Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Lægðardrag

Nú hagar þannig til að djúp en mjög hægfara lægð langt suður í hafi skýtur smáskömmtum af hlýju lofti til norðurs yfir Ísland. Með hverjum skammti fylgir úrkoma og loftþrýstifall, lægð nær trauðla að myndast en lægðardrag yfir landinu þokast til vesturs og austurs á víxl. Lítum fyrst á þykktarkort sem gildir um hádegi á mánudag.

w-blogg300913aaa

Jafnþykktarlínur eru heildregnar en 850 hPa hiti er sýndur með litum. Þetta er mjög hlýtt loft, þykktin yfir Reykjavík er 5480 metrar, sumargildi, og hiti í 850 hPa (1360 metra hæð) er um 5 stig. Líka harla gott. Hugsanlegt er að hlýindanna verði vart austur á fjörðum en grunnur fleygur af kaldara lofti liggur yfir öllu Vestur- og Norðurlandi með frosti á háfjöllum Vestfjarða og Norðurlands.

Litakvarðinn á næsta korti sýnir svokallaðan jafngildismættishita í 850 hPa hæð. Það er sá hiti sem loftið myndi öðlast ef allur rakinn í því væri þéttur og það síðan dregið niður undir sjávarmál.

w-blogg300913aa

Kortið sýnir því bæði hita og raka. Brúnu svæðin eru bæði hlý og rök. Tölur sem sjá má á stangli sýna jafngildismættishitann í Kelvingráðum. Talan suður af landinu er 317,2K eða 44°C. Rakinn er orkuríkur - en sá varmi stendur okkur ekki til boða. Við megum taka eftir því að hitasviðið er mjög bratt, það er nærri því ekkert rými fyrir grænu litina við Vestfirði og í bláa litnum sést talan 285,4K (12°C). Hér er loft greinilega af mjög ólíkum uppruna hvoru megin garðs, munar 32 stigum.

En við sjávarmál lítur þetta svona út:

w-blogg300913a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar, en lituðu svæðin sýna úrkomuna í mm/3 klst. Á bláu svæðunum er úrkomunni spáð 5 til 10 mm á 3 klst. Það er verulegt - blautur dagur um stóran hluta landsins. Höfuðborgarsvæðið er í jaðrinum. Ef kortið er stækkað má sjá litla krossa í græna litnum yfir Norðurlandi. Þar segir líkanið að hann snjói. En hér á hungurdiskum tökum við enga afstöðu til þess - bendum bara á spár Veðurstofunnar. Í þeim eru áreiðanlegri upplýsingar - og nýrri.

Mikil froða - lítið efni, nema fyrir þau fáu nörd sem eru að æfa sig í kortalestri.


Haustþrep

Haustið hefur sinn gang. Í dag (laugardaginn 28. september) mældist hvergi 10 stiga hiti eða meira á landinu. Það gerðist síðast 5. maí, 145 dagar í röð með yfir 10 stiga hita. Hvernig er þetta yfirleitt?

Breytingar á stöðvakerfinu setja reikningum af þessu tagi nokkrar skorður. Lítum samt á töflu sem nær aftur til ársins 1996 og tekur aðeins til sjálfvirkra stöðva.

árdagafjöldi
1996140
1997100
1998131
1999148
2000109
2001147
2002155
2003127
2004149
2005122
2006148
2007157
2008167
2009168
2010172
2011168
2012142
2013145
meðaltal144

Meðaltalið er 144 dagar - við erum sumsé í meðallagi í ár. Hægt er að reikna leitni og sýna þeir reikningar að samfellt tímabil 10 stiga er að lengjast. Leitnin sú segir ekkert um framtíðina frekar en venjulega auk þess að vera lítt marktæk. En ef við tökum reikningana hráa kemur í ljós að sumarið (í þessari sérstöku merkingu) hefur lengst úr 124 dögum árið 1995 í 164 daga í ár, 40 daga lenging. Það munar um það. Óhætt mun þó að vara menn við að kaupa mikið af hlutum út á spá sem byggir á þessu einu. En það má kannski kaupa tryggingu gegn tapinu?


Enn aumara

Eftir sumargæðaumfjöllun Morgunblaðsins í dag (föstudag 27. september) var spurt hvers vegna september væri þar ekki talinn með öðrum sumarmánuðum. Því er helst til að svara að einkunnakerfið hentar ekki september - sólarlítill hlýindamánuður með meðalúrkomu, kannski sá besti af bestum yrði skotinn í kaf af sólríkum, úrkomulitlum kuldamánuðum. Að þessu leyti er september því öðru vísi en hinir sumarmánuðirnir - hvað Reykjavík varðar.

Um hásumarið (júlí og ágúst) fer þar gjarnan saman bjart veður og hlýindi - en á öllum öðrum tímum árs eru þungbúnustu mánuðirnir þeir hlýjustu. Ef allar sanngirni er gætt er september varla hæfur með hinum mánuðunum. En öll einkunnagjöfin er auðvitað leikur - og ber ekki að taka alvarlega.

Ritstjórinn hefur þó til gamans reiknað út einkunn núlíðandi septembermánaðar og reynist hún vera fjórir (af 16 mögulegum), til viðbótar þeim 9 sem voru áður komnir (sjá pistil dagsettan 2. september þar er tengill í skilgreiningarpistilinn). Þetta gerir samtals 13 sumarstig af 64 mögulegum. Svo lága einkunn hefur ekkert sumar fengið síðan 1989 en þá skutust 12 stig á blaðið. En septembermánuðir undanfarinna ára eru ekki mjög háir, september 2007 fékk aðeins 2 stig. Þá voru hins vegar 37 stig í pottinum úr fyrri mánuðum sumarsins - en 9 nú eins og áður sagði.

En einnig er hægt að búa til einkunn fyrir sumarið í heild með sérstakri sameiginlegri fimmtungagreiningu. Þá fyrst versnar í því, hæsta mögulega einkunn er 16 stig. Sumarið 2013 skrapar upp eitt - fyrir það að hitinn var ekki alveg niður í botni. En samkeppnin á botninum er nokkuð hörð, sumarið 1989 fær núll og 1983 auðvitað líka. Fimm önnur sumur eru með 1 stig eins og það sem nú er að líða: 1923, 1925, 1969 og 1984. Fjögur landsfræg sunnlensk rigningasumur fá tvö stig: 1955, 1959, 1972 og 1976. Sumarið 2013 er greinilega í úrvalshópi. Hvort það er maklega látum við liggja á milli hluta að sinni.


Bætir á sýndarsnjóinn (og á þann raunverulega líka)

Nú þegar er kominn það mikill sýndarsnjór á hálendið að meiriháttar hlýindakafla virðist þurfa til að losna við hann allan (og ekki von á slíku). Í veðurlíkönum fellur úrkoma - bæði regn og snjór - og snjór bráðnar aftur - rétt eins og í raunveruleikanum. Ekki er þess að vænta að sýnd og raun fari saman í smáatriðum en samt er fróðlegt að fylgjast með hvað líkönin eru að gera.

Og hér er uppgjör harmonie-líkansins síðdegis í dag (fimmtudag).

w-blogg270913

Litirnir sýna snjóhuluna, kvarðinn batnar sé kortið stækkað. Tölurnar eru kíló á fermetra, hvert kíló samsvarar 1 mm úrkomu. Snjódýptin fer svo eftir eðlismassa snævarins. Á þessu korti er nýsnævið mest á Hofsjökli, komið í 1000 kg á fermetra frá því í ágúst - minna á öðrum jöklum.


Aðeins meira af sólarleysismetingi

Sumarið sem nú má heita liðið var heldur sólarlítið um suðvestanvert landið. Um það hefur verið fjallað áður á þessum vettvangi. Þó var spurt hvernig málið yrði ef maí og september væru teknir með.

Hér að neðan er mynd sem sýnir uppsafnaðan sólskinsstundafjölda fjögurra sumra í Reykjavík frá 1. maí og út september. Árið í ár á eftir að bæta fáeinum stundum við til mánaðamóta - en ekki svo mörgum að það raski myndinni. Halli ferlanna gefur til kynna hvort sólríkt var eða ekki, sé hann lítill var sólarlítið, sé ferill brattur hefur verið sólríkt á þeim tíma.

w-blogg260913

Lóðrétti ásinn sýnir sólskinsstundafjöldann, sá lárétti dagafjölda frá og með 1. maí. Lituðu ferlarnir sýna síðan uppsafnaða stöðu frá degi til dags sumarið út. Hér eru tekin fjögur ár, 1955 (fyrir illt orð sem af því fer), árið í ár (2013) og árin 1983 og 2012 sem annars vegar sýna sólarrýrasta tímabilið og hins vegar það sólríkasta.

Eftir fyrsta mánuðinn er 1983 strax aumast, árið í ár fer aðeins betur af stað, en vart má milli sjá hvort árið 1955 eða 2012 gerir betur. Skemmst er frá því að segja að árið 1983 stendur sig jafnilla allt tímabilið í gegn - helst að athygli veki nær algjörlega sólarlaust (flatt) tímabil frá 2. til 14. ágúst. Þá mældust sólskinsstundirnar aðeins 5 í Reykjavík.

Árið 2012 (grænt) heldur sínu striki út í gegn, það er aðeins vika snemma í ágúst sem hefði getað gert betur. Minnkandi halli á línunni undir lokin sýnir fyrst og fremst styttri sólargang.

Sumarið 1955 sló aðeins af í júní en snemma í júlí keyrði um þverbak. Síðari hluti tímabilsins var jafnvel enn rýrari heldur en sami tími 1983.

Sumarið í ár, 2013, er öðru vísi heldur en 1955 og 1983 að því leyti að býsna brattar brekkur (sólrík tímabil) koma tvisvar eða þrisvar, mest munar um hálfan mánuð kringum mánaðamótin júlí/ágúst. Þá fór 2013 fram úr 1955 og hékk síðan ofan við það sem eftir lifði.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af lítilsháttar niðurstreymi

Niðurstreymið sem hér er fjallað um er svo lítið, tímabundið og óverulegt að skrif þar um fellur í flokk mestu agúrkufrétta sem um getur. Enda er þetta ekki frétt heldur er horft á þrjár myndir úr harmonie-veðurspárlíkaninu sem Veðurstofa Íslands rekur.

Fyrsta myndin sýnir skýjahulu eins og líkanið vildi hafa hana kl. 20 í kvöld (þriðjudaginn 24. september). Skýjahuluspár voru lengi taldar fullkomlega vonlausar og við veðurfræðingar í eldri kantinum gátum ekki minnst á þær nema brosa hæðnislega út í annað munnvikið. Vonleysið er reyndar enn á sveimi hvað þessa tegund veðurspáa varðar - en samt eru þær farnar að vekja athygli og talsvert áhorf vegna norðurljósaferðamennsku þeirrar sem nú er hvað vinsælust. Sagt er að spárnar komi að notum.

En hvað um það. Harmonie-líkanið vildi hafa skýjahulu svona fyrr í kvöld:

w-blogg250913aaa

Flísin í efra horni til vinstri sýnir heildarskýjahuluna, í efra hægra horni eru lágskýin, miðskýin á neðri flís til vinstri og að lokum háský í neðra hægra horni. Háskýjabreiðan er jaðar uppstreymisins austan við lægðardragið sem minnst var á í pistli gærdagsins - mikill blikubakki sem ryðst hratt til austurs.

Miðskýin eru sömuleiðis í jaðri lægðardragsins og þar er líklegt að fari gráblika og síðar regnþykkni - líkanið segir að úrkoma byrji vestast á landinu um miðnætti.

En tvær mjóar lágskýjalausar ræmur sunnan við land vekja athygli á bláu myndinni (jú, veðurspár eru líka bláar). Ræmurnar sjást líka vel á skínandi fallegu rakakorti sem gildir á sama tíma og sýnir rakastig í 925 hPa-fletinum. Hann er hér í 840 metra hæð yfir sjávarmáli. Nái fjöll upp úr liggur það sem myndin sýnir í klessu ofan á því sem uppúr fletinum nær.

w-blogg250913aa

Vatnajökull hreinsar af sér, Hofsjökull líka, en ekki Langjökull. Húsavík er hér þurrasti staður landsins (rakastig 37% - það sést sé kortið stækkað og líka örsmár gulur blettur yfir staðnum). Þar sem rakastig er 100% er ský - eða þoka. En það er þessi tvískipta rönd skammt undan Suðurlandi þar sem ekki er skýjað - rakastig áberandi lægra en umhverfis.

Þetta gæti bent til niðurstreymis í 800 m hæð. Rakastig lækkar alltaf í niðurstreymi - því hastarlegra eftir því sem það er lengra komið að ofan. Þetta niðurstreymi er greinilega ekki úr neinum háloftum - enda sjást þess ekki merki á háskýjakortinu að ofan.

En svæðið fellur nokkurn veginn saman við kort sem sýnir úrstreymi í 1000 hPa - sá flötur er í dag í rúmlega 200 metra hæð yfir sjávarmáli (þrýstingur við sjávarmál er 1026 hPa, (1026-1000)*8=208 metrar). Úrstreymiskortið er að mati ritstjórans hvað erfiðast allra veðurkorta - en líka afskaplega lífrænt. Hér sjást veik andartök lofhjúpsins. Á rauðu svæðunum er andað út, en á þeim bláu inn.

w-blogg250913a

Lárétt úrstreymi er í öllum rauða borðanum sunnan við land. Í stað loftsins sem streymir út verður loft að koma að ofan - allt saman lítið og hægt - en nægilegt þó til að lækka rakastigið og leysa upp lágskýin. Fallegt form. Hvort það er raunverulegt vita helst þeir sem gáfu skýjum gaum í Vestmannaeyjum um kl. 20 í kvöld.


Pínulítið röng?

Í síðasta pistli (fyrir 3 dögum) var fjallað um gríðarlega ólíkar spár sem gilda áttu kl. 18 í dag, mánudaginn 23. september. Evrópureiknimiðstöðin spáði hægri austan- og norðaustanátt, háum loftþrýstingi og þurru veðri. Bandaríska reiknistofan spáði hins vegar landsynnngssteytingi með rigningu á Suður- og Vesturlandi.

Var önnur spáin þá rétt? Ef litið er á þrýstifar og vinda eingöngu var evrópureiknimiðstöðin mun nærri því rétta, en þegar upp var staðið rigndi suðvestanlands kl. 18 - að vísu ekki með vindlátum en rigndi samt. Þeir sem hugsa eingöngu um bleytuna gætu talið bandarísku spána betri - en þeir sem horfa á loftþrýsting og vind hallast að því að evrópureiknimiðstöðin hafi verið betri. Ritstjórinn er reyndar sammála því síðarnefnda. Regnsvæðið sem var við Suðvesturland í dag átti að vísu að vera við Færeyjar í dag (mánudag) - en hvað um það.

Þetta var mjög gerðarlegt regnsvæði - en mesta úrkoman virðist skríða hjá, en var samt meiri en 5 mm á klst þar sem mest var - trúum við áætlun veðursjárinnar á Miðnesheiði - það er býsna mikið nærri því nóg til þess að maður fari að halla sér að þeirri amerísku.

Úrkomusvæðið leit svona út í líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 í dag.

 w-blogg240913a

Kort og kvarðar batna mjög við stækkun. Við sjáum að austanátt er undir úrkomunni en lögun kerfisins kallar samt á þá spurningu hversu langt sé upp í suðvestanáttina. Háloftaathugun í Keflavík sýndi að vindsnúningurinn var um hádegi í tæplega 4 km hæð - þar fyrir ofan blés af suðvestri.

Við lítum á kort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins auk hita og vinds í fletinum á sama tíma og kortið hér að ofan gildir.

w-blogg240913b

Hér sjáum við lægðardrag fyrir vestan land (miðjan merkt með grárri strikalínu). Það rennur hratt til austurs yfir landið í nótt. Á eftir því gæti létt til. Regnsvæðið ætti að fara austur með lægðardraginu - enda er það tengt samspili þess og austanáttarinnar neðar.

En nýtt lægðardrag kemur síðan úr vestri - það er öllu gerðarlegra. Sjávarmálskortið hér að neðan gildir kl. 21 annað kvöld (þriðjudag).

w-blogg240913c

Þetta úrkomusvæði er svipaðs eðlis en hið fyrra. Vindur er alls staðar af austlægri átt í draginu - það sem gætu sýnst vera kuldaskil og hitaskil í því hreyfast hins vegar til austurs - á móti vindi - sem er frekar óþægilegt. Í þessu tilviki gerir reiknimiðstöðin hins vegar ráð fyrir því að lítil lægð snarist út úr hringrásinni um það bil þar sem við gætum hugsað okkur að hita- og kuldaskil mættust. Eru þá ekki allir ánægðir?

En við skulum líka líta upp í 500 hPa flötinn á sama tíma og þetta seinna grunnkort.

w-blogg240913d

Miðja lægðardragsins nýja er merkt með grárri strikalínu. Dragið hreyfist til austurs og dýpkar. Meiri rigning nálgast.


Skemmtilega ólíkar spár

Oftast eru reiknimiðstöðvarnar bandarísku og evrópsku í aðalatriðum sammála um veður 3 til 5 daga fram í tímann en skiljast síðan að. Algengt er þó að það skeiki um dýpt og nákvæma staðsetningu veðurkerfa í mun styttri spám - svo miklu máli skipti þótt aðalatriði séu svipuð.

Í dag (föstudaginn 20. september) ber svo við að fjögurra daga spár miðstöðvanna eru ótrúlega ólíkar - og þar af leiðandi framhaldið líka. Þetta er enn óvæntara fyrir þá sök að það sem nú er framhald evrópureiknimiðstöðvarinnar var í gær framhald þeirrar bandarísku. Um leið og sú fyrrnefnda varð að því er virtist sammála þeirri síðarnefndu hrukku þær hvor um sig í ból hinnar.

Þetta þýðir auðvitað að spá mánudagsins (23. september) er einmitt nú sérlega óráðin. Trúlega jafnast málin strax við næstu spárunur - stundum er endanleg niðurstaða einkennileg samsuða beggja. Hvað verður nú?

En lítum á kortin, þau gilda kl. 18 síðdegis á mánudag. Fyrst er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg210913a

Hér er myndarleg hæð yfir Grænlandi en lægðasvæði langt suður í hafi. Smálægð er á hraðri leið til austurs fyrir suðaustan land. Hæð er yfir Niðurlöndum. Myndarlegt lægðasvæði nær frá Nýfundnalandi og langt norður með vesturströnd Grænlands. Hér á landi er hæg norðaustanátt og úrkomulítið - sennilega mjög bjartur og fagur haustdagur um mestallt land nema við norðausturströndina.

Svo er það gerð bandarísku veðurstofunnar og á að sýna veður á sama tíma.

w-blogg210913b

Jú, hæðin er enn yfir Niðurlöndum og lægðarennan vestast á kortinu eru sem fyrr en í stað norðaustanáttarinnar hægu er komin landsynningsrembingur með leiðindaveðri um að minnsta kosti allt landið vestanvert.

En hvar greinir spárnar að? Til að komast að því lítum við á 500 hPa spár miðstöðvanna kl. 12 á hádegi á sunnudag. Fyrst evrópureiknimiðstöðin. Heildregnar línur sýna hæð flatarins en rauðar strikalínur þykktina.

w-blogg210913c

Lægð er suður í hafi (hefur m.a. étið leifar fellibylsins Humberto með húð og hári). Hún leitar til norðurs - en hittir þar fyrir einskonar dyr á milli tveggja háþrýstisvæða - þessar dyr eru hér að skella aftur og loka fyrir norðurleið hæðarinnar - hún hörfar þá til suðurs og verður rekstraraðili lægðar evrópureiknimiðstöðvarinnar suður í hafi á mánudag. Vestari hæðarhryggurinn byggir síðan upp afleggjara yfir Grænlandi. - Lítið hefur verið um slíka hryggi undanfarna mánuði.

En bandaríska háloftaspáin er nærri því eins - en ..

w-blogg210913d

Hér er lægðin sjónarmun dýpri (5320 metrar í stað 5390 metra í evrópsku spánni) og gerir sig líklega til að sleppa norður fyrir og komast milli stafs og hurðar í dyrunum.

Hér virðist veður margra daga ráðast af því því einu hvort skellt verður á lægðina eða hún sleppur. Þetta mun auðvitað enda með sameiginlegri lausn reiknimiðstöðvanna. Hvor verður ofan á? Gerist kannski eitthvað allt annað? Verður eitthvað málamiðlunarsull fyrir valinu?  

Snjóar suðvestanlands á fimmtudagskvöld í næstu viku?


Frekar rólegt á norðurslóðum (í bili)

Nú nálgast jafndægur á hausti og norðurhvelssumrinu því að ljúka. Þótt það hafi kólnað á norðurslóðum er ekki að sjá neinn illkynjaðan kulda á korti dagsins.

w-blogg200913a

Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins yfir mestöllu norðurhveli jarðar norðan hitabeltis. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari eru háloftavindar. Þykktin er sýnd með litum (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað) en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin milli gulbrúnu og grænu litana eru við 5460 metra en allt sem er hlýrra en það telst vera sumarhiti hér á landi.

Við sjáum að ekki er langt í sumrið fyrir sunnan land en það er samt ekki á leið hingað heldur stefna hlýindin á ógnarhraða til austurs norðan í hæðinni miklu á Biskæjaflóa. Mörk á milli blárra og grænna lita eru við 5280 metra en sú þykkt telst köld hér á landi í september - en er samt ekki svo óvenjuleg.

Enginn alvarlegur kuldapollur er yfir Íshafinu en aftur á móti er þar risastór hæð og háloftasumarhiti (á íslenskan mælikvarða) yfir Svalbarða. Ólíklegt er að þeirra hlýinda gæti niður við jörð. Hlýindi sem þessi héldu sig að mestu frá Norðuríshafinu í sumar en hefðu þá dugað til að ýta undir ísbráðnun þar um slóðir. En nú er það sennilega of seint til þeirra hluta - sólin er að setjast á norðurskautinu og kemur ekki upp aftur fyrr en í mars. Hér styttast dagarnir óðfluga.

Í hungurdiskapistli gærdagsins var fjallað um lágan hámarkshita - ég bendi áhugasömum lesendum á athugasemd Sigurðar Guðjónssonar um þá færslu. Í viðhengi hér að neðan má finna lista yfir lægsta hámarkshita í Reykjavík í mælingu kl. 18 hvers dags í september frá 1949 til 2013. Í viðhenginu má einnig sjá lægsta hámarkshita kl. 18 á mönnuðum stöðvum (hálendi sleppt) á sama tímabili.

Í listanum kemur fram að þann 17. var met Grímsstaða á Fjöllum frá 1979 jafnað, með hámarkshitanum -0,5 stig klukkan 18. Forvitnilegt út af fyrir sig - fyrir nördin.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver er lægsti sólarhringshámarkshiti í september í Reykjavík?

Þessari spurningu var varpað fram í kuldagjóstinum í gær (þriðjudaginn 17. september). Svarið er 1,4 stig, 29. september 1969. Sá dagur er eftirminnilegur því þá gerði mestu septemberhríð í höfuðborginni síðustu 90 árin að minnsta kosti.

Taflan hér að neðan sýnir lægsta sólarhringslágmark hvers septemberdags í Reykjavík - eins og best er vitað. Vonandi að tölur í töflunni breytist ekki í ár.

dagurármán hámarkshiti °Clíka
119079 7,6  
219369 6,6  
319259 7,4  
419929 6,4  
519819 6,9  
619039 6,9  
719409 4,9  
819039 7,0  
919249 6,1 1981
1018879 6,0 1981
1119219 5,3  
1219239 4,7  
1319149 5,3  
1419149 4,7  
1519229 4,7  
1619229 4,6  
1719879 5,6  
1818929 2,6  
1919909 3,5  
2019909 2,9  
2118899 3,2  
2220039 4,6  
2318889 2,4  
2418899 2,6  
2519639 3,7  
2618879 3,2  
2718879 2,1  
2818999 2,6  
2919699 1,4  
3019699 2,1  

En hvað með hæsta lágmarkshitann í Reykjavík í september? Það eru hin ótrúlegu 14,4 stig þann 3. september 1939.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband