Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Hlýjasti október frá upphafi mælinga á landinu í heild?

Ekki er fyrirsögnin niðurstaða vottaðra reikninga - en fengin úr töflu sem ritstjóri hungurdiska endurnýjar um hver mánaðamót - sér til hugarhægðar. 

Landsmeðalhiti (í byggð) í október reiknast nú 7,5 stig, 0,4 stigum hærri en áður er vitað um. Gæti hnikast lítillega við yfirferð athugana. Í þessu samhengi eru 0,4 stig mikið. Næstu tölur eru í hnapp, þrír eldri októbermánuðir nánast jafnhlýir, 1915 (7,06 stig), 1946 (7,05 stig) og 1959 (7,04 stig). Svo er talsvert bil niður í næstu sæti, 1920 (6,60 stig) og 1908 (6,54 stig). - Neðstur á listanum er október 1917 (-0,67 stig).

Við látum mánaðaryfirlit Veðurstofunnar um að tíunda endanlegar niðurstöður fyrir einstakar stöðvar. 

Úrkomumet hafa verið sett víða - þar á meðal í Reykjavík sem rauf 200 mm múrinn í fyrsta sinn í októbermánuði. Svo virðist sem mánaðarúrkoman á Nesjavöllum hafi mælst 945,4 mm (bráðabirgðatala). Sé það rétt er það mesta úrkoma sem mælst hefur nokkru sinni á veðurstöð í október og aðeins rétt neðan við það sem mest hefur áður mælst í einum mánuði hér á landi (971,5 mm á Kollaleiru í Reyðarfirði í nóvember 2002). 

Á sjálfvirku stöðinni í Bláfjöllum er bráðabirgðasumma mánaðarins 998,0 mm - en stöðin sú hefur stundum verið að stríða okkur og rétt að fara vel yfir mælingarnar áður en tala hennar verður tekin fullgild. 

Svo stefnir mánuðurinn í að verða frostlaus á fjölmörgum stöðvum - þar á meðal í Reykjavík. Á fyrri tíð er aðeins vitað um eitt ár þar sem ekkert hafði frosið í Reykjavík fyrir 1. nóvember. Það var 1939, þá kom fyrsta frost 10. nóvember og það kólnaði hratt því þann 12. fór frostið niður í -8,2 stig. 


Fárviðrið 16. nóvember 1953

Enn bætist við pistla um fárviðri í Reykjavík.

Allmargir af elstu kynslóðinni muna enn fárviðrið 16. nóvember 1953. Það er oftast kennt við vélskipið Eddu frá Hafnarfirði sem fórst á Grundarfirði og með því níu menn - átta lifðu af eftir minnisstæða hrakninga. 

Slide1

Lægðin sem veðrinu olli var gríðarstór og djúp. Það er frekar óvenjulegt að landið verði illa úti í lægðum af þessu tagi - en þetta veður sýnir mjög vel að taka verður þær alvarlega. 

Slide3

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir stöðuna laugardaginn 14. nóvember og er hún sú sama og oft er fyrir slæm illviðri. Gömul lægð við Suður-Grænland og vaxandi lægð langt suðvestur í hafi á leið norðaustur. Þessi lægð er þó „lengra gengin“ á þroskaferli sínum heldur en flestar þær sem svo valda hvað skæðustum fárviðrum á Íslandi og fara sömu leið. Ritstjórinn hefur grun um að í henni hafi e.t.v. leynst einhver „hvarfbaugshroði“ - rakt hitabeltiskerfi sem tekið hefur þátt í mögnun lægðarinnar.

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins og er jafngilt sjávarmálsþrýstikorti, línurnar eru dregnar með 40 metra bili sem samsvarar 5 hPa. Greiningin segir lægðina vera um -160 m í miðju en það eru 980 hPa. 

Slide2

Háloftakortið sýnir sígilda dýpkunarvísa. Köld lægð við Grænland nálgast bylgju sem er á norðausturleið suður í hafi. Hér eru tvær háloftarastir að sameinast - önnur suður af Grænlandslægðinni, en hin á austurjaðri bylgjunnar. 

Í þessari stöðu hefði ritstjóri hungurdiska ástæðu til að búast við mikilli dýpkun lægðarinnar - en myndi telja að sú dýpkun ylli aðeins austan- og e.t.v. norðaustanátt hér á landi. Vondu veðri við suðurströndina og á Vestfjörðum, en aðrir landshlutar myndu e.t.v. sleppa mun betur. 

En - þetta reyndist svæsnara en svo. 

Slide4

Daginn eftir virðist þó sem þessi grunur gangi eftir. Hér var lægðin orðin bæði mjög djúp og gríðarlega víðáttumikil. Hún var komin niður undir 955 hPa og olli slæmri austanátt á landinu. Mjög hvasst varð af austri á Stórhöfða, yfir 40 m/s og sömuleiðis varð óvenjuhvasst af austri í Kvígindisdal, á Kirkjubæjarklaustri, Loftsölum í Mýrdal og á Hæli í Hreppum. - Ekki varð sérlega hvasst í Reykjavík enda varla vaninn í svona tilviki. 

Trúlega vanmetur endurgreiningin dýpt lægðarinnar á gildistíma kortsins og enn frekar síðar. En klukkan 18 var lægsti þrýstingur á landinu 953,6 hPa - og hafði kl. 21 hækkað upp í 955,8 hPa. Var hættan liðin hjá? Nei, vindur var farinn að vaxa af suðri. Snúður lægðarinnar reyndist óvenjuskæður og fór um nóttina til norðurs undan Vesturlandi og síðan til norðausturs-, norður fyrir land. 

Fárviðri leyndist nærri krappri lægðarmiðju inni í risalægðinni. Ættum við gervihnattamyndir sæjum við væntanlega svonefndan lægðarsnúð - í honum hefur að þessu sinni verið öflugur stingur - lágröst í kringum hlýjan kjarna lægðarinnar. Um kvöldið óx vindur mjög af suðri vestanlands og alla nóttina geisaði þar versta veður sem loks snerist til suðvesturs og vesturs. 

Slide5

Kortið sýnir stöðuna á miðnætti - þá var lægðin um 945 hPa djúp skammt fyrir vestan land. Í fljótu bragði virðist greiningin geta staðist - en svo vill til að þýska sjóveðurstofan í Hamborg - sem nákunnug var veðri við Ísland á þessum árum vegna togaraútgerðar þjóðverja - birti kort í skýrslu þar sem miðjuþrýstingur lægðarinnar var settur niður í 928 hPa. Er mjög trúlegt að þeir góðu menn hafi haft rétt fyrir sér. [Korti þessu verður e.t.v. bætt inn í þennan pistil síðar þegar skrifstofuflutningar ritstjórans eru yfirstaðnir - og tekið hefur verið upp úr kössum]. 

Slide7

Íslandskortið sýnir að kl. 15 var lægðarmiðjan komin norður fyrir land og enn var versta veður mjög víða - enda skorar þetta veður nokkuð hátt á illviðralistum. Veðrið fór síðan austur um landið og um kvöldið þann 16. var vestsuðvestanfárviðri austur á Dalatanga, en þá var vind farið að lægja vestanlands. 

Slide8

Veðurbókin frá Reykjavíkurflugvelli sýnir að fárviðri var talið um tíma snemma um morguninn. Mesta vindhviðan kom milli kl. 7 og 8 og var 43,8 m/s. Það var enn sunnanátt í Reykjavík kl.9.

Slide9

Þrýstiritið frá Reykjavík (skipt var um blað kl.10:30 að morgni mánudags 16. nóvember) er athyglisvert. Þegar lægðin nálgast fellur loftvogin jafnt og þétt - samtals hátt í 50 hPa. Við sjáum skil fara yfir um kl.13 (smábrot í fallinu) - en síðan snýst úr falli í ris um kl.19. Versta veðrið í Reykjavík er síðan í flatneskjunni um nóttina - við sjáum reyndar að nokkur smáórói er á ritinu. Þegar vindur loks snerist til vesturs tók þrýstingurinn loks rækilegt stökk upp á við, um 30 hPa frá kl.10 til 16.  

Á Keflavíkurflugvelli var veðrið verst um hádegi - en þá voru þar vestan 30,9 m/s. 

Edduslysið var auðvitað hörmulegasti atburður þessa mikla veðurs. Um það mun töluvert hafa verið ritað. Lýsingar blaðanna næstu dagana á eftir slysið eru átakanlegar. Um það mun eitthvað fjallað í bókinni Helnauð eftir Eirík St. Eiríksson sem út kom 1993 - ritstjóri hungurdiska hefur þó ekki séð hana og veit ekki hversu ítarlega lýsingu þar er að finna. Hörmulegt flugslys varð einnig úti á Grænlandshafi. 

En helsta tjón í veðrinu má tíunda: 

Mikið tjón og mannskaðar urðu í fárviðri. Níu menn fórust með vélskipinu Eddu á Grundarfirði og bandarísk flugvél með 5 manns fórst á Grænlandshafi.

Bátar sukku í höfnum á Eyrarbakka og Stokkseyri og bátar slitnuðu víða upp og sködduðust. Þök fuku allvíða af húsum. Þakplötur sópuðust af elsta húsi síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar á Akranesi og rúður brotnuðu í nokkrum íbúðarhúsum, maður skarst nokkuð. Grjótprammi slitnaði þar upp og rak upp í kletta.

Báðar Sogslínur til Reykjavíkur slitnuðu og víða varð rafmagns- og símasambandslaust. Þök fuku af fjórum hálfbyggðum húsum í Kópavogi og skúrar fuku í Reykjavík auk þess sem þakplötur og fleira losnaði af allmörgum húsum. Allmikið tjón varð í Keflavík, járnplötur fuku og rúður brotnuðu.

Hlaða og hesthús fuku í Ölfusi, tvö fjós og ein hlaða fuku á Vestdalseyri við Seyðisfjörð, rishæð fauk af íbúðarhúsi á Þorsteinsstöðum í Svarfaðardal, hlaða á Auðnum í Öxnadal og áhaldahús á Þelamörk. Heyhlaða fauk á Hurðarbaki í Kjós, tjón varð þar á fleiri bæjum og þak fauk af sumarbústað. Þak fauk af fjárhúsi og að hlöðu að nokkru á Grund í Skorradal.


Enn af hinum milda október

Nú eru aðeins tveir dagar eftir af þessum merkilega október - það má telja ljóst að bæði hita- og úrkomumet verða slegin. Úrkoman er þegar komin upp fyrir hæstu eldri heildartölur mánaðarins í Reykjavík og líklega verða met slegin á fáeinum öðrum stöðvum.

Meðalhitamet októbermánaðar í Reykjavík er 7,9 stig - frá 1915, næsthæsta talan er 7,7 stig (1959 og 1946). Október nú endar einhvers staðar á þessu róli - væntanlega ekki met - því talan nú er 7,94 og varla að hún haldist til loka - eitthvert fimm efstu sætanna virðist tryggt.

Í Stykkishólmi er keppt við 1946 og 7.8 stig - meðalhiti nú er 8.07 og enn möguleiki á meti. Á Akureyri erum við nú í 7,64 stigum - þar stefnir í 2. sætið - 1946 er á toppnum - en nokkuð langt niður í 1915.

Mælt hefur verið í Grímsey frá 1874. Þar stendur meðalhitinn nú í 7.71 stigi, langt ofan við það hæsta hingað til, 7,0 (1946).

Á Egilsstöðum er talan nú 8,51 - svo langt ofan við næsthæstu tölu að ótrúlegt er (6,4 stig, 1959) - en ekki var mælt á Egilsstöðum 1946, 1915 og 1908.

Á Teigarhorni hefur verið mælt frá 1873, hitinn þar er nú í 7,96 stigum - töluvert ofan við eldri topp, 7,4 stig frá 1908 og 1915.

Stórhöfði er í svipaðri stöðu og Reykjavík, meðaltal mánaðarins til þessa, 7,75 stig er nánast jafnhátt og hæstu tvö eldri gildi, 7,7 stig (1946 og 1915).

Miðað við síðustu tíu ár er hitavikið víðast hvar meira en +3 stig. Að tilölu er hlýjast (stærst jákvætt vik) hefur verið á Þeistareykjum (+5,1 stig) og á Nautabúi í Skagafirði (+4,9), en minnst á Steinum undir Eyjafjöllum (+1,9 stig).

Mánaðarmeðalhitinn er enn við 9,0 stig á Seyðisfirði og 9,2 stig við Herkonugili á Siglufjarðarvegi - en sú tala þarf nánari athugunar við.

Sólskinsstundir eru með allra fæsta móti í Reykjavík - þó ekki alveg á botninum. Loftþrýstingur nokkuð hár - en að tiltölu mun hærri austanlands en vestan - líklega einn af mestu sunnanáttaroktóbermánuðum allra tíma - en ritstjórinn gerir það ekki upp fyrr en síðar. - Þeir mánuðir voru tíundaðir í fornum hungurdiskapistli.

 


Fárviðrið 30. desember 1953

Enn er fjallað um fárviðri í Reykjavík, nú er nafnlaust veður í lok árs 1953 til umfjöllunar. 

Tíð var umhleypingasöm í desember 1953. Tímaritið Veðráttan segir: „Tíðarfariö var óvenju milt, en umhleypingasamt. Snjór var lítill, en jörð mjög blaut. Á stöku stað sáust útsprungin blóm. Samgöngur voru greiðar.“ Þetta er þriðjihlýjasti desember allra tíma og sá fjórðiúrkomusamasti fyrir landið í heild og líklega sá úrkomusamasti á Suðurlandi. 

Ákefðaráhugamaður um veður sem fylgdist með um þetta leyti sagði ritstjóra hungurdiska að hann hefði tæpast séð jafnmargar lægðir og skilakerfi fara yfir landið í einum mánuði. 

Við sjáum óróann vel á mynd. 

w-blogg291016

Það má telja margar lægðir á myndinni en hún sýnir loftþrýsting í Reykjavík á 3 stunda fresti þennan mánuð - frá þeim 20. kemst stærri sveifla í þrýstinginn og lægðirnar verða meiri um sig.

Þrjú veður í mánuðinum skila sér inn á illviðralista, þann 6., 16. og svo veðrið 29. til 30. - en í síðastnefnda veðrinu náði vindur fárviðrisstyrk á Reykjavíkurflugvelli.

Slide1

Hér er frétt sem birtist í síðdegisblaðinu Vísi þriðjudaginn 30. desember. Við sjáum að girðingin um Melavöllinn hefur skemmst allmikið í veðrinu - við getum þó ekki nefnt veðrið eftir þeim atburði því þessi girðing kemur við sögu í fleiri illviðrum. 

Lægðin sem olli þessu veðri verður að teljast venjuleg - hún kemur sem innlegg í reglulegri háloftabylgju suðvestan úr hafi. Hún var ekkert sérlega djúp.  

Slide2

Hér má sjá stöðuna í háloftunum þegar lægðin nálgaðist á mánudeginum. Vindur var kominn í suður þegar hvessti - trúlega hárastarveður. Heldur slaknaði á vindinum þegar kuldaskil fóru yfir - en hvessti svo aftur af vestsuðvestri.

Slide3

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins kl.6 að morgni þriðjudags 30. desember. Sjávarmálsþrýstikort lítur eins út, 40 metra jafnhæðarbil jafngildir 5 hPa þrýstibili. Innsta jafnhæðarlína lægðarinnar sýnir -160 metra, það jafngildir 980 hPa þrýstingi. En línurnar eru mjög þéttar yfir Íslandi - sérstaklega yfir Suðvesturlandi. Hæðin fyrir sunnan land er í kringum 1036 hPa í miðju. 

Stormur var víða um land - en hinn mikli vindhraði í Reykjavík kemur samt nokkuð á óvart. Vindhraðaritið fannst ekki við snögga leit (sennilega illa merkt), en við lítum á athugunarbók flugvallarins.

Slide5

Þar má sjá vindhraðann 33,4 m/s kl.9 og að vindhviða hefur farið í 42,2 milli kl.9 og 10. 

Slide6

Þrýstiritið er mjög loðið um það leyti sem vindur er mestur - trúlega hávaðasamt í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli þar sem spádeild Veðurstofunnar var staðsett á þessum árum. 

Eins og fram kom í frétt Vísis varð lítilsháttar tjón í Reykjavík, en mesta tjónið í veðrinu varð fyrir norðan. 

Fjárhús og hlaða fuku á bænum Krossum á Árskógsströnd. Hluti af fjárhús- og hlöðuþaki fauk á Jódísarstöðum i Eyjafirði og þak af útihúsi á Urðum í Svarfaðardal. Þak fauk á haf út á bænum Hlíðarenda í Breiðdal (mjög óviss dagsetning Breiðdalsatburðar). Bát rak á land við Húsavík.

Hörmulegt slys varð á Vatnsleysuströnd þann 30. þegar ung kona og piltur drukknuðu í brimsogi er þau voru að bjarga fé.


Af stöðu veðurs það sem af er mánuði

Nú (að kvöldi 26. október) er mánuðurinn loks kominn í toppsæti á bæði hita- og úrkomulistum í Reykjavík - og toppar hitalista víðast hvar á landinu. Sólskinsstundafjöldinn er nærri botni.

Úrkomumet fyrir október í Reykjavík er orðin staðreynd - en hitinn getur auðvitað slaknað síðustu dagana - og met ekki í höfn. Hann stendur nú í 8,39 stigum - ómarktækt ofan við 1959 (8,33 stig) og 1915 (8,30 stig). Bæði síðastnefndu ártölin enduðu undir 8 stigum. Dagsmeðalhitasumman (við köllum hana punkta) er nú 218,1 punktar - sem þýðir að 7 stiga meðaltalið næst - detti einhverjir dagar ekki niður fyrir frostmarkið. - 30 punkta vantar upp á að 8 stig náist, hiti þarf að vera að meðaltali 6 stig eða meira til mánaðamóta - ekki líklegt - en rétt svo mögulegt samt.

Á Akureyri er meðalhitinn það sem af er 8,17 stig. Við getum ekki reiknað daglega summu þar lengra aftur en til 1936 og er þetta hæsta tala á því tímabili, ómarktækt ofan við 1946 (8,12 stig. Í Stykkishólmi er meðalhitinn það sem af er mánuði 8,51 - það langhæsta sömu daga þar frá upphafi októbermælinga 1846.

Eins og áður sagði er nýtt októbermet úrkomu í Reykjavík staðreynd - fáeinar aðrar stöðvar eru einnig nærri úrkomumetum. Á Akureyri er úrkoman hins vegar aðeins 10.7 mm í mánuðinum til þessa - en hefur þó verið minni nokkrum sinnum, allra minnst 1939, 0,7 mm.

Sólskinsstundir hafa nú mælst 29,8 í Reykjavík, hafa þrisvar mælst jafnfáar (1946, 1945 og 1962) og einu sinni færri 1969 (26,6) á Vífilsstöðum mældust stundirnar færri 1922 (gæti verið rangt) og í hlýindamánuðinum mikla 1915, 14,8 (líklega rétt).

Árið - það sem af er - hefur hnikast upp í 6. hlýjasta sæti á 68-ára Reykjavíkurlistanum (og stendur í 6,55 stigum), efst er 2003 sem var á sama tíma í 7,10 stigum. Til að komast í efsta sætið - og verða hlýjasta ár í Reykjavík frá upphafi mælinga þarf meðalhiti það sem lifir árs að verða 3,8 stig - slík ósköp hafa reyndar átt sér stað 4 sinnum í fortíðinni og þar með verður enn að teljast fræðilegur möguleiki á slíku - en harla ólíklegt er það samt. - meðaltal síðustu 10 ára er 1,5 stig. - Með því að halda því meðaltali endaði árið í 5,65 stigum - og yrði það þá meðal tíu hlýjustu ára allra tíma í Reykjavík.

Vindhraði í mánuðinum (á landsvísu) er í 9. sæti síðustu 19 ára - ekkert sérstakt þar á ferð. Staðbundið kann hann að liggja ofar á listum.


Fárviðrið 5. janúar 1954

Þessi pistill er í syrpu sem fjallar um fárviðri í Reykjavík og er nú komið að svokölluðu „Hæringsveðri“. Hæringur var fljótandi síldarbræðsla sem um þessar mundir lá á Reykjavíkurhöfn, slitnaði upp í veðrinu og gerði usla. 

Þetta veður er nokkuð óvenjulegt, öðru vísi en öll þau fyrri í þessari pistlasyrpu. Veður af þessu tagi eru ekki algeng - alla vega ekki svona hörð - og lítið hefur sést til þeirra á síðari árum - kannski hluti af almennum vestanveðraskorti (sá skortur réttist væntanlega af um síðir). 

En við byrjum á blaðafyrirsögnum - í þetta sinn úr Vísi (nappað af timarit.is). 

Slide1

Þetta veður gerði á nýju tungli - skammt í stórstreymi og varð verst einmitt upp úr morgunflóðinu - en loftþrýstingur var alls ekki lágur - eitt af því sem óvenjulegt telst í þessu veðri.

Gríðarleg illviðri höfðu gengið vikum saman (og koma tvö til viðbótar við pistlasögu síðar). Veðurkortið var þó alls ekki sérlega ógæfulegt sunnudaginn 3. janúar - svona við fyrstu sýn að minnsta kosti.

Slide2

Kortið er úr ncep-endurgreiningunni, sýnir hæð 1000-hPa-flatarins og jafngildir sjávarmálsþrýstikorti þar sem línur eru dregnar með 5 hPa-bili. Mikil hæð er vestur af Bretlandseyjum - þar má sjá jafnhæðarlínuna 320 m - en hún jafngildir 1040 hPa. Þetta er mjög hár þrýstingur. Lægðardrag er við Suður-Grænland - virðist ekki láta mikið yfir sér - en lægð langt suðvestur í hafi. Afleitt veður er að sjá í sunnanverðri Skandinavíu - enda segja blöð frá miklum leiðindum þar um slóðir. 

Hlýtt var hér á landi þennan dag.

Slide3

Háloftakortið á sama tíma (sunnudag 3. janúar 1954 kl.12) sýnir að lægðardragið fyrir suðvestan Grænland er í raun mjög öflugt - og það var á leið til norðausturs. 

Daginn eftir (mánudaginn 4.) var veður versnandi um landið vestanvert. 

Slide4

Kröpp lægð hafði allt í einu grafið um sig á Grænlandssundi og sent vestanstroku beint frá Grænlandi yfir landið. Gekk á með éljum. Nú er þrýstingur við Labrador kominn yfir 1040 hPa -

Slide5

og ef við lítum á háloftakortið á svipuðum tíma tökum við eftir því að hæðarinnar sér lítt stað á því - öfugt við hæðina vestur af Bretlandi. Labradorhæðin og hinn hái þrýstingur yfir Suður-Grænlandi - undir hálofaröstinni - er mikil fylla af jökulköldu lofti sem æðir til norðausturs í átt til Íslands - að einhverju leyti yfir Grænlandsjökul. 

Um nóttina kom kaldasta loftið - og ás háloftalægðardragsins að landinu og þá um morguninn varð veðrið verst.

Slide6

Hér (kl. 6 að morgni þriðjudags) er lægðarmiðja nærri Vestfjörðum - og fárviðrisstrengur liggur allt frá Grænlandsfjöllum austur um Grænlandshaf og inn á Faxaflóa með -5 til -6 stiga frosti. 

Slide7

Háloftathugun sem gerð var í Keflavík kl.9 sýndi 40,6 m/s vindhraða í 850 hPa og -14 stiga frost. 

Slide8

Hér er sýnishorn af athugunum á Keflavíkurflugvelli þessa nótt og þennan morgun. Tíu-mínútnavindur fór þar mest í 30,9 m/s á athugunartíma (hugsanlega meira á milli) og vindhviða í 40,2 m/s. Frostið var á sama tíma -6,6 stig. 

Næturathuganir voru gisnari í Reykjavík.

Slide11

Hér er klipp úr vindritinu - þar sést að mesta hviðan er 42,2 m/s um 15 mínútur fyrir kl.8 og einnig sést að meðalvindur náði fárviðrisstyrk að meðaltali um svipað leyti. Má rétt ímynda sér særokið á Flóanum og við höfnina innan um glórulítið éljakófið. 

Slide10

Þrýstiritið sýnir að þrýstingur var ekki lágur - ritið liggur að vísu fáeinum hPa of hátt miðað við athuganirnar sjálfar - en hann fór aldrei neðar en rétt um 995 hPa í Reykjavík. Einhvers staðar í framtíðinni bíður ámóta veður þar sem þrýstingur er mun lægri. 

Það er óvenjulegt við þetta veður er að bæði hefðbundinna hita- og kuldaskila verður lítt vart - en hann hvessir úr háloftunum - og síðan e.t.v. beint af falli yfir Grænlandsjökul. Þetta hefur verið erfitt við að eiga fyrir veðurspámenn á sínum tíma - vonandi að tölvuspár nútímans nái svona löguðu betur.

Veðursins gætti langmest á Suðvesturlandi og á annesjum vestanlands og litlu hefur mátt muna að það færi alveg hjá skammt fyrir sunnan land. 

Sextán skip og báta sleit upp á Reykjavíkurhöfn, þar á meðal voru verksmiðjuskipið Hæringur, varðskipið Þór og fjórir togarar. Skemmdir urðu nokkrar. Grandagarður varð ófær af grjóti og þangi - auk rusls úr öskuhaugunum þar vestan við. Báta rak upp í Grundarfirði og á Hellissandi og þeir skemmdust mikið. Báta sleit einnig upp í Ólafsvík, en skemmdust þeir lítið. Hafnarferju og bát rak upp á Akranesi og skemmdir urðu þar á hafskipabryggjunni. Loftnet útvarpsstöðvarinnar á Vatnsenda slitnaði. Rafmagnstruflanir urðu vegna særoks.  

En þessi mikili illviðrabálkur hafði verið hlýr eins og fréttin hér að neðan ber með sér.

Slide13

Hálendi Íslands snjólaust að mestu. - Hér má benda sérstaklega á það að flugmaður telur Öskjuvatn (reyndar misritað Öskuvatn) sé íslaust - það er það greinilega stöku sinnum á vetrum án þess að eitthvað sé í gangi í neðra. 


Íslenska sumrinu lokið

Í dag er fyrsti vetrardagur að fornu tímatali og sumarmisseri ársins 2016 þar með lokið. Ritstjóri hungurdiska þakkar vinsemd á liðnu sumri og óskar lesendum gæfuríks vetrar. Sumarið var hlýtt - á landsvísu í 2. til 3. hlýjasta sæti á nýju öldinni - sjónarmun hlýrra var 2010. Sama á við um Reykjavík.

w-blogg231016a

Rauða línan sýnir landsmeðaltalið (í byggð) frá aldamótum - gráu súlurnar meðalhita í Reykjavík frá sumardeginum fyrsta ár hvert - til og með föstudags veturnátta - allt aftur til 1920. 

Sé rýnt í myndina kemur í ljós að sumarhiti í Reykjavík hefur ekki oft orðið hærri en nú - reyndar aðeins þrisvar, 2010, 1941 og 1939. Í fimmta til sjöunda sæti eru svo sumarið 2004, 2003 og 1960.


Fárviðrið 21. febrúar 1954

Yfirferð hungurdiska um fárviðri í Reykjavík er nú komin rúm 60 ár aftur í tímann. Þar hittum við fyrir harla óvenjulegt tímabil. Samkvæmt veðurbókum náði vindur fárviðrisstyrk í Reykjavík 8 sinnum á rúmum tveimur árum, 1952 til 1954. Þetta er of oft til að vera trúverðugt. Ástæður eru sennilega þær að vindmælir sá sem var í notkun var illa kvarðaður, mælingin fór fram í 17 metra hæð frá jörð (í stað 10) og oft var fremur erfitt að lesa af síritanum. 

En - í öllum þessum 8 tilvikum var veður auðvitað arfavitlaust þótt deila megi um hámarkið, og öll eru veðrin athyglisverð, hvert á sinn hátt og sum þeirra ollu miklu tjóni víða um land (en ekki öll). - Við skulum því láta sem ekkert sé og fara í gegnum alla þessa daga í sérstökum pistlum - í öfugri tímaröð sem fyrr. 

Fyrst verður fyrir skammvinnt sunnanveður 21. febrúar 1954. Mánuðurinn sá var afar skakviðrasamur - eins og næstu mánuðir á undan höfðu verið líka. Sjö dagar í mánuðinum ná inn á stormdagatal hungurdiska, 3., 4., 15., 16., 21., 25. og 26. Af þessum veðrum var það sem gekk yfir þann 15. til 16. verst - en þá náði vindur í Reykjavík ekki fárviðrisstyrk. 

Sviðið er kunnuglegt - veðrið svipaðrar ættar og fárviðrin 1981 og 1991.

Slide1

Kortið sýnir stöðuna sólarhring áður en veðrið skall á. Heimskautaloft streymir úr norðvestri inn á Atlantshaf á móti hlýrri bylgju úr suðri - á stefnumótaslóðum er mikil gerjun. Kortið er úr safni ncep-endurgreiningarinnar. Amerísku endurgreiningarnar eru tvær - þessi nær aftur til 1948 og er oft (en ekki alltaf) nákvæmari heldur en sú sem mest er vitnað í hér á hungurdiskum. Hér tekst henni mun betur upp - við skulum líta á muninn svona til að minna okkur á að trúa kortum sem þessum ekki alltaf bókstaflega.

Kortið sýnir hæð 1000-hPa-flatarins í metrum og eru jafnhæðarlínurnar nær alveg jafngildar þrýstilínum - en tölurnar aðrar. Fjörutíu metrar eru 5 hPa, eða 1 hPa 8 metrar, þannig að innsta jafnhæðarlínan við lægðina á Grænlandshafi (-160 metrar) sýnir 980 hPa þrýsting. [-160/8 = 20; 1000-20=980].

Slide2

Næsta kort sýnir stöðuna á miðnætti aðfaranótt 21. febrúar. Þá er lægðin við Snæfellsnes, um 959 hPa í miðju. - Það er reyndar jafnlágt lægsta þrýstingi á landinu á þeim tíma sem kortið gildir (á Reykjanesvita), en ljóst er af athugunum að lægðin hefur verið talsvert dýpri. Klukkan 6 var þrýstingur á Galtarvita kominn niður í 946,2 hPa, en miðjuþrýstingur lægðarinnar hjá ncep var þá um 956 hPa - og þrýstingur við Galtarvita um 960 í líkaninu. - Óþægilega mikill munur - rétt einu sinni. 

En sú mynd sem við fáum af aðstæðum og ástæðum veðursins er samt í aðalatriðum rétt. 

Slide3

Til samanburðar skulum við líta á tilraun tuttugustualdarendurgreiningarinnar - hún fer beinlínis út um þúfur. Miðnæturkortið sýnir mjög flata lægðarbylgju nærri suðvesturlandi og nánast logn í kringum hana. 

Slide4

Síðasta kortið sýnir 500 hPa-greiningu ncep - mikill og djúpur kuldapollur á Grænlandshafi - gæti fætt af sér fleiri illviðri svipaðrar ættar - en gerði það ekki. Kuldinn þokaðist þess í stað austur á bóginn og gat af sér allmikið norðankast nokkrum dögum síðar - norðanköst ætti e.t.v. að segja - leiðindin þau stóðu í meir en 10 daga.

Slide5

En lítum nú aðeins á stöðuna í Reykjavík - fyrst á þrýstiritinu hér að ofan. Það er um hádegi laugardaginn 20. febrúar sem loftvog fór að falla og vindur að blása af austri og austsuðaustri. Ekki varð þó sérlega hvasst fyrr en hann skall mjög snögglega skömmu eftir miðnætti með gríðarlegu sunnanveðri og krapahríð. 

Slide6

Vindritið sýnir vel hversu snögglega þetta gerðist. Miðnætti er lengst til hægri á myndinni - tíminn gengur síðan til vinstri. Það er rétt fyrir kl. 1 sem hvessti. - Það var laugardagskvöld - fjöldi fólks á skemmtistöðum (sem ekki voru jafnlengi opnir á þessum árum og nú er). 

Slide7

Á nóttunni voru veðurathuganir gerðar á aðeins 3 stunda fresti - en ástæða hefur þótt til aukaathugunar kl. 02:35. Þá var vindur af fárviðrisstyrk og hviður upp í meira en 40 m/s. Enn var hvasst kl.6 - en samt mun skaplegra veður. 

Nokkuð tjón varð í þessu veðri, mest á Vestfjörðum. Þetta er það helsta sem getið er um í blöðum.

Mikil umferðarteppa á höfuðborgarsvæðinu, austanfjalls og suður með sjó. Margir lentu í hrakningum og minniháttar meiðsl urðu á fólki. Miklar rafmagnstruflanir urðu við slit loftlína innanbæjar.

Á nokkrum stöðum á Vestfjörðum skemmdust þök á húsum. Heyhlaða fauk á Ísafirði. Fjós fauk ofan af kúm og járnplötur fuku af íbúðarhúsinu í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði. Skemmdir urðu á húsum á Flateyri, þar fauk trillubátur út vetrarstæði og fisktrönur sömuleiðis. Þak fauk af gömlu íshúsi á Suðureyri. Þak fauk af fjárhúsi í Norðurfirði á Ströndum og víðar varð tjón þar í sveit. Nokkrar skemmdir urðu á Bíldudal. Minniháttar skemmdir urðu á húsum á Keflavíkurflugvelli.

Um það var rætt að krapahríðin hefði verið mikil í uppsveitum Árnessýslu og valdið þar leiðinlegum áfreða og ófærð sem auðvitað hélst allt norðankastið sem sem kom í kjölfarið. 


Af október 1959 og nú

Nú er staða mála þannig að meðalhitinn fyrstu þrjár vikur októbermánaðar hefur aðeins einu sinni verið hærri í Reykjavík. Það var á sama tíma 1959. Svo hittist á að þá var kosið til Alþingis rétt eins og nú. Kjördagar voru tveir, 24. og 25. - Þetta eru reyndar ekki einu skiptin sem Alþingiskosningar hafa verið í október, það var líka 1942 - og kannski oftar. 

Þótt þessir mánuðir 1959 og nú keppi í hlýindum - eru þau alveg ótengd kosningunum (eða vonandi eru þau það) - því tíð var fremur köld og illviðrasöm í kosningamánuðinum 1942. 

En tímaritið Veðráttan segir þetta um október 1959:

„Einmuna tíð var á Norður- og Austurlandi, en mjög úrkomusamt sunnan lands og vestan. Víða sáust útsprungin blóm í túnum, og ber voru óskemmd fram undir mánaðamót. Kýr voru yfirleitt ekki teknar á fulla gjöf fyrr en um veturnætur. Á óþurrkasvæðinu urðu hey sums staðar úti, en heyfengur varð þó mikill um allt land. Sumir fjallvegir tepptust vegna snjóa eftir þ. 25., og um sunnan- og vestanvert landið spilltust vegir sums staðar af bleytu. Gæftir voru yfirleitt fremur stirðar.“

Nú, - við lestur þessa texta sjáum við að sumir fjallvegir hafi teppst vegna snjóa eftir þann 25. - Það kólnaði sum sé - mánuðurinn gaf eftir þannig að október 1915 fór upp fyrir hann á lokametrunum í keppninni um hlýjasta október í Reykjavík. Í textanum er líka vísað í „óþurrkasvæðið“. Þar er verið að vísa í að síðari hluti sumars 1959 var heldur erfiður við heyskap víða á Suðurlandi - og hafði ekki tekist að ljúka heyskap. 

Við skulum líta á kort sem sýnir stöðuna í háloftunum á fyrri kosningadaginn 1959 í boði japönsku endurgreiningarinnar.

w-blogg221016b

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - þykktin sýnd í lit. Af hæðarlínum má ráða styrk og stefnu háloftavinda - hér hægir af norðvestri yfir landinu. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs meðalhiti í október er um 5340 metrar - inni í grænu litunum. Hér er hún um 5260 metrar - um 80 metrum undir meðallagi, um 4°C. - Vikið í Reykjavík varð þó ekki svo mikið.

Við förum auðvitað að leiða hugann að því hvernig fari nú - hvert verður úthald þessa mánaðar í hitakeppninni? - Við vitum það auðvitað ekki - en við vitum hvernig fór 1959 og lítum á það á mynd.

w-blogg221016a

Línuritið sýnir hitavik í Reykjavík - miðað við meðaltal hvers dags 1961-2010 - í september til nóvember 1959 (rauð strikalína) og vikin í september og október nú - fram til dagsins í dag (21. október). Það er nokkuð sláandi hvað línurnar tvær fylgjast að - september svona í ríflegu meðaltali - síðan alveg sérlega hlýr október - að minnsta kosti framan af. -

Kólnunin sem varð svo í kringum kosningarnar 1959 var töluverð - en hiti fór samt ekki nema rétt undir meðallagið. Viðbrigðin hafa samt orðið mikil - og ekkert varð úr meti í Reykjavík. - En hann situr samt á toppi hlýindalista á 34 veðurstöðvum - nördin geta fundið lista yfir þær í viðhenginu. 

Svo leið aðeins fram í nóvember - þá gerði eftirminnilegt norðanveður - og kólnaði rækilega um hríð (og með hríð). Þann 13. nóvember var hiti -9 stigum undir meðallagi í Reykjavík - meðalhiti sólarhringsins -6,8 stig. Verulegt kuldakast gerði líka í nóvember 1915, en vonandi sleppir nóvember 2016 okkur við svoleiðis nokkuð - samt er aldrei á vísan að róa. 

Í pdf-viðhenginu eru veðurkort og veðurathuganir októberkosningadagana 1911, 1916, 1923, 1942 og 1949. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sýndarlægð (?) fer hratt yfir landið

Ef til vill vafasamt orð „sýndarlægð“, en eitthvað verður að nota yfir eitthvað sem lítur út eins og lægðasveipur - er það ekki (?) - en er það samt. Modis-mynd frá því um kl.14 í dag (fimmtudag 20. október) sýnir sveipinn vel.

w-blogg211016a

Hér er sýndarlægðin yfir Norðausturlandi, en kom upp að landinu milli kl. 10 og 11 í morgun, og var komin norður af skömmu eftir að myndin var tekin. Lesendur eru hvattir til að stækka myndina. Suðsuðvestanátt var ríkjandi í öllum hæðum (suðlægari þó við jörð vegna núnings) og bjó hún til bylgjuskýin sem eru greinileg alls staðar í við fjöll og í „skjóli“ þeirra. Þessi lægri ský vita ekkert af sveipnum fyrir ofan. Háskýin eru mest yfir Vatnajökli og mynda gríðarmikinn skugga langt norður á Ódáðahraun. 

Sveipir sem þessir sjást margir hverjir næsta vel á vatnsgufumyndum - og þessi sérlega vel.

w-blogg211016b

Vatnsgufumynd þessi er tekin kl.9 í morgun þegar sveipurinn var rétt sunnan við land. Hann kemur fram sem svartur blettur - þar þrengir mjög þurrt loft sér niður úr heiðhvolfi. Yfir landinu, norðan jökla, er mikið straumstökk sem sést sem skörp hvít brún - (svart) niðurstreymi er sunnan stökksins, en í því rís loft að neðan (rakt) upp í samfelldum vegg allt upp undir veðrahvörf - og kembir svo norður af í enn meiri vindi. 

Þegar sveipurinn kom inn yfir landið hreinsaði hann stökkstrókinn alveg burt. Á meðan þessi atburðarás átti sér stað urðu miklar sveiflur í loftþrýstingi á hálendisstöðvunum norðan jökla - en sýndarlægðarinnar varð lítt sem ekki vart. 

Kemur nú að því sem illa sést - en sést samt ef vitað er að hverju er verið að leita. 

w-blogg211016c

Horfum aðeins á þetta kort. Það sýnir hæð 300 hPa-flatarins á hádegi í dag - landið er á miðri mynd. Einnig má sjá vind (hefðbundnar vindörvar) og hita (litir). Örin bendir á miðju sýndarlægðarinnar. Þar um kring er vindur mun minni en austan og vestan við - ekki nema um 15 m/s. Vindátt er svipuð yfir landinu öllu. Við vitum (af myndunum) að hraði sveipsins var um 20 m/s (70 km/klst). Ef við nú drögum hreyfihraða hans (og stefnu) frá öllum vindörvum í kringum landið kemur í ljós að frá sveipnum séð er norðanátt vestan hans - en sunnanátt austan við. Sveipurinn heldur að hann sé raunveruleg lægð og sýnir sig sem slíka. 

Þessi sýndarlægð var háloftafyrirbrigði fyrst og fremst - en ámóta „lægðir“ geta sýnt sig í öllum flötum - og hungurdiskar hafa nokkrum sinnum sýnt kort og/eða myndir af þeim. Það er t.d. furðualgengt að svona „lægðir“ komi að landinu úr norðaustri - norðaustanátt allt um kring - en afhjúpi hringrás sína sé hreyfistefna og hraði dregin frá. 

Hvað á að kalla lægð sem hefur enga þrýstimiðju - en samt eðlilega lægðarhringrás? Ritstjórinn kýs hér orðið sem notað hefur verið, „sýndarlægð“ - þó nokkuð tilgerðarlegt sé. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband