Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

Hæðarhryggur (- gallaður að vísu)

Yfirráðum vestankuldans virðist vera að ljúka, alla vega í bili. Dreggjar af norðanlofti koma til landsins á morgun (þriðjudag) - og halda stöðunni sennilega á miðvikudaginn - en síðan fer suðrænna loft að sækja að.

Við skulum líta á tvö háloftakort evrópureiknimiðstöðvarinnar, bæði sýna þau hæð 500 hPa-flatarins og þykktina - það fyrra gildir á hádegi á morgun, þriðjudag, en það síðara um hádegi á skírdag. 

w-blogg310315a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í lit. Þykktin sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra, ljósasti blái liturinn sýnir þykkt á bilinu 5220 til 5280 metra. Það er meðallag hér á landi um mánaðamótin mars/apríl. 

Við sjáum að kalt loft úr norðri beinist í átt til landsins og yfir það - það kemur með allsnörpu lægðardragi sem á að fara til suðurs fyrir austan land. Kannski hvessir um landið austanvert. 

Sjálfsagt er að benda á að yfir Danmörku er býsna kröpp lægð - þar gengur hlýtt loft inn í lágan flöt. Þýska veðurstofan flaggar rauðu í landinu sunnanverðu. 

Hæðarhryggurinn sem á kortinu er sunnan Grænlands virðist ekki veigamikill en á að sækja í sig veðrið. Á fimmtudaginn verður hann búinn að koma kryppu á heimskautaröstina.

w-blogg310315b

Kortið gildir á hádegi á skírdag. Eins og sjá má er þetta breiður og gerðarlegur hryggur - en gallaður að því leyti að í honum miðjum er lægðardrag - og lægð falin í því. Þessi lægð á að mestu leyti að fara til austurs fyrir sunnan land - og sömuleiðis sá hluti hryggjarins sem á undan er - en áður en þetta litla kerfi hefur lokið sér af kemur sunnanátt næstu lægðar í kjölfarið. 

Þá er spáð nokkrum hlýindum hér á landi. Hvað þau svo endast er annað mál. 


Smálægðir á mynd

Á hitamyndinni hér að neðan má sjá þrjár smálægðir. Sú veigaminnsta er við Reykjanes, önnur er vestast á Grænlandshafi og sú þriðja ekki langt suðaustur af landinu.

w-blogg300315a

Lægðin við Suðausturland fór hjá Suðurlandi seint í nótt og í morgun (sunnudag 29. mars) og olli töluverðri snjókomu um tíma. Fréttist af 18 cm snjódýpt í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum eftir nóttina. Nú í kvöld blés vindur af norðaustri í Papey, 20 m/s þegar mest var rétt fyrir miðnætti. 

Smálægðin við Reykjanes er á leiðinni til suðausturs og verður úr sögunni. Svo virðist að lægðin vestan á Grænlandhafi sitji þar um stund - fari e.t.v. um síðir til austsuðausturs - vonandi þá alveg fyrir sunnan land. Á milli lægðanna er langur éljalindi - norðan hans er austlæg átt en vestlæg sunnan við. Reiknimiðstöðvar telja að hann nái ekki til lands. 

Á miðvikudag virðist sem heimskautaröstin muni skjóta upp kryppu og hreinsi þar með allar smálægðir frá - næsta lægð fylgir svo í kjölfarið - vonandi minni háttar. 


Smálægðir - snjókomubakkar

Vestanáttin er nú lítil orðin við sjávarmál (en heldur áfram ofar) en norðanáttin nær sér illa á strik. Kuldi er í lofti yfir hlýjum sjó. Þetta eru góðar aðstæður til myndunar smálægða og élja- eða snjókomubakka. Snævi þakið landið kólnar hratt og drepur uppstreymi - lægðarmiðjurnar dansa þá kringum landið frekar en að fara yfir það. 

Þetta er heldur erfið staða - sums staðar getur snjóað býsna mikið - en svo sleppa aðrir staðir alveg. Vindur getur rokið upp skamma stund - að því er virðist að tilefnislitlu. 

Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi) er nokkuð efnismikill bakki við Suðvesturland (sé rétt ráðið í ratsjármyndir) - og fleiri verða þeir. Ekki ræður ritstjóri hungurdiska við að fylgjast með því öllu. En brugðið er upp mynd sem sýnir sjávalmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 síðdegis á mánudag (30. mars). 

w-blogg290315a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, úrkoma er sýnd með gulum, grænum og bláum litum - og jafnhitalínur 850 hPa-flatarins eru strikaðar. Smálægðaþyrpingin sem fer framhjá landinu á sunnudag er komin austur fyrir - úrkomu gætir enn austast á landinu en annars virðist landið nokkuð hreint. Næsta smálægðaþyrpingin er hins vegar á Grænlandshafi og ætti að koma við með snjókomu á þriðjudag - síðan gæti hreinsað til.

Annars sjáum við vestanstrenginn mikla sem liggur nærri beint vestan frá Labrador og austur um eins langt og séð verður á þessu korti. Nokkuð krappar bylgjur ganga í strengnum austur um til Bretlands. 

Mjög kröpp lægð veldur miklu norðanveðri við Norðaustur-Grænland. Það er enn -10 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem liggur yfir landinu sunnanverðu - þetta er ekkert sérlega kalt loft miðað við árstíma - en -15 línan er rétt norðan við land - en ekkert ber á kaldara lofti. Þessi krappa lægð grynnist ört - en á samt að koma til suðurs rétt fyrir austan land á miðvikudaginn - þá gæti gert hríð um tíma á Norðausturlandi. 


Í kalda loftinu

Svo virðist sem við verðum í köldu lofti næstu daga - fyrst af vestrænum uppruna, en norðanloft gæti litið við þegar kemur fram á þriðjudag. Heimskautaröstin liggur beint til austurs fyrir sunnan land (ekki svo mjög fjarlægð samt) - mjög öflug þessa dagana eins og sjá má af kortinu hér að neðan. Það er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á sunnudag (29. mars). 

w-blogg280315a

Kortið sýnir hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Vindstyrkur og stefna eru sýnd með hefðbundnum vindörvum, en vindhraðinn líka í lit, ljósari græni liturinn byrjar við 80 hnúta (40 m/s). 

Lægstur er flöturinn við Vestur-Grænland þar sem þrengsta jafnhæðarlínan sýnir 8220 metra. Hæstur er flöturinn aftur á móti við Asóreyjar þar sem sjá má í 9540 metra jafnhæðarlínuna. Munar 1330 metrum á því hæsta og lægsta á kortinu. Þetta nægir til að búa til mjög snarpa röst - skotvindurinn (kjarni rastarinnar) fer í nærri 200 hnúta (100 m/s) þar sem mest er. 

Við þökkum auðvitað fyrir að vera ekki í skotlínunni. Hér verður þó að minna á að mikill vindur í háloftum þýðir ekki endilega að vindur sé mikill niðri við sjávarmál. En röstin ber neðri veðrakerfi áfram og fóðrar þau sum hver. 

Á kortinu er Ísland alveg norðan rastar en hins vegar í suðvestanátt - og sömuleiðis er lægðarsveigja á jafnhæðarlínunum. Loft í kringum landið er óstöðugt og í því eru flóknar smálægðir og éljagarðar sem reiknimiðstöðvar ráða ekki vel við - alla vega eru þær mjög ósammála um öll smáatriði veðurs á sunnudaginn. Það ruglar okkur bara í ríminu að fara að tala um það hér og nú hvar snjóar, hversu mikið - og hvar alls ekki. Horfum þess í stað til himins - nú eða fylgjumst með nýjustu gervihnatta- og veðursjármyndum á vef Veðurstofunnar - vilji menn ekki fara út - eða sjái ekki til himins fyrir húsum eða trjám. 


Nærri því

Lægðin kalda sem nú er á Grænlandshafi og sendir hvert élið á fætur öðru yfir landið vestanvert gæti verið úrvalsfóður fyrir skyndidýpkun nýrra lægða - fengju slíkir vísar að koma nærri. 

Það eiga reyndar nokkrar fremur smáar en krappar lægðir að ganga úr vestri yfir Bretlandseyjar næstu daga - en alveg fyrir sunnan okkur. Það má þó segja að litlu hafi munað í dag því síðdegis reis skyndilega upp mikill háskýjamökkur fyrir sunnan land - og á myndinni hér að neðan sem tekin er kl. rúmlega 22 í kvöld má sjá að nyrsti hluti hans hefur lagst yfir éljabakkana við Suðvesturland.

w-blogg270315a

Hér munar litlu að úr verði mikil dýpkun - en reiknimiðstöðvar róa okkur niður. Þær segja að hér séu fleiri en ein lægð að reyna að fæðast - en engin þeirra nái undirtökunum. Sú nyrsta á reyndar að holdgerast á morgun - þá fyrir norðan land. Skiptir litlu fyrir okkur en veldur stormi utan við Scoresbysund. 

Næsta bylgja á eftir (sést ekki á myndinni) á að fara með nokkrum látum yfir Skotland á laugardag.

Við fáum hins vegar gömlu lægðarmiðjuna sem sést við Grænlandsströnd á myndinni upp undir Vestfirði síðdegis á morgun (föstudag 27. mars) - með éljafans. 

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting við miðnætti á föstudagskvöld, 3 klukkustunda þrýstibreyting er sýnd í litum (rautt - fallandi, blátt - stígandi). Daufar strikalínur sýna þykktina.[Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar]. 

w-blogg270315-ia

Hér má sjá lægðirnar þrjár sem minnst var á að ofan. Krappa lægðin er á hraðri ferð norðvestur af Írlandi, gamla lægðin er við Vestfirði og sú sem holdgerist að ofan er skammt frá Scoresbysundi. Svo eru tvær smálægðir vestan til á kortinu. Eitthvað verður úr þeim - en ekki mjög til ama hér á landi - að því er virðist þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi 26. mars). 

Ekkert hlýtt í boði fyrir okkur á næstunni. 


Éljagangur vestanlands - gott eystra

Búist mun við éljagangi um landið suðvestan- og vestanvert næstu daga - en meinlitlu og oftast góðu norðaustanlands. Í dag (miðvikudaginn 25. mars) var éljagangurinn reyndar svo meinlaus að minnti á vorið. 

Gervihnattamyndin hér að neðan er gripin um miðnæturbil - að kvöldi 25. Hún er ekkert sérlega skýr - svæðið er á jaðri þess sem jarðstöðuhnötturinn sér - en jarðstöðuhnettir eru sem kunnugt er yfir miðbaug.

w-blogg260315aa

Mest ber á háreista bakkanum fyrir austan land - en hann olli úrkomu víðast hvar á landinu þegar hann fór hjá. Yfir Vesturlandi er dálítill éljagarður - hann fór yfir höfuðborgarsvæðið rétt fyrir miðnætti og festi þá snjó - hálkan liggur ætíð í leyni. 

Annars er éljaloft á nær öllu Grænlandshafi og vestur fyrir Grænland sunnanvert. Ekki ber þar á neinum sérstökum bökkum heldur eru éljaklakkarnir nokkuð jafndreifðir. Næst Grænlandi er þó hringrás lægðarinnar og sunnan við hana má sjá að loftið er mjög þurrt í vestanáttinni þar sem það kemur af jöklinum. Tíma tekur fyrir það að ná nægilegum raka til að mynda ský. 

Lægðarmiðjan hreyfist ekki mikið fyrst í stað. Vestan við Grænland má sjá aðra lægð - þar ofan við er miðja háloftalægðarinnar. Sú á að hreyfast yfir jökulinn og slá sér niður á Grænlandshafi upp úr hádegi á morgun (fimmtudag) - og grípur þá fyrri lægðina með sér á leið norðaustur um Grænlandssund á föstudaginn. 

Sú staða sést á kortinu hér að neðan.

w-blogg260315a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina og gildir kl.18 á föstudag. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - en þykktin er í lit. Við sjáum að töluverður strengur er yfir Vesturlandi og væntanlega heldur hryssingslegt veður - sérstaklega á heiðavegum.

Það er líka fremur kalt - það sjáum við af þykktinni, en hún sýnir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Af kvarðanum til hægri (hann verður skýrari sé myndin stækkuð) má sjá að þykktin er á bilinu 5100 til 5160 metrar yfir landinu - það er 4 til 7 stigum undir meðallagi. Þar sem loftið er mjög óstöðugt verða hitavikin ekki alveg svona mikil niður við sjávarmál. 

Svo rennur þetta hjá og vindur gengur niður. Að sögn reiknimiðstöðva eiga næstu lægðir að ganga til austurs fyrir sunnan land - og vindur því líklegri til austan eða norðanátta á meðan þær fara hjá. En hafa verður í huga að mjög stutt verður upp í vestanáttina - og varla tekst að hreinsa hana alveg frá. 


Þrálát suðvestanátt næstu daga?

Með miðvikudegi (25. mars) snýst vindur enn og aftur til suðvestanáttar. Hún virðist ætla að verða ríkjandi, alla vega viðloðandi, meira og minna fram yfir helgi og e.t.v. lengur. Lægð situr á Grænlandshafi - stundum vestur undir Grænlandi - stundum nær okkur eða  þá á Grænlandssundi. Hraðfara lægðir ganga til austurs fyrir sunnan land - og slá á suðvestanáttina meðan þær ganga hjá - en reiknimiðstöðvar telja að hún taki sig alltaf upp aftur. 

Kortið sýnir stöðuna um hádegi á fimmtudag (26. mars) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg250315

Hér kúrir lægðin í skjólinu við Grænlandsströnd - og nær alveg upp í háloftin. Hún beinir köldu lofti frá Kanada austur á Atlantshaf og í átt til okkar. Við sjáum að hún liggur nokkuð þvert á jafnhitalínurnar (bláar og strikaðar) í 850 hPa (um 1200 m hæð yfir sjávarmáli). Það er -10 stiga línan sem nær að Íslandi - hún táknar að frost er ríkjandi - þótt sólin nái nokkuð góðum tökum síðdegis á milli élja og norðaustanlands ætti í raun að vera besta veður lengst af. 

En þótt kalda aðstreymið sé eindregið liggur leið loftsins yfir hlýrri sjó og það gengur ekkert að koma -15 og -20 stiga jafnhitalínunum áleiðis til okkar - vindurinn er einfaldlega ekki nógu mikill. Kannski að hiti við sjávarsíðuna verði ekki nema svosem einu stigi undir meðallagi? 

Úrkoman er sýnd með gulum, grænum og bláum litum á kortinu. Á leið kalda loftsins virðast ekki vera neinir sérstakir garðar eða skilasvæði heldur dreifð él. En þótt líkan reiknimiðstöðvarinnar sé öflugt verðum við samt að gera ráð fyrir einhver skipulegur hroði lendi á okkur þessa næstu daga. 

Útsynningurinn virðist eiga að verða hvað öflugastur á föstudaginn - en það er í raun of snemmt að fjölyrða um það. 

En verra gæti það verið - miklu verra. 


Landsynningur - útsynningur

Og enn kemur landsynningur með rigningu upp að Vesturlandi á þriðjudagskvöld og fer hratt austur fyrir land. Við tekur hægari suðvestanátt (útsynningur) með éljum. Kerfið sést vel að 925 hPa-kortinu hér að neðan.

w-blogg240315a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en hiti í litum. Sunnanloftið er svosem ekkert sérlega hlýtt - rétt að það nái því að verða frostlaust í 500 til 600 metra hæð - en hann rignir þó við sjávarmál í sunnanáttinni. 

Í þann mund sem vindur snýr sér á áttinni lægir mikið og fer trúlega að snjóa. Kortið gildir kl. 6 að morgni miðvikudags (25. mars) - vonandi ræður sólin við að hreinsa snjóinn að mestu áður en dagur er að kvöldi liðinn. - En þó verður að reikna með éljagangi í suðvestanáttinni. - En hún er í fyrsta umgang harla lítilvæg - sé spá evrópureiknimiðstöðvarinnar rétt. 

Þetta er allt eins konar vasaútgáfa af illviðrum vetrarins - en vanmetum samt ekki möguleika á hríð á heiðum og hálku niðri í sveitum. 


Svipuð staða - en öllu vægari

Síðasta vika var töluvert hlýrri en algengast hefur verið í vetur, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert og nú er svo komið að hitinn á mestöllu landinu það sem af er mánuði er kominn upp fyrir meðallag síðustu tíu ára. Útlit er aftur á móti fyrir að síðustu tíu dagar mánaðarins verði að meðaltali heldur kaldari - en þó ekki svo mjög. Meginkuldauppsprettan er enn í vestri - norðankuldinn gæti komið síðar. 

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um meðalhæð 500 hPa-flatarins og þykktina - en sýnir að auki væntanleg þykktarvik. Þykktin segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg230315a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, jafnþykktarlínur strikaðar og þykktarvikin eru sýnd með litum. Bláu litirnir sýna svæði þar sem þykktin er undir meðaltali en þeir gulu og brúnu sýna þykkt yfir meðallagi. Þykktarvikin eru talin í metrum en annað sýnt í dekametrum (1 dam = 10 metrar).

Hér má enn sjá kulda úr vestri teygja sig austur Atlantshafið, til Íslands eða jafnvel lengra. Þykktarvikið yfir landinu er -37 metrar, meira suðvestanlands, en minna á Norðausturlandi. Þetta þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verður um 2 stigum undir meðallagi - hafi reiknimiðstöðin rétt fyrir sér. 

En sjórinn hitar vestanáttina og veldur því að loftið í henni er óstöðugra heldur en algengast er í öðrum áttum. Það þýðir að neikvæð vik hér við land eru heldur meiri í neðri hluta veðrahvolfs heldur en niðri við jörð. Þess vegna er líklegt að ekki verði í raun alveg jafnkalt og hér er verið að spá. 

Almennt þýðir þessi lega háloftaflata að flestar lægðir ganga til austurs fyrir sunnan land - en þó svo að útsynningur tekur sig oftast upp aftur eftir að hver lægð er farin hjá. Á miðvikudaginn á ein lægðin reyndar að verða svo fyrirferðarmikil að hún nær að búa til landsynning á undan sér - svipað og gerðist á föstudagskvöldið síðasta (20. mars).

En allt er þetta nú vægara heldur en hefur yfirleitt verið í vetur - þó bragðið sé svipað. 


Norðanátt í einn dag

Mánudagurinn 23. mars (alþjóðaveðurdagurinn) virðist frátekinn fyrir norðanátt að þessu sinni. Hún er þó ekki sérlega öflug og á að sögn reiknimiðstöðva ekki að standa lengi. En þó með frosti um land allt og éljum eða snjókomu nyrðra.

w-blogg220315a

Kortið sýnir hugmynd evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum kl. 18 á mánudag. Það er ekki ástæða til að segja margt um þetta kort. Það er -10 stiga jafnhitalínan í 850 hPa sem hringar sig um landið - boðskapur hennar er yfirleitt frost um nær allt land. En þetta getur samt ekki talist köld norðanátt - og langt er í -15 stig, og -20 stig sjást ekki norður undan.

Svo er fyrirferðarmikið lægðasvæði suðvestur af Grænlandi - og það boðar nýjan landsynning - rúmum sólarhring síðar en kortið gildir. Kannski þriðjudagurinn verði hægur um mestallt land? Slíkt væri vel þegið. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 435
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband