Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015
30.7.2015 | 02:31
Lægð úr norðaustri
Á aðfaranótt sunndags virðist lægð eiga að fara til suðvesturs yfir landið vestanvert. Lægðir sem fara til suðvesturs eiga oftast erfitt uppdráttar - og þessi er ein af þeim. Reiknimiðstöðvar eru ekki alveg sammála um hvernig eigi að taka á þessu. Ekkert mun ritstjóri hungurdiska fullyrða heldur - en hér er alla vega spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 á laugardag.
Lægðin er hér skammt norðaustan við land - á leið suðvestur - en síðdegis á sunnudag verður hún orðin að lægðardragi fyrir suðvestan lands (sé eitthvað að marka þetta). Nokkur úrkomuhnútur fylgir lægðinni og þar með vindstrengur - hans gætir um landið norðvestanvert - nái hann inn á land á annað borð.
Vestan og norðan við lægðina er töluvert hlýrra loft en hefur verið yfir okkur að undanförnu - en því miður sést víst lítið af því hér á landi - en kannski koma samt eitthvað hlýrri dagar en verið hefur - en við verðum að láta það liggja á milli hluta í bili.
En lægðin ryður á undan sér leifum kaldasta loftsins fyrir norðan land og eru þær yfir landinu á laugardaginn - sé að marka spána.
Langt suður í hafi er svo mjög vaxandi lægð - hún verður nægilega djúp til þess að geta gert eitthvað í málinu - strandi hún sunnan við land - en fari hún til norðurs fyrir austan landið - eins og talið er líklegra nú - styrkir hún og framlengir norðaustanáttina. Annars þýðir ekkert að vera að mala um slíkt nú - við getum vel látið það bíða í nokkra daga.
29.7.2015 | 02:24
Meðal köldustu júlímánaða um landið norðan- og austanvert
Mánuðurinn hefur verið mjög kaldur - sérstaklega um landið norðan- og austanvert - en undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt. Á bletti um landið suðvestanvert er hann enn ofan við meðallag áranna 1961 til 1990.
Kortið hér að neðan sýnir stöðu hitavika - sé miðað við síðustu tíu ár.
Vikin eru meiri en -3 stig á allstóru svæði norðaustanlands og við -4 stig í efstu byggðum og á hálendinu norðan Vatnajökuls. Skárra hefur verið á annesjum - sjórinn mildar aðeins þrátt fyrir allt. Kuldi hefur einnig legið vestur með landinu suðaustanverðu - og líka út Breiðafjörð - en þau svæði sem hafa sloppið best eru Faxaflói og sunnanverðir Vestfirðir.
Keppnin á júlíbotninum er nokkuð hörð þannig að við vitum ekki enn í hvaða sætum hiti einstakra staða lendir - en mánaðarmet falla sennilega ekki á neinum stöðum þar sem mælingar hafa staðið í meir en 20 ár. Júlí 1993 er mjög viðskotaillur - og hleypir núlíðandi júlímánuði varla niður fyrir sig.
En þó - við fáum samt met. Lítum á töflu sem sýnir meðalhita á nokkrum sjálfvirkum stöðvum það sem af er mánuði.
Hlýjustu og köldustu stöðvar júlímánaðar - til þessa (til og með 28.) | |||||
röð | ár | mán | mhiti | nafn | |
1 | 2015 | 7 | 11,41 | Reykjavíkurflugvöllur | |
2 | 2015 | 7 | 11,34 | Reykjavík | |
3 | 2015 | 7 | 11,33 | Reykjavík búveðurstöð | |
4 | 2015 | 7 | 11,27 | Korpa | |
149 | 2015 | 7 | 3,35 | Innri Sauðá | |
150 | 2015 | 7 | 3,25 | Þverfjall | |
151 | 2015 | 7 | 1,82 | Brúarjökull B10 | |
152 | 2015 | 7 | 1,59 | Gagnheiði |
Reykjavíkurstöðvarnar raða sér í toppsætin. Það er auðvitað mjög óvenjulegt - hefur þó gerst áður. - En á botninum er Gagnheiði. Það kemur ekki á óvart og heldur ekki að Brúarjökull og Þverfjall séu í næstu sætum þar fyrir ofan. Tölurnar á Gagnheiði og Brúarjökli eru hins vegar óvenjulegar. Þetta er lægsti meðalhiti sem sést hefur í júlí á íslenskum veðurstöðvum. - Nú voru þessar stöðvar ekki farnar að mæla í júlí 1993 - og er ekki ótrúlegt að þá hafi verið enn kaldara - en þetta eru samt lægstu tölur sem við eigum - og met sem slík. - Nokkuð langt er í næstu tölur ofan við.
Við skulum líta á þær.
Lægsta júlítalan til þessa er frá Gagnheiði 1995, +3,00 stig, 1,4 stigum ofan við meðaltalið hér að ofan. Í júlí 1998 mældist meðalhitinn á Fonti ekki nema +3,33 stig - það er lægsta tala sem við eigum á láglendi. Nú er hins vegar mun hlýrra á Fonti - meðaltal núlíðandi júlímánaðar er +5,75 stig. Eitthvað munar um sjóinn í ár.
Júlímánuður 1882 var afburðakaldur. Þá var meðalhiti í Grímsey 3,7 stig, en er +6,51 stig nú - nærri þremur stigum hlýrri. Lítillega kaldara var á Skagaströnd en í Grímsey í júlí 1882, 3,6 stig.
Nú er hitinn í Möðrudal +5,8 stig - en var ekki nema +4,6 stig 1993. Ekki var mælt í Möðrudal 1882 - en þá var meðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum +7,4 stig - hærri en nú.
Þetta ætti að sýna að eðli kuldans er nokkuð misjafnt. Stundum er kaldast að tiltölu inn til landsins - en skárra við sjóinn - stundum öfugt - og stundum er varla hægt að greina á milli.
Vegagerðarlistinn er svona:
hlýjustu og köldustu vegagerðarstöðvar það sem af er mánuði | |||||
röð | ár | mán | mhiti | nafn | |
1 | 2015 | 7 | 11,39 | Blikdalsá | |
2 | 2015 | 7 | 11,25 | Akrafjall | |
3 | 2015 | 7 | 11,18 | Kjalarnes | |
3 | 2015 | 7 | 11,18 | Hraunsmúli | |
84 | 2015 | 7 | 4,51 | Ennisháls | |
84 | 2015 | 7 | 4,51 | Möðrudalsöræfi II | |
86 | 2015 | 7 | 3,98 | Vatnsskarð eystra | |
87 | 2015 | 7 | 3,63 | Fjarðarheiði | |
88 | 2015 | 7 | 3,57 | Steingrímsfjarðarheiði |
Tölurnar í neðstu sætunum öllum eru lægri heldur en lægstu júlímeðaltöl hingað til á vegagerðarstöðvunum. Þetta er kaldasti júlí sem þessar stöðvar hafa séð. Lægsta talan til þessa var frá Sandvíkurheiði, +5,41 stig - þar er meðalhiti nú aðeins +4,79 stig.
En við bíðum spennt eftir mánaðamótum.
27.7.2015 | 02:01
Norðlægur áfram
Ekki er nokkur breyting á veðurlagi í hendi næstu vikuna. En lítum á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á þriðjudag (28. júlí).
Þetta er býsna líkt því sem verið hefur - nema hvað kuldapollur dagsins kemur vestan yfir Grænland - og lendir því yfir hlýjum sjó áður en hann fer að hafa áhrif hér. Ekki að það muni svo miklu því ekki er hann líklegur til að rífa upp hlýtt, suðrænt loft á sinni leið - frekar að hann komi í veg fyrir að það komist hingað.
En - sunnanátt fyrir austan land fær tækifæri til að koma hlýrra lofti en verið hefur til norðurs austan við landið - hugsanlega gæti það nýst okkur síðar - en er sýnd veiði en ekki gefin. Hlý norðanátt?
En kuldapollurinn gengur til austurs fyrir sunnan land - kortið hér fyrir neðan sýnir spána sem gildir síðdegis á fimmtudag 30. júlí.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim getum við séð að áttin er austlæg yfir landinu og jú, vindurinn virðist vera að bera ívið hlýrra loft (ljósgrænan lit) í átt til landsins. Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - og miklu hlýrra loft er á kortinu langt fyrir norðaustan land. Þar er þykktin meiri en 5580 metrar - algjör lúxus miðað við græna litinn sem umlykur landið.
En - því miður segja spár að kuldapollurinn haldi velli - hann fari ekki mikið lengra en kortið sýnir og haldi þar með hlýrra lofti í skefjum. En þarna erum við komin fjóra daga fram í tímann - og spár óvissari úr því.
Við ljúkum pistlinum með því að líta á hæðar, þykktar og þykktarvikameðaltal næstu tíu daga - í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ekki er það efnilegt - frekar en venjulega.
Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins næstu tíu daga (fram til 5. ágúst). Að meðaltali er spáð norðaustanátt í háloftunum - langt bil er á milli jafnhæðarlína og það þýðir að líklega verður áttin eitthvað breytileg frá degi til dags. Daufar strikalínur sýna meðalþykktina. Þeir sem treysta sér til að fylgja þeim munu sjá að risastór poki lágrar (lítillar) þykktar umlykur bæði Ísland og Grænland.
Litirnir sýna svo þykktarvikin - þau eru langt undir meðallagi við landið - meira þó fyrir sunnan land en norðan. Í miðju fjólubláa svæðinu er talan -117 metrar. Hún þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er 5 til 6 stig undir meðallagi árstímans. Sjórinn sér reyndar til þess að vikin verða ekki svona stór í neðstu lögum - en skúrasælt verður á svæðinu.
Vikin eru heldur minni yfir Íslandi, kringum -3 stig sunnanlands, en ívið minni nyrðra.
Kuldi í háloftum að sumarlagi er ávísun á síðdegisskúrir - en kannski verður veðrið ekki sem verst.
25.7.2015 | 02:01
Svalur - en ...
Við lítum á tvö spákort í dag. Það fyrra sýnir ástandið í háloftunum á norðurskautssvæðinu (og suður til okkar), en það síðara er hefðbundið sjávarmálskort af Norður-Atlantshafi - báðar gilda spárnar síðdegis á sunnudag (25. júlí).
Norðurskaut er nærri miðri mynd, en Ísland alveg neðst. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í fletinum. Ísland er í algjörri flatneskju varla nokkra línu að sjá við landið.
Litirnir sýna þykktina, en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við ættum þessa dagana að vera í gula litnum - en það er langt í frá. Grænu litirnir eru þrír, sá ljósasti hlýjastur - en við erum í þeim í miðið - hiti veðrahvolfs langt neðan meðallags. Snarpur kuldapollur við Norðaustur-Grænland er sá langkaldasti á kortinu - þar sér í bláa litinn - sem við viljum helst ekki sjá hjá okkur fyrr en í október - en það er óskhyggja.
Reiknimiðstöðvar eru sammála um að senda kuldapollinn til vesturs í hringsól um heimskautaslóðir. Annar kuldapollur - mun minni - er við Vestur-Grænland og hreyfist suðaustur - hann á að fara til austurs fyrir sunnan land í næstu viku - og heldur við kuldanum hjá okkur - þrátt fyrir að vera þó ekki mjög vondrar gerðar.
Við verðum sum sé í svalanum áfram - svo lengi sem vindur er hægur er kalt loft í háloftunum bein ávísun á síðdegisskúrir inn til landsins - þar sem sólaryls gætir mest.
En ef við rýnum í myndina sjáum við að þó að hæðarsviðið sé marflatt er lítilsháttar bratti á þykktarsviðinu - það er aðeins kaldara fyrir norðvestan land heldur en fyrir suðaustan. Það þýðir að norðaustanátt er í neðri lögum. Hún er ekki mikil en sést samt vel á sjávarmálsþrýstikortinu hér að neðan. Það gildir á sama tíma - klukkan 18 síðdegis á sunnudag.
Hér er fjögurra hPa bil á milli þrýstilína - en sú sem liggur yfir landið er mjög sveigð og krumpuð - greinileg norðaustanátt er norðvestan- og suðaustan við land. Grænir blettir eru yfir Suðurlandi og yfir innsveitum norðanlands. Hér er líkanið að búa til síðdegisskúrir - önnur líkön eru ekki alveg jafnviss með magnið. Af því sjáum við að það eru trúlega nokkur átök á milli ýmissa veðurþátta í gangi - sem hin aðskiljanlegu líkön ota mismikið fram. - En við veltum okkur ekki upp úr því að þessu sinni.
Rétt er að benda á lægðina yfir Svíþjóð. Hún á að valda allmiklu illviðri í Niðurlöndum, Danmörku og Þýskalandi á morgun (laugardag) - á sunnudag í Svíþjóð og Noregi. Koma þar við sögu eldingar og síðan mikið hvassviðri í kjölfar lægðarinnar - heldur leiðinlegt - mjög leiðinlegt. Hér sjáum við að önnur lægð fylgir eftir á svipaðri braut á mánudag - er á kortinu við Bretland - og reyndar hugsanlega fleiri - sjáið t.d. lægðina syðst á kortinu - en um það eru reiknimiðstöðvar auðvitað ekki sammála - margir dagar - margs konar spár.
En við virðumst sem sagt sitja í svalanum - en sleppum við meiriháttar illviðri. Kannski sjást þó stöku eldingar - nái síðdegisskúrirnar sér á strik. Jú, svo heldur þurrkurinn um norðvestanvert landið væntanlega áfram - með viðvarandi gróðureldahættu - og bjartar, hægar nætur í köldu lofti - ja ...
24.7.2015 | 02:07
Af hæsta hita ársins (til þessa) á einstökum veðurstöðvum
Fyrir nokkru var á þessum vettvangi farið yfir hæsta hita ársins á einstökum veðurstöðvum og hvenær hann hafi mælst. Í viðhenginu er listi sem nær til allra veðurstöðva landsins.
Taflan hér að neðan sýnir stöðuna á mönnuðu stöðvunum.
ár | mán | dagur | klst | hæst °C | stöð | |
2015 | 6 | 28 | 18 | 21,8 | Stafholtsey | |
2015 | 6 | 26 | 18 | 20,5 | Akureyri | |
2015 | 6 | 27 | 18 | 20,3 | Ásgarður | |
2015 | 7 | 4 | 18 | 19,8 | Hjarðarland | |
2015 | 6 | 26 | 18 | 19,7 | Bláfeldur | |
2015 | 6 | 26 | 18 | 19,4 | Reykjavík | |
2015 | 6 | 26 | 18 | 19,2 | Bergstaðir | |
2015 | 6 | 27 | 18 | 19,2 | Bergstaðir | |
2015 | 6 | 27 | 18 | 19,0 | Hólar í Dýrafirði | |
2015 | 6 | 26 | 18 | 19,0 | Mánárbakki | |
2015 | 7 | 4 | 18 | 18,7 | Grímsstaðir | |
2015 | 7 | 4 | 18 | 18,6 | Eyrarbakki | |
2015 | 4 | 18 | 18 | 18,2 | Skjaldþingsstaðir | |
2015 | 6 | 27 | 9 | 17,5 | Stykkishólmur | |
2015 | 4 | 18 | 18 | 17,3 | Miðfjarðarnes | |
2015 | 6 | 30 | 18 | 17,1 | Keflavíkurflugvöllur | |
2015 | 2 | 9 | 9 | 16,8 | Dalatangi | |
2015 | 7 | 5 | 9 | 16,5 | Bolungarvík | |
2015 | 6 | 18 | 18 | 16,4 | Höfn í Hornafirði | |
2015 | 6 | 16 | 18 | 15,6 | Sauðanesviti | |
2015 | 7 | 3 | 18 | 15,5 | Vatnsskarðshólar | |
2015 | 6 | 19 | 18 | 13,0 | Litla-Ávík |
Stöðvarnar eru 21, þar af eiga aðeins 5 hæstan hita í júlí - en flestar í júní. Á Dalatanga er 9. febrúar enn hlýjasti dagur ársins, og á Skjaldþingsstöðum og í Miðfjarðarnesi hafa enn ekki komið hlýrri dagar en 18. apríl. Dalatangi er þekktur ólíkindastaður hvað hámörk varðar - en heldur er þetta öfugsnúið á hinum stöðvunum tveimur. - En þeir hljóta að eiga eftir að bæta sig.
Á mönnuðu stöðvunum á Stafholtsey enn hæstu töluna, 21,8 stig - en Litla-Ávík situr á botninum. Þar hefur hiti enn ekki komist í meir en 13,0 stig. Í Reykjavík stendur talan í 19,4 stigum - það er reyndar ekki fjarri miðgildi síðustu 50 ára, það er 18,9 stig. Miðgildið segir til um miðju dreifingarinnar - hæsti hiti ársins hefur síðustu 50 árin í helmingi tilvika verið 18,9 stig eða meiri - en í helmingi lægri. Síðast var það 2006 að hæsti hiti ársins varð lægri en það sem best hefur verið til þessa í ár.
Lægsta árshámark í Reykjavík frá upphafi samfelldra hámarksmælinga 1920 er 14,7 stig, það var 1921 sem skilaði svo lélegum árangri, næst koma svo 15,6 stig 1973 og 1989.
Listinn í viðhenginu nær, eins og áður sagði til allra stöðva, nördin geta þar starað úr sér augun að vild. Hæsti hiti landsins á árinu til þessa mældist í Húsafelli 26. júní - hiti hefur komist í 20 stig á rúmlega 20 stöðvum, en 24 hafa ekki enn náð 15. Ein hefur ekki náð 10 stigum - það er stöðin á Brúarjökli, 9,5 stig eru enn það mesta þar - mældist í mars og aftur í maí.
Á vegagerðarstöðvunum er Kolás í Borgarfirði með hæstu töluna, 21,5 stig - 26. júní (sama dag og hámarkið í Húsafelli). Ein vegagerðarstöð, Steingrímsfjarðarheiði, hefur enn ekki náð 10 stigum, 9,8 stig er hæsta talan þar - mældist 4. júlí.
Á sjálfvirku stöðvunum á apríl enn hæstu töluna á einum 14 stöðvum (11 á Austurlandi auk Raufarhafnar, Grímseyjar og Hornbjargsvita). Hlýi febrúardagurinn á enn hæsta hámarkið á Dalatanga, í Vattarnesi og Seley. - En þetta getur varla orðið lokaniðurstaða ársins - eða hvað? Hvaða stöðvar skyldu það annars vera sem nú þegar hafa fengið hlýjasta dag ársins? Veðbankar í Englandi geta e.t.v. sinnt því máli?
22.7.2015 | 01:26
Þriggja mánaða kuldi
Kuldarnir sem hófust á sumardaginn fyrsta eru nú búnir að standa í þrjá mánuði, fyrstu 13 vikur sumars að fornu tali. Rétt er að líta á hvernig þetta tímabil kemur út í samanburði við síðustu 67-árin.
Við lítum á meðalhita í Reykjavík, á Akureyri og á Egilsstöðum. Seint í júní sveigði versti kuldinn frá suðvesturhorni landsins og útkoman þar er því ekki alveg jafnslæm og á landinu norðan- og austanverðu.
Fyrsta myndin sýnir hita í Reykjavík.
Strikalinan sem dregin er þvert yfir myndina sýnir hitann í ár. Sami tími í fyrra var hlýr í Reykjavík, nærri því eins og 2010 sem er hlýjastur. Við þurfum að fara allt aftur til 1992 til að finna jafnlága tölu og nú - en þó er munur vart marktækur næstu árin á eftir. Nokkrum sinnum var áberandi kaldara en nú, langkaldast 1979 og svo í upphafi línuritsins, 1949, slæmt var líka 1983 og 1989.
Þetta lítur enn óhagstæðara út á Akureyri.
Vel sést hversu hitinn var ofboðslega afbrigðilegur á Akureyri á sama tíma í fyrra. Hrapið er mikið. Við þurfum að leita aftur til 1981 og 1983 til að finna svipaðan kulda og nú, en mun kaldara var 1979 - rétt eins og í Reykjavík.
Síðasta mynd dagsins sýnir hitann á Egilsstöðum - á þeim slóðum og í efri byggðum norðaustanlands hafa neikvæð hitavik verið hvað mest að undanförnu. Egilsstaðaröðin byrjar hér 1955 - erfitt hefur reynst að samræma eldri mælingar þar á bæ (fyrir 1955) þeim yngri.
Sami tími í fyrra var mjög hlýr á Egilsstöðum - þó ekki eins afbrigðilega og á Akureyri, við finnum nærri því eins háar tölur 1991 og 1984. Sömuleiðis má vekja athygli að sami tími árs 2011 og 2012 er harla neðarlega - þó talsvert sé í ástandið nú. Árið 1967 var fyrri hluti sumars á Egilsstöðum svipaður og nú, sömuleiðis 1981, 1979 var kaldast - eins og á hinum stöðunum, en ekki munar samt mjög miklu.
Enn er enga breytingu sem hönd er á festandi að sjá í kortum reiknimiðstöðva - kuldinn ríkir. - Það er helst huggun að verstu kuldapollar norðurslóða eru langt undan - þannig að við verðum ekki í kaldasta lofti norðurhvels alls - eins og stöku sinnum hefur borið við að undanförnu. - Nóg er samt.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.7.2015 | 02:12
Meiri kuldi
Það fer að minnka tilbreytingin í fyrirsögnum haldi kuldinn áfram - eins og hann virðist ætla að gera. Dagurinn í dag (sunnudagur 19. júlí) var sá næstkaldasti í mánuðinum á landsvísu - og líklegt að keppninni um þann kaldasta sé ekki lokið. Sumir íbúar suðvesturhluta landsins munu þó halda áfram að sleppa furðanlega.
En hinn sérlegi kuldi dagsins verður að skrifast á ábyrgð kuldapollsins snarpa sem undanfarna daga hefur verið að mjaka sér norðan úr Íshafi til landsins. Hann verður kominn suður fyrir land annað kvöld (mánudag). Áttin verður þá austlægari í háloftunum í bili og eitthvað hægir á norðanáttinni niðri í mannabyggðum.
Kortið sýnir stöðuna í dag (sunnudag). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit - þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og er að meðaltali í kringum 5480 metra hér við land í júlí.
Hér er hún miklu lægri. Í dekksta græna hringnum er hún innan við 5340 metrar - eða 140 metrum undir meðallagi - vikið suðvestanlands er öllu minna. Kuldapollurinn hreyfist til suðvesturs - og hlýr sjór mun næstu daga leitast við að auka þykktina - en hefur illa undan vegna meiri kulda að norðan.
Næsta mynd sýnir stöðuna á miðvikudaginn kemur (22. júlí).
Hér er dekksti græni liturinn horfinn - en á móti kemur að kalda loftið er nú nærri því einrátt langt suður í haf - nær um allt Grænland og suður til Bretlandseyja. Þetta er ekki alveg venjuleg staða - en þar sem sól nær að skína verður sæmilega hlýtt yfir hádaginn - sunnan undir vegg.
Þótt vanir menn sjái kuldann vel á þessu korti - afhjúpast hann þó fyrst og fremst með því að líta á vikin. Kortið að neðan sýnir meðalhæð (heildregnar línur), meðalþykkt (strikalínur) og þykktarvik (litir) næstu 10 daga - allt fram til 29. júlí.
Bláu litirnir sýna hvar hita í neðri hluta veðrahvolfs er spáð undir meðallagi. - Og það er á mestöllu svæðinu. Mikil hlýindi halda þó velli vestur af Grænlandi og í Suður-Evrópu. Hér við land er þykktin -90 metrum undir meðallagi - heldur minna en var í dag - en mjög mikið sé litið á 10-daga tímabil.
Höfum þó í huga að þetta er meðaltal - talsvert bregður út af einstaka daga - svo er dagurinn í dag (sunnudagur) inni í meðaltalinu og dregur það aðeins niður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2015 | 02:34
Ský í kvöldsól yfir Grænlandi
Myndin sýnir ský í kringum lítinn og skemmtilegan kuldapoll sem í dag (föstudag 17. júlí) hefur verið á leið til suðvesturs yfir Grænlandi (og plagar okkur ekki). Hann sér ekki jökulinn.
Þetta er þriggja rása (avhrr) gervilitamynd, tekin í kvöld kl. 23:14. Ein rásin er í sýnilega rófinu (og á henni sést kvöldsólin lita skýjatoppana og skýin búa til skugga undan sól. Önnur rásin er í nærinnrauðu - og sú þriðja á hefðbundnu innrauðu - sýnir varmageislun - ljósblátt er kaldast - skýin hæst.
Myndin er fengin af vef Veðurstofunnar.
Pollurinn sést illa á hefðbundnum veðurkortum - nema uppi við veðrahvörfin. Kortið hér að ofan sýnir hæð 400 hPa-flatarins (heildregnar línur) [úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir á miðnætti föstudagskvölds] . Lituðu svæðin sýna hvar veðrahvörfin ná niður í flötinn - ýmist yfir kuldapollum - hringlaga form - eða í brotum - langir borðar á myndinni. Sveipurinn á gervihnattamyndinni sést hér sem blettur lágra veðrahvarfa yfir Grænlandi. - Kuldapollurinn sem á að spilla helgarveðrinu hér á landi er mun meira ógnandi - dökk klessa lágra veðrahvarfa fyrir norðaustan land - á leið til suðvesturs.
17.7.2015 | 01:22
Norðanátt áfram - svo langt sem ...
Ekkert lát virðist vera á norðanáttinni. Fyrsta kort dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið í 500 hPa-fletinum á norðurhveli kl.18 síðdegis á laugardag (18. júlí).
Við sjáum dæmigert sumarástand. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og eru harla gisnar víðast hvar - en þó er töluverður lægðagangur um Bretlandseyjar og norðanverða Evrópu sem og á fáeinum blettum öðrum. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Svo ber nú við að engan bláan lit er að finna - í honum er þykktin undir 5280 metrum.
Á þessum árstíma ættum við að vera rétt inni í gula litnum - en grænu litirnir eru ríkjandi hér við land eins og hefur verið lengst af að undanförnu. Grænu litirnir eru þrír á kortinu - sá dekksti kaldastur og er kuldapollurinn snarpi austur af Jan Mayen ekki laus við hann. - Því miður virðist hann stefna í átt til landsins - gæti þó geigað lítillega (vonandi). Í miðju pollsins - fari hann um Ísland er hiti um það bil 7 stigum undir meðallagi árstímans. - En það afbrigðilega ástand stæði ekki lengi - því pollurinn fer hratt hjá (líklega á sunnudag og mánudag).
Verra er að ekkert lát er að sjá - kortið sýnir að vindstefnan er svo til beint norðan úr Norðuríshafi.
Næsta kort sýnir spá reiknimiðstöðvarinnar um meðalþrýsting næstu 10-daga - litirnir sýna þrýstivikin.
Þeir sem vanir eru veðurkortum sjá strax að hæðin yfir Grænlandi er sérlega öflug (um 12 hPa yfir meðallagi) - og að þrýstingur fyrir austan land er undir meðallagi. Þetta er ávísun á eindregna norðanátt - rétt eins og kortið sýnir - og spáin er meðaltal tíu daga - allt fram til sunnudagsins 26. júlí. - Ekki beinlínis uppörvandi - en við verðum samt að hafa í huga að talsvert getur brugðið frá dag og dag - tíudagameðaltöl strauja og fela ýmsa óreglu.
Síðasta kortið er sett hér til að minna á að sjórinn fyrir norðan land hitar loftið á leið þess til suðurs norðan úr Ballarhafi.
Hér er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um skynvarmaflæði milli lofts og yfirborðs (lands og sjávar) kl.18 síðdegis á laugardag. Rauðu litirnir sýna hvar yfirborðið hitar loftið. Sólbakað land er duglegast við það - en sjórinn fyrir norðan land er býsna duglegur líka. Þetta þýðir auðvitað að loftið í norðanáttinni er svo sannarlega kalt.
Heildregnar línur sýna hvar munur á hita lofts og yfirborðs er meira en 8 stig. Fyrir suðaustan lands er þessi munur 9 stig þar sem hann er mestur - og norðan við land er hann 7 stig, jafnvel 8 stig við Tjörnes. Fyrir suðvestan land má sjá dálítið gulleitt svæði - þar kælir sjórinn loft sem blæs af landi - kannski að hiti komist í 15 stig suðvestanlands á laugardag?
15.7.2015 | 14:36
Fréttir af kuldatíðinni
Spurt hefur verið hversu óvenjuleg kuldatíðin sem ríkt hefur framan af júlímánuði um landið norðan- og austanvert sé. Hér að neðan er um það fjallað.
Myndin sýnir vik hita í 850 hPa fletinum frá meðallagi áranna 1981 til 2010 dagana 5. til 14. júlí 2015 samkvæmt greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar (litir). [Athugið að þetta er ekki spá - heldur liðinn tími]. Kalda svæðið er stórt - en hitar suður við Miðjarðarhaf og á norðanverðu Grænlandi þar sem hitamet hafa verið slegin. Jafnþrýstilínur eru heildregnar - hæðin yfir Grænlandi er áberandi enda norðaustanátt ríkjandi flesta þessa daga.
Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins það sem af er 8,96 stig. Síðastliðin 67 ár (frá og með 1949) hefur júlíbyrjun aðeins 6 sinnum verið kaldari. Það var 1979 (8,85 stig), 1968 (8,75), 1967 (8,66), 1981 (7,92), 1993 (7,19) og 1970 (6,91 stig). Eins og sjá má er nú langt niður í það kaldasta. Spáð er köldu veðri næstu daga þannig að vel má vera að hitinn sígi neðar á listanum.
Hitinn á Austurlandi er líka óvenju lágur. Meðalhiti á Dalatanga það sem af er mánuði er ekki nema 6,78 stig - en júlí hefur þó 12 sinnum byrjað lakar en nú frá og með 1949. Að vísu munar sáralitlu á árinu í ár og þeim fjórum árum sem næst eru fyrir neðan. - Sjórinn er eitthvað að hjálpa í ár - miðað við sum önnur kaldari.
En sú stöð sem hefur verið köldust að tiltölu (miðað við meðallag) í byggðum landsins er Egilsstaðir, þar hefur meðalhiti verið 7,64 stig og er það -3,06 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Samfelldar (áreiðanlegar) mælingar eru til á Egilsstöðum (eða Eyvindará) aftur til 1955. Á því tímabili hefur júlímánuður aðeins tvisvar byrjað kaldari en nú, 1993 (7,19 stig) og 1970 (6,94 stig). Ein stöð á hálendinu á nú stærra vik en Egilsstaðir. Það eru Upptyppingar (við Jökulsá á Fjöllum), vikið þar er -3,50 stig.
Ástand hita á Suður- og Vesturlandi er öllu betra og suðvestanlands hefur alls ekki verið kalt. Hiti hefur verið nærri meðallagi síðustu tíu ára það sem af er mánuði. Reykjavíkurhitinn er þannig í 15. sæti frá 1949, að ofan talið. Meðalhiti það sem af er er hæstur á Þyrli í Hvalfirði 11,94 stig og á Hraunsmúla í Staðarsveit (vegagerðarstöð), 12,01 stig. Brúarjökull er kaldasta stöð landsins það sem af er mánuði, meðalhitinn er 1,82 stig. Steingrímsfjarðarheiði er köldust vegagerðarstöðvanna með 3,42 stig.
Neikvæðu vikin stækka almennt til norðurs á Vesturlandi og til austurs sunnanlands. Við getum með sæmilegu öryggi borið saman hita fyrri hluta júlímánaðar í Stykkishólmi allt aftur til sumarsins 1846 (170 ár). Meðalhitinn er nú 9,73 stig það sem af er mánuði í Stykkishólmi. Það setur mánuðinn í 98. til 99. sæti á listanum - um 13 sætum neðan við miðju. Hlýjast var 2009, þá var meðalhiti fyrstu 13 daga mánaðarins 13,06 stig í Hólminum. Kaldast var 1862, hiti aðeins 6,40 stig.
Samhljóða pistill er á opinni fjasbókarsíðu hungurdiska - en þar er flesta daga fylgst með hita á landinu og fleiru frá degi til dags. Stöku sinnum má finna tengla á fréttir af kuldum erlendis á síðunni fimbulvetur og fréttir af hitum á síðu sem nefnist svækjusumar. Síðastnefndu hóparnir eru opnir - rétt eins og hungurdiskahópurinn.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.11.): 12
- Sl. sólarhring: 321
- Sl. viku: 1624
- Frá upphafi: 2408638
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 1463
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010