Bloggfærslur mánaðarins, júní 2022

Smávegis af júní

Svo virðist sem meðalhiti í júní muni verða neðan meðallags síðustu tíu ára um stóran hluta landsins. Dálítið svæði á Austfjörðum og Suðausturlandi undantekning þó. Meðalhiti í byggðum stefnir í 8,7 stig. Það er -0,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára, og -0,1 stig neðan meðallags 1991 til 2020. Sé miðað við „kalda tímabilið“ 1961-1990 er hiti nú hins vegar ofan meðallags, +0,8 stig. Hér er e.t.v. hollt að rifja upp tvo eldri pistla hungurdiska um júníhita: „Júníþrepið mikla“ og „Er kalt. Eða er kannski hlýtt?“. 

w-blogg300622a

Taflan sýnir röðun meðalhita á spásvæðunum, miðað við aðra júnímánuði aldarinnar. Blái liturinn segir að mánuðurinn lendi í kalda þriðjungi hitadreifingar á öldinni, en sá rauðbrúni að hann sé í hlýja þriðjungnum. Á Suðausturlandi er þetta fimmtihlýjasti maímánuður aldarinnar. Á þrem spásvæðum hefur hins vegar verið kalt, kaldast að tiltölu á Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar er þetta 17. hlýjasti júnímánuður aldarinnar (6.kaldasti).  Þar sem mánuðurinn er ekki alveg búinn þegar þetta er skrifað gæti hliðrast til um sæti til eða frá) - og hiti færst á milli þriðjunga. 

Ritstjóri hungurdiska hefur orðið var við einhverja óánægju með sólskinsstundafjölda hér suðvestanlands. Slík óánægja er hins vegar misskilningur (eða óraunhæf krafa) því fjöldi sólarstunda hefur verið ofan meðallags, bæði meðallags síðustu tíu og þrjátíu ára (og auðvitað langt ofan meðallags kalda tímabilsins 1961-1990 - en þá var sólarleysi reyndar landlægt í Reykjavík í júní. Á Akureyri er sólskinsstundafjöldinn hins vegar vel undir meðallagi (allra viðmiðunartímabila).

Úrkoma er vel ofan meðallags í Reykjavík, en nærri meðallagi á Akureyri. 

Jú, hlýir dagar hefðu alveg mátt vera fleiri í júní, en almennt má samt segja að lengst af hafi farið mjög vel með veður og tíð verið hagstæð.  

 


Hugsað til ársins 1958

Árið 1958 var talið óhagstætt framan af, sérstaklega um landið norðaustan- og austanvert, en síðan hagstætt. Úrkoma í tæpu meðallagi. Hiti yfir meðallagi. Í janúar var tíð óhagstæð tíð og samgöngur erfiðar. Gæftir sæmilegar. Hiti undir meðallagi. Febrúar var snjóþungur, en þurrviðrasamt var á Suður- og Vesturlandi. Um landið norðvestanvert þótti tíð allgóð. Í mars var óhagstæð tíð framan af, en síðan mun hagstæðari. Víða var óvenju mikill snjór í byrjun mánaðarins. Tíð í apríl var góð og hæglát. Gæftir ágætar. Hlýtt. Í maí var tíð hins vegar óhagstæð, bæði köld og mjög þurr. Veðurathugunarmenn tala þó um stillta tíð lengst af. Hæglátt var einnig í júní, en þurrkur háði gróðri. Júlí var hagstæður og tíð fremur þurrviðrasöm. Ágúst þótti hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en óþurrkatíð var norðanlands. September var mjög hagstæður og hlýr. Sama var um október, þá voru tún enn græn og gras í vexti. Nóvember var mjög úrkomusamur og hlýr, tíð mjög hagstæð síðari hlutann. Desember var almennt hagstæður, nema helst norðaustanlands þar var færð mjög þung um tíma. 

Hér er mikið notast við fréttir af veðri sem birtust í blöðum og aðgengilegar eru á timarit.is. Í sumum tilvikum eru fréttirnar styttar hér (og biðst ritstjóri hungurdiska velvirðingar á því). Sömuleiðis kunna að koma upp villur í lestri - þær bagalegustu geta orðið í mislestri manna- eða staðanafna. Vænt þætti ritstjóranum um að heyra af slíkum villum, rekist lesendur á þær. Athugunarbækur Veðurstofunnar, gagagrunnur hennar og timaritið Veðráttan eru ómetanlegur brunnur upplýsinga hér sem endranær. Persónulega man ritstjórinn ekki eftir veðuratburðum ársins 1958 þannig að hann geti neglt þær á dag. Í maí mætti hann í fyrsta sinn á ævinni í skóla, það var þurr og sólríkur mánuður í Borgarfirði. Einnig fannst honum sól ekki skína eins mikið þetta sumar og sumarið áður (1957) - svo vill verða í norðannæðingi í Borgarfirði þótt þurrkur sé. Sömuleiðis minnist hann leiðangurs til Norðurlands í júlí - þar var svo sannarlega kalt um þær mundir, snjór í fjöllum. Einnig þykist hann muna mikil septemberhlýindi. 

Í janúar gerði nokkur eftirminnileg illviðri. Tjón varð þó ekki mjög mikið. Þann 4. janúar kom mjög djúp lægð að landinu. Daginn eftir mældist lægsti þrýstingur ársins á landinu, 952,1 hPa á Galtarvita. Á undan lægðinni var landsynningshvassviðri. Þá hvessti mjög af austri og suðaustri á Akureyri, en hvassviðri af þeirri átt eru ekki mjög algeng þar um slóðir. Veðrið stóð ekki lengi, mesti 10-mínútna meðalvindur talinn 18,0 m/s, en það er það mesta sem vitað er um með vissu af háaustri á Akureyri.

Vísir segir frá þann 6.janúar - og síðan Tíminn þann 7.: 

Nokkru fyrir hádegi á laugardaginn [4.janúar] gerði afspyrnurok af suðaustri í Eyjafirði og á Akureyri og hlutust þá af nokkrar skemmdir á vörum, sem verið var að skipa upp úr m.s. Heklu við Torfunesbryggju. Hvassviðrið var svo mikið að Hekla varð að losa festar og leggjast út á Poll rétt fyrir hádegið, en þá var allmikið af Vörum, þ.á m. sykri og annarri matvöru, enn fremur ull og fleira á bryggjunni, sem búið var að skipa upp. Og enda þótt breitt væri yfir vöruna með seglum var sjógangurinn svo mikill að seglin hlífðu ekki til fulls, auk þess sem flæddi undir vöruna, þannig að hún blotnaði meira eða minna og skemmdist. Tjónið hefur enn ekki verið metið til fullnustu. Á meðan hvassviðrið var sem mest gekk sjór og særok upp á land og m. a. gekk sjór alveg yfir Eimskipafélagshúsið. Skip, sem stödd voru á Akureyri voru þá alveg hulin sjó og særoki í hvössustu hryðjunum. Upp úr kl. 4 um daginn tók veðrið að lægja og rétt á eftir lagðist Hekla aftur að bryggju og var þá afgreidd. Hélt hún frá Akureyri kl. 8 um kvöldið.

Tíminn 7.janúar: Á laugardaginn gerði hvassviðri mikið með sjógangi á Akureyri. Var sjógangurinn svo mikill, að vörur, sem verið var að skipa upp úr strandferðaskipinu Heklu við Torfunesbryggju skemmdust talsvert og var skipið sjálft að fara frá bryggjunni meðan veðrið var harðast. Lagðist strandferðaskipið þá út á Pollinn. Þegar skipið varð að fara frá var alimikið magn af ýmiskonar vörum á bryggjunni og skemmdust þœr nokkuð. Hvassviðrið var svo mikið og sjógangurinn um tíma, að bátar, sem voru í höfninni huldust særoki og sjórinn rauk yfir bæinn, enda stóð vindurinn af suðaustri. Færð er nú sæmileg í Eyjafirði og búið að skafa snjó af vegunum, þar sem færðin var þyngst vegna snjóa.

Mikil veðrasyrpa gekk yfir landið dagana 12. til 18. Þrjár lægðir fóru hjá. Sú fyrsta þann 13. til 14. á milli Vestfjarða og Grænlands. Sú næsta fór til norðausturs yfir Suðurland og ýmist rigningu eða hríð, en vestanstormur með miklum hríðaréljum fylgdi í kjölfarið. Þriðja lægðin fór síðan til austsuðausturs skammt undan Suðurlandi þann 18. Var hvasst af norðri á landinu þann dag. Sérlega kalt loft flæddi síðan suður um landið. 

Slide3

Kortið sýnir fyrstu lægðina í syrpunni valdandi miklu suðvestan- og vestanveðri. Talsverðar fréttir eru af veðri í blöðum þessa daga, mest af ófærð og slíku. Blöðin greina frá tjóni og vandræðum ýmsum:

Tíminn 14.janúar:

Stórviðri gekk yfir Vestfirði og Vestfjarðamið í nótt og dag, og urðu bátar að hverfa frá línu sinni, einn þeirra varð fyrir stýrisbilun, og hér í höfninni urðu nokkrar skemmdir á togaranum Ísborgu og vélbátnum Bryndísi í hvassviðrinu í dag.

Morgunblaðið 14.janúar:

Ísafirði 13. janúar. Seinnipartinn í nótt og í morgun gerði aftakaveður á ísafirði af suðvestri. Stóð rokið fram á síðari hluta dags en varð stillt um kvöldmatarleytið. Hvassast var hins vegar upp úr hádeginu. Nokkurt tjón varð af þessu roki. Allir bátar voru á sjó þegar stormurinn skall á og urðu þeir að skilja eftir meira og minna af línu, 40—80 lóðir. Tveir bátar fengu áfall. Það voru Ásbjörn frá Ísafirði, en á honum brotnaði stýrishús og Mímir frá Hnífsdal, en á honum brotnaði borðstokkurinn. Ekkert tjón né meiðsl urðu á mönnum. Nokkrir bátar lágu í höfninni og var rokið svo mikið, að erfitt var að hemja þá. Einn þeirra, Bryndísi, 14 smálestir, sem var í bátahöfninni, sleit upp og rak upp að  Edinborgarbryggju, sem báturinn barðist utan í og skemmdist á honum öldustokkurinn. — Einnig brotnaði vélbáturinn Gullfaxi frá Þingeyri nokkuð. Togarinn Ísborg lá á Ísafirði við hina nýju uppfyllingu. Var verið að landa fiski úr skipinu. En svo mikil var veðurhæðin, að togarinn sleit margsinnis af sér festingar og kippti m. a. í sundur 3 1/2 þumlunga vír. Þó tókst að verja skipið tjóni. Í roki þessu, sem stóð innan úr firðinum, gekk brimlöðrið yfir eyrina. Það var þó bót í máli, að ekki var stórstreymi. Ella hefði tjón getað orðið meira.

Miklar annir voru í Skíðaskálanum [í Hveradölum] um helgina, einkum síðdegis á sunnudag [12.] og aðfaranótt mánudags, er fjöldi manns var á leið að austan og austur um Hellisheiði í aftakaveðri og hríð. Aðfaranótt mánudags var því vökunótt hjá starfsfólki Skíðaskálans, sagði Steingrímur Karlsson, gestgjafi í Skíðaskálanum, er leitað var frétta hjá honum í gær.

Tíminn 17.janúar:

Í gær var versta veður á Vestur- og Norðurlandi. Vestanrok var á og var veðurhæðin 8—10 vindstig á óveðurssvæðinu og fylgdi víðast hvar éljagangur. Mikið var um símabilanir og rafmagnstruflanir urðu á orkuveitusvæði Sogs vegna krapa og var af þeim sökum tekin upp skömmtun á rafmagni. Þá urðu vegir ófærir meir vegna veðurofsa og hálku en ófærðar. Allir flugvellir voru lokaðir. í nótt var búist við að vindur snerist til norðlægari áttar og var spáð norðvestan roki um allt land í dag. í gær var frostið 4—7 stig. Engar bilanir urðu á rafmagnslínum hér sunnanlands, utan bilun á Vífilsstaðalínunni. Var búist við að sú lína kæmist í lag í gærkveldi. Símasambandslaust var við Vestfirði og sambandslaust við Akureyri nema í gegnum Austfirði, en norðanlínan hafði bilað í Langadal.

Veðurofsi mikill var hér á Suðvesturlandi og Suðurlandsundirlendi í gær. Sums staðar var lítil snjókoma, en annars staðar hlóð niður snjó. Til dæmis á Laugarvatni var veðrið svo óskaplegt, að talið er að þar hafi ekki komið önnur eins stórhríð síðustu 20—30 árin, og voru skaflar þar orðnir allt að tveim metrum á hæð í gærkveldi.

Morgunblaðið 17.janúar:

Vetur konungur flesta landsmenn finna það í gær, að það er hann, sem ríkir um þessar mundir. Yfir mikinn hluta landsins gekk mesta óveður, sem komið hefur á þessum vetri 8—10 vindstig með dimmum hríðaréljum. Í gærkvöldi var ekki kunnugt um neinn stórskaða af völdum þess. Bátar voru ekki á sjó, því að veðrið var þegar orðið ófært í fyrrakvöld. Óveðrið hafði í för með sér töluverðar símabilanir, sem skýrt er frá á öðrum stað hér í blaðinu. Hér í Reykjavík varð að taka upp rafmagnsskömmtun, samgöngur töfðust mjög vegna ófærðar, því að snjó dró mjög í skafla. Eldur kom upp í húsi í Vesturbænum. Kona varð bráðkvödd í strætisvagni í gær. Í fyrrinótt var mjög slæmt veður hér í bænum. Óveður þetta skall á síðari hluta dags á miðvikudaginn. Um hádegisbilið gerði mjög dimmt él, en í verstu hryðjunum komst veðurhæðin upp í 12 vindstig. Þetta hafði í för með sér, að aðstandendur skólabarna voru mjög á báðum áttum, hvort senda skyldi börnin í skóla, enda var það svo, að eftir hádegið var mjög illa mætt í barnaskólunum. Var þá víða gefið frí, þar eð ekki var kennslufært. Einn barnaskólinn tilkynnti að kennsla myndi falla niður eftir hádegið. Var það Langholtsskólinn. Í gærkvöldi tilkynntu barnaskólarnir, að kennsla myndi falla niður í dag vegna þess, hve spáð er slæmu veðri. Er þess vænst, að norðanveðrið lægi með kvöldinu. Um klukkan 3 í gærdag fór að verða vart rafmagnstruflana hér í bænum. Var ekki hægt að koma fullri orku til bæjarins frá orkuverunum austur við Ljósafoss en ástæðan var gífurleg krapamyndun. Iðulaus stórhríð, .ofanbylur og skafrenningur var þar eystra og lagði út á vatnsuppistöðuna við stíflugarða orkuveranna, og myndaðist mikið krap þar. Tókst að koma þessu í lag aftur um klukkan 6, og var þá rafmagnsskömmtuninni hætt. Hverfin voru til skiptis rafmagnslaus í svo sem hálftíma í senn. Hvar, sem farið var um bæinn í gær, var umferð fólks mjög lítil, enda var veðrið þannig, er bæjarbúar risu úr rekkju í gærmorgun, að það voru aðeins þeir, er brýnt erindi áttu, sem fóru að heiman. Í gærkvöldi mátti heita, að ekki sæist nokkur maður i strætisvögnunum. Vögnunum gekk yfirleitt vel að halda áætlun. Ef tafir urðu þá var það vegna þess, að élin sem stundum stóðu alllengi voru svo dimm, að ekki var hægt að aka nema fetið. Færð var þó sums staðar orðin þung síðdegis, en þá komu vegheflar og ýtur bæjarins á vettvang og ruddu allar helstu samgönguleiðirnar um bæinn þveran og endilangan. Lögbergsvagninn festist í gærkvöldi uppi við Rauðavatn. Munu engir farþegar hafa verið með vagninum. Úr Kópavoginum bárust þær fregnir í gærkvöldi að þar væri víða mikil ófærð. Um klukkan 3:30 kom kona utan úr hríðinni inn í strætisvagn sem fara átti í Vesturbæinn. Hafði hún setið skamma stund, er hún skyndilega féll fram úr sætinu. Var sjúkraliðið þegar kvatt á vettvang. Konan var látin er að var komið. Hafði hún orðið bráðkvödd. Í óveðrinu í gærmorgun var slökkviliðið kallað vestur í Selbúðir 9. Þar var mikill eldur í stofu, er brunaverðir komu á vettvang. Brann þar allt og eyðilagðist, en brunaskemmdir urðu ekki aðrar en í þessari stofu. Voru eldsupptök þau, að þar stóð enn jólatré og mun rafmagnsljós á því hafa kveikt í trénu. Í Reykjavíkurhöfn var allt rólegt að því undanskildu, að þýski togarinn Anton Dhorn sleit sig oft frá bryggju, en var loks fluttur innar í höfnina. Lögregluvarðstofan skýrði blaðinu frá því í gærkvöldi, að lögreglan hefði haft mörgu að sinna í gær í sambandi við ófærð á götum bæjarins, fjölda bílaárekstra og fleira. En stórtíðindalaust var að öðru leyti. Allar flugsamgöngur til og frá landinu lágu niðri í gær, og báðir flugvellirnir voru lokaðir.

Samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofu Kaupfél. Árnesinga á Selfossi, í gærkvöldi, var færð yfirleitt góð um allar sveitir fyrir austan Fjall. Laugardælingar höfðu þó aðra sögu að segja, því að þar hefur kyngt niður meiri snjó en menn muna þar um 30 ára skeið. Var bráðófært um hinn fagra dal og heima á Laugarvatni hafði dregið svo í skafla, að þeir voru nær því jafnháir og húsin þar, að því er fregnir hermdu. Snjóþungt var orðið í öðrum uppsveitum, svo sem Biskupstungum. Krýsuvíkurleiðin var greiðfær í gær, og farið var milli Reykjavíkur og Selfoss á 5 klst. Það voru hin dimmu él, sem töfðu, en í byljunum sá ekki fram fyrir bílana.

Keflavík l8. janúar. Miklar rafmagnstruflanir hafa verið um gjörvöll Suðurnesin í dag af völdum óveðursins. Hafa rafmagnslínur slitnað eða orðið samsláttur á línum. Hér í bænum hefur ekki dregið til neinna sérstakra tíðinda í sambandi við veðrið, að öðru leyti en því að færð er víða orðin erfið og í kvöld voru horfur á að þjóðvegurinn til Reykjavíkur myndi jafnvel lokast.

Miklar símabilanir urðu í ofviðrinu í gær, en þær voru í því fólgnar að ýmist slitnuðu símalínurnar eða línusamsláttur varð. Ekki er kunnugt um að símastaurar hafi brotnað. Flestar þessar bilanir hafði tekist að lagfæra í gærkvöldi. Í fyrrinótt varð fyrsta símabilunin er talsímasambandið milli Reykjavíkur og Ísafjarðar og Patreksfjarðar rofnaði. Símalinan milli Hrútafjarðar og Hólmavíkur slitnaði. Þar var ofsaveður í gærdag og ógerlegt að senda símamenn á vettvang. Árdegis bilaði svo fjölsímasambandið við Akureyri, Þó varð ekki sambandslaust þangað, því hægt var að tala um Suðurlandslínuna. Það sem olli biluninni var, að í fárviðrinu slitnuðu símalínur skammt frá Blönduósi. Nærri samtímis slitnuðu þar einnig símalínur til Sauðárkróks og Skagastrandar. Fyrir harðfylgi símamanna þar nyrðra tókst milli bylja, að koma símasambandinu á aftur, á fjölsímann til Akureyrar og einnig milli Blönduóss og Skagastrandar. Símtöl til Akureyrar voru þó ekki truflanalaus með öllu. Í gærkvöldi var símasambandslaust við Sandgerði og miklar truflanir á smástöðvum austur í sveitum t.d. Laugarvatni og Torfastöðum. Um skeið var aðalsímasambandið við Stykkishólm rofið, en það tókst að lagfæra. — Á meðan var hægt að ná þangað um Hrútafjarðarstöðina.

Eins og áður sagði kom nú óvenjukalt loft suður um landið. Svonefnd þykkt, sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs hefur ekki oft orðið jafnlítil yfir landinu og þann 20.janúar. Kortið hér að neðan sýnir þetta. Þann 10. hafði frost farið í -32,0 stig í Möðrudal. Þetta var í fyrsta skipti eftir 1920 sem frost á landinu hafði mælst meira en -30 stig, en raunar er ýmislegt vafasamt við þessa mælingu (hún er nánast ólesanleg í skýrslunni). Frost náði t.d. ekki -20 stigum á Grímsstöðum á Fjöllum þennan dag og var mest -21,4 í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar í mánuðinum [25.] fór frost í -25,0 stig í Reykjahlíð við Mývatn. Við leyfum tölunni lágu samt að standa - en höfum villumöguleikann í huga. 

Slide2

Morgunblaðið birti ísfrétt þann 18.janúar:

Í gær bárust tvær hafísfregnir. Önnur fréttin kom frá togarm um Aski. Tilkynntu skipsverjar ís skammt norð-vestan af Vestfjörðum. Var þar ísspöng, sem náði eins langt og augað eygði frá austri til vesturs og var ísrek talsvert grynnra en spöngin. (Hin fréttin var frá siglingaleið til Ameríku).

Fréttir bárust nú af lagnaðarís, bæði í nágrenni Reykjavíkur sem og vestan úr Breiðafirði:

Vísir segir frá 22.janúar: 

Víkur og vogar í nágrenni Reykjavíkur eru nú ísi lagðar eftir frostakaflann, sem staðið hefur samfleytt á aðra viku. Skerjafjörð hefur lagt innanverðan frá Shellbryggju og yfir í Álftanes. Ísinn er ekki mannheldur, en mun að líkindum verða það næstu dægur ef stillur og frost haldast. Þá hefur Elliðaárvog lagt. Ísinn þar er það þykkur að vélbátar komast ekki að og frá dráttarbrautinni, sem þar er.

Tíminn segir frá ís á Breiðafirði í frétt 31.janúar:

Stykkishólmi í gær. — Innfirði Breiðafjarðar var farið að leggja í kringum síðastliðna helgi og ísinn víða mannheldur, svo farið var að ganga milli eyja í Flateyjarhreppi Á þessu svæði leggur alltaf fljótt, enda grunnsjávað. Lagís var kominn á Gilsfjörð og Hvammsfjörð, en þegar hlýnað molnaði ísinn og gætti rekíss nokkuð á Breiðafirði. Vegna norðanáttarinnar lagðist þessi rekís að landi sunnanvert við fjörðinn og barst m.a. inn í höfnina í Stykkishólmi. Var um tíma mjög erfitt að athafna sig í henni af þeim sökum.

Þetta óvenjukalda loft olli einnig mikilli snjókomu í Færeyjum. Við skulum halda þessari frétt sem Tíminn birti 24.janúar til haga:

Kaupmannahöfn í gær. Frá Þórshöfn í Færeyjum berast þær fregnir, að síðustu dagana hafi snjóað slík ósköp í Færeyjum, að slíks séu engin dæmi síðustu þrjátíu árin. Meginhluti þessa fannfergis hefir fallið síðasta sólarhringinn. Í gær var algert samgöngubann á landi á eyjunum vegna snjóa.

Það er fróðlegt að lesa hugleiðingar og fréttir af veðurfarsmálum fyrr á árum. Um þetta leyti gætti ótrúlegrar bjartsýni sumra vísindamanna um að mönnum tækist brátt að ná stjórn á veðri. Þessi bjartsýni var ekki aðeins í æsifréttaritum heldur birtist um þetta allmikill fjöldi vísindagreina og virtir vísindamenn létu ýmislegt eftir sér hafa - sem þeir flestir sáu síðan eftir. Morgunblaðið birti þann 16. janúar frétt af málinu. Þar er m.a vitnað í „föður vetnissprengjunnar“ Edward Teller - sem síðar varð einnig frægur fyrir svonefnda „stjörnustríðsáætlun“:

Árið 1953 skipaði Bandaríkjaþing sérfræðinganefnd til þess að gera athuganir á „veðurstjórn" og skila áliti og tillögum í því sambandi hið fyrsta. Nú hefur nefnd þessi lokið störfum og lagt mikla greinargerð fyrir Bandaríkjaforseta. Er þar lögð áhersla á að auknar verði að mun rannsóknir á því hvernig stjórna megi veðrinu. Segir og, að innan tíðar verði „veðurstjórnin" talin jafnmikilvæg hverju stórveldi og vopnin eru nú til dags. Það geti haft örlagaríkar afleiðingar fyrir mannkynið, ef eitthvert stórveldi næði stjórn á veðrinu á undan öllum öðrum — og gæti beitt því óvinum sínum til bölvunar. Nú þegar geta sérfræðingar framkallað rigningu hvar sem er og á þann hátt er hægt að valda stórtjóni á mannvirkjum og ræktuðu landi, með stórflóðum. Á sama hátt verður í framtíðinni hægt að koma í veg fyrir alla úrkomu. Þar af leiðandi mundi draga úr gróðri á viðkomandi svæðum — og væri á þennan hátt hægt að valda hungursneyð. Líklegt er talið, að þróunin verði sú, að mennirnir geti með tímunum ráðið öllum veðrum — og hefur vísindamaðurinn Edward Teller, sem talinn er „faðir" vetnissprengjunnar, m.a. sagt, að mennirnir muni innan tíðar hafa vald yfir veðurfarinu — og hætta geti jafnvel orðið á því, að „kalt stríð" verði háð með veðri. Stríðið gæti þá raunverulega orðið „kalt", ef fjandmenn herjuðu hvor á annan með kuldabylgju, hörkufrosti og snjókomu. Veðrið yrði þá jafnvel enn hættulegra vopn en öflugustu sprengjur eru nú til dags. Það verður því mjög mikilvægt að mennirnir misnoti ekki yfirráðin yfir veðurfarinu í framtíðinni. í því sambandi hafa margir lagt það til, að Sameinuðu þjóðunum verði falin  yfirsjón yfir öllum tilraunum mannanna til þess að gera veðurfarið sér undirgefið. 

Þann 25. janúar fór hlýrra loft aftur að þrengja að því kalda. Lægð nálgaðist úr suðri og olli miklu illviðri, sérstaklega syðst á landinu. 

Slide4

Tíminn 30.janúar

Síðastliðinn laugardag gerði hér aftakaveður undir [Eyja-] Fjöllunum, og var hvassast undir svonefndu Steinafjalli. Mun vindhraðinn hafa orðið 12—14 vindstig. Nokkrar skemmdir urðu í veðri þessu, einkum að Steinum. Að Steinum búa þrír bræður, Sigurbergur, Bárður og Páll Magnússynir. Hjá Sigurbergi fauk þak af hlöðu og geymsluskúr. Hjá Bárði fuku fjórar plötur af nýjum fjárhúsum. Hjá Páli fuku nokkrar plötur af nýju íbúðarhúsi. Einnig brotnuðu allmargar rúður og fleiri skemmdir af smærra tagi urðu. Að Þorvaldseyri urðu einnig nokkrar skemmdir. Þar fuku um 20 járnplötur af nýjum fjárhúsum. Frá þökum á húsum undir Eyjafjöllum er gengið sérstaklega vandlega vegna veðrahættu, og var svo á þeim húsum, sem þakplöturnar fuku af. Veðrið kippti plötunum upp með nöglum, sem þó voru hnykktir innan á súð. Nokkrar skemmdir urðu á síma línum í veðrinu. Síðustu dagana hefir verið góð hláka og rigning mikil. Snjólaust má heita með öllu undir Fjöllunum.

Veður varð einnig mjög vont austur í Hornafirði. Tíminn segir frá 2. febrúar. Þann 26. janúar var kosið til sveitarstjórna á þéttbýlisstöðum landsins. 

Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði í gær. Laugardaginn fyrir kosningasunnudag brást á foraðsveður hér um slóðir með hvassviðri og slyddu eða snjókomu. Hlóð snjó á símalínur og brotnuðu alls 122 símastaurar hér í sveitunum og línur slitnuðu víða. Í Nesjum brotnuðu 66 staurar og 50 í Lóni og nokkrir í Suðursveit. Skemmdir urðu ekki teljandi aðrar, en þó fauk hey á einum bæ. Bátarnir komust heilu og höldnu inn undan veðrinu, og einnig nokkrir Austfjarðabátar, sem úti voru, komu einnig nokkrir hingað inn.

Austanlands var veðurlag skárra heldur en í öðrum landshlutum. Veðurathugunarmaður á Skriðuklaustri segir af vatnsskorti á bæjum á Fljótsdal. Hann segir einnig af snjó og krapaflóðum í Norður- og Austurdal, einkum hjá Eiríksstöðum í Norðurdal. Sama veður olli tjóni við mannvirkjagerð við Grímsárvirkjun. Tíminn segir af því þann 31. janúar:

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér er enn sama veðurblíðan, snjólaust að mestu, svellalög nokkur, en fært um fjallvegi. Hagar eru góðir og hefir svo verið í vetur, fé hraust og gjaflétt. Er vetur þessi enn sem komið er einhver hinn mildasti og snjóléttasti sem hér hefir komið um áratugi. Allmikill vöxtur hljóp í ár og læki hér í hlákunni og rigningunni eftir helgina, og ruddu sumar sig og hlupu úr farvegum. Eyvindarstaðaá stíflaðist af íshröngli og krapi og hljóp upp á flugvöllinn og liggur en á 300 metra kafla hans á norðurendanum.

Allmikið hlaup kom í Grímsá, og olli smávegis tjóni við nýju virkjunina, einkum á bráðabirgðastíflu úr timbri, sem notuð hefir verið til að bægja ánni til hliðar meðan unnið er að mannvirkjagerð.

Slide5

Kalt var í febrúar - og ófærðarfréttir áberandi. Við leyfum okkur að birta talsvert af þeim. Kortið að ofan sýnir stöðuna í háloftunum. Norðvestlægar áttir voru ríkjandi. Úrkoma var lengst af ekki mikil sunnanlands. 

Tíminn segir af snjókomu nyrðra þann 11. febrúar - og heldur síðan áfram:

Frá fréttaritara Tímans. Akureyri í gær. — Hér snjóaði látlaust í nótt er leið og í dag og er nú hið mesta fannfengi um allt héraðið svo að hvergi sér á dökkan díl, bókstaflega talað. — Allir vegir eru ófærir hér innanhéraðs og illfært víða um bæinn. Þegar fréttaritari átti tal við Mjólkursamlag KEA um kl. 6 í dag, var aðeins einn mjólkurbíll kominn úr Hrafnagilshreppi, en nokkrir aðrir höfðu verið mest allan daginn að brjóta sér leið, en voru ekki komnir til Akureyrar. Mjólk er flutt sjóleiðis frá Dalvík, Grenivík, Svalbarðseyri og Árskógsetrönd. Það eru einkum stórir „trukkar", sem notaðir eru nú á vegum, eða sleðar, sem ýtur draga. En illfært er öllum farartækjum, þar sem snjórinn er mjög laus og jafnfallinn og þyrlast óðara og golar í geilar þær, sem myndast hafa á vegum að undanförnu. Jarðlaust er nú um allt Eyjarfjarðarhérað. Í framfirði er löngum útigangur fyrir hross, en nú er það af, og hross hýst. Í gær kom hrossahópur úr Eyjafirði til Akureyrar. Voru það hross Akureyringa, sem nú taka við þeim í hús. Hér er nú líka starfrækt tamningastöð í vetur og er þar margt hrossa.

Tíminn 12.febrúar:

Dalvík í gær. — Hér hefir hlaðið niður miklum snjó undanfarið og allir vegir ófærir öðrum tækjum en dráttarvélum og jarðýtum, er annast mjólkurflutninga innan sveitar, en til Akureyrar er mjólkin flutt sjóleiðis. Fannfergi er orðið svo mikið, að óttast er um þök lágreistra húsa og farið að moka ofan af sumum þeirra svo að þau brotni ekki undan snjóþunganum. Í dag er nokkurn veginn bjart veður og mildara.

Tíminn 15.febrúar:

Ólafsfirði 14. febrúar. Hér hefir verið óslitið hríðarveður, það sem af er þessum mánuði, og stundum versta norðaustan stórhríð. Snjókoma hefur stöðugt verið það mikil, að til vandræða hefur horft fyrir bændur að koma mjólkinni í bæinn vegna ófærðar. Allt er á kafi í snjó. Skaflar á götum bæjarins eru nú orðnir i þakskegg sumra húsa, svo hægt er að ganga á skíðum yfir þau. Gæftir eru mjög slæmar og þá sjaldan að gefur á sjó er afli mjög tregur. Tvívegis hefir orðið að vísa togurum frá löndun, vegna ótíðar. Er þetta mjög bagalegt, þar sem algjört atvinnuleysi er hér um þessar mundir.

Tíminn 16.febrúar:

Fosshóli í gær. — Hér er hríðarveður flesta daga og er kominn mjög mikill jafnfallinn snjór. Nú er gersamlega ófært öllum venjulegum bílum um alla vegi í sýslunni og ekki reynt að hreyfa aðra bíla en snjóbíla. Þeir eru nú fjórir í förum um sýsluna og ganga flutningar þeirra allvel

Tíminn 19.febrúar - nú af Suðurlandi:

Það má segja, að 12 vikna harðindi hafi verið í uppsveitum Árnessýslu og alger innistaða fyrir sauðfé. Hross hafa og verið á gjöf síðan um nýjár, sagði Þorsteinn Sigurðsson bóndi á Vatnsleysu í gær, er tíðindamaður Tímans hafði tal af honum. Þótt veturinn hafi verið gjaffrekur svo að fágætt er er ekki hœgt að segja. að snjóalög séu mikil, heldur eru alveg óvenjulegar storkur á jörð. Komið hafa smáblotar en aðeins til þess að snjóbrynjan hefir orðið harðari. en fyrr. Veður hafa og verið ill og verða frostmikil, oft skafrenningur og því varla hægt að beita fé þess vegna, þótt jarðarsnöp væri. En mjólkurflutningar hafa eiginlega aldrei teppst í vetur, verið tafsamir dag og dag, en ekki stöðvast alveg. Má það eindregið þakka Iðubrúnni á Hvítá. Mestu snjóþyngsli eru nú eins og oft áður í Laugardalnum og á Hlíðabæjunum.

Tíminn 22.febrúar eru aftur fréttir af ís á Breiðafirði:

Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi. Hér hefir verið talsvert vetrarríki undanfarnar vikur, og síðasta hálfan mánuðinn hefir Stykkishólmshöfn verið full af rekís. Hefir þetta valdið róðrarbátum miklum erfiðleikum og minni báta, trillur, hefir ekki verið hægt að hreyfa. Mikill ís hefir Verið á Hvammsfirði og Gilsfirði, og hefir verið gengið af Skógaströnd fram um eyjar. Bændurnir í Brokey og Öxney hafa og verið innilokaðir í þrjár vikur og samgöngulausir við land að öðru en því, að þeir hafa getað gengið á ís til lands. Hins vegar hafa þeir ekki getað notað nein farartæki og því ekkert getað flutt að sér eða frá.

Fyrri helmingur marsmánaðar var svipaður. Tíminn segir frá 12.mars:

Harðindi eru enn mikil í flestum landshlutum, og er vetur þessi að verða einn hinn harðasti, sem komið hefir hér í mörg ár. Síðdegis í gær var stórhríðarveður um meginhluta landsins, norðan stormur og veðurspá ill. Frosthörkur eru og töluverðar og innigjöf fénaðar í flestum sveitum. Á Norðurlandi, einkum austanverðu mega heita samfelld harðindi, snjóalög og innigjöf síðan um hátíðar, og er þetta orðinn einn gjaffrekasti vetur, sem þar hefir komið lengi. Allar samgönguleiðir hafa verið tepptar þar lengi. Á Austurlandi var mjög mildur og snjóléttur vetur fram í febrúar, en þá breytti til, og síðan hefir verið þar alisnjóþungt og innigjöf. Á suðausturhorni landsins hefir veturinn verið mjög mildur og góður, og er það eini landshlutum, sem þá sögu hefir að segja af þessum vetri öllum. Þegar á allt er litið, verður vetur þessi að teljast einn hinn harðasti, sem komið hefir um árabil. Þessi harðindi haldast enn og fara vaxandi, og er nú stórhríðarveður með allmiklu frosti um meginhluta landsins. Einna snjóléttast hefir verið á Suðvesturlandi og Suðausturlandi. Í gær var þó nokkur snjókoma sunnan lands og vestan, og voru vegir orðnir tepptir í uppsveitum Árnessýslu og gengu mjólkurflutningar treglega. Hellisheiði er ófær en Krísuvíkurleið allgóð í gær. Vegir voru sæmilegir um Borgarfjörð og vestur á Mýrar, en aðrar leiðir máttu heita ófærar um land allt, og hafa margar verið mánuðum saman. Þótt ekki hafi getað talist snjóþungt sunnan lands í vetur, hafa löngum verið þar áfrerar og innigjöf fyrir fénað, einkum í uppsveitum, og svo hefir einnig verið í Borgarfirði. Frosthörkur hafa verið miklar sunnan lands. Ísalög hafa verið óvenjulega mikil á innfjörðum Breiðafjarðar og valdið miklum trafala.

Vísir segir 13.mars frá stöðunni á Siglufirði:

Fannir eru með mesta móti á Siglufirði í vetur og feikna þiljur í öllum hvosum og giljum, en skefur úr fjöllum og fjallabrúnum vegna hvassviðrisins. Í kaupstaðnum sjálfum hafa ýtur haldið opnum aðalgötunum, en það þarf að ryðja þær oft vegna þess hve mjög fennir í brautirnar. Margar götur eru ófærar allri bifreiðaumferð.

Og loksins fór að snjóa í Borgarfirði líka, Tíminn 13.mars. Einnig er sagt af ísalögum í Skagafjarðarhéraði:

Færð var orðin mjög ill á vegum í Borgarfirði í gær og gengu mjólkurflutningar treglega. Ýtur voru að verki, en þó komust bílar ekki leiðar sinnar úr sumum sveitum. Einnig var orðið þungfært vestur á Mýrum.

Sauðárkróki í gær. — Það má heita að Héraðsvötnin ísi lögð séu orðin að þjóðbraut hér í Skagafirði nú meðan ófærðin er sem mest. Hafi vegirnir verið ruddir, hafa þeir lokast svo að segja strax aftur. Menn hafa því notað tryggan ís á Héraðsvötnum til að komast eftir leiðar sinnar og hafa þau ferðafög gefist vel. Farið er á jeppum og nú í seinni tíð hafa Blöndhlíðingar flutt mjólk í jeppakerrum í kaupstað. Svo má heita að á hverjum degi komi hingað einn eða fleiri bílar framan úr sveit og ekin séu Héraðsvötn. G.Ó.

Veðráttan hélst svipuð fram undir miðjan mars. Þá breytti rækilega um á einum degi. Öflug lægð sótti að úr suðri og olli miklu austanveðri um stóran hluta landsins. Verst varð veðrið þó á Suðurlandi og varð þar talsvert tjón. Snjóflóð urðu á Vestfjörðum. 

Slide6

Blöð segja frá illviðrinu næstu daga:

Tíminn 14. mars:

Geysilegir erfiðleikar eru nú á mjólkurflutningum í sveitunum austan fjalls og hafa verið síðustu þrjá dagana. Þegar blaðið átti tal við Helga Ágústsson á Selfossi um klukkan hálftíu í gærkveldi voru engir mjólkurbílar komnir úr uppsveitum eða austan úr Rangárþingi, en búist við að þeir mundu brjótast til Selfoss í nótt eða dag.

Tíminn 16.mars:

Fárviðri af austri og suðaustri, eitt hið mesta sem kemur, gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í fyrrinótt og fram eftir degi í gær en fór þá lægjandi. Mun veðurhæð sums staðar hafa komist upp í 14 vindstig og jafnvel 15 í Vestmannaeyju. Ekkert stórtjón hefir þó orðið svo vitað sé.

Að sjálfsögðu var aftakaveður undir Eyjafjöllum, og urðu þar smáskemmdir, sleit plötur af þökum og eitthvað fauk af heyi, en stórvægilegar geta þær ekki talist. Símabilanir urðu nokkrar þar austur undan og var sambandslaust austur til Víkur. Í gær var þar mikil hláka og mátti heita orðið autt þar síðdegis. Í Fljótshlíð var aftakaveður, brotnuðu rúður á einstöku stað og reið sitthvað fleira til. Rafamagnstruflanir urðu í Rangárþingi. Í uppsveitum Árnessýslu var veðrið mjög hart og urðu þar nokkrar skemmdir. Hálft þakið tók af íbúðarhúsinu að Ásum í Gnúpverjahreppi. Þetta er mjög stórt hús úr steini. Reif þakið að kalla alveg af annarri húshliðinni og er það mikið tjón.

Morgunblaðið segir af snjóflóði á Patreksfirði í frétt 16.mars:

Um miðnætti í fyrri nótt féll snjóskriða úr hlíðinni ofan við Patreksfjörð. Skriðan fór rétt hjá ysta húsinu í kauptúninu, sem stendur við Urðargötu. Einhver snjór mun og hafa runnið þar inn í kjallarann. Aðalskriðan lenti á tveim skúrum við götuna. Var annar bílskúr, þar sem geymdar voru tvær bifreiðar. Eyðilagðist önnur, ný, lítil rússnesk bifreið, en hin skemmdist. Hinn skúrinn var áhaldageymsla. Þar var einnig geymd vörubifreið, sem eyðilagðist með öllu. Skellinaðra, sem þarna var, er einnig ónýt. Skriðan stöðvaðist nokkru neðan við skúrana.

Ítarlegri frétt er í Morgunblaðinu 18.mars og síðan fjallar blaðið einnig um foktjón á Suðurlandi:

Svo sem getið hefur verið í fréttum, féll mikið snjóflóð úr fjallinu Brellum á Patreksfirði aðfaranótt síðastliðins laugardags. Féll aðalflóðið utan við kauptúnið, en lenti þó lítillega á ysta húsinu í byggðinni. Hreif það með sér þrjá bílskúra. Í skúrunum voru tvær fólksbifreiðir og ein vörubifreið, eyðilögðust tvær þeirra, en sú þriðja stórskemmdist. Þá urðu miklar eyðileggingar á rafmagnsstaurum, girðingum, lóðum og görðum af völdum flóðsins. Fréttaritari blaðsins á Patreksfirði, skýrir svo frá snjóflóði þessu sem er það stærsta sem sögur fara af í Patreksfirði. Flóðið féll úr fjallinu ofan Urða á Patreksfirði, sem er ysta byggðin þar. Þar hafði myndast mikil hengja í fjallinu upp við brún, en það er milli 300—400 metra hátt á þessum stað. Flóðið var 700 metra breitt. Bílskúrarnir sem sópuðust burtu með snjóflóðinu stóðu utan við kauptúnið og voru eigendur þeirra Þráinn Hjartarson, útgerðarmaður, Sigurður Guðmundsson. bílstjóri og Kristján Ólafsson birgðavörður. Bilskúr Þráins var úr timbri, járnvarinn. Í honum var nýr fjögurra manna fólksbíll ásamt miklu af vörum. Bíllinn gjöreyðilagðist, og skúrinn sópaðist burtu með flóðinu. Skúr Sigurðar Guðmundssonar var 20 metra löng steinbygging, með járnvörðu þaki. Ytri endi skúrsins sópaðist burtu en sex metrar af húsinu stóðu eftir. Í skúrnum var 3ja tonna vörubíll nýuppgerður og kassar með rafmagnsvörum sem Rafveita ríkisins átti. Gjöreyðilagðist allt sem í skúrnum var. Skúr Kristjáns Ólafssonar var timburbygging, járnvarin. í honum var fjögurra manna fólksbíll og skemmdist hann verulega, er skúrinn fór af grunni og flóðið hreif hann með sér. Þá rifnuðu upp allir rafmagnsstaurar sem á vegi flóðsins urðu og þar á meðal staurar þeir sem leiða að innsiglingarljósum hafnarinnar. Þá skemmdist einnig áhaldahús ríkisins í Mikladal mikið, er einnig lenti í flóðinu og allar vörur sem í því voru. Þakjárnið rifnaði af því og húsið skekktist til. Girðingar rifnuðu upp og lóðir og garðar stórskemmdust eða eyðilögðust alls staðar þar sem flóðið fór yfir. Snjóflóðið náði einnig að ysta íbúðarhúsinu í kauptúninu. Er það eign Kristins Jónssonar útgerðarmanns og Guðjóns Jóhannessonar, byggingarmeistara. Þetta er tveggja hæða hús. Var það jaðar flóðsins sem kom á húsið. Opnaðist hurðin að miðstöðvarklefa hússins er flóðið skall á því og fylltist herbergið af snjó. Einnig braust snjór inn í íbúðargang neðri hæðarinnar. Ekki urðu verulegar skemmdir á húsinu sjálfu en olíugeymir, sem var fyrir utan það rifnaði upp. Tæpt stóð að maður yrði fyrir flóðinu, en honum tókst að forða sér inn í fyrrnefnt hús í tæka tíð. Þetta er þriðja snjóflóðið sem núlifandi menn muna eftir að fallið hafi þarna úr fjallinu. Þetta er þó langsamlega mest þeirra allra. Fyrir eigi allmörgum árum féll snjóflóð þarna og hreif þá með sér allstórt hænsnabú. Ekki er vitað til að fyrsta flóðið sem munað er eftir að fallið hafi þarna gerði neinn verulegan skaða, en þá var engin byggð á þessum slóðum.

Hvolsvelli 17. mars. — Stórtjón varð á ríkisbúinu að Gunnarsholti í stórviðrinu aðfaranótt laugardagsins. Var það veður eitt hið mesta sem menn muna eftir að komið hafi um vestanverð Eyjafjöllin og sveitirnar þar fyrir vestan. Að Gunnarsholti er ein allra stærsta heyhlaða sem byggð hefur verið sunnanlands að minnsta kosti. Rúmar hún 3000—4000 hesta. Í stórviðrinu fauk gaflinn úr henni, og nokkru síðar reif veðrið og sviptibyljir upp mikið af járni á þaki. Í Gunnarsholti er rafstöð og liggur rafmagnslínan frá henni á 10—12 steinsteyptum staurum, járnbentum, heim í húsið— í veðrinu slitnaði stag er tengt var í staur heima á hlaðinu, en það hafði í för með sér að öll stauraröðin brotnaði. Staurarnir hanga þó saman á járnunum. Í Næfurholti urðu skemmdir á íbúðarhúsinu, er járn tók af helmingi þaksins. Þar varð fólk að halda kyrru fyrir inni í húsinu, því ekki var stætt úti. Á Galtalæk á Landi fuku tvö hey og missti bóndinn milli 50—100 hesta af töðu. Á Nýabæ undir Eyjafjöllum fauk einnig hey og þar skemmdist fjárhús. Eitthvað mun hafa fokið og skemmst af völdum veðurofsans í Fljótshlið svo og í Hvolhreppi. T.d. munu hlöður í Vatnsdal í Fljótshlíð hafa skemmst mikið. Þak þeirra hafði sópast í burtu. Ekki hafa fregnir borist af tjóni undir Austur-Eyjafjöllum og ekki úr Landeyjunum. Garðyrkjubændur í Reykholti í Biskupstungum höfðu einnig orðið fyrir miklu tjóni í fárviðrinu. Þar urðu skemmdirnar bæði af völdum  veðurofsans, sem braut mikið af rúðum í húsunum. Eins var það snjóþungi sem húsin braut. Hafði verið þar mikill skafrenningur áður en hlánaði. Í einu gróðurhúsinu, þar sem fallegar agúrkuplöntur stóðu í örum vexti og gefa hefðu átt ávöxt eftir 2—3 vikur, eyðilagðist allt. Í gær var einn garðyrkjubóndinn, Ingvar Ingvarsson búinn að setja 60 ferm. af nýju gleri í hús sín í stað þess sem brotnaði í fárviðrinu, en hann átti en nokkru ólokið.

Tíminn segir enn af ofsaveðrinu á Suðurlandi 18.mars:

Rauðalæk í gær. — Aðfaranótt laugardagsins gekk hér upp með ofsarok, sem hélst allan laugardaginn. Um ofanverða Rangárvallasýslu geisaði aftakaveður svo elstu menn muna vart annað eins. Skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum. Hey fauk og jafnvel steinsteyptir raflínustaurar fuku um koll. Á Galtalæk fuku um sextíu hestar af heyi, sem hlaðið hafði verið upp úti. Þar fauk líka þak af súrheyshlöðu. Í Næfurholti fauk hálft þak af íbúðarhúsi og í Gunnarsholti varð stór hlaða fyrir miklum skemmdum. Hlaðan í Gunnarsholti er stórt boghús og fauk mikið járn af annarri hlið hennar og mæninum. Þá brotnuðu átta staurar í heimtaug frá rafstöð, sem er bæði fyrir Gunnarsholt og Akurhól. Staurar þessir voru steinsteyptir. Kemur þetta sér mjög illa, einkum fyrir fólkið á Akurhóli, þar sem húsið þar var upphitað með rafmagni. Í Vatnsdal í Fljótshlíð fuku tvær hlöður og 30—40 hestar af heyi. Rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu á Heiði á Rangárvöllum og plötur fuku víða af húsum bæði í Hvolshreppi og Fljótshlíð. Veðurofsinn var mestur á ofanverðu Landi, Rangárvöllum og Fljótshlíð.

Og áfram heldur Tíminn 19.mars:

Seljabrekku í gœr. — Í óveðrinu fyrir helgina varð nokkurt tjón á húsum á Kjalarnesi. Þakplötur fuku af íbúðarhúsinu í Brautarholti, heyhlöðu í Lykkju og fjósi í Króki. Þak fauk af votheysturni í Skrauthólum og töluvert magn af heyi fauk í Bergvík og einnig fauk hey í Jörfa og Sjávarhólum. G.Þ.

Í Borgarfirði fréttist af eldingum þann 15. Tíminn segir af því þann 22.mars: 

Borgarnesi í gær. — Síðastliðinn laugardag [15.] sló tveimur eldingum niður með skömmu millibili nærri Hvassafelli í Norðurárdal í Borgarfirði. Gerðist þetta milli klukkan tólf og eitt á laugardaginn og fylgdu eldingunum síma- og útvarpstruflanir og skammhlaup á rafmagni. Þá er sýnilegt nokkurt rask, þar sem fyrri eldingunni sló niður, en hin kom fjær byggð. Virðist hín hafa verið öllu meiri, en ekki verður sagt um verksummerki eftir hana, þar sem ekki er vitað með vissu, hvar hún kom niður. Björgin klofnuðu. Fyrir ofan bæinn Hvassafell í Norðurárdal er klettabelti og sló fyrri eldingunni niður í brún þess. Fylgdu henni miklar þrumur. Um leið og eldingin reið á berginu, sáust eldflog í klettunum, en snjór hvarf af nokkru svæði og klöppin splundraðist. Féll grjótmulningurinn niður í fannir undir klettabeltinu. Fólki á Hreðavatni fannst síðari eldingin öllu meiri. Héldu menn þar í nágrenninu, að um jarðskjálfta væri að ræða, enda varð vart við titring í Bifröst og bæjum þar í kring. Háspennuöryggi brann í sundur í Bifröst og virtist eins og loga á öllum rafmagnstækjum, sem voru í notkun. Eldingunum fylgdu útvarps truflanir víða um héraðið, og þeir, sem voru að tala í síma, heyrðu lítið annað en brak og bresti meðan þetta gekk yfir.

Þann 7. maí birtist í Tímanum fregn um snjóflóð í Dýrafirði í þessu sama veðri:

Neðri-Hjarðardal, V-ís., 2. maí. — Veturinn hér var mjög jafnviðrasamur. Jarðbönn komu að vísu seint í nóv. og fyrst í des., en snjódýpi var ekki, en klaki á jörð. Fennti nokkuð af vestri í janúar, en veður voru aldrei mikil. Einu sinni í febrúar kom norðan gusa, er stóð stutt. En um miðjan mars gerði íhlaup af norðri ,með mikilli fannkomu og veðurhæð 15. mars kom snjóflóð héðan úr fjallinu fyrir utan bæinn í Neðri-Hjarðardal og féll á sjó út á um hálfan km breiðu svæði. Sópaði það burt nýræktargirðingu og braut nokkuð af túngirðingu hér. Sópaði snjóflóðið burt bátum við sjóinn, bátaspili og öðru lauslegu Og rak það á Þingeyri. Snjóflóð á þessum stað hefir ekki komið í minnum núlifandi manna, en gamlar sagnir eru um einsetukonu er Þórkatla hét í kofa hér utan við túnið, er snjóflóð átti að hafa sópað kofanum með öllu saman á sjó út. Síðan þetta skeði hefir verið mjög stillt veður. Logn dag eftir dag og sjórinn spegilsléttur, og er róíð á hverjum degi að heitið getur.

Eftir þetta var tíð í aðalatriðum góð til aprílloka. Fréttir voru aðallega af blíðviðri, en frétt frá Akureyri segir af hægri hláku og erfiðri færð á götum. Alhvítt var talið á Akureyri alla daga mánaðanna janúar til mars (gerðist líka 1936), en enginn alhvítur dagur var hins vegar í apríl. Tíminn segir frá 23. mars:

Akureyri í gær: Hér í Eyjafirði og í nálægum héruðum hefir verið mesta góðviðri undanfarna daga, Sólskin og fremur hlýtt í veðri, en sólin vinnur lítt á fönninni, sem liggur enn sem nær samfelld breiða yfir Norðurlandi. Vegir eru víðast torfærir og jörð er enn ekki til gagns fyrir skepnur. Snjór hefir að vísu sigið verulega þessa síðustu daga og vatn rennur undan, en hlákan er hægfara. Hér á Akureyri hefir færð um bæinn versnað síðustu dagana. Hefir verið mjög erfitt að komast um bæinn síðan hlánaði. Klakafylla er á flestum götum og sitja bílar fastir á henni þar sem hjólför eru djúp. Enn er mikill snjór í bænum og ruðningar sums staðar nær mannhæðar háir, en annars staðar má heita að slétt sé við girðingar í görðum. Rjúpur sækja nú mikið í garða bæjarbúa og hér um morguninn sat ugla á girðingarstaur við eina af götum bæjarins.

Þann 29. mars fórst flugvél í Vaðlaheiði. Var enn um það hörmulega slys rætt í Menntaskólanum á Akureyri á tíð ritstjórans þar nokkrum árum síðar. Tíminn segir frá þann 1. apríl:

Cessna-flugvélin, sem týndist á laugardagskvöldið, fannst snemma á sunnudagsmorgun á Öxnadalsheiði. Hafði hún rekist á snæviþakið landið og mölbrotnað. Fjórir ungir menn, sem með vélinni voru, fórust allir.

Með maí kólnaði og var leiðindatíð um allt landið norðanvert nær allan þann mánuð. Syðra var sérlega sólríkt. Flestir veðurathugunarmenn telja mánuðinn óvenju stilltan. Kortið sýnir stöðu í háloftunum í maí. Ekki ósvipað að yfirbragði og febrúar, en þykktarvik mest við Ísland að þessu sinni. Samsvara um -5 stiga hitaviki þar sem mest var. 

 Slide7

Mjög var kvartað undan kuldanum í fréttum í maí. Byrjum á því að lesa Tímann 7.maí og síðan áfram:

Vetrarveður er nú komið á Norðurlandi, og mátti raunar heita það einnig hér sunnanlands í gær. Á Norðurlandi, einkum á annesjum, snjóaði nokkuð í fyrrinótt og gekk á með éljum í gær. Var víða snjóföl á jörðu og frost töluvert. Á Siglufirði var t.d. versta hríðarveður framan af degi.

Tíminn 11.maí:

Harðindi eru enn um mikinn hluta landsins, einkum norðan og austan. Hefir snjóað nær hvern dag norðan lands síðustu viku, verið mikil næturfrost og oftast um frostmark á daginn. Er þetta illur ábætir á mikinn fannavetur. Ef vorharðindi þessi halda áfram enn um sinn, hlýtur þessi vetur að teljast með þeim hörðustu, sem komið hafa um langt árabil. Á Norðaustur-landi var enn éljaveður í fyrrinótt og gær og 1—2 stiga hiti um hádaginn. Á Austurlandi hefir veður verið lítið eitt mildara en þó mjög kalt. Sunnan lands og vestan hefir verið bjartara en þó jafnan næturfrost og norðan kuldasteytingur, þótt klökknað hafi í sólskini hádagsins.

Tíminn 14.maí:

Egilsstöðum í gær. Hér er sama kuldatíðin og virðist heldur herða á. Hefir svo gengið síðasta hálfan mánuðinn, að i oftast hefir verið næturfrost, gránað um nætur en tekið um hádaginn. Gróður er nær enginn kominn enn.

Tíminn 22.maí:

Vorharðindi þau, sem nú dynja yfir meginhluta landsins eru að verða með fádæmum og síðustu daga hefir fremur kólnað en hlýnað. Í gær var norðaustan kaldi um allt land og hríðarveður vestan, norðan og austan lands, svo að jafnvel festi snjó í byggð, og veðurspáin gerði ráð fyrir éljum eða hríðarveðri í dag á Norðurlandi og Vestfjörðum. Á Vestfjörðum hefir verið frost á hverri nóttu undanfarið, oft gránað niður í byggð en snjóað talsvert á heiðum. Enginn gróðurvottur er enn kominn og fénaður allur á gjöf. Sauðburður stendur sem hæst. Í gær var hríðarveður af og til. Á Norðurlandi er sömu sögu að segja. í Fljótum og í Ólafsfirði mátti heita stórhríðarveður meg köflum í gær og alhvítt nema um hádaginn. Þar eru hörkufrost allar nætur í maímánuði nema eina. Í gær var þar kuldastrekkingur með éljum, lá við að festi snjó. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum var hríðarveður í uppsveitum í gær, snjór á jörð í Mývatnssveit og fremst í Bárðardal, svo og á Hólsfjöllum. Á Fljótsdalshéraði var éljagangur í gær og mikil næturfrost síðustu nætur. Enginn gróður á þess um slóðum og fénaður allur á gjöf. Gengur mjög á heybirgðir og liggur við skorti á fóðurbæti sums staðar. Á Vaðlaheiði varð áætlunarbíll að nota snjókeðjur í gær, en þó var ekki mjög mikill snjór þar. Í dag eru fjórar vikur af sumri. Sauðburður stendur sem hæst og enginn gróður kominn. Bændur eiga í miklum erfiðleikum með lambfé sitt og lambám verður að gefa að mestu inni. Geldfé er þó víðast hvar búið að sleppa, og sums staðar reka fram á afrétt, t.d. í Þingeyjarsýslu. Þessi vorharðindi eru að verða með fádæmum.

Tíminn 23.maí:

Haganesvík, 22. maí. — Harðindunum, sem hófust hér fyrir alvöru 5. maí, linnir síður en svo ennþá. Í dag og gær hefir að kalla verið hvítahríð og alhvít jörð. Undanfarið hefir yfirleitt verið bleytuhríð, og fest snjó öðru hverju, en snjóinn hefir tekið upp aftur hér niðri við sjóinn. Öðru máli er að gegna frammi í dölunum. Þar er enn kafsnjór og bætir sífellt á, því að þar nær snjóinn ekki að taka.

Talsverður sinubruni varð í Flóanum þann 23. til 26.maí, hvítasunnan var þann 25. Blöð segja svo frá:

Tíminn 24.maí:

Frá fréttaritara Tímans á Stokkseyri í gærkveldi. Í dag gaus upp mikill reykjarmökkur hér ofan við kauptúnið, og lagði undan hægri norðangolunni yfir byggðina. Kom í ljós, að þarna var mikill sinueldur laus, og breiddist hann óðfluga út. Þótti þegar sýnt, að einhverjir illvirkjar eða slysamenn hefðu kveikt í sinunni, og var þegar mikil hætta á ferðum. Mikill sinuþófi er viða á þessu svæði og mosi í rót. Nú er allt skraufþurrt og magnaðist eldurinn því mjög og varð aðgerðarmikill með glóð í mosa niður í svörð. Sauðburður stendur sem hæst og höfðu bændur sleppt lambám þarna í mýrarnar, og var auðséð að það lambfé var í hættu, þar sem eldurinn gat kreppt að því við girðingar og skurði. Brugðu þeir því við með fólki sínu til þess að bjarga fénu undan eldinum, og áttu í ströngu við það daglangt. Eldurinn var orðinn svo víðáttumikill og magnaður, að ekki reyndist unnt að hefta útbreiðslu hans.  Skurðir eru þurrir, og þar sem slý og annar gróður er í þeim, fer eldurinn yfir þá. Augljóst er að miklar skemmdir eru orðnar á engjum nokkurra jarða, einkum Svanavatns, Hoftúns og Syðra-Sels. Á þessum og fleiri bæjum verður fólk að vaka í nótt og fylgjast með eldinum til þess að reyna að koma í veg fyrir að lambfé fari sér að voða og fyrirbyggja tjón á mannvirkjum, ef hann gerist nærgöngull. Nokkrar skemmdir munu og vera orðnar á girðingum. Augljóst er, að svo djúp sár verða eftir eldinn víða, að ekki grær upp til heyskaparnytja í sumar. Þá er hörmulegt að sjá, hverja útreið fuglarnir, sem nú liggja á hreiðrum sinum þúsundum saman á þessu svæði, fá af eldinum. Þarna verpa margar tegundir fugla, m.a. álftir, endur og fjöldi mófugla. Flúðu fuglarnir í hrönnum undan eldinum, sem eyðilagði egg þeirra og hreiður. Mikið skaðræðisverk hefir hér verið unnið með þessari íkveikju, og væntir fólk þess, að málið verði ýtarlega rannsakað og upp komist um sökudólgana. Sorti fyrir sól Reykjarsortinn var svo mikill hér á Stokkseyri, að sólin var sem dimmrauður hnöttur að sjá og skuggsýnt af reyk, enda var golan lítil.

Alþýðublaðið segir einnig frá eldinum 28.maí:

Eldurinn logaði fjóra daga samfellt um hvítasunnuna. Kviknaði eldurinn um miðjan föstudag skammt austan við Stokkseyri og slokknaði ekki fyrr en um miðjan dag á annan í hvítasunnu. Lagði svo mikinn reykjarmökk upp af svæðinu að sást um allt Suðursland og reykjarsvælu lagði langar leiðir. Hefur þarna orðið stórtjón á engjum og högum. Alþýðublaðið átti í gær tal við Helga Sigurðsson á Stokkseyri og sagði hann svo frá, að ekki - hafi tekist að ráða neitt við eldinn, svo fljótt breiddist hann út og var þá ekki frekar reynt til að hefta útbreiðsluna, heldur unnið að því að bjarga lambám undan eldinum því að víða komust ær í sjálfheldu við girðingar og skurði. Stórtjón hefur orðið þarna á engjum nokkurra jarða, aðallega bæjanna Syðra-Sels, Svanavatns og Hoftúns. Jörð var óvenjulega þurr, mikil sina og mosi í rót. Allt logaði þetta glatt og þykir einsýnt að jörðin grói ekki upp fyrr en eftir 2—3 ár. Girðingarstaurar brunnu allir á eldsvæðinu og er talið að þarna hafi brunnið sina á 60—70 hektara svæði. Á þessu svæði voru mikil varplönd og hafa fuglarnir verið grátt leiknir, því að öll hreiður hafa orðið eldinum að bráð. Talið er að ungir strákar hafi kveikt í sinu og ekki séð fyrir hinar geigvænlegu afleiðingar af gerðum sínum.

Tíminn 31.maí segir af vatnsleysi syðra:

Ívar Jasonarson á Vorsabæ, fréttaritari Tímans.í Gaulverjabæjarhreppi. leit inn á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í gær og sagði nokkur tíðindi að austan. Ívar sagði þær fréttir af Flóaáveitunni að búið væri að veita á, en vatn væri af skornum skammti og veldur það bændum nokkrum áhyggjum. Þá kvað hann vegi alla í sæmilegu ástandi nú orðíð en hefðu verið illa færir um og sums staðar ófærir með öllu um sumarmál. Veðurfari hefir verið svo háttað að engin nótt var frostlaus frá sumarbyrjun að hvítasunnu og stundum hefði frostið komist upp í 6 gráður. Síðustu nætur hefir þó verið frostlaust.

Þurrkurinn olli vatnsskorti í Vestmannaeyjum. Tíminn segir frá honum 6. júní. En allgóð hlýindi voru á landinu fyrstu daga júnímánaðar. Síðan kólnaði.

Vatnsleysi er nú alvarlega farið að gera vart við sig í Vestmannaeyjum og þarf að hafa mikið fyrir því að sækja vatn til íbúðarhúsa og fiskvinnslustöðva til þeirra tveggja vatnsbóla, sem helst er gripið til, þegar vatn þrýtur í forðabúrum fólks. Meginhluta vatns er aflað á þann hátt í Eyjum, að rigningarvatn er hagnýtt af húsþökum og því safnað í stóra vatnsgeyma við húsin. Um brunna er vart að ræða, nema  hvað  helsta vatnsbólið er í Herjólfsdal. En þar þrýtur sjaldan vatn með öllu. Nú hafa langvarandi þurrkar orðið þess valdandi, að geymar allir eru tómir að kalla og sumir fyrir nokkuð löngu síðan. Þegar mest hefir hert að í vatnsþurrð í Vestmannaeyjum, hefur orðið að sækja vatn til meginlandsins, en til slíks hefir ekki þurft að koma nú um langt skeið, hvað sem verða kann, ef þurrkar haldast lengi enn.

Um mánaðamótin júní/júlí komu allmargi hlýir og góðir dagar. Gras tók að spretta og horfur urðu betri. En smám saman fór á erfiðari veg fyrir norðan og austan. Síðari hluti júlí og ágústmánuður voru þar kaldir og erfiðir, en syðra var mun betri tíð. 

Þoka er algengust í Reykjavík í júlí, Tíminn segir frá þann 6. en ræðir síðan um góða sprettutíð:

Miklar truflanir hafa orðið á flugferðum hér á landi síðustu dægur. Í gærmorgun og lengi dags í gær voru allir millilandaflugvellimir á Íslandi lokaðir vegna þoku og var svo enn, þegar blaðið fór í prentun síðdegis í gær.

Sprettutíðin síðasta hálfan mánuðinn, svo að segja um allt land, hefir verið svo góð, að grasspretta hefir verið með eindæmum ör. Tún voru snögg og jafnvel grá fyrir þrem vikum, en nú má heita að komið sé ágætt gras og sláttur er víða byrjaður. Mun hann byrja í öllum héruðum landsins í þessari viku.

Um miðjan mánuð leit vel út. Tíminn 18.júlí og síðan áfram:

Heyskapur hefir gengið mjög vel þessa viku, sem er víðast hin fyrsta raunverulega heyskaparvika sumarsins. Blaðamaður frá Tímanum átti í gær símtal við fréttaritara víðs vegar um landið og leitaði fregna af heyskapnum. Samkvæmt upplýsingum í gær, er sláttur nú byrjaður af kappi um landið allt, og víðast hefir það, sem af er þessari viku verið sérlega hentug tíð til heyskapar. Einna best hefir heyskapartíðin verið á Suðurlandinu, en þar má heita að brakandi þurrkur hafi verið alla vikuna það sem af er.

Tíminn 19. júlí:

Hvarvetna um Norðurland eru nú ágætir heyþurrkar og heyskapur er í fullum gangi. Undanfarna viku hefur vart dregið ský fyrir sólu á daginn, hitar hafa verið miklir víða og bændur slá og hirða jöfnum höndum að heita má.

Tíminn 24.júlí:

Það sem af er þessu sumri hefir verið hagstætt landbúnaðinum, segir Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri í viðtali víð Tímann. Grasið hefir sprottið á undrastuttum tíma, svo að segja má að á miklum hluta landsins sé komið gott gras á túnum og flæðiengjum, en norðaustanlands mun horfa einna verst. Þar er mikið kal víða í túnum og sums staðar hafa tún brunnið vegna hinna langvarandi þurrka. Þar mun því einna mest hætta á að gras bregðist. Vorið var kalt og þurrt og greri seint um allt land, segir búnaðarmálastjóri. Í raun og veru fóru ekki vætur að koma, fyrr en seinast í júní eða í júlíbyrjun. Snjóa leysti afar seint nyrðra og það seinkaði öllum vorverkum þar. Þetta þurrkasama vor var bændum erfitt. Víðast um land varð að gefa sauðfé fram yfir sauðburð langt fram eftir júnímánuði. Fyrir 20—30 árum hefði verið stórfelld vá fyrir dyrum við tíðarfar eins og í vor — heyleysi og fellir, en því betur fór ekki svo nú. Vafalaust má þakka það aukinni búmenningu og sívaxandi vélanotkun við bústörf. Grasið hefir þotið upp á stuttum tíma fyrri hluta júlímánaðar, svo að segja má að á miklum hluta landsins sé komið gott gras á túnum og flæðiengjum. Norðaustan lands mun grasspretta vera einna verst. Þar hafa þurrkarnir verið þrálátastir og úrkoman minnst og tún eru þar víða orðin sólbrunnin.

Ritstjórinn minnist ferðar norður í land þetta sumar og undraðist hann nýsnævið í Hlíðarfjalli. Þegar heim var komið birtist þessi mynd í Morgunblaðinu (ljósmyndara ekki getið). Þetta er fyrsta veðurfréttin sem ritstjórinn man eftir að hafa tekið eftir í dagblaði (og finnst því merkileg). 

Slide1

Kuldinn var mikill fyrir norðan og snjóaði í efstu byggðum, en góðar heyskapar- og tíðarfréttir voru af Suðurlandi:

Tíminn 27.júlí:

Bræla var fyrir norðan í gær, og norðaustanátt um land allt Víða snjóaði til fjalla í fyrrinótt, og í Möðrudal var snjókoma og aðeins eins stigs hiti í gærmorgun. Víða um Norðurland var mikil rigning og kuldi. Torfært var um Siglufjarðarskarð í gærmorgun.

Fréttaritari blaðsins á Siglufirði skýrir svo frá í gær, að þar hafi þá verið súld og þoka. Lá mikill hluti flotans þar við land. Snjóaði töluvert í fjöll og  var  Siglufjarðarakarð illfært bifreiðum í gærmorgun. Á Akureyri var í fyrrakvöld mjög kalt í veðri, og gránuðu fjöll niður í miðjar hlíðar um nóttina. Í gær hlýnaði nokkuð, Og rigndi þá mikið.

Morgunblaðið segir af ótíð nyrðra 1. ágúst:

Grundarhóli. Hólsfjöllum. 30. júlí. — Hér er versta ótíð, norðanbræla og rigning og hitinn kemst ekki nema í 6 til 7 stig. S.l. föstudagskvöld snjóaði hér á láglendi og á laugardagsmorguninn var snjórinn það mikill á fjallgörðunum, að bílar þurftu aðstoð til að komast leiðar sinnar.

Næturfrost gerði á stöku stað syðra í kuldakastinu og leit um hríð ekki vel út með kartöfluuppskeru. Tíminn 2.ágúst:

Fréttaritari blaðsins í A-Landeyjum símar: Aðfaranótt þess 28. júlí gerði frost í Landeyjum. Mest var frostið um neðanverðar Austur-Landeyjar. Þar stórsér nú á kartöflugrasi. Kartöflugarðar á þessu svæði eru nær svartir yfir að líta. Einkum blöðin og stöngullinn að ofanverðu hafa kvolast við frostið. -.Ekki var farið að taka upp kartöflur í Landeyjum, en nú virðist uppskerubrestur yfirvofandi. Næturfrost gerði á þessum slóðum fyrir réttum mánuði.

Fréttaritari blaðsins í Gnúpverjahreppi símar: Heyskapur hefur gengið vel í Hreppum og eru nokkrir að ljúka við fyrri slátt. Mikið hey er úti í bólstrum og sæti. Tíðin hefur verið með afbrigðum góð, en þó hefur þurrkurinn ekki verið jafn eindreginn síðast liðna viku.

Tíminn segir af illri tíð nyrðra 13.ágúst:

Svo illa horfir nú um heyöflun í Norður-Þingeyjarsýslu, á Tjörnesi, jafnvel í Aðaldal og nyrstu sveitum Eyjafjarðar, að líkur eru til, að bændur verði að fækka á fóðrum og muni lítið sem ekkert setja á af lömbum í haust. Í Þistilfirði innanverðum er ástandið heldur betra og einnig í Öxarfirði, en í öðrum sveitum N-Þingeyjarsýslu hefir ekki komið þurrkur síðan 17. júlí, og liggur taðan stórskemmd eða jafnvel ónýt á túnum, sums' staðar flöt. Spretta var mjög lítil framan af og tún sums staðar mjög kalin, og hófst sláttur því seint. Þeir, sem allra fyrst byrjuðu, náðu nokkru um eða eftir 10. júlí, en meginhluti túna var sleginn eftir það, og liggur sú taða flöt víða. Oftast hefir verið norðan kaldi og oft þoka, en ekki stórrigningar. Hiti hefir oft verið 4—5 stig að morgni.

Tíminn 24.ágúst:

Enn er ótíð, norðanátt og rigningar á Norður- og Norðausturlandi, og er nú svo komið, að fullkomið vandræðaástand blasir við í ýmsum sveitum Norður-Þingeyjarsýslu og jafnvel víðar. „Það er nú auðséð, að sérstakra ráðstafana til heyöflunar þarf við í mörgum sveitum norðaustan lands,ef víkja á vá frá dyrum og komast hjá verulegri bústofnsskerðingu", sagði Gísli Guðmundsson, alþingismaður, er blaðið átti tal við hann nýkominn úr ferðalagi um Norður-Þingeyjarsýslu.

Með septemberbyrjun hlýnaði mjög í veðri og gerði eftirminnilega blíðu, ekki síst um landið vestanvert. September var víða hlýjasti mánuður sumarsins um landið norðan- og austanvert. Eystra var blautara. Fréttir af landhelgismálinu höfðu allan forgang á aðrar fréttir í fjölmiðlum. 

Tíminn 1.september.

Í sumar hefir talsvert jökulvatn fallið um austanverðan Mýrdalssand og valdið allmiklum trafala á umferð um sandinn. Síðustu dagana hefir þetta vatn vaxið.mikið og rennur nú á 4 km. breiðu svæði. Er þar með öllu ófært fyrir allar bifreiðar nema þær sem hafa drif á öllum hjólum og þó illfært fyrir jeppa. Djúpir álar hafa myndast víða og auk þess mikil sandbleyta. Horfir þarna til mikilla vandræða, og er ekki annað sýnna en sveitirnar austan Mýrdalssands einangrist ef ekkert verður að gert. Vatn þetta mun áður að mestu hafa fallið í Skálm, en hefir nú brotið sér farveg undan Mýrdalsjökli miklu vestar en áður. Þó hefir flugvatn verið í Skálm í allt sumar svo að hér er um óvenjumikla leysingu að ræða. Þess má þó geta að Múlakvísl hefir verið óvenjulega vatnslítil í sumar. Þetta ástand er mjög alvarlegt þar sem hæpið er að leggja á sandinn í öðrum bílum en stórum trukkum. Horfir til mikilla vandræða nema gripið verði til skjótra aðgerða og reynt að bæta úr ástandinu.

Tíminn 13.september:

[Vestur-Skaftafellssýsla] Í sumar var yfirleitt góð heyskapartíð hér í sýslu, en þó voru þurrkar mjög stopulir á allmörgum bæjum og ollu því tíðar fjallaskúrir, og einnig bar nokkuð á kali vegna kulda í vor. Á þessum bæjum, sem eru allir uppi undir fjöllum, er heyfengur og lélegur, jafnvel svo að nálgast vandræðaástand. Á þetta í raun og veru við bæði austan og vestan Mýrdalssands. Á Síðu á þetta við um bæina Hörgsdal, Norðtungu, Heiðasel, Heiði, Holt, Skál og Skaftárdal. Ennfremur á það við um nyrstu bæi í Skaftártungu, svo sem Ljótarstaði, Snæbýli, Búland, Hvamm, Borgarfell og Gröf. í Mýrdal má nefna Heiðarbæina, Falabæi, Gróf, Fellin og Sólheimabæi. Á öllum þessum bæjum nýttust þurrkar mjög illa vegna stöðugra fjallaskúra, og er heyfengur á sumum þeirra svo lítill og skemmdur að nálgast vandræðaástand. Annars staðar í sýslunni má heita þolanlegt ástand hvað fóðuröflun snertir, en þó því aðeins að einhverjir þurrkar komi nú í september.

Staðarsveit, 29. ágúst (Höfuðdag. — Segja má, að í nótt og dag hafi komið fyrstu regnskúrir sumarsins, sem um hafi munað og eiginlega hefir aldrei rignt neitt að ráði, það sem af er þessu ári, hér á sunnanverðu Snæfellsnesi. Heyskapur hefir gengið með afbrigðum vel og er nú lokið að mestu. Þrátt fyrir þurrkana, varð spretta á túnum í góðu meðallagi og útengi vel sprottið víðast. Háarspretta er aftur rýr eða engin og það sama má segja um síðsánar nýræktir. Við höfum notið í ríkum mæli sólríks sumars og með okkur fjöldi ferðamanna og sumargesta

Í septemberblíðunni bötnuðu horfur fyrir norðan. Tíminn 17.september:

Alireikið hefir nú bæst úr skák með heyskapinn á Norður- og Norðausturlandi, því að góðir þurrkar hafa verið þar í viku, bændur búnir að ná meginhluta heyja sinna, bæði hrakningnum og nýslegnu heyi. Er heyskapnum nú að ljúka, enda fara göngur og slátrun í hönd.

Tíminn 18.september:

Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum. Hér hefir nú verið góður heyþurrkur flesta daga í viku, og hefir orðið mikil breyting um heyskapinn. Hafa bændur hirt mikil hey og einnig slegið mikið og eru enn að losa.

Frá fréttaritara Tímans á Hvolsvelli. Flestir eru nú hættir heyskap hér um slóðir, enda hefir engin heyskapartíð verið að undanförnu. Víðast hvar í sýslunni hefir þetta þó verið hið ákjósanlegasta heyskaparsumar, og eru hey því góð en minni að vöxtum en oft áður. Í innanverðri Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum, sérstaklega Austur-Eyjafjöllum á þeim bæjum, sem með fjöllunum standa, hefir þó verið mjög skúrasamt. Bændur á þessum bæjum hafa oft og einátt ekkert getað þurrkað, þótt fólk á næstu bæjum hafi verið í þurrheyi. Á Þorvaldseyri hafa t.d. ekki komið nema 12 þurrkdagar frá 1. júlí. Aftur á móti virðist kartöfluuppsker.a með ágætum, engin frostnótt hefir enn komið, og er fólk nú farið að taka upp úr görðum. Krækiber hafa varla sést í sumar, þykir það tíðindum sæta. Hins vegar er óvenjulega mikið af blá berjum og þau stór og vel sprottin.

Þann 30. september urðu allmikil skriðuföll á Seyðisfirði. Morgunblaðið segir frá þeim þann 1.október:

Austur á Seyðisfirði urðu þrjú meiri háttar skriðuhlaup í gærmorgun, eftir 6—7 klst skýfall, en allar hlupu skriðurnar úr Strandatindi. Manntjón varð ekki, en fólk varð að yfirgefa um 5—10 hús í gærmorgun og þrjú hús urðu fyrir meiri og minni skemmdum og þrær síldarverksmiðjunnar fylltust, er skriða hljóp yfir þær. Það var seinnihluta nætur í fyrrinótt, sem rigningin, er verið hafði allan mánudaginn, jókst svo að um hreint skýfall var að ræða. Strax í gærmorgun tók fólk sem býr í útjaðri bæjarins, þar sem kallað er Strönd, að ugga um hag sinn, því þá munu smáskriður hafa verið teknar að fallá. Fyrir kl. 10 hafði fólkið í húsunum „Skuld“ og „Hörmung“ yfirgefið þau. Um kl. 10 féll á þau skriða og urðu húsin bæði fyrir svo miklum skemmdum að við þau mun tæplega verða gert. Einnig féll skriða á hús Haralds kaupmanns Jóhannssonar og varð það fyrir lítils háttar skemmdum. Önnur skriða féll á síldarverksmiðjuna og grófust síldarþrærnar á kaf í aur og leðju en tjón á verksmiðjuhúsinu varð ekki. Þriðja skriðan féll í gili við símstöðvarhúsið, sem sjálft varð ekki fyrir skemmdum, en grjót og aur er þar kringum húsið og brú á læknum yfir Hafnargötu varð ófær eftir hlaupið. Ekki þótti ráðlegt að símastúlkurnar væru við símþjónustuna meðan aðalskriðuhættan stóð yfir og var Seyðisfjörður að nokkru símasambandslaus árdegis í gær og fram yfir hádegið. Talið er víst að skriður hafi einnig hlaupið á Strandaveg og lokað honum. Eins er talið sennilegt að skriður hafi hlaupið á veginn yfir Fjarðarheiðina. Klukkan að ganga 3 síðdegis dró verulega úr úrfellinu og undir kvöldið hætti að rigna. — Veðurspáin fyrir Austfirði er að aftur muni rigna í dag, en Seyðfirðingar telja nú skriðuhlaupahættuna liðna hjá. — Meðan ósköpin gengu yfir var óhugnanlegt um að litast og mun mörgum hafa orðið hugsað til skriðufallsins mikla 1950, er fimm manns biðu bana þar í bænum, á svipuðum slóðum og skriðurnar hlupu nú á „Hörmung“ og „Skuld“.

Hitamet októbermánaðar í Reykjavík telst 15,7 stig. Lítum aðeins á það mál. Þessi tala var lesin af hámarksmæli á Reykjavíkurflugvelli að morgni 1. október 1958. Síðast var lesið á mælinn kl.18 daginn áður, 30. september. Þá var hiti 15,6 stig, hámark dagsins var 16,9 stig (dægurmet auðvitað). Hámarkshiti síðdegis þann 1. október var 15,4 stig. Hámarkshitamet október í Reykjavík er því í raun og veru sett í kringum kl.18 þann 30. september. Svona eru reglurnar, engin miskunn. Síðan eru liðin meir en 60 ár. Veðurnördin hafa beðið - og bíða enn eftir því að þetta gamla met verði slegið. Hitinn sem mældist síðdegis, 15,4 stig var reyndar hærri en öll önnur hámörk í mánuðinum þar til að hiti komst í 15,6 stig þann 18. október árið 2001 - en ekki tókst þá (formlega) að slá metið. - Það flækir svo málið enn frekar að þennan sama dag, 18. október 2001 fór hiti á sjálfvirku stöðinni á Veðurstofutúni í 15,8 stig. Að viðurkenna það? - Sú stöð ræður þrátt fyrir allt öllu um hita í Reykjavík nú á dögum. 

Slide8

Kortið sýnir háloftastöðuna þann 30.september - dæmigerð hlýindastaða á höfuðborgarsvæðinu, verður ekki öllu betra eftir haustjafndægur. 

Október var góðviðrasamur. Þó er getið um eitt hríðarveður í fréttum og landsynningsrok gerði í Borgarnesi:

Morgunblaðið 16.október:

Árnesi, Suður-Þingeyjarsýslu.  Í norðanstórviðrinu s.l. föstudag [10.] varð svo mikil stórhríð í Bárðardal að fé fennti í kaf. Hjá Víðikeri í Bárðardal fundust 12 kindur í fönn, allar lifandi, og vitað er um 9 kindur, sem hrakist hafa í krap og læki og drepist. Fleira fé getur hafa farið í fönn, en það er enn ekki rannsakað. Í þessu stórviðri urðu miklar bilanir á símalínum, brotnuðu staurar og línur slitnuðu. Var þetta eitt með allra verstu veðrum, sem komið hafa, Hér er enn allt hvítt af snjó, einkum til heiða.

Vísir 21. október:

Síðastliðinn föstudag [17.] fuku allmargar járnplötur af þaki hótelsins í Borgarnesi, en ekki hlaust þó af frekara tjón og ekki meiðsli á fólki. Gerði á föstudaginn allmikið suðaustan veður, en þó síst meira en oft koma á haustin hér um slóðir. Suðaustanveðrum fylgja oft snarpir sviptivindar og svo var einnig á föstudaginn. Alls fuku 14 þakplötur af hótelinu og voru orsakirnar helst raktar til þess að fúi hafi verið kominn í sperrurnar og naglarnir því ekki haft nægilegt hald. [Innskot hungurdiska: Geta má þess að húsið var aðeins fárra ára gamalt - en varð oft fyrir fokvanda - e.t.v. vegna hönnunar]. 

Tíminn lofar tíð 29.október:

Vetur er genginn í garð fyrir nokkrum dögum og október senn á enda. Haustið er því í raun og veru liðið, og það fer ekki lengur milli mála, að íslendingar hafa lifað eitt hið mildasta haust, sem komið hefir hér á landi á þessari öld. Aðeins ein frostnótt hefir enn komið, og mun það mjög fátítt. Sumarhlýindi eru um allt land dag eftir dag, gras í sprettu, blóm springa út og ber eru óskemmd. Samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar var september með allra hlýjustu septembermánuðum á þessari öld. Október hefir að sínu leyti ekki verið síðri, en hitameðal tal hans er þó ekki búið að reikna út enn. Blaðið átti í gær og fyrradag tal við nokkra fréttaritara sína í ýmsum landshlutum og fékk hjá þeim yfirlít um tíðarfarið. Fréttaritari blaðsins á Hvolsvelli sagði, að fram undir þetta hefði há á túnum verið að spretta og þau væru enn hvanngræn. Kýr hafa verið látnar út fram að þessu víða. Nokkuð vætusamt síðustu vikur en ekki stórrigningar. Flest haust hafa margar frostnætur verið komnar um þetta leyti, en nú aðeins ein. Þetta mun eiga við á öllu Suðurlandi, enda hafa fréttaritarar á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal og i Árnessýslu mjög sömu sögu að segja. Fréttaritari Tímans á Egilsstöðum sagði, að í gær hefði verið rigning og stormur síðustu daga, og hefði þá lauf farið mjög af skógum, sem staðið hefðu vel laufgaðir fram undir þetta. Tún eru græn, og gras sprottið einkum á nýræktun fram að þessu. Kúm er mjög víða beitt. Sauðfé hefir haldið sig mjög á heiðum og verið erfitt að ná því heim í haust, síðasta smalamennska til slátrunar staðið yfir síðustu daga. Auðir vegir, einnig um Oddsskarð, sem er hæsti fjallvegur landsins, eru færir sem að hásumri. Þetta hefir verið einmuna veðurblítt haust. Fréttaritari Tímans á Húsavík sagði, að þar væri kúm enn beitt, t.d. frammi í Reykjadal og vafalaust víðar. Háin hefir verið að spretta fram að þessu, snjóföl það sem kom í fjöll í smáhreti fyrir nokkru, er horfið og sumarsvipur yfir Öllu. Þó var komin kaldari norðanátt í gær. Fólk hefir farið í berjamó síðustu daga, t.d. frammi í Hvömmum og tínt óskemmd og sumarfögur aðalbláber. Fréttaritari Tímans á Sauðárkróki símaði blaðinu í gær, að stöðug hlýindi hefðu verið þar nyrðra það sem af er þessum mánuði. Hann sagði, að jörð hefði verið að gróa fram að þessu, að minnsta kosti á ræktuðu landi. Fréttaritari hafði tal af bónda framan úr sveit í gær, og sagðist bóndinn hafa séð nýútsprungna sóley á túni sínu þá daginn áður. Til marks um veðurblíðuna má geta þess, að síðastliðinn sunnudag var hitinn ellefu stig á Sauðárkróki, klukkan fimm síðdegis. Tíðin hefir verið vætusöm með þessum hlýindum. Allar skepnur liggja enn úti, og kúm er enn beitt. Ekki er hægt að segja, að frost hafi komið það sem af er mánuðinum, í mesta lagi eina eða tvær nætur, en þó ekki svo, að þess gæti á gróðri.

Fréttaritari Tímans á Ísafirði símaði blaðinu í gær, að vetur hefði gengið þar í garð með eindæma hlýindum, en á síðasta vetrardag var 8—10 stiga hiti á Ísafirði. Veður hefir verið afar milt vestra í október og tæplega hægt að segja að snjóað hafi í fjöll allan mánuðinn. Það hefir aðeins einu sinni komið fyrir að þurft hefir að hreinsa lítillega snjó af veginum yfir Breiðadalsheiði, sem hefir iðulega verið teppt um þetta leyti, eða þá að búið hefir verið að moka. Gras er allt iðjagrænt enn þá, ... Á Vesturlandi, í Borgarfirði og suðvestan lands er sömu sögu að segja og frá þeim stöðum, sem getið hefir verið. Þar er alls staðar sumartíð, gras grænt, ber óskemmd, blóm í görðum. Þetta er orðið eindæma gott haust.

Hálka lá þó í leyni. Tíminn 31.október:

Í gærmorgun, er menn komu á fætur hér í bæ, var komin svellgljá yfir allar götur. Hafði rignt en síðan fryst og hlaupið í svell. Menn héldu af stað til vinnu, en margur fékk skell eða rann af leið. Bíleigendur settust undir stýri, en ökuferð margra varð stutt. Bílarnir runnu út af, á garða og girðingar og jafnvel hús. Nokkrir bílaárekstrar urðu einnig en slys urðu ekki á mönnum. Urðu bílstjórar að skilja við bíla sína og taka til fóta. Var það heldur böksulegt að sjá til fólks, sem á ferli var. Ekki er þess getið, að neinn hafi gengið á mannbroddum, enda slík þarfaþing flest týnd nú á dögum. Í nótt sem leið snjóaði lítils háttar og er jörð nú alhvít, einnig hér í bænum. Hálkan er minni, því að svell og föl hafa runnið saman. Veður er gott, og enginn teljandi snjór er enn á heiðum. ED

Nóvember varð einstaklega votviðrasamur og þáverandi úrkomumet slegin. Hvasst var með köflum. Þjóðviljinn segir frá 5.nóvember:

Borgarnesi. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Í fyrradag var hér afspyrnurok og bilaði rafmagnslínan um 5 km frá Borgarnesi í fyrrakvöld og var viðgerð ekki lokið fyrr en um sexleytið í gærkvöldi. Veðurofsinn hér í Borgarnesi var slíkur að ekkert viðlit var að reyna að gera við raflínuna í fyrrakvöld. Sátu Borgnesingar í myrkri — og kulda — Þar til bráðabirgðaviðgerð var lokið í gærkvöldi. Um 5 km frá Borgarnesi lögðust tveir staurar á hliðina undan rokinu og kviknaði i þriðja staurnum og mun hafa brunnið um 1 m ofan af honum. Raflínan var tekin úr sambandi hjá Hvanneyri, og hafði Hvanneyri og sveitirnar því ljós. Rokið bar mikið særok og seltu inn yfir landið. Aðrar skemmdir af völdum roksins urðu ekki teljandi, nema ýmislegt lauslegt fauk og girðingar brotnuðu smávegis.

Tíminn 11.nóvember:

Það er ekki kuldatíðin þessa dagana. Þótt hann frysti sem snöggvast fyrir helgina, rann hélan af á sunnudaginn, og í gær voru komin hlýindi sem i júní væri. Norðan lands var þurrt veður. sunnanátt nokkuð hvöss sums staðar, en hitinn 12—15 stig. Fyrir hádegið voru t.d. 15 stig á Siglunesi og í Fagradal i Vopnafirði, en 14 stig á Akureyri. Þetta er eitt hið hlýjasta nóvemberveður er hér getur.

Mesta vatnsveðrið gerði þann 17. til 18. Þá lá mjög hlýr og rakur loftstraumur langt sunnan úr höfum til landsins, eins og kortið hér að neðan sýnir. Að morgni þess 18. mældist sólarhringsúrkoma á Stóra-Botni í Hvalfirði 184,6 mm og 165,3 mm í Andakílsárvirkjun. Talsverðar skemmdir urðu af vatnagangi og skriðuföllum, einkum á vegum. 

Slide9

Morgunblaðið 19.nóvember:

Í gærdag í 4. viku vetrar var vorveður um land allt. í gærkvöldi var 6—12 stiga hiti, hlýjast á Dalatanga 12 stig, 11 á Egilsstöðum og hér í Reykjavík var 9 stiga hiti. Í fyrrakvöld og nótt var geysileg rigning um allt suður- og vesturlandið. Sem dæmi um þá feikna úrkomu, sem var, má geta þess að milli kl. 5 í fyrrakvöld og þar til klukkan 8 í gærmorgun, rigndi 56 millimetra vestur í Kvígindisdal, 53 vestur í Stykkishólmi, austur á Hellu á Rangárvöllum hafði rignt 37 millimetra. Víða hafði úrkoman mælst milli 25 og 30 millimetrar, en hér í Reykjavík rigndi „aðeins“ 19 millimetra. Í dag er búist við áframhaldandi suðlægri átt, en um vestanvert landið mun verða svalara veður en í gær, en búast má við óbreyttu vorveðri um Austfirðina.

Valdastaðir í Kjós 18. nóvember: Eftir stórfellda rigningu undangenginn sólarhring og ofsaveður af suðri og suðvestri, varð flóð svo mikið hér í Laxárdalnum í nótt, að dalurinn var allur á kafi fjalla á milli. Fé og hross voru á engjum, einkum þó norðan Laxaár. Fé og hestar leituðu undan flóðinu upp á hæstu hóla, en veðurofsinn hefir þó hrakið eitthvað af kindum út í flóðið. Strax með birtingu var farið að huga að fénu og bjarga því upp á land og gekk það allgreiðlega. Fundist hafa sex kindur drukknaðar og voru þær frá Sogni og Valdastöðum. Er ekki vitað með vissu hvort fleiri bændur hafi misst kindur í flóðinu. Hrossin syntu til lands strax eftir að bjart var orðið Dg mun ekkert hross hafa drukknað. Þetta er mesta flóð, sem orðið hefur í Laxárdal svo menn muni. Í dag hefur úrkoman verið minni og síðdegis mátti sjá að vatnið hafði nokkuð lækkað.

Ísafirði 18. nóv. — Í gærkvöldi og í nótt var hér með fádæmum mikil rigning. Á augabragði tók upp allan snjó, sem hér hafði fallið. Göturnar næst hlíðinni grófust brátt í sundur vegna vatnselgs. Er æði langt síðan annað eins úrfelli hefur komið hér. Vegna rigningarinnar spilltist Bolungarvíkurvegurinn svo og Súðavíkurvegur, en á vegina hlupu skriður og vatn gróf þá í sundur. Í dag er verið að lagfæra vegina og opna fyrir umferð á ný. Hér er nú vorveður, logn og 7 stiga hiti. — GK.

Vestmannaeyjum 18. nóv: Hér hefur verið mjög stormasöm tíð undanfarið og hefur ekkert verið á sjó farið. Rigningar hafa verið stórfelldar suma dagana og í þessum veðraham hefur veðurhæðin á Stórhöfða komist upp í 13 vindstig. —Bj. Guðm.

Morgunblaðið 20.nóvember:

Stykkishólmi 19. nóv. — Margar skriður hafa fallið á Skógarstrandaveginn, í Narfeyrarhlíðinni, ræsi farið af veginum inn á Skógarströnd og vegurinn skemmst. Á Bjarnarhafnarveginum í Helgafellssveit, fyrir innan Berserkjahraun fór 8 m breitt skarð úr 6 m. háum vegi. Vegurinn til Grundarfjarðar er allur erfiður og sums staðar ófær. Vörubifreið frá Landssímanum, sem var að koma frá Grafarnesi, á leið til Reykjavíkur, festist og varð ýta að koma henni til hjálpar. Sagði bílstjórinn veginn mjög erfiðan.

Morgunblaðið 21.nóvember:

Í vatnsveðri því, sem gengið hefur yfir Vesturland að undanförnu hafa orðið talsverðar skemmdir á vegum vegna skriðufalla og brögð orðið að því að lækir brytu skörð í vegina. Morgunblaðið átti í gær tal við Árna Pálsson, yfirverkfræðing hjá Vegamálastjórninni, og sagði hann að unnið væri að því að gera við þessi spjöll og mundu vegirnir yfirleitt komast aftur í samt lag innan fárra daga. Skemmdir urðu t.d. í Grundarfirði, nálægt Setbergi og austan Stykkishólms, fyrir ofan Narfeyri. Er þar unnið að viðgerðum. Einnig hafa orðið skemmdir á vegum í Dölum. Hörðudalsá braut skarð í veginn við brúna. Sama er að segja um Reykjadalsá, hún braut skarð í veginn Búðardalsmegin. Í gær fóru stærstu bílar um veginn þarna, og búist er við að fært verði öðrum bifreiðum um leið og sjatnar í ánum. Nálægt Ólafsdal í Gilsfirði urðu spjöll á vegi, en það kemst fljótlega í lag. Á Vestfjörðum urðu talsverðar skemmdir á vegum. í Patreksfirði fóru skörð úr veginum báðum megin við brúarstólpana í Skápadalsá. í Tálknafirði er vegurinn ófær á kafla. Við Dýrafjörð og Önundarfjörð var mikið um skriðuföll. Standa vonir til að þessar vegir komist í lag eftir fáa daga. Inni í Ísafirði er sömu sögu að segja, og verður hafist handa eftir 2—3 daga um viðgerðir á vegunum.

Þúfum Norður-Ísafjarðarsýslu 19. nóv. — Mánudagskvöldið 18. þ.m. og nóttina þar á eftir var hér óhemju slagveður með geysilegri úrkomu, svo vart hefir komið annað eins um langan tíma. Skemmdir urðu miklar á vegum og skriður féllu. Stór svæði austan brúar á Botnsá í Mjóafirði skoluðust burtu, en brúna sakaði ekki. Brúna tók aftur á móti af Gljúfurá í Mjóafirði. Um 30 skriður féllu í Eyrarhlíð og er vegurinn alveg ófær. Þá féllu skriður á Botnshlíð og skemmdist vegurinn mikið. Vatnsflóð og skriðuföll urðu nálægt Galtahrygg og Heydal, en það olli ekki stórskemmdum. Smáar óbrúaðar ár urðu ófærar og vatnagangur var mikill alls staðar. — P.P.

Skriðuklaustri 19. nóv. — í gær var hér ofsaveður af suðri og 13 gráðu hiti, en í dag er lygnara, og mikil hlýindi. Haustveðrátta hefur verið óvenju mild og hægt að vinna að steinsteypu og jarðvinnslu lengst af. Sauðfé gengur allt sjálfala nema hrútar.

Akranesi 20. nóv. — Ég átti tal við Pétur Þorsteinsson á Mið-Fossum í Andakíl í dag, og sagði hann að þar upp frá hefði rignt feiknmikið tvo undanfarna sólarhringa. Hefði Skorradalsvatn brotið stíflugarðinn og flætt yfir bakka Andakílsár og renniskurðarins, sem liggur samhliða ánni nokkru sunnar. Hefir svo mikið vatn safnast neðst í Indriðastaðaflóa og á milli brúnna, að þarna er alófært sums staðar, og hefur verið svo í þrjá daga. Utarlega í miðjum Skorradal flæðir vatnið yfir veginn, sem liggur þar mjög lágt. Eina leiðin sem nú er hægt að fara upp í Skorradal, er að sunnanverðu í dalnum, og er hún aðeins fær stórum bílum. Hjá Hvítárvöllum hefur vatn úr Hvítá flætt upp á bakkana og þar er ófært eins og er. Undir venjulegum kringumstæðum verður vegurinn hjá Hvítárvöllum ekki ófær af vatnavöxtum, nema snjór sé kominn í fjöll, að því er Pétur bóndi sagði. — Oddur.

Morgunblaðið 4.desember:

Kirkjubæjarklaustri 29. nóv. — Tíðarfar hefur verið meðafbrigðum gott í haust og það sem af er vetri, stöðug hlýindi og yfirleitt stillt veður. Hins vegar hefur verið mikið um úrkomur og það svo að sumir af þessum skammdegisdögum hafa helst ekki verið annað en myrkur og vatn — vatn og myrkur. Engar skepnur eru komnar á gjöf nema kýrnar og þeim var beitt fram í lok októbermánaðar. Óvenju mörg lömb drápust úr bráðapest í haust og hafa sum heimili orðið fyrir tilfinnanlegum skaða af völdum hennar. Þess má geta t.d. að á einum bæ drápust 16 lömb. Höfðu þó lömbin á þessum bæ verið bólusett um leið og markað var í vor. — G.Br.

Akureyri 3. des. — Veðurfar hefur verið mjög sérstætt á þessu hausti og það sem af er vetrar, og má segja að ekki hafi borið á vetrarveðri fyrr en í dag. Raunar hefur veðráttan verið óvenjuleg í allt sumar. T.d. var maímánuður einn hinn kaldasti, sem verið hefur hér á Akureyri í fjölda ára. Þá var meðalhiti 2,9°. Hins vegar var nokkurn veginn meðalhiti í júní og júlí, en aftur á móti var ágústmánuður kaldur, 7,9° meðalhiti. Septembermánuður var heitasti mánuður sumarsins, með 10,1 meðalhita. Október hafði 5° meðalhita, en nóvember 3,3°. Hiti þessara þriggja mánaða er langt fyrir ofan meðallag. Þess má geta að stöðug  norðan og norðlæg átt helst hér á Akureyri allt frá nóvembermánuði í fyrra og þar til í september í haust. Í vor var t.d. aldrei sunnan hláka, og allan snjó tók upp með sólbráð. Þetta er skýringin á því að vegir komu óvenju vel undan vetri og skemmdust lítið í vor. Einnig var sumarið í sumar venju fremur þurrkasamt og úrkoma talsvert fyrir neðan meðallag. Segja má að nú í haust hafi tún verið í sprettu allt fram undir þennan dag, og enn má sjá iðjagrænar nýræktir. Suðlæg átt hefur haldist stanslaust frá því viku af september. Afleiðingarnar af þessari góðu veðráttu eru m.a. tvær: Kartöfluuppskeran varð í meðallagi og bjargaði septembermánuður henni. Heyskapur var undir meðallagi í sumar, en haustið bætir
þetta að nokkru, enda var kúm beitt að minnsta kosti hálfum mánuði lengur en venjulega. Enn er sauðfé beitt, en það er jafnaðarlega komið fyrir nokkru á fulla gjöf á þessum tíma. Ennfremur ganga kálfar og geldneyti með nokkurri gjöf. Jörð er ófrosin, sem að líkum lætur, og hefir verið hægt að vinna að jarðyrkju fram á þennan dag. Eina fölið, sem komið hefur á haustinu, féll 9—10 október, en tók skjótt upp. Síðan hefur ekki verið teljandi snjókoma fyrr en í dag. Ekki hafa bílar þurft að hafa keðjur nema þá vegna ísingar að morgni, þá aðeins skamma stund. Verður því ekki annað sagt en að vetur gangi vel í garð hér á norðurlandi.

Tíminn 4.desember

Tuttugu og fjórar tegundir jurta alblómgaðar. Þetta er jafnt í görðum sem á víðavangi, slík blómatíð hefir ekki verið hér á landi í byrjun desember síðustu áratugina. Það var hvassviðri og éljagangur um allt land í gær. Kaldara og hryssingslegra en verið hefur, og er ef til vill lokið einum mesta hlýviðriskafla, sem komið hefur hér á landi í nóvember á þessari öld. Jörð er enn marþíð um allt land og tún víða græn, og blómin hafa sprungið út hvert af öðru. Ingólfur Davíðsson, grasafræðingur sagði blaðinu t.d. í gær að í fyrradag, 2. des., hefði hann talið 24 tegundir blómgaðra jurta i görðum og á víðavangi í Reykjavík og nágrenni. Og þetta er ekki eitt og eitt blóm á stangli, heldur blómafjöldi. Meðal þessara blómguðu jurta má nefna túnfífil, gulbrá, bellis, stjúpublóm og þrjár grastegundir. Þetta er um allan bæ. Ingólfur segir að þetta sé meiri blómgun, en sést hafi hér á landi 2. des. áratugum saman. Fyrir allmörgum árum voru allmargar tegundir með blómi 24. nóvember en nú eru þær miklu fleiri. Hætt er samt við, að blómin falli í þessu veðri, sem nú er skollið á. Hvítkál og fleiri káltegundir standa enn óskemmdar í görðum.

Morgunblaðið birti enn fréttir af hausttíðinni 14.desember:

Borgarfirðir eystra, í nóvemberlok: — Svo mikil veðurblíða var hér framundir nóvemberlok, að eldri menn telja sig vart muna svo milda haustveðráttu. Aðeins tvisvar hefur föl komið á jörð í byggð og stóð stutt í bæði skiptin. Frost hafa lítil verið, og oftast frostlaust nótt og dag. Jarðvinnsla hefur því verið í fullum gangi, tún græn yfir að líta og kýr úti á einstaka bæ, sauðfé í.sumarhögum.

Þann 3. desember skipti aftur um. Þá gerði mikið vestanveður um mestallt land og kólnaði verulega. Blöðin birtu enn fréttir af hagstæðri hausttíð. Furðulítið foktjón varð í þessu mikla veðri. 

Tíminn 3.desember:

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Einmuna veðurblíða hefur verið hér undanfarna daga. Snjór er horfinn úr fjöllum og bílfært er til Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Hefur slíkt aldrei komið fyrir á þessum tíma árs, síðan vegurinn var lagður.

Tíminn 4.desember:

Vestan stórviðri og sums staðar fárviðri var um allt land í gær, víðast með éljum. Ekki var þó vitað um teljandi tjón af veðrinu. Skip hafa þó víða tafist, en bátar voru flestir í höfn. Í byljunum fór veðurhæðin oft í 14 vindstig, en var víðast 10—12 vindstig. Veðurstofan gerði ráð fyrir, að heldur mundi hægja í nótt. Slysavarnafélaginu hafði engin beiðni borist um hjálp í veðri þessu í gærkveldi.

Í gær var versta veður á miðunum og voru togarar ekki að veiðum af þeim sökum. Út af Glettinganesi voru síðdegis í dag 13 breskir togarar; Þarna var vestan ofsarok, en hinsvegar ekki mikill sjór. Létu bresku togararnir reka þarna, eða héldu sjó ásamt tundurspillinum Diamond. Voru skipin 4—6 sjómílur frá landi. Þess má geta, að varðskipið, sem þarna var, mældi um kvöldið yfir 14 vindstig í hryðjunum.

Morgunblaðið 4.desember:

Suðvestanrok gekk yfir mikinn hluta landsins í fyrrinótt. Ekki hafa fregnir borist af neinu verulegu tjóni. Hér í Reykjavík komst veðurhæðin upp í 11 vindstig, en var á milli hvassara hér í bænum. Laust eftir hádegið var því veitt eftirtekt að skrokkur skipsins Íslendingur, sem legið hefur við bauju á Viðeyjarsundi, slitnaði upp og rak hann á land í Viðey. Í gærkvöldi hafði veðrið slitið niður og laskað jólaskreytinguna í Austurstræti. Í gærmorgun fór héðan frá Reykjavík til Keflavikur olíuskipið Þyrill.Hreppti hann versta veður á leiðinni. Var hvorki meira né minna en 7 klukkustundir að sigla þennan spotta, en leiðin mun vera um 20 sjómílur. Í gærkvöldi tilkynnit hafnarskrifstofan hér að innsiglingarvitinn í Engey hefði bilað. Rekja menn orsakirnar til óveðursins. Í gærkvöldi taldi veðurstofan allar horfur á að veðrið myndi hægja í nótt, vindáttin snúast til norðvestanáttar.

Slide10

Kortið sýnir þessa miklu vestanátt - og umskiptin. Lægðin við Nýfundnaland fór yfir landið þann 6, en var þá úr henni allur kraftur. Síðan ríktu norðaustan- og austanáttir út mánuðinn. Miskaldar nokkuð. Um jólin hlánaði um stund. Undir miðjan mánuð fóru að berast fréttir af ófærð. 

Morgunblaðið 12.desember:

Akureyri, 11. des. — Undanfarið hefur snjóað hér nokkuð á hverjum degi og sett niður talsverðan snjó, en hann er jafnfallinn og ekki rekið í skafla, svo umferð á vegum hefur ekki teppst svo heitið geti. Þó er þung færð fyrir smærri bíla á vegum úti. Allir mjólkurbílar komu til mjólkursamlagsins hér í bæ, í morgun, en sums staðar voru „trukkar" notaðir til flutninganna svo sem frá Dalvík. — Áætlunarvagnar Norðurleiðar fengu þæfingsfærð á Öxnadalsheiði norðanverðri í gærkveldi og þar var kafald og blinda. Ekki tafðist vagninn þó að neinu ráði. Áætlunarbíllinn frá Húsavík rann út af veginum á Vaðlaheiðarbrún austanverðri vegna hálku. Þurfti að sækja bil honum til aðstoðar og náðist bíllinn ekki upp aftur fyrr en eftir um 3 klst. Enginn meiðsli urðu á mönnum né heldur skemmdir á bílnum. Í dag er hér stillt veður og bjart og úrkomulaust og frost komist niður í 9 stig. — vig

Alltaf er jafneinkennilegt hvað blíðan gleymist fljótt komi nokkrir dagar með hryssingslegu veðri. Svo virðist hafa verið ef við tökum mark á orðum Morgunblaðsins 20. desember:

Það liggur við að fólki þyki sem yfirstandandi norðaustan kuldi, hafi staðið vikum saman. Allir býsnast yfir hinni kuldalegu veðráttu. En Veðurstofan sagði Mbl. í gærdag, að það væri ekki að sjá að í vændum væri breyting fyrr en eftir helgina, í fyrsta lagi. Hinn kaldi loftstraumur, sem liggur hér yfir landið, er ósvikinn pólkuldi. Hann nær ekki mjög langt suður fyrir landið. Það er lægð, sem nærri er kyrrstæð suður í hafi og háþrýstisvæðið yfir Grænlandi, sem veldur þessari stöðugu norðaustanátt.

Morgunblaðið 23.desember:

Akureyri 22. des. Stöðugt þyngir nú færð hér norðanlands, enda snjóar meira og minna dag hvern. Veður er hins vegar fremur milt og frostlítið. Hægviðri eru i innsveitum, en hvasst hefir verið með ströndum fram. Mjólkurflutningar ganga nokkurn veginn reglulega enn sem komið er. Framan úr Eyjafirði ganga venjulegir vörubílar, enda er færð þaðan ekki þung ennþá. Aftur á móti er illfært eða alls ófært úr ýmsum útsveitum Eyjafjarðar. Vegurinn til Dalvíkur er alveg lokaður, og er mjólk úr Svarfaðardal flutt sjóleiðis til Akureyrar. Úr Arnarneshreppi hafa trukkar brotist til Akureyrar og sömuleiðis af Svalbarðsströnd. Ófært er út í Höfðahverfi. Ekki er að óttast um skort á mjólk eða rjóma hér um jólin. Heiðavegir eru sumir hverjir enn sæmilega færir, en hins vegar eru dalirnir, sem að þeim liggja víðast ófærir. Svo háttar t.d. um Öxnadalsheiði. Sjálf er hún fær, en Öxnadalur alls ófær. Bifreiðar Norðurleiðar hafa átt erfiða ferð nú um helgina. Kl. 5 í dag kom bifreið hingað til bæjarins með 30 farþega, og höfðu sumir þeirra verið á ferð sunnan úr Reykjavik frá kl. 8 á laugardagsmorgun eða í 56 klst. Þeir gistu þó á Blönduósi vegna óveðurs. Aftur á móti höfðu þeir farþegar, sem lögðu upp frá Reykjavík í gærmorgun, verið 33 klst. á stöðugu ferðalagi. Erfiðasti hluti leiðarinnar var frá Varmahlíð til Akureyrar og tók hann 13 klst Ráðgert er, að síðasta ferðin landleiðis héðan til Reykjavíkur hefjist í kvöld kl. 7.30. Vaðlaheiði var í gær farin á jeppum, en í dag hefir færð þar þyngst að mun. Kinnavegur er ófær orðinn, og Ljósavatnsskarð að lokast. Má því segja, að þeim, er vilja komast heim til sín um jólin, gangi skrykkjótt ferðalagið á landi. Flugferðir hafa einnig tafist. A laugardaginn var ekkert flogið hingað til Akureyrar. Í gær heyrðu bæjarbúar í flugvél hér yfir um hádegið, en hún varð að snúa við og lenti á Sauðárkróki. Um miðnætti í nótt komst hún hingað til Akureyrar. — vig.

Tíminn 24.desember:

Frá fréttaritara Tímans í Ólafsfirði i gær: Hér hafa verið stanslausar norðaustanhríðar síðasta hálfan mánuðinn, og síðustu tvo dagana stórhríð. Kominn er geysimikill snjór og allir vegir ófærir bifreiðum fyrir löngu. Bændur úr sveitinni hafa ekið mjólk til bæjarins á hestasleðum og hefir það gengið sæmilega þangað til í fyrradag og gær, en þá kom mjólk aðeins frá næstu sveitabæjum. Í dag er heldur skárra veður, og komust þá flestir en þó með miklum erfiðismunum. Flóabáturinn Drangur var veðurtepptur tvo daga á Siglufirði. Í fyrradag gerði hann tvær tilraunir til að komast út úr firðinum og ætlaði til Sauðárkróks og Grímseyjar, en varð að snúa aftur í bæði skiptin. Í dag komst hann leiðar sinnar, og fengu Grímseyingar þá jólapóst sinn og ferðamenn, sem í landi voru. komust heim til eyjar.

Morgunblaðið 24.desember:

Allt útlit er fyrir, að þíðviðri verði víðast hvar um landið um jólin — og verður sunnan- og suðaustanátt sennilega ríkjandi, að því er veðurstofan tjáði Mbl. í gærkvöldi.

Mjög djúp og víðáttumikil lægð fór til austurs fyrir sunnan land milli jóla og nýárs, en olli ekki verulegu veðri hér á landi. 

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1958. Að vanda má sjá ýmsar tölulegar upplýsingar, meðalhita og úrkomusummur í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kaldur dagur

Gærdagurinn, sunnudagur 26. júní varð býsna kaldur á landinu. Meðalhiti í byggð var 6,2 stig, um -4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Það er býsna mikið og þetta kaldir dagar eru ekki algengir í síðustu viku júnímánaðar. Við finnum þó kaldari daga, jafnvel þann 26. í þeim gögnum sem við eigum á lager um daglegan hita í um 70 ár aftur í tímann. Við eigum hins vegar engan jafnkaldan 26. júní á þessari öld. Lægsti landsmeðalhiti sem við vitum um þann 26. var 1989. Þá var hiti um 1 stigi lægri heldur en nú, 5,2 stig - og aftur ámóta árið eftir, 1990, 5,3 stig. Það sama á við ef við reiknum meðalhámarks- og lágmarkshita, enginn ámóta kaldur 26. júní er á öldinni (það sem af er). 

Ef við víkkum sjónarhornið lítillega og horfum á alla síðustu viku júnímánaðar birtist einn ámóta kaldur dagur í safninu. Það er 24. júní 2004. Þá var meðalhiti nær hinn sami og nú - og í lengra safninu finnum við 14 kaldari daga. Kaldastur þeirra var Jónsmessan 1968 (24.júní), meðalhiti á landinu var þá aðeins 3,6 stig. 

Staðan í háloftunum nú er sérstök að því leyti að ekki er sérlega kalt í efri lögum (t.d. í 500 hPa), kuldinn einskorðast fyrst og fremst við lægsta hluta veðrahvolfsins - og reyndar einkum á tiltölulega litlum bletti - sem kortið hér að neðan sýnir. 

w-blogg270622a

Hiti yfir Keflavík fór niður í -2,4 stig í 850 hPa síðastliðna nótt (aðfaranótt 27.). Hann hefur alloft farið neðar í þessari síðustu viku júnímánaðar, t.d. bæði 2017 og 2018. Sjaldgæft er hins vegar að hann fari jafn neðarlega og lægsta talan sem við sjáum á kortinu, -5,6 stig yfir Drangajökli. Við vitum aðeins af einu tilviki með svo lágum hita í 850 hPa yfir Keflavík í síðustu viku júnímánaðar. Það var í Jónsmessuhretinu 1992 að hiti mældist -5,7 stig. Höfum í huga við túlkun talna að norðanáttin á Vestfjörðum verður að fara yfir fjöllin, loftið lyftist og kólnar við það - eins konar aukakuldi sem minni líkur eru á að finna yfir Keflavík.

Það sem var dálítið sérstakt í gær var að þykkur, hægfara útkomubakki var yfir mestöllu landinu. Hann kom í veg fyrir það að landið nyti góðs af sólaryl yfir hádaginn. Úrkoman í bakkanum hóf feril sinn (eins og venjulega) sem snjór. Mikinn varma þarf til að bræða hann. Þar sem úrkoma var hvað mest komst snjórinn lengst niður. Það var t.d. athyglisverður munur á „snælínunni“ í morgun í Esju (nærri því snjólaus) og í Skarðsheiði (snælína niður fyrir 600 metra) - og snjó mun hafa fest á Holtavörðuheiði, niður fyrir 300 metra hæðarlínu. 

Það lagðist því flest á eitt við að koma hitanum niður. Kalt loft hefur verið yfir landinu í nokkra daga - það hefur birt til sumar nætur og næturfrost varð óvenjuútbreitt aðfaranótt laugardags. Frost mældist þá á 9 stöðvum í byggð (um 8 prósent stöðva). Svo hátt hlutfall er sjaldséð í síðustu viku júnímánaðar. Hiti náði 10 stiga hámarki á aðeins 38 prósent stöðva. Skíkt hlutfall telst sérlega lágt. Var þó ámóta eða lægra 25.júní 2004. Svo sýnist sem eitt landsdægurlágmarksmet í byggð hafi verið sett þegar hiti fór niður í -2,8 stig á Haugi í Miðfirði aðfaranótt þess 25. Gamla metið nokkuð gamalt, sett á Grímsstöðum á Fjöllum 1944, -2,6 stig. Það er nú samt nokkuð langt niður í lægsta hita í byggð í síðustu viku júní, -4,0 stig sem mældust á Staðarhóli i Aðaldal, þann 29. 1989. 

Í Reykjavík var meðalhiti dagsins í gær (26.) 6,8 stig. Í langri (en misáreiðanlegri) röð mælinga í borginni vitum við um þrjá kaldari 26. júní, það var 1940, 1978 (6,7 stig) og 1886 (5,7 stig). Ef við leitum í síðustu viku júnímánaðar allri finnum við 20 kaldari daga en gærdaginn. Kaldastur var 27. júní 1886, meðalhiti þá 4,6 stig. 

Á Akureyri var meðalhiti gærdagsins 5,2 stig. Þar vitum við um einn jafnkaldan 26. og þrjá kaldari. Við eigum dagleg gögn frá og með 1936. Kaldastur var sá 26. árið 1940, meðalhiti 3,8 stig. Kaldastur daga í síðustu viku júní á Akureyri er sá 24. árið 1968, meðalhiti 2,7 stig, miklu kaldari en nú. Alls finnum við tvo jafnkalda og 17 kaldari daga en nú í síðustu viku júnímánaðar á Akureyri frá og með 1936. 

Í Stykkishólmi eigum við dagleg gögn aftur til 1846. Meðalhiti í gær var 6,1 stig, á lista yfir hita þann 26. júní eru tveir jafnkaldir gærdeginum, en 5 kaldari. Kaldastur varð sá 26. árið 1907, meðalhiti 4,9 stig. Ef við leitum að kaldasta degi í síðustu viku júní í Hólminum finnum við þann 24. árið 1968, meðalhiti þá var aðeins 3,2 stig. 

Já, dagurinn í gær var óvenjukaldur, eftir flestum mælikvörðum sá kaldasti í síðustu viku júnímánaðar á þessari öld, en á fyrri tíð má finna allmarga kaldari (en samt ekkert óskaplega marga). 

Þess má að lokum geta að hiti það sem af er mánuði er enn ofan meðallags 1991-2020 á Akureyri, en lítillega neðan þess í Reykjavík. 


Fyrstu 20 dagar júnímánaðar

Meðalhiti fyrstu 20 daga júnímánaðar er 9,8 stig í Reykjavík, +0,4 stigum ofan meðallags áranna 1991-2020, og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 13.hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2002, meðalhiti þá 11,5 stig, en kaldastir voru þeir árið 2001, meðalhiti 7,8 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 25. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjast var 2002, en kaldast 1885, meðalhiti þá var 6,6 stig.
 
Meðalhiti á Akureyri er nú 10,6 stig. Það er +1,6 stigi ofan við meðaltal sömu daga 1991 til 2020, og +1,0 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Dagarnir 20 hafa að tiltölu verið hlýjastir á Suðausturlandi, eru þar í þriðjahlýjasta sæti aldarinnar. Kaldast hefur verið við Faxaflóa og á Ströndum og Norðurlandi vestra. Hitinn raðast þar í 11. hlýjasta sæti. Jákvætt vik, miðað við síðustu tíu ár, er mest á Fjarðarheiði, +2,5 stig, en neikvætt vik mest -0,5 stig við Setur. Vikið er neikvætt á örfáum stöðvum.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 44,8 mm, um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 11,5 mm, um 85 prósent meðalúrkomu sömu daga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 117,7 í Reykjavík, 9 stundum neðan meðallags. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 118,0, einnig 9 stundum neðan meðallags.

Stutt hugleiðing um dægurhitamet

Þegar þetta er ritað (um kl.17) hafði hiti komist í 24,4 stig á Hallormsstað og Egilsstaðaflugvelli í dag (19. júní). Þetta mun vera hæsti hiti ársins á landinu til þessa - og hæsti hiti sem sjálfvirka stöðvakerfið hefur mælt á þessum almanaksdegi. Eldri tölur eru þó til frá mönnuðum stöðvum. Sú sem skráð er sem met í bókum ritstjórans, 26,3 stig er þó nær örugglega röng, Mældist í Möðrudal 1889. Um þessi gömlu Möðrudalshámörk hefur verið fjallað nokkuð áður hér á hungurdiskum. Næsthæsta talan þann 19. sýnist vera frá Hæli í Hreppum 1996. Þá var mjög góður dagur á Suðurlandi og hiti fór á fjölmörgum stöðvum vel yfir 20 stig þar um slóðir - en ekki nema 11,8 stig í Reykjavík (einn af þeim dögum).

Við lítum nú á mynd - til gamans.

w-blogg190622a

Dægurmetum allra daga ársins var raðað - og talið hversu mörg þeirra voru ofan eða neðan ákveðinna marka. Bláa línan sýnir fjölda neðan marka - en sú rauða fjölda ofan marka. Einn almanaksdag hefur hiti á landinu aldrei orðið hærri heldur en 12,0 stig. Þetta er reyndar hlaupársdagurinn sem ekki fær tækifæri til að setja met nema fjórða hvert ár. Tíu daga aðra hefur hiti aldrei mælst 14 stig eða meira. 

Nítján almanaksdaga hefur hiti mælst 28 stig eða meira og 81 dag ársins hefur hiti einhvern tíma náð 25 stigum. Hátt í 3 mánuði ársins. Hiti hefur náð 20 stigum eða meira 182 daga ársins - vantar aðeins 1 dag eða 2 á upp á helming þess. Nú er helmingurinn í 19,8 stigum. Sams konar yfirlit sem ritstjóri hungurdiska gerði fyrir 9 árum (en birti þá ekki) sagði að helmingaskilin væru í 19,3 stigum. Þau hafa sum sé hækkað um 0,5 stig á undanförnum 9 árum. Hluti hækkunarinnar kann að stafa af almennri hlýnun, en er örugglega að einhverju leyti fjölgun stöðva að þakka. 

Línurit þessarar ættar sveigja gjarnan (nær alltaf) af til endanna. Það er fullkomlega eðlilegt með hlaupársdaginn. En við sjáum samt að hann er ekki einn um að valda sveigjunni. Við gætum velt vöngum yfir sveigjunni á hinum endanum. Eru öll þessi hæstu gildi (sem þó hafa verið viðurkennd) rétt? 

Vegna breytinga á fjölda stöðva er dálítið mál að reikna „væntifjölda“ nýrra landsdægurmeta í algjörlega stöðugu veðurfari. En samt er ekki fjarri lagi að búast við að minnsta kosti 3-4 metum á ári - fleiri, fjölgi stöðvum mjög - og líka fleiri hlýni veðurfar. Miðgildið, sem nú er eins og áður sagði 19,8 stig hækkar því smám saman. Fróðlegt ætti að vera eftir 10 ár (eða 20 til 30) að sjá hver þróunin hefur orðið. En þá verður ritstjóri hungurdiska væntanlega hrokkinn út af borðinu - og spurning hvaða yngri nörd taka við keflinu. En ritstjórinn vonast þó til að geta hreinsað betur til í dægurmetaskránni til að losna við villur eins og þá sem nefnd var hér í upphafi. 


Fyrri hluti júnímánaðar

Meðalhiti fyrri hluta júnímánaðar er 9,8 stig í Reykjavík, það er +0,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og raðast í 13.hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastur var fyrri hluti júní árið 2002, meðalhiti þá 12,0 stig, en kaldastur var hann 2001, meðalhiti 7,6 stig. Á langa listanum er hitinn í 20. hlýjasta sæti (af 150). Fyrri hluti júní 2002 er líka hæstur á þeim lista, en 1885 í því neðsta, þá var meðalhiti aðeins 5,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 10,3 stig, +1,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, þar raðast hitinn í fjórðahlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast að tiltölu hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hitinn er í 13. sætinu.
 
Á einstökum veðurstöðvum er jákvæða vikið mest á Fjarðarheiði. Þar hefur hiti verið 2,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast (að tiltölu) hefur verið við Setur, hiti þar -0,8 stigum neðan meðallags (grunsamlega mikið).
 
Úrkoma hefur mælst 22 mm í Reykjavík og er það rétt rúmlega meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 3,3 mm sem er um 40 prósent meðalúrkomu fyrri hluta júní.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 97,8 í Reykjavík, 7 stundum neðan meðallags. Á Akureyri hafa mælst 89,2 stundir og er það 10 stundum neðan meðallags.

Hugsað til ársins 1948

Tíðarfar á árinu 1948 var talið fremur óhagstætt - en þó komu góðir kaflar, Fjölmargir merkisviðburðir urðu í veðri. Mikil flóð gerði víða um land eftir miðjan vetur - sum minnisstæð. Eins og venjulega flettum við blöðum á timarit.is, auk þess sem við nýtum okkur allskonar gögn Veðurstofunnar. Snemma árs voru fréttir af síldveiðinni í Hvalfirði mikið á síðum blaðanna. Merkilegt mál. 

Janúar var umhleypingasamur og snjóþungur, einkum austanlands. Febrúar var óstilltur og gæftir stopular, mjög hlýtt var í veðri. Mars var líka hlýr og sérlega úrkomusamur á Suður- og Vesturlandi. Tún fóru að grænka. Óróatíð var í apríl og gróður sölnaði heldur. Í maí var fremur kalt og gróðri fór lítið fram. Júní var sömuleiðis þurr og kaldur. Júlí þótti hagstæður og heyskapur gekk bærilega. Ágúst var líka hagstæður, hlýr og þurr. Kalt var í september og votviðri norðaustanlands, en annars var tíð þurr og hagstæð. Október var óstöðugur og úrkomusamur, mörgum þótti kalt í veðri, svipað var í nóvember. Í desember var umhleypinga- og stormasamt. 

Í janúar ríktu þrálátar austanáttir og því nokkuð misjafnt hvernig sýn manna var á tíðina. Í Síðumúla segir Ingibjörg Guðmundsdóttir: „Veðráttan þurrviðrasöm og mild og mjög góð. Jörð snjólaus, en dálítið svelluð. Flest hross ganga sjálfala“. Vestan af Rauðasandi segir Ólafur Sveinsson: „Það hefir verið mjög vindasamt. Sífellt austan- og norðaustan hvassviðri, en merkilega kuldalaust og snjólétt. Jörð hefir víðast verið sæmileg nema hér hefir verið töluverður áfreði með köflum“.

Tíðin var óhagstæðari eftir því sem austar dró á Norðurlandi:

Sandur (Friðjón Guðmundsson): Tíð mild og úrkomulítil, en rysjótt framan af. Snjór töluverður og víðast haglítið.

Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Stöðug austanátt, ekki mikill snjór en þó allir vegir ófærir mest af mánuðinum.

Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): Rosatíð allan mánuðinn, oftast austan og norðaustan stormur og renningur, en ekki mikið snjófall. Snjór er samt allmikill, feikna stórfenni og hagar litlir og notast sjaldan fyrir stormum.

Gunnhildargerði á Úthéraði(Anna Ólafsdóttir): Tíð hefir verið mjög óhagstæð og mikil snjóþyngsli.

Í upphafi mánaðarins varð mikið rafmagnsleysi á Akureyri vegna krapastíflu í Laxá. Slíkt var algengt á þessum árum (nærri því fastur liður). Þann 11. gerði miklar símabilanir víða um land, snjóflóð braut 10 símastaura á Fagradal.

Eftir miðjan mánuð gerði einnig hríð um tíma suðvestanlands. Tíminn segir frá þann 20.janúar:

Ófært er nú með öllu austur yfir fjall, bæði yfir Hellisheiði og um Mosfellsdal. Í gærmorgun var vegurinn yfir Hellisheiði ruddur, og var hann fær bifreiðum fram á kvöld í gær. Í nótt lokaðist leiðin aftur vegna skafbyls og ofanbyls, svo að engir bílar hafa hafa getað komist að austan í morgun. Snemma í morgun fóru ýturnar af stað frá skíðaskálanum í Hveradölum, en þær urðu að hætta vegna þess, hve skafbylurinn var mikill. Áttu mennirnir, sem stjórnuðu þeim, fullt í fangi með að halda veginum. Skildu þeir ýturnar eftir uppi á háfjallinu, og taka til aftur strax og lygnir og hættir að skafa. ... Þingvallaleiðin er að heita má ófær bifreiðum og mikill skafbylur á þeirri leið. Þá er Mýrdalurinn orðinn ófær, en á morgun verður reynt að ryðja braut bílum, sem þurfa að komast vestur um, og póstbílnum sem á að fara austur. Norðurleiðin er illfær, en þó munu stórar bifreiðar og póstbílarnir geta brotist norður yfir Holtavörðuheiði. [Þann 25. varð einnig illa ófært á Hellisheiði, margir bílar fastir og við lá að maður yrði úti]. 

Þann 27. janúar segir Tíminn frá ískyggilegu útliti norðaustanlands:

Það, sem af er þessum vetri, hefir tíð verið óvenjuhörð á Norðausturlandi og veturinn gjafafrekur. Má heita, að innístaða hafi verið þar víða i ellefu vikur, og er hætta á, að fóðurbirgðir manna gangi til þurrðar, ef snjóalög haldast mjög lengi frameftir. Mjög víða á Norðausturlandi má heita, að búfénaður allur hafi staðið inni síðan viku af nóvembermánuði. Þá lagðist þar að með snjóa, og hafa síðan víðast verið þar jarðbönn, nema fáeina daga fyrir jólin, að hláku gerði. svo að hnjótar komu upp. En brátt fennti aftur og tók fyrir alla beit. Auk þess sem snjór er víða mikill, er snjólagið sérlega vont, að minnsta kosti í mörgum byggðarögum.

Tíminn heldur áfram að segja af harðindum austanlands þann 4.febrúar (stytt hér):

Átti tíðindamaður Tímans símtal við Pétur Jónsson, bónda á Egilsstöðum á Völlum, og spurði hann frétta úr byggðarlögunum þar eystra. Hér hafa verið löng og óvenjuleg harðindi, sagði Pétur, að heita má óslitið frá því snemma í nóvembermánuði. Veturinn lagðist  sérstaklega  snemma að. Að vísu var snjórinn ekki ýkjamikill hér um miðbik Fljótsdalshéraðs, en snjólag var víða ákaflega vont, þar sem hver spilliblotinn hefir rekið annan. Víða annars staðar er snjór mjög mikill, og veður hafa verið hin verstu. Upp til dala mun ekki hafa komið annar eins snjór síðan veturinn 1910. Allan janúarmánuð má heita, að hér hafi verið látlaus austanátt með snjókomu og bleytuhríðum til skiptis. Er það svo sjaldgæft, að elstu menn muna vart svo vonda og þráláta austanátt. Síðustu tvo eða þrjá dagana hefir þó verið hláka um miðbik Fljótsdalshéraðs, og er hér komin upp talsverð jörð. En hætt er þó við, að taki fyrir haga fljótlega, ef aftur gengur að með snjóa. Á fjöllum uppi hefir þó snjóað fram til þessa, og inn til dala og um norðurhluta úthéraðsins hefir þessi bloti ýmist ekki gætt enn sem komið eða þá aðeins verið til spillis, ef ekki hlýnar og hlánar meira. Mun snjór ekki hafa sjatnað þar. Í Skriðdal er mjög mikill snjór, og svo mun einnig vera í Fljótsdal, Jökuldal, Hróarstungu og Jökulsárhlíð.

Slide1

Þann 1.febrúar gerði gríðarlegt austanveður þegar óvenjudjúp lægð nálgaðist landið úr suðri. Kortið sýnir að bandaríska endurgreiningin nær veðrinu allvel. Um miðnætti um kvöldið eru skil lægðarinnar að fara yfir landið. Þrýstispönn varð mest kl.21, 36,9 hPa - og um það leyti mun veðrið hafa orðið hvað mest. Gríðarleg úrkoma var suðaustanlands, meiri en 100 mm á sólarhring í Hólum í Hornafirði. Við lítum á blaðafréttir. 

Vísir 2.febrúar: Aftakaveður var hér í bænum í gær og er vitað, að það hafi valdið allmiklu tjóni. Vitað er um að tveir skúrar, sem stóðu skammt frá Tripoli-camp fuku i storminum. Ekkert verðmæti mun hafa verið geymt í skúrum þessum. Þá fauk skúr í Kleppsholti, en ekki er blaðinu kunnugt, hvort nokkuð verðmæti var geymt í honum. Þakplötur losnuðu af skúrbyggingu á bak við húsið nr. 19 við Laugaveg, en ekkert tjón mun þar vera um að ræða. Víða slitnuðu rafleiðslur og grindverk í kringum hús fuku.

Tíminn 2.febrúar: Af völdum óveðurs í nótt og gærdag hafa orðið allmiklar símabilanir. Meðal annars fauk ýmislegt járnarusl á símalínuna hjá Brúarlandi í Mosfellssveit, svo að rafmagn komst að línunni. Varð af þeirri ástæðu lífshættulegt að vera á verði við stöðina þar um stund. Mestu bilanirnar urðu á Suðurlandslínunni austur um. Er gersamlega sambandslaust við Höfn í Hornafirði og allar aðrar stöðvar á Austurlandi. Hefir símalínan slitnað norður á stórum kafla fyrir austan Brunnhól í Austur-Skaftafellssýslu. Eru símastaurar brotnir þar á talsvert löngu svæði, og telja verkfræðingar símans, að þessar bilanir stafi af óvenjulega miklum vatnavöxtum, en ár og fljót þar hafa hlaupið fram vegna leysinga, er voru samfara stórviðrinu  að undanförnu. Til Norðurlands var einnig sambandslaust í morgun. Hafði síminn bilað vegna storms, fyrir ofan Kollafjörð. Símastjórnin lætur vinna að viðgerðum eftir því, sem við verður komið, og má vænta þess, að samband komist á aftur við stöðvar á Norður- og Austurlandi á hverri stundu. 

Tíminn 3.febrúar: Nú hefir verið gert við flestar símalínurnar, sem biluðu í veðrinu um helgina. Talsamband er komið á til Norðurlandsins, en fjölsíminn norður er þó ekki í lagi ennþá. Komið er samband á austur til Hornafjarðar, og verið að gera við smærri bilanir á þeirri leið og út frá aðallínunni. Mikil símabilun varð í ofviðrinu hjá Skrauthólum á Kjalarnesi. Þar var stormurinn svo mikill, að 16 símastaurar fuku um koll og sumir rifnuðu frá símalínunni og þeyttust langar leiðir, enda mun hvassviðrið hafa verið með einsdæmum undir Esjunni. Á Skrauthólum fauk til dæmis skúr, sem gerður var úr múrsteini. Gerði stormurinn svo rækilega út af við skúrinn, að ekkert sést eftir af honum. Búast má við, að talsverðum erfiðleikum verði bundið að gera við þessa símabilun þarna á Kjalarnesi, og getur viðgerðin tekið nokkurn tíma. Þá er ekki að fullu búið að gera við ýmsar, smærri skemmdir, er urðu á símalínum í ofviðrinu.

Morgunblaðið 4.febrúar: Í Kjós gerði aftakaveður um helgina og urðu ýmsar skemmdir á mannvirkjum. Á Reynivöllum fauk nokkur hluti af þaki þinghúss hreppsins, og fjárhús  löskuðust nokkuð. Í Hækingsdal færðist hlaða af grunni og á Þorláksstöðum fauk bílskúr. Á Valdastöðum fauk þak af hænsnahúsi og færði hlöðu allmikið til ásamt tveimur fénaðarhúsum sem áföst voru við hlöðuna. Fé í húsunum sakaði þó ekki. Á Felli fauk hænsnahús og fórust milli 10 og 20 hænsn. Víða fuku þakplötur af húsum og heyhlöðum og sumstaðar urðu minniháttar skemmdir.

Ingibjörg Guðmundsdóttir í Síðumúla ræðir tíð í febrúar og getur illviðrisins mikla þann 1.:

Fyrsta febrúar gerði svo mikið fárviðri í Reykholtsdal, að mikið tjón varð að. Á Sturlureykjum fuku 4 gróðurhús að miklu leyti, þar af eitt alveg. Þar fauk og þak af fundarhúsi hreppsins, rúður úr íbúðarhúsinu, girðingar og fleira. Rúðurnar brotnuðu þannig, að grjót tættist upp af veginum heim að húsinu, hnefastórir steinar, og kastaðist með miklu afli gegnum gluggann, að það molnaði úr steinvegg móti glugganum. Víðar úr dalnum fauk mikið gler, og þök af útihúsum, og fauk eitt þeirra á símaþræði, svo að sambandslaust varð við Reykholt og alla bæi á þeirri línu. Hér í Hvítársíðu varð veðrið mikið hægra og gerði hvergi tjón, nema á einum bæ, neðsta bænum [Síðumúlaveggjum?], þar fauk geymsluskáli, braggi, sem var illa um búinn. Þetta var um kvöldið. Stóð veðrið um 2 klukkustundir. Að kvöldi þ. 10. var líka mikið rok, en litlar skemmdir urðu þá. Að öðru leyti hefir tíðin verið ágætlega mild, en nokkuð úrkomusöm, þó ekki stórkostlega. Jörðin er auð og þíð, nema í hálsum og fjöllum er hún flekkótt af snjó. Hross ganga sjálfala.

Þann 5.febrúar segir Tíminn af erfiðum sandbyljum í Meðallandi. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn fundið hvaða dag sandbylur varð mestur (fyrir áramót), e.t.v. 28. desember. Síðan eru fleiri tjónafréttir af veðrinu mikla. 

Tíminn 5.febrúar:

Miklir sandbyljir hafa herjað jarðir í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu í vetur. Hafa engjar og graslendi farið undir sand, sérstaklega í veðri, er gerði fyrir áramótin. Í stórviðrinu um síðustu helgi voru sandarnir aftur á móti að miklu leyti undir vatni, svo að tjón af því varð stórum minna. Í suðaustan- og austanrokum gengur nú mjög á graslendi jarða í Meðallandi austanverðu. Hefir sandurinn verið mjög áleitinn í vetur, og í stórviðri fyrir áramótin fóru stórar landspildur undir sand. Voru þá vötn á haldi en jörð auð, svo að sandinn skóf viðstöðulaust inn yfir byggðina. Sérstaklega  er þó jörðin Lyngar hart leikin. Þar hlóðust upp mannhæðarháir sandskaflar, svo til heima við bæjarvegg, og stórar spildur beitilands og engja kafði. Fleiri munu hafa orðið fyrir búsifjum af völdum sandsins í vetur, þótt ekki vofi yfir þeim eins bráð hætta. En segja má, að sandurinn ægi þar mörgum bújörðum. Í stórviðrinu nú um helgina var þó tiltölulega lítið sandfok, þar eð vatnsagi var mikill á söndunum, svo að stormurinn náði sér ekki niðri. 

Þrjár hlöður fuku að Seljavöllum í ofviðrinu, sem geisaði um helgina síðustu [1. febrúar], fuku þrjár hlöður að Seljavöllum undir Eyjafjöllum. Sviptist þakið af þeim öllum á aðfaranótt mánudagsins, og var aðeins ein hlaða á bænum, sem stóð af sér veðrið. Hey fauk þó ekki til muna, en miklar skemmdir urðu á heyjum af völdum rigningar. Mjög erfitt hefir vérið að setja nýtt þak á hlöðurnar, því að járn er ófáanlegt. Hefir orðið að tína saman gamalt plöturusl til þess að gera við hlöðurnar til bráðabirgða. Í ofviðrinu, sem geisaði um helgina urðu miklar skemmdir í Reykholtsdal. Rúður brotnuðu víða á bæjum og þök fuku af húsum. Mestar skemmdir urðu þó að Sturlureykjum, sem er. bær utarlega í dalnum. Þar eru mikil gróðurhús og stórt tveggja hæða íbúðarhús. Heita má, að gler úr tveimur gróðurhúsum hafi fokið og eyðilagst en grindur húsanna standa uppi að mestu. Þá brotnuðu einnig 20 rúður í íbúðarhúsinu, og mun láta nærri að samtals hafi brotnað um 3000 rúður á þessum eina bæ. Hefir bóndinn þar orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, sem nemur mörgum þúsundum króna, auk þess, sem illmögulegt er sem stendur að fá gler í staðinn fyrir það, sem brotnaði. Framar í dalnum og í Hálsasveit urðu einnig mikil spjöll á húsum í veðrinu, en ekki mun fólk hafa sakað neitt að ráði. Snorrastyttan, sem menn hafa talið riða talsvert í stormum, stóð hins vegar af sér veðrið, og er henni væntanlega ekki hætt við falli fyrst um sinn. Veður þetta er eitt hið allra mesta, sem komið hefir á þessum slógum í mörg ár.

Tíminn 6.febrúar (stytt):

Súðin, sem nú er í síldarflutningum til Siglufjarðar, lenti í aftakaveðri á leiðinni norður og hlaut áfall. Var skipið um tíma í yfirvofandi háska, en fyrir dugnað og harðfengi skipshafnarinnar komst það af, og er nú komið heilu og höldnu til Siglufjarðar. Engan mann á skipinu sakaði, og má það teljast hin mesta mildi.

Rétt er að birta hér einnig frétt Vísis þann 3. febrúar um jöklarýrnun á Íslandi, en taka má fram að síðar hefur komið í ljós að skriðjöklar Drangajökuls eru framhlaupsjöklar. Slíkir jöklar eru gjarnan í litlum takti við veðurfar frá ári til árs. 

Vísir 3.febrúar: Jöklar hafa minnkað stórlega á Íslandi. Skriðjöklar hafa styst um allt að 100 m síðarliðin ár. Mælingar hafa verið gerðar á ýmsum helstu jöklum landsins á undanförnum árum. Mældir hafa verið 27 skriðjöklar í Drangajökli, Snæfellsjökli, Eyjafjallajökli, Vatnajökli, Langjökli, Hofsjökli og Kerlingarfjöllum. Þessar mælingar hafa sýnt að jöklarnir eru undantekningarlaust að minnka. Um nokkurra ára skeið hljóp Drangajökull reyndar allmikið fram, en er nú farinn að minnka aftur. Einn af skriðjöklum hans, svokallaður  Leirufjarðarjökull, hljóp fram um einn kílómetra árin 1938—1942, stóð svo þrjú næstu árin í stað, en er tekinn að minnka að nýju, m.a. um 100 metra á s.1. ári. Árið 1942—1943 hljóp annar skriðjökull úr Drangajökli, sá er gengur niður í Kaldalón, fram um 620 metra og sama ár hljóp Reykjarfjarðarjökull fram um 432 metra. Allir aðrir jöklar en Drangajökull hafa gengið mjög til baka um mörg undanfarandi ár. Árið sem leið styttust jöklarnir víðasthvar 25—50 metra, en mest um 100 metra. Aðeins ein skriðjökulsálma í Hoffellsjökli hefir lengst frá í fyrra, um 5 metra. Er oft mikill gangur í þessari álmu og lengist hún og styttist á víxl.

Það er Jón Eyþórsson veðurfræðingur, sem hefir unnið að þessum mælingum og safnað gögnum undangengin ár. Hefir hann haft menn víðsvegar um landið, þá sem búið hafa i grennd við jöklana, sér til aðstoðar. Sumir þessara manna hafa gert ýmsar merkilegar athuganir, ýmist í sambandi við breytingar á jöklum eða á öðrum sviðum náttúrufræðinnar. Þannig skýrði t.d. Björn Pálsson á Kvískerjum í Öræfum nýlega frá því i bréfi til Jóns að stórfelldar breytingar hefði átt sér stað í Breiðamerkurjökli. Nú er kominn 3—4 hundruð metra breið aurspilda upp í Breiðamerkurfjall, og fer ört breikkandi. Þarna hefir jökull legið allt til þessa frá því um 1700 og hulið hin fornu býli Breiðá og landnámsjörðina Fell. Nú er landið, þar sem býli þessi hafa staðið, um það bil að koma í ljós að nýju. Þá getur Björn þess einnig að Fellsá, sem til þessa hefir komið i einu lagi undan jöklinum fyrir framan Breiðamerkurfjall, falli nú í tveimur kvíslum sín hvoru megin við það.

Þann 16. febrúar gerði mikið vatnsveður um landið vestanvert, leysing varð einnig mikil. Tíminn segir frá 19.febrúar:

Á mánudag og þriðjudag [16. og 17.] gerði úrhellisúrkomu og hvassiðri víða um land. Á Snæfellsnesi var úrkoman svo mikil, að víða urðu skemmdir af vatns- og snjóflóðum. Einna mestar skemmdir urðu þó í Ólafsvík og í Fróðárhreppi. Átti tíðindamaður Tímans í morgun tal við Kristján Þórðarson símstöðvarstjóra í Ólafsvík um vatnsflóðin, sem eru þau mestu, er orðið hafa lengi á þessum slóðum. Í Ólafsvík urðu skemmdirnar mestar. Svokallað Ólafsvíkurgil, sem venjulega er lítið vatnsfall, óx svo í rigningunum og leysingunni, að það flæddi með miklum þunga út úr farvegi sínum. Á bakka Ólafsvíkurgils, stendur bærinn Ólafsvíkurkot, og stendur fjósið þar nær bakkanum en sjálf bæjarhúsin. Þegar gilið breytti farvegi sínum, tók það fjósið og reif það til grunna. Var það gert úr torfveggjum, en með járn og timburþaki. Veggirnir hrundu niður og þakið féll niður á kýrnar, sem voru i fjósinu, en þær voru tvær. Skipti það engum togum að flóðið tók þakið með sér í fjósrústunum, ásamt kúmun, sem urðu fastar í brakinu og bar allt saman 40—50 faðma niður í áttina til sjávar. Skeði þetta einhvern tíma þriðjudagsnæturinnar og varð fólk í Ólafsvíkurkoti ekki þess vart fyrr en um morguninn klukkan átta, er farið var á fætur. Kýrnar voru þá enn með lífsmarki, fastar í brakinu. En líðan þeirra var slæm, eins og gefur að skilja. Lágu leifarnar af brakinu, ásamt kúnum í árfarveginum, þar sem vatnið flæddi um. Gilið braut sér nýjan farveg milli fjóssins og íbúðarhússins í Ólafsvíkurkoti, og gekk það svo nærri íbúðarhúsinu, að það sópaði burt nýbyggðum skúr, sem var áfastur við íbúðarhúsið. Hvarf skúr þessi með öllu til sjávar og hefir ekki til hans spurst síðan. Hann var þó rammlega gerr á grjóthlöðnum grunni. Bóndinn í Ólafsvíkurkoti, Þórarinn Guðmundsson hefir því orðið fyrir miklu tjóni, þar sem allt er eyðilagðist var óvátryggt. Þar, sem Ólafsvíkurgil rennur gegnum þorpið, urðu allmiklar skemmdir en sjálft vatnsfallið flæddi þó ekki út um þorpið. Vatnsmagnið jókst svo mikið að flóðið tók með sér rammgera fiskhjalla sem voru á bakkanum og reif upp vatnsleiðslur sem lágu yfir gilið. Samt sem áður varð mikið vatnsflóð á götum þorpsins. Vatn safnaðist saman við snjóstíflur í hæðunum fyrir ofan þorpið og rann það í stríðum straumum niður eftir götunum eins og stærstu lækir. Eru margar götur að heita má ófærar eftir flóðin, sökum þess hve sundurgrafnar þær eru. Vegir í nágrenni Ólafsvíkur eru líka stórskemmdir og illfærir bifreiðum, nema helst jeppabílum. Vegurinn frá Ólafsvík um Fróðárhrepp er til dæmis ófær eftir flóðið.

Í Fróðársveit urðu líka miklar skemmdir. Í Mávahlíð í Fróðárhreppi urðu miklar skemmdir á túni. Breytti svonefnt Mávahlíðargil farvegi sínum svo að það rann yfir besta hlutann af túninu í Mávahlíð, um leið og gilið myndaði nýjan farveg niður hlíðina. Segir bóndinn þar að skemmdirnar séu svo miklar á túninu að það geti aldrei orðið nothæft aftur. Hefir Mávahlíðargil aldrei í mannaminnum fyrr breytt farvegi sínum.

Allmikið Skeiðarárhlaup gerði í febrúar. Í fyrstu var eitthvað minnst á öskufall, en engin áreiðanleg merki sáust síðan um slíkt. Ekki gott að vita hverju á að trúa, gos geta verið mjög lítil. 

Tíminn 20.febrúar:

Þær fregnir bárust í morgun austan frá Kirkjubæjarklaustri, að þar hefði orðið vart lítils háttar öskufalls. Einnig hefir orðið vart öskufalls á Meðallandi og i fleiri byggðarlögum þar eystra.

Tíminn 21. febrúar:

Hlaupið í Skeiðará óx enn í nótt var tíðindamanni blaðsins tjáð í samtali sem hann átti við Sigurð Arason bónda að Fagurhólsmýri. Rennur áin nú yfir 2 km breitt landsvæði. Hlaupið er nú orðið með mestu Skeiðarárhlaupum eftir því sem Sigurður segir. Er það til dæmis mun meira en síðasta hlaup. Að þessu sinni hefir hlaupið enn ekki brotið jökulinn, svo teljandi sé, heldur fellur það eftir hinum venjulega farvegi undan jöklinum. Mikinn brennisteinsþef leggur af hlaupinu og fellur á málma og húsþök. Hins vegar hefir ekki orðið vart við öskufall á Fagurhólsmýri. Skeiðarárhlaupið hefir þegar valdið nokkrum skemmdum á símalínum á því svæði, er áin hefir flætt yfir. Voru í morgun fallnir þrír símastaurar. Önnur spjöll hafa ekki orðið af völdum hlaupsins, enda fellur það um gróðurlausa sanda, þar sem engin mannvirki eru nema helst símalagnir. Mönnum eystra þykir líklegt, að eldar séu uppi Grímsvötnum, enda eldsumbrot þar harla tíð.

Tíminn 23. febrúar:

Ennþá er ekkert gos komið upp úr Vatnajökli hjá Grímsvötnum og telja jarðfræðingar eftir að hafa flogið yfir umbrotasvæðið óvíst að koma muni til svo mikils goss að það brjótist upp úr jöklinum. í gær flaug póst- og símamálastjóri austur, ásamt jarðfræðingunum, Pálma Hannessyni rektor og dr. Sigurði Þórarinssyni. Hefir blaðamaður frá Tímanum átt viðtal við Pálma um förina. Myndi ég álíta, segir Pálmi, að þetta hlaup sé ekki ennþá orðið eins mikið og hlaupið 1945, en hins vegar meira en hlaupið 1941.

Tíminn 24. febrúar (stytt):

Ragnar Stefánsson i Skaftafelli í Örœfum kom í skrifstofur Tímans í gœr. Var hann nýkominn að austan og hafði með sér litla járnplötu, er sýnir hvernig brennisteinsloftið frá Skeiðarárhlaupinu litar járn, húsþök, veggi og margt annað. — Hlaupið var enn í vexti, sagði hann. Sandgígjarkvisl, sem er miklu vestar á sandinum, var líka tekin að vaxa. Jakabrot úr jöklinum var ekki teljandi. Hvenær tókuð þið fyrst eftir vexti í ánni? - Það var upp úr miðjum janúar. Þá tókum við eftir lítilsháttar  vexti i henni og 5.febrúar var áin orðin allmikil og hefir síðan vaxið jafnt og þétt en hægt. Um miðjan þennan mánuð var vatnsmagnið orðið geysimikið, og nú er áin nær tveggja km breið skammt neðan við Skaftafell og mun breiðari viða þegar neðar dregur á sandinn. Áin hefir ekki brotið jökulinn svo að teljandi sé að þessu sinni, en í mörgum fyrri hlaupum hefir verið mikill jakaburður fram á sandinn. Vatnsmagnið í þessu hlaupi mun vera því sem næst mitt á milli þess sem var í hlaupunum 1941 og 1945, en hlaupið 1941 var þeirra mest. En það er hins vegar mun minna en hlaupin 1934 og 1938. Þá var áin um 5 km. a breidd á móts við Skaftafell og braut símann á stóru svæði. — Hvenær rofnaði  símasambandið austur yfir sandinn núna? — Á föstudaginn var [20.]. Flóðið hefir nú brotið nokkra staura, en annars eru skemmdir á símanum tiltölulega litlar að þessu sinni. Flest eldri hlaup hafa hagað sér svipað. — Hefir þetta Skeiðarárhlaup hagað sér á svipaðan hátt og hin næstu á undan? — Já, en þó mun það hafa vaxið heldur hægar. Í hlaupunum 1934 og 1938 var mikill jakaburður fram á sandinn, en enginn í hinum síðari. Þó er rétt að geta þess, að Skeiðarárhlaup hafa ekki ætíð komið með þessum hætti og stundum borið bráðar að. Kringum 1860 kom geysilegt hlaup í Skeiðará. Að morgni dags var hún nær því þurr, en um kvöldið sá ekki á  dokkan díl á sandinum, nema smáeyri við jökulinn. Skeiðarárhlaupið virðist nú vera í rénun, að minnsta kosti í bili.

Tíðindamaður Tímans átti í morgun tal við Guðmund Hlíðdal, póst- og símamálastjóra og spurðist fyrir um skemmdir af hlaupinu á símanum yfir sandinn. Guðmundur hefir haft nákvæmar fregnir af hlaupinu allan tímann frá því það byrjaði. Í gærdag byrjaði hlaupið að réna og hefir það farið minnkandi síðan, svo nú eru sem óðast að koma upp eyrar á sandinum, þar sem áður flæddi yfir. Má gera ráð fyrir Skeiðarárhlaupi þessu sé nú senn lokið, en þó getur hugsast, að það vaxi aftur, þótt ólíklegt megi teljast, þegar tekið er tillit til þess, hvernig umhorfs var við Grímsvötn. Í hlaupinu urðu allmiklar skemmdir á símanum. Átta staurar féllu, og verður ekki hægt að hefja viðgerðir fyrr en hlaupið hefir rénað það mikið, að hægt er að komast yfir ána. Skemmdir þessar eru þó aðeins smávægilegar hjá því, sem þær hafa mestar orðið i Skeiðarárhlaupi. 1934 féllu til dæmis um 200 staurar á um 10 kílómetra löngu svæði.

Síðari hluta mánaðarins var harðindum aflýst eystra. Tíminn segir frá því þann 24.:

Frá fréttaritara Tímans á Fljótsdalshéraði. Hin miklu og langvinnu harðindi á Fljótsdalshéraði eru nú liðin hjá, að menn vona, og hagar yfirleitt komnir. Fyrsti bíllinn, eftir að hlána tók, kom til Egilsstaða 14. febrúar, og. var dreginn af ýtu yfir versta torfœrið. Hópar hreindýra, er leitað hafa undan fannferginu og veðrahamnum á örœfunum, hafa haldið sig niðri i byggðum. Strax í byrjun nóvembermánaðar í haust gerði hér hríðar miklar, og urðu snjóalög mikil um miðsveitir. Héldust hríðar með stuttu millibili fram til hátíða, en þá herti mjög að. Snjóaði ýmist af norðaustri, en í þeirri átt snjóar mest um mið- og úthéraðið eða suðaustri, en þá snjóar mest um uppsveitir, Skriðdal, Fljótsdal og Jökuldal. Gerði hagleysur og jarðbönn um allt Hérað, en á þeim fáu stöðum, er fé náði til jarðar, notaðist ekki beit vegna storma og umhleypinga. Varð jafnvel haglaust á Jökuldal, og mun sjaldgæft vera. Héldust hríðarveður fram um 20. janúar, og fóru bændur að verða uggandi, því að allmargir voru ekki nægjanlega vel heyjaðir, þrátt fyrir eindæma gott sumar [1947], enda fer þeim mönnum hér fækkandi, er fyrningar eiga, og veldur þar sjálfsagt mestu, hve fámennt er yfirleitt orðið í sveitunum, svo að bændur eiga fullt í fangi með að afla heyja handa búfé sínu í meðalári.

Rétt um mánaðamótin febrúar/mars gerði óvenjumikil flóð, bæði á Suður- og Norðurlandi. Þau hófust á hlaupársdaginn, en héldu síðan áfram. Norðanlands var aðallega um leysingu að ræða, en sunnanlands rigndi mjög mikið. Í greininni „Flóð í Þjórsá og Hvítá“ sem birtist í tímaritinu „Veðrinu“ 1971 fjallar Hlynur Sigtryggsson um veðrið sem olli flóðunum og birtir veðurkort fyrir einn flóðdagana 1948.

Fyrst bárust fréttir af flóði í Varmá í Ölfusi. Tíminn segir frá því 2.mars:

Í fyrrinótt [aðfaranótt 1. mars] hljóp aftakaflóð í Varmá í Ölfusi, en hún rennur í gegnum Hveragerði. Óx áin svo mikið, að annað eins flóð hefir ekki komið í hana í mannaminnum. Olli það miklum skemmdum og flæddi niður um allt Ölfus, svo að það er nú allt að heita má í kafi í vatni fyrir neðan þjóðveginn. Í gær fjaraði nokkuð í ánni, en hún óx aftur í nótt. Algengt er, að flóð komi i Varmá, einkum í leysingum á vorin, en sjaldan valda þessi flóð neinu  teljandi tjóni. En flóðið, sem hljóp í ána í fyrrinótt, er meira en elstu menn muna eftir. Aðdragandi þessa flóðs var stuttur. Í fyrradag [29.febrúar] var áin ekki farin að vaxa að ráði, og má heita, að þessi vöxtur hafi hlaupið í hana á einni nóttu.

Skemmdir, sem flóðið hefir valdið, eru miklar, en þó er ekki enn vitað til fulls um allar þær skemmdir, er kunna að hafa orðið í Ölfusi, þar sem vatnið liggur yfir að heita má öllu láglendinu fyrir neðan þjóðveginn. Vitað er þó, að flóðgarðar eru víða skemmdir. Í Hveragerði urðu skemmdirnar mestar. Yfir ána liggja  vatnsleiðslur með vatni heitu og köldu, og reif áin þær allar burt, svo að mestur hluti þorpsins er nú án neysluvatns. Lágu þessar leiðslur yfir ána frá Reykjalandi og hafa staðið af sér öli flóð í ánni hingað til. Þá sópaði áin burt þremur rammgerum göngubrúm, sem yfir  hana voru. Af þeim orsökum er ekki hægt að komast að eða frá tveim bæjum í Ölfusi fyrir ofan Hveragerði. Þeir eru umflotnir vatni. Þetta eru Reykjakot og Gufudalur. Fólkið á þessum bæjum hefir þó símasamband. Þá sópaði áin burtu einni steinsteyptri brú, sem gerð var í fyrra upp hjá Gufudal. Flóðið sleit jarðsímastreng, sem liggur milli Selfoss og Reykjavikur neðan þjóðvegarins, austur Ölfusið. Samband er þá austur um aðrar línur. Í Fagrahvammi flóði vatnið inn í gróðurhús og eyðilagði mikið af plöntum. Sumu af þeim bjargaði þó leðjan, sem áin bar með sér. Hún huldi þær og varði. Var allmikið af plöntum grafið upp úr leðjunni í gær, er flóðið rénaði. Orsakir þessa flóðs eru hinar miklu leysingar undanfarna daga. Mikill snjór var kominn í Henglafjöll og Reykjadali, þar sem áin á upptök sín, og hljóp þessi vöxtur í hana, er snjórinn hlánaði.

Síðan kom að Hvítá í Árnessýslu, Vísir 4.mars:

Gífurlegir vatnavextir eru í Hvítá og öðrum ám og lækjum austur í Árnessýslu. Í morgun flæddi hún yfir bakka sina austur á Skeiðum og bæirnir Útverk og Ólafsvallarhverfi voru orðnir umluktir af vatni. Hvítá hélt áfram að vaxa í allan gærdag og í nótt og var enn að vaxa í morgun. Ef hún heldur þannig áfram að vaxa enn um stund, getur hún valdið alvarlegu tjóni. Hjá Selfossi var Hvítá einnig orðin bakkafull og flæðir yfir bakkana þá og þegar, ef vöxturinn heldur áfram. Þá hafa ýmsar aðrar ár og lækjarsprænur tekið að vaxa óðfluga og var kominn flugvöxtur í þær í morgun, þar á meðal Varmá i Ölfusi. Þessi vöxtur hefir valdið miklum skemmdum á vegum, m.a. var talið að steinsteypta brú hafi tekið af á Sogsveginum og að hann væri nú orðinn ófær. Vísir átti tal við Jón bónda Brynjólfsson að Ölafsvölum og spurði hann frétta af flóðinu. Segir hann, að flóðið í Hvítá sé mjög mikið og fari vaxandi. Margir bæir eru umflotnir og verður ekki komist á milli nema á bátum. Fjárhús hjá bænum Norðurgarði eru alveg að fara í kaf og verður að Flytja fé þaðan á brott eða a.m.k. að færa það upp á húsin. Flóðið er komið fram fyrir Ólafsvelli og fer vaxandi. Rigning er þar austur frá ennþá og ekki útlit fyrir að upp stytti.

Vísir segir enn frá 6.mars:

Að minnsta kosti 10 hús á Selfossi hafa orðið fyrir verulegum skemmdum af völdum flóðanna, sem verið hafa þar eystra s.l. daga. Kjallarar þeirra eru hálffullir af vatni og komst vatnið á neðstu hæð í nokkrum húsum, sem neðarlega standa á árbakkanum. Sérstaklega mikið tjón hefir orðið á Tryggvaskála, en hann hefir verið umflotinn, vatni frá því í fyrradag og hnédjúpt vatn í veitingasölum og eldhúsi. Þá tók áin  geymslubragga, er stóð fyrir neðan Ölfusárbrúna. Brotnaði hann í spón undan vatnsþyngslunum og barst á brott með  straumkastinu. Þegar flóðið náði hámarki flóði vatnið einn og hálfan meter yfir gólfið í brúnni yfir Hvítá að Brúarhlöðum. Uppfyllingunni, sem var beggja vegna brúarinnar, skolaði burt, en brúin stendur eftir. — Auk þessara skemmda, varð nokkurt tjón annað á brúnni, en ekki þó alvarlegt. Brýrnar yfir Tungufljót og Brúará sluppu að mestu óskemmdar. Flogið var austur yfir fjall, og þegar komið var austur yfir miðja Hellisheiði blasti vatnselgurinn í Ölfusinu við augum. Var Ölfusá margir kílómetrar á breidd neðarlega í Ölfusinu en eins langt og augað eygði austur á bóginn, var að líta gríðarlegan vatnsflaum. Úr lofti virtist a.m.k. þriðji hluti af Selfossi undir vatni. Tryggvaskáli virtist út í miðri á, ennfremur bílaverkstæði K.Á. Allmörg íbúðarhús á árbakkanum austarlega í þorpinu voru einnig umflotin vatni. Frá Selfossi var flogið upp með ánni og komu þá i ljós nokkrir bæir, sem voru alveg umflotnir vatni. Nokkrir sumarbústaðir standa við ána fyrir neðan Þrastalund, en þeir voru að meira eða minn a leyti i kafi. Af einum virtist þakið aðeins standa upp úr. Þjóðvegurinn, sem liggur austur Flóann var á stórum svæðum i kafi og sums staðar fossuðu breiðir vatnsálar yfir hann. Neðarlega í Flóanum virtist sem allt væri á floti og voru nokkrir bæir þar einangraðir.

Tíminn 5.mars:

Flóðið í Hvítá og Ölfusá hefir valdið margvíslegum skemmdum, einkum á vegum. Brúin yfir ána við Brúarhlöð er í hættu stödd. Mörg hús eru umflotin á Selfossi og vatnsleiðslan þar hefir bilað. Er þetta mesta flóð, sem komið hefir í Hvítá síðan 1930. Er blaðið átti tal við Selfoss um hádegi í dag var flóðið ekki farið að minnka þar neðra, en tekið að lækka uppi 4 Biskupstungum. Má búast við, að það fari að minnka úr þessu, því að veður þar eystra er nú þurrt og kaldara. Undanfarna daga hafa verið mjög miklar rigningar og leysingar sunnan lands og vestan og hefir hlaupið forátta í öll vatnsföll. Hvítá, Tungufljót og Ölfusá hafa vaxið mjög og flætt yfir bakka, svo að annað eins flóð hefir ekki komið í þessi vatnsföll síðan árið 1930. Brúin við Brúin á Hvítá við Brúarhlöð er umflotin, en stendur þó enn. Landbrúin við hana er þó rifin burt og uppfylling hefir skolast frá henni. Má búast við, að brúin sé hætt komin, ef vatnið fellur ekki í ánni hið bráðasta.

Á Selfossi eru allmörg hús umflotin og vatn hefir hlaupið í kjallara margra húsa. Í Tryggvaskála, sem stendur á árbakkanum rétt við brúna, var hnédjúpt vatn í eldhúsinu í morgun og skálinn allur umflotinn. Vatnsleiðslan að Selfossi hefir. bilað og ýmsar aðrar smávægilegri skemmdir orðið. Austan við Selfoss flæðir vatnið yfir stór svæði, og vegurinn er víða í kafi. Má búast við, að allmiklar skemmdir komi í ljós á honum, þegar hann kemur undan vatninu. Eru nú ófærar allar leiðir austur frá Selfossi.

Frá Laugarvatni bárust í morgun þær fréttir, að vatn hefði flætt upp í hverinn, sem hitar upp skólahúsið og aðrar byggingar þar á staðnum. Er því allt óupphitað sem  stendur. Skillandsá í Laugardal braust úr farvegi sínum og rennur nú utan við brúna, sem á henni var.

Tíminn 6. mars:

Feneyjalíf á Selfossi. Í fyrrinótt byrjaði í Ölfusá og ám þeim, sem hana mynda, eitt mesta flóð, sem orðið hefir á þeim slóðum á þessari öld. Í fyrrakvöld fór Ölfusá að flæða inn í hús á Selfossi og undir morgun í gær óx flóðið enn sem örast. Fjöldi fólks varð að yfirgefa íbúðir sínar á Selfossi, vegir urðu ófærir og stórskemmdir urðu á túnum, sem liggja á bökkum Ölfusár. Það var ekki fyrr en síðdegis í gær, að heldur fór að draga úr flóðinu niður við Selfoss. Flóð eins og það, sem nú kom í Ölfusá og árnar upp frá henni, er sjaldgæfur viðburður. Síðan 1930 hefir ekkert slíkt flóð komið, nema þetta. Kunnugir telja, að flóðið í gær hafi verið síst minna, þegar það var mest. Á árunum fyrir 1930 voru flóðin algengari. Eftir að hlaðið hafði verið fyrir Hvítá hjá Brúnastöðum hætti hún að flæða eins yfir byggðirnar austan Ölfusár og hún hafði áður gert. Í gær var samt mikill vatnselgur niður um byggðirnar sunnan Hestfjalls og einnig flæddi um Ólafsvallahverfi á Skeiðum. Að þessu sinni rann ekki nema lítið út úr ánni hjá Brúnastöðum. Hins vegar lá aðalvatnsflaumurinn niður hjá Bitru og þar í Hróarsholtslækjarfarveg, sem varð við það að stóru fljóti, ekki minna en fimm hundruð metra á breidd. Á Selfossi, þar sem flóðsins gætti mest, var í gær líkast um að litast og komið væri til Feneyja. Fólk fór á milli húsanna á litlum róðrarbát eða flekum.  Þeir, sem betur voru settir, komust að og frá húsi sínu á klofháum vaðstígvélum. Á þetta þó eingöngu við þann hluta þorpsins, sem liggur næst ánni.

Tryggvaskáli var umflotinn og var róðrarbátur í förum milli hans og þurrlendisins í allan gærdag. Á neðri hæð hússins var hnédjúpt vatn. Kollurinn á bensínmælinum stóð upp úr flóðinu eins og viti á vatnaleiðinni við Tryggvaskála. Bifreiða- og landbúnaðarvélaverkstæði  Kaupfélags Árnesinga varð fyrir miklu tjóni af völdum flóðsins. Flæddi inn um öll verkstæðin, svo að hnédjúpt vatn var í þeim í gærdag. Í alla fyrrinótt unnu 15 menn við að bjarga vélum verkstæðisins og tókst að lyfta þeim, þannig að þær munu ekki hafa orðið fyrir verulegum skemmdum. Flæddi í kringum verkstæðið og upp undir veg hjá aðalbyggingu kaupfélagsins. Öll umferð stöðvaðist að og frá Selfossi skömmu fyrir hádegið í dag. Hjá Skeggjastöðum rann vatn yfir veginn með nokkrum straumþunga á 300 metra löngum kafla, líkt og 1930, og einnig rann yfir veginn hjá Neistastöðum á löngum kafla. Bílar gátu brotist þarna yfir, en þegar kom að lægðinni fyrir neðan Bitru, varð ekki komist lengra á neinu ökutæki. Þar flóði vatnið yfir veginn á um það bil hálfs kílómetra löngu svæði og var sums staðar svo djúpt, að ekki sást á háa  brúarstólpa. Straumþungi var einnig i þessu vatnsfalli, og má búast við, að miklar skemmdir komi í ljós á veginum, þegar flóðið rénar, sem útlit er fyrir að verði í dag. Yfir vatnselginn hjá Skeggjastöðum voru skólabörnin flutt frá skólanum á Farmall-dráttarvél í gær.

Nokkrir bæir í lágsveitunum voru með öllu umflotnir í gær, og ekki varð komist að þeim eða frá, nema á bátum Stóðu bæirnir á hólunum, eins og eyjar í úthafi. Á Hjálmholti flæddi til dæmis í kringum fjárhúsin, svo að þau stóðu á eyju, en að þeim varð ekki komist frá  bænum. Það varð fénu til happs, að það var úti við. Ýmsum fjölskyldum, sem bjuggu í  kjöllurum á Selfossi, varð ekki svefnsamt i fyrrinótt. Blaðamaður frá Tímanum átti tal við einn heimilisföður, þar sem allt var komið á flot, er ekki var búið  að bjarga upp á efri hæðina. Var það Lúðvík Guðnason. „Við urðum fyrst vör við það í fyrrakvöld, að vatn var farið að renna inn á gólfið", segir Lúðvík. „Tókum við þá strax til óspilltra málanna, og reyndum að bjarga því, sem bjargað varð, upp á efri hæðina. Lengi hélst ökkladjúpt vatn í íbúðinni, en undir morgun fór vatnið að aukast hröðum skrefum og varð á skammri stundu hnédjúpt. Síðan óx flóðið jafnt og þétt í gær og skömmu eftir hádegi var vatnið farið að flæða upp á eldhúsborðið". Átta íbúðir urðu álíka hart úti í flóðinu, og hefir fólkið, sem í þeim bjó, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Þar sem Ölfusá byltist undan brúnni, skall hún á horninu á túninu á bænum Selfossi. Var straumiðan þar eins og öldurót í úthafi og gengu flóðbylgjurnar langt upp á túnið. Horn á túninu skagar út í ána og braut svo að segja stanslaust af því í allan gærdag. Þegar brotið var mest, brotnaði um 20 metra spilda af túninu á tveimur klukkustundum og losnaði einu sinni átta metra breið spilda frá i einu lagi. Þrátt fyrir allan vatnsganginn var ekkert neysluvatn til á Selfossi i gær. Vatnsleiðslurnar, sem liggja að þorpinu undir Ölfusárbrúnni, biluðu. Síðdegis i gær var þó lögð bráðabirgðaleiðsla yfir brúna, svo að fólk gat sótt sér neysluvatn í krana við annan brúarendann.

Þegar blaðið hafði samband við menn á Selfossi skömmu fyrir hádegið, var flóðið mikið farið að réna og er nú orðið vætt að Tryggvaskála. Er búist við að flóðið. hverfi að mestu í dag og nótt og vegir komi þá upp austan við Selfoss, hvort sem þeir kunna að verða færir fyrr en eftir að viðgerðir hafa farið fram.

Síðan bárust fréttir af flóði í Skjálfandafljóti, Vísir segir af því 8.mars:

Ofsavöxtur hljóp í Skjálfandafljót í vikunni sem leið og hefir ekki annar eins vöxtur komið í ána frá því 1925. Flæddi áin þá upp á gömlu brúna, og munaði minnstu að hún færi. Var talið að álíka hátt hefði verið í ánni núna. S.1. fimmtudag gekk í asahláku nyrðra og tók þá Skjálfandafljót ört að vaxa. Leysingin var svo mikil bæði á fimmtudag og föstudag að menn muna varla eins. Var mikill snjór fyrir stund, svo jörð varð alauð. Í gær kyngdi hinsvegar niður fádæmum af snjó, svo að nú liggur hnédjúpur sjór yfir öllum Bárðardal. Snjóýtur hafa samt rutt veginn frá Akureyri, og er nú sem stendur fært milli Akureyrar og Húsavíkur.

Tíminn sagði einnig frá Skjálfandafljóti, 8.mars:

Mikið hlaup kom í Skjálfandafljót s.l. föstudag [5.mars] með geysilegri jakastíflu á móts við Þóroddsstað í Köldukinn. Skemmdir urðu miklar á vegum, brúm, heyjum og girðingum. Á láglendinu á móts við Þóroddsstað og þar fyrir norðan eru nú stóreflis jakahrannir og vatnselgur. Fregnir er komu í morgun hermdu, að fljótið hefði hlaupið aftur í nótt en væri þó nokkru minna en fyrir helgina og jakaburður enginn, þar sem fljótið er búið að ryðja sig. Ekki er búist við, að hlaupið geri meira tjón en orðið er.

Í síðustu viku voru mjög bráð þíðviðri í Þingeyjarsýslu eins og víðast hvar annars staðar á landinu. Urðu miklar leysingar og leysti því nær allan snjó úr byggðum á nokkrum dögum, en hann hafði verið allmikill fyrir þíðviðrið. Á föstudag kom mikið hlaup í Skjálfandafljót. Flóði það yfir bakka og braut af sér mikinn ís, sem venjulega myndast á Skipapolli og þar fyrir norðan. Geysimikil jakastífla hjá Þóroddsstað. Hlóðust jakahrannirnar upp og mynduðu mikla jakastíflu á móts við Þóroddsstað og flóði vatnið þar upp yfir láglendið á breiðu svæði. Bárust stórir jakar langa vegu upp á land og mynduðust íshrannir. Gekk hlaupið yfir veginn, sem liggur frá nýju brúnni á Skjálfandafljóti þarna upp að Ófeigsstöðum. Er talið, að mjög miklar skemmdir hafi orðið á veginum þar, en ekki er enn fullvíst hve miklar þær eru, því að vegurinn er ekki kominn til fulls undan vatninu enn. Á svæði því, sem flóðið hljóp yfir, eru engjar Kinnarbænda og stendur allmikið af heyjum þar á fljótsbökkunum og víðar. Flóði vatnið víða umhverfis og undir þessi hey, skemmdi þau stórlega og tók sumt á burt með sér.  Hafa orðið þarna allmiklar heyskemmdir, sem nema miklu fjártjóni. Á eystri
fljótsbakkanum urðu og allmiklar skemmdir bæði á heyjum og girðingum. Tók þar með öllu burt mæðiveikivarnagirðingu á löngum kafla. Lá hún norður með fljótinu fremst á bakkanum. Þar tók líka á burt þrjár smábrýr á veginum, og miklar skemmdir aðrar urðu á honum. Bærinn Húsabakki, sem stendur að austanverðu við fljótið norður undir hrauninu, var algerlega umflotinn, og varð ekki komist að honum um tíma. Vatn hljóp þar einnig í fjárhús og hlöður og urðu nokkrar skemmdir á heyjum. Um. allt þetta svæði, sem flóðið fór yfir, eru nú miklar jakahrannir, því að ísinn, sem braut af fljótinu  var geysimikill.

Nýtt hlaup í fljótið í nótt. Samkvæmt fregnum, sem blaðinu bárust i morgun [væntanlega 7.mars] að norðan, kom nýtt hlaup í fljótið í nótt; Það mun þó vera tæplega eins mikið og fyrra hlaupið og enginn jakaburður fylgir því, vegna þess að fljótið hefir nú brotið allan ís af sér. Er ekki talið líklegt, að þetta nýja hlaup hafi í för með sér meiri skemmdir en orðið er. Slík hlaup í Skjálfandafljót eru ekki tíð og koma helst ekki nema i bráðum þíðum, þegar ís leysir af fljótinu í skyndi. Talið er, að þau komi ekki nema því sem næst á tíu ára fresti að jafnaði. Nýja brúin stóðst raunina. Skammt frá þeim stað, er flóðið og jakastíflan varð mest, er ný brú á fljótinu, eins og kunnugt er. Sakaði hana ekki á nokkurn hátt, og er það talið gott vitni um styrkleik hennar. Frammi í Bárðardal urðu engar skemmdir af völdum flóðsins svo að teljandi væri, því að þar er alls staðar nokkuð hærra að fljótinu og þar hefir ekki verið teljandi ís á því, sem valdið gæti jakaburði. Í dag er austan andvari fyrir norðan og hlýtt og stillt veður.

Þann 9. segir í framhaldsfrétt Tímans:

Eins og frá var skýrt hér í blaðinu í gær, kom nýtt hlaup í Skjálfandafljót í  fyrrinótt. Því fylgdi þó enginn jakaburður, vegna þess að fljótið hafði þegar brotið af sér allan ís, og það var talið talsvert minna en fyrra hlaupið. Telja margir, að seinna hlaupið muni stafa meðfram af því, að miklar uppistöður hafi myndast á Sprengisandi, nú í leysingunum og fengið framrás í Skjálfandafljót. Vatnsmagn fljótsins var mjög mikið og flóði það langt yfir bakka sína í gær víðá, en ekki er talið að meira tjón hafi hlotist af en þegar var orðið í fyrra hlaupinu. Í morgun var hlaupið tekið að réna að mun.

Tíminn 9. mars, fréttir bárust undan Eyjafjöllum:

Jón Hjörleifsson í Skarðshlíð skýrði tíðindamanni Tímans svo frá. í símtali í gær, að þar hefðu verulegar skemmdir orðið á brúm og vegum. Síðastliðið föstudagskvöld gróf Skógá svo undan stöpli þeim, sem brúin hvíldi á að vestan, að hún seig niður. Einnig reif hún skarð mikið í uppfyllinguna að austan. Brúin á Skógá er úr steinsteypu, og eru engar líkur til þess að unnt verði að lyfta henni að nýju. Víðar undir Eyjafjöllum urðu skemmdir á vegum, svo sem hjá Svaðbælisá, þar sem vatnsflaumur gróf skarð i veginn. Búið er að gera við þessar skemmdir til bráðabirgða, svo áð vegurinn er nú bílfær.

Í Vísi 16.mars er greint frá flóðum við innanvert Ísafjarðardjúp: 

Sigurður Þórðarson, bóndi á Laugabóli við Ísafjarðardjúp, hefir ritað Vísi eftirfarandi fréttabréf, dagsett 9. mars: „Í hinum óvenjulega miklu rigningum og vatnavöxtum sem hér hafa gengið undanfarið, hafa orðið miklar skemmdir á Þorskafjarðarveginum, svo að hann verður með öllu ófær bifreiðum þó að snjólétt verði í vor þangað til úr hefir verið bætt. Vegurinn fram Langadalinn er víða stórskemmdur. Hefir vatn runnið yfir hann mjög viða og grafið djúpt niður fyrir veginn, einkum þar sem steypt ræsi voru. Þar hefir vatnið grafið allt utan af og undan steypunni svo hólkarnir liggja þar og rennur ekki um þá vatn víða. Í heiðarbrekkunum hafa þrjár stórar skriður fallið yfir veginn og gert hann ófæran. Þar og annarsstaðar i brekkunum hefir vatnið tekið kanthleðsluna burtu og veginn með, svo að varla er fært hestum. Hjá brúnni við Bakkasel hefir áin tekið alla upphleðslu að brúnni burtu að vestanverðu og var áin þar á sund og ófær þeim megin brúárinnar í vöxtunum, en vatnið sauð á brúnni. Þó er hún óskemmd sjálf. Þetta vildi eg láta yður vita nú, vegna ferðamanna eða áætlunarbila er kynnu að brjótast vestur, er þeir heyra að snjólaust sé á heiðinni. Þá hefir og eyðilagst brú yfir gil, milli Laugabóls og Arngerðareyrar og er vonandi að vegamálastjórnin láti laga þetta allt svo snemma í vor sem unnt verður. Þyrfti að lengja brúna við Bakkasel, því þessi vegarhleðsla að henni fer árlega ef áin vex að ráði“.

Tíminn segir 9.mars frá vandræðaveðri á Vestfjarðamiðum:

Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði. Aðfaranótt sunnudagsins [7.mars] gerði hvassan norðaustan storm út af Vestfjörðum, og brast veðrið skyndilega á. Margir bátar voru á sjó frá Ísafirði og urðu margir þeirra fyrir miklu, veiðarfæratapi. Fjórir bátar Samvinnufélagsins misstu samtals um 350 lóðir. Vélbáturinn Vébjörn fékk á sig mikinn brotsjó og brotnuðu allar stíur og kom allmikill sjór í lest bátsins, en honum tókst þó að komast til hafnar. Bátar frá Hnífsdal og Sú0ayík urðu einnig fyrir miklu veiðarfæratjóni. Afli hefir verið mjög tregur á Ísafirði og gæftir stirðar síðan vertíðin hófst þar, og hafa engir bátar aflað fyrir tryggingu enn sem komið er.

Nú var farið að tala um hlýindi: Tíminn 10.mars:

Fregnir, sem borist hafa austan úr sveitum, herma, að enn séu þar sömu votviðrin og  hlýindin. Er jörð nú tekin að grænka sums staðar, og austur í Landeyjum er klaki að mestu farinn úr jörðu. Hlaupið í Ölfusá er nú búið, en áin er mikil eins og eðlilegt er um þetta leyti árs, er hlýindi ganga.

Veðrátta var áfram mjög óstöðug og úrkoma mikil. Mars 1948 er með úrkomusömustu marsmánuðum allra tíma. Sá úrkomusamasti í Stykkishólmi og á Kirkjubæjarklaustri, sömuleiðis á Ljósafossi (athugað frá 1937 til 1972). Þar mældist mánaðarúrkoman 446,8 mm. Flóðið í Varmá var þannig afleiðing óvenjumikillar úrkomu. Við vitum ekki hver úrkoma var á vatnasvæði hennar, en trúlega enn meiri en Ljósafosstölurnar gefa til kynna. 

w-1948-kort-v

Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í mars 1948. Strikalínur (daufar) marka þykktina, en litirnir sýna þykktarvikin. Vel má sjá hina eindregnu og hlýju suðvestanátt þessa óvenjulega mánaðar. 

Tíminn segir af sjóslysi 15.mars:

Aðfaranótt sunnudagsins [14.] drukknuðu fjórtán breskir sjómenn af breska togaranum Epine frá Grimsby, sem strandaði við Dritvík á Snæfellsnesi þá um kvöldið. Björgunarsveitirnar frá Arnarstapa og Sandi björguðu fimm mönnum af áhöfn skipsins. Mikið brim.

Hvasst varð um miðjan mánuð, tveir bátar sukku á Keflavíkurhöfn þann 16. Eins bárust fréttir af umferðarvandræðum í Hvalfirði og á Hellisheiði í fannkomu þann 19. Tíminn ræðir þann 17.mars um Keflavíkurflugvöll - ætli menn séu ekki að rugla eitthvað hér með meðalvind og hviður - rétt einu sinni: 

Það þykir tíðindum sæta, að þrátt fyrir hvassviðrið síðustu sólarhringana hefir Keflavíkurflugvöllur aldrei lokast og hafa flugvélar komið við á vellinum á hverjum sólarhringi síðan um helgi. Í nótt komu til dæmis við þar fjórar Skymasterflugvélar á leið frá Bandaríkjunum til Evrópu. Þessa daga hefir það stundum komið fyrir, að  vélarnar hafa orðið að bíða nokkurn tíma yfir vellinum til að geta lent, oft stundarfjórðung til hálfa klukkustund, en þá hefir verið hægt að lenda á milli éljanna, þó að hvasst væri. Í fyrradag lenti Skymastervél á vellinum, þegar veðurhæðin var 12 vindstig. Slík lending er að vísu erfið, en þó ekki talin hættuleg, þegar um vana og vel þjálfaða flugmenn er að ræða.

Óvenjuhlýtt var í veðri nokkra daga seint í mánuðinum. Þann 27. [laugardag fyrir páska] fór hiti í 18,3 stig á Sandi í Aðaldal, Íslandsmet í marshita á þeim tíma og stóð allt til ársins 2000, þegar hiti mældist 18,8 stig á Eskifirði þann 28. Síðar hefur enn verið bætt um betur, hæst 20,5 stig í Kvískerjum þann 29. árið 2012. Metið sem var slegið 1948 var 3 stigum hærra heldur en „gamla“ metið á þeim tíma, 15,2 stig. Sá hiti hafði mælst þrisvar, síðast á Hlaðhamri í Hrútafirði þann 21. mars 1943. Í Reykjavík fór hitinn í 14,2 stig, opinberlega það hæsta sem hefur nokkru sinni mælst þar á bæ í marsmánuði. [Við trúum 16,5 stigum frá 1913 illa]. Á Akureyri mældist hámarkshitinn 16,0 stig og er ekki vitað um hærri hita þar í mars. 

Tíminn segir 31.mars frá tjóni á Ísafirði - og getur síðan veðurblíðunnar.

Á skírdag [25.mars] var suðvestan ofsarok fyrir Vestfjörðum með hellirigningu. Landfestar þriggja báta, sem lágu í bátahöfninni hér á Ísafirði slitnuðu og rak þá upp á sandrifið, hjá Edinborg. Skemmdir urðu þó engar á þeim. Mjög var stórstreymt um þessar mundir og í veðrinu gekk sjór upp í Hafnarstræti og varð efsti hluti þess eins og fjara yfir að fara.

Mikil veðurblíða hefir verið um nær allt land síðustu dagana. Norðanlands og austan var hiti líkt og á sumardegi. Á Akureyri var oftast 14—16 stiga hiti á daginn meðan skíðamótið var. Á Hvammstanga var 14 stiga hiti á laugardaginn. Annars staðar hefir verið svipað þessu. Nú er aftur tekið að kólna í veðri, en veður er þó enn hið fegursta víða um land.

Það er nú á mörkunum að eftirfarandi pistill sem birtist í Vísi 1.apríl eigi heima hér - en látum gott heita. Um þetta mál eru auðvitað til nýrri og ítarlegri upplýsingar:

Kleifarvatn hefir í vetur byrjað að valda skemmdum á veginum meðfram vatninu undir  Sveifluhálsi, og er nú svo komið, að vegurinn er orðinn ófær venjulegum bifreiðum. Láta mun nærri að vatnið seytli yfir veginn á allt að 1000 metra svæði og hefir öldugjálfrið í vatninu sópað burt fyllingarefninu á þessum hluta vegarins, en öflugur grjótgarður sem settur var meðfram vegbrúninni vatnsmegin stendur enn víðast hvar upp úr. Jeppar og háir herbílar hafa enn farið veginn og haldið uppi nauðsynlegum flutningum til Krýsuvíkur, en aðrir bilar fara veginn naumast og flestir alls ekki. Samkvæmt upplýsingum sem Vísir hefir fengið hjá Vegamálaskrifstofunni hafa árlegar mælingar verið gerðar á vatnsborðinu frá því 1930, en auk þess var leitað upplýsinga hjá kunnugum mönnum um það hvernig vatnið hefði hagað sér áður og hve hátt vatnsborðið hefði komist hæst áður. Samkvæmt þessum upplýsingum hafði vatnið komist hæst svo vitað væri árið 1915 eða '16. Þá komst það í svokallaðan Lambhagahelli og var vegarlagningin meðfram vatninu miðuð við þær upplýsingar sem þá fengust. Var vegurinn lagður 1 metra hæð þá, og var talið að það myndi duga hvað sem á gengi. En nú hefir hækkað meira í vatninu en nokkurn óraði fyrir og um það bil 1 metra hærra en vatnsborðið hafði komist hæst áður, en hækkað um 4,8 metra frá því að reglubundnar mælingar hófust 1930.

Kleifarvatn hefir, sem kunnugt er, ekkert innrennsli, og sumir telja að vatnsbotninn sé svo gisinn að aðrennslisvatnið seytli þar niður. Hinsvegar eru áraskipti í að því hvort vatnsborðið hækkar eða lækkar. Dr. Bjarni Sæmundsson taldi Kleifarvatn eitt hið merkasta stöðuvatn heimsins vegna þessara kenja þess. Hann sagði að yfirborð þess, sem væri að jafnaði ca. 135 metra yfir sjó, hækkaði ca. 4 m á fáum árum, en lækkaði svo smám saman aftur á ca. 30 árum, án þess að menn vissu neitt um hvernig á því stæði.

Nú bárust allt í einu fréttir af hafís - eins og venjulega höfðu menn áhyggjur af honum. 

Tíminn segir frá í nokkrum aprílpistlum:

[5.] Þær fregnir bárust í morgun vestan af fjörðum, að hafís hefði rekið þar að landi í nótt. Virðist hann hafa komið af hafi utan nú í norðangarðinum, bar eð ekkert hefir orðið þar vart við ís á slæðingi áður. Ekki er þó enn unnt að segja, hversu mikil brögð eru að ísnum Samkvæmt fréttum frá Galtarvita norðan Súgandafjarðar var ís orðinn landfastur þar klukkan níu í morgun. Ekki verður þó um það sagt á þessu stigi, hversu mikinn ís er um að ræða, því að skyggni er vont, kafaldságangur og renningsstormur. Einnig hafa borist ísfregnir frá Horni. Er sagt, að töluvert af ís sé við bjargið og út af víkinni. Illa sést til hafsins, svo að ekki verður um það sagt, hversu mikil brögð eru að ísnum. Fátt er um skip úti af Vestfjörðum, svo að ekki hafa borist fréttir af sjó. Goðafoss mun ekki hafa verið kominn, nema til Þingeyrar í morgun.

[6.] Í morgun hafa litlar nýjar fregnir borist af hafísnum fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum. Þó er nú vitað að ísinn er minni en haldið var í fyrstu. Goðafoss hefir komist í gegnum íshrönglið og er nú kominn alla leið til Ísafjarðar. Þegar fyrstu fregnir bárust af hafísnum frá Galtarvíta í morgun voru þær óljósar. Vitað var að hafíshröngl var komið að landi, en hvort um ísbreiður væri að ræða út frá landinu sást ekki vegna dimmviðris.

Bátar, sem voru á sjó frá Önundarfirði í gær, sáu íshröngl á sjónum, en hvergi mikinn ís. Lögðu þeir lóðir sínar hindrunarlaust eins og venjulega. Nokkra jaka rak á land við Grímsey. Tíðindamaður Tímans átti í morgun tal við Víking Baldvinsson stöðvarstjóra í Grímsey og spurði hann frétta af ísnum. Hann sagðist hafa gengið fram á Bjarg á eynni rétt fyrir hádegi. Skyggni var þá slæmt og sást sama og ekkert. Fór Víkingur svo aftur austur á Bjarg skömmu eftir hádegið og sá þá nokkra jaka, sem rekið höfðu á land í fjörunni. Ekki hélt hann að mikill ís væri við eyna, en skyggni var slæmt, svo ekki sást langt út. Í morgun var einnig snjófjúk og slæmt skyggni.

Mönnum varð ónotalega við þegar þær fregnir spurðust í gær, að ísjaka hefði borið að landi við Gölt, norðan Súgandafjarðar, og orðið hefði vart við íshröngl við Horn og Grímsey. Raunar er það ekkert nýnæmi, að vart verði við ís í námunda við landið á útmánuðum. En það er eins og menn tækju þessum fréttum í gær af miklu meiri alvöru en oft áður, hvort sem því hefir valdið norðangarðurinn að undanförnu, vafi sá, sem á því lék, hversu mikinn kynni að vera um að ræða, eða einhverjar sálrænar orsakir. Ég spurði þá Jón Eyþórsson og Jónas Jakobsson veðurfræðinga álits á þessum fréttum í gærkvöldi.  Jón Eyþórsson benti á, að veður hefði verið með þeim hætti að undanförnu, að vel gæti verið, að talsverðan hafís hefði borið upp undir landið. Síðari hluta marsmánaðar hefði átt verið vestlæg, en stórviðri af norðri upp á síðkastið. Það væri að minnsta kosti sýnt, að talsvert íshrafl væri á svæði frá Vestfjörðum norðanverðum norður og austur um Grímsey. Hversu mikið það væri, yrði ekkert um sagt, fyrr en létti upp, svo að unnt væri að kanna svæðið. En að svo komnu máli væri ekki ástæða til þess að ætla, að endilega þyrfti að vera um hafþök að ræða. Jónas Jakobsson fletti fyrir mig í gegnum ísfregnabók Veðurstofunnar. Það kom í ljós, að á hverju ári verður eitthvað vart við hafís í námunda við landið, einkum á útmánuðunum, þótt hitt sé sjaldgæfara, að hann  verði landfastur eða valdi truflun eða trafala. Þannig varð til dæmis vart við hafís norðvestur af Vestfjörðum í maí 1946, og út af Horni var hafísbreiða samhliða siglingaleið 10—15 mílur frá landi. Í ágústmánuði 1945 kom hafísslitringur inn á Húnaflóa. í febrúar 1944 kom hafís undir Grímsey, og var samfelld hella að sjá til hafs. Í mars var hann orðin landfastur í Grímsey. Í aprílmánuði sama ár varð vart við ís á Dalatanga og á Reykjarfirði var íshrafl þennan sama mánuð. Það er því ekki nýnæmi, þótt  hér sé ísslitringur á sveimi um þetta leyti árs. Á hinn bóginn er alllangt síðan, að ís hafi lagst svo að landi, að voði stafaði af. Eitthvað nálægt tuttugu og fimm ár munu vera síðan einhverjar teljandi hindranir urðu á siglingum af völdum hafíss fyrir Ströndum og á Húnaflóa. En allslæm hafísár hafa komið á þessari öld, eins og 1906, þegar siglingateppa og vandræði urðu norðan lands, og 1914, harða vorið svokallaða, sem mörgum rosknum bændum mun enn í minni [mun meiri ís var 1915]. En vonandi er ekki neitt slíkt í aðsigi nú. JH

[7.] Í morgun var allgott skyggni á Vestfjörðum, svo að gerla var hægt að sjá, að samfelldur ís var ekki nærri landi. Hins vegar sést víða út af Vestfjörðum allmikill rekís. Þegar tíðindamaður blaðsins átti tal við Þórð Hjaltason stöðvarstjóri í Bolungavík í morgun, sást þaðan einn stór ísjaki á reki úti fyrir. Bátar, sem voru á sjó, sáu allmikinn rekís, en hvergi samfelldan ís. Einna mestur mun ísinn vera við Ísafjarðardjúp, en þar er að heita má belti af rekís fyrir mynni fjarðarins. Frá Goðafossi sem er nýlega farinn frá Ísafirði, hefir frést að íshrafl sé norður að Horni, og þar sjáist allstór ísspöng til hafs. Við Skaga sést einnig ís á reki.

[8.] Bátar úr Hnífsdal og Bolungarvík, sem voru á sjó í gær komust ekki á hin venjulegu fiskimið sín fyrir ís og fengu lélegan afla. Talsverður hafíshroði var þar sem þeir lögðu, einkanlega að austanverðu. Afli hefir annars verið sæmilegur hjá Vestfjarðarbátunum, þegar gefið hefir á sjó, en gæftir hafa verið stirðar lengi að undanförnu.

[17.] Í gær kom norskur hákarlaveiðari inn til Ísafjarðar. Hafði hann ætlað á hákarlamið út af Horni, en er hann var kominn 35 sjómílur út af Horni, rakst hann á samfellda hafísbreiðu, sem náði óslitið vestur fyrir Arnarfjörð. Komst hann því ekki á venjuleg og fyrirhuguð hákarlamið að þessu sinni og hafði litla veiði. Eftir þessum fregnum að dæma er svo að sjá, að hafþök af hafís séu skammt úti fyrir Vestfjörðum og þarf sennilega ekki nema dálítið norðankast til þess að ísinn reki aftur að landi. Og nú virðist norðanátt vera að aukast, og er til dæmis orðið allhvasst víða á Norðurlandi.

Ingibjörg í Síðumúla lýsir aprílmánuði um mánaðamótin: „Nú er frost á Fróni, en mjög hefir tíð verið misjöfn þennan mánuð, stundum dásamlega hlýtt og gott veður með 15 st. hita að degi og 8 stigum að nóttu, en hinn tímann frosti og norðannepju. Bliknaði þá sá gróður, er greri á hitatímanum. Nú er jörðin gaddfrosin, flekkótt af snjó og hvít og skinin á milli. Fé er enn hýst og gefið“.

Fádæma snjókomu gerði í Vestmannaeyjum og allra syðst á landinu 1. til 2. maí. Um þetta veður var fjallað í sérstökum pistli á hungurdiskum 3.maí 2018 - verður það ekki endurtekið hér - nema að litlu leyti. Fjárskaðar urðu þá í Mýrdal og samgöngutruflanir urðu. Snjór sagður í klyftir eða mitti í Vík. Snjóasvæðið náði frá Sólheimasandi og austur á Síðu.

Tíminn segir af snjókomunni í fréttum 3 og 5.maí:

[3.] Þau undur hafa gerst, að bifreiðaumferð í Vestmannaeyjum nær stöðvaðist vegna snjóa í gær og flugvélin getur ekki hafið sig á loft af flugvellinum þar vegna fannar. Venjulega sést varla snjór í Vestmannaeyjum á vetrum, og var einnig svo síðastliðinn vetur. En í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær kyngdi þar niður svo miklum snjó, að þar er nú hnédjúp fönn yfir allt á jafnsléttu. Hefir ekki komið þar svo mikill snjór í 10—20 ár. Ekki er viðlit fyrir flugvélina að komast á loft af flugvellinum vegna snjósins, og ekki er hægt að hreinsa völlinn með ýtum, þar eð um malarvöll er að ræða, enda engin tæki til slíks í Eyjum, meðal annars vegna þess, að alls ekki hefir verið búist við slíku fannfergi á vellinum.

[5.] Enn er mikill snjór í Mýrdal, en minni fyrir austan sand. Samt hefir ekki snjóað síðan á dögunum. Þótt sjatnað hafi undanfarna daga, er jörð enn lítið komin undan fönninni í Mýrdal. Skaflarnir á götunum í Vík voru 1—2 metrar og þykja það mikil firn.í maímánuði, En í dag er miklu hlýrra í veðri, svo snjó ætti að taka upp fljótlega. Ekki er vitað um neina teljandi fjárskaða. Búið er að ryðja með ýtum veginn austur til Víkur, og farið er á bílum austur yfir fyrir sunnan heiðar og yfir Múlakvísl þar.

Heldur kalt var í maí og júní, en tíðindalítið veður. Þann 7. júní varð alhvít jörð á Húsavík og víðar norðaustanlands. 

Tíminn segir fréttir úr Skagafirði 8.maí og enn fleira 10.maí:

[8.] Tíðarfar í Skagafirði var með einsdæmum gott s.l. vetur, svo að elstu menn muna vart slíka vetrarblíðu. Var hvor tveggja, að tíðin var mild og stillt og aldrei stórhríð. Þó var veðrátta eigi eins hagstæð í austurhluta héraðsins. Var þar stormasamara. Bílfært hefir verið um allt héraðið i vetur.

[10.] Að undanförnu hefir verið unnið að flóðvarnagarði undir Vindheimabrekkum í Skagafirði. Sækja Héraðsvötnin þar nú mjög fast á, svo að mannvirki þau sem þar eru fyrir, ern í hættu, ef þau verða ekki treyst stórum, og mikið og gott land í voða. Það var 1925 að Héraðsvötn fóru að brjóta land undir Vindheimabrekkum. En svo hagar til, að gamlir vatnsfarvegir liggja með brekkunum og vestur í Svartá. Sýnilegt var, að ef „Vötnin" næðu þessum farvegum, myndi meginhluti þeirra leggjast vestur í Svartá og þar með flæða yfir vesturhluta eylendisins, eyðileggja þjóðveginn yfir Vallhólm og engjar og ræktarlönd fjölda jarða í vestanverðu héraðinu. Var þá um haustið stofnað félagið Héraðsvatnafyrirhleðslan af bændum úr 5 hreppum, til að vinna að því að hindra landbrotið. Var þá byggður varnargarður úr grjóti undir umsjá vegamálastjóra. Þótt tækist að stöðva landbrotið í bili, kom fljótt í ljós að eigi væri hættunni aflétt og eftir athugun og mælingu verkfræðinga var nokkrum árum síðar byggður varnargarður allmiklu norðar frá svo nefndu Arnarbergi.

Þann 21. maí segir Tíminn af tíðarfari vetrarins í Dalasýslu:

Ágúst Júlíusson bóndi að Laugum í Dalasýslu var staddur í bænum fyrir skömmu, og hitti tíðindamaður blaðsins hann að máli. Tíð hefir verið stirð vestra að undanförnu, en fénaðarhöld eru góð, þrátt fyrir ill hey í vetur, og nýi fjárstofninn virðist reynast vel. Vegir spilltust mjög í vatnavöxtum góðviðrisdagana um páskaleytið, og þurfa þeir mikillar aðgerðar við eftir veturinn víða í Dalasýslu. Hvernig hefir tíðin verið í Dalasýslu í vetur? „Hún má teljast góð. Veturinn var óvenjulega snjóléttur. Um páskaleytið var mikil veðurblíða í Dalasýslu sem annars staðar á landinu, og komst hiti þá upp í 17—20 stig. Síðan kom kuldakast og kulnaði þá allur gróður, sem kominn var, og nú er mjög lítill gróður kominn aftur“.

Kuldafréttir eru í Tímanum 27.maí:

Lítið er farið að vora á Vestfjörðum ennþá. Snjóað hefir í fjöll af og til undanfarna daga og næturfrost hafa verið tíð. Gróður er enn mjög lítill vegna kuldans.

Tíminn segir 2.júní enn af tíð í Dölum:

Styrkár Guðjónsson bóndi í Tungu í Hörðudal er staddur bænum um þessar mundir, og leit hann inn á skrifstofu blaðsins fyrir nokkrum dögum. Fréttamaður blaðsins spurði hann tíðinda að vestan. Veturinn þar hefir verið snjóléttur og vorið mjög kalt til þessa. í síðustu viku var oft 4—6 stiga frost á nóttum og grátt ofan í miðjar fjallshlíðar. Hörðudalsá var brúuð í fyrra hjá Hörðubóli, en sú brú er ekki á heppilegum stað og má nefna til dæmis um það, að í vetur hljóp áin undan brúnni, og var þá hvorki fært á hana né af á hestum. Rennur áin þarna á eyrum, og er það slæmt, að ekki skuli vera hægt að treysta því, að fært sé yfir þessa góðu brú, þótt vöxtur sé í ánni. Hvenær komu þessir miklu vatnavextir hjá ykkur í Dalasýslu? Það var á góunni, og eru þetta mestu vatnavextir, sem komið hafa hjá okkur síðan 1930. Miklar skemmdir urðu á vegum víða í sýslunni og verða viðgerðir þeirra miklar og dýrar í vor.

Mjög hlýtt var um allt Norðaustur- og Austurland síðast í júní. Þá mældist hæsti hiti ársins, 24,2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum [28.]. 

Þann 10.júlí gerði allmikið þrumuveður á Suðvesturlandi - snemma morguns. Veðurathugunarmaður á Víðistöðum í Hafnarfirði segir þrumuveðrið hafa staðið frá 3:30 til 5:15 um morguninn. Svo er að sjá að þrumuveðrið hafi tengst skilakerfi lægðar skammt fyrir vestan land. Heldur óvenjuleg uppákoma á þessum tíma sólarhrings að sumarlagi. Skráð er í bækur að sólarhringsúrkoma á Arnarstapa á Snæfellsnesi hafi mælst 91,1 mm. Þrumuveðrið gerir þetta að líklegri tölu en ella - alla vega þurrkum við hana ekki út umhugsunarlaust. 

Morgunblaðið segir frá 11.júlí:

Mjög óvenjulegt veður gerði hér í Reykjavík og nokkrum öðrum stöðum hér suðvestanlands, snemma í gærmorgun [10.júlí]. Um kl. 5.30 kváðu við miklar þrumudrunur, en skömmu síðar gerði úrhellisrigningu. Fór rigningin vaxandi næsta hálftíma, en um kl. 6, mun hún hafa náð hámarki sínu og um líkt leyti var þrumugnýrinn mestur. Vaknaði mikill fjöldi bæjarbúa við hávaðann. Úrkoman var svo mikil, að líkast var því, sem skýfall hefði orðið. Jón Eyþórsson veðurfræðingur sagði Morgunblaðinu í gær, að slíkt veður sem þetta væri mjög sjaldgæft hér og á Norðurlöndum einnig. Veðrið stóð í sambandi við lægð milli Íslands og Grænlands. Jón taldi víst, að mest mundi hafa rignt hér í Reykjavík, en á þessum klukkutíma mældist úrkoman 17 mm. Þrumuveður og rigning mun einnig hafa verið í nærsveitum hér austan fjalls. en þess var þó ekki getið í veðurskeytum í gærmorgun. Tvær veðurathugunarstöðvar tilkynna þrumuveður, Keflavíkurflugvöllur og Reykjanesviti. Á Eyrarbakka mun úrkoman hafa veið um 16 mm og á Þingvöllum 11 mm. — í Borgarfirði var hún 6 mm og minni eftir því sem vestar dró.

Tíminn 11.júlí - fyrst um þrumuveðrið, en síðan af grassprettu:

Mikið þrumuveður gerði á Reykjanesskaga og við Faxaflóa snemma í gærmorgun. Þrumaði látlaust í hálftíma af óvenjulegra ákefð, miðað við það. sem hér gerist, og fylgdi úrhellisrigning. Lék allt á reiðiskjálfi, þegar reiðarslögin riðu yfir.

Grasspretta hefir verið með minnsta móti norðanlands í vor og sumar, enda verið miklir kuldar samfara þurrkum. Fyrri viku byrjaði að rigna eftir langvarandi þurrka, og hefir gróðri farið mikið fram síðan. Sláttur er þó óvíða byrjaður, norðanlands, nema inn til dala þar sem hlýrra er, en úti með fjörðum er lítil spretta. Segja aldraðir menn, að þetta sé eitt það kaldasta vor, er þeir muna. Sláttur er víða byrjaður i innsveitum Eyjafjarðar og tún víða vel sprottin þar. Hins vegar er mjög óvíða farið að slá í Húnavatns- og  Skagafjarðarsýslum. Sunnanlands er sláttur víðast hvar byrjaður og búið að slá mestan hluta túnanna á allmörgum bæjum.

Í Tímanum 22.júlí segir frá því að í flóðunum í marsbyrjun muni hafa hlánað hátt til fjalla: 

Tíðindamaður Tímans hitti Teit Eyjólfsson, forstjóra að Litla-Hrauni, að máli í gær. Hefir hann farið allmargar ferðir upp á öræfin í sumar. Sagði hann, að flóðið, sem varð í Hvítá og  í vetur, hefði sýnilega átt upptök sín inni við jökla. Teitur skýrði svo frá, að  þetta flóð hefði valdið miklu tjóni á veginum upp á Hveravelli og í Kerlingarfjöll. Hefði það meðal annars sópað brúnum af Svartá og Jökulfalli, og sést ekki urmull eftir af brúnni, sem var yfir Jökulfallið. Er nú með öllu ófært á bifreiðum upp í Kerlingarfjöll. Einnig hafa orðið miklar skemmdir á veginum, sérstaklega vestan Bláfells. Nú er þó búið að gera við  veginn til bráðabirgða, og er farið yfir Svartá á nýju vaði. Er því fært á bifreiðum inn á Hveravelli og leiðin allgreiðfær.

Heldur kuldalegt varð um tíma seint í júlí: 

Vísir 22.júlí: Mjög kalt er nú norðan lands og í nótt snjóaði í fjöll niður í miðjar hlíðar eða jafnvel lengra niður.

Tíminn 23.júlí: Mikill kuldi er nú um allt land, þótt hans gæti mest norðanlands. Hefir svo verið tvo síðustu daga.

Tíminn 24. júlí: Tíðindamaður Tímans hitti í gær Hannes Jónsson frá Hleiðargarði i Eyjafirði. Hann kvað síðasta vor hafa verið eitt hið kaldasta, er aldraðir menn á Norðurlandi minnast, þegar ekki hefir verið hafís uppi við ströndina. Eigi að síður er nú sæmileg spretta í Eyjafirði. Er það fyrst og fremst því að þakka, að ekki gat heitið, að neinn klaki væri í jörðu undan vetrinum, svo að ekki lagði kulda að gróðrinum neðan frá.

Þann 25. júlí var óvenjudjúp lægð skammt undan Suðvesturlandi. Þrýstingur fór niður í 977,9 hPa í Reykjavík, ekki met, en heldur óvenjulegt samt. 

Við látum Ingibjörgu í Síðumúla lýsa sumarveðráttunni fram í september:

Júlí: Júlímánuður var yndislegur að veðurfari, þurrviðrasamur og hlýr. Heyskapur gengur því mjög ákjósanlega. Tún eru allvel sprottin, og nú er langt komið að slá þau og hirða inn töðuna, sem öll þornar jafnóðum, græn og góð.

Ágúst: Indæl tíð, ágætur heyskapur. En síðasta vika mánaðarins hefir verið vætusöm og er því dálítið hey úti enn.

September: September var þurrviðrasamur, en stundum nokkuð kaldur. Hey var hirt inn snemma í mánuðinum. Kartöflur náðust upp í þurru og góðu veðri, og var uppskera í meðallagi. Sumstaðar var mikill vatnsskortur til stóróþæginda, en í dag er mikil rigning og rætist vonandi úr vatnsleysinu.

Eins og Ingibjörg segir var óvenjuþurrt í september. Í hópi þurrari septembermánaða á Suðvestur- og Vesturlandi. Ekki mátti þar mikið þorna til að það færi að bera á vatnsskorti á þessum árum. Leiðinlegt norðanveður gerði í mánuðinum. Morgunblaðið segir frá þann 16.:

Í norðanveðrinu um síðustu helgi [12.] urðu skemmdir á hafnarmannvirkjum á Blönduósi, Sauðárkróki, Hofsósi og Dalvík. Mestar skemmdir urðu á hafskipabryggjunni á Hofsósi, sem verið er að lengja. Mikið brim var á Blönduósi og skemmdist þá steinker, sem nota á til að lengja bryggjuna þar. Í sumar hefur verið unnið að því að lengja hafskipabryggjuna [á Hofsósi] og þegar veðrið skall á var búið að setja niður um 60 m langt járnþil. Í briminu lagðist um þriðjungur þilsins út af. ... Hafskipabryggjan á Dalvík varð og fyrir lítilsháttar skemmdum í veðri þessu. Á Sauðárkróki urðu nokkrar skemmdir á hafnarmannvirkjum í illviðrinu. Þar skemmdist steinnökkvinn sem verið hefir í byggingu og sökkva átti við bryggjuna. Ennfremur urðu aðrar skemmdir á hafnarmannvirkjum bæjarins.

Í forystugrein Vísis var bent á að þessar hafnarskemmdir hafi einkum orðið þar sem framkvæmdir voru í gangi - og gefið í skyn að þeim hefði miðað hægt - staðið að þarflausu í mörg ár - og þar með hafi líkur á skemmdum aukist. 

Tíminn gerir heyskaparsumarið upp í pistli 19.september:

Heyskap er nú yfirleitt lokið sunnan lands og vestan, en bændur á Norður- og Austurlandi eiga enn nokkur hey úti. Heyfengur er orðinn góður, og hey munu víðast hvar vera vel verkuð í sumar, að því er Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri hefir tjáð blaðinu.  Síðastliðið vot var sprettan óvenjulega sein. Vorið var líka kalt og þurrkasamt, víðast hvar um landið. Sláttur byrjaði á þessum sökum talsvert seinna en venjulega, víðast einni til tveimur vikum seinna. Sumarið, sem nú er að líða, hefir verið þurrkasamt að heita má um allt land, einkum þó á Suður- og Vesturlandi. Heyskapurinn gekk því að óskum, þegar byrjað var á honum, og tún voru orðin nógu sprottin til þess, að hægt væri að slá þau. Þegar líða tók á sumarið varð grasspretta líka góð, bæði á túnum og útengjum. Flæðiengi voru þó sums staðar fremur léleg að þessu sinni, og stafaði það af því, mikil viðbrigði frá í fyrra. Á Suðurlandi og víðast hvar á Vesturlandi er heyskap lokið. Hefir sumarið verið hið ákjósanlegasta hvað tíðarfar snertir. Er varla hægt að segja að nokkurn tíma hafi rignt nokkuð að ráði. Hey á þessu svæði er því mjög góð að þessu sinni og mikil viðbrigði frá í fyrra. Þá varla kom þá þurr dagur á Suðurlandi, allt sumarið til hausts. Er óhætt að fullyrða, að slætti hefði lokið nokkru fyrr, ef spretta hefði orðið fyrri til í sumar, og ekki þurft að bíða eftir því að tún yrðu sláandi. Heyskapurinn gekk vel norðan lands og austan framan af sumrinu. Náðu menn upp jafnóðum fyrri slætti af túnum og nokkru af útengi víðast hvar. En síðastliðinn hálfan mánuð má heita, að samfelldar úrkomur hafi verið norðan lands og austan. Eru hey þar því farin að hrekjast mikið. Sumir bændur á þessum slóðum eiga  mikil hey úti, aðallega á útengjum og há. Þegar allt kemur til alls er óhætt, að segja,
að sumarið, sem nú er að líða, hafi orðið gott heyskaparsumar, þótt heldur illa  horfðist á með grassprettuna framan af sumrinu.

Í byrjun október gerði mikla úrkomu víða um land. Hún olli skriðuföllum í Skagafirði: Tíminn segir frá 3.október:

Í fyrrinótt féllu skriður yfir þjóðveginn á löngum kafla milli Silfrastaða og Ytri-kota í Skagafirði. Var öll bílaumferð stöðvuð þarna í gær og komust bílar ekki frá Akureyri suður, eða norður til Akureyrar að sunnan. Unnið var af kappi í allan gærdag með tveimur jarðýtum að ryðja af veginum og búist við að því verki lyki um miðnætti í nótt.

Í fyrradag rigndi óvenjumikið norðanlands og stóð rigningin að heita má stanslaust þar til í gærmorgun að upp stytti. Orsakir skriðufallanna eru því vatnavextir í fjallshlíðinni fyrir ofan þjóðveginn, og reif vatnselgurinn með sér skriðurnar. Bóndinn á Silfrastöðum tjáði tíðindamanni Tímans að mest hefði rignt þar á tímabilinu frá því klukkan fimm í fyrradag og fram yfir miðnætti. Skriðurnar hafa aðallega fallið um og eftir miðnættið, nokkuð um svipað leyti. Fjárbíll festist þegar skriða féll á hann ... þar sem hann ók eftir veginum. Varð það til happs að sú skriða var þunn og féll hægt svo bíllinn gat rifið sig lausan út úr aurleðjunni áður en aðalskriðan kom á veginn. Skriðurnar féllu á veginn á um 3 km löngum kafla. Ein skriðan féll yfir túnið á Silfrastöðum og önnur rétt utan við það. Lá við að bærinn yrði þarna fyrir skemmdum, því ein kvísl skriðunnar féll heim að bænum og staðnæmdist fyrir framan bæjardyrnar svo varla var hægt að ganga þar út og inn um bæinn í gær fyrir aur úr skriðunum. Símalínurnar á þessu svæði skemmdust mjög mikið.

Í lok október gerði mikið landsynningsillviðri á Suðvestur- og Vesturlandi. Segir nánar af því í sérstökum pistli hungurdiska og má lesa um það þar. 

Tíminn 10.nóvember:

Afspyrnurok gerði víða vestanlands og norðan í fyrrinótt og urðu sums staðar skemmdir af völdum þess. Mestar munu þær hafa orðið á Siglufirði, en þar fuku járnplötur af húsum og þök skemmdust. Gamalt timburhús fauk líka um koll, en stórvægilegt getur tjónið þó ekki talist. [Í þessu veðri fréttist einnig að fiskhús hefðu fokið af grunnum í Gunnólfsvík].

Tíminn 12.nóvember:

Um síðustu helgi, eða öllu heldur á mánudaginn [8.], gerði afspyrnuveður úti fyrir Norðurlandi og komust bátar, sem voru á sjó, með naumindum til lands. Einn bátur frá Dalvík lenti í miklum hrakningum í veðrinu og komst ekki til hafnar fyrr en á þriðjudag. Var um tíma óttast um afdrif bátsins.

Tíminn 17.nóvember:

Síðastliðið þriðjudagskvöld [líklega 9. nóvember] gerði illviðri mikið austur á Jökuldal. Skall norðan stormur á þá um kvöldið og fylgdi honum úrhellisrigning. Undir morguninn breyttist veðrið og gerði hörkuhríð. Stóð veður þetta allt til hádegis á miðvikudag, án þess að nokkurt lát væri á, en þá stytti skyndilega upp og gerði sæmilegasta veður. Tíðindamaður Tímans átti í gær símtal við frú Önnu Einarsdóttur húsfreyju að Fossvöllum í Jökulsárhlíð og spurði hana frétta af veðrinu. Innarlega í Jökuldal varð fannfergið mest. Fennti fé á nokkrum bæjum í dalnum, og svo nokkrum tugum nam á þeim bæjum, þar sem flests er saknað. Vitað er um að margt fé hefir fennt frá Giljum, Hofteigi og Hjarðarhaga. Hefir margt fé fundist dautt undan fönninni. Ekki er vitað um mikið tjón að öðru.leyti af völdum þessa fárviðris, en þó munu nokkrar skemmdir hafa orðið á símalínum.

Tíminn 24.nóvember:

Vélbáturinn Armbjörn úr Reykjavík slitnaði upp á Grundarfirði í afspyrnuroki í gærkveldi og rak út fjörðinn, þar sem hann tók niðri á skeri. Vélbáturinn Runólfur frá Grundarfirði fór á strandstaðinn, en Arinbjörn komst aftur á flot með aðfallinu.

Tíminn 26.nóvember:

Asahláka hefir verið víða norðan lands síðustu daga og er jörð alauð í byggð og víða langt upp til fjalla. Sunnanlands hefir einnig verið hlýtt síðustu dægur og víða rignt talsvert. Þar er alautt.

Tíminn 27.nóvember:

Fréttabréf úr Öxarfirði: „Sumarið er liðið og veturinn genginn i garð. Þetta síðasta misseri hefir tíðarfarið verið næsta mislynt, þótt stórillt hafi það ekki mátt kallast. Vorið var eitt hið kaldasta og gróðurlausasta sem elstu menn muna og héldust kuldarnir óslitið allan júnímánuð. Um það leyti byrjar sláttur venjulega. En að þessu sinni var hér þá hvergi sláandi gras. Með júlí brá loks til nokkurra hlýinda og tók þá gras að spretta, svo að ýmsir gátu farið að slá nýrækt um miðjan mánuðinn. En yfirleitt byrjaði sláttur ekki fyrir alvöru fyrr en dagana 23. og 24. júlí. En ekkert hirtist þó af heyjum í þeim mánuði sökum votviðra. Með ágústbyrjun gekk í þurrka og héldust þeir allan mánuðinn. Var þá hin ágætasta heyskapartíð. Luku þá allir fyrri slætti að fullu og sumir voru byrjaðir á háarheyskap. En þessi góða heyskapartíð varð heldur endaslepp. Með 1. september gekk í hina verstu ótíð og má segja, að hún hafi haldist óslitið  síðan. Síðast í september komu þrír góðviðrisdagar og aðrir þrír dagar fyrir miðjan október. Þá voru menn við fjárrekstra eða í göngum, svo að þessir dagar notuðust illa til heyþurrkunar, en talsvert var þó hirt, en óvíða að fullu. Eiga sumir talsvert af há ennþá úti, sem kemur þó áð nokkrum notum, þar sem heyið er í sátum. Heyfengur mun yfirleitt hafa orðið í meðallagi og sumstaðar betri, þar sem tún voru að spretta fram undir ágústlok, má telja víst, að heyin séu mjög góð, nema það sem lenti i hausthrakningi“.

Um mánaðamótin nóvember/desember gerði mikið illviðri á Vestfjörðum. Skemmdir urðu allvíða, mestar í Súðavík. Bátar löskuðust í höfninni og brim eyðilagði hluta af aðalgötu þorpsins. Þekktast er veðrið hins vegar fyrir strand togarans Sargon við Hafnarmúla í Patreksfirði. Var björgunin kvikmynduð og notuð inn í myndina frægu um björgunarafrekið við Látrabjarg, en það átti sér stað ári áður. Fjölmargir fórust í Sargonstrandinu (sjá hér að neðan). 

Slide8

Kortið sýnir stöðuna um hádegi fimmtudaginn 2. desember. Þá er versta veður á Vestfjörðum, frost og hríð - þrýstilínur mjög þéttar, Annars staðar á landinu var veður mun skaplegra, t.d. 8 stiga hiti í Reykjavík. Gríðarmikil úrkoma féll á undan skilunum á leið þeirra norður á landið. Það var ekki aðeins Sargon sem strandaði. [Veður í Þórshöfn í Færeyjum er ritað á lengst til hægri á kortinu]. Tíminn segir frá í frétt þann 3. desember: 

Í fyrrakvöld strönduðu tveir togarar á Vestfjörðum með stuttu millibili, annar íslenskur, Júní frá Hafnarfirði, hinn enskur, Sargon frá Grimsby. Var aftaka veður vestra og raunar ófært, bæði á sjó og landi. Þrátt fyrir veðurofsann var skjótt brugðið við um björgun, og tókst að bjarga allri áhöfninni á Júní, og sex mönnum af seytján,  sem voru á enska togaranum. Tíu Englendinganna dóu úr kulda. Í fyrradag var aftakaveður um mestan hluta landsins.Vestan lands og á Vestfjörðum var veðrið þó einna mest, hvassviðri og hríð. Klukkan 18.30 sendi togarinn Júní frá Hafnarfirði út neyðarskeyti, og var tilkynnt, að skipið væri strandað við Sauðanes á Vestfjörðum. Var skipið á leið inn á Önundarfjörð undan veðrinu. Meðan menn voru með allan hugann við björgun skipverja af Júní, barst neyðarkall frá öðrum togara, er strandaður var undir Hafnarmúla við Örlygshöfn, sunnanvert við Patreksfjörð. Heyrðu skipverjar á togurunum, sem komnir voru á strandstaðinn við Sauðanes, neyðarkallið kl. 21.20 í fyrrakvöld. Kom í ljós, að breski togarinn var Sargon frá Grimsby. Var sá togari hér í höfninni fyrir fjórum dögum, og var því nýfarinn á veiðar, er hann strandaði. Er þetta lítill togari, varla minna en þrjátíu ára gamall. Þegar skipverjar sendu út neyðarkallið, sögðust þeir vera strandaðir einhversstaðar við Patreksfjörð, og að skipið væri að sökkva. Síðan heyrðist aldrei neitt frá skipinu, en blysum var varpað frá því skömmu fyrir miðnætti og síðan klukkan fimm i gærmorgun. Þrátt fyrir erfiða aðstöðu tókst björgunarsveitinni frá Örlygshöfn hins vegar að koma línu um borð i skipið og gat hún bjargað sex mönnum  á björgunarstól í land. Gerðist þetta um hádegisbilið. Var þá enginn maður eftir lifandi á skipsflakinu. Höfðu tíu skipverja dáið úr kulda, en einn tók út um svipað leyti og skipið strandaði og drukknaði hann. Mennirnir, sem bjargað var, voru aðframkomnir af kulda og vosbúð, er þeir komu á land, og gátu ekki svo mikið sem skrifað nöfn sín. Voru þeir fluttir á bæi í Örlygshöfn eða þar í grennd og hjúkrað eftir föngum.

Miklar skemmdir urðu á símalínum í ofviðrinu í fyrradag. Mestar eru skemmdirnar á Vestfjörðum, og var með öllu símasambandslaust við Vestfirði í gær, og einnig var sambandslaust við Hólmavík og Stykkishólm. Þá er ennfremur símasambandslaust við Austfirði, vegna bilana á línum þar.

Enn segir Tíminn frá þann 4.desember:

Ekki hafa borist neinar nánari fregnir af björgunarstarfinu við breska togarann, sem strandaði við Hafnarmúla á miðvikudaginn. Símasambandslaust er enn við alla Vestfirði, en hægt er að ná loftskeytasambandi við skip, sem eru á fjörðunum, en meginhluti togaraflotans, sem er á veiðum, lá þar inni á fjörðum í gær. Henry Hálfdánarson, skrifstofustjóri  Slysavarnafélagsins, tjáði tíðindamanni blaðsins í gær, að ekki væri enn vitað, hverjir tóku þátt í hinu erfiða björgunarstarfi við Hafnarmúla, eða hvernig skipbrotsmönnunum, sem af komust, líður. Hafði Henry samband við skipstjórann á togaranum Verði í gegnum loftskeytatæki. Sagði hann, að veðrinu væri fyrst farið að slota um miðjan dag í gær, og var þá ætlunin að senda bát frá Vatneyri í morgun yfir fjörðinn, til að fá fregnir, sem síðan væri hægt að senda með loftskeytum til Reykjavikur. Ætla Patreksfirðingarnir að senda línu í land frá bát sínum og fá boð frá landi í flösku. Líðan skipbrotsmannanna af Júní er góð og bíða þeir á Flateyri eftir að veður batni, svo að hægt sé að flytja þá suður.

Illviðrasyrpan hélt síðan áfram. Tíminn segir frá 7. desember:

Aðfararnótt laugardagsins [4.desember] urðu allmiklar skemmdir á hafnarmannvirkjum Kaupfélagsins í Vopnafirði. Var í haust steyptur 50 metra langur garður, sem síðar á að fylla að og mynda þannig athafnasvæði. Var ekki búið að fylla að nema litlum hlut af garðinum. Aftaka brim gerði um nóttina og hrundi nokkur hluti garðsins. Er talið að tjónið nema nokkrum þúsundum króna. 

Tíminn ræðir símabilanir og viðgerðir í pistli þann 11. desember: 

Fullkomið símasamband komst á kl.15 þann 9. desember við Ísafjörð. Hafði landssímalínan slitnað niður í ofviðrinu 1. desember á 15 km svæði í Ögurhreppi og á 400 m. svæði í Reykjarfjarðarhreppi við Ísafjarðardjúp. Þá slitnaði línan einnig á svæði á Steingrímsfjarðarheiði og auk þess voru nokkur slit milli Hólmavíkur og Borðeyrar. Búist er við að símasamband komist á við Stykkishólm og aðrar símstöðvar á Snæfellsnesi nú í kvöld. Landssímalínan lagðist á hliðina á 12 km. svæði á Mýrum vegna óvenjumikillar ísingar sem gerði 1. desember og auk þess slitnaði á mörgum stöðum frá  Arnarstapa á Mýrum að Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi.

Næsta illviðri olli einnig hörmulegum slysförum, í þetta sinn snjóflóði í Goðdal í Bjarnarfirði þann 12. Víðáttumikil lægð dýpkaði vestur af Bretlandseyjum og þokaðist nær. Vindur óx mjög af norðaustri og gerði illskuveður. 

Slide9

Kortið sýnir veðrið síðdegis þann 12. Norðaustanillviðri geisar um land allt, mikil hríð fyrir norðan, veðurathugunarmaður á Hamaendum í Dölum (Guðmundur Baldvinsson) segir af 11 vindstigum og 5 til 50 metra skyggni þennan dag. Á Suðurlandi var þurrt að mestu þann 12., en snjóaði nokkuð þann 13. og 14., þrátt fyrir norðanáttina. Á kortinu má sjá 8 stiga frost í Bolungarvík, en 5 stiga hita í Loftsölum í Mýrdal. Fréttaflutningur var nokkuð stopull. Við lítum fyrst á frétt Morgunblaðsins þriðjudaginn 14.: 

Um helgina hefur verið aftaka veður um allt land einkum á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Var ofsarek á norðaustan sunnudag. en í gær lægði rokið heldur og tók að hlaða niður snjó. Símasamband hefur slitnað víða, einkum til Vestfjarða. Fjallvegir eru orðnir ófærir á öllum vesturhluta landsins.

Tíminn segir frá sama dag, 14.desember:

Norðanveðrið, sem skall á síðastliðna sunnudagsnótt var mjög hart víða um land, en einna hvassast var suðvestanlands og vestan. Miklar símabilanir urðu víða um land. ... Fjölsímasamband við Ísafjörð féll niður á laugardaginn vegna samsláttar á línum milli Hvítaness og Ögurs við Ísafjarðardjúp. Milli Borðeyrar og Hólmavíkur er sambandslaust. Þrefalda fjölsímasambandið við Akureyri er rofið vegna slita milli Dalsmynnis og Búðardals, en einfalt talsímasamband er með fjölsíma til Akureyrar, og þaðan er aftur samband til Siglufjarðar. Sambandslaust er við Stykkishólm vegna slita vestan við  Brúarfoss. Línan milli Króksfjarðarness og Stórholts er biluð. Á Suðurlandi er símasamband austur að Núpsstað, en línan milli Núpsstaðar og Fagurhólsmýrar er biluð. Viðgerðir á símalinum hafa tafist fram að þessu vegna óveðurs, sem enn er viða um land.

Flestir fjallvegir landsins eru nú ófærir bifreiðum sökum snjóa. Áætlunarbifreiðarnar, sem lögðu af stað frá Akureyri áleiðis suður á laugardagsmorgun, komust ekki nema til Blönduóss, og eru þær þar tepptar. Bifreiðar, sem lögðu á Holtavörðuheiði, urðu þar fastar, og hélst allmargt fólk við í sæluhúsinu á heiðinni eða í bifreiðunum, þar til í gærmorgun, að snjóýta var send að sækja fólkið. Kom það að Fornahvammi í Norðurárdal fyrir hádegi í gær. Allir munu þó hafa verið sæmilega haldnir, eftir þessa útilegu á Holtavörðuheiði.

Tíminn heldur áfram daginn eftir, 15.desember:

Í gær lokuðust leiðir víðast hvar um landið vegna snjóa. Allir fjallvegir norðanlands og sunnan eru með öllu ófærir bifreiðum og mikill snjór á láglendi víðast hvar og ófært bifreiðum. Þó var sæmilega fært um Borgarfjörð i gær, samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk frá Ásgeiri Ásgeirssyni skrifstofustjóra Vegamálaskrifstofunnar. Í nágrenni Reykjavíkur var orðin þung færð í gærkvöldi, en þó bílfært um Mosfellssveit og Kjalarnes. Leiðin fyrir Hvalfjörð var hins vegar orðin ófær í gærdag og urðu mjólkurbílar frá Borgarnesi, sem voru á leið suður, fastir í snjó skammt frá Þyrli. Til Norðurlands er nú orðið ófært með öllu og einnig er ófært um byggðir þar víðast hvar.

Tíminn notar tækifærið þann 16.desember til að hnýta í „íhaldið“. 

Það er Krýsuvíkurveginum að þakka, að næg mjólk berst væntanlega til bæjarins í dag, versni veður ekki aftur. Var sú leið eingöngu farin í gær, bæði af flutningabifreiðum og fólksbifreiðum, sem bæði fóru austur og komu að austan. Allar aðrar leiðir eru nú með öllu ófærar bifreiðum, en Krýsuvíkurvegurinn hins vegar greiðfær. Var í gær unnið að því að ryðja snjó af veginum í Ölfusinu og viðar í lágsveitum austan fjalls, en sjálfur Krýsuvíkurvegurinn var nær snjólaus, nema við Kleifarvatn, þar sem moka þurfti á stuttum kafla. Má því segja, að í þessari fyrstu ófærð vetrarins rætist vel úr með flutninga að höfuðborginni, þrátt fyrir fjandskap bæjarstjórnarmeirihluta íhaldsins við Krýsuvíkurveginn, sem nú er lítið ánægður yfir því, að reykvísk börn fá mjólk eftir hinni nýju vetrarbraut, sem gerð var í óþökk bæjaryfirvaldanna.

Það var fyrst sunnudaginn 19. desember sem ritað var um snjóflóðið í Goðdal. Tíminn segir þá frá: 

Átakanlegt slys varð að Goðdal í Bjarnarfirði á Ströndum síðastliðinn sunnudag [12. desember]. Mikil snjóskriða féll úr Hólsfjalli og lenti á bænum, en ekki vitnaðist um slysið fyrr en á fimmtudag [16.]. Var þá þegar grafið í rústirnar. Fjórir af heimilisfólkinu voru þá látnir, tveir með lífsmarki, en dóu eftir skamma stund, en aðeins einn maður, Jóhann Kristmundsson bóndi í Goðdal, heldur lífi, meiddur og kalinn.

Miklum snjó hlóð niður á Ströndum um síðustu helgi, eins og víðar um norðurhluta landsins. Höfðu miklar hengjur myndast í Hólsfjalli og víðar, og féllu snjóskriður, sem rufu símalínur, svo að ekki var samband milli bæja. Snjóflóðið, sem féll á bæinn í Goðdal, var 130 metra breitt. Steyptist það yfir snemma á sjöunda tímanum á sunnudagskvöld. Hafði klukka, sem grafin var upp úr rústunum, stöðvast fimmtán mínútur yfir sex. Húsið í Goðdal var að mestu leyti úr steini, en eigi að síður reif snjóskriðan það af grunni og bar það með sér langt niður á túnið. Stöðvaðist það þar norðarlega í röstinni, og voru veggir þess í méli og rústirnar fullar snjó. 

Bærinn Goðdalur er innarlega í samhefndum dal, sem gengur inn af  Bjarnarfjarðarbyggðinni, milli Hólsfjalls að austan og Tungukotsfjalls að vestan. Er  þangað um hálfs annars tíma röskur gangur frá næsta bæ, Skarði í Bjarnarfirði. Enginn átti leið fram að Goðdal næstu daga eftir að slysið varð, og vissi enginn hvað gerst hafði, svo að hjálp barst ekki fyrr en á fimmtudag, fjórum sólarhringum eftir að snjóflóðið féll á bæinn. Þá fór Halldór Ólafsson á Bakka í Bjarnarfirði þangað með póst. Kom hann að rústunum um hádegisbilið.

Slide10

Kortið sýnir stöðu 500 hPa-flatarins þann 12. desember. Suðlæg átt er í lofti og ber hún hlýtt og rakt loft frá Bretlandseyjum yfir landið. Neðar geisaði illvíg norðaustanátt undir áhrifum mikillar hæðar yfir Grænlandi. 

Þann 15. desember fórst breskur togari með allri áhöfn undan Aðalvík á Hornströndum. 

Enn gerði mikið illviðri þann 17. Í það sinn með þíðu. Morgunblaðið segir af því þann 18.desember:

Mikið sunnanrok gekk hér yfir í gærdag og í gærkveldi. Um tíma mældist vindhraðinn allt að 90 mílur, en 12 vindstig eru 75 mílna vindhraði og allt það, sem fer þar yfir. Ekki hafði frést um neinar skemmdir hér í bænum eða nágrenni hans í gærkveldi, utan hvað nokkur lendingarljós á flugbrautum flugvallarins biluðu á þann hátt að perur skemmdust. Verður ekki hægt að gera við það fyrr en veður lægir. Þrátt fyrir veðurofsann voru nokkrar flugferðir hér um. Fjórar flugvélar voru á leið til landsins, en þrjár frá landinu. Lentu þessar vélar og hófu sig til flugs á Keflavíkurflugvelli.

Tíminn segir þann 21.desember af skemmdum í veðri þann 18. desember:

Síðastliðinn laugardag [18.] urðu allmiklar skemmdir af völdum hvassviðris í Bárðardal og Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Hey fuku, þök tók af húsum og hlöðum o.fl. Á Litluvöllum í Bárðardal fauk hlaða með öllu. Fauk hún á fjárhús og skemmdi það allmjög. Á Stóruvöllum fauk einnig þak af hlöðu og eitthvað af heyi og fleiri skemmdir urðu.

Í veðrinu urðu einnig skemmdir í Svarfaðardal. Þar fuku þök af íbúðarhúsum og útihúsum, en ekki tilgreint hvar.

Tíminn segir þann 22.desember frá hríðarveðri á Suðurlandi - ekki er alveg ljóst hvaða daga átt er við, sennilega kringum þann 13. [12. til 14.]. 

Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Efrabrú í Grímsnes. leit inn í skrifstofu Tímans í gær nýkominn að austan og spurði tíðindamaður hann frétta. Stórhríð var á þar eystra nær samfellt í þrjá daga um fyrri helgi og kom mikill snjór. Fé fennti á nokkrum bæjum og enn vantar fé víða, sem menn óttast að fennt ha£i. Bílfært er nú orðið aftur um allar sveitir þar eystra.

Þokkalegt veður var síðustu dagana fyrir jól og á aðfangadag jóla, en síðan hrökk hann aftur í heldur grófgerða umhleypinga sem héldu áfram - og enduðu með hinu illræmda vori 1949. 

Þann 31. desember birti Tíminn slysayfirlit - heldur ískyggilegt finnst okkur (stytt hér): 

Minna af slysförum á þessu ári en oft áður. Að minnsta kosti 58 íslendingar fórust af slysförum á sjó og landi á árinu, sem nú er að líða. Í fyrra var talið, að 82 íslendingar hefðu farist af slysförum. Hefir verið mun minna um slysfarir að þessu sinni en oft áður. Til dæmis drukknaði nú enginn maður af skipum, sem strönduðu eða fórust. [Þess er svo getið síðar í fréttinni að 25 breskir togarasjómenn hafi farist við landið - vantar þar ábyggilega togarann sem fórst undan Aðalvík um miðjan desember]. Af þessum 58 mönnum, sem fórust, biðu nítján bana á sjó eða í skipum, tíu fórust af völdum umferðarslysa, 23 fórust á annan hátt á landi og sex fórust við flugslys. Af þeim, sem á landi fórust lentu sex i snjóflóði, einn varð úti, tveir drukknuðu í ám og vötnum, tveir hröpuðu í klettum, þrír biðu bana við byggingavinnu, einn varð undir dráttarvél, einn féll af hestbaki, einn féll í stiga, einn fórst af eldi í lýsisgeymi, einn fórst í hver, tveir dóu af völdum rafstraums og einn fannst örendur á götu eftir að hafa fengið flog. Tveir þeirra sex, sem fórust í flugslysum, biðu bana í svifflugvél, en fjórir í farþegaflugvél. 

Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1948. Alls konar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu, þar má t.d. sjá að í janúar virðist hafa verið þrálátasta austanátt aldarinnar og þrálátasta sunnanáttin í mars. Ritstjóri hungurdiska hefur leyft sér að færa stafsetningu að mestu til nútímahorfs. Sparar það mikinn tíma við yfirlestur texta sem „sleiktur“ er af timarit.is. Fréttir úr dagblaðinu Tímanum eru áberandi hér að ofan. Meginástæða þess er bæði ítarlegur veðurfréttaflutningur blaðsins, en ekki síður að prentun þess var betri en margra annarra blaða þetta árið - og því minna af villum í tölvulestrinum en þegar unnið var með texta annarra blaða. Þökkum öllum textahöfundum þeirra framlag. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fárviðrið 29. október 1948

Þann 29. október 1948 gerði mikið landsynningsillviðri um landið sunnan- og vestanvert, þá talið það mesta í nokkur ár, allt frá veðrinu mikla þann 15. janúar 1942. Ekki hefur verið auðvelt að spá veðrinu með tækjum og tólum þessa tíma, en þó var spá um vindátt og veður sæmilega rétt, en vantaði upp á vindhraðann. Vindhraðamælieiningar koma nokkuð við sögu í þessum pistli - og kann sú umfjöllun að þykja staglkennd. 

Við skulum fyrst líta á frétt í Vísi þann 30. október:

Í gær [29.] myndaðist stormsveipur skammt suður af Reykjanesi, er olli fárviðri um suðvesturhluta landsins, og mun veðurhæðin hafa varð mest í Keflavík, af þeim stöðum þar sem vindhraði var mældur. Þar komst vindhraðinn upp í 53 metra á sekúndu, en fárviðri er talið, ef hann kemst upp í 29 metra eða þar yfir, Hér í Reykjavík komst vindhraðinn upp i 42 metra á sekúndu um kl.4 í gær.

Eins og að líkum lætur urðu talsverðar skemmdir hér i Reykjavik af völdum veðurofsans, en minni en búast mætti við. Einkum urðu skemmdir, þar sem verið er að ljúka húsasmíði Til dæmis fuku vinnupallar, utan af nýbyggingum í Hlíðahverfi og við Dómkirkjuna, og féll brak ofan á bifreið, þar hjá, en skemmdir urðu litlar á henni. Þá fuku þakplötur víða í bænum og lenti ein þeirra á bifreið, sem ók eftir Laugavegi, en tjón varð ekki. Ekki er kunnugt um, að menn hafi orðið fyrir meiðslum af völdum fárviðrisins hér i bænum.

Lítill vélbátur, sem Flugfélag Íslands notar til farþegaflutninga á Skerjafirði, sökk við „bauju" í gær, en mun óskemmdur. Tjón varð lítið á Reykjavikurhöfn, að því er hafnsögumenn tjáðu Vísi i morgun. Tveir bátar löskuðust eitthvað, Hafborg frá Borgarnesi og Þorsteinn úr Reykjavík, en ekki er kunnugt um stórtjón á bátum hér i höfninni. Strandferðaskipin Esja og Skjaldbreið frestuðu för sinni vegna veðurofsans.

Í þessari frétt var minnst á vindhraðamælingar. Þar er ýmislegt að athuga.

Í fyrsta lagi er vísað í m/s - en mælar voru ekki í þeirri einingu. Í fréttum í öðrum blöðum er bæði talað um vindstig og mílur. Í veðurbókum er aðeins minnst á vindstig (Beaufort) og síðan annað hvort sjómílur (hnúta) eða mílur (enskar/amerískar). Sannleikurinn er sá að ritstjóri hungurdiska er ekki hundrað prósent viss um hvora gerð mílunnar er átt við.

Í öðru lagi segir að fárviðri sé talið komist vindhraði yfir 29 m/s. Þetta er sú tala sem miðað var við hér á landi til áramóta 1948-49. Eftir það þurfti vindur að ná 32,7 m/s til að fárviðri (12 vindstig) væri talið. Þessi einkennilegi munur stafar líklega af því að meðaltalstímabilið var misjafnt (þess er þó ekki getið í leiðbeiningum). Bretar voru fastir á því að meðalvindur skyldi ná til heillar klukkustundar - en flestar aðrar þjóðir höfðu um talsvert skeið miðað við 10-mínútur (eins og nú er gert) - og bandaríkjamenn miða enn oftast við 1 mínútu. Sennilega hefur einhver reiknað út að einhvers konar jafnræði væri með 29 m/s í klukkustund og 32,7 m/s í 10-mínútur - til að ná 12 Beaufortstigum (vindstigum). 

Vindhraðamælar voru næstum því hvergi á íslenskum veðurstöðvum árið 1948. Þó var mælt á flugvöllunum í Reykjavík og í Keflavík. Engin vindrit hafa þó varðveist frá stöðvunum á þessum tíma. Sennilega var vindhraði lesin af skífu. Það er auðvelt að lesa hviður af skífum - en erfiðara að meta meðalvind af nákvæmni. Kannski í 1 mínútu, varla í 10 og mikið þolinmæðisverk í klukkustund. Vindhraðamælirinn á Reykjavíkurflugvelli var á stöng ofan á þaki gamla flugturnsins - í 17 m hæð yfir jörð. Um það ákveðna vandamál hefur verið minnst áður hér á hungurdiskum. 

Í veðurskeytum þessa tíma var mælingum í Reykjavík breytt í vindstig - og ekki getið um mesta vindhraða milli athugana nema í athugasemdum í veðurbókum (ekki í skeytunum sjálfum). Á flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík var hins vegar athugað á klukkustundarfresti allan sólarhringinn - og þær athuganir eru í skjalasafni Veðurstofunnar. 

Slide6

Hér má sjá athuganir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis þann 29. október 1948. Vindhraði er á miðri mynd - vindátt skammstöfuð, tala þar undir og önnur tala (vindstig) við hliðina. Við skulum taka eftir því að kl.13 (fyrsta athugun á síðunni) er áttin SA (suðaustan) 11 vindstig, en 65 (eitthvað) undir vindáttinni. Væru það hnútar ættu að vera 12 vindstig (33,4 m/s) - hvort sem við notum yngri eða eldri vindstigatöfluna - en ef um mílur er að ræða eru það 11 vindstig eftir báðum töflum (29,0 m/s, 29,1 m/s væri 12 vindstig). Kl. 16 og 17 er vindur SA 72 (mílur) eða 62,5 hnútar eða 32,2 m/s. Það eru 11 vindstig samkvæmt núverandi viðmiði, en 12 sé miðað við eldri töflu. Gallinn er bara sá að við vitum ekki um viðmiðunartímann, er hann 10-mínútur eða eitthvað annað? Í athugasemd segir að hámarksvindhviða sé 85 - væru það hnútar er vindhraðinn 44 m/s, en í mílum 38 m/s. Fréttin segir að vindur hafi komist í 42 m/s. Hvaðan sú tala kemur vitum við ekki - en sennilega hafa menn slegið á þetta í huganum - og e.t.v slegið saman sjómílum og enskum mílum. 

En fleiri blaðafréttir geta um vindhraða - og flækist vindhraðamálið enn frekar - greinilegt að þetta mílutal veldur umtalsverðum ruglingi:

Morgunblaðið segir frá 30.október:

Í gær geisaði um Suður- og Suðvesturland, frá Mýrdal og vestur fyrir Snæfellsnes, eitt mesta veður sem komið hefur um þessar slóðir um nokkra ára skeið. Vindur var af suðaustan.  Veðurhæðin var yfirleitt 11 til 12 vindstig, en í snörpustu hviðunum þó miklu meiri. Hér í Reykjavík náði vindhraðinn nær 100 mílum á klukkustund og á Keflavíkurflugvelli rúmlega 100 mílum. Flugstjórnarturninum á Reykjavíkurflugvelli barst um kl. 10 í gærmorgun, aðvörun um að óveður væri í aðsigi. Var búist við að vindhraðinn myndi verða 40-50 mílur á klukkustund 18 til 22 m/s]. Eftir því sem á daginn leið fór veðurhæðin vaxandi. — Um hádegisbilið var hún 9 vindstig og fór þá enn vaxandi. Um kl.3 náði hún hámarki. Mældist vindhraðinn þá 62—74 mílur að öllu jöfnu, en í snörpustu hviðunni, sem stóð nokkra stund, komst vindhraðinn upp í 95 mílur á klst hér í Reykjavík. Á sama tíma mældist vindhraðinn um 120 mílur á Keflavíkurflugvelli, eða nánar tiltekið um 50 m. á sek. Úr mesta veðurofsanum tók að draga um kl.4 og eftir því sem leið á kvöldið. Í samtali við Veðurstofuna, taldi hún víst, að í dag myndi vindur verða allhvass suðvestan en veðurhæðin verða minni. Veður þetta er talið eitt hið mesta, sem komið hefur um nokkra ára bil. Sumir giska á að það hafi verið engu minna, en veturinn 1941, er skipin tvö rak hér upp í Rauðarárvík í norðan stórviðri.

Strax eftir hádegi í gær fór fólk að tilkynna lögreglunni að járn væri að fjúka af þökum víðsvegar um bæinn. Vinnuflokkar frá bænum unnu í allan gærdag við að hjálpa fólki sem heima átti í húsum þeim sem fyrir skemmdum urðu. Veðurofsinn var svo mikill að járnplötur fuku yfir bæinn og á haf út. Girðingin umhverfis íþróttavöllinn varð nú enn einu sinni fyrir skemmdum. Bæjarbyggingin við Lönguhlið varð fyrir skemmdum á þaki. Allmargir kofar munu hafa fokið og járn tekið utan af öðrum, svo aðeins stóð grindin eftir. Hluti af vinnupöllunum við Dómkirkjuna brotnuðu og féll brakið niður á bíl, en skemmdi hann lítið. Þakplata skall niður á bíl. sem ók eftir Laugavegi, en braut framrúðuna, en bílstjórinn slapp ómeiddur. Í höfninni slitnuðu bátar frá bryggju. Einn þeirra mun hafa orðið fyrir nokkrum skemmdum. Ein bátabryggja skemmdist nokkuð. Særokið var svo mikið, að ekki sást út í grafvélina nema öðru hvoru, en hún lá út af Ægisgarði. Tvö skip, Esja og Skjaldbreið frestuðu för sinni í gær, til hádegis í dag Þá sneri breska skipið, sem hreinsar Hvalfjörð, við á leið sinni hingað og leitaði vars í Hvalfirði. Á Reykjavíkurflugvelli fuku nokkrir braggar. Skemmdir á  brautarljósum og vindpokarnir rifnuðu. Í úthverfum bæjarins urðu skemmdir á rafmagnslínum og síma. Í Hafnarfirði tók af í heilu lagi, þak hússins Brekkugata 22. Það hús eiga þeir Páll Sveinsson og Stefán Júlíusson kennarar. Þakið sveif í loftinu yfir eina húsaröð, en féll svo niður hjá prentsmiðjunni og braut brakið úr því þrjá glugga í prentsmiðjunni og urðu þar inni nokkrar skemmdir. Allt járnið af þaki Hótel Hafnarfjörður tók af. Vegna slysahættu af völdum þakjárns, var hafnfirðingum ráðlagt að vera sem minnst á ferð um göturnar í  gærkvöldi. Engar skemmdir urðu þar á bátum í höfninni, svo vitað sé. Í Keflavík slitnaði mb. Ægir frá bryggju. Skipstjórinn var einn um borð. Tókst honum að setja vélina í gang og gat hann náð sambandi við annað skip, og komið dráttartaugum á milli og var Ægir síðan dreginn að bryggju á ný. Á flugvellinum [í Eyjum] skemmdust nokkrir braggar. Í Vestmannaeyjum slitnaði upp af legunni mb. Óðinn og rak bátinn á land. Hann var mannlaus. Óvíst er hve miklar skemmdir hafa orðið á honum. Um skemmdir í Hveragerði bárust blaðinu þær fréttir að járn hafi tekið þar af þökum nokkurra húsa. — Um aðrar skemmdir austan fjalls, er Mbl. ekki kunnugt, enda var símasamband austur mjög slæmt í gær, vegna bilana á kerfinu.

Enn segir Tíminn af vindhraða í frétt 30.október (hér má sjá misræmi í skilgreiningu á fárviðri miðað við fréttir hér að ofan):

Rokið í gær var með mestu fárviðrum, er komið hefir hér við Faxaflóá. Í Reykjavík komst vindurinn upp í 42 metra á sekúndu, og í Keflavík 50 metra á sekúndu. Það eru aftur á móti talin tólf vindstig, ef vindur er 32 metrar á sekúndu, og kallast það fárviðri Skemmdir af veðrinu hafa þó orðið vonum minni. Í Reykjavík urðu ekki teljandi skemmdir, nema hvað hlið íþróttavallarins féll niður, og rúður brotnuðu í stöku húsi, einkum í úthverfunum, þar sem nýbyggingar eru og ýmis konar dót lá á víð og dreif kringum húsin. Einnig slitnuðu allvíða rafmagnsvírar. Hafði lögreglan um tíma ærið að gera að forða skemmdum og slysum af völdum ýmislegs, sem veðrið hafði losað og hrifið með sér. Þök tók af tveim húsum í Hafnarfirði. Í Hafnarfirði fuku þök af tveimur húsum, Austurgötu 1 og Brekkugötu 22. Þakið af Brekkugötu sviptist af í heilu lagi. Barst það yfir hús við Suðurgötu og féll niður á byggingu Prentsmiðju Hafnarfjarðar. Brotnuðu við það rúður í prentsmiðjubyggingunni og öðru húsi til þar í grenndinni. Af Austurgötu 1, sem áður var Hótel Hafnarfjörður, voru plötumar lengur að tínast. Varð að stöðva umferð um Reykjavíkurveginn á þriðja klukkutíma vegna slysahættunnar. Í Keflavík var geysilegt ofviðri. Vélbáturinn Ægir slitnaði frá bryggjunni laust eftir hádegið, og var þá skipstjórinn, Marteinn Helgason, einn í bátnum. Kom hann bátnum undir Stapa, en þar var fyrir annað skip, og festi Marteinn bát sinn við það. Í gærkvöldi kom Marteinn aftur með bátinn til Keflavíkur og lagðist þar við bryggju. Einnig brotnaði skjólgarður steinsteyptur úr hafnargarðinum.

En hvað segja veðurathuganir á Keflavíkurflugvelli? Á Veðurstofunni er að finna afrit af athugunum sem gerðar eru á ameríska vísu (herinn var að vísu fjarverandi - opinberlega).

w-1948-kort-i

Ekki er þetta skýr mynd - en batnar nokkuð við stækkun. Þar tökum við fyrst eftir því að í fyrirsögn vindhraðadálksins stendur skýrum stöfum m.p,h. (miles per hour), mílur í klukkustund. Mestur meðalvindur dagsins er 65 mílur (þrjár klukkustundir í röð) og mesta vindhviða 95 mílur (42,4 m/s). Hinar 120 mílur fréttarinnar er hvergi að finna - við komumst upp í 110 með því að ímynda okkur að tölurnar á blaðinu séu hnútar. 

Ekki er auðvelt að greiða úr þessu, en höfum í huga að margt skolast til í fréttum, ekki síst þegar einingar eru á reiki. Ritstjóri hungurdiska hallast að því að allar tölur athugana séu enskar mílur. Hefur hann breytingu athugunarbókarinnar á Reykjavíkurflugvelli milli mílna og vindstiga sérstaklega í huga. Sömuleiðis þá staðreynd að veðrið olli varla nægilegu tjóni til að geta hafa verið fárviðri á nútímakvarða. Það breytir því þó ekki að um óvenjuharkalegt veður var að ræða. 

Fleiri fréttir bárust af veðrinu. Við látum pistil Tímans 31. október ljúka þeim:

Í ofviðrinu sem gekk yfir mikinn hluta landsins í fyrradag urðu nokkrar skemmdir á Andakílsárvirkjuninni í Borgarfirði. Varð að hætta rafmagnsframleiðslu stöðvarinnar um tíma, svo að kaupstaðirnir Borgarnes og Akranes, sem fá orku frá Andakílsárstöðinni voru rafmagnslausir í fyrrakvöld og mesta hluta næturinnar. Staurar háspennulínunnar urðu líka fyrir skakkaföllum í storminum, einkum í Skilmannahreppinum undir Akrafjalli, þar sem óhemju hvasst verður í þessari átt. Skekktust þar margir staurar  háspennulínunnar, svo við liggur að þeir falli. Einnig skekktust margir staurar, sem halda uppi símalínunni á þessum sömu slóðum. Nánari fregnir eru nú fyrir hendi af hvassviðrinu, sem skall á í fyrradag 0g usla þeim er það gerði. Al miklar skemmdir urðu á bátum víðsvegar um Suður- og Vesturland, en þó minna, en gera hefði mátt ráð fyrir. Einna mestar munu skemmdirnar hafa orðið á Suðurnesjum, þar sem veðurhæðin varð líka einna mest. Nokkurt tjón varð á bátum og skipum víðs vegar í ofviðrinu í fyrradag. í Keflavik slitnaði vélbáturinn Ægir frá bryggju og var skipstjórinn, Marteinn Helgason einn um borð í bátnum er þetta skeði. Sýndi hann mikið snarræði og dugnað með því að bjarga bátnum. Hélt hann honum út og fór í var undir Vogastapa, en þar var gott í þessari átt, undir háum stapanum. Í Keflavík hefir veðrið annars mælst einna mest, þar komst vindhraðinn i 53 metra á sekúndu, en í Reykjavík mest upp í 42 metra á sekúndu. Á báðum stöðunum urðu talsverðar skemmdir á húsum og mannvirkjum, sérstaklega þó í Keflavík. Þar urðu miklar skemmdir. Mikill hluti af dekki hafskipabryggjunnar fauk og einnig skjólgarður ofan við bryggjuna. Í Grindavík brotnuðu tveir vélbátar í ofviðrinu. Heita þeir Teddy og Maí. Annar þeirra, Teddy sökk við bryggjuna, en vélbátnum Maí var siglt upp í fjöru mikið brotnum. Í Reykjavíkurhöfn urðu talsverðar skemmdir á bátum, en þó engar verulegar. Á Akranesi urðu engar teljandi skemmdir á bátum eða mannvirkjum. Sjómenn voru um borð í bátunum meðan mest hætta var á að þeir slitnuðu upp, eða ræki á land, en það var um flóðið. Til þess kom þó ekki og þurfti enginn bátur að fara út. Óttast var um einn bát frá Akranesi, Sigurfara, sem var á Breiðafirði í gær. En Sigurfari var kominn til Stykkishólms, áður en ofviðrið skall á. Á Ísafirði urðu skemmdir á bátum. Vélbáturinn Bryndís, sem var á sjó bilaði fimm mílur austur af Straumnesi. Kom allmikill leki áð bátnum. En það vildi til happs, að vélbáturinn Freydís gat fljótlega komið bátnum til hjálpar og kom með hann til Ísafjarðar í gær. Ekkert manntjón varð af völdum ofviðrisins, en margir hlutu minniháttar skrámur og byltur, því óstætt mátti heita, þegar hvassast var á þeim stöðum, er veðurofsinn varð mestur. Verður ekki annað sagt, en tekist hafi sérstaklega lánlega til, að ekki skyldi hljótast illt af þessu veðri, sem var eitt hið mesta hvassviðri er komið hefir hér á landi í lengri tíma.

Veðurathugunarmaður á Lambavatni getur þess að í veðrinu hafi þak fokið af hlöðu í Sauðlauksdal og bílskúr hafi fokið á Patreksfirði. 

w-1948-kort-ii

Hér má sjá þrýstirit frá Reykjavíkurflugvelli dagana 28. til 30. október 1948. Lægðin snarpa sést vel - og eins að hvasst hefur verið við Flugturninn, ferillinn er mjög loðinn. Það er vísbending um óreglulegt vindsog í húsinu. Loftvogin féll mjög ört, en reis enn hraðar eftir að skil lægðarinnar fóru yfir. Klukkunni á blaðinu ber ekki alveg saman við athuganirnar sem myndin að ofan sýnir. 

En hvernig veður var þetta? Við látum bandarísku endurgreininguna aðstoða okkur við að leita svars. Hún virðist ná þessu veðri betur en sumum öðrum.  

Slide2

Daginn áður var ákveðin sunnanátt á landinu. Lægð var að grynnast á Grænlandshafi, en önnur mjög vaxandi var suðvestur í hafi og stefndi í átt til landsins. Mikil hæð (rúmlega 1035 hPa) var yfir Noregi. Hæðin hélt vel á móti og mikill strengur hefur verið í háloftunum milli hæðar og lægðar. 

Slide3

Næsta kort sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum á sama tíma. Stefnumót er á milli hlýrra strauma úr vestsuðvestri og kaldra úr vestri. 

Slide4

Klukkan 6 um morguninn þann 29. október er lægðin í miklum vexti. Það sem vekur sérstaka athygli eru gríðarþéttar jafnhæðarlínur (jafnþrýstilínur) austan við lægðina. Þar er veðrið sem skall á um og upp úr hádeginu. 

Það er fróðlegt að líta á veðurspárnar þennan morgun. 

w-1948-kort-iii

Veðurfræðingur á vakt kvöldið áður vissi af lægðinni, en ekki dýpkun hennar, en hann gerði ráð fyrir vaxandi suðaustanátt. Í veðurfréttum sem voru lesnar kl.9:10 um morguninn segir spá fyrir Suðvesturland til Breiðafjarðar: „Suðaustan hvassviðri eða stormur og rigning í dag, en gengur sennilega í suðvestan- og vestanátt með skúrum í kvöld eða nótt“. 

Kl. 12:20 er spáin endurskoðuð - en það var sjaldgæft. Jón Eyþórsson ritar spána og er stuttorður: „Suðvesturland og Faxaflói: Suðaustan rok og rigning frameftir deginum, en sunnan- eða suðvestan hvassviðri og skúrir í nótt. Breiðafjörður til Suðausturlands: Suðaustan og síðan sunnan stormur. Þíðviðri og víðast hvar rigning“. Heldur ítarlegri væri spáin í sömu stöðu nú á dögum. Klukkan 16:00 segir: „Djúp lægð og stormsveipur skammt suður af Reykjanesi hreyfist hratt norður eftir“. 

Slide5

Síðasta kortið sýnir lægðina í fullum þroska skammt vestur af Reykjanesi kl.18 (þá var kl.17 hér á landi). Samkvæmt athugunum var þrýstimunur milli Reykjavíkur og Dalatanga mestur einmitt þarna, 31,2 hPa. Þrýstimunurinn fór upp í 16 hPa klukkan 9 um morguninn, og var svo mikill eða meiri fram yfir miðnætti um kvöldið. Um hádegi daginn eftir var veðrið alveg gengið niður. 

Þetta veður myndi valda umtalsverðu tjóni nú á dögum, en trúlega mundu tölvuspár ná því ágætlega. Það á ýmsa ættingja.  


Stórgerðar spár (miðað við árstíma)

Veðurspár eru nokkuð stórgerðar þessa dagana (ekki þar með sagt að veðrið verði það). Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar hefur undanfarna daga sagt okkur tröllasögur bæði í hlýinda- og kuldaátt, jafnvel sama sólarhringinn. Greinilegt að eitthvað óljóst er að gerast. Svipað má segja um spár bandarísku veðurstofunnar - fer eiginlega með himinskautum líka. 

Við skulum fletta léttilega í gegnum hádegissyrpu reiknimiðstöðvarinnar - en höfum í huga að sú næsta á undan var talsvert öðru vísi og sú sem kemur undir morgun í fyrramálið verður ábyggilega öðruvísi.

w-blogg120622a

Hér má sjá spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina á þriðjudaginn 14. júní kl.06 um morguninn. Þessi spá ætti að vera ekki fjarri réttu lagi. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin er sýnd í litum. Mjög djúp og köld lægð er á Grænlandshafi. Hæð 500 hPa-flatarins í henni miðri er í kringum 5200 metrar. Það er ekki algengt að flöturinn liggi svona neðarlega þegar þetta langt er komið fram í júní. Á kortinu má sá hlýja bylgju sunnan við Nýfundnaland (ör bendir á hana). Þar er mjög hlýtt loft á ferð, þykktin meiri en 5640 metrar. Kæmist sú þykkt „ósködduð“ inn í miðju háloftalægðarinnar myndi þrýstingur við sjávarmál fara þar niður í 945 hPa. Slíkt mun ekki gerast - og ekki einu sinni skemmtideildin spáir slíku. En það verður engu að síður gerð tilraun til þess og eins og spáin er núna verður sú lægð um 980 hPa í miðju, rétt vestan við Færeyjar þann 17. júní. Þá með allsnarpri norðanátt hér á landi. Punktallínan sýnir reiknaða leið þessarar leiðinlegu lægðar. Á fimmtudaginn (16.) yrði hún vestan Írlands.

w-blogg120622b

Hér má sjá sjávarmálsspá reiknimiðstöðvarinnar um hádegi á fimmtudag. Þá er ört vaxandi lægð vestan Írlands á leið í stefnu á Færeyjar. En vestan Grænlands er þá líka nýtt kerfi - það er það sem skemmtideildirnar hafa mest verið að velta síðustu daga. Sunnan við það er mjög hlýtt loft sem stefnir til austurs - um Grænland og Ísland. Flestar - en ekki allar spár segja það fara sunnan Íslands með talsverðum látum. Þar á meðal er hádegisruna reikimiðstöðvarinnar.

w-blogg120622c

Hún segir frá mjög krappri lægð á Grænlandssundi á laugardagskvöld. Við vonum auðvitað að þessi spá rætist ekki, því hún er algjör óþverri. Við viljum einfaldlega ekki saltrok af Grænlandshafi og síðan norðanátt (með slydduhríð í byggð og snjókomu á fjöllum) á eftir á þessum tíma árs. 

En það er langt í bæði 17. júní og laugardaginn næsta og margar vitlausar veðurspár bíða á þeirri leið. Vonandi er þessi spáruna reiknimiðstöðvarinnar ein þeirra. 


Fyrstu tíu dagar júnímánaðar

Hiti fyrstu tíu daga júnímánaðar er 9,8 stig í Reykjavík, +0,7 stig ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en +0,4 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og í 11. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar 2016, meðahiti þá 11,5 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti 6,5 stig. Á langa listanum er hiti nú í 22. hlýjasta sæti (af 150). Hlýjast var 2016, en kaldast 1885, meðalhiti þá 4,9 stig.
 
Á Akureyri er hiti fyrstu tíu daga mánaðarins +10,1 stig, +1,3 stigum ofan meðallags 1991-2020, en +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austfjörðum og Suðausturlandi, í 7.hlýjasta sæti á öldinni. Langkaldast hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hiti raðast í 16. hlýjasta sætið og hiti almennt undir meðallagi.
 
Mestu jákvæðu vik á einstökum stöðvum eru á fjallvegum austanlands, mest á Fjarðarheiði þar sem hiti er +2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á Raufarhöfn, þar er hiti -1,2 stigum neðan meðallags.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 17 mm, um 30 prósent umfram meðallag, en ekki nema 0,3 mm á Akureyri, 5 prósent af meðallagi. Það er alloft sem engin úrkoma hefur mælst þessa sömu almanaksdaga á Akureyri, síðast árið 2010.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 52,1 í Reykjavík, -12,3 stundum neðan meðallags. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 71,3, +4,6 fleiri en í meðalári.

Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 47
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1015
  • Frá upphafi: 2341389

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 920
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband