Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

Hæstu veðurstöðvar landsins - og smávegis meir

Þótt veðurathuganir á hálendi og fjöllum Íslands séu í mun betra horfi á síðustu árum en áður var eru hálendisstöðvar samt fáar miðað við heildarflatarmál hálendissvæða. Í tilefni af því að um miðjan júní var stöð komið fyrir ofarlega á Dyngjujökli skulum við líta á lista yfir þær stöðvar sem eiga einhverjar færslur í gagnagrunni Veðurstofunnar og eru í meir en 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Sumar þessara stöðvar athuguðu aðeins um skamma hríð og eru nú aflagðar.

Skylt er að geta þess að Raunvísindastofnun Háskólans (ritstjórinn hefur löngu týnt þræðinum í nafnabreytingum stofnana og deilda og biðst velvirðingar á því) hefur að sumarlagi rekið stöðvar víðs vegar á Vatnajökli - en þau gögn eru ekki í fórum Veðurstofunnar - en eru væntanlega í góðu lagi. Sömuleiðis hafa ýmsir framtakssamir aðilar aðrir rekið stöðvar á hálendi - og er það vel - en ekkert hefur ritstjórinn frétt af reglubundinni gagnasöfnun þeirra. 

nafnhæð yfir sjó  júlíhiti °C
Dyngjujökull1689  0,2
Gagnheiði949  3,7
Nýibær890 hætt 
Tindfjöll870 hætt 
Sauðahnjúkur855 hætt 
Brúarjökull845  2,5
Jökulháls825 hætt 
Sandbúðir820  6,8
Hágöngur819  7,6
Snæfellsskáli810 hætt 
Stórisandur797 hætt 
Sáta785  6,8
Skálafell771  6,8
Þverfjall753  5,6
Innri-Sauðá750  5,9
Brúaröræfi748  6,4
Jökulheimar726  6,9
Eyvindarstaðaheiði711 hætt 

Taflan sýnir nafn stöðvar, hæð yfir sjó og meðalhita í júlí 2016. Dyngjujökulsstöðin er ofarlega á jöklinum - ekki langt þar frá söðli þar sem fer að halla niður til Grímsvatna. Hún er langhæst stöðvanna hér að ofan - enda var þar langkaldast í nýliðnum júlí. Hafa verður þó í huga að uppsetning stöðvarinnar er ekki eftir almennum staðli. Skynjarar eru ekki í 2 metra hæð eins og forskrifað er heldur eru þeir nær „jörðu“, það er yfirborði jökulsins. Þessar sérstöku aðstæður valda því að erfitt er að bera hitann á stöðinni saman við hinar stöðvarnar af öryggi. 

En við tökum líka eftir því að kaldara er á Brúarjökli heldur en á Gagnheiði - þó Gagnheiðarstöðin sé 100 metrum hærra yfir sjó. Líklegasta skýringin er sú að á Brúarjökli fer mikil aðkomin orka í snjóbræðslu - yfirborðið verður varla nokkurn tíma heitara en 0 stig - það getur því ekki hitað loftið á sama veg og klappirnar á Gagnheiði gera. 

Aftur á móti er að tiltölu miklu kaldara á Gagnheiði heldur en t.d. í Sandbúðum - það munar meir en 3 stigum þótt hæðarmunurinn sé ekki nema rúmir 120 metrar. Að einhverju leyti kann þetta að stafa af áðurnefndri snjóbræðslu - en meiru munar þó væntanlega vegna tveggja annarra þátta. Annars vegar þokumyndun á Gagnheiði umfram Sandbúðir - þokan dregur úr upphitun sólar, en hins vegar því að stöðin á Gagnheiði er mun oftar í lofti á uppleið heldur en það loft sem um Sandbúðastöðina leikur - það er meira komið frá hlið.

Síðara atriðið á einkum við þegar einhver vindur er. Loft á uppleið kólnar alltaf - fjallatindar í vindi hafa því tilhneigingu til að vera kaldari heldur en slétta í sömu hæð - sömuleiðis í sólskini og hægum vindi. Aftur á móti er sléttan kaldari í hægum vindi þegar bjartviðri er - en sólaryls nýtur ekki - á nóttum að sumarlagi og oftast að vetrarlagi. 

Júlímeðaltalið á Dyngjujökli er það lægsta sem sést hefur á íslenskri veðurstöð, í hinum kalda júlí í fyrra (2015) var meðalhitinn á Gagnheiði ekki nema 1,6 stig (2,1 stigi lægra en nú). Það var þá lægsta júlímeðaltal sem sést hefur hér á landi. - En við vitum ekki hvað hæð mælisins yfir jökulyfirborðinu hefur lækkað meðalhitann í júlí á Dyngjujökli miðað við 2 metra staðal. - Við getum því varla að óathuguðu máli viðurkennt Dyngjujökulsjúlíhitann sem nýtt júlímet fyrir landið. Við getum það e.t.v. síðar ef það tekst að reka stöðina áfallalítið næstu árin. 

Það er líka athyglisvert að frá því að Dyngjujökulsstöðin byrjaði um miðjan júní hefur lágmarkssólarhringshiti hennar alltaf verið sá lægsti á landinu. - Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvenær dagar fara að detta út á þeim hreina metaferli. Kannski má líta á það sem einskonar haustmerki þegar að því kemur. Við vitum það þó varla - en vitum kannski eftir svosem eins og 7 til 10 ár.

Dyngjujökulsstöðin hefur líka sett fjölda landsdægurlágmarksmeta í sumar, 25 alls á 67 dögum. Þar á meðal er lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí, -7,2 stig, en við látum samt vera að færa þessi met formlega til bókar.

Það hefur alltaf farið í fínu taugar ritstjórans (ef hægt er að segja slíkt um eitthvað sem er slitið og trosnað) þegar verið er að tíunda lágmarkshita í 3000 metra hæð á Grænlandsbungu (stöðinni sem nefnd er Summit) sem þann lægsta á norðurhveli í þessum mánuðinum eða hinum og sleppa þar með mun athyglisverðari tölum annarra stöðva í byggðum eða „venjulegum“ óbyggðum. Röðin frá Grænlandsbungu verður fyrst athyglisverð til samanburðar þegar stöðin hefur verið starfrækt um áratugaskeið. - Svo er spurning hvort allt sé með feldu á stöðinni - er hún sett upp samkvæmt stöðlum (vonandi)? - En það þýðir víst lítið að kveina. 


Halda hlýindin áfram?

Mjög hlýtt hefur verið á landinu undanfarna daga og eru síðustu fjórir sólarhringar (15. til 18. ágúst) allir á lista sem sýnir fimm hlýjustu daga ársins - þar af í þremur efstu sætunum. Ský hafa verið nokkuð ágeng þannig að síðdegishiti hefur ekki komist í hæstu hæðir - en þó yfir 20 stig á allnokkrum stöðvum. 

Spáin fyrir næstu 10 daga er almennt mjög hlýindaleg - orðið almennt notað sem áminning um að það gildi varla um alla dagana - meðaltöl fela oftast talsverðan og stundum mikinn breytileika. 

Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu tíu daga, 18. til 28. ágúst.

w-blogg190816a

Heildregnu línurnar sýna spá um meðalhæð 500 hPa-flatarins þessa daga, strikalínur meðalþykkt, en litir þykktarvik. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og þykktarvikin þar með hitavik. Jafngilda 20 metrar um það bil einu stigi á venjulegum hitakvarða (°C). 

Spáin sýnir hita vel yfir meðallagi á Íslandi og nágrenni - stærsta jákvæða vikið á kortinu er reyndar við Grænlandsströnd - eins og oft er. Fjallgarðar gefa tilefni til mikilla lóðréttra hreyfinga á lofti - og mikið niðurstreymi hitar það. 

Að baki þessum jákvæðu vikum er reyndar bæði hlýtt loft úr austri - sem og úr vestri. Mikil neikvæð vik fylgja norðvestanátt suður í höfum. 

En hlýindin sem verið er að spá eru ekki með sama bragði og þau undanfarna daga því spáð er öllu þurrara veðri - og meira sólskini og þar með líka heiðari nóttum. Dægursveiflan vex því, nætur verða kaldari - þrátt fyrir hlýrra loft efra - en síðdegi líka hlýrri víðar en verið hefur. - En auðvitað er líka landshlutamunur frá degi til dags eftir því sem vindur blæs hverju sinni. 

Vel má vera að hámarkshiti á einstökum stöðvum verði hærri en áður á árinu - en kannski vafamál hvort tekst að ná 25 stiga markinu í fyrsta sinn í ár - slíkar tölur eru mjög sjaldséðar eftir 20. ágúst - en hafa þó sést. 

Í dag, 18. ágúst var hámarkshiti sá hæsti á árinu á nokkrum stöðvum: Skjaldþingsstöðum (bæði mannaðri og sjálfvirkri stöð), í Miðfjarðarnesi (á báðum stöðvum þar), í Bjarnarey, á Vattarnesi, á Hauksstöðum í Vopnafirði og í Hamarsfirði.


Lengd sumars útfrá hita - gjörið svo vel að velja

Hægt er að skilgreina sumarið sem einhvern hluta árs þegar hiti er hærri en annars. Vilji menn ekki að sumarið sé talið nema tveggja mánaða langt byrjar það 27. júní en endar 25. ágúst - það er nú í styttra lagi.

Telji menn sumarið eiga að skilgreinast sem sá fjórðungur ársins sem hiti er hæstur stendur það hér á landi frá 9. júní til 7. september.

Þeir sem fylgjandi eru þeirri skoðun að sumarið eigi að taka til hlýjasta þriðjungs ársins byrja það 25. maí en ljúka því 22. september. -

Og þeir sem vilja skipta árinu til helminga eftir hita velja tímann frá 25. apríl til 24. október (frá sumardeginum fyrsta til fyrsta vetrardags) - þá hina sömu daga og forfeður okkar völdu - þrátt fyrir hitamælaskort.


Tvær djúpar lægðir (miðað við árstíma)

Sé miðað við afl vinda á norðurhveli nær sumarið hámarki sínu, og vindafl þá lágmarki, í fyrsta þriðjungi ágústmánaðar. Vindrastir veðrahvolfsins aukast hraðar að afli handan lágmarks heldur en á undan því. Lægðir verða þá dýpri og snarpari og munar nokkru hvað þetta varðar á fyrstu viku ágústmánaðar og þeirri síðustu. 

Nú hagar þannig til að tvær nokkuð djúpar lægðir eru samtímis í augsýn, sú sem er sjónarmun fyrr á ferð nær mestum krafti á sunnudag (14. ágúst) og fer þrýstingur líklega niður í um 970 hPa í lægðarmiðju sem þá verður suðaustur af Hvarfi á Grænlandi. Hin lægðin er við norðurskautið og verður hvað dýpst síðdegis á mánudag - hugsanlegt að þrýstingur í miðju hennar fari jafnvel niður fyrir 965 hPa - slíkt væri mjög óvenjulegt - og kannski ólíklegt að gerist. 

Fyrra kortið sýnir sunnudagslægðina í um það bil dýpstu stöðu og gildir það kl. 9 á sunnudag. 

w-blogg130816b

Sýndur er sjávarmálsþrýstingur og vindur í 100 metra hæð. Nokkuð snarpur stormur er suður af lægðinni. Hún dælir til okkar hlýju og röku lofti - en það verður skýjað og helst útlit fyrir að hlýjasta loftið standi stutt við - en það má gera sér vonir. 

Hitt kortið sýnir stærra svæði og gildir seint á sunnudagskvöld. Litir sýna hita í 850 hPa, á bláu svæðunum er hann lægri en -6 stig. Þá er lægðin suðvestur í hafi farin að grynnast - en sú við norðurskautið að taka vel við sér. 

w-blogg130816a

Það er mjög hlýtt loft frá Síberíu sem gengur inn í kuldapollinn öfluga sem hefur verið viðloðandi yfir Norðuríshafi í nær allt sumar. Þetta illviðri mun hreyfa við ísbreiðunni - en ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að segja neitt um afleiðingarnar - kannski verða þær engar. 

En við skulum líka rifja upp mynd sem sýnir lægsta og hæsta loftþrýsting hvers dags í ágústmánuði hér á landi á tímabilinu 1949 til 2015 (aðeins mannaðar stöðvar). 

w-blogg140816c

Bláa línan sýnir lágmörkin. Við sjáum að lægsti lágþrýstingur lækkar mjög eftir því sem á mánuðinn líður - og hefur mjög sjaldan farið niður fyrir 970 hPa á tímabilinu. Allra lægsta ágústtalan (960,9 hPa) er reyndar eldri - frá 1927. Þá fór mjög djúp lægð yfir landið suðaustanvert, leifar fyrsta (og reyndar sterkasta) hitabeltisfellibyl þess árs.

Rauða línan sýnir aftur á móti hæsta þrýsting hvers dags í ágúst. Leitni yfir mánuðinn er engin og við sjáum að 1030 hPa eru sjaldgæf hér á landi í þessum mánuði. 

Gráa þrepalínan sýnir mesta þrýstimun á landinu á hverjum degi sama tímabil. Hér sjáum við vel hvernig afl lægðanna vex eftir því sem líður á mánuðinn. Fyrstu dagana verður munur hæsta og lægsta þrýstings á landinu (yfir sólarhringinn - ekki endilega samtímis) vart meiri en 15 hPa (sem er reyndar ekki svo lítið) - en í lok mánaðarins er þessi mælitala jafnvel farin að slá upp fyrir 25 hPa. 


Sumareinkunn hungurdiska - staðan í Reykjavík

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska gefið sumarveðri í Reykjavík og á Akureyri einkunn - finna má reglurnar í eldri pistlum. Þó má rifja upp hér að einkunnargjöfin nær til mánaðanna þriggja, júní, júlí og ágúst. Hver mánuður getur mest fengið 16 stig og fullt hús fyrir sumarið í heild er því 48 stig.

Ekkert sumar á samanburðartímabilinu (frá 1923) hefur náð þeirri tölu, sumarið 2009 skoraði hæst með 41 stig, en lægst er 1983 með aðeins eitt stig. Meðaltal sumranna 1961-1990 er 20 stig, en verulega gott getur sumar vart talist nema að það fái yfir 30 stig samtals.

Sumarið 2016 er þegar komið í 20 stig - búið að ná meðalsumri 1961 til 1990 - þótt ekkert stig bættist við í ágúst. - En mánuðirnir tveir, júní og júlí voru misgæfir, júní gaf aðeins 6 stig, en júlí hins vegar 14, vantaði aðeins 2 stig upp á fullt hús.

Til að fá fullt hús (16 stig) þyrftu ágústtölurnar að verða sem hér segir: Mánaðarmeðalhiti 11,3 stig eða meira, úrkoma minni en 38 mm, úrkomudagar (meir en 1 mm) færri en 9 og sólskinsstundir fleiri en 200. 

Til að ágúst endaði án stiga þyrftu tölurnar að verða svona: Meðalhiti lægri en 10,0 stig, úrkoma meiri en 85 mm, úrkomudagar fleiri en 15 og sólskinsstundir færri en 120. 

Eftir 5 fyrstu dagana er meðalhitinn 10,7 stig - haldist slíkt til mánaðamóta - miðað við meðaltal myndi ágúst sennilega fá 1 stig fyrir hita, úrkoman það sem af er er aðeins 2 mm (en það er undrafljótt að breytast), úrkomudagur (>1 mm) aðeins 1 og sólskinsstundir eru þegar orðnar 50 - ef slíkt héldi áfram stefndi í 4 stig. 

En það er raunar ómögulegt að spá fyrir um lokatölu ágústmánaðar á þessu stigi - við getum þó látið okkur dreyma um toppeinkunn þar til úrkoman fer yfir 38 mm og úrkomudagarnir verða orðnir 9 - við vitum að við lendum ekki á botni þegar sólskinsstundafjöldinn fer yfir 120 - en ekki fyrr. 

En júlí var góður. 


Nálægt slæmu kuldakasti

Strax upp úr helgi virðist kuldafylla ætla að sturtast út úr Norðuríshafi og til suðurs fyrir austan Ísland. Vonandi fer hún að mestu leyti framhjá - því það eru óneitanlega mikil leiðindi af verulegu næturfrosti svona á miðju sumri. 

Tíu daga spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir þetta að nokkru - en smyr kuldakastið nokkuð út - fyllan fer hratt til suðurs - stendur vart lengi við á hverjum stað, en á að komast langt suður á meginland Evrópu.

w-blogg050816a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, þykkt sýnd með strikalínum, en þykktarvikin með litum. Af þessu má ráða að reiknað er með hita í meðallagi þessa tíu daga (tekna saman) á Suðvesturlandi, en norðaustanlands verði hiti 1-2 stigum neðan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs - og reyndar svipað niður í mannheimum.

En eins og sjá má er miklum hlýindum spáð vestan Grænlands, meir en 5 stigum ofan meðallags þar sem mest yrði.

En við vonum það besta.  


Ættarsvipur með júlí nú og í fyrra (2016 og 2015)

Norðaustlægar áttir voru ríkjandi í júlí - eins og í fyrra, en hún var þó vægari nú en þá og mun hlýrri. Byggðarhitinn nú reiknaðist 10,45 stig, en 8,64 stig í júlí 2015, Meðalhiti júlímánaðar frá 1931 til 2010, er 10,02 stig. 

Norðaustanátt var einnig ríkjandi í háloftunum í báðum mánuðum. Kortið hér að neðan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins og vik frá meðallagi áranna 1981 til 2010. 

w-blogg040816a

Hæðarhryggur er hér yfir Grænlandi en lægð austurundan. Litirnir sýna vik, bleikir jákvæð, en bláir neikvæð. Þetta er alveg sami svipur og í fyrra - en þá var allt samt öflugra - eins og sjá má á næstu mynd.

w-blogg040816b

Mikill ættarsvipur er með þessum kortum. - Að meðaltali er væg vestanátt ríkjandi í háloftunum í júlímánuði. Staða sem þessi hefur þó komið upp fyrr á tímum - en hin sterka staða í fyrra verður þó að teljast óvenjuleg. 

Næst lítum við á vestanþátt vindsins í háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli í júlímánuði allt aftur til 1952 - fyrst í sömu hæð og á kortunum hér að ofan, 500 hPa. Flöturinn sá er í um 5,5 km hæð yfir jörð að sumarlagi. 

w-blogg040816c

Lóðrétti ásinn sýnir styrk vestanáttarinnar í m/s, austanátt kemur fram sem neikvæð tala. Við sjáum að júlí 2015 hefur skorið sig mjög úr - en við tökum líka eftir því hversu austanáttir hafa verið miklu algengari síðasta áratuginn eða svo heldur en áratugina þar á undan - þetta atriði hefur reyndar verið til umræðu á hungurdiskum áður. Í pistli í vor kom fram að ritstjórinn er orðinn nokkuð langeygur eftir vestanáttarsumri - jú júlí 2013 var eitthvað í áttina - en frekar einstakur samt miðað við ástandið að undanförnu. 

Næsta mynd sýnir keðjumeðaltöl vestanþáttar í júlí - en fyrir fleiri hæðir, 850 hPa-flöturinn er í um 1500 metra hæð, 700 hPa í um 3 km, 300 hPa rúmlega 9 km, 100 hPa í rúmum 16 km og 30 hPa í um 24 km hæð.

w-blogg040816d

Það er bleika línan sem sýnir keðju gagnanna sem notuð voru á fyrri myndinni. Við sjáum strax að þessi vestanáttarrýrnun kemur fram í öllum hæðum - meira að segja í 30 hPa, talsvert uppi í heiðhvolfinu, þar sem bætt hefur lítillega í austanáttina (gögnin ná þar aðeins aftur til 1973). 

Í 850 hPa-fletinum (gráa strikalínan) valt meðaltalið í kringum núllið fram yfir 1990, en þá tóku austlægu áttirnar völdin - dálítill afturbati varð um aldamót. Myndin sýnir að síðustu 7 júlímánuði hefur eindregin vestanátt að meðaltali nær horfið úr öllu veðrahvolfinu - rétt að 300 hPa meðaltalið (græn lína) hangi vestanáttarmegin - langt neðan við „venjulegt“ ástand fyrri ára. 

En þessu ástandi hlýtur að linna - langtímauppgjöf háloftavestanáttarinnar í júlímánuði er varla á dagskrá. 

Í árstíðasveiflunni er háloftavestanáttin í lágmarki fyrstu 10 daga ágústmánaðar - eftir það fer að halla til hausts. 


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 445
  • Sl. viku: 2282
  • Frá upphafi: 2410271

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2042
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband