Bloggfærslur mánaðarins, september 2016

Fárviðrið 16. febrúar 1981

Vindhraði mældist enn meiri á Veðurstofutúni þann 16. febrúar 1981 heldur en í veðrinu tíu árum síðar og fjallað var um í síðasta fárviðrapistli. Veðrunum er stundum ruglað saman - eins og eðlilegt er. Fárviðrið 1981 er gjarnan kennt við Engihjalla í Kópavogi - þar varð mikið bílafok - en þar fuku reyndar líka bílar í veðrinu 1991. 

Lægðin 1981 var e.t.v. ekki alveg jafn öflug og sú sem uslann gerði 1991, en ekki munar miklu. Tjón varð gríðarlegt - þó minna en 1991. Annars er greinilegt af fréttum að mun færri voru tryggðir fyrir foktjóni 1981 heldur en tíu árum síðar og opinberar tjónatölur því lægri - tjónþolar hafa þurft að bera meira af sínum skaða sjálfir. Í veðrinu 1973 hafði bjargráðasjóður verið opnaður - enda sárafáir foktryggðir þá - hann var eftir fréttum að dæma galtómur og lokaður 1981. 

Veðrið 1981 var nánast sömu ættar og það sem gekk yfir tíu árum síðar - og sömu ættar og mannskaðaveðrið í febrúar árið áður (og fjallað var um á þessum vettvangi nýlega). Í öllum tilvikum kom djúp lægð að Suður-Grænlandi - dælir hún köldu lofti frá Kanada út á Atlantshaf á móts við bylgju af hlýju og röku lofti sem mætir á svæðið, upprunnin yfir hlýjum sjó Golfstraumsins. 

Sá var þó bragðmunur að landsynningur fyrri lægðarinnar var vægari heldur en 1991 - en útsynningur hennar aftur snarpari. Á fyrsta kortinu hér að neðan er verið að leggja á borð. Það sýnir stöðuna tveimur sólarhringum áður en veðrið var í hámarki.

Slide1

Hér vaða útsynningsél inn á landið vestanvert með snörpum vindi. Rétt sést í nýju lægðina suður af Nýfundnalandi. - Sígild staða. 

Slide2

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa á sama tíma. Þykktin sýnd í lit. Helkalt heimskautaloftið streymir út yfir Atlantshaf - ekki ósvipað og 1991 og 1980. Aðeins mótar fyrir hlýju bylgjunni í neðra vinstra horni. 

Slide3

Sólarhring síðar er nýja lægðin farin að yggla sig. Enn er grimmur útsynningur vestanlands. - Fyrr um kvöldið náðist mynd af lægðinni.

Slide4

Sígildari gerast þær ekki. Við sjáum öll ógnareinkennin sem við áður höfum minnst á. Hlýja færibandið með sinni skörpu bakborðsbrún, þurru rifuna þar hjá, loðinn hausinn og útsynningséljaflókann á undan. - Myndin er tekin um kl. 21 um kvöldið, sólarhring áður en fárviðrið var í hámarki. 

Ritstjóri hungurdiska var ekki á vakt í þessu veðri - en fékk þó eina sérlega góða upplýsingapillu frá eldri samstarfsmanni Knúti Knudsen. Knútur var á vakt þessa nótt og sá þá að loftvog féll um 8 hPa á 3 klst í hánorðanátt á veðurskipinu C (sem almennt var kallað Charlie). Charlie var staðsett á 52 gráðum, 45 mínútum norðurbreiddar og 35 gráðum og 30 mínútum vesturlengdar - í þetta sinn í norðanáttinni undir skýjahausnum. Þetta leist Knúti ekki á - og fræddi ritstjórann um að ef hann sæi svona nokkuð ætti hann að vera sérlega vel á verði. 

Átta hPa þrýstifall á 3 klukkustundum er út af fyrir sig ekki einstaklega mikið (alltaf þó stormviðvörunar virði) - en á hlið - eða bakvið lægð á miklum hraða - eins og var í þessu tilviki kann ekki góðri lukku að stýra. Slík lægð er í foráttuvexti. 

Eins og var á þessum árum var ekki mikið gagn í tölvuspám þegar tekist var á við lægðir af þessu tagi. Byltingin mikla varð ekki fyrr en einu og hálfu ári síðar. Veðurskipin voru mikilvæg hjálpartæki við veðurspár á sínum tíma - ómetanleg reyndar. Skeyti frá Charlie voru reyndar ekki lesin í útvarp hér á landi, en nöfnin Alfa, Bravó, Indía og Líma kveikja hlýjar minningar í hjörtum eldri veðurnörda íslenskra. Svo týndu þau tölunni eitt af öðru. - Langlengst lifði M-skipið - sem ýmist var kallað Metro eða Mike og hélt sig í Noregshafi - en það er önnur saga.

Ritstjórinn var staddur í Borgarnesi þennan dag, 16. febrúar 1981. Minnisstætt er veðurhljóðið frá eggjum Hafnarfjalls - áður en veðrið skall á. Hann man það varla meira. Og um kvöldið fengu hviðurnar frá fjalliu að njóta sín - börðu húsið svo að ljósakrónur hristust í loftum og steinryk hrundi fram undan listum. Jafnaðarvindur var minni í Nesinu heldur en 1991, en hviðurnar mun hrikalegri. 

Slide7

Aftur náðist mynd af lægðinni um kl.21 að kvöldi þess 16. Hún hefur hér tekið á sig sígilda snúðsmynd. Sums staðar varð veðrið verst þegar vindur var að snúast úr suðaustri í suður - á jaðri þurru rifunnar - en annar staðar varð það verst í stungunni sunnan við lægðarmiðjuna - sem þarna er ekki enn komin að landinu. 

 Slide6

Endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar nær þessu veðri allvel - betur heldur en veðrinu 1991. Hér má sjá stöðuna á miðnætti. Lægðin hér 946 hPa í miðju. Lægsti þrýstingur sem mældist á landinu var 946,2 hPa - á miðnætti á Galtarvita. Sé kortið tekið bókstaflega segir það þrýsting vera 951 hPa á Galtarvita á þessum tíma. - Kannski er lægðin sjónarmun of grunn í greiningunni - en ekki samt svo að við getum kvartað stórlega - eins og 1991. 

Slide8

Á Veðurstofutúni náði vindur fyrst fárviðrisstyrk um kl. 20:30 - eða um svipað leyti og gervihnattamyndin sýnir. - Hámarkið kom svo milli kl. 22:30 og 23:00 þegar 10-mínútna meðalvindur fór í 39,6 m/s. Þetta er allsendis ótrúleg tala í jafnmiklu þéttbýli og í Reykjavík. Svo vildi til að handlagnir voru á vakt á Veðurstofunni og tókst að líma viðbætur ofan á vindritið þannig að mælingin glataðist ekki. 

Veðurstofuhúsið öskraði í átökunum og rúður brotnuðu hlémegin í því. Mesta vindhviðan mældist 52,5 m/s. 

Tjónlistinn er langur - rétt að rifja hann upp - en ótalmargt vantar ef að líkum lætur.

Tveir piltar létust þegar þá tók út af bát sem strandað hafði við Eyjar. Nokkur meiðsl urðu á fólki víðs vegar um land. Heilu þökin tók af húsum, báta sleit upp í höfnum, skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum, fólksbílar og langferðabílar fuku og miklir skaðar urðu af völdum lausra hluta svo sem timburs og járnplatna.

Þök, klæðningar og bílar fuku á höfuðborgarsvæðinu. Svo vildi til að mikil hálka var á bílastæðum og gríðarlegt tjón varð er bílar fuku til og rákust saman. Hluti af þaki Landsspítalahúss (fæðingardeildarinnar) fauk og þök fuku af nokkrum heilum fjölbýlishúsum. Þök fuku af tveimur viðbyggingum við Vífilsstaðaspítala og skemmdu bifreið. Þak fauk í heilu lagi af íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi. Um 50 bílar skemmdust við Engihjalla í Kópavogi. Áætlunarbifreið fauk út af vegi við Blikastaði í Mosfellssveit. Nokkrar skemmdir urðu á Reykjavíkurflugvelli, þar eyðilagðist lítil flugvél og tjón varð á flugskýlum og öðrum byggingum. Mikill hluti af þaki KR-heimilisins fauk á haf út.

Miklar skemmdir urðu á flugskýli í Vestmannaeyjum er hluti þaks fauk og 40 rúður brotnuðu í flugstöðinni. Skemmdir urðu á allmörgum íbúðarhúsum í Grindavík, hvergi þó mikið, þak fauk þar af skemmu. Stór hluti þaks á nýju íþróttahúsi fauk í Keflavík sem og hluti þaks á Félagsbíói, járn tók af allmörgum húsum og rúður brotnuðu. Hálft þak fauk af fiskverkunarhúsi í Garðinum og af heilu fjölbýlishúsi í Njarðvíkum. Ytra byrði Flugleiðaþotu skemmdist nokkuð vegna áfoks. Þak fauk af svínahúsi í Krýsuvík, þak fauk af nýbyggingu Víðistaðaskóla og skemmdi bíla og fleira í nágrenninu, margir bílar ultu á bílastæðum í Hafnarfirði.

Helmingurinn af þaki Hlégarðs í Mosfellssveit fauk og olli miklum skemmdum á íþróttasvæðinu, allmikið tjón varð í Mosfellssveit, einkum í nýbyggingarhverfum. Tjón varð á flestum bæjum í Kjós, þakplötur eða þakhlutar fuku á Tindstöðum, Morastöðum, Eyjum og Hálsi. Hið af hlöðurisi fauk á Kiðafelli og brúargólf fauk af Botnsárbrú. Hafnargarður hvarf á Akranesi, þar kom mikil dæld í svartolíutank og járn og þakskífur fuku af mörgum húsum og rúður brotnuðu.

Mikið tjón varð í gróðurhúsahverfinu á Kleppjárnsreykjum, m.a. lögðust tvö hús alveg saman og nær öll hús stórskemmd. Í Fossatúni fauk hlaða alveg niður að jörðu og helmingur fjósþaks og hluti fjárhúsþaks auk þess sem margar rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu, tjón varð á flestum bæjum í Bæjarsveit, rafmagns- og símastaurar brotnuðu fjölmargir. Hlaða lagðist saman á Vatnsenda í Skorradal, þak tók af húsum í Þverholtum á Mýrum, í Munaðarnesi fauk hluti þaks af íbúðarhúsi umsjónarmanns. Verulegar skemmdir urðu á Kvíum í Þverárhlíð og hlaða í Norðtungu skaddaðist illa. Í Síðumúla fauk hluti af þaki og þak af húsi í Reykholti, á Hvanneyri fauk bifreið. Í Borgarnesi fuku plötur af fáeinum húsum, þar á meðal af hálfu þaki leikskólans, skemmdir urðu á Borgarpakkhúsinu og sendiferðabifreið tókst á loft og lenti á öskubíl staðarins.

Á Tröð í Kolbeinsstaðahreppi fauk þak af stóru fjósi og þak af hlöðu í Hraunholtum, skemmdir urðu á nýjum húsum í Ásbrún og Miðgörðum. Hlaða og geymsluhús eyðilögðust í Hallkelsstaðahlíð, þak fauk af fjárhúsum. Í Kolviðarnesi brotnuðu rúður í íbúðarhúsinu og íbúarnir flýðu húsið, þar fauk einnig þak af hlöðu og fjósi og af fjárhúsum og hlöðu. Skemmdir urðu á þaki Laugagerðisskóla, þak tók af fjárhúsi og hlöðu í Akurholti, plötur fuku af nýlegu fjárhúsi í Hrútsholti, fjós og heyvagnar sködduðust. Þak fauk af fjárhúshlöðu á Rauðkollsstöðum og skemmdir urðu á fleiri bæjum í Eyjahreppi, m.a. Þverá, Dalsmynni og í Söðulsholti. Plötur fuku af íbúðarhúsi á Stóru-Þúfu og allmiklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Lækjamótum, hluti af hlöðuþaki fauk í Eiðshúsum og í Borgarholti fauk af íbúðarhúsi og hlöðu. Þak tók af gamalli hlöðu á Neðri-Hóli í Staðarsveit.

Skreiðarskemma lagðist saman í Ólafsvík, miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi í Naustum í Eyrarsveit, þar fauk einnig hlaða nánast í heilu lagi. Járn fauk af nokkrum húsum í Grundarfirði og rúður brotnuðu, þar fauk nýr bíll yfir á næstu lóð og eyðilagðist. Í Stykkishólmi fauk þak af geymsluhúsi og skemmdi nærliggjandi hús, víðar fauk í Hólminum, talið að 20 hús hafi skaddast.

Staðarhólskirkja í Saurbæ fauk af grunni og lenti á félagsheimilinu víða varð tjón á bæjum í Dölum, mest á Svínhóli í Miðdölum, þar fauk þak af nýlegum fjárhúsum. Talið var að yfir 20 íbúðarhús í Dölum hafi orðið fyrir tjóni og 20 til 30 gripahús.

Í Bolungarvík fauk þak af frystihúsi á haf út og margar plötur af rækjuvinnslunni og tjón varð á fleiri húsum. Fjölmargir rafmagnsstaurar brotnuðu nærri Mjólkárvirkjun. Bátur slitnaði upp og sökk á Ísafirði, mannlaus flutningabíll fauk um koll í Hnífsdal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Reykjanesi við Djúp, nokkrar skemmdir urðu á Kirkjubóli í Langadal, bát rak upp í Æðey. Bátar skemmdust í höfninni á Hólmavík og þar varð talsvert tjón vegna foks, sömuleiðis á Drangsnesi.

Bátar skemmdust á Hvammstanga og þar fauk helmingur þaks af sparisjóðnum og rúður brotnuðu í sjúkrahúsinu. Þak fauk í heilu lagi af fjárhúsi á Stað í Hrútafirði, þar varð einnig tjón á fleiri húsum, m.a. fór þak af gömlu íbúðarhúsi. Þak fór af íbúðarhúsi á Bjarghúsum í Vesturhópi og hálft þakið af íbúðarhúsi á Torfastöðum í Miðfirði. Mikið tjón varð í Austur-Húnavatnssýslu, plötur fuku og rúður brotnuðu á Blönduósi, vinnuskúr fauk og jeppi valt, þak fauk af gömlum fjárhúsum og hlöðu á Fremsta-Gili og í Hvammi í Langadal fauk þak af gamalli fjárhúshlöðu í heilu lagi, sumarhús fauk þar í nágrenninu og víða urðu minni skemmdir á bæjum.

Áætlunarbifreið fauk við Hafsteinsstaði í Skagafirði og sjúkrabíll í Tröllaskarði í Hegranesi, ökumaður þess bíls meiddist talsvert, að minnsta kosti fjórir aðrir bílar fuku af vegi í Skagafirði. Talsverðar skemmdir urðu á Sauðárkróki, m.a. á mjólkursamlaginu, frystihúsi og stálgrindarskemmum. Þök fuku af útihúsum á nokkrum bæjum í Skagafirði. Tveir búðargluggar brotnuðu á Siglufirði.

Talsvert tjón varð í Grímseyjarhöfn. Minniháttar tjón varð á Akureyri, en þó fuku stólar af öllum möstrum skíðalyftunnar í Hlíðarfjalli. Hluti fjárhúsþaks á Presthólum á Sléttu fauk og tvær kindur drápust, hluti fjárhúsþaks fauk einnig í Leirhöfn og skemmdir urðu í Klifshaga.

Fjárhús fuku á Kolmúla við Reyðarfjörð, einnig varð talsvert tjón í þorpinu og bílar fuku um koll og skemmdust.

Mikið tjón varð á gróðurhúsum í Árnessýslu, einna mest á Flúðum. Hluti af þaki íbúðarhúss á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi fauk, á bænum Skyggni fór fjárhús í heilu lagi og fjós í heilu lagi á Skarði í Gnúpverjahreppi. Tólf tonna vörubifreið fauk út í Rangá á Hellu. Járn fauk af húsum í Næfurholti, Hólum og Svínhaga á Rangárvöllum og þak af stórri heyhlöðu í Gunnarsholti. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Hveragerði og í Biskupstungum. Nokkuð foktjón varð í Þorlákshöfn.

Miklar rafmagnstruflanir urðu í flestum landshlutum og var sums staðar rafmagnslaust í þrjá sólarhringa. Dagblaðaútgáfa truflaðist af þessum sökum.


Eitthvað kólnar - en samt ...

Veður er nú (26. september) eitthvað kólnandi - en samt minna en ef til vill mætti búast við miðað við stöðu veðurkerfa. 

w-blogg270916a

Kortið sýnir háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á miðvikudag, 28. september. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari er vindur í rúmlega 5 km hæð. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Sumarlitur (sá guli) er enn nyrst í Noregi - en virðist loks á undanhaldi þar. 

Kuldinn á norðurslóðum er enn býsna óskipulagður - og ekki sér hér í alvarlega vetrarkulda þar - smáblettur e.t.v. við norðurskautið. Á þessu korti er þykktin yfir Íslandi undir meðallagi árstímans - sem bendir á hita heldur neðan meðallags þarna á miðvikudaginn - en það vekur samt athygli að ekki skuli þó vera kaldara en það er - miðað við það að alldjúp háloftalægð er fyrir norðaustan land - einmitt í þeirri stöðu sem venjulega færir okkur hvað mesta og leiðinlegasta kulda á þessum árstíma. 

En auðvitað lækkar hitinn smátt og smátt haldist þessi staða - kalda loftið myndi í framhaldi læðast suður með Austur-Grænlandi og til okkar. - En mun það ná til okkar í alvörunni áður en hlýtt loft sækir aftur að úr austri- og suðaustri? Ekki gott að segja - en langtímaspár telja ekkert lát á austlægu- og suðaustlægu háloftaáttunum. Hvað er eiginlega orðið af vestanáttinni? Hún rétt veifar til okkar í framhjáhlaupi - en lætur annars ekki sjá sig. 


Fárviðrið 3. febrúar 1991

Veðrið 3. febrúar 1991 er eitt hið versta sem yfir landið hefur gengið - á síðari áratugum alla vega - og efnislegt tjón meira en fyrr og síðar í einu veðri. Vindhraði á veðurstöðinni í Reykjavík hefur ekki náð fárviðrisstyrk síðan. 

Aðdragandinn var sígildur - mjög djúp og víðáttumikil lægð kom að Suður-Grænlandi. Hún dældi gríðarköldu lofti til suðausturs um Atlantshaf til móts við bylgju af hlýju lofti sem bar að úr suðri - afburðavel hitti í þetta stefnumót. Yfir Skandinavíu var mikil hæð - að þessu sinni sérlega öflug og kuldapollur yfir suðvestanverðri Evrópu hélt líka á móti þannig að Ísland lá í skotlínunni. 

Slide1

Hér má sjá greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi 2. febrúar, daginn áður en veðrið skall á. Grænlandslægðin er að vinna sitt verk - og allrasyðst á kortinu er ný lægð komin inn á brautina. 

Slide2

Þetta kort sýnir stöðuna á miðnætti að kvöldi 2. febrúar. Hér má vel sjá ógnina frá kuldapollinum í vestri. Dekksti fjólublái liturinn sýnir hvar þykktin er minni en 4800 metrar - ekki svosem alveg óvenjulegt á þessum slóðum - en staðan samt harla ískyggileg. Mikill strengur (þéttar jafnhæðarlínur) liggur langt sunnan úr hafi beint norður yfir Ísland. 

Slide3

Þessi gervihnattamynd er frá því síðdegis þann 2. febrúar [móttökustöðin í Dundee]. Hér er illt í efni og sjá má öll helstu einkenni snardýpkandi lægða - bylgjuhaus, þurra rifu og éljagang á undan kerfinu. - En auk þess má hér sjá hinn helhvíta blett kuldapollsins - draugalegan að vanda - það þykir ískyggilegt þegar allt rennur svona saman í hvíta móðu - í óstöðugu lofti. Trúlega vanmetur reiknimiðstöðin kuldann á þessum slóðum. Einnig má sjá einkennilegar, en allgrófgerðar bylgjur í haus lægðarinnar - um þær hefur verið ritað í fræðigreinum eftir að svipað sást á mynd daginn áður en mjög frægt illviðri gekk yfir Bretlandseyjar 15. til 16. október 1987.

En tölvuspám gekk ekkert með þetta veður. Jafnvel nær hin annars ágæta interim-endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar nær því ekki nógu vel. - Vonandi að núverandi líkan geri það - sem við vitum ekki.

En lítum samt á greininguna frá hádegi þann 3. 

Slide4

Í fljótu bragði virðist allt í lagi. Lægðin nokkurn veginn á réttum stað og ofsafengin að sjá - en þrýstingur í lægðarmiðju er hér 962 hPa. Mælingar sýndu hins vegar rétt rúmlega 940 hPa. Það munar 20 hPa! Langt í frá nógu gott. - En líkanið gaf síðan í og var síðdegis búið að ná um það bil réttri dýpt.

Slide5

Hér eru 949 hPa í miðju - sennilega ekki fjarri lagi - lægðin farin að grynnast. 

Slide6

Myndin er fengin úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee á Skotlandi og er merkt kl. 13:55. Lægðarmiðjan er rétt úti af Vestfjörðum og „stingröst“ hennar þekur allt Vesturland. 

Á lista hungurdiska um illviðri á landsvísu trónir þetta veður á toppnum. Það er líka á toppnum þegar litið er á „landsþrýstispönn“ [mismun hæsta og lægsta þrýstinga á landinu á sama tíma]. Metvindhraði mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (meiri vindur hefur þó mælst á landinu síðar). Þrýstibreytingar voru líka með fádæmum miklar (ekki alveg þó met). - Mælikvarðar þessir eru þó ekki alveg hreinir sé litið til margra áratuga - vegna breytinga á stöðvakerfinu og breytinga á mælitækjum og mæliháttum. Höfum það alltaf í huga þegar horft er á metaskrár. 

Fyrir utan það að kerfið var óvenjuöflugt er má nefna að að stór hluti landsins varð bæði fyrir sunnanfárviðri (háloftaröst) sem og útsynningsstungu (lágröst), jafnvel náði landsynningslágröst sér á strik líka í upphafi veðursins. Alkunna er að á hverjum stað eru það gjarnan ein eða tvær tegundir veðra sem láta að sér kveða - þannig að lægðakerfi sem senda á okkur bæði landsynning og útsynning eru líkleg til mikillar útbreiðslu. - Illviðrið mikla sem gerði í febrúar 1980 og fjallað var um í pistli hungurdiska nýlega var aðallega útsynningsstunga og útbreiðsla þess mun minni en þess sem hér er fjallað um - þrátt fyrir gríðarlega veðurhörku á þeim stöðum sem fyrir því urðu.   

En lítum á vindritið frá Reykjavík.

Slide7

Þetta er teljari sem ritar hærri og hærri tölur á blað - en fellur í byrjunarstöðu eftir 10-mínútur. Blaðið og teljari hafa verið kvörðuð þannig að meðalvindhraði hverra tíu mínútna mælist - hér í hnútum. - Vegna þess að kvarðinn nær ekki „nema“ upp í 66 hnúta sprengja verstu veður kvarðann. Eftir að það hafði gerst svo um munaði tíu árum áður (1981) var einskonar skiptir settur í mælinn þannig að hægt var að setja hann í 5-mínútna talningu í miklum vindhraða - eins og sjá má var skipt um gír um kl.13:30 þennan dag. - Til að fá út 10-mínútna gildið þarf að leggja saman 5-mínútna talningarnar. 

Sá sem gerði það fékk út tölu sem varð að 32,9 m/s. Mesta hviða sem mældist á hviðumælinn við Veðurstofuna var 41,2 m/s. - Á flugvellinum fréttist hins vegar af meðalvindhraðanum 40,7 m/s - en sá mælir var í 17 metra hæð (að sögn). 

Á ritinu má sjá að landsynningurinn um morguninn hefur mest farið í um 60 hnúta (29,1 m/s) - síðan hefur aðeins dúrað - en rétt um kl. 13 skall stingröstin yfir úr suðsuðvestri. Fárviðrið stóð ekki mjög lengi - en stormur (meir en 20 m/s) var viðloðandi til kl. 17 eða svo. 

farvidrid0302-1991-a

Myndin sýnir annars vegar loftþrýsting á Keflavíkurflugvelli á 3-stunda fresti dagana 1. til 4. febrúar 1991 (blár ferill - vinstri kvarði), en hins vegar landsþrýstispönn sömu daga (rauður ferill - hægri kvarði). Þrýstispönnin er skilgreind sem mismunur hæsta og lægsta þrýstings á landinu á hverjum tíma. 

Fárviðrislægðin kemur vel fram - þrýstingurinn fór niður í 944,7 hPa á hádegi þann 3. og reis síðan um 30,7 hPa á þremur klukkustundum. Reyndar reis hann um 21 hPa á einni stund milli kl. 12 og 13. Þessar tölur eru með því allra hæsta sem sést hafa í lægðum á norðurslóðum. 

Spönnin sýnir vel landsynningsveðrið sem gerði aðfaranótt þess 2. - samfara undanfaralægðinni miklu. Hún fór þá mest upp í 27,7 hPa - það er býsnamikið - en verður samt hálf dvergvaxið miðað við töluna 49,8 hPa kl. 15 þann 3. sem er hæsta tala af þessu tagi sem vitað er um með vissu hér á landi.

farvidrid0302-1991-b

Græni ferillinn (hægri kvarði) sýnir þrýstispönnina aftur - en bláu og rauðu ferlarnir vindhraða á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 1. til 4. febrúar. Blái ferillinn sýnir mesta 10-mínútna meðalvindhraða á 3 klst fresti, en sá rauði mestu vindhviðu. Í fyrra veðrinu ,þann 2., slær bláa ferlinum upp í fárviðrisstyrk, en kl.15 síðdegis þann 3. náði meðalvindurinn 56,6 m/s og hviða 61,8 m/s - en hviðan sprengdi raunar kvarða vindritans þannig að vel má vera að hún hafi verið enn meiri. 

Í veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska á ekkert veður lengri tjónafærslu - hún fylgir hér á eftir - þótt fáir endist til að lesa. 

Raflínur slitnuðu víða. Miklar gróðurskemmdir urðu og malbik flettist af vegum. Rafmagnslaust varð um land allt.

Langbylgjumastur á Vatnsenda fauk og fjórir byggingarkranar fóru á hliðina í Reykjavík og grennd. Gríðarlegt tjón varð um allt höfuðborgarsvæðið og er tjónið metið á meir ein 1 milljarð króna á þávirði. Trjágróður fór víða illa og er talið að um 500 gömul tré hafi eyðilagst í görðum Reykjavíkurborgar (einkagarðar ekki taldir með). Nokkrir tugir manna leituðu aðstoðar á slysavarðstofunni og fjórir voru lagðir inn á sjúkrahús. Mikið tjón varð á Reykjavíkurflugvelli, þak fauk af afgreiðslubyggingu, ljósabúnaður skemmdist, nokkrar flugvélar losnuðu og skemmdust og klæðning losnaði á húsi.

Miklar skemmdir urðu á Landspítalanum, þar fauk mikil álklæðning af fæðingardeildarhúsinu og mikið af steinflísum fauk af gömlu aðalbyggingunni. Þakklæðning fauk einnig af Kleppsspítala. Mest eignatjón varð í Fellahverfi. Rúður brotnuðu í verslun í Austurveri og innréttingar brotnuðu. Þak losnaði á sundlaug Vesturbæjar. Í Kópavogi var ástandið verst í suðurhlíðunum og í Engihjalla, þar ultu þrír bílar í stæði og þak losnaði af skemmu. Bátar skemmdust við flotbryggju í Vesturbænum og í Fossvogi. Nokkrir byggingakranar fuku um koll. Þök fóru af nokkrum gömlum húsum í Bessastaðahreppi. Heyhlaða splundraðist í Þormóðsdal í Mosfellsbæ. Allt járn tók af einu íbúðarhúsi á Seltjarnarnesi og hluti af þaki á nýbyggðu verkstæðishúsi fauk. Skemmdir urðu á búnaði á skíðasvæðinu í Bláfjöllum.

Þriðji hluti af þaki bæjarskemmu í Keflavík fauk, járn fauk af sparisjóðshúsinu og af fjölmörgum íbúðarhúsum, Hálft þakið af lagmetisgerðinni í Grindavík fauk og járn af nokkrum húsum í þorpinu, allstórt fjárhús splundraðist í Ísólfsskála og fjárhús fuku einnig á bænum Hrauni, eitt íbúðarhús í Sandgerði var talið nær ónýtt og þar fauk af mörgum húsum. Trilla sökk í Njarðvík. Mikið tjón varð á húsum á Keflavíkurflugvelli og flugskýli sködduðust. Þak fór af einu húsi í Garðinum og eitthvað af skúrarusli fauk. Þak fauk af bílskúr í Vogum og plötur af nokkrum húsum öðrum. Trilla fauk á Neðri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd og þak tók af heyhlöðu og hlið á húsinu skemmdist, á Efri-Brunnastöðum fauk þak af útihúsi og hlið úr fárhúsi á Ásláksstöðum, tjón varð á fleiri bæjum í hreppnum.

Tjón varð á að minnsta kosti 80 stöðum í Vestmannaeyjum, þar fauk íbúðarhús til á grunni, þakhlutar fuku af fiskvinnsluhúsum og netagerðarverkstæðum, kona fauk og beinbrotnaði. Flugskýli eyðilagðist. Lundaveiðiskýli löskuðust illa eða eyðilögðust, húsið í Álfsey talið ónýtt, sömuleiðis hús í S(n)æfelli og húsið í Bjarnarey fauk með öllu, hús í Dalfjalli skemmdist minna. Þök á 20 íbúðarhúsum skemmdust á Hellu, rúður brotnuðu, hesthús og sumarbústaðir skemmdust. Íbúðarhúsið í Holtsmúla í Holtum skemmdist mikið og þak tók af fjósi, þök fuku af fjósum í Næfurholti og Stúfsholti. Vinnuskúrar skemmdust á Hvolsvelli og járn fauk af fáeinum húsum, trésmíðaverkstæði skaddaðist. Í Dufþaksholti og Götu fuku hlöður.

Sumarbústaðir fuku í Fljótshlíð, í Smáratúni fauk þak af fjósi, tvö hesthús í Hellishólum, fjárhús á Efri-Þverá og á Kirkjulæk, í Ormskoti fauk helmingur af íbúðarhúsþaki og hluti af hlöðu á Lambalæk hvarf út í buskann. Miklar skemmdir urðu í Djúpárhreppi, vélaskemma og hlaða fuku á Háurim og þar hrundi fjós, á Háfi 2 gekk gafl í íbúðarhúsi inn. Á Snjallsteinshöfða á Landi fauk fjárhús, fjárhús fuku einnig á Árbakka og í Neðra-Seli. Fjárhús fuku á bænum Vindási á Rangárvöllum. Talsvert tjón varð af foki í Álftaveri og Landbroti, en aðallega fauk af gömlum útihúsum. Eignatjón var talið á þriðja hverjum bæ undir Eyjafjöllum, mest varð það á Rauðafellsbæjum og Skálafellsbæjum, járnplötur losnuðu og rúður brotnuðu, í Selkoti bognaði inn veggur í nýju stálgrindarhúsi.

Nýreist íbúðarhús á Leifsstöðum í Austur-Landeyjum fauk og gjöreyðilagðist, hlaða splundraðist á Syðri-Hömrum í Ásahreppi, gafl fauk úr verkstæðishúsi í Brautarholti á Skeiðum, þak fór í heilu lagi af fjárhúsi í Miklaholti í Biskupstungum, annað fjárhús þar eyðilagðist, fjárhús eyðilagðist á Heiði og annað á Vatnsleysu. Fjárhús á Syðra-Seli í Hrunamannahreppi splundraðist og fauk, einnig fauk af fleiri húsum á bænum, fjárhús fuku einnig á Hrafnkelsstöðum og Hrafnsstöðum, á Fossi fauk járn af hlöðu og fjósi og voru húsin illa farin, hús skemmdust á mörgum bæjum þar um slóðir. Fjárhúsgafl féll á Sólheimum í Hreppum og drap 14 kindur. Stór hlaða féll niður í Kjarnholti. Gróðurhús skemmdust mikið á Flúðum og í Laugarási, Syðri-Reykjum, Haukadal og Friðheimum, Nokkur hjólhýsi fuku á Flúðum og þak fauk þar af gömlu íbúðarhúsi.

Tjón varð á 72 stöðum á Selfossi (m.v. þ.4.), en víðast ekki stórfellt, rúður brotnuðu, járn fauk, tré rifnuðu upp og uppsláttur fór út í veður og vind. Mikið tjón varð á sveitabæjum í Flóanum, á Vorsabæjarhjáleigu fauk fjárhús og járn tók af fleiri húsum, fjárhús fauk á Hamri, ærhús og hlaða fuku í Seljatungu þar skemmdist íbúðarhúsið einnig, hlöðuveggur hrundi á Neistastöðum. Fjárhús á Miðengi í Grímsnesi fauk og járn af fjárhúsum í Vorsabæ og Hvoli í Ölfusi. Í Hveragerði fauk þak af íbúðarhúsi og blikksmiðju og plötur losnuðu á íbúðarhúsum. Miklar skemmdir urðu í tívolíinu, skemmdir urðu á þaki Eden og fjöldi gróðurhúsa skaddaðist illa. Talið var að annað hvert íbúðarhús á Eyrarbakka hafi skaddast eitthvað, en þök tók í heilu lagi af tveimur íbúðarhúsum og skemmdu önnur hús, fjós og bílskúr fuku þar út í buskann. Hesthús, hlaða og bílskúr fuku á Stokkseyri og járn tók af húsum. Þak fauk af byggingum Meitilsins í Þorlákshöfn, hluti af þaki íbúðarhúss og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Talið var að eitthvað tjón hafi orðið á öllum bæjum í Gaulverjabæjar- og Villingaholtshreppum.

Hluti af þaki fiskvinnsluhúss á Akranesi fauk lenti á ljósastaur og skemmdi bensínstöð lítillega. Þak fór einnig af trésmiðjuhúsi. Þakjárn fauk af allmörgum húsum í Borgarnesi, rúður brotnuðu og garðhýsi eyðilögðust. Járn fauk að mestu af þaki brauðgerðar KB og braut rúður í hótelinu, 12 bílar skemmdust. Bíll fauk út af vegi við Hafnarfjall. Skemmdir urðu á íbúðarhúsi á bænum Höfn vegna grjótflugs.

Þak fauk að mestu af íbúðarhúsi í Síðumúla í Hvítársíðu. Miklar skemmdir urðu á gróðurhúsum í Stafholtstungum og í Reykholtsdal í Borgarfirði, þúsundir af rúðum brotnuðu og stórkostlegt tjón varð á plöntum. Þak fauk af hlöðu á Ásgarði í Reykholtsdal og hlöðuþak fauk á Brekku í Borgarhreppi. Þakplötur fuku á Hofstöðum í Álftaneshreppi og þak losnaði á íbúðarhúsi á Gröf í Borgarhreppi. Á Hálsum í Skorradal fauk gafl úr fjárhúshlöðu og járnplötur, vegklæðning fauk af vegi á Hvanneyri, skemmdi húsklæðningu og braut rúður í íbúðarhúsi. Gafl fauk af hlöðu í Múlakoti í Lundarreykjadal, geymslubraggi fauk í Gilstreymi, járn tók af fjárhúsum í Tungufelli og þak af geymsluhúsi á Hvítárvöllum. Fjárhúshlaða fauk á Kvígsstöðum og allt járn fór af ónotuðu íbúðarhúsi, þakplötur fuku af hesthúshlöðu á Heggstöðum, á Krossi í Lundarreykjadal eyðilögðust hlaða og fjárhús. Veggur sprakk og skekktist í nautastöðinni á Hvanneyri, þak af fjárhúsum og hlöðu fauk á Miðfossum, víðar fuku plötur og rúður brotnuðu þar í sveitum.

Í Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal fauk járn að mestu af íbúðarhúsinu og stór braggi eyðilagðist. Plötur fuku af gömlum húsum á Grund og á Syðri-Rauðamel, járn tók af hluta þaks íbúðarhússins í Söðulsholti og nokkurt járn fauk af útihúsum á Ytri-Rauðamel, Akurholti, Hrútsholti og Rauðkollsstöðum. Þak fauk af hlöðu í Skógarnesi, nýtt sumarhús gjöreyðilagðist á Svarfhóli, minna tjón varð á 13 öðrum bæjum. Þak tók að hluta af hlöðu á Fossi í Staðarsveit og járn fauk af íbúðarhúsinu, járn fauk einnig af gömlum húsum á Görðum, þak fór af hluta gamallar hlöðu á Bláfeldi og járnplötur fuku á nokkrum öðrum bæjum í sveitinni. Tjón varð á höfninni á Hellnum, skúr fauk í heilu lagi á Arnarstapa, vélageymsla og dráttarvél fuku á eyðibýli í Breiðuvík, minni skemmdir urðu á öðrum bæjum.

Trilla sökk í höfninni á Rifi, stór skemma hraðfrystihússins í Ólafsvík lagðist saman og járn tók af nokkrum húsum, m.a. frystihúsinu öllu. Nokkrir bílar skemmdust. Hálft þak fauk af skrifstofubyggingu í Grundarfirði, bátar fuku þar á hliðina og gróðurhús skemmdust. Á Kverná fuku fjárhúsin, hálft þak af hlöðu og bogaskemma að mestu. Á Skallabúðum skemmdist íbúðarhúsið illa, fjárhús og gróðurhús fuku. Þak fauk af húsi slippstöðvarinnar Skipavíkur í Stykkishólmi, hluti golfskála fauk þar, geymsluskúr sprakk á Kársstöðum í Álftafirði og skemmdi brakið fjóra bíla og jafnaði gamla íbúðarhúsið við jörðu. Klæðning skemmdist á íbúðarhúsum í sveitinni. Þak fauk af hlöðu á Giljalandi í Haukadal og sjö bílar sem stóðu á hlaðinu skemmdust, einn þeirra valt um 30 metra. Skemmdir urðu á nokkrum húsum í Búðardal. Miklar skemmdir urðu á íbúðarhúsi á Svínhóli í Miðdölum. Nokkuð plötufok varð á öðrum bæjum í Dölum, m.a. á Gunnarsstöðum í Hörðudal og Bugðustöðum. Fjárhús og hlaða fuku á Mýrartungu í Austur-Barðastrandarsýslu, fjós fauk á Borg í Reykhólasveit og plötur fuku víðar á þeim slóðum.

Tvö fjárhús fuku á Haga á Barðaströnd og fleiri hús skemmdust, rúður og dyr Hagakirkju brotnuðu og þar fauk einnig bifreið eina 300 metra. Fiskhjallar hrundu á Patreksfirði. Þak fauk af 400 fermetra verslunarhúsnæði á Tálknafirði, þar fauk einnig þak á laxeldistöð og hesthús tók upp í heilu lagi, fimm bílar skemmdust og maður slasaðist. Á Ósi í Arnarfirði fauk lítið útihús á haf út og járn tók af íbúðarhúsinu, í Neðra-Bæ fauk þriðjungur af hlöðuþaki, þakplötur fuku og stórar hurðir brotnuðu á Fremri-Hvestu, gömul hlaða fauk á Lokinhömrum og þar og á Hrafnabjörgum fauk járn af húsum, vélarhús fauk út í buskann í Hringsdal og í Otradal fauk hús á bílskúr. Rúður brotnuðu í vélahúsi Mjólkárvirkjunar. Þak fauk af hlöðu og bíll 70 metra á Ketilseyri við Dýrafjörð.

Talið var að fjórða hvert hús á Flateyri hafi orðið fyrir tjóni, þak fauk þar í heilu lagi af beinamjölsverksmiðju og járn af fiskverkunarhúsum, sumarbústaður á Innri-Veðraá í Önundarfirði fauk á haf út, veðrið braut útihurð í Flateyrarkirkju, þakplötur fuku af húsi sparisjóðsins og fjölmörgum íbúðarhúsum, rúður brotnuðu í mörgum húsum, kyrrstæður bíll fauk 40-50 metra og klæðning flettist af Flateyrarvegi. Gafl gekk inn í útihúsi á Botni í Súgandafirði og járn tók af húsum. Þak flettist af einbýlishúsi á Suðureyri og skemmdi annað hús, gafl skekktist einnig í íbúðarhúsi. Plötur fuku einnig í Staðardal. Vegurinn fyrir Spilli spilltist mjög af sjógangi. Í Fagrahvammi í Dagverðardal við Skutulsfjörð fuku þök af nokkrum útihúsum og þar í grennd lagðist bogaskemma saman og jeppi fauk út af vegi, bílstjórinn slasaðist.

Bílasalan Elding á Ísafirði fauk og gjöreyðilagðist, þakplötur fuku víða af húsum á Ísafirði og rúður brotnuðu. Þak fauk af hlöðu á Hrauni í Hnífsdal og skemmdir urðu þar á spennistöð. Bíll fauk af Hnífsdalsvegi, ökumaður slapp með skrámur. Fiskhjallar skemmdust í Bolungarvík. Þak fauk með sperrum og öllu af fjárhúshlöðu á Rauðamýri í Djúpi, á Hallsstöðum lagðist vélageymsluhús saman og fauk síðan. Járnplötur fuku á fleiri bæjum. Hafnargarðurinn á Hólmavík skaddaðist þak fauk af tveimur ótilgreindum hlöðum og einu fjárhúsi þar í grenndinni. Kirkja lyftist af grunni og skekktist í Árnesi á Ströndum.

Braggi fauk við Hrútatungu í Staðarhreppi. Fjárhús fauk á Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi, vélageymsla fauk í heilu lagi á Gröf í Víðidal og í Enniskoti brotnuðu allar rúður á móti suðri, gafl fór úr fjárhúsum á Ægissíðu í Vesturhópi. Flugskýli skaddaðist á Laugabakka í Miðfirði og þriðjung tók af fjárhúsþaki á Mýrum í Ytri-Torfustaðahreppi. Þak tók af hlöðu og hesthúsi á Þingeyrum, hluti af fjósþaki fauk á Hnausum. Helmingur af íbúðarhúsþaki á Blöndubakka í Engihlíðarhreppi fauk og þak á fjárhúsum og hlöðu losnaði á Breiðavaði. Rúður brotnuðu í Húnavallaskóla. Flugskýli á Blönduósflugvelli lagðist saman og eyðilögðust þrjár flugvélar, þakplötur fuku af barnaskólahúsinu og slökkvistöðinni og húsið Votmúli skemmdist mikið. Mikið af rúðum brotnaði í húsum, olíuafgreiðsla Esso varð illa úti, bílar skemmdust, skjólveggir og skúrar fuku. Grjótflug braut margar rúður á Skagaströnd og fjóshlaða fauk á bænum Felli þar í grennd.

Þakefni tók í heilu lagi af einbýlishúsi á Sauðárkróki, þakplötur fuku af íbúðarblokk og af húsi mjólkursamlagsins, bílar skemmdust af áfoki. Þakplötur fuku af húsum í Hegranesi og á fáeinum bæjum innan við Sauðárkrók. Gömul fjárhús og hlaða fuku á Hrauni í Sléttuhlíð, þak fauk af hlöðu á Bræðraá og gamlar byggingar á Tjörnum og í Glæsibæ sködduðust. Bátur eyðilagðist í höfninni á Hofsósi og þar fuku þakplötur af húsi heilsugæslunnar. Á Sandfelli í Unadal skemmdust öll hús mikið og eitt er gjörónýtt, á Óslandi í Sléttuhlíð hurfu fjárhús og hlaða, en fé sakaði ekki. Hluti fjárhúsa fauk á Undhóli. Nýtt trégrindarhús fauk með öllu á Narfastöðum í Viðvíkursveit í Skagafirði. Fjós og fjóshlaða skemmdust mikið á Bústöðum í Austurdal í Skagafirði, plötur losnuðu á Miklabæjarkirkju, rúður brotnuðu í húsum í Varmahlíð. Útihús fuku í heilu lagi á Réttarholti í Blönduhlíð og plötur fuku af húsum á Minni-Ökrum.

Skíðalyfta í Hlíðarfjalli við Akureyri lagðist niður á kafla og allar rúður brotnuðu í sunnanverðu skíðahótelinu. Þakplötur fuku af nokkrum húsum á Akureyri, sjór flæddi í kjallara á Oddeyri og um tveir tugir bifreiða skemmdust af grjótflugi við Akureyrarflugvöll. Skemmdir urðu á allmörgum húsum á Ólafsfirði, skemmdir urðu á útihúsum í Kálfsárkoti og trilla laskaðist, skúrar fuku, mannvirki á íþróttavellinum og á skíðasvæðinu löskuðust. Minniháttar tjón varð á Dalvík, plötur fuku þó af skólahúsi og bílar sködduðust, nokkrir fiskhjallar hrundu. Snarpur vindsveipur gekk yfir bæinn Kot í Svarfaðardal, þakplötur, heyvagn, bílar og hænur fuku um bæjarhlaðið, braggi splundraðist, fólksbíll tókst á loft og fauk 60 metra, jeppi fór byltu og endaði uppi á túni ásamt gömlum heyvagni og þakplötur fuku af íbúðarhúsinu, minniháttar foktjón varð á Grenivík. Fimm gróðurhús skemmdust á Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit. Þakplötur losnuðu á nokkrum húsum á Húsavík. Skúr björgunarsveitar fauk í Ljósavatnsskarði og fáeinar plötur fuku af Stórutjarnarskóla. Lítil vélageymsla fauk í Bakkafirði.

Yfirlit úr fréttum frá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins (Alþýðublaðið 21.11. 1991).
Fárviðrið mikla 3. febrúar síðastliðinn olli tjóni á 4.550 eignum ýmiskonar svo vitað sé. Áætlað hefur verið að tjónið hafi numið um einum milljarði króna, og er þá útvarpsmastrið á Vatnsendahæð ekki meðtalið. Þrír fjórðu hlutar þessa tjóns urðu á húsum eða hlutum tengdum þeim, segir í fréttum frá RB, sem annaðist rannsókn á skemmdum af völdum veðursins. Tegund og umfang tjóns var mismunandi eftir fasteignum. í 347 tilvikum gjöreyðilagðist hús, þar af eitt íbúðarhús. Þakjárn losnaði í 940 tilvikum, þak fauk eða losnaði í 226 tilvikum til viðbótar. Í rúmlega 60 tilfellum brotnaði eða bognaði veggur undan álagi vindsins. Átta sumarbústaðir eyðilögðust með öllu, en tjón varð á um 100 til viðbótar. Þá fóru garðhús og gróðurstöðvar illa í fárviðrinu. Einkum varð tjón á eldra húsnæði, enda þótt næg dæmi væru um skemmdir á nýbyggingum.

Í greinum [1995], [1999] í tímaritinu Tellus fjölluðu þeir Jón Egill Kristjánsson, Sigurður Þorsteinsson og Guðmundur Freyr Úlfarsson um ástæður þess að lægðin varð svo öflug - og reyndu að jafnframt að greina hvers vegna tölvuspám þess tíma gekk illa að ráða við hana. Rétt er að hafa í huga að greinarnar eru mjög tæknilegar. 


Mal um fárviðri í Reykjavík

Allmargir staðir á landinu eru ef til vill veðursælli en Reykjavík, en þegar á allt er litið er höfuðborgin til þess að gera veðursælt pláss. Með aukinni byggð og stórvaxnari gróðri hefur meira að segja heldur dregið úr vindi víða um bæinn - þar á meðal á Veðurstofutúni þar sem varla hreyfir nú vind miðað við það sem áður gerðist. Minna mun hafa breyst á flugvellinum þar sem hinar opinberu vindmælingar voru gerðar á árunum frá 1946 til 1973 - byggð og gróður virðist samt vera farin að hafa áhrif þar líka. 

Vindur á sjálfvirku veðurstöðvunum á Geldinganesi og uppi á Hólmsheiði - ekki langt frá jaðri byggðarinnar - sýnir þó alloft klærnar. Engan langtímasamanburð er þó að hafa á þessum stöðvum. 

Saga vindmælinga í Reykjavík er óþægilega ósamfelld - og samanburður tímabila ekki auðveldur. Vindmælarnir á flugvellinum voru t.d. mismunandi gerðar og staðsettir á þaki gamla flugturnsins - í 17 metra hæð. Staðalhæð vindmæla er hins vegar 10 metrar. Lesa má um sögu veðurathugana í Reykjavík í greinargerð Veðurstofu Íslands 1997 - auðvitað skyldulesning áhugamanna um Reykjavíkurveður - en ritstjóri hungurdiska kann hana samt ekki utanað.  

Sú er hugmynd ritstjóra hungurdiska að líta á þau tilvik þegar vindhraði á veðurstöðinni Reykjavík hefur náð fárviðrisstyrk - hvert fyrir sig í pistlum í vetur (endist honum þrek og þróttur). Munu þessir pistlar (ef einhverjir verða) birtast á stangli. Áðurnefndar ósamfellur mælinga eru þó þess eðlis að tilvikin eru mistrúverðug - mölum e.t.v. þar um þegar að því kemur - en látum aðallega sem ekkert sé. 

Þegar þetta er ritað eru liðin rúm 25 ár síðan fárviðri mældist síðast á Reykjavíkurstöðinni. Er það óvenjulangt hlé. - Kannski hefur breytt veðurlag á Veðurstofutúni eitthvað með það að gera - en ekki endilega. Illviðri eru nefnilega býsna tilviljanakennd og við ættum ekki að láta þennan „skort“ slá okkur út af laginu.

Nú eru komnir inn pistlar fyrir eftirtalin Reykjavíkurfárviðri:

2. febrúar 1991

16. febrúar 1981

24. september 1973

Og fyrir skömmu var líka fjallað um tvö önnur skyld veður (þó fárviðri teldist ekki í Reykjavík):

16. september 1936 (tveir pistlar)

25. febrúar 1980 


Af mannskaðaveðrinu 25. febrúar 1980

Í beinu framhaldi af umfjöllun um illviðrið mikla í september 1936 má rifja upp mannskaðaveður sem gerði 25. febrúar 1980. Veðrin tvö eru nefnilega ættingjar. Braut lægðanna og þróun þeirra var auðvitað ekki sú sama - en stærð kerfanna svipuð og veðurharkan svipuð. - Trúlega er þó einhver munur á orkubúskap - hlutur rakaþéttingar meiri í septemberveðrinu - en hlutur kalda loftsins snarpari í því síðara. Septemberveðrið var af suðrænni uppruna - stöðugleiki loftsins meiri og áhrif háloftarastar á vindhraða í neðstu lögum meiri - en stungan yfir Vestfjörðum - nærri lægðarmiðjunum mjög áþekk.

Þetta veður er ritstjóra hungurdiska sérlega minnisstætt því hann skrifaði hluta þeirra vitlausu spáa sem gerðar voru á undan veðrinu og vitleysan reyndi mjög á hann. Til fróðleiks eru spár þessa dags fyrir Vestfirði og Vestfjarðamið lagðar í viðhengið.

Slide1

Hér má sjá fréttasíðu úr Morgunblaðinu daginn eftir að veðrið gekk yfir - öll síðan aðgengileg á timarit.is. 

Lítum á lista yfir helsta tjón. Hann er úr veðuratburðaskrá ritstjóra hungurdiska, unninn upp úr blaðafregnum og gögnum Veðurstofunnar.

Þrír rækjubátar fórust og með þeim 6 menn. Mörg skip og bátar áttu í erfiðleikum vegna brotsjóa og beið einn maður bana í slíku tilviki og fleiri slösuðust. Maður beið einnig bana er bíll fauk út af veginum yfir Hálfdán, bílar fuku víðar út af vegum, án teljandi slysa á fólki. Þak fauk af nýrri steypustöð í Ólafsvík. Víða á Vestfjörðum fuku þök og járnplötur af húsum.

Talsvert tjón varð í Breiðavík, þar sködduðust bæði íbúðarhús og kirkja, heyvagn fauk og fleiri skemmdir urðu, tjón varð einnig á Hvallátrum og mundu menn þar ekki verra veður, grjót fauk úr Látrabjargi upp á vitastæðið. Mikið fok og rúðubrot urðu á Þingeyri, þak fauk af nýbyggðu fjárhúsi og þak á íbúðarhúsi skaddaðist á Ketilseyri, nokkuð tjón varð einnig á Sveinseyri. Húsþak fauk í heilu lagi á Suðureyri og þar fauk fiskhjallur með fullhertum fiski, margir hjallar féllu, járnplötur fuku af 12 til 15 húsum á Suðureyri, þar hristist vatnsleiðsla í húsi í sundur. Tvær hlöður fuku á Galtarvita og hesthús í heilu lagi í Bæ.

Tveir gámar fuku í höfnina á Bíldudal og skemmdu trillu. Plötur fuku af nokkrum húsum á Ísafirði og á Siglufirði. Fjarskiptamastur fauk og eyðilagðist á Seltjarnarnesi. Flutningabifreið fauk út af veginum við Hafnarfjall, tveir bílar fuku á Sandskeiði og menn meiddust og fólksbíll fauk hring við Engihjalla í Kópavogi. Miklar rafmagns- og símatruflanir urðu og aurskriður og snjóflóð féllu á vegi.

Aðdragandi veðra af þessu tagi er svipauður - stór og mikil lægð kemur að Suður-Grænlandi - veldur landsynningsveðri hér á landi, útsynningurinn á eftir missterkur. Lægðin beinir mjög köldu lofti frá heimskautalöndum Kanada út yfir Atlantshaf þar sem það svo mætir miklu hlýrra lofti úr suðri eða suðvestri. 

Slide2a

Hér má sjá landsynningslægðina. Kortið gildir á miðnætti á föstudagskvöld 22. febrúar. Ekki varð mikið tjón í þessu veðri - en þó fauk þak af húsinu í Borgarnesi þar sem ritstjóri hungurdiska fæddist. - Það er reyndar þannig að mörg fárviðri eiga sér þetta sameiginlegt - einum til þremur dögum áður fýkur eitthvað í landsynningi í Borgarnesi, við Akrafjall eða vestur í Ólafsvík. 

Kvöldið fyrir fárviðrið var heldur lítið að hafa af upplýsingum um nýja lægð austur af Nýfundnalandi - og tölvuspár gerðu lítið úr henni - varla að markaði fyrir í sólarhringsspám. Þær miklu framfarir höfðu þó orðið frá 1936 að flesta daga var hægt að sjá gervihnattamyndir af svæðinu. 

Slide3

En reynsla í túlkun mynda af þessu tagi var rétt að verða til. Það sem sést á myndinni hringir bjöllum. Fjögur megineinkenni hratt dýpkandi lægða eru hér greinilega til staðar. Örvarnar benda á þau - oft getið í pistlum hungurdiska. Það er hins vegar erfitt að segja til um stefnu þessarar lægðar. Af hinum röngu tölvuspám mátti helst ráða að hún „straujaðist út“ - tættist í sundur og lenti að mestu fyrir austan land. Lát yrði á útsynningnum meðan hún færi hjá - en síðan bætti í hann aftur -  og yrðu jafnvel 7 til 8 vindstig að kvöldi mánudags eða aðfaranótt þriðjudags (sjá viðhengi).

Slide4

ERA-interim endurgreiningin (fyrsta tölvuafurðin sem náði veðrinu vel) sýnir stöðuna um miðnætti á sunnudagskvöld - um 4 klst. eftir að myndin var tekin. Ekki gott að segja nákvæmlega um stefnu lægðarinnar - fer hún fyrir vestan land eða yfir það? Dýpkar hún - eða ekki?

Slide5

Háloftakortið frá miðnætti sýnir lægðarbylgjuna allvel - þar sem græni liturinn stingur sér í átt til kuldapollsins mikla við Vestur-Grænland. (Þeir sem lásu síðari PP?-pistilinn taka líka eftir litlum kuldapolli yfir Frakklandi - og kannast við hlutverk hans). Hér sést sérlega vel að fárviðrislægðin tilvonandi er ekki stórt eða mikið kerfi um sig. Svipað átti við PP?-lægðina. 

Slide6

Klukkan 6 hafði lægin dýpkað um 13 hPa frá því á miðnætti - það vissi hins vegar enginn með vissu - og staðsetning var mjög óviss. En um þetta leyti fór loftvog að hríðfalla á Veðurstofunni og vaktveðurfræðingi (ritstjóranum) fór ekki að lítast á blikuna -  

Vaktir voru mjög stífar um þessar mundir. Sunnudagsvakt ritstjórans stóð frá kl.8 til 14 - hann mætti síðan aftur sama kvöld kl. 23 og var til kl. 7 - og kom síðan aftur kl.15 og var til kl. 23 - og svo aftur kl.7 morguninn þar á eftir kl. 7 og var til kl. 15 - tók þá sjónvarpsvakt til kl. 20:30 - kannski mætti segja frá þessari vaktatörn allri í ævisögu (sem ekki stendur til að skrifa). - En hann fór alla vega heim að sofa á mánudagsmorgni. 

Slide7

Um hádegi hafði lægðin dýpkað um 16 hPa til viðbótar (að sögn ERA-interim endurgreiningarinnar) og illt í efni. Allir komnir út í veðrið og það versta rétt að skella á. 

Slide8

Kl. 15 var þrýstingur í lægðarmiðju kominn niður í 956 hPa (hér að sögn japönsku endurgreiningarinnar - en hún nær veðrinu vel eins og era-interim). Japanir segja lægðina hafa verið 964 hPa á hádegi og dýpkun milli kl. 12 og 15 því 8 hPa. - Á Sólarhring dýpkaði lægðin um meir en 35 hPa - kannski nær 40 hPa. 

Slide9

Hér er Íslandskortið kl. 15 - veðrið er farið að ganga niður suðvestanlands en er í hámarki á Vestfjörðum og Norðurlandi. Fárviðri er á Galtarvita og Hornbjargsvita. 

Slide10

Myndin sýnir stöðuna um klukkan hálffjögur síðdegis. Lægðin búin að hringa sig í snúð og mynda eins konar auga. Hefði mynd verið tekin af PP?-lægðinni síðla nætur 16. september 1936 hefði hún líklega litið svipað út (skúraklakkarnir þó e.t.v. ekki jafnáberandi og hér). - Stærðin er alla vega mjög svipuð. 

Slide11

Nú - eitthvað varð að segja. En aðalafsökunin er munurinn á gæðum tölvuspánna - miðað við það sem nú er. Tölvuspár réðu alls ekki við lægðir af þessu tagi á þessum tíma - ekki einu sinni 12 til 24 stundir fram í tímann. - Vonandi gera þær það nú. 

Áður en evrópureiknimiðstöðin endurgreindi undir fyrirsögninni „era-interim“ hafði hún gert tilraun áður (2002) - fyrir sama tímabil (era40). Sú tilraun náði þessari lægð ekki - eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Slide12

Kortið gildir á hádegi. Þá segir interim-greiningin að lægðin hafi verið 966 hPa í miðju, og sú japanska að hún hafi verið 964 hPa. Hér má sjá töluna 982 hPa í miðju og munar að minnsta kosti 16 hPa frá líklega réttu gildi. Spár voru auk þess mun slakari 1980 heldur en líkönin 2002. - Ameríska endurgreiningin (2008) er mun betri í þessu veðri. Lægðin er ekki alveg í fullri dýpt - og er flatari í botninn. En vindhraði er gríðarlegur - hittir þó ekki alveg á Vestfirði. 

Kortið hér að ofan (era40-greiningin) minnir nokkuð á bandarísku endurgreininguna á PP?-veðrinu. Þó eru upplýsingarnar sem era40 hafði í 1980-veðrinu mun meiri en sú ameríska hafði í veðrinu 1936. 

Í þessum tilvikum báðum virðist upplausn líkananna skipta höfuðmáli - eitthvað mikilvægt rennur milli grófra möskva - en ekki þéttra. 

Slide13

Hér má sjá stein sem fauk úr Látrabjargi - langt upp í skafl í brekku þar fyrir ofan. - Ásgeir Erlendsson vitavörður á Látrum sendi ritstjóranum hann strax að loknu veðrinu og hefur hann setið á skrifstofunni síðan (hér ofan á 2. útgáfu Skriðufalla og snjóflóða Ólafs Jónssonar). 

Fleiri ættingjar þessara veðra bíða okkar - og veðurspámanna - í framtíðinni. Vonandi gengur betur við að eiga en 1936 og 1980. 

Áhugasamir geta rifjað upp textaspárnar sem lesnar voru í útvarp - þær eru í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira um PP?-veðrið (aðallega þó fyrir nördin)

Við lítum hér á það hvernig endurgreiningu bandarísku veðurstofunnar [20thC V2] tókst til við veðrið sem kennt er við Pourqoui Pas? Hún fer nærri lagi með sumt - en annað alls ekki. Minnir satt best að segja á það hvernig dæmigerðar 24 stunda tölvuspár voru fyrir um 30 til 35 árum. Þeir sem nenna að lesa það sem hér fer á eftir (varla margir) eru hvattir til að lesa líka fyrri pistil um sama veður (hafi þeir ekki þegar gert það).  

Ritstjóri hungurdiska man reyndar eftir veðri sem var mjög svipað að mörgu leyti. Það gekk yfir 25. febrúar 1980. Tölvuspár þess tíma náðu því ekki - og endurgreiningar illa - þar til nýlega - að bætt hefur verið um betur. 

Slide1

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting um miðnætti að kvöldi 15. september 1936. Þá var veðrið hvað verst í Reykjavík. Þrýstilínurnar eru merktar í einingunni Pa - ekki hPa eins og vant er, en 99000 Pa eru 990 hPa. Rammar með tölum hafa verið settir inn á kortið og bera saman raunveruleika og greiningu (sjást betur sé kortið stækkað). Rauðar tölur sýna greininguna - en þær svörtu þær réttu.

Við sjáum að greiningin segir þrýsting í Reykjavík vera 992 hPa - en hann var 990 hPa. Ekki sem verst. Svipað er vestur í Bolungarvík - rétt tala er 988, en greiningin segir 994. Í Hólum í Hornafirði er munurinn í hina áttina, réttur þrýstingur er 1013 hPa, en greiningin segir hann vera 1010. Þrýstimunur yfir landið er því í raun 25 hPa, en greiningin segir hann vera 18 hPa - mikill munur.

1936_09_16_00_00-klipp

Myndin sýnir kort Veðurstofunnar frá því á miðnætti að kvöldi 15. september 1936. Þrýstingurinn er ritaður á hægri hlið stöðvar - einingin er mmHg-700. Við Reykjavík má sjá 42,4 (= 742,4mm = 989,8 hPa). Rauðar tölur sýna hita, 15 stig í Reykjavík og 18 á Akureyri. Lægðin var talsvert dýpri en þrýstilínurnar gefa til kynna - það má auðveldlega draga einn hring enn - 980 hPa - og jafnvel fleiri.  

Aðalmunur raunveruleika og endurgreiningar er þó á lægðarmiðjunni. Nú verður auðvitað að játa að við vitum í raun og veru ekki hver þrýstingur þar var á þessum tíma - en við vitum þó að lægðin var í mjög örum vexti og við vitum líka um það bil hversu djúp hún varð síðar um nóttina. Greiningin segir miðjuþrýstinginn hafa verið um 988 hPa - en giskað hefur verið á að 973 hPa sé rétta talan, munar 15 hPa. Þrýstimunur Hóla í Hornafirði og lægðarmiðju hafi verið 41 hPa, en ekki 22 hPa eins og greiningin heldur fram. 

Ísland er mun flatara í líkaninu heldur en í raunveruleikanum - og skýrir að einhverju leyti mun raunþrýstings og greiningar í Hólum - en ekki vangreiningu lægðarmiðjuþrýstingsins. 

Slide2

Hér má sjá stöðu greiningarinnar kl.18 - jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins sýndar með 40 metra bili. Þeim má breyta í sjávarmálsþrýsting með því að deila með 8 og leggja útkomuna við 1000. Innsta jafnhæðarlínan er merkt -40 m, við deilum 8 í það, fáum út -5, leggjum það við 1000 og fáum út 995 hPa. Hæðin við Noreg er merkt með 280 metrum, deilum 8 í á tölu, fáum út 35, leggjum við 1000 og fáum út 1035 hPa. Það er þýstingur í hærra lagi í september. 

Slide3

Þetta er sama kortið og það fyrsta (það sem sýndi minna svæði) - sömu línur, en aðrar einingar, gildir á miðnætti. Kortið nær yfir stærra svæði og við sjáum aðstæður betur. Eins og þegar er komið fram er lægðin allt of grunn - en er sennilega á nokkuð réttum stað. 

Slide4

Hér er klukkan orðin 6 um morguninn. Lægðin er hér líka á um það bil réttum stað, en nú um 989 hPa í miðju, - rétt gildi er hins vegar um 975 hPa.

Og við verðum líka að líta á háloftin.

Slide6

Þetta er staðan í 500 hPa um miðnætti. Hér sést hinn suðræni uppruni loftsins mjög vel og að mikill kuldapollur er yfir S-Grænlandi og frá honum lægðardrag langt suður í haf. Spurning hvort kuldapollurinn hefur verið vanmetinn í greiningunni? Veðurathuganir frá Suður-Grænlandi á kortum Veðurstofunnar benda ekki til þess - þumalfingurreiknireglur ritstjóra hungurdiska gefa sömu hæð á 500 hPa-fletinum og kortið sýnir.

Hér má (í framhjáhlaupi) benda á snarpa háloftalægð yfir Frakklandi - það er ekki óalgengt að lægð sé á þeim slóðum þegar sunnanfárviðri gerir hér á landi. Hlutverk slíkra lægða í illviðrum á Íslandi er að halda hlýja loftinu - og hæðarhrygg þess í skefjum þannig að það hörfi ekki til austurs átakalaust. Þessi kuldapollur kom reyndar óbeint fram í blaðafregnum hér á landi því hann olli rigningum og jafnvel snjó á háfjöllum á Spáni - en styrjaldarfréttir þaðan voru áberandi um þessar mundir.

Slide8

Þetta kort sýnir vigurvind (stefnu og hraða) í 500 hPa á sama tíma. Háloftaröstin sést vel - eftir litum að dæma eru 35 til 40 m/s í 5 km hæð yfir Íslandi. Mjög kunnuglegt í sunnanveðrum - auðvitað.

Slide9

Þetta kort gildir kl.6 um morguninn. Aðalröstin er auðvitað ofar - en hér er vindur í hesi hennar yfir 50 m/s í 500 hPa hæð. 

Slide10

Í 850 hPa (um 1400 metra hæð) er vindur í greiningunni um miðnætti mestur við Suðausturland, vindhraði þar um 40 m/s. - En eins og á sjávarmálskortunum skortir mjög á vind yfir Vesturlandi. - Þetta sést reyndar enn betur á 950 hPa-kortinu - í um 3-400 metra hæð. 

Slide11

Ekki nema 10 m/s á Faxaflóa - ekki nógu gott.

Slide12

Þetta kort sýnir úrkomuákefð á miðnætti (ekki uppsafnað magn) - einingin er mm/sólarhring. Tölurnar eru býsna háar - dekksti liturinn sýnir 90 mm/sólarhring - eða um 4 mm/klst. Ætli við teljum þetta ekki bara viðunandi.

Slide13

Síðasta kortið sýnir úrkomumætti (hversu mikil vatnsgufa er þéttanleg í loftsúlu yfir hverjum reit spárinnar). Einingin er kg á fermetra (= mm). Gulu litirnir sýna 40 mm. Það er mjög há tala hér á landi. Rakur lindi liggur langt sunnan úr hafi til landsins. 

Í heild verður að segja að endurgreiningin sé bærileg. Lægðin er á réttum stað og helstu áhrifaþættir koma fram. - En mjög vantar samt upp á að fárviðrið skili sér. Hvað veldur er ekki gott að segja. Kannski hefur loftið verið enn rakara en hér er sýnt, kannski er kalda loftið vanmetið - en trúlega er upplausn líkansins einfaldlega ekki nægileg. Lægðin var ekki sérlega stór um sig - og var fljót að því. 


Fyrir 80 árum - þankar um veðrið sem grandaði Pourquoi Pas?

Fyrir 30 árum (tíminn líður hratt) setti ritstjóri hungurdiska saman hugleiðingar um illviðrið mikla 15. til 16. september 1936. Birtust þær í Lesbók Morgunblaðsins og má finna á netinu. Það sem hér fer á eftir er að nokkru endurnýting á þessum gamla pistli, með töluverðum breytingum þó - (smámunasamir gætu kannað hvort og hvernig skoðanir ritstjóra hafa breyst með aukinni elli). 

Aðfaranótt 16. september 1936 fórst franska hafrannsóknaskipið Pourqoui Pas? undan Mýrum. Þótt því sér ekki að leyna að ýmsar tilviljanir hafi valdið slysinu, er jafnvíst að veður þetta var óvenju vont og hugsanlega það versta sem skipið hafði nokkru sinni lent í. Fréttin af slysinu var svo mikil og váleg að önnur slys og skaðar í þessu veðri féllu nokkuð í skuggann. Eignatjón á landi var þó mikið og manntjón meira á sjó.

Menn hafa löngum velt vöngum yfir því hvort lægðin sem veðrinu olli hafi verið afkomandi hitabeltisstorms eða fellibyls. Hafi svo verið er þann storm ekki að finna í skrám bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar. Það sem veldur því að hitabeltisfellibyljir breytast í norrænar fárviðrislægðir er að hlýtt og rakt loftið í fellibyljunum nýtist fullkomlega í lægðamyndun. Til þess að það gerist þarf það að ganga inn í hentugt norðurslóðakerfi – annars gerist ekkert og loftið sveigir af til austurs eða jafnvel aftur í átt til uppruna síns - eða jafnast út við veðrahvörf.

Svipaður skammtur af hitabeltislofti, jafnröku getur alveg eins orðið kveikjan að fárviðri, jafnvel þó enginn fellibylur sé til staðar. Mjög líklegt er að rakt hitabeltiskerfi hafi í raun og veru komið við sögu í september 1936. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum notað orðið „hvarfbaugshroði“ um slík kerfi, orðið aðallega valið vegna þess að það hljómar vel - frekar en að gegnheil skilgreining standi að baki. Lesendur hafi það í huga.

Aðdragandi septemberveðursins mikla 1936 var mjög líkur þeim sem við sögu kom þegar fellibylur heimsótti okkur árið 1900 (um hann hafa hungurdiskar fjallað) og einnig þegar við fengum á okkur leifar fellibylsins Ellen 1973 (sjá grein ritstjórans í tímaritinu Veðrinu). Í öllum tilvikum barst mjög hlýtt loft úr norðurjaðri hitabeltisins norður til Íslands, en mætti á leiðinni köldu heimskautalofti sem kom frá Kanada.

Þann 14. september nálguðust skil alldjúprar lægðar við Suður-Grænland landið. Þá hvessti af suðaustri og rigndi á Suður og Vesturlandi. Þann 15. voru skilin að eyðast yfir landinu og í kringum hádegið var komin hæg sunnan- og suðaustanátt vestanlands, en enn var sunnan strekkingur um landið austanvert, enda skilin ekki komin þar yfir. Eftir klukkan 5 síðdegis fór jókst vindur og það tók að rigna. Ný og ört vaxandi lægð nálgaðist landið úr suðsuðvestri.

greinarmynd-1

Myndin sýnir kort sem gert var á Veðurstofunni síðdegis þann 15. september. Það sýnir allt sem veðurfræðingar höfðu úr að moða. Mjög líklegt er að skipshöfn Pourquoi Pas? hafi séð megnið af þessum skeytum sem kortið sýnir. Þetta eru reyndar meiri upplýsingar en algengast var að hafa á þessum árum, loftskeytasamband hefur verið gott. 

greinarmynd-2

Hér má sjá hluta af þrýstiritablaði Reykjavíkurveðurstöðvarinnar. Lóðrétti ásinn sýnir þrýsting, en sá lárétti tíma, strikabil er 2 klukkustundir. Svo vill til að þrýstingur var lægstur í Reykjavík um miðnæturbil (breiða, lárétta strikið markar miðnætti). Þrýstifallið er jafnt og þétt, ekki sérlega mikið, oftast um 2 hPa á klukkustund, mest 3 hPa/klst milli kl. 20 og 21. Ekkert við þrýstifallið eitt og sér sem bendir til þess að eitthvað einstaklega óvenjulegt sé á ferðinni. Heildarfallið var í kringum 24 hPa og risið á eftir var svipað.

Við sjáum að ferillinn verður loðnari og loðnari eftir því sem á kvöldið líður – það bendir til þess að töluvert sog hafi verið í Landsímahúsinu þar sem Veðurstofan var til húsa á þessum tíma – við getum að einhverju leyti séð vindhraðann á breidd ferilsins. – Áhrif vinds á þrýstirita eru þó háð húsum og þar með vindátt og engin leið að kvarða breiddina þannig að við vitum hver vindhraðinn var. Það má þó geta sér til um það að vindur hafi verið mestur í kringum miðnættið – og um klukkan 2 hafi vindur verið farinn að ganga heldur niður.

Síðasta veðurathugun kvöldsins í Reykjavík var gerð á miðnætti. Þá voru talin 11 vindstig af suðsuðaustri. Næst var athugað kl. 6 um morguninn og þá var vindur kominn niður í 9 vindstig og stóð af suðri.

Á þessum tíma var ekkert athugað á nóttunni hér á landi – þrýstiritarnir eru einu mælingarnar sem gerðar voru. Af þeim má nokkuð ráða í atburðarásina. Við skulum líta bút úr öðrum rita, frá Hesteyri í Jökulfjörðum.

greinarmynd-3

Hér er miðnæturlínan vinstra megin á myndinni – af samanburði við athuganir má ráða að klukkan er ekki alveg rétt – og þrýstikvarðinn ekki heldur á réttum stað. Slíkt var – og er – algengt. Lægsti punkturinn er á klukku ritsins rúmlega fjögur, en svo virðist sem klukkan hafi þá í raun og veru verið á milli 2 og 3 – ferillinn er því hliðraður um eina og hálfa klukkustund eða svo – en e.t.v. rétt að fullyrða ekki endanlega um það að svo stöddu.

Þrýstifallið á Hesteyri var mun snarpara heldur en í Reykjavík, mest um 5 hPa/klst – lægðin hefur dýpkað mjög snögglega og farið mjög hratt hjá. Í tímariti Veðurstofunnar, Veðráttunni, segir að hraðinn hafi verið 100 km/klst. Heildarþrýstifallið á Hesteyri var 31 til 32 hPa – 7 til 8 hPa meira heldur en í Reykjavík. Austur á Hólum í Hornafirði var þrýstifallið ekki nema 10 hPa. Þrýstimunur yfir landið varð mestur kl. 4 um nóttina. Þá munaði 31 hPa á Hólum í Hornafirði og Bolungarvík - það er mjög mikið.

Engar háloftaathuganir voru gerðar á Íslandi eða í námunda við landið á þessum tíma. Við vitum því ekki nákvæmlega hvers eðlis veðrið var. Svo vill einnig til að endurgreiningar reiknimiðstöðva hafa ekki náð góðum tökum á því, en það stendur e.t.v. til bóta síðar. Ástæður þess að ekki hefur tekist betur til eru væntanlega þær að upplýsingar eru ekki fyrir hendi um stöðuna suður undir hvarfbaug næstu daga á undan.

Þrýstiritar landsins gefa til kynna að veðrið hafi e.t.v. verið tvíþætt – annars vegar það sem óformlega hefur verið kallað „hárastarveður“ – hes háloftarastarinnar teygir sig til jarðar. Mörg sunnan- og suðaustanveður eru af þeim flokki – en færri suðvestanveður. Trúlega hefur lægðin svo undið upp á sig og myndað það sem – líka óformlega – hefur verið nefnt „snúðveður“ – eða „stunga“. Slík hafa slitið sig frá háloftaröstinni og er hámarksvindhraði í þeim neðarlega í veðrahvolfi. – En ritstjóri hungurdiska treystir sér ekki til að ráða hér fram úr af fullvissu nema að athuga málið mun betur en hann hefur gert – og velur því leið hins lata – að bíða eftir trúverðugri endurgreiningu.

Á miðnætti var nærri allt landið í hlýja geira lægðarinnar, í hvarfbaugsloftinu, sem var bæði hlýtt og rakt, m.a. komst hitinn á Akureyri 19,4 stig og í 19,0 á Húsavík. Heiðrekur Guðmundsson athugunarmaður á Sandi í Aðaldal segir í athugasemd þann 16.: „20° hiti kl. 3 í nótt, snerist úr stormi í SW ofsarok kl. 4.“

Úrkoma á Suðausturlandi var mjög mikil, víðast tugir millimetra og í Hólum í Hornafirði mældist hún 122,3 mm.

greinarmynd-4

Kuldaskilin fóru yfir Vesturland skömmu eftir miðnætti og voru komin austur fyrir land um kl. 6 um morguninn. Lægðin fór til norðurs rétt fyrir vestan land og var vaxandi allt þar til um morguninn en þá hafði vindur snúist til suðvestanáttar næst lægðarmiðjunni. Kortið sýnir áætlaða leið lægðarinnar og dýpt hennar. Sé þetta rétt hefur hún dýpkað um 26 hPa á sólarhring. 

Veðrið olli gríðarlegu tjóni - listinn hér að neðan er unnin upp úr dagblaðafregnum þess tíma. Reyndar bera blöðin flest hver fréttaritara útvarpsins (FÚ) fyrir fréttunum. Staðkunnugir munu væntanlega finna villur og misskilning í listanum - alla vega finnst ritstjóra hungurdiska sumt harla grunsamlegt, en lætur kyrrt liggja að sinni. Hefði samt gaman af því að heyra af leiðréttingum.

Listinn sýnir vel að foktjón var langmest þar sem vindur hefur staðið af fjöllum. Veðrið hefur einnig rifið upp krappar öldur á fjörðum og í höfnum. Sjávarflóða er getið - kunna þau að hafa fylgt lægðinni, eins og stundum gerist.  

 

Frumstæður listi um tjón í veðrinu: 

Alls drukknuðu 56 manns, þar af 39 á Pourqoui Pas? Vélbáturinn Þorkell Máni frá Ólafsfirði fórst, og með honum 6 menn. Þrír fórust með báti frá Bíldudal. Tveir fórust er árekstur varð við Siglufjörð, mann tók út af vélbát og 5 menn tók útbyrðis af norsku Grænlandsfari í Faxaflóa.

Miklir skaðar urðu á bátum, húsum og öðrum mannvirkjum bæði vegna hvassviðris, sjávarflóðs og úrkomu. Miklar gróðurskemmdir urðu í görðum, blómjurtir taldar meira og minna ónýtar í Reykjavík og tré fokið og brotnað. Sundskáli fauk í Hafnarfirði.

Fokskaðar urðu um mestallt land, nema sunnantil á Austfjörðum.

Fé hrakti í sjó á Snæfellsnesi og á Rauðasandi. Í nágrenni Stykkishólms fauk silfurrefabú. Miklir fokskaðar urðu í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, í Gröf fauk hjallur, þvottahús og þak af hlöðu. Þak fauk af fjósi á Fornu-Grund og fjárhús skemmdust á Setbergi. Þrír hjallar fuku á Hellissandi, þak fauk af svonefndum Thorbergshúsum og járn fauk þar af fleiri húsum. Vélbátur sökk á höfninni, en náðist aftur. Steingafl hrundi úr íbúðarhúsi á Vaðstakksheiði, margir símstaurar brotnuðu milli Sands og Ólafsvíkur. Allmikið tjón varð í Fróðárhreppi. Heyhlaða fauk á eyðijörðinni Fróðá. Íbúðarskúr fauk í Innri-Bug. Þrír árabátar brotnuðu í spón á Hrísakletti og hey fauk víða. Bátar sködduðust í Breiðafjarðareyjum. Árabátar brotnuðu í Flatey og bátur fauk í Bjarneyjum. Geymsluskúr fauk á Brjánslæk og vélbátur brotnaði á Arnórsstöðum.

Geysistór flóðalda skall alveg upp að túnum á Rauðasandi og alla leið að Straumhól. Sást til bylgjunnar eins og hún væri gríðarhár veggur.

Járnplötur fuku af húsum á Patreksfirði og í hvalveiðistöð á Suðureyri í Tálknafirði, þök tók af húsum á Norðurbotni, Hvalskeri og í Sauðlauksdal. Hús á Hvallátrum skemmdust, trilla skemmdist í Breiðavík og þak fauk af hlöðu í Kollsvík. Miklir skaðar urðu á húsum á Bíldudal, þar varð einnig mikið tjón í höfninni. Flestir bátar í Patreksfjarðarhöfn sködduðust, þar slitnuðu upp tveir togarar og löskuðu bryggjur. Járn fauk af einu húsi.

Óvenjulegur sjógangur var við Arnarfjörð þar sem vélbátur tapaðist frá Stapadal og tveir árabátar brotnuðu þar í spón. Við Lokinhamra brotnuðu þrír bátar og þak tók þar af hlöðu. Á Hrafnseyri brotnaði bátur og járnþak tók af hlöðu. Á Laugabóli brotnaði vélbátur og þak tók af bænum á Ósi, hjallur fauk og fleiri hús skemmdust. Bátur brotnaði í Baulhúsum.

Í Dýrafirði varð tjón á húsum á nokkrum bæjum og heyskaðar urðu víða. Þak fauk af hlöðu í Hvammi og bær í smíðum í Múla gjörónýttist svo tóftin ein stendur eftir. Samkomuhús sem var í smíðum í Haukadal féll til grunna, nokkuð af viðnum brotnaði en sumt fauk á sjó út. Þar fuku einnig þrír bátar og hús skekktust á grunni, þak fauk af geymsluskúr, fjárhús fauk og þak af hesthúsi. Í Lambadal fuku peningshús. Nokkrir bátar á Þingeyri skemmdust.

Þök skemmdust á Ísafirði og mikið tjón varð í höfninni, þar rak upp margar trillur og tvo stærri báta. Sjór gekk upp á Hafnarstræti og skemmdist gatan talsvert. Að Brautarholti fauk hlaða og geymsluhús á Góustöðum. Skemmdir urðu á rafveitu Ísafjarðar, skúr fauk, smiðja og mótorskýli. Skemmdir urðu á húsum í Hnífsdal, þar fauk íbúðarhús ofan af hjónum og tveimur (eða 3) börnum, fólkið bjargaðist nauðuglega. Þök rauf þar á nokkrum húsum og ljósastaurar brotnuðu.

Þak fauk af húsi á Flateyri, fiskhjallar fuku og þar varð tjón á fleiri húsum, á Vífilsmýrum fauk fjárhús til grunna. Þök sködduðust bæði á Langeyri og Súðavík í Álftafirði. Þak tók af íbúðarhúsi í Meirihlíð í Bolungarvík og tjón varð þar á fleiri húsum.

Talsvert tjón varð í Súgandafirði, þar rak vélbát á land og hvalveiðiskip skemmdist. Hús hvalstöðvarinnar skemmdist talsvert (e.t.v er hér einhver ruglingur við Tálknafjörð). Á Norðureyri fauk árabátur, einnig fauk bátur í Kvíanesi. Geymsluhús fauk í Botni, hænsnahús, skemma og þak af hesthúsi í Vatnsdal, kál- og blómagarðar á Suðureyri skemmdust mikið. Galtarviti skemmdist og varð óvirkur um skeið.

Fjölmennur berjatínsluleiðangur lenti í miklum hrakningum í Hestfirði þegar bát þess rak á land og öll tjöld fuku út í veður og vind. Báturinn var talinn ónýtur.

Miklar skemmdir urðu á prestsetrinu í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi. Þak rauf af þrem hlöðum og vélbátur sökk. Þök fuku af þrem hlöðum í Heydal og Miðhúsum og hlöðum í Múla, Laugabóli og Hafnardal í Nauteyrarhreppi. Víða fauk hey á þessum slóðum og minniháttar skemmdir urðu á húsum.

Allmiklir skaðar urðu í Sléttuhreppi. Tvær hlöður fuku á Búðum og þar fór einnig geymsluhús og tveir bátar. Íbúðarhús í Holti í Aðalvík skekktist á grunni svo í því varð ekki búið. Skemmdir urðu á Hesteyri. Þar fauk þak af fiskhúsi, trilla eyðilagðist og bryggjur og plön skemmdust nokkuð.

Flest útihús á Ballará á Skarðsströnd eyðilögðust, torfveggir tættust í sundur og grjót úr þeim kastaðist langar leiðir. Járnþak fauk af íbúðarhúsi á Leiðólfsstöðum í Laxárdal og þök tók af útihúsum á Gillastöðum og Hrappstöðum. Verkfæraskúr ríkisins í Búðardal fauk. Þrír bílar tepptust í Miðá, þar á meðal 18 manna áætlunarbifreið. Refagirðing í Ytri-Fagradal fauk niður í djúpt gil og heytóft niður að veggjum í Innri-Fagradal. Skúr og hálft þak fuku í Hvalgröfum. Miklir heyskaðar urðu í Dölum. Þak fauk af húsi í Króksfjarðarnesi og bátar skemmdust þar. Bátur brotnaði á Reykhólum.

Allstórt geymsluhús fauk í Stóru-Ávík í Árneshreppi. Þar fauk einnig árabátur. Víða urðu heyskaðar þar í grennd.

Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa, þar rak trillubáta á land. Bryggja laskaðist á Siglufirði þegar flutningaskip sleit þar upp. Stór nótahjallur fauk og annar laskaðist á Siglufirði, þar slasaðist maður þegar skúr fauk á hann. Þök tók af hlöðum á Litla-Hamri og Jódísarstöðum í Eyjafirði. Járn tók af hlöðu i Grímshúsum í Aðaldal og af tveimur húsum á Húsavík. Þak fauk af hlöðu í Hreiðarsstaðakoti í Svarfaðardal. Tjón varð á Akureyrarhöfn er bátar slitnuðu upp og sukku, tré brotnuðu þar í görðum og reykháfar féllu.

Gríðarlegir heyskaðar urðu víða um land, ekki síst um landið norðanvert, þúsundir hesta víðsvegar um Skagafjörð, Húnavatnssýslur, í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Einnig urðu töluverðir heyskaðar í Vopnafirði. Þar skemmdust bátar lítillega í höfninni. Bátar urðu víða fyrir miklu netatjóni.

Nokkuð tjón varð einnig sunnanlands af sjávargangi. Sjóvarnargarður á Eyrarbakka brotnaði.

Suðurland slapp að mestu við hvassviðrið,Klemenz athugunarmaður á Sámsstöðum segir þar þó hafa fokið nokkuð af byggi og grasfræi, en „þó minna en við mátti búast“.

Mikil úrkoma var sunnanlands. Á Suðausturlandi urðu bæði skriðuföll og flóð, sem ollu umtalsverðu tjóni. Mikið tjón varð í skriðuföllum sunnan til á Austfjörðum, í Breiðdal, Berufirði, Lóni og í Suðursveit. Á Núpi á Berufjarðarströnd skemmdust tún og engi og sáðgarðar eyddust. Nýreist fjárhús sökk upp fyrir veggi í skriðunni. Jörðin Streiti (Stræti) er talin eydd. Rafmagnsstöð í Fossgerði skemmdist og þriðjungur túnsins eyddist. Á Berunesi stórskemmdust allar engjar. Íbúðarhús á Snæhvammi í Breiðdal skekktist á grunni, þar skemmdust einnig garðar og engi.

Miklar skemmdir urðu af flóðum í Hornafirði þar sem hey sópuðust af engjum, sauðfé fórst í vötnum og aurskriðum og vegir skemmdust. Símastaurar féllu og skriður runnu á tún í Lóni og Suðursveit. Rafstöðvar eyðilögðust og fé fórst í vatnavöxtum og skriðum, mikið hey flæddi. Á Kálfafelli í Fljótshverfi tók af rafmagnsstöð sem stóð við Laxá. Geysimikið flóð, „meira en nokkurn tíma áður, svo vitað sé.“ Braut flóðið rafstöðvarhúsið, sem var úr steinsteypu og skolaði burt vatnsrörunum og nokkrum af varnarstíflu. Á Kálfafelli eyðilagði flóðið einnig sáðsléttu og reif upp yfir 300 metra langa túngirðingu. Ofsavöxtur hljóp einnig í Hólmsá og flæddi hún inní rafstöðvarhúsið í Hrífunesi og tók brúna á Kötlugili, Hólsárbrúna sakaði ekki, en flóðið skemmdi veginn beggja vegna.

Holtsá undir Eyjafjöllum braust úr farvegi sínum og olli tjóni, rafstöð á Kálfafelli í Fljótshverfi brotnaði að grunni. Klifandi í Mýrdal braust úr farvegi sínum og hljóp um stund fram hjá Pétursey, brúin yfir ána laskaðist lítilsháttar. Miklar vegaskemmdir urðu í Skaftártungu. Vegarskemmdir urðu við Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasamdi. Skriða féll í Seljavallalaug, braut þar grjótvegg og gróf undan gólfinu. Varnargarður brotnaði við Holtsá og flóði áin yfir tún.

Sem dæmi um veðurhörkuna fylgir hér stytt lýsing á veðrinu frá fréttaritara Alþýðublaðsins á Bíldudal, Ingivaldi Nikulássyni [Alþýðublaðið 23. september 1936]:

„Þök fuku af íbúðarhúsum og heyhlöðum, en hjallar og smærri geymsluhús fuku með öllu og lentu sum á öðrum húsum og brutu þau. Trillubátar fóru allir. Sumir sukku, en aðra sleit upp og rak burt. Línuveiðaskipin Ármann og Geysi rak burt af höfninni og einnig gamalt þilskip, er Geysir heitir. Lentu þeir nafnar á norðurströnd fjarðarins, en Ármann mun vera á floti...“ og síðar „Alt hey, sem úti var hér í dalnum, sópaðist gersamlega burt, svo ekkert sást eftir, og munu það hafa verið 200 hestar eða meira. Fjöldi síma- og rafmagnsstaura eru gereyðilagðir. Ekkert símasamband er nú við önnur héruð; ekkert rafmagn og ekkert útvarp...“ og enn „Til dæmis um styrkleika vindsins má geta þess að síma- og rafmagnsstaurar brotnuðu um þvert, kastgrjót og stykki yfir 100 kg að þyngd fuku sem fis væri; girðingar úr tvöföldum vírnetum fóru í tætlur, og kartöflur og rófur sópuðust upp úr görðum. Meðan veðrið stóð sem hæst gengu þrumur og eldingar.Nokkrir menn, sem unnu að vegagerð á eyrunum fyrir sunnan Hól, misstu tjöld sín, rúmfatnað og annað, er þeir höfðu meðferðis og björguðust með naumindum heim að Hóli illa til reika."

Suðurland slapp að mestu við hvassviðrið,Klemenz athugunarmaður á Sámsstöðum segir þar þó hafa fokið nokkuð af byggi og grasfræi, en „þó minna en við mátti búast“. Mikil úrkoma var sunnanlands. Á Suðausturlandi urðu bæði skriðuföll og flóð, sem ollu umtalsverðu tjóni. Mikið tjón varð í skriðuföllum sunnan til á Austfjörðum, í Breiðdal, Berufirði, Lóni og í Suðursveit. Íbúðarhús á Snæhvammi í Breiðdal skekktist á grunni. Rafstöðvar eyðilögðust og fé fórst í vatnavöxtum og skriðum, mikið hey flæddi. Holtsá undir Eyjafjöllum braust úr farvegi sínum og olli tjóni, rafstöð á Kálfafelli í Fljótshverfi brotnaði að grunni. Klifandi í Mýrdal braust úr farvegi sínum og miklar vegaskemmdir urðu í Skaftártungu.

Nokkuð tjón varð einnig sunnanlands af sjávargangi.

Engir vindhraðamælar voru hérlendis um þetta leyti nema í Reykjavík en gögn frá þessum tíma finnast ekki og hefur riti mælisins e.t.v. verið óvirkur. Veðráttan talar þó um 34 m/s, en ekki er ljóst hvaðan sú tala er fengin – eða hvort aðeins er verið að ræða um fárviðrisstyrk almennt. Erfitt er því að segja til um hversu hvasst varð. Auk þess varð veðrið verst um hánótt þegar engar veðurathuganir voru gerðar.

Með því að nota þrýstiritana er mögulegt að búa til kort sem sýna þrýstifar – og þar með ágiskun um vindhraða. Ritstjóri hungurdiska hefur gert tilraun til þess – en er ekki alveg ánægður. Kortin virðast sýna að á Faxaflóa hefur veðrið verið verst um kl. 1 um nóttina og á Norðurlandi nokkru síðar eða um kl. 3 til 5. Fullvíst er að vindur hefur víða farið í 30 til 35 m/s og líklegt er að mestu vindhviður á Snæfellsnesi og Vestfjörðum hafi verið yfir 55 m/s eða jafnvel meira.

Fyrir þá sem velta vöngum yfir ferð Pourqoui Pas? er hér tafla um líklega vindátt og veðurhæð úti í Faxaflóa. Vindhraði er í vindstigum, en um kl. 1 er ekki útilokað að vindur hafi náð 35 m/s (10 mín. meðaltal). Vindur inni á landi hefur verið nokkru minni (1 til 2 vindstigum) t.d. á Mýrum. Trúlega hefur vindáttin í raun lengst af verið suðlægari á svæðinu heldur en þessi hráa tafla gefur í skyn.

Vindátt og veðurhæð á Faxaflóa
dagurklstáttm/s
1512SA8
1515SA10
1518SA18
1521SA18
1524SA28
161SSV35
162SSV33
163SV33
164SV28
165SV25
166SV25
167SV25
168SV25
169SV20
1610SV18

Eitthvað mun vera vitað um leið skipsins eftir að það lét úr höfn í Reykjavík síðdegis þann 15. og sjálfsagt mætti með hjálp þeirra upplýsinga sem og upplýsinga þrýstiritanna, annarra veðurathugana og frásagnar þess eina sem lifði slysið ráða í hvar skipið var statt á hverjum tíma og hvernig veðrið var.

Af blaðafréttum má helst ráða að skipið hafi fyrst siglt út fyrir Garðskaga en haldið aftur inn á Flóann í leit að vari. Gefið var í skyn að viti á Akranesi hafi verið tekinn fyrir Gróttuvita og hafi það reynst örlagaríkt. Rétt er að minna á að skyggni er nánast ekkert á sjó í veðri sem þessu vegna særoks og vitaljós hafa sést aðeins endrum og sinnum í gegnum sortann. Enginn viti var kominn á Þormóðssker - ýtti slysið mjög undir gerð hans. 

Fyrstu fréttir af lægðinni bárust Veðurstofunni kl. 6 að morgni þ. 15. Þá var þegar ljóst að lægðin kæmi til landsins og eftir hádegið var greinilegt að vindur yrði a.m.k. 8 vindstig. Veðurspáin kl. 15 var svohljóðandi:

Ný lægð um 1.400 km SSV af Reykjanesi og mun hreyfast hratt norður eftir.
Suðvesturland til Vestfjarða: Sunnan stormur og rigning þegar líður á nóttina en sunnan eða suðvestan kaldi og skúrir á morgun.
Norðurland til Austfjarða: Stinningskaldi á sunnan. Hlýtt og víðast úrkomulítið.
Suðausturland: Stinningskaldi á sunnan. Rigning.

Hér er rétt að minna á að ekki var farið að gefa út veðurspár fyrir miðin sérstaklega eins og nú er. Spárnar kl. 19:10 og 01:15 voru svipaðar, og má sjá þær á mynd af spábókinni.

greinarmynd-5

Þótt Veðurstofan hafi mátt sæmilega við una, er því ekki að neita að engan grunaði að veður yrði jafnslæmt og raun bar vitni. Allgóðar fréttir bárust af lægðinni, þannig að vel tókst til með staðsetningu hennar. Skip í kringum hana gáfu þó hvergi meir en 8 vindstig um daginn. Í ljós kemur að eftir klukkan 12 eru engar fréttir af vindi eða þrýstingi nærri lægðarmiðjunni og ekki var viðlit að sjá hversu mikið hún dýpkaði fyrr en það var orðið um seinan.

Trúlega gengi mun betur að spá fyrir um veðrið með tækjum og tólum nútímans, en veðurharka af þessu tagi er þó óvenjuleg í september (en alls ekki dæmalaus) og nokkra snerpu þarf hjá spámönnum til að koma viðvörunum til skila. 

Ritstjórinn þakkar Jóni Gunnari Egilssyni fyrir myndatöku af korti og spábók. 


Septemberhámörk - nokkrir nördamolar

Hiti hefur fjórum sinnum náð 25 stigum hér á landi í september. Hæsta talan er 26,0 stig og mældist á Dalatanga 12. september 1949. Þennan sama dag fór hiti víða í meir en 20 stig. 

Í viðhenginu er listi yfir hæsta septemberhita á öllum veðurstöðvum - athugið að hann er settur saman til gamans - en ekki sem ívitnanleg heimild. 

Meðalhiti á veðurstöð hefur aldrei náð 12 stigum í september - taflan sýnir hæstu meðaltölin - með 2 aukastöfum (í keppnisanda - en ekki endilega til eftirbreytni).

röðármánhám nafn
11958911,67 Elliðaárstöð
11958911,67 Andakílsárvirkjun
31941911,58 Akureyri
32006911,58 Steinar
51939911,57 Elliðaárstöð
61958911,53 Loftsalir
71996911,51 Seyðisfjörður
81941911,50 Víðistaðir
91958911,50 Víðistaðir
91941911,50 Vík í Mýrdal

Stöku sinnum ber það við að september er hlýjasti mánuður ársins - hvergi á landinu er það þó algengt

Ef búinn er til listi yfir hvenær september hefur verið hlýjastur mánaða kemur í ljós að það er algengast á stöðvunum á sunnanverðum Austfjörðum, á Teigarhorni, Vattarnesi, Kambanesi og í Papey, sömuleiðis nokkrum sinnum í Grímsey. Á öðrum stöðvum er þetta sjaldgæft , hefur t.d. aðeins einu sinni gerst í Reykjavík - það var 1877 - eftir hraklega kalt sumar fram að því. 

Nokkur ár skera sig úr, þar með talið 1877, september var víða hlýjastur mánaða það árið. Sama gerðist árið 1941, þá var september hlýjastur á 16 stöðvum. Enn betur gerði september 1958, þá var hann hlýjastur á 45 stöðvum - svona var líka með september í fyrra - en þetta er endurtekið efni hér á hungurdiskum - í viðhengi pistils frá 1. október 2015 má sjá lista um þessi tilvik. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Um hámarkshita sumarsins 2016 og fleira í þeim dúr

Við lítum nú á hámarkshita sumarsins 2016 - og fleira. Hæsti hiti ársins til þessa mældist á Egilsstaðaflugvelli 3. júní, 24,9 stig. Mjög ólíklegt má telja að hærri hiti en þetta liggi í leyni á þeim tíma sem lifir árs. Hiti á landinu hefur aldrei svo vitað sé náð 25 stigum eftir 14. september. - En aldrei að segja aldrei. 

Taflan sýnir lista yfir hæstu tölur ársins. - Við lítum þar líka á mönnuðu stöðvarnar sér (þær eru nú orðnar fáar) og einnig vegagerðarstöðvarnar sér.

hæsti hiti ársins til þessa á landinu   
stöðröðármándagurhám nafn
4271120166324,9 Egilsstaðaflugvöllur
4271220166223,6 Egilsstaðaflugvöllur
3380320166423,4 Reykir í Fnjóskadal
6802420166323,3 Húsafell
6802420166423,3 Húsafell
        
hæsti hiti ársins til þessa á landinu - mannaðar stöðvar
stöðröðármándagurhám nafn
9231201672721,6 Eyrarbakki
931220166321,4 Hjarðarland
13201672821,3 Reykjavík
14201672721,2 Reykjavík
        
hæsti hiti ársins til þessa á landinu - vegagerðarstöðvar
stöðröðármándagurhám nafn
36270120166223,0 Eldhraun
364112201672722,0 Skálholt
315793201672721,8 Kjalarnes
313804201672721,6 Selvogur
363084201672721,6 Þjórsárbrú

Tölur úr hitabylgjunni í upphafi júnímánaðar raða sér í toppsætin - en 27. júlí er einnig áberandi. 

Sé athugað hvaða daga hiti varð hæstur á einstökum stöðvum kemur í ljós að 27. júlí stendur sig best, á árshámark 32 stöðva, (og 18 stöðva vegagerðarinnar). Árangur júníhitanna dreifðist meira, 12 stöðvar náðu sínu sumarhámarki 2. júní, 17 stöðvar þann 3. og 16 þann 4. 

Annars verður dreifingin að teljast fremur flöt - 32 dagar koma við sögu á almennu stöðvunum - og 23 á vegagerðarstöðvunum. - Rétt er að taka fram að þarna er eitthvað smávegis kusk með - stöðvar sem ekki eru samfeldar og hafa e.t.v. misst af þeim degi sem raunverulega var hlýjastur við stöðina.

En ein stöð náði sínu sumarhámarki strax 15. maí. Það var Brúarjökull. Þá mældist hitinn þar 10,8 stig - og fór ekki ofar í sumar. Þessi stöð hefur að vísu verið grunsamlega köld í sumar - hún er kannski ekki alveg í lagi. 

Stöð vegagerðarinnar við Herkonugil á Siglufjarðarvegi mældi sinn hæsta hita á árinu til þessa 13. mars. - Jú, þetta kemur fyrir að hæsti hiti ársins á einstökum stöðvum mælist ekki að sumarlagi. Um þetta var fjallað í pistli á hungurdiskum á sínum tíma - eins og þrautseigustu lestendur e.t.v. muna. En 17,5 stigin sem mældust við Herkonugil í mars gætu enn orðið undir í samkeppni ársins í heild - þetta er einmitt ein af uppáhaldsstöðvum vetrarhitaskotanna. 

Á fjórum stöðvum mældist hæsti hiti ársins til þessa nú í september, þær eru Hornbjargsviti, Seley, Papey og Streiti. - Og alls ekki er ótrúlegt að einhverjar stöðvar eigi enn eftir að ná sínu árshámarki. 

Á fimm stöðvum hefur hiti enn ekki náð 15 stigum í ár. Það eru Brúarjökull (sem áður var nefndur), Gagnheiði, Þverfjall, Innri-Sauðá og svo Seley. 

Tvær spurningar vakna strax varðandi hámarkshita ársins: Er það venjulegt eða óvenjulegt að hiti fari ekki í 25 stig? Er óvenjulegt að árshámarkið mælist jafnsnemma sumars og nú?

Það er ekki óvenjulegt að árshámarkið nái ekki 25 stigum - hiti á landinu hefur t.d. ekki farið yfir 25 stig síðan 2013 - þrátt fyrir að almennt hafi verið hlýtt í veðri. Ef við förum aftur til 1931 hefur árshámarkið 28 sinnum (af 86 árum) verið undir 25 stigum - en 58 sinnum 25 stig eða meira. Hámarkið 2016 (ef það verður ekki slegið) er því á mörkum neðsta og miðþriðjungs - á smekksatriði hvort við teljum það í meðal- eða í lægra lagi. 

Það verður hins vegar að teljast óvenjulegt að hámarkshitinn mælist jafnsnemma og í ár, 3. júní. Það hefur sárasjaldan gerst svo snemma. Í gagnagrunni Veðurstofunnar segir að þann 25. maí 1962 hafi hiti mælst 22,6 stig á Þórustöðum í Önundarfirði og að það hafi jafnframt verið hæsti hiti þess sumars (heldur rýrt). Ritstjóri hungurdiska veit ekki alveg hvort hann á að trúa þessari tölu - líklega er hún röng, en þó voru aðstæður þannig að ekki er alveg hægt að útiloka að rétt sé fært. Síðan þurfum við að fara alveg aftur til 1941 til að finna dag svo snemma sumars. Þann 3. júní 1941 mældist hiti 25,7 stig á Teigarhorni og varð það hæsti hiti á landinu það árið. Á eldri tíð - þegar stöðvar voru oft fáar - vitum við um tvö landsárshámörk í maí - 1932 og 1890 og að auki tvö tilvik þegar hæsti hiti í maí var jafnhár hita sem síðar mældist (1882 og 1907). 

Á hinum endanum - síðasti dagur landshámarks er 19. september - þann dag 1877 fór hiti í 19,8 stig á Teigarhorni, en mjög líklegt má telja að hiti hefði mælst hærri en það einshvers staðar inn til landsins það sumar - hefðu verið einhverjar stöðvar að mæla - en það var ekki.

En - hæsti hiti ársins 2015 - í fyrra - mældist 7. september og hæsti hiti ársins 2010 þann 4. september. Þann 1. september 1981 var hámarkshitinn á Vopnafirði sá hæsti sem mældist á árinu. - Nú, svo er ein merkileg jöfnun, þann 1. október 1973 jafnaði hámarkshitinn á Dalatanga sumarhámarkið frá Staðarhóli 26. júlí. En þetta sumarhámark var óvenju lágt, aðeins 23,5 stig. 

Í viðhenginu er listi yfir hæsta hita landsins á hverju ári frá 1874 til 2016. Athuga ber að hann er settur hér til skemmtunar - án heilbrigðisvottorðs og veldur vonandi ekki alvarlegu smiti. Slæðingur af vafasömum tölum er á listanum. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lágþrýstingur

Þessa dagana eru djúpar lægðir á sveimi í námunda við landið - en útlit fyrir að við sleppum samt furðuvel. Helst að hann rigni mikið í sumum landshlutum - en bara sumum. Það verður að teljast hlýtt - og munar það miklu hvað veður varðar. Svipuð staða veðurkerfa um hávetur getur verið mjög óhagstæð og erfið viðfangs - því þá er hiti nærri frostmarki á láglendi og snjór á heiðum.

En við lítum á norðurhvelsspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag (11. september). 

w-blogg100916a

Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd, Ísland þar ekki langt fyrir neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari eru háloftavindar. Litirnir sýna þykkt - en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og gulu litanna er við 5460 hPa.

Meðalþykkt í september hér á landi er 5400 metrar - á mörkum ljósasta græna litarins og þess í miðið (grænu litirnir eru þrír). Þeir sem stækka kortið munu sjá að sunnudagsþykktin verður ekki fjarri þeirri tölu. Mun hlýrra loft er fyrir sunnan land og beina vindar því til norðnorðausturs - aðallega framhjá landinu.

Þannig á það svo að ganga næstu vikuna að raunverulega kalt loft - það bláa - virðist ekki eiga að komast nærri okkur. - En það kemur auðvitað um síðir. 

Við sjáum að það er sérlega hlýtt í Evrópu, þykktin er meiri en 5640 metrar á stórum svæðum - alveg norður undir Danmörku - og þessi miklu hlýindi eiga eftir helgina að komast langt norður eftir Noregi, 5700 metra jafnþykktarlínan á jafnvel að komast norður á England á þriðjudaginn, en það er óvenjulegt í september og reyndar ekki svo venjulegt um hásumar heldur.

Kuldinn í Norður-Íshafi er nú aðallega vestanmegin - sérleg hlýindi ná langt norður fyrir Síberíu. Dekksti blái liturinn á þessu korti sýnir svæði þar sem þykktin er minni en 5100 metrar. Það er ívið kaldara en algengast er á þessum tíma árs - við getum sagt - svona gróflega - að þessi kuldapollur sé byrjunin á vetrinum. Fyrirferð bláu litanna fer nú vaxandi á næstu vikum - og þar með aukast líkur á því að þeir skjóti klóm sínum til okkar. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 18
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 986
  • Frá upphafi: 2341360

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 904
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband