Af árinu 1806

Að mestu horfið í gleymskunnar dá, en lítum samt á helstu atburði. Látum Pétur Guðmundsson í Grímsey lýsa árinu stuttlega - úr annál 19. aldar.

Vetur frá nýári var harður og frostasamur til góuloka, vorið bærilegt, þó vinda- og kuldasamt. Sumarið hagstætt, grasvöxtur góður og nýting góð syðra, lakari nyrðra og eystra. Haustið hreta- og stormasamt fram undir jólaföstu, úr því hörkur og hríðar til ársloka.

ar_1806_svp_hiti

Við þekkjum engar mælingar frá þessu ári nema þær sem Sveinn Pálsson gerði í Kotmúla í Fljótshlíð. Myndin hér að ofan sýnir hitamælingar hans, nokkuð þéttar fram á sumar en síðan gisnari. Ráðast af fjarveru hans sem alltaf var meiri sumar og haust heldur en vetur og vor. Annállinn segir vetur hafa verið harðan og frostasaman til góuloka. Mælingar Sveins sýna ótvírætt að þá hlýnaði mjög - alla vega sunnanlands. Frost var hart hjá Sveini um hálfs mánaðar skeið rétt áður en hlýnaði - en þar á undan var hitafar breytilegra. 

Nokkuð kuldakast má sjá rétt fyrir miðjan apríl og annað meira - alla vega langvinnara síðar í mánuðinum og framan af maí. Erfiðara er að ráða í afgang ársins - þó má greina að ekki er neitt sérlega kalt um mánaðamótin október-nóvember og síðan sést að kalt hefur verið í lok ársins.

ar_1806_svp_ps

Smávegis má líka ráða af þrýstingnum. Loftvog Sveins var að vísu ekki vel kvörðuð - en sýndi þó breytingar frá degi til dags býsna vel. Nokkuð hár þrýstingur fylgdi kuldakastinu á góunni - og lækkaði ekki mikið aftur eftir það. Við getum alveg ímyndað okkur að mikil fyrirstöðuhæð hafi skyndilega myndast á þessum tíma - fyrst valdið norðlægum áttum og kulda, en síðan suðlægum eða austlægum vindum. Síðsumarþrýstingurinn er frekar lágur - en mjög breytilegur um haustið og alveg út árið. 

Brandstaðaannáll er nokkuð ítarlegur eins og vant er og smávegis kemur einnig fram um tíðina hjá Espólín og í knöppum bréfum Geirs Vídalín. Gytha Thorlacíus sýslumannsfrúin danska minnist einnig stundum á tíðina í minningum sínum. Hún hefur ætíð mikinn áhuga á grænmetisræktinni. Tíðavísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín hjálpa einnig til við að ráða í veðurlag ársins. 

Heildarsvipur sumarsins er að tíð hafi verið misskipt. Norðaustanlands hafi verið óhagstæð úrkomutíð þegar á sumarið leið, en mun hagstæðari veðrátta hafi ríkt syðra á þeim tíma. 

Brandstaðaannáll (bókstafurinn s með tölu á eftir vísar í blaðsíðutöl):

Eftir nýár fannlög mikil 2. jan. og 7.-8., svo fé komst lítið frá húsdyrum. Þó síðar rifi nokkuð og grynnti á hæðum, var óvíða jörð að mun. 22. jan gerði mikið austanveður og þar sem á móti því horfði og mest hvessti að gagni, við jarðsæld, gengu hross lengst úti til þorraloka, en annars voru öll hross inn komin á fulla gjöf fyrir miðþorra. Var þangað til oftar stillt veður og meðalfrost, en eftir það vestanblotar og hríðar. Varð gaddur allmikill. Þetta jókst til þess 5. mars, að jörð kom (s51) upp, en eftir það landnyrðingur með kafaldi og sterkum frostum 10 daga. Hross voru á gjöf 6-10 vikur án jarðar.

Með jafndægrum linaði með sólbráð og stilltu veðri, en hláka kom á pálmasunnudag, 30. mars, svo alleysti vötn og ár. Héldust þá góðviðri og gróður kominn með maí. Þann 6. gerði fönn, er lá þar til 16. að góðan bata gerði og gróðurgnægð á fráfærum. Í júlí þurrkatíð mikil og spratt þá lítið. Með 13. viku tekið til sláttar; gekk seint, því lengi rigndi ekki og vatn þraut allvíða. Með 16. viku skipti um til votviðra og fylgdi því hret. Með 19. viku landnorðan stormar. Náðust þá víða síðslegnar töður og mjög svo hraktar, en ei þurftu úthey að hrekjast lengi, þar laglega var að farið.

Eftir það góð heyskapartíð fram yfir göngur; síðan góð hausttíð með þíðum og stilltu veðri til veturnátta; þá snjór, er vaxandi fór og meðaltíð að veðri og jarðlagi til 27.-29. nóv. að lagði á mikla fönn; eftir það staðviðri. 16.-18. des. hlóð niður lognfönn, svo fjárjörð tók af. Voru hörkur miklar um jólin. Þá náðu hross niðri til sveitanna þennan snjóskorputíma. Út á Ásum og Þinginu reif, svo jörð var þar, þá út gaf. Ársæld fór nú vaxandi; málnyta allgóð .. (s52)

Espólín:

VI. Kap. Veturinn eftir var allharður og gekk peningur víða illa undan, gjörði þá og mikil harðindi austanlands; fiskafli var og lítill í veiðistöðum, því hann kom seint, en fyrir norðan varð hann allgóður um sumarið, og hákarls fengur allmikill í Fljótum og Siglufirði. (s 4). VIII. Kap. Þá var gott sumar fyrir sunnan, en kalt og votsamt nyrðra, og nýttust illa hey, hafði aldrei allskostar gott ár verið síðan um aldamót. (s 6).    

Geir Vídalín á Lambastöðum 2. páskadag [7.apríl]:

... til jafndægra var vetur með harðara slag, skakviðri stöðug og oft jarðleysur, svo hrossapeningur er hér víða að falli kominn og jafnvel nokkrir hestar fallnir á Kjalarnesi ...

Og 23. ágúst hélt Geir áfram:

Um vetrarfarið skrifaði eg þér með póstskipinu [vitnar í fyrra bréf], var það hart og í harðara lagi allt frá sólstöðum til jafndægra, vorið íhlaupa- og stormasamt, en gott á millum. Þetta gjörði að útigangspeningur gekk víða magur undan ... Grasvöxtur hér um pláss í betra meðallagi og nýting sú besta það sem af er, því þurrkar og vætur hafa fylgst að á víxl. Nú hefur um hríð verið votsamt, svo fólk á mikið hey úti. (s60) Í Þingeyjar- og Múlasýslum skal vera grasbrestur stór, er það kannski að kenna hafísnum, sem lá þar lengi við í vor ...

Vorið (17. apríl) eftir skrifar Geir (úr Reykjavík) um afgang ársins 1806:

Sumarið var hið ágætasta og heybjörg bæði góð og mikil á öllu Suðurlandi, þar hjá stórar fyrningar frá fyrra ári. Veturinn kom snemma á og var harður allt fram um nýjár, svo peningur var víðast á gjöf, þó voru hér alltaf hagar nokkrir. ... Í norður parti Strandasýslu, Þingeyjar- og Múlasýslum var mesta vætusumar, svo í Krossvík voru ekki alhirt tún um Mikjálsmessu. ... En Múlasýslumenn hafa flestir oftraust á guði, þegar þeir eru búnir að koma fé upp. Vetur var þar harður, allt fram yfir jól ...

Frú Gytha á Reyðarfirði segir: „Vinteren [1806] var Meget streng, og Havisen kom tidlig“. Og nokkru síðar: „Den følgende Sommer [1806] var mild, og Haven ved Gythaborg gav en rigelig Afgrode“. (s41)

Jón á Möðrufelli er torlesinn (ritstjóra hungurdiska að segja) en þó má greina að janúar telur hann í harðara lagi vegna snjóþyngsla, febrúar óstöðugan með blotum, fyrri part mars bitran og harðan, en síðari hlutann blíðan. Apríl yfir höfuð dágóðan, maí hægan og góðan, en júní var að sögn hans andkaldur. Október allsæmilegur og sömuleiðis fyrri hluti nóvember, en síðari hlutinn harður með allmiklum snjó þar um pláss. Desember segir hann í harðara lagi vegna ákaflegra snjóþyngsla. 

Eins og venjulega var talsvert um drukknanir og allmargir urðu úti að vanda - en dagsetninga er ekki getið í því sambandi - lista má finna í annál 19.aldar.

Tíðavísur þeirra Jóns Hjaltalín og Þórarins í Múla segja sitthvað um tíðina árið 1806.   

Þórarinn segir meðal annars: 

Ár næst liðið örðugt varð,
áttin veðra þung og hörð;
bú við lá að skeði skarð,
skorti féð og hesta jörð.

Þótti tíðin þrauta löng,
(þau eru kvæði forn og ung)
Vetrar hríða veðrin ströng
voru´ og æði frosta þung.

Norður bólum Íslands á
(undir póli köldum þó)
Skorpuna jólaföstu frá
fram á sólir páska dró.

Harka blandin hafrenning
og hríð á dundi kvíða löng
yfir landið allt um kring;
að því fundu margir þröng.

...

Sól apríls þá suðra fald
sinni strjálar geisla fylgd,
fanna skýlu felldi tjald,
fræva sálum hita mild.

Happareistum hag að brá,
hita-gustur víða fló,
ísar leystust allmjög þá,
elfur brustu fram í sjó.

Kættist bæði loft og láð,
lék við blíðan hýra þjóð,
þessi gæða fögur fráð,
og fagnaðar tíð ei lengi stóð.

Vors þá bistist veðurlag,
vært og hvesst´ að lýðnum mjög,
sumars fyrsta sunnudag,
syrtu að vestan hríðar-drög.

Harkan reis, um lög og láð,
lagnaðar-ísum saman hlóð,
hríðin geysi hörð og bráð,
hryggðar vísir okkri þjóð.

Norðanvindar blésu, blár
beljaði´ undir kletta sjór;
vor-harðindin vikur þrjár
vera mundu þrauta stór.

Tilhlökkun jók tíðin hin,
tók að hlýna´ og bætast mein.
Sólar-bruna-sífellt skin
sást, en fína dögg ei nein.

Gróðrar kosta almennt ár,
aumlegasta víða hvar,
næturfrostin næsta sár,
norðan hvasst á daginn var.

Fram að slætti loks svo leið,
lítt þó sprotti væri´ um síð;
þá ei bættist þessi neyð,
því að vott gekk alla tíð.

Hér á túnum heyi laust,
heilan mánuð volkaðist,
lá og fúnað langt á haust,
loks ei skánað heimfluttist

Regnin mikil, þoka, þeyr,
þá og klaka-él að bar:
Í sex vikur, eða meir
úthey hrakið líka var.

Enn nú víðar innt er frá
út á jöðrum sveita þó,
fólk að síðast flytti þá
fúnar töður út í sjó.

Bjargar höllun mest til meins
með gjörvallan skepnu fans;
barst í öllum bréfum eins,
betur fallið sunnanlands.

Anna tíðum öldin fast
undir trauðum fram svo braust;
þegar stríðið þetta brast,
þá kom nauða stirfið haust

Alltaf hretin efldu tjón,
(Auðnu lítil spádóms rún),
þótti vetur þegna sjón
þegar hvítur undir brún.

Dreif þá niður dag og nótt
dimmu með og frosti þrátt,
hríða kliður heyrðist skjótt,
og hörkuveðra norðanátt.

Eftir þessa almennu tíðarlýsingu fjallar Þórarinn um krapastíflu í Skjálfandafljóti seint um veturinn eða snemma vors.  

Hólar, vellir, hálsar, fjöll,
hitt eins millum, driftar full,
storðin svelli storknuð öll
stóð og illum krapa sull.

...
Fljót-Skjálfanda stíflað stóð
í stórum vindi´ um páska tíð,
yfir landið fleygðust flóð;
flutu undir norður hlíð.

Fljóts-yfir-bakka flóðið dreif,
fé þar stökk með húsum af,
skal heystakka sköðuð leif,
skjótt nær sökk því allt á kaf.

...
Inn til saka ei gekk flóð,
eins og líkur drógust að,
við bæinn jaka-stífla stóð,
stemmdi slík að nokkru það.

Tjón umkveðna tún af stakk,
torfa þiðnuð ei né klökk,
storðið freðna´ í stykki sprakk,
straumi gliðnuð undan hrökk,

Jaka-burður jörð upp hjó,
jafnótt hörð í flettum lá,
þar af urðu þegar hróf
þétt sambörðu, stór og smá.

Erindið sem hér fer á eftir er talið lýsa snjóflóði á Grýtubakka - e.t.v. hefur mikill skafl sprungið fram - frekar en að stórt snjóflóð hafi komið langt ofan úr fjalli.

Á Grýtubakka féð allt fór,
fast í dokk er hríðin bar;
skafl fram sprakk með skyndi stór,
skall á flokkinn undir þar.

Tíðarvísur Jóns Hjaltalín eru fáorðari - en efnislega svipaðar þó úr öðrum landshluta séu runnar. Vinsenítusarmessa er 22.janúar - austanveður Brandsstaðaannáls: 

Liðinn harður vetur var,
varla síst hún góa,
norðan barði blíðuspar
bylur þrátt um móa.

Vincentíus dagur dró
drjúgan byl að storðum,
hrakti féð en húna sló
hross úr sínum skorðum.

Einmánuður yfir jörð
ársæl leiddi veður,
bylgjaköstin bætti hörð
blíðu sinni meður.

...

Vorið gaf oft veður góð,
vindur hvass þó stundum,
bannaði rás um báru flóð,
bikuðum sigluhundum

Arðarlítill víða var
vertíðanna róður,
varð mjög fáum víða þar
veittur afli góður.

Jörð velgróin gaf oss hér,
góðan heyja forðann,
lakari nýting innt þó er
austanlands og norðan.

Hlýtt var sumar, haustið æst,
hreyfði bylja-rokum
fold var víða fönnum læst
fram að ársins lokum

Látum hér staðar numið að sinni - fáeinar stakar tölur má finna í viðhenginu. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir tölvusetningu árbóka Espólíns (ritstjóri hnikaði stafsetningu til nútímaháttar).  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af árinu 1883

Eftir árin 1881 og 1882 þótti tíðarfar ársins 1883 með miklum ágætum lengst af. Ekki er víst að okkar tímar væru sammála því ef tíðin þá endurtæki sig nú. Enda er hið afstæða mun nær eðli mannshugans heldur en það sem mælitæki reyna að skrá. 

Maí var langkaldasti mánuður ársins að meðaltali (tíundikaldasti maímánuður á landinu) og einnig var fremur kalt í mars og ágúst. Hlýjast að tiltölu var í apríl - og hiti var einnig rétt ofan meðallags í janúar og febrúar. 

Hæsti hiti á árinu mældist 23,8 stig á Akureyri þann 27.júlí, en lægstur mældist hitinn á Hrísum í Eyjafirði þann 3.janúar -19,8 stig. 

Sextán mjög kaldir dagar fundust í Reykjavík, 5 í mars, 7 í maí, 3 í júlí og einn í ágúst - en enginn hlýr dagur. Það eru 27.mars og 26.maí sem teljast kaldastir að tiltölu. Ellefu mjög kaldir dagar koma fram í Stykkishólmi, kaldastir voru 27.mars og 12.júlí (að tiltölu). 

Árið er óvenjulegt að því leyti að það á tvö mánaðarþrýstimet, háþrýstimet marsmánaðar [6.] og einnig lágþrýstimet nóvember [18.]. Bæði þessi met voru sett í Vestmannaeyjum. Um lágþrýstimetið er fjallað í fornum hungurdiskapistli (15.nóvember 2010) og smávegis maðk í mysu. Annar gamall pistill minnist lítillega á þetta háþrýstimet marsmánaðar (13. mars 2012).

Gríðarmiklar sveiflur voru í veðurlagi í febrúar og mars. Sérlega snarpan útsynning með mjög lágum þrýstingi gerði í góubyrjun, um 20. febrúar, síðan skipti um og fór þrýstingur upp fyrir 1050 hPa snemma í mars - og réðu fremur hægar austlægar og norðlægar vindáttir ríkjum um tíma. Síðan gerði aftur mikla suðvestan- og vestanátt - en með háþrýstingi. Þann 28. kom loks snarpt háloftalægðardrag úr vestri yfir Grænland og daginn eftir gerði mikið og skyndilegt norðanveður sem stóð í nokkra daga. Þá fór þrýstingur niður fyrir 955 hPa á Teigarhorni. Meðalmánaðarþrýstingur var óvenjulágur í febrúar, sá áttundilægsti frá upphafi mælinga, en aftur á móti sá sjöundihæsti í mars. 

Við skulum láta Ísafold (2.janúar 1884) um hið almenna yfirlit:

Að tíðarfari hefir árið 1883 verið að öllu samtöldu fagurt skin eftir skúr: hin frábæru harðindi árið á undan. Allan síðara hlut vetrar sérlega hagstæð veðurátt um Suðurland og meiri hluta hinna landsfjórðunganna. Vorið kalt að vísu, með frosti og hríðum nyrðra í maímánuði; en frá því laust fyrir fardaga var ágæt tíð fram í miðjan ágústmánuð. Þá rigningarkafli hálfsmánaðartíma; í kaldara lagi fyrra hlut septembermánaðar og þurrviðrasamt, en síðara helming mánaðarins mestu blíðviðri.

Haustið upp frá því storma- og hryðjusamt lengst af víða um land, en hlýindi í meira lagi. Veturinn fram til ársloka frostalítill mjög, en óstillt veðrátta og snjóasamt upp á síðkastið, um Suðurland að minnsta kosti. — Hafís rak að Norðurlandi vestarlega í marsmánuði, en ekki nema lítinn hroða, og aftur um miðjan júnímánuð um sömu slóðir miklu meiri, en hvarf aftur alfarinn um lok júlímanaðar, hefti að litlum mun skipaferðir, en spillti mjög veðráttu í Strandasýslu og Húnavatnssýslu vestanverðri.

Janúar: Góð tíð. Snjó leysti að mestu á láglendi.

Árið fór vel af stað. Þjóðólfur segir þann 20.janúar:

Tíðin hér syðra hefir verið staklega mild og snjólaus síðan um hátíðir.

Norðanfari 20. febrúar segir einnig góða tíð eystra - en eitthvað daufari eru fréttirnar norðan úr Fljótum - afleiðingar hinnar afleitu tíðar 1882:

Úr bréfi úr Seyðisfirði 24/1 — 1883. Tíðin hefir mátt hér heita mikið góð. Það var harðast um jólin og nýárið, þá varð frost mest 9°R, þá kom líka nokkur snjór, en úr nýárinu fóru að koma hlákur og er nú að mestu snjólaust hér niður í firðinum.

Úr bréfi úr Fljótum 3/2 — 1883. Héðan eru engar fréttir nema snjóþungt og harðýðgislegt eins og vant er. Menn eru í mesta voða með fóðurbirgðir fyrir hinar fáu skepnur sem lifa, þrátt fyrir hina veglyndu hjálp útlendinga með fóðurkorngjöfina. Heyin reynast, þau litlu sem til eru, mjög skemmd, bæði öskubrunnin eða þá drepin.

Norðanfari birti 13. mars tvö bréf að sunnan:

Reykjavík 2. febrúar: Indæll vetur til þorra, þá hægur útsynningur, en þó töluverður snjór lagður á þíða jörð.

Af Suðurlandi 14. febrúar: Alltaf má heita góð veðurátta, reyndar var þorrinn framan af úrkomusamur með snjókrassa af suðri og vestri og stormasamur, jörð ónotaleg til beitar, hefir útigangspeningur heldur hrakast, en frostleysur hafa oftast verið.

Febrúar: Tíð talin góð fram undir þ.20., en síðan var stórgert veðurlag með útsynningsbyljum syðra.

Þó komið sé fram í mars þegar þessi pistill Ísafoldar birtist (21.) látum við hann koma hér:

Tíðarfarið hefur yfir höfuð verið gott, snjó þann er vér gátum um í 3.blaði Ísafoldar, að gjört hefði í Múlasýslum fyrir jólaföstukomuna, tók upp í hlákum þeim, er gjörðu eftir þrettándann, en fremur var þó veðurátt þar rosamikil og umhleypingasöm fram eftir mánuðinum; að eins á ofanverðum Jökuldal var enn jarðlítið í fyrstu viku þorra. Í Strandasýslu var svo mikill snjór kominn fyrir nýárið, að þar var víðast jarðskarpt svo lengi sem til hefur spurst; líkt má segja um þær sveitir í Þingeyjarsýslu sem liggja til fjalla.

Hvervetna annarstaðar hefur tíðarfarið yfir höfuð verið gott og sumstaðar í besta lagi; það var að eins í útsynningunum fyrstu vikuna af góu að víða setti niður allmikinn snjó, en hann leysti þó að mestu leyti fljótt aftur; greindur bóndi hér á Suðurlandi hefur sagt oss að hann muni eigi eftir jafnhagstæðri veðurátt síðan veturinn 1855—56, og til dæmis um tíðarfarið í Húnavatnssýslu, getum vér þess að Björn bóndi Eysteinsson í Forsæludal í Vatnsdal lét lömb sín liggja úti fram undir miðja góu; þóttu þau þá enn í allgóðu standi, og höfðu komið á þau hornahlaup nokkur eftir nýárið, en að hann fór að hýsa þau var vegna dýrbítis; „þetta mundu hafa þótt tíðindi", bætir sá við er oss ritar þetta, „hefði það frést vestan úr Rauðárdal í Ameríku“.

Það sem af er þessum mánuði má heita að hér hafi verið sífelld blíðviður, logn og sólbráð á daginn og væg frost á næturnar; vonandi er að það hafi og náð yfir allt land.

Þann 13. mars birti Norðanfari slæmar fréttir úr bréfum frá Seyðisfirði 13. og 16. febrúar. Ekki er getið dagsetningar - en Ólafur Jónsson segir í „Skriðuföllum og snjóflóðum“ að þetta hafi verið 2. febrúar:

Nú fyrir nokkrum tíma, vildi það slys til á Njarðvíkurstekk, hér fyrir norðan Borgarfjörð, að snjóflóð hljóp þar á bæinn um næturtíma, og fór með hann og allt fólkið 9 manns er i honum var, af hverju eftir 3 dægur fundust 3 lifandi, í þeim enda baðstofunnar, er frá brekkunni vissi, voru það 2 synir bóndans og vinnustúlka, er höfðu heyrt dauðastunur hinna dánu, og að þeim látnum fundið nályktina af þeim. Þeir sem dóu var bóndinn, kona hans, móðir bóndans, barn þeirra, fósturbarn og vinnukona. Vegna illviðra er þá voru, vissu menn ekki af nefndum atburði fyrri enn að uppbirti. Það er sagt, að áður hafi fallið snjóflóð á bæ þenna, það þykir því líklegt, að enginn vogi að byggja þar bæ framar til þess að búa i honum yfir vetrartímann.

Bréf úr Vestur-Skaftafellssýslum dagsett 23. febrúar birtist í Suðra 17. mars:

Fréttir eru héðan fáar nema tíðin hefur verið góð sem af vetrinum er, þó gerði hér um næstliðin mánaðamót mikinn snjó; varð þó að engu tjóni á fénaði, því hann tók fljótt upp aftur, en nú síðan góa byrjaði hefur verið mesti útsynningsofsi meö snjógangi. Nú er hann genginn í landnorður og er svartur bylur, hversu lengi sem hann varir.

Og í sama blaði er stuttur pistill úr Fljótshlíð ritaður 26. febrúar:

Þorrinn var umhleypingasamur mjög og þessa viku, sem af er góu, linnti aldrei grenjandi útsynningsbyljum.

Þann 31. mars er í Suðra bréf frá Akureyri dagsett 4.mars:

Síðan eftir nýjár hefir verið mjög frostalítið, en óstillt veðurátt, einatt skipst á stórrigningar og hríðar. Síðan með góubyrjun hafa verið stormar miklir á sunnan og suðvestan, fylgdu þeim hríðar fyrstu góuvikuna, en nú rétt fyrir miðgóuna gjörði afbragðshláku, svo að nú er orðið blóðrautt hér um sveitir.

Og í sama blaði fréttir úr Húnavatnssýslu 7.mars:

Síðan um þrettánda hefir veðrátta verið in besta yfir höfuð, og oft hlákur og blíðviðri. 29. og 30. janúar var hríðarveður á norðan, og stórhríð á norðan inn 31. og 1. febrúar. Eftir það batnaði og var hláka góð inn 7. og 8. febr. Síðan oftast nær gott veður til ins 20. þá stórhríð á suðvestan, og einnig 21. og 22. Inn 23. þiðnaði aftur; hefir veðrátta síðan og til þessa tíma verið óstöðug og vindasöm og 1. þ.m. ofviðri á sunnan. Í dag og 2 næstliðna daga hefir verið stillt og gott veður.

Í blaðinu eru einnig fréttir annars staðar að: Úr Strandasýslu (4.mars): „Hér eru mestu harðindi og jarðleysur hafa verið í allan vetur, en flestir eru búnir að reka hross og fé suður yfir, bæði í Gilsfjörð og Saurbæ og Skarðsströnd því þar eru allir nokkurn veginn birgir með hey“. - Úr Dýrafirði 21. febrúar: „Um þessar mundir versta umhleypingatíð og með öllu jarðlaust“. - Og úr Reykhólasveit 5. mars: „... með góu gekk veðrið til útsynningskafalda. Þó gerði hláku fyrstu dagana af mars og gjörleysti þá alla útsynningsfönn hér, sem var mikil“. 

Mars: Nokkuð snjóa- og umhleypingasamt. Mjög kalt síðustu vikuna (páskahretið).

ar_1883_rvk-p

Myndin sýnir loftþrýsting að morgni hvers dags ársins í Reykjavík. Athyglisverð er sveiflan mikla frá útsynningskastinu mikla upp úr miðjum febrúar og upp í sérlega háan loftþrýsting snemma í mars. Loftþrýstingur var lágur frá 16.ágúst til 14. september. Nú á dögum hefði enginn friður verið fyrir haustlægðatali við sama veðurlag. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Vestmannaeyjum í nóvember 940,7 hPa og hefur ekki mælst lægri í þeim mánuði. 

Þann 9.mars fórst skip í brimi við Eyrarbakka. Fimm varð bjargað, fimm fórust. 

Fróði segir góða tíð nyrðra framan af marsmánuði:

Akureyri, 16. mars. Það af er þessum mánuði hefir veðrátta verið hin æskilegasta. Staðviðri hafa verið og nokkurt frost á næturnar, jörð því nær auð, svo fénaði hefir orðið beitt.

Tíðin var einnig lofuð syðra. Fróði birtir 4.maí bréf úr Reykjavík dagsett 25.mars (páskadag):

Veðurátta hefir verið í vetur einhver hin besta er menn muna, einkum til landsins. þessi vetur stendur í engu að baki hinum bestu, er ég man hér, 1846-47 og 1855-56. Báðir þeir munu hafa verið hlýrri, með meiri þíðum, mörum og úrkomu heldur en þessi, sem hér syðra hefir hann ekki verið kaldur eða stormasamur, oftast með hreinni austanátt, en hitinn sjaldan mikið yfir frostmark og einnig sjaldan undir.

Á páskum breyttist tíð, og þann 29. urðu eftirminnileg veðrabrigði og lá við stórslysum á sjó. Við lítum fyrst á byrjun á frásögn Þjóðólfs sem gerð er eftir bréfi frá Eyrarbakka 2. apríl. Þá höfðu endanlegar fréttir af afdrifum skipa ekki borist:

Fimmtudaginn 29. [mars]. reri almenningur hér á Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík. Um morguninn var kafaldsfjúk og hægur norðankaldi, en útlit mjög ískyggilegt. Kl. á 11. tíma f.m. fór hann að hvessa, og gjörði þegar á lítilli stundu blindbyl, svo varla sá handa sinna skil. Voru þá því nær allir rónir hér á Eyrarbakka út í annað sinn; þó náðu hér flestir landi kring um kl. 2 e.m. Síðasta skip, er náði hér lendingu þann dag, lenti kl. 4 e.m.; en 2 skip náðu eigi lendingu fyrr en kring um kl. 10 f.m. deginum eftir; voru mennirnir þá mjög þjakaðir og aðframkomnir af kulda og þreytu, en allir með lífi og sumir alveg óskemmdir. Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema 2 skip ... 

Suðri segir frá 14.apríl:

Ofsaveður gerði hér seinustu dagana af marsmánuði, svo menn muna vart annað eins. Eftir veðrið vantaði tvö skip úr Þorlákshöfn, er menn töldu týnd. Skipshöfninni af öðru björguðu þó frakkneskir fiskimenn nálægt Vestmannaeyjum og létu þar í land. En nokkuð af skipinu rak á Loftsstaðasandi fyrir austan Eyrarbakka. Hitt skipið má nú með öllu telja týnt. Formaður þess var Ólafur Jóhannesson bóndi á Dísastöðum, mesti efnismaður, og meðal annarra voru þar á 3 bændur úr Ölvesi. Sem betur fer reyndist flugufregn sú alveg ósönn, er hingað barst um daginn, að marga hafi stórkalið og suma til bana af skipshöfnum þeim af Eyrarbakka, sem urðu að liggja úti í óveðrinu. Nú er sannfrétt að engan hefur kalið til bana. Fáeina kól, en engan til stórskemmda.

Apríl: Aðallega góð tíð þrátt fyrir norðansteyting um miðjan mánuð.

Norðanfari birtir 16.júní bréf frá Patreksfirði ritað 3.apríl:

Um nýárið dyngdi niður mjög miklum snjó, en hann tók upp aftur um þrettándann. Svo var nokkuð umhleypingasöm veðurátta, en alltaf hagar góðir fram að góu; þá kom illviðravika, fyrsta vikan af góunni, og voru þá stöðugar fannkomur og byljir daglega. Þann snjó tók aftur upp í annarri viku góu og voru þá viku mjög miklir stormar og  rigningar á degi hverjum. Frá því í miðgóu og fram á páskadag eða um 3 vikna tíma voru stöðug logn og blíðviðri hin mestu, og ýmist nokkur hiti eða lítill kuldi. En á páskadagskveld fór að kalda af norðri og veður að kólna; á þriðja í páskum [27.] tók og að snjóa og vindur að hvessa, og föstudaginn og laugardaginn var fannkoma mikil; þá daga rak hafíshroða hér inn á fjörð og jaka á land upp. Í gær og í dag [3.apríl] er sunnanátt og snjóinn aftur að leysa, svo hagar eru enn góðir og að kalla auð jörð í byggð. ... ísinn hefir þegar rekið út úr firðinum aftur í sunnanáttinni i gær og í dag.

Í Fróða 2. júní er bréf úr Árnessýslu ritað 19. apríl:

Veturinn er nú liðinn og má vissulega telja hann einhvern hinn besta hér sunnanlands. Góðviðri voru fram til miðsvetrar, þá komu snjóar og umhleypingar til miðgóu en frost aldrei að mun, þá aftur blíðviðri til páska, en síðan nokkuð óstöðugt veður og þó oftast hægt nema dagana 27.-30. [mars]. Þá var norðankafald með frosti, einkum hinn 29. var þá blindhríð með rokstormi, á svæðinu frá Hellisheiði austur yfir Þjórsá. Þó var hlé um morguninn, en það olli því að manntjón varð að veðrinu; varð úti drengur í Flóa. er fór til fjárhúsa, en vinnukona frá öðrum bæ. 

Í Norðanfara 31.maí er bréf ritað úr Fljótum þann 8.apríl:

Hér í Fljótum var allstaðar komin upp nokkur jörð fyrir páskana, jafnvel þó töluverður jökull væri í sveitinni, en í vikunni eftir páskana gjörði hina mestu hríð og fjarska fannfall síðustu 3 dagana, svo slétt varð hér yfir allt að heita mátti; nú er samt aftur komin upp nokkur jörð, en allir eru á glóðum um þær fáu skepnur sem lifa, því nú eru flestir að þrotum komnir með hey og fóðurkornið búið.

Suðri birtir þann 14. fréttir af hafís:

Á þriðjudaginn er var [11.apríl] kom sendimaður beina leið frá Árnesi í Trékyllisvík á Ströndum. Hann sagði að hafíshroða eigi mikinn hefði rekið inn á Húnaflóa í marsmánuði, en í norðanstormunum um páskana [páskar 25. mars]  hefði þó ekkert bæst við; þóttust menn marka á því. að enginn verulegur hafís væri úti fyrir. Sendimaður taldi það öldungis víst, að í sunnan og vestanvindunum, sem gengið hafa nú um stund, hefði hafíshroðinn horfið af Húnaflóa.  

Þann 20. apríl gera Rangæingar upp veturinn í bréfi til Suðra (birtist 19.maí):

Nú er veturinn liðinn, og má telja hann með betri vetrum, indælistíð til þorra, og svo aftur einmunatíð frá því viku af góu til páska, en á páskadaginn rauk hann upp, og gerði rúmrar viku kast, hart og strangt, með 10-12 stiga frosti á Reaumur og snjókomu mikilli; síðan hefur oftast verið landsynningur og hafátt.

Í sama blaði eru fréttir úr Eyjafirði - dagsettar 24. apríl:

Tíð hefir mátt heita allgóð, að vísu kom hret um páskana; rak þá niður fönn svo mikla, að aldrei kom hún meiri á vetrinum. Eftir rúma viku kom besta hláka og tók upp allan snjóinn. Aftur komu hríðir fyrir sumarmálin og á miðvikudaginn næstan fyrir sumar [18.apríl] var  stórhríð með snjókomu, en á sumardaginn fyrsta kom aftur besta veður og hláka. Nú er mesta sumarblíða og snjórinn að mestu horfinn.

Maí: Ótíð nyrðra með snjó og frostum, skárra syðra. Mjög kalt. Slæmt hríðarkast í 2.viku mánaðarins.

Fróði birtir 2. júní bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 7.maí:

Síðan 17. mars hafa aðeins komið tvö áfelli ekki mikil. Annað um og eftir páskana, en hitt um sumarmálin, þá kom mikill snjór á stuttum tíma, en hlánaði aftur fljótlega. Þó týndust þá víða ... kindur í hættur, því lé var óvíst, og jörð öll auð undir. Nú í gær og dag er kuldastormur á norðaustan og hvítt í rót, og frostið 3 gráður að meðaltali. Barómetið fyrir ofan Smukt. 

Ísafold greinir þann 9. maí frá tíð og fleiru:

Tíðarfar hefur hvervetna þar sem frést hefur verið yfir höfuð gott síðasta hlut vetrarins og það sem af er sumrinu; það var aðeins vikuna eftir páskana að norðanátt var að mun með snjókomu; annars hefur oftast verið sunnanátt, en þó einatt með töluverðum rosum. Það er aðeins í Strandasýslu og sumstaðar í Skagafirði að vér höfum heyrt, að menn hafi verið orðnir heytæpir. Ís sá, er gjafakornskipið Neptún sá í mars úti fyrir Hornströndum, ... kom að vísu inn á Húnaflóa, en hann reyndist eigi nema lítill hroði. Kaupskip þau, er komin voru fyrir norðan höfðu eigi séð neinn ís og hvalaveiðaskip enskt, er kom hér fyrir skömmu norðan úr höfum, hafði eigi orðið vart við hann norðan frá 74. stígi norðurbreiddar (hér um bil 120 mílum fyrir norðan land). 

Júní: Blíðviðri lengst af, en kalt í hafíssveitum.

Norðanfari birti 7.júlí bréf úr Norðfirði skrifað 9.júní:

Kalt vor og snjókastasamt. Fyrst kom mikill snjór með páskadeginum, sem hélst í viku. Síðan kom snjór álíka með sumarmálum, en hann hvarf eftir 4 daga, því þá kom einstaklega góð hláka á sumardaginn fyrsta, og þessi góða tíð hélst til 5. maí. Um það leyti var besta útlit fyrir gróður, en þá gjörði kulda mikinn með 5-6° frosti á R á nóttum. Þann 12. var snjóhríð mikil, sem stóð yfir í 5 daga, eður til þess þriðja í hvítasunnu [15.]; birti þá upp og tók veðrið smátt og smátt að batna og að taka upp snjóinn, en samt var eins og norðaustan átt og stundum vestlægir vindar, með kulda og frostum á nóttum, en 1. júní breyttist veðurátta til sunnanáttar, hlýinda og blíðviðra, svo nú er fremur gott útlit með gróður, þar jörð er lítið kalin og frostin oftast lítil í vetur.

Ísafold segir frá tíð þann 30.júní:

Veðrátta mjög hörð í maímánuði víðast um land, með frosti og hríðum nyrðra að öðru hvoru. Brá til batnaðar fyrstu dagana af júnímánuði, og lifnaði þá gróður all-fljótt, einkum nyrðra. Um miðjan mánuðinn rak hafís að Hornströndum og var kominn 24. nær inn í botn á Húnaflóa, og náði austur undir Grímsey hið ytra. Fénaðarhöld góð um allt land; sauðburður jafnvel í besta lagi í sumum sveitum nyrðra. 

Þjóðólfur birti frétt af skipskaða þann 30. júní:

Hraðboði kom að vestan í fyrradag með þá fregn, að „Camoéns" hefði strandað. Skipið var komið inn á Húnaflóa, en komst eigi inn á Hrútafjörð fyrir ís og sneri svo við, en brotnaði í ísnum og varð svo lekt, að skipverjar treystust eigi að halda því á floti, og sigldu því upp 22. þ.m. í Trékyllisvík; komust þar allir mennirnir á land með heilu og höldnu. Óvíst þykir, hvort gjört verði að skipinu. 

Júlí: Tíð talin mjög góð, sól og blíða nema í hafíssveitum.

Nokkrar fréttir bárust af hafís. Þjóðólfur segir þann 14. að hafísinn sé „nú sagður liggja allt suður að Rit, gengið í land í Aðalvík á ísi af hafskipum. Hákarlaskip norðlenskt yfirgefið í ísnum“. 

ar_1883_rvk-t

Myndin sýnir daglegan lágmarkshita í Reykjavík (blátt) og sömuleiðis hæsta hita á athugunartíma (rautt) - enginn hámarksmælir var á stöðinni. Daglegur hámarkshiti hefur væntanlega stundum verið heldur hærri en myndin gefur til kynna. Sjá má að ekki var mikið um mjög slæm kuldaköst frá áramótum og fram í apríl - nema kastið um og uppúr páskum, hiti fór upp fyrir frostmark flesta daga. Hins vegar má sjá slæmt kast snemma í maí (eftir sérlega hlýja dagstund 30.apríl). Köldustu dagana, þann 8. og 9. maí fréttist ekki af því að hiti færi upp fyrir frostmark í höfuðborginni. 

Sæmilega hlýtt var framan af júlí, en síðan gerði slæmt kuldakast, þann 20. júlí fór hiti ekki upp fyrir 10 stig, og lágmarkið var aðeins 3,1 stig. Í lok júlí komu aftur nokkrir góðir dagar. Það er athyglisvert að ekkert sést undan þessu júlíkuldakasti kvartað sunnanlands. Blöðin mest upptekin af Alþingi - en það sat á sumrin á þessum tíma - og aðeins annað hvort ár. 

Ísafold hrósar meira að seggja tíðinni í pistli þann 25.júlí: „Tíðarfar gott um land allt, það til hefir spurst. Grasvöxtur víðast góður sumstaðar afbragðsgóður, t.d. um Eyjafjörð og þar í grennd, einkum á túnum. Þó enn hafís við Hornstrandir“. 

Suðri fjallar um tíð og ís þann 28. júlí:

Tíðarfarið hefur verið gott að því er frést hefur, og grasvöxtur góður, einkum á túnum. Þó hefur kuldi töluverður verið í Húnavatnssýslu. Úr Húnavatnssýslu er oss skrifað þannig 15. þ.m : -Tíðin hefur verið allt annað en góð, ýmist norðanstormur og napur kuldi eða þokubrælur, og einstaka sinnum hefur verið frost á nóttum. Töluverður íshroði er enn á flóanum, þó hamlar hann eigi skipaferðum.

Ágúst: Góð tíð fram í miðjan mánuð, en síðan var úrkomusamt. Mjög kalt nyrðra. Heyskapur gekk vel um sumarið.

Bréf úr Strandasýslu, ritað 12. ágúst birtist í Norðanfara þann 26.september:

Tíðin hefur mátt heita góð í vor og það sem af er sumrinu, samt gjörði hafísinn það að verkum, að grasvöxtur, er hér í sýslu hinn aumasti, því að meðan ísinn lá hér, kom aldrei deigur dropi úr lofti; var því oft logn, fór grasinu lítið fram, einkum á útengi, því að seint þiðnaði klakinn að neðan og seint leysti, því að á fráfærum, voru vanaleg  hjásetupláss, ekki nærri því gróin, svo að not yrðu að á dölum. Tún urðu sumstaðar í meðallagi, víða lakari.

September: Rigningasamt framan af, en síðan hagstæð tíð.

Bréf til blaðanna lofa flest sumartíðina. Hér eru nokkur dæmi:

[Fróði 2. október] „Mestallan ágústmánuð var óþurrkasamt, en snemma í september kom góður þerrir, og náðu þá allir heyjum sínum, og almennt fékkst mikið úthey. Síðan hefir verið hin blíðasta og hagstæðasta haustveðrátta“. [Eftir bréfi úr Eyjafirði 27.september]

[Suðri 13.október] [Eftir bréfi úr Dalssýslu 1.október]: „Sumarið hefur verið eitthvert ið besta, grasvöxtur í betra meðallagi og nýting ákjósanleg“. 

[Eftir bréfi úr Rangárvallasýslu 1.október]: „Sumarið hefur mátt heita með þeim betri og nýting á heyskap góð: þó var fremur óþerrasamt í austurhluta sýslunnar, undir Eyjafjöllum, framan af slættinum og töður skemmdust. Ágústmánuð var besta tíð en með septembermánuði brá til hafáttar og mátti þá heita ofsarigning í hálfan mánuð en eftir það gjörði gott veður og blítt og luku þá allir við að hirða hey sitt, sem þó mun hafa verið orðið nokkuð hrakið sumstaðar“. 

[Eftir bréfi úr Múlasýslum 13. september]: „Tíðarfarið hefur verið hið besta í sumar og heyskapur með besta móti víðast hvar, einkum upp til Héraðs. Með septembermánuði gekk veður til sunnanáttar og gerði rigningar miklar til fjarðanna, en þeirra gætti eigi til Héraðs. Hina síðustu daga hefur verið léttilegra veður“. 

[Úr Þingeyjarsýslu 22. september]: „Sumarið hefur verið hið besta, aðeins gengu rigningar frá miðjum ágúst til 5. þ.m. (september), en svo komu aftur stöðugir þurrkar og vindar, svo að nýting á heyjum varð góð“. 

[Eftir bréfi úr Strandasýslu 25. september] „Hafísinn lá á Húnaflóa langt fram í ágústmánuð og lagði af honum sífelldan kulda og þokusvælu, svo grasvöxtur varð litill og heyskapur eftir því. Í Trékyllisvík voru svo miklar þokur og votviðri. að töður náðust ekki fyrr en um leitir, svo geta má nærri hvernig heyskapurinn er þar.    

Fróði birtir 13.desember bréf úr Árnessýslu dagsett 22.september:

Nú er þá slátturinn á enda, og má kallast hafa verið hinn æskilegasti, grasvöxtur til jafnaðar í betra meðallagi en nýting hin besta; veður jafnan þurrt og blítt nema dagana frá 6. til 14. þ.m. Þá voru stormar af suðri og suðaustri og töluverð rigning; svo batnaði aftur. Þann 12. var einkum mikið stórviður af landsuðri, þá strandaði kaupskip á Eyrarbakka sem Einar kaupmaður Jónsson átti, og annað í Þorlákshöfn, er einnig átti að fara til Eyrarbakka, til Lefolies-verslunar. Menn komust lífs af báðum skipunum, en af Lefolies-skipinu hafði skipstjóri farist á leiðinni hingað; stór brotsjór hafði tekið hann aí þilfarinu. Skipið sem strandaði á Eyrarbakka, brotnaði ekki mjög mikið; sjórinn bar það næstum upp á jafnsléttu; það hvað hafa verið selt í einu lagi á uppboðinu fyrir 5000 kr., má vera menn hafi í huga að gera það haffært aftur; þó er hætt við að örðugt veiti að koma því á flot, eftir því sem þar hagar til. Af sölunni í Þorlákshöfn hefir ekki frést, uppboðið átti að vera í gær, og þykir það nokkuð einkennileg tilhögun; þar sem í gær var aðalréttadagur fyrir meir en hálfa sýsluna.

Október: Umhleypingar og rigningar.

Bréf, dagsett í Borgarfirði síðasta vetrardag lýsir matjurtarækt sumarsins - og líklega einhvers konar misskilningi í kálræktinni:

Vorið var kalt. Mestan hluta maímánaðar gengu norðanáttir með frosti og kaföldum. Jörð þiðnaði því og greri seint. Var það bagalegast vegna maturtaræktarinnar; garðarnir urðu eigi undirbúnir fyrr en eftir vanalegan sáðtíma. Útsáðsbrestur var hinn mesti bæði að kartöflum og fræi, því hvorugt hafði aflast til hlítar innanlands í fyrra. Verslanirnar gátu heldur eigi bætt úr fræskortinum í tíma, og það fræ sem um síðir var að fá hjá verslunarstjóra Unbehagen misheppnaðist, enda var það eigi „sömu tegundar“ sem það er flust hefur að undanförnu hér til lands. Yfirjarðarkálrabí það er óx upp af fræi þessu er hér óþekkt, og áleit almenningur það því að vera „villikál“. Var það víða gefið á vald eyðileggingarinnar þegar er það kom í ljós, með því að lofa skepnum að éta það; aðrir létu uppræta það til þess það skyldi eigi eftirleiðis verða „akrinum til spillingar“. Þar sem það fékk að vaxa náði það þó eigi þeim þroska sem vanalegt kálrabí, heldur var örkvisalegt og undirvöxturinn lítill. Kartöfluvöxturinn varð og í rýrara lagi, enda þar sem vel er fallið til jarðeplaræktar. Má því álíta alla maturtarækt misheppnaða í sumar. Aftur varð grasvöxturinn allgóður, einkum í lágsveitunum, en minni til fjalla og dala. Nýting varð hin æskilegasta, og besta er menn muna, með því veðráttan var hin hagstæðasta um heyannatímann; hefir því heyafli orðið yfir höfuð góður. 

Fróði segir 3.nóvember (dagsett á Akureyri 30.október):

Besta veðurátta hefir verið norðanlands á þessu hausti, þó voru rigningar miklar um miðjan þennan mánuð.

Suðri birtir 1.desember bréf úr Skaftafellssýslu dagsett 7.nóvember:

Sumarið varð hér um bil í meðallagi, til fjalla með betra móti, en hér á sléttlendi naumast í meðallagi, ollu því vatnsfyllingar, en yfir höfuð varð haustið heldur votviðrasamt og síðan áleið hafa úrkomur verið heldur stórfelldar, hrekur slíkt hold af fénaði, einkum hrossum á sléttlendi, en til fjalla ber mikið minna á því. Tvo næstliðna daga hafa verið norðanstormar með frosti, ekki samt grimmu, og þann dag í dag fjúk með litlu frosti úr norðaustri, um hádegisbil gekk fram í austur og létti til frostlaust. Þó ekki sé hér langt milli fjalls og fjöru, getur tíðin verið misjöfn; þannig þykir það góð tíð um slátt, þó rigningar gangi, ef þerrar ganga á milli; aftur er tíðin haganlegust á sléttlendinu, að ávallt séu þerrar, því flóar og ógöngur fyllast í rigningum og næst því ekki gras.

Nóvember: Umhleypingar og rigningar, en fór að verða áfreðasamt nyrðra.

Norðanfari segir 19.desember frá illviðri á Eskifirði - í bréfi úr Breiðdal sem birtist í Fróða 13. desember segir skipin hafa verið þrjú:

Þann 6.nóvember strönduðu 2 skip við Litlu-Breiðuvík í Reyðarfirði það voru dönsk síldveiðaskip, annað frá stórkaupmanni Leth í Kaupmannahöfn, og hitt frá kaupmanni
Thergesen á Færeyjum. Á skipi Leth voru 250 tunnur at síld sem seldust við uppboðið að meðaltali á 7 kr. 75 aura.

Fróði segir frá skiptöpum við Eyjafjörð 2. eða 3. nóvember:

2. og 3. f.m. (nóvember) lögðu nokkur norðmannaskip heimleiðis af Eyjafirði, en þá gerði dimmviðris norðanbyl. Í þessum byl hefir spurst til að 3 norsk skip hafi hleypt á land til skipbrots, en menn komizt af, 1 á Látrum, 2. í Siglufirði og 3. á Skaga. þess hafa og sést merki að skip muni hafa brotnað yst í firðinum, og hafa allir menn af því týnst.

Norðanfari birti 19.desember bréf af Langanesi dagsett 23. nóvember:

Sumarið mátti heita að vera gott hér nyrðra. Allt frá því að snerist til batnaðar í vor, og fram yfir túnaslátt, var besta tíð; í 14 vikunni var 20—23° á Celcius; svo að framan af túnaslætti, hirtu menn töðuna á 3 og 4 degi frá því er hún var slegin. Í miðjum ágúst spilltist tíðin, og héldust óþurrkar fram í september, og hafði þá safnast mikið fyrir af heyi hjá mönnum. en svo fengu menn góða þurrka og hirðing á heyjum; hélst þá góð tíð, þar til snemma í október að aftur spilltist, og hafa öðruhverju síðan, gengið norðaustan og norðan rigningar svo miklar, að allt flýtur hér í vatni. Húsaleki svo mikill, að ekki er eitt hús á öllu Langanesi, að ekki hafi lekið meira og minna, nema steinhúsið á Sauðanesi. En svo er frostlítið, að stinga má jörð hér við sjóinn, nú, mánuð af vetri en öll er þessi rigning snjór upp til fjalla.

Austri lýsir hausttíðinni 22. desember:

Hausttíðin hefur mátt heita góð og eins það sem af vetrinum er þótt veðrátta hafi verið nokkuð umhleypingasöm og óstöðug; úrkomur hafa verið töluverðar með köflum, af austri og suðaustri, og jafnvel óvanalega miklar í Fljótsdalshéraði, einkum vestan Lagarfljóts, oftast rigning i byggð, en snjór á fjöllum, og þótt snjóað hafi í byggð, hefur jafnóðum hlánað aftur. Frost hefur varla komið svo teljandi sé, að eins þrisvar eða fjórum sinnum og varað skamma hríð í senn og verið þýða, þótt vindur hafi staðið af norðvestri. Ætla menn að þetta stafi meðfram af jarðeldi, er sást uppi fyrri hluta októbermánaðar inn í óbyggðum og sem mun vera uppi enn, eftir því sem ráða er af roða þeim, er jafnan sést á lofti, þegar heiðríkt er. Eigi verður sagt með vissu, hvar eldurinn er, en eftir afstöðu að ráða, virðist hann vera nálægt norðurbrún Vatnajökuls. Seint í nóvember setti niður töluverðan bleytusnjó, svo að haglaust varð i hálendum sveitum og inn til dala og rigndi eigi af aftur, nema þar sem láglendast er, yst á Fljótsdalshéraði, á nokkurri mön meðfram Lagarfljóti og í fjörðunum.

Ísafold segir þann 10. frá umhleypingum og illviðri:

Veðurátta rosasöm í meira lagi að undanförnu lengi. Nú brugðið til vetrarveðráttu, fannkomu og frosta, vægra þó. Aflasamt fremur, þá róa gefur, en fiskur smár, mest þyrsklingur. Laugardag 3. nóv. gerði háskaveður um miðjan dag, og náðu mörg skip, er róið höfðu hér um slóðir, eigi réttri lendingu, heldur urðu að hleypa upp á Akranes.

Desember: Umhleypingar, að jafnaði auð jörð syðra, en áfreðasamt nyrðra.

Ísafold lýsir tíð 19. desember:

Tíðarfar þennan mánuð stórviðrasamt mjög; útsynningar tíðir, með fannkomum töluverðum. Í fyrri nótt og í gær voðalegasta stórviðri. Gæftalaust á sjó að jafnaði um langan tíma. Misfiski þá síðast var róið.

Þann 22.desember segir Þjóðólfur um sama veður:

Nóttina milli mánudags og þriðjudags [aðfaranótt 18.desember] gjörði hér útsynningsofsaveður. Keyrði stormurinn hafið svo inn í Faxaflóa, að sjór gekk á land hér hærra en elstu menna muna. Tók sumstaðar út skip og braut og gjörði ýmsar aðrar skemmdir, og er þó ekki hvervetna til frétt enn.   

Einnig varð mikið flóð í þessu veðri vestur á Flateyri. Veðurathugunarmaður þar segir vatnið ná 1 til 3 fet upp á húsveggi og að brimið hafi skolað burt bæði girðingum og húsveggjum. Þetta gerðist kl. hálf tíu að morgni að staðartíma í ofsaveðri af vestri. Um hádegi sama dag gerði þrumuveður með hagléli á Flateyri. 

Vestfirskur slysaannáll segir þetta hafa gerst 20. og 23. nóvember, en ekkert er þá um slíkt í veðurskýrslu frá Flateyri. Hins vegar er í skýrslunni getið um brim bæði 1. nóvember og þann 17. Annállinn getur þess einnig að skip hafi brotnað í Dýrafirði og Súgandafirði. Hvor það gerðist í nóvemberbriminu eða desemberflóðinu er óvíst. Suðurnesjaannáll segir frá miklu brimi þar um slóðir 17.nóvember:

Brim gerði mikið á útsunnan 17. nóvember með fjarska miklu flóði í hálfsmækkuðum straumi, sem svo mikið kvað að, að allan túngarðinn braut fyrir Útskálatúni, Lónshúsa og Lambastað og hefur ekki í annan tíma meri að orðið. Mikið braut og upp á tún suður á nesi. 

Nóvemberveðrið var aðallega af austri og norðaustri - en þar sem loftþrýstingur var sérlega lágur, (Íslandsmet í lágþrýstingi í nóvember þann 18.) skal ekki loku fyrir það skotið að suðvestanátt hafi brugðið fyrir um stund á Reykjanesskaganum og flóð orðið þar. En tjón varð af sjávarflóði í desemberveðrinu og veðurathugunum ber þá saman um mikinn ofsa af vestri um mikinn hluta landsins. Veður þessi þurfa nánari athugunar við.   

Fróði segir þann 21. febrúar 1884 í fréttum frá Reykjavík:

Um jólin voru hér í bænum útsynningshryðjur og bleytur, en þegar leið að nýárinu gerði besta veður, milt og hægt. 

Í sama blaði er pistill úr Árnessýslu (1. janúar):

Héðan er ekki að frétta nema gæðatíðina fram á jólaföstu, en síðan hafa oftast verið útsynningar og um jólin allmikil ofsaveður og allt til þessa dags, þó ekki hafi orðið tjón að. 

Í bréfi af Suðurlandi sem birtist í Fróða 10.mars 1884 og virðist skrifað um vetrarsólstöður 1883 segir m.a.:

Oft hefir sést óvenjulegur roði á lofti kvöld og morgna, halda menn því að eldur sé uppi í óbyggðum, helst Vatnajökli. 

Hér gæti vel verið um að ræða öskuskýið mikla frá gosinu í Krakatá í Indónesíu síðsumars en það olli miklum roða á himni um nær allan heim og líka hér á landi. Aðalsprengingin varð 26. til 27.ágúst. 

Eldgos hófst snemma árs í Vatnajökli. Suðri segir frá því 19.maí að þess hafi fyrst orðið vart úr Jökuldal 15. janúar, en á skírdag, 22.mars færðist það mjög í aukana. Einnig er í sama blaði bréf frá Sandfelli í Öræfum. Þar kemur fram að vottur af vexti hafi verið í Skeiðará 13.mars. Hlaupið hafi síðan vaxið jafnt og þétt og þann 21. var vöxturinn í ánni það mikill að „héðan frá Sandfelli sást eigi nema 2 sand- eða apalgrjótseyrar upp úr vatninu fast út í Lómagnúp. Morguninn 22. kom ég út kl. 3. f. m. Þá sá ég sótsvartan reykjarmökk koma upp beint í hánorðri og eldingar allavega útífrá; síðan (kl.7 f. m.) lagði mökkinn til útnorðurs í stefnu á Ódáðahraun, en kl. 9 f. m. aftur fram á Öræfi og þá féll aska svo sporrækt var á auðri jörð. Svo varð lítið öskufall eftir það, og nú virðist eldurinn með öllu dauður og áin engin“. - Síðar fréttist af eldsumbrotum í fyrri hluta októbermánaðar (Austri 22. desember) - kannski blandast Krakatáskýið inn í þær fréttir. 

Í umfjöllun um eldgosið sem birtist í Fróða 2. júní má einnig lesa eftirfarandi fróðleiksmola í bréfi úr Múlasýslu. Höfum í huga að þetta er fyrir framhlaupið mikla í Brúarjökli 1890. Trúlega er verið að lýsa freðmýrum frekar en jökulís:

Það fór annars verr enn skyldi að Þ[orvaldur] Thoroddsen gat eigi kannað Múlasýsluöræfin inn við Vatnajökul (og þá Kverkfjöllin um leið), því að þau eru bæði rangt dregin, einkum að ám og dölum, og svo er þau auk annars, sitt hvoru megin Jökulsár á Brú, einkennileg jarðmyndun eftir Vatnajökul; þar hefir orðið ákaflega mikið jökulnám til forna, en upp úr þeim aur og leðju, er eftir hefir orðið, hafa vaxið bestu töðugresis-hagar (afrétt fyrir 1000 fjár eða vel það; er að líkindum allstaðar jökull undir, því að víða glyttir í jökul á pollabotnum, og svo hafa allar tjarnir þar jökullit, en það er eigi á öðrum afréttum hér eystra.

Ekki er hægt að sleppa nákvæmri veðurlýsingu Austra sem birtist í blaðinu á hlaupársdaginn 1884 sem eftirmæli ársins 1883:

Lýst er veðri á Seyðisfirði

1. janúar var norðanveður með frosti, 2. og 3. sama en alveg jarðlaust. 4. var snjódrífa og sneri sér svo til suðausturs með sunnanrigningu sem varaði þann 5. 6. var kominn suðvestan þíðvindur með 4 gr. hita á R. og eins þann 7. Upp frá því var stöðug sunnanátt og gerði alautt í byggð,en oft voru stórviðri, einkum 23. og 24., þá daga var óttalegt sunnanveður, svo víða urðu skaðar á húsum og ýmsu. Stóðu „Baromet" mjög lágt, mjög mikil flóð, en þó stillt tíð þar til 28., gerði þá grófan snjó, sem varði út mánuðinn.

1. febrúar var mesta snjóhlað, en á kyndilmessu var veðrið gengið til norðanáttar með hægu frosti, 3. austan en stillt, 4. suðaustan, 5. landsunnan með 6 gr. hita og mesta hroða-veðri. 6. stillt með 3 gr. hita en suðvestan-átt. Hlánaði þá vel þessa daga, síðan sífeldir sunnanrosar allt til þess 20., þá kom froststirðningur og í 2 daga var vestanvindur hægur. 23. setti niður snjó, 24. hvass norðan stormur, 25. stillt með 5. gr. frosti og fór að drífa, 26. suðvestanvindur, 27. vestan, 28. stillt, en suðvestan-sleginn.

1. mars suðvestan-þýða með 9 gr. hita, 2.-3.hvass vindur suðvestan með 8 gr. hita, 4. og 5. norðvestan rok með 1 gr. frosti. Eftir það var stillt tíð með næturfrostum (5 til 6 gr) þar til þann 17.; þá gekk tíðin til norðaustanáttar með snjókomu til 21. gekk þá til vestan og norðvestanáttar, en þó stillt. 25. sem var páskadagur, gekk veðráttan til norðanáttar með snjóhríð, 10 til 12 gr. frost, sem varaði til 29., þá gerði óttalegt austanveður með miklum sjógangi á land.

1. apríl var gott veður og skafheiðríkt og gekk til sunnanáttar. 2. og 3. hroða sunnanveður með rigningu, 4. var suðvestan-vindur og stillt af og til til þess 9., 10. norðaustlægur, 11. og 12. vestan blíða með 9 gr. hita. 13. og 14. norðaustan með snjóélum, 15. gerði kafaldssnjó mikinn, 16. norðanfjúk, 17. gott veður, 18. snjóbleytuveður, 19. og 20. sunnanhláka, 21.-24. stillt, 25. þoka sem varði til

1. maí, þá þurrviðri og sá sól, eins 2. og 3. einstök veðurblíða (8 gr. hiti), 4. eins, 10 gr. hiti, 5. norðaustanvindur, og upp úr því gekk til norðanvinda með kulda og 5—6 gr.

frost á nóttum, sem varði fram undir hvítasunnu. 12. og 13. var snjóveður, 14. og 15. líkt veður með snjóhörkum, 16. var bjartviðri en norðvestanvindur, 17. og 18. hlánaði nokkuð því þá var 4—12 gr. hiti; um það leyti fréttist til hafíss. 20. var snjóbleyta og rigning sem varaði í 3 daga með vestlægum vindi. 23. var snjóbleytuveður, og frá því var kalt par til

3. júní, þá var suðvestan blíða sem varaði til þess 10. Þá gekk tíðin til sunnanáttar með þoku og muggum, sem varði mánuðinn út; fór þá jörð að spretta og mikið gott útlit með grasvöxt, en afli lítill því beitu vantaði, en ef síld veiddist, þá var nokkur afli, helst ýsa.

1. jú1i var þoka með sudda og varði sú tíð þar til 9., þá gekk veðráttan meira til norðaustanáttar með kulda, en 12. gekk tíðin til norðurs með frosti á nóttum með miklum veðrum, sem varði til þess 16.; þá stillti til; fór þá að hlýna aftur og menn að slá. 22. var besti purkur og svo upp frá því mestu hitar, 22—27 gr. í skugga; leysti þá snjó úr fjöllum, því víða var gaddmikið. Líka fór afli að aukast, því þá fór að veiðast síld.

1. ágúst gekk veðráttan til skúra og sunnanáttar og sú tíð varði af og til, þó stundum góðir þurrkar til þess 20., þá var hroða suðaustanveður og stórrigning, eftir það var sunnan átt par til 27.; þá gekk til norðanvinda. 29. var þurrkur með norðanvindi og upp úr því gerði sudda tíð með rigningum og óþurrkum.

1. september var norðaustankrapahríð en birti upp um kvöldið og voru óþurrkar þar til 7.; þá gekk til þurrka og var fremur góð tið til þess 25.; þá var austanrigning, sem varði af og til til þess á Mikaelsmessu, þá var blíðviðri.

1. október og framan af mánuðinum 10 og 12 gr hiti, 9. og 10. frost, 11. snjór, 12. bleytuveður, 13. og 14. var sunnanhláka, 15. og l6 var snjó- hýmingur, síðan gekk til stórrigninga, sein vöruðu til þess 20., þá gott veður með hægu frosti, síðan stillingar til 28., þá var sunnanhláka sem varði til þess

1. nóvember, þá stillt veður með litlum frostum en vestlægur i lofti, 4. gekk í austanveður með snjóhríð og frosti með gaddhörkum. er vöruðu til þess 13., þá gekk til sunnanáttar, sem varaði til þess 18., þá suðaustanrosi; eftir það brá til snjóbleyta með storkum. 25. gerði landsunnan hroðaveður sem varaði í tvo daga; hinn 27. stillti til með snjóbleytum en hægviðri.

1. desember var sunnan hroði, 2. stillt, 3. úrsynnings hroði, 4. stillt veður og vestlægur allt til þess 9., þá gekk til norðanstorma með 6 til 8 gr. frosti. 14. var stórkostlegt austanveður með snjóhríð og sjógangi miklum; 15. og 16. stillt með hægu frosti. 17. suðvestan þíða með 8 gr. hita. en upp frá því voru af og til norðan og norðvestanstormar með 7—-8 gr. frosti þar til á jóladaginn og annan, þá var snjókoma mikil og gerði hreint jarðlaust; 27 gekk til sunnanhláku með stórviðri sem varaði í 2 daga. 30. var vestanvindur hægur með 4—5 gr. hita, á gamlaársdag var vestanvindur mjög hvass með 9. gr. hita. Á nýársdag var gott veður.

Það má telja þetta ár með betri árum þó vorið væri fremur kalt, því allvel spratt einkum harðvelli; tún urðu betri en í meðallagi. en viða skemmdust hey í þeim óttalegu hausthríðum, en allvel heyjaðist.

Ljúkum hér umfjöllun um tíð og veður 1883 - í bili. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Örstutt af nýliðnum aprílmánuði

Meðalhiti í Reykjavík reiknast 5,0 stig, +2,1 stigi ofan meðallags 1961-1990, en +1,3 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðurinn er sá fimmtihlýjasti á öldinni og 12.-hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga. Aprílmánuður 1974 er sá hlýjasti sem vitað er um meðalhiti var þá 6,3 stig. Apríl var kaldastur í Reykjavík 1876 þegar meðalhiti var -1,9 stig. 

Á Akureyri var meðalhiti nú 3,2 stig. Það er +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hlýjast var að tiltölu á Skrauthólum og Þingvöllum, þar var hiti +1,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu var -0,2 stigum neðan tíuárameðaltalsins.

Úrkoma í Reykjavík mældist 58,6 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 24,1 mm, lítillega neðan meðallags. Sólskinsstundirnar í Reykjavík mældust 137,7. Það er nærri meðallagi aprílmánaða 1961-1990, en 28 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. 

Uppgjör Veðurstofunnar ætti að birtast síðar í vikunni.


Bloggfærslur 1. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 28
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 426
  • Frá upphafi: 2343339

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 384
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband