Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Af árinu 1848

Tíðarfar sýndi á sér aðra hlið en árið á undan - aðallega kalda þó og mikil hafa umskiptin verið. Febrúarmánuður var óvenjukaldur, almennt sá kaldasti sem vitað er um. Samt var ekki mikið undan honum kvartað, því fremur hlýtt var í janúar og ekki var mikið um mjög slæm veður eða hríðarbylji. Mjög kalt var einnig í júní og allir mánuðir frá apríl til og með september teljast kaldir. Norðlægar áttir voru ríkjandi á þessu tímabili og tíð mjög slæm nyrðra en skárri syðra. Haustið þótti hagstætt. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,3 stig, það lægsta síðan 1836 og -1,2 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig, það kaldasta frá 1841. Á Akureyri var meðalhitinn 1,9 stig. Þar var -10,2 stiga frost að meðaltali í febrúar. 

ar_1848t

Kaldir dagar voru margir, bæði í Reykjavík (17) og í Stykkishólmi (20). Listi yfir þá er í viðhenginu, 11.febrúar einna kaldastur á báðum stöðum. Næturfrost var í Reykjavík 11.júní. og fór niður í frostmark marga daga snemma í september.

Úrkoma var nærri meðallagi í Reykjavík árið í heild, en hún var mikil í janúar og desember en fremur þurrt var í apríl, júlí, október og nóvember.

ar_1848p

Þrýstingur var fremur hár í október, en lágur í mars, maí og ágúst. Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 16.október, 1040,3 hPa, en lægstur í Reykjavík þann 18.desember, 961,8 hPa. Ekki er ótrúlegt að þrýstingur hafi farið neðar þann dag því þá varð tjón af völdum sjávargangs í Grindavík og nágrenni. 

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hvert þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.  

Ársritið Gestur Vestfirðingur 1849 [lýsir veðri ársins 1848] (lítillega stytt hér):

Mér þykir ekki taka því, að ég sé margorður um veðráttufarið á árinu 1848, að því leyti sem það ber saman við veðurlagið í hinum fjórðungum landsins, því ég þykist vita, að þeir, sem annars gefa nokkurn gaum að mér, taki ekki lakar fyrir það móti Reykjavíkurpóstinum, þeim eina, er segist ferðast á mánuði hverjum um landið, og greinir, svo að segja í hverri ferð, frá árferðinni, sem oftar fer nærri því, sem hún reynist á Vestfjörðum, þó ber stundum út af í ýmsu, eins og vonlegt er, eftir því sem lengra dregur norður eftir, og hvað mest þá, er hafís kemur og liggur við land, sem oft ber við, enda um hásumar. Þannig var hafís við hvert annes og á hverjum firði beggja vega Hornstranda, öðru hverju seinni hluta vetrarins er leið [1848], þó bönnuðu vindar og ókyrr veðrátta honum landsvist til lengdar. Veturinn frá nýári telja flestir Vestfirðingar með harðari meðalvetrum; því hagleysur voru allvíðast fram á einmánuð. En þótt vetrarfarið reyndist harðskeytt, verður ekki með sanni sagt, að það hefði ollað tjóni í búnaðarháttum manna, ef ei hefðu annmarkar og ókostir orðið vetrarfarinu samfara; en þeir voru fyrst það, að heyin frá árgæskuárinu [1847] og eftir mikla grasvöxtinn í fyrra sumar reyndust svo frábærlega létt, mikilgæf og óholl, að ei vissu menn dæmi til; því búsmali gat ei haldist við á þeim, allra síst lömb, nema hjá einstöku mönnum, er nógu snemma tóku það ráð, að gefa búsmala hálfu meiri gjöf, en vant var; sumstaðar bryddi á gaddi í sauðfénaði, þ.e. ofvexti á tönnum og skoltum þess, líka ofvexti á klaufunum, sem olli óþrifum og dauða, ef ei var í tíma aðgjört. Sá er annar ókosturinn, að ei muna Vestfirðingar þvílík vorharðindi, sem þau er á dundu í vor, því svo voru kuldar og frostnæðingar miklir, að víða ollu þeir töluverðu hruni á sauðkindum, en því nær allstaðar miklum unglambadauða. Svo var kalt vorið og sumarið allt fram í septembermánuð, að sumstaðar leysti þá fyrst snjó upp úr búfjárhögum; geldfé og unglömbum varð því víða ei komið á afrétti fyrir sakir snjóa, og því nær enginn gat aflað sér fjallagrasa; það var því ei kyn, þó gróður kæmi ærið seint, og yrði lítill; því fullyrða má, að sumar þetta hafi verið eitthvert hið mesta kulda- og þurrkasumar, og flaut þar af meðal annars, að málnytja varð næsta lítil, þó mun á endanum hafa rakist betur úr, en áhorfðist.

Grasbrestur varð víðast hvar mikill á túnum, en ekki urðu heyföng manna eftir því bág, þar eð nýting varð góð framan af sumri, og útengi spruttu sæmilega að lokunum; því svo þótti, sem hin hlýja og náttúrlega sumarveðrátta byrjaði fyrst með september. Á Hornströndum var kúm og sauðfé gefið inni fram um Jónsmessu. Mundi útheyskapur hafa orðið góður, hefðu þá ekki langvinnir óþerrar spillt honum. Haustið var gott, og veðrátta á því langtum mýkri, en hin haustin hér á undan, og héldust hlýindi öðru hverju fram í nóvember, harðnaði þá nokkuð veðurátta með snjókomu og frostum, en þann snjó leysti að mestu aftur í byggðinni í desember, og kalla menn vetrarfar þetta til nýárs í betra meðallagi, enda þótt hafís hafi verið fyrir framan Vestfirðina og einu sinni að landi komið. Eru menn þeirrar vonar, að flestir bændur verði héðan af í vetur ekki heyþrota, þó harðindakaflar komi, ef vorið verður bærilegt, enda er nú minni peningur á heyjum hjá bændum, en í fyrra; því fyrir þá skuld að heyjafengur þeirra varð í lakara lagi, fækkuðu nokkrir kúm, en festir sauðfé, því mjög fá lömb eru nú á vetur sett. Fjárskurður vestra reyndist þetta árið í lakasta lagi víðast hvar; kenna menn það léttu heyjunum í fyrra, ótímguninni í skepnunum., kuldanæðingunum í vor og þurrkunum í sumar.

Þegar hafísinn var orðinn landfastur í fyrra vetur, varð vart við birni tvo, er menn ætluðu hafa komið á land nálægt Stigahlíð við Ísafjörð, flökkuðu þeir suður um fjörðu og voru báðir unnir við Látrabjarg í Barðastrandarsýslu. Sjávarafli var um Vestfjörðu, eins og annarstaðar við landið, með betra móti. ...

Í Vestfirðingafjórðungi eru þetta árið, svo ég til viti, ei aðrir skipskaðar, en þessir: bátur, er fórst í lendingu við Hellna í Snæfellsnessýslu 5. júní; týndust þar 4 menn. Ólafur nokkur Illhugason, merkismaður og faðir formannsins, er Friðrik hét, sá til ferða bátsins, og vildi bjarga þeim, er á voru, veður hann því fram í brimið, og drukknaði, varð hann hinn 5. maður, er þar týndist. ... Bátur fórst líka í lendingu frá Byrgisvík í Strandasýslu 24.ágúst, týndust þar tveir menn, er komu úr Reykjarfjarðar kaupstað. Tveir menn týndust í Barðastrandarsýslu ofan um ís, annar á Tálknafirði, hinn á Kollafirði í Gufudalssveit.

Brandsstaðaannáll: [vetur]

Í janúar allgott veður, frosthægt, 11.-13. hláka, 17. norðansnjókoma og eftir það jarðlítið til dala og uppsveita, en lengst jörð til lágsveita. Í febrúar frostamikið, en lengst stillt veður. Í mars mildara, jarðlítið, 18.-20. landnyrðingshríðarkafli, 23.-31. þítt og tók upp til sveita, en til fjalla bjarglaust fram í maí.

Reykjavíkurpósturinn janúar 1848, bls. 63

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar] Fyrstu vikuna af mánuðinum voru oftast vindar og landsynningar, með þoku og rigningum eða snjókrapa; aðra vikuna voru jafnast útsynningar með rigningu eða snjóéljum; þann 16. og 17. var fyrst frost til muna —5°R og norðankæla, síðan voru alltaf ýmist landsynningar eða útsynningar, með rigningum eða snjóslettingi, þangað til þann 29., þá gekk vindur í norðurátt, og hélst við norðan kæla seinustu 3 dagana, nema hvað snjóþoka var þann 31. og gjörði lítið föl á jörðu. Jörð hefur oftast verið snjólítil eða auð á láglendi hér um kring, en veðurátta þó verið mjög storma- úrkomu- og umhleypingasöm.

[Blaðið sjálft] Veðráttufar hér syðra var í þessum mánuði svipað því sem var næst á undan; óstöðugt og stormasamt, mest af suðri og útsuðri en frost hefir verið lítið, og oftast nær þíðviðri. Innlendir atburðir sem oss eru kunnir og tíðindum skipta eru þessir: Við Ísafjarðardjúp fórst fiskiskúta, sem tveir bændur þar áttu, og er mælt að annar þeirra hafi viljað senda hana á veiðar en annar ekki, og hafi hún því lagt út honum nauðugt.

Reykjavíkurpósturinn febrúar 1848, bls. 75.

Þorrinn reyndist hér sunnanlands kaldur og umhleypingasamur, með norðlægum og útsynningsáttum en ekki var snjófall til muna; en af því að veðurátta var svo skakviðrasöm og ærið frosthörð, felldi útigangpeningur mjög af í holdum, þó jörð væri nóg fyrir, og er hann því sagður alvíða magur, enda hafa hey og reynst léttgæf og áburðarfrek, en það er bót í máli, að flestir eru vel heybirgir undan sumrinu. Norðan og vestan að berast fregnir um gott vetrarfar, og nægar jarðir, nema hvað þorrinn hafði verið þar eins og hér syðra, harður og frostið stigið hæst allt að 18°R [-22,5°C]. Víða hefur fjársýkin orði að meini, og enda borið mest á henni sumstaðar nyrðra og í Skaftafellsýslu, einkum á Síðu, hvar sagt er hún hafi drepið framundir þúsund fjár, og er sótt þessi mikill voðagestur. Borist hefur það og nýlega, að í miðjum þessum mánuði, hafi sést hafíshroði frá Skagaströnd og eins fyrir Ströndum, enda þykir veðurátta fremur ísaleg, hvað sem síðar reynist.

Reykjavíkurpósturinn mars 1848, bls. 91.

Veðurátta hefur í þessum mánuði verið hér syðra ærið umhleypingasöm og óstöðug, og vindstaðan helst verið norðlæg, Með útsynningsbyljum þess á milli. Norðanlands hafa borist fréttir um allgóða árferð, en öðru hverju gengu þar þó á þorra og góu köföld og hríðir, kól þar og nokkra menn til skemmda, og 1 maður varð úti í Miðfirði. Hey eru þar víðast hvar nægileg, þó kvað fárhöld ekki vera nema í meðallagi, því heyin reynast ekki sem hollust, og kom það helst fram á gemlingum. Hafíshroði var á Skagafirði en ekki Húnaflóa, en vestanað hefur sú fregn, að hafís mundi þar í nánd, enda þótti mönnum og nyrðra veðurátta ísaleg, og hræddir eru menn, að hafísinn hafi rekið þar að landi í norðankastinu núna í góulokin, en síðan hefur ekkert frést þaðan.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar] Eins og undanförnu í vetur, hefur lengst af í þessum mánuði, veðurátta verið óstöðug, vinda og umhleypingasöm. Þann 1. var gott og bjart veður og logn, síðan var vindur ýmist á útsunnan-, sunnan-, eða á austan-landsunnan. Landsynningsstormur og rigning þann 3. stundum með rigningu og stundum með snjógangi, þangað til þann 10., þá gekk vindur til norðurs, þó fyrst með hægð, og töluverðu næturfrosti, sem hélst við til þess 22. og var þá stundum mikið hvassviðri, t.a.m. þann 14. landnyrðingsstormur, og frá þeim 18. til þess 21. mikið norðanveður. Frá því hefur síðan orðið sunnanátt og hlaupið ýmist til austurs eða útsuðurs, með rigningu og stundum snjókomu.

Suðurnesjaannáll:

Mikið hafrót á öskudaginn [1.mars] með hvassviðri. Braut víða garða, gekk sjór inn á tún og gerði skemmdir. [Þessu ber varla saman við veðurlýsingu Jóns Þorsteinssonar - kannski er hér um dagsetningarugling að ræða]. Frosthríðir miklar framan af vertíð.

Brandsstaðaannáll: [vor]

Í apríl langvinn harðviðri ytra og þíðulítið. Í maí þurrkar, kuldar og gróðurleysi til 23., að fyrst kom náttúrleg þíða og nokkur gróður.

Reykjavíkurpósturinn:

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar fyrir apríl (birtist í maíhefti Reykjavíkurpóstsins)]: Fyrstu 3 dagana var útsynningur með snjóéljum, síðan hefur jafnast verið norðanátt sem ýmist hljóp til austurs, landnorðurs eða til útnorðurs og hefur haldist við til mánaðarins enda með miklum kuldum og næturfrostum; oft hafa verið stormar og hvassviðri á norðan, einkum þann þann 4., 7., 9. til 11., og frá þeim 26. til mánaðarins enda norðan og landsynningsstormar, þar á milli var oft hægð og stundum logn.

Reykjavíkurpósturinn maí 1848, bls. 122.

Það sem af er sumri þessu hefur veðuráttan hér sunnanlands, og annarsstaðar í landinu þaðan sem vér höfum til frétt, verið ákaflega köld, er það ætlun manna að hafís liggi við Hornstrandir og standi af honum kuldinn. Tún eru hér - seinustu dagana í maímánuði - lítið eitt farin að grænka, en úthagi alls ekki, nema ef vera skyldi í Ölvesi. Gripahöld eru allvíða mjög bágborin, sumstaðar er sagt að falli bæði hross og sauðfé; en hvað mest látið af því úr Landeyjum og úr Hvolhrepp eystra.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, maí] Fyrstu viku þessa mánaðar voru voru austan vindar og landsynningar með rigningum, eftir það 4 daga, 7. til 10. landnyrðingshretviðri með snjókomu til fjalla og rigningum hér um kring, sem enda hélst við (stundum með norðanstormum 17. til 19.), allt til þess 20., oft með næturfrosti og kulda, Var því lítill gróður kominn viku eftir krossmessu; síðan hefur verið nokkuð mildari sunnanátt og oftar landsynningar, skúrir við og við, svo nú má fyrst heita að grasgróður sé lifnaður til gagns því mjög hefur vorkalt verið.

Brandsstaðaannáll: [sumar]

Aftur 1.-13. júní norðanstormur og kuldi, en þó stórhretalaust. Kælur og náttfrost héldust út júní. Í hans lok var geldfé rekið á afrétt og lömb 5.-7. júlí. Þann 3. lögðu flestir suður og fengu lítt færan flóann til baka og frost á nætur. Sláttur byrjaði í 15. viku sumar, utan hvar sleginn var sinulubbi, er víða var mikill frá grasárinu í fyrra. Á túni og sinulausu engi varð mesti grasbrestur síðan 1823. Í ágúst rekjusamt. Þó varð nýting allgóð, en mörgum þótti hitna í töðum til skemmda, er hún er þurrkfrek, þá kallast má hálfsprottin. Í september rigningasamt. Þó mátti hirða hey þann 8., þar laglega var að farið. 14.-16. rigndi og snjóaði um 6 dægur í sífellu, svo ei var úti vært að slætti. Drap þá almennt hey til stórskemmda, því víða voru þau flöt og ófullbúin. Áttu þá margir úti 2 vikna slægju, sem að mestu varð ónýt. Sæti gegnvöknaði og sumstaðar flæddi burt. Eftir það sífellt vætur og þerrilaust til septemberloka, að flestir náðu heyi inn illa þurru og dáðlausu. Varð svo heyfengur bæði lítill og slæmur, taða á óræktartúnum meira en hálfu minni en árið áður. Vanaþurrengi var lítt slægt, en sinuheyið dáðlítið.

Þorleifur í Hvammi segir af næturfrosti 29.júní, 20.júlí segir hann af krapaskúrum í byggð og það snjói í fjöll, 29.ágúst að það hafi snjóað að nóttu og 9.september að snjóað hafi til sjóar í byggð. Þann 14.september segir hann af áköfum vatnavöxtum. Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir að 16.september hafi snjóað ofan að sjó er á leið. 

Ingibjörg Jónsdóttir (s237) segir í bréfi þann 3.ágúst: „ ... enda eru nú hér eilífir norðankuldar og stormar, og aldrei man ég annað eins vor. Grasbrestur er mikill hér, þó mun hann víða verri. Fiskur er nógur fyrir, ef fólk kæmist út á sjóinn fyrir ofsastormum“. 

Reykjavíkurpósturinn júlí 1848, bls. 159.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, júní] Í þessum mánuði var jafnast, og á hverjum degi til þess 16. norðanátt og þerrir, og því mjög kalt og gróðurlítið. Eina viku, frá þeim 16. til 24., var landsynningsátt með nokkurri rigningu, einkum þann 18., en norðanátt aftur seinast í mánuðinum.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar, júlí] Norðankæla og þurrkur hefur haldist mestallan þennan mánuð, nema eina viku frá þeim 6. til þess 15. brá við og við til landsynnings, en lítið varð af rigningu.

Reykjavíkurpósturinn september 1848:

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um ágúst]: Fyrstu 10 dagana var norðanátt, þerrir og kuldi, eins og tíðast var framan af sumrinu, síðan 4 daga vestanátt og hægð, og að mestu þurrt veður, en frá þeim 15. ýmist austanátt með rigningu eða þá norðanátt og stormar, stundum með hretviðri til fjalla og dala.

Eftir því sem vér höfum til spurt hefur hefur á þessu sumri allstaðar hér á landi norðanátt verið drottnandi, og þess vegna veðurlag verið mjög misjafnt, eftir því hvernig sveitirnar horfa ýmislega við. Þannig hefur á Suðurlandi mátt heita einlæg þurrkatíð til þess fram í þennan mánuð [september], að vindur gekk til suðurs og rigningar hófust, en en þar á móti hefur í Múlasýslum, Þingeyjarsýslu og á útkjálkum Eyafjarðar- og Skagafjarðarsýslu veðurátt verið ákaflega slæm með snjóum og rigningum; hefur því heyskapur manna á þeim stöðum orðið einhver sá minnsti, sem menn muna til og horfir þar til mestu harðinda nema veturinn bæti úr fyrir sumrinu. Þannig segir í bréfi úr Múlasýslum, sem ritað er því nær í miðjum [september]: „Vorið var hér yfrið kalt og skakviðrasamt, svo trauðlega muna menn annað verra, flesta rekur minni til 17. maí og daganna þar á undan og eftir, þá kyngdi niður allmiklum snjó, svo gefa varð öllum sauðpeningi, ærnar báru þá sem ákafast og lömb drápust hrönnum. Um fráfærur var lítill sem enginn gróður á afréttum og geymdu því margir lömb og geldfé heima fram eftir öllu. Eftir að sláttur byrjaði, sem víða hvar var ei fyrr enn 14 vikur af sumri, linnti ekki rigningum í hálfan mánuð, svo við var búið að töður manna skemmdust, en þá kom góður kafli fram að 18.ágúst; hirtu þá flestir töður sínar. Upp frá þeim tíma hafa gengið norðankuldar með regni og snjóum". 10. dag september var alsnjóa í Fljótsdal ofan í Jökulsá og starir að henni, svo hún var illfær yfirferðar. Menn bjuggust þar við að sauðfé af afréttum mundi verða mjög rýrt, því fjöll voru mjög gróðurlítil og fjársýkin gerði þar víða vart við sig. Ofan á þetta bættist að veikindi hafa í sumar gengið í Múlasýslum. Þessu líkt hefur viðrað í Stranda- og Ísafjarðarsýslum. Fiskur hefur verið mikill fyrir öllu Norðurlandi, en þó svo sé gefa menn sig um sumartímann alla við heyskapnum, og verða því aflabrögðin af sjó næsta lítill. Hér sunnanlands hefur þar á móti norðanáttin komið sér vel í öllum votlendum sveitum, t.a. Flóa og Ölvesi, því þar hefur heyjast ágætlega vel; þó grasvöxtur væri minni enn í fyrrasumar, þá er nýting á heyi miklu betri en þá. Upp til fjalla og á hvarðvellisjörðum er heyskapur aftur með minna móti, og sumstaðar hafa hey skemmst í görðum í rigningakafla þeim, sem nú hefur gengið seinni hluta þessa mánaðar, því menn áttu hey úti og höfðu ekki lagað hey sín áður en veðrabrigðin komu.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um september]: Allan septembermánuð hefur verið lík veðurátta og seinni hluta ágústmánaðar, ýmist með norðan kulda, og hretviðrum, svo að snjóað hefur á fjöll einkum þann 9., og stundum hafa verið austanvindar eða útsynningar með rigningu svo að rignt hefur viðlíka mikið í september einum, sem frá sumarmálum til 31.águst.

Brandsstaðaannáll: [haust - og vetur til áramóta]

Frá 17. sept. til 23. okt. var sífelld sunnanátt. Sótti þá fé á heiðar venju framar. 24. okt. til. 8. nóv. snjóakafli, þann 6. bylur mikill, en hláka litlu á eftir. 16.-17. lagði fönn á fjallbyggðir, en 26. varð að taka fé á gjöf. Með desember frostkafli mikill. Eftir það hleyptu blotar jörð í gadd. Eftir sólstöður blotar og hláka um jólin. 31. kom lognfönn til dalanna, en reif af til lágsveita.

Reykjavíkurpósturinn nóvember 1848

Veturinn sem genginn er í garð, hefur allt á þennan dag verið hagstæður og árferð öll mjög að óskum; haustið var og hvarvetna veðurblítt, og bætti þannig í mörgum sveitum upp sumarið, einkum nyrðra, hvar sumarið var venju fremur óblítt og heyföng undan sumrinu með minnsta móti, svo sumstaðar ekki heyjaðist nema handa kúnum og fullorðnu fé, en ekkert handa lömbum.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um október]: Þennan mánuð var góð haustveðrátta; fyrri partinn oftast austanátt og landsynningar, stundum með vindi og rigningu, en stundum með logni og góðviðri; frost kom ekki fyrr enn þann 16., og frá því - seinni hluta mánaðarins – gengu ýmist norðankælur með litlu næturfrosti, eða hægð og góðviðri, til mánaðarins enda.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um nóvember]: Þennan mánuð hefur og verið góð veðurátta eftir árstíðinni; stundum norðan- og vestankæla, en stundum hægð og góðviðri, oftast með nokkru en þó litlu frosti. Austan-landnorðan stormur var þann 19. og sunnudaginn þann 26. en snjókoma aldrei til muna, nema lítið eitt þann 30. með útsynningssnjóþoku, svo kalla má að jörð hafi oftast auð verið hér um pláss.

Reykjavíkurpósturinn desember 1848

Árferð í þessum mánuði var hér sunnanlands þannig háttað, að framan af lagði mikinn snjó í byggðir, og komst útigangspeningur sumstaðar á gjöf vegna jarðbanns; en þegar undir jólin leið, gekk vindur til suðurs með þíðum og rigningu, og leysti þá allan snjó í byggð. Í sunnanvindi þessum varð mikið brimrót fyrir sunnan fjall, einkum í Grindavík, og urðu einkum af því skemmdir á prestsetrinu Stað; gekk sjórinn þar upp á túnið og bar upp á það hrannir af vikur, möl, og sandi, braut varnargarða spillti vergögnum; og skemmdi vatnsbólið til muna og tók af hjábýlið Stóragerði; er hætt við að slíkar skemmdir hafi orðið víðar við sjó, þó ekki hafi fregnir af farið.

[Yfirlit Jóns Þorsteinssonar um desember] Þessi mánuður byrjaði með kafaldi, fyrstu tvo dagana á austan-landnorðan, og þann 3. með hægð á útsunnan og miklum lognsnjó, síðan gjörði heiðskírt gott veður um 6 daga, var þá frost töluvert — hæst 11° [-13,8°C] og ennþá 3-4 daga var kyrrt með þoku og brimi, og þann 10. með frostrigningu, varð þá illt í högum, og víða því nær jarðlaust, því bæði var snjór mikill sem lá jafnt yfir jörð, og líka gjörði áfreða þann 10. Þann 12. 13. kom austan þíðviðri með regni; eftir það voru austan- og útsunnanvindar oft hvassir með rigningum eða kafaldi fram yfir jól, en seinustu 3 daga mánaðarins var hægð, með snjókomu, og gott vetrarveður.

Jón Austmann í Ofanleiti segir 19.desember: „Mesta veður er komið hefir það sem af er vetrinum“. Þann 27. desember segir Þorleifur í Hvammi af skruggum og eldingum að nóttu og morgni. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1848. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af september (og sumrinu)

Við lítum hér á byggðahitann í september, í sumar og fyrstu 9 mánuði ársins og berum saman við fyrri tíð. September var fremur svalur - miðað við það sem algengast hefur verið á öldinni. Byggðahitinn var -1,4 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára, var síðast svipaður árið 2018. 

w-blogg300920a

Á meðalhitalista sem nær aftur til 1874 raðast hiti mánaðarins í 85. til 87.sæti (af 146). Á landsvísu var september 1941 hlýjastur á þessum tíma, en 1918 kaldastur. 

w-blogg300920b

Sumarið (sem að hætti Veðurstofunnar nær yfir júní til september) var -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára en raðast í 42.hlýjasta sæti (af 147) frá 1874 - í ríflegu meðallagi. Hlýjust voru sumrin 1939 og 1941, en líka var mjög hlýtt 2014 á landinu í heild.

w-blogg300920d

Hér má sjá hvernig sumarhitinn raðast meðal annarra á öldinni. Kaldast að tiltölu var við Faxaflóa, þar er sumarið það fjórðakaldasta (af 20), en á Norðurlandi eystra var það í 11.hlýjasta sæti. 

w-blogg300920e

Sumarið 2014 er það hlýjasta hingað til á öldinni um landið norðaustan- og austanvert, en annars er það sumarið 2010 sem er í hlýjasta sætinu.

w-blogg300920f

Fleiri sumur koma við sögu á botnlistanum, 2018 á Suðurlandi, við Faxaflóa og Breiðafjörð, 2015 á Miðhálendinu, Austurlandi að Glettingi og á Vestfjörðum, 2013 var kaldast á Suðausturlandi, 2012 á Austfjörðum, en 2005 á Norðurlandi eystra. 

w-blogg300920c

Síðasta mynd dagsins sýnir meðalhita í byggðum fyrstu 9 mánuði ársins. Hann er -0,5 stigum neðan meðallags sömu mánaða síðustu tíu ár og í 37. til 38.sæti á tímabilinu aftur til 1874. Benda má á að þó hitinn nú raðist ekki sérlega ofarlega á þessari öld er hann samt hærri en hlýjustu 10 ára meðaltöl hlýskeiðsins um 1940. Hlýjastir voru sömu mánuðir 2003 og 2014. Í minni núlifandi manna voru þessir mánuðir saman langkaldastir árið 1979 og þurfti þá að fara aftur á 19.öld til að finna kaldara tímabil - og ekkert mjög mörg þá. Mestu kuldunum 1979 lauk hins vegar í lok september og drógu síðustu 3 mánuðir ársins hita þess nokkuð upp. 


Af árinu 1847

Árið 1847 var eitt hið hagstæðasta á allri 19.öld. Veturinn óvenjuhlýr, janúar varla orðið hlýrri nokkru sinni síðan. Mars og júlí eru einnig meðal hinna 5 til 10 hlýjustu. Einnig voru febrúar, maí, júní og október hlýir. September var hins vegar óvenjukaldur og einnig voru nóvember og desember fremur kaldir. Meðalhiti ársins í Reykjavík reiknast 5,6 stig og varð ekki jafnhár aftur fyrr en árið 1933 (þetta er þó nokkuð óörugg tala). Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,5 stig og þurfti að bíða til ársins 1928 eftir hærri tölu og veturinn var svo hlýr að ekki kom annar hlýrri fyrr en 1929. Janúar 1847 er sá hlýjasti sem vitað er um í Hólminum og í Reykjavík. Mælingar voru stopular þetta ár á Akureyri, en meðalhiti í janúar reiknast 3,3 sig - sjónarmun hærri en í janúar 100 árum síðar, 1947, en þá var janúar einnig fádæmahlýr á landinu. Í Reykjavík reiknast mars 1847 líka sá hlýjasti sem vitað er um - en óvissa um nákvæmni er meiri heldur en í Stykkishólmi. 

ar_1847t 

Þrátt fyrir þessi hlýindi var ekki mikið um sérlega hlýja sumardaga í Reykjavík eða Stykkishólmi. Í Reykjavík sker enginn sig úr - hiti komst aldrei í 20 stig og aðeins einn dagur telst óvenjuhlýr í Stykkishólmi, 10.júlí. Óvenjulegust í Reykjavík var vika snemma í mars, þann 3., 7. og 8. mældist hiti 9°R [11,3°C]. Svo hlýtt hefur aldrei orðið þar síðan í fyrri hluta mars. Kaldir dagar í Reykjavík voru 8, þar af 7 í ágúst, en þá kom slatti af köldum nóttum í björtu og þurru veðri. Einnig var mjög kalt 8.desember, frostið mældist -17,5 stig. Tveir mjög kaldir dagar voru í september í Stykkishólmi, 4. og 18. og einnig var kalt dagana 7. til 9.desember. Þann 8.desember mældi Eggert Jónsson á Akureyri, -24,4°C frost. 

Vetrarhlýindunum hér fylgdu kuldar á Bretlandseyjum og sjálfsagt víðar í Evrópu.

Árið var mjög úrkomusamt í Reykjavík. Ársúrkoma mældist 1074 mm. Úrkoman var sérlega mikil í janúar og desember, en undir meðallagi í febrúar, mars og október.  

ar_1847p 

Loftþrýstingur var óvenjulágur í desember og líka lágur í maí, júní og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 18.desember 954,1 hPa, en hæstur í Stykkishólmi 1. og 2. október, 1037,6 hPa. Þrýstingur var órólegur í nóvember og desember.

Minna virðist hafa verið um slysfarir heldur en „venjulega“. Flest er rakið lauslega í Annál 19.aldar. Eitthvað af slysunum tengdist veðri, en dagsetningar vantar og því tilgangslítið að birta þá talningu hér. Meira var um það en oft áður að erlend skipflök ræki upp við suðurströndina, m.a. tvö mannlaus viðarskip.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju.

Ársritið Gestur Vestfirðingur 1848 [lýsir veðri ársins 1847] - við breytum röð textans lítillega hér:

Eins og ég greindi stuttlega frá góðu árferðinni í fyrra, og gat um, hvað hver mánuðurinn var öðrum betri á árinu 1846, eins er ei einungis hið sama að segja af árinu, sem nú líður út [1847], heldur enn nú betra, svo öngvir elstu menn á Vestfjörðum muna slíkan vetur, sem þann, er síðast leið, það er að segja, frá nýári til sumarmála. Svo mátti kalla, að ekki væri frost, nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, og þegar menn litu yfir land og fjöll, sáu menn ei snjóa eða fannir, nema í háum fjallahlíðum, líkt og jafnast er milli fardaga og jónsmessu, því láglendi var snjólaust, jörðin klakalaus, svo að sauðfé, og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill, sást þrisvar sinnum vera farin að spretta. Fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum; andir og æðifugl flokkuðu sig kringum eyjar og nes, og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn né skepnur fyndu til vetrarins. Menn sléttuðu tún, hlóðu vörslugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri, voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalveðurstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, sem olli því, að sjógæftir þóttu nokkuð við bágar, þó bar mest á því að liðnum páskum, því þá urðu útsynningar skakviðrasamari og magnaðri. Fyrstu sumarvikuna var eins og veturinn risi á fætur eftir ævilok sín [sumardaginn fyrsta bar upp á 22.apríl], brunaði síðan þá með afar-miklum norðanveðrum, köföldum og frosti, ýmist fram af eða framan í hvern fjallatindinn, eftir því sem á landslagi stóð. Eftir þá viku héldust umhleypingar og ókyrrur, úrfelli og rigningar öðruhverju fram eftir öllu vori, og lá nærri, að illa nýttust sjóföng, dúnn og eldiviður, og þó að sumarið yrði notasælt, og gróður kæmi furðu fljótt á jörðina, af því hún var öll þíð undan vetrinum, mátti samt kalla þerrileysusumar. Allt um það náðu Vestfirðingar mestum hluta heyja sinna í hlöður og heystæður skemmdalitlum, því þerridagar komu í bili, t.a.m. 24. og 31. júlí, 5., 6. og 7. og tvo hina síðustu daga ágúst, og tvo fyrstu daga september, og fáeina daga í sama mánuði.

Tjón varð mönnun á, af því þerridagarnir voru fáir, að hirða heldur fljótt hey sin, og kom því víða hiti í þau. Það er næsta fáheyrt hér vestra, að eldur kvikni í heyjum; það varð í sumar á einum bæ í Tálknafirði í Barðastrandarsýslu, að loga laust upp í garðheyi einu; þó brann það ekki til ösku, nema um miðjuna, því mælt er, að þegar menn urðu eldsins varir, gripu þeir til verkfæra og mokuðu í ákefð öskunni frá sér til beggja hliða heyinu, og gátu þannig varið báða endana frá bruna. Heybrunafregnir hafa og borist bæði úr Dala- og Snæfellsness- eður Mýrasýslum, vika á milli. Grasvöxturinn var frábær á öllu harðlendi og sögðu menn: „að grasið væri upp úr grjótinu", og víst mátti svo að orði kveða, því allt var vafið grasinu. Allvíða bæði á túnum og engjum fannst álnarhátt gras; nokkrir heimulu-njólar náðu þriggja álna hæð út til eyja á Breiðafirði Á mýrlendi var grasvöxtur allur minni, og ei betri en í meðallagi. Heyjafengur um Vestfirði varð allstaðar venju meiri, og vita menn ei til, að almennt hafi jafnmikil hey í garð komið á einu sumri, auk þess sem margir áttu fyrir talsverðar heyfyrningar. Margur góður slægjublettur varð þó eftir bæði ósleginn og óbitinn, því næsta fátt fólk er til að vinna upp víðlendar engjar, þegar þær eru allar þaktar í kafgrasi. ... Þar sem farið var að slá velræktað tún í 11. viku sumars, spratt grasið eða háin svo vel og fljótt aftur, að nýagrasið var hálfrar álnar hátt orðið, að hálfsmánaðar fresti, og þegar það var þá slegið, mátti slá sama völl að þrem vikum liðnum þar frá, og náði það gras kvartils hæð. Er þessa því getið, að það munu árbækur landsins seinna meir mega telja fáheyrða nýlundu, þar sem þetta finnst ei í þeim ritað nokkru sinni áður.

Með haustinu kólnaði veðrátta og varð síðari hluti september nokkuð frostamikill. Síðan létti aftur frostunum; því tvo hina næstu mánuði voru jafnan umhleypingar og úrfelli mikil, og skiptust regn og krapar á, en fannkoma varð samt lítil, þó voru svell og snjóar á jörðu komin fram til fjalla og dala við byrjun desember, þegar þá frost og köföld tóku aftur til og héldust í hálfan mánuð, urðu þá svo hörð frostin að þau náðu 18 mælistigum 5. og 6. dag [desember] en síðan komu landsynningar og þíður, svo ís leysti upp og mikið af snjó; mátti svo kalla, sem jörðin væri við áraskiptin víðast snjóalaus í byggð, þó snjókrapar og harðir útsynningar enduðu árið.

Sjávarafli á opnum bátum hefir þetta árið verið samfara annarri ársæld á Vestfjörðum. Ekki hefir í langa tíma jafnmikið fiskigengd komið að Vestfjörðum, að minnsta kosti ekki eins langt inn á firði; vita menn ekki til, þeir er nú lifa, að þorskur hafi veiðst vestra lengst inn á fjarðarbotnum, eins og í sumar er leið, einkum í Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum; þannig náðu menn, t.a.m. á Patreksfirði, Arnarfirði, Ísafirði og víðar, fjögra hundraða hlutum, síðari hluta sumarsins, og mundu hlutir þó hafa orðið töluvert hærri, hefðu ekki óhentug veiðarfæri og heyannir hamlað því. ...

Þegar ég hefi þannig minnst árgæskunnar bæði til sjós og lands á ári þessu, verð ég að geta þess líka, að þó að sauðfénaður hefði alltaf á auða og þíða jörð að ganga, og væri, að kalla mátti, að sumrinu sokkinn ofan í grasið, reyndist fjárskurður naumlega í meðallagi, og má vera að nokkuð hafi ollað ótímgun sauðfjárins, því að vetrinum var hann víða hvar þjáður af mikilli niðurgangssýki, og er ei talið ólíklegt, að bæði menn og skepnur hafi sætt sýki þeirri, sökum Heklugossins. Annars hafa sóttir haft lítið um sig á þessu ári, og engin talsverð landfar-sótt gengið um Vestfjörðu, nema nokkurskonar þyngslakvef að sumrinu, og lagði það suma í rúmið nokkra daga. Mörg hafa ungbörn dáið þetta árið, þótt ei hafi þau hrunið eins ógurlega niður, og árin að undan.

Ekki hefi ég heyrt þess getið, að opnum skipum hafi borist á í Vestfirðingafjórðungi á ári þessu, nema þessum: róðrarskipi af Hjallasandi, dag 27. mars í fiskiróðri, var þá á hvassviðri austan, en þó ekkert ofviðri, týndust 4 menn, en annað róðrarskip bjargaði hinum fjórum, og kenndu menn það ofhleðslu, að svona tókst til; báti í Rifsveiðistöðu með tveimur drengjum á, drukknaði annar þeirra, en hinum varð bjargað.

Brandsstaðaannáll: [Vetur]

[Árið] var eitthvert hið besta, sem land vort getur fengið, svo lengi hefði mátt að búa. Í janúar hægar þíður, lítið frost og snjólaust að mestu og sýndist sem jörð dofnaði ekki frá hausttíma. Húsþök, túnblettir vel ræktaðir og góð jörð var sífellt algræn. Í febrúar stillt austanátt, með litlum snjó og meðalfrosti. 7.-8. norðanhríð og einasta innistaða á þessum vetri, en engan dag var jarðlítið og eins til fjalla og harðindaútkjálka. Með mars stöðug og löng hláka, svo fé var sleppt á hagagóðum jörðum með haustholdum.

Reykjavíkurpósturinn segir í janúar (bls.59):

[Í janúar], eður til þess 28. hefur ekki fryst á daginn, en stöku sinnum lítið eitt á nóttunni. Rigningar vóru samt venju fremur, einkum í þessum mánuði, þá hér rigndi [162 mm]. Hér sunnanlands mun útigangspeningur því víða kominn enn á gjöf, nema lömb, og þó varla fyrr en um jólaleyti, og má þetta heita stök árgæska.

Reykjavíkurpósturinn - febrúar, (bls.76):

Í þessum mánuði var árferð hér syðra, og að því leyti fréttir hafa af farið, bæði nyrðra og vestra, hin sama og áður, og stöðugar frostleysur og blíðviðri, svo baldinbrá og sóley var komin í blóm á þorra, en þetta kulnaði aftur öndverðlega í þessum mánuði þá hér komu fáeinir kuldadagar, og varð kuldinn þá -10°R., en það hefur kuldinn mestur orðið hér syðra í vetur.

Reykjavíkurpósturinn - mars, (bls.93):

Þegar Reykjavíkurpósturinn var seinast á ferð, gat hann þess, að tíðin hefði alstaðar verið góð, þar sem til hafði frést úr landinu. Nú er mánuður liðinn síðan og má með sanni segja, að hann hafi ekki umspillst, því tíðin hefur mátt heita sumar en ekki vetur. Elstu menn þykjast ekki muna eins jafngóða vetrarveðurátt, einsog verið hefur i vetur, en einkum þennan síðasta mánuð. Jafnvel útlenda menn, sem vanist hafa góðu veðri, hefur furðað á slíku blíðviðri. Er það og sjaldgæft að túnavinna og garðyrkja sé byrjuð með einmánaðarkomu, einsog nú er, eða að tún séu þá farin talsvert að grænka, tré orðin laufguð í görðum, og gangandi fé farið að taka vorbata. Það er að líkindum ekki ófagur fífill sveitabóndans eftir slíka árgæsku.

Þann 8.mars segir Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum í bréfi: „Vetur er sá blíðasti, ekki frost og ekki snjór, fiskur kominn fyrir löngu og allt í himnalagi“.

Brandsstaðaannáll: [Vor]

Með einmánuði óstöðugra, þó þíðusamt, svo afljúka mátti túnaávinnslu og starfa að torfverkum. Vegir urðu færir og grænka fór í túni. 16. apríl gjörði norðanveður mikið upp á útsynning og sjórót fjarskalegt. Fórst þá jakt Jóns Bjarnasonar á Eyvindarholti. Fönnina tók brátt upp. Með maí nægur gróður, í honum þurrkasamt.

Reykjavíkurpósturinn - apríl, (bls.107):

Í þessum mánuði var veðurátta bæði hér syðra og, að því leyti frést hefur, líka vestra og nyrðra, miklu óblíðari en að undanförnu; og var því samfara nokkurt frost með norðannæðingi og kafaldsbyljum þess á milli, svo sumstaðar upp til dala fennti sauðfé og enda hesta. Kuldinn var mestur þann 12. [apríl], en þó var hann ekki nema -3°R [-3,8°C], en hitinn var mestur + 8°R [10°C].

Þann 18.apríl segir Sr. Jón Austmann í Ofanleiti: „Það annað mesta ofsaveður sem höfundurinn lifað hefur í 20 ár í Vestmannaeyjum“, (austanátt).

Reykjavíkurpósturinn - maí, (bls.127):

Árferð hefur í þessum mánuði verið hér syðra allgóð; að vísu gengu framan af mánuðinum norðannæðingar, og kopaði við það útigangspeningi, og kom kyrkingur í þann gróða sem kominn var; en þegar uppá leið, gekk veðrið til batnaðar með sunnanvindum og hlýnaði við það; rigndi þá og töluvert, eða allt að tveimur þuml. eftir því sem jústisráði og landlæknir Thorsteinsson segist frá, og hann hefur athugað á regnmælir þeim, er hann hefur undir höndum, svo nú er hér kominn gróður á jörðu vel í meðallagi.

[Júní, s.143] Vorið var nyrðra, að því leyti frést hefur, kalt; gjörði þar og, um og eftir sumarmál, mikið hret, og féll þá mikill snjór á öllum útsveitum, en öndverðlega í maí batnaði þar aftur æskilega, svo þar var, þegar seinast fréttist, kominn gróður eins og í besta ári og fiskur genginn víða inn á fjörðu og kominn góður afli. ... Slysfarir urðu þar og í vor venju fremur; hákarlaskúta frá Skagaströnd týndist algjörlega, og önnur í Skagafjarðarsýslu, og átti hana merkisbóndi þar og alþekktur dugnaðarmaður, Jón Bjarnason á Eyhildarholti, sem hafði keypt skútu þessa fyrir 2 árum af fiskiveiðafélagi nokkru á Borgundarhólmi, en það var þó þyngst af öllu, að með skútunni fórst sonur Jóns, 17 eða 18 vetra gamall, sem hafði farið utan og lært stýrimannafræði, og staðið próf í henni og farist vel. Halda menn hvorutveggi þessi skiptapi hafi orðið í hríðarbyl miklum, sem kom um sumarmálaleytið [apríl] fyrir norðan land. Nokkru síðar fórst fiskibátur á Tjörnesi í Norðursýslu með 5 mönnum og orð leikur á því, að vestra munu hafa farist um sama leyti tvær fiskiskútur, og er það að vísu mæðulegt, hvað fiskiskútum reiðir illa af hér við land, því af þeim týnast að tiltölu fleiri en af öðrum fiskiskipum, enda ætla þau sér meira, og eru oft úti í reginhafi, þegar óveðrið dettur á.

Brandsstaðaannáll: [Sumar]

Í júní besta grasviðri, svo víða var slægur úthagi á fráfærum. Sláttur byrjaði almennt 10. júlí. Var þá mesta gras komið á tún og harðlendi. Þann mánuð var rekjusamt, en þó nægur þerrir á milli, þeim sem notuðu hann, en því sættu ei allir. Þann 1. ágúst gjörði stöðugan þerri um 9 daga, eftir það rekjur og þurrkar að óskum. Jörð vöknaði ekki til óhægðar og hretalaust. Um göngur hirtu allir, sem vildu og varð heyskapur hinn mesti, er menn höfðu fengið, utan við eingöngu þyrrkingsmýrar. Mest varð árgæskan yfirgnæfandi á harðindaútkjálkum landsins og má vera, að þeir hafi búið lengur að henni en miðsveitarmenn.

Reykjavíkurpósturinn - júní (s143):

Í þessum mánuði var árferði hér syðra, þegar á allt er litið, í góðu lagi, því að vísu var fremur svalt og hretviðrasamt, en þó mátti kalla gott grasveður, og eru því tún sprottin víða vel, og sumstaðar betur en í meðalári.

Reykjavíkurpósturinn - júlí (s152): 

Í þessum mánuði var veðurátt hér innanlands votviðrasöm í meira lagi, svo varla þornaði af strái, og gekk því seint með að þurrka hey og fiskiafla, og er sagt að óvíða sé kominn baggi í garð nú í mánaðarlokin, en sláttur byrjaði snemma, því grasvöxtur bar hinn besti hvervetna á öllu harðlendi. Vestanlands gengu sömu óþurrkar, en nyrðra er sagt betur hafa blásið og að árferð hafi verið þar öllu hagfelldari, og grasvöxtur er og sagður þar í besta lagi.

Reykjavíkurpósturinn - ágúst (s169):

Öndverðlega í þessum mánuði breyttist veðurátta hér mjög til batnaðar; hætti þá rigningum og kom góður þerrir; hirtu þá allir töður sínar, sem sumstaðar voru komnar að skemmdum, og komu því veðrabrigði þessi mjög í góðar þarfir. Hvervetna þar sem vér höfum fregnir af, varð töðufall hér meira og betra en í mörg ár að undanförnu og eins nyrðra og vestra, svo sumstaðar komst taðan ekki fyrir á túnum meðan hún var þurrkuð, en víðast hvar lá öll taðan undir í einu. Af því grasvöxtur á útengi að sínu leyti einnig er sagður einsog í betra ári, þykir mega fullyrða, að útheysskapur einnig muni orðinn að óskum, og að heybirgðir muni allsstaðar verða og séu orðnar, einsog í besta ári.

Reykjavíkurpósturinn segir frá septembertíð í októberblaðinu (s.15):

Frost var alleina á næturnar milli þess 4. og 6. [september], og frá þeim 18. til 26., annars frostlaust daga og nætur, og hitinn um daga eftir meðaltali milli 6 og 7 gráður. Aldrei festi snjó á láglendi, þótt oftar snjóaði á fjöllin þegar hér rigndi. Rigning var við og við, þó ei mjög mikil nema þann 29. og 30. eða 2 seinustu dagana. 19 dagar máttu heita þurrir, en 11 votir. Vindáttin var lengst af frameftir mánuðinum ýmist norðlæg, norðaustlæg, eða á austan, og seinustu 3 dagana hvassviðri á landsunnan. 

Veðurathugunarmaður á Siglufirði segir alhvítt niður í byggð þann 10.september. 

Brandsstaðaannáll: [Haust]

Haustið allgott og var þá gamall gaddur tekinn svo úr fjöllum og jöklum, að enginn mundi það eins. 2. nóvember kom mikil fönn, er brátt tók upp. Aftur 9.-11. lagði fönn yfir framdali. 18.-20. hláka með miklu hvassviðri og eftir það gott vetrarfar, en byljasamt á jólaföstu, þíða á jólunum og ofsaveður nóttina 28.desember.

Reykjavíkurpóstur - október (s15):

Frost var ekki fyrri enn frá þeim 18. til 27. [október] á næturnar. Fyrstu 15 dagana var oftast á hverjum degi 8° hiti [10°C] um miðjan daginn, og stundum 9° og allt að 10°, eftir það kólnaði meira, fraus þó ei um miðja daga – þó svo að eins, frá þeim 18. til 27. +1°R. Þykkt loft og þoka var oft í þessum mánuði, oftar með sudda, en stórrigningum; mest rigndi þann 26. með austan stormi og þann 31. ... Vindáttin var fyrstu vikuna á landsunnan, aðra mest við austur, síðan 3 daga á útsunnan, 15., 16. og 17. Þann 19., 20. norðanátt og gott veður 23.-25., þ.26. austan stormur, og síðan sunnan og útsynnings umhleypingar, með skúrum, éljum og brimi miklu í sjónum. 16 dagar mega heita þurrir eða  rigningarlausir, 15 meira og minna votir.

Reykjavíkurpóstur - nóvember (s31):

Fyrstu 6 dagana var austanátt og landnyrðingur með þoku, rigningum og stundum hvassviðri, austan stormur og stórrigning þann 1.; norðan stormur þann 7. síðan útsynningur með kafaldséljum, þann 8. og  9.; þann 10. útnyrðings stormur og kafald, sömuleiðis þann 11. á útsunnan. Þann 12. landsynnings stormur með rigningu. Eftir það oftast útsynningur og óstöðugur vindur, ýmist með rigningum en snjó- og hagléljum, þangað til þann 22. og 23., báða þá daga var mikið kafald og stormviðri á austan, síðan hefur verið austan landnorðan átt næstum til mánaðarins enda; stormur nóttina milli þess 27. og 28., nema um miðjan dag þann 30. gjörði kafaldsbyl á vestan og varð um leið frostlaust, en frysti aftur með kvöldinu og spillti á jörðu. Annars hefur 9 seinustu dagana aldrei orðið svo svo frostlaust, að þiðnað hafi að mun, þó hefur ei töluvert frost verið nema 4 daga, 24.-27. ... Heiðskír dagur má varla nokkur hafa heitað til enda. 

Reykjavíkurpósturinn segir í janúarblaði 1848:

Í Norðurárdal í Mýrasýslu hlupu skriður miklar 18.—19. nóvember [1847]. Tók þá af hálft túnið á bæ þeim sem heitir í Sandalstungu, og stór skriður féllu á tvær aðrar jarðir, Hreðavatn og Sveinatungu.

Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi sem dagsett er 8.nóvember: „Hér var grasár það mesta“. 

Þann 28.nóvember segir Sr.Jón í Ofanleiti: „Nóttina til þessa dags ofsastormur og fjúkbylur“. Þann 1.desember segir hann: „Nóttina til þessa dags ofsaveður - og rauð norðurljós á lofti sem gengu yfir loftið frá SV“.

Reykjavíkurpóstur - desember (s40):

Þenna mánuð hefur veðurátt hér sunnanlands verið mjög umhleypingasöm og óstöðug. Framan af jólaföstu voru snjóar og frost og komst því nær allur peningur á gjöf; hefir og hið sama frést vestan af Snæfellsnesi. Síðan hafa verið einlægir stormar að kalla má, að kalla má, af suðri og útsuðri, ýmist með ákafa rigningum eða éljagangi, er því ekki ólíklegt að útigangspeningur hafi talsvert megrast.

Veðráttufar í desembermánuði í Reykjavík: Fyrstu 14 dagana voru ýmist landnyrðingar, með frosti, eða austan stormar, og stundum gekk vindurinn snögglega í suður-útsuður með mikilli snjókomu, eða rigningum og freðum, svo allvíða gjörði haglaust, en uppfrá þeim 14. þiðnaði aftur og hefur síðan oftast gengið austan og sunnan með mikilli rigningu, og stundum útsynnings snjóéljum, og oftar með hvassviðri og þíðum, heldur en fyrri hluta mánaðarins, svo nú má hér kalla snjólaust á láglendi, því þó snjór hafi komið við og við, hefur hann bráðum þiðnað aftur, því rigningar hafa verið miklar. Yfir höfuð hefur loftþyngdarmælirinn verið með lægsta móti og veðurátt vindasöm og óstöðug, úrkoma í meira lagi, og frost varð einnig meira [-14°R, -17,5°C] þann eina dag [þ.8.], enn komið hefur hér í nokkur ár að undanförnu, en stóð ei nema 8 klukkustundir svo mikið — og sá sami dagur var sá eini dagur í mánuðinum, sem kalla mætti algjörlega heiðskír.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1847. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Tuttugu septemberdagar

Tuttugu septemberdagar. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er 8,6 stig, -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,6 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 15.hlýjasta sæti (af 20) það sem af er öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2006 og 2010, meðalhiti þá 10,9 stig, en kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 7,2 stig. Á langa listanum raðast hiti nú í 58.sæti (af 145). Þessir sömu dagar voru hlýjastir árið 1939, meðalhiti þá 12,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 1979, meðalhiti 5,3 stig, 3,3 stigum kaldari en nú.

Á Akureyri er meðalhiti daganna 20 8,1 stig, -0,6 stig neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,8 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum. Vikið er minnst á Kambanesi, -0,1 stig, en mest á Skagatá, -1,8 stig. Einna hlýjast hefur verið á Austfjörðum, hiti raðast þar í 13.sæti á öldinni, en en annars í 15. eða 16.sæti á öðrum spásvæðum.

Úrkoma hefur mælst 74,3 mm í Reykjavík og er það um þriðjung umfram meðallag, en 30,5 mm á Akureyri og er það heldur neðan meðallags.

Sólskinsstundir hafa til þessa mælst 62 í Reykjavík í mánuðinum, nokkru færri en í meðalári.


Af árinu 1846

Tíð á árinu 1846 var almennt talin hagstæð, rigningar voru þó töluverðar syðra um tíma um sumarið og spilltu heyjum. Sex mánuðir voru hlýir, júní hlýjastur að tiltölu, en einnig var hlýtt í febrúar, maí, ágúst, september og nóvember. Fremur kalt var í mars og október. Ársmeðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig, 0,9 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan og 4,3 í Stykkishólmi, 1,2 stigum ofan meðallags næstu 10 ára á undan. 

ar_1846t

Mjög kaldir dagar voru aðeins þrír í Stykkishólmi, 16. og 18.mars og 11.desember. Í Reykjavík voru köldu dagarnir tveir, 16. og 17.mars. Óvenjuhlýir voru hins vegar 28. og 29.júní. Hiti fór í 20 stig 5 sinnum í júlí í Reykjavík.

Úrkoma mældist 897 mm í Reykjavík, einna þurrast að tiltölu var í mars og desember, en úrkomusamt var í maí, september, október og nóvember. 

ar_1846p

Meðalloftþrýstingur var með lægsta móti í júlí, en með því hæsta í desember. Hæsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 10.desember, 1052,6 hPa - sá þriðji hæsti sem vitað er um á landinu frá upphafi mælinga. Rétt að geta þess að dálítil óvissa er í mælingunni. Hæsti þrýstingur í Reykjavík þennan sama dag var 1049,9 hPa. Lægsti þrýstingur ársins var líka óvenjuhár, 967,1 hPa (mældist í Reykjavík 2.mars) og hefur aðeins þrisvar verið hærri síðustu 200 árin. Þrýstifar var rólegt bæði í janúar og desember - ábendi um kyrrviðri.

Um sumarið gekk mjög mannskæður mislingafaraldur, líklega versta drepsótt 19.aldar hér á landi. Í annál 19.aldar segir m.a. [nær orðrétt eftir Gesti vestfirðingi]: „Snemma um sumarið fluttist með Dönum er komu í Hafnarfjörð dílasótt (mislingar) hingað til lands. Hugðu menn hana í fyrstu kvefsótt og gáfu lítinn gaum, en ... síðan breiddist hún um allt land. Var hún svo skæð að hún hlífði nálega engum manni. Lagðist fólkið svo gersamlega að margir voru þeir bæir að hvorki varð gengt heyvinnu né öðrum atvinnuvegum. Og sumstaðar kvað svo mikið að þessu að um tíma varð hvorki búsmali hirtur né sjúklingum hjúkrað. Sýki þessi hafði í för með sér margskonar meinsemdir, ... margir urðu blindir um tíma, hlustarverk, hálsbólgu, höfuðverk, brjóstþyngsli, stemmda gyllinæð og fleira. ... er ár þetta talið með hinum frekustu manndauðaárum á öldinni“.

Þess má geta að árið 1846 náði kartöflumyglufaraldur hámarki á Írlandi og olli uppskerubresturinn (og ill viðbrögð stjórnvalda) skelfilegri hungursneyð.

Allmikið var um slysfarir - einkum drukknanir. Flest er rakið lauslega í Annál 19.aldar. Eitthvað af slysunum tengdist veðri, en dagsetningar vantar og því tilgangslítið að birta þá talningu hér. 

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju.

Gestur Vestfirðingur, 1. árgangur 1847 lýsir tíðarfari ársins 1846:

Vetrarfar hið besta, mjúkviðri, snjóleysur og frostalítið veturinn út. Þegar voraði, varð veðrátta ókyrr, vindasöm og næstum sífelld votviðri fram í septembermánuð, þá kom blíður og góðviðrasamur kafli til þess í [október]. Eftir það komu aftur vindar og votviðri, oftast frostalítið; lagði þó snjó til fjalla í [október], sem leysti upp aftur í [nóvember], og til þessa tíma hefir aldrei fest snjó í byggð, svo að sauðfénaður, og það lömb, hafa gengið, það af er vetrarins, sjálfala úti í mörgum sveitum. Grasár var gott, og þó að sótt sú, [mislingar] hnekkti mjög heyvinnu, urðu heyin samt að vöxtunum til ekki þeim mun venju minni, eins og þau á hinn bóginn hröktust frábærlega og skemmdust bæði hirt og óhirt af sífelldum rigningum, urðu menn því að lóga venju framar fénaði sínum, einkum lömbum. Nýting á öllum eldivið og sjáfarafla varð og hin lakasta, en hlutahæð varð mikil, 7 hundruð til fjögra undir Jökli; hálft fjórða og þaðan af minni í Dritvík. Í vesturverstöðunum aflaðist miður en undanfarin ár. [Í janúar] fórst hákarlaskip í Bolungarvík við Ísafjörð, týndust þar 8 menn. Þá hvarf fiskiskúta ein frá Búðum, voru á henni 6 menn; aðra vantar frá Flatey með 5 útlenskum og 2 Breiðfirskum mönnum; drukknuðu og 2 menn af bát í Nessveit í Strandasýslu.

Reykjavíkurpósturinn (bls.2) segir í október [1846] frá tíðarfari ársins til þess tíma:

Veturinn sem næst leið [1845-1846], var frá nýári sunnanlands einhver hinn blíðasti þeirra er lengi hafa komið, og var því útigangspeningur um sumarmál í góðum holdum enda í þeim sveitum, hvar menjar höfðu orðið á Heklu-gosinu í fyrrahaust; en þegar voraði, fölnaði veður og ókyrrðist, og þar eftir brá til rigninga, og stóð það allt fram að sólstöðum; þá gjörði þurrviðri um nokkurn tíma og allgott sumarveður, en með miðjum túnaslætti brá veðri að nýju, og urðu þá miklar rigningar en hlýindi lítil; hröktust töður hjá öllum almenningi að nokkru leyti, en úthey hvervetna, því fæstir náðu nokkru útheyi í garð fyrr en eftir höfuðdag hér syðra, og má geta nærri að það hafi ekki verið skemmdalaust. Haustið sjálft varð syðra blítt og hagstætt, og bætti það aftur úr mörgum sumarsins vandkvæðum. Nyrðra og eystra gekk vetur í fyrra [haustið 1845] snemma í garð, og varð mjög þungur í skauti í flestum sveitum. Varð snjókoma þar víða meiri enn í mörg ár að undanförnu, svo ekki varð nema með naumindum komist bæja á milli; stóð svo fram á útmánuði að ekki batnaði, og var almenningur víða komin á nástrá með pening sinn, og lá við menn færu að lóga honum sökum heyleysis. En á útmánuðum hlánaði vel, og kom jörð og hagstæð veðurbót þegar mest lá við, og varð þannig hvorki nyrðra né eystra peningsfellir til muna, svo ólíklega sem áhorfðist. Frá árferði og öðru sem á þessu tímabili gjörst hefur á Vesturlandi ætlum vér Gesti Vestfirðingi að segja, þann ætlaði heiman að fyrir löngu, og er því ekkert líklegra enn þeir hittist einhvorustaðar [svo] á leiðinni, hann og Reykjavíkurpósturinn.

Grasvöxtur var næstliðið sumar [1846] hvervetna góður, og sumstaðar venju betri, mundu því heyföng manna, einkum nyrðra, hvar rigningar voru minni og öll árferð betri, hafa orðið mjög að óskum, ef ekki hafi annað að borið, en það var mislingasótt sú, sem kom út í vor í Hafnarfirði, og síðan fór um allt land, en stóð sem hæst nyrðra, meðan á slættinum stóð, og gjörði bæði þar og annarsstaðar mikinn verka-tálma, auk þess að hún varð mörgum manni að bana, þar sem almenningur ekki hér gat komið við þeirri varkárni í öllum aðbúnaði, sem í þeirri sótt þarf við að hafa, ef hún á ekki að verða hættuleg, eins og raun bar vitni um í þetta skipti.

Brandsstaðaannáll: [Vetur]

Frostalítið þar til 9.-12. [janúar] hríðarkafli, 13.-17. þíða, en vann ei á gaddinn. Kom aðeins lítil snöp sumstaðar um tíma, þá fönn á þorranum og jarðleysi. 10. febrúar byrjaði 12 daga hláka, stöðug nótt og dag, er um síðir vann á gaddinn til lágsveita og framdala, en lítið ytra til fjallbyggða. Var þetta óvæntanlegur bati um hávetur, þar með skemmdalaust með hægviðri. Góa var allgóð, utan langsöm hríð ytra síðustu viku hennar, en harðviðri hér.

Á Valþjófsstað rigndi þann 26.janúar í norðaustanstormi og 4 stiga hita. Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi sem dagsett er 10.mars: „Hér má heita sól og sumar“. 

Þann 24.mars segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði að hafís sé svo langt sem sést. Um mánuðinn segir hann: „Í miðjum þessum mánuði hafa mestar frosthörkur verið sem í vetur hafa komið og með einmánaðarkomu rak hér inn hafís“.

Annáll 19.aldar (nokkuð stytt hér): [Vetur]

Eftir nýár héldust snjóþyngsli er komin voru yfir allt Norðurland, og var skorpa sú talin 13 vikur. En með miðjum þorra kom ágæt hláka er varaði í 12 daga. Með einmánuði kom þar þá aftur fannfergi, er hélst fram á sumar. ... Íshroði kom síðast í mars að Norðurlandi, en fór brátt aftur. 

Brandsstaðaannáll:[Vor]

Á einmánuði til páska, 12. apríl, frostamikið og jarðlítið. Fór þá að bera á heyleysi sumstaðar, einkum í Vindhælishrepp. Gengu þá rekstrar fram í sveitirnar, helst Ásana. Eftir páska góður og hagkvæmur bati. Um sumarmál heiðarleysing. Gengu þá sumstaðar kýr úti. Gróður kom í apríllok. Í maí vorblíða æskileg.

Brandsstaðaannáll: [Sumar]

Í júní þurrkasamt, oft sunnanátt og hitar. Í júlí norðanátt til 12.-17., að rigning og hretviðri vökvaði jörðina. Fór þá grasvexti vel fram. Í miðjum júlí byrjaðist sláttur, þar sem því varð sætt fyrir mislingasýkinni. Var besta heyskapartíð, rekjur góðar og þerrar á milli, þó í júlílok skemmdist víða töður fyrir fólkleysi. Allir fengu fatla, minnst viku verkamissi og allt að mánaðar. Kaupafólk veiktist syðra og kom mjög fátt, varð því ófáanlegt að bæta þörf manna, utan það áður var ráðið. Í september heyjaðist mikið og nýttist vel, en snemma visnaði gras.

Á Valþjófsstað mældist 29°C frá kl.12 til 15 þann 2.ágúst. Þar heyrðust dynkir þann 4.ágúst. Athugunarmaður á Odda á Rangárvöllum mældi 20 stiga hita þann 29.júní, 6., 20., 21.(22 stig) og 27.júlí og einnig 7.ágúst. Þann 21. og 27. september mældi hann 18.siga hita. Hann segir frá sandryki og ofsaveðri þann 24.júlí og þann 28.ágúst mesta ofsaveður og rigning um nóttina svo víða flaut (hey) burt af engjum. 

Þann 1.september segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði: „Ofsaveður þá á leið, snjór í nótt svo alhvítt varð ofan í byggð“, og 7.október segir hann: „Enn meira brim svo menn muna ei hér eftir þvílíku“. 

Brandsstaðaannáll: [Haust]

Haustið varð gott, utan mikil hríð ytra 7.-8. október, þá mest var um kaupstaðarferðir, mörgum til meins, eftir það mikið gott. 4.-7 nóvember norðanþíða, góðs viti. [Þann] 8.-15. mikil hláka og flóð mikið í ám, því snjór var kominn til framheiða. 10. des. kom fyrst hríð, svo farið var að gefa lömbum. Á jólanótt kom fönn allmikil, er tók upp á þriðja.

Annáll 19. aldar (stytt): [Haust]

Haustið var hið ágætasta og oftast þíð jörð norðanlands, svo rista mátti torf til 20.nóvember. Héldust úr því hæg frost og kyrrviðri til ársloka.

Reykjavíkurpósturinn segir af tíð síðustu mánuði ársins í janúarhefti 1847 [s.59]:

Árferð hefur, það sem af er af vetri þessum, verið hér syðra og nyrðra, að því er frést hefur, einhver hinn blíðasta, svo varla hefur fest snjó á jörðu, en oftast verið blíðviðri með sunnanvindi; 26. og 27. nóvember varð kuldinn aðeins -8°R [-10°C] og eins þann 11 og 12 desember.

Veðurskýrsla frá Odda á Rangárvöllum lýsir nokkuð gangi Heklugossins og jarðskjálftum sem því fylgdu og fundust þar. Þann 14.ágúst segir að eldur hafi sést í Heklu um kvöldið, sömuleiðis þann 15., en ekki eftir það. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1846. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nokkur órói

Nokkur órói er í kortunum þessa dagana. Vestanstrengurinn í háloftunum yfir landinu er með sterkasta móti miðað við árstíma - og vel má vera að það kólni nokkuð rækilega upp úr helginni. En töluverð óvissa er þó í spánum. Lægð fer norðaustur Grænlandssund á morgun (laugardag 19.) og síðan á önnur að fara yfir landið norðvestanvert síðdegis á sunnudag. Eitthvað hring hefur verið í gangi í spám með þá lægð. Nýjasta spá evrópureiknimiðstöðvarinnar gerir heldur minna úr henni heldur en þær fyrri (hátt í 20 hPa grynnri heldur en hún var í síðustu spá). Svona hring er auðvitað óþægilegt með afbrigðum en má ekki verða til þess að slakað sé á athyglinni - næsta spá sýnir e.t.v. eitthvað allt annað. 

Myndin sýnir norðurhvelsstöðuna í 500 hPa-fletinum síðdegis á sunnudag (20.september).

w-blogg180920a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af legu þeirra má ráða vindstyrk og stefnu. Þær eru mjög þéttar yfir Íslandi og má því lítið út af bregða með vind. Litir sýna þykktina, en hún segir af hitafari í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Jafnþykktarlínur eru þéttar við Ísland (stutt á milli lita) - en við sjáum hlýja bylgju sem fylgir sunnudagslægðinni yfir landinu - hlýtt loft rís inn í háloftastrenginn. Misgengi þykktar- og jafnhæðarlína „býr til“ lægðina. 

Fyrir vestan og norðan er nokkuð kalt loft - forboði haustsins. Við megum taka eftir því að 500 hPa-flöturinn er mjög flatur í kuldanum - kannski ekki mikla orku þangað að sækja fyrir lægðakerfin - frekar að aðsókn hlýinda að sunnan skerpi á þeim. En þetta loft er samt kalt og spár telja nú líklegt að það leiti suður til okkar upp úr helginni - trúlega með nokkrum vindi um tíma - og þá kólnar auðvitað. Kannski koma fáeinir dagar sem verða í kaldara lagi miðað við árstíma.

En síðan vitum við ekki hvað sækir að - sjórinn í kringum landið hitar kalda loftið að neðan - og þá myndast alls konar smáhroði - jafnvel éljabakkar - ætti ekki að koma okkur sérlega á óvart. En ætli hitinn mjakist ekki síðan upp aftur.

Á kortinu má einnig sjá tvo fellibylji. Annar, Teddy, er mjög öflugur - töluverð óvissa er með nákvæma braut hans - í augnablikinu virðist kerfið stefna á austurströnd Kanada. Hinn fellibylurinn er veigaminni - en samt nokkuð alvarlegur. Fellibyljastafrófið er á enda runnið (W er sá síðasti en - þá er farið í það gríska. Bókstafnum Alfa var til einskis eytt (í hálfgerða dellu finnst ritstjóranum - en það er bara hans skoðun). Tilfinningin er sú að þetta nafnakerfi sé einhvern veginn að ganga sér til húðar. - En Beta er samt alvöru og gæti valdið töluverðum usla - þó á þessari stundu sé engan veginn útséð með það. 


Hálfur september

Hálfur september - fremur svalur miðað við það sem verið hefur á öldinni. Meðalhiti í Reykjavík er 8,6 stig, -0,7 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og raðast í 17.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Þessir dagar voru hlýjastir árið 2010, meðalhiti þá 12,2 stig. Kaldastir voru þeir 2012, meðalhiti 7,7 stig. Langi listinn sýnir okkur hins vegar að hiti nú raðast nærri meðallagi, eða í 72.sæti af 144. Sömu dagar 2010 eru hlýjastir, en kaldastir voru þeir árið 1992, meðalhiti þá 5,6 stig (3 stigum kaldari en nú).

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta mánaðarins 7,5 stig, -1,5 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,8 undir meðallagi síðustu tíu ára.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára um land allt. Vikið er minnst í Bláfjallaskála, -0,4 stig, en mest -2,6 stig á Biskupshálsi og Fjarðarheiði. Ekki er mjög mikill munur á landshlutum, hiti á Suðausturlandi raðast í 16.sæti á öldinni, en annars í 17. eða 18.sæti.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 47,0 mm og er það í ríflegu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 25,7 mm sem er í rétt tæpu meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 55,3 í Reykjavík, rétt undir meðallagi.


Sólin sýndist blá

Í september árið 1950 voru miklir skógareldar í Alberta og Bresku Kólumbíu í Kanada. Um þá má lesa á Wikipedia undir leitarorðinu „Chinchaga fire“. Þar segir að þessir eldar (stakir og sér) séu hinir mestu sem orðið hafi í Norður-Ameríku - en þeim hafi verið leyft að brenna vegna þess að svæðið var strjálbýlt. Einnig segir að eldshafið og reykjarsúla þess sé það mesta og stærsta sem vitað er um í álfunni og bar reyk og ösku allt að veðrahvörfum. Askan fór síðan til austurs og norðausturs til Evrópu - og barst hún einnig yfir Ísland. Skýið var mjög þétt og dimmdi mjög í loft þar sem það bar yfir og þar sem sól náði að skína var hún blá að lit - sem er mjög óvenjulegt. Um þetta birtust síðan fáeinar greinar í vísindatímaritum - meðal annars eftir Anders Ångström (tengill). Jónas Guðmundsson ritaði einnig um þetta grein [„Var „bláa sólin“ „tákn á himni““] - hana má lesa í tímariti hans Dagrenningu, 4.tölublaði 1950 (bls.3 og áfram, timarit.is). Grein Jónasar tínir til ýmsar heimildir og umsagnir og er sá hluti greinarinnar hinn fróðlegasti aflestrar. Síðan fer hann nokkuð hátt á flug - og kemst að lokum að eftirfarandi niðurstöðu:

„Öll hin jarðnesku einkenni eða tákn, sem Kristur sagði að fylgja mundu endurkomu sinni, s.s. byltingar, styrjaldir milli þjóða, hallæri, drepsóttir og voðafyrirburðir (stórkostleg slys) hafa verið að gerast fyrir augum vorum hin síðustu árin, og nú hefur einnig hið fyrsta „tákn á himni" borið fyrir augu vor. Það er því kominn tími til þess að þjóðir jarðarinnar fari að reyna að átta sig á því, hvar þær standa og hvað er að gerast“.

Og í viðbæti hafnar hann síðan skógareldaskýringum:

„Kjarrskógareldur, þótt á allstóru svæði sé, vestur í Kanada, er ekki líklegur til þess að valda myrkri og móðu um hálfan hnöttinn, og gera lit sólarinnar annarlegan dag eftir dag í Evrópu. Það er auðskilið mál, að þau blöð og þeir menn, sem vilja skilja alla hluti „jarðneskri skilningu" grípi í slíkt hálmstrá sem þetta, og telji nú skýringuna fengna. Þeir vilja ekki skilja að til sé máttug hönd, sem fyrr en varir getur skrifað mene tekel á veggi vorrar hrynjandi mannfélagshallar. Það vildu þeir heldur ekki skilja, sem sátu að sumbli í höll Belsazar konungs forðum“.

Nú, - allt þetta er kunnuglegur málflutningur nú 70 árum síðar (táknin birtast enn ótt og títt og boða enda veraldarinnar - eða alla vega enda samfélagsskipanar vorrar).

Hvað sem vangaveltum Jónasar líður er samkomulag um það að skógareldar geti litað sólina bláa (þó rauði liturinn sé algengari). Skógareldar þeir sem nú (2020) geisa vestra hafa þar valdið ýmis konar teiknum á himni. Eldbólstrar þeir sem þar hafa myndast margir og miklir eru nægilega stórvaxnir til að koma reyk og ösku að veðrahvörfum og þar berast þeir um „hálfan hnöttinn“. Það á hins vegar enn eftir að sýna sig hvort takist að „gera lit sólarinnar annarlegan dag eftir dag í Evrópu“.

w-blogg140950a

Kortið sýnir veðurstöðuna - svona gróflega. Þetta er 500 hPa-háloftakort úr bandarísku ncep-endurgreiningunni og gildir kl.18 þann 25.september 1950 - daginn áður en rökkrið gekk hér yfir. Trúlega hefur skýið verið í hryggnum vestan við Ísland - en hann fór síðan til austurs og bar loft úr norðvestri inn yfir Evrópu daginn eftir. Rökkrið var því örlítið fyrr á ferð hér á landi heldur en í Evrópu annars. Skýjaþykkni var yfir landinu vestanverðu - en mun bjartara í lofti eystra.

Hér eru nokkrar klippur úr blöðum - einhverja athygli hefur rökkrið greinilega vakið - og sól varð bláleit austanlands.

[Morgunblaðið 27.9. 1950]

Einkennileg litbrigði voru í loftinu hjer í Reykjavík og víðar um nágrennið í gærmorgun. Fyrst um morguninn var loftið undarlega og óvenjulega gulleitt, en síðar skyggði yfir og var dimmra frameftir degi, en venja er til á þessum tíma árs, jafnvel þótt loft sje þjettskýjað. — Engin skýring hefur fengist á þessu fyrirbrigði.

[Alþýðublaðið 28.9. 1950]

Hið dularfulla rökkur, sem varð hér í fyrradag, er enn óskýrt.

[Morgunblaðið 29.9. 1950]

Á þriðjudaginn, þegar litbrigðin voru í skýjaþykkninu hjer yfir suðvesturlandinu, þá var sólin bláleit á Austfjörðum. Þann dag var víða sólskin þar eystra og þessi blái litur sem var á sólinni, var eins og sá sem sjest hefur undanfarna daga á meginlandi Evrópu.

[Alþýðublaðið 30.10. 1950]

Nýkomin erlend blöð segja frá því, að næst liðinn sunnudag hafi reykský mikil frá skógareldum í Alberta í Kanada valdið rökkri á stóru svæði í Kanada og Bandaríkjunum. Eru lýsingar á rökkri þessu og hinni „bláu sól", sem því fylgdi mjög áþekkar því, sem hér kom fyrir. Reykskýin hurfu út á Atlantshaf á sunnudagskvöld, og á þriðjudagsmorgun varð rökkrið hér á landi, og virðist því mega ætla, að hér sé um sama fyrirbæri að ræða.

Það er mjög langt síðan ritstjóra hungurdiska var bent á þetta tilvik - norskir lærifeður hans minntust á það á sínum tíma. Sjálfur sá hann einu sinni græna sól - um þá sýn má lesa í pistli sem birtist hér á hungurdiskum í sumar [og mátti raunar túlka sem tákn á himni].

En því er ekki að neita að ritstjórinn bíður enn eftir því að fá að sjá hina bláu sól - og fylgist því allnáið með fréttum af reykskýjum að vestan. 

 


Fyrsti þriðjungur septembermánaðar

Fyrsti þriðjungur september er í kaldara lagi að þessu sinni - sé miðað við þessa öld - en reyndar er hitinn ofan meðallags sé litið til lengri tíma. Í Reykjavík er meðaltalið nú 8,8 stig, -0,9 stig neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Hann raðast í 16.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2010, meðalhiti þá 13,8 stig, en kaldastir voru þeir 2012, meðalhiti 8,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 78.sæti (af 144). Á þeim tíma voru dagarnir aldrei hlýrri en 2010, en kaldastir voru þeir 1977, meðalhiti þá aðeins 5,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 7,8 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,4 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára um land allt, minnst á Kambanesi, þar er neikvæða vikið -0,3 stig, en mest er það á Biskupshálsi, -3,4 stig.

Röðun hita á spásvæðunum sýnir að að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, þar raðast hitinn í 15.sæti á öldinni, en kaldast er á Austurlandi að Glettingi, þar er hitinn í 19.sæti (því næstkaldasta) á öldinni.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 38,5 mm, um 40 prósent umfram meðallag, og 14,1 mm á Akureyri, en það er rétt undir meðallagi.

Sólskinsstundir í Reykjavík eru orðnar 29,8 - um 10 færri en í meðalári.


Smávegis af ágúst

Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik í nýliðnum ágústmánuði (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og vik hennar segja því til um það hversu hlýtt (eða kalt) hefur verið.

w-blogg030920a

Gulu litirnir sýna svæði þar sem þykktarvikið var meira en 10 metrar. Mesta vik yfir landinu er rétt tæpir 40 metrar og samsvarar það því að hiti (í neðri hluta veðrahvolfs) hafi verið um 2 stig yfir meðallagi (1981 til 2010). Þetta var hlýr ágúst á stórum hluta þess svæðis sem kortið sýnir - hlýjast þó yfir Hudsonsundi norður af Labrador, þar var þykktarvikið meira en 60 metrar. Vik sem þessi teljast þó varla óvenjuleg - enda felur þetta meðaltal nokkuð misjafnt veðurlag fyrri og síðari hluta mánaðarins. 

Háloftavindar við landið voru ekki fjarri meðallagi að styrk og stefnu - bæði vestan- og sunnanátt þó lítillega yfir því - enda lengst af daufari tíð syðra heldur en um landið norðan- og austanvert. 

Þökkum BP fyrir kortagerðina að vanda. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.11.): 68
  • Sl. sólarhring: 92
  • Sl. viku: 1493
  • Frá upphafi: 2407616

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1321
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband