Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2021
30.11.2021 | 22:25
Hlýtt ár (enn og aftur)
Meðalhiti í byggðum landsins í nóvember er mjög nærri meðallagi áranna 1991 til 2020, en lítillega neðan meðallags síðustu tíu ára. Svipað er með hita fyrstu 11 mánuði ársins, hann er lítillega yfir 30-ára meðaltalinu, en örlítið neðan meðaltals síðustu tíu ára.
Á lista yfir meðalhita síðustu 73 árin er hiti í Reykjavík í 15.hlýjasta sæti, en í því fimmtahlýjasta á Akureyri, áttundahlýjasta austur á Dalatanga. Við getum því gengið út frá því að árið 2021 verður í hópi hlýju áranna eins og öll ár þessarar aldar.
Myndin sýnir meðalhita fyrstu 11 mánaða ársins í Reykjavík. Á þessu tímabili hefur hlýnað að meðaltali um 1,1 stig á öld, en þrepaskipting er þó áberandi. Mjög hlýtt var frá því upp úr 1920 til 1965, síðan kalt, sérstaklega í kringum 1980. Hlýnunin síðan gerir meira en að vega upp kólnunina á sjöunda áratugnum - þó ekki hafi orðið miklar breytingar síðustu tuttugu árin tæp.
Eins og alltaf er verið að taka fram segir línurit sem þetta ekkert um framtíðina. Engan (eða fáa alla vega) grunaði 1920 að nú færi mikið hlýskeið í hönd - menn gengu líka alveg grunlausir á móts við kólnunina á sjöunda áratugnum. Það er helst að væntingahljóð hafi verið komið í suma í kringum aldamótin - því áberandi hnattræn hlýnun hafði þá verið í gangi í meir en áratug. En hlýnunin var, þegar hún loksins kom, mun örari heldur en vænta mátti, nánast var hægt að tala um óðahlýnun. Til allrar hamingju dró aðeins úr framsókn hennar. Hefði ákefðin haldist, væri nú meir en 1 stigi hlýrra hér á landi heldur en fyrir 20 árum.
Breytileiki hita frá ári til árs hefur verið heldur minni á núverandi hlýskeiði heldur en á því fyrra - minni heldur en ritstjóri hungurdiska hefði búist við. Hin tilviljanakennda tíðni vindátta frá ári til árs ræður um eða yfir helmingi breytileikans - kannski vægi norðanáttarinnar hafi minnkað - ekki vegna þess að hún sé sjaldséðari heldur vegna þess hversu mikið hún hefur hlýnað. En þrátt fyrir að hin almenna hnattræna hlýnun auki líkur á því að hlýskeiðið haldi áfram hér á landi megum við samt ekki ganga út frá því sem fullvísu.
Svo er spurning hvort annað þrep aukinnar hlýnunar leynist í framtíðinni? Ábyggilega heldur veðráttan þó áfram að koma okkur á óvart - rétt eins og hún hefur gert svo lengi sem elstu menn muna.
Breytileiki desemberhita er mikill - getur hnikað ársmeðalhitanum til um 0,2 til 0,6 stig frá því sem fyrstu 11 mánuðirnir spá. Verði desember mjög hlýr gæti árið endað í 5,6 stigum í Reykjavík, en verði hann mjög kaldur gæti það endað í 5,0 stigum. Meðalhiti fyrstu 11 mánaðaanna er 5,7 stig. Aðeins tvö ár frá aldamótum hefur meðalhiti í Reykjavík verið undir 5 stigum (2013 og 2015). Meðalhiti 1991 til 2020 er 5,1 stig, en meðalhiti síðustu tíu ára 5,4 stig.
24.11.2021 | 23:10
Furðumeinlítið
Lægðir ganga nú ótt og títt yfir landið eða rétt framhjá - aðeins 2 til 3 dagar á milli kerfa. Ritstjórinn er hálfhissa á því hversu meinlaust þetta hefur verið (hingað til) - miðað við árstíma. Eitthvað hefur þó hreyfst á stöku stað - en ekkert sem talandi er um. Ef hitinn væri ekki að róla kringum frostmarkið myndi maður næstum freistast til að halda að enn væri ágúst eða september (smáýkjur).
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á föstudag, 26.nóvember. Mikil hæð er suður í hafi og norðan hennar er mikill vestanstrengur í háloftunum. Lægðin sem á að fara hjá landinu á morgun (fimmtudag) er komin suðaustur á Norðursjó - ekki sérlega djúp en á þó að valda miklu norðanhvassviðri sumstaðar á Bretlandseyjum og síðar suður á Frakklandi. Hæðarhryggur er yfir Íslandi - rétt eins og síðdegis í dag. Síðan eru fleiri hraðskreiðar lægðir í sjónmáli - og lenda líka í Norðursjó með illviðrum þar í grennd.
Þetta minnir nokkuð á stöðuna í nóvember (og líka í desember) 1973 - nema að þá var vetrarsvipur á þessu öllu - veðrin grimmari og talsvert kaldara heldur en verið hefur til þessa. Desember 1973 varð alveg sérlega kaldur - (við vitum ekkert um desember nú) - en þá - bæði í nóvember og desember - gengu lægðir frá Íslandi til suðausturs um Norðursjó - ollu þar hverju fárviðrinu á fætur öðru. Þá var olíuvinnsla að komast af stað í alvöru og ekki komin eins mikil reynsla á borpalla og vinnslustöðvar og nú er. Erfiðleikar voru á svæðinu vikum saman - og mikil reynsla varð til.
Hér á landi hlýtur veturinn að sýna klærnar um síðir.
21.11.2021 | 14:12
Fyrstu 20 dagar nóvembermánaðar
Meðalhiti fyrstu 20 daga nóvember er +2,4 stig í Reykjavík, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,8 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 14.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Dagarnir 20 voru hlýjastir árið 2011, meðalhiti þeirra þá var +6,7 stig. Kaldast var 2017, meðalhiti +0,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 54. hlýjasta sæti (af 146). Hlýjastir voru þessir dagar 1945, meðalhiti þá +8,0 stig (sérlega óvenjulegt), en kaldastir voru dagarnir árið 1880, meðalhiti þá -2,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +0,5 stig, -0,5 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Ekki er mjög mikill munur á hitavikum á spásvæðunum. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum, Suðausturlandi og Suðurlandi þar sem hiti raðast í 11.hlýjasta sæti aldarinnar, en í 13. til 14. sætið á öðrum svæðum.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á aðeins einni stöð, Skarðsfjöruvita, þar er vikið +0,2 stig. Kaldast að tiltölu hefur verið á Skagatá þar sem hiti er -1,6 stigum neðan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 93,8 mm og er það um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 43,3 mm og er það í meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 16,2 í Reykjavík, rúmur helmingur meðallags, en hafa alloft verið færri sömu daga.
20.11.2021 | 21:21
Frosin vatnsleiðsla og rafmagnsleysi (bernskuminning)
Fyrstu ár byggðar í Borgarnesi treystu íbúarnir á brunnavatn. Nokkrir brunnar voru í bænum, misgóðir og misvatnsgæfir. Einn þeirra var t.d. í kjallara hússins sem langafi og langamma ritstjóra hungurdiska byggðu. Ekki var það sérlega góður brunnur - en dugði að einhverju leyti. Ekki var mjög langt í næsta brunn - sá var nærri þeim stað sem Gunnlaugsgata mætir nú Skúlagötu. Þar var mikið vatn. Einhvern tíma um eða upp úr 1920 hófst mjólkurvinnsla í Nesinu. Þá var lögð vatnsleiðsla frá þessum brunni niður í mjólkursamlag - nutu fáein íbúðarhús á leiðinni þessarar vatnsveitu - alla vega að einhverju leyti. Þar á meðal hús fjölskyldu ritstjórans.
En það fjölgaði í þorpinu og upp úr 1930 var ljóst að brunnarnir gáfu ekki nægilegt vatn - og alls ekki til iðnaðarnota. Þá var farið að huga að vatnsveitu - ýmsir möguleikar komu til greina. Eftir ítarlega skoðun varð ofan á að hönnuð var vatnsveita sunnan úr Hafnarfjalli þar sem nú heitir Eystra-Seleyrargil (eða Innra-). Þó var svo þröngt í búi á kreppuárunum rétt fyrir stríð að ekki varð úr framkvæmdum.
Ísland var hernumið í maí 1940. Borgarnes var á þessum árum samgöngumiðstöð - vegur fyrir Hvalfjörð var illur og seinfarin. Flutningar á varningi - bæði til héraðsins og úr því (svosem mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir) fóru fram með skipum, reglubundnar siglingar voru um Faxaflóa og komu flóabátarnir þar við. Ingólfur, Suðurland, Laxfoss og loks Akraborg - og ýmis afleysingaskip.
Bretar höfðu því augastað á Borgarnesi og komu þar með mikið herlið síðla sumars og um haustið 1940. Áður höfðu náðst samningar um að þeir útveguðu (og greiddu) efni í vatnsveitu yfir fjörðinn - svipað og áætlað hafði verið. Þó var, vegna stríðsins, ekki hægt að fá fyrirhugaða stærð af rörum og leiðslan því mjórri en ætlað hafði verið. En í staðinn var reistur vatnsgeymir á hæsta holti bæjarins. Unnið var að stíflugerð í Seleyrargili um haustið - og um veturinn, vatnsgeymir var steyptur og leiðslur lagðar um þorpið.
Leifar vatnsveitumannvirkja í Eystra-Seleyrargili (myndin tekin í júní 2012). Stíflugarður þveraði gilið - fyrir ofan hann var sand- og malargildra sem vatnið síaðist í gegnum inn í geymi sem stóð neðan við stífluna. Geymirinn jafnaði rennsli og hélt uppi þrýstingi á leiðslunni. Meir en 100 metra hæðarmunur er á geyminum og vatnsgeyminum handan fjarðar í Borgarnesi. Stíflan grófst að nokkru í mikla skriðu sem féll aðeins innar í gilinu í júlí 1966 - en rutt var frá henni aftur og nýttist hún í nokkur ár í viðbót. Í miklum úrkomum varð varð rennsli í gegnum malarsíuna oft það mikið að gróðurleifar og smádýr komust í vatnið. Ekki minnist ritstjórinn þess að það hafi valdið sérstökum hryllingi.
Vatnsveitan var formlega tekin í notkun í júní 1941. Óhætt er að segja að um framfarabyltingu hafi verið að ræða. Vatnsleiðsla hafði til þessa ekki verið lögð yfir sjó á Íslandi áður. Vegalengdin í sjó - frá Seleyri og yfir í Borgarnes var ekki fjarri 2 km.
Menn höfðu nokkrar áhyggjur af leiðslunni. Svo er að sjá að aðaláhyggjurnar stöfuðu af ísreki á firðinum. Jakaburður myndi jafnvel slíta leiðsluna í sundur. Minna var talað um hættuna á að vatnið í leiðslunni frysi. - Eitthvað var þó á þann möguleika minnst. Til öryggis voru einn eða tveir brunnar endurnýjaðir þannig að ekki yrði algjör vatnsskortur í mjólkursamlaginu þótt leiðslan brygðist.
Svo virðist sem litlir hnökrar hafi verið á vatnsflæðinu fyrstu árin. Það var ekki fyrr en árið 1955 að upp komu veruleg vandræði - og síðan aftur árin 1959 og 1960.
Veðurfar á árinu 1955 var að ýmsu öfugsnúið. Norðlægar- og austlægar áttir með háþrýstingi voru ríkjandi í janúar og febrúar (og reyndar í apríl og maí líka), en sumarið með eilífum suðvestanáttum, illviðrum og rigningum um landið sunnan- og vestanvert, en hlýindum eystra. Um haustið snerist svo aftur til austlægra og norðlægra átta.
Eitt frægt illviðri gerði í janúar - mest þó á Vestfjörðum og á Vestfjarðamiðum þann 26. Tveir breskir togarar fórust með 42 manna áhöfn og togarinn Egill rauði strandaði við Sléttunes, 5 fórust þar.
Á baksíðu Tímans 23.janúar eru nokkrar fréttir tengdar veðri - bæði innlendar og erlendar:
Ísinn sprengdur af innsiglingu í Hornafirði. Bátarnir ýta síðan íshroðanum út í strauminn, sem ber hann út um ósinn. ... Hafa sprengidrunurnar því kveðið við hér í kauptúninu án afláts í dag.
Þoka mikil er í Bretlandi og tafði hún eða stöðvaði með öllu umferð bæði á landi og í lofti. Flugvöllurinn í London var opnaður í dag eftir hádegi, en þá hafði hann verið lokaður í 18 tíma vegna þoku. Þrjú skip strönduðu vegna þokunnar og önnur sigldu hvort á annað.
Mestu frost síðan 1918 á Sléttu.
Snjóþyngslin í Skotlandi: Smábændur áttu ekki matarbirgðir nema tvo til þrjá daga.
En svo eru fréttir úr Borgarnesi:
Aldrei eins mikill ís á Borgarfirði síðan 1918. Nokkur hluti íshellunnar brotnaði upp í fyrradag og er ísrek hættulegt smáskipum. Mikið ísrek er nú á Borgarfirði, enda var kominn meiri íshella á fjörðinn í fyrradag en menn muna eftir síðan 1918, frostaveturinn mikla. Fjörðurinn var nú ísi lagður niður undir Borgarnes og auðveldlega hægt að fara yfir ísinn milli Einarsness og Hvanneyrar. Í fyrradag brotnaði íshellan upp á stóru svæði næst Borgarnesi og barst síðan mikið íshröngl og jakar með sjávarföllum og straumi um Borgarfjörð. Gerir þetta siglingar að og frá Borgarnesi bæði erfiðar og hættulegar og alls ekki færar nema járnskipum.
Það var í þessu íshröngli að Eldborgin laskaði skrúfuna í fyrradag svo að skipið varð að halda kyrru fyrir í firðinum þar til birti í gær. Fór það þá til Reykjavíkur. Hafði undizt upp á eitt skrúfublaðið, og fór skipið í dráttarbraut. Losnaði það kl.7 í morgun og fór í áætlunarferð. Mjólkurflutningar geta því ekki farið fram sjóleiðina frá Borgarnesi en bílar óku mjólk út á Akranes í gær. Þaðan er hún flutt á vélbát, sem fenginn hefir verið til að vera í förum milli Akraness og Reykjavikur meðan gert er við Eldborgina. Þessi bátur kemst ekki í Borgarnes meðan fjörðurinn er svo varhugaverður vegna ísreksins.
Borgnesingar sækja nú neyzluvatn sitt í brunna á gamlan móð. Klakastífla í gilinu, þar sem vatnið er tekið í Hafnarfjalli, stíflar vatnsveituna. Borgnesingar hafa ekki vatn nema af skornum skammti þessa dagana. Vatnsveita þorpsins er óstarfhæf, vegna þess að klakastífla kom í gilið, þar sem vatnið er tekið í Hafnarfjalli. Síðast liðna tvo daga hafa menn unnið að því að sprengja þessa klakastíflu, en það hafði ekki tekizt í gær. Vatnsleysið olli Borgnesingum margs konar erfiðleikum. Einkum eru það þó húsmæðurnar, sem sakna vatnsins illa. Í þessu vatnsleysi hefir það komið sér vel, að fáeinir Borgnesingar hafa haldið við gömlu vatnsbólunum, brunnunum, af gamalli tryggð, en þessir brunnar eru nú vatnsból allra þorpsbúa. Það er því algeng sjón þessa dagana að sjá fólk rogast með vatnsfötur um kaupstaðinn og stundum er biðröð við brunnana.
Heildregnu línurnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í janúar 1955 en litirnir hæðarvikið. Þurrar og kaldar norðvestanáttir voru ríkjandi - og í febrúarmánuði líka. Þetta er mjög dæmigerð þurrkastaða um landið sunnan- og vestanvert. Svipuð staða var uppi í febrúar. Það er varla tilviljun að næst þegar mánaðakortið var svipað, í janúar 1959 og í febrúar 1960 voru líka vandræði með vatn í Borgarnesi.
Nærri mánuði síðar eru enn vandræði með vatnið. Vísir segir frá 17.febrúar (1955):
Frá fréttaritara Vísis. Í Borgarnesi í gær.
Allvíða í héraðinu er nú farið að bera á vatnsskorti á bæjum og veldur hann sumstaðar allmiklum erfiðleikum. Frost hafa verið að undanförnu og stillur. Vatnsmagn í ám er mjög lítið. Borgnesingar hafa einnig átt við erfiðleika að stríða af völdum vatnsskorts, og þó ræzt furðanlega úr, eftir atvikum. Vatn er leitt hingað úr gili í Hafnarfjalli sunnan fjarðarins og fraus vatnið í pípum á fjarðarbotninum fyrir nokkru, en komst í lag af sjálfu sér, en s.l. fimmtudag fraus aftur. Er nú farið að sækja vatn í tankbílum suður fyrir fjörð. Er það sótt í vatnsleiðsluna úr gilinu, og er tekið úr pípunum skammt frá veginum. Einn bíll hafði áður verið sendur vestur að Langá, en hætt var við að sækja meira vatn þangað, vegna erfiðleika á að ná því. Með því að sækja vatn í tankbílum suður fyrir fjörð mun vera hægt að sjá íbúum kauptúnsins fyrir nægu neyzluvatní. Þá hefur verið unnt að sjá mjólkurbúinu fyrir nægu vatni, og er það því að þakka, að þegar vatnsleiðslan kom til sögunnar var steyptur upp brunnur, til þess að hafa til vara, en úr honum fást um 40 smálestir af ágætu vatni á dag, og er það um bil það, sem mjólkurbúið þarfnast.
Skorradalsvatn er nú þykkum ísi lagt og vatnsmagn minkað mjög í því. Hefur Andakílsvirkjunin því mælzt til þess, að menn notuðu rafmagnið ekki óhóflega, og þeir sem fá rafmagn til næturhitunar grípi til kolahitunar, svo frami þeir geti það, og hafa menn brugðizt vel við þeim tilmælum, og spara auk þess rafmagn eins og hægt er, enda hefur alltaf gengið vel, og raforkan nægt til ljósa og iðnaðar.
Nýi Tíminn segir 24.febrúar:
Borgarnesi í gær. Frá fréttaritara. Vegna langvarandi frosta og úrkomuleysis er hér vatnsskortur og skammtað rafmagn. Vatn er sótt langa leið í tankbíl og ekið um bæinn, því frosið er í vatnsleiðslunni. Auk þess er vatn tekið úr brunnum sem haldið hefur verið við hér og er furðanlegt hve mikið vatn er hér í brunnum bæjarins. Vegna úrkomuleysis og frosta undanfarið hefur vatnið í Andakílsánni minnkað stöðugt og er því rafmagn skammtað hér þannig að ljós eru tekin af frá kl.12 að kvöldi til kl. 6 að morgni.
Síðasta fréttin af vatnsleysinu kom í Tímanum 26. mars - höfðu vandræðin þá staðið í tvo mánuði:
Frá fréttaritara Tímans í Borgarnesi. Eins og skýrt var frá hér í blaðinu fyrir nokkru, þá varð vatnslaust í Borgarnesi í frostunum, sem gengu yfir fyrir um það bil mánuði. Var vatn sótt á bilum, meðan leiðslurnar voru í ólagi. Nú hefir þessu verið komið í lag og kom vatn í síðasta húsið í fyrradag. Kom vatn siðast í hús á Brákarey.
Tveimur árum síðar urðu enn vandræði í Andakílsárvirkjun. Ritstjóri hungurdiska getur ekki heiðarlega haldið því fram að hann muni stöðuna 1955, en minnist hins vegar vandræða veturinn 1956 til 1957. Mikil illviðri gerði í desember 1956 og slitnuðu þá raflínur - miklar spennusveiflur urðu í rafmagni og minnisstæðar týrurnar á ljósaperunum. Sömuleiðis var eðlilegt að hafa olíulampa og kertabirgðir ætíð til taks.
Vísir segir frá 20.mars 1957:
Vatnsrennslið til Andakílsárvirkjunarinnar fer dagminnkandi. Héraðsbúar sitja í myrkri og kulda og eru rafmagnslausir meir en helming sólarhringsins.Horfir orðið til hreinna vandræða víða í héraðinu þar sem íbúarnir eru háðir rafmagnsnotkun að meira eða minna leyti og treysta á hana. Margir héraðsbúar, einkum þó í kauptúnunum Borgarnesi og Akranesi hafa ekki aðra upphitun heldur en rafmagnskyndingu eða þá olíukyndingu í sambandi við rafmagnsblásara, þannig að ef rafmagnið bilar verða þeir að sitja í kuldanum. Þegar sýnt var hvernig ástandið fer dagversnandi í rafmagnsmálunum þar efra kom gistihúsið í Borgarnesi sér upp mótorstöð til þess að geta haft ljós og hita þegar rafmagnið þraut frá Andakílsárvirkjuninni. Er ekki annað fyrirsjáanlegt en að ýmsir aðrir aðilar verði að taka upp sama ráð. Síðastliðinn sólarhring keyrði um þverbak hvað rafmagnsleysi snerti og var rafmagnið tekið af á tímabilinu kl. 15 í gær dag og síðan aftur kl. 9 í gærkveldi og þar til kl. 8.30 í morgun. Að undanförnu hefur rafmagnið oftast verið komið á kl. 66.30 á morgnana og orðið hlýtt í húsunum þegar fólkið kom á fætur þar sem rafmagnshitun er notuð.
Í janúar 1959 gengu þrálát frost og mjög þurrt var veðri - ávísun á veituvandræði.
Morgunblaðið segir frá þann 22.janúar 1959:
BORGARNESI, 21. jan. Kauptúnið er nú vatnslaust. Er þetta í annað skiptið á s.l. fjórum árum, sem slíkt á sér stað hér í Borgarnesi. Vatnið í aðalæðinni er frosið. Eðlilega hefur þetta í för með sér margvíslega örðugleika, og er verið að gera ráðstafanir til þess að geta hleypt sjó á kerfið, svo að hægt verði að skola niður úr hreinlætistækjum á heimilum manna. Vatnsæðin liggur ofan úr Hafnarfjalli. Þar er vatnið tekið úr svonefndu Selseyrargili, sem er í 144 m hæð yfir sjó. Vatnsæðin liggur á botni fjarðarins og er vitað að frosið hefur í æðinni þar sem hún liggur út í sjóinn. Hér í Borgarnesi er 250 tonna vatnsmiðlunargeymir. Í dag var byrjað að dæla £ hann sjó með öflugri brunadælu. Er þetta gert til þess að firra stórvandræðum á heimilum. Hér í þorpinu eru vatnsfrek fyrirtæki, t.d. mjólkursamlagið og hraðfrystihúsið. Verður til þess gripið, að sækja vatn á stórum tankbílum, en til slíkra ráða var gripið, þegar hér var vatnslaust í langvarandi frostum fyrir 4 árum.
Og Vísir nokkrum dögum síðar:
Frá fréttaritara Vísis. Borgarnesi, í morgun. Borgnesingar bíða enn eftir að fá vatn úr vatnsleiðslu sinni, en unnið er af kappi að því að þíða í pípunum. Er því lokið handan fjarðarins, þar sem leiðslan liggur út í fjörðinn. Aðstaða er hinsvegar hin versta að þíða í leiðslunum í firðinum, en tæknilega er talið kleift að þíða úr þeim með rafmagni, sé unnt að komast að þeim á báti með þeim tækjum, er til þarf, en aðstaðan er erfið vegna strauma og mikils ísreks í firðinum. Hreppurinn sér um, að vatn sé sótt handa íbúum kauptúnsins, og hefir það verið sótt suður yfir fjörð í vatnsleiðsluna þar, en vegna slæmrar færðar í morgun var sótt vestur í Langá. Mjólkurbúið hefir mikinn og djúpan brunn, sem var grafinn upp og steyptur um leið og vatnsleiðslan var fullgerð til þess að hafa til vara, og lagðar leiðslur í hann úr stöðinni og tveimur húsum að auki. Mjólkurstöðin hefir haft nægilegt vatn úr brunninum til þess að geta haldið starfseminni áfram. Dælt hefir verið sjó í vatnsleiðslukerfið til þess að hafa rennsli í hreinlætisleiðslum, en sjórinn er vart til annarra nota, þar sem sjórinn í firðinum hér er mjög leirborinn.
Vatnsleysið stóð ekki eins lengi 1959 og það hafði gert 1955. Hlákan var meira afgerandi og reynsla bættist í sarpinn. Vísir segir frá föstudaginn 13.febrúar 1959:
Borgarnesi í morgun. Vatnsleiðsla Borgarnesinga, sem liggur ofan úr Hafnarfjalli og yfir Borgarfjörð þveran, komst loks í lag í byrjun þessarar viku eftir langa bilun. Í frostunum í janúarmánuði fraus í leiðslunum úti á leirunum i sunnanverðum firðinum, og varð Borgarnesþorp þá með öllu vatnslaust í nokkrar vikur. Í langvarandi hlákum að undanförnu losnaði um klakann í leiðslunum og þá kom jafnframt i í ljós að þær höfðu rifnað á nokkru svæði um 800 metra frá landi þ. e. suðurbakka fjarðarins. Var kafari fenginn frá Vélsmiðjunni Hamri í Beykjavík til þess að annast viðgerðir á leiðslunum og síðastliðinn mánudag voru þær komnar í lag og Borgnesingar búnir að fá vatn að nýju.
Í gær var hvassviðri mikið í Borgarnesi og þá skeði sá atburður í einni vindkviðunni, að bíll, sem stóð uppi á hæð í þorpinu tókst á loft og hvolfdi. Urðu menn að grípa til þess ráðs að binda bílinn niður, þar sem hann var kominn unz lygndi.
Að morgni 15.febrúar gerði óvenjumikið þrumuveður um landið vestanvert. Ritstjóra hungurdiska þótti afleitt að sofa það af sér - en vaknaði við haglélið á eftir því. Eldingu sló niður í Borgarneskirkju - en bygging hennar var þá á lokastigi. Nokkrum dögum síðar (þann 19. brann prestsetrið á Borg á Mýrum).
Enn urðu vandræði í fjalli og firði árið eftir, snemma í mars 1960, en þá stóð vatnsleysið ekki lengi.
Morgunblaðið segir frá þann 5.mars 1960:
BORGARNESI, 4. marz. Vatnslaust varð hér í bænum í gær. Fóru starfsmenn frá hreppnum, þegar er vatnsskortsins varð vart, yfir fjörð til að athuga hvað ylli þessu, en vatnsból okkar er í Hafnarfjalli og liggur leiðslan yfir Borgarfjörðinn. Voru komnir miklir svellbunkar við lindirnar þar. Tókst að höggva rásir í klakann,með þeim árangri, að meira rennsli fékkst. Vonast menn til að vatnið haldi áfram að aukast, sérstaklega þar sem talsvert hefur snjóað í dag og hláka verið síðdegis. Sæmilegt vatnsmagn var yfirleitt í dag, nema í þeim húsum, sem hæst standa, en í þau hefur verið flutt vatn á bílum, bæði í gær og fyrripartinn í dag. Vatn mun vera farið að minnka víða á bæjum upp í héraðinu, vegna langvarandi frosta. Í morgun var hér mikil snjókoma og dimmt él. Komst Akraborg ekki inn, vegna þess að radar skipsins var bilaður. Færð er sæmileg og stóð ekki á mjólkurflutningum í morgun. H. Jóh.
Veturinn 1959 til 1960 var almennt hagstæður. Slæmt hríðarveður gerði í nóvember og mikil flóð í óvenjulegum hlýindum snemma í febrúar. Þetta var austanáttavetur, rétt eins og 1955.
Fyrstu dagana í mars var nokkuð fjölbreytilegt veður. Við skulum líta á veðurkort sem birtist í Morgunblaðinu 4.mars - og texta með því. Páll Bergþórsson teiknaði kortið. Mikil eftirsjá var að þessum kortum - en þau urðu undir í samkeppni við sjónvarpið haustið 1967.
Þessi krappa lægð fór norður um Austurland um nóttina og morguninn þann 3. Ekki varð teljandi tjón, en blöðin segja frá miklum hrakningum ferðafólks á Fjarðarheiði. Er mesta furða hvað vel slapp til.
Kortið sýnir veðurskeyti kl.9 að morgni 3.mars 1960. Nánast heiðskírt var í Borgarfirði og á Suðurlandsundirlendinu. Hægur vindur um meginhluta landsins, en hið versta veður norðaustanlands með gaddfrosti.
Árið eftir, 1961 var farið í aðgerðir í vatnsveitumálum, komið var upp aðstöðu til að hita vatnið lítillega. Önnur stífla var reist í Vestara- (Ytra-) Seleyrargili og leiðsla lögð frá henni. Þó vatnsveitan væri ekki alveg án vandræða eftir þetta varð aldrei um langvinnt vatnsleysi að ræða í Borgarnesi. Nokkrum árum síðar voru boraðar veituholur á Seleyri sjálfri - en ef of miklu var dælt varð vatnið fullsalt. Frekari umbætur komu enn síðar. Giljavatnið var lengi notað sem kælivatn á vélar í frystihúsinu þó hætt væri að nota það til neyslu.
Vatnsveitan var stöðugt inni á heimili ritstjóra hungurdiska því faðir hans var á eilífðarvakt í að fylgjast með henni. Á hverju kvöldi var horft yfir til Seleyrar til að athuga hvort ekki væri örugglega ljós á dæluskúrnum.
Rétt fyrir jól 1974 fórum við feðgar í eftirlitsferð upp að vestari stíflunni (þeirri sem byggð var 1961) - þar var allt í sóma.
Í viðhenginu eru fáeinar blaðafréttir þar sem sagt er frá lagningu vatnsveitunnar.
18.11.2021 | 23:17
Vestanáttarýrðin í háloftunum
Rétt að taka fram í upphafi að hér er um svokallaða nördafærslu að ræða - hinn almenni lesandi ekki líklegur til að hafa mikinn áhuga á textanum.
Vestanáttarýrð hefur komið við sögu á hungurdiskum áður - vestanáttin sem ríkir í háloftunum yfir Íslandi hefur um langt skeið verið vægari en lengst af á tíma háloftaathugana (þær byrjuðu upp úr síðari heimsstyrjöld).
Myndin sýnir tvenns konar mælingar á vestanáttinni. Annars vegar er fundinn munur á hæð 500 hPa-flatarins við 70°N og 60°N. Flöturinn er að jafnaði hærri sunnan við land heldur en fyrir norðan. Því meiri sem munurinn er því meiri er vestanáttin. Stöku daga getur hann snúist við og austanátt verður ríkjandi. Bláa línan sýnir 60-mánaða keðjumeðaltal þessa hæðarmunar - (vinstri kvarði á myndinni). Tölurnar fengnar úr endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar til 2010 - en síðan úr daglegum greiningum hennar. Við sjáum töluverðar sveiflur. 60 mánuðir eru fimm ár - samskonar ferill sem gerður er úr 12-mánaðameðaltölum er mun órólegri.
Mikil umskipti urðu í kringum 1960 - þá lauk miklu vestanáttaskeiði sem staðið hafði í allmörg ár (frá 1953). Næsta hámark vestanáttarinnar kom á áttunda áratugnum - því lauk snögglega haustið 1976. Enn var (minna) hámark kringum 1983 og síðan verulegt hámark á árunum 1989 til 1993. Á þessari öld hefur hallað undan fæti hjá vestanáttinni - sérstaklega frá og með haustinu 2009.
Nú er það svo að endurgreiningum er ekki alltaf að treysta - sérstaklega ekki fyrir tíma háloftaathugana. Í þessu tilviki er í gögnunum skipt milli greininga einmitt 2010 - þegar vestanáttin virðist detta niður. Til að sannfærast um að þessi skipti eru valda ekki alvarlegri villu í þessu tilviki er litið á vestanþátt vinds yfir Keflavíkurflugvelli - hann er í raun og veru mældur. Rauða línan sýnir 60-mánaða (5-ára) meðaltöl hans.
Í öllum aðalatriðum falla ferlarnir tveir - sá úr greiningu - og sá mældi - saman. Vestanáttin er í raun og veru í sögulegu lámarki. Hvernig ástandið var fyrir 1950 geta endurgreiningar e.t.v. upplýst okkur um - en við látum ekki eftir okkur að sinni að líta á niðurstöður þeirra.
Nánari athugun sýnir að meginástæða þessarar þróunar er sú að meira hefur hlýnað norðan við land heldur en sunnan við. Spurningin er auðvitað sú hvort þetta sé eitthvað viðvarandi - eða tilviljanakennt. Eins og sjá má á myndinni hafa báðir ferlarnir verið á uppleið síðustu tvö árin. Kannski heldur það ris áfram - og ekki ólíklegt. Síðastliðið sumar var vestanáttin alla vega heilbrigðari heldur en margir íbúar Suðvesturlands voru ánægðir með. Dragi úr hlýnun fyrir norðan land - en aukist hún sunnan við bætir aftur í vestanáttina - sömuleiðis ef meira kólnar norður undan heldur en fyrir sunnan. Þó langtímareikningar líkana bendi eindregið til þess að meira hlýni fyrir norðan heldur en fyrir sunnan land er ekki víst að einstakir áratugir fylgi slíku mynstri - misvægi getur vel orðið í hlýnun - og staðbundin kólnun getur einnig átt sér stað þótt það hlýni á heimsvísu.
Við skulum í leiðinni líta á aðra mynd. Hún sýnir einnig 60-mánaða keðjumeðaltöl.
Rauði ferillinn sýnir meðalhita í byggðum landsins (kvarði til hægri). Hlýtt var um 1960, síðan kólnaði mikið (hafísárin). Eftir ívið hlýrri ár frá 1972 kólnaði aftur 1979 og á landsvísu varð álíka kalt og hafði verið á hafísárunum. Þriðja kuldakastið, minna þó kom síðan í kringum 1995. Eftir það hlýnaði verulega - en frá því um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar hefur hiti ekki teljandi hækkað.
Bláa línan sýnir þykktina yfir landinu - hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Við sjáum að ferlarnir tveir fylgja svipuðum vendingum. Þó má greina mun. Kuldi hafísáranna var meiri á landinu sjálfu heldur en í veðrahvolfinu yfir því. Þannig eru áhrif hafíssins - hann eykur á stöðugleika loftsins - hiti fellur ekki jafnmikið með hæð og annars er. Svo stutt er frá hafísnum til lands að sjórinn nær ekki að fullblanda loftið þegar það streymir yfir hann.
Kuldakastið um og upp úr 1980 var annars eðlis. Sá kuldi var vestrænn - þá var líka sérlega kalt á Vestur-Grænlandi - leið þessa vestanlofts var hins vegar nægilega löng til þess að varmi sjávar sá til þess rækilega var hrært í. Hiti féll hratt með hæð - betra samhengi þá milli þykktar og hita á landinu.
Ritstjóra hungurdiska er minnisstætt að þegar farið var að tala af alvöru um yfirvofandi hnattræna hlýnun upp úr 1980 velti hann fyrir sér hvernig þeirrar hlýnunar myndi gæta hér á landi. Um það var talað - einkum þó í kringum 1990 að hlýnunin hér myndi tefjast vegna áhrifa sjávar. Ritstjórinn reiknaði í alvöru með því að sjórinn myndi valda því að stöðugleiki ykist aftur - og við fengjum aftur ámóta misgengi milli þykktar og hita og var á hafísárunum - þrátt fyrir vestanáttir (sem voru mjög sterkar á þessum árum - og sumir sögðu tengjast hinni hnattrænu hlýnun).
Hlýnunin upp úr aldamótum kom því mjög á óvart. Hún var mun meiri en nokkur hafði búist við. Þykktin jókst (rétt eins og sjá má á bláa ferlinum) - en hitinn hækkaði í réttu hlutfalli. Þetta var vegna þess að sjórinn hlýnaði meira (frá 1997 minnir ritstjórann) en nokkrum hafði dottið í hug að gerast myndi. Hin mikla hræra hélt því áfram.
Svo virðist sem þykktin hafi á allrasíðustu árum tekið enn eitt skref upp á við - umfram hitann. Hvort þetta er eitthvað til að taka mark á vitum við auðvitað ekki enn. Við vitum ekki hvort nú loksins sé komið að því að hitinn sitji á eftir þykktaraukningunni - eins og ritstjórinn bjóst við á árunum í kringum 1990.
Viðbúið er að náttúrunni takist enn að koma á óvart - hvernig vitum við ekki. Þó ekkert vit sé í því að taka mark á leitnitölunum sem einhvers konar spá er þó rétt að bera þær saman. Hitaleitnin samsvarar 1,4 stigum á öld frá 1950, þykktarleitnin er um 40 metrar á öld. Seinni talan segir okkur að hitaleitni í neðri hluta veðrahvolfs sé um 2 stig á öld. Kannski er stöðugleiki þrátt fyrir allt að aukast?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2021 | 13:37
Fyrri hluti nóvember
Hiti í Reykjavík fyrri hluta nóvembermánaðar var 2,8 stig. Það er í meðallagi sömu daga áranna 1991 til 2020, en -0,8°C neðan meðallags síðustu tíu ára og í 14.hlýjasta sæti aldarinnar (af 21). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti þá +6,7 stig. Kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum er hiti nú í 53.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1945, meðalhiti þá +8,2 stig langt ofan við allt annað. Kaldastir voru þessir 15 dagar árið 1969, meðalhiti þá -2,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +1,0 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,9 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Staðan er svipuð á flestöllum spásvæðum, hlýjast þó að tiltölu á Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Þar er hiti í 12.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast er við Breiðafjörð, þar sem hitinn er í 15.hlýjasta sæti. Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Skarðsfjöruvita, þar er hiti +0,3 stigum ofan meðallags, en kaldast að tiltölu hefur verið við Skagatá þar sem hiti er -1,6 stigum neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 69.8 mm í Reykjavík og er það um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hafa mælst 35,0 mm og er það í meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 12,9 í Reykjavík og er það 11 stundum neðan meðallags. Þó sólarstundirnar séu fáar er þó langt í met. Fyrri hluta nóvember 1956 mældist aðeins 2,1 sólskinstund i Reykjavík. Flestar voru sólskinsstundirnar fyrri hluta nóvember í Reykjavík árið 1984, 50,1.
15.11.2021 | 16:11
Norðurhvelsstaða að áliðnu hausti
Við lítum nú á stöðuna í miðju veðrahvolfi norðurhvels um þessar mundir. Við veljum spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á morgun, þriðjudaginn 16. nóvember. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstefnu og styrk. Þykktin er sýnd í litum, en hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Meðalþykkt yfir Íslandi í nóvember er um 5280 metrar - á litaspjaldinu sem hér er notað er það einmitt á mörkum grænu og bláu litanna. Í byggðum landsins er meðalhiti nóvembermánaðar 1991 til 2020 +1,3 stig, +1,0 stigi hærri en var á tímabilinu 1961 til 1990, en -0,3 stigum lægri en var á tímabilinu 1931 til 1960. Spákortið segir þykktina yfir landinu á morgun verða um 5220 metra - neðri hluti veðrahvolfs því um -3 stigum kaldari en meðallagið segir til um.
Norðurskaut er rétt ofan við miðja mynd - neðst til vinstri má sjá eyjar í Karíbahafi - og mestallan Kóreuskaga við efri brún myndarinnar. Heimskautaröstin hlykkjast að vanda kringum hvelið, við hana eru jafnhæðarlínur þéttastar og þar má sjá bylgjur af hlýju lofti sveigjast til norðurs, en kalt loft berst til suðurs á móti. Lega þessarar meginrastar er í aðalatriðum nærri brúna strikahringum á kortinu.
Fyrir norðan röstina - en ótengdir henni - eru tveir meginkuldapollar - eins og oft er. Þeir eru smám saman að taka á sig vetrarblæ - farið að sjást í fjólubláa litinn í miðju þeirra. Þar er þykktin ekki nema 4920 metrar. Það er sárasjaldan sem slíkur veðrahvolfskuldi nær hingað til lands. Ísland er eyja og kalt loft þarf að fara yfir sjó til að komast til landsins.
Kuldapollarnir vaxa hægt og bítandi þegar kemur fram á haustið og veturinn. Ná gjarnan hámarksstyrk í febrúar - en áraskipti eru þó í afli þeirra. Sömuleiðis er samvinna þeirra á ýmsan veg - stundum skipta þeir um sæti eða sameinast - eða skiptast upp í fleiri minni. Það er þó nánast regla að komist hinir þröngu hringir þeirra í námunda við heimskautaröstina bregst hún við og bítur frá sér - getur skotið upp alls konar kryppum sem hún gerir síður í sinni venjulegu stöðu.
Á þessari mynd má einnig sjá nokkuð truflað svæði suður við Miðjarðarhaf. Þar er kuldapollur - og annar minni við jaðar myndarinnar, vestur af Kanaríeyjum. Þó þessi veðurkerfi hafi ekki bein áhrif hér á landi geta þau samt haft óbein áhrif. Á þeim tíma sem kortið sýnir er bil á milli rastar og þessarar óværu - en langtímaspár gera ráð fyrir því að þetta svæði komi til með að ganga hægt til vesturs þannig að til árekstra gæti komið á milli þess og öldudals í einhverri rastarbylgjunni. Gerist það getur röstin líka skotið upp kryppu - hún er þá kitluð úr suðri.
Sumar framtíðarspár segja að slíkrar kryppu sé að vænta um næstu helgi. Fullsnemmt að segja um hversu mikil truflun verður úr - né hvort kryppan nær að sparka í kuldapollana þar sem þeir liggja rólegir í fleti sínu.
Ritstjóri hungurdiska fylgist nokkuð grannt með framtíðarspám - (ekki þó af svo mikilli þráhyggju að ekkert fari fram hjá honum). Í nýjustu safnspám evrópureiknimiðstöðvarinnar er ekki mikið um öfgar hér við land næsta hálfan mánuð - kryppan er þó í spánum - en sem stendur virðist hún ekki líkleg til meta hér við land. - Gefum henni þó gaum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2021 | 14:56
Um miðjan mars 1969
Mars 1969 var fengsæll uppskerutími veðurnörda. Mikill hafís var við land og Austur-Grænlandsísinn náði líklega sinni mestu útbreiðslu frá því fyrir 1920, þakti þegar best lét um 1 milljón ferkílómetra. Á síðari árum þykir helmingur þess býsna mikið. Norðanáttir voru sérlega kaldar og sveiflur í hita frá degi til dags öllu meiri en venjulegt er.
Af einstökum veðuratburðum mánaðarins má nefna þrjá sértaklega minnisstæða. Í fyrsta lagi illviðrið mikla þann 5. og gjarnan er kennt við verksmiðjuna Lindu á Akureyri. Um það veður höfum við fjallað nokkuð ítarlega á hungurdiskum. Önnur lægð, minni kom í kjölfarið þann 7. og fór alveg fyrir sunnan land. Tveir bátar (Fagranes og Dagný) fórust í því veðri og með þeim sex menn. Það skall snögglega á með mikilli ísingu á sjó. Fleiri bátar og togarar lentu í vandæðum. Næsti dagur, 8. mars, er sá kaldasti á landinu frá því fyrir 1920. Meðalhiti í byggð reiknast -17 stig. Nokkur strekkingur var og álag á hitakerfi mikið. Hitaveita Reykjavíkur slapp þó mun betur en köldustu dagana árið áður. Að þessu sinni var ekki svo mjög hvasst í höfuðborginni. Fjölmargir lentu þó í erfiðleikum og í Morgunblaðinu þann 9. segir frá því að aðstoða hefði þurft um 600 til 700 bíleigendur við að koma bílum í gang eftir hríð og heljarfrost.
Þriðja minnisstæða veðrið stóð síðan í marga daga, þann 13. til 16. Er það meginefni þessa pistils.
Hér má sjá gang loftþrýstings yfir landinu í mars 1969. Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýsting á landinu á 3 stunda fresti, en grái ferillinn mun á hæsta og lægsta þrýstingi á sama tíma - svonefnda þrýstispönn. Spönnin er góður vísir á vindhraða - því meiri sem hún er því meiri er vindurinn. Ekki er þó alveg beint samband á milli - vegna þess að landið er lengra í austur-vestur heldur en norður-suður. Sömuleiðis vanmetur spönnin vindinn sé kröpp lægð yfir landinu sjálfu.
Lindulægðin kemur fram sem örmjó dæld í ferlinum. Lægðin var mjög kröpp - en gekk hratt yfir. Þá varð þrýstispönnin mest í mánuðinum, um 26 hPa. Lægðin sem olli sjósköðunum fór líka hratt hjá, og spönnin fór í um 21 hPa. Lágþrýstingurinn sem réði ríkjum dagana 13. til 17. var annars eðlis. Þrýstingur fellur jafnt og þétt í þrjá daga, fyrst hægt en síðan hraðar. Eftir það koma um 3 sólarhringar þar sem lægsti þrýstingur landsins breytist lítið, en síðan rís hann aftur ákveðið í 3 til 4 daga. Ekki varð alveg jafn hvasst í þessu veðri og þeim fyrri. Hámarksspönn var um 16 hPa.
Næsta mynd virðist í fljótu bragði nokkuð flókin - en það borgar sig að rýna aðeins í hana. Skýrara eintak (og mjög stækkanlegt) er í viðhenginu.
Hér má sjá hita á 6 veðurstöðvum dagana 11. til 17. mars 1969. Tölurnar eru við hádegi hvers dags. Mjög kalt var á fjórum stöðvanna þann 11., frostið á Akureyri var -19,2 stig kl.3 aðfaranótt þess dags. Lítið frost var í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Um hádegi þann 12. hafði vindur snúist til suðurs og síðdegis var frostlaust á öllum stöðvunum. Næst gerist það að hiti á Galtarvita hríðféll að morgni 13. (rauður ferill). Klukkan 6 var þar 3 stiga hiti, en kl.9 var komið þriggja stiga frost. Á Hornbjargsvita (ekki er mjög langt á milli) fór hiti ekki að falla fyrr en eftir kl.15. (grænn ferill) Þá var þar 3 stiga hiti, en kl.18 var komið -8 stiga frost - og fór niður í meir en -14 stig um nóttina. Á báðum stöðvunum hlýnaði aftur - nokkuð snögglega - fyrst á Galtarvita en síðan á Hornbjargsvita.
Kuldastrokan kom úr norðri. Að kvöldi þess 14. var aftur hláka um land allt - og hélst svo allan þann 15. Þá komu mjög hægfara kuldaskil inn á landið úr vestri. Handan þeirra var svalt vestanloft - ekki nærri því eins kalt og norðanloftið, en samt frysti. Skilin fóru nú til austurs yfir landið - en afskaplega hægt. Það má sjá á því hversu ósamstíga ferlarnir eru.
Þessu hægfara kerfi fylgdi allan tímann mjög mikil úrkoma á mjóu belti og olli hún umtalsverðum vandræðum. Fyrst á Vestfjörðum - en um síðir líka suðvestanlands (sjá neðar). Við lítum nú á fáein veðurkort (þau verða skýrari séu þau stækkuð).
Eins og áður sagði var hláka um land allt mestallan þann 12. Þá gerði gríðarmikla úrkomu á sunnanverðum Vestfjörðum. Norðanloftið sótti aftur að þann 13. og kortið sýnir stöðuna kl.18 þann dag. Þá var -8 stiga frost á Hornbjargsvita, en 5 stiga hiti í Kjörvogi á Ströndum. Hiti var við frostmark í Æðey, en -8 stiga frost á Galtarvita.
Veðurkortið síðdegis þann 13. sýnir skilin skörpu við Vestfirði - endurgreining japönsku veðurstofunnar nær staðsetningu þeirra býsna vel. Suðaustan skilanna sækir hlýtt loft af suðlægum uppruna að, en norðvestan þeirra liggur gríðarkaldur strengur úr norðri. Mikil úrkoma er á mjóu belti í skilunum. Hér má vart á milli sjá hvort hefur betur, kalda eða hlýja loftið.
Staða sem þessi er ekki algeng, en ekki beinlínis óalgeng heldur. Hér er það kuldinn í norðanloftinu sem er hvað óvenjulegastur miðað við það sem við síðar höfum kynnst við ámóta aðstæður. Það sem við sjáum er skarpt lægðardrag á milli tveggja öflugra háþrýstisvæða. Hæðin yfir Grænlandi og þar vestan við er köld sem kallað er - hún gerir meira en að fylla upp í mikla lægð (Stóra-Bola) í háloftunum. Austari hæðin er af blandaðri uppruna - hlý í háloftum, en í henni er líka kalt loft úr norðri, það er meira áberandi þegar kemur austur yfir Skandinavíu og Finnland.
Í lægðardraginu má kannski greina litla, lokaða lægð yfir Breiðafirði eða Vestfjörðum. Hún gróf smám saman um sig, mjakaðist vestur fyrir og hlýja loftið náði yfirhöndinni um tíma. Norðanloftið hörfaði. Þegar lægðin komst norðvestur fyrir Vestfirði sneru skilin við - í þetta sinn sunnan hennar - sem hefðbundin kuldaskil.
Hér má sjá háloftakort á sama tíma og sjávarmálskortið að ofan, síðdegis þann 13. Gríðarlega köld lægð er við Norðvestur-Grænland - meir en barmafull af köldu lofti, þannig að úr verður háþrýstisvæði við sjávarmál.
Úrkoman vestra að kvöldi 12. og aðfaranótt þess 13. olli skriðuföllum og krapaflóðum á Vestfjörðum, og tjón varð bæði á Bíldudal og á Þingeyri, auk þess sem krapasnjóflóð féll á fjós á bænum Múla í Kirkjubólsdal. Textinn í fréttinni er lesanlegur sé myndin stækkuð.
Aðfaranótt 16. komu kuldaskilin síðan úr vestri inn á sunnanverða Vestfirði og Snæfellsnes. Síðdegis þann dag lágu þau um landið þvert, milli Eyrarbakka og Hellu, vestan við Hveravelli og á milli Blönduóss og Sauðárkróks, 9 stiga munur var á hita þessara stöðva kl.18.
Á sjávarmálskortinu sjáum við að austari hæðin hefur lítt eða ekki gefið eftir, en dregið hefur úr afli köldu hæðarinnar. Kuldapollurinn mikli þokaðist norður og vestur.
Í lok febrúar 1968 (árið áður) gerði eftirminnilegt stórflóð í Elliðaám og víðar á Suðvesturlandi. Í mars 1969 var snjór heldur minni en þá, en allt land gaddfreðið, tók ekki við neinni úrkomu. Sigurjón Rist vatnamælingamaður orðaði þetta skemmtilega í fyrirsögn í Vísi þann 17.mars: Landið eins og stálskúffa - tók ekki við neinu. Enda flæddi víða. Sagt var að kjallarar í Keflavík hafi verið eins og lækjarfarvegir og víða flæddi í hús á höfuðborgarsvæðinu. (Textinn verður lesanlegur sé myndin stækkuð).
Það vekur eftirtekt að í fréttum er minnst á eina mestu sólarhringsúrkomu sem gert hafi í Reykjavík, talan sem nefnd er í Vísisfréttinni er 49 mm. Samt kemur þetta atvik ekki fram sem slíkt í sólarhringstöflum Veðurstofunnar - týnist (eða hvað?).
Sé málið athugað nánar kemur í ljós að sú venja að skipta úrkomusólarhringum kl.9 skiptir magninu í þessu tilviki í tvo ámóta stóra hluta, úrkoma milli kl. 18 þann 15. og 9. þann 16. mældist 20,0 mm (og bókast á síðarnefnda daginn), en úrkoma kl.18 þann 16. mældist 28,6 mm og bókast á þann 17. (engin úrkoma mældist eftir kl.18 þann 16., né þann 17. Þetta eykur líkur á því að þessi mikla úrkoma hreinlega gleymist í úttektum. Hefði hún fallið rétt í sólarhringinn væri hún í 6. sæti á lista mestu sólarhringsúrkomu í Reykjavík og sú næstmesta í mars.
Gríðarleg úrkoma var víða vikuna 12. til 18.mars. Hún var hvergi jafndreifð á dagana - og eins og fjallað var um hér að ofan var mesta úrfellið vestra ekki samtímis úrfellinu suðvestanlands. Vikuúrkoman var mest í Kvígindisdal við Patreksfjörð, 189,0 mm, 172,7 mm í Mjólkárvirkjun og 151,5 í Andakílsárvirkjun. Á höfuðborgarsvæðinu mældist úrkoma mest á Hólmi fyrir ofan Reykjavík, 110,3 mm. Á Reykjavíkurflugvelli mældust 71,7 mm.
Meðan á þessu stóð var úrkoma lítil norðaustanlands. Á Vopnafirði mældist vikurúrkoman aðeins 0,8 mm.
Eins og að ofan greindi er veðurstaða sem þessi kannski ekki beinlínis óalgeng eða einstök en skemmtileg er hún fyrir ung veðurnörd - og jafnvel holl tilbreyting fyrir vakthafandi veðurfræðinga. Þegar hana ber að eins og í mars 1969 getur hún orðið býsna illskeytt, vegna flóða, skriðufalla, snjóflóða, samgöngutruflana og kerfisbilana af völdum ísingar. Fjölmargir forfeður okkar hafa orðið úti í veðrum sem þessum, fjárskaðar orðið og sjóskaðar. Við skulum því ekki smjatta um of af ánægju einni saman.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.11.2021 | 15:53
Fyrstu 10 dagar nóvembermánaðar
Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar í Reykjavík er +2,5 stig. Það er -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 15.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá 6,1 stig, kaldastir voru dagarnir tíu árið 2010, meðalhiti +0,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 62. hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1945, meðalhiti +8,2 stig, en kaldast 1899, meðalhiti þá -4,0 stig (og 1996 var meðalhiti -3,6 stig).
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins +1,2 stig, -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Einna svalast (að tiltölu) hefur verið við Faxaflóa, þar er hiti í 15.hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast hefur verið á Suðausturlandi og Miðhálendinu, þar raðast hiti í 12.hlýjasta sætið.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu í Papey, þar er hiti +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast hefur verið í Grímsey, þar sem hiti er -1,9 stigum neðan meðallags tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 46,2 mm, um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hafa mælst 28,5 mm, tæp 30 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir eru 10,2 í Reykjavík, - í minna lagi en samt ekki óvenjulegt.
9.11.2021 | 20:28
Í febrúar 1971
Veturinn 1970 til 1971 var yfirleitt talinn hagstæður þó þá gengi á með töluverðum umhleypingum. Vatnavextir og skriðuföll komu þó við sögu bæði í október, desember og snemma í febrúar, um miðjan nóvember gerði snarpt veður af austri og vetrarlegt var þá norðaustanlands. Ritstjórinn minnist mikils tíðindaleysis í janúar - nema hvað sérlega kaldur dagur kom á höfuðborgarsvæðinu undir lok mánaðarins, frost fór í -19,7 stig á Reykjavíkurflugvelli, það mesta frá 1918 og ekki hefur komið jafnmikið frost síðan á Reykjavíkurstöðinni. Þá fór frost í -30 stig við Mývatn. Snjóflóð ollu nokkru tjóni í febrúar og mars, einkum þó í síðarnefnda mánuðinum og í apríl gerði eftirminnilegt hríðarkast. Veðurnörd máttu allvel við una þegar upp var staðið.
En við lítum hér á stöðuna einn ákveðinn dag, þriðjudaginn 9. febrúar.
Hér má sjá veðrið kl.15 þennan dag (kortið verður lesanlegra sé það stækkað). Í Reykjavík er austan kaldi, rigning og 5 stiga hiti. Það rignir um allt sunnanvert landið, allt austur á sunnanverða Austfirði. Uppi í Síðumúla í Borgarfirði er hins vegar allhvasst af norðaustri, þar snjóar, skyggni er aðeins 300 metrar og frostið er -7 stig. Við vitum ekki af meiri mun á hita á sama tíma á þessum tveimur veðurstöðvum, 11,3 stig [þegar vindur er meiri en 10 m/s í Síðumúla]. Frost er um allt landið norðanvert og víða dimm hríð. Frost er rúm -11 stig á veðurstöðvunum á Galtarvita, í Æðey og á Hornbjargsvita. Eftirtektarvert er einnig að -12 stiga frost er í Grímsey. Ekki var langt í hafís undan Norðurlandi og Vestfjörðum, allt vestan frá Bjargtöngum og austur á Melrakkasléttu. Hrafl af honum kom inn á firði og flóa. Þetta varð síðasti hafísveturinn í þessari syrpu (og hefðu fáir trúað því þá).
Klippa úr Morgunblaðinu daginn eftir segir af hríð og ófærð. Þar segir að færð hafi þyngst á Hellisheiði, en talið til tíðinda að heiðarvegir á Austurlandi, svosem Fjarðarheiði og Oddsskarð hafi verið færir. Rafmagnsbilanir urðu.
Síðar fréttist af miklum snjóflóðum sem féllu víða á vegi í nágrenni Ísafjarðar og nokkrum dögum síðar féll snjóflóð á íbúðarhús (Hlíðarveg 1d) á Siglufirði og þar í firðinum fórust 75 kindur er snjóflóð féll á fjárhús. Sömuleiðis eyðilagðist sumarbústaður.
Það var alldjúp lægð sem kom að landinu þann 9. og fór síðan yfir landið sem olli þessu veðri. Hitaskil gengu inn á landið, en komust ekki yfir það. Hlýjasta loftið rann síðan til austurs en um leið og það var komið hjá slaknaði heldur á norðaustanáttinni og snerist meira til norðurs. Vindáttir voru síðan norðlægar flesta daga, allt fram til þess 21.
Háloftakortið á sama tíma sýnir mikla sunnan- og suðvestanátt yfir landinu. Hlýtt loft úr suðri er á leið yfir landið. Það náði til jarðar sunnanlands, en tókst ekki að hreinsa kalda loftið sem lá yfir landinu norðanverðu - en sunnanáttin uppi sá fyrir úrkomu vestanlands - þótt þar væri áttin austlæg eða norðaustlæg.
Ritsjórinn sat þennan dag í helliregni á Laugarvatni - og furðaði sig á veðurfréttum úr Borgarfirði.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.11.): 249
- Sl. sólarhring: 336
- Sl. viku: 1683
- Frá upphafi: 2408551
Annað
- Innlit í dag: 232
- Innlit sl. viku: 1512
- Gestir í dag: 224
- IP-tölur í dag: 223
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010