið stillingar og oft góður sólskinsþurrkur á daginn. Bændur hafa því getað hirt tún og allmikið af úrheyi. Víða mun taða hafa verið tekin fremur illa þar, af því menn þorðu eigi að bíða. Engjar eru víðast taldar sprottnar í góðu meðallagi, í Þingeyjarsýslu og á Fljótsdalshéraði náðist mikið hey þurrt, en í Fjörðum eystra hefir þurrkurinn verið stopull og eigi nema sumt af heyinu náðst.

Suðurland (á Eyrarbakka) segir af næturfrostum og fleiru þann 18. - einnig er þar bréf úr Álftaveri dagsett 7.ágúst:

Frost hafa verið hér undanfarnar nætur og þurrkar á daginn. Má búast við rýrnun í grasi innan skamms, ef því heldur áfram. Annars mun heyskapur ganga allvel, að eins þurrkalítið um tíma.

Álftaveri 7. ágúst. Tíðarfar hefir verið hér fremur óhagstætt. Vorið afar kalt og gróðurlítið, þar til með Jónsmessu, þá breytti til batnaðar og varð gott grasveður nokkurn tíma. Svo breyttist aftur til kuldaáttar og gróðurleysis, svo sláttur byrjaði ekki fyrr en viku siðar en vant er. Og síðan um sláttarbyrjun hafa verið sífelldir rosar. Allir eru hér búnir að slá tún, en mest alt liggur úti óhirt og er farið að skemmast. Það munu vera frá 20—60 hestar sem hver búandi er búinn að hirða, mjög illa þurrt.

Þjóðviljinn lýsir ágústtíðinni í Reykjavík og nágrenni:

[5.] Tíðin hlý undanfarna daga, yfirleitt unaðslegasta sumarveður.

[17.] Veðrátta lygn, og mild að undanförnu og vætur enn eigi, að heitið geti. Að kvöldi 5. þ.m. er klukkan var freklega hálfellefu heyrðist hver þruman á eftir annarri, og gekk svo fram yfir miðnætti. Voru eldingar mjög skærar og tilkomumiklar, og þykjast sumir hafa heyrt allt að hundrað þrumum. Veður var lygnt og mollulegt, en rigning eigi.

[24.] Veðrátta lygn og mild. og gengur heyskapurinn allvel hér syðra.

[31.] Tíðin mild, og hagstæð, sem að undanförnu.

Vestri segir af ágústtíð:

[20.] Þurrkar og hitar hafa stöðugt verið hér fyrirfarandi hálfan mánuð. Nýting á heyi og fiski því í besta lagi.

[27.] Heyskapur hér við Djúpið og í nærsveitunum kvað vera um það í meðallagi það sem af er, og má það gott heita, eftir því sem áhorfðist og seint var byrjað að slá. Nýting á töðu varð sérlega góð, enda hefir verið einkar góð tíð, nema núna þessa viku, rignt flesta dagana. Í dag er þó hreint veður.

Suðurland birti þann 8.september fréttabréf undan Eyjafjöllum, dagsett þann 28.ágúst:

Sláttur var byrjaður um 20. júlí, og gengur heyskapur nú mjög vel, því tíðarfarið er einstaklega gott, og grasvöxtur viðast i góðu meðallagi, nema á harðvelli. Framan af slætti var þerrilítið, og töður hröktust til muna hjá mörgum, en vikuna 14—20 þ.m. var ágætur þerrir og luku þá allir við hirðingu af túnum. Síðastliðna viku var ágætt veður, en stórkostlegar krapaskúrir hafa viða spillt heyþurrki.

Þjóðólfur birti þann 9.september fréttapistil af Síðu, dagsettan 28.ágúst:

Snemma í ágúst fór að bera á öskufalli, og varð það stundum svo mikið, að hvít föt, sem úti voru, urðu gráhvít. Einn dag var allt loftið, fjöll og jöklar, og allt sem augað eygði, með svartbláum lit, þann dag féll mesta aska. — 18. ágúst að kvöldi sást frá Orustustöðum eldstungur teygja sig upp í loftið að sjó í norðaustur og stóð það yfir i fullan klukkutíma. Eldslitur hefir oft verið á austurlofti seinni hluta þessa mánaðar, og upp úr landnorðri þeytast daglega skýjahnoðrar með furðu miklum hraða hver á eftir öðrum sem breiðast svo út um loftið, og virðast þeir vera mest vatnsgufa. Í gærmorgun var sólin eins og eldhnöttur, og eins í gærkveldi (27. ágúst). Tíð er hér hagstæð, þurrkar nú í fullan hálfan mánuð, grasvöxtur í fullu meðallagi.

Fjallkonan birti þann 6.september bréf frá séra Magnúsi Bjarnarsyni á Prestbakka, dagsett 27.ágúst:

Herra ritstjóri. Þér höfðað eftir mér í vor, í yðar heiðraða blaði, að menn í Skaftafellisýslu væru hræddir um að eldur væri uppi í Vatnajökli. Nú er það áreiðanlega víst orðið. Bóndinn á Orustustöðum á Brunasandi, sá ásamt uppkomnum syni sínum, að kveldi þess 12. þ.m., er þeir komu seint heim af engjum (kl. var að ganga tólf), hvar eldur kom upp austan-hallt við Seljalandsfjall að sjá frá þeim, norður í Vatnajökli og lagði upp á loft. Var að sjá svo langa stund, sem hann logaði stillt en svo smádvínaði hann; en þá gaus upp annar eldilogi litið eitt vestar, og lagði á loft upp, varaði sú sýn þar til nokkru eftir að bóndi var heim kominn, og kallaði hann á konu sína, er var á fótum, út að sjá gosið. Leið full klukkustund, frá því að eldurinn sást fyrst, og þar til að hann dvínaði aftur, enda fór fólkið þá að hátta. Þann 15. [ágúst] var landnorðan vindur og urðu þá svört föt, er úti hengu grá af öskufalli á skammri stundu, og oft hefir mátt rekja slóðir manna og dýra á jörð, svo hefir hún verið full af dufti hér á Síðunni. Loft hefir að jafnaði verið fullt af mekki, og „dömpum", sem sífellt koma upp í landnorðri og stafa að ætlan manna frá eldinum. Svo var það og, er síðast var eldur uppi í Vatnajökli, og Skeiðará hljóp. Skeiðará hefir ekki hlaupið enn, og gjörir máské ekki að þessu sinni, því að eldsuppkoman er vestar í jöklinum, en hún hefir verið að undanförnu. En áin hefir verið ófær lengst af í sumar — og farin á jökli, og getur það að einhverju leyti staðið í sambandi við gosið.

Þjóðólfur birti þann 7.október eftirfarandi pistil um sýn til eldgossins í Vatnajökli þann 29.ágúst:

Upp á Kaldbak. Kaldbakur heitir hæsta fjallið á Síðunni, það er 732 metrar á hæð. Þeir sr. Magnús Bjarnarson prófessor á Prestsbakka og Einar Jónsson málari fóru upp á það 29. ágúst síðastliðinn. Um útsýnið þar ritar Einar Jónsson oss á þessa leið: „Útsýni þar er hið fegursta, er ég hefi séð. Sést þaðan alla leið vestur til Heklu, milli Mýrdalsjökuls og Torfajökuls. Þaðan sér maður þá fögru sjón, að sjá yfir alla Síðuna með allt sitt skraut. Til austurs sést alla leið yfir Ingólfshöfða, Öræfajökull og Skeiðarársandur með öllum vötnum. En til landnorðurs sést langt norður á hinn kuldalega Vatnajökul, en þetta skipti var honum volgt fyrir brjóstinu, því hann púaði jafnt og stöðugt ferlegum reykjarmökk upp úr sínu mikla blástursholi. Það hefir í allt sumar lifað þar í glæðunum. 14. þ.m. varð loftið hér svo svart sem bik væri, og þegar það hið dimma ský fór yfir Lómagnúp, var til að sjá eins og væri hálfrökkvað, en fyrir austan blasti Öræfajökull við i glaða sólskini, og var það einkennileg og fögur sjón allt saman“.

September: Úrkomutíð á Suður- og Vesturlandi, nokkur hret um og eftir miðjan mánuð. Hiti í meðallagi.

Vestri greinir þann 3.september frá grasmaðki:

Skógar hafa víða orðið fyrir miklum skemmdum af skógmaðki, einkum í Borgarfirði og á Mýrum. Hefir mikið borið á maðki þessum bæði í fyrrasumar og nú og hefir hann gert hinn mesta skaða. Hann etur laufið og börkinn, og hríslurnar standa eftir visnar og svartar, feyskjast og deyja. Sumstaðar hafa stór svæði í skógunum skemmst á þennan hátt og fá menn ekki við gert. Einna mest orð er á þessu gert í Borgarhrepp, Þverárhlíð og Hvítársíðu. Æskilegt væri, að skóggræðslumennirnir gæfi almenningi leiðbeiningar, hversu helst verður ráðin bót á skemmdunum, eða hver ráð eru til þess að afstýra þeim, ef þeir vita nokkur.

Ísafold segir þann 3.: „Vætusamt hér sunnanlands þessa dagana“.

Norðri segir frá í örstuttum fréttum: 

[3.] Norðaustan rosi þessa viku með allmikla úrkomu, en þó hlýtt. Nú er brugðið til sunnanáttar. [13.] Síðustu viku hefir lengst af verið sunnanátt, hafa menn því þurrkað upp hey sín. [26.] Nú um síðustu helgi brá til norðaustanáttar með bleytuhríð svo hvítnaði ofan að sjó.

Suðurland segir af eldgosi í frétt 15.september:

Frést hefir að bóndinn á Orustustöðum í Brunasandi hafi ásamt öðrum fleiri, séð eldsuppkomu í Vatnajökli þ. 12. ágúst. Síðan hefir talsvert orðið vart við öskufall þar eystra. Skeiðará hefir verið ófær í sumar, alltaf verið farin á jökli, má vera að það stafi af eldsumbrotum þessum. 

Austri segir þann 15.september.

Tíðarfar ágætt þessa síðustu viku, og sólarhitar sem um hásumar.

Þjóðviljinn segir af septembertíð:

[12.] Tíðin votviðrasöm undanfarna daga.

[20.] Tíðin rosa- og stormasöm undanfarna daga, enda síst að furða, þó að haustið verði votviðra og stormasamt, eftir góðviðrin sem hér hafa gengið í sumar.

[28.] Tíðin fremur að fá haustveðráttu blæ. — Rigningar öðru hvoru, og snjóað á fjöllin nokkrum sinnum.

Þann 24. segir Austri frá ösku- og sandfoki:

Þriðjudag og miðvikudag s.l. [20. og 21.] var all-mikið hvassveður af suðvestri hér eystra og fylgdi því ösku- eða sandfok mikið, svo að víða dimmdi að töluvert. Höfum vér heyrt að Öskufallið hafi verið svo mikið á Héraði og Vopnafirði sumstaðar að sporrækt hafi verið. Í hvassviðri þessu hafði fokið allmikið af heyi í Héraði mest í Jökulsárhlíð.

Ingólfur segir af tíð þann 15.:

Tíðarfar hefir verið mjög umhleypingasamt og kalt það sem af er þessum mánuði, heldur betra síðustu daga.

Þann 30.birti Ingólfur frétt úr Skagafirði, dagsetta þann 18.september:

Veðrið er óstillt, hafa verið suðvestan stormar, en þurrkar oftast þar til í gær, þá, slagviðri á þver-vestan, og í nótt hefir fennt mikið i fjöll. Heyskapur er orðinn mikill allvíða og úthey vel verkuð.

Og þann 23. segir Ingólfur:

Að norðan: Tíðin mjög óþurrkasöm framan af slætti. Svo kom ein þurrkavika, seint í ágúst, og náðust þá töður, hraktar þó, en mjög hafði þetta tafið fyrir. Eftir höfuðdag brá til landáttar, og suðvestanóróa, og er þá löngum erfitt að eiga við hey, og jafnvel hætt við sköðum, nema vel sé um búið.

Þann 27.september birti Suðurland bréf úr Álftaveri, dagsett þann sama dag (annaðhvort rangt nema ritari hafi verið staddur á Eyrarbakka):

Ég mun hafa lofað Suðurlandi fáum línum við endalok sláttarins, sem nú er hér í sveit, algert endaður. Í byrjun ágústmánaðar breytti hér til batnaðar með tíðina, er þangað til mátti heita mjög erfið. Allan ágústmánuð var fremur góð tíð og náðist hey þá inn. Með september varð aftur stirð tíð og vatnsfyllingar. En samt náðu allir heyi, og má víst telja hér í sveit meðalheyskap. En hjá öllum munu hey vera talsvert verri en í fyrra. Tíðin þykir mönnum nú um stundir nokkuð hvasskeitt, oft miklir vindar, og nú daglega snjókoma fram í byggð. Illa lítur út hér með kálgarðauppskeru, hún er yfirleitt mjög rýr, og eru það mikil viðbrigði á móti því í fyrra, því þá var hér eitt hið besta uppskeruár.

Vestri segir af sköðum í pistli þann 24.september:

Skemmdir allmiklar kváðu hafa orðið hér nærlendis í vestanrokinu. Sunnlenskt fiskiskip „Himalaya“ rak í land á Patreksfirði, en brotnaði þó ekki mikið, að sögn. Mótorbátur rak i land í Súgandafirði og brotnaði. Töluvert af heyi hefir víða fokið. Tíðarfar stirt síðasta hálfan mánuð. Þessa viku næstum alla, vestan stormur með kraparigningu. Hefir snjóað niður undir sjó flestar næturnar Mótorbátur sökk á Fljótavík á Ströndum í vestanveðrunum um daginn og hefir ekki náðst upp. ... Timburhjallur fauk 21. þ.m. hjá Guðm. Helga Finnbjarnarsyni á Sæbóli í Aðalvík með lóðum og ýmsu tilheyrandi útveg, matbjörg o.fl. Skaðinn talinn vera um 1000 kr.

Austri segir einnig af illviðri í pistli þann 4.október:

Ofsastorm af norðvestri gjörði hér 25. [september]. Olli hann miklum skaða hér í bænum. Fauk þak og nokkuð af efri hæð sementssteypuhúss, sem reist hefir verið á Búðareyri á grunni „gamla Steinjaolts". Húsið var eigi fullgjört, en þó svo frá því gengið, að undarlegt virðist, að það skyldi fjúka. Hafði sementssteypuveggurinn fyrst brostið. Eigendur hússins, þeir Bjarni Ketilsson póstur og Gunnar Bjarnason skósmiður, verða fyrir stórtjóni. Í veðri þessu brotnuðu ennfremur 6 símastaurar hér í bænum, svo að símasamband var eigi um bæinn í 3—4 daga. Fleiri skaðar urðu og á bátum, bryggjum og húsþökum. Snjór féll hér firðinum í vikunni alveg niður í sjó, en er tekinn upp aftur upp undir fjallatinda. Í Héraði mun snjókoma hafa verið nokkru meiri, og enn meiri á fjöllum, svo að fjárrekstrar verða erfiðari. Hríð þessi kvað hafa gengið yfir allt Austur- og Norðurland, og höfum vér heyrt að nyrðra hafi fönnin orðið all-mikil, svo að fjárrekstrar hafi teppst.

Þjóðviljinn birti þann 12.október bréf úr Dýrafirði, dagsett 24.september:

Sumar gat eigi heitið, að hér væri, nema yfir tvo mánuðina, júlí og ágúst, því að með september brá til votviðra og storma, svo að sumir eiga enn úti hey. Mest kvað hér að rokinu aðfaranóttina 21. þ.m., og urðu þá skaðar á bátum, húsum og heyjum á sumum stöðum, einkum i Önundarfirði. Hvernig heyskapur hefir orðið yfirleitt, verður enn eigi sagt, en mun víða hafa orðið allgóður á útengjum. — Túnasláttur byrlaði fullri viku síðar en vant hefir verið, og hefir taðan orðið miklum mun minni, en í fyrra.

Suðurland birti þann 3.nóvember bréf úr Meðallandi, dagsett 29.september. Tíð ársins fram að því er gerð upp (lítillega stytt hér):

Síðastliðinn vetur var hér mjög snjóa- og frostasamur, og vorið, sem menn vonuðu að mundi verma og græða fljótt og vel, brást hrapallega vonum manna. Frostnæðingar og kuldar stanslítið, deyddu hvern nýgræðingsfrjóanga sem gægðist upp úr moldinni, og fénaði leið illa, margir urðu heylausir, en aðrir gátu hjálpað, — ... — svo engin vandræði urðu, en af þessum vorkulda leiddi, að gróður var seinn til, en þó varð grasvöxtur á mýrlendi vel í meðallagi, en tún víða léleg og nær ónýt sumstaðar, var því með seinna móti tekið til sláttar. Sláttur byrjaði með þurrkum, en svo gerði rosakafla um þriggja vikna tíma, þornaði svo til aftur og varð nýting góð úr því þar til nú að brugðið er til rosa fyrir skömmu, enda munu flestir hættir við slátt, en sumir eiga hér úti óhirt; heyskapur mun vera i meðallagi yfirleitt. Kartöfluuppskera lítur ekki vel út, gulrófur betur, aðrir jarðarávextir lítið eða ekkert ræktaðir.

Október: Nokkuð hagstæð tíð. Úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Hlýtt.

Ingólfur segir frá þann 6.október:

Tíðin hefir verið afar stormasöm og höst, það sem af er haustinu. Hafa jafnvel sumstaðar orðið tjón að. Snjóað hefir víða, og hér í Reykjavík hefir varla verið stætt á götunum þessa dagana.

Suðurland segir þann 10.:

Í ofsaroki, sem gerði í fyrri viku, fuku 2 róðrarbátar í Hallgeirsey í Landeyjum og þak af hlöðu á Arnarhóli í sömu sveit.

Norðri segir stuttlega frá tíð:

[12.] Veðrátta hefir verið hin umhleypingasamasta í haust og sjávargæftir því mjög stopular. [22.] Veðrátta hin hagstæðasta þessa daga. Víða unnið að jarðabótum nú um veturnætur.

Þjóðviljinn segir af októbertíð í Reykjavík - og af hafís:

[12.] Rosar og rigningar undanfarna daga, en snjóað til fjalla. ... Þegar norska eimskipið „Flora" kom norðan um land síðast, rakst það á nokkurn hafíshroða utarlega á Strandaflóanum. Hafísinn er því að öllum líkindum eigi langt undan landinu.

[24.] Tíðin hagstæð hér syðra að undanförnu, en þó rigningar og hvassviðri nokkra síðustu dagana.

[31.] Tíðin rigningasöm að undanförnu, og fremur mild.

Lögrétta segir 19.október (okkur finnst orðalagið nokkuð einkennilegt):

Nýja brúin á Norðurá, sem verið hefur í smíðum í sumar og enn er ekki fullbúin, hafði skemmst eitthvað dálítið í vatnavöxtum hér um daginn. Áin hafði svipt burtu hjálparstólpum, sem enn voru notaðir þar, og hafði eitthvað af járni, sem á þeim var, fallið í ána. Jón Þorláksson verkfræðingur fer upp eftir til þess að líta eftir þessu með næstu ferð Ingólfs. Maður drukknaði þarna við brúna við sama tækifæri, eða víst er talið, að svo hafi verið. ... Haldið er, að hann hafi verið á ferð yfir ána, þegar hún braut hjálparbrúna, og hafi þá fallið niður og drukknað. En enginn var þá við, er sjónarvottur væri að því.

Vestri segir þann 20.október:

Öndvegistíð hefir verið hér síðasta hálfan mánuð; stöðug sunnanátt með þíðviðri; jörðin alauð, enda hefir leyst snjó til fjalla. Er langt síðan jafn mild haustveður hafa verið hér, því sunnanátt er mjög sjaldgæf þó á sumri sé. Mistur hefir verið mikið í lofti undanfarna daga og halda margir að stafi af eldgosi og þakka því góðviðrið.

Norðri segir frá þann 12.nóvember:

30. október s.l. týndist bátur á Fáskrúðsfirði í suðvestan ofsaroki, með tveim mönnum. Þeir höfðu róið til fiskjar um morguninn snemma í allgóðu veðri, en svo skall ofviðrið á og hefir ekki spurst til þeirra síðan. Hefir mikið verið leitað á mótorbátum að þeim og bátnum en árangurslaust.

Suðurland birti þann 17.nóvember bréf úr Borgarfirði, dagsett 27.október:

Af fréttum er fátt að segja, tíðin óstöðug hér í Borgarfirði, og má heita að alltaf hafi verið rigningar síðan í byrjun septembermánaðar, þó létti til um síðustu helgi (sunnud. 23.) og gerði þá frost, sem þó aðeins stóð í 3 daga. Heyskapur góður allvíðast. Mest hey mun hafa fengist á Hvanneyri, en þar var bundið inn yfir 3000 kaplar af þurru heyi. Hvergi er hey hér úti og flestir höfðu hirt sig áður en brá. Uppskera af jarðarávöxtum var sæmileg, og telja flestir hana við meðallag. Víðast eru hér garðar og víðast kartöflugarðar. Gulrófur eru þó nokkuð ræktaðar, en fóðurrófur lítið. Á Hvanneyri fengust 100 tunnur af jarðeplum og 60 af gulrófum.

Nóvember: Góð tíð. Þurrviðrasamt lengst af. Kalt, sérstaklega fyrir norðan.

Vestri á Ísafirði segir af tíð í nóvember:

[5.] Veturinn virðist nú vera lagstur að fyrir alvöru. Hefir verið stormasamt mjög fyrri hluta vikunnar og snjókoma svo nú er kominn allmikill snjór.

[12.] Síðastliðinn laugardag [5.] gerði hér áhlaupaveður af austnorðri og hleyptu um 20 vélarbátar úr Bolungarvík hingað þann dag; reyndi þá á ísfirsku gestrisnina, því víða varð þröng á þingi og látum vér Bolvíkingum eftir að segja frá, hvernig hún hafi reynst þeim. Flestir bátarnir misstu veiðarfæri, sumir mikið, en fiskifjölgun töldu sjómenn vísa. Bolvíkingar fóru héðan aftur á sunnudaginn, þótt sær væri þá úfinn. Var tilkomumikið að sjá, er vélarbátarnir runnu í köpp út fjörðinn — hver við annan og við — Ægir. Tveir bátarnir brotnuðu lítilsháttar í lendingu. Gufuskipið „Fóra“ leitaði hér hafnar aftur um kvöldið; þótti Ægir eigi tilfýsilegur. [Er sennilega átt við „Flóru“]. Hún fór héðan loks á miðvikudaginn [9.]. Annars hefir tíðarfar alla þessa viku verið mjög vont. Í dag er þó gott veður. ... Skíðafæri er nú hér hið besta, en er helst notað af börnum. — Vilja ekki hinir „þroskuðu“ nota tómstundir sínar nú um helgina til þess að iðka listina?

[19.] Tíðarfar stillt mestalla þessa viku, en fremur frosthart.

[26.] Tíðarfar þessa viku mjög gott; þriðjudaginn [22.] brá til leysingar, svo nú eru allgóðir hagar.

Suðurland segir frá þann 3.nóvember:

Hreinviðri hefir verið hér undanfarna daga, en kalt og stormasamt. Síðastliðinn þriðjudag [1.] var blindbylur og 4—5 gr. frost bæði á Vestur- og Norðurlandi.

Lögrétta birti þann 16. úr bréfi rituðu í Skagafirði þann 5.nóvember:

Tíðin óstöðug frá Mikaelsmessu [29.september] til þess hálfum mánuði fyrir vetur: regn, hríð og rosar. Blíða samfellt síðan, þangað til viku af vetri. Gekk þá í norðanveður: hríð og kulda nokkurn, og lítur nú tíðin næsta vetrarlega út, þó lítill sé snjór, enn sem komið er. Tók illa tunglinu, — og vekur það illar spár hjá gömlum mönnum.

Lögrétta segir þann 16.nóvember:

Nú um tíma undanfarandi hafa verið frost og hreinviðri. Skautasvell nú gott á tjörninni og fjölmennt þar á hverju kvöldi.

Norðri segir af tíðarfari:

[19.] Nokkuð á þriðju viku hafa verið hríðar að öðru hverju og er því kominn mikill snjór, og víða tekið fyrir jörð að mestu. Frost hafa verið óvanalega mikil á þessum tíma árs. Af Austurlandi er líkt að frétta. Það lítur því harðindalega út, og ef ekki rætist úr tíðinni en herðir að, þá munu margir horfa vondaufir fram á veturinn.

[26.] 20. þ.m. brá til sunnanáttar og þýðvindis og hefir haldist til þessa tíma. Jörð er því víðast komin upp fyrir skepnur og í innfirðinum er snjór tekinn mikið upp.

Þjóðviljinn segir stuttlega af nóvembertíð í Reykjavík:

[9.] Norðangarður all-snarpur í vikunni, sem leið og frost nokkurt, svo að kominn var heldur ís á Tjörnina hér í bænum að morgni 5. þ.m., og sumir unglingarnir þegar farnir að reyna skautana.

[18.] Frosthörkur, all-miklar, undanfarna daga, en stillviðri all-oftast.

[26.] Hláka nokkra síðustu dagana.

Þjóðviljinn segir þann 16.desember:

Í öndverðum [nóvember] varð bryggja á Blönduós í Húnavatnssýslu fyrir nokkrum skemmdum, er orsökuðust af megnu brimi. — Bryggja þessi hafði verið byggð í fyrra. Stór flutningabátur brotnaði og í spón, og þrír smábátar brotnuðu nokkuð.

Desember: Allgóð tíð. Hiti í meðallagi.

Lögrétta segir þann 7.desember: „Einstök veðurblíða hefur verið hér nú um viku tíma“.

Ísafold segir frá:

[7.] Veðrátta með afbrigðum blíð undanfarið. Klaki nær leystur úr jörðu — svo hefir tíðin verið hlý síðustu vikuna.

[21.] Síðustu dagana hefir veðrið tekið að styggjast nokkuð hér um slóðir. Stinnings-stormur á köflum og úrkoma. En fram að síðustu helgi mátti heita einstakt blíðviðri, mánaðartíma. Sífeldar stillur og frostleysi oftast nær. Sagði svo gamli Jón Borgfirðingur, að eigi ræki sig minni til slíkrar veðurblíðu síðan árin 1845—1847.

Vestri segir mjög stuttlega af desembertíð: [3.] „Tíðarfar hið besta“. [10.] „Þessa viku hefir verið sífelldur norðangarður, en engin fannkoma og allgott veður á landi“. [17.] „Tíðarfar hið besta á landi, en engar gæftir þessa viku“. [22.] „Tíðarfar fremur vont það sem af er vikunni“. [31.] „Tíðarfar ærið vetrarlegt þessa viku. Gæftir engar“.

Norðri segir:

[6.] Snjór féll víða mikil á Norðurlandi og á Fljótsdalshéraði í f.m. Hlánaði vel síðast í mánuðinum, svo nú er aftur besta færi yfir allt.

[23.] Frostalítið hefir verið að undanförnu. Víða þó jarðlítið í Þingeyjarsýslu, þar sem snjórinn er meiri en hér.

Lögrétta segir þann 28.desember:

Í nótt sem leið [aðfaranótt þess 27.] gerði ákaft vestanveður. Klukkan nálægt 4 sleit upp gufuskipið „Hadria" utan til við Hafnarfjörð, fram undan fiskihúsunum þar. Skipið rak á land og brotnaði, fór alveg í tvennt, segja fregnirnar. 16 menn voru á skipinu, 11 komust í land, en 5 drukknuðu, þar af 4 skipsmenn og 1 íslenskur maður.

Austri segir þann 29.desember:

Veðrátta hefir verið umhleypinga- og stormasöm nú undanfarið. Á aðfangadag jóla gjörði hér ofsaveður af vestri og olli það nokkrum skemmdum hér í bænum.

Vestri gerir upp árið í pistli þann 31.desember:

Árið gekk í garð að heita mátti með látlausum stórhríðargarði, sem hélst víðast hvar um land fram í maímánuð. Sumstaðar látlausar hríðar — norðanlands og vestan fram að hvítasunnu. Vorið varð mjög kalt, einkum hér vestanlands, aðallega vegna hinna miklu snjóa sem leystu óvenjulega seint. Má telja það víst, að þetta hafi verið einn harðasti vetur, er yfir þetta land hefir gengið í langan aldur. Skepnuhöldin urðu og vond, sem eðlilegt var. Þó mun hvergi hafa orðið almennur fellir í heilum sveitum, en víða mun hafa sorfið hart að, og peningur drepist á stöku bæjum sökum fóðurskorts. Að ekki varð meira um skepnumissi má aðallega þakka hagstæðu og góðu heyskaparsumri í fyrra. Svo og bættum samgöngum og vaxandi fyrirhyggju bænda yfirleitt. Sumarið var stutt, sakir þess hve seint leysti. En um byrjun júlímánaðar gerði óvenju hagstætt veður sem hélst í tvo mánuði. Heyfengur mun því víðast hvar hafa orðið í meðallagi og nýting, einkum á töðu, sérlega góð. Það sem af er vetrinum hefir verið ágætistíð um land allt það vér vitum, fyrir utan óvenjuhörð frost í byrjun nóvember.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1910. Finna má ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhita, úrkomu og fleira í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ýmislegt smálegt

Fyrst lítum við á sjávarhitavik á Norður-Atlantshafi eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar þau í dag - væntanlega byggð á gervihnattamælingum og fleiru.

w-blogg220619a

Sumarsólinni hefur tekist að jafna út kuldapollinn þráláta fyrir suðvestan land - en ekki er ólíklegt að hann leynist samt enn skammt undir yfirborði og birtist þar af leiðandi aftur þegar hvessir vel á svæðinu. Athygli vekja mjög stór jákvæð vik fyrir vestan og norðan land - trúlegt að sólskinið í júní hjálpi þar til - sem og það að minni hafís var við Austur-Grænland í vetur en oftast áður - og þar af leiðandi minna til að bráðna - vorið því fyrr á ferðinni en vanalega. Hvað veldur neikvæðu vikunum stóru suður- og suðaustur af Nýfundnalandi vill ritstjórinn ekki giska á - Golfstraumurinn fer á þessum slóðum í miklum hlykkjum og bugðum - hefur væntanlega með það að gera hvernig þær liggja þessa dagana.

Svo skulum við líta á það hvernig árið hefur staðið sig til þessa hvað hita varðar - miðað við sama tíma síðustu tíu árin.

w-blogg220619b

Eins og sjá má eru vikin ósköp nærri meðallagi, þó marktækt ofan við um landið vestanvert. Árið (til þessa) er það þriðjahlýjasta á öldinni á Vestfjörðum, en það fimmtakaldasta á Suðausturlandi. 

Þó svo virðist sem breytingar á þráviðrinu kunni að vera í uppsiglingu eru spár satt best að segja ákaflega óvissar um allt framhald - og sýningar skemmtideildar evrópureiknimiðstöðvarinnar afskaplega fjölbreyttar. Fyrra kortið er úr nýjustu spárununni (frá hádegi í dag - föstudag) og sýnir hita í 850 hPa og þykktina á laugardag í næstu viku. Það er reyndar varla nokkur leið að trúa þessu - nema hvað staðan er þrungin möguleikum.

w-blogg220619c

Hér má sjá ótrúleg (en skammvinn) hlýindi - þykktin nær 5660 metrum yfir Suðurlandi og hiti í 850 hPa ótrúlegum 16 stigum. Minnir dálítið á hálfsdagahitabylgjuna í lok júlí í fyrra - þá sem skilaði hæsta hita ársins 2018 á landinu. 

Næsta spáruna á undan (miðnætti á aðfaranótt föstudags) bauð upp á allt annað - kortið hér að neðan gildir snemma á föstudag 28.júní.

w-blogg220619d

Hér er alveg sérlega snarpur kuldapollur við Norðausturland - þykktin í miðju neðan við 5260 metra sem er sérlega lágt svona seint í júní. 

Ekki alveg líkleg spá heldur - þó hafa mun fleiri spárunur sýnt kuldakast framundan heldur en hitabylgjur. Að vísu gæti orðið hlýtt um landið norðaustan- og austanvert upp úr helginni. - Við bíðum og sjáum hvað setur og skemmtum okkur á meðan. 


Tuttugu júnídagar

Þráviðrin halda áfram. Meðalhiti fyrstu 20 daga júnímánaðar er 9,9 stig í Reykjavík +1,1 stigi ofan meðallags sömu daga á árunum 1961-1990 og +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, í 12. hlýindasæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar 2002, meðalhiti +11,5 stig, en kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti +7,8 stig. Á langa samanburðarlistanum er hitinn nú í 22. sæti af 145. Sömu dagar 2002 eru þar líka á toppnum, en kaldastir voru þeir 1885, meðalhiti aðeins 6,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 7,9 stig, -1,1 stig neðan meðallags áranna 1961-1990 og -1,7 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára sums staðar suðvestanlands og á hálendinu. Jákvæða vikið er mest við Setur, +1,1 stig og +0,9 stig á Ölkelduhálsi. Kaldast að tiltölu er á Vatnsskarði eystra, þar sem hitinn er -2,9 stig neðan meðallags, vikið á Egilsstaðaflugvelli er -2,7 stig - litlu minna en var í Reykjavík 1988 (ef einhver man það).

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 4,7 mm, svipað og 2012 þegar hún hafði á sama tíma mælst 4,1 mm. Minnst var úrkoma fyrstu 20 daga júnímánaðar árið 1971, 0,3 mm í Reykjavík. Engin úrkoma hefur mælst það sem af er mánuði í Stykkishólmi - eins og 1942. Á Akureyri hafa mælst 10,3 mm, ekki er það mikið, en þó um helmingur meðalúrkomu þar á bæ.

Nú hafa 252,9 sólskinsstundir mælst í Reykjavík það sem af er mánuði og hafa aldrei áður mælst svo margar fyrstu 20 daga mánaðarins, næst þessu komast sömu dagar 1991 þegar sólskinsstundir júnímánaðar voru orðnar 244,4 - enn vantar 85,5 stundir upp á júnímetið frá 1928.

Loftþrýstingur hefur verið hár í júní - meðaltalið er nú í 24. sæti af 198.


Langur þurrkur

Sáralítil úrkoma hefur mælst um landið sunnan- og vestanvert í kringum fjórar vikur. Til dæmis hefur engin úrkoma mælst í Stykkishólmi frá því 20.maí og í Reykjavík hefur líka verið nærri því þurrt - þó ekki alveg. Þar sem ekki sér fyrir endann á þurrviðri er varla kominn tími á að gera það upp - enda ekki alveg einfalt þar sem „spilliskúrir“ (afsakið orðalagið) hafa fallið - eins og í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska skrifaði nokkra fróðleikspistla um þurrka í Reykjavík (og á landsvísu) á vef Veðurstofunnar sumarið 2009 - en þá var líka eftirminnilega þurrt um tíma. - Þessir pistlar standa að mestu alveg fyrir sínu - en mætti þó alveg uppfæra. En ritstjórinn vill samt ekki gera það fyrr en núverandi kafla er lokið og séð verður hvernig hann stendur sig. 

Til að lesendur hafi þó eitthvað að bíta og brenna á meðan er hér að neðan lítillega fjallað um skraufþurra kafla í Stykkishólmi. Þar hefur úrkoma verið mæld nærri því samfellt frá því í september 1856 - mælingar féllu þó niður um fimm mánaða skeið frá því í ágústbyrjun 1919 og út árið. Ekki er því alveg að treysta að mælingarnar séu alveg sambærilegar allan tímann - aðgæsla athugunarmanna varðandi rýra úrkomu kann að hafa verið misjöfn. Við getum þó varla gert annað en að trúa tölunum.

Eins og nefnt var að ofan hefur þurrkur nú staðið samfellt í Hólminum í 29 daga. Við leit finnum við fjóra jafnlanga eða lengri kafla. Sá stysti þeirra endaði 22.júlí 1963, varð 29 daga langur. „Okkar kafli“ verður væntanlega lengri en það. Þrjátíu daga kafla lauk þann 15.apríl 1914 - svo snemma að vori að litlu hefur skipt fyrir gróður. En þá tók við mikill úrkomu og skakviðrakafli sem stóð langt fram eftir sumri. 

Þann 27.júní 1942 lauk þurrkakafla sem staðið hafði í Stykkishólmi samfellt í 33 daga. Þessi kafli var ekki alveg þurr í Reykjavík - skiptist upp af nokkrum stökum úrkomudögum.

Lengsti þurrkkafli sem við vitum um í Stykkishólmi endaði 20.júní 1931 - og hafði þá staðið samfellt í 35 daga - frá 15.maí - og næsta hálfan mánuð þar á undan hafði aðeins rignt tvisvar samtals 3,2 mm. Í Reykjavík var þá alveg þurrt í 27 daga í röð (til 7.júní) - þá mældust 0,2 mm, en síðan var alveg þurrt í 6 daga í viðbót. Veðráttan segir um júní 1931:

„Tíðarfarið var lengst af kalt og þurrt. Spretta með afbrigðum slæm, einkum á túnum, aðeins á raklendum engjum var hún sæmileg“. Eitthvað kunnuglegt? 

Á mæliskeiðinu öllu vitum við um 32 tilvik þegar úrkoma hefur ekki mælst í Stykkishólmi í 3 vikur eða meira - gerist um það bil fimmta hvert ár að jafnaði, síðast 2012 (og svo nú). Í Reykjavík eru þriggja vikna tímabil án allrar úrkomu um það bil helmingi fátíðari.  


Dálitíll kuldapollur

Á mánudag og þriðjudag brýst dálítill kuldapollur úr norðri til suðurs í gegnum hæðarhrygginn sem verið hefur fyrir norðan land. Hann fer yfir landið á þriðjudag. Við þetta verður breyting á stöðugleika loftsins yfir landinu og skúrir verða líklegri inn til landsins. Fyrst kólnar meira í efri hluta veðrahvolfs heldur en neðar - loft verður við það mjög óstöðugt, en síðan streymir kaldara loft í neðri lögum undir það loft sem fyrst er á ferðinni og stöðugleiki vex að nýju - auk þess sem norðanáttin verður ákveðnari.

w-blogg160619b

Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa (rúmlega 5 km hæð) síðdegis á þriðjudag. Þá er miðja kuldapollsins komin suður fyrir land. Örin sýnir braut hans gróflega. 

Það er líklega nokkuð tilviljanakennt hvar skúrir verða miklar - og ákefðin er sömuleiðis mjög tilviljanakennd. Séu tölvureikningar teknir bókstaflega eru líkurnar mestar við hálendisbrúnina um landið sunnanvert - háupplausnarspárnar nefna líkur á hagli - og þar með þrumum og eldingum á þeim slóðum. Það er tilhneiging hjá líkönunum að ofmeta mestu skúraákefðina - enda má smá mjög stórar tölur - sú hæsta sem ritstjóri hungurdiska sér á korti úr síðustu spárunu harmonie-líkansins er 32,1 mm/klst sunnan Langjökuls síðdegis á morgun mánudag 17.júní - satt best að segja nokkuð ýkjukennd tala. Rigningarákefð sem þessi er hættuleg bæði á byggðum bólum og í nágrenni lækjarfarvega í fjalllendi. Hæsta tala sem sést í danska igb-líkaninu er 18,7 mm/klst á svipuðum slóðum og um svipað leyti. 

Daginn eftir (þriðjudag) er aðstreymi kulda úr norðri í neðri lögum orðin það mikill að sólin hefur ekki við að hita nægilega til að loftið komist í veltu. 

Að sögn líkana mun taka nokkra daga að hreinsa kuldann burt af svæðinu í til þess að gera meinlitlu veðri. 


Fyrri hluti júnímánaðar

Þá er það fyrri helmingur júní - auðvitað merkastur fyrir sólskinsstundafjöldann suðvestanlands. En meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins í Reykjavík er 10,0 stig, +1,4 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1961-1990 og +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn er í 11.hlýjasta sæti sömu daga (af 19) á öldinni. Þeir voru hlýjastir 2002, meðalhiti +12,0 stig, en kaldastir 2001, meðalhiti þá 7,6 stig. Á langa listanum er meðalhitinn í 17. sæti (af 145), á honum er það líka 2002 sem er í efsta sætinu, en 1885 í því neðsta. Meðalhiti dagana 15 var þá aðeins 5,8 stig.

Mun kaldara hefur verið fyrir norðan, meðalhiti dagana 15 á Akureyri er 7,8 stig, -1,1 stigi neðan 1961-1990 meðaltalsins, en -1,5 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á landsvísu er hiti ofan meðallags síðustu 10 ára á um það bil fimmtungi stöðva, jákvæða vikið er mest við Setur og Ölkelduháls, +1,1 stig ofan meðallags, en neikvætt vik er mest á Gagnheiði, -3,0 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur aðeins mælst 2,7 mm, það næstminnsta í fyrri hluta júní á öldinni, enn þurrara var 2012 og vitað er um 7 þurrari júníbyrjanir áður, þurrasta 1971, en þá höfðu aðeins 0,2 mm mælst þann 15.

Í fyrri hluta júní hafa 209,2 sólskinsstundir mælst í Reykjavík, rúmlega 30 stundum meira en mest áður sömu daga, það var 1998. Í fyrra mældust aðeins 30,4 stundir sömu daga.

Viðbót:

Hér að neðan má sjá vik fyrri hluta júnímánaðar á einstökum spásvæðum gagnvart meðalhita sömu daga síðustu tíu árin.

w-blogg160619

Hiti hefur verið við meðallag við Faxaflóa og rétt ofan þess á Suðurlandi. Annars hefur hiti verið neðan meðallags, mest á Austurlandi (að Glettingi). Þar og á Norðurlandi eystra er tímabilið það fjórðakaldasta á öldinni - reyndar munar ekki miklu á hitanum nú og á þeim þrem tímabilum sem kaldari reiknast. Talsvert kaldari fyrrihlutar júnímánaðar finnast eystra sé leitað lengra aftur, t.d. 1981, 1975 og 1973. 

Þegar horft er á vikatölur ætti að hafa í huga að júnímánuðir hafa í langtímasamhengi verið sérlega hlýir á þessari öld. Má rifja upp gamlan pistil á hungurdiskum þar um: Júníþrepið mikla, sem birtist 16.júní í fyrra. Þó hiti í Reykjavík sé nú aðeins í meðallagi aldarinnar (og í 11 sæti) er hann samt í 17. sæti 145 ára - eins og nefnt var hér að ofan. Það þýðir að fyrri hluti júní var hlýrri en nú aðeins 6 sinnum fyrir aldamót. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband