Smávegis um Eyjafjarðarveðrið mikla 11. september 1884

September 1884 fær þau ummæli að votviðrasamt hafi verið fram undir þ.20. en þá hafi gengið í norðanáttir og setti niður fannir nyrðra og í uppsveitum syðra. Mánuðurinn varð þó hlýr um landið norðaustanvert. Sérlega hlýtt varð fyrir miðjan mánuð og komst hiti m.a. í 18,3 stig á Akureyri þann 14.

Þann 11. gerði ofsalegt veður af vestri og suðvestri um miðbik Norðurlands. Finna má ítarlega umfjöllun um veðrið og afleiðingar þess í grein sem Sigurjón Sigtryggsson ritaði í tímaritið „Sögu“ 1982 undir heitinu „Gjörningaveðrið 1884“. Áhugasamir eru hvattir til að lesa samantekt Sigurjóns, en hún er aðgengileg á tímaritavef Landsbókasafns. 

Kortið sýnir tillögu bandarísku endurgreiningarinnar um hæð 1000 hPa-flatarins kl.18 þennan dag. Ótrúlegt er að þetta sé alveg rétt en ætti samt að sýna hvers konar veður var um að ræða.

w-1884-09-11_18


Á myndinni þarf að athuga að sýnd er hæð 1000 hPa-flatarins en ekki þrýstingur við sjávarmál. Auðvelt er þó að reikna á milli því 0 þýðir að flöturinn er í sjávarmáli. Þrýstingur fellur um u.þ.b. 1 hPa á hverja 8 metra hækkun. Fjörutíu metra jafnhæðarlínan er því sú sama og 1005 hPa jafnþrýstilínan o.s.frv. Innsta jafnhæðarlínan kringum hæðina yfir sunnanverðri Skandinavíu er 280 metrar, það er sama og 1035 hPa, en innsta jafnhæðarlína kringum lægðina suður í hafi er -40 metrar. Það er sama og 995 hPa. Af þessu má sjá að þrýstingur í lægðarmiðjunni vestan við Ísland er á bilinu 995 til 1000 hPa. Þetta er ekki djúp lægð. 

Nú höfum við raunverulegar mælingar frá nokkrum veðurstöðvum á landinu. Sé litið á þær kemur í ljós að þrýstingur í Stykkishólmi er nokkru lægri heldur en kortið gefur til kynna eða um 988 hPa og á Akureyri er þrýstingurinn um 1000 hPa en ekki 1005 sem kortið sýnir. Af þessu má ráða að lægðin var í raun nokkuð krappari heldur en hér er sýnt.

Mikill sunnan- og suðvestanstrengur liggur í háloftunum langt úr suðri og norðaustur fyrir land. Illviðrislægðin okkar hefur slitið sig frá meginlægðinni í suðri og berst sem mjög stutt bylgja með háloftavindinum til norðausturs. E.t.v. hefur hún myndast sem bylgja á hitaskilum frekar en kuldaskilum, en síðari mátinn er miklu algengari.

Óformlega notar höfundur þessa pistils orðið troðningslægð fyrir þessa tegund lægða. Háloftaröstin slær sér niður á landið og til verða miklar fjallabylgjur yfir Íslandi. Líklega sló einhverri/einhverjum þeirra niður á Norðurlandi þennan dag, þar sem mikið tjón varð í ofsalegu suðvestanveðri. Tjónið varð mest við Eyjafjörð og einna mest í Hrísey. Alls brotnuðu eða skemmdust 41 skip, þrír menn fórust. Heyskaðar urðu í Skagafirði, þar drukknuðu tveir piltar við Höfða á Höfðaströnd. 

Troðningslægðir sem þessi hafa oft valdið miklu tjóni hér á landi. 


Af árinu 1884

Ísafold segir orðrétt 7.janúar 1885 í pistli um árið 1884: „Árið 1884 varð harla tíðindalítið hér á landi“. Það er að einhverju leyti rétt, t.d. kemur fram við lestur blaðanna að lítið er um fréttir af tíð og veðri í sumum mánuðum ársins, en aftur á móti gerði nokkur mjög minnisstæð veður - á tvö til þrjú þeirra er jafnvel minnst á enn þann dag í dag. 

Eins og kemur vel fram í samtímaumsögnum var tíðinni nokkuð misskipt milli landshluta. Óhagstæðust var hún sunnan- og suðaustanlands, sérstaklega vegna mikilla sumar- og haustrigninga þar um slóðir. Árið var ekki sérlega kalt miðað við það sem algengast var um þetta leyti, en þætti kalt nú. 

Yfir landið í heild var aðeins einn mánuður hlýr. Það var mars, en hiti var einnig vel ofan langtímameðallags í apríl og rétt ofan þess í febrúar. Kaldast að tiltölu var í maí og október, en janúar og júní voru einnig kaldir. Ágúst var kaldur suðvestanlands, en var aftur á móti hlýr á Norðausturlandi og september var einnig nokkuð hlýr á þeim slóðum. Töflur yfir meðalhita á veðurstöðvum og vik má finna í viðhenginu. Þar má sjá að mælingar eru til frá nokkuð mörgum stöðvum, en svo vill til að lítið er af mælingum úr innsveitum. 

Þessi skortur á innsveitamælingum veldur því að lágmarkshiti ársins fyrir landið í heild er ekki sérlega lágur, -22,8 stig sem mældust á Hrísum í Eyjafirði 26.janúar. Þá fór frostið í -21,7 stig á Akureyri. Hæsti hiti ársins mældist á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi 10.júlí, 24,6 stig. Hiti náði 20,6 stigum á Akureyri, en ekki fréttist af 20 stigum víðar - nema á óopinberum mælum. 

Ritstjóri hungurdiska leitar eins og venjulega að hlýjum og köldum dögum í Reykjavík og Stykkishólmi. Engir hlýir fundust og ekki nema þrír kaldir í Stykkishólmi, 13. maí, 28. október og 6. nóvember. Í Reykjavík fundust hins vegar 15 kaldir dagar, þar af einn í júní, þrír í júlí og þrír í ágúst. 

rvk-hiti_1884

Hér má sjá hæsta skráðan hita og lágmarkshita í Reykjavík 1884. Áberandi kaldast var fáeina daga undir lok janúarmánaðar. Eins og sjá má var hiti lengst af ofan frostmarks í mars. Sumarið var nokkuð klippt og skorið. Eftir næturfrostakafla í maí hlýnaði vel, og kólnunin í september var líka nokkuð skyndileg, harðahaust komið á nokkrum dögum í kringum þann 20. 

Áreiðanlegar úrkomumælingar voru aðeins gerðar á fjórum stöðvum, í Stykkishólmi, á Teigarhorni, í Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka. Á þremur síðasttöldu stöðvunum mældist úrkoma meiri en 200 mm í ágústmánuði og er þar getið flesta daga mánaðarins. Bráðabirgðamat ritstjóra hungurdiska telur þetta vera næstúrkomusamasta ágústmánuð allra tíma á Suðurlandi. Þann 1. nóvember hófust svo úrkomumælingar í Reykjavík. 

Loftþrýstingur var líka með lægsta móti í ágúst, í hópi tíu lægstu síðustu 200 árin tæp. Lægsti loftþrýstingur ársins mældist 948,0 hPa í Vestmannaeyjakaupstað þann 12.febrúar. Hæstur mældist þrýstingurinn á sama stað þann 18.nóvember, 1040,3 hPa. 

Fréttir frá Íslandi (1884) lýsa tíðarfari - og rigningasumarið mikla á Suðurlandi 1884 fær ítarlega umfjöllun. 

Tíðarfar hefir verið furðu misjafnt og furðu óhagstætt víða hér um land þetta ár; það er eins og Ísland sé oft tveir landshlutar með fjarska millibili; svo er það sundurskipt að veðurfari. Veturinn frá nýári mátti teljast afbragðsgóður. Rosarnir héldust við nokkuð fyrst eftir nýárið, með geystum útsynningum, þar til viku af þorra, að lagðist í frost nokkur og snjóa. Stóð sá harðindakafli einn mánuð, þangað til viku af góu. Brá þá heldur til batnaðar, og var svo oftast veðri farið fram eftir góunni, að ýmist setti niður snjó mikinn eða hann tók upp jafnóðum.

Allan einmánuð mátti telja sumarveðráttu, hægð og blíðviðri, og oftast frostlaust fram yfir sumarmál. Voru flestir búnir að vinna á túnum sínum um það leyti.

Eftir sumarmálin brá til norðanáttar og kulda mikilla, og snjóaði víða allmikið í maímánuði öllum, einkum norðanlands og austan, og svo í Skaftafellssýslum. Kuldaveðrátt þessi hélst fram yfir fardaga, og var þá nærfellt enginn gróður kominn. Þá skipti um, og var þá votviðrasöm tíð sunnanlands fram í byrjun júlímánaðar, enn nyrðra var þá þurrviðrasamara. Þó að seint færi að spretta, þaut nú grasið upp, og mátti telja hið besta grasár nyrðra, og í betra meðallagi syðra.

Í sláttarbyrjunina var ein vika þurr sunnanlands, og náðust þar því víða eitt og tvö kýrfóður þurr af töðum manna; enn þegar sleppti miðjum júlímánuði, þá kom fram þessi geysilegi mismunur, sem stundum er á veðurlagi á ekki stærra hólma en Ísland er. Norðanlands var tíð þerrisæl fram um réttir; sömuleiðis vestra og eystra. Mestallt Vesturland frá Hvítá í Borgarfirði og norður til Horns, allt Norðurland og Austurland suður undir Lónsheiði mátti telja að nyti ágætasta sumars; bæði var grasvöxturinn víðast ágætur, að minnsta kosti á túnum, en sumstaðar lakari á engjum, og svo var nýtingin eftir því góð. Það var eðlilega eins og vant er heldur lakara á útkjálkum, t.d. Hornströndum, en þó var það allt með betra móti, því að hafís enginn varð landfastur þetta vor; kom hann enginn annar enn að litlir lausajakar sáust á flækingi undan Horni. Heyjaföng manna nyrðra voru því bæði mikil og góð og fyrningar allmiklar til undan vetrinum, enda heyrðist helst sú umkvörtun þaðan að norðan, að það fengist hvergi keypt kind, því að þar er nú víða fjárfátt síðan grasleysissumarið 1882.

En á hinum suðlægari kjálka landsins var svo dæmafátt vætusumar, að elstu menn þykjast ekki muna annað eins, nema ef til vill sumarið 1819. Frá því seint í júlí og til höfuðdags var sífelld rigning af suðri eða landsuðri; með höfuðdegi létti dálítið upp, enn þó aldrei svo, að neinn dagur væri til enda þurr. Þó var þerriflæsa með skúrum á milli í 4 daga, og náðu þá margir heyjum sínum inn hröktum og hálfþurrum í uppsveitum: Hreppum, Landi, Rangárvöllum og Fljótshlíð, þar sem þurrlent var. En í mestu votlendissveitunum syðra, Landeyjum, Flóa og Ölfusi, varð að hætta slætti á miðju sumri vegna vatnsaga; störin stóð í kafi og yddi að eins á toppana, og sæti voru víða í svo djúpu vatni, að að eins sá ofan á þau. Í Landeyjum og Þykkvabæ og beggja megin við Ölfusá varð vatnsflóðið svo mikið, að sætið synti hundruðum saman eins og skipafloti fram í sjó, svo að ekkert var eftir af. Voru stórar brimrastir meðfram öllum söndum af sjóreknu heyi.

Þegar spilltist eftir höfuðdaginn, keyrðu rigningarnar um þverbak; var þá líkast sem aldrei hefði komið skúr úr lofti; gekk á því til gangna, en undir réttirnar fór þó að birta upp part úr dögum, og svældu þá margir margra vikna hrakheyi inn í heygarðana: varð það óvíða að skaða, því að það var þá orðið svo ónýtt af útilegum, að það hitnaði ekki til muna, heldur myglaði og fúnaði. En í uppsveitunum, þar sem nokkru heyi varð áður náð, fór víða vatn ofan í heyin í görðunum, og stórskemmdust af því; þó var ekki víða bruni á heyjum, því að þau voru létt enn kraftlítil, þó að þau væri ekki hrakin til stórmuna; mun það hafa valdið því að nokkru, að grasmaðkur var óvanalega mikill.

Um réttirnar, nálægt 20. september, brá til norðuráttar um land allt, sem til hefir spurst, með hríðum og snjóum; setti þá niður snjó mikinn nyrðra og í fjallasveitum syðra, með svo miklu frosti, að ár urðu ófærar fyrir ísskriði. Hélt því veðurlagi á víxl við stórfelldar sunnanrigningar fram til nóvemberbyrjunar. Í þessum norðanfrostum börðust menn víða syðra við að draga hey sín upp úr flóðunum, og tókst þannig að þurrka þau nokkurn veginn á endanum og koma þeim í garða.

Frá þessum tíma voru sífeldir umhleypingar syðra til ársloka; setti niður stundum snjóa mikla, og tók þá upp aftur með sunnanstórrigningum. En í fjallasveitum, Laugardal, ofan til í Biskupstungum, Síðu og víðar, tók aldrei af fyrsta réttasnjóinn, og allar skepnur voru komnar á fulla gjöf mánuð af vetri. Nyrðra féllu þá og snjóar miklir á útsveitum og í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, en þar voru aldrei frost mikil eða harðviðri. Um nýársleytið gerði blota syðra, og snjóaði ofan í, og frysti síðan, og var þar svo haglaust fyrir allar skepnur. Hey manna voru bæði lítil og vond víðast syðra; var því lógað um haustið fjölda af kúm og lömbum; en þar eð þar er fjárhirðing óvönduð, og menn vanir því, að fé komist oft af með lítið, sást það brátt á, að of mikið var á heyjum, og voru sumir farnir að skera af heyjunum fyrir nýár. Allar skepnur voru horaðar í votlendissveitunum, ullin datt af fótum og kviði á sauðfé, það fékk lopa á fæturna, og varð víða að skera kindur á miðju sumri vegna máttleysis af hinum sífelda vatnsaga. Þetta allt: óhagstætt veðurfar, ónýt og lítil hey og megurð skepnanna, studdi allt að þeim vandræðum, er síðar komu fram.

Janúar: Útsynningsrosar, en tíð samt talin góð.

Þjóðólfur segir frá þann 12. að veðurátta sé mild, skepnuhöld góð og jörð næg fram að þessari viku miðri, en nú hafi kyngt niður nokkrum snjó. Að kvöldi þess 7. gekk í ofsaveður. Þá um nóttina fórust þrjú hákarlaskip á Faxaflóa og með þeim 29 menn. Allmargar frásagnir hafa birst af þessum slysum, má þar sérstaklega geta ítarlegrar samantektar Kristleifs Þorsteinssonar sem birtist í 2. bindi ritsins „Úr byggðum Borgarfjarðar“, bls. 231 og áfram. Þar er m.a. sagt frá draumum manna fyrir slysið: „Um og eftir hátíðir fara næsta daprir draumar að leggjast þungt á hugi manna ... “.

En hér notum við mun styttri frásögn sem birtist í Norðanfara 14.febrúar og höfð eftir bréfi úr Reykjavík 12.janúar: 

Á Knútsdag 7.þ.m. fóru 3 opin skip af Akranesi og 1 af Álftanesi út á Faxaflóa til hákarlaveiða, hægviðri var um daginn fram undir kvöld; en þykknaði um kvöldið á 7. tíma, fór að smá hvessa, en svo rauk á ofsa veður, af suðri, með nokkru brimi en óx smátt og smátt, er á nóttina leið, þá er veðrið gekk í útsuður, varð þá ófær sjór og leiðir til lands, þar sem það lá við útsynningi, enda kom það fram. Er sagt að þau 3 skip frá Akranesi, hafi lagst við stjóra hjá Þormóðsskeri suður undan Mýrum til að liggja af sér veðrið um nóttina, en þau slitnuðu upp, hleyptu inn á Borgarfjörð, en lentu fram undan Melum í Melasveit og fórust þar 2 þeirra, er haldið að þau hafi lent á skerjum eða farist í brimgarðinum við lendinguna.

Þriðja skipið komst af, bar hafaldan það uppá land, formanninum hafði fallist hugur og fór frá stjórninni, enda var hann þrekaður orðinn, sem flestir hinir, en einn af hásetum hans mesti þrekmaður, Björn að nafni, hljóp undir stjórn og hélt skipinu í horfinu til lands, gegnum boðana og brimöldurnar. Þessi formaður sem komst af var Ólafur á Litlateigi, en þeir sem fórust voru: Pjetur Hoffmann kaupmaður, með 10 hásetum. Hinn formaðurinn var Þórður á Háteigi með 6 hásetum. Um skipið af Álftanesi vita menn ekkert um, það hefir hvergi komið fram enn, en árar hafa fundist reknar af því, og er það talið frá. Hét formaðurinn Þórður og 10 menn taldir með honum. Alls hafa þá farist á þessum skipum 29 manns, er slíkt manntjón skaði mikill mannfélaginu, því flestir voru þessir, ungir og efnilegir menn, og margir þeirra láta eftir sig hryggð og sáran söknuð hjá konum, börnum og öðrum vandamönnum.

Suðri segir fréttir að norðan þann 19.:

Með vermönnum, er nú eru að koma að norðan hefur frést, að tíð sé mjög slæm og umhleypingasöm nyrðra. Skömmu fyrir nýjárið gerði vatnsflóð mikið í Vatnsdal; þó er þess ekki getið, að tjón yrði að því.

Ísafold segir af óþægilegri tíð þann 23.janúar:

Tíðarfar óþægilegt í meira lagi. Sífeldir útsynningar, með stórviðrum á stundum, og mikilli fannkomu nú síðustu dagana. Ferðir nær bannaðar á sjó og landi.

Austri segir 30.janúar frá góðri tíð framan af mánuði, en harðari eftir það:

... tíðin í vetur [hefur] verið einhver hin blíðasta og hagstæðasta er menn muna allt fram yfir miðjan janúarmánuð. Hinn 20. tók veðrátta að breytast; hafa síðan verið allhörð frost (hæst 12°R) og snjókomur miklar og öðruhverju stórhríðarbyljir. Menn úr Héraði, er voru staddir hér í Seyðisfirði, sumir með hesta, lögðu upp yfir fjall í veðrunum, og má telja víst að þeir hafi eigi allir komist slysalaust af. Hefur heyrst að sumir þeirra hafi komist til byggða eftir tveggja daga útivist og einhverjir orðið úti, en greinileg fregn um ferð þeirra hefur ekki borist hingað enn. [Þann 20.febrúar staðfestir blaðið að tveir mannanna hafi orðið úti á Fjarðarheiði og einn á Vestdalsheiði]. 

Í Austra þann 20.febrúar er ennfremur sagt frá miklum hrakningum fólks á fjöllum milli Borgarfjarðar og Héraðs þann 21.janúar:

Mánudaginn þann 21. þ.m. lögðu héðan til héraðs ung hjón, frá Desjarmýri, Árni Sigurðsson og Katrín Hildibrandsdóttir og frá Gilsárvallahjáleigu, í öðru lagi, vinnumaður Þórður Þórðarson og Áslaug Þorkelsdóttir. Fóru þau Árni svo kölluð Sandaskörð, en þau Þórður Eiríksdal. Þá er þau voru komin upp undir fjallsbrúnina, skall á stórkostlegt austan snjókomuveður, með svo mikilli veðurhörku að þau brátt engu fengu viðráðið, heldur bárust ósjálfrátt undan vindinum, upp um brúnina og nokkuð ofan hinum megin, án þess að vita hve langt eða hvert nærri var nokkrum vegi. Þá er þau Árni höfðu hrakist og villst æði lengi, vissu þau eigi fyrr en þau hröpuðu niður í allstóra harðfannarsprungu. Þar settust þau fyrir og létu fenna yfir sig. Fyrst morguninn eftir rofaði lítið eitt til. Lagði þá Árni af stað til Borgarfjarðar, en varð að láta konu sína þar eftir í fönninni, og bjó um hana sem best hann kunni. Komst hann að Hólalandi um kveldið. Var þá þegar safnað mönnum, er strax lögðu á stað til að leita konunnar. Fundu þeir hana og komu henni til bæjar. Var hún þá mjög aðframkomin, en þó lítt kalin og hresstist því fljótt.

Þau Þórður hröktust út á vatn nokkurt eða á, ei vissu þau hvort heldur var, duttu þar ofan í og vöknuðu upp til axla. Komust þó þaðan á þurrt land eftir miklar þrautir, grófu sig í snjó og | lágu þar til daginn eftir, er nokkuð létti óveðrinu. Var þá Áslaug örend, en Þórður komst að kveldi að Sandbrekku. Hefir líks Áslaugar verið leitað og hefir fundist.

Frá sama veðri er sagt í bréfi í Fróða 10.mars:

Útmannasveit (í Fljótsdalshéraði) 1. febr. Hinn 21.[janúar] eftir miðjan dag, gekk hér snögglega i kafaldsbyl með ofsahvassviðri og snjókomu, það var eitthvert snarpasta veður, sem menn hér þykjast muna eftir. Á einstöku bæjum náðist sumt af fénu ekki í hús um kvöldið, en þó hefir ekki frést að miklir skaðar hafi orðið, því heldur slotaði veðrið um tíma eftir að leið fram á vökuna, og daginn eftir var aftur bjartviðri.

Febrúar: Harðindakafli í annarri viku mánaðarins, en annars þótti tíð víðast hagstæð.

Norðanfari birti 26.febrúar bréf sem dagsett var á Siglufirði þann 11.: „Héðan er að frétta einstaka ótíð og illviðri, allar skepnur á fullkominni gjöf síðan um jól“.

Þann 13.febrúar segir Jónas Jónassen frá veðri í Reykjavík undangengna viku. Í textanum kemur fram að hann er að velta vöngum yfir fleiri hliðum veðursins en þeim sem beinlínis sjást. Hvað er loftvogin eiginlega að segja?

Veðurlag hefir þessa vikuna verið með versta móti og hefir útsynningur auðsjáanlega verið undir, þótt brugðið hafi til annarrar áttar. Hinn 7. mátti heita að væri moldviðrisbylur af landnorðri allan daginn til kl. 1-2 e.m þá lygndi snöggvast, en hljóp strax í útsuður rokhvass með byljum; 9. gekk  hann til norðurs, bálhvass með blindbyl um kveldið og sama veður daginn eftir, en byllaust hér. Samt sem áður hækkaði lofþyngdamælir eigi og var þá auðséð, að eigi var von á norðanátt, og þótt veður væri kyrrt, þá hækkaði engu að síður loftþyngdarmælir og í dag 12. hefir hann talsvert lækkað, og er nú sem stendur helst útlit fyrir að veður verði mjög svo óstillt með einhverju móti, þar loftþyngdarmælir stendur óvenjulega lágt (28.tommur = 948,2hPa).

Austri segir frá veðri í blaðinu þann 20. en dagsetur frétt sína þann 15.:

Tíðin síðan [seint í janúar] ákaflega hvikul og jafnan margbreytt veður á degi hverjum, sjaldan hörð frost, en snjókomur töluverðar og stundum bleytuveður; kominn mikill snjór og illt umferðar. Í dag (15. febr.) er þíða og sunnanátt; roði í lofti með mesta móti i morgun.

[Roðinn líklega afleiðing eldgossins í Krakatá]. 

Í Fróða 24.apríl má finna bréf úr Árnessýslu dagsett á þorraþrælinn [23.febrúar] þar segir meðal annars:

Önnur vika þorrans var sér í lagi stórhríðasöm. Þá hröktust yfir 20 sauðir frá einum bæ í Biskupstungum í Tungufljót, og þá varð úti kona í Þingvallasveit er ætlaði milli bæja í einu hlerinu. Næstliðna viku hefir verið blíðviðri, líkara vori enn vetri. Frá sjó er sagt fiskilaust allstaðar, þar er til spyrst.

Ísafold segir líka frá hláku (20.):

Kringum helgina sem leið [16. til 17.] var hér ágæt hláka, 4 daga, sem allar líkur eru til, að náð hafi víða um land. Hún hefir komið sér vel allstaðar, ekki síst þar sem verið hafa jarðbönn stöðug frá því um veturnætur, eins og sagt er t.d. úr Skagafjarðardölum. 

Og þann 27. heldur blaðið áfram:

Þessi breyting- til batnaðar á veðráttufari, sem byrjaði með hlákunni um daginn, hefir haldist síðan: hver dagurinn hér óðrum blíðari nú í fulla viku.

Jónas J. segir þann 27.febrúar:

Alla vikuna hefir veður verið hið stilltasta og allan síðara hlutann bjart sólskin á hverjum degi, svo slaknað hefir á daginn það, sem frosið hefir á nóttu, sem lítið hefir verið. Hér er alveg auð jörð.

Mars: Umhleypingasamt, talsvert snjóaði, en tók upp jafnharðan.

Blöðin eru þögul að mestu um tíðina í mars. Við nýtum okkur stuttorðar lýsingar Jónasar landlæknis:

[5.mars] Alla þessa viku hefir verið óvenjuhlýtt; vindur oftast af landsuðri, þegar eigi hefir verið logn. Við og við talsverð rigning, einkum 2. þ.m. Í dag 4. rétt eins og besta vorveður. Auð jörð og rétt klakalaus.

[12.mars] Fyrri hluta vikunnar var útsynningur, Oft hvass með köflum og með snjóbyljum. Síðari hlutann hefir vindur blásið frá austri, og gerði aftakarok í nokkra klukkutíma síðari hluta h. 9. Talsverður snjór féll á jörðu 8. þ.m., en hann hverfur óðum þessa síðustu daga af sólbráð.

[19.mars] Alla vikuna hefir veður verið óvenjulega hlýtt. Vindur oftast frá austri eða landsuðri með nokkurri úrkomu, stundum nokkuð hvass, en hægur eða rétt að segja logn og blíða þess á milli. Veðráttufar það sem af er þessum mánuði, er rétt alveg eins og árið 1880 í mars, þá var allur klaki úr jörðu 20. mánaðarins. Þá var aldrei frost á nóttu úr því nema 2. og 5. apríl.

[2.apríl] Fyrri vikuna var veður oftast hvasst frá norðri og austri, oft með talsverðri ofanhríð; síðari vikuna hefir venjulegast verið austanátt, oft hvass með ofanhríð; 30. og 31. norðan, hvass til djúpanna, en gekk niður algjörlega síðari hluta hins 31. og í dag (1. apríl) er hér logn og fagurt sólskin. Mestallur sá snjór, sem hér hefir fallið þennan umliðna hálfa mánuð (hann snjóaði hér mest síðari part dags h.25.) er hann gekk til útsuðurs er aftur horfinn af sólbráð. Loftþyngdarmælir spáir stillu.

Apríl: Hagstæð tíð mestallan mánuðinn.

Danski vísindamaðurinn Sophus Tromholt dvaldist hér á landi veturinn 1883 til 1884 við norðurljósaathuganir. Hann ritar bréf sem birtist í Þjóðólfi þann 7.apríl. Hann vill gjarnan fá upplýsingar um það hvort ástand norðurljósa hafi verið venjulegt eða ekki þennan vetur. Hvort hann fékk einhver svör við spurningunum vitum við ekki. Við skulum lesa þetta bréf:

Norðurljós. (Áskorun). Þar sem ég hefi dvalist hér í Reykjavík í vetur frá því í októbermánuði til að athuga norðurljós, vœri mikilsvert fyrir mig, að fá sem víðast að annarstaðar á landinu skýrslur um, hvernig norðurljós hafa hagað sér þar í vetur. Ég leyfi mér því að biðja hvern sem getur að gjöra svo vel, að senda mér þœr skýrslur þar að lútandi, sem hœgt er, hvort heldur fáorðar eða ýtarlegar, einkum um þessi atriði: 1. Hafa norðurljós verið jafntíð í vetur og vant er, eða tíðari, eða sjaldgæfari? 2. Hafa norðurljós verið nokkuð öðru vísi í vetur en vant er, að birtu, litbreytingum og kvikleik? 3. Hefir verið dimmra upp yfir í vetur en vant er að jafnaði? 4. Um hvert leyti í vetur voru norðurljós tíðust og mest? 6. Um hvert leyti á kvöldin eru norðurljós vön að vera mest? 6. Sjást norðurljós stundum á morgnana? Ég þigg með þökkum hvað lítið sem er þessu máli til skýringar. Landakoti við Reykjavík, 24. mars 1884. Sophus Tromholt.

Austri minnist vetrar þann 21.apríl:

Tíðarfarið hefur verið hið besta; þó setti niður töluverðan snjó i fjörðum, um mánaðamótin næstliðin, en í Héraði snjóaði ekki til muna; er snjór sá nú að miklu leyti hlánaður, því að einstök blíðviðri hafa verið að undanförnu og eru enn, stillingar og sólarhitar á daginn en oftast frost á nóttum. Það er óhætt að telja vetur þenna, sem nú er bráðum á enda einhvern hinn besta vetur á Austurlandi.

Veðurlýsingar Jónasar segja frá mjög hagstæðri tíð í apríl - í lýsingu á mistri er athyglisvert að hann segir að engin fýla hafi fylgt - rétt eins og slíkt sé alvanalegt:

[9. apríl] þessa viku hefir veður fremur verið stormasamt, og hefir vindur blásið frá norðri mikinn part vikunnar, oftast hvass til djúpanna, þótt hann hafi verið hægur innfjarðar; 3. féll talsverður snjór um kvöldið, en sá snjór er allur á burtu, og hér auð og klakalaus jörð. Í dag 8. hlýjasta vorveður með hægum landsynningi.

[16. apríl] Alla þessa viku hefir veður verið óvenjulega hlýtt og stilling mikil á veðri; 11. var hér nokkur austangola, þó eigi hvass, en mjög mikið mistur í loftinu sem kom austan yfir fjall og lagði vestur. Engin fýla fylgdi, og er líklegt, að eystra hafi verið mjög mikill vindur, og að mistrið hafi stafað af ryki. Í dag 15. hægur vestanvindur; svört þoka í alla nótt og í morgun, birti lítið eitt upp eftir hádegi.

[23. apríl] Alla þessa vikuna hefir veður verið hið blíðasta oft með talsverðri úrkomu; er hér víða orðið algrænt; 20. og 21. snjóaði talsvert á Esjuna og öll austur- og suðurfjöll.

[30. apríl] Alla vikuna hefir verið sama veðurblíðan. Nokkur ofanhríð fyrri partinn í dag 29., og talsvert snjóað í fjöllin.

Maí: Snjóa- og kuldasamt, einkum nyrðra og eystra.

Austri segir þann 5.maí:

Sama öndvegistíðin fram til aprílmánaðar loka; þá gjörði allmiklar úrkomur, snjóaði á fjöll og rigndi i byggð. Í gær (4. maí) alsnjóaði í byggð og sama veður í dag.

Þjóðólfur lýsir tíð 28.maí:

Svo er að heyra sem kuldakaflinn,3 vikur framan af þessum mánuði, hafi náð um land allt, með moldviðrishríðum fyrir norðan, einkum á útskögum, og miklu frosti; eins fyrir vestan: af Dýrafirði t.d. skrifað 18. maí: Í dag er moldkafald og 5 stiga frost; og 21. maí: Í dag er norðangarður, lítt fært að vera úti. Hvergi hefir sést hafís, þótt allar líkur séu til að hann hafi verið ekki mjög fjarri landi, meðal annars það, að bjarndýr fannst í apríl á sjó (á sundi) utan til í Önundarfirði, og var skotið þar, af Guðmundi bónda Hagalín frá Sæbóli. Síðan að um skipti, eftir 20. maí, hefir verið hin blíðasta vorveðrátta.

Jónas segir [4.júní] að Esjan hafi orðið alhvít niður í byggð þann 31.maí. 

Júní: Votviðrasamt og kalt syðra, þurrt nyrðra.

Austri segir 7. júní: „Með uppstigningardegi [20.maí] gekk úr kuldunum og og til suðvestanáttar; voru mestu blíður rúma viku eða fram undir hvítasunnu [1.júní]; þá brá aftur til kulda og snjóaði talsvert á fjöll og festi í byggð; nú (5.júní) virðist veðráttan aftur að ganga til hlýinda“.

Þann 26.júlí birti Austri bréf úr Þistilfirði dagsett 10.júní:

Til sumarmála var veturinn hinn besti, einkum niður til sjávar; en oft harður hvað snjókyngi og jarðbannir snerti til heiðar. Upp úr sumarmálum fór tíðin að kólna og endaði með fjarskalegu áfelli og ótíð frá 12—19. maí; setti þá niður svo mikinn bleytusnjó um alla Norður-Þingeyjarsýslu, að menn muna ekki annan meiri um það leyti ársins. Síðan að snjóinn tók upp, hafa oft verið töluverð næturfrost og gróður því lítill og seinn. Að eins nú um nokkra daga hefur verið sæmileg gróðrartíð.

Jón Hjaltalín á Möðruvöllum segir í veðuryfirliti sínu fyrir 1884 (sjá hér að neðan) að þann 30. júní hafi þar um slóðir verið útsunnan ofviðri sem valdið hafi skemmdum í sáðgörðum. 

Júlí: Þurrkakafli upp úr miðjum mánuði syðra, en annars votviðri og kuldi þar, þurr og hagstæð tíð nyrðra.

Mjög hlýtt var inn til landsins á Suðurlandi dagana 7. til 11. júlí. Hiti fór þá á hverjum degi vel yfir 20 stig á Stóranúpi í Gnúpverjahreppi. Mistur var í lofti og ekki alveg þurrt alla dagana. 

Þann 12. virðist talsvert þrumuveður hafa gengið yfir - þrumur eru í athugunum í Stykkishólmi að kvöldi þess dags og aðfaranótt þess 13. Vestur á Flateyri gekk þrumuveður yfir fyrir hádegi þann 12. Átta þrumur heyrðust þar að sögn athugunarmanns. 

Góður kafli kom um og upp úr miðjum mánuði - líka sunnanlands. Jónas lýsir veðri þann 23. og 30. júlí:

[23.] Alla umliðna viku hefir veður verið einstaklega fagurt á degi hverjum. Svo má heita að logn hafi verið; fyrstu dagana var norðangola og síðustu dagana hefir verið hæg útræna, rétt logn. Í dag 22. bjart sólskin og hæg útræna. Loftþyngdarmælirinn stöðugur.

[30.] Alla vikuna hefir verið hið fegursta, rétt logn á hverjum degi (útræna) með björtu sólskini. Loftþyngdarmælir mjög stöðugur þangað til í gær 28. að hann fór að síga lítið eitt; í dag nokkuð hvass á austan með nokkurri úrkomu.

Ágúst: Mjög votviðrasamt á Suður- og Suðausturlandi, þurrara vestanlands, en öndvegistíð á Norðurlandi.

Fróði segir þann 16. fréttir frá Akureyri:

Akureyri 9. ágúst 1884. Veðrátta hefir verið hagstæð það af er sumri. Grasspretta góð yfir höfuð. Tún og harðvelli einkum sprottið vel. Mýrar lakar. Hákarlsafli á Eyjafirði er orðin í meðallagi þó minni en í fyrra. Flest skipin eru enn við veiðar. Tvö hákarlaskip hafa týnst í vor er nefndust „Úlfur" og „Hermann“.

Norðanfari segir 13.september frá sunnanveðri 22. ágúst:

Þann 22.f.m. var hér nyrðra mikið sunnanveður, sleit þá upp norskt verslunarskip, er lá á Þórshöfn á Langanesi, rak þar á land og brotnaði, en skipverjar komust af. Í skipinu hafði verið talsvert af fiski, salti, kolum og ... , sem allt seldist við uppboð 4.þ.m. og skipið á 300 krónur.

Ísafold rekur raunir um rigningu þann 27.ágúst:

Frá því um síðustu mánaðamót hefir verið mikil vætutíð um Suðurland, síðasta hálfan mánuð jafnvel afskaplegar rigningar. Áhrifin á heyskapinn eru þau, að undir Eyjafjöllum t.d. og í Fljótshlíð var fyrir fám dögum og er sjálfsagt enn víðast enginn baggi kominn í garð af töðu, hvað þá heldur af útheyi. Í Landeyjum þessu líkt eða því nær. Um uppsveitir Rangárvallasýslu og Árnessýslu ástandið lítið eitt skárra, en þó mjög illt. Í Flóa og Ölvesi hafa vötn sópað heyi burtu hrönnum saman, gert sumstaðar aleyðu. Víða engjar á floti, og því óvinnandi. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu sömuleiðis töður óhirtar mjög víða. Kaupafólk í þessum sýslum að hópast heim aftur til sjávarins. Sem nærri má geta horfir mjög ískyggilega á hér í sjávarsveitunum, nema sjórinn reynist því betur í haust. Í Borgarfirði var sæmileg heyskaparveðrátta fyrri hluta þessa mánaðar. Þar munu því töður hafa náðst óskemmdar og vel það. Í öðrum landsfjórðungum er eigi annað kunnugt en að góð tíð hafi haldist fram í miðjan þennan mánuð og heyskapur gengið prýðilega fyrir norðan að minnsta kosti.

September: Votviðrasamt fram undir þ.20. þá gekk í norðanáttir og setti niður fannir nyrðra og í uppsveitum syðra.

Ísafold birtir þann 8. október nokkur bréf sem lýsa sumartíðinni (við styttum lýsingar aðeins hér):

Í Húnavatnssýslu bera menn sig mjög vel 17. sept.:

Það er eigi hægt að segja annað um tíð hér í sumar en að hún hafi verið svo æskileg sem mönnum var unnt að öðlast. Allt hey hefir mátt hirða svo að segja jafnóðum og það hefir verið slegið; að eins var 1 vika af útheysslættinum votviðrasöm, en sem engan skaða gjörði, og aldrei hefi ég séð á bæjum hér jafnmikið hey sem nú, enda var sláttur byrjaður með fyrsta móti í sumar.

Eins eru góð tíðindi úr Strandasýslu (við Steingrímsfjörð) þann 8. september: 

Tíðin var hin hagstæðasta að hugsast gat til ágústbyrjunar. Þá brá til vætu. Tún voru í besta lagi sprottin hér allstaðar og taðan náðist eftir hendinni. Úthagi var miður sprottinn, og víða ófær af vatni; gras er orðið mjög fallið á engjum síðan væturnar komu. Sagt er að grasvöxtur og nýting hafi verið góð á Ströndum norður.

Ekki alslæmt í Barðastrandasýsla 12. september: 

Grasspretta ágæt, og nýting á öllum töðum hin besta. Seinni part af slættinum hefir brugðið til almennra óþurrka, sem byrjuðu 15. ágúst; þó hafa hey manna eigi skemmst enn, því hinn 6. og 7. sept. voru góðir þerridagar. Heyskapur er víðast hér um slóðir orðinn í besta lagi.

Ekki jafngott úr Meðallandi 7.september:

Grasvöxtur á túnum og valllendi var hér um slóðir með betra móti, en mýrarslægjur voru svo afar snöggar, að ekki hefir því líkt verið í 21 ár, sem ég hefi verið hér í Meðallandi, og þar á ofan hafa bæst einlægar vatnsfyllingar, svo fólk hefir staðið vinnulaust dögum saman vegna þeirra. Hér var í seinna lagi farið í okkar löngu kaupstaðarferðir, vegna ótíðarinnar í janúarmánuði, og komumst vér því í síðara lagi heim til að byrja slátt, og loksins þegar heim kom var svo afarilla sprottið, að óvíða var ljáberandi, svo sáralítið hey var fengið þegar brá í þá dæmalausu óþurrka og illviðri á því tímabili, sem varaði frá 29. júlí til 29. ágúst, að allan þann fullan mánuð kom naumast þurr dagur og alls eigi að gæti orðið að fullum notum; voru þá orðnar töður og annað nautgæft hey öldungis ónýtt kúahey. Loks á höfuðdag og síðan hefir verið þerriflæsa, svo búið er að flytja í garð yfirborð af því sem búið var að losa en svo illa þurrt ofan á hrakninginn, að nú brennur það hey, sem kraft hefir til þess, en hitt hálf-fúlnar, sem hraktara var. 

Sams konar vætufréttir eru líka úr Öræfum 6. september: „Það hafa ekki komið hér nema 2 dagar þurrir til enda nú upp í fullar 5 vikur og hið sama er að frétta úr Hornafirðinum“. Og sunnmýlingar segja það sama 7. september: „Afskaplega vætusamt hér í fjörðunum, svo hey hafa hrakist meir eða minna“. 

Ísafold lýsir tíðinni vel þann 20.september:

Vegna fádæmarigninga og óþurrka síðan í miðri 14. viku sumars, er að eins varð nokkuð hlé á fyrstu vikuna af september, hefir þetta sumar orðið eitthvert hið óhagstæðasta í manna minnum um allt Suðurland, frá Hvalfirði og austur í Skaftafellssýslur, og það svo, að til stórvandræða horfir, með því að almenningur neyðist til að fækka í haust töluverðu af hinum litla fjárstofni, sem var að færast á legg eftir harðærið. Um Borgarfjörð og líklega lengra vestur voru 3 vikna óþurrkar seinni partinn af ágústmánuði, en góður þerrir þar 1. vikuna af september, svo að þá náðist allt sem úti var af heyjum, með eigi mjög miklum skemmdum. Svo er að heyra að norðan og austan nú með strandferðaskipin, að þar hafi haldist þurrviðri fram til höfuðdags, en þá brugðið til óþurrka, með öðrum orðum: tíðarfar þar verið gagnstætt því sem var hér syðra. Líklega mun mega lýsa sumrinu svo í fám orðum, að það hafi verið mjög gott austanlands og norðan, dágott að öllu samtöldu vestanlands, en afleitt um meiri hluta Suðurlands.

Austri segir þann 24.september fréttir úr Breiðdal dagsettar þann 17.:

Heyskapur hefur gengið hér mjög erfiðlega í sumar. Allur ágúst hefur verið mjög óþurrkasamur og fram í september. Hey hefur hrakist víða töluvert, einkum úthey, því flestir voru búnir að slá og hirða tún fyrir júlímánaðarlok. Menn hafa náð heyi helst með því að setja stöðugt upp í sæti og breiða svo þegar vinddagar hafa komið. Töður hröktust talsvert hér út á Breiðdalnum og í Stöðvarfirði, fyrir það að þeir fóru seint í túnin. Afli hefur hér verið í sumar með minnsta móti. Heyafli manna mun verða líkur að vöxtum því sem var í fyrra en verr hirt.

Þann 12. gerði óvenjulega snarpt ofviðri norðanlands - Ísafold segir frá þann 20.:

Í óhemjustórviðri á sunnan með rigningu fimmtudag 12.sept.,er virðist hafa náð um land allt, braut yfir 30 norsk fiskiskip, þilskip, við Eyjafjörð, flest við Hrísey. Þar með ónýttist og ákaflega mikið af veiðarfærum: bátum, nótum o.fl. Manntjón vita menn eigi um, en ímynda sér að það hafi eigi orðið mikið. Veðrið var svo afskaplegt á Akureyri, að ófært var milli skipa á höfninni eða út í þau af landi.

Í bréfi Þorbjörns Magnússonar sem dagsett er á Akureyri 27.september og birt er í bókinni „Þeir segja margt í sendibréfum“ [Finnur Sigmundsson, 1970] er sagt frá veðrinu:

(s243) Thyra stóð hér við tvo daga (kom á fimmtudaginn 11., fór á laugardagsmorgun 13.), því rétt eftir hún hafði hafnað sig og farþegar voru komnir í land, skall á með suðvestan ofsaveður, svo hætta varð að skipa upp úr henni. Fjöldi farþega, er farið höfðu sér til skemmtunar í land, urðu að gista þar nálega húsvilltir, því allstaðar var húsfyllir. Engin þorði að leggja bát að skipinu í því veðri. Skipstjóri sjálfur var um borð í „Díönu“, og þar varð hann að gista nauðugur viljugur.

Í Austra 4. október má lesa skýrslu um skipatjónið í Eyjafirði þann 12. - er það langur listi og ítarlegur. Þar kemur einnig fram að 3 menn, allir norskir hafi farist. 

Einnig er rætt um þetta veður í sérstökum hungurdiskapistli

Október: Mjög umhleypingasamt, stórrigningar syðra, en hríðarköst nyrðra.

Ísafold segir frá stirðri haustveðráttu þann 8. október:

Haustveðrátta ærið stirð til þessa hér sunnanlands og líklega víðar: kuldar, stormar og úrfelli, fjúk til fjalla. Viku fyrir Mikaelsmessu [29. september] gerði kafaldsbyl fyrir norðan, í Húnavatnssýslu og víðar, og snjóaði ofan í sjó; fjallgöngur tepptust; kýr teknar á gjöf o.frv. Fjúkið stóð í 2 daga, frá sunnudegi 21. sept. til þriðjudagsmorguns. Miðvikudag tók snjóinn upp í byggð, og var auð jörð 2 daga á eftir; en laugardag 27. gerði annan kafaldsbylinn og stóð fram yfir helgi; kviðsnjór á Holtavörðuheiði á Mikaelsmessu. 

Þjóðólfur kvartar um úrkomutíð þann 25.október:

„Það var þó aldrei nema fjörutíu daga og nætur, að rigndi, þegar Nóaflóð kom yfir jörðina", sagði einn maður á strætinu hér fyrir utan skrifstofu Þjóðólfs í gær; „en nú eru það víst fullir 80 dagarnir, sem alltaf hefir rignt hér í Reykjavik!" Maðurinn ýkti að því leyti ofurlítið, að það hafa komið smá-uppstyttur á milli; en af og til er víst búið að rigna hér nú um 80 daga.

Í Norðanfara 15.nóvember er bréf úr Skagafirði dagsett 28.október. Þar segir m.a. frá sköðum í firðinum í veðrinu mikla 11. september:

Tíðin yfir höfuð í sumar góð allt fram undir göngur, töðufall af túnum með besta móti í sumar, og nýting góð á henni, grasvöxtur á engjum með betra móti, að undanskildum einstaka flæðiengjum, þar sem vatn lá of lengi á; heyskapur yfir höfuð í betra lagi, þó varð hnekkir talsverður, að suðvestan ofsaveðri 11. sept., því almenningur átti þá mikið úti uppsætt, sem allt fór um koll og tapaðist talsvert; í því veðri drukknuðu 2 drengir frá Hefða á Höfðaströnd, en sá þriðji bjargaðist á kjöl, hann var elstur.

Þeir sem voru búnir að hirða hey sin fyrir göngur, er nokkrir voru, höfðu þau með góðri nýtingu, hinir er úti áttu meira og minna, komust í mestu vandræði að svæla þeim inn illa verkuðum, því að síðan í göngum hafa verið dæmafáar úrkomur hér í Skagafirði af snjó og vatni af suðvestri, svo allt hefir ætlað á flot að fara og getur varla hjá því farið að í hlöðum og heyjum með hita hafi ekki nokkuð skemmst; eldiviður hjá mönnum mjög illa útleikinn og verða af því vandræði.

Tveir menn af Suðurlandi komu fyrir stuttu norðan af Seyðisfirði, er ætluðu suður, 18. þ.m. komu þeir að Gönguskarðsá og lentu á versta vaðinu á henni, lögðu út í hana, og sá sem var á undan fór flatur þá hann var nærri kominn að landi og drukknaði, en hinn sneri aftur til baka, sá sem fórst var af Seltjarnarnesi og fannst daginn eftir.

Nóvember: Mjög umhleypingasamt, skiptust á stórrigningar og hríðarbyljir, þó var blíðuveður um miðjan mánuð.

Í Fróða 6.janúar 1885 er bréf af Skógarströnd dagsett 27.nóvember sem segir frá manntjóni í skriðuföllum á Hlíðartúni í Sökkólfdal (um hann liggur nú vegurinn norðan Bröttubrekku), skriðan féll í illviðrinu mikla 14.nóvember, fimm létust:

Stórtíðindi gerðust fyrir hálfum mánuði inn í Dölum: Féll skriða úr fjalli ofan yfir bæinn Hlíðartún; komst enginn maður út. Á 3. degi var komið að bænum, og var þá þegar safnað 30 mönnum til að ryðja af honum skriðunni. Náðust loks eftir 4 dægur húsfreyjan og dóttir hennar 16 vetra með lífi þó var húsfreyja svo þjökuð, að hún dó litlu siðar. Allt fólk annað hafði ætlað að hlaupa til dyra, og fannst þar bóndi dauður í dyrunum, og hafði gengið „þrem fótum til skammt", eins og Þórólfur Kveldúlfsson; börn hans tvö upp komin og dóttir 14 vetra og næturgestur einn. Skriðan var tvær mannhæðir að dýpt niður að þeim og full af stórum björgum. Voru því líkin mjög illa útleikin, nema hinnar ungu meyjar; á henni sá ekkert, og sagði svo frá stjúpsystir hennar, að hún mundi hafa dáið af hræðslu, því að hún hefði talað við sig eftir að skriðan féll. Hinn sama dag var veður svo mikið hér hvervetna, að menn treystust vart til húsa á túnum. Þó varð eigi tjón annarstaðar en í Hlíðartúni og á öðrum bæ í Dölum, þar tók skriða þriðjung af túninu. 

Austri birtir 17.desember fréttir frá Akureyri dagsettar 10.nóvember:

Tíð mátti heita góð hér lengst af í haust. En með vetrarkomu brá, til snjóveðra. Síðan hefur fallið mikill snjór, en sjaldan með miklu frosti. Nú í dag er góð hláka og litur út fyrir þíðviðri. Skagafjörður er sagður næstum snjólaus.

[Þann 2. nóvember] kl. 7 um morguninn kom stórkostlegur jarðskjálfti á Húsavík. Var mönnum naumast stætt á bersvæði á meðan á honum stóð. Hús skemmdust stórkostlega, stoðir og þiljur gengu úr greypingum, og torfveggir rifnuðu og sumir hrundu. Síðan hafa þar verið mjög tíðir jarðskjálftar, en allir minni en hinn fyrsti. Hér á Akureyri varð vart við fyrsta jarðskjálftann. en engan skaða gjörði hann, og var þó allsnarpur. Ekki fannst hann í Skagafirði, að sagt er. Hér virtist jarðhreyfingin að koma úr norðaustri, en á Húsavik úr suðaustri, öfugt við Húsavikurjarðskjálftana 1872, því þá fannst hreyfingin þar að koma úr norðvestri.

Þjóðólfur birtir 22.nóvember fréttir úr Leiðvallahreppi dagsettar þann 11. Leiðvöllur er í Meðallandi og náði Leiðvallahreppur á þessum tíma yfir Meðalland, Álftaver og Skaftártungu. 

Erfitt er tíðarfarið enn sem fyrri. Nú er veturinn farinn að sýna sig. Þriðjudag 28. október skall hér á austan gaddbylur; næsta dag var frostið 8 til 10 stig á Reaumur, fimmtudaginn (30.) aftur bylur, og síðan megnustu umhleypingar og stundum frost, stundum frostleysur, éljagangur o.s.frv. Það er því farið að setja talsvert að högum, og eftir því sem til fjalla er að sjá, líklega haglítið þar víða. Í gærdag [10. nóvember] og frameftir nóttu var hellirigning með stormi; tók hér því mikið upp, en hér á mýrunum er nú hlaupið svo í gadd, að mikið er enn þá undirlagt af þeim. Nú eru krapahryðjur úr útsuðri. Til fjalla er alhvítt að sjá.

Í sama blaði Þjóðólfs (22.) segir einnig:

... en aðfaranótt föstudags vikuna sem leið [14.] gekk hér skyndilega í ofsarokveður á suðaustan, fylgdi því óhemjurigning og hélst fram á 15. þ.m. að veður snerist til suðvesturs og gekk þá með éljum. Nú er hægviðri og má heita blíða um þennan tíma árs. Í ofsaveðri þessu hafði skipið „Amoy“ frá Brydes-verslun hér, er lagði héðan fyrir skömmu, rekist upp á Holtssand undir Eyjafjöllum austur menn komust allir af, skipið og vörur sagt lítt skemmt, en ekki til að hugsa annað en að selja allt þar, sem komið er.

Í Austra 17.desember er pistill sem dagsettur er á Seyðisfirði 27.nóvember. Þar eru fréttir af skipsköðum og drukknunum (aðeins stytt hér). 

Aðfaranótt hins 14. þ.m. [nóvember] rak í land á Eskifirði í ofviðri miklu „Thor", haustskip Tuliniusar kaupmanns. Var það það fermt íslenskri vöru og albúið til utanferðar. Skipið sjálft kvað hafa bilað svo óhaffært sé. Vörurnar er sagt að kaupmaður Tulinius hafi keypt allar án uppboðs eftir samkomulagi við sýslumann.

Bátur fórst með 4 mönnum við Bjarnarey einhvern tíma í októbermánuði síðastliðnum. Var á heimleið úr Vopnafjarðarkaupstað með salt og timbur. ... Er mælt að 2 líkin hafi rekið í land í eynni. Bjarnarey hefur verið óbyggð þangað til í sumar. Hún liggur skammt undan landi fyrir utan fjöll þau er skilur Vopnafjörð frá Fljótsdalshéraði. Er álitið gott að halda þar út til fiskjar, og því hafði Björn Guðmundsson á Vestdalseyri, fyrrum póstur milli Akureyrar og Reykjavikur, fengið eyna leigða síðastliðið sumar og farið þangað með fólk og fiskibáta. Allt þetta fólk er drukknaði, fór í eyna í sumar héðan af Seyðisfirði.

Desember: Umhleypingasöm tíð.

Þann 3.mars 1885 birti Norðanfari bréf úr Barðastrandarsýslu dagsett 15.desember. Þar er m.a. sagt frá illviðri miklu ódagsettu, en líklega er þetta veðrið 14.nóvember. 

Haustið hefir verið rosasamt, ýmist snjór eða þíður, varla aldrei kyrrð, en frost mjög lítið og oftast ekkert. Brim mikil og ógæftir á sjó, enda afli mjög lítill, og sumstaðar svo að segja enginn í þeim sveitum, sem haustafli er vanur að vera. Hákarls var eitt sinn leitað í haust, en varð varla og ekki vart. Í öðru sinni lögðu menn af stað, en urðu að snúa aftur; það var í næstliðinni viku. Í einu sunnanveðrinu í haust urðu skemmdir allmiklar á ýmsum stöðum. Hús og bátar fuku og brotnuðu við Ísafjarðardjúp, að sögn 8 bátar og 3 timburhús: eitt timburhúsið í Hnífsdal, annað í Arnardal og hið þriðja í kaupstaðnum Ísafirði. Bátarnir voru í Hnífsdal og Arnardal. Í sama veðrinu braut og þilskip, alfermt og ferðbúið til utanferðar, á Ísafjarðarhöfn; úr öðru var höggvið stórmastrið. Timburhús nýtt fauk og í sama sinn rétt fyrir innan Þingeyri í Dýrafirði. Viðar urðu skemmdir á húsum; þannig í Dölum við Arnarfjörð; rauf þar á einum bæ eða fleirum ýmis útihús að veggjum. Bát braut hér i sveit og hús skemmdust. Bátur með 3 ungum mönnum og stúlku fórst af Múlanesi, - hvort það var í sama ofveðrinu, man ég eigi. Þilskip, er lá við akkeri hér á firðinum [trúlega átt við Patreksfjörð], sleit enn fremur upp, rak út eftir firði og þar að landi; laskaðist töluvert og missti stýrið.

Bréf úr Árnessýslu, dagsett 7.janúar 1885 er í Fróða 13.mars og þar segir m.a.:

Fáeina daga eftir veturnæturnar var norðankuldi, og er það lengsti bjartviðrakaflinn sem komið hefir síðan í byrjun ágústmánaðar; en strax brá aftur til útsynninga og umhleypinga, og hélst það fram í miðjan nóvember; en síðari hluta hans var blíðviðri, þykkt loft en úrkomulitið og sjaldan frost eða stormur. Allan desember hafa verið útsynningar með mikilli snjókomu, einkum i uppsveitum því hér er útsynningur vanalega þess verri sem ofar er. Blota hefir gert stundum, en ekki nema til spillingar.

Austri segir frá þann 12.janúar 1885:

Á jóladaginn var eitthvert hið mesta norðanveður sem hér hefur komið. Kviknaði þá eldur í stóru norsku síldarveiðahúsi á Búðareyri, tilheyrandi Svendsen kaupmanni í Stafangri. Í húsinu bjó nú norskur húsgæslumaður með konu sinni og 6 börnum. Húsið brann á örstuttum tíma og missti hinn norski húsgæslumaður þar aleigu sína, þar sem engu varð bjargað. Var það hin mesta furða að ekki kviknaði í hinum næstu húsum, er þar stóðu forvindis.

Við látum allítarlegt ársyfirlit Jóns Hjaltalín á Möðruvöllum fylgja. Það birtist í Fróða 20. febrúar 1885. Dagbækur Jóns liggja ef til vill einhvers staðar. Við látum mánaðameðaltöl hans í friði, en höfum í huga að trúlega eru þau ekki reiknuð eins og gert er nú á dögum - og ekki tekið tillit til næturhelmings sólarhringsins. Tölur eru því almennt of háar, sérstaklega að sumarlagi þegar dægursveifla hitans er stór. 

Yfirlit yfir veðráttu í Eyjafirði 1884.
Ekki mátti janúarmánuður kaldur heita, en þó var hann kaldasti mánuður ársins; meðaltalið var -3,90 eða næstum því 4 stig eftir mæli Celsiusar; áttin var lengstum við suður. Fyrra hluta febrúarmánaðar hélst frostið, þótt vægt væri; var og talsverð snjókoma öðru hverju; hinn 15. brá til hláku í rúma viku; þá frysti aftur þangað til seinast í mánuðinum. Meira hlut mánaðarins var áttin við suður, en þriðjung fullan í landnorðri. Meðaltal hitans var -0,76 eða þrír fjórðungar stigs. Marsmánuð allan var mjög milt veður; frost var eina 6 daga og aldrei mikið; meðaltal hita var því 1,93 eða sem næst tveim stigum. Lengst af var þykkviðri og stillt veður; áttin var enn mestan hluta mánaðarins við suður.

Aprílmánuð hélst hið sama veður enn þó mildara; var frost að eins 3 daga og meðalhitinn varð +4,94 eða næstum því 5 stig; var úrkomulítið mestan part mánaðarins; áttin var enn lengst af við xuður og þar næst við landnorður. Í byrjun maímánaðar brá til landnorðuráttar, og blés nokkuð af þeirri átt meira hlut þessa mánaðar og snjóaði eigi all sjaldan. Frost var 6 daga í þessum mánuði, en seinustu viku mánaðarins varð mjög blítt og var þá sunnanátt. Meðaltal hitans allan mánuðinn var + 4,88 og var það lítið eitt minna enn í apríl.

I júnímánuði var besta veður og væta talsverð, enda var áttin lengst við suður; um Jónsmessuna kólnaði lítið eitt og mátti þó eigi kalt heita. Meðaltal hitans allan mánuðinn var +11,54 eða hér um bil hálft tólfta stig. Í júlímánuði var lengst af norðanátt, en þó var hlýtt veður, svo meðaltal hitans varð +13,24. Þurrkar voru lengstum þennan mánuð. Í ágústmánuði var veður mikið óstöðugra; voru rigningar nokkrar öðru hverju, svo að 14 voru þeir dagar mánaðarins, er nokkuð rigndi; lengstum var áttin við suður. Meðalhiti mánaðarins var +12,04.

Allan fyrsta þriðjung septembermánaðar var átt við landnorður með þykkviðri og krapaskúrum við og við, og seinni part mánaðarins snjóaði allmikið á fjöll, og mátti heldur heita votviðrasamt. Meðalhiti mánaðarins var +8,13. Vindasamt var nokkuð þennan mánuð. Í byrjun októbermánaðar snjóaði nokkuð, en tók þó upp aftur. Frost var nokkuð frá hinum 8. til hins 12., en þá var þítt til hins 25.; þó var frost nokkuð og snjókoma til mánaðarlokanna. Átt var lengst við suður og umhleypingasöm. Meðal hiti mánaðarins var +1,64.

Snjókoma var töluverð hina fyrstu daga nóvembermánaðar og frost hélst til hins 9. Þá var þíðviðri fram í seinustu viku mánaðarins, og síðan frost til mánaðarlokanna, en þó alltaf vægt. Meðalhiti mánaðarins var -0,86. Átt var lengstum við suður og úrkomusamt, 3 daga rigning en 12 daga snjór. Í desembermánuði voru lengstum væg frost en þíður við og við; ýmist voru snjóar og þó eigi mjög miklir eða rigningar meira hlut mánaðarins. Átt var lengst við suður og hinn partinn við norður. Frost voru væg. Meðalhiti mánaðarins var -2,05.

Meðalhiti alls ársins var +4,28. Heitasti dagur ársins var hinn 9. júlí og var meðalhiti þann dag +20,03: en þegar hitinn var mestur þann dag, var hann +25 stig. Hinn kaldasti dagur var hinn 26. janúar; var meðalhiti þann dag -21,43; en þegar kaldast var þann dag, var hann -22 stig.

Á öllu árinu var norðanátt 19 daga, landnorðan átt 95 daga, austanátt 15 daga, landsunnanátt 57 daga, sunnanátt 133 daga, útsunnanátt 35 daga, vestanátt 6 daga, útnorðanátt 6 daga. Hvassir dagar voru á árinu 44, hæglætisdagar 176, og logndagar 146. Þrisvar á árinu var ofviðri. Hinn 30. júní var ofviðri á útsunnan og skemmdi allmikið sáðgarða og fleira. Hinn 11. september var ofviðri á sunnan; þá fórust skipin við Hrísey. Hinn 27. desember var enn ofviðri á sunnan og útsunnan, en gerði ekki tjón. Rigningardagar á árinu voru 62, snjódagar 87 og úrkomulausir dagar 217. Rigningardagur eða snjódagur er hvor sá dagur talinn, sem einhvern tíma rignir eða snjóar á. Júlí og ágúst voru hinir einu mánuðir, er enginn snjór féll. Heiðríkisdagar voru á árinu 32, en þykkviðri meira eða minna var 334 daga. Hver dagur er talinn þykkviðrisdagur, er nokkurt ský sést á honum. Meðalloftþungi allt árið var 29,67 enskir þumlungar. Hafís kom hér aldrei þetta ár. Jarðskjálftakippur fannst hér 2. nóv. kl. 7,45 f. m. Þrumur heyrðust aldrei.

Möðruvöllum í Hörgárdal í janúarmánuði 1885. Jón A. Hjaltalín.

Hér lýkur að sinni tali um árið 1884 - tölulegar upplýsingar ýmsar má finna í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í flokki dýpstu maílægða

Lægðin sem nú hringar sig suður af landinu er í flokki dýpstu maílægða, reiknimiðstöðvar segja miðjuþrýsting 962 hPa. Þetta er lægri þrýstingur en nokkru sinni hefur mælst hér á landi í maímánuði. Metið er 967,3 hPa, sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 13. árið 1956. 

w-blogg080518a

Þó lægðir lifi að jafnaði í nokkra daga er mesta snerpa þeirra nærri miðju jafnan skammvinn þannig að líkur á að landið verði fyrir lægsta „æviþrýstingi“ lægðarmiðju eru ekki mjög miklar. Lægðir dýpri en 965 hPa skjóta endrum og sinnum upp kollinum á Norður-Atlantshafi í maí, en hafa sem sagt ekki enn hitt á landið á réttum tíma í þróunarferli sínum. 

Hvað maílægðir geta orðið djúpar vitum við ekki, en þó er tilfinning ritstjóra hungurdiska sú að einhvern tíma birtist ein sem verður í kringum 950 hPa - og víst er að 967,3 hPa metið okkar er furðuhátt - því júnímetið er nærri 10 hPa lægra, 957,5 hPa. Sú lægð hitti hins vegar vel í. Það er næsta víst að einhver loftvog hér á landi á eftir að sjá að minnsta kosti svo lága tölu í maí. Hvenær sem það svo verður. 

Annars hefur meðalloftþrýstingur þessa fyrstu maídaga verið óvenjulágur hér á landi, er þó ekki alveg fordæmalaus. Við skulum athuga hvernig keppnisstaðan verður þegar þriðjungur mánaðarins er liðinn. Lægðin á kortinu að ofan stefnir nefnilega í átt til landsins og lengir þetta lágþrýstiskeið um fáeina daga - þó maímetið fyrrnefnda verði trúlega ekki slegið að þessu sinni. 


Af árinu 1821

Talsvert ítarlegar veðurlýsingar eru til frá árinu 1821 og getum við því sitthvað um það sagt. Mælingar eru rýrari. Hiti var þó mældur reglulega á að minnsta kosti tveimur stöðum, í norðurherbergi hjá Jóni Þorsteinssyni landlækni í Reykjavík og hjá séra Pétri Péturssyni á Víðivöllum í Skagafirði - en marga mánuði vantar í hvora mæliröð. Jón sendi athuganir til Kaupmannahafnar tvisvar á ári, með vor- og haustskipum. Skýrslur hans eru því tvískiptar, annar helmingur ársins frá mars til ágúst, en hinn frá september til febrúar eftirfylgjandi ár. Sennilega hefur verið til meira en eitt afrit - en skýrslur tímabilsins frá september 1821 til og með febrúar 1822 virðast hafa glatast úr meginsafninu. Daglegar tölur síðari helmings þess voru þó prentaðar í bresku riti, Annals of Philosophy - desembermælingar Jóns hafa því ekki glatast. 

Árið var ekki kalt, veturinn í mildara lagi - nema hvað vorið lét eitthvað bíða eftir sér. Sumrið var hlýtt og hagstætt sunnanlands. 

arid_1821_a

Myndin sýnir hitamælingar Jóns (grár ferill) og Péturs (rauður). Þær eru furðusammála um hitafar í janúar og febrúar, eftir kalda byrjun ársins hefur verið milt fram undir miðjan mars, en hiti í herbergi Jóns fór hins vegar ekki upp fyrir 10 stig fyrr en mjög seint í maí. Töluverðu munar á sumarhita mælanna tveggja, enda ólíkt fyrir komið og aflestur á ólíkum tíma. Jón mældi í hádeginu þegar lítið vantaði á hámark dagsins, en séra Pétur í morgunsárið á kaldasta tíma sólarhringsins. Hann mældi frost eina nótt snemma í ágúst. Slíkt er reyndar varla mjög óalgengt við Víðivelli. 

Miklir hitar virðast hins vegar vera hjá Jóni nánast dag eftir dag frá því um miðjan júlí og fram um 10. ágúst. Þessar háu tölur eru varla sambærilegar við staðlaðar nútímamælingar, en athyglisverð er þó frásögn Magnúsar Stephensen sem hann ritar í bréfi til Finns Magnússonar og dagsett er í Viðeyjarklaustri 14.ágúst:

(s27) ... en þess á milli verið ýmsum önnum svo kafinn, eða svo ungeschickt [stirðbusalegur - segir orðabókin] til sálar og sinnis og frá mér í vellu- og mollu-hitum nú um nokkurn tíma meða 19 á 20° varma eftir Reaumur, sem mér er ætíð óþolandi (hvað þá ykkar meiri!), að ég ekki hefi treyst mér til á meðan að skrifa staf. En nú þá Evrus og Evronotus taka að hjálpast með að byrgja Apollós fögru ásjónu með blaktrandi bólstratjöldum oss til svölunar, gríp eg pennann á ný, færist í fornan ham, hálfu verri heldur en áður, eins og Skjaldvör skessa afturgengin.

Mælingarnar virðast sýna kuldakast í nóvember, - og svo er einhver hitatoppur um jólaleytið, en ekki ljóst hvort það getur verið rétt - en lýsingar greina frá spilliblotum um það leyti. 

arid_1821_b

Hér má sjá þrýstifar ársins - eins og Jón mældi það frá degi til dags. Nokkuð órólegur vetur eins og vera ber. Lágur þrýstingur fram undir miðjan maí, en þá tók við mjög óvenjulegur tími, séu mælingarnar réttar. Það er mjög sjaldséð að þrýstingur fari ekki niður fyrir 1020 hPa í næstum tvo mánuði - jaðrar svo við hið ótrúlega að varla getur verið rétt. Fleiri sumarmánuðir fyrir 1825 eiga líka grunsamlega háan þrýsting. Aftur á móti er þrýstingur á öðrum árstímum eðlilegur. Við látum líklegustu skýringu á „villunni“ liggja á milli hluta, og höldum þeim möguleika opnum að eitthvað raunverulegt sé á ferðinni (ekki þó galopnum).

Breskar veðurfréttir greina frá óvenjuköldum norðaustanáttum þar um slóðir um hálfsmánaðarskeið í júnímánuði - jafnvel með næturfrosti á stöku stað - og undir maílok snjóaði í London - síðasta snjókoma vorsins sem vitað er um þar í borg. Kannski var eitthvað óvenjulegt á ferð?

Frá miðju sumri er ekkert einkennilegt við þrýstinginn. Lýsingar á veðurlagi á þessum tíma (sjá neðar) styðja háþrýstihugmyndir.

Í annál 19.aldar er tíðarfarinu lýst svo - fellur vel að mælingum:

Vetur frá nýári var mjög mildur um Suður- og Austurland, snjóalítill og frostvægur, svo skepnuhöld urðu þar víðast góð. Á Vesturlandi var einnig góð tíð fram að góu, síðan snjóa- og harðviðrasöm. Á Norðurlandi mátti og góða tíð kalla, þótt fjúk væru öðru hvoru, uns hafís lagðist að norðanverðum Ströndum og Vestfjörðum á einmánuði. Brá þá til harðinda og héldust kuldar og næðingar fram um fardaga og varð gróður í minna lagi nyrðra og vestra, en einkum þó eystra í Múlasýslum fyrir grasmaðk, er var eignaður þurrkum og næðingum.

Sumar var blítt syðra, grasvöxtur í meðallagi og nýting góð. Þar á móti var hún hin bágasta norðanlands. Lagði vetur að fimm vikum fyrir rétta vetrarkomu; varð víða úthey undir snjó og náðust ei síðan. Hesta fennti á Skaga fyrir vetur og mjög áttu menn örðugt með að lóga sauðfénaði, jafnmiklum og nauðsyn krafði. Gerði snjókomu hina mestu og þyngdi æ meir, uns bæir sukku. Hófust spilliblotar með sólhvörfum; lagðist allt undir gadd. 

Hafís lá lengst af sumri fyrir Vestur- og Norðurlandi og bægðu kaupförum komu til ýmsra hafna. Lágu í honum 30 hollensk fiskiskip mestan þann tíma föst, en losnuðu þó heil úr honum að lokum. 

Mikið var um skipreika á árinu - annállinn telur þá marga. Þar leitar hann einkum heimilda í tíðarvísur Jóns Hjaltalín að því er virðist. 

Snjóflóð tók bóndann frá Birnustöðum í Dýrafirði og maður varð úti í Húnavatnssýslu (annáll 19.aldar). 

Brandstaðaannáll segir um árið 1821:

Stillt veður og snjór á jörð til þorra, á honum vestanátt og blotar, hláka 25.-27.jan., síðan óstöðugt. 8.-15.febr.var jarðlaust fyrir fé, 15.-16.febr. fjarskaleg rigning og vatnagangur. Féllu víða skriður, mest móti austri. Varð vermönnum að því óhægð, því heiðin var lengi ófær vegna snjóbleytu. Komust þeir ei suður fyrr en um miðgóu, en hún var hin besta og blíðasta, er verða kunni, svo vel hefði mátt fara til grasa á heiðar öðru hverju. 17.-19.mars norðanhríð, um miðjan einmánuð kuldar og frost mikið, en jörð snjólítil, síðustu viku góðviðri.

Með sumri skipti um og var á páskum [22. apríl] mesta harka, svo ár lögðu og litt var beitandi á auðri jörð, eftir það þíðulítið og frá 4.-27.maí kuldar og stöðug frost, 5. og 9.maí norðanhríð en lengst auð jörð í sveitum. Faradagaviku þíða og hlýviðri. Leysti snjó af fjöllum og greri fljótt.

Í júní lengst þurrt og kalsasamt, stundum vestanrosi. Með júlí fóru lestir suður og gaf þeim vel, því sífellt var þurrkasamt og fór gróðri seint fram. Sláttur byrjaði 18.- 20.júlí. Var (s84) lengi norðanátt, þokur og rekjur, samt nægur þerrir og nýting besta. Víða brann af hörðum túnum og varð þar töðubrestur, en annars meðalheyskapur og girt um göngur og síðast 27.sept. 1.október hlóð niður lognfönn og þann 4. norðanhríð með mestu fannkyngju, svo ófært varð með hesta bæja á milli. Þó varð lítið af fönninni til fremstu dala, Miðfjarðar- og Vatnsdal. Viku seinna tók upp í sveitum, en ei til hálsa eða hálendis. Í Þingi og Skagafirði áttu sumir hey úti, sem varð ónýtt og upptekið 19.október.

Haustið varð hið versta norðanlands. 29.-30.okt. mikil rigning, harka og snjór á eftir og svellaði mjög jörð, 5.-11.nóvember allgott, en eftir það fannlög og kaföld frá 18., en 6.-9. des. varð jarðlaust af snjókyngju. 17. blotaði. Sáust þá sultarhnjótar og tóku margir hross á gjöf. Um jólin landnorðanstormur og hríð ytra. Voru þar komnar undir 20 innistöður vegna hríðanna þó snöp væri með snjónum. Árferði var í meðallagi. (s85) ... Norðan Skagafjörð varð nú mikill niðurskurður og fellir. 21.sept. lagði þar á fannir. Hey allmikið varð þar undir. Jókst fönnin svo hross náðust ei af heiðum langt frá byggð. ... Snöp var í lágsveitum til 18. nóv., en ei til hálendis. (s86)

Klausturpósturinn 1821 (IV, 6, bls. 100) [Magnús Stephensen] 

Í No.12 þessa mánaðarits fyrir 1820 gat ég um á bls.195 almennt árferði fram undir byrjun þessa árs 1821, að því leyti tilspurt var. Kenndist síðan afliðinn vetur um allt Suður- og Austurland einver hinn langmildasti, snjóalítill og frostavægur, svo útigangs peningshöld og hold urðu víðast góð. Á Vesturlandi var veturinn einnig góður fram á góu, síðan snjóa- og harðindalegur. Á Norðurlandi tjáist hann með köflum orðið hafa fjúkasamari, en góður þess á milli, uns hafís á einmánuði lagðist að vesturhluta þess og með norðanverðum Ströndum og Vestfjörðum; þótti þá nyrðra og vestra bregða til mikilla harðinda og síðan allt til þessa [ritað snemma í júní], með fjúkum frostum, áhlaupa norðanveðrum, nú gróðurleysi, kuldanæðingum og þar af leiðandi vanhöldum á fé og unglömbum. Langvarandi kuldanæðingar, kælur, frost og þurrkar taka enn þá því nær fyrir allan gróður jarðar, eins um Suðurland, nú í fardögum [snemma í júní].

Fiskiafli austan- sunnan- og vestan, með varð og í betra lagi, nema í einstökum verstöðvum, hvar þó ógæftir mest böguðu, svo sem: undir ytri Eyjafjöllum, á Eyrarbakka og með minna móti í Höfnum. Í Vestmannaeyjum sá allrabesti, allt að 8 hundraða hlutum. Syðra urðu þeir bestir hér um 4 hundruð en 5 á Strönd; fjöldi manna á Seltjarnar- og Akranesjum fengu þó hundraðs hlut eða litlu meira. Hákarlaafli á Vestfjörðum góður og sela, hvar nú tíðkast hefur með góðri heppni skutlan vöðusels. Á hafísnum gafst einkum góður selaafli vestanlands og nyrðra, helst í Aðalvík og Hrútafirði, hvar fjöldi vöðuselakópa varð rotaður.

Við leyfum þessari málsgrein líka að fylgja með þó hér sé ekki verið að fjalla um árið 1821:

Í Eyjafirði tíðkast og heppnast víða vel garðeplarækt, eins kálróta, einkum hjá kaupmanni Lewer og Dannebrogsmanni Þorláki Hallgrímssyni á Skriðu, sem auk margra merkilegra og manndóms fyrirtækja jarðyrkjunni viðvíkjandi, hefir verðskuldað landsmanna þökk og virðingu með byggingu góðrar þófaramylnu á bæ sínum, af eigin ramleika og efnum, hverri þó margra samanlögð fengu hér ekki á fót komið. Nú taka og syðra til korns mölunar vindsmylnur nokkrar breytilegar að fjölga; ein í ameríkönsku formi finnst í Viðey; en bóndi í Reykholtsdal hefir þar ný fundið uppá kostnaðarlitlar smáar, með vængjum upp úr húskofaþekjum, sem snúast samfara sjóndeildarhringi eða vatnabrúnum, og tjást þær mala allvel. Vatnsmylnum fjölgar hér og.

Klausturpósturinn 1821 (IV, 7, bls. 118):

Innlendar fregnir: Hafís heyrist enn um messur að liggja fyrir ströndum Norðurlands og Vestfjörðum; þar af leiðir lítinn gróður nyrðra, vestra, en einkum víða eystra, hvar grasmaðkur í Skaftafellssýslum – vegna langvinnra þurrka og næðinga í ár – ollir miklum skaða. Á Suðurlandi er grasvöxtur betri og lítur út til að nái meðallagi. Vorafli þar í rýrara lagi sökum ógæfta. Nyrðra góð höpp af selarotun á hafísum, einkum í Grímsey. Á Vopnafirði strandaði sélegt briggskip Kaupmanns Wulffs, þann 30. apríl, Friðurinn kallað; meiri hluti farms var áður þar lentur. Nýlega er við Vestmannaeyjar fundin útlend skúta á hvolfi. Gat varð höggvið á botninn, og voru 5 skipverja dauðir og úldinn saltfiskur fundnir í henni: hver hana eigi eða hvar hún heima átti, er enn ekki með vissu spurt, máski hollendskir.

Klausturpósturinn 1821 (IV, 12, bls. 203):

Árgangur [þ.e. árferði]. Síðan eg í júlí þ.á. á bls.118 minntist á árferðið og innlendar fregnir hjá oss, hélst minnilegasta og besta heyjanýting um allt Suðurland; lakara miklu varð árferðið bæði eystra, hvar grasmaðkur sumstaðar át burt gras af jörðu líka vestan- og einkum norðanlands, hvar sárbág nýting heyja, sökum óþurrka nú víða spyrst. Svo mikið af útheyi varð þar úti undir snjóum, sem með harðindum áféllu þegar í septemberi, en töður spilltust mörgum. Hesta fennti á Skaga nyrðra fyrir vetur og af bágri tíð leiddi víða mikla fénaðarlógun norðanlands. Hafísar lágu lengst af sumri og liggja enn fyrir Vestur- og Norðurlands byggðum, sem bægðu kaupförum komu til ýmsra hafna, í þeim lágu og yfir 30 hollendsk fiskiskip föst lengst af sumri, en losnuðu þó heil um síðir úr ísnum. Hvalaveiðaskipið frá Glúkstadt, hvers getið er á bls.102, fannst í Seyðisfjarðarmynni í Múlasýslu, á miðju sumri og varð í firði þeim róið að landi og fest. [Skipbrotsmenn höfðu með herkju komist á land á Skaga fyrr um vorið].

Lítum svo á nokkur bréf [danska textann ættu flestir að skilja]: 

31-1 1821 (Jón Þorsteinsson, athugasemd með veðurskýrslu): Slutteligen tör jeg anmærke at denne Vinter intil dato, har með Hensyn til Kulden været af de mildeste slag her til Lands sam Vejrliget i det heele til sidste December, snarere været, Efteraars end Vintervejr derimod har det i indeværende Maaned været særdeles ustadigt með afvæxlende Töevejr, og Frost, og undertiden med betydelig Snee, hvilket næsten altid er Tilfældet her naar Vinden længe vedvarer fra Sydvest, som her medförer det uroeligste og ustadigste Vejrlig; Nordenvinden er derimod vel den stadigste men tillige den koldeste.

Jón sagði hér frá því að vetur (til janúarloka) hafi verið sérlega mildur og fremur hægt að tala um haust- fremur en vetrarveður. Tíð hafi hins vegar verið sérlega óstöðug í janúar, ýmist með blotum eða töluverðum snjó - eins og ætíð sé standi vindur lengi af suðvestri, en sú átt sé sú óstöðugasta allra, norðanátt sé hins vegar stöðug og sú kaldasta áttanna allra. 

Gufunesi 14-2 1821 (Bjarni Thorarensen): Vetur hefir verið hinn besti framyfir nýár, en síðan hafa verið mestu umhleypingar ... (s187)

Gufunes 3-3 1821 (Bjarni Thorarensen): Vinteren har været en af de bedste og Höeavlen i afvigte Sommer fortræffelig, saa dette Aar kan her kaldes et af de bedste. Fiskeriet har allerede begyndt og dette er usædvanlig tidlig. (s11)

Reykjavík 5-3 1821 (Geir Vídalín biskup): Nú hef ég enga jeremiade [harmagrát] frá Suðurlandi, sumar besta (1820), heyföng góð og mikil, vetur samboðinn því, þegar ég undantek þorrann, sem var rosasamur í frekara lagi. ... Það sem af er góunni hefur verið besta vetrarveður. (s183)

Gufunes 24-8 1821 (Bjarni Thorarensen): Afvigte vinter har her in Landet været en af de mildeste og i Rangarvalle Arnæs Skaptefields og Borgerfiords Syssel have mange svære Höebeholdninger fra de foregaaende Aar. I Aar have vi havt meget tör Sommer og Höeavelen har af denne Aarsag lykkedes fortræffelig i de ellers vaade Egne, men i de törrere har Græsvæxten været under det middelmaadige, ... (s27)

Bjarni segir hér frá mildum vetri - einum þeim mildasta og víða séu heyfyrningar frá fyrra ári. Sumarið (1821) hafi verið mjög þurrt og heyskapur þess vegna gengið vel á votlendi, en grasspretta hafi verið síðri á harðvelli. 

Viðeyjarklaustri 21-9 1821 (Magnús Stephensen): (s33) Besta veðrátta og besta sumar hér syðra og heyjafengur mikill og góður þar eftir krýnir hér um pláts sérlegustu árgæðsku.

Reykjavík 30-11 1821 (Geir Vídalín biskup): Nýmæli eru hér ekki nema norðanstormar og harðindi, og fer þú víst ekki varhluta af þeim. (s188)

Thienemann (sjá pistil hungurdiska um árið 1820) fór frá Akureyri austur til Húsavíkur 9.febrúar í -10 stiga frosti (með hitamæli sinn). Morguninn eftir var frostið -15 stig á Hálsi í Fnjóskadal og fóru þeir svo yfir Skjálfandafljót á ís. Daginn eftir hlánaði og síðari hluti febrúar var mildur, hiti fór aðeins einu sinni niður í -10 stig, var oftast ofan frostmarks. [Ber vel saman við mælingar Péturs á Víðivöllum].

Síðari hluti mars og fyrrihluti apríl (einmánuður) voru hins vegar kaldir og snjóþungir á Húsavík og dagana 17. til 21. mars og 23.mars til 8.apríl snjóaði nánast látlaust og oft var hvasst. Huldust ár og lækir fönn. Þeir félagar sáu hafís tilsýndar á Skjálfandaflóa þann 8.apríl. 

Þann 9. apríl snerist vindur til suðurs og það létti til. Um miðjan apríl var hlýtt og snjó tók fór að taka upp. Í apríllok fóru þeir aftur til Akureyrar og geta þess að þar hafi alloft snjóað framan af maí. Þeir fóru út til Grímseyjar 17.maí og var þar nokkur ís, sem sunnanátt rak til norðurs þann 26.maí. Hiti var við frostmark á nóttum og í þoku.

Þann 1.ágúst voru Thienemann og félagar komnir austur í Breiðdal og fóru út að Berunesi. Berufjörður var fullur af hafís, en norðvestanstormur flæmdi hann síðan að hluta til út af firðinum - þannig að þeir komust á báti yfir fjörðinn milli jakanna. 

Veðurumfjöllun í árbókum Espólín þetta ár er greinilega öll tekin úr lýsingum Klausturpóstsins - orðalag víðast hið sama. 

Enn gengur ritstjóra hungurdiska illa að lesa bækur Jóns á Möðrufelli, en sér þó að hann segir um febrúarmánuð nokkurn veginn á þennan veg: Tíðin þennan mánuð æði óstöðug, má þó yfirhöfuð [teljast] allsæmileg. Mars: Ogso allan að telja rétt góðan, apríl virðist hann telja kaldan og harðan. Maí sömuleiðis mjög kaldan, júlí þurran en oft loftkaldan. Mjög óþurrkasamt var í september - þá var líka sérlega kalt. 

Við lítum líka á tíðavísur Jóns Hjaltalín fyrir árið 1821:

Rosasamur þótti þorri þjóð á láði,
mein ei góa mönnum téði,
martíus var hýr í geði

Grænlands ísnum græðir hingað gjörði aka
vorkuldann það vildi auka,
vöxtinn rýrði grass og lauka

En þó sjaldan ofanfélli ýmis tregi
greiddi sólin gæfu hagi
grasár varð í betra lagi

Hér og syðra hirðing flýtti heys eyglóa
en að norðan ítar segja
allra verstu nýting heyja

Urðu víða útheyin þar undir fönnum,
fremur enn í manna minnum,
mörg þess dæmi önnur finnum

Haustið sendi feikna fannir frost og vinda
sem að enn við eyðursanda
ofan þylja belti landa

Fjölda víða fennti og hrakti fjár afvega,
svoddan harka hausts um daga
hefur mörgum ollað baga

Eins og allir hljóta að muna hófst eldgos í Eyjafjallajökli þann 19.desember 1821.

Lýkur hér umfjöllun um árið 1821 - ásýnd þess er nokkuð spillt af óþurrkum síðsumars nyrðra og eystra - og hafís. 

Í viðhenginu má finna gamla ritgerð ritstjóra hungurdiska (pdf-snið) um mælingar Jóns Þorsteinssonar í Reykjavík og í Nesi 1820 til 1854. Ef til hefur einhver áhuga á að lesa hana þó eitthvað sé þar áreiðanlega sagt á annan veg en væri það skrifað nú (upplýsingar hafa bæst við). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Misskipting

Undanfarna daga hefur veðurlag um landið vestanvert verið nokkuð óvenjulegt miðað við árstíma, kaldur og nokkuð hvass útsynningur með éljum svo fest hefur snjó á láglendi að næturlagi. Austanlands hefur hins vegar víða verið besta veður og hiti um eða yfir meðallagi. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm dagana er +1,9 stig, -2,3 stigum neðan meðallags sömu daga 1961 til 1990, en -3,9 undir meðallagi síðustu tíu ára. Austur á Dalatanga er meðalhiti hins vegar 4,2 stig og er það +2,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en +0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mest er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár á Fonti á Langanesi, +0,9 stig. Mest er neikvæða vikið hins vegar á stöð Vegagerðarinnar á Bröttubrekku, -4,4 stig. Í byggð er kaldast að tiltölu í Árnesi, hiti -4,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á þessari öld hefur maí einu sinni hafið göngu sína kaldari en nú í Reykjavík, það var 2003 (hlýindaárið mikla). Árið 2015 voru fyrstu fimm dagarnir jafnkaldir og nú. Í fjarlægari fortíð finnum við að dagarnir 5 hafa 18 sinnum verið kaldari í Reykjavík en nú. Kaldastir voru þeir 1982, þá var að meðaltali -3,3 stiga frost þessa daga og 1979 var frostið -3,0 stig. Hlýjastir voru þeir hins vegar 1928, +10,0 stig, +9,5 stig 1935 og +9,4 í fyrra - stutt öfganna á milli. 

Það er nokkuð auðvelt að finna staka daga í maímánuði svipaða þeim sem við höfum nú upplifað - þó þeir séu að vísu ekki mjög margir á mælitímanum. En ef við leitum að mörgum dögum í röð gerast málin flóknari - veðrið er nefnilega aldrei alveg eins - spilastokkur þess er mjög stór og hendurnar í gjöfinni nánast óendanlega fjölbreytilegar. Eitthvað svipað gerðist þó í maí 1992, 1963 og 1944 og 1914 - en ekki þó það sama og ekki á nákvæmlega sömu almanaksdögum. Í nokkrum tilvikum til viðbótar hafa komið snarpir útsynningsdagar sem hafa strax snúist í norðankulda - vonandi gerist slíkt ekki nú.

Þó versta kuldanum ljúki trúlega um landið vestanvert eftir morgundaginn (sunnudag) virðist vera töluverður órói á svæðinu og efni í djúpar lægðir og úrkomu. Ekki er þó rétt að fjalla of mikið um slíkt að svo stöddu - skemmtideildir reiknimiðstöðvanna eru þekktar fyrir ólíkindi sem svo ekkert verður úr. 


Fáeinar hugleiðingar um veðrið þessa dagana

Útsynningur með éljagangi á landinu sunnan- og vestanverðu er ekki algengur á þessum tíma árs. Sá sem gengur yfir þessa dagana er þar að auki í kaldara lagi miðað við það sem gengur og gerist. Snjó festir gjarnan á láglendi um stund þegar él ganga yfir og situr jafnvel á jörð mestalla nóttina og fram eftir morgni. Úrkomumagn hefur þó hingað til ekki verið það mikið að verulega hafi snjóað og snjór þar með setið allan daginn á láglendi.

Það sem veldur þessu er útrás heimskautalofts vestan frá norðurhéruðum Kanada. Undir lok vetrar dregur mjög úr afli vestanvindabeltis háloftanna, það gerist þó missnögglega frá ári til árs og ekki alltaf sama daginn. Kuldi norðurslóða hverfur þó ekki á fáeinum dögum né vikum en leggst oft saman í fáeina nokkuð snarpa kuldapolla sem síðan reika langt fram eftir sumri um heimskautaslóðir. 

Hreyfingar þessara kuldapolla eru býsna tilviljanakenndar og óhjákvæmilegt er að þeir hafi einhver áhrif hér á landi, stundum óbeint en stöku sinnum rekur þá nærri okkur - og geta komið úr öllum áttum. Þeir sem koma úr austri eða suðri hafa hlýnað á leiðum sínum en geta valdið umtalsverðri úrkomu. Sá kuldi sem plagar okkur þessa dagana er hins vegar kominn úr vestri. Vestankuldi er nær alltaf vægari heldur en norðankuldi. Að auki er aðsókn kulda úr norðri algengari á þessum tíma árs heldur en úr vestri.

Þó svalt sé nú vantar mikið upp á að um einhvern metkulda sé að ræða. Til að varpa ljósi á það skulum við líta á fyrstu þrjá daga maímánaðar nú. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +1,7 stig, -2,5 stig neðan meðallags sömu daga áranna 1961-1990, en -3,9 stig neðan meðallags þessara sömu almanaksdaga síðustu tíu ára. Þetta eru nokkuð stórar tölur, en samt vitum við til þess að fyrstu þrír maídagarnir hafi verið kaldari en þetta 20 sinnum á 144 árum. Kaldastir voru þeir 1982, þá var að meðaltali -4,0 stiga frost dagana þrjá. Tveir maímánuðir á þessari öld hafa byrjað kaldari í Reykjavík heldur en maí nú, það var 2003 og 2004, ár sem annars voru sérlega hlý. 

Í Stykkishólmi er meðalhiti fyrstu þrjá daga mánaðarins +1,3 stig. Þar vitum við um meira en 40 kaldari tilvik sömu daga, kaldast 1882, þegar meðalhiti daganna þriggja var -5,6 stig. 

Norðaustanlands hefur tíðin verið mildari en hér á Suðvesturlandi. Á Akureyri er hiti daganna þriggja ofan meðallags sömu daga 1961-1990 - en neðan tíuárameðaltalsins. 

En eins og getið var um í upphafi getur þetta veðurlag samt engan veginn talist alveg venjulegt. Miðja vestankuldapollsins er nú á Grænlandshafi, hann er í senn óvenjuöflugur og óvenjunærgöngull. Væri hann staðsettur norðaustan við land yrði hann okkur verulega illskeyttur.

w-blogg040518a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, vind í fletinum og hita nú um hádegisbil 4.maí. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og bendir örin á línu 5060 metra.Hún liggur yfir Keflavíkurflugvöll. Þar fór klukkustund áður fram mæling á hæð flatarins og staðfesti hún tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar, hæðin mældist 5060 metrar. Þetta er næstlægsta 500 hPa hæð sem mælst hefur yfir flugvellinum í maí. Þann 3.maí 1963 mældist hún 5010 metrar, og jafnlág og nú 15.maí 1956. 

En við sjáum að ekki er langt í lægri tölur, flatarhæð í miðri lægðinni er ekki nema 4950 metrar - tilviljun ræður því að við fengum hana ekki yfir okkur. Þýðir einfaldlega að slíkt atvik bíður okkar einhvers staðar í framtíðinni. Eins og minnst var á á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum benda endurgreiningar til þess að við höfum fengið yfir okkur miðjur ámóta kuldapolla á árum áður og var minnst á tilvik 1934, 1930 og 1897 í því sambandi. Tilviljun ræður. 

Á kortinu að ofan sjáum við að mjög kalt er í miðju kuldapollsins, frostið rúm -40 stig. Mesta frost sem mælst hefur yfir Keflavíkurflugvelli í maímánuði er einmitt -40 stig. Í dag (4.maí) er mældist það -34,0 stig, en -36,2 í fyrradag. Því er nú spáð að kaldast verði í 500 hPa-fletinum yfir Keflavík á morgun, laugardag, -37 stig rúm - en hæðin verði þá meiri en nú. 

Það loft sem yfir okkur er er mjög óstöðugt eftir langa ferð yfir hlýjan sjó. Hiti í 850 hPa-fletinum hefur þessa daga farið lægst niður í -7,8 stig yfir Keflavíkurflugvelli. Loft sem kemur úr norðri er ekki eins blandað og getur neðsti hluti veðrahvolfsins þá verið mun kaldari en það sem ofar er. Lægsti 850 hPa hiti sem við þekkjum í maí yfir Keflavík er -17,7 stig, tíu stigum lægri en nú. Hann mældist í kuldakastinu mikla í maíbyrjun 1982 og við minntumst á að ofan. 

Spár gera nú ráð fyrir því að mesti háloftakuldinn yfirgefi okkur á mánudaginn og við taki venjulegra hitafar. Það er samt ekki þar með sagt að veðrið verði alveg venjulegt því umhleypingar liggja í loftinu og djúpar lægðir (miðað við árstíma) verða á sveimi um Atlantshafið. 


Snjókoman mikla syðst á landinu 2. maí 1948

Ritstjóri hungurdiska var í gær minntur á að nú væru liðin 70 ár frá snjókomunni miklu í Vestmannaeyjum og Mýrdal 1. til 2.maí 1948. Þetta er einhver ákafasta maísnjókoma (að magni til) sem mælst hefur hér á landi. 

island_1948-05-02-09

Kortið sýnir veðrið kl.9 að morgni þess 2.maí. Snörp smálægð er skammt undan Suðurlandi. Mikil fannkoma er syðst á landinu, smáél austanlands í hafáttinni, en heiðskírt norðantil á Vestfjörðum. Víða er frost.

Þá þegar mældist snjódýptin á Stórhöfða 40 cm. En mikið snjóaði eftir það og gerði Sigurður Jónatansson vitavörður og athugunarmaður tvær snjódýptarmælingar til viðbótar þá um daginn og ritaði í veðurskýrslu. Fyrst kl.12, en þá var dýptin komin í 60 cm, og kl.18 mældist hún 70 cm - nærri því eins og algeng skrifborðshæð. Morguninn eftir hafði aðeins sjatnað og dýptin þá mældist 65 cm. 

Veðurathuganir frá Stórhöfða 1. og 2. maí 1948 eru í viðhengi þessa pistils. Þar kemur fram að snjókoman byrjaði fyrir kl.9 þann 1. og stóð samfellt þar til eftir kl.21 þann 2. 

Þetta mun vera næstmesta snjódýpt sem nokkru sinni mældist á Stórhöfða. Mest varð hún 90 cm í mars 1968. Nokkrum sinnum hefur snjóað mikið á Stórhöfða í maí, snjódýpt var þar t.d.33 cm þann 1.maí 1981 og 20 cm þann 7.maí 1980. 

Snjókomunnar gætti á suðurlandsundirlendinu en annars var hún langmest á svæðinu frá Sólheimasandi austur á Síðu, auk Vestmannaeyja. Dýptin var ekki mæld á athugunarstöðvunum á Loftsölum og Vík í Mýrdal. En úrkoman í Vík mældist samtals 33,4 mm að morgni 2. og 3.maí. 

Dagblaðið Tíminn birti mánudaginn 3.maí tvær fréttir af snjókomunni:

Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal. Hér um slóðir gerði geysilega fannkomu. í fyrrinótt og framan af degi i gær, svo menn muna ekki annan eins snjó í mörg ár. Vindur var af norðri og norðaustri, en ekki hvassara en svo, að rétt dró í skafla. Er nú yfirleitt snjór í klyftir og jafnvel í mitti. Nær fannfergi þetta frá Jökulsá á Sólheimasandi austur á Síðu. Klukkan sex í morgun var tveggja stiga frost, en slaknaði móti sól. Samgöngulaust er í byggðarlaginu eins og gefur að skilja í slíku fannkyngi, og getur varla kallast fært milli húsa. Allir bændur voru búnir að sleppa sauðfé sínu, og er ekki enn vitað, hversu því hefir reitt af, en þó ekki búist við, að það hafi fennt, jafn lygnt og var.

Og undir fyrirsögninni: „Meiri snjór í Eyjum en sést hefir í áratugi“ segir:

Þau undur hafa gerst, að bifreiðaumferð í Vestmannaeyjum nær stöðvaðist vegna snjóa í gær og flugvélin getur ekki hafið sig á loft af flugvellinum þar vegna fannar. Venjulega sést varla snjór í Vestmannaeyjum á vetrum, og var einnig svo síðastliðinn vetur. En í fyrrinótt og fyrrihluta dags í gær kyngdi þar niður svo miklum snjó að þar er nú hnédjúp fönn yfir allt á jafnsléttu. Hefir ekki komið þar svo mikill snjór í 10-20 ár. Ekki er viðlit fyrir flugvélina að komast á loft af flugvellinum vegna snjósins (svo), og ekki er hægt að hreinsa völlinn með ýtum, þar eð um malarvöll er að ræða, enda engin tæki til slíks í Eyjum, meðal annars vegna þess, að alls ekki hefir verið búist við slíku fannfergi á vellinum.

Þó snjódýpt hafi oft mælst meiri en 70 cm á landinu í maí hefur það magn oftast verið fyrningar úr fyrri mánuðum - alla vega að hluta til. Metið er 204 cm sem mældust á Gjögri 1.maí 1990. Líklegt er hins vegar að snjókoman í Vestmannaeyjum og Mýrdal í maíbyrjun 1948 sé ein sú allra mesta á landinu í þeim mánuði. 

„Ástæða“ þessarar miklu snjókomu var kuldapollur sem kom úr vestri. Samspil rakrar austlægrar áttar í neðstu lögum veðrahvolfs og kaldrar vestanáttar efra olli því að lóðrétt jafnvægi lofts raskaðist, raka loftið lyftist og þéttist og féll síðan til jarðar sem snjór. 

Þess má geta að fjórum árum síðar, 1952, festi snjó á Stórhöfða 2.júní. Snjódýpt varð þó ekki meiri en 2 cm. Af þessu má sjá að snjókoma er langt í frá óþekkt syðst á landinu í maí og kemur einnig fyrir í júní. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nokkur orð um veðurlagsflokkun Hovmøllers

Danski veðurfræðingurinn Ernest Aabo Hovmöller (1912-2008) er nú langþekktastur fyrir sérstaka gerð veðurrita sem kennd eru við hann (Hovmöller, 1949). Hann lauk magistersprófi í veðurfræði við Hafnarháskóla 1937 og starfaði síðan á dönsku veðurstofunni fram til ársins 1946. Þá flutti hann til Svíþjóðar, tók þar fil.lic. próf í fræðigrein sinni og gerðist deildarstjóri veðurfarsdeildar sænsku veðurstofunnar árið 1955.

Hovmöller starfaði síðan lengst af í Svíþjóð en dvaldi tvisvar við störf hér á landi. Í fyrra skiptið í þrjá og hálfan mánuð á árinu 1957 en síðar í þrjá mánuði vorið kalda 1979, en hann hafði farið á eftirlaun árið áður.

Í fyrri dvölinni var hann ráðgefandi fulltrúi Sameinuðu þjóðanna og leiðbeindi um starfsemi í veðurfarsdeild Veðurstofunnar (Veðráttan, ársyfirlit 1957). Einkum fjallaði hann um aðferðir til reikninga á meðaltölum veðurs. Árið 1960 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út skýrslu hans um veðurfarsupplýsingar á Íslandi (Hovmöller, 1960). Nú, meir en hálfri öld síðar er það enn grundvallarrit um veðurathuganir og meðaltalsreikninga.

Árið 1979 dvaldi Hovmöller hér öðru sinni og vann við að koma hugmynd sinni um veðurlagsflokkun fyrir Ísland í framkvæmd. Tókst það svo vel að aðferðir hans voru um nokkurra ára skeið notaðar á Veðurstofunni við gerð 3 til 5 daga veðurspáa. Hugmyndina hafði hann að einhverju leyti reynt áður í Svíþjóð upp úr 1960. Þórir Sigurðsson veðurfræðingur sá um tölvuúrvinnslu íslenskra gagna og forritun, en ritstjóri hungurdiska var Hovmöller til aðstoðar. Minnist hann lærdómsríkrar samvinnu með hlýhug og þakklæti. 

Veðurlagsflokkun

Það er alkunna að í suðlægum áttum er gjarnan þurrviðrasamt um norðaustanvert landið en oftast er þurrt suðvestanlands þegar vindur blæs af norðri. Býsna fróðlegt er að bera saman veður við svipuð skilyrði, t.d. athuga úrkomudreifingu á landinu annars vegar í hlýjum suðlægum áttum og hins vegar í dæmigerðum útsynningi. Hovmöller bjó til flokkunarkerfi sem nota má í þessu skyni.

Við veðurlagsflokkun Hovmöllers var eingöngu litið á veðurlag í 500 hPa-þrýstifletinum í námunda við landið en þessi þrýstiflötur er oftast í rúmlega 5 km hæð yfir landinu. Reiknaðar voru mælitölur fyrir styrk vestan- og sunnanátta í fletinum fyrir hvern einasta dag í tuttugu ár, 1958 til 1977. Að því loknu voru mánuðirnir skildir að.

Í janúarmánuðum þessara 20 ára eru alls 620 dagar. Þessum dögum var þvínæst skipt í þrennt: Hluta sem inniheldur þá 207 daga sem sterkasta vestanátt reyndust hafa í 500 hPa-fletinum, þá 207 daga sem vestanáttin var veikust og loks afganginn. Vestanáttinni í háloftunum var þannig skipt á þrjá flokka sem einfaldlega voru kallaðir 1, 2 og 3. Hæsta talan á við sterkustu vestanáttina, en talan 1 þá veikustu. Sams konar skipting var einnig gerð fyrir sunnanáttina.

Auk þess sem vindar eru mismiklir og hafa mismunandi stefnu í 500 hPa er mislangt upp í flötinn. Hæðinni var nú einnig skipt í þrjá flokka þannig að í fyrsta flokkinn koma þeir 207 dagar sem hafa hæstan 500 hPa-flöt o.s.frv. Þessir flokkar eru nefndir 4, 5 og 6 til aðgreiningar frá sunnan- og vestanþáttunum. Talan 4 stendur fyrir hæsta 500 hPa-þriðjungsflokkinn en 6 fyrir þann lægsta.

Á þennan hátt fást í janúarmánuði 27 flokkar og skipast allir dagar í flokk. Hver flokkur fær 3 stafa einkennistölu. Sem dæmi má nefna að í flokki 114 er vestanáttin veik (1), sunnanáttin líka (1) og 500 hPa-flöturinn stendur tiltölulega hátt (4). Í flokki 215 er vestanátt í meðallagi, sunnanátt veik og 500 hPa-hæðin er nærri meðallagi.

Sama aðferð var síðan notuð til að finna flokkamörk annarra mánaða ársins. 

Hér ber að athuga að í flestum mánuðum er meðalvindátt í 500 hPa-fletinum af vestsuðvestri yfir Íslandi. Svo vill til að í allmörgum mánuðum eru skil milli sunnan- og norðanátta einmitt ekki fjarri mörkum flokkanna 1 og 2. Talan einn í sunnanáttarsætinu þýðir því oftast að vindátt þann daginn hefur verið norðlæg í 500 hPa-fletinum. Allmargir dagar með raunverulega vestanátt eru hins vegar í flokki 1 í vestanáttarsætinu þótt vindátt sé af austri í meginhlutanum.

Hér er rétt að ítreka að samtals eru í öllum flokkum sem byrja á 1 (þ.e. 1xx) þriðjungur daga þess tímabils sem með er í athuguninni.

Reikningur Hovmöllerþáttanna

Lítum nú á eitt háloftakort af svæði í kringum Ísland.

w-blogg-030518-hov-a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar [litir sýna þykkt - og eru flokkuninni óviðkomandi]. Hæð flatarins er lesin af kortunum í punktum sem hér eru merktir p1 til p9, við fimmta hvern breiddarbaug og tíunda hvern lengdarbaug í kringum Ísland. Hæðareiningin er dekametrar (dam = 10 metrar). Í punktinum p5, [65°N, 20°V] er 500 hPa-flöturinn hér í 511 dekametra hæð.

Á kortinu má sjá að sunnan- og suðvestanátt ríkir yfir landinu. Vindur blæs samsíða jafnhæðarlínunum og er því meiri eftir því sem línurnar eru þéttari. Hovmöller býr til mælitölur sem sýna vindátt, styrk og stefnu. 

Mál fyrir styrk vestanáttarinnar fæst með því að leggja saman hæðirnar í p7, p8 og p9 og draga samanlagða hæð í p1, p2 og p3 síðan frá. Vestanátt verður jákvæð. Styrkur sunnanáttarinnar fæst þá á sama hátt:

(p3 + p6 + p9) – (p1 + p4 + p7)

Sunnanátt er jákvæð. Mælieiningarnar köllum við H-einingar, eftir Hovmöller. Þennan dag (2.maí 2018, kl.12 - greining evrópureiknimiðstöðvarinnar) var styrkur vestanáttarinnar, skammstafaður „A“ = 30 H, en styrkur sunnanáttarinnar, „B“ = 22 H og hæðin yfir miðju Íslandi (p5) var 511 dam. Mánuður er maí. Sé flett upp í töflu þar sem flokkamörk þáttanna í einstökum mánuðum eru listuð má sjá að þessar tölur gefa flokkinn 336 (sterk vestanátt, sterk sunnanátt og lágur 500 hPa-flötur).

Vinna Hovmöllers

Árið 1978 til 1979 var mikil vinna lögð í að lesa hæðir 500 hPa-flatarins í Hovmöllerpunktunum út úr útgefnum veðurkortum. Til þess var notað kortasafnið Täglicher Wetterbericht á árunum 1958 til 1977. Því næst voru flokkamörk reiknuð og dögum skipað í flokka. Meðalveður flokkanna 27 á 23 veðurstöðvum um land allt var reiknað og niðurstöður færðar á átta mismunandi kort fyrir hvern veðurflokk hvers mánaðar. Í upphafi voru sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst óflokkaðir en því verki lokið um 2 árum síðar.

Hovmöller skrifaði ítarlega veðurlýsingu fyrir flokkana og skýrði einkenni þeirra. Allur texti hans frá 1979 fylgir hér í viðhengi(pdf-snið). Er hann hin fróðlegasta lesning. Strax kom í ljós að veður flokkanna greindist vel að í raunveruleikanum.

Notkun flokkunarinnar við veðurspár

Þegar Hovmöller kom hingað til lands 1979 komu hér í hús amerískar 5 daga sjávarmálsþrýstings- og 500 hPa hæðarspár, fimm daga handteiknuð sjávarmálsveðurspá kom frá bresku veðurstofunni og þaðan kom einnig 24-stunda 500 hPa og þykktarspá reiknuð í líkani. Allar þessar spár bárust á (óskýrum) faxkortum. Auk þess komu hingað svokallaðir „punktar“, listi 500 hPa hæðar- og sjávarmálsþrýstigilda sem þurfti að handrita á veðurkort og draga. Spár þessar náðu 24 og 48 stundir fram í tímann. Allar spárnar bárust tvisvar á dag. Breska sjávarmálsspáin þó fjórum sinnum á dag sólarhring fram í tímann ásamt greiningu.

Fljótlega var ráðist í að reyna hovmöllerkerfið á þessar spár. Fyrst þurfti að athuga hvort spárnar væru nothæfar og að því loknu varð að finna spánum heppilegt form til notkunar.

Veikleikar spáaðferðarinnar voru einkum tveir.

i) Möguleikar á veðri eru mun fleiri en 27 í hverjum mánuði og reyndist dreifing bæði úrkomu og hita í hverjum flokki vera mikil. Þótt tölvuspárnar hittu á réttan hovmöllerflokk er veðrið oft ódæmigert fyrir flokkinn. Hins vegar stefna meðaltöl nokkurra daga sama flokks fljótt í eindregna átt. En suð reyndist mjög mikið.

ii) Tölvuspárnar eru rangar.

Prófun á spánum varð því að vera tvíþætt. Annar vegar var athugað hvernig hita og úrkomu var spáð í Reykjavík og á Akureyri með því að nota flokka tölvuspárinnar en hins vegar var athugað hvernig tölvuspánum gekk að spá réttum flokki.

Strax kom í ljós að spá um hita með því að nota kortameðaltölin beint reyndist lítið betri heldur en sístöðuspá (persistens). Þá var reynt að spá hitabreytingum næstu 2 til 4 sólarhringa þannig að gengið var út frá meðalhita fyrsta dags („dagsins í dag“) og síðan spáð hlýnandi, kólnandi eða svipuðum hita. Miðað var við að ef hiti átti að vera meir en 2 stigum hærri þegar spáin gilti heldur en „nú“ var spáð hlýnandi, kólnandi var spáð á sama hátt.

Þetta gekk allvel fyrir Reykjavík, spárnar fyrir dagana þrjá reyndust „réttar“ í um það bil 2 tilvikum af 3 meðan sístöðuspá var rétt í um 40% tilvika miðað við tveggja sólarhringa spá. Þetta gekk líka vel fyrir Akureyri, en þar var sístöðuspá rétt í um 30% tilvika. Álíka gekk með 3 og 4 sólarhringa.

Frekari prófanir verða ekki raktar hér en hovmölleraðferðin hefur trúlega gert 3 til 4 daga veðurspár mögulegar á árunum upp úr 1980. Haustið 1982 varð bylting í veðurspám í hér á landi og víðar þegar spár evrópureiknimiðstöðvarinnar urðu aðgengilegar og bæði breska og síðan bandaríska veðurstofan bættu líkön sín umtalsvert.

Hér var um hríð fylgst með flokkahittni bandarísku spánna og spáa reiknimiðstöðvarinnar. Fljótlega kom í ljós að sú síðarnefnda hafði um eins dags forskot á gæði 4 og 5 daga spáa umfram hina. Sömuleiðis kom í ljós að hittni reiknimiðstöðvarinnar tók árlegum framförum og gæðin fóru fljótlega fram úr tölfræðilegum spám á við hovmölleraðferðina sem þar með varð fljótt úrelt [sem 3 til 5 daga spá] og hvarf alveg úr notkun eftir miðjan níunda áratuginn. Um það leyti var einnig farið að reyna að spá hita út frá þykktarspám og gaf sú aðferð almennt betri árangur heldur en spár sem notuðu hovmöllerkortin beint.

Önnur notkun hovmöllergreiningar

Þrátt fyrir að greiningaraðferð Hovmöllers hafi fljótt orðið úrelt [miðað við upphaflega ætlaða notkun] er hún mjög gagnleg sem mælikvarði á breytileika veðurs og veðurfars, jafnvel til lengri tíma. Þetta á frekar við um mæliþættina þrjá heldur en flokkunina. Um 1990 var farið að „endurgreina“ veður aftur í tímann með tölvureikningum. Fram að því hafði öll greining á eldra veðri byggst á notkun handteiknaðra korta eða þá mjög frumstæðum tölvugreiningum.

Verkefni voru sett í gang beggja vegna Atlantshafs, fyrst svokallað necp-verkefni sem endurgreindi veður áranna frá 1958 (alþjóðajarðeðlisfræðiárið). Niðurstöður voru formlega birtar árið 1996 í grein í fréttariti ameríska veðurfræðifélagsins (Kalnay og félagar). Reiknimiðstöð evrópuveðurstofa tók einnig til við endurgreiningar, sú fyrsta tók til 15 ára (ERA15), en síðan var farið aftur til 1958 og veður áranna fram til 2002 greint á nákvæmari hátt en í ncep-verkefninu undir verkefnisheitinu ERA40.

Gögn úr ncep-greiningunni bárust hingað til lands 1998 í tengslum við fjölþjóðleg rannsóknarverkefni sem evrópusambandið styrkti. Þá var hovmöllerflokkunin endurtekin og lauslega borin saman við fyrri flokkun. Í heild breyttust flokkamörk lítið og erfitt reyndist að tengja veðurfarsbreytingar áranna 40 beint við flokkana, ef til vill eru þeir of margir.

Hins vegar kom hið breytilega veðurfar mjög vel fram í hovmöllermælitölunum sjálfum og gat breytileiki þeirra „skýrt“ út stóran þátt veðursveiflna þessa tímabils. Eftirliti með hovmöllertölunum og þáttarúmi þeirra hefur verið haldið áfram síðan og hefur ritstjóri hungurdiska flutt nokkur erindi um það eftirlit á þingum Veðurfræðifélagsins á undanförnum árum.

Tilraunir hafa verið gerðar með að nota afbrigði af aðferð Hovmöllers við túlkun tveggja til þriggja vikna veðurspáa og lofa þær góðu. 

Nokkur grein er gerð fyrir vinnu á þessu sviði í greinargerðinni Regional Climate and Simple Circulation Parameters sem út fyrst 1993 og í annarri prentun 1997. Síðari prentunin er aðgengileg á vef Veðurstofunnar:

http://www.vedur.is/media/vedurstofan/utgafa/greinargerdir/1997/RegionalClimate.pdf

Þar er meðal annars gerð grein fyrir samskonar þáttagreiningu fyrir 1000 hPa-flötinn og 500/1000 hPa-þykktarflötinn yfir Íslandi, auk greiningu ársþátta yfir Grænlandi, Suður-Noregi, Svalbarða og Finnlandi.

Þekktasta grein Hovmöllers:

Hovmöller, E. (1949), The Trough-and-Ridge diagram. Tellus, 1: 62–66. doi: 10.1111/j.2153-3490.1949.tb01260.x


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Aprílvik við Atlantshaf

Við lítum til gamans á hitavik í nýliðnum apríl í 850 hPa-fletinum - eins og evrópureiknimiðstöðin sýnir. Miðað er við tímabilið 1981 til 2010. 

w-blogg020518a

Mjög hlýtt var á meginlandi Evrópu og hlý tunga vestur um Grænland norðanvert snertir Ísland. Vikamynstri yfir Íslandi ber ekki illa saman við þau vik sem komu fram á veðurstöðvunum, að tiltölu var einna svalast suðaustanlands, en hlýjast um landið vestanvert.

Kuldi vestur við Hudsonflóa teygði sig austur á Atlantshaf. Nokkuð þrálátt mynstur á síðari árum. Köldu vikin á kortinu eru mun meiri en sjávarhitavik á sama svæði - sjórinn hitar kalda loftið úr vestri baki brotnu. 

Hér á landi var austanátt talsvert meiri en venjulega á þessum árstíma - en sunnanátt nær meðallagi. Þökkum Bolla fyrir kortagerðina. 


Af árinu 1806

Að mestu horfið í gleymskunnar dá, en lítum samt á helstu atburði. Látum Pétur Guðmundsson í Grímsey lýsa árinu stuttlega - úr annál 19. aldar.

Vetur frá nýári var harður og frostasamur til góuloka, vorið bærilegt, þó vinda- og kuldasamt. Sumarið hagstætt, grasvöxtur góður og nýting góð syðra, lakari nyrðra og eystra. Haustið hreta- og stormasamt fram undir jólaföstu, úr því hörkur og hríðar til ársloka.

ar_1806_svp_hiti

Við þekkjum engar mælingar frá þessu ári nema þær sem Sveinn Pálsson gerði í Kotmúla í Fljótshlíð. Myndin hér að ofan sýnir hitamælingar hans, nokkuð þéttar fram á sumar en síðan gisnari. Ráðast af fjarveru hans sem alltaf var meiri sumar og haust heldur en vetur og vor. Annállinn segir vetur hafa verið harðan og frostasaman til góuloka. Mælingar Sveins sýna ótvírætt að þá hlýnaði mjög - alla vega sunnanlands. Frost var hart hjá Sveini um hálfs mánaðar skeið rétt áður en hlýnaði - en þar á undan var hitafar breytilegra. 

Nokkuð kuldakast má sjá rétt fyrir miðjan apríl og annað meira - alla vega langvinnara síðar í mánuðinum og framan af maí. Erfiðara er að ráða í afgang ársins - þó má greina að ekki er neitt sérlega kalt um mánaðamótin október-nóvember og síðan sést að kalt hefur verið í lok ársins.

ar_1806_svp_ps

Smávegis má líka ráða af þrýstingnum. Loftvog Sveins var að vísu ekki vel kvörðuð - en sýndi þó breytingar frá degi til dags býsna vel. Nokkuð hár þrýstingur fylgdi kuldakastinu á góunni - og lækkaði ekki mikið aftur eftir það. Við getum alveg ímyndað okkur að mikil fyrirstöðuhæð hafi skyndilega myndast á þessum tíma - fyrst valdið norðlægum áttum og kulda, en síðan suðlægum eða austlægum vindum. Síðsumarþrýstingurinn er frekar lágur - en mjög breytilegur um haustið og alveg út árið. 

Brandstaðaannáll er nokkuð ítarlegur eins og vant er og smávegis kemur einnig fram um tíðina hjá Espólín og í knöppum bréfum Geirs Vídalín. Gytha Thorlacíus sýslumannsfrúin danska minnist einnig stundum á tíðina í minningum sínum. Hún hefur ætíð mikinn áhuga á grænmetisræktinni. Tíðavísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín hjálpa einnig til við að ráða í veðurlag ársins. 

Heildarsvipur sumarsins er að tíð hafi verið misskipt. Norðaustanlands hafi verið óhagstæð úrkomutíð þegar á sumarið leið, en mun hagstæðari veðrátta hafi ríkt syðra á þeim tíma. 

Brandstaðaannáll (bókstafurinn s með tölu á eftir vísar í blaðsíðutöl):

Eftir nýár fannlög mikil 2. jan. og 7.-8., svo fé komst lítið frá húsdyrum. Þó síðar rifi nokkuð og grynnti á hæðum, var óvíða jörð að mun. 22. jan gerði mikið austanveður og þar sem á móti því horfði og mest hvessti að gagni, við jarðsæld, gengu hross lengst úti til þorraloka, en annars voru öll hross inn komin á fulla gjöf fyrir miðþorra. Var þangað til oftar stillt veður og meðalfrost, en eftir það vestanblotar og hríðar. Varð gaddur allmikill. Þetta jókst til þess 5. mars, að jörð kom (s51) upp, en eftir það landnyrðingur með kafaldi og sterkum frostum 10 daga. Hross voru á gjöf 6-10 vikur án jarðar.

Með jafndægrum linaði með sólbráð og stilltu veðri, en hláka kom á pálmasunnudag, 30. mars, svo alleysti vötn og ár. Héldust þá góðviðri og gróður kominn með maí. Þann 6. gerði fönn, er lá þar til 16. að góðan bata gerði og gróðurgnægð á fráfærum. Í júlí þurrkatíð mikil og spratt þá lítið. Með 13. viku tekið til sláttar; gekk seint, því lengi rigndi ekki og vatn þraut allvíða. Með 16. viku skipti um til votviðra og fylgdi því hret. Með 19. viku landnorðan stormar. Náðust þá víða síðslegnar töður og mjög svo hraktar, en ei þurftu úthey að hrekjast lengi, þar laglega var að farið.

Eftir það góð heyskapartíð fram yfir göngur; síðan góð hausttíð með þíðum og stilltu veðri til veturnátta; þá snjór, er vaxandi fór og meðaltíð að veðri og jarðlagi til 27.-29. nóv. að lagði á mikla fönn; eftir það staðviðri. 16.-18. des. hlóð niður lognfönn, svo fjárjörð tók af. Voru hörkur miklar um jólin. Þá náðu hross niðri til sveitanna þennan snjóskorputíma. Út á Ásum og Þinginu reif, svo jörð var þar, þá út gaf. Ársæld fór nú vaxandi; málnyta allgóð .. (s52)

Espólín:

VI. Kap. Veturinn eftir var allharður og gekk peningur víða illa undan, gjörði þá og mikil harðindi austanlands; fiskafli var og lítill í veiðistöðum, því hann kom seint, en fyrir norðan varð hann allgóður um sumarið, og hákarls fengur allmikill í Fljótum og Siglufirði. (s 4). VIII. Kap. Þá var gott sumar fyrir sunnan, en kalt og votsamt nyrðra, og nýttust illa hey, hafði aldrei allskostar gott ár verið síðan um aldamót. (s 6).    

Geir Vídalín á Lambastöðum 2. páskadag [7.apríl]:

... til jafndægra var vetur með harðara slag, skakviðri stöðug og oft jarðleysur, svo hrossapeningur er hér víða að falli kominn og jafnvel nokkrir hestar fallnir á Kjalarnesi ...

Og 23. ágúst hélt Geir áfram:

Um vetrarfarið skrifaði eg þér með póstskipinu [vitnar í fyrra bréf], var það hart og í harðara lagi allt frá sólstöðum til jafndægra, vorið íhlaupa- og stormasamt, en gott á millum. Þetta gjörði að útigangspeningur gekk víða magur undan ... Grasvöxtur hér um pláss í betra meðallagi og nýting sú besta það sem af er, því þurrkar og vætur hafa fylgst að á víxl. Nú hefur um hríð verið votsamt, svo fólk á mikið hey úti. (s60) Í Þingeyjar- og Múlasýslum skal vera grasbrestur stór, er það kannski að kenna hafísnum, sem lá þar lengi við í vor ...

Vorið (17. apríl) eftir skrifar Geir (úr Reykjavík) um afgang ársins 1806:

Sumarið var hið ágætasta og heybjörg bæði góð og mikil á öllu Suðurlandi, þar hjá stórar fyrningar frá fyrra ári. Veturinn kom snemma á og var harður allt fram um nýjár, svo peningur var víðast á gjöf, þó voru hér alltaf hagar nokkrir. ... Í norður parti Strandasýslu, Þingeyjar- og Múlasýslum var mesta vætusumar, svo í Krossvík voru ekki alhirt tún um Mikjálsmessu. ... En Múlasýslumenn hafa flestir oftraust á guði, þegar þeir eru búnir að koma fé upp. Vetur var þar harður, allt fram yfir jól ...

Frú Gytha á Reyðarfirði segir: „Vinteren [1806] var Meget streng, og Havisen kom tidlig“. Og nokkru síðar: „Den følgende Sommer [1806] var mild, og Haven ved Gythaborg gav en rigelig Afgrode“. (s41)

Jón á Möðrufelli er torlesinn (ritstjóra hungurdiska að segja) en þó má greina að janúar telur hann í harðara lagi vegna snjóþyngsla, febrúar óstöðugan með blotum, fyrri part mars bitran og harðan, en síðari hlutann blíðan. Apríl yfir höfuð dágóðan, maí hægan og góðan, en júní var að sögn hans andkaldur. Október allsæmilegur og sömuleiðis fyrri hluti nóvember, en síðari hlutinn harður með allmiklum snjó þar um pláss. Desember segir hann í harðara lagi vegna ákaflegra snjóþyngsla. 

Eins og venjulega var talsvert um drukknanir og allmargir urðu úti að vanda - en dagsetninga er ekki getið í því sambandi - lista má finna í annál 19.aldar.

Tíðavísur þeirra Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla segja sitthvað um tíðina árið 1806.   

Þórarinn segir meðal annars: 

Ár næst liðið örðugt varð,
áttin veðra þung og hörð;
bú við lá að skeði skarð,
skorti féð og hesta jörð.

Þótti tíðin þrauta löng,
(þau eru kvæði forn og ung)
Vetrar hríða veðrin ströng
voru´ og æði frosta þung.

Norður bólum Íslands á
(undir póli köldum þó)
Skorpuna jólaföstu frá
fram á sólir páska dró.

Harka blandin hafrenning
og hríð á dundi kvíða löng
yfir landið allt um kring;
að því fundu margir þröng.

...

Sól apríls þá suðra fald
sinni strjálar geisla fylgd,
fanna skýlu felldi tjald,
fræva sálum hita mild.

Happareistum hag að brá,
hita-gustur víða fló,
ísar leystust allmjög þá,
elfur brustu fram í sjó.

Kættist bæði loft og láð,
lék við blíðan hýra þjóð,
þessi gæða fögur fráð,
og fagnaðar tíð ei lengi stóð.

Vors þá bistist veðurlag,
vært og hvesst´ að lýðnum mjög,
sumars fyrsta sunnudag,
syrtu að vestan hríðar-drög.

Harkan reis, um lög og láð,
lagnaðar-ísum saman hlóð,
hríðin geysi hörð og bráð,
hryggðar vísir okkri þjóð.

Norðanvindar blésu, blár
beljaði´ undir kletta sjór;
vor-harðindin vikur þrjár
vera mundu þrauta stór.

Tilhlökkun jók tíðin hin,
tók að hlýna´ og bætast mein.
Sólar-bruna-sífellt skin
sást, en fína dögg ei nein.

Gróðrar kosta almennt ár,
aumlegasta víða hvar,
næturfrostin næsta sár,
norðan hvasst á daginn var.

Fram að slætti loks svo leið,
lítt þó sprotti væri´ um síð;
þá ei bættist þessi neyð,
því að vott gekk alla tíð.

Hér á túnum heyi laust,
heilan mánuð volkaðist,
lá og fúnað langt á haust,
loks ei skánað heimfluttist

Regnin mikil, þoka, þeyr,
þá og klaka-él að bar:
Í sex vikur, eða meir
úthey hrakið líka var.

Enn nú víðar innt er frá
út á jöðrum sveita þó,
fólk að síðast flytti þá
fúnar töður út í sjó.

Bjargar höllun mest til meins
með gjörvallan skepnu fans;
barst í öllum bréfum eins,
betur fallið sunnanlands.

Anna tíðum öldin fast
undir trauðum fram svo braust;
þegar stríðið þetta brast,
þá kom nauða stirfið haust

Alltaf hretin efldu tjón,
(Auðnu lítil spádóms rún),
þótti vetur þegna sjón
þegar hvítur undir brún.

Dreif þá niður dag og nótt
dimmu með og frosti þrátt,
hríða kliður heyrðist skjótt,
og hörkuveðra norðanátt.

Eftir þessa almennu tíðarlýsingu fjallar Þórarinn um krapastíflu í Skjálfandafljóti seint um veturinn eða snemma vors.  

Hólar, vellir, hálsar, fjöll,
hitt eins millum, driftar full,
storðin svelli storknuð öll
stóð og illum krapa sull.

...
Fljót-Skjálfanda stíflað stóð
í stórum vindi´ um páska tíð,
yfir landið fleygðust flóð;
flutu undir norður hlíð.

Fljóts-yfir-bakka flóðið dreif,
fé þar stökk með húsum af,
skal heystakka sköðuð leif,
skjótt nær sökk því allt á kaf.

...
Inn til saka ei gekk flóð,
eins og líkur drógust að,
við bæinn jaka-stífla stóð,
stemmdi slík að nokkru það.

Tjón umkveðna tún af stakk,
torfa þiðnuð ei né klökk,
storðið freðna´ í stykki sprakk,
straumi gliðnuð undan hrökk,

Jaka-burður jörð upp hjó,
jafnótt hörð í flettum lá,
þar af urðu þegar hróf
þétt sambörðu, stór og smá.

Erindið sem hér fer á eftir er talið lýsa snjóflóði á Grýtubakka - e.t.v. hefur mikill skafl sprungið fram - frekar en að stórt snjóflóð hafi komið langt ofan úr fjalli.

Á Grýtubakka féð allt fór,
fast í dokk er hríðin bar;
skafl fram sprakk með skyndi stór,
skall á flokkinn undir þar.

Tíðarvísur Jóns Hjaltalín eru fáorðari - en efnislega svipaðar þó úr öðrum landshluta séu runnar. Vinsenítusarmessa er 22.janúar - austanveður Brandsstaðaannáls: 

Liðinn harður vetur var,
varla síst hún góa,
norðan barði blíðuspar
bylur þrátt um móa.

Vincentíus dagur dró
drjúgan byl að storðum,
hrakti féð en húna sló
hross úr sínum skorðum.

Einmánuður yfir jörð
ársæl leiddi veður,
bylgjaköstin bætti hörð
blíðu sinni meður.

...

Vorið gaf oft veður góð,
vindur hvass þó stundum,
bannaði rás um báru flóð,
bikuðum sigluhundum

Arðarlítill víða var
vertíðanna róður,
varð mjög fáum víða þar
veittur afli góður.

Jörð velgróin gaf oss hér,
góðan heyja forðann,
lakari nýting innt þó er
austanlands og norðan.

Hlýtt var sumar, haustið æst,
hreyfði bylja-rokum
fold var víða fönnum læst
fram að ársins lokum

Látum hér staðar numið að sinni - fáeinar stakar tölur má finna í viðhenginu. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar).  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2018
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 30
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 1116
  • Frá upphafi: 2352075

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1013
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband