Reikað um á sjávarhitahillunni

Við lítum á sjávarhitavikakort dagsins frá evrópureiknimiðstöðinni (29.maí). Ekki kemur fram á kortinu við hvaða tímabil vikin eru miðuð - en líklega síðustu 20 árin eða svo - það skiptir ekki öllu máli hér.

w-blogg300518a

Litirnir sýna vikin - nema á hafíssvæðum - þar sýna blágrænir tónar hafísþéttleika. Rauða línan á þeim slóðum sýnir meðalútbreiðslu hafíss á þessum tíma árs. Neikvæð vik eru blá og græn, þau mestu suðaustur af Nýfundnalandi og þaðan í stefnu til norðausturs. Jákvæð vik eru sýnd gul, brún og rauð, langmest í Eystrasalti og þar um kring, en einnig eru allmikil jákvæð vik langt suður í hafi og fyrir norðan Ísland.

Neikvæðu vikin suðvestur í hafi eru heldur stærri en þau voru seint í vetur - yfirborð sjávar virðist hafa hlýnað heldur hægar með vori en venjulega á þessum slóðum. Margs konar ástæður geta verið fyrir vikadreifingu sem þessari og varla nokkur leið í fljótu bragði að vita hver þeirra er sú rétta - e.t.v. sambland - eða þá eitthvað sem alls ekki er nefnt. 

Nefnum nokkrar ástæður.

1) Straumar úr norðri eru öflugri eða kaldari en venjulega - það er að segja - kuldinn er aðkominn. Lögun vikanna rétt fyrir austan Nýfundnaland gæti gefið til kynna að þar hefi eitthvað slíkt átt sér stað. (Með góðum vilja má þar sjá bókstafinn d). Vetrarís var með meira móti við Vestur-Grænland í vetur og þetta er einmitt leið ísleifa og bráðar úr honum. Þetta er til þess að gera ferskur sjór og sekkur ógjarnan þó kaldur sé. Hér við land fáum við stundum heimsóknir af þessu tagi úr Austur-Grænlandsstraumnum. Sumir segja að ástæða þess að ísinn hafi verið með meira móti á þessum slóðum sé sú að mikil sumarbráð úr Grænlandsjökli undanfarin ár hafi safnast saman og yfirborðslög á þessum slóðum því orðið ferskari en áður um nokkra hríð - auðveldara er fyrir ís að myndast í slíku lagi en í fullsöltum sjó og auki blandast það síður. 

2) Þrálát norðvestanátt í vetur og vor hefur kælt yfirborð sjávar sunnan Grænlands og veldur vikunum. Í fljótu bragði kann að virðast einkennilegt að vikin séu þá ekki stærst vestast - en það er í raun eðlilegt. Þegar kemur út fyrir strandstrauminn við Labrador (sem er tiltölulega ferskur) verður fyrir hafsvæði þar sem sjór er heldur saltari og getur sokkið kólni yfirborðið niður fyrir 2 til 3 stig - það er einmitt hinn „eðlilegi“ sjávarhiti á þeim slóðum. Það er því þykkt lag sem kólnar og veltur - jafnvel 1000 metra þykkt. Um þetta var fjallað nokkuð ítarlega í gömlum pistli hungurdiska og árstíðasveifla veltunnar kynnt. Austar er yfirborðssjórinn hins vegar ekki nægilega kaldur til að geta misst flot. Þar kólnar venjulega aðeins þunnt lag. Venjulega segjum við því að séu hvassviðri þrálát getur kuldinn borist neðar. 

3) Svo skýjað hefur verið á svæðinu í vor að sólarvarmi hefur ekki náð að hita yfirborð sjávarins eins mikið og venjulega. Þetta er auðvitað möguleg skýring - en ritstjóra hungurdiska finnst hún ekki sérlega líkleg - vegna þess hversu vestanáttin kalda hefur verið þrálát. Þar með verða ský frekar að bólstrum heldur en breiðum og sól nær til yfirborðs á milli bólstranna. Seinkun vorhitunar vegna skýja gæti hins vegar frekar átt sér stað í sunnanátt - en líka í vestanátt seinna í sumar. 

Ástæða neikvæðu vikanna er því að þessu sinni líklega einhver blanda af 1) og 2) hér að ofan. Ritstjórinn er þeirrar skoðunar (en það er bara skoðun) að 2) sé mun veigameiri að slepptum lykkjunum við Nýfundnaland. Hann er líka þeirrar skoðunar að venjuleg vorsólarhitun hafi átt sér stað - en vindblöndun hafi falið hana. Sólarylurinn á vorin hitar mjög þunnt lag - rétt eins og sést vel í stóru jákvæðu vikunum við Danmörku. Hvöss vestanáttin hefur hins vegar séð til þess að koma sólarvarmanum niður - við eigum hann á lager til næsta vetrar - rétt eins og venjulega. 

Vestanátt var mjög þrálát á svæðinu sunnan Grænlands í vetur. Hún er mjög köld, loftið hefur kólnað yfir heimskautasvæðum Kanada. Mikil orka hefur farið í að hita það upp - við höfum auðvitað notið þess. Ef sjávarins nyti ekki við væri vetrarútsynningurinn miklu kaldari hér heldur en hann er. En varmi berst frá sjávaryfirborði í kalt loft á tvennan hátt (reyndar fleiri - en látum það vera). Í fyrsta lagi með snertingu lofts og yfirborðs, en líka við uppgufun sjávar. Uppgufun er mjög orkuríkt ferli sem kælir yfirborðið - vatnsgufan sem myndast inniheldur mikinn dulvarma. Sá dulvarmi skilar sér síðan í loftið þegar rakinn þéttist sem úrkoma. Úrkomugusurnar sem gengið hafa hér yfir hafa - í þéttingarhæð - skilað miklu af varma sjávar til loftsins (en langt fyrir ofan okkur). Þetta hlýja loft hefur síðan borist til austurs og norðurs í háloftunum - og ekki er ótrúlegt að hlýindin í Skandinavíu séu að hluta til því að þakka. Niðurstreymið austan úrkomunnar leysir upp ský og auðveldar sólinni að skína þar - og hún sér um að hita yfirborð jarðar og þar með neðri loftlög mun meira en venjulega. 

Kaldur og fyrirferðarmikill loftstraumur úr vestri breytir þar að auki legu háloftastrauma, vindátt verður suðlægari en ella austast í Atlantshafi (jafnvel líka hjá okkur) - og þar með berst meira af hlýju lofti til Vestur-Evrópu en annars. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli á hvaða tíma árs hlýnun af völdum dulvarmalosunar á sér stað á þessum slóðum. Að vor- og sumarlagi veldur heiðríkja háloftahlýinda því að inngeislun sólar nýtur sín og háloftahlýindin stuðla óbeint að hlýindum við yfirborð - að vetrarlagi kólnar meira í heiðríkjunni heldur en í skýjuðu. Afleiðingarnar eru því gjörólíkar. 

Á kortinu er einnig mjög hlýtt svæði langt suðvestur í hafi (bókstafurinn c). Þarna hefur sólin greinilega fengið að vinna sína vinnu við hitun yfirborðs í friði. Við höfum hins vegar ekki græna glóru um það hversu þykkt þetta hlýja lag er. Kannski er frekar kalt undir því. Svipað á við um svæði neikvæðra vika vestur af Spáni - það nær reyndar til suðurs með Afríku vestanverðri og þaðan vestur í haf. Við vitum ekki hvort kuldinn er afleiðing af því að sjór sé raunverulega kaldari á þessum slóðum en venjulega (jú - yfirborðið er það enginn neitar því) - eða hvort hitastigull með dýpi er eitthvað öðruvísi en venjulega - blöndun sé meiri en venjulegt er. Sé svo er varminn í raun og veru allur á sínum stað - en hefur dreifst betur (lóðrétt) en oftast er. Vegna þess að hlýr sjór er léttari en kaldur (miðað við sömu seltu) gæti þessi yfirborðskuldi horfið á svipstundu - dragi úr vindi.

En niðurstaðan á að vera sú að margs konar staða getur leynst að baki sama sjávarhitavikakortsins. Slíkt kort getur eitt og sér verið nokkuð misvísandi - og túlkun margræð. 


Bloggfærslur 30. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 66
  • Sl. sólarhring: 403
  • Sl. viku: 1891
  • Frá upphafi: 2350627

Annað

  • Innlit í dag: 63
  • Innlit sl. viku: 1691
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband