Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021

Hlýindin vestra

Óvenjuhlýtt er nú í norðvesturríkjum Bandaríkjanna og vestanvert í Kanada. Hitamet falla umvörpum. Það eru að sjálfsögðu tíðindi þegar allsherjarmet falla í jafnvíðlendu ríki og Kanada. Veðurkortið hér að neðan sýnir stöðuna í háloftunum. Það er fengið úr spálíkani evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl.6 í fyrramálið, þriðjudag 29.júní. Norðurskaut er ofarlega á myndinni - sjá má Ísland ofarlega til hægri, en norðvesturríki Bandaríkjanna eru neðst. 

w-blogg280621a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Dekkstu brúnu fletirnir sýna svæði þar sem þykktin er meiri en 5880 metrar. Það er nánast einstakt að svo mikil þykkt nái jafnnorðarlega og hér hefur átt sér stað. Hún er hins vegar allalgeng að sumarlagi um 12 til 15 breiddarstigum sunnar, yfir eyðimörkum Arisóna og þar um slóðir. Enn meiri verður hún yfir suðvesturhlutum Asíu. 

Það er jafnframt eftirtektarvert að mjög öflugur kuldapollur er yfir Norðuríshafi - ekki það að kuldinn í honum sé sérlega óvenjulegur heldur fremur hversu lágur 500 hPa-flöturinn er í honum miðjum, um 5090 metrar. Ekki er annað að sjá að hann verði heldur þrálátur næstu ein til tvær vikur - jafnvel lengur - en hlýindahæðin mikla mun væntanlega fletjast út - eða hörfa á sínar heimaslóðir.

Mjög hlýtt loft stefnir hingað til lands á morgun. Þykktin í fyrramálið verður um og yfir 5600 metrum fyrir suðvestan land. Þegar þetta loft fer austur um síðdegis og á miðvikudag hlýnar það nokkuð vegna yls yfir landinu - og síðan er niðurstreymi austan fjalla - sem eykur þykktina.

Frá 5600 upp í 5880 eru um 14 stig og frá 5600 niður í 5220 eru um 19 stig.

Eldri pistill um mikla þykkt yfir Ameríku


Órólegar hitamælingar

Mörg veðurnörd hafa sjálfsagt veitt því eftirtekt að hiti fór í dag upp fyrir 20 stig á veðurstöðinni við Fagradalsfjall - þó slíka hlýinda hafi alls ekki gætt annars staðar á Reykjanesskaga. Fljótlega eftir að gos hófst í mars var veðurstöð komið fyrir í námunda við eldstöðvarnar. Nú er svo komið að mælistaðurinn er umlukinn hrauni á alla vegu - og fer e.t.v. undir hraun að lokum. Stöðin er venjuleg að því leyti að hitamælir er í hefðbundinni hæð frá jörðu - og ekki er vitað til þess að sólgeislunaraðstæður séu afbrigðilegar. Fljótlega eftir að mælingarnar hófust kom í ljós að hiti var þarna óstöðugri heldur en algengast er á veðurstöðvum og munur á hámarks- og lágmarkshita hverrar klukkustundar meiri en títt er. 

Ritstjóri hungurdiska athugaði málið og komst að því að mjög stórar hitasveiflur (>8 stig á klukkustund) eru ekki tíðari heldur en dæmi eru um en „hóflegri“ sveiflur (>3 stig á klukkustund) hins vegar talsvert algengari heldur en á öllum öðrum stöðvum landsins á sama tímabili. 

Svo virðist sem hlýir straumar af hrauninu séu orðnir býsna tíðir á stöðinni - t.d. í dag, laugardaginn 26.júní þegar hiti fór í 23,9 stig kl. 9:40. 

Ritstjórinn taldi sér til gamans fjölda þeirra klukkustunda á öllum veðurstöðvum landsins frá 1.apríl þegar meira en 3 stigum munaði á hámarks- og lágmarkshita klukkustundar. 

Tíðni slíkra „atburða“ var mest á Fagradalsfjalli, 337 (fram á síðdegi 26.júní). Næstflestir voru þeir á Dyngjujökli, 210 - en sú stöð er ekki „lögleg“, hitamælir ekki í réttri hæð. Í þriðja sæti er síðan önnur ekki lögleg stöð, í Drangagili ofan við Neskaupstað, með 206 tilvik. Fæst voru tilvik af þessu tagi hins vegar á Suðurnesi á Seltjarnarnesi - aðeins eitt. Á Skarðsmýrarfjalli - við Hellisheiði voru tilvikin aðeins 2 og sömuleiðis á Siglunesi. 

Hraunið er heitt og hitar loftið sem það snertir mikið - enda sjáum við strók standa upp af því. Oftast liggur vindur inn að hrauninu - loft streymir að í stað þess sem upp fer - en stundum nær vindur að feykja hlýjum strókum í átt að hitamæli stöðvarinnar. Staðan fer að verða flókin þegar svo er komið að hraun er á allar hliðar. 

En við verðum líka að hafa í huga að rétt hugsanlegt er að stöðin sé alls ekki alltaf að mæla lofthita - geislunarvarmi frá mjög nálægu hrauni gæti komið við sögu. Ritstjóri hungurdiska er einfaldlega ekki nægilega kunnugur staðháttum - og því síður þróun þeirra síðustu daga - en flest í þessu umhverfi virðist breytast hratt. Það verður athyglisvert að gera þessar mælingar upp þegar að því kemur.


Stríð vestanátt

Veðrahringrás norðurhvels er nú komin í sumarskap (sem vera ber) þó enn megi greina síðustu leifar vetrar og vors í norðurhöfum. 

w-blogg240621a

Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á morgun (föstudag 25.júní). Af hæðinni ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar við Ísland - óvenjuþéttar miðað við árstíma, þó ekki sé um nein met að ræða. Þykktin segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mjög hlýtt loft leikur um landið, þykkt yfir landinu austanverðu meiri en 5640 metrar sem er með því mesta sem sést. Eins og venjulega er þó alltaf nokkur óvissa um hversu vel hlýindin skila sér niður í mannheima. Um landið vestanvert blæs vindur af hafi og varla nokkur möguleiki á að koma hlýja loftinu að ofan niður - eitthvað af því blandast þó inn í svalann og hiti verður heldur hærri en að undanförnu. Austanlands er mun meiri von um hlýindi. Mættishiti í 850 hPa verður þar um 28 til 29 stig og brjótist sól í gegnum ský gæti hiti á Héraði og Austfjörðum um stund náð 23 til 27 stigum - en það er sýnd veiði en ekki gefin. 

Þessi sterka vestanátt á að haldast í nokkra daga - þá með miklum hlýindum austan- og jafnvel suðaustanlands líka (þó varla alveg samfelldum). Um frekara framhald eru spár ekki sammála - hvað gerist þegar slaknar á vestanáttinni og hvoru megin garðs við þá lendum - í almennum hlýindum að austan og sunnan eða þá svala að vestan eða norðan. 

Illur kuldapollur er yfir Norðuríshafi - hótar okkur ekki í bili, en samt er vissara að gefa honum gaum. Gríðarleg hlýindi gengu fyrr í vikunni yfir austanverða Evrópu, júníhitamet féllu þar víða - sömuleiðis í Kákasuslöndum. Á þessu korti er leiðindakuldapollur yfir Bretlandseyjum - hann gefur sig smám saman, en veldur samt skúrum og svala þar um slóðir næstu daga. 

Á dögunum voru einnig óvenjuleg hlýindi um vestanverð Bandaríkin, hiti nærri metum. Aðeins hefur slaknað á, en svo virðist sem hitarnir muni taka sig upp, og verða hugsanlega óvenjulegir í norðvesturríkjunum og vestanvert í Kanada upp úr helginni. Þar sést þykktinni spáð upp í 5880 metra - sem hlýtur að vers nærri meti - en er jafnlíklegt að sé rangt í spánni. 


Tuttugu júnídagar

Meðalhiti fyrstu 20 daga júnímánaðar í Reykjavík er +8,0 stig, -1,5 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í næstlægsta sæti á öldinni, kaldara var 2001, meðalhiti þá 7,8 stig. Hlýjastir voru þessir sömu dagar 2002, meðalhiti 11,5 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 118. sæti (af 147). Hlýjast var 2002, en kaldast 1885, meðalhiti þá aðeins 6,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti nú +8,2 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, og -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er neðan meðallags um nær land allt. Þetta er kaldasti júní (hingað til) á Suðausturlandi, en að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðurlandi eystra. Þar er hitinn í 15. hlýjasta sæti aldarinnar (af 21). Hiti er í meðallagi síðustu tíu ára á einni stöð, Gjögurflugvelli, en kaldast að tiltölu hefur verið í Þúfuveri þar sem hiti er -3,3 stig undir meðallagi.

Úrkoma hefur mælst 27,8 mm í Reykjavík, eða í rétt tæpu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 12,4 mm og er það líka rétt undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa mælst 94,7 í Reykjavík og er það um 30 stundum minna en að meðallagi.


Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 15
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 983
  • Frá upphafi: 2341357

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 901
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband