Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020

Tvö hundruð ár

Um þessar mundir eru liðin 200 ár síðan Jón Þorsteinsson landlæknir hóf veðurathuganir í Reykjavík. Við vitum ekki nákvæmlega hvaða dag hann byrjaði að athuga - sennilega einhvern síðustu daga júlímánaðar 1820, athuganir hafa varðveist frá og með 1.ágúst. Við vitum ekki hvar Jón bjó fyrsta árið í bænum, en í júlí 1821 flutti hann í Nesstofu og bjó þar og gerði athuganir þar til 18.október 1833 - þá flutti hann aftur til Reykjavíkur. Athugaði hann þar allt til febrúarloka 1854. Hér verður ekki gerð grein fyrir athugununum - ef til vill lítum við betur á þær síðar.

jon_thorsteinsson_1839-mynd-gaimard

Myndinni af Jóni hér að ofan er nappað úr myndabók Gaimard-leiðangursins, gerð 1839 að því er virðist. Undir myndinni stendur „J'on Thorsteinsson, Médecin Général de l'Islande“ - og í texta að hann hafi gert nákvæmar veðurathuganir óslitið frá 1823. Jón og leiðangursmenn báru saman loftvogir sínar - og kom saman. 

Jón var fæddur á Kúgastöðum í Svartárdal og ólst upp í Holti á Ásum í Húnavatnssýslu 7.júní 1794 (1795 segja sumir). Hann var stúdent úr Bessastaðaskóla 1815 og lauk prófi í læknisfræði við háskólann í Kaupmannahöfn í júlí 1819. Stundaði spítalastörf í Kaupmannahöfn til vors en hafði orðið landlæknir 7. desember 1819 og hélt því starfi til æviloka, 15.febrúar 1855. Hann var jarðsettur í Hólavallagarði og þar má sjá leiði hans.

jon_thorsteinss_1820-08-01i

Hér má sjá 1.síðu úr veðurhandriti Jóns. Hann sendi það til danska vísindafélagsins - enda hafði hann alla tíð samstarf við það um athuganir og fékk hjá því tæki. 

Í fyrstu var loftvog eina tækið sem Jón gat notað til mælinga, en hitamælir er á öllum kvikasilfursloftvogum. Loftvogin var hengd upp við glugga í óupphituðu norðurherbergi. Hitamælir loftvogarinnar fylgir hitabreytingum utandyra og má nota hann til að giska gróflega á mánaðarmeðalhita staðarins. 

Þennan fyrsta dag ágústmánaðar fyrir 200 árum var veður í Reykjavík sem hér segir. Loftþrýstingur 27 franskar tommur og 6,4 línur (12 línur voru í tommunni sem er 27,07 mm) - eða 993,7 hPa. Við þurfum bæði að leiðrétta til sjávarmáls, til 0°C og til 45° breiddarstigs - svo vill til að þessar leiðréttingar ganga í þessu tilviki til sitthvorrar handar.  

Hitinn á loftvoginni er 13°R [16,3°C] og lýsing á veðri: Suðaustan stormur, þykkviðri. - Jú, eitthvað getum við kannast við það. Betra veður var næstu daga.

Um veður og tíð ársins 1820 má lesa í gömlum hungurdiskapistli: Af árinu 1820. En við hugsum til þessara merku tímamóta. Einnig má geta þess að í maí voru liðin 100 ár síðan Veðurstofan hóf (opinberlega) athuganir við höfuðstöðvarnar, sem þá voru við Skólavörðustíg í Reykjavík. Ástæða er til að minnast þessara tímamóta beggja. 


Af árinu 1869

Tíðarfar var mjög óhagstætt árið 1869 og kalt í veðri, janúar að vísu fremur hlýr, en óvenjukalt var í júlí, september og nóvember og kalt í febrúar, mars, apríl, maí, ágúst og desember. Meðalhiti í Stykkishólmi var aðeins 1,7 stig, en 3,2 stig í Reykjavík. Meðalhiti er áætlaður 3,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum - en mælt var við Ofanleiti þetta ár og þau næstu. Hafís var með mesta móti síðvetrar og hélst við land mestallt sumarið. Eitt af erfiðustu árum 19.aldar.

ar_1869t 

Í Stykkishólmi teljast 33 dagar sérlega kaldir og dreifast á alla mánuði nema janúar, október og desember. Að tiltölu varð einna kaldast dagana 5. til 9.apríl. Listi yfir alla þessa daga er í viðhengi. Enginn dagur varð mjög hlýr.

Úrkoma mældist 581,6 mm í Stykkishólmi, árið telst því þurrt þar. Janúar og febrúar voru þó nokkuð úrkomusamir, en óvenjuúrkomulítið var í október og nokkuð þurrt í maí og september líka. 

ar_1869p 

Þrýstingur var mjög lágur í janúar og líka lágur í febrúar, en annars í meðallagi eða ofan þess, einna hæstur að tiltölu í mars, maí og ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi á nýársdag, 948,1 hPa, en sá hæsti þann 9.mars 1042.6 hPa. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.

Janúar. Tíð þótti hagstæð og fremur hlýtt var í veðri, jafnvel svo að gróður tók við sér.  

Baldur birti 24.mars úr bréfi úr Þingeyjarsýslu, dagsett 3.febrúar:

Tíðarfarið hefir mátt heita ágætt það sem af er vetrinum, hafa frost verið mjög lítil, en oft hlákur og þíðvindar, en aldrei komið stöðugar eða grimmar hríðar, síðan í haust í miðjum október, að hinir miklu fjárskaðar urðu á Austurlandi; hér í Þingeyjarsýslu urðu þeir óvíða tilfinnanlegir. Fram að nýári voru hér alls staðar nægir hagar fyrir sauðfé, og þá víða ekki farið að gefa fullorðnu fé, en síðan hefir að mestu leyti verið haglaust inn til dala og heiða, en auð jörð í öllum útsveitum. Menn eru því yfir höfuð lítið búnir að gefa af heyjum sínum, svo líkur eru til, að eigi verði hér almennur heyskortur í vor, ef skaplega vorar. Öðru máli er að gegna um bjargræði handa mönnum, því margt hefir orðið til að rýra það, einkum hin erfiða og óhagkvæma verslun; þó lítur ekki enn út fyrir, að stórkostlegt hallæri verði hér í ár, því kornmatur hefir allt af fengist til þessa tíma bæði á Húsavík og Akureyri, sem seldur hefir verið á 12, 14 og 15 rd. Fiskiafli var hér mjög lítill í sumar og haust, og því alls staðar mjög litlar fiskibirgðir. 

Febrúar. Umhleypingasamt og kalt, sérstaklega þegar á leið. Nokkur snjór á jörðu, einkum norðaustanlands. 

Séra Þórarinn í Reykholti segir frá jarðskjálftum í mánuðinum. Fyrst kl.3 síðdegis þann 5.febrúar, síðan kl.10 að kvöldi þ.7. og kl.11:45 [ekki lítill] og 12 þann 8. Enn voru jarðskjálftar þ. 21. kl.5 að morgni og kl.10 að kvöldi og þann 23. kl.8 að morgni og 10 að kvöldi. Þann 25.febrúar segir hann af fjársköðum í stórkafaldi og fannkomu af norðri og norðvestri. 

Þjóðólfur birti þann 10.apríl frásögn af skiptapa og manntjóni í Vestmannaeyjum 26.febrúar, við styttum frásögnina nokkuð hér:

[Þ.25.febrúar] reru alls 17 skip úr eyjunum, og var eitt þeirra 4 mannafar, 4 þeirra reru norður fyrir eyjarnar, en hin 13 héldu suður með eyunni. En áður en öll skipin voru komin á fiskileitir, brast á ofsalegur stormur af vestri, og fylgdi þar með mesti gaddur. 3 af skipum þeim, er héldu norður fyrir eyjuna, gátu náð landi á Eiðinu, milli Heimaeyjar og Heimakletts; og gekk það slysalaust. Af hinum 14 skipunum komst eitt undir Ystaklett, sem svo er kallaður, og lá þar í skjóli við klettinn, þangað til kl. 3 um nóttina; þá slotaði storminum lítið eitt, og náði það þá lendingu með heilu og höldnu. Hin 12 skipin og báturinn komust nærri upp að höfninni, en urðu þá að láta undan síga og austur fyrir Bjarnarey, sem er hér um 1/2 [mílu] austur frá Heimaey. Í skjóli við eyju þessa lágu þau öll saman frá því mitt á milli hádegis og dagmála, allan daginn og nóttina eftir. Daginn eftir hélst stormurinn; en þá er fullbjart var orðið, var mannað eitt af skipum þeim, er landi höfðu náð deginum áður, með 22 hinum hraustustu mönnum, til að flytja þeim matvæli og hressingu. Tókst það og að skip þetta komst til Bjarneyjar; voru þá 2 menn látnir af þeim, sem úti höfðu legið um nóttina, af kulda og vosbúð. Skipverjar hresstust við sendingarnar, og með því að þá slotaði veðrinu nokkuð í svipinn, lögðu flest skipin á stað, til að reyna að ná landi, og tókst það 7 þeirra, auk þess sem sent hafði verið, en 3 urðu að hverfa aftur til Bjarneyjar, sökum storms og andstreymis; var þá eigi um aðra leið að velja en um brimboða, er „Breki“ er nefndur. Tvö skipin komust austur fyrir Bjarnarey aftur, en hið 3., er síðast fór, sexæringur, er nefndist „Blíður“, fórst þar á boðanum, og drukknuðu þar allir skipverjar, 14 að tölu. 1. formaðurinn hét Jón Jónsson, hafnsögumaður þar á eyjunum, 26 ára; ... Við manntjón þetta urðu þar á Vestmanneyjum 6 ekkjur, en 8 heimili forstöðulaus. Þau skip, sem lágu kyrr við Bjarnarey, og þau, sem aftur hurfu og af komust, lágu þar til kvelds. Gengu þá skipverjar af einu skipinu og bátnum, og á hin skipin, með því að þeir voru af sér komnir af kulda og vosbúð; og komust þessi þrjú skip loks til Heimaeyjar um kveldið. Týndist þannig þennan dag 17 manns, 3 skip og bátur; 2 báta að auk tók ofviðrið og braut í spón, og bát sleit enn frá hákarlaskútu, er lá á höfninni, og rak til hafs.

Norðanfari segir 28.febrúar:

Nú um tíma hefir veturinn verið með harðara móti, hvassviður og snjókoma, en sjaldan mikill gaddur; víða hér fyrir norðan Öxnadalsheiði, er sagt mjög jarðskart og flestir hestar komnir á gjöf hér og hvar hefir orðið vart við fjárpestina, en hún þó óvíða fækkað mörgu. Hvergi hér nyrðra er nú gelið um fiskafla, nema fyrir skemmstu lítið eitt á Skagaströnd, eða austanvert við Húnaflóa.

Mars. Ill tíð og köld. Óvenjumikill snjór um landið sunnan- og vestanvert.   

Baldur segir 24.mars:

Veðuráttin á góunni hefir, að undanteknum fáum dögum í lok hennar, verið köld og stormasöm með mikilli snjókomu fyrri partinn, svo að víðast hér í nærsveitum mun vera orðið hagskart fyrir útigangspening, þó munu skepnur víðast hvar í góðum holdum. Sunnan úr Garði og Keflavík spurðist fyrst fiskiafli 5. þ.m. varð þar þá vel þorskvart í net; í Höfnum höfum vér frétt, að um sama leyti hafi aflast mest 13 í hlut af þorski, en höfum eigi síðan haft neinar áreiðanlegar fréttir þaðan. Í Njarðvíkum, Vogum og á Vatnsleysuströnd aflaðist allvel í net 17. þ.m. og höfum vér helst heyrt þess getið, að Ólafur bóndi Guðmundsson frá Mýrarhúsum á Seltjarnarnesi hafi aflað 220 þorska í 6 net eftir nóttina. Eftir bréfi af Eyrarbakka dags. 9. þ.m. öfluðu þar 3 skip vel hákarl, þar á meðal skip G. Thorgrímsens 26 að tölu; sömu dagana varð þar og fiskvart, en það mun mest hafa verið ýsa. Síðar höfum vér og frétt þorskafla úr Þorlákshöfn austur. Hér aflaðist fyrst 20. þ.m. á færi 13 í hlut af stútungsfiski, en lítt vart í net, og eru nú flestir héðan komnir suður í veiðistöður. Hafa menn nú allgóðar vonir um fiskiaflann.

Í vestanveðrunum fyrri hluta þ.m. urðu fjárhrakningar víða á Mýrum og vestur þar. Á sex bæjum á Mýrum hafði fennt nær allt fé, og á einum þeirra var, af 300 fjár, 60 ófundið, hitt fannst á lífi. Úr Múlasýslum fréttum vér, að út líti fyrir almenna neyð þar eystra, og það svo, að fólk býður sig til vistar; sveitarþyngsli kváðu vera svo mikil, að sumir sé þeir hreppir, að sveitarómagi er á hverjum bæ og tveir víða.

Rétt fyrir miðjan mars varð Jóhannes Guðmundsson mýrasýslumaður úti við annan mann skammt frá Hjarðarholti í Stafholtstungum. Ítarlegasta frásögn af þessu slysi birtist í bréfi frá Stefáni Þorvaldssyni [hann var prestur í Stafholti] sem birtist í Þjóðólfi 15.maí. Ástæða þess að við birtum meginhluta hennar hér er sú að um öld síðar var þetta slys mönnum enn hugleikið í Borgarfirði og frá því sagt - þó enginn samtímamanna væri þá enn á lífi. Ritstjóra hungurdiska þykir það umhugsunarvert. En það sama á örugglega staðbundið við um fjölmörg slík óhöpp um land allt, þau lifa enn á vörum fólks, ættingja og annarra í heimabyggð, þó samtímamenn séu löngu látnir. 

Miðvikudaginn, þan 10. [mars] — næsta dag eftir „strand-uppboðið" á Vogfjörum á Mýrum — lögðum vér upp frá Vogi 9 saman. Helgi hreppstjóri Helgason í Vogi, sem leiðbeindi þeim skipherra O.W. Nilsson og aðstoðarmanni hans Hinr. Siemsen, kaupmannssyni úr Reykjavík, Einar Zoega verslunarmaður úr Reykjavík; Christofer Finnbogason bókbindari frá Stórafjalli, Runólfur Jónsson hreppstóri á Haugum, Jóhannes sýslumaður Guðmundsson, Guðmundur Jónsson óðalsbóndi, meðhjálpari á Hamarendum, og hér undirskrifaður. — Meðfram af því, að svo margir urðu í samförinni, var í seinna lagi lagt upp frá Vogi téðan dag, nálega hér um bil kl.10. Veður var hægt, en þokuhula í lofti, og leist mér, — en kannski fáum öðrum, loftsútlit heldur ískyggilegt; hafði ég orð á því strax að morgni og vildi mjög komast fyrr af stað, en auðið varð; ferðin var heldur þung, því snjór var allmikill á jörð, svo að víða varð að ganga, til að koma áfram hestunum og til að hlífa þeim. Þó gekk ferð allvel hér suður yfir hreppana, Hraunhrepp og Álftaneshrepp, og er það alllangur vegur; — aðeins á einum bæ í Álftaneshrepp, „Langárfossi“, komum vér og fengum þar endurnæringu oss og hestum vorum; þaðan héldum vér allir samt að Hamri í Borgarhrepp, þar urðu leiðir að skilja, því leið sunnanmanna lá þá suður yfir Hvítá og um Andakíl, — fór hreppstóri Helgi þá með þeim, og fékk sér til fylgdar Gunnar bónda Vigfússon á Hamri; — en vér hinir 5 héldum áfram heim í leið og höfðum í huga að koma að Eskiholti sem þá var og í beinni leið vorri, — mun þá hafa verið komið nálægt sólarlagi er vér skildum, — var þá komið muggufjúk með hægð, en eftir því sem skyggja tók, jókst mjög að því skapi muggan og fjúkið, svo að bráðum sást næsta lítið frá, fyrir dimmu fjúki með afar-fannkomu; þannig héldum vér áfram, uns vér komum að Eskiholti, og þótt að þeir Runólfur og Kristófer væri báðir nákunnugir, ætlaði oss að veita erfitt að finna bæinn, enda var þá liðið að dagsetri. Að vísu ætluðum vér í fyrstunni að halda þaðan heimleiðis að Stafholti, en það þótti oss óráðlegt, þar myrkur var af nóttu og ófærðin og fannfergjan mikil, vér urðum þar því allir um nóttina, og gistum hjá Jóni hreppst. Helgasyni.

Morguninn eftir, þann 11.mars lögðum vér þaðan upp í sama eða líku veðri, nefnilega svælings-kafaldi á austan landnorðan, en hvorki var frosthart né hvasst, — og með því nú var dagur, — og nokkuð grillti til næstu kennileita, þótti ekki áhorfsmál að leggja upp og halda heim, enda gekk það allgreiðlega eftir því sem ófærðin var þó mikil, — þeir skildu við oss hér á árbakkanum fyrir vestan túnið, Runólfur og Kristófer — en vér hinir þrír, sýslumaður Jóhannes Guðmundsson og Guðmundur á Hamarendum komum hér heim kl.1 1/2 til 2. Þó að nú mætti að vísu sýnast svo, sem komið væri úr mestallri hættu, lagði ég þó innilega að þeim, sýslumanni og Guðmundi að setjast hér að, og hirða ekki um að keppa heim, þar hestar þeirra væru farnir að lýjast, en, með því svo langt var komið áleiðis, og þá langaði til að komast heim, vildu þeir alls ekki sæta því, enda var vel fært að Hamarendum, og þangað aðeins stutt bæjarleið, en veður var þó ískyggilegt — þeir lögðu því héðan af stað hér um kl. 2 1/4, og munu hafa komið að Hamarendum nálægt kl.3 eða um nónbil. Fór þá veður heldur að versna og hvessa á landnorðan, — en rofaði þó til á milli. Þar, á Hamarendum, hafði enn orðið nokkur viðdvöl; en nú vildi þó sýslumaður þó fyrir hvorn mun ná þeim; því hann var hinn ötulasti ferðamaður og heimfús mjög, eins og mörgum góðum mönnum hættir til, sem að „góðu“ eiga að hverfa heima, og taldi þó heimilisfólkið á Hamarendum hann af því; og, með því nú voru ekki aðrir viðlátnir til fylgdar við sýslumann en Guðmundur sjálfur, þá lögðu þeir aftur af stað báðir saman hér um bil kl. 3—4, en frá Hamarendum að Hjarðarholti er löng bæjarleið; — ófærðin var mikil, þar þunga snjókoma hafði verið allan daginn og nóttina fyrir. En þegar þeir, á að giska, hafa verið komnir á miðja leið, brast á einhver ógurlegasti harðneskju-norðanbylur með brunagaddi, sem engum manni sýndist unnt að rata í, eða komast áfram, og hélst hann alla þá nótt og næstu 2 daga, þó að lítið eitt rofaði þá einstöku sinnum.

Sunnudaginn 14. [mars] fengu menn fyrst að vita hvað skeð var, og eigi varð fyrr leitað; fannst þá sýslumaðurinn sálaður á sléttum flóa skammt út frá túni á Hjarðarholti, og stóð þar þá yfir honum úrvals- og uppáhaldshestur hans, er hann nefndi „Bullufót“ — og hafði hann staðið þar með hnakknum og beislinu í full 6 dægur [3 sólarhringa] í sömu sporum, sem maðurinn hafði helfrosinn hnigið niður af honum, — og má þetta virðast undarlegt og því nær óskiljanlegt. En það er líka auðsætt, að fyrir þetta atvik fannst hinn framliðni svo fljótt, að hesturinn stóð hjá líkinu, sem annars hefði grafist í fönn.

(Viðbætt 21. dag apríl) Nú í dag, eftir nokkurra daga hláku og eftir margítrekaðar leitir, tókst um síðir að finna lík Guðmundar sáluga Jónssonar frá Hamarendum, undir 3 álna djúpum snjó skammt þar frá, í lækjarhvammi þeim, er hestur hans var áður fundinn 27. [mars] og var líkið auðsjáanlega umbúið og lagt til á vanalegan hátt, hvað eð bar ljósan vott um það að sú tilgáta er sönn, að sýslumaðurinn sálugi hafi þar búið um hann og ekki skilið við hann, fyrr en hann var liðinn; — en farið svo sjálfur að brjótast til bæjar; — enda var hann á nokkurn veginn réttri leið þar, er hann fannst, og átti aðeins skammt heim að bænum, eins og áður er sagt. ... Stafholti í apríl 1869. Stephán Þorvaldsson.

Norðanfari birti þann 15.apríl úr bréfi úr Árnessýslu, dagsett á pálmasunnudag, 21.mars:

Tíðin hefir verið hér góð langt fram í janúar, en síðan mikil harðindi, og svo er mikill snjór á Eyrarbakka, að varla mun hafa komið annar eins í 20 ár, eftir því sem ýmsir hér hafa sagt mér.

Norðanfari birti þann 27.júlí tvö bréf rituð í Skaftafellssýslu síðla vetrar (stytt hér):

[Hornafirði, 27.mars] Tíðin framan af vetrinum var æskileg, og menn muna varla svo góða veðuráttu hér um svæði; á þorranum sáust nær því útsprungnar sóleyjar, en sú blíða snerist brátt með góunni upp í grimmdarfrost og snjóbylji; frostharkan var framúrskarandi, og menn muna eigi eftir eins miklum gaddi til sjós í hafíslausu; hagarnir héldust við, en urðu eigi notaðir sökum grimmdanna, en aftur á móti eru hér flestir vel heybirgir, eftir hið blessaða sumar sem Guð gaf okkur.

[Öræfum, 28.mars] Vetrarveðurátta var hér góð fram á seinni hluta níuviknaföstu, en úr því hörð frost til í 3. viku góu, en síðan á Maríumessu hafa þau verið miklu vægari. Mestur snjór hefir komið hér í miðjan kálfa. Hér hefir verið mikið hart millum manna, og talsvert er farið að sjá á fólki, sem mest hefir að þessu síðan á þorra, lifað á vatnsblandaðri mjólk Á sumum heimilum þar sem eru 5—8 manns, hafa verið 5 merkur mjólkur; en nú er farið að aflast í Suðursveit svo þar eru komnir 200 fiska hlutir. Á þrettánda dag jóla (6.janúar) fórust hér 2 menn í snjóflóði, er áttu heima á Hnappavöllum ...

Apríl. Kalt í veðri, sérstaklega fyrri hluta mánaðarins, einnig var þá mjög hríða- og illviðrasamt. 

Þjóðólfur segir af góðum afla í pistli þann 10.apríl:

Fiskiaflinn var allstaðar hér innan Faxaflóa fremur lítill alla dymbilvikuna [21. til 27.mars] nema í Inn-Garði og Leiru; þar aflaðist að sögn fremur vel í net fyrri part þeirrar viku, hafði þar og verið fremur góður afli vikuna fyrir pálma; hér á Seltjarnarnesi og Álftanesi varð almennt vel vart fyrir og eftir hátíðina, en bæði dró úr því þegar á vikuna leið, og svo kom um næstliðna helgi [3. til 4.apríl] þessi grimmdar-norðangarður, er gjörði það, að hvergi hér um veiðistöðvarnar varð litið að sjó eður vitjað um net fyrr en í fyrradag; vorn þá flest net full hér hjá Seltirningum og Reykjavíkurmönnum, og það svo, að nokkrir voru er eigi gátu innbyrt allan fiskinn; þeir voru og flestir hér mjög vel fiskaðir í gær ... Miklu minni spyrjast skemmdir og tjón á netum eftir ofveðrið 4.—8. þ. mánaðar heldur en við var búist.

Norðanfari birti þann 2.júní bréf úr Múlasýslu, dagsett 9.apríl:

Allan fyrri hluta vetrarins var frosta- og snjóalaust að kalla, en því meiri krapa- og regnveður, svo fóðurpeningi veitti eigi af hjúkrun, auk þess sem hann var herfilega útleikinn undan áfellinu í haust. Með þorrakomu fór heldur að spillast, og í síðustu viku hans dreif mjög mikið og kom þá stór snjór á Úthéraði og í flestum Fjörðum, síðan hefir mátt kalla mjög harða tíð, því þó víðast hafi verið meiri og minni hagar, en fannfergja hvergi tiltakanleg, þá hafa frostin verið í frekasta máta og næðingarnir. Það er óefað, að hafísinn er hér á næstu grösum kringum Austfirði, ef eigi orðinn sumstaðar landfastur.

Þjóðólfur birtir þann 1.maí úr bréfum af Vestfjörðum:

[Af Vestfjörðum] 14. apríl: „Ég hefi verið mikið á ferðalagi í vetur, meðal annarra þegar Jóhannes sýslumaður varð úti, og í þessu óttalega snögga áhlaupi, 1.apríl, var ég á Skaga í Dýrafirði. Hér urðu mikil slys af því áhlaupi, stúlka varð úti í Dýrafirði; hún var að rifa hrís skammt frá bænum; fé hraktist allvíða og fórst; á sumum bæjum á Langadalsströnd drapst svo að segja hver einasta kind. [Eftir öðru bréfi af Langadalsströnd, samtals um 400 fjár], enda hestar hröktust í sjó og drápust frá bæjum á Snæfjallaströnd. Fé týndist og í Arnarfirði og Dýrafirði, og sjálfsagt víðar, þó eigi sé enn af því frétt. Í miðjum mars varð maður úti á Gemlufallsheiði“.

Þjóðólfur segir ísfréttir 1.maí:

Þegar póstskipið nú kom, leitaði það á að koma við á Djúpavog, en þótti þess engi kostur vegna hafíss, og varð svo frá að hverfa; eins var um „Fylla“. Neðanmáls við bréf af Ísafirði 14. [apríl] segir svo: „Hafísinn fyrir öllum Húnaflóa, Ströndum og Vestfjörðum“.

Baldur segir 8.maí:

Í ofsaveðrinu á sumardaginn fyrsta 22. [apríl] kollsigldi sig bátur á uppsiglingu á Kollafirði, og fórust þeir er á voru. Formaðurinn var Egill Ingjaldsson, giftur maður ungur og búsettur á Steinum í Selshverfinu. ...

Maí. Kuldatíð framan af, en síðan heldur skárra. Hafís olli vandræðum við Norður- og Austurland. 

Séra Þórarinn í Reykholti segir að ís hafi lagt á vötn þann 25. og 26.maí. 

Þjóðólfur birti þann 4.júní tvö bréf frá Ísafirði, dagsett í maí (nokkuð stytt hér):

[10. maí] Síðan ég skrifaði seinast, hefir ástandið og útlitið tekið hér skjótum og góðum bótum. Norðangarður nú í 3 daga með 5—6° frosti og hafís fyrir Djúpkjafti.

[19.maí] Fiskiaflinn helst enn hinn besti hér í Djúpinu, en lítill um alla Vesturfirðina. Hákarlaaflinn á fiskiskipunum hefir verið í meðallagi, frá 20 til 60 tunnur. ... Væri ekki hafísinn nú, mætti útlitið heita hið besta, en hann hefir af og til lokað Djúpinu og sett hroða inn um það, sem hefir skemmt lóðir og hindrað sjóferðir; en veðrið er einstaklega gott, bæði logn og sólskin dag eftir dag, og ekkert ský á loftinu hefir sést í hálfan mánuð eða meir, en 3—5° frost á hverri nóttu og norðanvindur einlægt úti fyrir; heiðar leysir því seint í ár. Fjörðurinn hér er varla skipgengur fyrir hafskip vegna rekíss, og skip Ásgeirs kaupmanns varð að halda inn á Súgandafjörð og bíða þar í 2 daga til að geta komist inn í Djúpið. — Hann ætlaði fyrir Langanes en varð að snúa aftur suður fyrir vegna íss, og kom á Eskifjörð, þar var bjargarlítið. ...

Þjóðólfur segir í pistli þann 15.maí af ís eystra í apríllok (stytt hér):

Capit. lient. O. Hammer sást síðasta vetrardag [21.apríl] koma siglandi inn mynnið á Berufirði og furðaði menn á því að engi sást gufan upp úr Tomas Roys. Um þessa daga var hafíshroði inn á Djúpavog, svo að ekki var þangað skipgengt og hélt hann svo inn eftir firðinum sjálfum, lagðist við akkeri fyrir framan bæinn að Skála, — og lét þar berast fyrir, þangað til ísinn tók burtu af höfninni, en þá fór hann út þangað rétt fyrir mánaðamótin. Svo stóð á þessu ferðalagi Hammers, að ekki hafði hann verið nema eina 2 daga um kyrrt eða við selaveiðarnar norður í Grænlandsísnum, og hafði hann á þeim 2 dögum aflað 1600 sela og útselskópa, þegar þá bar svo inn milli meginísa, að ísbjörgin læstu skipið milli sín, og marðist og bilaðist við það skipið, en einkum gufuvélin svo, að hún varð frá kyndingu til gagns, og var svo eigi annars kostur en að forða sér út úr ísnum sem fyrst, og gekk þó næsta treglega, eins og ferðin hingað suðureftir. 

Þann 2.júní birti Norðanfari bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 17.maí:

Ég hefi ekkert að skrifa nema hörmungar einar héðan úr plássum; menn eru orðnir aflvana fyrir bjargarskort, sem er svo almennur, að enginn munur er á þeim efnaðri og fátækari; víða er farið að drepa niður fénaðinn, og þykir gott meðan hann hrökkur, en hvað tekur þá við aftur? Eða að fá um þetta leyti ársins viku stórhríðar með frostgaddi og hafísreki; enda hafa tapast í kringum Tjörnes hátt á annað hundrað grásleppunætur, sem búið var að leggja, og þetta hefir þá verið meir en 300 rd. virði; auk þessa töpuðust um 20 lágvaðir á Tjörnesi, Kelduhverfi og Axarfirði, og hver þeirra á 25 rd. eða allir 500 rd. 12 höfrungar náðust í hafísvök rétt við fjöruna utanvert í svokallaðri Baugastaðahöfn á Tjörnesi. 78 en eigi 100 marsvín náðist í vetur á einmánuði á Ásbúðum á Skaga.

Baldur segir af ís og neyð þann 28.maí:

Eftir skipi, sem nýkomið er af Austfjörðum er hafísinn sagður kominn nær því suður að Hornafirði, og að vestan er hann kominn á Ísafjörð og enda sunnar. Sem vænta má er því ekkert skip enn komið á Norðurland, og er neyðin þar manna á milli sögð almenn, eins hjá bestu óðalsbændum sem armingjum, og mun vera í ráði í Húnavatnssýslu, að senda hingað suður eftir korni, enda hefir og nokkuð verið sótt og talsvert pantað. Kuldar kváðu þar hafa verið miklir og að mestu gróðurlaust, en heyföng nóg og skepnur í góðum holdum, en bændur farnir að skera niður kýr, fé og hesta sér til bjargar.

Norðanfari segir 2.júní:

Hafísinn er nú sagður fremur lítill hér allstaðar úti fyrir frá Hornströndum og austur að Langanesi, og hvergi svo þéttur, að hann eigi sé siglandi eða róandi. Aftur er sagt haft af honum í Langanesröstinni, sem hvorki verði komist í gegnum né út fyrir, sem víst hamlar skipunum að austan. Hér á Eyjafirði er töluvert af hafís á vissum köflum, en aftur autt á millum. Þrisvar sinnum hefir hafísinn rekið nú í vor hér inn á Leiru, og er nokkuð af honum enn landfast þar, og allstaðar með öllum löndum meira og minna.

Þjóðólfur dregur saman vetrar- og vortíð í pistli þann 4.júní:

Hér var yfir allt land besta vetrarfar með frostleysum og marauðri jörð frá lokum októbermánaðar í haust, allt fram yfir 1.viku þorra; en þá spilltist veðrátta víða, og helst á Vestfjörðum, þótt eigi brygði til algjörðra harðinda, fyrr en frá fyrstu viku góu; þá kom snarpt harðindakast með mikilli fannkomu og jarðbönnum víðsvegar um landið, og helst um 3 vikna tíma, nema hvað vægara varð nokkuð um Skagafjörð, Borgarfjörð og Dali vestra. Með 1. viku einmánaðar brá til bata og fóru smám saman að koma upp jarðir, og hefir veðráttan að öllu samtöldu verið síðan heldur frostalítil, þótt einstöku íhlaup hafi verið, t.a.m. 10.—ll. apríl, og aftur 6.—10. [maí]. Fylgdi því íhlaupi hin mesta fannkoma austur um Skaftártungu og Síðu, svo að þar fennti fé að mun hjá sumum, og nokkur hross. En einstaklega úrkomulaus hefir veðráttan verið fram til síðustu helgi, og hafa þar með fylgt þyrringskuldar og einstakt gróðurleysi, er sjálfsagt hefir staðið af hafísnum, er legið hefir í allt vor fyrir öllu Norðurlandi, svo að hafþök hafa verið allt fram yfir miðjan [maí], úti fyrir frá Bolungarvík og austur og suður fyrir Langanes, og var hafís og rekís kominn fast inn á firði og orðinn landfastur, er síðast spurðist, allt austan frá Miðfirði og vestur fyrir Horn. Af þessu yfirliti má ráða það, sem er, að veturinn sem leið má heita góður vetur og hagstæður að veðráttunni til og öllu vetrarfari. Aftur hefir hann verið einn hinn erfiðasti og þyngsti að allri afkomu landsmanna, einkum til sveita.

Júní: Mjög kalt framan af og snjóaði oft að mun í byggðum, en eftir miðjan mánuð hlýnaði talsvert og góðir dagar komu nyrðra. Þá rigndi syðra.

Fyrrihluta júní voru tíð næturfrost í Reykholti.  

Þann 10.júlí segir Þjóðólfur af skipskaða:

[Þ.12.júní] strandaði skonnertskipið Iris, 36 lestir að stærð, skipstjóri Mortensen, við Siglunes í Eyjafjarðarsýslu; hafði það legið á 11.viku í ís fyrir Austur- og Norðurlandi; hefir það sjálfsagt laskast svo í ísnum, að ákafur leki var að því kominn, þá er það loks komst að Siglunesi, svo að skipverjar sáu sér eigi annað fært, en hleypa þar í land; var síðan allur varningur, sem var töluvert skemmdur af sjónum, seldur við opinbert uppboð, ... 

Baldur segir af veðráttu í pistli 16.júní:

Veðuráttin hefur til þessa í vor hér sunnanlands verið mjög þurr og fjarskalega köld, svo að víst má telja, að næturfrost hafi verið því nær á hverri nóttu, þegar frá sjó dregur og gróðurinn því mjög vesæll, svo að varla munu komnir kúahagar að gagni, og má því telja þetta vor eitthvert með þeim gróðurtregustu, er menn muna.

Norðanfari birti þann 27.júlí bréf dagsett í júní (mikið stytt hér):

[Eskifirði 7.júní]: Hér er allt fullt með hafís, en þó liggja hér 3 verslunarskip ...

[Fáskrúðsfirði 14.júní]: En áður en ég minnist á annað, trúi ég, að é varla geti sneitt hjá, að byrja á því, sem fram af mér gengur nú, en það er tíðin, því lengur sem líður framá, æ því meir versnar. Nú er hvínandi norðanstormur með snjóhraglanda, svo skepnum er illa vært; ég held ég megi segja, að ég muni ekki annað eins vor. Allur maímánuður, og það sem af er þessum mánuði hefir verið svona; hafísinn hefir ekki í margar vikur leyft skipum útsiglingu af fjörðum, margar frakkneskar duggur hafa brotnað í ísnum og sokkið með áhöfn, og hér hafa nú nokkrar vikur setið tepptar inni yfir 50 frakkneskar fiskiskútur, þó ísinn hafi stundum rekið út, hefir hann jafnóðum komið aftur. Grimmd náttúrunnar sýnist óseðjanleg, ekki dugir að reyna til um fiskafla. Svona ganga allir bjargræðis útvegir.

[Að austan (ótilgreint hvar) 18.júní]: Enn er hér stangl af hafís, Vorið hefir verið hér hart og kalt, mikil frost um nætur, en golu næður um daga, aldrei regn, einstöku sinnum krapaskúrir. Töluverð fönn um nóttina 12 þ.m, þá var fuglinn farinn að setjast. Æðarvörpin sýnast ætla að verða lítil. Æðarhreiður hefir fundist á hafísjaka, köld og slæm er sú bújörð. Hafísinn hefir legið inni síðan í apríl, og einlægt verið að hrekja út og inn, en aldrei frosið saman.

[Kelduhverfi 18.júní] Nú er fátt gott að frétta, tíðin er einstaklega bág, sífelldir norðanstormar og hríðar nema 2—3 dagar bærilegir á milli, þó yfirtæki næstliðna daga. Þann 14. þ.m. var stórhríð og lítið betra þann 15., nærri því jarðlaust orðið annarstaðar, hafþök af ís það til sést, mófuglar liggja hópum saman dauðir af hor og kulda, þetta munu dæmafá harðindi, því elstu menn muna ekki því lík. Fé er farið að falla, ærpeningur orðin horaður og gagnslaus, þó í góðu standi væri fyrir sauðburð, kýrnar því nær orðnar geldar, þar flestir eru nú og margir fyrir löngu síðan orðnir heylausir fyrir þær.

[Húsavík 23.júní]: Svo að þetta bréf verði eigi með öllu tíðindalaust, má ég geta þess, að 14 júní, var með aftureldingu brostin á snjóhríðar bylur, svo ill ratljóst var bæja á millum, hríðin með talsverðu frosti hélst til kvelds, þá birti hríðina en herti frostið, en þenna sama dag var bjartviðri fram í Kinn og gránaði ekki í rót, og var þar beitt út kúm, og enn heldur fram í Ljósavatnsskarði, víða króknaði rúið fé og á fremstu bæjum í Kelduhverfi tróðst það inn í hella og drapst þar.

[Árnessýslu 20.júní] Hér í Árnessýslu er komin landplága, er naumast mun hafa komið hér áður jafnmikil. Í Gnúpverjahrepp er kominn svo mikill maðkur í gras, að undrum gegnir. Ég hefi heyrt, að þegar gengið sé um túnin, þá komi vilsan upp yfir skóvarp af hinum drepna maðki, Maðkur þessi eyðileggur allt gras. Hið sama er sagt að eigi sér stað ofan til í Rangárvallasýslu. Það getur verið, að nokkuð sé ofaukið í fregnum þessum, en töluvert mun þó vera satt. Landlæknir dr. Hjaltalín var hér á ferð á trínitatis, og er hann á þeirri meiningu, að Ísland fari æ versnandi, og að jöklarnir séu alltaf að stækka.

Norðanfari segir frá 24.júní:

Síðan 17. þ.m hefir hér verið besta tíð, sunnanátt og leysing mikil til fjalla, svo öll vötn liggja á löndum uppi. 20. þ.m. var hér 19—20 gr. hiti á R. í forsælunni [24-25°C] og 18 gr. um nóttina [22,5°C]. Dálítið hefir rignt, svo gróðurinn hefir á þessum fáu dögum tekið furðanlegum framförum. Eigi að síður er þó enn sagt allt fullt með hafís hér úti fyrir, frá Hornströndum í Rauðanúp, og líklegast þar fyrir austan suður með fyrir öllum Austfjörðum, eins og áður, því þótt nokkuð hvessi af landi úteftir fjörðum, eru utan fyrir landi kyrrur og logn, straumarnir ráða líka oft meira ísnum en veðrið. Seinast þá fréttist af barskipinu Eminu, var það fast í ísnum norður af Flatey á Skjálfandaflóa.

[Langanesi 15.júní] Hörð er tíðin hér norður um. Ekki blíðviður né þíður síðan um sumarmál. Gaddur mikill til fjalls; gróðurlaust alveg niður um. Áfelli um hvítasunnu [16.maí] og hríðaráfelli mikið 14.—15. þ.m., snjór talsverður á jörðu, ís augalaus á Þistilfjarðarflóa.

Þjóðólfur segir frá skipsköðum í pistli þann 30.júní (nokkuð stytt hér):

Nóttina milli 2. og 3. dags [júní] missti tvísiglt fiskiskip, Felicite frá Ísafirði, fremra siglutré sitt og bugspjót, og komst þannig inn í Hafnarfjörð. ... — Laugardaginn 12. [júní] fórst bátur frá Þórukoti á Álftanesi með 4 mönnum, 2 var bjargað þegar, en 2 drukknuðu: formaðurinn Stefán Halldórsson ungur maður og efnilegur, og Sœmundur austan úr Tungum; en 17. þ.m. dó annar þeirra, sem bjargað var, ... Sunnudaginn l3. þ.m. fórst bátur í Strandasýslu með 2 mönnum, ... Ætluðu þeir út á Reykjanes við Reykjarfjörð (Kúvíkur) að sækja við.  

Baldur segir af tíð þann 7.júlí:

Síðan 16. dag [júní] er óhætt að segja, að veðuráttan hafi breyst til batnaðar hér sunnanlands, með því hinir miklu kuldar rénuðu um það leyti, og hefur síðan verið nokkuð votviðrasamt og vindur einlægt við suðurátt. Eftir síðustu fregnum að norðan er ísinn alveg horfinn úr Húnaflóa, en aftur mikill á Skagafirði og Eyjafirði, svo að þar voru eigi komin nein skip, en í Höfðakaupstað, á Hólanes og Borðeyri kváðu vera komin skip.

Kafli úr bréfi úr Árnessýslu, 21.júní: „Hér hafa gengið rigningar nú í nokkra undanfarna daga og var orðin þörf á þeim, því að Flóinn var svo þurr, að fágæti var, og voru menn á glóðum um, að við jarðspjöllum mundi liggja sakir ofþurrka, því svo var að sjá sem allur grasvöxtur og það, sem í garða var sáð, mundi gjörónýtast, en þá kom rigningin og bætti úr öllu“.

Júlí. Mjög kalt í veðri, suddi og súld fyrir norðan og austan, en betri þurrkar sunnanlands. 

Þann 6. og 7.júlí segir séra Þórarinn í Reykholti kóf og él á fjöllum. 

Norðanfari birti þann 14.ágúst bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett í júlí (mikið stytt hér) - eftir þetta lenti Norðanfari lengi í algjörum pappírsskorti vegna samgönguleysis:

Ennþá liggur ísinn á Vopnafirði og grisjar ekkert í hann. Skip komast því ekki inn, en við sitjum heima með allar vörurnar ... Í Vopnafirði er grasbrestur mikill; þó munu flestir fara að slá úr þessu. Hér á Jökuldal er heyskapur nýbyrjaður. Á austursveitum er betur sprottið og allt að hálfum mánuði, síðan sumir byrjuðu að slá, en ekki lítur nú hvað best út með nýtinguna. Daglega er sífelld þoka og súldir með kulda á utan og austan. Tún kólu fjarskalega hér á Jökuldal, svo varla er hugsandi til, að menn geti haldið kúm sínum nema því betur rætist úr. Það eru ekki litlar hörmungar, sem hafa dunið yfir menn frá því í fyrra.

Norðanfari segir 24.júlí:

Ennþá er ísinn að reka fram og aftur á fjörðunum, svo oft hefir varla verið skipgengt; hann er líka nú, allri venju fremur í svo stórum hellum eða breiðum, að þær tóku sumar meir enn yfir fjörðinn landa á millum eða á aðra mílu, ein hellan brúaði sundið millum Flateyjar og lands, svo fara mátti þar sem á landi, tvær ísbreiðurnar brúuðu yfir Eyjafjarðarmynnið. 

Þjóðólfur segir hafísfréttir þann 28.júlí:

Hafísinn húsaði að vísu nokkuð frá Norður- og Austurlandi um seinni hluta [júní], svo að kaupskip náðu þar þá höfnum um síðir á Borðeyri, Skagaströnd og Sauðárkrók; á Akureyri kom skip fyrst 30. [júní]. En aftur rak inn að landinu og sumstaðar inn á firði talsverðan ís fyrir öllu Norður- og Austurlandinu um næstliðin mánaðamót; skip eitt er ætlaði þá til Vopnafjarðar seinast í júní varð að snúa frá vegna íss og sigla til baka til Berufjarðar; sagt er og að eigi fá frakknesk fiskiskip, er voru að sigla út frá Fáskrúðsfirði eða ætluðu þangað, hafi laskast meira og minna og sum verið algjört yfirgefin af skipverjum.

Norðanfari segir 2.ágúst fyrst af skipaferðum og hrakningum í ís (lítillega stytt hér) - en síðan af veðráttu:

Um morguninn hinn 30.[júní] kom hingað fyrst þetta ár lítil skonnerta, sem ætluð er til hákarlaveiða og heitir „Akureyri" skipherra M. Rasmussen, frá Kaupmannaböfn, eign kaupmanns L Popps, fermd mat og fleiru; hún hafði lagt af stað að heiman 18 apríl, en mætti ísnum við Austurland, og varð svo að hverfa frá honum og suður- og vestur fyrir land, síðan þaðan norður fyrir Hornstrandir, að vestan gegnum meiri og minni ís, þar til hún komst hingað. Sama daginn um kveldið, náði og briggskipið Hertha, skipherra J. Eiríkson loksins hér höfn: hafði hún lagt af stað frá Kaupmannahöfn 14. mars, en kom að ísnum við Austurland á annan í páskum (29.mars); þar var hún að sigla fram og aftur með ísnum til þess á annan í hvítasunnu (17. maí), er hún sigldi suður- og vestur fyrir land, uns hún komst inn á Skutulfjarðarhöfn, þar lá hún ásamt „Akureyri" í 14 daga. þaðan komst hún gegnum ísinn fyrir Hornstrandir og inn á Norðurfjörð, sem gengur í útnorður af Trékyllisvíkinni austan til á Ströndunum, þar lá Hertha í 2.daga og komst þaðan yfir á Skagaströnd, hvar hún affermdi ýmislegt. Þaðan komst hún eftir 2. daga á Siglufjörð, þar varð hún enn vegna íssins að dvelja 2. daga, síðan komst hún hingað. Menn glöddust eigi alllítið við þessar skipakomur sem búið var að þrá eftir síðan um páska, og menn svo mjög vegna bjargarskortsins þörfnuðust, auk margs annars er hér var á þrotum, og komið var meðal flestra í einstakar nauðir, svo varla munu dæmi til á þessari öld. Þó skip þessi væri búin að vera svona lengi á leiðinni, sér í lagi „Hertha" í 109 daga, þá hefir samt alls engra skemmda verið getið á kornvörunni. Með þessum skipum komu bréf og blöð. 28. [júlí] náði barkskipið „Emma Aurvegne" skipherra Jensen, heilt á húfi hér höfn, sem lagði að heiman 1. apríl, og mætti sem hin skipin ísnum við Austurland, og einlægt síðan setið í honum, dýpra eða grynnra undan landi og við land á Gunnólfsvík og Gegnisvík, og skipverjar oft eigi annað séð, en skipið mundi þá og þá leggjast saman eða liðast sundur af ísnum. Það er sagt að maturinn í því sé enn óskemmdur; og ætti það ekki að vera lítill fögnuður fyiir alla þá, sem hér þurfa að fá mat, að vita að hingað komnar svo þúsundum tunnum skiptir af kornvöru, ...

Allan júlímánuð hefir veðurátta hér norðanlands, verið oftast útnorðan, með þokum, köld og næðingasöm, en sjaldan stórviður, og oft framan af mánuðinum gaddharka á nóttunni í sveitum, hvað þá til fjalla. Grasvextinum hefir farið mjög seint fram, nema helst þar sem votlent er eða vatnsveitingum hefir orðið komið við. Nóttina hins 6. og 8. [júlí] snjóaði talsvert á fjöll, og í sumum byggðum varð alhvítt; seinni hluta mánaðarins hefir verið óþerrasamt og erfitt meö þurrkana, ofan á grasbrestinn, og það sem jörð er víða kalin og allt mýrlendi komið á flot. Málnytan var sögð fyrst eftir fráfærurnar víðast í meðallagi, en eftir að frostin, hretin og kuldarnir fóru aftur að koma, þá kvað henni mikið hafa kopað. — Hafísþök eru enn sögð ýmist grynnra eða dýpra norðan fyrir landi, svo enn horfir ólíklega til að bætist við skipakomurnar hér á norðurhafnirnar.

Ágúst. Kalt í veðri. Hafísinn hvarf ekki fyrr en undir lok mánaðar.  

Þann 8.ágúst segir Þórarinn í Reykholti af kafaldséli um morguninn og miklu næturfrosti nóttina á eftir. 

Þjóðólfur segir af hafís og veðráttufari þann 17.ágúst:

Af hafísnum, veðáttufarinu Norðanlands og því vandræðaástandi er þar með er samfara, fréttist nú með prófastinum síra G. Vigfússyni, og Sig. Sæmundsen af Seyðisfirði að hafísinn hefði enn verið þar víðsvegar fyrir öllu Norðurlandi, framanverðan [ágúst], svo langt austur sem til spurðist, hafi Hrútafjörður verið svo fullur með ís, að ekkert skipanna komst út þaðan eins og þá stóð. Fylgdu þessu sífelld næturfrost og kólgur og hafískuldar um daga, svo engir voru heyþurrkarnir; illa sprottin öll slægjujörð, en bithagar til fjalla fjarska graslitlir, svo að sumstaðar sá ógjörla lit á jörð, og málnytufénaður gjörði vart hálft gagn; það er því eigi að undra, að allmargt kaupafólk, er norður fór héðan að sunnan, er nú komið aftur. ... — Um Landeyjar og Eyjafjöll og allt þar fyrir austan, var mjög óþerrisamt allt fram til 8. [ágúst], og engi baggi náður þá í garð á sumum bæjum. Hér um nærsveitirnar austanfjalls, um Borgarfjörð og Mýrar, enda vestur um Dali, eru tún sögð vel sprottin eða víst í góðu meðallagi, og hefir veðráttan verið hér víðsvegar hin hagstæðasta það sem af er slættinum, eins til góðrar nýtingar eins og til heyafla yfir höfuð að tala.

Baldur birtir 8.september bréf ritað í Eyjafirði þann 26.ágúst:

Fyrir fáum dögum er orðinn skipgengur sjór fyrir Norðurlandi og skipin komin á flestar hafnir hér. Tíðin var hér góð fyrri part [ágústmánaðar] eða þá mátti segja að héti sumar, en nú má aftur heita kominn vetur, því í fjóra daga hefir verið stórrigning í byggð en hríð á fjöllum, og þar kominn snjór mikill, svo að skepnum mun vart óhætt. Fiskiafli má heita sáralítill á Eyjafirði og enda víða norðanlands.

Baldur segir þann 27.ágúst:

Að því er síðast hefur spurst af Norður- og Austurlandi, var hafísinn enn um miðjan fyrri mánuð [júlí] landfastur við Langanes og lá með fram Austurlandi fyrir framan alla fjörðu suður fyrir Seyðisfjörð, en aftur íslaust frá Langanesi og vestur þar til í Húnaflóa. Á Seyðisfirði lágu um verslunartímann 5 lausakaupmenn og höfðu allir talsverða verslun, enda gáfu þeir og þau kjör, sem vart hafa fengist á öðrum verslunarstöðum landsins.

September. Óvenjukalt og illviðrasamt. 

Baldur segir 6.október frá tjóni í illviðri 11.september - og að hafís sé farinn:

Með skólapiltum fréttist nú, að ísinn væri frá Norður- og Austurlandi. Hafði hann losnað þaðan um höfuðdag. En ófagrar fréttir fara þó af veðráttunni, engu að síður, þar sem sumstaðar fyrir austan hafði eigi orðið stundaður heyskapur sakir snjóvar í viku fyrr en piltar fóru þaðan. Fyrir norðan t.d. í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, höfðu og oft verið hríðar til fjalla og enda snjóað í byggð. Alls staðar fyrir norðan og austan lítur því mjög illa út; heyskapurinn lítill sakir grasbrests og illrar nýtingar. Að vestan fréttist hér um bil hið gagnstæða, bæði hvað tíð og bjargræði snertir. Í norðangarðinum 11. [september] sleit upp á Siglufirði öll skip þau, er þar lágu, 7 að tölu; 2 þeirra, jagtina „Söblomsten“ og skonnortskipið „Valdemar“, átti Thaae kaupmaður, en hið þriðja, skonnortskipið „Maríu“, hafði hann leigt; hið fjórða var skip lausakaupmanns Lund, sem í mörg undanfarin ár hefur rekið verslun þar og víðar um Norðurland; hin 3 voru ensk fiskiskip, er höfðu leitað þar inn sakir ofviðris. Skonnortskipið„María“ kvað vera alveg óhaffært og talið óvíst, að nokkurt hinna muni komast út aftur. Allir skipverjar komust lífs af. Í sama veðrinu 12. [september], urðu skipverjar á skonnortskipinu „Meta“, eign Clausens stórkaupmanns, sem þá lá í Stykkishólmi, að höggva fyrir borð siglutrén, svo að skipið eigi bæri á land. 

Þjóðólfur segir frá septemberillviðrinu í pistli þann 8.nóvember (nokkuð stytt hér):

Í ofsastorminum er gekk yfir allt Vesturland og vesturhluta Norðurlandsins dagana 11.– 13. september sleit upp eigi færri en 7 hafskip samtals á Siglufirði, þau lentu flest eður öll á grynningum þeim, er „Leðran“ nefnist, og stóðu þar grunn um hríð, en náðust samt öll á flot aftur með heilu og höldnu að mestu, og var meðal þeirra eitt skip, „Söblomsten“ kallað, er var á leið til Hofsóss frá Kaupmannahöfn með allskonar nauðsynjavörur; en 7. skipið, „María“, er þar barst á, og var komið heim í leið frá Hofsós til Danmerkur með íslenska vöru, en hafði átt að koma við á Siglufirði til að taka þar viðbót, bilaði svo og bramlaðist, að gefa varð upp skip og farm til uppboðs. — Sama dag (12.september) var eitt skip Clausens agents og general-Consuls, er nefndist Metha, á innsiglingu til Stykkishólms; það kom vestan af Ísafirði með því nær alfermi af ull og lýsi, átti nú að fylla lestina í Hólminum og fara svo þaðan til Hafnar, en er skipið skyldi ná inn á höfnina, bar ofviðrið það svo fast inn að landi („Stykkinu?“), að eigi varð annað úrræða, en höggva niður bæði siglutrén (möstrin) til þess að draga úr rekinu og gangi skipsins, og varð það svo þar að strandi; en mönnum öllum var bjargað. — Þetta er 4. skipið, er agent H. A. Clausen hefir mist á þessu ári.

Þjóðólfur birti þann 8.nóvember bréf frá Ísafirði, dagsett 9.október:

Í þessum stormi (11.—13.september) skemmdust víða útihús og hey að mun, og sumstaðar róðrarskip og bátar, enda þykjast elstu menn eigi muna meira veður og verra um þann tíma árs. Í fyrradag [væntanlega 7.október] hvolfdi af kastvindi sexæring á leið hingað úr Álftafirði; skipið var undir seglum og lurkfarmur á því. Drukknaði þar tómthúsmaður og vinnukona bæði héðan úr kaupstaðnum, en öllum hinum varð bjargað af kjöl 2 stundum síðar, og var sýslumaður okkar einn þar á meðal. Að þeir allir komust af þarna, var mest því að þakka, að akkeri var í skipinu með alllöngum streng og föstum í því, sem náði botni, hélt skipinu vindréttu og svo kyrru, að það eigi ruggaði meira en svo, að þeir gátu haldið sér i kilinum, þó sjórinn og rokið gengi yfir þá, og sýslumaðurinn þar að auki haldið stúlkunni þar líka; hún hafði ekki strax komist á kjölinn, en sýslumanni tekist að ná henni þangað, og batt hann þá trefju sinni um hana, og hélt henni þannig; en hálfri stundu áður en þeir komu, sem björguðu, var hún örend, og um sama leyti missti hinn maðurinn sem fórst, halds á kjölnum og seig niður af honum án þess hinir gæti náð honum, og var hann þá að þeir héldu með mjög litlu lífi. Sama dag rak hval á Snæfjallaströnd.

Október. Hiti ekki fjarri meðallagi. Þurrviðrasamt lengst af um landið vestanvert. Illviðrasamt var um tíma, en annars þótti tíð nokkuð góð.  

Norðanfari segir loks fréttir þann 10.nóvember:

Veðuráttan var hér í sumar um nærsveitirnar, og eins víða hvar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, með köflum fremur góð, og nýtingin eftir því; en grasvöxturinn sárlítill, einkum á harðvelli, svo heyin eru nálega allstaðar með minnsta móti, og sumstaðar svo lítil, að fá eru sögð dæmi til, er helst tekið til þessa fram til dala, sérílagi í Bárðardal og á sumum útsveitum, t.a m. á Úlfsdölum í Hvanneyrarsókn, fengust 20 hestar af heyi, af sömu víðáttu og venjulegast áður höfðu fengist 100 hestar heys. Í ágúst og september, dundu stórrigningar og stórhret yfir, með ærinni snjókomu til fjalla og sumstaðar í byggðum, svo alhvítt varð og gaddur, sem um hávetur, kýr og ær komu á gjöf og hagskart varð fyrir fé og hross. Sumstaðar varð að hætta heyvinnu dögum og vikum saman; heyin, sem lágu undir gaddinum, urðu eigi varin fyrir skepnunum, svo þau átust og ónýttust meira og minna. Þegar uppbirti varð frostið stundum 6—7 gr á R [-7 til -9°C] á nóttunni og nokkrum sinnum frost á daginn. Á nokkrum stöðum voru tún eigi hirt fyrri enn í október, og þar áður enginn útheysbaggi kominn undir þak. Af sumrinu taldist að eins hálfur mánuður, sem hefði verið hagstæð heyskapartíð. Hafísinn var hér fyrir Norðurlandi og Austfjörðum, landfastur fram yfir 20 ágúst, og þá fyrst var það, sem kaupskip gátu siglt hér upp allar hafnir við Norðurland. Hafísinn fór ekki alveg frá landinu fyrri enn seinast í ágúst (2.sept 1754), en nú hafði hann horfið allt í einu, svo fljótt, eins og hann hefði allur sokkið. Þó nú sumstaðar væri nokkrar heyfyrningar frá í fyrra, þá hrökkva þær skammt á leið með hinum litlu nýju heyjum, til að geta sett á, einsog í minnsta lagi að undanförnu; skepnufækkunin hlýtur því að verða ógurleg, þegar horft er fram á ókominn tíma, enda hefir fjöldi fjár verið rekinn til sláturs í kaupstaðina, og hefði þó verið en fleira, ef salt og tunnur, eigi hefði orðið á þrotum.

„Í dag mér morgun þér". Í Múlasýslunum og víðar urðu eins og kunnugt er í fyrra í október dæmafáir ef eigi dæmalausir fjárskaðar, en á Norðurlandi þá að kalla litlir og sumstaðar engir; þar á móti hefir forsjóninni þóknast og að hirta Norðurland með hinni dæmafáu útnorðan stórhríð, stórflóði og stórbrimi, er hér skall á 12.dag októbermánaðar 1869, því þá urðu svo miklir fjárskaðar, að eigi eru dæmi til; og nokkrir misstu helming af fé sínu og nokkrir urðu að kalla sauðlausir; féð fennti eða hrakti í sjó, ár og vötn, kíla og tjarnir, gil og grófir, og 5 eða 6 hesta fennti í Skagafirði austanmegin Héraðsvatnanna. Þótt mikið hafi fundist aftur, miklu fleira dautt en lifandi, þá vantar, að sögn, enn að samtöldu svo mörgum hundruðum skiptir, einkum í syðri hluta Þingeyjarsýslu, Blönduhlíð og Hólmi í Skagafjarðarsýslu, og í Húnavatnssýslu, en að tiltölu langfæst í Eyjafjarðarsýslu. Að samtöldu mun hið dauða fé, sem fundist hefir og það sem enn vantar, nema mörgum þúsundum, þó það sé ef til vill færra enn í Múlasýslunum í fyrra.

Þjóðólfur segir af októberillviðrinu þann 8.nóvember:

Öðru ofsaveðrinu laust á af norðvestri (útnorðri) réttum 30 dögum síðar, eður 12.[október], víðsvegar hér um land, eða þá víst allt frá Eyjafirði og vestur úr að norðanverðu, einnig og svo hér sunnanlands, neðanfjalls; hér var stormurinn ofsamikill, þar sem hann þó stendur af landi hér með þeirri átt; en engi var hér snjókoma með, þó að gránaði í hæstu fjöllum ofan til miðs; fyrir norðan fylgdi ofviðri þessu eitt hið mesta snjókyngi, og stóð þar yfir full 2 dægur eður fram á daginn 13. f.m. Daginn fyrir, mánudaginn 11., sást til skips inn Húnaflóa, og var það briggskipið Valborg, 63 lestir, eign Hillebrandts stórkaupmanns, er á Skagastrandar- eður Höfðakaupstaðinn; kom nú skip þetta frá Höfn fermt allskonar nauðsynjum: kornvöru, salti o.fl., en vita-saltlaust hafði verið fyrir þar um norðurkaupstaðina svo til vandræða horfði; veður var þá stillt og gott, fremur landvari, þegar upp á daginn kom, svo að lít vannst fyrir þeim uppsiglingin; segja þó nokkrir, að skipið hafi verið komið sem næst inn á móts við „Höfðann“ (Spákonufellshöfða), en þá sletti í logn, svo allan gang tók af skipinu um hríð. En morguninn eftir laust á þessu hinu mikla ofsaveðri af útnorðri með myrkviðrisbyl; varð þá skipið að leggja til drifs; bar þá síðan smámsaman vestur yfir flóann og að Vatnsnesinu utarlega og þar upp í klettana eður klappir fyrir landi jarðarinnar Krossaness, nálægt kl.3, og fór þar í spón; þeir 3 af skipverjum, er haldið er að fyrst hafi leitað til að bjarga sér, voru skipstjórinn Olsen, ungur háseti annar, og hinn 3. kand, phil. Stefán Thorstensen, sonur sál. landlæknis og jústizráðs Jóns Thorstensens; hann hafði tekið sér far með skipi þessu til Skagastrandar, og ætlaði skrifari til mágs síns jústizráðs og sýslumanns Christianssonar á Geitaskarði; en þessir 3 fórust þarna allir, og gátu eigi hinir 4 skipverjarnir, er af komust, skýrt frá því með greinum, hvernig þeim hefði auðnast að komast lífs á land, auk heldur hitt, með hverjum atvikum að hinir 3 hafi farist, og vera má að það sé ekki annað en laustilgáta, er nokkrir segja, að þeir 3 muni allir hafa komist lífs upp á flúðirnir, en þá hafi jafnsnart komið ólag og sogað þá út. Þeir 4 skipverjarnir, er af komust, komu hingað í ferð norðanpóstsins, 23.[október], og Hillebrandt hinn yngri, og fengu sér far til Skotlands allir 5, með galeas „Áfram“, C.F. Siemsens, er lagði út úr Hafnarfirði 5.þ.m. — Hinn sama dag sleit upp skip Sveinbjarnar kaupmanns Jacobsens, galeas „Hanne“, skipstjóri Petersen, þar sem það lá fyrir akkerum í Kolkuósi (fyrir innan Grafarós), rak þar upp á land skammt frá Elínarhólma (varphólma frá Viðvík), og mölbrotnaði um nóttina, svo að gefa varð upp skip og farm til uppboðs; allir skipverjar komust af með heilu og höldnu og bárust í hríðinni upp að Brimnesi.

Þjóðólfur birti þann 8.nóvember pistil um árferði og aflabrögð:

Sumarveðráttan var um land allt fremur köld, og einkum þó fyrir austan og norðan land, og á Vestfjörðum vegna hafíssins; en allt um það var grasvöxtur hér sunnanlands í betra lagi, en fremur rýr í öðrum hlutum landsins, einkanlega öll útjörð, en aftur var veðrátta hin hagstæðasta allt fram til höfuðdags, og síðan aftur næstu tvær vikurnar fyrir réttir, til allrar heyvinnu og nýtingar, svo að hey hirtust vel. Um höfuðdag brá að vísu til mestu kuldahreta yfirhöfuð, og fylgdi snjókoma um allt Austur- og Norðurland og Vestfirði, svo að þar á Vestfjörðum er oss ritað að kýr hafi eigi verið gjafarlausar nema svo sem 10—11 vikur á sumrinu. Af þessu leiddi, að töluvert úthey lá allan septembermánuð undir snjó um nyrstu sveitir landsins og víða upp til dala norðanlands; varð því heyskapurinn víða endasleppur norðan- og vestanlands og heyfengur lítill vöxtum, en í góðri verkun. Hér syðra, allt austur að Mýrdalssandi, var septembermánuður fremur kaldur og hretasamur framan af, en snerist til þurrka og hagstæðrar veðráttu fyrir allan heyskap hinn síðasta [hálfan] mánuð sláttarins; var því heyfengurinn allstaðar austanfjalls einhver hinn besti, og öll hey talin í einkar góðri verkun yfir höfuð; hið sama má segja um Borgarfjörð og Mýrasýslu, þó að grasvöxtur yrði þar minni, einkum á flæðiengi; vestur um Dali lítur út fyrir að heyskapurinn hafi orðið nokkru endasleppari. Úr Skaftafellssýslunum var sagður talsverður grasbrestur einkum á túnum og velli, er einnig var víða skemmt stórum af grasmaðki. Sagt er og að meltakið (villikornið) þar í vestursýslunni (milli Mýrdalssands og Skeiðarársands) hafi nú orðið allt að því í meðallagi, og í betra lagi um Álftaver og Meðalland; sú verulega bjargarbót hefir brugðist þar að mestu eður öllu um 3 ár undanfarin. Hér sunnanlands í öllum láglendari sveitum heppnaðist og garðræktin vel og gaf ávöxt vel í meðallagi bæði af jarðeplum og einkum af rófum; vér ætlum, að um næstliðin 6—8 ár hafi aldrei sést blóm á jarðeplagrasinu hér syðra, þangað til í sumar, enda hefur jarðeplauppskeran verið fráleit öll þessi undanfarin ár þar til í sumar. Allan næstliðinn mánuð (október) var hér syðra og vér ætlum allstaðar hin besta og blíðasta veðrátta með frostleysum og marauðri jörð, oftast enda talsverðum hita (+3—7°R [4 til 9°C]), nema þann eina ofveðursdag 12. f.mán., er varð svo mannskæður norðanlands, og með mestu fjársköðum þar víðsvegar um Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, með drápshríðinni er fylgdi, og því snjókyngi að einsdæmi þykir svona á auða jörð, er fé bæði fennti og hrakti í vötn og tjarnir og drapst þar; var eigi nærri tilspurt allra þeirra fjárskaða, er póstur fór þar suður um, og verður hér því aðeins getið þess að sinni, er þá sannspurðist um fjárskaða þessa: á Hnausum í Húnavatnssýslu 60 fjár; á Bakka í Hólminum (Skagafjarðarsýslu) 60 — 70 fjár, er menn ætla að hafi verið sem næst öll fjáreign búandans; það hafði allt hrakið í tjörn eina, og drepist; 60 fjár frá Hofstöðum og Hofstaðaseli, er fannst dautt þar í eyjunum (í Héraðsvötnum) fyrir norðan Hofstaði daginn eftir veðrið; en þar víðsvegar annarstaðar vantaði fé meira og minna, þótt
eigi væri fyllilega tilspurt, hvað mikið farist hefði; hross fenntu og sumstaðar um þau byggðarlög, og sum til dauðs.

Með norðanlandspóstinum bárust og fregnir um, að í hinu ofsalega fjárskaðaveði, 12. [október] mundu samtals 5—6 manns hafa orðið úti og farist; voru nefndir 2 frá Flatatungu í Skagafirði, er hefði ætlað að gæta fjárins eða bjarga því, og bóndinn frá Illugastöðum í Laxárdal fremri (Húnavatnssýslu); en eigi hafa menn áreiðanlegar sönnur fyrir þessu; að maður hafi þá orðið úti í Vatnsdalnum, eins og nokkrir sögðu, mun mishermt.

Nóvember: Erfið tíð og óvenjuköld. 

Norðanfari birti þann 15.desember bréf úr Suðurmúlasýslu, ritað 17.nóvember:

Það var kalt og þurrt í vor. Sauðburður lánaðist framar vonum. Grasið spratt seint og heldur lítið. Hafísinn var við langt fram í ágústmánuð. Seint varð byrjað að slá, víðast í 14. viku og nýttist allt vel fram yfir höfuðdag. Þó kom áfelli í 16. viku með snjó og illviðrum. Varð sumstaðar jarðlaust fyrir kýr nokkra daga og hætt heyskap nærri í viku. Þriðja eða fjórða september, byrjaði ótíð með rigningum, svo krapaveðrum, fannfergju og frosti í miðjum mánuðinum og héldust harðindi til síðasta september. Menn áttu óvenju úti af heyi, víðast undir gaddi. Fyrstu daga af október voru blíðviðri en litlar þíður, þá náðu þeir heyjum, sem áttu þau á lágum nesjum og mýrum; en það sem var til hálsa og fjalla eða í móum, kom aldrei upp, því fyrir miðjan október kom aftur áfelli með snjó og grimmdum. Þá urðu 2 menn úti í Möðrudal og hrakti fjölda fjár. Fór margt til dauðs í fannir og tjarnir. Eins fór sumstaðar á Jökuldal að fé hrakti og fennti og vantar enn margt af því. Aftur hlánaði nokkuð um veturnætur og náðu þá sumir dálitlu af heyi. En margir eiga þó enn úti hey í Fjörðum og út á Héraði undir snjó, því veturnáttabatinn varð lítill og skammvinnur. Byrjuðu bráðum aftur harðindi, sem haldast enn og er víða komin fannfergja.

Þann 29.janúar 1870 birti Norðanfari bréf - rituð í nóvember 1869:

[Seyðisfirði 18.nóvember]: Veturinn er nú lagstur hér að með hörkum, stormum og snjókomu, svo nú er hér í sveit jarðlaust að kalla, og allar skepnur komnar á gjöf nema gaddhestar. Aflabrögð hafa og farið að þessu skapi í haust, því bæði hafa gæftirnar hamlað sjósókn og fiskigangan óvenjulega treg, og langt að ná til hennar; allir eiga því því með langminnsta móti af fiski. Heyskapur manna varð að lokunum mjög endasleppur, því bæði riðu að rigningarnar og ótíðin löngu áður en honum var lokið, og svo misstist fólkið svo víða frá verkum um þær mundir vegna veikindanna. Eigi óvíða varð heyið úti undir snjó og gaddi, og náðist sumstaðar aldrei en sumstaðar nokkuð skemmt.

[Eiðaþinghá 14.nóvember] Vorið allt var dæmalaust kalt og gróðurlaust, með frostnóttum en úrkomulítið, og fyrir það sama urðu fjárhöldin vonum betri, þó að töluvert færi af lömbunum hjá sumum, og búsmali yrði heldur gagns lítill í sumar. Já, þvílíka tíð þykjast elstu menn eigi muna eins og á þessu sumri og hausti, því sjaldan kom í vor eða sumar svo úrkoma, að það væri ekki snjór til fjalla, og oft frost á nóttum niður í byggð, svo grasið var hvítt af hélu á túnunum um hásumarið. Enn þó tók yfir 9. og 10. ágúst, því þá var hér dimmviður og kafsnjór, svo kúm og ám varð að gefa inni, og hér varð ekki snert á heyvinnu í 3. daga. Síðan kom þolanlegur kafli; en upp úr hundadögunum gekk yfir með voðalega ótíð, ýmist þoku og rigningum eða krapahryðjum, þetta hélst þar til 16. og 17. september, þá gekk alveg í dimmviður og snjóa mörgum dægrum saman, og kom mesta kyngi af snjó, bæði hér og víða annarstaðar, en í sumum sveitum gránaði varla; hér var jarðlaust að kalla hálfan mánuð, svo sumir ráku féð burt á jörð; svo komu að vísu þíður, enn alltaf hefir tíðin verið mjög óstöðug og köld, og nú eru búin að ganga harðindi um hálfan mánuð, og kominn mikill snjór og búið að taka lömb í hús og á hey, og kýr hafa staðið hér inni síðan 20 vikur af sumri; þykir okkur heldur þungt nautgripahaldið, þegar verður að gefa kúm 40 vikur af árinu. Það flýtur því af sjálfu sér, að heyskapur muni ekki hafa gengið vel í slíkri tíð, fyrst spratt grasið mjög seint en varð þó víða í meðallagi á endanum, svo heyskapur byrjaði með seinasta móti; töðunum náðu flestir hröktum, en næsta litlu af útheyi, því þá dundi ótíðin á, og þar ofan á bættust almenn kvefveikindi, sem þá gengu yfir meir og minna. Í haust og vetur hafa menn verið að berjast við, að ná saman stráum sínum þegar blotarnir hafa komið, og þó eiga nokkrir töluvert af heyi úti enn; en í þeim sveitum, sem minnst snjóaði þar náðu menn heyjum sínum, eigi að síður má þó heita, að menn sé almennt illa staddir, með heybjörg þó það sé mjög misjafnt.

Þann 10.febrúar 1870 hélt Norðanfari bréfabirtingum áfram:

[Jökuldal 13.nóvember] Síðan ég skrifaði yður seinast, hafa ýmsar hretskúrir dunið yfir og skollið á oss Austfirðingunum. Sumarið varð æði endasleppt. Í 21. viku sumars þegar rigningunum linnti, gjörði frost og snjóviðri, og urðu flestar heiðar nær því ófærar. Aðalheybjörg manna, er lá á engjum óhirt huldist gaddi, útlitið var því hörmulegt og illar heimtur á fénaði. Ekki var hugsandi að reka fé í kaupstaðina fyrir fannfergjunni, hversu mikið sem þörfin og skuldirnar ráku á eftir. Um þetta leyti eða í 22. viku sumars, mátti á heiðunum víða ríða eftir vötnunum, og mun það sjaldgæft 5 vikum fyrir vetur. Skömmu fyrir veturnæturnar kom besta hláka, þá tók snjóinn víða svo, að menn hér á Jökuldal náðu heyjum sínum, og ótrúlega lítið skemmdum, en mikið höfðu þau ódrýgst, því þau voru óverjandi fyrir hrossum og fénaði. Víða í Vopnafirði inn til dala tók snjóinn aldrei svo upp, að menn gætu náð heyjum. Hinn 12.[október] gjörði hríð mikla, að kveldi þess dags, en varð þó engum að tjóni. Á Fjöllunum var veður þetta geysilega mikið, og hefir Sigurður í Möðrudal sagt mér, að hann ekki myndi eftir slíku veðri.

[Bjarnanesi í Hornafirði 24.október, var 102 daga á leið til Akureyrar] Sumarið hefir verið kalt og þurrkasamt; frost voru hér, sem þó ekki er vanalegt í júlí og ágúst. Grasbrestur var hér mikill, og allvíða vantar menn mikið til að ná venjulegum heyskap, en aftur á móti er heyið grænt og gott, og það bætir mikið um. Það má telja nýlundu, að tangi sá sem gengur fram á austanverðan Breiðamerkursand úr Vatnajökli, gekk í sumar fram til sjós með óvanalegum hraða, svo á tæpum tveim mánuðum, júní og júlí, var jökultanginn kominn fram undir sjávarkamb á fjörunni, og var alfaravegur í töpun hefði jökullinn farið lengra, en þarna hætti hann við. Svo ýtti jökullinn fast á auröldurnar, sem undan honum gengu, að þær ultu fram yfir sig, eins og snjóflóðið, og var hætta búin ef menn fóru nálægt, fyrir grjótfluginu, sem úr þeim hrundi. Um sömu mundir breytti Jökulsá á Breiðamerkursandi farveg sínum, og flutti sig austur fyrir þenna jökultanga, og samlaga sig, svonefndri Veðurá; báru þær brátt aur undir sig, og fóru að taka af túnið á Felli, sem er vestasti bær í Suðursveit, samt hugðu menn, að bænum væri engin hætta búin, og fór það fjarri, því á skömmum tíma, tóku þær (árnar) bæinn gjörsamlega af, og það með þeim hraða, að engu af húsunum varð bjargað í burtu, heldur hvíla þau úti undir 6—7 álna þykkum stórgrýtis aur. Fell var áður ein með betri jörðum hér um sveitir, en smámsaman hafði það misst mestan hluta af slægjum sínum, og úthaga fyrir vatnagang, það var því nú orðin engin tiltaka.

Þjóðólfur segir þann 12.janúar 1870:

Í dag kom hér maður norðan úr Blöndudal og færði bréf 3.-5 . [janúar]; segir í einu þeirra: „allt fylltist hér með ís á jólaföstunni", ennfremur að illviðrin og jarðbannirnar, heyskortur og bjargarskortur hafi allt farið þar vaxandi fram yfir árslokin.— Hér sunnanlands gerði 2 daga blota-hláku um sólstöðurnar, og bötnuðu hagar víða um Borgarfjörð, og í syðri og láglendari sveitunum austanfjalls, þar sem snjóa- og svellaminna var en í hálendari sveitunum varð lítil eður engi hagabót að þeirri hláku, en svellalög og hálkur meiri; í öllum láglendari sveitunum austanfjalls, einkum austan frá Þjórsá og það austur til Mýrdalssands, eru bestu jarðir og sem næst alautt; illviðri og harðindi ... austan yfir Mýrdalssands.

Norðanfari segir fréttir þann 19.nóvember:

Hér um nærsveitirnar og annarstaðar, þaðan sem fregnir hafa borist hingað, er mikill snjór kominn, og sumstaðar farið að gefa fé. Það af er vetrinum, hefir frostið orðið hér mest 9 þ.m. 13 til 14 stig á Reaumur [-16. til -18°C]. Síðan pollinn lagði, þá hefir töluvert verið dregið af fiski upp um ísinn á svo nefnda „pilka". Þá stórhríðin skall á 12.október hafði margt fólk legið við grös fram á Grímstunguheiði og Haukagilsheiði; höfum vér eigi heyrt þess getið; að nokkurn þessara hafi kalið eða orðið úti. 

Þjóðólfur birtir fréttir þann 25.nóvember

Af fjársköðunum og manntjóninu norðanlands í ofsaveðrinu 12.[október] fréttist nú lítið eitt greinilegra en fyrr hafði spurst og getið var í síðasta blaði; fjárskaðarnir í Húnavatnssýslu voru almennastir um Ásana, er fé hrakti þar í Svínavatn frá ýmsum bæjum, og í Þinginu; eins miðsvæðis í Skagafirði, beggja megin Héraðsvatna. — Báðir mennirnir; frá Flatatungu, er talið var að mundi hafa orðið úti, komu lífs fram: en unglingsmaður (frá Saurbæ) í Vatnsdal hafði orðið úti, og var hann fundinn dauður. Sömuleiðis staðfestist fregnin um, að Þorsteinn bóndi Jónsson frá Illugastöðum á Fremra-Laxárdal varð til í hríðinni, og hafði fundist dauður í Blöndu; hann hafði fyrr búið í Holtastaðakoti í Langadal.

Desember: Fremur kalt. Umhleypingar gengu og illviðri. Ís rak inn á Húnaflóa. 

Þórarinn í Reykholti segir að ár hafi rutt sig og orðið ófærar þann 3.

Þjóðólfur segir þann 9.desember:

Með Miðfjarðarmanninum ... bárust þær fregnir, meðfram úr bréfum frá skilvísum mönnum, sem rituð voru 23.-24. [nóvember], að þá hefði þar nyrðra gengið hörkur með jarðbönnum um næstliðinn 3 vikna tíma, eður sem nœst frá byrjun f.mán. [Þ.7. nóvember, 24.sunnudag e.trinitatis] hafði þar rekið í eina hina hörðustu hríð með ofsaveðri; hrakti þá mjög víða fé þar um sveitir, því við ekkert varð rábið, og menn frá fénu, er villtust og náðu eigi heimilum sínum fyrr en síðar. — Kveldinu fyrir hafði unglingsmaður sonur Gísla bónda á Fosskoti í Miðfirði, Sigurður að nafni, náttað sig í Barkarstaðaseli og fór þaðan árdegis 7. [nóvember] og ætlaði heim til sín og átti undan veðrinu, en komst aðeins rúma bæjarleið áfram, niður fyrir túnið á bænum Núpsdalsseli, og hafði orðið þar til, því þar fannst hann úti orðinn og örendur eftir veðrið. — Áþekkar hörkur hafa gengið hér syðra mestallan [nóvember], bæði um efri sveitirnar í Mýrasýslu, einkum Norðurárdal, Þverárhlíð og efri hluta Stafholtstungna, og um allar efri sveitir Árnessýslu og um miðjan [nóvember] var mestallur útifénaður kominn á gjöf um Þingvallasveit, efri hluta Grímsness, Biskupstungur og Hreppana, en miklu betri jarðir um eystri og láglendari sveitirnar. Sömu jarðleysur voru í aðsigi og ágerðust um sveitirnar fyrir austan Mýrdalssand, frá því fyrir miðjan [nóvember], svo að undir lok [hans] var fullorðið fé komið víða á gjöf þar á bestu hagajörðum og enda fullorðnir sauðir framan til í Skaftártungu, hvað þá norðar. Hina síðustu daga hefir hér syðra kyngt niður miklum blautasnjó og hagar stórum spillst í öllum nærsveitunum.

Þjóðólfur birti þann 9.febrúar 1870 bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 2.desember 1869 (nokkuð stytt hér):

Vorið var kalt langt fram á sumar og spratt grasið seint og lítið; Ísinn lá við fram í miðjan ágústmánuð. Eftir það fór hann að færast frá Austurlandi. Engin höpp fylgdu honum, nema hann hamlaði skipum, svo aðeins tveir lausakaupmenn urðu að fara inn á Seyðisfjörð og versla þar, þó þeir ætluðu annað. ... Sláttur var byrjaður í 14. og 15. viku sumars, og gekk vel fram í 16. viku (9.—11. ágúst). Þá kom áfelli og snjóaði ákaflega sumstaðar, svo gefa varð inni kúm, og varð eigi sinnt heyskap heila viku. Í sumum sveitum mátti þó slá lengst um þá daga. Eftir það kom þurrkatíð og hirtust vel töður manna og lítið eitt af útheyi. Töður urðu mikið minni en vant var, sumstaðar þriðjungi, og útengi mjög graslítið. 3. september brá til ótíðar, með rigningum og krapaveðrum, og tók ákaflega að snjóa eftir miðjan mánuðinn, svo hey manna lentu undir gaddi. 30. september þiðnaði og tók víða af heyi, svo það náðist. En batinn stóð of stutta stund og voru litlar þíður. 11. október brá aftur og gerði harðindi. 13. mánaðardaginn gerði svo mikið foraðsveður, að 2 menn urðu úti í Möðrudal og fjölda fjár hrakti þar og fennti. Þá fennti nóg fé á Jökuldal, og frést hefir úr Norðurlandi að þar hafi orðið stórkostlegir fjárskaðar. Þetta var degi áður en svaraði því, er gekk í fjárskaðaveðrið mikla í fyrrahaust (1868), þegar fórst um Austurland á 13.þúsund fjár. Nú fórst hér eigi fé til muna, nema það sem ég nefndi; um veturnætur batnaði aftur eina viku, og náðu þá sumir inn heyrudda sínum. Þó er töluvert af heyi enn undir gaddi í sumum sveitum. Síðan um byrjun fyrra mánaðar [nóvember] hafa verið megn harðindi. Í dag er komið þíðviðri.

Norðanfari birti þann 19.mars 1870 bréf úr Skagafirði, dagsett 2.desember:

Mikið tjón gjörði hríðin hér 12. október, dreif þá ógrynni í snjó af skepnum, því hríðin kom á rauða jörð þó skreið margt úr fönninni aftur, þegar blotaði, en útgjört að holdum; vantar samt enn mikið. Sjórinn gekk þá langt upp yfir takmörk sín og mölvaði andvirki manna, er staðið höfðu um langan aldur óhögguð; 14 bátar og byttur, er sagt að brotnað hafi frá Kolkuós út að Höfða, 7 þeirra fóru alveg og sást ekkert eftir af þeim.

Þjóðólfur segir í pistli þann 26.janúar 1870, m.a.:

Allan fyrri helming næstliðins desember gengu um Húnavatnssýslu einlægar norðanhríðir, með fannkomu svo mikilli, að um 20. [desember] mátti þar „heita jarðlaust mest sakir fanndýptar, svo að enda hestar gengu hungraðir".

Norðanfari birti þann 10.febrúar 1870 bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 23.desember:

[Barðastrandarsýslu 23.desember] Ég tel við hefðum af seinastliðnu sumri 3 vikur sumarveðuráttu; graslítið var hér mjög á útengi, en tún sæmileg; flestir heyjuðu í lakasta meðallagi, þó hygg ég fáa, sem engan, er fækkaði skepnum sínum en nú er veturinn kominn og heldur harðsnúinn, svo nú er búið að gefa meira hey fé, enn í fyrra um miðjan vetur. Hafís sagður kominn inn í Ísafjarðardjúp og inn í Steingrímsfjörð, svo líklega er hann fyrir öllum vesturströndum og máski Norðurlandi, og sé það, þá álít ég best að fara að fækka ásetningi, og það gjöri ég batni eigi með nýárinu. Hér er nýafstaðið grimmhríðarhret með ógnarfrosti, svo varla hefir hjá mér orðið kaldara í húsum en nú. 

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1869. Lítilsháttar upplýsingar um mælingar eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvergi kaldara yfir byggðu bóli

Skemmtileg staða uppi í dag (föstudag 24.júlí). Nokkuð heiðarlega má segja að neðri hluti veðrahvolfs sé nú kaldari yfir landinu norðvestanverðu heldur en yfir nokkru öðru byggðu bóli á öllu norðurhveli - og á suðurhveli er það aðeins yfir Eldlandi syðst í Suður-Ameríku sem kaldara er yfir byggðum heldur en hér og nú (en þar er auðvitað harðavetur).

w-blogg250720a

Greining bandarísku veðurstofunnar núna kl.18 sýnir þetta vel. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin (sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs er sýnd með litum). Dekksti græni liturinn (kaldastur af þremur - sýnir þykkt minni en 5340 metra) liggur yfir landinu norðvestanverðu. Lítillega kaldari blettir eru yfir Norður-Íshafi - en þar býr auðvitað ekki nokkur maður. Litli blái bletturinn er kaldastur - situr reyndar þar sem hafísinn er hvað þykkastur um þessar mundir - síðasta bæli síðasta vetrar - og fæðingarheimili hins næsta. 

Aftur á móti eru óvenjuleg hlýindi norðan Noregs - og stefna að hluta til til Svalbarða, þar á þykktin á morgun að fara upp í 5590 metra á morgun. Ábyggilega nærri meti á þeim slóðum. 

Kaldi bletturinn okkar nær einnig yfir grænlenska þorpið Ittoqqartoormiit við Scoresbysund. 

Þó svo virðist sem mesti kuldinn hér verði hjá eftir morgundaginn liggja spár um veruleg hlýindi ekki á lausu, en þar sem almennt er mjög hlýtt á norðurhveli gæti það samt borið við að sumarhlýindi reki hingað um síðir - og vel hægt að vona að svo verði. 

Við skulum líka hafa í huga að þó okkur finnist kalt nú er alls ekki um nein aftök að ræða, við vitum t.d. um að minnsta kosti fimm kaldari 24.júlí heldur en nú síðustu 70 árin, síðast gæðasumarið mikla 2009 - og þó slæðingur falli af lágmarksdægurmetum má einnig finna hámarksdægurmet, í dag t.d. á Kambanesi, hlýjasti 24.júlí þar í 26 ára sögu sjálfvirku stöðvarinnar þar.

Í viðhenginu má finna lista yfir ný mánaðarlágmarkshitamet á veðurstöðvunum - athugið að sumar stöðvarnar hafa aðeins athugað örfá ár og met því í sjálfu sér lítt marktæk. Talan frá Dyngjujökli, -9,5 stig er sú lægsta sem sést hafur á Íslandi í júlí - en stöðin er auðvitað í nærri 1700 metra hæð yfir sjávarmáli og þar að auki er mælirinn ekki í staðalhæð (minna en 2 m yfir yfirborði jökulsins). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þrálátur kuldapollur

Kuldapollurinn sem verið hefur í námunda við okkur upp á síðkastið virðist ætla að verða þrálátur. Hann gerir nýja aðsókn að okkur undir helgina - ekki nándar því eins vont veður þó og var um síðustu helgi en honum fylgir heldur leiðinlegur kuldi og reyndar einhver vindur líka. 

w-blogg220720a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í litum - eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni um hádegi á föstudag, 24.júlí. Græni liturinn er svæði þar sem hæðin er undir 5400 metrum - ekki sérlega lágt að vísu í júlí, en mikil lægðasveigja á jafnhæðarlínunum. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting - og þar með strekkingsvind sem mun að vísu koma ójafnt niður. Líklega verður úrkoma um landið norðanvert og skýjað víða um land. Það þýðir að næturfrosthætta er ekki mikil - en aftur á móti verður hámarkshiti dagsins ekki hár heldur.

w-blogg220720b

Hér sjáum við þykktina (hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) sýnda með heildregnum línum, en litirnir sýna hita í 850 hPa. Spáin gildir síðdegis á föstudag (24.júlí). Þetta er öllu óvenjulegra heldur en hæðarspáin, þykktin yfir landinu norðanverðu er ekki nema um 5340 metrar - það er að jafnaði ekki nema einn júlídagur af 200 svona kaldur - það er 6 til 7 hvert ár. Að vísu koma dagar af þessu tagi nokkuð í klösum þannig að atburðatíðnin er trúlega enn minni en það. En þetta er þó ekki met - það er 5290 metrar yfir landinu. 

w-blogg220720d

Hér má sjá tíðnidreifingu 500 hPa hæðar og þykktar yfir landinu í júlí 1949 til 2019. Við getum búist við lægri fleti en verið er að spá á 1 til 2 ára fresti (5 prósent mælinga eru lægri), en minni þykkt ekki nema á 6 til 7 ára fresti (eða sjaldnar). 

Hiti í 850 hPa er líka býsna lágur.

w-blogg220720c

Kortið gildir kl.24 á föstudagskvöld og sýnir hæð 850 hPa-flatarins (heildregnar línur), hita í fletinum (litir) og vindörvar sýna vindátt og styrk. Líkanið segir -4 til -5 stiga frost í dökkgrænu blettunum - og um -1 stig yfir Keflavíkurflugvelli.

w-blogg220720f

Það telst kaldur dagur (um þriðjungur daga er jafnkaldur eða kaldari) - en mesta frost sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli er -5 stig. Það var 23.júlí 1963 (dagsetning sem elstu nörd muna). Þó hiti fari vart svo neðarlega nú er hann ekkert langt undan - landfræðilega - sé að marka spána.

Það verður einnig athyglisvert að fylgjast með því hver verður hæsti hámarkshiti dagsins á landinu næstu daga.

w-blogg220720e

Línuritið á að auðvelda okkur hvernig á að meta hvað er óvenjulegt í þeim efnum. Bláu súlurnar sýna gögn sem byggja á mælingum sjálfvirku stöðvanna - og eiga þar með betur við núverandi mælikerfi heldur en þær brúnu (sem að vísu byggja á lengra tímabili - en gisnara athugunarneti). Lóðréttar línur skipta myndinni í þriðjunga - við sjáum að það telst kaldur dagur sé dagshámarkshiti landsins 17 stig eða lægri, en hlýr dagur sé hann hærri en 21 stig. Þetta stendur svo glöggt að það telst óvenjulegt nái hitinn ekki 16 stigum. Við megum líka taka eftir því að bláu súlurnar (nýi tíminn) eru langoftast hærri en þær brúnu í efri hluta hitakvarðans en lægri í þeim neðri. Þýðir þetta að það hafi hlýnað - eða er það fjölgun stöðva sem ræður?

Þetta er orðinn nokkuð langur pistill - en upplýsir vonandi einhverja um eitthvað. 


Sumarmeðalvindáttir í háloftunum

Við höfum svosem gefið þessu máli gaum áður - en það hlýtur að vera í lagi að gera það aftur - með tilbrigðum. 

Lítum á mynd:

w-blogg210720c

Ekki er hún auðveld - við fyrstu sýn, en hér má sjá slegið á meðalvindátt og meðalvindhraða mánaðanna júní til ágúst, á hverju ári síðustu 100 árin (1920 til 2019). Því lengra sem við erum til hægri á myndinni því eindregnari hefur vindur úr vestri verið þessa mánuði - hægra megin við núllið hefur meðalvindátt sumarsins verið af austri. Við sjáum að slíkt er sárasjaldgæft - gerðist 1950 (mest) en síðan líka 2015, rétt svo 2011 og 2006 og 2019 eru líka alveg við áttaskiptin. - Öll ártölin nema 1950 eru á þessari öld (dálítið merkilegt - en sjálfsagt bara tilviljun). 

Því ofar sem við erum á myndinni því meira hafa sunnanvindar verið ríkjandi það sumar. Neðan bláu línunnar hefur norðanátt ríkt. Þar sker 2012 sig úr, við sjáum líka 1928, 1929, 1993, 1952, 1951, 2010 og nokkur til viðbótar sem eru alveg á mörkunum. Þeir sem hafa lengi fylgst með veðri hafa e.t.v. einhverja tilfinningu fyrir einkennum slíkra sumra - þau eru góð fyrir grillið í Reykjavík - en kannski ekki alveg jafnhagstæð nyrðra (misjafnt þó). 

Á hægri hliðinni sker hið illræmda sumar 1983 sig úr - vestanáttin með fádæmum sterk - og sunnanáttin býsna öflug líka. Sunnanáttin var hvað sterkust 1947, 1955 og 1976 - allt fræg rigningasumur á Suður- og Vesturlandi. Þarna eru líka 1995 (heldur óspennandi) og sumarið 1940 - hefðu þjóðverjar ætlað að gera innrás það sumar með tilstyrk flugflutninga hefði slíkt ekki gengið. Heppilegur dagur til slíks kom ekki fyrr en í október (mætti kannski fjalla nánar um það síðar). 

Árin frá 2011 til og með 2019 eru merkt með rauðu letri - við munum kannski eitthvað af þeim. Til hægðarauka má á myndinni einnig sjá hallandi strikalínu - hallar niður til hægri. Við gætum til skemmtunar (aðeins) kallað hana rigningasumrastrikið - ofan við hana (og til hægri) eru rigningasumrin. Þar eru tvö rauðmerkt ár, 2013 sem og hið (já) illræmda 2018. Þeir sem sjá vel geta einnig greint bæði 1989 og 1984 - ekki skemmtileg sumur suðvestanlands.

Sumarið 1950 (austanáttasumarið mikla) var ódæma rigningasamt austanlands - enda austanátt ríkjandi. Sumarið 2015 - annað austanáttasumar - var vægast sagt óhagstætt eystra. 

Við sjáum að mjög væg fylgni (ómarktæk reyndar) er á milli styrks vestan- og sunnanáttanna. Greina má að punktadreifin er lítillega teygð upp til hægri og niður til vinstri - það vantar enn sumur þar sem norðvestan- eða suðaustanáttir eru ríkjandi. Þau eru ábyggilega til í hillum almættisins - en lítið er framleitt af þeim, trúlega vegna þess að Grænland hefur áhrif á ríkjandi háloftavinda á svæðinu - erfiðara er fyrir vind að blása þvert á það heldur en meðfram því. Við megum alveg taka eftir því að stefnuásinn þar sem punktahneppið er þéttast er ekki fjarri vestsuðvestri - eða nálægt stefnunni til Hvarfs á Grænlandi. En sumarið þegar vestanáttin verður jafnsterk og 1952 - eða sterkari og norðanáttin jafnsterk og 2012 verður ekki kræsilegt - ekki heldur sumarið þegar sunnanáttin verður jafnsterk og 1947 og austanáttin jafnsterk eða sterkari 1950 - þá mun einhver blotna vel og mikið. 

Skýrara eintak af myndinni er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í jafnvægi

Hafið umhverfis Ísland er að meðaltali hlýrra en loftið sem yfir því er, skynvarmi streymir frá sjó í loft. Á þessu ástandi eru þó undantekningar, streymi mikið af hlýju lofti langt sunnan úr höfum í átt til landsins kælir yfirborð sjávar það á leið hingað - sama á við um hlýtt loft sem hingað kemur stundum frá meginlandi Evrópu að sumarlagi - og jafnvel á það við þegar loft sem hlýnað hefur yfir sólvermdu yfirborði Íslands streymir út yfir sjó. Það síðastnefnda er nægilega algengt til þess að í fáeinar vikur að sumarlagi er sjór oftar kaldari en loft við strendur landsins. - Það er kannski hið eiginlega íslenska sumar. Á öðrum tímum árs er meðaltalið ákveðið á hinn veginn - sjórinn er hlýrri en loftið (oftast). 

Í veðurlíkönum er nauðsynlegt að reikna þessi varmaskipti lofts við yfirborð lands og sjávar út - slá á það tölum. Skynvarmaskiptin eru reyndar ekki þau einu - vatn gufar upp af yfirborði - eða þéttist á því. Geislunarferli koma líka við sögu. 

w-blogg210720a

En korti hér að ofan er tilefni þessara skrifa. Litirnir sýna skynvarmaflæði á milli yfirborðs og lofts eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að þau muni verða kl.3 nótt (aðfaranótt miðvikudags 22.júlí). Ekki mikið um að vera. Rauði liturinn - sem hvergi er sterkur sýnir svæði þar sem varmi streymir frá yfirborði til lofts - það gerist í norðvestanáttinni milli Íslands og Noregs - norðanloftið streymir út yfir eitthvað hlýrra sjávaryfirborð. Hinn kaldi kroppur Grænlandsjökuls kælir það loft sem hann fær að snerta (grænt) - annars er flest í jafnvægi. Dálítil sunnanátt við Suðausturland ber loft af slóðum hlýsjávar undan Hornafirði til norðausturs inn á kalda tungu Austuríslandsstraumsins - heimili austfjarðaþokunnar. 

Myndin er töluvert öðruvísi að deginum. Þá vermir sólin landið og varmi streymir frá yfirborði þess og í loftið. Harmonie-spákort sem gildir kl.15 í dag (þriðjudag sýnir það).

w-blogg210720b

Við sjáum enn blettinn undan Suðausturlandi - líkönin þó ekki alveg sammála. Sömuleiðis eru kælingarblettir yfir jöklunum - og hæstu fjöllum Norðurlands - þar sem enn er snjór - sólin getur auðvitað brætt hann (og gerir það) en ræður ekki við að koma yfirborðshitanum yfir núllið - snerting við loft er því kalt. Á hábungu Vatnajökuls er loftið væntanlega í núlli hvort eð er (það eru engin hlýindi yfir landinu) - og yfirborðið hitar hvorki loft né kælir. - Þegar kvöldar dofna rauðu litirnir - og hverfa að mestu um miðnæturbil. Upplausn harmonie-líkansins er þó það miklu betri en líkans evrópureiknimiðstöðvarinnar að við sjáum bæði græna og gula bletti á næturkortunum. 


Nætursvali

Hitinn er fljótur að falla á nóttunni í heiðskíru veðri - sérstaklega yfir þurru landi. Frost er allalgengt við jörð í júlímánuði - jafnvel um landið sunnanvert, en ekki á hitamælum í staðalhæð, 2 metra frá jörð. Frost hefur þannig aldrei mælst í hitamælaskýli í Reykjavík í júlí. Lægsti lágmarkshiti sem við vitum um í júlí á veðurstöðinni í Reykjavík er 1,4 stig - sem mældust við flugvöllinn aðfaranótt þess 25. árið 1963. Við vitum hins vegar af frosti í júlí í nágrenninu, þann 18.júlí 1983 mældist frostið -1,7 stig á Hólmi fyrir ofan Reykjavík, og -0,3 stig á Korpu þann 25.júlí 2009. Síðastiðna nótt fór frostið -2,1 stig á stöð Vegagerðarinnar við Sandskeið, það er þá nýtt lágmarksmet fyrir höfuðborgarsvæðið í júlí. Sandskeiðsstöðin hefur verið á þessum stað frá 2012 - hún hitti næturnar köldu árið 2009 ekki (þegar kaldast varð á Korpu). 

En eins og áður sagði getur orðið mun kaldara niður við jörð. Lægsta lágmarks við jörð sem við vitum um í Reykjavík er -5,9 stig, 8.júlí 1985 og -10,8 stig við Korpu 25,júlí 2009. Næturfrostin seint í júlí 2009 voru mjög óvenjuleg og ollu miklu tjóni víða í garðlöndum. 

w-blogg200720a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir) þann 25.júlí 2009. Þetta er mjög óvenjuleg staða. Það er rétt sárasjaldan að blái þykktarliturinn (<5280 metrar) nær inn á land í júlímánuði - eins og hér, ávísun á næturfrost mjög víða. 

Þó met hafi verið sett á Sandskeiði hafa júlílágmarksmet ekki fallið víða þessa dagana - ekkert á við það sem gerðist 2009. [Féllu reyndar fáein norðaustanlands fyrstu daga mánaðarins]. En þessum köldu nóttum er ekki lokið. Við erum enn inni í kalda loftinu og verðum það víst næstu daga - ef trúa má spám. Met gætu því enn fallið - og gera það sjálfsagt á fjölmörgum stöðvum. 

Við getum (kannski til samanburðar við kortið hér að ofan) litið á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á fimmtudaginn (23.júlí).

w-blogg200720b

Kuldapollurinn er mjög gerðarlegur - kannski leynist örlítill blár blettur þarna einhvers staðar rétt austur af Scoresbysundi. Þykktin yfir Suðvesturlandi nálgast þó gula litinn - fulltrúa sumarsins - en er ekki nema um 5340 metrar á útnesjum norðaustanlands. Reynslan sýnir að næturfrostahætta vex mjög fari þykktin niður fyrir 5340 metra - sé veður jafnframt bjart og vindur hægur. 

Hér má í framhjáhlaupi líka minnast á að í illviðrinu um helgina féllu líka nokkur vindhraðamet á stöðvunum. Finna má lista yfir ný met (á stöðvum sem athugað hafa í 10 ár eða lengur) í viðhenginu.

Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins er 10,7 stig í Reykjavík, -0,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -0,9 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast því í 17.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2009, meðalhiti þá var 13,5 stig, en kaldastir voru þeir ári 2018, meðalhiti 9,9 stig. Á langa listanum er hitinn í 78.sæti (af 146). Á honum er 2009 líka í hlýjasta sætinu, en kaldastir voru þessir dagar árið 1885, meðalhiti 8,2 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 nú 10,3 stig, -0,6 stigum neðan meðallags bæði 1991 til 2020 og síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti þar er í 5.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Norðurlandi eystra, þar er hitinn í 18.hlýjasta sætinu.

Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt vik mest á Skarðsfjöruvita, +0,8 stig miðað við síðustu tíu ár, en kaldast að tiltölu hefur verið í Oddskarði, þar er hiti -1,3 stig undir meðallagi.

Úrkoma hefur mælst 41,4 mm í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 30,4 mm og er það nokkuð yfir meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 125,9 það sem af er mánuði í Reykjavík og er það í rétt rúmu meðallagi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af árinu 1868

Kalt ár, en hagstæðir kaflar vor og haust björguðu miklu. Febrúar var mjög kaldur, og einnig var kalt í mars, júní, júlí, ágúst og október, en fremur hlýtt í apríl og nóvember. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,8 stig, 0,3 stigum ofan meðalhita næstu tíu ára á undan. Þó mælingar úr Reykjavík séu nokkuð óvissar virðist sem meðalhiti þar hafi verið um 4,1 stig. Árið áður var hitamunur stöðvanna tveggja hins vegar minni. Lítið var um mælingar um landið norðanvert þetta ár.

ar_1868t

Níu dagar teljast mjög kaldir í Stykkishólmi, 17. og 18.október hvað kaldastir að tiltölu, en einnig 8., 9. og 10. ágúst. Enginn dagur telst hafa verið mjög hlýr. 

Úrkoma mældist 741,7 mm í Stykkishólmi, talsvert meiri en árið áður. Að tiltölu var úrkomusamast í júní, en úrkoma var einnig mikil í febrúar, júlí og október. Mjög þurrt var hins vegar í desember og einnig var þurrt að tiltölu í ágúst og nóvember.  

ar_1868p 

Þrýstingur var óvenjulágur lengi vel, sérstaklega í mars, maí, júní og október, en hæstur að tiltölu í september. Þrýstiórói var sérlega mikill í febrúar og hann var einnig mikill í júní. Er það nokkur vísbending um hvassviðrasama tíð. Aftur á móti var óróinn lítill í september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 13.mars, 956,5 hPa, en sá hæsti mældist þann 18.nóvember, 1039,1 hPa. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.  

Janúar. Tíð þótti afbragðsgóð í janúar, nema helst var kvartað undan hvassviðrum á Snæfellsnesi. Þegar leið á mánuðinn skipti rækilega um veðurlag, tímarit Skoska veðurfræðifélagsins hefur eftir Árna Thorlacius í Stykkishólmi að við hafi tekið tveggja mánaða nær samfellt hríðarveður. 

Frá Flögu í Þistilfirði: „Var mjög snjólítið eftir hið besta tíðarfar í desember 1867 og reyndar frá veturnóttum“.

Baldur segir 9.janúar:

Árið (1868) byrjaði hér með stormi og rigningu, gjörði ofsaveður á nýárskvöld, svo að kaupfarið „Spica“ (44 1/2 lest), er sent var hingað til þess að sækja saltfisk til consuls Siemsens, sleit upp af höfninni og rak upp á kletta hjá Örfarsey; var skrokkurinn sjálfur seldur við uppboð 7. dag þ.m. fyrir 217 rd.

Þjóðólfur segir þann 13.janúar:

Í ofsalandsynningsveðrinu á nýársdagskvöld, slitnuðu sundur aðrar akkerisfestarnar er skipið Spica lá við hér á höfninni, tók hana þá brátt að reka fyrir ofveðrinu, er eigi voru nema einar festarnar eftir, fyrst á „grandann“ og vestur af honum, fóru þá skipverjar til og hjuggu burtu möstrin niður við þilfar, bar síðan skrokkinn upp í Hólmana (vestur af Örfarsey) og brotnaði þar.

Tíðarfarið hefir verið svo einmunagott þenna fyrsta hálfa mánuð af nýja árinu, að elstu menn muna vart jafn einstaka og stöðuga veðurblíðu fyrra hluta janúar: frostlaust nótt sem dag, og jörð hér syðra alveg snjólaus yfir allt, þar til lítið föl kom í morgun, og þelalaus; færð eins og þegar þurrast er um á sumardag. Um veturnæturnar kom allmikill hafís inn á Ísafjarðardjúp svo að óskipgengt var Djúpið um nokkra daga en fór svo aftur, og þykir þar vita á góðan vetur að hann kom þar inn svo snemma.

Norðanfari birti þann 21.mars bréf ritað á Grundarfirði 15.janúar:

Veðuráttufarið hefir verið einstaklega bágt, sífelldir umhleypingar, rok og rigningar, frost og kraparegn til skiptis, oft á sama dægrinu. Illviðri þessi hafa valdið því að fiskafli er víða hér mjög lítill, og hey mjög drepin og skemmd, meira og minna.

Norðanfari birti þann 15.febrúar bréf úr Langadal í Húnavatnssýslu dagsett 22.janúar:

Tíðarfarið hefir eins og allir hérlendir menn vita, verið að mestu það af er þessum blessaða vetri, svo gott að fá eru dæmi til, og það ekki í næstliðna 35 vetur [síðan 1833?]; alltaf að kalla þíður og auð jörð millum fjöru og fjallatinda, svo að vinna hefði mátt sem oftast að húsastarfi, garðhleðslu og jarðyrkju. Allur búpeningur, nema kýrnar á básunum, gengið sjálfala fram að jólum, og þar sem landkostir eru góðir allt fram að miðjum vetri. Í næstliðnum desember voru á Víðikeri í Bárðardal, sem þar er meðal fremstu bæja, heyjaðir 27 baggar af ísastör. Þar í grennd var sagt að kýr hefði um þær mundir gengið úti. Í Skagafjarðardölum og víðar, sást í janúar 1868, víða sprungið út á víði og fjalldrapa. Sama árgæskan hefir að kalla verið í sjónum nær því umhverfis land allt.

Baldur segir 7.febrúar:

Síðan „Baldur“ kom út seinast hefur lítið gerst til tíðinda, því fáförult hefur verið lengra að, nema nokkrir norðlingar, sem komið hafa suður til sjóróðra, geta þeir eigi annars, en sama veðuráttufars og hér; — kvefveikin hafði gengið þar líkt og áður. Sæmilegur fiskiafli hafði verið í haust og fram á vetur við Strandir og á Hrútafirði, minni við Skagaströnd og Vatnsnes. Snemma vetrar hafði hafís komið við Strandir, en rekið skjótt burtu aftur. Fram að 23. [janúar] voru hér stillt veður, en frost nokkur, hæst 10—12°, sást þá fyrst snjór, en með Pálsmessu [25.janúar] og þar eftir, gerði útsynninga, og dreif niður snjó mikinn, og eru því jarðbannir.

Úr bréfi úr Húnavatnssýslu er svo skrifað: „Veðráttufar og tíðarfar er hér um sveitir eitthvert hið blíðasta og besta og skemmtilegasta, sem hugsast getur“.

Febrúar. Kalt var og umhleypingasamt. Snjór töluverður um landið vestanvert, en minni eystra og betra tíðarfar þar.

Á Flögu í Þistilfirði 6.febrúar: „Hafís rak að landi“. 

Baldur birti 23.mars bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 13.febrúar:

Eins ágætur vetur fram að þorra, og þessi hefir verið, hefir nú eigi komið síðan 1804—5, 1818—19 og 1832—33 um Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslur. Í Þingeyjarsýslu var meðaltal hitans í októbermánuði (1867) 1°, í nóvember 1/3°, í desember 1°, í janúar (þ.á.) 3°, í febrúar hæst frost 12° til hins 8. dags, en þá 16—20°. Engir hafa nafnkenndir dáið. Maður einn varð úti hjá Syðri-Haga í Eyjafirði; hann hét Bjartmar; það varð í þeirri einu hríð er á þorranum kom.

Þann 18.júní birti Norðanfari bréf ritað í Snæfellsnessýslu 24.febrúar:

Á þessu ári (1868) eru mér tvö rokviðri minnilegust; 1. janúar og 5. febrúar, sem bæði urðu hér að tjóni, af því sem ég áður gat um, má ráða, að vetrarundirbúningurinn var hér ekki búmannlegur, enda eru þegar farnar að heyrast umkvartanir um heyleysi, þó gjafatíminn byrjaði ekki fyrri en litlu fyrir miðjan vetur. En síðan umskipti með þorrakomunni hafa sjaldan komið kafaldsupprof, svo fanndýptin er hér orðin í mesta lagi og ófærð að því skapi ókleyf. Ávextirnir af áminnstum rokviðrum, eru meiri skemmdir á ýmsum jörðum hér en á öllum undanförnum árum síðan 1850, til samans teknum, svo t.a.m. þrjár af þeim mega teljast með ollu óbyggilegar, tveim árum áður var ein af þeim skástu farin með sama móti, svo ég má segja líkt og haft er eftir konu Axlar-Bjarnar, „heldur saxast á limina hans Björns míns".

Baldur segir frá 28.febrúar:

Með ferðamönnum, sem nýlega hafa komið norðan úr Eyjafirði, hefir það frést, að fram til þorrakomu hafi verið hin æskilegasta tíð um allt Norðurland, svo að um nýár hafi litur sumstaðar verið kominn á tún, sem á vordag. Með því skepnuhöld voru og góð, munu menn þar víðast hvar vera færir um að taka á móti útmánuðum, þótt þeir yrði nokkuð harðir. Aftur hafði litið illa út þar, eins og víða annars staðar um land, með bjargræði, þar sem málnyta var lítil eftir sumarið, en kornbirgðir litlar í kaupstöðum, enda er verð á kornvöru svo, að fátæklingum er um megn, að kaupa hana, en kaupmenn tregir á að lána. Mun þetta með fram vera orsök til þess, að menn sækja hingað venju fremur til sjóróðra. En hér er litlu betur ástatt, svo til vandræða horfir, ef eigi verður afli góður. Með þeim fréttist og, að eldur hefði sést á gamlársdag, á sama stað og í sumar. Þá hafði og orðið vart við jarðskjálfta í Norðurlandi; bar eftir því meira á honum sem austar og norðar dró; höfum vér heyrt, að hús hafi hrunið á Húsavík. Eldur þessi hafði og sést um sama leyti vestan af Mýrum. Menn skyldu hafa ætlað, að austanpósturinn, sem kom hér 23. þ.m., mundi færa oss nákvæmari fregnir um hann, en það varð þó eigi; enda höfum vér eigi fréttir austan yfir Skeiðarársand frá því fyrir jól. — Austanpósturinn, Sigurður Bjarnason, kom hingað 23. [febrúar] Hafði hann verið lengi á leiðinni og fengið slörkutíð. Var hann öðru hverju hríðtepptur sakir illviðra og snjóa, er hann hreppti næstum hvern dag. Taldi hann megn harðindi og snjóa síðan um þorrakomu allt austur úr, en afbragðstíð til þess. Harðæri hafði verið manna á meðal, einkum í Meðallandi og Álftaveri, svo að fólk var þar farið að skera skepnur til matar sér þótt nógar væri heybirgðir.

Úr bréfi úr Múlasýslu er svo skrifað 17. des. [1867]: „Héðan er ekki að frétta nema einstaka tíð. Vér höfum varla séð hér snjó. Frost hafa komið hér mikil og ákafir stormar, er þó hafa sjaldan staðið meira en dag; annars hafa verið suð-vestan-blíður. Nokkur afli hefur verið á Reyðarfirði, og er enn úti í firðinum, og mokafli í Norðfirði. Hvergi er hér í fjörðum farið að kenna lömbum át“.

Hér á suðurnesjum hefir frá þorrakomu verið mjög stirð tíð; nálega sífeldir stormar og snjókomur; hefur því eigi gefið að leita fiskjar, þótt ætlan manna sé, að afli kunni að vera fyrir.

Ekkja nokkur öldruð, frá Vatnshlíð [?] á svonefndum Múlabæjum í Húnaþingi, hafði farið frá heimili sínu til næsta bæjar, laugardag 8. febrúar, gjörði þá kafaldsbyl, og hefur hún eigi fundist að því, er síðast fréttist. — Sjóróðrarmaður að austan ætlaði úr Keflavík suður í Hafnir, varð hann úti á þeirri leið.

Baldur birti þann 28.mars úr bréfi sem dagsett var í Snæfellsnessýslu 23.febrúar:

Tíðarfarið hefur verið framúrskarandi stirt síðan þorri byrjaði, höfuðáttin hefur verið útsynningur, þó oft hafi leikið á öðrum áttum stund og stund, fannkoman hefur verið áköf, og nú í dag, sem er fyrsti dagur góu gömlu, er útsunnanveður með skafrenningi og alveg jarðlaust; sumstaðar hér í kring hefur fé staðið inni í 3 vikur. Undan Jökli er að heyra alveg fiskilaust, og eru slíkt mikil bágindi. Um miðjan þorra urðu hér 2 stúlkur úti milli bæja í sunnanbyl, er skall á; sama laugardagskveld varð gömul kona úti á Hrútafjarðarhálsi. 

Þjóðólfur greinir frá árferði 29.febrúar:

Fram til þorrans framhélst hin sama einmuna veðurblíða er skýrt var frá í f.mán.; en fremur var hrakviðrasamt á hrosspeningi hér sunnanlands fram til jólanna; veðurblíða þessi náði yfir gjörvallt land að því sem spurst hefir, og hitinn virðist að hafa verið öllu meiri norðanlands um þetta tímabil, því t.d., í Hegranesi var daglega +4 til 6°R. [6 til 8°C] fyrstu vikuna af árinu. Harðindin dundu yfir með þorranum og hafa haldist fram á þenna dag með einu hinni mesta og jafnasta fannfergi sem menn hafa hér af að segja, svo að hér sunnanlands eru nú viða jarðbönn yfir allt, en aftur víðast jarðir uppi fram til miðs þessa mánaðar bæði norðanlands og um Dalasýslu, þegar ástöðuveður var. Mjólkurhey reynast víðast næsta létt og þar af leiðandi málnytuskortur og fremur skart manna í milli til sveitanna; mest mun samt kveða að því um Vestur-Skaftafellssýslu, enda biðu þeir annan verulega bjargræðishnekki í haust þar sem „melurinn" eður sú kornuppskera þeirra brást að mestu eður öllu. — Gæftalaust um öll nes til þessa; hvergi undir Jökli komið á sjó gjörvallan þorrann.

Mars: Kalt, nokkuð umhleypingasamt, en þó talin skárri tíð heldur en í febrúar.

Á Flögu í Þistilfirði: „Þennan mánuð voru mjög mikil harðindi. 1.mars rak hafís á fjörðinn; 23.mars, hafísrek og frost mikið; 28.mars, rak hafís úr landsýn“. 

Baldur birti þann 23.mars úr bréfi sunnan úr Garði, dagsett 6.mars:

Síðan þorranum sleppti og sjófært hefir verið stundum, hefir lítill verið aflinn, lítið eitt á Vatnsleysuströnd, og nokkuð um Voga og Njarðvíkur. 

Norðanfari birti þann 21.mars bréf ritað í Húnavatnssýslu 8.mars:

Mikið hefir tíðin verið óstöðug og hríðasöm síðan með þorra og lítið orðið notuð útbeit, þó jarðir hafi verið, sem nú eru víða orðnar litlar, og víðast búið að taka hross flest, þessa viku eða næstliðinn þriðjudag, gjörði blota er rýmdi ögn um hnjóta sumstaðar.  

Þjóðólfur segir frá 18.mars:

Síðan um miðja 1.viku góu og frá byrjun þessa mánaðar hefir veðráttan að vísu verið miklu spakari, frostvægari og minni snjókoma yfir höfuð víðsvegar hér sunnanlands, heldur en var á þorranum að minnsta kosti allt fyrir utan Ölfusá, en allmikill snjór féll framanverða miðgóu um allar sveitir milli Ölfusár og Markarfljóts, en lengra að austan eru engar fregnir yngri en um miðjan [febrúar]; óvíða komnar upp jarðir þar eystra né hér, síst að neinum mun, og víðsvegar að bæði austanfjalls og beggja vegna Hvítár þykir almennur heyskortur, fóðurvandræði og peningsfellir liggja opin fyrir ef eigi raknar úr hinum almennu jarðleysum með eindregnum bata nú upp úr góunni. — Þorraharðindin spyrjast hin sömu eður mjög lík og hér um allan vestari hluta Norðurlands eður norður til Eyjafjarðar, en þar virðist hafa verið miklu snjóminna, enda einnig frostvægara heldur en hér, og úr Þingeyjar- og Norðurmúlasýslu er sögð öndvegistíð með allt slag fram til miðs [febrúar]. — Undan Jökli er oss í bréfi 25. [febrúar] skrifað hið sama af harðindum til landsins og bjargleysum, eins og hér er syðra, og að almenningur hafi eigi hey lengur en út góuna ef eigi komi bati fyrr.

Norðanfari segir þann 21.mars:

Fyrir jólaföstuna hafði hafís rekið að Vestfjörðum og inn á á mitt Ísafjarðardjúp, en fór þaðan eftir vikutíma, og hefir eigi sést síðan. Með þorra komu fór veðráttu hér nyrðra og í hinum fjórðungunum, að svo miklu vér höfum frétt, helst að kólna og spillast bæði með snjókomu, hvassviðrum og frostum, sem síðan hefir oftast haldist, þó nokkrir dagar hafi verið frostlinir eða þíðir, er hleypt hafa í gadd, svo víða varð jarðskart, líka vegna snjóþyngsla. Frostið varð hér mest þá kom fram í febrúar, og á Akureyri 7. s.m. rúm 20 stig á Reaumur [-25°C]. 4. og 5 febrúar skall á fyrst eystra og svo hér nyrðra, hin mesta landnorðanstórhríð er komið hefir í vetur með ofsaveðri, snjókomu og 7 gr. frosti, urðu menn þá víða úti; suma af þeim kól, svo við limatjóni lá og nokkrir sem biðu bana. Eftir fréttum, sem nýlega hafa komið hingað af Sléttu og Langanesi, hafði töluverðan hafíshroða rekið þar að á dögunum, en eftir fáa daga rekið þaðan úr augsýn. 

Þjóðólfur segir þann 24.mars:

Með fregnunum um jarðleysurnar yfir allt hér sunnanlands og i Borgarfirði, — og allir sjá að snjókyngið og jökullinn hefir aukist daglega um næstliðinn vikutíma, — berast jafnframt æ hátalaðri og ískyggilegri fregnir um almennan bjargarskort til sveitanna manna í milli.

Norðanfari birti þann 15.apríl bréf úr Skagafirði og af Langanesi:

[Skagafirði 13.mars]: Tíðin hefir mátt heita hin besta, þótt lítið hafi verið um þíður síðan með þorra, og fremur umhleypingasamt. Útigangspeningur hefir því töluvert látið hold, og hestar víða hvar nú í engu betra ef eigi verra útliti, en í fyrra um þetta leyti, heyin, hvaðan sem til spurst hálfu lakari og léttari en í fyrra, og þótt séu með góðri verkun. Allt um það þó góð sé tíðin örlar á heyleysi hér í sumum sveitum, svo sem Blönduhlíð og Tungusveit.  

[Langanesi 25.mars]: Tíðin gengur jafnt yfir innra og hér, jarðlítið er hér nú víðast og jarðlaust sumstaðar. Ís kom hér seint í janúar en fór aftur, skildi hann aðeins eftir klakagarð í fjörum, og gjörði þær ónýtar til beitar. Í fyrradag kom ísinn aftur, og fyllti Axarfjarðarflóann, en flæktist mest allur burt aftur. 

Baldur birti þann 30.apríl bréf úr Rangárvallasýslu (ódagsett):

Þótt ég vildi láta yður fá um leið dálítinn fréttapistil, þá verður hann efnislítill því ekkert ber sérlegt til tíðinda hér um nálægar sveitir, nema hið bágborna tíðarfar, sem að líkindum gengur nokkuð jafnt yfir, að minnsta kosti hér sunnanlands; veturinn hefir verið hér úrskurðarmikill, hann mátti fyrst heita afbragðsgóður allt fram að þorra, en þá dundu á snjóar og illveður með stöðugu jarðbanni, sem hvorttveggja viðhélst fram í fyrstu viku góu; þá fór að spekja veðrið en sjógangur og jarðleysa hélst enn hið sama alla góuna og allt til þess 27. og 28. [mars], þá kom góður veðrabati svo jörð mátti heita alauð að viku liðinni og varir þessi æskilegi veðrabati enn í dag, svo nú sést ekki að kalla snjór í byggð. Þessi veðrabati var því dýrmætari, sem menn voru í langlakasta lagi undir búnir að taka á móti löngum og ströngum harðindum, og ég má segja að jafn illur undirbúningur, sem nú, hefir ekki átt sér stað um undanfarin ár, þó slitrótt hafi þótt með eitt og annað; sumarið var bæði grasleysis- og mesta rosasumar, haustið rigningasamt, svo þessi litlu hey og hröktu eyðilögðust fyrir þær i görðum, enda hefur fénaður fóðrast nauðailla og fengið víða ýmsa ótjálgni framar venju, svo fénaðarhöld eru almennt í slæmu horfi, heyskortur almennur, en þar af leiðir að menn verða að sleppa langt um of snemma hendinni af fénaði illa fóðruðum til þess að lifa af jörð eingöngu, enda þó hún ekki brygðist. Það bar margt til þess í þetta sinn, að heyið mundi verða viðsjált til fóðurs; það náðist svo að segja enginn baggi óhrakinn eða ókvolaður í garð, og svo komu þær miklu haustrigningar áður en menn gátu gengið frá í görðum, en ekki hvað minnst tilefnið mun þó hafa verið frostin, sem voru framar venju í fyrravor um gróandann, því ég hefi áður veitt því eftirtekt, að mikið frost um gróandann ónýtir grasið bæði til fóðurs og ávaxtar að fullum þriðjungi. Þessar illu afleiðingar hafa ekki síður komið fram í þetta sinn á kúnum, því þær hafa almennt ekki gjört hér meir en hálft gagn, en þar af hefur leitt stórkostlegan bjargarskort manna á milli framar venju, og þar á ofan er nú aflaleysið af sjónum, því hér fyrir öllum Rangársandi hefir ekki enn í dag verið á sjó komið á þessari vertíð; skip þau, sem héðan fara til sjóróðra í Vestmanneyjar, komu þangað ekki fyrr en í miðgóu, og sum ekki fyrr en í fyrstu viku einmánaðar, og þá með illan leik, þar sem færur þeirra margra sitja uppi enn í dag; Úr Vestmanneyjum varð landferð í miðgóu, og var þar þá fiskilaust, en í kaupstöðum þar var bæði að fá kornvöru og aðrar nauðsynjar með kauptíðarverði.

Þjóðólfur segir af skiptapa í pistli þann 18.apríl [stytt hér]:

Miðvikudaginn var, 15. þ.mán., reri almenningur hér innra en hvessti harðan á landsunnan þegar að hádegi leið og herti veðrið eftir því sem uppá daginn kom; voru það því eigi fáir hér af Seltjarnarnesi, þeirra er vestur höfðu róið, er eigi náðu lendingu; nokkrir hleyptu í Seltjörn og settu þar upp, en þrennir hleyptu uppá Akranes. Eftir því sem svo reyndist, hefir og sú verið fyrirætlan Jóns Eyjólfssonar tómthúsmanns á Steinum hér í Selhverfinu; hann reri um morguninn við þriðja mann á 4 manna fari, því 4. hásetinn sem ráðinn var, Jón bóndi á Reynisvatni, var að vísu alkominn hingað frameftir til sjóar kvöldinu fyrir, en atvikaðist svo, að hann fór eigi rakleiðis að Steinum um kvöldið, þar sem hann ætlaði að liggja við og náði svo eigi í róður um morguninn. En í suðurleið af Akranesi, daginn eftir, varð þetta skip Jóns Eyjólfssonar fyrir þeim á hvolfi og með segli og fokku uppi, og hvorttveggja rígbundið, og þótti þá auðséð hvað orðið var, að þeir myndi hafa kollsiglt sig og farist þarna allir 3.

Apríl. Fremur hlý og hagstæð tíð. 

Norðanfari birti 18.júní bréf úr Dalasýslu, dagsett 23.apríl:

Hér voru jarðleysur frá þorrabyrjun til þess viku af einmánuði, síðan hefir verið öndvegis tíð, og var þess, ekki vanþörf, því að heyjaskortur var hér orðinn venju framar, þó ekki væri orðin innistaða nema hérum 10 vikur; ollu því bæði létt hey, og skemmdir af haustveðuráttu. Harðæri, er svo mikið af bjargarskorti að elstu menn muna ekki annað meira, og ekki lítur út fyrir að batni þó að verslun byrjaði í Hólminum með nýkomna vöru.

Þjóðólfur segir 9.maí frá nokkrum vetrarslysförum:

Fyrr á þorranum urðu 2 mæðgur af Skógarströnd, úti á Narfeyrarhlíð, stúlkan var aðeins 11 vetra. — Um miðþorraleytið var unglingsmaður um tvítugt, Pétur að nafni, sendur frá Bjargi við Hellna með hest ofan til sjóar til að sækja hákarl; gaddbylur var og herti veðrið, svo hann missti frá sér hestinn út í veðrið, og hefir líklega farið að leita hans — og fannst hann látinn nokkrum vikum síðar eftir ítrekaða leit. — Sunnudaginn 22. mars (seinasta sunnudag í góu) var norðanlands einn hinn versti og harðasti gaddbylur þegar uppi á daginn kom, en allspakt veður fyrst um morguninn; þá hrakti fé víða um Skagafjörð, og var sagt í lausum fréttum, að nálægt undir 100 fjár frá Stóru-Gröf í Sæmundarhlíð og frá nálægum bæjum, hefði hrakið fram í Víðmýrargil og fennt þar og sumt orðið til undir fönninni; þá hrakti nálega 50—60 sauði frá Stafni í Svartárdal ásamt smalamanninum, 18—20 vetra; eftir ítrekaðar leitir fundust allir sauðirnir lifandi, nema einn, lengst fram á fjöllum, en smalamaðurinn var enn ófundinn þegar síðast spurðist.

Baldur segir frá 15.maí:

Af Norðurlandi er það helst að frétta, að þar er alveg hafíslaust með öllu Norðurlandi og Austurlandi, þó hefir sést til hans aðeins, svo sem sjá má af bréfi frá Seyðisfirði. Veðráttan hafði síðan á páskum [12.apríl] verið einkar góð, eins og hér sunnanlands hefir verið, en skepnuhöld betri þar, en hér eru. Hákarlaskip lögðu þar út þegar úr páskum, en voru eigi komin aftur.

Úr bréfi af Seyðisfirði 27. mars: „Veturinn hefir mátt kallast ágætur um allt Austurland, einkum fram að þorra, því að þangað til getur varla sagst að snjór hafi sést; en síðan hefir verið umhleypingasamt, en aldrei miklar snjókomur. Hafísinn hefir sést úti fyrir norðurfjörðunum, en nú eru suðvestan-stormar, og rekur hann því langt í haf aftur sem betur fer“.

Maí. Tíð þótti almennt hagstæð. Hret kom þó í lok mánaðar. 

Þorleifur í Hvammi segir þann 30.maí: „Snjóaði að nóttu í sjó niður“. 

Þann 18.júní birti Norðanfari bréf dagsett í maí:

[Húnavatnssýslu 15.maí] Ekkert er nú að segja héðan nema allt hið besta, hvað tíðarfar snertir og veðuráttu. Hún hefir verið hér hin æskilegasta síðan á páskum. Reyndar hefir verið nokkuð þurrviðrasamt og þyrrkingar, svo túnin voru hvít, og allt harðlendi skrælnaði, en fyrir rúmri viku síðan hefir komið breyting á þetta. Við og við hafa komið hægar vætuskúrir með þoku á nóttum, svo tún eru farin töluvert að spretta víðast hvar.

[Skagafirði 20.maí] Héðan er fátt að frétta, vorið hefir verið hér eitthvert hið hagstæðasta, þó næturfrost hafi verið töluverð fram til hins 6. [maí] Nú er hér kominn nægilegur sauðgróður, svo það lítur fremur líklega út með fénaðarhöld, þar sem hann gekk bærilega undan; í dag læt ég rýja allt mitt geldfé. Fuglafli er sagður góður þessa daga við Drangey, en ekki hefir hér enn orðið fiskvart.

Júní. Nokkuð hretasamt og úrkoma víða mikil. Kalt, sérstaklega um landið vestanvert. Skárra þó nyrðra.

Þorleifur í Hvammi í Dölum segir þann 14.júní: „Snjóaði að nóttu á fjöll og láglendi“. Á Flögu í Þistilfirði segir þann 9.: „Varð síðla vestanhríð“. Séra Þórarinn Kristjánsson í Reykholti í Borgarfirði segir að þar hafi snjóað aðfaranótt 2.júní og þann 10.gerði alhvítt um stund fyrir hádegi í miklu útsynningséli - og sömuleiðis gerði þar kafaldsél þann 15. og krapaél næstu daga á eftir. Fjóra daga taldi hann þurra í júní.

Norðanfari segir af hafís 18.júní:

Hafísinn hefir að öðru hvoru verið meiri og minni, einkum fyrir Hornströndum og allt austur undir Grímsey, og hamlað sumum hákarlaskipum afla, sem flest hafa komið heim, úr fyrstu og annarri ferð sinni.

Norðanfari segir frá 4.júlí:

[Þann 10. júní] kom Sveinn póstur Sveinsson hingað að austan, einnig fyrrverandi póstur Níels Sigurðsson ... Ferðamennirnir að austan, sögðu engar nýjungar, nema að þá voru, er þeir fóru að heiman, búnar um tíma, að ganga dæmafáar rigningar. Víða höfðu hlaupið skriður og skemmt tún og engi. einkum á Skógum í Mjóafirði, hvar tún og engi tók að mestu af, en bærinn hafði þó staðið óhaggaður.

[Úr bréfi úr Húnavatnsýslu, 10.júní] Ekkert er héðan merkilegt að segja, nema tíðin var hér einstaklega góð, frá því ég skrifaði yður, litlu eftir krossmessuna og fram um mánaðamót [maí/júní], þá varð hret nokkurt fyrir hvítasunnuhátíðina [31.maí], og svo eftir hana fyrir Trínitatis. Snjóaði þá víðast á láglendi, og sumstaðar varð fönnin svo mikil, að hana tók ekki upp af túnum, fyrr en 4. og 5. dögum seinna. Ekki varð samt meint við það, hvað skepnuhöld snertir svo ég viti, og ekki gjörði það túnum mikið til, einkum þar sem snjórinn lá á, því þar gat síður kalið. Núna eftir Trínitatishátíð, hefir aftur slegið upp í kuldahret, og snjóað víðast á láglendi, og tekur þessi kuldi æði mikið uppá geldféð nýrúið og svo lambféð, samt er því næstum óhættara þar sem er í góðu standi og vel hirt.

Þjóðólfur segir af skipbroti í pistli þann 10.júlí:

[Þ. 29.júní] var hér fremur spakt veður og úrkomulaust framan af, en þegar leið að hádegi, fór að ganga skúrum og reka á stinnings hryðjur af vestri útsuðri, og herti vindinn þegar á daginn leið og gjörði nokkurt brim. Norska timburskipið „Falkeri", er kom hingað 22.[júní], lá þá hér á höfninni meðal margra fleiri skipa, og eigi nema fyrir einu akkeri þá, en hafði upp undin flest segl sín, til þerris, meir en til hálfs; en einmitt er svo vildi til um miðdegisleytið að skipstóri var genginn á land og allir aðrir skipverjar, nema kokkurinn einn, voru og farnir frá borði með timburbát, þá rak í eina skúra-hryðjuna er fyllti öll segl, sleit akkerisfestarnar, og rak svo skipið austur í Arnarhólsklettana áður en við yrði snúist að bjarga; lá svo skipið þar og lamdist við klettana, þar til því varð náð á flot um kveldið og komið aftur út á höfn; en þá reyndist skipið brátt svo laskað, að eigi væri sjófært, og var því selt fram í hendur réttarins með rá og reiða til uppboðs.

Júlí. Mjög rigninga- og kalsasamt veður. Skárri kaflar komu þó fyrir norðan. Í Reykholti segir Þórarinn að sjö dagar hafi verið þurrir. 

Þorleifur í Hvammi segir þann 29.júlí: „Næturfrost með hélu kl.5“ (að morgni),

Baldur segir frá 11.júlí:

Úr Múlasýslu hefir frést ágæt veðurátta og grasvöxtur í betra lagi. Skepnuhöld kváðu og hafa verið þar góð, en heilsufar manna í lakara lagi; hefir megn taugaveiki gengið þar um; henni hefir fylgt lungnabólga, en fáir hafa þó úr þessu dáið, þeir sem teljandi séu. ... Að kvöldi 8. þ.m. kom Björn norðanlandspóstur; gat hann eigi um annað, en gott árferði, hvað skepnuhöld snertir, og grassprettu álitlega, góðan hákarlsafla og fiskvart, ef eigi væri beituvant; heilsufar manna sagði hann allgott að norðan.

Norðanfari segir þann 18.júlí:

Af Vesturlandi fréttist hingað nýlega, með hákarlaskipunum, er komu vestan fyrir Strandir og af Ísafirði, að tíðarfarið þar í vor hefði verið miklu kaldara en hér, og stundum frost og hríðar þá hér var gott veður. Í hretunum fyrir og eftir hvítasunnuna [31.maí], hafði komið feikna fönn. Gróður og grasvöxtur var því þar miklu minni en hér nyrðra. ... Allt til skamms tíma, voru hafþök af ís upp fyrir dýpstu hákarlamið, og alltaf stormar og kuldar, og stundum hríðar til hafsins, þótt á landi hafi verið gott veður. ... Tún eru sögð orðin með besta móti. Þeir fyrstu hér, byrjuðu slátt á mánudaginn í 10. vikunni, og svo hver af öðrum.

Þjóðólfur lýsir rigningatíð í pistli þann 30.júlí:

Síðan um hvítasunnu [31.maí] en þó einkum síðan um Trínitatis [7.júní] hafa gengið lotulaus votveður og rigningar allt til 27. þ.mán., og það svo, að hér syðra hafa eigi komið nema einir tveir þerrir dagar frá morgni til kvelds á öllu þessu tímabili, en margir dagar svo í röð, og vikum saman, að eigi tók af steini. Þessi sama rigningatíð hefir gengið um Dali, umhverfis allan Breiðafjörð, um Strandasýslu og jafnvel einnig Húnavatnssýslu vestanverða, og yfir gjörvallt Suðurland austur að Mýrdalssandi; austar að höfum vér eigi fregnir ekki heldur úr Þingeyjarsýslu, en um Eyjafjörð og Skagafjörð voru miklu vægari rigningar allt framundir framanverðan þennan mánuð, sama er að ráða af bréfum af Vestfjörðum um sama leyti. Allur saltfiskur, er búið var að taka úr saltstakk og verka upp til þerris, lá fyrir skemmdum, og var orðinn skemmdur frá að vera gild og góð vara hjá mörgum manni, ekki að tala um vorafla, er ætlaður var til harðfisks; mórinn og annar eldiviður er þurrka skyldi, hefir beðið stórskemmdir og mikla rýrnun, og eldiviðarvandræðin allstaðar til sveitanna einstakleg, en miklu vægari við sjóinn hér syðra, þar sem nægð steinkola hefir verið hér að fá við vægu verði. Víða er og kvartað yfir því til sveitanna, að allur málnytufénaður en þó einkum ásauðurinn hafi gelst stórum i þessum sífeldu kalsarigningum. Kaupstaðarullin hefir og verkast fremur illa og margur lagður komið blakkur og miður þurr til kaupstaðar að þessu sinni; öllum gefur að skilja, hve erfitt hefir verið fyrir alla sveitamenn að reka kaupskap sinn og að komast um jörðina í þessari ótíð. Grasvöxtur var og er orðinn í besta lagi víðsvegar um land, og það jafnt á túnum sem útjörð; þess vegna tók almenningur nú til sláttar allt að því viku fyrr en almenn venja er til, var því einkum að skipta um Breiðafjörð og í héruðunum þar um kring, einstöku menn hér syðra tóku til sláttarins fyrir og um mánaðamótin; en sá mánaðar-hrakningur mun verða næsta rýr til mjólkurnytja, þótt hann þorni. þessa 3 dagana 28.—30. þ.m. hefir verið besti þerrir, og sýnist nú veðráttan brugðin til eindregins þurrveðurs um sinn.

Ágúst. Fremur köld tíð og úrkomusöm. Þurrkakaflar komu þó sem nýttust við heyskap, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Á Flögu í Þistilfirði segir 7.ágúst: „Brimæsingur og nær því var frost og hinn 8. eins sjávarólgan“. 11.ágúst: „Rigning aðfaranóttina en hríðarél um daginn“.   

Þorleifur í Hvammi segir þann 9.ágúst: „Snjóaði og festi á ferðamönnum“. Á 

Baldur segir af tíð 5.ágúst:

Tíðarfarið hefir hér sunnanlands verið mikið erfitt sökum óþurrka, er nú hafa gengið í nær átta vikur, og munu fáir muna meiri óþurrkatíð, er nú lifa, svo eldiviður er óþurrkaður og sumt af honum orðið skemmt, víða mór óútreiddur; sama er að segja um fisk, að menn hafa verið í vandræðum með hann. Allur vorfiskur er víst alls staðar óþurrkaður, en vetrarfiskur er víst flestur kominn undan skemmdum. Hjá þeim, sem byrjuðu hér snemma að slá tún, skemmdist taðan mikið svo vart verður að henni meira en hálft gagn, en hingað til eru það ekki nema fáeinir menn sem fyrir þessum skaða hafa orðið. Tíðin er því erfið hér fyrir mörgum, sem von er, þegar þetta bætist við þungbæra verslun; það eina, sem hér hefir hjálpað mikið, er, að hér hefir fiskast mikið af þorski og ýsu, og er ennþá góður afli. Sumar af fiskijöktunum hér í Faxaflóa hafa líka fiskað dável þorsk í seinast liðnum mánuði. Hákarlsafli hefir verið sagður góður á Búðum, en ekki höfum vér nákvæmlega frétt hlutarupphæðina. Tíðarfarið er gott að frétta að norðan, úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, og þurrkur og grasvöxtur góður, og afli allgóður; úr sveitunum hefir ráðið og óráðið kaupafólk verið gjört afturreka, og er það víst af slæmri tíð og skorti á matföngum.

Baldur birti þann 18. ágúst bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 7. ágúst:

Hvað veðuráttu snertir, þá var hér mjög votviðrasamt, eins og fyrir sunnan, frá því um Jónsmessu og fram í 14.viku sumars (fram um 20.júlí). Almennt var tekið til sláttar í 12. vikunni og sumstaðar öllu fyrr. Tún voru mætavel sprottin og svo mun harðvelli vera víðast hvar. En nærri lá, að töður mundi stórlega skemmast og rýrna í vætum þeim, sem stöðugt gengu framan af túnaslættinum, því taðan var víða orðin hálfsmánaðar áður en nokkurt strá væri þurrt af henni. En þá kom þerrir í samstæða viku, svo töðurnar hirtust og nýttust vel á endanum, það var um lok júlímánaðar. Það sem af er slættinum, er hinn skemmtilegasti sumartími, sem flestir hafa nú lifað i mörg ár hér fyrir norðan; það er mér óhætt að segja. Ef sumar þetta ræðst vel hvað veðuráttu snertir fram til hausts og menn hafa svo gætur á að setja skynsamlega á hey sín, sem reynslan ætti að vera búin að kenna hverjum, sem ber bónda-nafn, þá er það ekki vafamál, að menn rétta við stórum eftir árið sem leið, eða öllu heldur blómgast, og er þó satt að segja, að bændur hafa átt við ramman reip að draga þar sem verslunin er síðan í fyrra sumar. Þá máttu þeir segja: „Allt kvam senn at svinnum“. [Grettissaga,47] Þá var mikið grasleysi eftir mesta harðindisvetur. Fénaður gekk fram langkvalinn og horaður. Um þriðjungi minni og helmingi minni en vant var. Verð á útlendri og innlendri vöru undir eins hið lakasta. Kornmatur fékkst því ekki nærri að þörfum. Málnyta einhver hin rýrasta, sem menn vita til. Heynýting einstaklega bág. Af þessu er auðsætt ástand manna hér fyrir norðan í fyrra haust. En af því að menn skáru niður lömbin vegna heyleysisins og lögðu mikið fé frá, þá komust menn af veturinn sem leið. Nú þó verslun batnaði ekki að sinni þá var þó allt betra.

Norðanfari segir frá 10.október:

Seint í næstliðnum júlímánuði lögðu hér nokkur þilskip út til hákarlaveiða, og meðal þeirra skipið Ingólfur sem eigi er komið aftur, telja menn því víst, að það muni hafa týnst í illviðrunum sem gengu hér nyrðra í 16. vikunni [kringum 10.ágúst], því um þær mundir voru hér norðanveður og snjókoma allt ofan undir bæi; þá var og líka á leið skipanna nokkur hafís, er því helst getið til, að Ingólfur muni hafa á siglingu eina nóttina lent á hafísjaka, sem brotið hafi gat á skipið og það sokkið þegar, því ekkert hefir enn rekið af því, enda var skipið þá menn vissu seinast til þess, fram í reginhafi.

Norðanfari segir í pistli þann 28.ágúst:

Í sumar voru á Austfjörðum allt fram í júlímánuð, svo miklar rigningar, nema í viku fyrir fardagana, að menn eigi mundu slíkar í næstliðin 30 ár. ... Með manni, sem kom hér nýlega úr Árnessýslu, fréttist, að allt fram seint í júlí, var enginn baggi kominn í garð undir Eyjafjöllum og um vestri hluta Skaftafellssýslu, en síðar kom góð þurrkatíð sem byrjaði 28. júli svo allir voru búnir að hirða töður sínar og sumir með góðri verkun, og margir þegar fengið töluvert af útheyi.

Þjóðólfur segir af strandi í pistli þann 2.september:

[Þ. 29. ágúst] (höfuðdaginn) var hér syðra slagveðursrigning og stormhvass fram yfir miðjan dag, fremur landsyntur hér innra, og þegar dró að hádeginu, varð rokveður um Keflavík og Njarðvíkur ofarlega á austan. Þá lágu 2 kaupskip á Keflavík: Bertha (skipst. Vandal) eitt af skipum Knudtzons, og slupskipið Cathinka eign Duus kaupmanns, ... skipstjóri Larsen; var þetta skipið búið að fá í sig fullfermi af fiski, lýsi og ull, og átti að fara 1—2 dögum siðar alfarið til Kaupmannahafnar. Þegar komið var yfir kl.11, slitnaði önnur akkerisfesti Cathinku, skipti þá engum svifum áður hin brast líka, eður að það akkerið sleppti botnfestunni, og var skipið á sömu svipstundinni komið til drifs og uppí klettana utantil í Keflavíkurmölinni, rétt niðurundan húsum eigandans, og skipti litlu meir en 1/4 stundar, frá því er akkerisfestin brast og þangað til allt skipið var komið þarna mélinu smærra, og vörufarmurinn allur víðsvegar um ströndina, en allir 5 skipverjarnir drukknaðir og brimrotaðir; það sást til þeirra, að þegar skipið sleit upp, köstuðu þeir sér út að þilfarinu víðsvegar og héldu sér þar dauðahaldi meðan máttu; einn skipverjanna sást bregða fyrir á fleka í því skipið var að fara í spón, það ætluðu menn að væri stýrimaðurinn, en hvarf aftur í sömu svipan. Engi vegur var til að reyna að bjarga neinu með svo skjótum atburðum sem hér urðu. — Sama daginn sleit upp fiskijagt (slup) þeirra Njarðvíkurmanna (Ásbjörns hreppstjóra Ólafssonar, Jóns Péturssonar o.fl.?) þar á víkinni og brotnaði í spón; hún var mannlaus.

Baldur birti þann 12.október úr tveimur bréfum að austan - rituðum í september:

[Jökuldal 9. september] Tíðin hefir verið mjög hagstæð í sumar til heyskapar og hafa flestir heyjað vel, en fremur er þó illa sprottið engi, og verða menn víða að hætta í fyrra lagi vegna þess. Að líkindum verður fé vænt í haust, því bæði gekk það vel undan og fór snemma að fitna, þar tíðin var svo hagstæð í vor.

[Vopnafirði 11.september] Sumarið hefir verið allgott, grasvöxtur sæmilegur og skepnuhöld góð; í júlí og ágúst-mánuði voru hér miklir óþurrkar, en það sem af september er, hafa verið þurrkar og besta heyafla-tíð, svo það lítur út fyrir góðan heyskap, enda hefir heilsufar manna verið gott heyanna-tímann. Á Vopnafirði hefir mátt heita fiskilaust í allt sumar.

September. Lengst af hægviðrasöm og ekki óhagstæð tíð. Hret þó í lokin.

Á Flögu í Þistilfirði segir að roði hafi verið mikill á sólu bæði þann 10. og 30.september.

Þjóðólfur rekur tíð þann 12.september:

Tíðarfarið og veðráttan í sumar eða síðan um fardaga hefir allstaðar verið köld víðsvegar um land, og eigi að vísu næturfrost með jafnaði eður að mun, en kalsa- og krapaéljaíhlaup gjörði dagana 1l.—12. ágúst hér syðra og vestanlands (einkum um Dala- og Hnappadalssýslu, vestar að höfum vér engi sannar fregnir um þetta svo að snjóaði ofan í byggð og varla var standandi að heyvinnu á votlendi. Hér syðra hét varla að verða maðkaflugu eða maðks vart á vanalegum maðkatíma. Tún voru snemmsprottin og í betra lagi, víðsvegar um land, og velli eður valllendi sömuleiðis víðast hvar hér syðra, en allar hálendar mýrar og til heiða, illa sprottnar eða í lakara meðallagi og yfirhöfuð allt það mýrlendi hér sunnanlands, vestanlands og um Múlasýslur, þar sem ekki er vatnsagi eður flói, eins og er t.d. um Breiðumýri í Flóa, Safarmýri í Landeyjum, Ölfusflóðin og flæðiengjarnar í Andakíl, — allar þesslags engjar voru sprottnar í meðallagi eða vel svo, en vatnsfyllingin í Flóanum meinaði mönnum að færa sér í nyt þá grasnægð og gjörði engjaheyskapinn mjög endasleppan í þeirri sveit. — Túnaslátturinn var byrjaður í fyrra lagi víðast hér syðra, og vestanlands af því tún voru nú víðast snemmsprottnari en vanalega, varð og besta nýting á töðum að sögn víðsvegar um Norðurland, Múlasýslurnar og enda Skaftafellsýslurnar vestur að Mýrdalssandi, einnig góð töðunýting um Borgarfjörð og Mýrar og annarstaðar vestra, þar sem eigi hafði verið tekið því fyrri til sláttar, en rigningaótíðin hélst hér sunnanlands allt fram í fyrstu hundadagavikuna, og enda allt að viku lengur um Eyjafjöll og Mýrdal, þess vegna hröktust hinar fyrsta töður nokkuð hjá sumum, og þó eigi almennt til skemmda eða verulegrar rýrnunar, hefði það ekki bæst ofan á, að mörgum var það, að hirða djarft þegar í hinum fyrstu þerrum, og fyrir það hafa og eigi fáir búendur hér orðið að leysa upp töður sínar sakir ofhita. Síðan um júlílok hefir heynýtingin verið fremur góð hið syðra þó að þerrar hafi verið bæði styttri og stopulli hér, heldur en norðan- og vestanlands ...

Norðanfari birti þann 10.október bréf úr Múlasýslu, dagsett 21.september:

Sumarið hefir verið hér hið allra besta og hagstæðasta, þó ágústmánuður væri þurrkalítill, þá hefir september bætt úr því. Hafa nú lengi verið þurrkar og hitar svo miklir, eins og í júlímánuði, þá best lætur, Grasvöxtur var með besta móti víðast hvar á túnum og þurrlendi, en fjarska lítill víða á mýrum, nema á votengi. Til fjalla hefir verið graslítið, því frost komu þar, þegar hálfnaður var grasvöxtur og kyrktu hann. Sömu frostin spilltu í byggð öllu deiglendi. Menn hafa víðast heyjað með betra móti og heyin með bestu hirðingu. 

Norðanfari birti þann 18.desember bréf af Snæfellsnesi, dagsett 24.september:

Heyskapurinn hefir í sumar gengið hér víða með stirðara móti; fyrst var grasvöxturinn mjög misjafn; við sjávarsíðuna, var hann að vísu allstaðar góður, en fram til sveita og dala aftur lakari; og þar næst hefir þessi óstöðuga tíð og iðulegu umhleypingar og rigningar haft skaðleg áhrif; nýtingin hefir orðið tæp, einkum á töðum; aftur láta menn betur yfir útheyinu. Sumstaðar, svosem t.d. í Staðarsveit hefir hey fokið í stormum til töluverðs skaða.

Baldur segir frá 24. september:

Í gær kom hingað vestanpósturinn og norðanpósturinn kom i morgun. Að norðan fréttist einmuna tíð og bestu þurrkar. Vegir höfðu verið svo þurrir að það var mesta moldrok að ríða, en það rýkur samt ekki í augu mönnum af þurrkunum hérna i Reykjavík. ... Eftir því sem fréttist er að sjá, sem norðausturhluti landsins hafi haft þurrkatíð, en suður- og vestur-hlutinn rigningar og óþerra. Að vestan er oss sagt um tíðarfar, að þótt eigi sé þurrkasamt, þá megi þar þó heita bærileg tíð og eigi svo votviðrasöm, sem hér; vellíðan manna á meðal nokkurn veginn þolanleg og eigi með lakasta móti. Hér er eigi gott útlit til vetrarins. — Jarðeldurinn kvað vera uppi í sama stað og áður er frá skýrt, nefnilega í vestanverðum Vatnajökli; og hafa menn nýlega í Rangárvallasýslu orðið varir við öskufall.

Október. Köld tíð og þó nokkuð illviðrasöm. Sérlega kvað að illviðri um miðjan mánuð.

Þjóðólfur segir í pistli 13.febrúar 1869 af brimsköðum í Dýrafirði 2.október:

Eftir bréfi frá merkum manni í Dýrafirði vestra, kom þar stórflóð með brimgangi föstudaginn 2. dag októbermánaðar í haust; við það urðu ýmsir þar fyrir sköðum á skipum og ýmsu öðru; 3 skip tók þá út á Söndum við Dýrafjörð; voru það 2 bátar, og náðust þeir aftur heilir, en 3. skipið, sexæringur, brotnaði svo að ónýtt varð. Nýr sexæringur mölbrotnaði í Svalvogum, og töluvert af fiskifangi fór þar og i sjóinn. Nokkrir menn úr Arnarfirði voru þá að sækja korn að Þingeyri, urðu þeir að leggja að landi, þar sem Sveinseyri heitir; héldu þeir skipinu heilu, en misstu allan farminn.

Norðanfari birti þann 12.nóvember úr bréfi að sunnan, dagsett 4.október:

Tíðin var ágæt seinni hluta septembermánaðar. Besta fiskirí á Sviði á lóðir af vænni ýsu, þurrkur nokkra daga, svo sveitamenn náðu heyjum sem seinast voru slegin, og mikið bættist úr með eldiviðinn. [Fjóra] fyrstu dagana af þessum mánuði hafa gengið stórrigningar og krapahríðar svo snjóað hefir ofan í miðjar fjallahlíðar. 

Baldur birti þann 9.nóvember úr bréfi frá Seyðisfirði, dagsett 9.október:

Veðráttan var hér allan [september] hagstæð og blessuð bæði til lands og sjávar, svo heyföng manna urðu víðast hvar í besta lagi og nýting ágæt; aftur skipti um undir mánaðamótin, og gekk í rosum og úrkomu síðustu daga hans og fyrstu dagana framan af þessum; snjóaði þá svo á fjöll, að lítt varð fært með hesta, fyrir héraðsmenn einkum, er þá voru að byrja haustrekstra sína og lestaferðir í kaupstað, en ófært að öllu fjarða á milli; en nú hefir stillt til aftur og besta veður verið allmarga daga undanfarna.

Norðanfari segir af tíð þann 22.október:

Veðráttufarið var að kalla einlægt hér hið blíðasta og besta allan september, og til hins 6. þ.m., að það breytti sér og kom norðan hrakviður með éljum og snjókomu, til fjalla og ofanundir byggð, birti þá aftur upp og örísti næstum nema efst á fjöllum; enda var hér þann 10. þ.m. mesta ofviður útsunnan og stólparok fram á kvöld. Þann 13. hófst aftur norðanáttin, hríðar og fannkoma á hverjum degi til hins 18. birti þá aftur upp og blotaði 20. s.m. Fönnin kvað mikil yfir allt það frést hefir. 

Þjóðólfur segir þann 24.nóvember af tjóni að fjallabaki í október (talsvert stytt hér):

Sunnudaginn 11.[október] lögðu 4 menn upp úr Skaftártungu og ætluðu allir suður á Suðurnes til sjóróðra vetrarlangt; ... Þeir lögðu allir fjórir af stað úr byggð sagðan sunnudag, með 4 hesta, en engan áburð, því þeir voru búnir að koma færum sínum á undan sér suður; nokkrir segja, að hvorki hafi þeir haft tjald né neinn göngustaf. ... [og munu] þeir hafa lagt upp úr byggð fyrri hluta dagsins eður jafnvel um morguninn, því Sæmundur Jónsson bóndi á Ljótsstöðum fylgdi þeim vestur á fjöllin „vestur undir Hellur eður Helluhraun", sem kallað er (vér ætlum það sé vestantil á Mælifellssandi); náði hann austur yfir aftur heim til sín um kveldið eður nóttina, og sagði hann svo af ferðum hinna, að þeir mundu hafa náð í Hvanngil um sólsetur; en þykkfengið hafði þá verið og þoka mikil á fjöllunum. Hvanngil mun vera sem næst miðja vega á Fjallabaksleið milli byggða að vegalengdinni til; Rangvellingar eiga kofa þar í Hvanngili, er afréttisleitarmenn þeirra liggja við, og er allgott skýli fyrir eigi fleiri menn. En daginn eftir, 12.[október], skall á með gaddbyl af landnorðri hvervetna þar eystra með feikimiklu snjókyngi og stóð 3—4 daga, enda ef til vill allt það hið mikla norðanveður af — þar upp á fjöllunum milli meginjökla Torfajökuls að norðan en Mýrdalsjökuls og Tindfjallajökuls að sunnan. — Víst er um það, að fullum 1/2 mánuði síðar voru þeir hvergi komnir fram í byggð hvorugu megin fjallanna, og er því talið tvímælalaust, að þeir hafi orðið þarna til allir 4, en eigi hægt að ætla á, með hverjum tildrögum eður atvikum það haft orðið, að öðru leyti en því, að það þykir ráða að líkindum, að þeir hafi eigi haft þreyju á að liggja af sér bylinn þar í Hvanngili, heldur hafi lagt upp máski þegar á næsta degi, og ætlað að ná vestur af, sjálfsagt þá leiðina, er nú er tíðast farin af lausríðandi mönnum og gangandi: yfir „Brattháls" og Markarfljót „á Króknum", sem kallað er, en eigi hina fornu Vegahlíðarleið og í „Grashagann", en sú leiðin er miklu greiðfærari, hættuminni og vissari, þótt nokkuð kunni hún að vera lengri eftir stefnunni. ...

Nóvember. Tíð talin mjög hagstæð, hlýtt var í veðri.  

Baldur segir af jarðskjálftum í pistli þann 7.nóvember:

Aðfaranótt hins 31. [október], og hins 1. og 2. dags nóvembermánaðar urðu menn hér varir jarðskjálfta. Mest mun hafa að þessu kveðið síðustu nóttina; þá komu tveir kippir um kl. 12, og voru þeir einna mestir, einkum hinn síðari þeirra. Bæði þá nótt og hinar á undan komu fleiri kippir um næturtímann, og sumir, er vöktu, þóttust enda hafa orðið varir við hristing við og við alla aðfaranótt hins 1. dags nóvember. Eigi var jarðskjálfti þessi svo mikill, að tjón yrði að; þó færðust víst í tveim stöðum hér í Reykjavík ofnar úr stað í húsum, og í einu húsi brotnuðu tveir lampar. Sitthvað lauslegt í húsum, t.a.m. myndir á veggjum o.fl. þesslags datt ofan, og í húsum með múruðu lofti féll víða kalkryk niður. Hin nýbyggða og glæsilega skólavarða beið þó ekkert verulegt tjón af þessu, því að þótt kalk nokkurt hryndi úr henni, þá er auðgjört við slíku. Um stefnu jarðskjálftans getum vér ekki fullyrt neitt, þar eð hún mun eigi hafa verið rannsökuð með verkfærum, en að því, er að finna var og sjá, mun eigi fjarri sanni, að hann hafi gengið frá (norð-?) vestri til (suð-?)austurs. Jarðskjálfti þessi varð því eigi mikill teljandi hér, en óvist er, hvernig hann hefir við komið annars staðar, og væri fróðlegt að fá að vita slíkt. — Það þykir mega telja mjög líklegt, að eldsuppkoma sé eða hafi verið einhvers staðar, þótt óvíst og ófrétt sé enn, hvar það hefir verið, hvort heldur hér í landi, eður annars staðar. Á Bessastöðum á Álftanesi féll helmingur fjárhúss inn öðrum megin; eigi varð þó tjón að þessu, enda þótt fé væri í húsinu, þvi að það hafði allt staðið í garðanum þeim megin, er eigi féll inn.

Séra Þórarinn í Reykholti getur tveggja stærstu skjálftanna. Þann 12. eða 13. sá hann eldbjarma í austri. 

Þjóðólfur segir af jarðskjálftunum í pistli þann 13.nóvember:

Nóvembermánuður byrjaði hér á Suðurlandi með allmiklum og mörgum jarðskjálftum. Fyrsti kippurinn kom aðfaranóttina hins 1. dags nóvembermanaðar litlu eftir kl. 4 og var sá kippur allsnarpur. Eftir hann komu 4 eða 5 kippir þá um morguninn til kl. 7, en allir smáir. Næsta kveld eða sunnudagskveldið kl. nálægt 11 ½ kom aftur allharður kippur, og fundust þá nótt við og við smákippir. Mest kvað þó að þessum jarðskjálftum mánudagskveldið, hinn 2. dag nóvembermánaðar; kom þá allharður kippur nálægt kl.11, og litlu síðar annar, og var sá langharðastur allra þessara jarðskjálfta, og svo harður, að naumast mun annar jafnharður hafa komið hér í Reykjavík í langa tíma. Á milli þessara tveggja kippa virtist ekkert algjört hlé verða á hristingnum. Eftir þennan hinn harða kippinn kom með litlu millibili að minnsta kosti einir 6 rykkir, en allir smáir, og þó enn nokkrir síðar um nóttina. Síðan fundust við og við smájarðskjálftar fram eftir vikunni, og hinn síðasti nóttina milli föstudags og laugardags [7.nóvember], en síðan hefir þeirra eigi vart orðið. Jarðskjálftar þessir virtust að koma hinir fyrstu úr austurlandnorðri, en hinir úr háaustri, og ganga til vesturs. Eigi höfum vér heyrt þess getið, að jarðskjálftar þessir hafi neinar verulegar skemmdir unnið; en við jarðskjálftann á mánudagskveldið færðust þó nokkrir ofnar úr stað hér í Reykjavík, og tveir lampar brotnuðu, en engin hús skemmdust að neinu.

„Baldur" segir, að jarðskjálftarnir hafi byrjað aðfaranóttina hins 31.október, en þess jarðskjálfta höfum vér eigi heyrt getið, enda uggir oss, að „Baldur" hafi aðeins dreymt þann jarðskjálftann. Eins mun hann eigi hafa núið vel augun, er hann leit á klukkuna hina síðustu nóttina; því að síðasti kippurinn var kl.11, en eigi kl.12.

Þjóðólfur segir fleira af jarðskjálftunum þann 24.nóvember:

Í síðasta blaði gátum vér jarðskjálfta þeirra, sem gengu hér fyrstu vikuna af nóvembermánuði. Jarðskjálftar þessir gengu og yfir Borgarfjarðarsýslu og Mýrasýslu, og virðist svo, sem kippirnir hina fyrstu tvo dagana hafi orðið þar hér um bil jafnharðir og hér, en þó höfum vér eigi heyrt þess getið, að nokkurt tjón hafi af þeim orðið, nema að á Leirá í Borgarfirði hafi hrunið veggur undan fjárhúsi eða fjárhústóft, og hafi nokkrar sauðkindur undir orðið, svo að þær varð að skera; hvergi norðanlands vart við jarðskjálfta. Í Skaftafellssýslu varð jarðskjálfta þessara alls eigi vart fyrir austan Mýrdalssand, en í Mýrdalnum og í sveitunum þar fyrir vestan allt að Ytri-Rangá hafði hræringanna vart orðið að kvöldi mánudagsins, eður „nóttina milli 2.og 3.þ.mán.“, eftir því sem segir í bréfi af Rangárvöllum 9. og ferðamenn austan af Síðu staðfestu. Aftur segir í bréfi austan úr Upp-Holtunum (milli Rangár og Þjórsár) 14.: „Jarðskjálftar voru hér snarpir fyrstu tvær næturnar af þ.mán“.; og eins var t.d. í Þingvallasveit; urðu þar harðir rykkir og miklar hristingar, þótt ekki yrði skaði að. — Í hinu síðarnefnda bréfi, úr Upp-Holtunum segir, enn fremur: „fleiri sáu mikinn eld upp kominn í gærmorgun (13. þ.mán.) á sömu stöðvum sem í fyrra“; og „í nótt, er leið milli 13. og 14.) sáu þeir menn, „er á ferð voru, nógar eldglæringar í norðri, þó að þoka væri á afrétti og nokkur úrkoma“.

Norðanfari segir af tíð þann 12.nóvember:

[Fimm] dagana fyrstu af mánuði þessum voru hér norðan hvassviður og snjókoma á hverjum degi, svo varla var skepnum fært út úr dyrum, en 6. þ.m. birti upp og síðan hefir verið gott veður og stundum þítt og nokkuð tekið upp snjóinn, er mikill kvað kominn í sumum sveitum. Í hríðunum 14.—18. október, er sagt að 50 fjár hafi fennt í Möðrudal en 20 á Grímsstöðum á Fjöllum, margt í Mývatnssveit og svo hér og hvar norður undan. þá varð og úti á Hólssandi kvenmaðurinn, sem getið er um í næsta blaði hér á undan. 

Norðanfari birti í aukablaði 18.desember nokkur bréf. Í þeim fer mest fyrir umfjöllun um veðrið mikla um miðjan október:

[Breiðdal 9.nóvember] Tíðarfarið var breytilegt á næstliðnu sumri; það gekk með meiri óblíðusvip úr garði, heldur en það að jafnaði hafði sýnt sig áður, því heita má að það yrði eitthvert hið arðsamasta og hagstæðasta, sem nýlega hefir komið, hvað viðvíkur heyskap og nýting á honum. Grasvöxtur varð hér með betra móti einkum á túnum. Skurðarfé hefir reynst með besta móti. Í byrjaðri seinustu viku sumars gekk í dimmviðrisbyl, er stóð alla jafna í 8 dægur með ofviðri og snjókomu. Setti hér þá svo mikinn snjó niður, að menn muna eigi eftir, að annað eins hafi komið niður í einu. Fjárpeningur var óvís víðast hvar og margir í kaupstað, svo sumir bæir voru karlmannslausir, eða þá eigi nema unglingar heima, og varð því engu eða litlu bjargað í veðrinu þar sem svona var ástatt. Í veðri þessu fórst fjöldi fjár og hestar sumstaðar, þar af 5 til dauðs hér í sveitinni. Með stöðugum leitum hafa menn fundið flest aftur af skepnunum bæði dautt og lifandi, svo eigi vantar tiltakanlega nema á tveimur bæjum eða þremur, hvar vanta mun nálægt þriðjunginum.

[Hjaltastaðaþinghá 11.nóvember] Vorið og sumarið var gott nema fjarska úrkomur í vor. Fjárhöld voru góð í vor, eins og nærri má geta, eftir jafngóðan vetur. Grasvöxtur varð í betra lagi, sumstaðar ágætur og sumstaðar óvanalega snemma byrjaður; varð því heyafli hjá almenningi mjög mikill, og allt sýndist vera að lifna, það er að segja að því leyti tíðarfarið snerti; en þá dundu þau undur yfir er flestum munu minnisstæð, því 15.—18. október voru hér á Austurlandi dæmafá illviður, bæði vegna ofviðurs, snjókomu og sjógangs í Fjörðunum. Snjóþyngslin urðu framúrskarandi; hestar fenntu víða, og fé svo, að ég ætla að varla muni dæmi til slíks; að vísu hefir margt fundist bæði dautt og lifandi, en þó vantar óttalega enn, því féð rak líka í sjó og vötn, gil og gljúfur; sumir hafa misst helming, þriðjung, en flestir eitthvað nokkuð. Í þeim veðrum dó ekkja Helga Árnadóttir í sæluhúsi, sem er í Eskifjarðardalnum. Fjölda braut af bátum er tók úr naustum, líka afla manna og margt fleira. Kaupfarið brotnaði á Vopnafirði og 1 skip Hammers á Norðfirði. Síðan hefir verið bærileg tíð en heldur óstillt og ógurlegt skefli (stórfenni); einnig útlit um hagi manna er nú hið ískyggilegasta, því það er eins og verslunin ætli að gjöra sitt til að eyðileggja menn með árferðinu.

[Fáskrúðsfirði 14.nóvember] Nýjungar hafa fáar að borið síðan ég skrifaði yður seinast, nema sú alkunna og almenna, nefnt „skaðaveðrið mikla" 15. til 18. október, og hefir slíkt varla og ekki í manna minnum komið fyrir. Rétt á undan, þann 14. og þá daga, var veður gott og snjólítið og jörð meiri part rauð. Allt fé hér á bæ nema 2 lömb fannst, þó sumt væri þjakað orðið; sumir sauðir og ær lágu á hryggnum enda lifandi, sumt stóð á höfði, því veðið hafði fleygt því sem soppum, 30 hestar fuku af heyi og þök af húsum. Ógurleg fjártjón hafa orðið víða, en úr því kemur suður í Álftafjörð og Mýrar fer að minnka um skaðana; sumir ríkismenn hafa misst svo hundruðum, já mörgum hundruðum skiptir. Í öndverðum þessum mánuði voru hér og norðan illviður með miklu frosti, en snjókoma minni. Nú er hér mikið til rauð jörð.

[Seyðisfirði 15.nóvember] Fréttir eru héðan eigi góðar. Nóttina milli þess 14. og 15. október, breyttist veðrið í það mesta snjóburðar- og skaðaveður, sem komið hefir hér austanlands á þessari öld — að mér er óhætt að fullyrða, og hélt því samfleytt nótt og dag, að heita mátti, til þess þann 19. Fannfergjan varð óttaleg, svo þvílík hefir eigi komið í mestu veðrum um hávetur. Fjárskaðinn varð allstaðar mikill, þó enn meiri í Héraðinu helst til uppsveita, t.a.m. í Fljótsdal. Margir töpuðu helmingi og meira af fé sínu. Sjógangur varð hér að sínu leyti eins fjarskalegur, báta- og aflatjón, mikið úr naustum þeim, sem óhult hafa geymt báta síðan um aldamót, t.d. á Hánefsstöðum hér, síðan þar byggðist kaupstaður, tók nú út báta og braut, sama er að heyra hér umhverfis; hér hjá mér gekk sjórinn eftir landslagi hér um frá 5 til 20 faðma lengra á land upp en venjulega stórstraumsflóð. Nú er komin góð tíð og farið að hlána nokkuð þó mikið sé eftir. Fiskur hefir verið hér nokkur, þó með minna móti.

[Norðfirði 16.nóvember] Héðan er ekkert að frétta nema sumarið var gott, svo það heyjaðist með betra móti hér fyrir austan, þó varð fremur slæm hirðing á töðum víða hvar. En þann 15. f.m. gjörði hér svo mikinn austanbyl með grófri snjókomu og sjógangi, að ég sem er nú 50 ára og man vel eftir mér ungum og hefi verið hér í sveitinni alla tíð og svo haft tal af gömlu fólki greindu, sem segist eigi muna þvílíkan sjógang á land og eigi annað eins drepandi veður, því féð fannst rotað og beinbrotið, og var þó eigi gljá (hálka) á jörðu, en ekki létti snjókomu og fannfergju fyrr en þann 19. Fjárskaðar urðu grófir yfir báðar Múlasýslur og svo mesti bátaskaði yfir allt. Hér í Norðfirði sleit upp jagt, sem Hammersfélagið átti og rak á land millum þess 15.—16. október. Einn skipsbátinn misstu þeir í spón, en annar brotnaði í landtöku; jagtin hét Berufjörður, frönsk, keypt á strandi á Berufirði í fyrrasumar. Kapteinninn hét Asmundsen, hann lá hér á Norðfirði frá því um höfuðdag og var búinn að afla 8000 af fiski og ýsu. Skipið er mikið brotið, farminum varð bjargað og mennirnir komust á land, er mikið misstu af fatnaði sínum.

[Af Fjöllum 21.nóvember] Um það mikla fjártjón, sem orðið hefir í Múlasýslum í haust, get ég ekkert áreiðanlegt skrifað, enda munu þeir gjöra það, sem betur vita að skrifa yður um það, einmitt get ég sagt, að mig vantar um 60 og um 30 fundið dautt, en víða er sagt miklu meira fjártjón.

Svo segir blaðið:

Seint í fyrra mánuði kom hingað maður af Jökuldal, sem segir, að eftir fyrstu hríðina þar, hafi vantað 1200 fjár, en síðan fundist nokkuð, þó hafi í miðjum fyrra mánuði [nóvember] enn vantað eftir því er hann taldi upp á hverjum bæ, samtals 920. Hann segir að í Vallahrepp hafi eftir hríðina vantað hér um 1400, og mælt að séra Einar í Vallanesi ætti þar af l80 fjár. Deginum áður en hríðin skall á, er talað, að 700 fjár hafi á Brekkugerði í Fljótsdal verið rekið þar ofan fyrir bæinn, en aðeins í nóvember fundin 200. Oss hefir verið skrifað, að séra Þorgrím í Þingmúla vantaði hátt á annað hundrað fjár, og enda fleiri. Þessi dæmafáa fannkoma, sem seinustu dægrin var með ofsa landnorðan veðri og gaddi, er sagt að hafi orðið skæðust frá Jökulsá á Fjöllum, og að kalla allt suður að Lónsheiði. Yrði nú komið tölu á þenna fjármissi um allt Austur- og Norðurland, og þar sem hann máski víðar hefir orðið, þá mundi hann nema mörgum þúsundum fjár og að dala tali hundruðum þúsunda, og svo að slíkt fjártjón, hefir ef til vill aldrei hér á landi orðið annað eins; og þegar þar við bætast skipaströndin og tjónið á stærri og smærri förum. Hér getur því varla málshátturinn sannast, „hollur er haustskaðinn".

Þjóðólfur birtir þann 14.desember kafla úr fréttabréfi úr Suður-Múlasýslu, það er dagsett um 20.október:

[Þ. 15.október] í haust komu býsn mikil yfir allt Austurland; það var fjárskaðaveður óvenjulegt, er stóð í 8 dægur [4 sólarhringa]. Drapst og fennti í veðri þessu ógrynni fjár. Fjöldi manna missti frá 100—200 fjár, og sumir urðu því nær sauðlausir. Langmest varð fjártjón þetta um upphérað allt og Jökuldal, minna á úthéraði og í fjörðum; mjög margt lenti samt í sjónum. Fjöldi báta brotnuðu, og þar á meðal kaupfarið í Vopnafirði. Sjór gekk svo langt á land upp, að enginn mundi trúa nema séð hefði. Í Fljótsdal er fjártjónið talið um 2000; á einum bæ fórst á þriðja hundrað, á mörgum frá eitt til tvö hundruð, og mjög fáum fyrir innan hundrað. Á Völlum fórust 1400, og í næstu sveitum fór að tiltölu eins mikið, t.a.m. á Jökuldal, Fellum og Skriðdal. Fátt er fundið af fé þessu nú eftir fimm vikur. Í veðri þessu hvarf mestallur afli, er áður var hér heldur að aukast, og hefir því mjög lítið aflast í haust, hjá því sem haustin að undanförnu. ...

Þjóðólfur segir enn af októberveðrinu mikla þann 5.janúar 1869:

Póstgöngurnar á Íslandi eru enn eigi orðnar svo góðar, að vér höfum getað enn fengið nákvæmar fregnir um tjón það, sem varð af veðri þessu. En í „Dagbladet“ 12. nóvember [1868] stendur ágrip af bréfi, dagsettu á Seyðisfirði 24. október til fiskiveiðafélagsins danska, og er þar sagt, að þessa nefndu daga hafi þar verið slíkt ofsaveður af landsuðri [svo], og snjókoma svo fjarskaleg, að fágætt sé. Hafi þá þegar fyrsta ofviðrisdaginn eitt af skipum fiskiveiðafélagsins, Berufjörður, strandað í Norðfirði og brotnað í spón, allur aflinn hafi farist, en mönnunum verið bjargað allslausum. Á Vopnafirði hafi og rekið á land skonnertskipið Socrates, sökum þess, að báðir akkerisstrengirnir hafi slitnað, og verði skipið að líkindum eigi haffært. Verslunarskipið á Eskjufirði hafi og rekið á land, en að sögn hafi það lítið eða ekkert skemmst. 

Norðanfari birti 20.febrúar 1869 úr bréfi úr Norðurmúlasýslu, dagsett 23.desember:

Mikið og almennt er það tjón, er menn biðu hér af ofsakafaldshríðinni dagana 15.—18. október í haust. Það mun skipta þúsundum, er liggur dautt af sauðfé manna undir fönn og í vötnum hér í Múlasýslum. Þar að auki tók sjórinn fjölda af bátum, því sjávargangurinn var dæmalaus; sumstaðar tók bátana ofan af háum sjávarbökkum úr vetrarnaustum og braut í mél.

Þjóðólfur segir þann 24.nóvember af árferði og aflabrögðum:

Haustveðráttan var hér á Suðurlandi fremur umhleypinga-og stormasöm heldur en rigningasöm framanvert haustið og þar til í 24. viku sumars. Þá brá hann hér yfir gjörvallt Suðurland, og það vestur undir Breiðafjörð, lengra að vestan höfum vér eigi fregnað — til landnyrðingsstorma með frosti, og mikilli fannkomu upp til dala og hálendari héraða, t.d. í Þingvallasveit. Í Skaftafellssýslu varð því mikil fannkoma um þetta skeið ... og í Mýrdalnum varð bylurinn svo mikill og fannkoman, að illfært þótti innanum sveitina, og gaddur svo mikill, að kól fullfríska menn vel klædda, er gengu til fjár. Hörkur þessar héldust, en að vísu eigi alltaf með jafnmikilli grimmd og fannkomu, fram undir októberlok. En með jarðskjálftunum 1. og 2. þ. mán. brá til besta bata, og hefir mátt heita einstök veðurblíða síðan. Besta tíð norðanlands til 16.þ.m.

Norðanfari birti 18.desember bréf úr Skagafirði, dagsett 20.nóvember:

Tíðarfarið var hér í sumar eitthvert hið æskilegasta, svo heyföng manna munu hér víðast með mesta móti. Haustið hefir yfir höfuð mátt heita gott; þó hafa hér komið 3 köst, það fyrsta kom 7. [október], annað þann 15.; þá var hér stórhríð í 4 daga; þriðja 1. 3. og 4. [nóvember], kom hér þá svo mikið snjófall, að sumstaðar var orðið rétt jarðlaust, einkum til fjalla og dala; en hlákan frá 7. til 17. þ.m. bætti úr því öllu saman, svo nú er allur snjór horfinn, enda var hér þá 5—7 gr. hiti á Reaumur á hverjum degi. 

Norðanfari segir þann 12.janúar 1869:

Úr bréfi af Eyrarbakka 7.desember 1868: „Tíðin hefir verið hingað til einstaklega góð, og halda hér allir, að jarðeldur sé einhverstaðar uppi“.

Desember. Hagstæð tíð lengst af. Þurrt um landið vestanvert. 

Baldur segir 9.desember:

Hér fyrir sunnan hefir tíðin verið nokkuð umhleypingasöm, og sjaldan gefið á sjó, en afli fyrir, þá er gefið hefir. Suður á Strönd og í Njarðvíkum fiskaðist vel framan af haustvertíðinni; hvað landbúnaðinn snertir, þá hefir hér um mánaðar tíma verið mikið blíðviðri. 

Norðanfari birti 12.janúar 1869 úr bréfi úr Mýrasýslu, dagsett 15.desember:

Mikið hefir veðuráttan verið góð og hagstæð það sem af er vetrinum, að undanteknu þessu eina hreti í haust, en þó urðu 2 mæðgur úti á Kerlingarskarði, og fé fennti þá nokkuð vestur í sýslunni, svo varð hann snarpur í hretinu; síðan hafa gengið stöðug góðviðri, svo óvíða er farið að kenna hér lömbum át. Fiskiafli hefir verið einhver hinn besti hér syðra, þá gefið hefir, og það fremur venju hér upp á Mýrum.

Norðanfari birti þann 20.febrúar 1869 bréf úr Suðurmúlasýslu, dagsett 13.janúar það ár - nefnd eru tvö óvenjuleg náttúrufyrirbrigði:

Á milli Breiðdals og Berufjarðarstrandar liggur vegur, sem kallaður er Fagradalsskarð; á því hefir staðið um langan aldur steinn einn, sem á hlóðum væri af mönnum settur, þó nokkuð stórfenglegur, kantaður á þykktina máski tæpar 3 álnir, en ummálið allt um kring nær því 12 álnir; í honum var svartleitt grjót, sem járnkennt væri, og ólíkt öðru grjóti þar umhverfis, og hefir verið nefndur Grettistak. Eftir trúverðugra manna frásögn er steinn þessi horfinn burtu á tímabilinu millum næstliðins höfuðdags og haustgangna, og búið að leita hans þar allt í kring, engin sérlegur bratti eða skriða þar nálægt, er hefði getað velt honum burtu, enda sjást engin umrótsmerki á neinn veg. Það væri gaman að vita hvað náttúrufræðingarnir vildu gjöra úr þessu. Hér á jólaföstunni sást tvívegis fyrir daginn að morgni langan tíma, sem logandi eldur út til hafsins, sem ýmist jókst eða minnkaði. Slíkt muna menn ekki; ætla menn það hafi verið af megnri úrkomu í hafinu, sem fram hefir komið síðan og enn muni koma.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1868. Lítilsháttar upplýsingar um mælingar eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af árinu 1867

Árið var kalt, þó ekki alveg jafnkalt og árið áður. Fyrstu sjö mánuðir ársins voru allir kaldir, janúar og apríl mjög kaldir, en aftur á móti var hlýtt í nóvember og desember, hiti var í meðallagi í ágúst, september og október. Meðalhiti var 2,4 stig í Stykkishólmi, 0,2 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan, en nærri 1,5 stigum hlýrra en hið sérlega kalda ár 1866. Meðalhiti í Reykjavik er áætlaður 2,5 stig, en skortur er á mælingum á Norðausturlandi. 

ar_1867t

Tólf dagar ársins teljast mjög kaldir í Hólminum, allir komu þeir fyrstu sjö mánuði ársins. Kaldast að tiltölu var þann 15.mars. Enginn dagur telst hafa verið mjög hlýr. 

Árið var í þurrara lagi í Stykkishólmi, úrkoma mældist 540,3 mm. Úrkoma var þó óvenjumikil í september og rétt ofan meðallags í nóvember og desember. Sérlega þurrt var í janúar og í mars, apríl, maí og júlí var úrkoma einnig fremur lítil. 

ar_1867p 

Þrýstingur var mjög lágur í ágúst og lágur í febrúar, apríl, september og október, sérlega hár í mars og maí og hár í janúar, júlí og nóvember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 953,9 hPa þann 14.desember, en hæstur þann 19.janúar, 1038,0 hPa. Þrýstiórói var með allra minnsta móti í janúar og bendir það til þess að þá hafi lengst af verið hægviðrasamt. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar.  

Baldur segir í stuttu máli frá árferði 1867 í pistli 9.janúar 1868:

Veturinn eftir nýár 1867 var hér sunnanlands snjóalítill yfirhöfuð, en þó frost nokkur, helst í janúarmánuði og febrúarmánuði; varð það hæst nær 14 mælistigum. Norðanlands og austan varð veturinn harðari með frosti og snjóum, voru skepnur teknar á gjöf þegar hálfan mánuð af vetri í Múlasýslum og víðar; héldust harðindin veturinn út, og urðu menn að kaupa sér korn handa skepnum sínum. Um páskaleytið rak inn hafís undir Norðurland og Austurland og lá við til þess í 12.viku sumars. Á Suðurlandi var árferði betra; var þar afli allgóður, og urðu hlutir með hærra móti. Einnig er sagt að verið hafi góður silungsafli við Mývatn. Vorið var víðast um land hið kaldasta og gróður lítill um sumarið; fór sumstaðar á Norðurlandi eigi klaki úr jörð allt sumarið. Í vorharðindunum felldu menn víða skepnur sínar; varð fjárdauðinn mestur í Skaftafells-, Múla- og Þingeyjarsýslum, og það svo, að á sumum bæjum varð stráfellir. Heilsufar manna mátti allgott heita yfir höfuð; þó gekk taugaveiki í Múlasýslum, og stakk sér enda víðar niður. — Sumarið varð rigningasamt, einkum sunnanlands, að fráskildum júlímánuði. Varð því nýting ill á heyjum á Suðurlandi, en í Norðurlandi í meðallagi. Um veturnæturnar gjörði snjókast yfir Suðurland, svo jarðbönn urðu um tíma. En á Norðurlandi kom þetta kast eigi. En í lok október-mánaðar gjörði hlákur, tók þá upp snjó allan; hefir síðan verið auð jörð og hlákur, og hefir svo haldist til nýárs; en rigningasamt og stormasamt hefir hér verið; hefir, að því er vér höfum frétt, eigi fallið snjór að heita má á Íslandi, frá veturnóttum til nýárs. Fiskiafli hefir verið góður kringum land; hafa orðið háir hlutir við Faxaflóa. Með sendimanni að norðan höfum vér frétt hið sama úr Eyjafirði; höfðu þar orðið háir hlutir, einkum í Svarfaðardal, frá 700 til 2200 í hlut. Á Langanesströndum hefir og verið góður afli, er það þó fágætt þar um þennan tíma. Síld gekk að landi á Langanesi, og höfum vér heyrt að maður einn hafi fengið 20 tunnur af síld í einum drætti, og er slíkt fágætt.

Janúar: Mjög kalt, en lengst af mjög hægviðrasamt og snjólítið. Þó mun hafa snjóað nokkuð austan- og norðaustanlands. 

Norðanfari segir frá 8.janúar:

Fyrir nokkrum dögum síðan komu hér 2 menn af Langanesströndum og úr Þistilfirði, sem tjáðu þar sömu harðindin af snjóþyngslum og áfreðum, sem hér um sveitir. Líkt er og að frétta úr Vopnafirði og öðrum útsveitum í Múlasýslum, en betra til sumra dala, einkum í Fljótsdal. Í þrem nyrstu sveitunum í Þingeyjarsýslu, er mælt, að búið sé að slá af í vetur 90 hross, sem þó áttu í haust að setjast á vetur. Svo nú ekkert til fyrir þorrann, hafa ýmsir við orð að fækka skepnum sínum, sem að sögn, í útigangssveitunum, eru talsvert farnar að láta holdin. Það er borið til baka að hafís hafi nýlega sést hér norður af Gjögrum og Tjörnesi. Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, eru harðindin sögð svipuð og hér nyrðra.

Þjóðólfur segir af tíð og aflabrögðum þann 22.janúar:

Síðan um jól hafa gengið einstök staðviðri, hreinviðri og lygnur fram á þenna dag; frosthart nokkuð fyrra helming mánaðarins, og þó aldrei meira hér en rúmar 14 R [-17,5°C]. Varla munu elstu menn muna jafnlangar stillur og logn í janúarmánuði eða jafnlítil ísskrið á sjó með slíku frosti, er þó hefir verið, eins og nú. Faxaflói fjær og nær hefir verið eins og rjómatrog, og varla nokkurn dag matað í fuglsbringu, en himinninn oftast heiður og skýjalaus; hafi skýjagráða dregið upp, þá hefir hann verið farlaus og svo mildur og gagnsær eins og þegar best viðrar hér í maí og júní; loftþyngdarmælirinn hefir og haldist stöðugt á „fögru og góðu veðri“ allan mánuðinn, fram til þessa dags. Eftir þessu hafa gæftirnar verið yfir allt, og fiskiaflinn einstakur hér syðra um Garðsjó og Miðnes. Af Seltjarnarnesi og Álftanesi eru flestir búnir að sækja 3 hleðslur eður meira þangað suður af vænum stútungsfiski, hvað þá Strandar og Vogamenn og Njarðvíkingar. Í Grindavík hafa þeir og getað róið og aflað nokkuð, og í gær sagði ný fregn að þá væri kominn sem næst 1 1/2 hundraðs hlutur af vænum þorski í Höfnum, og um 100 á Miðnesinu. Fregnir úr Vestmanneyjum frá miðjum þ.mán. segja þaðan besta hákarlaafla, og að þá hafi verið farinn að fiskast þar þorskur með löngu og lúðu; einnig þorskvart í Mýrdalnum. Besti afli umhverfis Ísafjarðardjúp fram á jólaföstu (6. f.mán.) og eins norðar undir Jökli fram til jóla. Víða sagt hagskart og sumstaðar haglaust um láglendissveitirnar austanfjalls, enda kreppt allmjög að högum um Hreppa, Grímsnes og Biskupstungur, eins vestur um Mýrar og hið efra um Borgarfjörð, en allgóðir hagar á Landinu og hið efra um Holt og Rangárvelli, svo að eigi var þar farið að gefa rosknu fé fyrir fáum dögum.

Þjóðólfur birti 23.mars bréf frá Ísafirði dagsett 4.febrúar:

Í janúar fórst skip í hákarlalegu með 9 manns, það var áttœringur frá Haukadal í Dýrafirði; formaðurinn var Jón Egilsson bóndi á Brekku og voru auk hans 3 giftir menn á skipinu, þar á meðal fyrrverandi hreppstjóri Benoný Daðason (prests að Söndum),  ...

Norðanfari segir þann 12.febrúar:

Mestan hluta af janúarmánaðar voru hér kyrrur eða bjartviður, en fáa daga mikil snjókoma. Frostið varð hér mest 2 jan. 20. gr. [-25°C] og 10. og 12., 16 gr. [-20°C], en frostlaust eða bloti 27. Vegna áfreða, svellalaga eða snjóþyngsla er nálega allstaðar sagt hagskart og sumstaðar haglaust.

Febrúar. Kalt í veðri. Snjór sagður mikill norðaustan- og austanlands, en syðra var heldur betri tíð. Nokkuð skipti um til hlýrra veðurs í bili seint í mánuðinum.

Og Norðanfari heldur áfram þann 22.febrúar:

[Þ.] 16 þ.m. kom austanpósturinn Þorkell Þorkelsson hingað á Akureyri, og hafði hann lagt af stað frá Eskjufirði 25. f.m., beið [einn] dag á Völlum eftir bréfum úr Seyðisfirði, verið hríðartepptur undir og á Fjöllunum 7 eður 8 daga, en þó aldrei legið úti. Fannfergjan, áfreðarnir og jarðbannirnar, er sagt yfir allt eystra nema í Fljótsdal, hvar útigangspeningur hefir í vetur víða verið léttari á fóðrum en sumstaðar annarstaðar. Daginn áður enn póstur kom hingað, kom og maður, er sendur hafði verið úr Eyjafirði austur að Sauðanesi á Langanesi; hann sagði sömu ótíðina og jarðbannirnar yfir Þingeyjarsýslu, sem á Austurlandi. Hafíshroða sá hann 9. þ.m. fyrir Melrakkasléttu og Tjörnesi; einnig er sagt að ísinn hafi nýlega sést hér norðan fyrir landi, svo og fyrir Skaga og útaf Húnaflóa. Allstaðar hvað meira og minna tæpt með heybirgðirnar og sumir í voða haldist harðindin fram um páska [21.apríl].

Þann 1.mars segir Norðanfari:

Harðindin haldast, því lítið svíjar til og 20 gr frost [-25°C] var hér 26. [febrúar] Flestir telja sig í voða staddir með skepnuhöld sín komi eigi góður bati fyrr en um sumarmál. Nokkrir eru farnir að reka af sér. Einstakir að skera; skepnur hafa líka í harðindasveitum verið alveg á gjöf síðan um veturnætur. Á Látrum í Þingeyjarsýslu voru það næstliðið sumar einar 10 vikur, sem kýr gengu úti. Afli úr sjó er hér nú enginn norðanlands. Hafíshroði hefir, sem áður er getið, aðeins sést, allt fyrir það eru menn hræddir um að meginísinn muni eigi langt undan landi. — Í næstliðnum mánuði hafði bjarndýr komið upp á Skaga, sem þegar var skotið af Jóni nokkrum Gottskálkssyni í Hraunkoti; dýr þetta hafði verið ungt og magurt.

Þann 26.júní segir Þjóðólfur af skipskaða sem varð 9.mars:

Laugardaginn 9.mars reri almenningur í Keflavík undir Jökli (Neshrepp ytri) í góðu veðri, en rann heim á norðan um hádegi og varð ofsaveður þegar fram á daginn kom, svo að 2 eða 3 náðu þar eigi lendingu. Á uppsiglingu og þegar skammt eitt var komið frá miðum, sigldi sig í kaf eður kollsigldi, skip eitt úr Keflavík með 9 manns, týndust 6 mennirnir þar með formaðurinn Magnús Guðmundsson frá Ósi á Skógarströnd 45—50 ára, en 3 bjargað annað skip undir formensku Guðmundar Gíslasonar frá Staðarfelli.

Mars. Látið allvel af tíð fyrstu vikuna, en hún síðan talin hörð og fremur illviðrasöm. 

Þjóðólfur segir þann 23.mars:

Vetrarhörkurnar og jarðleysurnar héldust að því er sannspurst hefir með póstinum og öðrum ferðum víðsvegar að um hina síðustu daga, allt framundir lok [febrúar] nema um eystri hluta Rangárvallasýslu og máski í Mýrdalnum, þar kom hagstæð hláka þegar 18. [febrúar] svo að á 3.—4. degi þar frá komu upp nægir hagar þar um allar sveitir allt út að ytri Rangá. En 27.—28. [febrúar] eður miðvikudaginn og fimmtudaginn fyrstan í góu hófst batinn yfir allt, að því er spurst hefir, eins vestast á Vestfjörðum (vér höfum bréf þaðan frá 3. þ.m.) og um Eyafjarðar- og Þingeyjarsýslu, eins og hér syðra, svo að telja má víst, að hann hafi gengið og náð yfir land allt; yfir höfuð að tala komu þá allstaðar upp nægir og góðir hagar, þó að minna tæki upp í hálendu útkjálkasveitunum norðanlands, t.d. út á Skaga, og aftur hið sama um láglendustu sveitirnar hér sunnanlands þar sem allt var orðið undirlagt margföldum klakastokk úr jökli, eins og var um allan Flóann og miðsvæðis og að sunnanverðu, og hið neðra um Holtin og Útlandeyjar. Þessi blessaði bati var öllum til bjargar og öllum sveitabúum hrein velferðargjöf, þó að menn væri misjafnt aðþrengdir af harðindunum; því þó að svo mætti kalla, að þau legðist allstaðar að með vetri að öllu veðurlaginu til, þá komu samt jarðleysurnar næsta misjafnt niður; snjóburður var óvíða mikill og vart teljandi víðast hér sunnanlands, en helst voru það blotarnir og áfreðarnir á mis, er öllu hleyptu í einn kopar og gjörðu það, að sumstaðar tók algjört fyrir haga fyrr og seinna á jólaföstunni, víðast uppúr jólunum, en aftur eigi að öllu fyrr en með þorra í nokkrum sveitum. Fyrir þetta var búið að gefa sumstaðar i 17—18 vikur öllum fénaði þegar batinn nú kom, víðast 7—10 vikur, en aftur sumstaðar hér sunnanlands eigi nema síðan með þorra eður í 4 vikur. Norður um Þingeyjarsýslu og á Skaga var lengst gefið, en í flestum öðrum sveitum norðanlands og víðast vestanlands komu eigi allar skepnur né algjört á gjöf fyrr en um og eftir jól. Víðast horfði því til mestu fóðurþurrða og almennra vandræða, hefði harðindin lengur haldist; sumstaðar nyrðra voru menn farnir að skera af heyjum ýmist kú og kú á bæ, eður og 1—2 kúgildi: lömb og ær, en eigi svo fáir hross, um Húnavatnssýslu; töldu þeir sér það sem næst skaðlaust, þar sem þeir brúkuðu átuna af hrossinu svona í góðum holdum, eins og enn var þá, til fóðurdrýginda handa öðrum fénaði, bæði nautpeningi og lömbum. Húnvetningar segja og skrifa, að skurður sá er menn hafi þar gjört, verði eigi álitinn meinskurður yfir höfuð að tala.

Sendimaður einn er kom hér 20. [mars]. vestan úr Arnarfirði og hafði farið um í Stykkishólmi sagði að þá er hann var þar staddur, hafði þangað verið nýspurður skipskaði undan Jökli hér að sunnanverðu, og að þar hefði farist 9 manns, en eigi hafa sannari eða nákvæmari fregnir borist af tjóni þessu að svo komnu.

Norðanfari segir þann 26.mars:

Fyrstu dagana af þessum mánuði var hér og víða annarstaðar, sem til hefir spurst, góð hláka og leysing mikil, svo í öllum snjóléttari sveitum kom upp nokkur jörð, en aftur til flestra dala og í útsveitum lítil og sums staðar alls engin. Veðráttan hefir oftast síðan batanum hætti verið frostasöm t.a m. vorinngöngudaginn [jafndægur á vori] 19.gr frost á R [-23,7°C] og með harðviðrum en lítilli snjókomu, og oft eigi ástöðuveður fyrir langdregnar og magrar skepnur, sem hér og hvar er verið að fækka, því alltaf sverfur meira og meira að með heyskortinn, og peningar margra, ef til vill, á heljarþröminni, 6. þ m. komu aftur að sunnan 2 þingeyingar, er farið höfðu suður í Reykjavík, tjáðu þeir líkt um tíðarfar og jarðir syðra og vestra, eins og þar sem hér er skást. Engin almenn veikindi og merkra manna lát engin. Oss var ritað með þessari ferð, að vetrarfar syðra hefi verið þurrviðrasamt og síðan um nýár úrkomulaust að kalla og einlægar stillingar og bjartviðri, oftast landnyrðingur og frost til muna og um uppsveitir víðast hvar hagleysur, af svellum og áfreðum; en í vetur með öllum Faxaflóa sunnanverðum mátt heita fiskafli í betra lagi. Í hlákunni miklu, sem sagt er frá hér að ofan, h1jóp vatn í fjárhús á Sauðanesi á Ásum í Húnavatnssýslu, svo þar köfnuðu inni 40 ær, og við sjálft lá, að gemlingar þar í öðru húsi, færi sömu leiðina. Fyrir miðjan þ.m. voru Grímseyingar hér, og sögðu þeir harðindin þar, sem yst á útkjálkum.

Þjóðólfur segir þann 27.mars:

Harðviðrin og stöðugt gæftaleysi helst hér syðra, menn gátu aðeins vitjað um net sín í fyrradag, hér innfrá en eigi syðra, en engi gat rennt færi; urðu þá nokkrir vel varir í etin þeir er höfðu flutt þau dýpra út eður af grunni og hraunbrún til sviðs 23. þ.mán., nokkrir þeirra fengu þá í (25. þ.m.) eftir 2 nætur frá 80—150 í tvær trossur en aftur urðu sumir eigi fisks varir, og engir þeir er áttu netin grynnra; ... Að því skapi sem gæftaleysið er hér, eru og harðindin til sveitanna, bæði sakir snjókyngi er féll með landnyrðingsroki her syðra, en einkum austanfjalls, dagana 18.—21. þ.mán,, og sakir storma, skafbylja og feyki moldryks, er síðan hafa gengið, lotalaust að heita má, hafa því hagar verið víða bæði litlir og illir, en þó ástöðuveður þessa síst fyrir sauðfénað.

Þjóðólfur segir þann 8.júlí frá skipstrandi þann 7.apríl:

Aðfaranóttina 7.apríl rak frakkneskt fiskiskip upp í Borgarhafnarfjörur í Suðursveit bar þar, að sögn, heilt og óskaddað upp á land, og það svo langt upp fyrir vanalegt flæðarmál, að eigi tókst skipverjum — en þeir vorn 21 að tölu og sakaði eigi neinn þeirra, — að koma skipinu á flot aftur, þótt þeir gerði sér það í von og biði því hinna næstu stórstrauma hvers af öðrum áður en þeir gæfi upp skip og farm. En svo varð þó að vera í endanum, og var þá allt selt á uppboðsþingi.

Apríl. Mjög köld og óhagstæð tíð. 

Þjóðólfur segir frá 11.apríl:

Landnyrðingsherpingur með mikilli fannkomu til fjalla og uppsveita hefir haldist daglega hér syðra frá því um lok [mars] og til þessa dags; hagleysur og ófærð sögð víða austanfjalls og hið efra um Borgarfjörð beggja megin Hvítár og víða sögð orðin heyþröng og fóðurskortur um þær sveitir. Að norðan hefir eigi frést síðan um 20. [mars]. Gæftaleysi hefir her verið yfir höfuð í öllum veiðistöðvum fyrir innan Hólmsberg, og miklu fiskitregara hér Innfrá og mjög fiskilítið á Akranesi þá sjaldan að gefið hefir; um og aflíðandi næstu helgi þótti aftur líflegra í færi um Garð og Leiru og góður afli um Vatnsleysurnar og í Hafnarfirði bæði á færi og þó einkum i net. 

Þann 27.apríl birti Þjóðólfur slysafregnir eftir bréfi úr Rangárvallasýslu 13.apríl:

[Þ.] 11. [apríl] reru nokkur skip fyrir Landeyjasandi, bæði frá Útlandeyjum og Austurlandeyjum, en úr sumum vörunum reru eigi nema fá skip, t.d. úr Áfhólavörum í Útlandeyjum eigi nema 2 skip af 10, því veður var ískyggilegt framan af deginum, en réðist betur þegar fram á leið. Fyrir öðru skipinu, er reru þenna dag úr Álfhólavörum var formaður Sigurður Halldórsson frá Álfólahjáleigu, ungur og efnilegur formaður, ókvæntur; þar var hann kunnugur sjávarföllum (sjóarskiptum) og lendingu, og vildi því sjálfur lenda þar aftur nú eins og fyrri; en fyrir tilmæli og áeggjan formannsins á hinu skipinu, bæði áður en þeir reru, því sá hafði staðráðið að flytja sig austur í Hallgeirseyjarvarir, þar sem hann þekkti vel til, — og aftur út á sjó þá um daginn er hann fullvissaði Sigurð um að þá væri þar ekkert að óttast, af að leggja að í Hallgeirseyjarsandi, þó að honum væri það fjærri skapi sjálfum, með því líka að hásetar hans lögðu það til, því þeir áttu allir hægri fiskidrátt þaðan úr sandinum heim til sín, heldur en úr Álfhólasandi, nema formaðurinn einn. En er skipið var komið inn að legu, inn af svonefndum hörslum, stóð það á sandhrygg (því lágsjóað var), og í sama vetfangi reið yfir það mikil holskefla er sópaði mönnum út úr skipinu í grænan sjó að fráteknum manni og dreng er tolldu í skipinu. Skipverjana er út tók bar alla í lón eitt fyrir innan sandhrygginn, nálega 60 faðma breitt; en annað skip var nýlent þar á undan Sigurði, og var skipshöfnin öll þar til staðar er þeim Sigurði barst á. Formaðurinn fyrir því skipi, Ólafur Jónsson, bóndi á Hólminum í Austurlandeyjum, einhver besti formaður og snarræðismaður, var þá eigi höndum seinni að láta vaðbinda sig og nokkra háseta sína og fengu þeir þannig bjargað allri skipshöfn Sigurðar, — hann komst sjálfur í land án mannhjálpar, — nema 3 er drukknuðu þarna.

Norðanfari segir fréttir þann 30.apríl:

[Þ.] 15.apríl kom norðanpósturinn að sunnan; með honum fréttist lítið annað en sömu harðindi og jarðleysur, sem hér um sveitir, einkum vestra, en nokkuð skárra syðra. Fyrir mestöllu Norðurlandi, að meðtöldum Hornströndum hefir sést hafíshroði á ýmsum tímum í vetur, en nú hafa lausar sagnir sagt hann horfinn, að minnsta kosti, hér norður undan. Síðan úr páskum [21.apríl] hefir verið austanátt og hiti nokkur, svo í flestum snjóminni sveitum, mun nú vera komin upp sæmileg jörð, enda munu flestir komnir á nástrá, og skepnuhöldin vera næsta óviss.

Þann 28.maí segir Þjóðólfur frá strandi franskrar skonnortu á skeri milli Heimaeyjar og Bjarnareyjar í Vestmannaeyjum. Virðist hafa gerst 30.apríl: „Veður var mjög hvasst á austan og lá nær því roki og ógurlega háar bárur og ylginn sjór er allt bar inn á höfn. ... Mikið af farmi skipsins hefir á 3 dögum verið bjargað, en þó flestu skemmdu og skipið sjálft er mölbrotið ... “.

Þann 8.júlí segir Þjóðólfur óbeint frá ís við Austurland í maíbyrjun:

Skonnert Harriet, skipstjóri O. Vandal frá Khöfn, eign P.C. Knudtzons & Sön og ætlaði nú að færa vörur til verslunar hans á Seyðisfirði, kom til Eskifjarðar 3.maí og og hafði áður haft hrakninga í ísnum þar fyrir framan um 2 daga; bar það nú, er til Eskifjarðar kom, upp í Daltanga, svo að við strandi lá, og bilaðist og varð svo lekt, að skipverjar gátu eigi varið; lagði samt þaðan til Reyðarfjarðar, og inn til Breiðavíkurstekkjar, var þá 2 álna sjór kominn í lestina, og var skipið tekið mjög svo að síga í sjó, svo skipverjar sáu eigi fært að halda lengra inn í fjörðinn, og settu því skipið þarna á land til þess að bjarga sér, og gáfu þar upp skip og farm til uppboðssölu, en þá var hann þegar farinn að skemmast ... 

Þann 7.ágúst birti Norðanfari úr bréfi af Snæfellsnesi, dagsett 4.maí:

Í byrjun aprílmánaðar þegar hafísinn reið í garð, er mælt að allir Bolvíkingar við Ísafjarðardjúp, hér um 36 bátar, hafi misst allar fiskilóðir sínar, sem eru með hverju skipi frá 16 til 20. ... Vetur lagðist hér að með linara móti, til þess eftir batann á góunni, að vindstreymi og frost hafa þyngt vetrarfarið.

Maí. Kalt í veðri og tíð erfið. 

Þjóðólfur rekur tíð, skepnuhöld og aflabrögð í pistli þann 10.maí:

Eftir yngstu fregnum víðsvegar að, er vér höfum úr Eyjafjarðarsýslu og öllu Norðurlandi þar fyrir vestan, frá 27. [apríl], hér á Suðurlandi austan frá Skeiðarársandi suðurúr, og úr héruðunum vestanlands allt fyrir sunnan Þorskafjarðarheiði frá því um sumarmál, en úr Barðastrandar-, Ísafjarðar og Múlasýslunum fram til miðs [apríl], því hafa vetrarhörkurnar haldist fram til sumarmálanna víðsvegar um land, nema um austari hluta Rangárvallasýslu einkum í hinni víðlendu og fjölbyggðu Eyjafjallasveit (undir Eyjafjöllum), því þar í sveit hefir mátt heita snjóa og ísalagalaust síðan um miðgóu; allur seinni hluti vetrarins hefir og verið miklu vægari að hörkum og hagleysum í Mýrdalnum (4 kirkjusóknir með nálega 130 búendum) heldur en í sveitunum fyrir austan Mýrdalssand. Allstaðar að, nema úr sveitunum milli Mýrdalssands og Rangár berast samróma fregnir um hagleysur, en einkum um stöðug og fádæma illviðri gjörvallan einmánuðinn, svo að víða var það að eigi var fénaði haldið á beit þótt hagsnöp væri, af því ekki var ástöðuveður fyrir fénaðinn, en allstaðar gengu heyin mjög undan, svo að draga þurfti af gjöfinni því meir sem hörkurnar urðu langþreyttari; hér af leiddi þá almennt heyleysi og flestallir komnir í fóðurþrot nú um sumarmálin, fáir sem engir er voru sjálffærir lengur auk heldur að þeir gæti öðrum hjálpað að neinum mun. Fénaður var því orðinn svo magur og dreginn yfir höfuð að tala, að víðast þótti einsýnn meiri og minni fjárfellir, ef eigi kæmi hagstæður bati þegar upp úr sumarmálunum; á þessa leið er oss skrifað úr flestum héruðum. En eigi er þess getið, svo vér vitum, að sauðfénaður hafi beinlínis verið farinn að falla fyrir og um páska, nema í Hraunhrepp í Mýrasýslu og í Múlasýslunum eftir því sem capt. Hammer færði fregnir af; þar um sýslur hafði hvergi séð á dökkan díl um páskaleytið [21.apríl] öræfa og sjávar í milli, og fénaður þá víða farinn að falla þar, enda hefði það verið þar almennt mál, að slíkur harðindavetur hefði þar eigi komið um hin síðustu 30 ár, eigi tillíka við þennan. Á 4-5 bæjum á Skaga er allur fénaður sagður fallinn.

Einmánaðarhörkunum fylgdi og hið mesta gæftaleysi um alla Ísafjarðarsýslu; gæftir voru öllu betri bæði undir Jökli en einkum hér syðra að minnsta kosti seinasta ½ mánuð vetrarins, en einmuna gæftir hér allstaðar sunnanfjalls síðan um páska. Eftir því sem ráða er af fregnum austan yfir fjall hafa þar og verið gæftirnar vel í meðallagi. Hlutarupphæðir í Mýrdalnum, (Dyrhólahreppi) og undir Eyjafjöllum vitum vér eigi gjörla, en þar mundi heldur lágir hlutir, — rúmt hundrað tólfrætt, eins er um Stokkseyri, Þorlákshöfn og þá í Selvogi miður en 2-3 hundraðahlutir fyrir Landeyjasandi og í Þykkvabænum.

Norðanfari segir af tíð þann 20.maí:

Veðráttan hefir nú síðan um sumarmál, verið oftar austan og suðaustan með frostnæðingum, svo lítið hefir tekið upp snjóinn; menn segja líka að í snjóasveitunum og á útkjálkum enn gaddur yfir allt og að kalla jarðlaust. ... Allt hvað séð verður nú til hafs er íslaust, en sumstaðar er aftur fullt af honum inn í víkum, fjörðum og flóabotnum. 

Enn segir Norðanfari fréttir þann 31.maí:

Austanpósturinn Sveinn Sveinsson, sem lagði héðan dögunum austur 5. þ.mán. er nú kominn hingað aftur í gær. Hann hafði farið frá Eskjufirði 18. þ. m. Með honum fréttist að austan, að veturinn þar í fjörðunum og á útsveitum hefði verið svo harður sem hér nyrðra, og að elstu menn muna eigi slíkan á þessari öld. Hafísinn rak þar að um miðjan apríl og fyllti alla firði. Heyleysið varð að kalla almennt og nokkrir voru búnir að fella pening sinn. Margir höfðu eins og hér nyrðra gefið skepnum sínum korn. Gaddur hafði enn um þær mundir að póstur fór að austan verið í flestum fjörðum og á útsveitum yfir allt, svo ekki sást sumstaðar á dökkan díl, þar á móti miklu betra í Héraði og Fljótsdal og láglendið snjólítið. — Fyrir fáum dögum síðan fyllti hér fjörðinn og næstu firði með hafís inn á Leiru, svo hann varla varð skipgengur; tók þá um leið fyrir hrognkelsaafla, sem kominn var sumstaðar talsverður og víða orðið vart við hann allri venju framar. Hafísinn er nú kominn að mestu aftur hér af firðinum; útifyrir er sagt íslaust, það sem eygt verður, en aftur hafið fyrir framan dýpstu mið fullt af honum.

Þann 26.júní segir Þjóðólfur af skipsköðum í maí:

Laugardaginn 4.maí reru þeir 2 bátar er gengu í vor í Beruvík (Breiðavíkurhreppi undir Jökli), fremur var gott veður daginn út, þó að nokkuð hvessti er á leið; öðrum bátnum, með formanni Grími Jónssyni frá Hellu, lentist vel, en er hinn báturinn sem var á uppsiglingu, átti skammt til lands hvolfdi honum, hann var líka tómur eður fisklaus, og drukknuðu 4 mennirnir en 2 fékk fyrrnefndur Grímur bjargað, það voru bræður tveir, Elías hreppstjóri frá Görðum, og formaðurinn Daníel Vigfússynir. ... Daginn fyrir uppstigningardag [u: 30.maí], fór héðan úr Reykjavík skip með 5 manns í beitufjöru inn í Hvalfjörð, 31. [maí] lögðu þeir þaðan aftur með hlaðfermi, en fremur var hann þver og heldur hvasst, og hefir því að líkindum verið ágjöf nokkur; víða af Kjalarnesi hafði til skipsins sést er það fór suðrum, og en sást það úr Brautarholtshverfinu, að skipið sökk með öllu, er það var komið lítið eitt suður á Kollafjörð, ...

Júní. Kalt var framan af mánuðinum en síðan hlýnaði nokkuð. 

Séra Þorleifur Jónsson í Hvammi í Dölum segir fjúkél hafa gert að kvöldi þess 12.júní.

Norðanfari birti tvo pistla í júní um tíð - þeim ber ekki alveg saman. Einna helst að síðari pistillinn sé ritaður snemma í júlí þó dagsettur sé í júní:

{17.]  Veðuráttan hefir allt að þessu verið að kalla hin sama og fyrr, norðan og austan næðingar með kulda og stundum frosti á nóttunni. Víða er kvartað að um að jörð sé kalin, einkum túnin, sem lautótt og láglend eru, en minna hólar og hálendi.

[29.] Síðan um miðjan f.m. hefir oftast verið sunnanátt og hlýindi, svo mikið hefir tekið upp snjóinn, þó kvað enn á sumum útkjálkum og til sumra byggðra dala vera baldjökull og varla komin upp sauðjörð. Sama er sagt um marga afrétti. Gróðurinn er sagður yfir höfuð fremur lítill nema í hinum veðursælustu sveitum og þar sem eigi er þá kalið. Aftur er sagt að gróðurinn sé betri og skepnuhöldin fyrir vestan, einkum í Húnavatnssýslu, en hér norður undan.

Norðanfari birti þann 7.ágúst tvö bréf, dagsett í júní:

[Sunnan af Mýrum, 12.júní] Skepnuhöld hafa í þessari sveit verið bærileg, en hér í næsta hrepp, hafa menn misst 60—70 fjár á sumum bæjum, en hinum þá minna. Þessi vetur er talinn með þyngstu vetrum, sem menn muna; var hér í hörðustu sveitum gefið inni undir 30 vikur.

[Axarfirði 22.júní] Tíðarfarið í vetur og vor var svo að elstu menn hér muna eigi eins langsöm harðindi og eins almennt heyleysi, sem þá áleið vetur, margir urðu heylausir fyrir kýr á sumarmálum. Jarðlaust var sagt um hvítasunnu [9.júní] víða í Þistilfirði, nokkuð mun hafa fallið þar af fé, en þó meira í Presthólahrepp, þar er orðin stórkostlegur peningsfellir og sumir bændur nær því sauðlausir. Í Axarfirði hafa margir misst töluvert og eitthvað í Kelduhverfi, en það sem eftir slórir gagnslítið eða gagnslaust; það lítur því svo út fyrir mestu vandræði manna á meðal framvegis.

Norðanfari birti þann 29.júní bréf af Jökuldal, dagsett 19.júní:

Frá því á veturnóttum og til hvítasunnu var á ýmsum sjóarkjálkum í Múlasýslum haglaust að kalla. Af þessu leiðir að margir af fjarðarbúum eru orðnir sauðlausir. En til dala og á uppsveitum var veturinn þolandi til jóla, en þá tók nú að sverfa að svo margir voru komnir hætt þá Guð gaf batann á góunni, er öllum skepnum, er enn lifa varð til lífs, þó jarðlaust yrði að mestu um Múlasýslur frá því með góulokum og til páska [21.apríl], en þá fór aftur að svíja til í snjóléttari sveitunum, enda var þá komið á síðustu tröppu fyrir öllum, því flestir þeir heybirgari voru búnir að gjöra sig ófæra fyrir annarra gripi.

Þjóðólfur segir af vorinu 1867 í pistli þann 24.júní:

Víðast hvar eður allstaðar um land, eftir því sem bréf og fregnir segja, linnti harðindunum útúr sumarmálunum og brá til þeirrar veðráttu, er hafði í för með sér viðvarandi bata. Þó að maímánuður mætti heita fremur kaldur eður með kaldasta lagi, eins og vér höfum séð af hitamælisskýrslunni, og væri með fullhörðum frostaköflum hér sunnanlands, svo að um gróður var eigi að ræða allan þann mánuð út, og það eigi hér suður við sjóinn aukheldur til uppsveita, þá varð veðráttan frá sumarmálum svo hagstæð að öðru leyti sem framast gat verið, þurr, snjóalaus og hretalaus; en kjarngott víðast það sem leysti undan snjónum og klakanum, er byrgði og þakti alla jörð á alauðu í svo mörgum sveitum, allt frá veturnóttum og til sumarmála. Þetta veðráttufar gjörði, að sauðburðurinn afklæddist vel yfir höfuð að tala og í flestum sveitum, þar sem ekki varð fellir, og enda einnig í sumum sveitunum þar sem þó nokkuð féll. ... Um syðsta hluta Suður-Múlasýslu mun fellirinn engu minni, eftir því sem bréf og fregnir sögðu er bárust með skipi af Papós um byrjun þessa mánaðar [júní]; sömu fregnir sögðu og allmikinn fellir um Lón, og um Suðursveit (Borgarhafnarhrepp) í Austurskaftafellssýslu, en lítinn um Nes og Mýrasveit (Bjarnaneshrepp), en allstaðar illan sauðburð um þær sveitir vestur að Breiðamerkursandi, hið sama má telja sannfrétt af sauðburðinum um Öræfasveit og alla Vestur-Skaftafellssýslu, en þar að auki talsverður fjárfellir um Skaftártungu, um Síðusveit hið ytra allt austur að Geirlandsá, miklu minna um Austur-Síðu, engi um Fljótshverfi, Meðalland og Mýrdal og lítill í Álftaveri. En allt frá Jökulsá á Sólheimasandi og vestur að Langá á Mýrum engi fellir, nema máski lítið eitt á einstöku bæ, og sauðburður í besta gengi um öll þau héruð.

Þann 8.júlí segir Þjóðólfur frá skipskaða í júní [líklega]:

Undir lok fyrra mánaðar rak skip tvímastrað upp fram af Hítarnesi í Mýrum og voru margbreyttar sagnir er út af fregn þeirri spunnar með fyrsta; en nú þykir áreiðanlega fregnað, að þetta sé skonnertan „Tilfældet", var lítt eða ólaskað að sjá, bæði skip og reiði; 2 menn fundust dauðir í skipinu, annar í káhyttu en hinn í skipverjaskálanum. Skip og farmur er seldur við uppboð þessa daga.

Júlí. Kalt. Sæmilegir þurrkar vestanlands og sennilega líka nyrðra, en annars bleytur. 

Séra Þorleifur í Hvammi segir frá éljadrögum þann 4.júlí og fjúkéljum um kvöldið. 

Þann 29.ágúst lítur Þjóðólfur til heyskapartíðar:

Heyskapurinn hefir gengið mjög misjafnt yfir til þessa; grasvöxtur vestan- og sunnanlands næsta rýr einkanlega á túnum, og voru þau þar að auki kalin víða til stórskemmda víðsvegar hér um allt Suðurland; um Múlasýslurnar leit út fyrir þann grasbrest á túnum eftir því sem oss er skrifað þaðan, um 12.— 14. f.mán. [júlí], að þar yrði eigi borinn ljár í gras fyrr en allra seinast í þeim mánuði eður í byrjun [ágúst], en um Eyjafjarðar-, Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu segja fregnirnar grasvöxtinn allt að því sem í meðalári. Nýtingin hefir verið góð nyrðra og vestra allt fram til miðs þessa mánaðar, og það allt hér suður til Hellisheiðar, en aftur fyrir austan fjall megn óþurrkatíð, einkum úr því kemur austur fyrir Þjórsá; var það t.d. á allmörgum bæjum í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum að eigi var kominn einn baggi í garð um miðjan þ. mán., en menn vona, að 3 næst undanfarnir góðir þerridagar hafi bætt mikið úr.

Ágúst. Kalt og óþurrkasamt nyrðra, en hlýrra sunnan- og vestanlands.

Séra Þorleifur í Hvammi segir að þann 26. hafi snjóað á fjöll og hálsa og um daginn hafi verið fjúkél og „grapi“. Hann heyrði í eldgosinu í Vatnajökli þann 29.ágúst: „Strax að morgni heyrðust dynkir miklir, svo tók undir í klettum og það öðru hverju að deginum með frekri brennisteinsfýlu er eins viðhélst allan daginn“.

Þjóðólfur segir þann 22.október frá skipskaða á Skagaströnd 5.september:

[Þ. 5.september] sleit upp á Skagastrandarhöfn í Húnavatnssýslu franskt fiskiskip: Le Fleche, skipstjóri Gonsselin, frá Dunqerken, reiðari Matth. Pool, voru skipverjar 20 alls og lést einn þeirra eða var fyrr látinn, en hinir 19 komust heilir af. Skipið hafði innanborðs 396 tunnur af söltuðum þorski, 49 tr. lýsis (líklega óbrædd lifur) og 8 tr. af kverksigum söltuðum, er þeir kalla „fiskitungur" og þykir hið mesta sælgætisfiskmeti þar í suðurlöndum. Skipið með rá og reiða og allur farmurinn var selt þar á Skagaströnd á uppboðsþingi en skipverjarnir 19 voru fluttir hingað, og sigla þeir nú allir með þessari gufuskipsferð.

September. Mjög votviðrasamur um landið sunnan- og vestanvert, en fleiri þerridagar virðast hafa komið nyrðra.  

Norðanfari segir af tíð þann 10.september:

Næstliðinn ágústmánuð hefir tíðarfarið verið hér norðanlands stormasamt, kalt og óþurrkasamt, nema dag og dag svo heyi lá við skemmdum. Einkum aðfaranótt hins 18. [Þ.] 25.-26. [ágúst] snjóaði hér mikið til fjalla og dala; en um mánaðamótin kom hér sunnanátt og besti þerrir svo flestir gátu náð heyjum sínum. Vegna grasbrestsins mun heyskapurinn en vera með minna móti. Í lok júlímánaðar voru hér horfur á að jarðeplavöxtur mundi verða í ár í góðu meðallagi, en síðan til óþerranna og kuldanna brá, hefir verpt skugga yfir þessar vonir, þar á móti er kálvöxtur hér með besta móti. 

Þjóðólfur segir þann 16.september af eldgosi:

Fimmtudaginn 29.[ágúst] (höfuðdaginn) var hér í Reykjavík, og vér ætlum víðast hér sunnanlands, þykkt veður og spakt, og andaði heldur af austri-landnorðri framan af deginum en svo lítið að varla varð þess vart. Þegar uppúr dagmálunum, fór að finnast allmegn fýla úti við og síðan inní húsunum einnig, og hélst hún við allan daginn; þeir sem kunnugir eru jöklunum í Skaftafellsýslu og hafa ferðast þar um Breiðamerkur- og Skeiðarársand, og yfir Jökulsá á Sólheimasandi í góðu veðri og þegar vatn er sem minnst í henni, fundu brátt að þetta var hin megnasta „jökulfýla“ og eigi annað. [Neðanmáls: Þessi hin sama fýla fannst bæði víðsvegar um sveitirnar fyrir austan fjall, víst allt austur að Markarfljóti og um Borgarfjörð; á Gilsbakka var prestskonan og ein systir hennar aðkomandi, á skemmtigangi þar um hinn fagra skóg fyrir neðan, á áliðnum degi, og brá þá fýlunni svo snöggt og megnt þar yfir, og eigi fyrri, að hún tók fyrir allan skógar- og grasailminn].

Þegar fram á daginn kom, fóru að heyrast dynkir og brestir miklir í fjallabyggðunum og hér um nesin einkum Kjalarnes og Kjós og Akranes, þangað er hin miklu fjöll Esjan og Akrafjall drógu til sín drunurnar, hið efra um Borgarfjörð heyrðust þær eigi fyrr en undir kveld; en hér í Reykjavík og á nesinu urðu fáir þeirra varir nema einstaka maður lítið eitt er voru staddir á hæðum uppi hér fyrir ofan, og þó óglöggt; hér liggja heldur ekki nein fjöll að í nánd eins og allir þekkja. Daginn eftir, föstudag 30. [ágúst] varð eigi vart neinnar fýlu neinstaðar, en brestir heyrðust þá en víða og þó daufar en hinn fyrra daginn. En eftir sólsetur um kveldið, eður eftir kl. 7 1/2 sást eldgosið glögglega og eldurinn gjósa upp og leggja á loft upp, bæði héðan úr Reykjavík og víðsvegar að úr öðrum sveitum fjær og nær, norðanlands og austur í Hornafirði víðsvegar um þær sveitir; frá Heinabergi í Suðursveit sást eldurinn enn laugardagskveldið 31. en eigi höfum vér sannar sögur af að hann hafi sést annarstaðar að þann dag, og hvergi dagana þar á eftir eður síðar. Öskufalls hefir hvergi orðið vart, svo að menn hafi tekið eftir, nema um sveitirnar beggja megin Breiðamerkursands, Öræfasveit að vestan og Suðursveit að austan. Þar varð öskufallið svo mikið, að jörð brá lit og kál varð svart í görðum, en hvergi fyrir vestan Skeiðarársand né norðanlands. Af því eldurinn sást svo glögglega af láglendinu hér syðra, töldu flestir engin tvímæli á því með fyrsta, að hann hlyti að vera eigi alllangt héðan, og eftir stefnunni héðan miðja vega milli réttvísandi austurs og landnorðurs, töldu menn því líklegast að hann mundi vera í hinum gömlu brunafjöllum austur af Skjaldbreið, milli suðurenda Langjökuls eður Baldjökuls og fjallanna norður af Laugardalnum. En brátt barst fregn úr uppsveitum Árnessýslu, hina næstu daga á eftir, að eigi væri eldurinn um neinar þær stöðvar, en aftur fullyrt um hríð, að hann mundi vera í Rauðukömbum norður af Hreppamannaafrétti, er brunnu ár 1344 eður um þau missiri og gjöreyddist öll byggð í Fossárdal af þeim eldi, heil kirkjusókn með 11 jörðum, eftir því sem annálar segja. En öllum er stefnunnar gættu, mátti vera fullljóst að þetta gat eigi verið með neinu móti, því Rauðukambar eru sem næst í háaustur, réttvísanda, héðan, og því síður gat það komið heim við eldstefnuna frá öðrum stöðum, þar sem hún var nákvæmlega miðuð, t.d. hið efra um Borgarfjörð, af Eyrarbakka, og frá Bjarnanesi og kirkjustaðnum Holtum í Hornafirði; enda barst Rauðukambafregnin brátt til baka með fullum sanni, þó að menn væri í lengstu lög tregir að gjöra sér í hugarlund og því síður að trúa því, að eldur þessi gæti verið vestan- norðvestan til í þeim hluta Vatnajökuls er Skaftárjökull nefnist, sakir fjarlægðarinnar, þar sem eldurinn sást svo glöggt víðs vegar að hér vestra; fóru þá nokkrir að miða hann við Skaftárgljúfur og um sömu stöðvar sem jarðeldurinn 1783 kom upp, en þetta er einnig móti réttri stefnu, enda ber og öskufallið það til baka, í sambandi með því að engi sáust þess leiðis ummerki á Skaftá eða að neins öskufalls yrði vart hvorki um byggðir né afrétti Suðurmanna né heldur um Skaftártungu. Og þó að menn austur um Hornafjörð teldi líklegast að eldurinn væri í Grímsvötnum eður um þær stöðvar, þá getur það með engu móti samrýmst við stefnuna frá Holtum í Hornafirði, og Bjarnanesi hinumegin Fljótanna, en báðir þeir kirkjustaðir liggja einmitt, á 64°N því þaðan var eldurinn að sjá „í miðaftanstað“ eður hávestur réttvíssanda, einsog aftur frá Stafholti, Reykholti, Hjarðarholti og Gilsbakka í Borgarfirði, en allir þeir staðir liggja ýmist rétt fyrir sunnan eður rétt fyrir norðan 64°40&#39;N, virtist eldurinn vera að sjá í há-austur eður suðuhallt austur; frá Eyrarbakka bar eldinn miðja vega milli Búrfells á Hreppamannaafrétti (vestanvert við Þjórsá í óbyggðum) og Heklu þó fremur nær Búrfelli, þ.e. í hálandnorður réttvísanda. Kaupskipið Cito skipstjóri Stephansen frá Khöfn, var á hingað siglingu vestur með landi sá eldinn, tók hann þá „hæð“ eður stefnu eldsins yfir Portlandshöfðann að sjá, og varð þá eldurinn þar í norður af.

Nú er menn bera saman allar þessar stefnur og draga saman í eina heild, þá hlýtur að bera að þeirri niðurstöðu að eldur þessi hafi gosið upp einhversstaðar úr hinni vestustu öxl Vatnajökuls eður Skaftárjökuls er liggur vestur úr meginjöklinum milli upptaka Tungnár að sunnan og fjallgarðsins þar fyrir sunnan (milli Tungnár og Skaptár) er liggur austur af Skælíngnum og Uxatinds fast upp i jökulinn og er sá fjallgarðurinn allmikill, en Tungnafellsjökuls og Köldukvíslar að norðan, og Fiskivatna að vestan. Það virðist óefandi, að eldurinn hafi komið upp í sjálfri jökulöxl þessari en eigi á öræfunum þar vestur af, eftir því sem ráða er af hinni miklu jökulfýlu, er lagði svo víðsvegar og náði yfir slíka fjarlægð, 29. f.mán. Nokkrir kynni að segja, að þá hefði vatnsflóð sjálfsagt orðið að hlaupa í Tungná og svo þaðan í Þjórsá í byggð; en það er engan veginn víst að þessi hin nýja eldgjá hafi spúð vatnsflóði, eins og t.d. að er tíðast um Kötlu, heldur lýtur að hinu gagnstæða það, hvað eldurinn sjálfur var bjartur og stöðugur og lagði hátt á loft upp, því það mun sjaldan eður aldrei með vatns og vikurgosi, heldur einmitt með hrauneðju eður hraunsteypugos.

Eldstöðvar þessar virðast því að hafa verið í jökulöxl þeirri, er nú var sýnt, milli 64°10&#39; og 64°25&#39;N, og 30°45&#39;31 — 10&#39; vestl.l., talið frá hádegisbaug Kaupmannahafnar; eldgjáin virðist og hafa spúð hraunefni en eigi vatnsflóði né heldur vikursandi eður ösku að neinum mun. Dagana 29.—31.[ágúst] og 1. þ.mán. var aldrei heiðskírt veður heldur þykkfengið, svo að eigi sá til sólar neinn þann dag hér syðra, og mátti því eigi sjá hvaða áhrif eldurinn hafði á sólina og birtu hennar, en síðan 1. þ. mán. hefir sólin haft sinn eðlilegan lit og borið eðlilega birtu, hefir og heiðríkjan þar upp yfir eldstöðvunum verið hrein og tær síðan og ræður því að öllum líkindum, að gos þetta hafi verið á enda sjálfsagt 2.-3. þessa mánaðar.

Þann 22.október birtir Þjóðólfur enn fregnir af gosinu - og leiðréttingar:

Af eldgosinu eystra, dagana 29.ágúst - 3. september höfum vér fengið mjög fáar fregnir til umbótar eður leiðréttingar á skýrslu vorri í blaðinu 16. f.mán. Síra Ísleifur Gíslason á Stokkalæk hefir ritað oss 20. [september] nokkuð gjörr um eftirtekt sína á eldinum, stefnuna sem hann var í þaðan að sjá ofl., dynkir miklir og jökulfýlan eigi fyrr en hér, 30. ágúst. Eldurinn sjálfur sást eigi fyrr en hér, nefnilega daginn eftir „á 3 stöðum og með talsverðu millibili“; svo var og reyndar hér í Reykjavík að kveldi sama dags, (30.) því að oss láðist eftir að geta þess hið fyrra sinni. Millibilið milli eldstólpanna héðan að sjá var þannig, að hið norðasta leiftur bar við norðustu öxlina á Lágafellshömrum, en bið syðsta um miðbik þessa sama fjalls eður við háhrygg þess. Síra Í.G. skrifar enn fremur, að eldsins hafi þar „orðið öðru hverju vart um vikutíma, þ.e. til 5. [september] en úr því ekki, ennfremur segir hann, að þaðan hafi eldinn verið að sjá „framan undir Vatnafjöllum“, sem eru rétt fyrir sunnan Heklu". En stefna þessi getur eigi vel samrýmst við hinar allar er vér höfum fyrr frá skýrt, því eftir landsuppdrættinum leiðir hún suður fyrir Tungnárupptökin. Aftur kemur stefna sú, sem eldurinn var miðaður við frá Haukadal í Biskupstungum, nefnilega í miðsmorgunsstað þaðan eður réttvísanda háaustur, alveg heim við hinar fyrri og lendir í Skaftárjökli fyrir norðan Tunguárupptökin. Haukadalur er nefniloga á 64°20&#39;N. alveg eins og Bjarnanes og Holtar (það var prentvilla fyrr : 64°N ístað 64°20&#39;) þaðan sem eldurinn sást í miðaftansstað, en hvorttveggja ber og saman við stefnuna bæði frá Eyrarbakka og héðan úr Reykjavík. Af því síðar fréttist, að í Jökulsá á Skeiðarársandi hefði komið eitt hið mesta hlaup 27.ágúst, hún hleypur þannig gjarnast 5. og 6. hvert ár, — þá héldu nokkrir, að þaðan væri sprottin hin mikla og almenna jökulfýla, en þetta getur vart átt sér stað, því t.d. vestur í Rangárvallasýslu hefði hana þá hlotið að leggja miklu fyrr en á 3. degi, og svo eru víst engi dæmi þess að jökulfýlu úr Skeiðarárhlaupi leggi hingað suður og vestur um land og svo norður um allan Skagafjörð, en þar var einnig hin megnasta fýla yfir allt 29. ágúst.

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 bréf úr Öræfum, dagsett 15.september:

Fréttir hefi ég ekki nema þær að mikill brestur var hér í grasvexti og þurrk, svo töður hröktust á túnum allt fram um höfuðdag, og sama er að segja um utantúnsheyafla, því ég get eigi sagt, að í sumar síðan um mitt sumar, hafi komið þurr dagur til enda. Þann 27. ágúst hljóp Skeiðará með vatnsflóði og ísjökum yfir allan Skeiðarársand, að svo miklu við sáum til, og í sjó fram. Á þriðja degi fór vatnið nokkuð að þverra. Svo var mikil íshrönn eftir á sandinum að eigi sást í hann fyrr en nokkuð leið frá. Vatnsflóðið gekk hér allstaðar upp á lönd, og skemmdi meira og minna af þeim með sandleðju. 29. s.m, sást eldur í jöklinum norður af Skaftafelli, hér um bil til 8.-9. sept., síðan hefi ég ekki heyrt getið um að neinn hafi séð eld. Aska féll hér norðast í sveitinni, en þó ekki til neinna muna, nema á Hnappavöllum, hvar sagt er að öskufallið hafi orðið mest, þannig að jörðin varð grásvört í rótinni.

Norðanfari segir af veðráttu og fleira 9.október:

Yfir höfuð hefir tíðin verið óstillt og votviðrasöm og erfitt með nýting á heyjum, þó hafa komið í milli þerridagar, svo flestir hér í nærsveitunum hafa náð heyi sínu allvel verkuðu. Nokkrir eiga hey úti enn. 1.—2. [október] var hér töluverð snjókoma og hvassviður norðan, og þriðja 9 gr. frost á R. Nú er sagður minni landburður af fiski hér utan til á firðinum en var í sumar, ógæftirnar hafa líka nú um tíma verið miklar. 

Október. Nokkuð umhleypingasamt, ekki mjög kalt en hrakviðri nokkur.

Þjóðólfur segir af tíð þann 30.október:

Allur síðari hluti sumars frá miðjum ágúst, hefir verið næsta rigningasamur víðast en þerrilaus nálega allstaðar um land; lágu svo útheyin yfir höfuð að tala óhirt að mestu leyti ýmist reidd heim á tún en ýmist á engjum allt frá því í vikunni fyrir höfuðdag, og var það víðast, en sumstaðar viku yngri, og framundir miðjan [október] er norðangarð gjörði i 3 daga eður meir, og þó einstaklega frostvægan, svo að flestar nætur var hér frostlaust niður við sjóinn. Þessa dagana 11.—14. [október] mun víðast hafa verið alhirt undan, og má nærri geta, að það hey hljóti að vera lélegt fóður, en allur fyrri heyskapurinn varð að standa ólagfærður í görðum og óuppgerður til fulls allan þenna tíma, svo að víða voru þau hey orðin drepin meira og minna. þannig lauk heyskapnum í ár, engjaheyskapur hrakinn, rýr og illur, ofan á mikinn og almennan grasbrest nálega allstaðar um land, bæði á túnum og engjum, en töður þar að auki meira og minna hraktar austanlands þegar kom austuryfir Þjórsá, en einkanlega í öllum Skaftafellssýslunum og Suðurmúlasýslu, því um þær sveitir allar þykir heyskaparóárið allt að því eins eða litlu betra en sumarið 1835. 

Nóvember. Tíð almennt talin hagstæð. Hiti yfir meðallagi.

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 bréf af Héraði, dagsett 19.nóvember:

Hér tók alltof snemma fyrir heyreytu manna með grimmum frostum, Heyföng eru minni en mörg ár áður. Túnin kól óttalega í Fjörðum, svo slíkt hefir engin séð fyrr svo víða, og mikið kól líka í Héraðssveitunum víðast hvar. Grasbrestur var hins vegar almennur nema á mýrum, sem seinast komu undan gaddi, þar óx víða í betra lagi. Tún og þurrlendi brast mest. Töður urðu þriðjungi og allt að tveim þriðjungum minni en í meðalári og víðast skemmdar af hrakningi og slæmri hirðingu. Fyrir þetta hafa nautgripir orðið að fækka í haust, og fækkuðu þó töluvert í vor eð var. Lömb voru fá til og þó óvíða nú sett á. Flestum var lógað miklu fleiri en vant er. Það er torvelt að telja tölum, allan þann skaða, sem menn hafa hlotið hér á þessu ári. Hausttíðin hefir mátt heita góð, þó hret og stórviður hafi komið stundum, og enn er alautt.

Í sama blaði Norðanfara (31.janúar 1868) er bréf úr Dalasýslu, dagsett 24.nóvember:

Um Breiðafjarðardali var grasár í lakara lagi og nýting bág, þar á ofan hafa inn komin hey skemmst meira og minna af hinum stöðugu úrfellum í haust bæði af regni og snjó. Snjór féll hér í langmesta lagi fyrst í nóvember, svo lá við sjálft að jarðlaust yrði. Nú er hér örísa og besta tíð.

Þjóðólfur segir þann 28.nóvember frá skipstrandi við Papós, líklega undir lok október, fleira kemur og fram í pistlinum:

Kornskip það sem von var á í haust til Papós-verslunarinnar í Austur-Skaftafellssýslu, strandaði þar eður bar upp í klettana á innsiglingunni, undir lok þ.mán. [október?] og öllum skipverjum var bjargað en þeir gáfu upp skipsfarm til yfirvaldsmeðferðar og var hvort tveggja selt á uppboðsþingi; nokkuð af kornmatnum hafði verið lítt skemmt en sumt af því „komið í graut", eftir því sem sunnanpóstur, er kom að austan 24. þ.mán. segir eftir þeim sýslumanni er komu þaðan að austan um þá dagana er póstur kom að Kirkjubæjarklaustri. Hitt er ótrúlegra, sem póstur hefir eftir þeim að tunnan af óskemmdu bankabyggi hafi komist að 20 rd. á uppboðsþinginu, en um 10 rd. tunnan af hinum skemmda mat.

Fregnir bárust hingað fyrr í haust um það, að hér og hvar um Skaftafellssýslu vestari og jafnvel einnig austan til í Rangárvallasýslu hefði rekið tunnur fullar með steinolíu í síðastliðnum septembermánuði. Nú er oss skrifað með þessari póstferð, að 6 muni vera orðnar samtals steinolíutunnur þær sem reknar væri hér og hvar þar í Skaftafellssýslu, og að jafnframt hafi rekið víðsvegar ýmis önnur brot af skipi um sama leyti, og heilt þilfar úr hafskipi á Kirkjubæjarklaustursfjöru; Strandreks þessi fór eigi að verða vart fyrr en nokkrum dögum eftir að hið mikla jökulhlaup kom í Skeiðará, 27.ágúst; hafi þá, segir bréfskrifandinn, rifjast upp fyrir mönnum, að fyrir nokkrum árum hafi sést kaupfar sökkva fyrir framan Öræfasveit (þar sem Skeiðará fellur fram með allri sveitinni vestanverðri suður til sjóar); hafi svo verið, hefir það sjálfsagt sandorpist þar í jökulleðjusandinum þegar í stað. Er nú getið til að strandrekið muni vera af þessu skipi og hafi þetta hið mikla jökulhlaup í ánni sumpart grafið undan því og sópað utan af því sandinum, en sumpart hafi hin miklu jökulbjörg er áin ryður fram með sér í hlaupunum (þau eru eins og stærstu hús) mölvað skipskrokkinn og leyst hann allan í sundur.

Desember: Fremur hlýtt í veðri og tíð almennt talin hagstæð. Mikið veður skömmu fyrir miðjan mánuð.

Norðanfari birti 31.janúar 1868 úr bréfi rituðu í Hjaltastaðaþinghá 2.desember:

Haustið og það sem af er vetrinum, hefir verið einstaklega gott, og varla komið snjór, svo að teljandi sé, og hlánað undir eins aftur. Fiskafli hefir allt að þessu verið sums staðar inn í fjarbarbotna og það mikill; einnig síld. 

Þjóðólfur segir enn af skipstrandi í frétt þann 13.desember:

Að kvöldi 7. [nóvember] sleit upp á Hofsóshöfn í Skagafirði skonnertskipið Aurora 28 lestir, skipstjóri P. M. Jensen frá Kaupmannahöfn; var þá hið mesta ofsaveður af útnorðri þar norðanlands, og hafði staðið á 4 dægur, og skipið eins og það væri í kafi af særokinu.

Þjóðólfur segir 29.janúar 1868 frá skiptapa á Breiðafirði í desember:

[Þ. 17. desember] lagði skip út Eyrarsveit vestra í hákarlalegu, veður var þá allgott en rauk upp um nóttina eftir af austri landsuðri með ofsaveðri er hélst daginn eftir eins og hér; póstskipið Arcturus hrakti þann dag vestur með landi og vestur fyrir Snæfellsjökul. Eigi að síður vonuðu menn þar víðsvegar um Snæfellsnes, að skipi þessu hefði auðnast að hleypa vestur í Breiðafjarðareyjar eða vestur í Barðaströnd, því formaðurinn Gísli Gunnarsson nálega 50 ára að sögn, var annálaður þar vestra fyrir formennsku og dugnað sinn, og kunnáttu alla til sjóverka, og allir hásetar hans, 10 að tölu, ungir og röskvir menn. Gekk svo um hríð, að engar ferðir né fregnir komu þar vestan að; en um síðir barst áreiðanleg fregn bæði úr Flatey og ofan af Barðaströnd, að eigi hefði þar komið annað fram, en rekin seglás með umvöfðu segli í Flatey, og koffort rekið uppá Barðaströnd.

Þann 15.febrúar 1868 birti Norðanfari bréf úr Hrútafirði, dagsett 24.desember:

Tíðin hefir mátt heita afbragðsgóð síðan á allraheilagramessu, oft þíðviðri með nokkrum rigningum og snjólaust upp í háfjöll. Laugardaginn 14.þ.m. kom hastarlegt norðanáhlaup með stórsjó og afarmikilli flæði, svo sjórinn gekk hærra á land en venjulega, braut víða framan til úr bökkum og tók út sem laust var, bæði báta við og fleira þar sem eigi var aðgætt; sjólöðrið gekk rétt að verslunarhúsunum á Borðeyri. Ekki hefir spurst að neinn skaði hafi orðið að þessu veðri.

Þjóðólfur segir af árferði, aflabrögðum og fleira í pistli þann 31.desember:

Vér höfum séð að allan október og nóvembermánuð var fremur hiti en frost að meðaltali, og kuldinn í desembermánuði varð víst aldrei að neinum mun meiri heldur en hlýindin. Haustveðráttan og vetrarveðráttan fram á þenna dag hefir því verið einstaklega hlý, svo að fáir þykjast muna jafnsnjólausa tíð, frostalausa og hlýja framanverðan vetur til ársloka eins og þessa. Sauðfénaður allur er líka sagður í bestu haustholdum fram á þenna dag hér víðsvegar um Suður- og Vesturland; en veðráttan hefir jafnframt verið hretviðra- og rigningasöm, því oftast hefir verið hafátt, en fyrir þetta hefir hrosspeningur hrakast mjög; hretviðri þessi voru mest allan framanverðan október, og ollu því, að svo seint náðist í garð allur þriðjungur útheysins, er þá var orðinn að lélegasta hrakningi, svo heyin stóðu lengi ólagfærð og óuppgerð til fulls og drap svo mjög víða, og sumstaðar til stórskemmda, það sem i garð var komið; þess vegna þykja heyföng manna bæði lítil og óáreiðanleg víðast hvar um land.

Ofsaútsynningsveðrinu 11.—12. þ. mán. fylgdi eitthvert hið mesta flóð og brimrót, sem elstu menn muna, og varð mikið tjón að því víðsvegar hér um öll nesin; víða tók út skip og báta; 3 skip og 3 bátar mölbrotnuðu á Akranesi, en þó er sagt að hvað mestur hafi orðið skipastólsmissirinn á Hvassahrauni og á Vatnsleysu (hjá Guðmundi bónda á Miðengi). Hjallhús fór þá hjá Vilhjálmi í Kirkjuvogi, og allt, farviður og búsgögn, er þar voru geymd, og gafla braut undan bæjarhúsum að Lónshúsum? í Garði. Víðsvegar þar syðra gekk sjórinn óvanalega hátt á land upp, og umrótaði öllum görðum og girðingum, er fyrir voru, byrgjum og skipanaustum. „Á Akranesskaga stórskemmdust tún á 3 jörðum, og fleiri lönd og vergögn fordjörfuðust,margir misstu bæði herslufisk og saltaðan úr hjöllum og byrgjum, og fleira þess konar, sem í þeim er vant að hafa“ (úr skýrslu frá hr. H.J. til Þjóðólfs l7. þ.m.).

Norðanfari birti þann 31.janúar 1868 úr bréfi úr Borgarfirði. Það er dagsett 29.desember:

Veðráttan hefir hér í vetur á Suðurlandi verið einstaklega ofviðrasöm með stórflóðum og brimum, en þó skaraði fram úr flóðið, og þó einkum brimið, fimmtudagsmorguninn 12 þ.m.; þá braut hér syðra bæði hús, skip og garða, með sjávarsíðunni, og geta menn með nokkurri vissu sagt, að þvílíkt brim hafi ekki komið í næstliðin 3—500 ár — en flóð oft annað eins, og vissulega það sem kom 1799 —, og nefni ég þá fyrsta atvikið af þremur, eins og sönnun fyrir einstaklega framúrskarandi brimafli. Það finnst í þrjúhundruð ára gömlum máldögum, að klettur sem nefnist Grásteinn og hafði staðið allt til þessa morguns (12.des.), eins og á hlóðum, og þau hlóð á fastaklöpp óhaggaður, en nú bylti brimið honum af hlóðunum, færði hann 5 álnir og sneri því upp sem niður var. Mér er sagt að steinn þessi sé 12 álnir ummáls og 4 álnir á hæð. Annað merkilegt atriði var það, að menn voru að bjarga skipum undan sjó á einum bæ á Seltjarnarnesi, en þegar búið var að bjarga heimaskipum kom eitt skip af sjó inn í vörina, sem náðist alheilt, og á meðan verið var að setja það, þá kom annað, sem líka náðist að mestu heilt; þau voru bæði rekin sunnan yfir Skerjafjörð, eða sunnan af Álftanesi ½ viku sjávar gegnum sker og boða. Við Reykjavíkursand mölbrotnaði hvort skip, sem ekki var sett nema einn bátur, sem því nær stóð lægst ofan til við gamlan þaragarð, en þegar brimið gekk að, sveiflaði það þaragarðinum yfir bátinn og grófst hann þar í sandi og þara, og var mokaður þar upp þegar út féll. Í einni lendingunni er sagt, að 6 för hafi tekið út, sem einn maður átti, og í Höfnunum hafi brimið brotið og tekið út timburhús með 2—300 tunnum af salti og fleira".

Suðurnesjaannáll [Birtist í Rauðskinnu hinni nýrri, III] segir frá veðrinu þann 11.desember: „Ógurlegt sjávarflóð með hafróti varð hér 11. desember um morguninn. Fórust bæði skip og hjallar, og tún biðu víða stórskemmdir. Hafði ei þekkst áður í manna minnum, og ekki minna því Bátsendaflóði“. 

Þann 18.júní 1868 birti Norðanfari tvö bréf úr Snæfellsnessýslu. Engin dagsetning er á fyrra bréfinu - en greinilega samt ritað 1867, greint er frá tíðarfari þess árs. Síðara bréfið er dagsett 24.febrúar 1868 - en fjallar að nokkru um veðurlag ársins 1867:

Frá því ég skrifaði þér í vetur héldust harðindin, harðviðri og jarðbann þangað til 5.apríl 1867, en minnilegast var þó norðanofviðrið 5.mars, enda var hér öldungis óstætt með megnasta frosti og kafaldssorta, sleit veðrið hér grjót úr fjöllunum og stórskemmdi með því mörg tún, og braut timburþak á kirkju á Knerri í Breiðuvík. Þegar batinn kom 5.apríl, voru margir komnir í heyþrot, og hefði dregist viku lengur, mundi víða hafa fækkað fénaður; batinn mátti heita að stæði fram til mánaðarlokanna, þó stöku kuldadagar kæmu á milli. 3. maí var hér mesta grimmdarveður, og aftur 18., 19. og 20. [maí] með mikilli fannkomu, og eins 26. og 27. Yfir höfuð var vorið kastasamt og gróður lítill, þó voru skepnuhöld fremur vonum, góð, og fráfærur allstaðar í seinasta lagi. Sláttur var hér víðast byrjaður seint í 14. vikunni, var þá almennur grasbrestur, bæði á túni og engjum, en af því veðuráttan var þurr, stöðug og góð, frá því og þangað til vika var liðin af september varð heyafli nálægt meðallagi, og allt hey með bestu nýtingu, en síðan hefir haustið verið dauðans bágt, ýmist norðan ofviðri, t.d. 28 f.m. eða kuldastormar með snjó og krapa, eða þá stórfelldar sunnan rigningar, dægrum og jafnvel sólarhringum saman.

Úr öðru bréfi frá sama manni, d. 24.febr. 1868: Eitthvað dálítið verð ég að minnast á veðuráttuna, því í henni er fólginn svo mikill partur af tímanlegu hagsældinni og tímanlegu bágindunum. Ég mun eitthvað hafa minnst á hana í sumri var fyrir það, sem þá var liðið. Bærileg veðurátta og nýting hélst hér um sveitir fram í miðjan september (1867), en þá tóku úrfellin til fyrir alvöru, með ákaflegum rigningum og litlum lotum, en engum verulegum þerridögum á milli; hraktist þá og ónýttist það, sem úti var, en það sem inn var komið drap og skemmdist, sauð niður eða fruggaði en brann sumstaðar. Minnilegastir rigningardagar voru: sept.16, 20.og 25, æstust þá ár og lækir, og gjörðu víða stórskemmdir, og 30; en í október 9. og 24 .; í nóv. 6. og 23 ; og í des. 3. 6. 13. En af stórviðrisdögum eru mér þessir minnilegastir í sept. 21. og 30., í október sá 25.; í nóv. 6. og 7.; og í des. 12. var hér óttalegt hafrót og stórflóð, gekk þá sjór sumstaðar fulla bæjarleið á land, braut upp land, bar upp á land stórgrýti, möl og sand, tók út og braut skip, og vann hér víða mikið tjón við sjó þar sem vindur stóð hlífðarlaust á land, og 25. um kvöldið.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar árið 1867. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lágur loftþrýstingur - miðað við árstíma

Lægðin sem nú er yfir landinu telst óvenjudjúp miðað við árstíma. Þegar þetta er skrifað er þrýstingur í miðju hennar rétt við 980 hPa. Það er að vísu nokkuð langt frá mánaðarmetinu en samt ekki árlegur viðburður. Flettingar í metaskrá sýna að sjávarmálsþrýstingur hefur þrisvar áður á öldinni farið niður fyrir 980 hPa í júlímánuði hér á landi. 

Það var þann 25. árið 2002, þá mældist lægsti þrýstingurinn á Dalatanga, 978,8 hPa, þann 2. árið 2014, en þá fór þrýstingur á Húsavík niður í 975,0 hPa og er líklega lægsti þrýstingur sem mælst hefur norðanlands í júlí. Þann 22.júlí 2012 fór þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum niður í 972,4 hPa og er það júlímet hér á landi. Lægðin sú varð reyndar enn dýpri, líklega um 966 hPa í miðju - en sá lági þrýstingur hitti ekki á landið. 

Eldra met var frá árinu 1901, 974,1 hPa, mæling úr Stykkishólmi þann 18. Eins og fjallað var um í pistli á hungurdiskum [17.desember 2018] er líklegt að þrýstingur í Reykjavík hafi þá farið niður í 972,8 hPa (eða þar um bil).

Vegna metsins 2012 setti ritstjóri hungurdiska saman pistil með vangaveltum um lægsta hugsanlega þrýsting í júlí hér á landi og birtist hann 23.júlí 2012. Niðurstaðan var sú að sá þrýstingur væri líklega á bilinu 953 til 956 hPa - en jafnframt að svo lágar tölur væru líklega mjög sjaldséðar, mikið vantar upp á að þær hafi sést í júlí í öll þau 200 ár sem nánast samfelldar þrýstimælingar hafa staðið hér á landi. 

Eins og minnst hefur verið á í fjölmiðlum hafa fáeinar óvenjudjúpar lægðir nú snemmsumars gengið inn yfir Skandinavíu og Finnland og höggvið nærri metum þar um slóðir. Í grófum dráttum má segja að lægðin nú sé afleiðing sömu stöðu. Hin óvenjulegi hlýindaatgangur yfir Síberíu og Rússlandi austanverðu hefur þrengt að kulda norðurslóða og stuggað honum suður til okkar (og N-Evrópu). Lág veðrahvörf (og lægðasveigja) fylgja kuldanum og hittist þannig á að hlýtt loft komist inn í þetta meginkerfi fellur loftþrýstingur mjög og lægðir hafa tilhneigingu til að verða óvenjudjúpar. Þetta er svosem ekkert nýtt, en því hefur hins vegar verið haldið fram að mjög djúpar sumarlægðir yfir Norður-Íshafi hafi orðið algengari á síðari árum heldur en áður var. Þessi meinta nýjung hefur þó varla staðið nægilega lengi til að hægt sé að fullyrða um einhverja marktækni hennar. 

Í viðhenginu er skrá yfir þá mánuði (og staði á landinu) þegar vitað er um að þrýstingur hafi farið niður fyrir 980 hPa í júlímánuði, líklega bætist ein ný tala við neðst á listann í dag. Tölurnar verða því 19 á um 200 árum. Nánast öruggt er að mælingarnar hafa misst af einhverjum tilvikum - þær voru lengi vel mjög gisnar, bæði í tíma og rúmi. Aðeins var mælt á örfáum stöðvum - jafnvel aðeins einum og þá aðeins einu sinni til þrisvar á dag. Við getum ráðið af þessu að þrýstings neðan 980 hPa sé aðeins að vænta í júlímánuði á 5 til 10 ára fresti að jafnaði hér á landi.

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur hér á landi í júlí er 1034,3 hPa, mældur í Stykkishólmi þann 3. árið 1917. Þrýstimælingar eru reyndar grunsamlega háar í Hólminum á þeim árum [ca.1914 til 1919], kannski um 0,7 hPa of háar. Ástæðan gæti verið óskráður flutningur á loftvoginni, en þrýstimælingar eru mjög viðkvæmar fyrir flutningum, t.d. veldur flutningur milli hæða í húsi skekkju upp á um 0,3 til 0,4 hPa. Næsthæsti júlíþrýstingurinn mældist á Gufuskálum þann 4. árið 1978, 1033,9 hPa - kannski sá hæsti sé Stykkishólmstalan lítillega of há. Þrýstingur hefur ekki komist yfir 1029 hPa hér á landi á þessari öld, ekki frá 1996 reyndar. Hæsta 21.aldartalan er 1029,5 hPa sem mældist á Reykjavíkurflugvelli og í Surtsey þann 6. árið 2012, rúmum hálfum mánuði áður en lágþrýstimetið var sett á Stórhöfða. Við látum alveg liggja á milli hluta hvort þessi „skortur“ er merki um eitthvað - en ritstjóranum finnst það reyndar ólíklegt - við fáum 1030 hPa einhvern daginn. Ekki er að sjá að langtímabreytingar hafi orðið á meðalþrýstingi júlímánaðar.

Háþrýstitölur júlímánaðar má einnig finna í viðhenginu. Minni líkur eru á að missa illa [svo skeiki mörgum hPa] af háum gildum heldur en lágum. Þegar þrýstingur er hár breytist hann oftast hægt - og er þar að auki svipaður á nokkuð stóru svæði. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 13
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 981
  • Frá upphafi: 2341355

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 899
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband