Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Landsmeðalhiti janúarmánaðar

Við lítum nú á meðalhita í byggðum landsins í janúar (þó enn sé hann ekki alveg liðinn þegar þetta er skrifað). Hann reiknast -0,4 stig, um -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu janúarmánaða (sem að vísu hafa flestir verið mjög hlýir). 

röð(af 19)spásvármánvik spásv
11120191-0,7 Suðurland
12220191-0,7 Faxaflói
14320191-0,9 Breiðafjörður
12420191-0,9 Vestfirðir
10520191-0,8 Strandir og Norðurland vestra
10620191-0,7 Norðausturland
12720191-0,9 Austurland að Glettingi
12820191-0,9 Austfirðir
11920191-0,9 Suðausturland
111020191-0,6 Miðhálendið

Taflan sýnir vik í einstökum landshlutum (miðað við síðustu tíu ár), en fyrsti dálkurinn sýnir í hvaða sæti (að ofan) hann raðast meðal 18 annarra janúarmánaða frá aldamótum. Ekki er mikill munur á vikum eftir landshlutum, þau eru þó minnst á miðhálendinu (sem ekki er með í heildartölunni). 

Þessar tölur leyna þó því að mánuðurinn var sérlega tvískiptur. Hiti var að vísu rétt neðan meðallags þann 1. en síðan tóku við óvenjuleg hlýindi sem stóðu fram til þess 12. Síðan hefur verið heldur svalt í veðri, sérstaklega síðustu 6 dagana. 

w-blogg310119a

Myndin sýnir meðalhita í byggðum landsins í janúar aftur til 1874 (fyrir þann tíma eru meðaltölin harla óviss - en ágiskun sett með hér til skemmtunar - grálituð). Breytileiki hitans er mjög mikill og lítið man janúar hitafar frá ári til árs. Tímabilið eftir 1995 (síðasti kaldi janúarmánuðurinn á myndinni) er þó óvenjulega stöðugt. Litlar líkur eru á að sá stöðugleiki haldist endalaust. Til gamans er meðalhiti síðustu sjö daga (-4,2) merktur á lóðrétta kvarðann til hægri á myndinni. 

Nokkuð hefur verið rætt um misjafnt hitafar á höfuðborgarsvæðinu. Taflan hér að neðan sýnir meðalhita og fleira á veðurstöðvum á því svæði síðustu 7 daga.

vikan 25. til 31.1mhiti hæst hámlægst lágmmvindhr NAFN
 2019-5,82,2-14,93,3 Straumsvík
  -4,41,4-9,32,4 Reykjavík
  -4,91,6-11,63,2 Reykjavíkurflugvöllur
  -5,71,7-14,63,2 Korpa
  -5,01,2-10,84,6 Geldinganes
  -5,80,1-12,05,4 Hólmsheiði
  -8,50,3-20,02,6 Víðidalur
  -3,53,8-10,34,2 Skrauthólar
  -4,71,0-9,2  Reykjavík búveðurstöð
  -6,1-0,6-11,33,4 Arnarnesvegur
  -6,30,5-12,52,7 Garðabær - Kauptún
  -8,3-1,2-17,34,2 Sandskeið
  -2,83,0-8,64,0 Blikdalsá
  -4,42,7-10,45,5 Kjalarnes

Hér má sjá að langhlýjast hefur verið við stöð vegagerðarinnar við Blikdalsá á Kjalarnesi, meðalhiti -2,8 stig. Þar gætir væntanlega bæði sjávaráhrifa og hita „að ofan“ því kuldinn að þessu sinni hefur verið mest bundinn við mjög þunnt lag næst yfirborði landsins, orsakaður af björtu veðri og einangrandi snjóhulu sem ýtt hefur undir óvenju neikvæðan varmabúskap allra neðstu laga. Loft sem kólnað hefur á þennan hátt hefur víða fengið að vera í friði í óvenjuhægum vindi. Um leið og eitthvað hreyfir vind hrekkur hiti úr -8 til -10 stigum upp í -2 til -4 - eða jafnvel hærra. 

Lægstu meðaltölin eru á nýrri stöð Veðurstofunnar, í Víðidal, þar hefur meðalhiti undanfarna viku verið -8,5 stig, og -8,3 við Sandskeið. Hlýrra hefur verið á Hólmsheiði (-5,8 stig), en eins og sjá má í dálkinum sem sýnir vindhraða hefur meðalvindhraði þar verið um 5,4 m/s, en ekki nema 2,6 m/s í Víðidal, svipaður og á Veðurstofutúni. Við sjáum að hiti hefur einhvern þessara daga fari upp fyrir frostmark á öllum stöðvunum nema Sandskeiði og við Arnarnesveg (dálítið misvísandi nafngift - þó rétt sé).

Langmest hefur frostið mælst í Víðidal, -20,0 stig og -17,3 á Sandskeiði. Frost hefur hins vegar ekki enn náð -10 stigum við Veðurstofuna. Kaldasta loftið í þessum áfanga fer yfir landið á morgun (föstudag) sé að marka spár, en það fer þó eftir vindaðstæðum hvort frost verður meira en orðið er. Annað kvöld fá Blikdalsá og stöðvarnar á Veðurstofutúni tækifæri til að ná -10 stigunum. 


Fáeinir kuldadagar

Um framtíðina vitum við ekkert - en getum litið til fortíðar. Undanfarnir dagar hafa verið nokkuð kaldir á höfuðborgarsvæðinu (og víðar á landinu). Það kemur samt nokkuð á óvart að veitum sé brugðið - og veit varla á gott því satt best að segja geta þessir kuldar varla talist miklir - enn sem komið er að minnsta kosti. Kannski hafa menn haldið að hnattræn hlýnun hafi gengið frá nákvæmlega öllum kuldaköstum dauðum. Nei, kuldaköst eru ekki dauð þó tíðni þeirra hafi óneitanlega minnkað verulega hin síðari ár miðað við það sem oft var áður og heldur tannlaus hafa þau flest verið síðustu tvo áratugi. 

Hér að neðan er leitað að dögum sem eru jafnkaldir eða kaldari í Reykjavík en þeir nýliðnu tveir til þrír - og fjöldi á ári síðan talinn, en aðeins í vetrarmánuðunum fjórum. Við hugum ekkert að því enn hvort þeir dagar hafa hafa komið stakir eða í klösum. Athugum það síðar verði kuldinn nú langvinnur (en það er hann varla enn). 

w-blogg300119

Horft er alveg aftur til 1872 en upplýsingar um daglegan meðalhita vantar stöku ár snemma á 20.öld. Það vekur strax eftirtekt hversu fáir köldu dagarnir hafa verið á þessum áratug, árið 2011 sker sig að vísu nokkuð úr - við fengum þá eftirminnilega kalda syrpu í desember. Fáein stök fyrri ár eru rýr, einna helst viðloðandi upp úr 1920. Þó kuldatímabil síðari hluta 20.aldar hafi hafist nokkuð snögglega 1965 var það samt þannig að kaldir dagar voru nokkuð algengir á stórum hluta hlýindatímans áður - mun algengari heldur en þeir hafa verið síðustu 14-15 árin - en áraskipti veruleg. 

Á 19.öld er eitthvað allt annað ástand, aðeins í stöku ári sem kaldir dagar voru færri en 2011. 

Köldu dagarnir nú hafa verið hægir - enda hefur loftið yfir landinu í raun ekki verið svo sérlega kalt. Þykktin, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur ekki verið mjög lág - í spánum er hún lækkandi, verður e.t.v lægst á föstudaginn. Mikill munur hefur því verið á hita þar sem vindur hefur verið hægur og þar sem vind hefur hreyft. 

Álag á hitakerfi vex talsvert með vindi. Við verðum þó að hafa í huga að svokölluð vindkælistig húsa og manna eru langt í frá samstíga. Ritstjórinn nennir þó ekki að reifa þau mál frekar en hann hefur þegar gert, en hlýtur samt að spyrja hvað gerist ef raunverulegir kuldar skella á - sem þeir gætu auðvitað gert. Framtíðin alltaf óráðin, jafnvel í hlýnandi heimi.  


Árstíðasveifla meðalsnjódýptar

Á aðfangadag jóla birtist á hungurdiskum pistill sem fjallaði um árstíðasveiflu snjóhulu í byggðum og á fjöllum. Í framhaldi af honum var spurt um árstíðasveiflu snjódýptar á landinu. Við lítum nú á hana - heldur vafasamir reikningar að vísu en ættu samt að gefa nokkra mynd af því hver „lögun“ hennar er.

w-blogg290119c

Lárétti ásinn sýnir meðalsnjódýpt á landinu í cm, en sá lárétti mánuði ársins. Til að ná vetrinum heilum framlengjum við árið fram í júnílok - en tvítökum þar með fyrri hluta ársins.

Meðalsnjódýptin skríður upp fyrir núllið þann 25.september, vex síðan ört fram að sólstöðum, en hægar úr því. Hámarki er að vísu náð 19.janúar, en sú dagsetning kann að vera tilviljun. Hefðum við 200 ára gögn í stað 50 ára myndi ferillinn e.t.v. jafnast nokkuð. Síðara hámark er 7.mars og er það líklegri hámarksdagsetning. Eftir það fer snjódýptin minnkandi og minnkar mjög ört þegar komið er fram í apríl. Á hálendinu er hámarkið væntanlega síðar - og síðast á jöklum. Meðalsnjódýpt í byggð fer svo niður í núll þann 30.maí - þó stöku skaflar endist að vísu lengur í lautum á láglendi í snjóasveitum. 


Meir af tíðnidreifingu lágmarka -

Við lítum nú á árslágmarkshita í Reykjavík. Til að gera talninguna lítillega marktækari lítum við á fimm lægstu lágmörk hvers árs og söfnum saman í súlur, hver þeirra inniheldur fjölda tilvika á eins stigs bili (skilur einhver þetta?). Við breytum síðan öllu í prósentur.

w-blogg290119a

Bláu súlurnar sýna hvernig dagarnir dreifast á hita á árunum 1921 til 2018 (tími samfelldra lágmarkshitamælinga í Reykjavík). Þær brúnu sýna aðeins árin 2001 til 2018. Það er mjög áberandi að mjög köldum dögum hefur fækkað að mun. Frost harðara en -10 stig er mun sjaldséðara í Reykjavík á þessari öld heldur en áður var. Líklegasta ástæðan er hin almenna hlýnun veðurfars sem átt hefur sér stað síðustu áratugina, en hugsanlega er það fleira sem flækir málið. 

Hlýnun átti sér líka stað fyrr á árum. Nærri samfelldar lágmarksmælingar voru gerðar í Reykjavík á árunum 1881 til 1902 við ekki mjög ósvipaðar aðstæður og nú. 

w-blogg290119b

Bláu súlurnar eru þær sömu og á fyrri mynd, en þær brúnu taka til áranna 1881 til 1902. Við sjáum að frost hefur farið í -10 stig í Reykjavík meir en fimm sinnum á nærfellt hverju einasta ári á þeim köldu árum, en meir en -17 stiga frost hefur ekki verið algengt. - Nú hefur slíkt lítið sést - ekkert reyndar síðan nóttina köldu í lok janúar 1971 þegar frostið í Reykjavík fór -19,7 stig og -25,7 stig á Hólmi. 

Þrátt fyrir almenna hlýnun er varla ástæða til að halda að nútíminn sé samt alveg ónæmur fyrir miklu frosti. Slíkir dagar hljóta að sýna sig endrum og sinnum. 


Tíðnidreifing lægsta lágmarkshita ársins

Talsvert frost hefur verið á landinu undanfarna daga, fór m.a. í -27,5 stig í Möðrudal á sunnudaginn (27.janúar) - það mesta í byggðum landsins í vetur og meira en mældist á síðasta ári - en síðastliðinn vetur fór frost mest í -29,0 stig í Svartárkoti þann 29. desember. Rétt rúm 5 ár eru síðan frost fór síðast í meir en -30 stig, það var í desember 2013 þegar -31,0 stig mældist við Mývatn þann 6.

Ritstjóri hungurdiska hefur nú litið á tíðnidreifingu lægsta lágmarks ársins í byggðum landsins síðustu 118 árin. Ekki má þó taka þessa talningu allt of bókstaflega vegna þess að stöðvakerfið var mjög gisið fyrir 100 árum og líkur á að hitta á mjög lágan hita talsvert minni en nú. 

w-blogg280119

Myndin sýnir útkomuna. Algengast er að lægsta lágmark ársins í byggð á landinu sé -26 komma eitthvað stig. Það er líka miðgildi dreifingarinnar - í helmingi ára er lægsta lágmark lægra og í helmingnum hærra. Á þessum 118 árum hefur það aðeins gerst tvisvar að frost hefur ekki náð -20 stigum einhvern tíma árs. Hið fyrra sinnið 1908 - við trúum því þó tæplega að mælikerfi nútímans hefði ekki tekist að „fiska“ -20 stig það ár. Sama á við um hitt skiptið, það var 1934. Hvorugt árið var mælt í Möðrudal sem var líklegasti staður til afreka. 

Af myndinni má sjá að við förum fyrst og fremst að hrökkva við gagnvart kulda fari frostið niður fyrir -31 stig í byggðum landsins - og frost hefur ekki farið í -35 stig eða meira hér á landi síðan landsmetið var sett 1918. Um það (og fleiri lágar tölur) má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar sem enn stendur fyrir sínu. 


Miður vetur

Nú er miður vetur að fornu íslensku tali, þorri byrjar - og þar með hinir svokölluðu útmánuðir. Ekki veit ritstjóri hungurdiska til þess að fyrstu þrír vetrarmánuðirnir, gormánuður, ýlir og mörsugur eigi sér samheiti. Það er kannski ekki alveg nógu góður brandari að kalla þá innmánuði (en réttnefni að sumu leyti þó). 

Fyrri hluti vetrar var óvenjuhlýr að þessu sinni. Meðalhiti í Reykjavík var 2,9 stig og hefur ekki oft verið hlýrri á mæliskeiðinu. Við sjáum það á myndinni hér að neðan.

w-blogg250119a

Súlurnar sýna meðalhitann fyrri hluta vetrar. Árið er sett við miðjan vetur, í ár segjum við 2019 (þó meirihluti þessa umrædda vetrarhelmings lendi á árinu 2018 - en einhvern veginn verður að merkja. Við sjáum að súlan sem á við núlíðandi vetur er mjög há, þó sjónarmun lægri en var 2017 (2016-17) og heldur lægri en 2003 (2002-03). Fyrr á 20.öld voru fáeinir fyrrihlutar ámóta hlýir og nú, en aðeins einn áberandi hlýrri. Það var 1946 (1945-46). 

Í minni okkar ellilífeyrisþega var fyrri hluti vetrar kaldastur 1982 (1981-82) og 1974 (1973-74), flestir fyrrihlutar vour kaldir um það leyti, litlu skárri en þeir á 19.öld (Reykjavík var þá reyndar heldur betur sett en ýmsir aðrir landshlutar). Leitni reiknast hér +1,1 stig á öld.

Við getum ekki skilið síðari hluta vetrarins eftir - en vitum auðvitað ekkert um afganginn 2019.

w-blogg250119b

Myndin hér að ofan sýnir reykjavíkurhitann á útmánuðum. Ekkert sérlega lík mynd og sú fyrri, leitnin ívið meiri, +1,3 stig á öld. Það má vekja athygli að hlýskeið 20.aldar virðist hér tvískipt (var það ekki á fyrri mynd) og kuldaskeiðið okkar er e.t.v. ekki alveg jafnafgerandi síðari hluta vetrar og fyrrihlutann. 

Útmánuðir síðustu 15 ára hafa allir (hver og einn einasti) verið hlýir á langtímakvarða - en auðvitað mun slík samfella bresta um síðir. Hvort það verður nú vitum við ekki. 

En er eitthvað samband á milli hita vetrarhlutanna? Reikni maður fylgnina kemur í ljós að hún er ekki nema 0,34, marktæk, mjög, myndu félagsfræðingar og heilsuúrræðaspekúlantar segja, en nokkuð mjúk þykir okkur veðurfræðingum. Sennilega má þó sjá merki hlýskeiða og kuldaskeiða - en hvert einstakt ár er frjálst að mestu. 

w-blogg250119c

Hér má sjá hvað gerst hefur í einstökum tilvikum. Sé talan jákvæð hafa útmánuðir verið hlýrri en fyrri hlutinn. Langmestu munar 1974, þá voru nóvember og desember (1973) alveg sérdeilis kaldir, en mars og apríl óvenjuhlýir. Af síðustu árum er það helst 2005 sem sýndi slíka hegðun. Árið 1988 voru útmánuðir hins vegar mun kaldari heldur en fyrri hluti vetrar og eins hinn frægi vetur 1947 (þó ritstjóri hungurdiska muni hann að vísu ekki). Langtímaleitni er engin. 

Við getum líka séð að „úthald“ stórra hitavika er ekki mjög mikið á Íslandi. Sé fyrri hluti vetrar annað hvort óvenjuhlýr eða kaldur er líklegast að síðari hlutinn verði nærri meðallagi. Þessi tilfinning staðfestist að nokkru á síðustu mynd þessa pistils.

w-blogg250119d

Hér sést samband hita fyrri hluta vetrar (lárétti ásinn) og hitabreytingar milli vetrarhlutanna. Sé mjög hlýtt fyrri hluta vetrar (hægri hluti myndar) er líklegt að veturinn allur hafi ekki úthald í hlýindunum - flestir vetur lenda þá á neðri hluta myndarinnar. Þetta á líka við um kulda fyrri hluta vetrarins, en undantekning er t.d. 1881, kuldinn fyrri hlutann hélt bara áfram. Árin 1929 og 1964 standa sig best í að bæta í mikil hlýindi fyrri hlutann - þau urðu enn meiri á útmánuðum. 

Látum þetta duga - og vonum að útmánuðir nú færi okkur að minnsta kosti sæmilega tíð.


Um ársúrkomu á Akureyri

Undanfarin ár hafa verið úrkomusöm á Akureyri, meðalúrkoma þar á árunum 1961-1990 var um 495 mm, en meðaltal síðustu 10 ára er 624 mm. „Aukningin“ er um 130 lítrar á fermetra á ári. 

Það er mjög erfitt að mæla úrkomu nákvæmlega. Margs konar óvissa kemur við sögu, bæði vegna mælitækni sem og mælihátta. Auk þess geta til þess að gera litlar breytingar á umhverfi mælistaða haft veruleg áhrif. Tímaraðir úrkomumælinga eru því erfiðar viðfangs og lítið um fulla vissu þegar horft er á einstakar veðurstöðvar. Eina leiðin til að ná taki á langtímaþróun er að mæla mjög víða. Þessi árin eru sérlega erfið vegna breytinga á mæliaðferðum, sjálfvirkar mælingar taka við af mönnuðum. Ástæður breytinganna eru ýmsar og þó gamlir jálkar eins og ritstjóri hungurdiska vilji halda í sem mest af mönnuðu mælingunum verða þeir þó að sætta sig við að umskipti munu eiga sér stað. Þegar þær verða gengnar yfir verður fyrst hægt að samræma nýjar og gamlar aðferðir svo vel sé. Nýju mælarnir hafa þann stóra kost að hægt er að ná utan um ákefð úrkomunnar en það var erfitt eða nær ómögulegt með hefðbundnum eldri aðferðum - nema með verulegri fyrirhöfn og kostnaði.

Þó úrkomumælingar hafi verið gerðar á landinu allt frá því á 19.öld (þær fyrstu reyndar á þeirri 18.) var lengi vel sáralítið um mælingar á Norðurlandi. Reynt var að mæla í Grímsey og tókst um hríð, en síðan varð rof á þeim mælingum um áratuga skeið. Sömuleiðis var mælt á Möðruvöllum í Hörgárdal nærri samfleytt frá 1913 til 1925 - en samfelldar mælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en 1928. Meginástæða þess að illa gekk að koma mælingum á koppinn fyrir norðan er að hlutur snjókomu í heildarúrkomumagni er meiri heldur en í lágsveitum á Suðurlandi. Mælingar á snjó eru verulegt vandamál, rannsóknir erlendis gefa til kynna að tugi prósenta vanti upp á að snjómagn skili sér í mæla. Aðalástæða er vindur, en fleira kemur einnig við sögu. Þetta gerir miklar kröfur til veðurathugunarmanna og svo virðist sem á árum áður hafi veðurathugunarmenn ekki fengið nægilega góðar upplýsingar um snjó með þeim afleiðingum að mikilvægar upplýsingar um vetrarúrkomu skiluðu sér ekki í ársummur. 

Þessir vankantar eiga auðvitað allir við um mælingarnar á Akureyri, m.a. þeir að minnki vindhraði við mæli getur úrkoma sem úr honum kemur aukist - jafnvel þótt engin raunveruleg aukning á fallinni úrkomu hafi átt sér stað. Minnki hlutur snævar í ársúrkomu getur einnig komið fram sýndaraukning á heildarúrkomumagni - regn skilar sér betur í mæla en snjór.

En við horfum samt á tölurnar frá Akureyri.

w-blogg240119a

Súlurnar á fyrri mynd dagsins sýna einfaldlega úrkomu hvers árs frá 1928 til 2018 (91 ár). Meðaltalið 1961 til 1990 er bakvið sem breitt blátt strik. Athygli vekur að úrkoma hefur verið ofan þess á hverju einasta ári síðan 2001, lítið að vísu 2007 og 2008, en mikið allan núlíðandi áratug, frá og með 2011. Mest var úrkoman árið 2014, 744 mm, 740 mm árið 1989 og 696 mm á síðasta ári (2018). 

Rauða línan sýnir 10-árakeðjur og er síðasta meðaltalið (2009 til 2018) talsvert ofan við það sem mest hefur verið áður. Það vekur athygli (en er þó ekki endilega merkingarbært) að þurr og vot ár hafa nokkra tilhneigingu til að hópa sig. Kannski eru síðustu árin bara dæmi um slíkt. Alla vega verður að teljast afskaplega ólíklegt að þurrum árum á Akureyri sé hér með lokið (við viljum ekki trúa því). En áreiðanlegar skýringar liggja ekki alveg á lausu. Við vitum með vissu að norðanáttir hafa verið hlýrri á þessari öld en áður var. Kannski eru þær líka rakabólgnari - nú eða þá að hlutur rigningar í þeim hefur aukist þannig að úrkoman skili sér betur í mæla á Akureyri en áður var. 

Reiknum við leitnina fáum við út aukningu sem nemur um 16 mm á áratug hverjum - reyndar er hún ekki jafndreifð um tímabilið. Ekki skulum við leggja of mikla merkingu í þessa tölu.

Til að skera úr um þetta þurfum við að líta á mælingar frá fjölmörgum stöðvum - jafnframt því að kanna hvort aukningin (hafi úrkoma aukist annars staðar) sé háð hlut snævar á stöðvunum. En gallinn er bara sá að úrkomumælingum fækkar - og langtímamælingar hafa ekki verið gerðar víða um landið norðanvert. 

Gott samband er á milli ársúrkomu og fjölda daga á ári þegar úrkoma mælist 1 mm eða meira. Á Akureyri reiknast fylgnistuðull um 0,7 á því 91 ári sem hér er litið á. 

w-blogg240119b

Hér sjáum við að í fyrra voru úrkomudagar af þessu tagi 131 á Akureyri, hafa aðeins einu sinni verið fleiri. Það var 2014 þegar þeir voru 133. Nærri því jafnmargir voru þeir 1961, 126 talsins. Hér má líka sjá nokkra leitni, úrkomudögum fjölgar um tæpa 3 á áratug, langt til einn mánuð á 90 árum. Varla er ástæða til að trúa því að um varanlega leitni sé að ræða.

Við látum þessa umfjöllun um úrkomu á Akureyri duga að sinni. 


Af árinu 1826

Árið 1826 var umhleypingasamt og sumarið sérlega nöturlegt um landið sunnanvert - sennilega eitt af ætt sumarsins 1983 sem margir muna enn. Óvenjuleg hlýindi voru þá á Bretlandseyjum og hæðin þar hefur beint illviðrum til Íslands. Norðanlands var sumarið víst heldur skárra en syðra, en samt ekki gott. Að austan höfum við einfaldlega engar fréttir enn (hugsanlega leynist eitthvað í ólesnum dagbókum). 

Jón Þorsteinsson mældi hita og loftþrýsting í Nesi við Seltjörn, en mælingar hans voru þó ekki komnar í þau gæði sem varð fáeinum árum síðar. Allar tölur eru því heldur óvissar, en þó miklu, miklu betri en engar. Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum hóf veðurmælingar í kringum áramótin og tölur janúarmánaðar hafa varðveist og fór frostið mest í -23 stig. Mælingarnar héldu áfram til 5.febrúar - en þá varð sem kunnugt er mikill bruni á Möðruvöllum. Veðurathuganir Gríms lögðust þá af um þriggja ára skeið - því miður. Við vitum ekki hvort tækin brunnu - og ekki heldur hvort eitthvað brann af veðurbókum - það er þó frekar ólíklegt fyrst mælingar ársins fram að bruna komu fram. 

ar_1826t

Hér sjáum við nokkra kulda fram í miðjan janúar, en síðan er ekki kalt - en vetrarástand hélst samt út apríl. Tíðarvísur Jóns Hjaltalín lýsa vetrarveðrinu vel:

Vetur liðinn lands um bý
léði sumum kvíða
fanna iðinn fellir í
foldu byrgði víða.

Jólatíða föstu frá
fönn með svellum hálum
dundi víða ekru á
allt að sumarmálum,

Þorði kalla þjóðin holl
þetta furðu stafa,
lagði valla læk né poll,
læst var jörð þó klaka.

Veður hörð á vorum reit,
víða þáðu loftið,
mest um gjörði samt hjá sveit
sumarmála kastið.

Tökum sérstaklega eftir þessu: „Lagði varla læk né poll, læst var jörð þó klaka“. 

Sumarið var kalt - en ekki sjást mjög miklar hitasveiflur. Mikil frost gerði svo í nóvember og fyrstu daga desembermánaðar.

ar_1826p

Það er óþægilegt að þrýstingur hafi aðeins verið mældur á einum stað á landinu. Erfitt er að leiðrétta hugsanlegar villur. Mælt var í frönskum tommum, línum og tugabrotum úr línu, hver tomma er 27,07 mm = 36,1 hPa, en línan 3,0 hPa. Tommuvilla er því mjög stór. Þann 13.febrúar stendur mjög skýrum stöfum í bók Jóns, 25 5,1. Sé þessum lestri breytt í hPa og hefðbundnum (hita-, hæðar- og þyngdar-) leiðréttingum beitt verður útkoman 920,4 hPa. Þessu hefur enginn trúað (sem vonlegt er), sérstaklega vegna þess að daginn eftir var þrýstingur (hafi verið rétt lesið) kominn upp í 1008,5 hPa. Þegar athuganir Jóns voru gefnar út var gengið út frá því að 25 hefði misritast fyrir 26 - en það hefði rétt eins getað átt að vera 27. Við vitum einfaldlega ekki hvað er rétt hér. Sá sem þetta skrifar hér og var lengi vel alveg án efa um að rangt hafi verið lesið, þar til hann las bréf Bjarna Thorarensen (sjá hér að neðan). Bjarni minnist á fárviðri í Reykjavík einmitt þennan dag og veðurdagbækur að norðan greina líka frá miklu hvassviðri. - Við bíðum auðvitað frekari frétta. 

Annars vekur athygli hversu lágur þrýstingurinn varð líka á sumardaginn fyrsta - þá var mikið illviðri á landinu og þrýstingur var almennt mjög lágur um sumarið. Þá er oft getið stórrigninga fyrir norðan - þó skárri tíð hafi verið þar heldur en syðra. 

Við látum annál 19. aldar um stutta lýsingu, en reynum síðan að skipta fréttum og lýsingum á árstíðir. Espólín er þó mjög stuttorður (óskiptanlegur) og Klausturpóstur heldur ruglingslegur í röðinni, enda var ritstjórinn (Magnús Stephensen) í Danmörku fyrri hluta árs og almennt í þungu skapi. 

Annáll 19.aldar segir frá:

Frá nýári var vetur snjóa- og frostlítill syðra, þó storma og umhleypingasamur, en snjór meiri nyrðra með áfreðum og jarðbönnum til sumarmála. Gerði þá snjókast hið mesta, en stóð þó eigi lengi. Vorið var kalt og stormasamt fram á messur. Varð þá mikill fjárfellir um Suður- og Vesturland og sumstaðar nyrðra. Sumarið var rigningasamt, grasvöxtur í meðallagi, en hey skemmdust víða. Haustið og veturinn var hin mildasta tíð til ársloka. Fiskafli var víðast hinn besti, en skemmdist mjög vegna stórrigninga um sumarið, en nýttist vel um haustið. 

Aðfaranótt 6.febrúar brann timburstofan á Möðruvöllum í Hörgárdal til kaldra kola ásmat tveimur eða þremur öðrum húsum. 16.mars eða aðfaranótt hins 17. fórst skip frá Ystamói í Fljótum með 8 mönnum. - Fjölda annarra skiptapa er getið - en ekki settir á dag. 

Vetur:

Brandstaðaannáll: Stillt og milt veður með nokkrum snjó til þorra. Var þá orðið jarðlaust af áfreðum. Á honum versta veður, hríðar, fannkomur og 11 blotar. Varð svellgaddur í (s93) mesta máta. Með góu fóru vermenn. Var þá hjarn yfir allt, um miðgóu mikil fönn og bjargleysi, síðustu viku góu sólbráð og blotar, ofsaveður á góuþrælinn, svo hörkur fyrir páskana, 26. mars páskadagsrigning, eftir þá skorpa með snjó og harðviðrum 2 vikur. Fyrir sumarmál þiðnaði aftur.

Jón Jónsson á Möðrufelli segir fyrri part janúar hafa verið stilltan, en síðan hafi veður verið óstöðugt. Jarðskarpt hafi verið og sömuleiðis kvartar hann í lok mánaðar um hálku.

Febrúar var óstilltur hjá Jóni, og bleytti alloft í. Viku um miðjan mánuð telur hann þó góð og marsmánuð segir hann allsæmilegan. 

Fáein bréf lýsa tíð:

Reykjavík 5-3 1826 (Bjarni Thorarensen): ... og jafnvel virkilegur orkan [fárviðri] hefir einusinni í febrúar uppákomið sem hefir gjört mörgum skaða með að skip og báta hefir upp tekið og í spón brotið – og gamall hjallur fór hjá mér í sama veðri. (s167)

Gufunesi 11-3 1826 (Bjarni Thorarensen): Vetur hefir hér verið allgóður, nema til fjalla sumstaðar hvar hlákurnar hafa orðið blotar einir. Ofviðri hafa stundum geisað, þar á meðal eitt af útsuðri þann 13da næstliðins mánaðar [febrúar], tóku þá víða upp skip, þar á meðal eitt hjá mági þínum, en annað fyrri hjá apótekara, og brotnuðu í spón. Hjallur fauk upp hjá mér í sama veðri og var manneskja þá nýgengin um hann. ... Hey reynast allstaðar þrotalétt og kýr mjög gagnslitlar og ber einkum á því í Árnessýslu hvar menn í ýmsum og flestum sveitum ætla töluvert uppá vetrarbú. Trjárekar eru sagðir í meira lagi fyrir austan fjall. Reitingur fæst af haustfiski en alls ekkert nýgengið. Póstskip komst vel úr Höfn þann 6ta þ.m. hafði norðanvind 2 fyrstu dagana, síðan hefur raunar verið austan átt, en þareð allt hefur gengið upp úr útsuðri, er allbúið að útsynningur sé í hafi og það ennþá hafi byr.

14.febrúar 1826 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): Eftir lítinn grasvöxt og lélega nýtingu heyja á næstliðnu sumri hér um sveitir höfum við nú mjög jarðbannasaman vetur í allflestum plássum, en snjóhríðar — einkum af norðri — hafa þó verið mjög sjaldgæfar. Hey reynast dáðlítil og mikilgæf og horfir til báginda, komi hafís eða vorharðindi á eftir.

Bessastöðum 15-5 1826 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s104) Vetur hefur verið það harðasta, sem eg man, sjógæftir verstu, en fiskur þó ætíð fyrir.

Vor:

Brandstaðaannáll: Á sumardag fyrsta [20.apríl] var yfirtaksnorðanhríð og fannkyngja og þar eftir 2 vikur mestu hörkur með fjúki og landnyrðingi, síðan kalsasamt með krapaþíðu. Tók seint upp og gjörði hættur miklar og lambamissi. Ekkert varð unnið að túni fyrir hvítasunnu [14.maí].

Jón á Möðrufelli segir apríl hafa verið bágan, en maí í betra lagi að veðráttufari og fjárfellir hafi orðið minni en vænta mátti. 

 

Sumar:

Brandstaðaannáll: Veður þar eftir lengst útsynningur, með stormum og rigningum eða fjúki, sjaldan stillt og gott; um sólstöður stórrignt og gróðurlítið. Með júlí fóru lestir suður, fengu ófærð og óveður til þrautar. 5.-6. júlí mesta vestanóveður, svo ær króknuðu sumstaðar, ennfremur 7.-8., 11. og 16. miklar rigningar, þar eftir kuldar og blástur. Sláttur fyrst 19. júlí. Kom þá þurrviðri og varð góð nýting á töðu og hirt 3. ágúst. Eftir það rekjusamt um 3 vikur, svo hey skemmdist hjá þeim, er ei náðu því upp í sæti. Eftir hundadaga góður þerrir og hagkvæm heyskapartíð fram yfir göngur og varð hann í minna lagi.

Jón á Möðrufelli segir júní í meðallagi og júlí sæmilegan. Ágúst var hins vegar óþurrkasamur í meira lagi að sögn Jóns. 

8.ágúst 1826 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls 179) Eftir mjög affaraslæman vetur varð fellir á málnytu peningi víða, ýmist meiri eða minni, vorið mjög úrfella- og stórrigningasamt og sumarið fram að slætti, síðan oftast hagstæð heyjanýting og grasvöxtur víða góður hér um sveitir. Kvillasamt lengi af stríðum hósta, og hafa börn úr honum nokkur dáið víða.

Gufunesi 19-8 1826 (Bjarni Thorarensen): ... en víst er það að hann [fjármissir] á Suðurlandi, hvað sem hver segir hefir verið af hálfeitruðum heyjum, því á þeim jörðum sem fé var lítið sem ekkert hey gefið, lifði sauðfé þó horjarðir væru, en þar drapst það helst sem því var mest hey gefið. Svoleiðis misstu helst heybændur sauðfé í Borgarfirði – sjálfur eg hefi misst 80 fjár, en í 120 sem ég átti gengu hátt á þriðja hundrað hestar af heyi - ... Ég verð annars að bera undir þig mína hypothese um þennan viðburð, og hún er, að snemma í ágúst í fyrra kom norðanveður mikið með þoku og með því sama kom sótt á menn sem þú allareiðu í fyrra hefir frétt um – ég þóttist finna í vetur að hey sem aflað var undan þessu norðankasti var allt (s168) annað en það sem seinna fékkst – nú hygg ég að eldur hafi verið uppi í óbyggðunum í útnorðri á Íslandi, og vindurinn þaðan fært líka óveru í lofti með sér sem íslenski eldurinn árið 1783. Að eldur hefur áður sést í þeim norðurpörtum heims er víst. (s169)

Gufunes 8-8 1826 (Bjarni Thorarensen): [Segir fyrst frá hugmyndum sínum um mistrið 1825 eins og hér að ofan en síðan] ... Det næstafvigte Foraar var et af de meest regnfulde som nogen kan erindre har paa Söderlandet. Græsvæxten har været ret brav, men ogsaa Höeslætten, saavidt den er tilbagelagt, hvar væer regnfuld, dog have vi nylig havt nogle törre Dage som have bragt usigelig megen Nytte ved Höeavlingen – dog har man ingensteds, det jeg veed, kunnet erholde Höet saa tört at der jo er gaaet Varme i samme. (s48)

Í lauslegri þýðingu: Næstliðið vor er eitt það úrkomusamasta sem nokkur man hér sunnanlands. Grasvöxtur hefur verið dágóður, en um sláttinn hefur rignt, þó við höfum nýlega fengið fáeina þurra daga, ósegjanlega gagnlega, en þrátt fyrir það hefur ekki tekist að þurrka heyið það vel að ekki hafi hlaupið í það hiti. 

Gufunes 4-9 1826 (Bjarni Thorarensen): Skagestrands Havn er den farligste i hele Island. (s51)

Í lauslegri þýðingu: Höfnin á Skagaströnd er sú hættulegasta á öllu Íslandi. 

Gufunes 27-9 1826 (Bjarni Thorarensen): Höeslætten er gaaet tem- (s51) melig vel, kun have de törre Dage været altfor faa, der er hos mange kommet for stærk varme i Höet. (s52)

Í lauslegri þýðingu: Sláttur hefur gengið sæmilega vel, en þurrir dagar hafa veri alltof fáir, hjá mörgum hefur hlaupið of mikill hiti í heyið. 

Gufunes 22-10 1826 (Bjarni Thorarensen): Veirlighed har stedse været fugtigt. Höe Avlen er nogenledes lykkedes, men Höet er mange Steder bedærvet (s54)

Í lauslegri þýðingu: Veðrið hefur hér verið rakt. Öflun heyja hefur nokkurn veginn tekist, en heyið er víða skaddað. 

Gufunesi 23-8 1826 (Bjarni Thorarensen):: Hér hafa gengið grófir óþerrar og hitnað í heyjum hjá mörgum. (s219)

Einhver kuldalegasta lýsing sem um getur á reykvísku sumri:

Viðeyjarklaustri 10-8 1826 (Magnús Stephensen): (s55) En hér fannst mér, eftir viðskilnað ofsóknarmanna minna í Khöfn, jafnköld aðkoma 12.júní. Ennþá vetrarbragur á öllu, stormar, kuldar, hret óaflátanleg, fjöll enn hulin fönnum ofan í byggð, tún þá fyrst að fá grænleitan lit, en úthagar eða engjar engan, ¾ alls sauðfjár fallið í Suður- og Vesturömtum, víða kýr og nautpeningur nokkur, hitt horað og nytlaust uppihangandi, alla viðbits- og mjólkurlausa ... Vorafli vegna storma varð því nær enginn hjá fjöldanum. Allstaðar sáraumur. Stormar, sífelld óveður og kuldar geysa enn í dag og til þessa, að fáeinum hlýjum dögum undanteknum, svo hér liggur enn helmingur taðna hrakinn á túnum, hitt, hálfþurrt inn krabbað, er að brenna. Í dag er allur njóli hér umkring húsið af norðvestan stórviðri með miklu regni orðinn svartur af kulda og stormi.

Jón Hjaltalín lýsir sumri og hausti í tíðavísum sínum:

Regnin duttu ríflig á
rindarelju niður,
engin spruttu tæð að tjá
túnin nokkuð miður

Heys um tíma margir menn,
meintir helst til þarfa
sóttar líma liðu enn
lítt því þoldu starfa.

Þunga regnið þaut á lóð,
þar með vinda blakið
heyja megnið þar af þjóð.
þáði víða hrakið

Haustið þrátt þó hér um reit
hreyfði vinda drögum,
gott það mátti segja sveit,
samt að jörð og högum.

Blóðsins hafla bláleitt haf,
blítt þá gjörði viðra,
fiskiafla góðan gaf
görpum hér og syðra.

Haust:

Brandstaðaannáll: Í október besta tíð, þíður og snjóleysa. Um allraheilagramessu rigning mikil um 3 daga, svo fá þök héldu; 4.-5. fönn þar ofan í, er fljótt fór aftur. Þaðan gott vetrarfar. Á jólaföstu nokkur snjór og á jólanótt snjóhlaðningur mikill, á annan hláka og vatnsgangur og fjórða vestanhríð mikil. Alltaf jarðsælt til nýárs. (s94) 

Jón á Möðrufelli segir nóvember og desember dágóða, en óstöðugt hafi verið eftir sólstöður.

Gufunesi 11-11 1826 (Bjarni Thorarensen): Fréttirnar héðan helstu eru sífelldar rigningar svo hey hafa víða skemmst en ei get ég sagt að heyskapur kunni þar fyrir í það heila slæmur að kallast, því grasvöxtur var í betra lagi og allt náðist þó. Haustafli er hér góður þegar róa gefur. (s171)

Viðeyjarklaustri 10-11 1826 (Magnús Stephensen): (s59) Um storma stöðuga hér, sífelld óveður, heyja skemmdir og bruna, og þar af leiðandi gagnleysi vetrarbús, er auka má á almenn bágindi, eftirlæt ég öðrum að rita.

Espólín:

CXLIX. Kap. Þann tíma hófst og barnadauðinn mikli; var kalt vorið, og eigi gott sumarið. (s.157). CL. Kap. voru þá veður ill og regnasöm um sumarið. (s 158). 

Klausturpósturinn lýsir tíð ársins 1826, orðið árgangur er sömu merkingar og árferði:

(IX, 1, bls. 205) Árgangur hér á Íslandi 1826 er flestum kunnur af Kl[austur]pósts lesendum, má því stuttlega yfirfara. Frá nýári veðurátt snjóa- og frostalítil. þó sérlega storma- og umhleypingasöm. Hey reyndust víðast hrakin, drepin og mjög dáðlaus; gátu ekki fleytt skepnum fram, síst til gagnsmuna og urðu þeim víða pestar efni. Fellir um voru var því stór-mikill á sauðfé um Suður- og Vesturland, og sumstaðar nyrðra, þó miklu minni þar og eystra lítill. Málnyta um sumarið í fyrrnefndum fellir-plássum, hver og talsvert af nautpeningi féll eða varð gagnlaust, varð því sárlítil. Fiskiafli allstaðar hinn besti, en vegna stórrigninga nærfellt allt sumarið út, skemmdist mestur hluti hans. Vorið sárkalt og óveðrasamt frá á messur. Gróður úr því góður. Sumarið sífellt rigningasamt, svo hey skemmdust á ný, urðu dáðlaus hjá flestum, drepin, brunnin og mjólkurlaus. Bágindi því almenn með bjargræðis, einkum (feitmeti) í felli-plássum, meðal fólks og víða af korns skorti, þar lítið fluttist 1826, eftir bágindanna þörfum, hingað til lands, einkum á Vesturlandi; en syðra bættist samt mikið úr því, með út hingað sendu korni um haustið. Sumar- og haustafli af sjó varð víða góður og vetur til árslokanna hinn mildasti. Þetta ár gekk yfir allt land dæmalaust langvinn og hörð kvefsótt með megnum andarteppuhósta, sem lagði grúa ungbarna og marga fullorðna, einkum gamla í gröfina. Sá mikli bruni Möðruvalla Amtshúss aðfaranótt þess 6ta Febr. 1826 með mestöllum eigum Hr. Amtmanns Gríms Jónsonar, er öllum í fersku minni, en æra þeim mörgu, hverra efni og góðvild hafa leyst úr honum að vilja bæta.

Í maí kom mjög óvenjulegt ísrek að Vestmannaeyjum. Gleggstar fréttir af því eru í lýsingu sem C. Irminger birti í grein löngu síðar).  Byrjað er á lýsingu Abel sýslumanns:

„Den 26de Maj 1826, i stille og klart Vejr, øjnedes fra Vestmanø en uoverskuelig Masse Is, drivende med 3 a 4 Miles Fart fra Portland langs med Fastlandet i vestlig Retning. Da den kom ned mod Ellerø og Bjarnerø, to smaa Øer imellem Vestmanø og Fastlandet, toge nogle Isbjærge Grund øst og sydost for disse, og nogle større Isbjærge bleve grundfæstede syd for Bjarnerø· paa 60 Favnes Dybde. Massen bedækkede aldeles det henved 8 Kvartmil brede Sund imellem Vestmanø og Fastlandet, og hvor langt den Del af Isen, som passerede sønden om Vestmanø, strakte sig, var ikke til at øjne. Passagen af denne Isdrift fra Begyndelsen til Enden varede 4 a 5 Timer. Med vedholdende stille og klart Vejr, Havet bestandig som et Spejl, vedbleve de majestætiske lsbjærge, som havde taget Grund, at holde deres Plads; men forandrede af og til dettes Form, naar store Masser af dem løsreves og under Knagen og Bragen nedstyrtede i Havet. En svær Dønning bortførte endelig den 8de eller 9de Juni disse efterladte Is bjærge, som derpaa ogsaa dreve bort i vestlig Retning". Hr. Abel anfører, at ingen, endog de ældste af Beboeme, tidligere havde set en saadan lsdrift ved Vestmanø, og senere har sligt heller ikke været Til fældet, naar undtages noget Is vrag, som kom forbi Øen i "nogle og tredive" og en Ubetydelighed i 1840. Hr. Abel bemærker end videre, at han under sit 30-aarige Ophold paa Vestmanø aldrig har fundet det saa koldt, som under den omtalte Isdrift. Vinduerne i hans Stue vare, saa længe Isdriften varede, saa tilfrosne, at Kakkelovnsvarmen ikke var i Stand til at tø Isen fra Ruderne. [C. Irminger, Om den grønlandske Drivis ved Island, Geografisk Tidskrift, bind 8 (1885), s67].  

Í lauslegri þýðingu:

„Í hægu og heiðu veðri þann 26.maí 1826 kom mikið ísrek, sem ekki sást út yfir, með 3 til 4 mílna hraða til vesturs, í átt frá Dyrhólaey meðfram fastlandinu. Þegar það komst á móts við Elliðaey og Bjarnarey, strönduðu nokkrir jakar fyrir austan og suðaustan þessar eyjar og fáeinir stórir jakar strönduðu sunnan Bjarnareyjar, á 60 faðma dýpi. Ísrekið þakti algjörlega hið 8 fjórðungsmílna sund á milli lands og Eyja og óvíst er hversu lengt til suðurs sá hluti reksins sem fór sunnan Heimaeyjar náði - það sást ekki. Megnið af ísnum rak hjá á 4 til 5 klukkustundum. Hinir tignarlegu ísjakar sem strönduðu héldust um kyrrt á sama stað, því veðrið var áfram stillt og bjart, en breyttu af og til um útlit þegar stórir hlutar þeirra rifu sig lausa og féllu með braki og brestum í hafið. Þann 8. eða 9. júní hreinsaði mikið brim að lokum það sem eftir var og rak það til vesturs“.

Hr Abel bætir við að enginn, ekki heldur þeir elstu af íbúunum hafi nokkru sinni séð slíkt ísrek við Vestmannaeyjar og síðan þá hefur slíkt heldur aldrei átt sér stað ef undan er skilið eitthvað smávegis sem rak hjá „1830 og eitthvað“ og 1840. Hr Abel tekur einnig fram að hann hafi á þeim 30 árum sem hann dvaldi í Vestmanneyjum aldrei fundist jafnkalt eins og þegar ísrekið fór hjá. Gluggar í húsi hans hafi á meðan á ísrekinu stóð hafi frosið svo að ofnarnir hafi ekki náð að þíða ís af rúðunum. 

Við vitum ekki enn hvað var hér á ferð. Minnir samt nokkuð á lýsingar á miklu ísreki við Argentínustrendur fyrir rúmum 200 árum. Afskaplega ólíklegt má telja að jökulís þessi sé íslenskur. Ekki er vitað um neitt eldgos eða jökulhlaup þetta ár - og varla hægt að ímynda sér að Breiðamerkurjökull hafi hlaupið í sjó fram. Vel má hins vegar vera að allstór jökull eða jökulhella á Grænlandi hafi losnað og borist með straumum til Íslands - svipað og dæmi eru um í suðurhöfum. Ekki er að sjá að Sveinn Pálsson læknir í Vík í Mýrdal hafi orðið var við þetta ísrek og er það einkennilegt. Að vísu var þoka í Vík einmitt þennan dag sem ísinn fór hjá Vestmannaeyjum - og þar var einnig rigning, en ekki heiðríkt veður eins og Vestmannaeyjasýslumaður segir frá. 

Læðist að sá grunur að sýslumaður villist hér á árum. Þetta hafi verið vorið 1827, en þá var mikill hafís við Vík í Mýrdal, sat þar í um 3 vikur - og rak alveg vestur að Grindavík.

Hér lýkur að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1826. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr Árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hefði reiknast - hefði ekki verið mælt

Eftir hver áramót giskar ritstjóri hungurdiska á árshita í Reykjavík með því einu að nota vindáttatíðni í miðju veðrahvolfi, loftþrýsting og hæð 500 hPa flatarins. Tveimur aðferðum er beitt og hafa báðar verið kynntar nokkuð rækilega í fornum færslum á bloggi hungurdiska. Sú fyrri giskar á hitann eftir þykktargreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar - og notar til þess samband ársmeðalþykktarinnar og Reykjavíkurhitans undanfarna áratugi.

Þykkt ársins 2018 var heldur neðan meðallags aldarinnar til þessa (hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 0,5 stigum neðan meðallags), en um 0,5 stigum ofan meðallags 1961-1990 - og segir að Reykjavíkurhitinn hefði „átt að vera“ 4,9 stig, en reyndin var 5,1 eða 0,2 stig yfir giski. Nokkuð gott (eins og oftast er þegar þykktin er notuð til að giska).

Hin aðferðin notar stefnu og styrk háloftavinda og hæð 500 hPa-flatarins og er almennt talsverð ónákvæmari heldur en þykktargiskið. Svo vill til að þessu sinni að áttagiskið er nær lagi, reiknar 5,2 stig. Áttagiskið hefur nokkuð kerfisbundið skilað of lágum tölum síðan fyrir aldamót - en er hér mjög nærri lagi. Líkleg ástæða hins kerfisbundna munar er hlýnun norðanáttanna á þessari öld - miðað við það sem áður var. Árið 2018 brá svo við að sunnanáttir voru með tíðasta móti og sunnanátt í veðrahvolfi sú stríðasta síðan 1984.


Fyrstu 20 dagar janúarmánaðar

Nú eru víst 20 dagar liðnir af janúar (rétt einu sinni) meðalhiti þeirra í Reykjavík er hár, +2,7 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1961-1990 og +1,7 ofan meðallags síðustu tíu ára, þeir fjórðuhlýjustu á þessari öld (hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2002, meðalhiti +4,1 stig, en kaldastir 2007, meðalhiti -2,7 stig). Á langa samanburðarlistanum eru dagarnir í 15.hlýjasta sæti (af 144). Á þeim langa lista voru dagarnir 20 hlýjastir árið 1972, meðalhiti +4,7 stig, en kaldastir 1918, þá var meðalhiti -10,6 stig.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára um land allt - eða nákvæmlega í meðallagi, mest er vikið +2,5 stig á Hvanneyri, en minnst 0,0 stig á Fáskrúðsfirði og á Fonti á Langanesi.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 70,8 mm og er það nokkuð yfir meðallagi - en mjög langt frá því mesta sömu almanaksdaga. Á Akureyri er úrkoman það sem af er mánuði 29,9 mm, nærri meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 7,5 í mánuðinum hingað til í Reykjavík. Það er um 6 stundir undir meðallagi, en hins vegar ofan miðgildis sömu daga - sól skein t.d. mjög glatt þessa sömu daga 1959, sólskinsstundafjöldinn orðinn 48 á sama tíma, árið 1992 var hins vegar alveg sólarlaust frá áramótum.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 2341369

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 906
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband