Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Hægar breytingar

Hér má sjá 500 hPa norðurhvelsspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á föstudag. Ísland er rétt neðan við miðja mynd - umkringt bláum litum eins og að undanförnu.

w-ecm05_nhem_gh500_gh500-1000_2015042912_048

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassara er í fletinum. Þykktin er sýnd í lit - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Mörkin milli grænu og bláu litanna eru við 5280 metra - við eigum með réttu að vera á græna svæðinu á þessum árstíma - en erum vel inni í því bláa. Það er 5160 metra þykkt sem skiptir á milli blárra lita við landið norðanvert. Frost fylgir þeirri þykkt.

Jafnhæðarlínur eru mjög gisnar við Ísland og vindur því hægur uppi. Litaborðarnir fylgja hæðarlínunum nokkurn veginn á okkar slóðum og breytingar því ekki miklar.

Kuldapollar eru orðnir mun veigaminni en fyrr í mánuðinum. Sá mesti er við Vestur-Grænland. Hann er leifar af stóra pollinum sem fór hér hjá skammt fyrir norðvestan land um helgina, eftir smáhvíld vestan Grænlands þokast hann nú til suðsuðausturs - nær ekki hingað í bili að minnsta kosti - en gæti rótað ívíð hlýrra lofti í átt til okkar þegar hringrás hans er komin vel suður fyrir Grænland. En það er langt í almennilega hlýtt loft - við viljum helst komast í hlýjasta græna litinn eða jafnvel í þann gula (sá síðarnefndi tilheyrir sumrinu - en kemur stundum við sögu í maímánuði). Slíku er ekki spáð næstu tíu daga - þótt allt sé heldur á uppleið. 

En leiðin liggur til sumars - þrátt fyrir að hún sé krókótt í ár.


Norðanáttin gengur niður (að nafninu til)

Nú er snarpasta norðanáttin um það bil að ganga niður - en samt verður kalt áfram. Þar sem sólar nýtur verður þó hægt að sitja sunnan undir vegg yfir miðjan daginn og horfa á smáfuglana án þess að vera í fjallagalla. 

En sólin er ekki endilega gefin - kalda loftið í kringum landið býr til smálægðir í samvinnu við sjó og óráðið þrýstisvið. Lægðunum fylgja ský eins og vera ber og vel gæti snjóað á stöku stað, t.d. virðast líkur á slíkri úrkomu sums staðar sunnanlands næstu tvo til þrjá daga. Alla vega skyldi enginn verða hissa á slíku. Líkurnar eru minni um landið vestanvert - þó ekki engar.

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á morgun (miðvikudaginn 29. apríl - og er fengin úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg290415a

Myndarleg hæð er yfir Grænlandi - og enn er nokkur norðanátt fyrir austan land. Þetta er kort af því tagi sem maður myndi draga upp til að sýna dæmigert veður á hörpu - árstíð norðanáttarinnar. 

Ef vel er rýnt í kortið má sjá úrkomuslæður á sveimi í námunda við landið - þetta eru áðurtilteknir úrkomubakkar og smálægðir. Hitinn er ekki hár, -10° jafnhitalínan liggur um landið - nokkrum stigum undir meðalagi. Svo er ekki mjög langt í -15 stiga línuna norður í hafi - við viljum helst sleppa við að fá hana aftur og þegar þetta er skrifað eru spár helst á því að hún hörfi smám saman.

Lægðasvæðið langt suður í hafi er í framsókn þótt hægt gangi - hugsanleg hingaðkoma þess er eina vonin sem stendur um eitthvað hlýrra veður. 


Kalt - en ekki eins hvasst

Kuldinn heldur áfram - en með betra veðri, bjartara, og hægari vindi. Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa (um 5 km hæð) um hádegi á miðvikudag 29. apríl.

w-blogg280415a

Ísland er rétt ofan við miðja mynd umlukið bláum litum. Með réttu ættum við að vera komin með fasta viðveru grænu litanna - en krafan um langdvöl þeirra gulu eða brúnu er e.t.v. ósanngjörn fyrr en maí er langt genginn. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, vindur blæs samsíða þeim. Á miðvikudaginn verður því norðvestanátt yfir landinu - sem er að færa heldur kaldara loft aftur í átt að því þegar þetta kort gildir.

Litirnir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Kuldinn mikli sem angraði okkur svo mjög á laugardag og sunnudag hefur hörfað vestur fyrir Grænland - en ekkert hlýtt loft er á leið til okkar á þessu korti.

Það er líka kalt á Bretlandseyjum - og þar hefur frést af snjó, en það snjóar þar alloft á þessum tíma árs - en stendur stutt við - oftast aðeins eina nótt hverju sinni.

Við sjáum að yfir landinu er hæðarhryggur - hæðarsveigja á jafnhæðarlínunum sem ýtir ekkert sérstaklega undir éljaveður - en um kvöldið og á fimmtudag á að réttast úr sveigjunni og væg lægðarsveigja kemur í staðinn - þá er gott tækifæri fyrir smálægðir og éljabakka að komast á kreik við Suðurland - við getur sum sé ekki alveg afskrifað snjóinn á Suðurlandi þetta vorið. 


Sumar gengið í garð í heiðhvolfinu

Sumarið er komið í heiðhvolfinu - á réttum tíma. Þar eru árstíðaskiptin mjög eindregin því vestanátt ríkir á vetrum en austanátt að sumarlagi. Venjulegast er vestanáttin horfin í 20 km hæð yfir Íslandi í kringum sumardaginn fyrsta og austanátt að taka við. Sú er tilfinning ritstjóra hungurdiska að skiptin hafi verið óvenjusnemma á ferð í ár - eða að þau hafi alla vega ekki verið alveg venjuleg. En tilfinningar ritstjórans til ástandsins í heiðhvolfinu eru ekki sérlega þroskaðar -.

Kortið að neðan sýnir ástandið í 30 hPa-fletinum eins og bandaríska veðurstofan segir það verða um hádegi á morgun (mánudaginn 27. apríl).

w-blogg270415a

Kortið nær yfir mestallt norðurhvel. Íslend er rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og liggur flöturinn hæst í hæðinni norðvestur af Grænlandi, í um 24,1 km. Litir sýna hita, sá dekksti brúni þekur svæði þar sem hiti er á bilinu -42 til -46 stig, kaldara er allt um kring. Mikil hæð nær einokar kortið norðan við 50. breiddarstig. Í kringum hæðina ríkir austanátt.

Hæðin er orðin öflug miðað við árstíma. Á sumrin eru samskipti milli veðra- og heiðhvolfs mun minni en á vetrum. Þegar handabandið rofnar milli hvolfanna á vorin dregur mjög úr vestnátt veðrahvolfsins - og þar með minnkar aðhald það sem hún hefur haft á kalda loftið í neðri lögum þess. Þá vex tíðni austan- og norðaustanáttar hér á landi tímabundið. Tíminn frá því um 20. apríl og fram undir 20. maí er eiginlega sérstök árstíð, mánuðurinn harpa. Sumir segja að það þýði nepjumánuður - fremur en að nafnið hafi eitthvað með milda hörputóna að gera. Þá eru kuldahretin algengust - Vel til fundið hjá forfeðrum vorum.  


Þrengt að kalda loftinu - en varla til gagns

Dagurinn í dag (laugardagur 25.apríl) var óvenjukaldur - rétt eins og spáð hafði verið. Hann keppti í flokki köldustu bræðra sinna í dagatalinu, þótt finna megi örfáa kaldari sé vel leitað. Frekari upplýsingar (mola) um daginn má finna á fjasbókarsíðu/hóp hungurdiska (hún er opin öllum fjösurum). 

En eins og minnst var á í pistli í gær er allra kaldasta loftið að taka stökk til vesturs yfir Grænland - og heldur hlýrra loft þrengir að því sem eftir er. Líklega verður það þó aðeins til ógagns því slíkum þrengingum fylgir meiri vindur og úrkoma þótt hiti hækki eitthvað frá því sem var í dag.

Kortið sýnir stöðuna í 925 hPa-fletinum kl. 21 á sunnudagskvöld (26. apríl). 

w-blogg260415a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - flöturinn er í um 700 til 800 metra hæð yfir landinu. Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en hiti í lit. Á dökkbláa svæðinu yfir Vestfjörðum er frostið á bilinu -10 til -12 stig. Guli liturinn sýnir frostleysu. 

Jafnhæðarlínur yfir landinu eru þéttar - og mjög þéttar austast. Þar er stormur eða meira á fjöllum og í strengjum í kringum þau. Einnig er spáð úrkomu - aðallega snjó.

Útlit er fyrir að hlýja loftið komist ekki að ráði inn yfir landið að sinni - en þó er hita spáð um 2 til 3 stigum hærri á sama tíma sólarhring síðar - á mánudag.

Við verðum víst bara að bíða þetta af okkur.  


Kalt áfram

Kuldinn virðist ekki eiga að yfirgefa okkur á næstunni. Kortið sýnir háloftaástandið um hádegi á morgun (laugardag 25. apríl). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg250415a

Það grillir í Ísland hulið bláum lit á miðri mynd. Það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem skiptir bláu litunum yfir landinu. Hún fer afskaplega sjaldan inn á landið í síðustu viku aprílmánaðar. Miðja kuldans er ekki fjarri Scoresbysundi - og tekur nú snögga beygju vestur yfir Grænlandsjökul - en við sitjum samt áfram í bláum litum. 

Austur við Noreg er lægðarsvæði sem sendir heldur hlýrra loft í átt til landsins á sunnudag og mánudag - en það er lítt til bóta því úrkoma og vindur fylgir. Hótun er um hríð nyrðra.

Þegar svona kalt loft að norðan kemur út yfir hlýjan sjóinn myndast fljótt él sem leggjast í garða samsíða vindáttinni. Í skjóli landsins verður hann óstöðugur á áttinni og sú staða getur gefið tilefni til þess að snúningur (og ístreymi) myndi litlar lægðir - jafnvel með töluverðri úrkomu. 

Oftast berast þessar smálægðir hratt til suðurs í átt frá landinu og eyðast - en stundum nær úrkoma þeirra að snerta land. Þegar loftið er jafnkalt og er nú fellur úrkoman sem snjór.

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 24. apríl) er lægð af þessu tagi að myndast. Él hennar sjást vel á ratsjá - en hvort snjókoman nær nú til Vestmannaeyja veit ritstjórinn ekki - saknar mjög veður, skýja- og skyggnisathugana frá Stórhöfða. - En honum er sagt að slíkur söknuður sé úreltur - jú, sitthvað gott hefur komið í stað hefðbundinna athugana - en útrýmir ekki tómtilfinningunni.

Nútíminn býður t.d. upp á býsna góðar reiknaðar spár, t.d. þá hér að neðan úr sýndarheim evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 15 síðdegis á morgun (laugardag 25. apríl).

w-blogg250415b

Hér sést mjög snarpur úrkomubakki skammt undan Suðurlandi á mótum hægrar austanáttar beint suður af landinu - og ívið stríðari norðaustanáttar vestan við - við getum ímyndað okkur að við sjáum hægrihandarsnúning lægðarinnar verða til. 

En fyrir austan land fellur loftvog og þrýstilínum yfir landinu fjölgar, Við það verður norðanáttin ákveðnari - og lægðamyndandi áttasamspil undan Suðurlandi á erfiðara uppdráttar. Það ástand á að vara fram eftir næstu viku.

Eins og venjulega eru reiknimiðstöðvar ekki sammála um veður í meir en 3 til 5 daga. Evrópureiknimiðstöðin gerir harla lítið úr smálægðum eftir miðja næstu viku - býr þær þó til - en bandaríska veðurstofan sýnir stöðuna hér að neðan. Kortið gildir kl. 6 á fimmtudagsmorgni (30. apríl). 

w-blogg250415c

Á kortinu má fyrir utan jafnþrýstilínur, vind og úrkomu sjá hita í 850 hPa. Það er -10 stiga línan sem liggur umhverfis lægðina litlu - það hefur lítið sem ekkert hlýnað á landinu - og ekkert hlýtt loft í nánd.

Hvort sem þessar spár rætast eða ekki eru þær gott dæmi um snjókomu á Suðurlandi að vorlagi - upp úr þurru. 


Þegar frýs saman - sumar og vetur - þá hvað?

Við athugum málið. Búum til lista yfir lágmarkshita aðfaranætur sumardagsins fyrsta í Reykjavík 1922 til 2014 og vörpum honum upp á mynd á móti sumargæðavísitölu hungurdiska - fyrir sama stað.

Um þá vísitölu og skilgreiningu hennar má lesa í nokkrum eldri pistlum. Okkur nægir nú að vita að því hærri sem hún er - því betra er sumarið talið (mikið sólskin, hár hiti, lítil úrkoma og fáir úrkomudagar gefa hæstu tölurnar, en sólaleysi, kuldi, mikil og tíð úrkoma draga vísitöluna niður).

Meðalvísitala tímabilsins alls er 24 - hæsta mögulega einkunn er 48 en sú lægsta núll. Meðallágmarkshiti aðfararnætur sumardagsins fyrsta í Reykjavík er +1,1 stig. 

Svo er það myndin.

w-blogg230415-malnyta

Lágmarkshiti fyrstu sumarnætur er á lárétta kvarðanum - en sumargæðavísitalan á þeim lóðrétta. Lóðrétta, bláa strikið sýnir frostmark - sé hugmyndin um að sumargæði fylgi frosti rétt ættu bestu sumrin að raðast ofarlega til vinstri og neðri helmingur vinstri hluta ætti helst að vera auður - hægri hlutinn má vera hvernig sem er. 

Jú, það eru góð sumur á frostsvæðinu ofan við rauðu strikalínuna - en ámóta mörg neðan við. Frost mældist samtals 33 nætur - þeim fylgdu 20 sumur undir meðallagi - en 13 yfir því.

Þá hvað? - Svosem ekki neitt sérstakt -. Sumir gætu e.t.v. talið 20 vond: 13 góð vera marktæka niðurstöðu, þ.e. frjósi sumar og vetur saman í Reykjavík sé rétt að spá vondu sumri þar um slóðir. 

Tölfræðilega sinnaðir skulu upplýstir um að rauða strikalínan sýnir línulegt aðfall, fylgnistuðull er 0,01. Áhugasamir geta litið á fylgiskjalið - tölurnar eru þar - og gætu þeir t.d. farið í fimmtunga- eða þriðjungaleiki í gögnunum - eða reynt aðrar öflugri veiðiaðferðir - þeir fiska sem róa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meira af helgarkuldanum(?)

Reiknimiðstöðvar halda sig enn við helgarkulda og gefa lítið eftir. Laugardagurinn (25. apríl) á að verða kaldastur að sögn. - Það verður að teljast trúlegt - en við gefum samt ekki upp alla von með að spárnar reynist taka of djúpt í árinni. 

Það er ástandinu talsvert til málsbóta að vindur verður vonandi hóflegur - og sömuleiðis að sólin fái að sýna sig. Það munar verulega um hana. Sólarleysi er ávísun á frost allan sólarhringinn, líka á Suðurlandi - og það er of mikið af því góða á þessum árstíma. Það gerist þó endrum og sinnum í síðasta þriðjungi aprílmánaðar - en samt ekki síðan 1983 í Reykjavík, þá var hámarkshiti þess 22. aðeins -1,5 stig, enn „betur“ gerði 29. apríl 1975, þá fór hitinn ekki yfir -2,7 stig, og 23. apríl 1887 var hámarkshitinn -8,0 stig.

Þótt ekki sé beinlínis spáð hlýindum eftir laugardaginn - fer hiti þá samt upp á við - mesti kuldinn verður kominn hjá. 

En lítum á spákortin. Fyrst er það sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 á laugardag (25. apríl).

w-blogg220415a

Lægð austur við Noreg og hæð yfir Grænlandi. Við vitum að það táknar norðanátt. Jafnþrýstilínur eru settar á fjórða hvert hPa. Munurinn yfir landið, frá Vestfjörðum til Suðausturlands er um 10 hPa - svo ekki verður vindur alls staðar hægur og þægur. 

Græn úrkomuslikja liggur yfir Norðurlandi öllu - ætli það séu ekki norðanélin hefðbundnu? Á kortinu eru einnig jafnhitalínur í 850 hPa - strikaðar. Það er -15 stiga línan sem liggur um landið sunnanvert. Við flettum upp -15 stigum í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli síðasta þriðjung aprílmánaðar síðustu 64 ára og finnum 13 athuganir, 6 aðskilin tilvik - ekkert yngra en 21. apríl 1983, en 1982, 1979, 1975, 1969 og 1959. 

Lægsta talan er -17,9 stig, 28. apríl 1975 - einmitt dagurinn þegar hámarkshiti í Reykjavík var -2,7 stig (og minnst var á hér að ofan). Litlu munar að 22. apríl 1994 komist á listann, þá var frostið í 850 hPa yfir Keflavík -14,6 stig. 

Á kortinu hér að neðan er hita yfir Keflavíkurflugvelli spáð -15 stig á laugardaginn. Nú er minna gert af háloftaathugunum heldur en áður var og spurning hvort við missum af athugun á laugardaginn kemur. 

w-blogg220415b

Kortið gildir kl. 18 á laugardaginn - eins og það fyrra - en sýnir nú 850 hPa hitann í lit en jafnþykktarlínur eru heildregnar. Átján stiga frosti er spáð í 850 hPa yfir Vestfjörðum - og það er 4980 metra jafnþykktarlínan sem snertir Vestfirðina. Yfir miðju landi er þykktin á kortinu um 5030 metrar. 

Leit í endurgreiningarskrá að lægsta gildi sem finnst yfir miðju landi í síðasta þriðjungi aprílmánaðar gefur töluna 5065 metra - það var 21. apríl 1949 - sumardagurinn fyrsti það ár. Daginn áður lentu 2 til 3 hundruð manns í hrakningum í hríðarbyl á Hellisheiði. Þann 26. apríl 1919 var þykktin yfir miðju landi að sögn 5070 metrar - OG - þann 30. apríl 2013 var þykktin yfir miðju landi líka 5070 metrar - hverjir skyldu muna það?

Hungurdiskar fjölluðu auðvitað um atburðinn 30. apríl 2013 á sínum tíma. Þar má sjá þykktarspá fyrir þann dag og að kuldapollurinn nú er nokkru snarpari - en líka lengra í framtíðinni. Pollurinn 2013 féll svo „heppilega“ í mánaðamótin að landslágmarksmet maímánaðar féllu. Um það var líka fjallað á hungurdiskum.  

En látum gott heita að sinni með von um að kuldaspár bregðist - til þess er enn nægur tími. 


Kuldi úr Norður-Íshafi

Það svala loft sem hefur verið að heimsækja okkur í vetur hefur aðallega verið ættað frá Kanada. Nú bregður svo við að norrænn kuldi virðist ætla að heimsækja okkur í hörpubyrjun. 

Það er reyndar oft þannig að þegar vestanáttin í háloftunum skiptir í vorgírinn - og breytist reyndar í austanátt ofan við 20 km hæð - kemur los á ört minnkandi kuldapolla í norðurhöfum og þeir taka á rás suður á bóginn - stundum til okkar - stundum til Skandinavíu eða eitthvað annað. Tímabilið frá því um 20. apríl til 20. maí er þrýstingur að meðaltali hæstur hér á landi og norðanátt algeng. 

Síðasta vika (13. til 19. apríl) hefur verið hlý - sérstaklega þó síðustu þrír dagarnir um norðaustan- og austanvert landið. Hæð hefur verið nærri Bretlandseyjum og hefur hún beint til okkar hlýju lofti. Nú á að skera á sunnanáttina - það fer að kólna strax á morgun (mánudaginn 20.) - en lægðardrag sem fer hjá á aðfaranótt miðvikudags markar upphaf kuldans. 

Kortið að neðan er sjávarmálsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á miðvikudag 22. apríl.

w-blogg200415a

Umrætt lægðardrag er komið til Vestur-Noregs (lægðir af þessu tagi eru í sérstöku uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska - en það er önnur saga). Hér er vestanátt enn ríkjandi á landinu. Það er -5 stiga jafnhitalínan í 850 hPa sem liggur með suðurströndinni, en -10 jafnhitalínan er ekki langt fyrir norðan land. 

Þetta er ekki óvenjulegt á þessum árstíma - hér er hretið varla byrjað. En norðanáttin sækir að. Hæðin við Norðvestur-Grænland er mjög öflug, hér komin yfir 1040 hPa. Evrópureiknimiðstöðin ætlar með hana upp fyrir 1050 hPa á fimmtudag (þá utan við svæðið sem þetta kort sýnir) - orðið óvenjulegt reynist það rétt. 

Norðanáttin sem er fyrir norðan landið sýnist ekki mjög ógnandi öflug - jú, við sjáum -15 stiga jafnhitalínuna - en rétt norðan við kortið er mjög snarpur kuldapollur, sá kaldasti á norðurhveli öllu um þessar mundir. Í honum miðjum er spáð meir en -25 stiga frosti í 850 hPa á miðvikudaginn. 

Við látum bandarísku veðurstofuna sýna okkur kuldapollinn - kortið gildir á sama tíma og kortið að ofan, kl. 18 síðdegis á miðvikudag.

w-blogg200415b

Kortið sýnir norðurhjarann - Ísland er alveg neðst á myndinni, norðurskautið nærri miðri mynd. Kuldapollurinn - er við norðausturhorn Grænlands. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins en litir þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. 

Mörkin á milli grænna og blárra lita eru við 5280 metra, sú þykkt er mjög algeng í apríl - en við kveinum aðeins undan henni þegar líður á maí. Örin sýnir áætlaða leið kuldans, fjólublái liturinn lifir ekki af ferðina til Íslands - enda eins gott. Þar er þykktin minni en 4920 metrar og fer sárasjaldan niður fyrir það hér á landi - þótt hávetur sé. 

Báðar reiknimiðstöðvar, sú bandaríska og sú evrópska segja þykktina fara niður fyrir 5000 metra hér á landi á aðfaranótt laugardags. Það eru einhver örfá gömul dæmi um slíkt á þessum tíma árs í gögnum, svo fá, að þessar miklu svartsýnisspár reiknimiðstöðvanna sýnast beinlínis ótrúverðugar. 

En við bíðum auðvitað spennt. 


Sumarumræða og sjávarhiti

Upp á síðkastið hefur mönnum orðið tíðrætt um tíðarfarið - og ekki að ástæðulausu. Miklir umhleypingar hafa gengið í vetur og ekki sér enn fyrir endann á þeim. 

En svo virðist sem eitthvað svartsýniskast hafi nú gengið yfir varðandi sumarið - og sérstaklega tvennt tekið til. Annars vegar er lágur sjávarhiti suðvestur í hafi og hins vegar meint spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sumarveðrið. Spákortið hefur beinlínis gengið ljósum logum - en fáir virðast hafa rýnt í það - eða hvað? Inn í umræðuna hefur svo blandast grein um heilsufar Golfstraumsins í Nature Climate Change.

Delluumræðu um greinina látum við liggja á milli hluta - en við lítum á sjávarhitann og sumarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar. 

Kortið hér að neðan sýnir sjávarhitavik 9. apríl 2015, úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Helst er að skilja að miðað sé við tímabilið 1958 til 2002. 

w-blogg110415a

Ís er sýndur með grænbláum lit, fjólubláa línan nærri ísjaðrinum er meðalísútjaðar. Við sjáum að ís er lítill við Austur-Grænland, en yfir meðallagi bæði við Vestur-Grænland og Nýfundnaland. Þar má sjá að bræðsluvatn lekur í átt að Golfstraumnum en þar skiptast á mjög hlý og mjög köld svæði. Þetta eru venjubundnir hvirflar straumsins - þeir eru á sífelldri hreyfingu.

Við Ísland eru vikin sitt á hvað. Hlýtt er enn fyrir norðan land. Mikið neikvætt vik er norðan við 50. breiddargráðu og breiðir úr sér til norðurs. Langlíklegasta ástæða þess ar vestankuldinn í vetur - sama ástæða og veldur hafísauka vestur við Ameríku.

Líklegt má telja að vikið neikvæða haldist næstu mánuði - það tekur tíma fyrir sólina að vinna á því auk þess sem ský gætu hæglega flækst fyrir. 

Það er auðvitað óþægilegt fyrir okkur að svona mikil neikvæð vik séu á þessum stað - enn frekar væru þau nær. En þau hafa engin sérstök áhrif hér nema að til okkar berist loft frá þeim - sömuleiðis ef þau færðust nær. 

Sumarsjávarhitaspá reiknimiðstöðvarinnar gerir ráð fyrir því að vikin haldist á svipuðum slóðum - en spáir því reyndar ekki að vindur blási af þeim til okkar.

Lítum á lofthitavikaspá fyrir júní, júlí og ágúst.

w-blogg110415b

Hita er spáð undir meðallagi fyrir sunnan land - og mest yfir því svæði þar sem sjávarhitavikin eru mest. En hér á landi er hita spáð lítillega yfir meðallagi (og er þar ekki miðað við 1958 til 2002 heldur síðustu 15 ár eða svo).

Og úrkomuspáin:

w-blogg110415c

Ljósguli liturinn yfir Suðvesturlandi segir að þar séu ekki nema 30 prósent líkur á að úrkoma verði yfir meðallagi (almennt eru 50 prósent líkur á því). 

Og þrýstivikin:

w-blogg110415d

Loftþrýstingi er spáð yfir meðallagi - mest fyrir suðvestan land - þetta er ekki ávísun á lægðagang. 

Nú skulum við hafa það í huga að það er afskaplega lítið að marka veðurspár marga mánuði fram í tímann - en þetta frá sömu reiknimiðstöð og kortið mánaðargamla sem gekk ljósum logum á netinu fyrir nokkrum dögum. 

Ritstjóri hungurdiska tekur enga afstöðu til spánna frekar en venjulega - en bendir á að neikvæð hitavik langt suðvestur í hafi eru ekki endilega ávísun á rigningasumar - né sérstaka kulda hér á landi.  


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 29
  • Sl. sólarhring: 83
  • Sl. viku: 997
  • Frá upphafi: 2341371

Annað

  • Innlit í dag: 19
  • Innlit sl. viku: 906
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband