Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Af árinu 1843

Fremur svalt var í veðri árið 1843, meðalhiti þó nærri næstu tíu árum á undan. Sumarið byrjaði með þurrkum, sólskini og jafnvel hlýindum á daginn, en kuldum á nóttu. Síðan þótti það nokkuð erfitt sökum vætu, en fékk þó misjafna dóma. Meðalhiti ársins í Reykjavík var 4,0 stig, en reiknast 3,0 í Stykkishólmi. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum á Norður- og Austurlandi. Októbermánuður var óvenjukaldur, og einnig var kalt í janúar, febrúar og nóvember. Fremur hlýtt var hins vegar í ágúst og nokkuð hlýtt í maí, júní og september. 

ar_1843t 

Fimmtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, 2.febrúar kaldastur að tiltölu. (Listi yfir dagana er í viðhengi). Einn dagur var mjög hlýr, 6.ágúst. Hiti marði 20 stig tvisvar sinnum í Reykjavík, 23. og 29.júlí.

Árið var úrkomusamt í Reykjavík og mældist 926 mm. Desember var fádæma úrkomusamur, þá mældist úrkoman 246 mm, það mesta sem vitað er um í þeim mánuði. Úrkoma var einnig mikil í nóvember, janúar og ágúst, en óvenjulítil í október, þá mældust aðeins 2 mm - það langminnsta sem vitað er um í Reykjavík í október. 

Loftþrýstingur var sérlega lágur í ágúst og einnig lágur í janúar og júlí, en sérlega hár í maí og einnig hár í febrúar, mars, júní, september og október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 5.desember, 950,1 hPa, en hæstur 1035,7 hPa þann 14.febrúar. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. Rétt er að geta þess að um sumarið gekk mjög skæð landfarsótt með beinverkjum og hita. Flestir urðu fyrir henni og kom hún víða illa niður á heyskap. Mikill fjöldi lést.  

Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1843, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:

Ár 1843 var gott meðalár. Fyrstu tvo mánuði ársins var vetrarfar hart og hagleysur; komu þá hagar upp, nema í Strandasýslu, þar var harðara, og lengi vetrar hafís fyrir landi. Vorið var jafnaðarlega þurrt og kalt, sumarið vætumeira, haustið og síðustu mánuðir ársins umhleypingasamir, vetur lagðist að með blotum og jarðleysum, þó leysti nokkuð jökul af jörð fyrir sólstöður. Meðal-grasár og nýting góð. Vetrahlutir undir Jökli hæstir fjögur hundruð; í Dritvik meðalhlutir; steinbítsafli vestra í besta lagi. Árið 1843 um veturinn týndist skip í hákallalegu frá Önundarfirði, og á því 8 menn [Annáll 19.aldar segir þetta hafa verið 29.mars]; þá fórst og skip með 5 mönnum frá Skutulsfirði.

Suðurnesjaannáll segir um árið:

Oftast hörkur og byljir á góu. Frusu lömb í hel, sem eigi voru tekin í hús. ... Óþurrkar miklir um sláttinn og hraktist hey mjög. Þá drukknuðu fyrir jólaföstu tveir menn í Garði, í lendingu í myrkri, en þeir komu úr Keflavík. Var haldið, að þeir drukknir og votir úr sjónum hafi komist upp í fjöruna og lagt sig þar fyrir. Hafi þeim liðið í brjóst, en frost var mikið um nóttina. Fundust þeir um morguninn fyrir ofan flæðarmálið örendir og frosnir í hel.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Eftir nýár varð fyrir sunnan bleytuhríð, jarðlaust til lágsveita, en brotajörð um tíma til hálsa og fjalllanda. Hélst norðan-og austanátt oft með snjókomu og kafaldi til 3. viku þorra. Var þá gaddur og fannkyngja mikil komin. Þá um 3 vikur stillt og gott veður, hjarnaði og gaf vermönnum vel suður. 7. mars skipti um aftur með fönn og 11. byrjaði harður hríðarkafli. Í góulok kom góður bati, vikuþíða. Voru þá hey sumra nærri þrotin. Ýmsir höfðu líka létt og skemmd hey eftir óþurrkasumar, helst Laxdælingar.

Saurbæ 8-2 1843 [Einar Thorlacius] (s109) Hér norðanlands var vetur frostmildur og veðráttublíður allt til sólstaðna, síðan hefur viðrað stirt og fallið af austri ákafur snjór.

Bessastöðum 2-3 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s207) Vetur hefur verið harður með köflum eða frá nýári til miðþorra. Sést hefur hafís fyrir Norðurlandi, um það ber öllum saman. Að hann sé landfastur segja sumir, en aðrir bera það aftur. ... en hér er nú stillt veður venju fremur.

Sr. Jón Austmann í Ofanleiti), úr veðurskýrslu: Febrúar 1843: 14. Nóttina til þessa dags var fádæma rigning og stormur; Frost -14°R 3. febrúar. Apríl 1843: Ofsaveður aðfaranótt 2.apríl, var eitthvert hið mesta er menn muna. Þ.19. ofsaveður síðdegis af suðvestri. Í dögun þann 24. var -8 stiga frost. 

Brandsstaðaannáll [vor]:

Vorið varð gott, þurrt, stillt og hretalaust, oft hitar, en meðfram náttfrost.

Bessastöðum 8-6 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s209) Héðan er að frétta kalt vor og gróðurlítið.

Annáll 19.aldar segir í löngu máli frá sjóskaða sem varð í róðri frá Skinneyjarhöfða í Mýrasveit í Hornafirði þann 3.maí. Frásögnin er að líkindum fengin úr Austra 1886 og hefst hún í 29.tölublaði, 11.desember. Vísum við áhugasömum þangað. Stóðu þar 8 bátar á sandi þennan morgunn. Einn þeirra lagði reyndar ekki frá landi - því formaður taldi eftir langa umhugsun að norðanveður væri í vændum. Þar segir að nálægt miðmunda [milli hádegis og nóns] hafi dregið yfir kófél í logni, er varaði í svosem hálfan klukkutíma, en þegar því linnti hafi brostið á ofsalegt norðanveður með grimmdarfrosti, svo að ekkert varð við ráðið. Í þessu veðri dóu 14 menn og marga til viðbótar kól. Þessa daga fór frost í -6,3 stig í Reykjavík og hámarkshiti þann 4. var þar -2,5 stig. Ólafur á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir þann 3.maí: „Norðan hríð, mikill stormur, heljarfrost“. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Um fráfærur voru sterkir hitar og þar til 7. júlí, að skipti um til votviðra, svo grasvöxtur varð góður. Sláttur átti að byrja 17. júlí. Gáfust þá rekjur, en lítill þerrir mánuðinn út. Varð heyskapur mistækur vegna veikindanna. Með ágúst þornaði upp. Hirtu þeir þá töðu, er minnstan fatla fengu, en margir luku túnaslætti í miðjum ágúst. Eftir þann 6. kom aldrei þerridagur til kvölds. 16. ágúst gerði óviðráðanlegt sunnanveður (s141). Allt hey blés og þornaði í gegn og sæti reif allt í sundur. Um kvöldið, nóttina og daginn eftir rigndi ógnarlega af vestri og norðri, svo allt vöknaði í gegn, en engu varð bjargað. Lagði snjó mikinn á fjöll og hálsa. Þiðnaði það brátt og varð vatnsagi mikill, þó norðanstormar með rigningu kæmi á eftir. Kvaldist mjög veikt og kraftalítið fólk við að ná upp og þurrka mikið hey. Hirtu flestir túnin 26.ágúst. Út allan sláttinn kom aldrei regnlaus dagur, þó oft væri stormar og góð þerristund, en hjá heilbrigðu fólki þurftu ei heyskemmdir að verða með góðri fyrirhyggju allan sláttartímann. Gras dofnaði snemma, en almennt heyjaðist mikið í september, þá fólk var heilbrigt orðið. Þann 25. hirtu flestir og urðu miklar slægjur eftir. Allt sumarið var mikill vöxtur í jökulvötnum og stórflóð 12.-16. sept.

Þann 22.ágúst er minnst á snjó í byggð bæði í Hvammi í Dölum og á Valþjófsstað. Þorleifur í Hvammi segir að frost hafi þá verið þar í morgunsárið kl.4 5il 5.  

Friðriksgáfu 29-8 1843 [Grímur Jónsson] (s127) Sumarið er og hefur verið það versta sem ég man, með hráslaga og kulda, +2 til 6° daglega, og frost um nætur þegar upp hefur birt, en annars snjóað niður í mið fjöll oftlega.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

1.október kom fyrsta hausthret. Það hey, er þá var úti, náðist ekki. Fyrri part hans [sennilega átt við október] var snjór og stillt veður, en síðari kafaldasamt og lagði mikla fönn á útsveitir, en minni til framdala. 11. nóv. tók upp snjóinn vel fremra og eftir það meðalvetrartíð, óstöðugt, útsynningasamt og frostalítið, utan 3 hörkudaga fyrir nýárið. Þó vorið væri gott, varð mörgum málnyt í versta lagi vegna ofþurrka eftir fráfærur og hirðingarleysis um veikindatímann [landfarsótt mikil gekk í júlí] og skemmd á töðum, en, hvar þetta náði ei til, í meðallagi. Grasmaðkurinn gjörði enn skemmdir miklar að austanverðu í dölum, þar sem þurrlent var. Voru menn því óvanir í Norðurlandi. (s142)

Bessastöðum 13-11 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s212) Hér er nú árferði heldur í lakara lagi. Heyskapur varð bágur vegna sjúkdóma og svo rigning.

Einar Thorlacius í Saurbæ segir í bréfi 6. febrúar 1844: (s110) Fyrri hluti næstl. sumar var með svo sterkum hitum, að ekki einasta sólbrann allt harðvelli, heldur elnaði við það umgangssóttin. Haustið var til þrauta rigningasamt, svo vart (s111) fékkst þurr dagur. 

Dagbók Jóns Jónssonar (hins lærða) í Dunhaga er ekki auðlesin, frekar en venjulega. Ritstjórinn ábyrgist ekki að þau brot sem hér eru tínd upp (ekki orðrétt) séu rétt eftir höfð: 

Janúar: Má kallast mjög harður - þó helst vegna jarðbanna. Febrúar fyrri partur í harðara lagi en síðari partur stilltur. Fyrstu dagar marsmánaðar voru stilltir og þann 18.nefnir Jón að fullt sé af hafís útifyrir og lagnaðarís á Eyjafirði. Apríl allur stilltur að veðráttu en jarðleysur fyrsta hluta, en með skírdegi birtist jörð smám saman. Maí í harðara lagi og loftkuldi mikill og náttfrost. Júní allur mjög bágur, loftkaldur og þurr - mikill maðkur í jörðu [Þó er minnst á mjög hlýja og sólríka daga innan um]. Júlí að sönnu sæmilegur upp á veðráttuhlýindi, en óþurrkar. Ágúst að vísu ei mjög kaldur að veðráttu en votsamur í frekara lagi. September má seinast og fyrst heita allgóður. Svo er að sjá að talvert hafi verið um frost í október. Jarðlaust að mestu í lok nóvember. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Alþjóðaveturinn 2020 til 2021

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga.

w-blogg270221a 

Reiknaður er meðalhiti veðurstöðva í byggð aftur til 1874 - og árum aftur til 1824 bætt við (en landsmeðalhiti fyrstu áranna er mikilli óvissu undirorpinn). Meðalhiti í byggðum landsins síðustu 3 mánuði er -0,1 stig og telst það nokkuð hlýtt á langtímavísu (eins og sjá má á myndinni), en er samt 0,1 stigi ofan meðalhitans í fyrra, en lítillega (-0,3 stig) neðan meðalhita síðustu 20 ára. 

Veruleg leitni reiknast yfir tímabilið, +1,5 stig á öld. Á 20. öld allri var meðalhiti alþjóðavetrarins 16 sinnum ofan við frostmark, en hefur 9 sinnum verið það nú þegar á þessari öld - þó veturnir séu aðeins orðnir 21. Fari svo fram sem horfir verða 45 vetur ofan frostmarks á 21.öld. Slíkt væri mikil breyting frá fyrra ástandi. Á 19.öld þekkjum við ekki nema 3 vetur ofan frostmarks á 77 árum (gætu þó verið eitthvað fleiri - reiknióvissa er mikil).

Á hlýskeiðinu 1925 til 1965 komu 15 (alþjóða-)vetur þar sem meðalhitinn var undir -1,0 stigi. Aðeins einn slíkur hefur komið á núverandi hlýskeiði (-1,01 stig, 2015-2016). Þeir verða væntanlega fleiri (annars er illt í efni).

En sannleikurinn er þó sá að við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega. Rætist spár um hnattræna hlýnun að fullu verða hlýju veturnir væntanlega enn fleiri en 45 á 21.öld - en einnig er vel hugsanlegt að við höfum þegar „tekið út“ meiri hlýnun en okkur „ber“ og talan orðið nær 45 - jafnvel lægri.

Reiknuð leitni á myndinni er ekki síst há fyrir þá sök að vetur kuldaskeiðs 19. aldar voru almennt töluvert kaldari heldur en kaldir vetur kuldaskeiðs 20.aldar. Sömuleiðis hafa mjög kaldir vetur alls ekki látið sjá sig á nýrri öld. Minni munur er á hlýskeiðunum en samt voru kuldaköst 20.aldarhlýskeiðsins snarpari heldur en skyldulið þeirra á síðustu árum - eins og glögglega má sjá á myndinni. Er þetta allt í samræmi við ísrýrnun í norðurhöfum.

Þó meðalhiti alþjóðavetrarins nú sé nánast sá sami og í fyrra hefur veðurreyndin verið allt önnur. Í fyrra var í raun versta tíð, nánast stöðug illviðri og umhleypingar. Nú hefur hins vegar „farið vel með“ veður um stóran hluta landsins (leiðinlegir kaflar hafa sýnt síg á Norðaustur- og Austurlandi) og lítið orðið úr illu útliti oftast nær. Sýnir þetta að hitinn einn og sér segir ekki alla söguna varðandi tíðarfarið.  

Veturinn hefur til þessa verið sérlega snjóléttur um landið suðvestanvert og enn er fræðilegur möguleiki á að hann nái meti hvað það varðar - en verður þó að teljast ólíklegt. Alhvítir dagar að vetri urðu fæstir í Reykjavík 1976-77. Fram til þessa eru þeir orðnir 6 í vetur. Til að metið falli mega alhvítir dagar úr þessu til vors ekki vera nema fjórir. Meðalfjöldi alhvítra daga í mars til maí er 16. Verði snjóalög í meðaltali í mars og apríl verða alhvítir dagar vetrarins því um 22. Á þessari öld hafa alhvítir dagar að vetri fæstir orðið 16, það var 2009 til 2010. Heldur meiri líkur eru á að við höldum okkur neðan þeirrar tölu. Mesti fjöldi alhvítra daga í mars til maí eru 44 (1990). Það hefur einu sinni gerst að snjó hefur ekki fest frá 1.mars til vors (1965) og þrisvar hefur aðeins 1 alhvítur dagur komið eftir 1.mars, síðast 1974.


Góugróður?

Góa er 5.mánuður íslenska vetrarmisserisins. Í grein sem Árni Björnsson ritaði um góu í Árbók Fornleifafélagsins 1990 má lesa margvíslegan fróðleik um góu, sem hófst með konudegi síðastliðinn sunnudag (21.febrúar). Þar er einnig fjallað um veðurspeki sem tengist mánuðinum. Hún rifjast upp í blíðunni þessa dagana. Árni bendir réttilega á að ekki sé algjört samkomulag hvað hana snertir og nefnir dæmi úr orðskviðabók Guðmundar Jónssonar prests á Staðarstað [1830]: „Góður skyldi góudagur hinn fyrsti, annar og þriðji, þá mun góa góð verða“ - þar er „grimmur“ í sviga á eftir „góður“. Geta spakir rifist um hvort er sér til heilsubótar - annað eins er nú rifrildistilefnið á samfélagsmiðlunum. 

Flestir eru hins vegar sammála um að gróður sem kviknar á góu sé heldur viðkvæmur og ekki líklegur til að endast til vors. Sumir ganga svo langt að telja að hann boði beinlínis illt vor - eins og segir í vísunni (Árni vitnar í margar gerðir hennar):

Ef hún góa öll er góð,
öldin skal það muna,
þá mun harpa hennar jóð
herða veðráttuna.

Harpa er sem kunnugt er fyrsti sumarmánuður misseristímatalsins gamla - byrjar á sumardaginn fyrsta. Einmánuður er á milli góu og hörpu. Þegar flett er í erlendum alþýðuveðurspáritum kemur fljótt í ljós að þessi vantrú á mildum vetrarköflum einskorðast ekki við Ísland - slíkir kaflar eru oftar en ekki taldir illis viti - eins og flestöll gömul veðurspeki er hér um innfluttan varning að ræða.

w-blogg220221a

Blaðaklippan sem hér fylgir er úr Morgunblaðinu 27.febrúar 1964 - en þá var tíð fádæma góð. Blaðið ræddi við Jón Eyþórsson veðurfræðing, það er dálítið skondið [fyrir ritstjóra hungurdiska] að hann minnist á að menn séu þá þegar búnir að gleyma blíðunni í fyrra (1963) - en þá fór í raun og veru mjög illa. Vorið 1964 slapp hins vegar til - og vel hugsanlegt að einhver góugróður hafi lifað af. Svipað gerðist svo tíu árum síðar, 1974. [Textinn verður læsilegur sé myndin stækkuð].

En lítum nú á hita á góu og hörpu. Við notum mælingar úr Stykkishólmi 1846 til 2020 og reiknum meðalhita þessara mánaða. Góa nær venjulega yfir tæpan þriðjung febrúar og rúma tvo þriðju hluta mars, en harpa tæplega síðasta þriðjung apríl og fyrstu tvo þriðjunga maímánaðar. 

w-blogg220221

Ekki alveg einfalt að sjá - en einfalt samt (skýrari og mjögstækkanlega pdf-gerð má finna í viðhengi). Hiti á góu er sýndur á lárétta ásnum, kaldast var á henni 1881, en hlýjast 1929. Hiti á hörpu er á lóðrétta ásnum. Köldust var hún 1882, en hlýjust 1935. Fylgnin reiknast marktæk (fylgnistuðull er 0,33) - en sannleikurinn er sá að megnið af henni orsakast af almennri hlýnun beggja mánaða. Við ættum strangt tekið að byrja á því að taka hana burt - einnig á strangt tekið líka að taka tillit til þess að breytileiki hitans í mánuðunum tveimur er mjög mismunandi - mun meiri á góunni heldur en á hörpu. [Staðalvik á góu er 2,4°C, en 1,6°C á hörpu, munur á hæsta og lægsta góumeðalhita er nærri 16 stig, en ekki „nema“ 8,8 stig á hörpu]. 

Strax vekur athygli að meðalhiti á hörpu var svipaður árið 1881 og 1929 - nánast í meðallagi tímabilsins alls, góa 1881 er hin kaldasta, en 1929 sú hlýjasta. Þess er að vænta að tilfinningin hafi samt verið gjörólík þessi tvö ár. Harpa 1881 virtist mild og hlý miðað við veðráttuna frostaveturinn mikla 1880-1881, en heldur svöl 1929 miðað við hin sjaldgæfu vetrarhlýindi þá. Kalt var á góu 1882 - og mjög kalt á hörpu. Hlýtt var á góu 1974 og líka hlýtt á hörpu. Erfitt er greinilega að nota góuhitann sem spá um hita á hörpu.

Sé leitni reiknuð kemur í ljós að síðustu 170 árin hefur að jafnaði hlýnað um 1,7 stig á öld á góu, en „aðeins“ 0,7 stig á öld á hörpu. Þetta sést vel á næstu mynd.

w-blogg220221b

Súlurnar sýna mun á hita þessara tveggja mánaða frá ári til árs, rauða línan markar 10-árakeðjumeðaltal. Munur hefur minnkað - ekki þó jafnt og þétt. Hann hefur lítið breyst síðustu 50 árin. Hann var meiri á hlýskeiðinu fyrir miðja öldina (1925 til 1965) heldur en á núverandi hlýskeiði og töluvert miklu meiri á 19.öld heldur en nú. Það hefur þrisvar gerst að góa hefur verið hlýrri heldur en harpa, það var 1929, 1932 og 1963. Góa var afbrigðilega hlý öll þessi ár - og viðbrigðin því mikil. 

En hitafar var ekki það eina sem skipti máli á hörpu - leiðin til hins fullkomna vors er flóknari en svo. 

Þó góa byrji vel nú og þorrinn hafi verið harla hagstæður um meginhluta landsins (ekki þó alveg allstaðar) hefur hiti enn sem komið er ekki verið í hæstu hæðum og keppir ekki í bili að minnsta kosti við hlýjustu vetur. Við lítum á meðalhita fyrstu þriggja vetrarmánaðanna um næstu helgi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn fer vel með

Enn fer vel með veður eins og oftast nær í vetur - þó ekki hafi allir landsmenn sloppið alveg jafn vel. En síðustu dagana hefur veðrið verið sérlega blítt um meginhluta landsins og á fimmtudaginn (18.febrúar) var meðalvindhraði á landinu einn sá minnsti sem búast má við að verði á þessum árstíma, aðeins 2,2 m/s. Svo lítill hefur meðalvindhraði aðeins orðið tvisvar í febrúar á þessari öld, 2005 að vísu í nokkra daga í röð. Samanburður er erfiður langt aftur í tímann. Fyrir tíma vindhraðamæla var tíðni stafalogns ofmetin - þó tæknilega hafi e.t.v. verið logn (vindhraði <0,5 m/s) og vindhraði sem mælist 0,4 m/s teljist logn - er hann ögn en það núll sem var ritað í bækur fyrri tíðar. Um þessa ögn munar í metametingi. 

Hægastir allra febrúardaga sem við vitum um frá og með 1949 að telja eru 16. og 17. árið 1964. Meðalvindhraði á landinu reiknast aðeins 1,2 m/s. Hefðu þessir dagar lent í núverandi mælikerfi er líkleg að meðaltalið hefði orðið eitthvað hærra - kannski 1,5 til 1,7 m/s, svipað og var þann 23. árið 2005 (1,6 m/s) - örlítið minni en nú á fimmtudaginn.

Kannski man ritstjóri hungurdiska ekki nákvæmlega þessa daga - en samt eru þessir mánuðir báðir, febrúar 1964 og febrúar 2005 honum mjög minnisstæðir - og kannski eru það einmitt þessir dagar sem hafa greipst í hugann - ómerktir. 

Veturinn 1963 til 1964 var auðvitað nánast einstakur að blíðu og hlýindum - og ekki hefndist fyrir hana á jafn afgerandi hátt og árið áður, 1963. Þó má auðvitað finna einhverja bletti á orði hans. T.d. féllu stór og óvenjuleg snjóflóð á Siglufirði um jólaleytið - og skemmtileg tilbrigði voru í veðri í janúar, og í upphafi febrúar féll einhver mesti snjór sem ritstjórinn man eftir í Borgarnesi æsku sinnar - en hann hvarf fljótt í blíðunni miklu sem á eftir fylgdi. Það er einkennilegt að sum lög Bítlanna taka ritstjórann beint aftur til þessa febrúarmánaðar - fyrstu plötur þeirra tvær dembdust yfir hann í blíðunni.

Febrúar 2005 var einnig afskaplega óvenjulegur (en engir bítlar - bara Anton Webern) - þá voru vindáttir í Grænlandssundi nægilega afbrigðilegar til að hreinsa út að allmiklu leyti gamla og þétta fyllu af hafís sem lá við Grænlandsströnd suður af Scoresbysundi og Angmaksalik. Suðvestanáttir í sundinu rifu ísinn til austurs með norðurströnd Íslands og komst hann allt austur fyrir Langanes og stakir jakar suður á móts við Norðfjarðarflóa. - En íslaust var fyrir norðan fylluna og hún bráðnaði mjög fljótt - áður en hún gat valdið usla hér á landi. Þetta er samt mesta hafískoma hér við land á öldinni - fyrr á tíð hefði varla nokkur tekið eftir þessu. 

En lítum á kort þessa ljúfu liðnu daga. Myndin skýrist sé hún stækkuð.

w-blogg200221a

Dæmið frá 1964 er til vinstri á myndinni. Allar lægðir eru langt í burtu - en mikil hæð yfir norðanverðri Skandinavíu teygir anga sína til Íslands. Háloftakortið er neðan við - þar er hlýtt háþrýstisvæði yfir Íslandi. Dæmið frá 2005 er til hægri - ekki ósvipuð staða nema að hæðin í háloftunum er enn óvenjulegri. Sumarhlýtt loft er fyrir norðan land og situr þar - algjör viðsnúningur á „eðlilegu“ ástandi. Neðri hluti veðrahvolfs er að jafnaði um 7 til 8 stigum kaldari á 70°N heldur en á 60°N. - Hér er hann nærri 8 stigum hlýrri. Þessi mikli viðsnúningur er sá mesti sem við vitum um í febrúar, allt aftur til 1949. Viðsnúningur var líka 1964 - en miklu minni. 

Staðan sem hefur lengst af verið uppi í vetur er ekki sú sama og 1964 - en samt eru ættartengsl. Kuldapollurinn mikli, sem við höfum kallað Stóra-Bola hélt sig þá fjarri okkur - rétt eins og í vetur og illviðri tengd honum og lægðagangi heimskautarastarinnar hafa mikið til látið okkur í friði - afskaplega ólíkt því sem var í fyrra. En enn hafa þó stórhlýindi látið á sér standa hjá okkur. 

Við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega, mars og apríl fylgja ekki endilega því sem á undan er komið - en geta gert það. Við ljúkum þessu lauslega spjalli með því að líta á spákort fyrir norðurhvel. Það gildir á mánudaginn kemur, kl.18.

w-blogg200221b

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, en þykktin sýnd í litum. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hér má sjá báða kuldapollana stóru, Stóra-Bola yfir Norður-Íshafi norður af Alaska, hann hefur undanfarna daga mjög sótt í sig veðrið og hefur náð fullum styrk árstímans - en er kannski þó heldur minni um sig en algengast er. Síberíu-Blesi er grynnri, en mun stærri um sig. Hæð er yfir Balkanlöndum og miklum hlýindum spáð í Þýskalandi, Póllandi og víðar - mikil viðbrigði eftir kuldana að undanförnu. Mikil lægð er suðvestur í hafi - spár gera ráð fyrir því að hún hringi sig þar og viðhaldi hóflegum hlýindum hér á landi - litla sem enga aðstoð fær hún frá meginkuldanum í norðvestri.

Þessi staða virðist fremur óstöðug, en flest okkar vonum að hann haldi áfram að fara vel með veður. Við verðum samt að muna að mars er kaldasti mánuður vetrarins í 1 tilviki af sex - að jafnaði og að apríl getur stundum sýnt á sér óvenjuhörku.   

Hita hefur verið nokkuð misskipt á landinu fyrstu 20 daga febrúarmánaðar. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +2,2 stig, 1,5 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en +1,1 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 5.hlýjasta sæti aldarinnar (af 21). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,3 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 26.hlýjasta sæti (af 147). Hlýjast var 1965, hiti þá +4,8 stig, en kaldast var 1892, meðalhiti -4,8 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú -1,0 stig, -0,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -0.9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, hiti þar í fjórðahlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi, þar sem hiti er í 14.hlýjasta sætinu.

Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið mest á Skarðsfjöruvita, +1,7 stig, en neikvætt vik er mest á Sauðárkróksflugvelli, -2,5 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 28 mm og er það tæpur helmingur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 22 mm og er það um helmingur meðalúrkomu.

Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 52,8 og er það 14 stundum umfram meðallag. - Loftþrýstingur telst ekki lengur óvenjulegur.


Af árinu 1842

Árið 1842 var umhleypinga- og úrkomusamt, en sennilega eitt af fimm hlýjustu árum 19.aldar. Meðalhiti í Reykjavík var 5,4 stig, 1,5 stigi ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Aðeins einn mánuður ársins var kaldur, það var nóvember, en sjö mánuðir hlýir, janúar, mars til maí, og júlí til september. Óvenjulega hitabylgju gerði í júlí og mjög hlýir dagar komu einnig seint í apríl og snemma í október. Sjaldan frysti að ráði á útmánuðum. Rigningar spilltu fyrir heyskap um landið sunnanvert. 

ar_1842t

Mjög kaldir dagar í Reykjavík voru aðeins þrír, 8.maí, 23.ágúst og 24.október. Mjög hlýir dagar voru fimm.

Árið var mjög úrkomusamt, alla vega um landið sunnanvert. Úrkoma í Reykjavík mældist 1201 mm, það mesta á tíma úrkomumælinga Jóns Þorsteinssonar (1829 til 1854) og hefur aðeins einu sinni mælst meiri, það var 1921. Úrkoma var sérlega mikil í janúar og febrúar, en nóvember var þurr (tölur í viðhenginu).

Loftþrýstingur var sérlega lágur í febrúar og ágúst, en mjög hár í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 11.febrúar, 943,6 hPa, en hæstur þann 18.október 1031,9 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í desember, en óvenjulítill í september. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið.

Annállinn segir þó: „19. febrúar fórst bátur úr Svarfaðardal á heimleið frá Siglunesi. Drukknuðu þar fimm menn“. „19.mars (næsta laugardag fyrir páska) fórust 4 bátar nálægt Brunnastöðum á leið til Njarðvíkur. Voru þeir úr Kjós og af Hvalfjarðarströnd með 9 eða 10 mönnum“. 

Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1842 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:

Ár 1842 voru umhleypingar miklir; þá var vetur þíður og snjóalitill; sunnanáttir langvinnar, veður ókyrr og úrfelli mikil. Svo voru hægviðri sjaldgæf, að hina þrjá seinustu mánuðina komu ekki nema fjórir logndagar, hinn 2. okt., 7da, 28da og 29da des. Grasár varð í góðu meðallagi, og var sumstaðar tekið til sláttar um sólstöður, en nýting bág, á öllum þeim afla, er þurrkast þurfti, fyrir votviðra sakir. Hlutir undir Jökli tvö hundruð og þaðan af minni; í Dritvík líkt og árið áður, en vestur á Sveitum aflaðist steinbítur vel.

Árið 1842 í janúar týndust 2 drengir á Skutulsfirði. Í marsmánuði fórust 2 skip frá Gufuskálum og 1 frá Ólafsvík, öll í fiskiróðri með 30 manns. Um haustið týndist kaupskip frá Búðum á framsiglingu með 8 mönnum, var þar á Guðmundur kaupmaður Guðmundsson, ungur maður, virtur og saknaður. Þá fórst og skúta ein frá Ísafirði á framsiglingu sama haustið með 12 mönnum, og önnur á siglingu hingað út vorið eftir. Tjáist og, að skip hafi þá týnst á framsiglingu frá Hafnarfirði og hafi því verið 18 manns.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Um nýár leit vetur út þunglega, því jarðlaust var yfir allt. Mundu menn, að mestu harðindavetur voru 1802, 1812 og 1822 og allhart 1832 og líkur til þess yrði eins. Í janúar var nú blotasamt, frostalítið og fjúkasamt, oft snöp, en svellalög þau mestu. Mátti allt láglendi á skautum fara. Fyrri part febrúar stóðu hross við. Var þeim hér að mestu inni gefið 14 vikur. 8.-9. febr. hláka og gaf vermönnum vel suður. Í febrúar oft stormar og bleytiköföld, en frostalítið. Í mars stillt. Annars var á Ásum og Skagafirði á láglendi hrossajörð eftir þrettánda, utan þar ísar lágu á. Með einmánuði hláka, svo víðast kom upp jörð. ... Nóttina 15. febr. brann frambærinn í Blöndudalshólum; nýbyggt eldhús, bæjardyr og stofa ... Veður var þá hvasst og kafald. (s140)

Í veðurbók frá Odda á Rangárvöllum segir af jarðskjálfta 6.janúar.

Séra Þorleifur í Hvammi segir frá óvenjulegri snjódýpt 1.febrúar.

Séra Jón Austmann í Ofanleiti segir í veðurskýrslu í mars: Það umgetna (ofsa) veður þann 28. þ.m., tjáist elstu mönnum, það mesta sem þeir til minnir.

Brekku 2-3 1842 (Páll Melsteð): Það hefur ekki verið gaman að ferðast í vetur síðan um nýár, því veðrin hafa verið svo mikil að allt hefur ætlað í loft upp, og ennþá eru stormar á hverjum degi, svo sjaldan verður á sjóinn komist, og þó er fiskur fyrir hér á „Sviði“; eins hefi ég frétt að fiskur sé kominn í Þorlákshöfn. Nú er hart í sveitum hér syðra, því snjóa rak niður í útsynningunum fyrir fáum dögum, en allir sveitamenn eru vel birgir af heyi. 

Bessastöðum 5-3 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s201) Vetur var frostamikill til jóla, síðan geysistormar og umhleypingar, sem enn haldast við. Frostin, þegar þau voru mest, hafa líklega verið hér um bil sextán gráður. 

Brandsstaðaannáll [vor]:

Á miðjum einmánuði [snemma í apríl] (s138) kom rigning mikil og vatnsgangur með skriðuárennsli um tún og engi. Síðar lá snjór á vikutíma og fyrir sumarmál vorblíða, svo tún litkuðust og nægur sauðgróður með maí. Fóru kýr víða út um sumarmál, en lambahey allmargra var þrotið á góu. Vorið varð allt gott og blítt.

Magnús Jónsson segir af veðri í Grímsey: 23. apríl: „Mistur allt í kring“, 28. apríl: „Hitamóða allt í kring“ og 26.maí: „Mistur allt í kring“.

Annáll 19.aldar segir um sumarið:

Sumarið var þurrt og gott til hundadaga. Eftir það stórfelldar rigningar fram yfir Mikaelsmessu [29.september]. Nýttust töður vel, en úthey miður. Varð heyjafengur norðanlands í betra lagi, en lakari syðra.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

[Þ]urrkasamt í júní, lestarferðir búnar með júlí og kauptíð úti þann 10. júlí. Sláttur hófst í 12. viku og stóð yfir um 10 vikur. Tíðin gafst vel, rekjur nógar og þurrkar meðfram og töðufengur mikill, útheyskapur eins og á þurrlendi, en votengi flóði mjög seint í ágúst. Hraktist þá hey mikið allvíða og á Suðurlandi var ónýting. Um göngur náðist allt hey inn utan á Laxárdal.

Jón Austmann í Ofanleiti segir frá byl að kvöldi 2.júní og frost þá næstu nótt. [ath]

Séra Þorleifur í Hvammi segir 7.júní af stórflóði í vötnum, þann 9. júní frá mistri í suðurlofti, þrumuleiðingum kl.4.e.h. þann 10.júní og næturfrosti 18.júní.

Næturfrost var þann 12.júlí í Odda á Rangárvöllum.

Magnús í Grímsey segir: 17. júní „Snjóél um morguninn – og aftur um kvöldið“ [hiti var 2-3 stig allan daginn], 18. júní: „Sleit úr honum snjór um morguninn“, 20. júní: „Krapi um morguninn“. 4. júlí: „Stinningskaldi í morgun og krapahryðjur“. 6.ágúst: „Ísjakar á stangli norðvestur og norðaustur af eynni“. 9. ágúst: „Frost í nótt“. 23. ágúst: „Gránaði í rót af éli“. 24. ágúst: „Alhvítt land hvar sem til sást niður til byggða“. 30. ágúst: „Gerði storm á SV með krapahryðjum“. 31. ágúst: „Alhvítt í landi hvar sem tilsást“.

Þann 17. og 19.júlí gerði óvenjulega hitabylgju á landinu, e.t.v. þá mestu á allri 19.öld. Hámarkshitamælir var aðeins í Reykjavík. Hiti fór mjög víða yfir 20 stig og á fjölmörgum stöðvum yfir 25 stig. Í Reykjavík mældist hitinn 20 stig eða meira 6 daga í röð (17. til 22.), fór hæst í 27,5 stig þann 18. og 26,3 stig þann 19. Vegna mæliaðstæðna er þó ekki hægt að staðfesta þetta sem met. Á Valþjófsstað mældist mesti hiti 29°C þann 19.- þar var enginn hámarkshitamælir. Í Odda á Rangárvöllum fréttist mest af 26 stigum þann 18.júlí. Í Saurbæ í Eyjafirði mældust mest 25 stig þann 19., 24 stig mældust á Reynivöllum í Kjós þann 19. Í Glaumbæ í Skagafirði var hiti 25 stig bæði þann 18. og 19. Á Gilsbakka í Hvítársíðu mældist hiti mest 23 stig (að morgni). Athugunarmaður segir: „18.júlí. Víða í sveitinni varð fólki illt af höfuðverki og uppköstum“. Hiti virðist ekki hafa náð 20 stigum í Hítardal, í Grímsey fréttist mest af 19 stigum [þann 19. - kafþoka var um kvöldið] og á Eyri í Skutulsfirði (Ísafirði) mest af 16 stigum, þann 18., 20. og 21. og minna á Hrafnseyri í Arnarfirði. Á Ofanleiti í Vestmannaeyjum fréttist mest af 18°C. Ekki hafa allar veðurskýrslur verið rannsakaðar og líklegt að fleira leynist í þeim um þennan merka viðburð.

Á Melum í Melasveit fór hiti í 25 stig þann 18. - Jakob Finnbogason athugunarmaður segir mælinn kvarðaðan í R, en það er 31°C - eiginlega handan marka hins trúlega - nema að sólarylur komi eitthvað við sögu. En hann mælir þó þrisvar á dag. Hann lýsir veðri þessa daga og mældi hita kl.7, 12, og 18:

17. Austan stinningskaldi. Jafnþykkt loft, mistur- og morfullt. Létti til kl.9, varð heiðríkur, gekk í norðanaustankalda mor til kvölds. [Hiti 16, 21, 24 stig] 18. Norðaustan kaldi, fögur heiðríkja um allt loft. Þerrir, útræna á áliðnum degi. [Hiti 25, 25 og 20 stig] 19. Logn og norðan andvari. Heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, útræna á áliðnum degi. Þoka um kvöldið. [Hiti 22, 22, 20 stig] 20. Norðankaldi. Fögur heiðríkja um allt loft. Þoka næstliðna nótt, snörp útræna um hádegi, lygndi með kvöldinu. [Hiti 20, 15, 15 stig].

Úr veðurbók á Valþjófsstað 15. ágúst: „Sólin blóðrauð kl. 6-8 fm“.

Þann 30.ágúst snjóaði niður í byggð í Hítardal. 

Bessastöðum 25-9 1842 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s205) Sumarið hefur verið vott og kalt, nýting í lakara lagi. Norðanlands hefur það verið betra, einkum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.

Saurbæ 6-10 1842 [Einar Thorlacius] (s103) Vorið og sumarið eitthvert það fegursta og veðurblíðasta. Í apríl var hitinn í skugganum oft liðugar 20 gr. og í dag er hann 12. Þó hafa sífelldir þurrkar ásamt þeim sterka hita ollað víða á harðvelli grasbresti, og sumstaðar urmull af grasmaðki gjört mikið tjón. Þar á móti er mikið látið yfir tjóni af rigningum á Suður- og Vesturlandi.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Haustið þíðusamt og þrisvar stórrigning fyrir miðjan október. Flóði þá mikið yfir flatlendi, síðan frost og snjór með smáblotum. Með nóvember vikuþíða, síðan landnyrðingur og meðallagi vetrarveður, á jólaföstu lengi auð jörð. Á jóladaginn brast á norðan stórhríð og lagði þá að vetur með fönn og frostum. Sunnanlands varð bágt árferði, rigningavetur og slæm peningshöld, aflalítið og slæm verkun á fiski, heyskemmdasumar og urðu kýr gagnslitlar.

Þann 16.október segir veðurbók af miklum skruggum snemma að morgni í Odda á Rangárvöllum og þann 28.nóvember segir: „kl. 6 e.m. sást í hálofti líða til vesturs teikn á himni að stærð viðlíka og stór stjarna, og var birtan af því eins mikil og af skæru tunglsljósi, var líka sem ljósrák eftir þar sem það leið um og eins að sjá sem daufari og minni stjarna þar sem það endaði“. Aðfaranótt 16.desember var þar mikill skruggugangur. 

Annáll 19.aldar segir frá því að 13. nóvember hafi tveir ríðandi menn horfið niður um ís á Þjórsá. Lík annars þeirra fannst, en hitt ekki. Þetta gerðist á leið milli Kambs og Skeiða-Háholts. 

Jón Austmann í Ofanleiti segir af óstjórnandi ofsaveðri aðfaranótt 1.desember og sömuleiðis þann 5. desember var eitthvert hið mesta ofsaveður suðvestan. Hófst það síðdegis og varaði allt til miðrar nætur, og nóttina millum nær 23. og 24. desember var líka ófært veður frá suðri, aftur hljóp í suðvestur.

Þorleifur í Hvammi segir þann 30.nóvember: „8 e.m. hófust svo mikið leiftur, áður snæljós, sem ljós væri borið fyrir dyr og glugga“.

Magnús í Grímsey segir: 21. október: „Heyrðist undarlegur gegnum(kringandi) hvinur í sjónum í kvöld, sem þeir kalla hér náhljóð sjóar, og segja að boði annað hvort skiptjón eða illviðri. 24. október: „Urðu -9 stig milli hádegis og dagmála“ 21.nóvember: „Varð vart við þrjár jarðskjálftahræringar“. 22. nóvember: „Jarðskjálftahræringar“. 20. desember: „Mesta sjórót sem komið hefir í Grímsey á þessu ári“. Í lok mánaðar er þessi athugasemd: „Mestallan þennan mánuð hefir verið undarleg óstilling og tíðast blásið af tveimur áttum á dag“. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Af árinu 1841

Árið 1841 þótti hagstætt þrátt fyrir nokkra vorkulda, slæm sumarhret og mikinn kulda seint um haustið. Í heild var árið fremur kalt (að okkar tíma mati), meðalhiti í Reykjavík var 3,6 stig, -0,2 stigum neðan meðaltals næstu tíu ára á undan. Munaði mest um sérlega kaldan nóvember, þá var morgunhiti á Gilsbakka í Hvítársíðu -10°C eða lægri í 13 daga í röð. Ámóta kalt var í desember - en það er samt venjulegra. Auk þessa var einnig kalt í janúar, júlí, ágúst og október, en aftur á móti hlýtt í febrúar, mars, apríl og september, að tiltölu hlýjast í febrúar og mars, enda vel um tíð talað. 

ar_1841t 

Í Reykjavík voru 24 dagar sérlega kaldir, þar af 9 í ágúst, sá 22. kaldastur að tiltölu. Enginn dagur var sérlega hlýr í Reykjavík. 

Árið var þurrt í Reykjavík, ársúrkoman ekki nema 535 mm. Þurrast var í júní og júlí, en úrkoma var mest í mars. (Tölur í viðhengi).

Þrýstingur var sérlega hár í janúar og september og einnig hár í júlí, október og nóvember. Hann var fremur lágur í mars, apríl, maí og ágúst. Þann 4.janúar mældist þrýstingur hærri en nokkru sinni fyrr eða síðar hér á landi, 1058,0 hPa. Nákvæm tala er e.t.v. aðeins á reiki (vegna óvissu í hæð loftvogar og nákvæmni hennar) en ljóst að Jóni Þorsteinssyni athugunarmanni í Reykjavík þótti þetta mjög óvenjulegt, hann fylgdist með loftvoginni og skrifaði niður sér hæstu töluna sem hann sá. Þessi háþrýstingur stóð ekki lengi. Nánar er um þetta merka met fjallað í sérstökum metpistli á vef Veðurstofunnar

Þetta var auðvitað hæsti þrýstingur ársins, en sá lægsti mældist í Reykjavík rúmum mánuði síðar, þann 19.febrúar, 948,4 hPa. Þrýstiórói var með minnsta móti í ágúst, september og október - sem bendir til hægra veðra. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins hófust víða um land um mitt ár - og síðan árið eftir. Um þetta merka átak má m.a. lesa í skýrslu í ritasafni Veðurstofunnar. Nokkuð hefur verið unnið úr mælingum og athugunum og heldur sú vinna vonandi áfram á næstu árum. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. 

Annállinn getur þó þess tvö systkin frá Ægissíðu hafi orðið úti á Vatnsnesi 2.janúar. Þann 28.júlí sleit frá tveimur akkerum í norðaustan rokviðri hollenska fiskiskútu á Haganesvík í Fljótum og rak að landi. Menn komust af nema skipstjórinn. Tveir bændur frá Vík í Héðinsfirði fórust í snjóflóði 22.nóvember. 

Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1841 - en ekki fyrr en í 1. árgangi, 1847:

Árið 1841 var talið eitt með helstu góðárum landsins. Tvo hina fyrstu mánuðina [janúar og febrúar], og hinn níunda og tíunda [september og október], voru langvinn og sífeld staðviðri; hagar voru alltaf nægilegir, og sumstaðar gekk sauðfé sjálfala úti. Grasár varð gott, því tún og harðvelli spruttu vel, nýting sæmileg. Sjávarafli í meðallagi, vetrarhlutir undir Snæfellsjökli 4 hundruð og þaðan af minni, allt að 2 hundruð; vorhlutir í Dritvík tvö hundruð og minni, en að sínu leyti lakari í hinum verstöðunum vestra.

Árið 1841, í janúar, dóu 2 menn af róðrarskipi, sem hraktist frá Jökli til Barðastrandar. Það ár drukknuðu 2 menn af bát úr Skálavík, 7 menn. af hákarlaskipi frá Ögri í Ísafirði og 4 menn frá Felli í Tálknafirði.

Erfitt er að lesa hönd Jóns Jónssonar í Dunhaga í Hörgárdal, en þó má greina þetta (ekki orðrétt eftir haft): 

Janúar mátti kallast yfirhöfuð í mikið betra lagi, þó um tíma gerði jarðbönn. Febrúar allur mikið góður að veðráttu. Mars merkilega góður. Apríl yfir höfuð að segja góður þó síðari partur (eitthvað neikvætt). Maí mestallur mjög kaldur. Júní má kalla í betra lagi. Júlí að sönnu allsæmilegur. Ágúst má kallast hér í meðallagi og þó betri. Október misjafn mjög, þó teljast í meðallagi. Nóvember má heldur teljast í lakara lagi. Desember jarðlítið mjög.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þriðja janúar var mikil norðanhríð. Rak þá fjölda af svartsmáfugli, er kallast haftyrðill, mest í Hegranesi og Hrútafirði. Meintu margir það vissi á ís og harðindi, en veturinn varð mikið góður, því aldrei tók fyrir jörð. Snjóakafli með þorra 2 vikur, lengst stillt og mjúkt veður. 13. mars kom heiðarleysing og úr því gott vorveður.

Tíðarfari er lýst í fáeinum bréfum: 

Frederiksgave [á Möðruvöllum í Hörgárdal] 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): Vetur þessi hefir verið hinn besti það sem af er ... (s154)

Frederiksgave 15-2 1841 (Bjarni Thorarensen): ... veturinn þann besta það sem af er, (s255)

Brekku 2-3 1841 (Páll Melsteð). Menn mun ekki eins góðan vetur, að minnsta kosti hér syðra, það má segja að eigi hafi lagt glugga oftar en tvisvar, nokkru fyrir jól og svo fáum dögum eftir nýár. 

Bessastöðum 3-3 1841 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s194) Vetur hefur verið blíður og hartnær snjólaus til þessa. 

Frederiksgave 23-3 1841 (Bjarni Thorarensen): Veturinn hefir hér verið einhver hinn allrabesti enda þurfti þess með. (s175)

Frederiksgave 20-4 1841: Vetur hinn allrabesti (s298)

Frederiksgave 22-4 1841 (Bjarni Thorarensen): ... góður vetur ... menn vona að hafís komi ekki í ár, því austan átt hefir lengi dominerað og óvenjulega mikið brim með hverri norðangolu, hann er því langt í burtu. (s176)

Þann 10.febrúar segir Ólafur í Uppsölum frá mikilli „námafýlu“ - trúlega á hann við brennisteinslykt. Annars er veðurlýsing þess dags: „Sunnan stormur, hríð og frost fyrst, þá oftar rigning“. 

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir jafndægur unnið á túnum og þau grænkuðu á sumarmálum. Með maí frost og ofurmiklir þurrkar, er stöðugt hélst allt vorið. Fór grasvexti seint fram. Þó varð hann mikill í útsveitum, hálsum og votlendi.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

29. júní kom eitthvert mesta hret á þeim tíma. Mesta fannkoma var 3 dægur, síðan frost mikið, svo hestheldar urðu fannir á heiðum. Ei náði það suður yfir Sand og hálfan mánuð var snjór hér í fjöllum í góðu sumarveðri. Sláttur byrjaði 16.-17. júlí og varaði í lengsta (s136) lagi. Veðurátt varð hagstæð, rekjur góðar og nægur þerrir. 27.-28. ágúst stórfelld rigning. Skemmdist þá sæti, þar sem það var úti. Aftur 14.-18. sept. ógnarrigning. Varð þó allt hey hirt um göngur. Hélst góðviðrið út september.

Árgæska varð nú í flestum sveitum. Þó varð mikill málnytarhnekkir við fráfærnahretið. Fáheyrt var líka hér um slóðir að grasmaðkur gjöreyddi gróðri í Langadal, frá Buðlunganesi að Auðólfsstaðaá [neðanmáls: Fjallið varð hvítt og haglaust], svo skepnur flúðu á háfjöll, en Hlíðarfjall varð frítt, en skaði varð að þessu í Svartárdal og Blöndudal mót vestri og mjög víða í Skagafirði, einkum í Djúpadal. Maðkadyngjan færðist yfir í þykkum röstum, og varð hvít jörð eftir hann, færðist að túnum og þar mátti merja það mesta með fótum, eins og mola röst á túni. Spratt þar fljótt gras aftur af fitu hans, sem er ljósefni. Ei fór hann í velgróið tún, heldur jaðra og ræktarlitla bletti. Tíminn var milli fardaga og Jónsmessu. Á því maðk- (s137) étna svæði varð dáðlaust hey og hagar til mjólkurnota. Lítið varð vart við hann á hríslendinu. (s138)

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir af veðri síðustu daga júnímánaðar: 

Sunnudagur 27.júní. Kyrrt og þoka fyrst, þá hafgola, stundum sólskin. Skúrir áliðið, aftur kyrrt og þoka seinast. Veðrið alltaf hlýtt. 28. Sunnan hvass, sólskin, hlýtt, þykknaði áliðið, mistur. 29. Suðvestan frameftir, þá vestan og stundum norðan seinast og kaldur, éljaleiðingar, stundum sólskin. 30. Fyrst sunnan, þá norðan og þá úr ýmsum áttum. Kuldi, hríðarkólga útí og éljaleiðingar, sjaldan sólskin, áttin alltaf af vestri. 1.júlí. Norðan kaldur, þykkur hríðardimma í fjöllum fyrst og þá éljaleiðingar, þá sólskin, seinast kyrrt og blítt. 

Frederiksgave 23-8 1841 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir hér verið í betra meðallagi en ekki meir, því strax eftir Jónsmessu kom eftir langa sunnan- og vestanátt, hafís, svo kuldaköst hafa síðan gengið, þar á meðal nú seinustu viku af hundadögunum. Á Húsavík gat ég með góðu komið því á, að menn lögðu saman til að gera gryfju til að láta brennisteinsskol renna í þegar hann er þveginn, svo þau flytu ekki einmitt í sjó út, því menn kenndu mest um það aflaleysið sem hefir nokkur undanfarin ár verið á Skjálfandaflóa síðan brennisteinsþvottur tók þar aftur að tíðkast, en þegar gryfjan kom hefir svo viðbrugðið að á Flóanum sama hefir í sumar rétt vel fiskast, og þetta virðist að sanna meiningu almúga um skaðvæni brennisteins fyrir fiskiafla. (s257) [Bjarni lést snögglega aðeins 2 dögum síðar og jarðaður þann 4.september. Séra Jón í Dunhaga jarðsöng].

Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af næturfrosti í Eyjum aðfaranótt 3.september.

Þann 1. september segir Magnús í Grímsey snjóa- og kuldalegt, og að þann 3.september hafi alsnjóað. Einnig segir séra Þorleifur í Hvammi frá því að þar hafi snjóað niður að sjávarmáli 3.september. 

Brekku 7-10 1841 (Páll Melsteð). Héðan er fátt að frétta af Suðurlandi, nema tíðin er svo góð og blessuð alltaf, að ég hefi aldri lifað í betra veðri eða hagstæðara til allra aðdrátta og útivinnu. Heybændur eru líklega vel byrgir að heyjum, svo það er líklegt, ef veturinn verður góður, að þeir komi vel fótum undir sig. Hér við sjóinn er nú allt lakara, vertíðin var með lakara móti, vorið ekki betra. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur í áramóta]:

Í október fyrst stillt og þurr norðanátt. 11. og einkum 19. okt. lagði á fannir miklar, 30.-31. blotaði og tók upp til lágsveita, en varð gaddur á hálendi. Með nóvember aftur fönn, svo öll lömb voru tekin inn. Varð Langidalur þá fyrir meiri gaddi en aðrar sveitir. 3.-13. nóv. var stillt veður, en lítil snöp; aftur langur landnyrðings-hörkukafli og langvinn hríð ytra. 22. nóv. kom allt fé á gjöf, braut aðeins niður framan í hálsbrúnum, en sléttur gaddur yfir alla jörð neðra. Í miðjum desember voru öll hross komin á gjöf. Hörkur og óstöðugt var lengst á jólaföstu. Um nýár var meira hey uppgengið en nokkru sinni áður.

Sr. Jón Austmann í Ofanleiti segir af desember 1841: Þann 20. þ.m. var frostið um dagmál 9° en um kvöldið kl.8 -15°. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1841. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrri hluti febrúar

Meðalhiti fyrstu 15 daga febrúarmánaðar er +2,1 stig í Reykjavík, +1,7 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +1,0 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og raðast í 6.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -2,2 stig. Á langa listanum er hitinn í 27.hlýjasta sæti (af 147), fyrri hluti febrúar var hlýjastur árið 1932, meðalhiti +4,5 stig, en kaldastur var hann 1881, -5,9 stig.

Meðalhiti á Akureyri er nú -1,7 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Allmiklu munar nú í vikum landshlutanna. Hlýjast að tiltölu hefur verið við Faxaflóða og á Suðausturlandi þar sem hiti raðast í 6.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðausturlandi þar sem hitinn raðast í 16.hlýjasta sætið.

Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið mest á Skrauthólum, +1,8 stig, miðað við síðustu tíu ár, en neikvætt vik er mest á Sauðárkróksflugvelli, -3,7 stig - er þetta óvenjumikill munur.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 20,6 mm og er það aðeins 40 prósent meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 12 mm og er það einnig í þurrara lagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 38 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það um 9 stundir umfram meðallag.

Loftþrýstingur hefur verið í hærra lagi - en hefur dálítið látið undan síga síðustu daga.


Af árinu 1840

Árið 1840 var talið sjöunda hafísárið í röð og virðist ísinn hafa komist allt vestur að Reykjanesi sunnanverðu. Það var þó ekki kalt um landið suðvestanvert, meðalhiti í Reykjavík var 4,5 stig, +0,6 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan og það hlýjasta frá 1831. Reiknaður hiti í Stykkishólmi er 3,6 stig. Engar mælingar hafa fundist frá Norður- og Austurlandi. Þurrt var framan af sumri, en síðan tóku rigningar við þannig að sumarið fékk yfirleitt auma dóma. Janúar var kaldur, eins var kalt í apríl, maí, júlí og september. Aftur á móti var sérlega hlýtt í mars og einnig hlýtt í febrúar, október, nóvember og desember. 

ar_1840t 

Ellefu dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, kaldastir að tiltölu voru 25.janúar og 6.júlí. Einn mjög hlýr dagur var á árinu, 10. júní, þá fór hiti í um 20 stig í Reykjavík og sömuleiðis þann 15.júlí. 

Árið var fremur úrkomusamt - og mjög úrkomusamt ef miðað er við árin næst á undan. Í Reykjavík mældist hún 855 mm. Þurrt var í janúar og júní, en óvenjumikið rigndi í ágúst, 160 mm í Reykjavík. Úrkoma var einnig mikil í febrúar, apríl, október og desember. 

Meðalþrýstingur var óvenjuhár í mars og maí, hefur reyndar aldrei verið hærri í þessum mánuðum síðustu 200 árin. Hann var einnig fremur hár í október og desember, en fremur lágur í apríl, júlí og ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist 29.nóvember, 956,2 hPa, en hæstur 20.mars 1042,4 hPa. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur ýmis slys og óhöpp - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. Þann 23.apríl fórst skip úr Þorlákshöfn með 13 mönnum og 19.júlí drukknuðu þrír menn úr Vatnsfirði, hver af sínum bátnum. Í fyrstu viku jólaföstu hrakti 20 hross til dauðs fram af klettum í Dalasýslu. Ísbirnir voru unnir á Vopnafirði og Berufirði. 

Gestur Vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1840, en ekki fyrr en 1847:

Ár 1840 byrjaði harðindalega fyrsta mánuðinn, var þá mjög hagaskarpt fyrir útigangspening og 20 mælistiga frost, en á tveimur næstu mánuðum kom aftur besta vetrarveðrátta; voru þíður þá svo miklar á góu, að hús voru byggð vestanlands, heyhlöður og hjallar og baðstofa ein í Barðastrandarsýslu. Hinn fjórða mánuðinn voru tíðir og ákafir útsynningar, en næstu 3 mánuðina votviðri. Á ellefta mánuðinum gjörði fannir miklar og áfreða, er leystu upp undir árslokin. Grasár varð í lakara meðallagi og nýting bág á heyjum, eldivið og sjóföngum. Sjáfarafli varð í flestum verstöðum vestra jafnbetri en árið áður. Í Dritvík frekur hundraðs hlutur.

Í febrúar drukknuðu 2 menn við hafselaveiði á Ísafjarðardjúpi, og 1 maður í apríl, er varð í skipreika fyrir framan Eyrarsveit. Úr téðri sveit drukknuðu líka 5 menn í fiskiróðri, og í desember fórst skip með 6 mönnum á Ísafirði á leið frá Hnífsdal í Vigur.

Jón Jónsson (sem fluttur var að Dunhaga í Hörgárdal) segir janúar allan hafa verið harðan, mest vegna jarðbanna. Svo er að sjá að hann kvarti undan jarðleysi fram eftir febrúar en síðan hafi komið hægt þíðuveður. Sýnist hann tala um að mikið hafi snjóað í logni aðfaranótt 29. Mars yfir höfuð allur góður - nema síðasti hlutinn. Apríl segir hann í kaldara lagi. Maí segir hann kaldan og síðast hafi gert mikinn snjó í efstu byggðum og til fjalla. Júní kaldur fram að sólstöðum, en síðan betri. Fyrri hluta júlí segir hann mikið kaldan. Ágúst allur nema fyrsti partur fjarska óþurrkasamur. Fyrstu 3 vikur september mikið kaldar og oft óþurrkasamar. Október mestallur góður að veðurfari. Erfitt að lesa í nóvemberyfirlit, en helst að sjá að desember hafi verið dágóður. 

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Sama harka og hagleysi hélst til 9. jan., að blota gjörði og linviðri, svo snöp kom til lágsveita, en þraut að öllu brota-og mokjörð til hríshálsanna. Með þorra rak 3 daga hríð ísinn á Skagafjörð. Út þorra varaði hagleysið og oftar harðviðri. 18. febr. blotaði og úr því gáfust þíður og góðviðri, svo góa varð ein af þeim bestu. Aldrei kom snjór og ei hélaði glugga. Vermenn, er fóru í þorralok, tepptust 2 vikur við snjóbleytu á heið- (s134) inni og ófærar ár.

Úr nokkrum bréfum:

Laufási 10-2 1840 [Gunnar Gunnarsson] (s89) Allt til jólaföstu [1839] voru víða hér nokkrar jarðir fyrir útigangspening, en síðan hefur dunið yfir oss mesta snjófergja með sterkustu frostum, einkum síðan um jólin, þá kuldi hefur oftlega stigið til 24 allt að 28 gr., svo slái í langbakka með bata til þess kemur fram á útmánuði, þá verður óumflýjanlegur stórfellir á búpeningi hjá mörgum. Hafþök af ís skal nú vera hér úti fyrir, en ekki er nema hroði af honum kominn hér inná fjörðinn.

Frederiksgave 15-2 1840 (Bjarni Thorarensen): Tíðindin eru hvorki góð né mikil. Vetur um allt amtið með verstu jarðbönnum frá nóvemberloka til nú. Hey lítil og skemmd. ... Hafís kominn og farinn vesturmeð en í þetta sinn er hann borgarís mest og því lengra að, vona ég því að þetta verði seinasta hafísárið eins og það 7da. ... Það dómadags snjóflóð kom útí (s148) Siglufirði á sjó niður að honum sletti upp hinumegin svo skip sem þar stóðu uppi brotnuðu nokkur í spón en hin löskuðust og sjór fór þar inní kaupmannshúsin [í desember 1839] (s149)

Frederiksgave 13-2 1840 (Bjarni Thorarensen): ... en nú hefir verið vita jarðlaust um allt þetta amt síðan fyrir jólaföstu, en hey í öllum helmingi þess slæm og lítil, ... hafís kom fyrir þorrabyrjun sem þó nú hefir rekið nokkuð vesturmeð, en þareð hann var að miklu leyti borgarís sem ekki hefir verið hin árin, svo vona eg að þetta verði seinasta vor hans fyrst um sinn, því hann er lengst að kominn, líka er máltæki að sjaldan sé mein að miðsvetrarís, en auðnan má ráðu hvort það nú rætist. (s250)

Frederiksgave 16-2 1840 (Bjarni Thorarensen):: Jarðlaust um allt mitt umdæmi. – Hey allstaðar lítil, í hálfu amtinu skemmd. ... Hafís sást aftur mikill fyrir þorra sem var borgarís, ergo lengra að, svo ég vona að þetta 7da hafísvor verði það seinasta fyrst um sinna. (s169)

Bessastöðum 28-2 1840 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s187) Vetur hefur í öllum Sunnlendingafjórðungi verið til þessa hinn besti, þó nokkuð frostmikill, en veður stillt.

Frederiksgave 23-4 1840 (Bjarni Thorarensen):: Bati kom hér í þorralok og hefir síðan haldist svo ég vona nú að peningshöld verði allgóð. (s171)

Brandsstaðaannáll [vor]:

Með apríl kuldakafli, eftir það útsynningur og óstöðugt, snjór um vikutíma á sumarmálum, þá gott og gróður á eftir. Í maí kælusamt, stundum fjúkslyddur.

Tómas Sæmundsson nefnir tíð í bréfi:

Breiðabólsstað 12-5 1840 (Tómas Sæmundsson): Hér er góð tíð til landsins vegna veðurblíðunnar, þó seint sé um gróðurinn.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í júní oft hlýtt, en þó næturfrost. Í júlí þurrkar, sem ollu grasbresti. Tún spruttu fram í ágúst. Sláttur byrjaði með hundadögum. 29. júlí skipti um til votviðra og varð ei þurrkað 9 daga. Skemmdust töður hjá mörgum, er slepptu af litlum þerri. 17.-19. og 25.-26. ágúst voru einustu þerridagar. Alltaf héldust votviðrin til 25.-26. sept., að allir gátu hirt hey sín, en oft kom þó flæsustund, er nota mátti til hlítar. Féll nú heyskapur þvert á móti því í fyrra. Varð þraut mikil votengi, en allgóður heyskapur á harðlendi. 27. sept. hret og fönn mikil.

Úr nokkrum bréfum (Frederiksgave er amtmannshúsið á Möðruvöllum í Hörgárdal):

Frederiksgave 18-7 1840 (Bjarni Thorarensen): Bati kom í þorralok svo peningshöld urðu betri en áhorfðist, en hafís seinna og kuldar, borgarís mikill svo jakar standa botn á 6tugu og áttræðu djúpi, en flatísinn miklu þykkri og harðari en hin árin, því að líkindum kominn lengra norðanað, svo ég vona nú að það sé losnað sem losnað getur og menn að ári verði fríir fyrir þeim gesti ... Ég fór inspectionsferð yfir nyrðri hluta Norðurmúlasýslu og Þingeyjarsýslu og kom að Sauðanesi og Presthólum, á fyrra staðnum lá ég um kyrrt þann 6ta og 7da [júlí] vegna snjóa!! og fór þaðan þann 8da í bleytings kafaldi. (s252)

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi lýsir veðri snemma í júlí, sama hreti og Bjarni nefndi í bréfi sínu þann 18.:

3. [júlí] Norðan, kaldur, þykkur, þokufullur, oftar regn og krapi. 4. Sama kulda veður. Úrkoman minni, þó oftar súld og fýla. 5. Norðan kaldur, hvass áleið, oftar regn og krapi. 6. Norðan stormur, mikill kuldi, hríðarkrapaél og óveður. 7. Norðan hvass, mikið kaldur, þokufullur. Sólskin um tíma, seinast bleytuhríð [innskot: Allt fullt af ís norðan og austan við landið]. 

Hjálmholti 21-7 1840 (Páll Melsteð ritar Jóni Sigurðssyni): „Tíðin hefur verið nokkuð köld og þurrkasöm, af því hafísinn var að hrekjast hér fyrir landi lengi frameftir; hann lenti allt suður að Reykjanesi, kom austan með landi og lá hér rúman hálfan mánuð og fór svo suðaustur í haf. Tún eru ekki svo illa sprottin, en úthagi sárilla. Nú er sláttur byrjaður víðast hvar hér um pláss og fellur nú margt strá til jarðar hér í Flóanum“. Páll segir svo frá ferð sem hann fór upp að Geysi með Jónasi Hallgrímssyni og Japetus Steenstrup. Hann segir: „ ... veðrið var með besta móti, nærri því of heitt, því daginn sem við vorum við Geysi var 21° hiti í skugga. Ekki efast Steenstrup um það að hér megi koma upp birki og greniskógum ef sáð sé til þeirra og plönturnar friðaðar og passaðar“.

Saurbæ 28-8 1840 [Einar Thorlacius] (s92) Veturinn var snjóamikill með jarðbönnum, vorið aftaks kalt og gróðurlítið. Ollu því hafísar fyrir öllu Norðurlandi, svo sum kaupför eru hingað nýkomin og voru 10 vikur í sjó. Þó komu öll til skila. Síðan um mitt sumar hefur verið blíð og þíð veðurátt. Grasvöxtur var í meðallagi, en mesta mein að rigningum og óþurrkum.

1-9 1840 (Jón Þorsteinsson athugasemd með veðurathugunum): „Det indeværende Sommer har, med undtagelse af Junius, været meget vaad, især i August“. [Þetta sumar hefur, að undanskildum júnímánuði, verið mjög blautt, sérstaklega ágúst].

Laufási 16-9 1840 [Gunnar Gunnarsson] (s95) Það má heita að hér hafi nærri verið stöðug votviður síðan um miðjan túnaslátt eða seint í júlímánuði, og þó menn hafi súldað nokkru af því hálfblauta heyi heim í nokkrar af tóftum sínum, þá er að óttast fyrir slæmum eftirköstum, og nú liggur almennt úti mikið af heyi og sumstaðar stórlega skemmdu.

Brekku 21-9 1840 (Páll Melsteð): „Síðan þessi mánuður byrjaði hefir hér viðrað heldur stirt. Einlægt hefur verið svo stormasamt að sjaldan hefir á sjóinn gefið og þó það sé að á fiskimið verði komist, þá er þar ekki fiskur fyrir. Heyskapur er ofurlítill víðast hvar, því bæði var illa sprottið og svo hefir verið óþurrkasamt, þar til vikuna sem leið; þá kom mikið norðanveður, hér um 4 eða 5 daga, og þá hafa margir náð töluverðu heyi í garð. Lakastar eru töður manna úthey er nokkru skárra“.

Bessastöðum 20-9 1840 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s192) En svo lítur út, að árferði muni nú töluvert spillast vegna rigninga, sem gengu allan ágústmánuð út og fram til þess 10. sept. Að sönnu kom í ágúst einstaka hálfur dagur þurr, en það vildi nú lítið hjálpa.

Frederiksgave 7-10 1840 (Bjarni Thorarensen): ... frá 20ta til 27da desember [ritvilla fyrir september] voru hér dýrmætir dagar, svo allir náðu heyi sínu heim, en sjálfsagt er að það var víða skemmt stórum einkum á útkjálkum. Ástandið er samt miklu betra, einkum austanmeð en í fyrra um þetta leyti. Komist nú Norðurland af í vetur, vona ég að þess Crisis sé úti, því þetta er 7da hafísárið, þau eru sjaldan vön að vera fleiri, en þar að auki hefir sá fjarskalegi ís sem hingað hefir í ár komið verið annars eðlis en hin árin, því flatísinn hefir verið miklu þykkari og þar að auki komið með honum borgajakar sem menn segja að hafi staðið botn á 6tugu og 8ræðu djúpi!. Hann er því langt að kominn kannski frá sjálfum Nástrandar Dyrum, og ekki ólíklegt að það sé losnað sem losnað getur. (s253)

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í október lengst þíður og þrisvar ofsaveður á suðvestan, stundum miklar rigningar. Í nóvember fyrstu 10 daga mesta blíðviðri, þurrt og þítt, eftir það frost og auð jörð, 8 daga þá óstöðugt, þó gott vetrarfar, jörð nóg og hláka um jólin. Austurlandið umkringdi hafísinn allt til Vestmannaeyja um vorið og hélst við fram í júlí og olli það grasbresti. Höfðaskipin komu nú vestan fyrir mót venju, því aldrei festist ísinn hér við á flóanum. Sigling kom í júní. (s135)

Frederiksgave 22-10 1840 (Bjarni Thorarensen):: ... þetta sumar hefir orðið affarabetra en áhorfðist fyrir allan eystri hluta amts þessa, því þar rættist nokkuð úr grasvexti og nýting varð bærileg, en allt því lakara því vestar sem dró. (s172) Í Vopnafirði klagaði maður fyrir mér sem sat á 16 (hndr) jörð hvað hún hefði spillst við skriðu og vildi fá hana niðursetta, en ég sá jörðina sjálfur og fann að hún hafði grösugt votengi víðlent, stórt vænt tún hvaraf hérum ½ dagslátta lá þakin moldu af skriðu þessari, hitt fagurgrænt en fjallhagar nógir. (s173)

Frederiksgave 29-12 1840 (Bjarni Thorarensen):: Veturinn hefir hér verið hinn æskilegasti það sem af er. Nýting á heyi í eystra parti ríkis míns allbærileg, lakari í vestri partinum, ... menn hyggja og ég með, að hafís nú sé langt í burtu, því flatísinn var í sumar dæmalauslega þykkur, en nú er í hverri norðangolu dæmalaust brim á útkjálkum sem sýnir að hún blæs yfir langan sjó. (s174)

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1840. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar febrúarmánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga febrúar er +1,0 stig í Reykjavík, +1,0 stigi ofan við meðallag sömu daga áranna 1991 til 2020, en í meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 9. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2017, meðalhiti þá +3,4 stig, en kaldastir voru þeir árið 2009, meðalhiti -3,7 stig. Á langa listanum er meðalhiti nú í 48.sæti (af 147). Hlýjast var 1965, meðalhiti þá 6,0 stig, en kaldast var 1912, meðalhiti -7,9 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins -3,3 stig, -,19 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -3,3 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast við Faxaflóa og á Suðurlandi, hiti í 9.sæti á öldinni, en kaldast hefur verið á Austurlandi þar sem hiti er í 18.hlýjasta sætinu (af 21).

Talsverður munur er á hitavikum eftir landshlutum. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Skrauthólum á Kjalarnesi þar sem hiti er +0,9 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið í Svartárkoti þar sem hiti er -5,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 10,7 mm, um þriðjungur meðalúrkomu sömu daga. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 10,1 mm og er það um helmingur meðalúrkomu.

Í Reykjavík hafa mælst 36,2 sólskinsstundir, 17 stundir yfir meðallagi og hafa 12 sinnum verið fleiri sömu daga síðustu 109 árin.

Loftþrýstingur hefur verið hár, en er þó nokkuð langt frá meti.


Fannfergið mikla í árslok 1978

Veturinn 1978 til 1979 er ritstjóra hungurdiska mjög eftirminnilegur. Skömmu fyrir jól lauk hann embættisprófi í veðurfræði (eins og það hét þá) í Bergen í Noregi og hóf störf á Veðurstofu Íslands í lok janúar. Dvaldi reyndar á heimaslóð við próflestur í október og fram eftir nóvember - en síðan í Bergen til prófs. Nóvember þessi (1978) var minnisstæður fyrir óvenjulega ásókn smálægða sem ollu miklu fannfergi um landið suðvestan- og vestanvert. Hungurdiskar hafa áður fjallað um þá merkilegu daga. Undir lok mánaðarins gerði mikla hláku og reyndar óvenjulegt úrhelli sums staðar suðvestanlands. Mældist þá mesta sólarhringsúrkoma til þess tíma á Stórhöfða í Vestmannaeyjum [142,0 mm] - met sem raunar féll naumlega ári síðar - líka í einkennilegu veðri [145,9 mm]. Allan snjó tók upp á skömmum tíma og veður lagðist í eindregnar austanáttir - sem stóðu að heita allan desember. 

Svo segir um desemberveðurlag 1978 í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands:

„Tíðarfarið var með eindæmum hagstætt, milt lengst af, hægviðrasamt og snjólétt. Hagar voru góðir og sauðfé gekk víða úti. ... Fyrstu 13 daga mánaðarins voru lægðir suðvestur eða suður í hafi, en hæð var lengst af yfir Norðurlöndum“.

Síðan varð vindur norðaustlægari út mánuðinn. Úrkoma var aðeins um þriðjungur af meðallagi í Reykjavík allan mánuðinn og alveg þurrt var alla daga frá þeim 19. og fram yfir hádegi þann 30. Einnig var þurrt víða fyrir norðan en úrkoma var ofan meðallags sums staðar á Austur- og Suðausturlandi. 

w-blogg-100221_1978-12-31-a

Meðalþrýstikort desembermánaðar 1978 ásamt þrýstivikum. Óvenjulega þrálát austanátt var ríkjandi í mánuðinum, suðaustlæg fyrri hlutann, en síðan norðaustlægari. Mánuðurinn er ofarlega á lista yfir þrálátustu austanáttir í desember. 

Þann 30. dró til tíðinda. Ekkert benti þó til þess í upphafi dags. Ritstjóri hungurdiska gekk til útfarar í Borgarneskirkju eftir hádegi þennan dag - hann leit upp til sveitar af Kirkjuholtinu og sá þar tiltölulega meinlaus lágský á sveimi - eitthvað féll úr þeim - en virtist ekki mikið. Hann hafði heyrt eftirfarandi veðurspá fyrir Faxaflóa lesna með hádegisfréttum:

„Norðaustan gola eða kaldi og bjart veður“.

Við lok útfarar var komið él. Þá var ekkert að gera en að bíða eftir veðurspánni sem lesin var í útvarp kl.16:15 og gæta þess að missa ekki af henni: „Austan- og norðaustan kaldi. Dálítil él í kvöld, en annars skýjað með köflum“. - En lítið var um éljaskil það sem eftir lifði dags og smám saman jókst ákafi snjókomunnar. Morguninn eftir snjóaði enn - og kominn var kafsnjór - nánast jafnmikill og verið hafði í „mikla snjónum“ í nóvember. Satt best að segja tók veðurspáin varla við sér. Næsta spá, kl.22:30 hljóðaði svo: „Snjókoma með köflum í nótt, en léttir heldur til á morgun, en þó él á stöku stað“. En rétt fyrir hádegi á gamlársdag stytti loksins upp við Faxaflóa. 

Hugur þess nýútskrifaða var beggja blands. Hvað var hér á seyði? Átti hann eftir að fá annað eins í hausinn - „óspáð“? [Auðvitað átti hann eftir að lenda í því - hvað annað]. Ekki voru sömu upplýsingar á borðum veðurfræðinga þá og er í dag. Tölvuspár voru afskaplega ófullkomnar - breska 24-stunda 500 hPa-háloftaspáin sú besta - en 48-stunda spár voru afskaplega óáreiðanlegar - það var þó ekki hægt að treysta því alveg að þær væru rangar. Nú verður ritstjóri hungurdiska að játa að hann hefur ekki séð þær tölvuspár sem þarna voru þó fáanlegar - en hann hefur séð veðurathuganirnar og háloftaathuganir frá Grænlandi þar með. 

w-blogg-100221_1978-12-31-b

Hér má sjá endurgreiningu japönsku veðurstofunnar á sjávarmálsþrýstingi, úrkomu og hita í 850 hPa um hádegi 30.desember 1978. Þar má sjá litla lægð fyrir norðaustan land - tæplega þó lokaða hringrás (eða rétt svo). Varla þarf að taka fram að engar athuganir var að hafa frá þessu svæði - og þó svo hefði verið hefði verið erfitt að sjá að „lægðin“ stefndi til suðvesturs - hvað þá að henni fylgdi einhver úrkoma. Einhver úrkomubönd hafa þó sjálfsagt verið sjáanleg á daufum gervihnattamyndum sem Veðurstofan fékk sendar - þó ekki með alveg reglubundnum hætti. 

w-blogg-100221_1978-12-31-c

Háloftakortið er skýrara - þar má sjá að hæðin sem ráðið hafði ríkjum undanfarna 10 daga var að gefa sig og hún hörfar til vesturs undan lægðardragi og meðfylgjandi kuldaframrás úr norðri (örin). Það mátti sjá þetta lægðardrag á kortum á Veðurstofunni þennan dag.

w-blogg-100221_1978-12-31-k

Þetta er ekki frumritið - heldur afrit (riss) sem ritstjóri hungurdiska gerði nokkru síðar þegar hann var að klóra sér í höfðinu yfir þessum atburði. Jafnhæðarlínur eru grástrikaðar, en jafnhitalínur dregnar með rauðu. Framsókn kalda loftsins sést vel - sömuleiðis að hæg suðlæg átt er í háloftum á Tobinhöfða - en ákveðin norðvestanátt yfir strönd Grænlands þar fyrir sunnan. Eitthvað er greinilega á seyði - en að fara að spá meiriháttar snjókomu út á þetta eina kort er glórulítið - rétt að bíða þess sem verður og reyna að halda í horfinu. 

w-blogg-100221_1978-12-31-d

Hér er kort sem sýnir veður á landinu kl.9 að morgni gamlársdags. Snjókomubelti liggur yfir því vestanverðu. Þetta belti hafði legið hreyfingarlítið á svipuðum slóðum frá því að snjókoman byrjaði upp úr hádegi daginn áður - varla mótar fyrir lægðinni. Þegar á daginn leið þokaðist snjókoman til austurs og um síðir snjóaði einnig mikið sums staðar á Suðausturlandi - en stytti upp vestanlands. Bjartviðri var vestan við - eða svo er að sjá. 

w-blogg-100221_1978-12-31-e

Japanska greiningin sér lægðina/lægðardragið enn greinilega á korti sem gildir á hádegi á gamlársdag. Það er nú skammt undan Suðvesturlandi og alláköf úrkoma þar um slóðir. Taka ætti eftir illviðrinu sem geisaði í Evrópu - bæði þennan dag og daginn áður. 

w-blogg-100221_1978-12-31-f

Ekki veit ritsjórinn hvort þessi gervihnattamynd barst Veðurstofunni - og hafi hún gert það var hún mun ógreinilegri. Þetta er hitamynd sem tekin er eftir hádegi á gamlársdag. Þar má sjá greinilega lægðarhringrás fyrir vestan land [sést betur sé myndin stækkuð] - skilasinnaðir gætu meira að segja sett þarna allar gerðir skila, hita- og kuldaskil, samskil og meira að segja afturbeygð samskil (sting). Það er hins vegar sérkennilegt við þessa „lægð“ að hún kemur varla fram á þrýstikortum - alla vega ekki svona vel sköpuð. Þá fer loks að verða ljóst hvers eðlis er. 

Eins og nokkrum sinnum hefur verið getið um á hungurdiskum áður (en eðlilegt er að enginn muni) er ekki „nauðsynlegt“ að vindur blási í hringinn í kringum lægðakerfi - og gerir það raunar aldrei alveg. „Lægð“ - þar sem enga suðvestanátt er að finna suðaustan lægðarmiðjunnar getur litið „eðlilega“ út á mynd - sú hin sama „lægð“ getur jafnvel hreyfst til suðvesturs - algjörlega andstætt við það sem „útlit“ hennar bendir til að hún geri. Það eina sem þarf að fara fram á er að norðaustanáttin suðaustan við lægðarmiðjuna sé minni, og helst miklu minni, heldur en norðaustanáttin norðvestan miðjunnar. „Öfugeðli“ sem þetta er því algengara sem kerfið er minna. Í gömlum hungurdiskapistli má finna mjög skýrt dæmi um lægð sem þessa - en að sumarlagi (svo lítt var eftir henni tekið). 

Í þessu tilviki má segja að háloftalægðardragið eigi ábyrgðina - það býr kerfið til - gaman væri að fylgjast með þróun þess í nútímaspálíkani - allt frá óljósu úrstreymi - og tilheyrandi uppstreymi þar til skýjakerfið hefur hringað sig eins og sjá má á myndinni að ofan. Dragið fór síðan til austurs og lægðin með. 

Á myndinni má einnig sjá tvær gular örvar. Önnur sýnir (fallega?) éljaslóða í ískaldri austanátt yfir hlýjum Norðursjó - en hin bendir á hafísbrúnina rétt hjá Jan Mayen. Þetta mikill hafís hefur ekki sést lengi á þessum árstíma svona austarlega. Lítið hefur verið um hafís hér við land síðan vorið 1979 - veturinn 1980 til 1981 leit illa út um tíma, en ísinn hörfaði þá frá landinu undan suðaustanáttum í febrúar - rétt þegar hann virtist vera alveg að koma. Hvað síðar verður vitum við auðvitað ekki. 

w-blogg-100221_1978-12-31-g

Þetta kort sýnir tveggja daga ákomu snævar á landinu. Langmest snjóaði á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum - heldur minna í Borgarfirði og fyrir austan fjall. Sömuleiðis snjóaði nokkuð sums staðar fyrir norðan og á Suðausturlandi, en lítið á Snæfellsnesi og á mestöllum Vestfjörðum. Snjódýpt var reyndar sums staðar meiri norðaustanlands (og á Hveravöllum) en tölurnar sýna - en sá snjór var áður fallinn. Autt hafði verið á öllu Suður- og Vesturlandi.

w-blogg-100221_1978-12-31-i

Blöð komu ekki út um áramótin - snjókoman byrjaði eftir að prentun var lokið fyrir þau. Þess vegna er ekkert mjög mikið af fréttum af snjókomunni. Stærsta fyrirsögnin var í Dagblaðinu síðdegis 2.janúar. Morgunblöðin birtu fréttir af færð og snjó daginn eftir - þegar þau komu fyrst út á nýju ári - en ekki með miklum fyrirsögnum. Morgunblaðið sagði þó á forsíðu frá afleitu ástandi í Evrópu og vestanhafs. Lesa má þessar fréttir með því að stækka myndirnar - eða fletta þeim upp á timarit.is - en þaðan eru þær fengnar (eins og venjulega). 

w-blogg-100221_1978-12-31-j

Snemma í janúar gerði skammvinnan útsynning - þá daga var ritstjórinn að leita að húsnæði í Reykjavík (og fann - fyrir makalausa tilviljun). Síðan gekk á ýmsu - en snerist loks til norðankulda út mánuðinn og varð janúar mjög kaldur. Á Veðurstofunni sjálfri gekk í mikið stormviðri sem flæmdist í blöðin - látum eiga sig að rifja það frekar upp. Febrúar var nokkuð kaldur framan af en síðan hlýrri - og þá gekk á með nokkrum skakviðrum. Mars varð síðan óvenjukaldur og ekki var hlýtt í apríl.

loftslagsbreytingar-thjodviljinn-sjonvarp_1979-04-03

 

Þriðjudaginn 3.apríl tók ritstjórinn þátt í sjónvarpsþætti um veðurfarsbreytingar - ásamt sér þroskaðri og merkari mönnum. [Fréttin er fengin úr Þjóðviljanum þann dag - enn með aðstoð timarit.is]. Lá við ofdrambi fáeina daga á eftir - en slíkt gleymdist fljótt í hinum hræðilega og illræmda maímánuði - sem var hreint afturhvarf til harðinda 19.aldar - ásamt septembertíðar sama ár. Virtist allt stefna til ísaldar - ef ekki þeirrar litlu - þá stórusystur sjálfrar. Þó voru þeir til sem héldu sönsum og sögðu mikil hlýindi í vændum - eiginlega sama hvað. 

Í viðhengi má sjá veðurspár fyrir Faxaflóa þessa daga og veður í Reykjavík 30. og 31.desember 1978 og 1.janúar 1979. Þar er einnig listi með tölunum á snjódýptarkortinu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband