Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Djúpar lægðir næstu daga

Nú bregður svo við að N-Atlantshaf er alveg fyrirstöðulaust og geta lægðir því runnið hindrunarlítið frá austri til vesturs. Lítið hefur verið um djúpar lægðir í vetur en næstu daga fá þær tækifæri á að sýna sig. Það táknar þó ekki endilega að veðrið verði sérlega slæmt en rétt er samt að fylgjast með því. Ég minni enn á það að bloggið hungurdiskar er ekki spáblogg og þótt það stundum tali í þeim dúr eru lesendur hvattir til að taka meira mark á formlegum spám Veðurstofunnar heldur en því losaralega hjali sem hér má finna. En lítum samt á háloftakortið eins og það er þegar þetta er skrifað (um miðnætti að kvöldi 30. janúar 2011).

w-h500-300111-24hirlam6

Hvað sjáum við svo hér? Svörtu, heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins á miðnætti, en rauðu strikalínurnar þykktina milli 500 og 1000hPa-flatanna. Gríðarleg háloftalægð (kuldapollurinn Stóri-Boli) er við sunnanverða Baffinseyju og nær hringrásin í kringum hann nærri því yfir allt N-Atlantshaf alveg sunnan frá Bermúdaeyjum austur og norður um langleiðina til Svalbarða. Tvö áberandi lægðardrög eru á svæðinu, annað ekki langt frá Jan Mayen en hitt suðaustur af Hvarfi á Grænlandi.

Við sjáum líka að jafnhæðarlínurnar eru mjög þéttar sunnan við Nýfundnaland og norðaustur um Ísland. Mikill vindur fylgir þéttum línum enda eru þetta hesin undir heimskautaröstinni.

Þykktarlínurnar eru líka þéttar. Í aðalatriðum er þykktin lægst þar sem 500 hPa-hæðin er lág, en há er þykktin þar sem hæðin er há. Suðvestan við Ísland er þó allstórt svæði þar sem misgengi er mikið á milli þykktar- og hæðarlína. Norðaustur af staðnum sem merktur er y á kortinu liggja þykktarlínurnar nærri þvert á hæðarlínurnar. Svipað má sjá suður og suðvestur af y-inu. Þarna segum við að loft sé mjög riðið enda vaxandi riðalægð á svæðinu á hraðri leið norðaustur í átt til Íslands.

Þeir sem ekki vilja lesa tölur geta sleppt því sem hér kemur á eftir.

Með því að draga þykktargildin frá hæðargildunum getum við fundið lægðina. Við stað sem merktur er x á myndinni sjáum við (vonandi) að hæðar- þykktargildi eru þau sömu, 528 dekametrar (5280 metrar), 528 mínus 528 eru núll. Hæð 1000 hPa-flatarins er því 0 metrar, hann liggur við sjávarmál og þrýstingur þar er því 1000 hPa. Rétt austur af y-inu sést hvernig 522 hæðarlínan og 540 þykktarlínurnar snerta næstum hvor aðra. Þar er hæð 1000 hPa-flatarins því 522 mínus 540 = -18 dekametrar - eða -180 metrar.  Mínusmerkið þýðir að þrýstingur er minni en 1000 hPa og við vitum að í fyrsta kílómetranum næst jörðu eða svo eru 80 metrar = 10 hPa, -180 metrar er því á milli 22 og 23 hPa eða 1000 mínus 22 = 978 hPa. Sem er reyndar nálægt miðjuþrýstingi lægðarinnar.

Hér á sérstaklega að taka eftir því að lægðarmiðjur eru þar sem fleygar af hlýju lofti ganga lengst í átt að lægra 500 hPa fleti.

Lítum nú aðeins á Stóra-Bola. Innsta jafnhæðarlínan er 468 dekametrar. Ætli miðjuhæðin sé ekki um 466 dekametrar (=4660 metrar). Þykktin er nánast sú sama. Þrýstingur við sjó er því um 1000 hPa. Stóri-Boli sést því varla sem lægð við jörð - hann er barmafullur af köldu lofti. Þess má geta að þykktin sést varla fara öllu neðar en þetta. En nú er líka miður vetur.

Ímyndum okkur nú að okkur tækist einhvern veginn að koma 540 þykktarlínunni inn undir miðju Stóra-Bola, segjum inn að hæðinni 470. Hversu djúp yrði sú lægð? Jú 470 mínus 540 = -70 dekametrar eða -700 metrar. Það eru nærri 90 hPa og lægðin sú væri því um 912 hPa djúp.

Nú er það svo að um leið og Stóri-Boli færist út yfir opið haf hlýnar í honum og hann grynnist mikið. Þykkt og hæð hækka nokkurn veginn i takt, rosaleg éljaský myndast með tilheyrandi pólarlægðum. En þar sem hringrásin nær yfir mjög stórt svæði getur hlýtt loft dregist inn í átt að miðju Bola með riða áður en hæðin hækkar. Við það verða til mjög djúpar og miklar lægðir.

Tölvuspár eru ekki sammála um það hver verða örlög kuldapollsins né hversu djúpar þær lægðir verða sem honum fylgja. Sú sem kemur á morgun á víst að verða um 960 hPa í miðju, sú sem von er á á miðvikudaginn fer e.t.v. niður í 950. Sem stendur er ekki spáð miklum illviðrum hér á landi með þessum lægðum nema á hálendi og fjallvegum. Braut þeirra er fremur hagstæð okkur. Lægðirnar gætu orðið fleiri og sumar spár gera t.d. ráð fyrir mikilli úrkomu á Bretlandseyjum og Vestur-Noregi síðar í vikunni. Sömuleiðis gera sumar spár ráð fyrir verulegu kuldakasti í Bandaríkjunum í tengslum við Stóra-Bola.

En eins og venjulega er margt sem þarf að hafa auga með í veðrinu. En fylgist með spám Veðurstofunnar.


Hefur langtímahlýnun verið mismunandi eftir landshlutum?

Þótt hiti á landinu sveiflist í öllum aðalatriðum í takt frá ári til árs má engu að síður sjá tímabilabundnar breytingar. Segja má að halli hitasviðsins breytist. Ég hef komið mér upp fáeinum mælitölum til að fylgjast með þessu. Breytileiki sumra talnanna er raunar lítill og óvíst hversu marktækur hann er. En greinilegastur er sá breytileiki sem kemur fram í mun hita við suður- og norðurströndina. Hann mæli ég með mismun ársmeðalhita í Vestmannaeyjum og í Grímsey. Mæliröðin nær aftur til 1878.

w-t825-t404-langtíma

Fyrstu árin eru lengst til vinstri á myndinni en þau nýliðnu eru lengst til hægri. Sá má að fyrir 1920 eru gríðarlegar sveiflur milli ára og meðaltalið er hátt. Um 1920 varð mikil breyting og varð munurinn sérlega lítill á árunum um og fyrir 1960. Þar á eftir hrökk munurinn upp í svipaðar hæðir og hann var fyrir 1920 en jafnaði sig frá og með 1972. Í heildina hefur lítið breyst síðan.

Mestur var munurinn 1881 (frostaveturinn mikla), nærri 5 stig og litlu minni 1882 (sumarlausa árið á Norðurlandi). Sveiflurnar eru nátengdar hafísmagni fyrir norðan land. Sjávarhiti er lægri þegar ís er við land, en enn mikilvægara er að norðanáttin er umtalsvert kaldari en annars þegar ísmagn er mikið. Hafísárin 1965 til 1971 eru sérstaklega skýr. Hér sést vel að áratugasveiflur þær sem einkenna svo mjög veðurfar á Íslandi koma meðal annars fram í miklum breytileika hitasviðsins yfir landinu í stefnuna norður-suður.

En við sjáum líka að heldur meira hefur hlýnað í Grímsey heldur en í Vestmannaeyjum þegar litið er á 130 árin í heild.

Minnstur var munurinn 1984, þá voru suðvestlægar- og suðlægar áttir óvenjutíðar, tiltölulega kalt var þá í Vestmannaeyjum en hlýtt í Grímsey. Eitt af þessum ótrúlegu árum sem gefa krydd í tilveruna.

En hvernig hefur munur á hita á Suðausturlandi og á Vestfjörðum þróast? Það sjáum við líka á mynd.

w-t745-t252-langtima

Röðin nær aftur til 1898. Miklir flutningar stöðva á norðanverðum Vestfjörðum valda nokkurri óvissu. En flutninganna sér ekki stað á myndinni - alla vega ekki greinilega. Lágar tölur þýða að hitamunurinn er lítill, þá er tiltölulega hlýtt á Vestfjörðum miðað við Suðausturland. Við sjáum nokkra tímabilaskiptingu. Munurinn er fremur lítill á tímanum 1925 til 1950 vex síðan, en minnkar svo aftur um árið 2000. Kuldar hafísáranna voru öllu meiri á Vestfjörðum en suðaustanlands en langtímahneigð er lítil eða engin.

Á árunum 1980 til 2000 hlýnaði mun meira í Evrópu heldur en hér á landi og á Grænlandi kólnaði mestallt þetta tímabil. Hitamunur óx þá milli Evrópu og Grænlands. Á sama tíma jókst hitamunur í sömu stefnu (suðaustur til norðvesturs) líka hér á landi.

Á síðustu árum hefur þessi munur jafnast og meira hefur hlýnað á Vesturlandi heldur en á Austurlandi. Óvenjuleg hlýindi hafa verið á Grænlandi nýliðinn áratug, meiri heldur en í Evrópu. Ekki er þó alveg trúlegt að sú stutta vegalengd sem er á milli stöðvanna tveggja hér finni ætíð hneigðarmun Evrópu og Grænlands.   

Mælitölur hitasviðsins eru fleiri en ég held ég láti þessi dæmi duga - að minnsta kosti að sinni.


Óformlegar hugleiðingar um hlýindi

Eins og flestir vita hefur hlýnað í heiminum á síðustu 150 árum. Líka á Íslandi. Greina má hlýnunina hér sem mun á hlýskeiðum 19. og 20. aldar sem og kuldaskeiðum á sama tímabili. Kuldaskeið 20. aldar var þannig hlýrra en samsvarandi skeið á 19. öld.

Munur á köldum skeiðum og hlýjum er þó meiri heldur en heildarhlýnunin. Þetta þýðir að tímabundin kólnun getur alveg falið hina undirliggjandi hlýnun. Ekki hefur verið gerð nein álitskönnun meðal okkar sem vinnum við veðurlagsrannsóknir hér á landi en líklega eru flestir okkar á þeirri skoðun að líklegt sé að hlýindin sem af eru öldinni séu ívið meiri en vænta mátti. Tímabundin kólnun muni væntanlega verða á næstu árum. Hvenær það verður er útilokað að segja til um. Varla dugar að nota þau tvö fyrri hlýskeið sem við þekkjum af hitamælingum sem forspá.

Nítjándualdarhlýskeiðið (um 1828 til 1857 - takið átölin ekki of bókstaflega) var mun aumingjalegra heldur en mágur þess á þeirri tuttugustu en það síðarnefnda, frá ´því um 1927 til 1964 - ónákvæm ártöl. Tuttugustualdarskeiðið toppaði snemma, mestu topparnir voru tveir, 1929 til 1933 og 1939 til 1942. Nítjándualdarskeiðið toppaði mun seinna - eða um 1845-1847. Ekkert mjög kalt ár skaust inn í 20. aldar hlýskeiðið, en það á 19. öld var rofið oftar en einu sinni af mjög köldum árum.

Þessi hegðan 19. aldarskeiðsins minnir nokkuð á hegðan 20. aldarskeiðsins í Skandinavíu og V-Evrópu. Þar voru hlýindin rofin illilega á árunum 1940 til 1942 og 1947. Ef til vill er svipað í gangi þar nú.

Árið 1943 var kalt á Íslandi miðað við hlýindin á undan, en það var þó ekki kaldara en svo að það var hlýrra en langflest hlýju árin á kuldaskeiðinu mikla 1858 til 1920. Meiri hiksti varð hér á landi á árunum 1949 til 1952, en þá komu fjögur frekar köld ár í röð. Þótt hlýskeiðið hafi haldið áfram allt til 1964/65 og nokkur allgóð ár hafi glatt landsmenn finnst mér sérstaklega athyglisvert að sumrin voru skert miðað við það sem var áratugina áður. Þau voru mörg sólrík og blíð - rétt er það en hitabylgjum hafði fækkað stórlega. Stórar hitabylgjur voru sárafáar.

Við sjáum nú að núverandi hlýindi hófust 1996/97 og hafa verið nánast óslitin síðan. Fyrstu árin voru þó þannig að varla var nokkur leið að sjá að nú hefðu nýir tímar farið í hönd. Þegar hið stórafbrigðilega ár 2003 datt inn varð loks ljóst að eitthvað væri á seyði. Síðan hafa verið nánast óslitin hlýindi  með mörgum ævintýralegum hitabylgjum. Síðastliðið sumar varð hins vegar mjög óvenjulegt. Það var auðvitað óvenjulegast fyrir það að vera hið hlýjasta sem mælst hefur sums staðar um landið sunnan- og vestanvert, en miðað við hlýindin má telja furðulegt að það komu nær engar hitabylgjur. Er eitthvað að gerast?

Þegar ég byrjaði að skrifa þennan pistil átti hann að vera um annað (þó náskylt efni) - en ég geymi það bara þar til næst.


Vorblíða á þorra

Í dag (27.1. 2011) minnti veður á landinu einna helst á hægan apríldag. Samanburður af þessu tagi er þó erfiður vegna þess að enn er sól lágt á lofti og lítið ber á dægursveiflu hitans en hún er orðin mjög eindregin þegar kemur fram í apríl. Við getum litið á eitt háloftakort til að sjá blíðuna frá því sjónarhorni. Myndin er fengin af brunni Veðurstofunnar og spáin gildir á miðnætti (27.1. 2011 kl.24).

w-h500-hirl-2701112-12t

Ég hef bætt nokkrum kennimerkjum á kortið. Svörtu, heildregnu línurnar eru hæð 500 hPa flatarins, þær eru merktar í dekametrum. Rauðu línurnar sýna 500/1000 hPa þykktina (meðalhita milli 500 og 1000 hPa flatanna í dekametrum). L-in og H-ið eru venjuleg hæðar- og lægðarmerki.

Við sjáum fyrirstöðuhæðina við Skotland. Hún er að gefa eftir og á þegar þetta er skrifað virðist hún ekki ætla að ná í þann liðsauka sem hún þarf til að endurreisast. Í fyrradag var hæðin í henni miðri yfir 5700 metrar, en er nú komin niður í 5630 m. Mjög hlýtt er þó enn í hæðinni, þykktin vel yfir 5400 metrum.

Vestan við Grænland er mjög öflugur kuldapollur, angi úr þeim sem ég kallaði Stóra-Bola í bloggi fyrir tveimur dögum. Hæðin í honum miðjum er um 4750 metrar og þykktin ekki nema um 4800 metrar. Dálítil háloftalægð er sunnan Nýfundnalands og lægðarbylgja (B) vestur af Íslandi. Afskorin kuldapollur (lægð) er við Portúgal, sú hreyfist ekki mikið, en báðar hinar lægðirnar og lægðardragið hreyfast hratt til norðausturs.

Líta má á bylgjuna, lægðina við Nýfundnaland og við Baffinsland sem bylgjuinnlegg í Stóra-Bola, Nýfundnalandsbylgjan og Grænlandsstrandarbylgjan eru báðar mjög stuttar og það er almenn regla að stuttar bylgjur berast mun hraðar yfir heldur en langar. Báðar bylgjurnar eru því á mikilli ferð.

Það er önnur regla að lægðir týna snúningi á leið til norðurs ef viðbótarsnúningur er ekki til á lager á leið hennar. Þetta hljómar heldur einkennilega svo ekki sé meira sagt. Tæknilega nafnið á þessum veðurfræðilega snúningi er iða. Ég vildi aðeins lauma henni að svo menn hefðu séð orðið. - Ekki meira um hana - í bili.

Eitt almennt atriði til viðbótar vil ég nefna um háloftabylgjur. Vindhraði er oftast mestur í bylgjudalnum. Þar er hann mun meiri en hraði sjálfrar bylgjunnar. Vindurinn æðir í gegnum hana. Bylgjuhraðinn er oftast nefndur því afspyrnuleiðinlega nafni fasahraði. Nafnið er svo leiðinlegt að lítil hætta er á því að því sé ruglað saman við vindhraðann og er þá ákveðnum tilgangi náð. Eftir því sem bylgjan lengist minnkar fasahraði hennar (yfirleitt).

Þótt bylgjurnar tvær, sú við Nýfundnaland og sú við Austur-Grænland sýnist svipaðar á hæðarkortinu (svörtu línurnar) er þykktarmynstrið sem er þeim samfara mjög ólíkt. Norðaustur af Nýfundnalandi hef ég sett bókstafina hl- í rauðu. Þar sjáum við að þykktarlínur liggja nærri því þvert á hæðarlínurnar. Þar er loft mjög riðið (sjá pistil um riðalægðir), aðstreymið er hlýtt. Framan við bylgjuna ryður vindurinn hlýju lofti (þykku) til norðausturs, þar sem ruðningurinn hækkar 500 hPa flötinn á undan bylgjunni. Þar með breytast hæðarlínurnar mjög hratt og það getur haft áhrif á hreyfingu og framtíð bylgjunnar sjálfrar.

Jafnþykktarlínurnar nærri Íslandi eru miklu nær því að vera samsíða jafnhæðarlínunum. Þó má greina að kalt loft er þar í framrás, enda mun kólna til morguns (föstudag). Ég hef sett bókstafinn k  í bláu þar sem kalda aðstreymið sést. Við sjáum að býsna mikill vindur er í 5 km hæð yfir landinu, hann er reyndar enn meiri í meginröstinni sem er nærri veðrahvörfum. - En hann nær ekki til jarðar. ´

Nú kemur erfiðasti kaflinn í dag - þeir sem nenna ættu að renna í gegnum hann - en ég kem vonandi til með að tyggja þetta aftur og aftur í framtíðarpistlum þar til einhverjir skilja: Ef þykktin á kortinu væri sú sama alls staðar væri þrýstisvið við jörð nákvæmlega eins og hæðarsviðið, vindur niður undir jörð væri því hinn sami og er uppi. Ef þykktin fylgdi öllum hæðarlínum nákvæmlega væri þrýstisviðið við jörð algjörlega flatt. Ef við lítum enn á kortið sést að ekki er fjarri því að svo sé í dag á litlu svæði kringum Ísland. Þó eru þykktarlínurnar aðeins gisnari heldur en hæðarlínurnar. Þess vegna var suðvestanátt í dag. Hefðu þykktarlínurnar verið nákvæmlega jafnþéttar hefði enginn þrýstivindur verið á svæðinu. Ef þykktarlínurnar hefðu verið þéttari en hæðarlínurnar hefði vindur við jörð verið af norðaustri en ekki suðvestri.

Nú - pistill um vorblíðu á þorra snerist þegar allt kom til alls upp í svæsna háloftabylgjusúpu. Ég vona bara að engum verði illt af henni.


Brot úr háloftalandafræðinni (nördatexti)

Fastir lesendur hungurdiska ættu að vera farnir að sætta sig við 500 hPa-flötinn. Hann sýnir hversu hátt í lofti við finnum loftþrýstinginn 500 hektópasköl. Í fyrstu nálgun er hann hár þar sem hlýtt er en liggur lágt þar sem er kalt. Hlýtt loft er fyrirferðarmeira en kalt. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð flatarins í janúar 1968 til 1996 og er fengið úr ncep-gagnasafninu bandaríska.

w-h500-ncep6896-jan

Skýrari gerð af myndinni er í viðhenginu (pdf-skjal). Litakvarðinn sýnir hæðina. Hæðin er lægst á fjólubláu svæðunum en hæst á þeim rauðleitu. Allt norðurhvelið er undirlagt af einu risastóru lægðasvæði með miðju við Norðvestur-Grænland og annarri yfir Austur-Síberíu. Á erlendum málum nefnist risalægðin The polar vortex með ákveðnum greini. Vandræði hafa verið með íslenska nafngift, hrá þýðing er pólhvirfill - ætli við verðum ekki að láta það duga þar til betra nafn birtist.

Eins og á venjulegu veðurkorti gefur fjarlægð milli jafnhæðarlína til kynna hversu sterkur vindurinn er - hér að meðaltali. Við sjáum greinilega að þær eru þéttastar yfir norðaustanverðum Bandaríkjunum og þaðan á haf út. Annar strengur, enn öflugri er sterkastur nærri Japan. Vindstrengirnir verða til þar sem lægðardrög teygja sig út frá miðju pólhvirfilsins. Þau eru oftast kennd við Japan (J) á myndinni og Baffinseyju (B) og heita því Japansdragið og Baffindragið.

Ef vel er að gáð má sjá þriðja lægðardragið yfir Austur-Evrópu (AE). Það liggur frá Norður-Rússlandi suðvestur í átt til Ítalíu. Milli þessara lægðardraga eru þrír hæðarhryggir. Síberíuhryggurinn (ómerktur) kemur lítið eða ekki við sögu hérlendis, en það gera hins vegar Klettafjallahryggurinn (K) og Golfstraumshryggurinn (G). Þeir sem sjá vel geta lika séð vægan hrygg liggja yfir Íslandi.

Í fyrstu nálgun liggja jafnhæðarlínurnar eins og breiddarbaugar, en hryggir og drög sýna vik frá þeirri reglu. Þessi veðurfyrirbrigði eru ótrúlega fastheldin en óvön augu sjá þau e.t.v. ekki mjög vel á daglegum kortum. Í stöku mánuði sjást þau heldur ekki mjög vel - þá er eitthvað ólíkindaveðurlag í gangi í heiminum. Munur á árum sést enn ver og þarf þá oftast að grípa til vikakorta til að sjá færslur þessara „föstu“ fyrirbrigða.

Vindstrengirnir sem við sjáum eru hes heimskautarastarinnar. Hún er öflugust nærri Japan og yfir Bandaríkjunum. Þar skiptir miklu máli fyrir veðráttuna hvoru megin strengs er verið. Hin óbyggilegu svæði í Labrador eru oftast norðan strengsins inni í meginkulda Baffindragsins. Vesturríki Kanada eru á svipaðri breiddargráðu undir mildandi áhrifum Klettafjallahryggjarins. Frá degi til dags sveiflast röstin til suðurs og norðurs, fari hún suður fyrir stað er kulda að vænta.

Röstin er að meðaltali mun veikari hér við land heldur en vestra. Hér á landi skiptir lega og styrkur Baffindragsins og Golfstraumshryggjarins mestu máli. Raskist þessi veðrakerfi að ráði verða miklar breytingar á veðurfari hér á landi. Undanfarna 12-14 mánuði hefur veðurlag á okkar slóðum verið mjög óvenjulegt. Baffinsdragið er varla svipur hjá sjón og Austur-Evrópudragið hefur færst til vesturs í átt til Skandinavíu. Golfstraumshryggurinn er líka mun vestar en venjulega. Ég man vart ástand þessu líkt.

Síðar mun vonandi gefast tækifæri til að fara nánar í saumana á þessu viðfangsefni með fleiri skýringum og talnadæmum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrirstöðuhæðin í hámarki - í bili

Það fer ekki að veita af númerum á allar þessar fyrirstöðuhæðir í vetur 14. En sé horft í smáatriðin breytast þær samt talsvert frá degi til dags. Sú sem ræður yfir okkur í dag (köllum hana Frekju fjórtándu) er ekkert sérlega öflug við jörð (um 1033 hPa í hæðarmiðju) en hún er mjög hlý, þykktin er nærri því 5500 metrar þar sem hún er mest, heldur norðan við hæðarmiðjuna sjálfa. Í miðjunni er 500 hPa-flöturinn í um 5710 metra hæð yfir jörð eins og sjá má á meðfylgjandi korti (frá brunni Veðurstofunnar):

w-h500-250111

Svörtu, heildregnu línurnar eru jafnhæðarlínur, en rauðu strikalínurnar sýna 500/1000 hPa þykktina. Við njótum háloftahýindanna ekki sem skyldi vegna þess að við erum svo nærri miðju hæðarinnar í frekar hægum vindi, hlýja loftið nær sér illa niður. En við Suður-Grænland er mun sterkari vindur, hes hangandi niður úr skotvindi heimskautarastarinnar sem bylgjast í kringum hæðina.

Yfir Davíðssundi er háloftalægð (bylgja) sem þrýstist upp á móti norðvesturbrún hæðarinnar og lemur hana hægt og bítandi til suðausturs. Spurning hvort við náum hlýindum niður að jörð í kantinum á vindstrengnum, áður en kaldara loft leysir það hlýja af.

Síðan er því spáð að þegar að þessi háloftalægðarbylgja verður komin framhjá muni fyrirstöðunni á ný berast liðsauki. Hvort og hvernig hann verður sést væntanlega á næstu tveimur dögum eða svo.

Nokkuð utan við norðvesturhorn kortsins er stór kuldapollur - Stóri-Boli. Í miðju hans, norðvestur af Ellesmere-eyju, er 500 hPa-flöturinn um eða innan við 4700 metrar, kílómetra lægri en í fyrirstöðunni. Milli þessara kerfa er því kílómetershá brekka sem þotufljótið (heimskautaröstin) skýst um. Stóri-Boli hefur ekki verið mjög áberandi í vetur en á næstunni á hann eitthvað að byltast um þarna fyrir norðan Kanada og þrátt fyrir að hann fer væntanlega ekki mjög langt sjálfur gæti hann sent frá sér sendingar krappra lægðardraga eins og hans er von og vísa. En hann hefur átt frekar bágt í vetur.


Gömul umræða um veðurfarsbreytingar

Þar sem að ég hef lengi fylgst með veðri hef ég líka fylgst lengi með umræðum um veðurfarsbreytingar. Þær hafa staðið svo lengi sem ég man en verið miságengar. Ég er auðvitað enginn sérfræðingur í hugmyndasögu og hugmyndir mínar um hana kunna að vera eitthvað brenglaðar. Fyrir rúmum tíu árum lagði ég þó dálítið á mig til að kynnast íslenskri og norrænni hlið umræðunnar betur. Síðar hef ég gefið þessari sögu auga - að minnsta kosti þegar eitthvað henni tengt hefur rekið á fjörur mínar.

Tvennt hefur e.t.v. komið mér mest á óvart. Í fyrsta lagi hversu lengi umræða um mannrænar veðurfarsbreytingar hefur verið á sveimi, en í öðru lagi hversu sjónarhóll hvers tíma hefur skipt miklu máli.

Ég ætla ekki að fara að skrifa einhverja langloku um þetta mál, en læt nægja að benda á litla, þýska bók um málefnið. Hún er eftir félagsfræðinginn Nico Stehr og kollega minn Hans von Storch (stofnanda þýska Andrésarandarfélagsins). Bókin heitir Klima, Wetter, Mench. Þeir félagar skrifa þar um hugmyndir manna um veðurfar, hugmyndir um áhrif mannsins á það og ekki síður hið gagnstæða, þ.e. hugmyndir um áhrif veðurfars á manninn og eðli hans. Margt vekur hálfgerðan óhug varðandi það síðastnefnda. Nýlega er komin út endurbætt útgáfa bókarinnar - en ég hef ekki lesið þá gerð. Sú er fáanleg í gegnum helstu bóksala.  

Ég geri ráð fyrir því að í nýju bókinni komi við sögu ágæt grein sem þeir félagar skrifuðu í tímaritið Geografiske Annalerárið 2006 (sjá tilvitnun að neðan). Þar er í mjög stuttu máli (of stuttu) fjallað um 17 hugmyndir um áhrif mannsins á veðurfar - bæði óviljandi áhrif en einnig um það sem nú má kalla loftslagsverkfræði. Hugmyndir þessar eru auðvitað misgáfulegar - sumar flokkast nú sem rugl.    

Það sem truflar sjálfan mig mest í hugmyndasögu veðurfarsfræða eru sjónarhólsáhrifin. Það allra óþægilegasta er hvernig hugmyndir manna um þróun veðurlags í fortíð og framtíð voru oft lituð af sögu- eða samfélagssýn og skoðunum á því hvernig æskilegt þjóðfélag ætti að líta út. Það einkennilegasta er að lítt umdeilanlegar vísindalegar niðurstöður hafa ætið verið lesanlegar inn í þessa sýn - alveg sama á hvaða hugmyndalegum sjónarhól menn sátu.

Skyldi þetta líka eiga við í dag? Að hvaða leyti á það þá við?

Stehr. N og H.von Storch: Anthropogenic Climate Change: A Reason for Concern since the 18th Century and Earlier. Geogr. Ann. 88 (A) 2: 107-113.

 


Dægurmetin 2010

Hér er listi yfir dægurhitamet sem slegin voru á landinu á árinu 2010. Heldur þurr lestur - en mér finnst hann samt fróðlegur - hugsanlega eru einhverjir sammála því.

Fyrst eru ný dægurhámörk. Töfludálkarnir eru þessir:

mánuður - dagur - nýtt met - gamalt met - ár gamla mets - munur á gömlu og nýju meti og metstaður.

12517,617,320050,3  Skjaldþingsstaðir
5421,718,219383,5 Skaftafell
9424,922,820072,1   Möðruvellir
972220,519911,5 Möðruvellir
12917,316,419700,9 Kvísker
123114,211,319882,9 Teigarhorn

Gamla metið fyrir 25. janúar var naumlega slegið, en dregur úr þeim möguleika að nýtt met verði slegið á þriðjudaginn kemur en þá verður mjög hlýtt loft yfir landinu. Hæsti hiti næstliðins dags (sunnudag 23. janúar) var 13,8 stig það náði nærri því meti - en munar þó 0.1 stigi sýnist mér. Mestu munar á gömlu og nýju meti fyrir 4. maí, en nýja metið er 3.5 stigum ofan þess gamla (sem var ansi gamalt - frá 1938). Nýja metið á gamlársdag var líka slegið svo um munar, enda var gamla metið óvenjulágt.

Nýju dægurlágmarksmetin eru 6 og auk þess ein jöfnun:

223-24,2-23,72002-0,5 Brúarjökull
422-23,4-19,01967-4,4  Brúarjökull
423-23,7-16,52000-7,2 Brúarjökull
1129-22,7-22,71973-0,0 Brúarjökull
126-22,0-21,72005-0,3 Þúfuver
127-24,3-24,01979-0,3 Möðrudalur
1222-28,6-27,01973-1,6 Mývatn

Ætli Brúarjökul sé ekki hægt og bítandi að éta sig í gegnum öll met ársins og komi þá í stað Möðrudals er sú stöð sem nú er handhafi flestra meta. Brúarjökull kom tveimur dögum í kringum sumardaginn fyrsta niður fyrir -23 stig og bætti einum febrúardegi í safnið. Elstu lágmarksmetin sem féllu voru frá 1973 - kuldaköstunum miklu síðustu mánuði þess árs.

En við lítum líka á byggðarstöðvar. Þar eru metin þrjú:

423-17,1-16,52000-0,6 Brú 
127-24,3-24,01979-0,3 Möðrudalur
1222-28,6-27,01973-1,6 Mývatn

Hér er það Brú á Jökuldal sem átt er við. Byggðarmet 23. apríl féll og desembermetin eru auðvitað þau sömu og fyrir landið í heild, bæði Mývatn og Möðrudalur er byggðarstöðvar.

Að lokum úrkomudægurmetin þrjú:

9        26     179,4   137,3   1977    42,1 Kvísker
12      15     114,6   101,8   1965    12,8 Kvísker
12      27     108,9     94,0   1926    14,9 Neskaupstaður úrkomustöð

Eitt nýtt met í september. Úrkoman þennan dag á Kvískerjum var líka mesta sólarhringsúrkoma ársins, 42,1 mm meiri en fyrra met. Metið sem slegið var þann 27. var frá Vík í Mýrdal 1926, talan 94 mm er hluti 215,8 mm úrkomu sem féll þar á einum sólarhring en skiptist á tvo mælidaga (sorglegt það). Um þann atburð og fleiri íslandsmet í úrkomu má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

Lesendum er einnig bent á að tíðarfarsyfirlit ársins 2010 er nú komið á vef Veðustofunnar. Þar má lesa ýmsan fróðleik um nýliðið ár.

Mig langar einnig til að benda á nýlegan og skemmtilegan pistil Christopher C. Burt veðurheimsmetasérfræðings á bloggsíðu hans. Þar er fróðlegt yfirlit um lægsta hita í heimi og í einstökum heimsálfum.

 

 


Háloftabylgjur 1 (af ?)

Enn eru það háloftin. Við lítum nú á gamalt veðurkort. Það var valið af tilviljun og sýnir stöðuna á norðurhveli fyrir 10 árum (23. 1. 2001). Kortið er úr smiðju ncep-gagnasafnsins ameríska.

w-bylgjuriss-2t

Hér má sjá norðurhvel norðan við 30°N og hæð 500 hPa-flatarins. Myndin er einfölduð að því leyti að jafnhæðarlínur hafa verið grisjaðar þannig að aðeins 5 standa eftir. Bláu svæðin sýna hvar flöturinn er lægri en 5000 metrar, þau grænu eru þar sem hæðin er á milli 5000 metra og 5400 metra. Gulu og appelsínuguli liturinn sýnir þau svæði þar sem hæðin er meiri en þetta.

Við sjáum hér greinilega bylgjurnar í vestanvindabeltinu. Heimskautaröstin liggur eins og oft á þessum árstíma nærri 5400 metra hæðinni. Skotvindar hennar eru væntanlega þar sem línurnar eru þéttastar, t.d. beint vestur af meginlandi Evrópu og einnig víðar, t.d. yfir Kyrrahafi.

Við sjáum í fljótu bragði ekki neinar fyrirstöðuhæðir þennan dag. Hringrásin er nokkuð breiddarbundin sem kallað er - vindar blása mest úr vestri til austurs. Vestanvindabeltið er í góðum gír.

Bláu svæðin eru stórir kuldapollar, stærri en þeir sem ég fjallaði um á blogginu fyrir nokkru (Snarpur 1. og félagar).

Ef við fylgjum mörkum græna og gula svæðisins sjáum við hvernig gular öldur stinga sér upp til norðurs (hæðarhryggir) og grænir öldudalir (lægðadrög) skilja þá að. Mjög áberandi hryggir eru nærri Finnlandi og yfir Klettafjöllum í Ameríku.

Mynstur sem þetta breytist frá degi til dags, stærri bylgjurnar halda sér þó yfirleitt nokkra daga eða jafnvel enn lengur. Hægt er að telja hversu margar bylgjur eru í hringnum. Það er þó aðeins mismunandi eftir því hvaða breiddarstig við veljum til að telja á. Lengd hverrar bylgju er oft ekki talið í kílómetrum heldur er notast við hugtakið bylgjutala. Bylgjutalan segir til um hversu margar bylgjur af ákveðinni stærð komast fyrir á hringnum.

Við sjáum að hér má telja að minnsta kosti 7 bylgjur við 5400 metra línuna. Bylgjutalan þar er því sjö, sjö hlykkir á heimskautaröstinni. Ef við teiknuðum myndina í meiri smáatriðum myndum við finna fleiri smærri bylgjur sem hver um sig fylgir lægð. Stærri bylgjurnar á myndinni innihalda trúlega fleiri en eitt lægðakerfi, hverju þeirra fylgir ein smábylgja. Bylgjutala venjulegra lægða er oft 13 til 15.

Þetta kort sýnir stöðuna á ákveðinni stundu. Ef við reiknum meðaltöl smyrjast bylgjurnar út og þeim fækkar. Árstíða- og ársmeðaltalskort sýna fáar, stórar bylgjur og fæstar eru þær á kortum sem sýna langtímameðaltöl. Meðaltalsbylgjurnar eru mjög langar, niðri á bylgjutölum 0 - 4.

AO-sveiflan (arctic oscillation) sem oft er getið um í illa útskýrðum fréttum um þessar mundir (reynið að fletta henni upp á google) er sveifla í bylgjutölum núll og eitt. NAO-sveiflan (north atlantic oscillation) sem við einnig heyrum mikið af er sveifla í bylgjutölum 2 og 3. En hvernig er bylgja með bylgjutölu núll? Sumar langar bylgjur eru fastar, þær myndast aftur og aftur á sömu slóðum. Hvers vegna hegða þær sér þannig? Getur verið að veðurfar á Íslandi ráðist að miklu leyti af heilsu föstu bylgjanna?


Enn ein fyrirstöðuhæðin

Nú fyrir nokkrum dögum kom enn ein fyrirstöðuhæðin sér fyrir við norðanvert Atlantshaf, í þetta sinn nærri Bretlandseyjum. Hæðin beinir mjög hlýju lofti til okkar eins og sjá má á kortinu sem er teikning weatheronline úr ameríska gfs-líkaninu. Ég hef bætt inn nokkrum hæðar- og lægðarmerkjum og sett in þrjár örvar. Myndin sýnir hæð 500 hPa-flatarins eins og spáin gerir ráð fyrir að hún verði á miðnætti í kvöld (22.1. kl.24).

w-h500-220111

Heildregnu línurnar eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins og tölurnar eru dekametrar (=10 m). Flöturinn nær mest í um 5700 metra hæð, en lægsta línan á kortinu sýnist mér vera 4980 jafnhæðarlínan í kringum lægðina yfir Labrador. Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í sama fleti.

Eins og gera má ráð fyrir er hærri hiti í sunnanáttinni vestan hæðarinnar heldur en í norðanáttinni austan við. Nú er mjög kalt suður við Miðjarðarhaf og líklegt að einhver snjó og frostvandræði séu á þeim slóðum, Finnar eru hins vegar vanir kuldum á þessum árstíma. Hæðarmiðjan er svo nærri Bretlandseyjum að ekki er mjög kalt þar, en trúlega nokkuð gráviðri víða, mengun undir hitahvörfum.

Samkvæmt langtímaspám á hæðin að endast í nærri því viku - en ekki er enn víst hver endanleg örlög hennar verða. Hún gæti t.d. myndast aftur eftir smáhlé.

Meðan hæðin er á þessum stað verður vindátt milli suðurs og vesturs hér á landi og lengst af hlýtt í veðri - mishlýtt þó.

Hlýtt loft fylgir fyrirstöðuhæðum. Tölurnar sem við sjáum tákna þó ekki beint hita eins og þær á þykktarkortunum. Þykktin mælir hita á milli tveggja þrýstiflata en hæðarkortin sýna hversu langt flötur er frá yfirborði jarðar en þar er þrýstingur mjög misjafn.

Þykktin yfir landinu er nú rúmir 5400 metrar og er tæpt á að það dugi í dægurmet, Dægurmet dagsins í dag og á morgun eru þó frekar lág (13,6 og 13,9 stig). Í þessari syrpu virðist eiga að verða hlýjast á þriðjudaginn, þá á þykktin að komast yfir 5460 m og e.t.v. hærra, en þá verður erfiðara að setja met vegna þess að þá er hærri tölum að mæta. Metið þann 25. (þriðjudagur) er 17,3 stig.

Vonandi finn ég einhverja leið til að skýra tilurð fyrirstöðuhæða betur, en þær stystu liggja um erfiðar slóðir snúnings jarðar. Reynsla mín er sú að þegar farið er að ræða um hann og svigkraft þann sem af honum leiðir standa menn upp - dæsa og ganga út.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.11.): 14
  • Sl. sólarhring: 298
  • Sl. viku: 1431
  • Frá upphafi: 2406747

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband