Bloggfærslur mánaðarins, júní 2020
30.6.2020 | 22:35
Hlýr júní
Þegar litið er á landið í heild var þetta hlýr júní. Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 9,4 stig, +0,8 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Samkeppnin á þessari öld er þó hörð - flestallir júnímánuðir eftir aldamót hafa verið hlýir.
Hitanum hefur þó aðeins verið misskipt. Um landið norðaustan- og austanvert er mánuðurinn í 6.hlýjasta sæti á öldinni, en suðvestanlands hefur verið tiltölulega svalara, hiti í 12.hlýjasta sæti.
Hér má sjá að sé litið til enn lengri tíma eru ekki mjög margir júnímánuðir hlýrri en þessi og að júnímánuðir hafa almennt verið mjög hlýir á þessari öld, helst að stuttur tími frá því um 1932 til 1941 hafi verið sambærilegur. Lengi máttum við þreyja kalda júnímánuði upp á hvert einasta ár, áratugum saman. Á þessari öld eru 2011 og 2015 þeir nokkuð eimana sem kaldir - og 2001 reyndar líka. Víð bíðum svo uppgjörs Veðurstofunnar varðandi hita,úrkomu og sólskinsstundir á einstökum stöðvum.
Línurit eins og þetta segir ekkert um framtíðina. Rétt að taka fram að við tökum ekki allt of mikið mark á landsmeðaltölum fyrir 1875 (gráa svæðið).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2020 | 02:16
Af stöðunni
Þessa dagana eru óvenjuleg hlýindi víða í Skandinavíu - ef trúa má fréttum og jafnvel líklegt að þau haldist í nokkra daga. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð, meðalþykkt og þykktarvik í alla þessa viku - eins og evrópureiknimiðstöðin taldi í gær (mánudag 22.júní) þau verða.
Þykktarvikin eru sýnd í lit, en jafnhæðarlínur eru heildregnar, jafnþykktarlínur strikaðar. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, hún er við meðallag árstímans hér á landi, um 5430 metrar. Á rauðu svæðunum er í Skandinavíu og Kanada er hiti meir en 5 stig ofan meðallags - það er mikið fyrir heila viku. Þar sem kaldast er fyrir sunnan land er hitinn um 3 stig neðan meðallags.
Hér á landi ræður mikil háloftalægð ríkjum - henni fylgir skýjað loft að mestu og óstöðugt með viðloðandi úrkomu víða um land - mestri þó þar sem háloftavindur stendur af hafi - eins og hann gerir á Suðausturlandi.
En þetta er meðaltal allrar vikunnar. Útaf því bregður einstaka daga. Margar spár gera nú ráð fyrir því að sneið af hlýja loftinu fyrir austan land komi vestur um um næstu helgi. Heldur er það óvíst reyndar - sýnd veiði en ekki gefin eins og oft áður.
En við lítum til gamans á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag. Þar er gert ráð fyrir umtalsverðum hlýindum yfir landinu, þykkt nærri því í 5600 metrum - en því miður eru líkur á skýjuðu veðri, vindi - og jafnvel úrkomu líka. Ef vel hittir í gæti hitanum hins vegar slegið niður - og farið vel yfir 20 stig um landið vestanvert.
Verði af þessum hlýindum (alls ekki víst) er því jafnframt haldið fram að þau standi ekki lengi. Síðasta kortið sem hér er sýnt er þó vísast della - gildir á hádegi fimmtudaginn 2.júlí.
Snarpur kuldapollur er fyrir norðaustan land - þykktin ekki nema 5290 metrar í miðju hans, 15 stigum lægri en mest er spáð í hlýindunum fáeinum dögum áður. Svona lág tala er óvenjuleg í júlí - enda líklegast að þessi spá sé ekki rétt - við vitum það samt ekki.
21.6.2020 | 02:55
Tuttugu júnídagar
Tuttugu júnídagar. Meðalhiti í Reykjavík er 9,3 stig, -0,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,5 neðan meðallags síðustu tíu ára og í 15.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2002, meðalhiti 11,5 stig, en kaldastir voru þeir 2001, meðalhiti 7,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 47. sæti (af 147). Hlýjast var 2002, en kaldastir voru sömu dagar 1885, meðalhiti þá aðeins 6,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 10,8 stig, 1,7 stigi ofan meðallags 1991 til 2020, en +1,3 ofan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast á Suðurlandi og við Faxaflóa, hiti í 15.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi, hiti þar í 7.hlýjasta sæti á öldinni.
Á einstökum stöðvum er hlýjast að tiltölu á Rauðanúpi, hiti +1,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast hefur verið í Þúfuveri, hiti þar -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma hefur mælst 41,1 mm í Reykjavík, það er hátt í 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 14,1 mm - ekki fjarri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 117,7 í Reykjavík, lítillega undir meðallagi.
18.6.2020 | 20:36
Spár með hjálp loftvogar og hitamælis
Við höldum nú í róður á vafasöm mið, vafasöm að því leyti að veiði þar er harla rýr og fæstum þykir einu sinni taka því að kasta þar út færi. - Róðurinn verður þyngri eftir því sem á líður textann. En hugsanlegt er að þolinmóðir lesendur fái eitthvað smávegis fyrir sinn snúð. Óþolinmóðir sleppa þessum pistli alveg.
Skipta má sögu veðurspáa í nokkur tímabil, ekki þó þannig að einu ljúki ákveðinn dag og það næsta taki við þann næsta. Í raun taka skipti áratugi.
Fyrsta tímabilið var algjörlega án mælitækja. Menn vissu nákvæmlega ekkert um veður nema þar sem þeir voru sjálfir staddir og þurftu að reiða sig á innsæið eitt. Smám saman urðu e.t.v. til einhverjar reynslureglur sem fluttust milli héraða og landa kannski jafnvel til svæða þar sem þær gátu ekki átt við. Slíkar reglur heyrast stundum enn: Kvöldroðinn bætir, morgunroðinn vætir eða öskudagurinn á sér 18 bræður á föstunni.
Á öðru tímaskeiðinu komu ýmis mælitæki til sögunnar, hitamælar, loftvogir, rakamælar og sitthvað fleira. Kom þá í ljós að eitthvað gagn mátti hafa af tækjum þessum við veðurspár og víst er að þau lögðu grunn að frekari framförum, bæði fræðilega sem og notkun tækjanna á þriðja skeiðinu en ekki var hægt að fylgjast með veðri nema staðbundið.
Á þriðja skeiðinu hélt fjarskiptatæknin innreið sína og farið var að gera reglubundnar veðurspár miðlægt og smám sama urðu líka miklar fræðilegar framfarir sem leiddu svo til frekari mælinga, m.a. í háloftum. Alþjóðasamstarf þróaðist og blómgaðist.
Á fjórða skeiðinu var orðið mögulegt að reikna veðurspár í tölvum og upplýsingar tóku að berast frá gervihnöttum, fyrst myndir en síðan mælingar á ýmsum veðurþáttum. Stór framfaraskref voru tekin um 1980 og sér ekki enn fyrir enda á framförum bæði í spám og miðlun þeirra.
Í því sem hér fer á eftir lítum við til annars skeiðsins jú, við vitum mun meira um veður og veðurfræði heldur en menn gerðu þá en við veltum vöngum yfir því hvernig veðurspár hægt er að gera án þess að vita neitt um veður annars staðar og án þess að komast í veðurspár reiknimiðstöðva.
Einfalda svarið er auðvitað það að við erum meira eða minna bjargarlaus alla vega erum við dæmd til að tapa í samkeppni við nútímaaðferðir. Því er meira að segja haldið fram að það taki því ekki einu sinni að velta vandamálinu fyrir sér svo vonlaust sé það. Að sumu leyti getur ritstjóri hungurdiska tekið undir það, en það getur samt verið lærdómsríkt að reyna.
En hver eru tækin sem má nota og hverju þarf að fylgjast með?
Við höfum fyrst og fremst loftvog og hitamæli, rakamælir að auki getur komið að gagni, en við sleppum að fjalla um gagnsemi hans hér. Auk þess er alveg bráðnauðsynlegt að gefa vindi og útliti loftsins gaum, einkum skýjafari.
Það er hægt að nota loftvog eina og sér til að sjá sumar veðrabreytingar fyrir, en margt flækir það mál. Það hvort loftvog stendur hátt eða lágt segir út af fyrir sig ekki mikið um veður. Líkur á björtu veðri eru þó meiri sé loftvog há og líkur á skýjuðu veðri og úrkomu eru meiri standi loftvog lágt. Þó ber alloft við að dumbungsveður fylgi háum þrýstingi og bjart veður lágum. Breytist þrýstingur lítið eru líkur á veðurbreytingum minni en þegar hann breytist hratt. Miklar veðrabreytingar geta átt sér stað án þess að loftvog hreyfist nokkuð sem heitir.
Venja er að hraði þrýstibreytinga sé miðaður við 3 klst (tíminn á milli hefðbundinna veðurathugana). Þegar fall eða ris er meira en 2 til 4 hPa á 3 klukkustundum er eitthvað á seyði. Til að vita hvað það er hverju sinni þarf að huga að fleiru.
Loftvog er mjög mikilvægt tæki við veðurspár, en ekki að sama skapi auðvelt viðfangs, sé vitneskja um dreifingu loftþrýstings á stóru svæði ekki fyrir hendi. Allmikla reynslu og fyrirhöfn þarf til að nýta hana þannig að raunverulegt gagn sé af og nánast óhugsandi gefi menn ekki öðrum þáttum veðursins, svo sem hita, vindi og skýjafari, nánar gætur á sama tíma.
Gömul rit, frá því á áðurnefndu öðru tímaskeiði fjalla nokkuð um gagnsemi loftvogar. Í einu þeirra segir[1] í lauslegri íslenskri þýðingu (Fitzroy og Clausen, 1864, s.11): Til að öðlast þekkingu á ástandi loftsins verður ekki aðeins að fylgjast með loftvog og hitamæli, heldur verður einnig af athygli að gefa útliti himinsins nákvæmar gætur. Þetta nefndum við hér að ofan.
Loftvog mælir hversu mikið af lofti hvílir ofan á þeim stað þar sem mælt er. Miklar lóðréttar hreyfingar loftsins (jafnvel langt fyrir ofan) geta þó haft áhrif á mælinguna en þær skipta þó sjaldnast neinu máli fyrir hinn venjulega notanda og í því sem hér fer á eftir höfum við engar áhyggjur af slíku.
Loftvogin var fundin upp á Ítalíu á fyrri hluta 17.aldar[2]. Fyrstu loftvogirnar voru dýrar og erfiðar í framleiðslu sömuleiðis var erfitt að kvarða þær. Til þess að það sé unnt þarf að taka tillit til fjölmargra atriða[3]. Allmikið er til af þrýstiathugunum víða um lönd frá 18. öld, en þegar kom vel fram á þá 19. voru tækin orðin ódýrari, öruggari og meðfærilegri. Þá fjölgaði loftvogum í einkaeigu mjög. Lengi vel notuðust nær allar loftvogir við fremur ómeðfærilegt kvikasilfur, en síðan komu svonefndar dósarloftvogir[4] til sögunnar. Þær eru að vísu flestar hverjar mun ónákvæmari heldur en kvikasilfursvogirnar, en geta samt komið að ámóta gagni og þær veigameiri sé aðeins verið að fylgjast með á einum stað og mikil nákvæmni því ekki nauðsynleg.
Loftvogarsíriti auðveldar mjög að fylgjast með þrýstingi armur sem ritaði feril á blað kom þá í stað hefðbundins vísis á dósarloftvog. Nútímadósarloftvogir, t.d. þær sem eru í sumum símum geta margar hverjar sýnt þrýstibreytingar á sama hátt jafnvel sýnt þrýstiferla aftur í tímann, eins og óskað er.
Meðalþrýstingur við sjávarmál á heimsvísu er um 1013 hPa, en hér á landi um 1005 hPa. Loftþrýstingur breytist mjög ört með hæð, í neðstu lögum fellur hann um um það bil 1 hPa fyrir hverja 8 metra hækkun frá sjávarmáli. Loftvogir eru því mjög gagnlegir hæðarmælar. Þegar ofar kemur dregur heldur úr fallinu en þrýstingur helmingast um það bil við hverja 5 km hækkun. Í rúmlega 5 km hæð er hann því um helmingur þess sem er við sjávarmál, um 500 hPa, og aftur helmingur þess, um 250 hPa í 10 km hæð.
Dósarloftvogir eru á allra síðustu árum orðnar mun áreiðanlegri og smærri, jafnvel komið fyrir í símtækjum. Hafi menn hugsað sér að nota símaloftvog sem veðurspátæki verður hverju sinni að leiðrétta fyrir hæð yfir sjávarmáli [ kannski eru til öpp sem gera það sjálfvirkt eftir gps-staðsetningu símans]. Sé hins vegar alltaf lesið af voginni á sama stað skiptir hæðarleiðréttingin hins vegar engu máli (nema að samanburður sé jafnframt gerður við aðrar loftvogir, t.d. með lestri veðurskeyta).
Loftvogin er gagnlegust þegar aðgengi er að samtíma samræmdum þrýstimælingum frá stórum svæðum. Þá er hægt að teikna þrýstikort og marka för þrýstikerfa um heiminn. Af dreifingu þrýstingsins og nýliðnum breytingum hans má jafnframt draga ályktanir um bæði vindátt og vindhraða og hvernig vindur og jafnvel aðrir veðurþættir muni hegða sér næstu klukkustundir eða jafnvel til lengri tíma.
Þegar fjarskiptakerfum var komið upp í Evrópu og Ameríku um miðja 19. öld urðu því miklar framfarir í veðurspám. Loftskeyti frá skipum á hafi úti fóru að berast veðurstofum um og upp úr aldamótunum 1900 og haustið 1906 fóru veðurskeyti loks að berast frá Íslandi til veðurstofa í öðrum löndum. Þeim var vel tekið margs konar veður sem skellur á Evrópu kemur frá Íslandi.
En við skulum reyna að halda okkur við þá möguleika sem ein stök loftvog í stofunni [eða í símanum] getur gefið okkur.
Æskilegt er að tækið sé í upphafi stillt nærri þeim sjávarmálsþrýstingi sem mælist þá stundina á nálægri veðurstöð. Fjölmargar mælistöðvar eru á landinu og má finna þrýsting þeirra á klukkustundarfresti á vef Veðurstofunnar. Sömuleiðis er æskilegt að þrýstingur sé ekki mjög afbrigðilegur þann dag sem byrjað er að fylgjast með. Ástæðan er sú að villur í kvörðun ódýrra voga eru oft mestar við hæstan eða lægstan þrýsting. Sé sími notaður þarf að hafa hæðarleiðréttingar í huga nema að allaf sé lesið á loftvog hans á nákvæmlega sama stað.
Eins og við allar aðrar mælingar þarf að læra á tölurnar, hvað er venjulegt og hvað ekki. Slíkt tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma. Í hefðbundnum veðurskeytum má auk loftþrýstings á athugunartíma finna upplýsingar um hversu mikið þrýstingurinn hefur breyst síðustu 3 klst. Þeir sem lengi fylgjast með þrýstingi fá fljótt á tilfinninguna hvaða breytingar eru venjulegar og hverjar ekki.
Í um 55 prósent tilvika er þrýstibreyting (ris eða fall) innan 3 klukkustunda minni en 1 hPa hér á landi, minni en 2 hPa í um 80 prósentum tilvika og minni en 5 hPa í nærri því 98 prósentum tilvika. Mikilvægt er að átta sig á því að þessar (að því er virðist) hægu breytingar safnast upp. Sá tími sem tekur stórt þrýstikerfi að fara yfir landið er dæmigert 3 til 5 dagar. Sé um lægðarkerfi að ræða fellur þrýstingur gjarnan í 1 til 2 daga, breytist síðan lítið í einn og rís síðan aftur í 1 til 2 daga. Meginhluti breytinganna, frá hástöðu til lágstöðu og aftur til hástöðu á sér þó stað á styttri tíma, oft á um 12 til 18 klukkustundum eða minna í hvora átt. Það er ekki nema um tvisvar í mánuði að jafnaði sem þrýstingur fellur eða rís samfellt frá degi til dags í meir en 4 daga í röð.
Í nærri helmingi tilvika er þrýstibreyting frá degi til dags innan við 5 hPa og í um 75 prósent tilvika minni en 10 hPa hér á landi, í um 95 prósent tilvika er hún minni en 20 hPa milli sólarhringa.
Áður en farið var að gera kort sem sýndu þrýsting á fjölmörgum stöðum á stóru svæði í senn reyndu menn að búa sér til spáreglur sem nýttu loftvog, hitamæli og skýjaathuganir á einum stað. Svo er að sjá að breskur maður, Robert Fitzroy aðmíráll í breska sjóhernum, og síðar fyrsti forstöðumaður bresku veðurstofunnar, hafi sinnt þessu trúboði hvað best. Leiðbeiningar hans voru þýddar á fjölmörg tungumál og komust að hluta til meira að segja á síður íslenskra fréttablaða[5]. Þó því sé ekki að neita að reglur Fitzroy séu býsna glúrnar var hann greinilega ákafamaður sem varð fyrir miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að kerfi hans, þetta og önnur, voru ekki nándar nærri því eins góð og hann hélt fram. Miklar deilur urðu í Bretlandi um spár hans og bresku veðurstofunnar - þóttu jafnvel verri en engar og um tíma fékkst ekki leyfi til að dreifa þeim. Fór svo að lokum að hann stytti sér aldur. Það var mikið mein og óraunsæ kröfuharka því ekkert kerfi býr til fullkomnar veðurspár, ekki einu sinni ofurtölvur nútímans. Í íslenskum blöðum fyrri tíðar má stundum lesa um skoðanir manna á gildi loftvogar við veðurspár, sumir töldu gagn hennar ótvírætt, en aðrir vöruðu við trausti á hana. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki kannað þessar skoðanir né heldur tengsl þeirra við deilurnar á Bretlandseyjum. Hvað sem þessu líður eru tilraunir til að spá fyrir um veður með hjálp einnar loftvogar, hitamælis og skýjaathugana samt skemmtileg íþróttagrein.
En hvernig á að fara að?
Hver hefur sjálfsagt sitt lag á, en við verðum alla vega að vita hvaða dæmigerðu þrýstibreytingar fylgja veðurkerfum eins og lægðum og hæðum? Lítum á mynd (þrýstibrigðakort).
Dæmigerð lægð er á leið til norðausturs um Grænlandssund. Í reynd er fjölbreytileiki veðursins svo mikill að erfitt getur verið að finna hið dæmigerða. Kortið gildir kl.9 að morgni þess 19.janúar 2020. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, rauðlituð svæði sýna hvar loftþrýstingur hefur fallið síðustu 3 klukkustundir, en á þeim blálituðu hefur þrýstingurinn risið. Mesta fallið er um 10 hPa/3 klst, en mesta ris um 12 hPa/3 klst. Þrýstifall fer á undan komu lægðarinnar, en ris á eftir henni. Fallið er ákafast rétt áður en skil hennar fara yfir athugunarstað. Daufar strikalínur marka jafnþykktarlínur, þykktin ræðst af hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Veitið því athygli að strikalínurnar hitta jafnþrýstilínurnar undir mismunandi horni.
Hér má sjá lægðina nálgast og fara yfir á fjórum kortum [tveir sólarhringar (1) 18.kl.06, (2) 18.kl.18, (3) 19.kl.06 og (4) 19.kl.24]. Á undan lægðinni er vindur suðaustanstæður - en suðlægur og suðvestlægur í efri hluta veðrahvolfs - hlýtt loft streymir að. Á eftir henni er vestanátt við jörð - en áfram suðvestanátt í háloftum, aðstreymið er kalt. Þetta sést glöggt á fyrri myndinni þegar lega jafnþrýsti- og jafnþykktarlína er borin saman.
Flestar lægðir sem fara hjá Íslandi eru langt gengnar, þær hafa náð hámarksafli og eru farnar að grynnast. Stundum er talað um svæðið við Ísland sem lægðagrafreit. Þær myndast annars staðar, en koma hingað til að deyja. Hefðbundnar lýsingar á lægðamyndun og lægðaþróun segja frá lægðamyndun á meginskilum milli hlýrra og kaldra loftmassa[6]. Hitaskil eru þar sem hlýtt loft er í framrás, en kuldaskil fylgja á eftir, við þau sækir kalt loft fram. Á milli skilanna er svonefndur hlýr geiri, suðrænt loft, oft rakaþrungið. Í þessu líkani hreyfast kuldaskilin greiðar heldur en hitaskilin og elta þau síðarnefndu uppi. Sagt er að þá verði til samskil ýmist með eiginleika hita, eða kuldaskila. Úr því hætta lægðir venjulega að dýpka.
Á myndinni er hlýi geiri lægðarinnar um það bil horfinn, kuldaskil hafa elt þau hlýju uppi og samskil sitja eftir. Þegar hin dæmigerða lægð fer hjá fellur loftvog örast á undan hlýju skilunum, í hlýja geiranum er þrýstifallið að jafnaði mun minna, en af því má ráða í hversu örum vexti lægðin er. Ákaft fall loftþrýstings í hlýja geiranum er skýr ábending um öran vöxt lægðarinnar. Þegar kuldaskil fara yfir stígur þrýstingur, stundum aðeins skamma stund og ekki mjög mikið, en stundum mjög ákaft. Hið síðarnefnda er talið merki um að veðrið sé hraðfara og sé mjög hvasst muni það hvassviðri ekki vara mjög lengi.
Hér má sjá hvernig þrýstingur og hiti breyttust í Reykjavík þegar lægðin á fyrri mynd fór hjá (klukkustundargildi). Blái ferillinn sýnir þrýstinginn. Hann reis nokkuð ört frá því fyrir hádegi þann 16. og fram yfir hádegi þann 18. Þá fór hann að falla og féll mjög ört aðfaranótt þ. 19. Fallið varð mest um 5 hPa/klst við athugun kl.4. Mesta 3 klst fall á milli athugunartíma var 6,6 hPa. Ákafasta fallið sem við sáum á kortinu (10 hPa/3 klst) virðist hafa farið fram hjá Reykjavík (vestan við).
Eftir kl.4 [þ. 19.] dró mjög úr fallinu (brot kom í þrýstiferilinn) (sam-) skil lægðarinnar voru komin yfir. Hægara fall hélt þó áfram um stund, kannski voru einhverjar mjóar leifar eftir af hlýja geiranum, en eftir kl.9 fór loftvogin að rísa ákveðið og hélst það ris allan daginn. Hik kom svo í risið aðfaranótt þess 20. hik sem þetta skapar töluverðan vanda fyrir loftvogarspámanninn, skyldi ný lægð vera að nálgast? fer hún austan við eða vestan við? Það getur hann ekki vitað nema gefa fleiru gaum heldur en loftvoginni einni og sér. Vex vindur eða minnkar hann? Hvernig snýst hann á áttinni? Hvernig er skýjafari og úrkomu háttað? Þetta ástand stóð ekki lengi hvað sem þetta var fór fljótt hjá og ákveðið ris tók aftur við. Í reynd var þetta lægðarbylgja sem fór hjá austan við Reykjavík, vindur varð óráðinn og hægur og það rigndi og snjóaði [sjá kortið að ofan].
Þáttun þrýstibreytinga
Á árum áður, áður en tölvuspár og kortagreiningar urðu jafn aðgengilegar og nú er, var sá sem þetta ritar oft og iðulega í loftvogarleik. Eins og áður hefur verið getið er í slíkum leik nauðsynlegt að fylgjast líka vel með vindi, hita og skýjafari. Meginvandamál sem upp kemur er að vindur og hiti á athugunarstað er ekki alveg dæmigerður fyrir stærra svæði. Kalt getur verið í veðri að nóttu neðan hitahvarfa og sömuleiðis getur sólarylur hækkað hita mjög yfir hádaginn. Greina þarf að þessi áhrif frá hinu almenna ástandi lofthjúpsins yfir athugunarstaðnum því sem máli skiptir í loftvogarleiknum. Far lægstu skýja er því gjarnan betri vísir á vind í neðstu lögum veðrahvolfsins heldur en vindátt á athugunarstað.
Grunnstæð næturhitahvörf rofna gjarnan einhvern tíma morguns, um það leyti er best að meta vindáttina áður en áhrif sólaryls og hafgolu sem er afleiðing hans taka völdin. Svipað á við um hitann, meðalhiti sólarhringsins eða hitinn á miðjum morgni eða miðju kvöldi er mun betri vísir á hita stóru svæði eða í veðrahvolfinu heldur en lágmarkshiti næturinnar eða hámarkshiti dagsins.
Við mælum hita í veðrahvolfi með því sem kallað er þykkt, fjarlægðinni milli 1000 hPa og 500 hPa-flatanna. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hiti á athugunarstað fylgir þykktinni allvel. Ef við þekkjum hitann förum við oft nærri um þykktina og ef við þekkjum sjávarmálsþrýstinginn líka getum við giskað á hæð 500 hPa-flatarins en breytingar á hæð hans fylgja hæð veðrahvarfanna mjög vel. Lágur 500 hPa-flötur fylgir lágum veðrahvörfum. Hér á landi er samband þykktar og hita best að vetrarlagi, þegar loft er óstöðugt og loft í veðrahvolfinu er vel blandað, verst er sambandið í ágúst þá eru kælandi áhrif sjávar mest á lofthitann en sú kæling nær oftast stutt upp í veðrahvolfið. Sama á við í hægviðri að næturlagi, hiti neðan grunnstæðra hitahvarfa fylgir þykktinni illa. Á meginlöndunum er samband hita og þykktar hins vegar best að sumarlagi, loft er þá gjarnan óstöðugt og veðrahvolfið vel blandað. Á vetrum eru hitahvörf algeng þar, þau aftengja hita nærri yfirborði og hitafari ofar rétt eins og svalur sjórinn við Ísland að sumarlagi.
Fyrir utan þrýsti- og hitamælingar er einnig mikilvægt að gefa fari efstu skýja gaum sé yfirleitt hægt að sjá þau fyrir þeim lægri, oft hið erfiðasta mál á Íslandi, en hér þekja lágský iðulega allan himininn. Algengast er að ekki sé mjög mikill munur á fari [stefnu og hraða] lægri og hærri skýja, en greinilegur eða mikill munur gefur mikilsverðar upplýsingar um vindafar í veðrahvolfi og þar með þær breytingar sem eru að eiga sér stað.
Þegar lægðir nálgast er oftast suðaustanátt við jörð, en sunnan eða jafnvel suðvestanátt á hærri ský. Þegar vindátt breytist til hærri tölu á áttavitanum með aukinni hæð yfir sjávarmáli streymir hlýrra loft að, aðstreymið er hlýtt. Suðaustanátt í lægri lögum á sama tíma og sunnan- eða suðvestanátt á hærri ský er merki um hlýtt aðstreymi. Þegar lægðin er komin yfir gerir vestanátt við jörð og í lægri hluta veðrahvolfs, en suðvestanátt helst á efstu skýjum. Aðstreymið er nú kalt, snýst til lægri tölu á áttavitanum eftir því sem ofar dregur í veðrahvolfinu. Sú almenna regla gildir að snúist vindur til hægri með hæð er aðstreymið hlýtt, snúist hann til vinstri er aðstreymið kalt.
Rétt er þó að minna á að ský eru sífellt að eyðast og myndast og það sem manni sýnist vera hreyfing á skýjunum er stundum fremur tilfærsla á því uppstreymi sem heldur því við, jafnvel á móti raunverulegri vindátt. Algengt dæmi um þetta er þegar lægð er að nálgast með hefðbundnum klósigauppslætti. Jaðar klósigabreiðunnar gengur upp úr suðvestri til norðausturs, en þegar betur er að gáð t.d. með góðum kíki sést að í raun og veru er norðvestanátt í jaðrinum og að einstök klósigaský eru sífellt að myndast og eyðast, jaðarinn þokast hins vegar hærra og hærra á himininn[7].
Kósigar [cirrus], blika [cirrostratus] og blikuhnoðrar [cirrocumulus] eru allt háský hver megintegund skiptist í nokkrar undirtegundir eða flokka. Þeim ber að gefa sérstakan gaum. Í alþýðlegum veðurspám fyrri tíma er háskýja oft getið, sérstaklega klósiga og bliku. Má þar sjá að menn hafa í raun og veru nýtt sér útlit, útlitsbreytingar og hreyfingar þeirra sér til gagns við veðurspár þá af reynslu en án þess að átta sig á því hvers konar ástand lofthjúpsins lá að baki. [8]
Eigi að nota loftvog við veðurspár er hentugt að skipta þrýstibreytingum í tvo meginþætti. Annars vegar þann sem ræðst af hæð veðrahvarfanna, en hins vegar þann sem ræðst af hitafari í veðrahvolfinu. Kalt loft er þyngra en sama rúmmál af hlýju. Breytist hæð veðrahvarfanna ekki neitt táknar það að (nær) allar breytingar á loftþrýstingi stafa af breytingum á meðalhita neðan þeirra. Falli loftþrýstingur við slíkar aðstæður má vænta hlýnandi veðurs rísi hann er veður kólnandi.
En vegna þess að kalt loft er fyrirferðarminna heldur en hlýtt, er að jafnaði styttra upp í veðrahvörfin í köldu heldur en hlýju lofti. Þegar veður kólnar er því líklegt að veðrahvörfin séu að falla og öfugt þegar hlýnar þá hækka þau.
Loftþrýstifall getur því stafað af tvennu, annar vegar er það merki um að hæð veðrahvarfanna sé að falla (í að öðru jöfnu kólnandi veðri) en hins vegar getur verið að loft sé að hlýna í veðrahvolfinu (í hlýnandi veðri). Stígi þrýstingur á hinn bóginn er það vegna hækkandi veðrahvarfa (í hlýnandi veðri) eða vegna kólnandi veðrahvolfs (í kólnandi veðri). Þættirnir tveir virðast þannig hafa andstæð áhrif og jafna hvorn annan út. En sú staðreynd að þeir jafna hvern annan ekki alveg út veldur því að til eru lægðir og hæðir.
En hvernig vitum við um breytingar á hæð veðrahvarfanna? Ekki auðvelt mál, en nokkuð má ráða í það með því að notfæra sér samband þykktar og hita eins og rakið var hér að ofan. Einnig er mikilvægt að gefa fari skýja gaum, sé sama átt á lægstu og hæstu ský er líklegt að vindátt sé sú sama í veðrahvolfinu öllu þá eru breytingar á hæð veðrahvarfanna að jafnaði hægar og breytingar á loftþrýstingi því merki um hitabreytingar eingöngu.
Mikilvægustu bendingar sem samspil loftþrýstings og hita geta gefið er þegar veður hlýnar með hækkandi loftvog (öfugt við það sem algengast er) eða þegar veður kólnar með lækkandi loftvog (líka öfugt við það sem algengast er).
Hlýnandi veður með hækkandi loftþrýstingi táknar að jafnaði að veðrahvörfin eru að hækka. Er fyrirstöðuhæð sem hefur áhrif á veður í marga daga að myndast? Á sama hátt sýnir þrýstifall í kólnandi veðri (oftast) að stór háloftakuldapollur er í nánd. Veldur hann illviðrum og leiðindum dögum saman? Ósamstæðar vindáttir í lofti að sumarlagi boða oftast breytingar, stundum jafnvel langvinnar er þrýstifall viðvarandi? eða er þrýstingur hækkandi?
Ef einhver ætlar að ná tökum á veðurspám með aðstoð loftvogar, umfram hin almennu og einföldustu (en þó ekki algildu) sannindi að hratt loftvogarfall boðar að jafnaði versnandi veður og ris batnandi er ekki hjá því komist að hann sýni ástundun í list sinni, fylgist af natni með veðri og vindum og skrái aflestra sína helst á línurit. Mun hann þá smám saman átta sig á mjög mörgu sem hjálpar honum við eigin veðurspár.
En aldrei verða þær samt betri heldur en þær sem reiknimiðstöðvarnar gefa sífellt frá sér og rétt að viðurkenna strax vanmátt gagnvart duttlungum veðursins svo niðurstaðan verði fremur skemmtan heldur en þunglyndi.
Ítarefni:
[1] Fitztroy, Robert (1864) Anvisning til at anstille barometer-iagttagelser og forudsige veirforandringer. Norsk þýðing P.A. Clausen á enskum reglum, með viðbótum um norskar veðuraðstæður. Gröntofts Forlag, Kristianssand, 1864, 72s. Reglurnar má einnig finna (á ensku) í ritinu Manual of Meteorology, volume 1 (s.149-153), eftir Sir Napier Shaw og kom út hjá Cambridge University Press 1926. Bókin er aðgengileg í heild á netinu.
[2] Lauslegt yfirlit um sögu loftvogarinnar má t.d. finna á Wikipediu: https://en.wikipedia.org/wiki/Barometer
[3] Í fróleikspistli á vef Veðurstofunnar má lesa um loftvogarleiðréttingar: https://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1055
[4] Pistill um dósarloftvogir er til á Vísindavef HÍ: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=74027
[5] Jón Hjaltalín: Fáeinar nýtar athugasemdir um Barómetrið (Loptþyngdarmælirinn) sem veðurspá. Norðri, 7-8. tölublað 1853, s.30. https://timarit.is/page/2035514#page/n5/mode/2up Margar þær reglur sem Jón nefnir eiga enn mjög vel við, en þar sem þýtt er úr dönsku (og þangað úr ensku) er samt sitthvað sem varla gengur hér á landi, t.d. það sem sagt er um þrumuveður.
[6] Lesa má um förulægðir í þessum pistlum: https://trj.blog.is/blog/trj/entry/1108829/ og https://trj.blog.is/blog/trj/entry/1114479/
[7] Hér má lesa um skýjauppslátt: https://trj.blog.is/blog/trj/entry/1281343/
[8] Sem dæmi má nefna umfjöllun í grein Haraldar Matthíassonar (1953): Veðramál, í Afmælisriti Alexanders Jóhannessonar og umfjöllun Jóns Pálssonar í Austantórum [kafli um Veðurmerki og veðurspár í Árnessýslu]. Þeir fjalla báðir í nokkru máli um klósiga og bliku. Hér eru brot:
Haraldur Matthíasson: Veðramál [1953]
Blikurót er dökk blika i suðlægri átt, en nær venjulega ekki yfir mjög mikinn hluta sjóndeildarhringsins. Upp úr henni teygjast venjulega geysimiklar blikuhríslur, er greinast sundur, er upp kemur á loftið, og er oft heiðríkja milli þeirra i háloftinu. Ná þær oft allt niður í sjóndeildarhring hinum megin. Þessar hríslur nefnast klósigar. Venjulega blæs vindur úr rótinni, en þó getur hann blásið úr hinum endanum. Fer hann þá í öfugan klósigann. [s.80]
Jón Pálsson: Austantórur [kafli um Veðurmerki og veðurspár í Árnessýslu]
Blikurnar eru oft breytilegar mjög, þunnar eða þykkar. Þær verða oft að klósigum, eða þeir úr þeim, og eru þeir mikils verðir mjög um það, hverju viðrar um langan tíma. Klósigarnir geta verið í ýmsum áttum og oftast hvor á móti öðrum, i gagnstæðum áttum. Þeir breytast stundum skyndilega og færast til, en stöðugastir eru þeir i þurrkum og þráviðri. [s.87]
16.6.2020 | 02:35
Hálfur júní
14.6.2020 | 20:02
Af hitafari á Vestur-Grænlandi - og fleiru
Lesendur hungurdiska kannast vonandi orðið vel við hitasveiflur síðustu 200 ára eða svo á Íslandi. Við lítum nú til Vestur-Grænlands. Mælt hefur verið í Nuuk (Godthaab) nokkurn veginn samfellt frá 1866 en eldri mælingar á fáeinum stöðvum hafa verið notaðar til að giska á eldri tölur - á svipaðan hátt og giskað hefur verið á hita í Stykkishólmi fyrir 1846. Ekki hefur þó enn tekist að búa til samfellda röð lengra aftur en til ársins 1840 - eldri tölur eru á stangli.
Myndin sýnir þessa samsuðu. Hún fylgir röðinni frá Nuuk í aðalatriðum - sveiflur eru þær sömu. Súlurnar sýna einstök ár en rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal - [sú tímalengd er alltaf í nokkru uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska]. Á 19.öld vekur kannski helst athygli okkar hér að 8.áratugurinn er áberandi hlýrri heldur en sá 9. - og mesti kuldinn á þeim 7. ekki eins langvinnur og hér á landi. Þó er kaldasta árið 1863.
Það hlýnaði hægt og bítandi undir lok 19. aldar og fyrstu 2 áratugi þeirrar 20. - rétt eins og hér á landi og eftir 1920 hlýnaði snögglega - líka eins og hér á landi. Eftir 1947 fóru hlýindin aðeins að gefa sig - ekki ósvipað og hér á landi líka. Hér á landi kólnaði strax 1965 og 1966 - en ívið síðar á Vestur-Grænlandi (sem ekki frétti strax af auknum hafís austan Grænlands) - en skömmu síðar kólnaði verulega þar líka. Kuldaskeiðið nýja stóð svo ámóta lengi á Grænlandi og hér - en sá var munurinn þó að síðasti þriðjungur þess - sem var heldur hlýrri hér á landi en þeir tveir fyrstu - var kaldastur, þá komu fjölmörg afskaplega köld ár í röð á Vestur-Grænlandi. Kaldasta árið í syrpunni var þó 1983 - í öðrum þriðjungi kuldaskeiðsins.
Um aldamótin hlýnaði verulega - hlýindin hafa heldur gefið eftir allra síðustu árin. Árið 2015 var t.d. nokkuð kalt - en árið 2010 sker sig úr hvað hlýindi varðar - enda ótrúlega ruglað ár á flestan hátt.
Við skulum nú bera 7-árasveiflur í Nuuk og í Stykkishólmi saman - og skjóta Englandi inn í líka.
Hér er hiti í Nuuk á vinstri kvarða - og ferill blár, en hiti í Stykkishólmi á þeim hægri og ferill rauður. Hér má glöggt sjá að stærstu sveiflurnar eru í aðalatriðum samtíma - hliðrast í mesta lagi til um 2 til 3 ár - en nokkuð sitt á hvað. Athugið að það munar 5 stigum á kvörðunum. Sveiflurnar í Nuuk eru heldur stærri. Hlýindin um 1930 eru að tiltölu enn meiri þar en í Hólminum og kuldinn á síðasta þriðjungi kuldaskeiðsins síðasta miklu meiri. Núverandi hlýindi hafa ekkert gefið sig enn í Hólminum - en varðandi Grænland er rétt að hafa í huga að vægi ársins 2010 eins og sér er mikið - um leið og það datt út úr 7-ára keðjunni datt meðaltalið niður.
Af myndinni sjáum við glögglega að Ísland og Grænland eru nágrannar í veðrakerfi heimsins.
Hér sjáum við sama feril fyrir Stykkishólm (rautt - hægri kvarði) - en á vinstri kvarða (blár ferill) er hiti á Mið-Englandi. Hér munar 6 stigum á kvörðunum tveimur. Samræmi er ekki sérlega mikið - jú, 20.aldarhlýskeiðsins gætir aðeins á Englandi, en ekki líkt því eins og hér (og á Grænlandi). Hlýindin á síðustu áratugum eru einstök á Englandi - og þar fór að hlýna heldur fyrr en hér - en hér munar enn ekki mjög miklu á núverandi hlýskeiði og því fyrra.
Hlýindi síðustu áratuga einskorða sig ekki við norðurslóðir við Atlantshaf - eins og 20.aldarhlýskeiðið - þau eru miklu víðtækari.
13.6.2020 | 17:40
Af árinu 1866
Eitt af mestu harðindaárum 19.aldar. Kaldasta ár mæliraðarinnar úr Stykkishólmi ásamt 1859 (meðalhiti 1,0 stig, 0,9 stig 1859 - en aðeins munar einum hundraðshluta sé reiknað með tveimur aukastöfum - sem er algjörlega ómarktækur munur. Sennilega kaldasta ár mæliraðar í Reykjavík - meðalhiti 2,1 stig, en mælingar voru ekki staðlaðar (þó gerðar). Hugsanlega var ámóta kalt á þessum stöðum 1812. Meðalhiti í maí var undir frostmarki bæði í Hvammi í Dölum og á Siglufirði. Veðurlag síðari hluta ársins var mun skárra en fyrri hlutann og heyskapur tókst ekki mjög illa.
Þrátt fyrir þetta lága ársmeðaltal telst einn mánuður hlýr, það var október, en enginn mánuður annar náði meðallagi og 11 voru kaldir, þar af sex afarkaldir - meðal þeirra 5 til 6 köldustu hver um sig. Það voru janúar til mars, maí, ágúst og september. Fjörutíu og sex dagar teljast mjög kaldir í Stykkishólmi, en allir komu þeir fyrir ágústlok.
Þurrt var um landið vestanvert í mars og einnig í ágúst, en mjög úrkomusamt í október og einnig var úrkoma í meira lagi í júní og framan af júlí.
Árið sker sig ekki úr hvað loftþrýsting varðar, þrýstingur varð hvorki sérlega hár né lágur. Síðari hluta vetrar og um vorið var hann þó vel yfir meðallagi, undir því í júní og framan af júlí, en lágur í september.
Mikill hafís var við landið, sérstaklega Norðurland. Þann 4. janúar er greint frá hafís í dagbók veðurathuganamanns á Hvanneyri í Siglufirði.
Mjög slæm inflúensa gekk um vorið og dóu alls um 3000 manns á árinu, um þúsund fleiri en gerist nú á dögum þó mannfjöldi sé nú fimmfaldur. Vafalítið má kenna bæði harðindum og inflúensu. Landhagskýrslur segja að sauðfé hafi heldur fjölgað - reyndar eftir mikla almenna fækkun næstu árin á undan - en nautpeningi fækkaði.
Ritstjóra hungurdiska hefur ekki tekist að finna samtímaheildarmat á árinu, en ræður af blaðafregnum að góðir þurrkkaflar á heyskapartíma og til þess að gera hagstæð haustið hafi bjargað miklu - rétt eins og árið áður. Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.
Janúar. Óvenjukalt í veðri og hríðasamt.
Norðanfari birti þann 13.mars bréf af Melrakkasléttu, dagsett 16.janúar:
[Þ.] 3. [janúar] sáu menn hér fyrst hafísinn, og 10. 12. janúar var frostið hér 9-12°R [-11 til 15°C]. Nú hafa verið um tíma fannkoma og stórhríðar og allar skepnur komnar á gjöf, og ískyggilegt með skepnuhöldin fari þessari veðráttu lengi fram. Í Þistilsfirðinum hafa 26 kindur á ýmsum bæjum fennt eða flætt.
Norðanfari segir af tíð þann 25.janúar:
Síðan 4. þ m. hefir veðuráttan verið fremur hörð með norðanátt og snjókomu og stundum gaddhörku, einkum 10.11., en þó mest 12. þ.m., því þá var hér á Akureyri hartnær 18 stiga frost á Reaumur [-22,5°C] 20 á Hálsi í Fnjóskadal [-25°C], en 23 á Þverá í Laxárdal [-29°C]. Víða er komin töluverð fönn, einkum á útsveitum, svo þar er sumstaðar sagt hagskart.
Norðanfari birti þann 13.mars bréf úr Hrútafirði dagsett 10.febrúar:
Hafíshroði er sagður kominn inn á Húnaflóa. Allstaðar sem til hefir spurst, eru miklir snjóar komnir og víðast hvar heylítið fyrir útigangspening, og lítur út fyrir vandræði vegna heyskorts, ef harðindin haldast lengi. 28. [janúar] kom Jóhann Guðmundsson sem sumir kalla Knút, og á heima á Strjúgsstöðum í Langadal, hingað úr suðurferð sinni. Hafði hann lagt af stað úr Reykjavík 19. janúar, en þegar hann kom norður að Holtavörðuheiði varð hann vegna stórhríða og ófærðar að liggja þar hátt á aðra viku um kyrrt, láta drepa 2 hesta sína en koma þeim þriðja niður, skilja eftir klyfjar af 2 hestum en fara með hitt á sleða norður yfir Holtavörðuheiði. Fjarska fönn hafi verið komin syðra, einkum fyrir norðan Hvítá. [Tveir] blotar höfðu komið og hleypt öllu í gadd; einnig í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, og víðast hvar hagskart, annaðhvort vegna áfreða eða fanndýptar.
Febrúar. Óvenjuköld tíð og jafnframt illviðrasöm.
Þann 13.febrúar er sagður lagís á öllum Siglufirði.
Nú er frost á fróni, frýs í æðum blóð orti Kristján Jónsson fjallaskáld undir heitinu Þorraþrællinn 1866 og birti í Þjóðólfi 28. febrúar sama ár. Hér eru ekki aðstæður til að fullyrða hvort titillinn er hans eða ritstjórans en Kristján hefur varla ætlast til þess að kvæðið væri eins konar veðurlýsing á þorraþrælsdaginn sjálfan (síðasta dag þorra), heldur fremur almenn lýsing á því harða tíðarfari sem ríkti á landinu um þessar mundir - og von um betri tíð. Þorraþrælinn 1866 bar upp á 17. febrúar, en þorraþræll er síðasti dagur þorra samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og er ætíð laugardagur.
En hvernig var veðrið á þorraþrælinn 1866?
Veðurathuganir í Stykkishólmi og ljósrit af fáeinum veðurbókum eru til á Veðurstofunni sem sýna veður þennan dag. Fleiri veðurbækur má finna á Handritadeild Landsbókasafns og í Þjóðskjalasafni.
Árni Gíslason, Kornbrekkum, Rangárvöllum lýsir veðrinu svo: Norðan kuldi, bráðhvessir á sunnan með sliddu bil og svo stórgerða rigningu.
Séra Þorleifur Jónsson í Hvammi í Dölum:
SV stormur, krapi, blikufullt loft, hvass vindi S með fjúki og S.A. krapa að kvöldi.
Séra Jón Sveinsson á Hvanneyri í Siglufirði:
Kaldi, blika þyknaði og dimdi að hvessti af S og þiðnaði m.kv.
Björn Halldórsson, Laufási í Eyjafirði:
Sunnan ofsa stormur, frosthægur.
Athuganir í Stykkishólmi sýna ört fallandi loftvog, hvassviðri eða storm, fyrst af austri, síðan suðaustri og suðri, með snjókomu fram yfir hádegi, en síðan rigningu. Veður hlýnaði mjög, kl.7 um morguninn var hitinn -6,6°C, kominn upp í +1,0°C kl. 14 og í 2,9°C um kvöldið. Hámark dagsins var +3,3°C. Morguninn eftir var komið vægt frost í suðvestanhvassviðri og éljagangi.
Þessi örstutta hláka sést vel á hitariti mánaðarins og ber athugunum í Stykkishólmi og í Siglufirði vel saman. Á loftþrýsti- og hitaritinu í Stykkishólmi má sjá að loftvog féll ört þennan dag og að næstu dagana á eftir hafa að minnsta kosti þrjár lægðir farið hjá eða yfir áður en mikið háþrýstisvæði fór yfir 26. og 27.
Á þorraþrælinn 1866 gerði dæmigert íslenskt vetrarillviðri og spilliblota og hefur varla aukið mönnum bjartsýni. En harðindunum lauk ekki með þessu veðri og von skáldsins um betri tíð og sigraða þraut brást eins og frægt er um fleiri vonir þess.
Norðanfari birti þann 30.júní bréf af Snæfellsnesi, dagsett 10.febrúar (lýst tíðarfari 1865):
Frá júnímánaðarbyrjun til ágústmánaðarloka mátti veðuráttan heita góð og hagstæð og var það blessaður kafli, eftir hin miklu og affaraslæmu hret, hverra sumir að líkindum bera nokkuð langvinnar menjar. Með höfuðdeginum breyttist veðuráttin eins og jafnaðarlegast hér til stórfelldra og langvinnra illviðra og úrfella, og mátti varla heita að þornaði hér af steini í dagstæðar 5 vikur; en í þessum langa og afar óhagkvæma illviðrakafla, eru mér þó og víst mörgum hér, minnisstæðastir rigninga- og stórviðrisdagarnir 18. 24. sept. Þá brotnuðu nokkur skip og bátar og stórflóðið í vatnsföllunum tók víða hey af engjum, einkum í Borgarfirði; það hey sem á engjum var þá umskipti, varð víða að litlum notum, þó einhverju af því væri hangað inn marghröktu og hálfblautu; þar á ofan drápu víða hey í görðum og töðunni til meiri og minni skaða. Grasvöxtur var hér á túnum í betra meðallagi, og nýting góð á túnum, sem þó nú reynast léttar og áburðarfrekar, en engjar einkum þær votu, spruttu naumast í meðalagi, og svo varð nýtingin heldur enn ekki endaslepp, svo vetrarundirbúningurinn var ekki sem bestur né búmannlegastur enda er varla um búskap að tala hér í sveit síðan sjórinn brást. Í október var oftast allgott veður og heldur stillt, þangað til seinustu dagana. Í nóv. og des. mátti veðuráttan heita mild og væg vetrarveðurátt, þó hún væri heldur óstöðug og stundum heldur úrfella- eða rigningasöm, og jörðin alltaf snjólaus, og þetta hélst árið út.
Mars. Óvenjuköld tíð og hríðasöm, einkum fyrir norðan. Úrkomuminna vestanlands - og trúlega sunnanlands líka. Mikill lagnaðarís, m.a. við Faxaflóa.
Norðanfari segir 13.mars:
[Þ.] 9. þ m. [mars] kom Níels póstur að austan [til Akureyrar]; hafði hann lagt af stað frá Eskifirði 24. [febrúar] og fengið hina mestu drífu og snjóa, þó yfir tæki 5. og 6. þ.m., því þá var hér og hvar til hefir spurst, hin minnilegasta útnorðan stórhríð (kafaldsbylur) með frostgaddi, svo eigi grillti nema til allra næstu húsa; urðu þá menn úti, og síðar sumra getið. Þá urðu líka víða fjárskaðar; þá rak hér inn á Eyjafjörð hafís allt að lagísnum á pollinum og fyllti mikið af firðinum. Með hafísnum kom nokkuð af höfrungum, en aðeins náðust 9 af þeim, hér á firðinum, og nokkrir þeirra halda menn að hafi drepist undir ísnum og sokkið. Í Hvalvatnsfirði náðust 42 höfrungar. Eftir því sem oss hefir verið sagt og skrifað, eru landföst hafþök af hafís nú hér fyrir öllu Norðurlandi, og kominn hafði hann verið suður fyrir Reyðarfjörð, en hvergi vegna þverviðra inn á Austfirði. 15.febrúar sást fyrst til hans fyrir Seyðisfirði. Síðan á nýári hafa harðindin verið meiri og minni yfir allt Austurland, eins og hér nyrðra vegna snjóa, áfreða og stundum frostgrimmdir; haglaust að kalla eystra, nema lítil snöp í Breiðdal, Skógum og Fljótsdal.
Þjóðólfur segir tíðindi 16.mars:
Síðan um nýár hefir veðráttan mátt heita köld, snjór fallið til sveita talsverður og blotar spillt, svo að víða um sveitir hafa gengið jarðleysur. Aðfaranótt mánudagsins 5. þ.m. laust á einhverju hinu mesta norðanveðri sem komið hefir hér á Suðurlandi í mörg ár, með frosthörku og blindbyl til sveita, og stóð allan næsta dag (5. mars) til kvölds; nóttina þar á eftir og hinn 6. mars var veðrið að vísu mikið, en þó nokkuð vægara. Miðvikudag (7. mars) var komið besta veður og bjart um að litast. Mátti þá sjá, að firðir, víkur og vogar voru hér svo ísum þakin, að eigi vita menn dæmi til síðan 1807; gengið var úr Reykjavík bæði til Engeyjar og Viðeyjar, enda lá ísinn langt útfyrir allar eyjar og sker og allar götur upp undir Kjalarnes; Skerjafjörður, Hafnarfjörður og langt á sjó út, suður og vestur fyrir Keilisnes var ísum þakið, og stór ísaspöng með allri hafsbrún; var sá ís að líkindum rekinn út af Borgarfirði, Hvalfjörður var án efa allur lagður, enda hafði fyrir verið gengið á ísum frá Hrafnabjörgum á Hvalfjarðarströnd, yfir að Hvammsvík í Kjós, en bátar settir á ísum innan frá Þyrli út að Hvammsvík. Eigi urðu skaðar hér í Inn-Nesjum í veðri þessu, svo vér vitum, en því meiri brögð urðu að því austur í Árnessýslu. Þannig er mælt, að í Selvogi hafi farist hátt á annað hundrað fjár og 17 hross, í Þorlákshöfn nálægt 30 fjár, og í Gaulverjabæjarsókn í Flóa urðu 3 menn úti, en 1 í Krísuvík. Þegar lengra dró austur mun veðrið hafa verið minna, og ekki er enn getið slysfara þaðan. Austur í Mýrdal á Syðsta-Hvoli í Dyrhólasókn varð maður úti milli fjóss og bæjar 13. janúar þ.á. Á bæ þeim sem heitir að Fuglavík suður á Suðurnesjum hrakti 30 fjár í sjóinn 22. f. mán. [febrúar] í norðanbyl.
Þann 26.mars segir Þjóðólfur:
Mann úr Biskupstungunum kól til dauðs á Mosfellsheiði á þorranum; hann hafði villst og legið svo úti, varð komið lifandi til byggða en dó fám dögum síðar. Annar maður úr Stafholtstungum varð úti á Holtavörðuheiði 24. janúar og fannst látinn skammt fyrir ofan byggð í Hrútafirði.
Norðanfari birti þann 30.júní bréf úr Mýrasýslu, dagsett 27.mars:
Veðuráttufar og vetrarríki hefir hér sem annarstaðar síðan á nýári verið under al kritik" og jarðbönn, frosthörkur og norðanstormar, og það en í dag, svo gjöri hann ekki bráðan bata, verður hér í sýslu talsverður skepnufellir, þar fjöldi búenda er kominn á nástrá með heybirgðir.
Norðanfari birti þann 30.júní bréf úr Strandasýslu, dagsett 3.apríl:
Harðindin mikil og ótíð sem farið hefir versnandi síðan með þorrakomu og virðist ei að vera afleitleg því hafís fjarskalegur hvað vera fyrir öllu Norður- og Vesturlandi, fyrir utan lagðarísinn, sem allstaðar er í mesta lagi að heyra. Ekki varð komist á Gjögur fyrir ótíð og ísum, og enginn hákarl hefir fengist. Hér eru nú margir komnir í heyþrot, engir færir um að hjálpa; fæstir duga fram yfir sumarmál, og getur því orðið stórkostlegur fellir ef Guð gefur ei góðan bata.
Þjóðólfur segir þann 5.apríl:
[Þ.] 8. þ. mán. [spurning hvort þetta er 8.mars eða 8.apríl] hleypti hér inn Skonnert Ísland, skipherra Christen Petersen, reiðari þess er Benedikt Gíslason bókasölumaður í Rudkjöbing; það hefir hlaðfermi af kornmat og annarri vöru, og átti nú að færa það til Patreksfjarðar, en komst þar hvorki inn fyrir ís og varð svo að hverfa frá um sinn. 3. þ. mán. [apríl] kom til Hafnarfjarðar skonnert Maria, fermt með kornvöru til verslana Knudtzons. Auk þessara skipa, sást héðan um bænadagana [skírdagur 29.mars] til tvímastraðs skips talsvert norðar í flóanum heldren i vanalegri skipaleið; er nú sagt að skip þetta, galeas Áfram til E. Siemsens, hafi siglt eða borið upp á grynningar fyrir utan Knarrarnes á Mýrum, og sitji þar fast en ólaskað og óskemmdur farmur. [Þ.] 28. [mars] fórst bátur af Vatnsleysuströnd með 4 manns og týndust allir mennirnir.
Apríl. Harður í byrjun og í blálokin, en skárri tíð var um tíma.
Þjóðólfur birti þann 14.júní bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett í apríl:
Hér á Vestmannaeyjum hefir frá nýári verið mjög stirð veðrátta til lands og sjávar, frost mikil og snjókynngi, svo fé og hestar, sem hér lifa einungis á útigangi, hafa átt mjög hart, og ekki alllítið af fé hefir því farist sakir hörku og óveðurs, sem fyrst hefir létt af fyrir rúmum hálfum mánuði. Fyrir fáum dögum bjargaði frönsk fiskiskúta að nafni Gracieuse frá Dunkerque, skipstjóri Mathoré Louis Joseph, heilli skipshöfn, tilsamans 12 mönnum, úr lífsháska, sem þannig atvikaðist, að öll skip héðan leituðu til fiskjar þann dag undir Sand, það vill segja Landeyjasand, en um miðjan dag skall á rokveður suðaustan, svo mörg skip náðu ekki hinni réttu lendingu, en skip þetta, er var verst skipað, hrakti vestur fyrir eyarnar ...
Þjóðólfur segir af skipsköðum í pistli þann 7.maí:
Laugardaginn 21. þ. mán. [líklega er átt við apríl] þegar fram á daginn kom gekk hann til suðurs-útsuðurs og tók jafnframt að hvessa og brima sjóinn. Fjöldi Álftnesinga náði þá að hleypa og leita lendingar ýmist hér á Seltjarnarnesi eður Akranesi, og urðu einnig nokkrir af Seltjarnarnesi að hleypa þangað. Þegar Capitan Hammer hélt inn Hafnarfjörð þá um kveldið á gufuskipi sínu, bjargaði hann 2 bátum af Álftanesi, er voru komnir í lífsháska. með mönnum og öllu. En 2 aðrir bátar fórust þá þaðan af nesinu, annar frá Svalbarði með 2 mönnum, ... hinn báturinn var frá Skógtjörn ... .
Þjóðólfur fer yfir árferði og fénaðarhöld í pistli þann 8.maí:
Vetrarharðindin frá þorrakomu til páska [1.apríl], voru jafnstöðug og einstakleg yfir allt land, að því er vér höfum nýjar fregnir af, en það er úr öllum héruðum landsins nema úr Þingeyjar- og Múlasýslum. Hafísinn umgirti gjörvallt Norður- og Vesturland fram yfir páska, en lagnaðarís á öllum innfjörðum út og fram þangað sem hafísinn tók við, af Skutulsfjarðareyri var riðið, og gengið um páska inn allt Ísafjarðardjúp, og fyrir framan alla firði inn á Langadalsströnd, og 14. [apríl] var enn gengið Djúpið úr Ögursnesi inn á Ströndina. Ofsaveðrið og bylurinn 5. mars gjörði víða mikið tjón bæði á mönnum, fénaði og húsum (t.d. braut timburþak af Knarrarkirkju undir Jökli) en virðist hafa orðið miklu aflminna bæði fyrir austan Þjórsá og úr því kom norður í Skagafjörð. Frostin vorn jöfn og stöðug og náðu þau hæst 22 23°R [-29°C] norðan lands og á Gilsbakka í Borgarfirði. Snjókyngið var hvergi að því skapi sem jökull og ísalag yfir allri jörð. Bæði þetta og veðurharkan gjörði að innistöður og hagleysur voru allan þennan tíma. Flestar sveitir munu hafa séð sér fært að komast af með hey, fram undir sumarmál, ef hver hjálpaði öðrum, en eigi lengur. Húnvetningar voru farnir að panta og kaupa korn til fóðurs fénaði sínum, með því líka nægar kornbirgðir voru á Skagaströnd. En hann brá með 4. í páskum [4.apríl] til frostleysu og blíðveðurs og hélst sú öndvegistíð allan [apríl] til enda. Eftir bréfi norðan úr Hörgárdal 23. [apríl] varð batinn hinn sami þar nyrðra; en hafísinn var þar þá enn fyrir öllu landi og inn í fjarðarbotn á Eyjafirði að vestanverðu, en Austurállinn auður; um miðjan [apríl] hafði hafísinn fjarlægst Hornstrandir og Ísafjarðarsýslu. En kuldaþyrrkingarnir framan af þ.mán. [maí] allt til þess í dag, með 3 9° frosti á hverjum degi, segja órækt til þess að hafísinn muni enn vera hér víða við land.
Maí. Óvenjukuldar og harðindi.
Enn segir Þjóðólfur af veðri og tíð þann 28.maí [skiptapakaflinn lítillega styttur hér]:
Nóttina milli 2.-3. [maí] gjörði gaddbyl af landnorðri um uppsveitirnar í Árnessýslu og um sveitirnar milli Þjórsár og Þverár í Rangárvallasýslu; frostið var þá hér syðra frá 79°R [-9 til 11°C]; bylur þessi kom á auða jörð, en sauðfénaður í víð og dreif um haga, og urðu mestu fjárskaðar sumstaðar um þessar sveitir; að Skálholti fórust um 70 80 fjár, margt fé í Hamarsholti í Hreppum, og svo færra á einstöku bæjum þar um sveitir. Í Holtamannahrepp er talið að hafi týnst víst 400 fjár samtals, flest á bæjunum Bjólu og Sauðholti, og sumir fjárfáir búendur í Þykkvabænum misstu að sögn allar sínar sauðkindur; það er og sagt, að Sigurður bóndi á Skúmstöðum í Landeyjum hafi misst margt fé og að allmargt hafi og tapast hér og hvar á bæjunum meðfram austanverðri Ytri-Rangá, á Rangárvöllum, er það hafi hrakið í ána; sömuleiðis á Lækjarbotnum og Snjallsteinshöfða á Landi og víðar þar í sveit. Nóttina milli 19. og 20. [maí] var blindbylur og fannfergi; skaflarnir tóku manni í hné og klyftir hér í Reykjavík; austur í Mýrdal varð mesta ófærð, og tóku skaflar jafnhátt húsum sumstaðar; víða þar í sveit fennti þá fénaður og fórst sumstaðar, sagði póstur að Jón umboðsmaður á Höfðabrekku mundi hafa misst um 100 fjár, auk unglamba; ekki hafa spurst verulegir fjárskaðar eða lambadauði, úr öðrum sveitum í þessum byl. Í gær og fyrradag var hér landnorðanrok með nálægt 47° kulda [-6 til -9°C]; í dag vægara veður en 4° frost [-6°C].
Skiptapar. Laugardaginn 5. [maí] var stinningskaldi á útsunnan hér syðra, en þó vægur, reru margir hér um öll Innnes, en sneru fremur snemma í land, því fiskilítið var þann dag. Þá lögðu héðan úr Reykjavík samtals 6 róðrarbátar, er allir áttu heima vestur á Mýrum, eitt þeirra var 4 mannafar með þremur á; það og tveir bátarnir lögðu af stað svo tímanlega að þeir voru allir komnir norður fyrir Skipaskagatá og upp á Borgarfjörð, er hann sneri sér undir miðaftan og gekk til landnorðurs, og gjörði rok sem næst; en þá voru þeir 3 bátarnir, er seinna lögðu héðan, eigi lengra komnir en vel upp fyrir fjarðamót Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Engir þeirra 3 bátanna eru komnir fram síðan, og er því talið óefað, að þeir hafi allir farist þarna; fjögramannafarið náði lendingu sinni (í Hjörtsey), og annar báturinn, er lagði héðan um sama leyti, en hinn þriðja vantar enn, og því talinn af sá 4.
Þjóðólfur segir af árferði og fiskiafla þann 14.júní:
Vorhörkurnar og gróðurleysið héldust stöðugt fram í lok næstliðinnar imbruviku [frá 3.júní], þó að ekki kæmi neitt aðkvæða vont kast seinna en Hvítasunnukastið [20.maí]. Af afleiðingum þess og fjárfelli er enn eigi tilspurt; norðanpóstur var þá kominn vestur í Húnavatnssýslu, hingað í leið og vissi svo ekki hvernig norðar varð, en í vesturhluta Húnavatnssýslu segir hann að það hafi valdið talsverðum unglambadauða og jafnvel nokkrum felli á fullorðnu fé. Úr fjarlægari sveitum vestra og fyrir austan höfum vér eigi heldur áreiðanlegar fregnir síðan, en í öllum nærsveitunum milli Jökulsár á Sólheimasandi og Hvítár hefir engan verulegan fjárfelli leitt af þessu Hvítasunnukasti eða hinum fyrri íhlaupum í maímánuði vér teljum hér eigi með fellifjárskaðann, sem varð um Rangárvallasýslu og Árnessýslu í fyrra íhlaupinu, og sauðburður hefir yfir höfuð að tala ekki misheppnast svo mjög, eða eftir því sem við mátti búast í slíku grimmdaríhlaupi um þenna tíma árs, þegar sauðburður stóð sem hæst, og hirðing fjárins hin ónógasta sakir sóttarinnar, því þá lá víða á bæjum hver maður. [Mjög skæð inflúensa gekk þetta vor].
Norðanfari birti þann 30.júní (eftir langt útgáfuhlé) alllangan pistil um ís og tíð.
Hafísinn og lagísinn 1866. Þess munu fá dæmi á öld þessari, að jafnmikil og langvinn hafþök hafi verið af ís, sem í ár, fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Öndverðlega í janúarmánuði var ísinn þegar kominn að Melrakkasléttu og í febrúar og maímánuði var hver vík og hver fjörður á téðu svæði, og það augað eygði í besta skyggni af háfjöllum til hafs þakið ísum, sem allt væri orðið baldjökull og Ísland og Grænland, Norðurálfan og Vesturálfan frosið saman, enda voru hörkurnar miklar og langvinnar og stundum um og yfir 20 stig á Reaumur [-25°C] yfir víkur og firði mátti víða hvar, fara þvert og endilangt með eyki og æki, og sumstaðar með fram landi utan fyrir ystu nes og múla. Svo varð Ísafjarðardjúp frosið, að ganga mátti eftir því og ríða af Langadalsströnd og út í Skutulsfjarðarkaupstað, sem þó eru 6 vikur sjáar, einnig frá Bjarnagnúp, sem stendur sunnanvert við Jökulfirði og þvert yfir í Bolungarvík, og ekkert ólíklegt, að fara hefði mátt sem landveg fótgangandi millum Hornbjargs á Íslandi og Hvarfs á Grænlandi. Það er sagt að flestir ef ekki allir firðir á Breiðafirði hafi meira eða minna verið þaktir lagísum sem bæði mátti ganga og ríða.
Ekkert af hákarlaskipunum hefir enn í vor til miðs [júní] á sjó komist, og ekkert kaupskip svo vér vitum náð hér höfn á Norðurlandi fyrri enn 22. [maí] 2 skip hér á Eyjafirði sem búin voru ásamt einu skipi er átti að fara að Hólanesi á Skagaströnd, að hrekjast í hálfan mánuð fram og aftur í ísnum hér úti fyrir landi, og loksins 2 þeirra að ná landi í hafnleysu undan Skeri á Látraströnd hvar þau urðu að meira og minna umkringd af ísnum í annan hálfan mánuðinn, en Hólanesskipið komst loks á Siglufjörð. Þá batinn kom 23.24. apríl og nokkra daga þar á eftir rýmdist til um meginísinn, svo hann losnaði hér víða frá landinu að norðan og rak til hafs, en sumir firðirnir, t.a m. Eyjafjörður, voru eftir sem áður að mestu stappaðir af ísnum og allstaðar meira og minna fast við löndin. Um þessar mundir komust áðurnefnd kaupskip hér norður fyrir land og mættu fyrst íshroða við Sléttuna, en gátu samt tálmunarlítið komist vestur með landinu til þess hér úti fyrir firðinum er þau héldu austan; var þá eigi annað til úrræða, en sigla í eyðunni fram og aftur; en um kóngsbænadagsleytið [27.apríl] gekk enn að norðanátt, sem rak ísinn enn að landi, og þrengdi svo að skipunum, að lágu dægrum saman föst í ísnum, og ekki sýnna en að þau þá og þá legðust saman sem voð eða fat, eða liðuðust sundur, sem skip í hafróti á boðum eða við hamra; skipverjar bjuggust því við á hverri stundu að yfirgefa þau slippir og snauðir, og reyna til ef unnt væri, að bjarga lífinu á bátunum, því skammt var til lands, loksins rýmdist svo til 20. [maí] að fjörðurinn losnaði að mestu undan ísnum og þau sem áður er getið komust til lands og frelsuðust að mestu ósködduð, úr þessum háska og náðu hér höfn.
Veðuráttufarið. 18.31. mars var frostið hér á Akureyri á hverjum degi 8 til 16 stig á Reaumur, og 1 apríl á páskadaginn 20 stig [-25°C], og 4. og 8. sama mánaðar 13 og 15 stig, 3. og 4. maí 8 stiga frost [-10°C]. Aftur voru hér hlýindi mest 6.- 10. apríl 58 stig, og 23.-24. s.m, 10 stig [+12,5°C]. Snjókoma mest nóttina millum þess 18. og 20. mars, einnig 27. s.m., og aftur 17. og 18. maí feikna fannkoma, svo að knésnjór varð hér á jafnsléttu. Allan þenna tíma hefir loftþyngdarmælirinn (Barometrið) verið yfir 28 stig [franskar tommur] og hæst 28. apríl 28.9 stig [1038 hPa].
Skepnuhöldin og fóðurbirgðirnar. Vegna frosta og harðviðra, höfðu skepnur oft eigi haft viðþol að vera á beit, og þó hafði síðan hlánaði eftir páskana og sumarmálin, tíðast verið næg jörð og í snjóléttum sveitum að mestu rautt, nema í hretunum þá alsnjóaði. 17. og 18. [maí] varð víða haglaust og innistaða fyrir útigangspening. Aftur batnaði eftir páskana og sumarmálin, voru margir komnir á nástrá, og þá eigi annað sýnna, svíaði ekkert til, en að kolfellir mundi verða; og eigi þá séð, hvernig skepnuhöldunum reiddi af, sér lagi sauðburðurinn, færi þessari kuldatíð, fram og hretum hvort ofan á annað, og hafísinn enn meiri og minni inn á fjörðum og til hafs, en heyin hjá flestum á þrotum, Sumir hafa kvartað um, að heyin hafi reynst létt og uppgangssöm, og hjá nokkrum fyrir rigningarnar í haust brunnin og drepin. Í Húnavatnssýslu varð heyleysið svo mikið eftir því sem oss hefir verið skrifað þaðan , að menn varla muna eftir því jafn almennt, orsakaði það bæði heymissirinn í veðrunum í haust, en þó einkum stórskemmdir þær sem voru á heyjunum, en fénaður þar orðinn með langflestu móti, Menn höfðu því í sumum sveitum, einkum Vatnsdal og Þingi, mátt lóga miklu af fénaði sínum, ef ekki hefðu jafn miklar nægtir verið af korni þar í kaupstöðum, sem sett hefir verið þangað úr flestum sveitum sýslunnar, og kom lestirnar gengið þaðan, sem um kauptíð á sumrum, enda er mælt að á einum bæ hafi verið gefnar þar peningi yfir 40 tunnur af rúgi. Hér voru og nokkrir farnir að gefa skepnum sínum korn og sumir baunir. Á einstaka bæ hafði verið skorið fyrir páskana. Hross er sagt að hér og hvar hafi hrokkið af, en þar sér eigi högg á vatni þótt nokkur týni tölunni, sem eru á bæ 50100 eða fleiri bross. Á einum bæ í Skagafirði eru sagðir 102 sauðir og 103 hross. Úr Dalasýslu hefir oss verið ritað: Eftir haustrigningarnar miklu sem enduðu um lok september, kom blíður 6 vikna kafli, þá fóru að koma votviðri og urðu feikna mikil á jólaföstu. Á nýári brá til kulda og með þorra til kafalda, og eru fannþyngsli í mesta lagi. Frost fleiri daga 1215 stig á Reaumur. ... Fénaðarhöld góð allt til þessa tíma (12266). Hey létt og skemmd of víða. Góðir meðalhlutir undir Jökli og betri en svo í Ólafsvík og Eyrarsveit. Engir vetrarhlutir komnir þá síðast fréttist. Nægar vörubirgðir í Stykkishólmi, en litlar sem engar á Borðeyri.
Júní var kaldur. Úrkomusamt var síðari hluta mánaðarins.
Í Hvammi í Dölum snjóaði með krapa í byggð þann 15.júní.
Árni Gíslason, Kornbrekkum, Rangárvöllum lýsir veðrinu svo dagana 14. til 19.júní:
14.júní: Stórdembur - blæs af útsuðurs kaldi - kornéljahríðir - snjóar
15.júní: Hvít jörð - útsuðurs ... og éljagangur
16.júní: Frost - norðan stormur og ryk
17.júní: Norðan stormur og ryk
18.júní: Frost - norðan stormur og ryk - hvessir á útsunnan
19.júní: Norðan vindur - lygnir - hvessir á vestan og gerir ryk og regn.
Norðanfari birtir þann 27.september úr bréfum:
Úr Steingrímsfirði - dagsett 20.júní: Næstliðinn vetur voru einstök harðindi og vorið að sínu leyti eigi betra, svo engir muna jafn bága tíð, frá því á jólum og til Trínitatis [27.maí], grimmdarfrost með hríðum og jarðbönnum, svo útigangspeningi varð að gefa hey, fram yfir fardaga; og þótt nú sé komið að sólstöðum, sést enginn gróður. Hafís rak inn á alla firði á þorra í vetur, svo ekkert verður á sjó komist, og enginn sigling til okkar. Hákarlslaust í veiðistöðum.
Úr Austur-Skaftafellssýslu - dagsett 30.júní:
Harðindin gengu stöðugt frá nýári að kalla. Með þorra komu fádæma frostgrimmdir, svo að elstu menn muna eigi slíkar. Byljir komu fáir nema í byrjun marsmánaðar kom kafaldsbylur svo engu varð gegnt úti í 2 daga, en yfir höfuð að tala þó lítil snjókoma, þá sjaldan gaf að beita fyrir grimmdum og stórviðrum, voru hnjótar sem upp úr stóðu, svartir og blásnir, svo þar var engri skepnu líft á; menn gáfu því svo lengi sem þeir gátu, og urðu svo margir á þrotum með hey og máttu til að fara að beita út kúnum um sumarmál. Úr páskum [1.apríl] skánaði mikið, og hélst það til kóngsbænadags [27.apríl]; þá brá í mesta frostveður, og varð það margri skepnu að bana, sem annars hefði lifað.
Júlí. Óvenjukalt veður. Fyrstu dagana gerði óvenjulegt hríðarveður um allt landið norðvestanvert að því er virðist. Alsnjóaði í Stykkishólmi, snjódýpt var ekki mæld en miðað við úrkomumagn (30 mm að morgni þess 2.) gæti hún hæglega hafa verið 10 cm eða meiri - en leysti nánast strax. Mun betur er látið af tíð síðari hluta mánaðarins, þrátt fyrir kulda.
Séra Þorleifur Jónsson veðurathugunarmaður í Hvammi í Dölum segir: 1. júlí: Snjóél f.m. svo festi á fjöllum, en fennti alhvítt að nóttu niður í sjó. 2.júlí: Fjöll öll hvít af snjó og í byggð, að snjóinn tók ei upp að deginum. Þann 12.júlí getur Þorleifur jarðskjálfta um kl.2 síðdegis - ekki algengt þar um slóðir.
Norðanfari heldur áfram að lýsa tíð í pistli 23.júlí:
Fyrstu dagana af mánuði þessum kom enn eitt stórhretið svo alsnjóaði ofan í ár og sjó og hér fyllti fjörðinn með hafís, að kalla inn á leiru. Víðast var búið að færa frá og sumstaðar að reka lömb á afréttir. Margir kvarta yfir því hvað málnytan hafi minnkað af hreti þessu. Allt fram undir næstliðna helgi [22.júlí] var Húnaflói og Skagafjörður fullir með hafís, Fremur er látið sumstaðar bágt af skepnuhöldum vestra.
Þjóðólfur ræðir tíð og fleira þann 11.ágúst:
Vorkuldarnir og má segja, vorhörkurnar, héldust út allan júnímánuð með jafneinstöku gróðurleysi; meðaltalshitinn í júní fór eigi fram úr + 5°R [6,3°C], og þeir sem betur fara með kýr og höfðu nokkur heyjaráð, gáfu þeim framt að hálfri gjöf fram yfir Jónsmessu. Veðrið gekk til kalsarigninga og krapaélja undir mánaðamótin, er snerist upp í myrkvabyl og fannfergi dagana 1. og 2. júlí; í þeim byl villtust röskir ferðamenn á Kaldadal og lágu þar úti 2 næturnar; króknuðu þá nýrúnar kvíær sumstaðar um Húnavatnssýslu, og sumstaðar að mun, því alsnjóa var þar i byggð og fannalög sumstaðar og innistöður á öllum málnytufénaöi; á Svínaskarði hér syðra tóku snjóaskaflarnir hestum ferðamanna í kvið. Mátti heita að hafísinn lægi jafnlengi vestan frá Aðalvík meðfram öllu Norðurlandi víða landfastur og inn um Húnaflóa; þar náðu eigi kaupskipin höfn (á Hólanesi og Skagaströnd) fyrr en um mánaðamótin júní-júlí, og Kúvíkurskipið náði eigi þangað fyrren komið var fram í júlí, eftir 7 vikna hafvolk innan um ísinn hér undir landinu. Sauðburðurinn heppnaðist víða fremur öllum vonum og er haldið, að vart muni þriðjungur áa lamblausar upp og ofan hér sunnanlands, og um Mýra-, Dala-, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur; almennt er sagt, að ull sé í ár meiri og betri, að tiltölu við sauðfjártölu manna, heldur en nokkur undanfarinna ára, og er það, auðvitað því að þakka að fénaðurinn var almennt svo einstaklega vel haldinn og vel framgenginn fram yfir sumarmálin, þó að flesta þryti þá hey til að framhalda gjöfinni að því skapi sem vorhörkurnar voru og við héldust. Allan síðari helming júlímánaðar og fram til þessa dags hefir verið öndvegistíð til heyþerris og nýtingar og til allra sumarverka og nauðsynja, og er ómetanleg bót að því, hve vel að töður hljóta nú að verkast, því víðast að um land spyrst megnasti grasbrestur á túnum, og í lakara meðallagi grasvöxtur á allri útjörð nema í flóðum og forarmýrum, en slík slægjulönd þorna nú dag frá degi og þverrar af þeim vatnið í hinum daglega breiskjuþerri, er nú gengur. Fregnir að vestan segja að um 25. - 28. [júlí] hafi hafísinn verið að reka sem óðast inn Ísafjarðardjúp og inn á Skutulsfjörð. Næturnar 8.9. og 9.10. þ.mán. [ágúst) var næturfrost að mun. Fiskiaflinn hefir verið mæta góður hér syðra fyrir öllum fiski-jögtum og þiljubátum.
Yngstu fregnir af Ísafirði eftir 25. [júlí] segja víst, að frakknesk fiskidugga hafi bilast svo í ísnum er um þá daga var að reka inn, að hún hafi sokkið vestur af Horni eður fyrir framan Jökulfirðina, með nálega 17.000 þorskafla innanborðs, öllum skipverjunum, 1617 að tölu, hafi orðið bjargað lifandi.
Ágúst. Enn mjög kalt, óþurrkar norðaustanlands, en þurrara vestan- og sunnanlands.
Þann 6.ágúst segir Þorleifur í Hvammi frá næturfrosti og hélu.
Og enn heldur Norðanfari áfram þann 24.ágúst:
Síðan vér 23. [júlí] sögðum frá tíðarfarinu; þá hefir oftast verið kalt og stundum frost á nóttunni og snjór til fjalla t.a.m. 9. [ágúst], á Gönguskörðum, svo ei sást til vegar. Þá var svo mikið frost í byggð að hesta sýlaði og votir þvottar, sem úti voru, urðu freðnir. 23.júlí var enn snjór á túni á Hóli í Þorgeirsfirði í Þingeyjarsýslu og í sumum snjóaplássum, en gaddur á engjum. Allt fyrir þetta er þó töðufall víðast einkum til sveitanna allt að því í meðallagi, nýting góð vestra, en miður hér nyrðra og norður undan. Allir kvarta um grasbrest utantúns, einkum á votlendi. ... Seinast í júlímánuði og fram í þennan mánuð var hafísinn landfastur millum Hornbjargs á Ströndum og Stigahlíðar við Ísafjarðardjúp og inn eftir Húnaflóa að Kúvíkum og í Skagann að austan og inn með honum að vestan. Allt Strandagrunn og Kolbeinseyjagrunn þakið ísum upp fyrir vanaleg hákarlamið, en þar fyrir austan autt það eygt varð.
Þann 27.september birtir Norðanfari bréf af Langanesi, dagsett í ágúst:
Hér gengur mjög bágt með heyskapinn, sem eigi varð byrjaður fyrri en 14 vikur af sumri. Óþurrkar eru stöðugir, en veðuráttan óstöðug. Á innnesinu eru nýhirt tún, en útnesinu óhirt. Út lítur fyrir að heyskapur verði sár lítill.
September. Kalt, nokkuð óþurrkasamt eystra.
Þann 12.september getur Þorleifur í Hvammi þess að snjór hafi verið niður á láglendi um morguninn.
Þann 6.október birti Norðanfari bréf úr Seyðisfirði, dagsett 24.september:
Tíðarfarið hefir hér verið fremur óstillt og óþerrasamt, einkum síðan með byrjun september. Hér varð vegna ótíðarinnar í vor eigi byrjaður sláttur fyrr en um lok júlímánaðar, og var því skammt komin þá óþerrarnir byrjuðu, en margir hafa treyst því, að haustið myndi verða gott, sem að þessu hefir brugðist, það horfir því báglega til með skepnuhöldin, ef veturinn skyldi ofan á þetta verða harður.
Norðanfari segir þann 27.september:
Það ber öllum saman um að þetta sumar hafi verið hið kaldasta, sem menn muna til og var á þessari öld jafnmikil og langvinn hafþök af ís hér norðan fyrir landi; þó varð grasavöxtur sumstaðar alltað því í meðallagi, en aftur annarsstaðar minni og í minnsta lagi. Sláttur varð eigi byrjaður sums staðar fyrri en 1415 vikur af sumri. Það var líka um þær mundir, sem veikindunum [inflúensunni] í sumum sveitum fyrst létti af. Nýtingin varð framan af slættinum allgóð og sumstaðar hin besta. Síðan á leið sláttinn hafa þurrkarnir hér norður og eins eystra verið litlir og óstöðugir, því oftast hefir verið hafátt með rigningum og hretum, svo stundum hefir alsnjóað víða til dala og á sumum útsveitum, og nú komin á fjöllum mikil fönn. Margir eiga enn hey úti.
Þann 23.október birti Norðanfari úr bréfi úr Húnavatnssýslu dagsett 3.október:
Mikið hefir sumar þetta verið kalt, og það svo að engin man slíkt síðan 1802. Það hefir vart ef ekki rignt svo í sumar, að ekki hafi meira og minna snjóað til fjalla, og á Vatnsskarði hefir eigi verið nema hálf alin ofan af klaka. Heyskapur hefir orðið hér með rýrasta móti, en þó hafa einstöku menn, fengi heyskap í meðallagi, því nýtingin hefir verið mjög góð, og flestir eru enn að heyja, sem eitthvað hafa til að slá.
Október. Nokkuð hlýtt lengst af, úrkomusamt syðra, en góðir þerridagar nyrðra.
Þann 5. greinir veðurskýrsla frá geysilegum vatnavöxtum í Hvammi í Dölum.
Norðanfari greinir af tíð 6.október:
Síðast illviðrunum linnti, þá hefir hér verið og það til hefir spurst, sunnanátt og oftar góðir þerridagar, svo flestir ættu nú vera búnir að ná því er þeir áttu úti af heyjum sínum og hættir heyskapnum sem víðast er sagður með minna og sumstaðar minnsta móti. Auk þessa kvarta ýmsir um, að heyið sem inn var komið yfir ótíðina hafi, einkum í hlöðunum, meira og minna drepið og skemmst, enda voru hér svo ákafar rigningar og bleytuhríðar, að fá hús vörðust leka, og í mörgum engi flóarfriður.
Þjóðólfur segir af skipströndum í fréttapistli þann 25.október:
Að áliðnum 20. [október] sigldi hér inn Flóann skonnert Arndís " skipstjóri H. Fischer, í allhvössu veðri og megnum útsynningshroða; það var eign W.Fischers kaupmanns hér í staðnum, nýtt skip eður fárra ára. Það kom nú frá Englandi með salt og nokkuð af hampi, nálega 1400 pd. Hafnsögumennirnir komust út í skipið um eða nokkru fyrir sólarlag en þá eftir óðum að dimma, en hvassviðri hélst og brimaði; nálægt kl.7 átti að taka útslag eður norðurslag með litlum seglum, en þá sleit burtu þá einn fokknna er uppi var, svo skipið lét eigi að stjórn eður vendingu, og rak svo upp á vestasta hólmann fyrir austan Akurey og brotnaði þar í brimgarðinum, með því þá eigi gat tekist 4 velmönnuðum róðrarskipum, er brátt sigldu út til að bjarga því sem bjargað yrði, að koma skipinu á flot aftur. Öllum skipverjum var bjargað með heilu og höldnu, en brátt rifnaði skipið og braut á það gat svo allan saltfarminn tók út. Skipskrokkurinn sjálfur allslaus var seldur á uppboðsþingi 22. [október] fyrir 130 rd, Geir Zóega keypti. Annað skipstrand varð um byrjun þessa mánaðar. Við Hornstrandir norðast og vestast í Strandasýslu, það var skonnertskip Anne Marie 60 lestir að stærð skipherra P.S. Smith, eign Qubmanns kaupmanns, og var í heimleið frá Akureyri til Hafnar, hlaðið með ull, tólg, lýsi og annarri vöru. 4 skipverjanna björguðu sér á mastrinu en skipstjóri sjálfur og 2 aðrir drukknuðu þar, ...
Þjóðólfur segir í pistli þann 13.nóvember:
[Þ.] 18. f.mán. lagði bátur með 2 mönnum innan úr Hvítá og út eftir Borgarfirði, og sást til hans útum fram hjá Melum í Borgarfirði nálega kl.5 om daginn, er því talið víst, með því heldur var mótdrægt, að hann hafi eigi komist suðurundir Vogana norðanvert við Skipaskaga fyrr en nálega kl.7 um kveldið. Daginn eftir fannst báturinn rekinn í brotum, mestallur farangurinn og annar maðurinn, hinn fannst rekinn daginn eftir, þegar mannleit var að gjörð. Formaðurinn var Þorbjörn Davíðsson frá Spóamýri, ...
Nóvember. Kalt í veðri. Hríðasamt nyrðra.
Þjóðólfur segir af árferði og aflabrögðum í pistli 13.nóvember:
Eftir því sem almennar fregnir segja af grasvexti og heyskap víðsvegar um land, þá var grasvöxtur víðast svo rýr á túnum um allt Vesturland og Suðurland austur að Mýrdalssandi, að upp og ofan þykir mega telja þriðjungs töðubrest á túnum við það sem er í meðalári; sami grasbrestur er almennt sagður utantúns víðsvegar að vestan, en hér sunnanlands voru flóð og votengi sprottin í meðallagi. Austan- og norðanlands og víðast fyrir austan og norðan Hrútafjörð voru tún sprottin í meðallagi og þar yfir sumstaðar. Töðunýtingin varð afbragðs góð yfir allt, og yfir höfuð á öllum heyskap fram undir höfuðdag, og er almennt talið víst, að allur heyskapur til þess tíma reynist bæði í góðri verkun og áreiðanlegur eins til mjólkur sem holda, þar sem eigi skemmdist í görðum og drap heyin í hinum miklu rigningum hér syðra frá miðjum september og fram undir veturnæturnar, og er almennt kvartað yfir þeim skemmdum hið efra um Borgarfjörð beggja megin Hvítár, en eigi eins hér syðra, austanfjalls eður vestur um Mýrar. Hinn sami óþerrir og rigningakafli gekk yfir Múlasýslur og Skaftafellssýslur og gjörðu þar engja heyskapinn frá höfuðdegi mjög endasleppan. Kálgarðauppskeran hefir verið allstaðar með minna móti, og svo gott sem engin norðanlands og í fjallasveitunum hér syðra. Skurðarfé reynist allstaðar næsta rýrt á mör, en í lakara meðallagi á hold, eftir því sem almennar fregnir segja.
Páll Melsteð ritar í Þjóðólf þann 27.nóvember um loftsjón, loftsteinadrífu sem sást í Reykjavík að kvöldi 13.nóvember:
Að kveldi 13. þessa mánaðar sást hér í Reykjavík fögur loftsjón, og vil ég með nokkrum orðum geta hennar hér og síðan leiða athygli manna lítið eitt að því efni. Þetta sama kveld var veður bjart í lofti, en ský eða þokubakkar niður við fjöll og sjóndeildarhring,frost nokkurt og föl a jörðu. Næturverðir bæjarins komu á strætin kl.10 um kveldið og tóku þegar eftir því, að stjörnuhröp í frekara lagi sáust um austurloftið; aðrir menn sátu inni og vissu svo eigi hvað úti gjörðist. Þessi stjörnuhröp fóru alltaf vaxandi og þegar kom fram um 11. stund voru þau mörg á lofti í einu, ofar og neðar í lofti og til beggja hliða; þá urðu nokkrir aðrir menn hér í bænum þessa varir, og horfðu á um stund; hér um bil kl. 12 stóð þetta sem hæst, en síðan fór það heldur minnkandi, og kl.1 fór veður að þykkna; þó sáu næturverðir ljósglampana við og við fram til kl.4 um nóttina. Öll þessi loftljós komu úr norðaustri (landnorðri) og flugu upp á loftið til suðvesturs (útsuðurs), komust sum eigi nema nokkra leið upp á loftið, en sum upp á háhvolfið og eyddust þar. Öll voru þau smá, eins og venjuleg stjörnuhröp, nema eitt, það var allmikill eldhnöttur (vígahnöttur?), og lýsti mjög af, er hann þaut upp á loftið, en þar hvarf hann; eigi heyrðu þeir þyt eða bresti til þessara loftsjóna, en mjög hafði sjón þessi verið fögur, og líkast til að sjá eins og ótal flugeldum (Raketter) væri skotið upp af litlu svæði á norðausturloftinu. Nóttina þar á undan höfðu nokkur af þessum flugljósum sést eins og að undanförnu í vetur, en aldrei þykjast þeir, sem á horfðu, hafa séð neitt þessu líkt. Það eru mikil líkindi til að þessi sjón hafi víðar sést hér á landi, og væri æskilegt, að þeir, sem hafa verið svo heppnir að sjá hana, vildu senda til blaðanna skýrslu um það, og sömuleiðis ef þeir hefðu séð slíkt að undanförnu. [Síðan kemur langur og fróðlegur kafli um stjörnuhröp, eðli þeirra og orsakir].
Norðanfari greinir frá tíð og fleiru þann 15.nóvember:
Frá 28 september til 28 október næstliðinn var hér oftar gott veður og sunnanátt, svo flestir gátu unnið að og lokið við haustverk sín, þó margir hér í bænum eigi enn minna og meira óheimflutt af sverði sínum, sem kemur til af því, að hér eru allt of fáir menn í kring, sem geti misst sig og hross sín til slíkra flutninga, og láta þá sitja fyrir sem mest mega; og er þó bæjarbúum sem út undan verða í þessu tilliti mikið mein að því, sem líklega ekki verður ráðin bót á fyrri en hér kemst á vagnakstur. Síðan 28. október og til hins 13. þ.m. hefir verið norðanátt með fjúki og frostum. Á útsveitum öllum hér norðanlands segja menn mikla fönn komna, og sumstaðar svo að allur peningur er kominn á gjöf; aftur er sagt snjóminna og snjólítið til uppsveita og dala. Hlýindi voru hér í októbermánuði stundum 69 stig á Reaumur [7 til 11°C] einkum dagana 2., 17. og 21. Frost aftur mest 6.9. nóv. 1315 stig á R [16-19°C]. Jarðeplaaflinn varð hér á Akureyri í haust með langminnsta móti og hjá sumum eigi teljandi, sem er býsna hnekkir fyrir bæjarbúa, sér í lagi þá er meira eða minna hafa haft lífsbjörg sína af atvinnuveg þessum, einkum í góðum árum.
Desember. Kalt og umhleypingasamt veðurlag.
Norðanfari segir frá 15.desember:
[Þ.] 7. þ.m. kom austanpósturinn sem nú heitir Þorkell Þorkelsson. Hann hafði farið frá Eskjufirði 21. f.m., var hríðtepptur í 2 daga á leiðinni og 1 dag beið hann eftir bréfum. Í Múlasýslum, hafði viðrað líkt og hér, enn þó fannfallið enn meir, einkum í fjörðunum, og víða hagskart.
Þjóðólfur segir af árferði, aflabrögðum og fleiru þann 22.desember:
Veðráttan frá veturnóttum hefir haldist hér sunnanlands með sömu stöðugum útsynningsumhleypingum og éljagangi og blotum á mis, og hlaupið annað veifið upp í landnorður með frosti og byljum. Jarðir hafa samt haldist góðar hér syðra miðsvæðis í öllum hálendu sveitunum, og er víðast í þeim sveitum, að eigi hefir þótt þörf á að heyja lömb fyrr en nú um þessa daga. Um allt láglendi í Árnes- og Rangárvallasýslu hafa snjóa- og svellalögin orðið þyngri og kreppt að sauðahögum, og megn harðindi sögð og skrifuð austan úr Skaftafellssýslu þegar um 20. f.mán., einkum fyrir austan Mýrdalssand. Með ferð, er nú varð norðan úr Eyjafirði 20. þ. mánaðar er skrifað um byrjun þ. mánaðar, að veturinn hafi þegar lagst þar allþungt að með allmiklum snjóþyngslum, einkum hið fremra um Eyafjörð, og það vestureftir sveitunum. Fiskiaflinn sagður á förum um Eyjafjörð, Hrútafjörð og Miðfjörð nú um mánaðamótin; hafði þar þó aflast allvel í haust fram til jólaföstu, en smár fiskur. Hér um öll Inn-nesin, en einkum á Akranesi og Seltjarnarnesi, hefir mátt kalla kjörafla í haust, og fremur vænn haustfiskur, þó að gæftir hafi verið með tregara móti sakir umhleypinganna; um þessi Nesin mun vanta minna á 7900 hluti hjá hinum mestu. Syðra hefir aflinn verið miklu minni að tiltölu, og sáralítill í Garðinum hjá sumum.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1866. Tölulegt yfirlit (heldur rýrt) má finna í viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2020 | 02:53
Fyrstu tíu dagar júnímánaðar
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu daga júnímánaðar er 8,8 stig, -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 16.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2016, meðalhiti þá 11,5 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti 6,5 stig. Á langa listanum er hitinn í 60.sæti (af 146). Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2016 (eins og áður var nefnt), en kaldastir voru þeir 1885, meðalhiti aðeins 4,9 stig.
Meðalhiti á Akureyri nú er 9,0 stig. Það er 0,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en í meðallagi síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Austfjörðum og Suðausturlandi (hiti þar í 11.sæti á öldinni), en kaldast við Faxaflóa (16.sæti). Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast að tiltölu á Hornbjargsvita, vikið þar er +0,7 stig, en kaldast hefur verið í Þúfuveri, hiti -1,8 stig neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 6,3 mm í Reykjavík og er það um helmingur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur hún mælst 8,2 mm - og þó það sé ekki mikið er það samt umfram meðallag þar um slóðir.
Sólskinsstundirnar hafa mælst 74,5 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.
4.6.2020 | 02:23
Hlýtt loft stuggar við köldu
Tunga af hlýju lofti sem skaut sér norður undir Grænland pikkar í kuldann á norðurslóðum þannig að hann hrekkur til og hluti hans leitar til suðurs - aðallega fyrir austan Ísland þó - ryðst síðan suður til Bretlandseyja og jafnvel suður á meginland Evrópu.
Kortið gildir nú á miðnætti (miðvikudagskvöld 3.júní) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir) en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Breiður geiri af hlýju lofti liggur til norðurs austan Nýfundnalands - fer upp að Suður-Grænlandi, sveigir þar snöggt til austurs - myndar bylgju hlémegin jökulsins. Hitinn nær þar hámarki í niðurstreymi - þykktin fer upp í 5650 metra, gerist vart mikið meiri í fyrri hluta júnímánaðar. Stríður vindstrengur (þéttar jafnhæðarlínur) er yfir Íslandi - mátti sjá hann á skýjum undir kvöld.
Hlýi bletturinn er þó að mestu negldur fastur nærri Grænlandi - þar er niðurstreymið langmest - en minna annars staðar. Þegar bylgjan dofnar lækkar hitinn. Þetta loft kemur hreyfingu á nokkuð öflugan kuldapoll við norðurjaðar kortsins. Þar er þykktin innan við 5100 metrar á bletti. Þetta kalda loft hrekst til suðurs - austan við framsókn hlýja loftsins og fer yfir Ísland á morgun, fimmtudag. Mesti háloftakuldinn nær þó ekki til okkar og það sem hingað kemur af honum fer fljótt hjá. En kuldi verður þó viðloðandi í neðstu lögum næstu daga á eftir.
Þykktin yfir landinu fer þó varla mikið niður fyrir 5240 metra - ekki gott í júní en langt í frá einstakt. Metið er í kringum 5170 metrar - nokkrum stigum kaldara.
Svo er harla óljóst hvað gerist næst - helst er reiknað með leiðinlegri aðsókn úr vestri framan af næstu viku og eftir það eru spár algjörlega í lausu lofti - allt frá skítakulda og trekki yfir í veruleg hlýindi. Það verður bara að sýna sig þegar nær dregur hvað úr verður - meðalmoðið kannski líklegast.
2.6.2020 | 16:41
Háloftin í maí
Vestanáttin í háloftunum var með öflugra móti í mánuðinum - en að öðru leyti var flest nærri meðallagi við landið.
Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins (eins og evrópureiknimiðstöðin greinir hana), en vik eru sýnd með litum - jákvæð vik rauðbrún en neikvæð eru blá. Við tökum eftir býsna miklu jákvæðu viki yfir Bretlandseyjum - enda var þar mjög sólríkt og hlýtt lengst af, en Skandinavía - sérstaklega austurhluti hennar var í viðvarandi svalri norðvestlægri átt.
Eins og fram hefur komið hér á hungurdiskum var hiti hér á landi ekki fjarri meðallagi - úrkoma var í rétt rúmu meðallagi um landið vestanvert - hefði mátt búast við meiri úrkomu vegna þess hvað vestanáttin var eindregin, en kannski hefur viðvarandi hæðarsveigja haldið henni í skefjum (eða þannig). Alla vega komu nokkuð margir miklir sólardagar þegar niðurstreymis austan Grænlands naut. Mjög þurrt var víða norðaustanlands - og mánuðurinn þar meðal þurrustu maímánaða á öldinni. En þegar litið er til lengri tíma má þó finna talsvert þurrari.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.11.): 244
- Sl. sólarhring: 333
- Sl. viku: 1678
- Frá upphafi: 2408546
Annað
- Innlit í dag: 230
- Innlit sl. viku: 1510
- Gestir í dag: 222
- IP-tölur í dag: 221
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010