Af árinu 1885

Árið 1885 var hart. Meðalhiti í Reykjavík ekki nema 2,7 stig, 2,1 stig í Stykkishólmi og 1,2 á Akureyri. Á landsvísu reiknast meðalhiti í byggð 1,6 stig. - Þó var ekki mjög mikill hafís. Norðanáttir voru óvenjutíðar og hafa ráðið miklu um það hversu lágur hitinn varð. Framan af var mjög þurrt sunnanlands og vestan og í febrúar mældist úrkoman á Eyrarbakka ekki nema 1,2 mm og var innan við 10 mm bæði í Reykjavík og Stykkishólmi.

Aðeins einn mánuður ársins telst hlýr, það var janúar, allir aðrir mánuðir voru kaldir, febrúar og júní í flokki köldustu almanaksbræðra frá upphafi mælinga. 

Hitamælingar voru hvergi gerðar í efri byggðum norðaustanlands þetta ár. Lægsti hiti ársins mældist á Borðeyri 2.apríl, -22,3 stig, en sá hæsti á Hrísum í Eyjafirði 20.ágúst, 23,7 stig. Talsverð næturfrost voru víða um land snemma í júní, m.a. 5 nætur í röð í Reykjavík, 3. til 7. og tvo daga þar á eftir var hiti rétt ofan frostmarks. Aðfaranótt þess 6. fór lágmarkið niður í -2,4 stig sem er það lægsta nokkru sinni í júnímánuði. Þann 2.júlí mældist hámarkshiti dagsins í Reykjavík ekki nema 6,6 stig - það lægsta nokkru sinni í júlímánuði. Sömuleiðis fraus víða rétt fyrir miðjan ágúst og spillti mjög garðuppskeru. Frost mældist þá að vísu ekki í Reykjavík, en það hefur samt örugglega frosið illa víða í kringum bæinn því hiti fór niður í 1,4 stig þann 12. 

Það er sömuleiðis óvenjulegt að dagana 29.janúar til 4.mars var nánast samfellt frost í Reykjavík, það var aðeins þann 19.febrúar að hámarkið komst í +0,2 stig. 

ar_1885_rvk-t

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík. Það var 20.ágúst sem hámarkið komst í 18,2 stig - það langhæsta á árinu. Þessi dagur sá eini sem flokkast sem hlýr í Reykjavík á öllu árinu og virðist hafa verið hlýr um land allt. Hann telst líka hlýr í Stykkishólmi og eins og áður sagði mældist þá líka hæsta hámark landsins allt árið. Daginn áður mældist hæsti hiti ársins á Akureyri. 

Fjölmörg dægurlágmarksmet standa enn í Reykjavík frá 1885, 20 alls. Ritstjóri hungurdiska telur 21 kaldan dag í Reykjavík og 17 í Stykkishólmi. 

Snjór sást óvenjuoft á jörð í Reykjavík þetta vor og framan af sumri. Ökklasnjór var þar á sumardaginn fyrsta [23.apríl] - hefur svosem gerst oftar. Þann 8.júní varð alhvítt seinni hluta nætur í Reykjavík og sömuleiðis varð alhvítt af éli skamma stund aðfaranótt 1.júlí. Morguninn eftir var Esjan alhvít niður fyrir miðjar hlíðar. 

ar_1885_rvk-p

Myndin sýnir loftþrýsting í Reykjavík frá degi til dags 1885. Árstíðasveiflan er óvenjulítið áberandi og lítið um að þrýstingur hafi farið niður fyrir 970 hPa. Ekki fór hann afbrigðilega hátt heldur. Við nánari athugun má sjá að sumarið var mjög tvískipt. Fyrri hlutann, frá því rétt fyrir miðjan júní og langt fram í júlí var hann óvenjulágur, en síðan óvenjuhár í ágúst. Mánaðarþrýstingurinn í ágúst er sá hæsti frá upphafi mælinga. 

Lægsti þrýstingur ársins mældist 961,4 hPa á Teigarhorni þann 4.janúar, en sá hæsti á Akureyri 16.október, 1041,2 hPa.

Fréttir frá Íslandi segja frá árferði:

Veðrátta var yfir höfuð í lakara meðallagi þetta ár. Þegar eftir nýár voru geysimiklar fannkomur og harðindi um allt land, og héldust þau lengi fram eftir. Á Suðurlandi var þó frost lítið, en stórviðri og umhleypingasamt framan af janúar og jarðbann algert, svo að þá var í austursýslunum þegar farið að skera af heyjum. Í vesturhlutanum og eins um Norðurland brá þó til hláku og hlýinda síðari hluta janúar, og kom þá víða upp góð jörð. Framan af febrúar var stórviðri mjög mikið sunnanlands; þannig urðu þá í Reykjavík um 8 menn veðurtepptir úti í póstskipinu á höfninni í 3 daga, og frost og ofsaleg norðanátt hélst út allan febrúar og fram í mars í vestursýslum Suðurlands, en jörð að kalla auð; síðan brá til útsynninga og svo landsynninga með nokkrum snjó, en eigi miklu frosti.

Seinast í apríl brá þar til hlýrrar vorveðráttu; þó féll ökklasnjór [í Reykjavík] á sumardaginn fyrsta. Í austursýslunum vóru ennþá meiri og stöðugri harðindi og stormar; þannig var slíkt sandrok á Rangárvöllum um hálfan mánuð framan af febrúar, að líkast var vorinu 1882; menn máttu þar þó illa við þeim harðindum eftir hina dæmafáu óveðráttu sumarið á undan, eins og sýndi sig. Á Vestfjörðum voru sífelldir norðanbyljir með fannkomum og frosti mjög miklu fram yfir sumarmál; þannig reið póstur í mars á ísum beina leið úr Ögri í Vatnsfjörð og þaðan aftur beint að Arngerðareyri (yfir Reykjarfjörð og Ísafjörð þveran). Sömuleiðis var Hvammsfjörður allur lagður þá, svo fara mátti á ís beint frá Dagverðarnesi í Stykkishólm, og sunnudaginn fyrstan í sumri var hann lagður hestís út undir eyjar, og þá (í apríl) fór póstur á ís yfir Álftafjörð og ísafjörð. Um páskana varð póstur að fara selflutning á sleðum með koffortin norður yfir Holtavörðuheiði, enda urðu vetrarharðindin norðanlands enn þá meiri úr því janúar lauk, heldur en sunnanlands, einkum í austursýslunum, eins og vant er. Fannfergjan varð þar svo mikil um langan tíma af vetrinum, einkum þó í febrúar, að elstu menn mundu eigi aðra eins, og bæir fóru víða í kaf; þó tóku snjókyngjurnar út yfir á Austurlandi; janúar var þó víða góður, en svo hlóð snjó niður í sífellu mestallan febrúar, og sökum þeirra dæmalausu snjóþyngsla, er þá komu, urðu þar tíð geysimikil snjóflóð, er gerðu ógurlegan skaða og manntjón, eins og síðar verður getið. Frost voru þó ekki eins sterk að sínu leyti (þó 10—18 R í Fljótsdalshéraði t.d. fyrstu dagana af mars).

Eftir þennan dæmalausa snjóavetur víðast um land tók við eitthvert kaldasta vor, svo að jörð leysti mjög seint alstaðar; voru sífelldir kuldanæðingar og náttfrost allt fram í júlí, og frostbyljir enda alloft á Vesturlandi, Norðurlandi og Austfjörðum; þar var fullkomið jarðbann í öllum sjávarsveitum frá því fyrir sunnan Mjóafjörð og norður fyrir Vopnafjörð af gömlum gaddi viku eftir fardaga, og á Vestfjörðum sumstaðar, t.a.m. á Snæfjallaströnd, voru tún undir fönn um sama leyti, og því fremur í norðursýslunum norðanlands. Fyrri hluta júlímánaðar (11 vikur af sumri) var allvíða enn þá ekki leyst af túnum á Austurlandi og frost og snjóar öðru hvoru allt til þess tíma, og eins í Þingeyjarsýslu og víðar nyrðra. Á Vesturlandi kól tún víða jafnóðum og af þeim leysti, og í júlíbyrjun var þar víða varla fært yfir fjallvegi öðruvísi en skaflajárnað, og sumstaðar enda ókleyft fyrir snjó og frosthríð. Þótt sumarið byrjaði þannig allstaðar í langseinasta lagi, þá varð það þó ekki slæmt þann litla tíma, er þess naut (ágústmánuð einn hér um bil).

Í lok júlímánaðar kom loksins alstaðar hagstæð sumarveðrátta, mild og þó þerrisöm víðasthvar; urðu þau umskipti snöggust víða norðanlands, og varð af því vatnagangur mikill, einkum í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum, er snjó tók að leysa upp; urðu þar skaðar miklir af vatnavöxtum á engjum, er ár gengu yfir og báru leir á; þannig var um Eyjafjarðará, er aldrei í manna minnum hafði vaxið eins. Vegir spilltust, einkum á fjöllum, og braut þá af brú á Valagilsá og víðar.

Í ágústmánuði vóru þerrar og blíðviðri víðast um land, en með september tók veður að spillast; þá gengu rigningar miklar sumstaðar um Austurland um hálfan mánuð, og seinni hluta september fóru krapahryðjur og snjóar að koma víðast um land, svo að hey fennti, einkum þó á Norður- og Austurlandi. Haustið varð því eigi sem best; þó mátti það allgott heita á Suðurlandi, og þar héldust meðfram hlákur og hægviðri fram til nýárs; þó lagðist vetur snemma að, einkum á Austurlandi, og snjór var kominn víða allmikill snemma í nóvember. Bærileg tíð var þó yfir höfuð allt til nýárs.

Hafís gerði eigi sérlegt mein þetta ár; hann gerði vart við sig fyrir Vestfjörðum snemma í apríl, og var svo á slæðingi þar fram með og allmikill skammt undan landi fram eftir öllu sumri, enn þó ekki mjög mikið eða til stórbaga. Í maí varð strandferðaskipið að hverfa aftur á Reykjarfirði fyrir íshroða, og var hann þá á reki inn á Húnaflóa; þó hélst hann þar eigi lengi, og varð eigi landfastur við Norðurland, svo að hann tálmaði ekkert siglingum þangað.

Jarðskjálfti varð 25. janúar. Hans varð vart í Reykjavík lítið eitt og víðar um land, enn mest þó á Norðurlandi og Austurlandi, og stórkostlegastur varð hann í Kelduhverfi. Allur ís brotnaði af Jökulsá (í Axarfirði) frá sjó lengst upp á öræfi; hestar fældust, hús skekktust og hrundu, og margir hlutir skemmdust, og á 2 stöðum sást þar rjúka upp úr jörðu. Í Fljótsdalshéraði hafði áður orðið vart öskufalls, svo að fé varð kolótt í haga, og þar kom jarðskjálftinn úr vestri. [Rétt að taka fram að jarðskjálftar í Reykjavík sama dag voru ekki á sama tíma - og upptökin því trúlegast önnur]. 

Grasvöxtur varð almennt lítill, sem von var. Sláttur byrjaði því mjög seint, almennt ekki fyrr enn undir mánaðamótin júlí og ágúst, einkum norðan- og austanlands. Tún spruttu svo illa, að varla fékkst meira enn helmingur af þeim móts við meðalár og sumstaðar varla það, einkum á Vesturlandi. Engjar spruttu betur, enda voru þær að því fram til septemberbyrjunar; aflaðist úthey því næstum eins og í meðalári víðast hvar. Nýting varð allvíðast dágóð, þó hraktist hey nokkuð í rigningum víða upp á síðkastið, og sumstaðar urðu hey úti (t.a.m. um 100 hestar á Grenjaðarstöðum). Menn héldu slætti áfram svo lengi sem mögulegt var fyrir frosti og illviðrum, þannig var sumstaðar á austurlandi stör slegin á ís.

Fjárskaðar urðu talsverðir um veturinn sökum óveðranna, einkum á Vesturlandi; þannig fórst 120 fjár í á (Selá) frá Skjaldfönn á Langadalsströnd.

Slysfarir og skaðar urðu talsverðir og sumir á dæmalausan hátt, eins og hið voðalega snjóflóð á Seyðisfjarðaröldu 18.febrúar. Það kom kl.8 um morguninn úr fjalli þar rétt fyrir ofan kaupstaðinn; voru menn ekki almennt risnir úr rekkju; dimmdi svo yfir, þegar snjóflóðið féll, að sýnilegur munur varð á birtu í kaupstaðnum; sópaði flóðið 15 íveruhúsum að miklu leyti út á sjó eða skildi þau eftir mölbrotin í fjörunni auk fjölda úthúsa; urðu eitthvað um 80 menn fyrir flóðinu og létust þar af 24, en margir limlestust að auki; var hryllilegt að koma þar að: úr öllum áttum heyrðist óp og vein, og menn komu naktir alstaðar að um snjóinn.

Þann 31. varð maður frá Stóru-Ökrum í Blönduhlíð úti á heimleið af Sauðárkróki; hafði lagt drukkinn af stað. Í febr. varð Skaftfellingur einn úti í Skriðdal milli bæja, og í fyrstu viku góu fórst bátur úr fiskiróðri með 4 mönnum frá Hnífsdal við Ísafjörð, og 2 menn urðu úti milli bæja frá Hraundal á Langadalsströnd að Melgraseyri um sama leyti. 6. varð smali frá Draghálsi úti í Svínadal í Borgarfirði. 7. varð 15 vetra stúlka frá Bollastöðum í Flóa úti milli bæja; var að sækja mjólk. Í mars fórst bátur með 4 mönnum á leið frá Bjarneyjum til Stykkishólms. Í desember (4.) varð bóndi einn úti á Hrútafjarðarhálsi, og rétt fyrir jólin annar ungur bóndi, milli Keflavíkur og Grindavíkur, ölvaður, 15.fórst bátur með 3 mönnum á heimleið frá Mjóafirði til ísafjarðar.

Austri birti þann 18.febrúar 1886 yfirlit um tíðarfar ársins 1885, að sögn ritað af manni á Fljótsdalshéraði. Við nýtum okkur það og köllum „yfirlit Austra“ hér að neðan. Í lok þess segir: „Þetta ár má teljast eitt hið versta ár víðast hvar hér á Austurlandi“.

Janúar: Miklar fannkomur, harðindi talin viðloðandi, þó var fremur hlýtt. Síðasta vikan mildust. Skást tíð austanlands.

Yfirlit Austra: 

Janúarmánuður. Hlánaði af austri með nokkurri úrkomu í byrjun mánaðarins svo gott varð í högum, en spillti þegar þann 4. með áfrerum og hríðum einkum upp til lands sem héldust öðru hverju til hins 15., hlánaði þá nokkuð af vestri svo mátti heita gott i högum, þar til hinn 23. að hlánaði á ný, svo hagval var einkum niður til sveita, sem hélst til hins 30. og 31. að veður komst af norðaustri með miklu snjófalli. 

Fróði skrifar um tíð þann 30.janúar, en segir að auki frá jarðskjálfta sem fannst á Akureyri þann 25.janúar:

Póstur kom að vestan 24. þ.m. Af Suðurlandi er að frétta mikinn snjó, og jarðleysur fyrir fénað. Póstur sá er gengur milli Reykjavíkur og Staðar skildi eftir mikið af póstflutningnum hingað norður fyrir sunnan Holtavörðuheiði, svo ekkert kom hingað af Reykjavíkurblöðunum. Í Langholti í Borgarfirði hafði brunnið mikið af bænum.

Norðanfari birtir þann 14.mars bréf úr Seyðisfirði dagsett 30.janúar:

Það sem af er vetri hefir mátt heita sérlega hagstæð tíð, einkum fyrir landbóndann; nærri alltaf jarðir víðast einkum til Héraðs og í hinum snjóléttu fjörðum, enda öllum stöðum, því þó tekið hafi fyrir jörð, hefir það staðið mjög skamma stund, en fjarska hefir verið umhleypinga- og rosasamt. Hefir því verið óstöðugt sjóarúthald manna hér í Seyðisfirði. En ekki er það tíðin ein, heldur allt, sem virðist banna björg úr sjó hér.

Febrúar: Stórviðrasamt, óvenju eindregnar norðanáttir voru í mánuðinum og oft ofsaveður. Óvenjulegt fannfergi austan- og norðanlands, en mun minni snjór suðvestanlands. Mjög kalt.

Yfirlit Austra (18.2. 1886):

Febrúarmánuður. byrjaði með stórhríðum, feiknalegu snjófalli og jarðbönnum nærfellt á hverjum degi; hélst mánuðinn út. Kom þá svo mikill snjór að elstu menn mundu ei annan eins.

Ísafold segir frá illviðri í Reykjavík í frétt þann 4.:

Hér var vikuna sem leið mesta stórviðri á norðan, frá föstudegi [30.janúar] til þriðjudags [3.febrúar]; á laugardaginn einkum einhver hin mestu aftök, sem hér koma. Eitthvað 8 manns voru veðurtepptir í póstskipinu úti á höfninni í þrjá daga.

Þann 18.febrúar féll eitt mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar á Seyðisfirði. Einhver  gagnorðasta samtímablaðafréttin af því birtist í Norðanfara 31.mars, höfð eftir bréfi sem ritað var á Seyðisfirði þann 3.mars - en frásagnir má allvíða finna sem greina nánar frá:

Hér hafa gengið stöðugar stórhríðar fast að því í 5 vikur og er meiri snjór fallinn á þessum tíma en elstu menn muna eftir. Seyðisfjörður hefir líka á mjög tilfinnanlegan  hátt fengið að kenna á afleiðingum snjókomunnar, því að allur miðhluti verslunarstaðarins er eyddur af snjóflóði.

Það var hinn 18 febr. um morguninn að afarmikið snjóflóð tók sig upp efst í fjalli því, er hér er fyrir ofan Ölduna og tók af 14 stærri og smærri íbúðarhús og 24 menn týndust i flóðinu, og er það nærri því furða að eigi fórust fleiri menn, því að í þessum húsum bjuggu um 90 manns og margt af því kvenfólk og börn; ... Af þeim 24 sem fórust eru aðeins 9 lík fundin ennþá. Auk framannefndra húsa, skemmdust 2 íbúðarhús mikið og fleiri geymsluhús og fiskiskúrar og bátar er farið með; eignatjónið er fjarska mikið því að mikið af þessu lenti í sjóinn, og hefir skolast burtu. Þetta snjóflóð tók hús, sem hingað til hefir verið álitið óhætt svo sem „Glasgow“, elsta húsið hér á Öldunni, sem, hefir staðið síðan fyrir 1850. Það er eigi ennþá séð fyrir, hvað mikið verður standandi af húsum hér á Öldunni því að öll út-Aldan er í veði og eru allir, bæði menn og málleysingjar flúnir þaðan hingað neðst, á Ölduna í þau fáu hús sem líklega er óhætt, en svo eru aftur sumir flúnir héðan út á Vestdalseyri. Meðal húsa þeirra sem fórust var „Hótel Ísland“ í annað sinn.

Hér utar í firðinum hefir snjóflóð tekið tvö fiskihús og úr Dalakjálka í Mjóafirði hefir frést að 2 bæir væru farnir, fólk komst af, en fénaðurinn drapst. Í Norðfirði hefir tekið af 2 bæi og eitthvað af mönnum farist, en eg hefi eigi fengið greinilegar fréttir þaðan. Víðar hefir eigi frést að ennþá.

Í Norðanfara þann 31.mars er frétt úr Norðfirði, höfð eftir Grímsstaðapósti:

Í sömu hríðunum og snjóflóðið hljóp á Seyðisfirði kvað annað snjóflóð hafa hlaupið i Norðfirði á bæinn Naustahvamm og þar farist inni 3 menn, 2 kýr, 30 kindur og eitt hross.

Austri birti þann 25.apríl nánari fréttir af Naustahvammsflóðinu - það féll rúmri viku eftir Seyðisfjarðarflóðið:

Í því hinu mikla áfelli er byrjaði síðast í janúar og stóð í fullan mánuð þannig að daglega snjóaði meira og minna urðu viðar skaðar af snjóflóðum en hér í Seyðisfirði. Þannig féll snjóflóð á Naustahvamm í Norðfirði kl.2 um nóttina til hins 26. febrúar og tók af 2 býli hjá ekkjum 2 er þar bjuggu. Þegar er flóðið féll varð vart við það af mönnum er bjuggu þar í öðrum kofum. Sendu þeir þegar um nóttina á næstu bæi til að safna mönnum. Var þá tekið að grafa upp fólkið og fundust allir lifandi á öðrum bænum 4 að tölu eftir að hafa legið 7 stundir í snjónum. Á hinum bænum fundust 2 börn lifandi, en örend var gömul kona og 2 börn á 4. og 1. ári. Móðir barnanna var ekki heima þegar flóðið féll. Á báðum býlunum brotnuðu nær því öll bæjarhús og eitthvað af úthýsum. Matbjörg eyddist öll, 1 kýr og hestur auk nokkurra sauðkinda fórst. Talsvert tapaðist af heyi, flest innanstokks ónýttist og yfirhöfuð varð skaðinn mikill og sártilfinnanlegur þar sem bláfátækir áttu í hlut.

Í sama áfellinu féll snjóflóð á Stærri-Dali í Dalakjálka í Mjóafirði. Braut það niður fjárhús með 40 til 50 kindum, tók af heystakka og flutti allt fram í sjó. Í Mjóafirði braut og snjóflóð niður stórt norskt síldarveiðahús og allstórt fiskihús. Á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði féll í sömu ótíðinni flóð á sauðahús. Tók heyin af, niður við tóftarveggi en húsin sjálf sakaði ekki. „Austri" hefur áður sagt frá hinu mikla snjóflóði á Fjarðaröldu, og þeim skemmdum er það olli, en honum hefur gleymst að geta þess að um sömu mundir tók snjóflóð 2 fiskihús í Selstaðavik svo og fiskihjalla milli Eyrar og Öldu. Og í sambandi við hina miklu skaða, er víðsvegar hafa orðið af snjóflóðum, má geta þess að allvíða hér í Seyðisfirði hafa hjallar skekkst og sligast og bátar skemmst undir hinum afarþykka og þunga snjó.

Úr Dölum er skrifað 18.febrúar og birt í Ísafold þann 4.mars:

Hér eru einlægt hríðarmoldir dag eftir dag núna að kalla samfleytt í 3 vikur.

Fróði segir þann 20.febrúar - dagsetur fréttina á Akureyri þann 18.:

Í þrjár vikur samfleytt hefir verið hríð og dimmviðri. Veður hefir verið af norðaustri, mikill snjór hefir fallið að vonum. Frést hefir að í byrjun þessara illviðra hafi maður orðið úti milli Sauðárkróks og Sauðár í Skagafirði. Nokkuð af smáum hákarli hefir aflast fyrirfarandi daga upp um ís hér á höfninni.

Þann 14.mars er í Norðanfara bréf úr Axarfirði, dagsett 21.febrúar, þar sem segir m.a. frá miklum jarðskjálfta þann 25.janúar:

Það er lítið að frétta héðan, nema hríðar miklar síðan viku af þorra, og er afarmikill snjór kominn hér niður í Norður-Þingeyjarsýslunni. Þó hefir ávallt verið heldur frostalitið (mest -11°R) og stundum næstum frostalaust. Jarðskjálfti kom hér óvanalega mikill og langur fyrsta sunnudag í þorra kl.10:45 f.m. og stóð hann hér um 5 mín. Varð mest af honum neðan til á Kelduhverfi (á Vatnsbæjunum) og hrundu þar hús og löskuðust allmikið; síðan verður hér jarðskjálfta vart á hverjum degi má heita, en þeir eru nú litlir. Hvergi spyrst til, að annarstaðar hafi skaði orðið af honum.

Frá jarðskjálftanum segir líka í öðru bréfi í Norðanfara 31.mars, það er dagsett í Axarfirði 10.mars:

25. janúar kom hér allharður jarðskjálfti, jörðin gekk í bylgjum, svo fólk gat ekki á fótum staðið, mynduðust víða gjár og sprungur og vall upp vatn og sandur, hús skekktust og jafnvel hröpuðu, sumstaðar hefir að líkindum orðið mikið jarðrask og skemmdir á engjum, og vitnast það ekki fullkomlega fyrr enn í sumar. Kippur þessi var mestur hér í Kelduhverfi og Axarfirði.

Fram kemur í Norðanfara þann 20.mars að skjálftans hafi einnig orðið vart austur í Norðfirði og þar töldu menn sig verða varir við öskuryk á fé. 

Í Austra, 18.apríl er bréf úr Þistilfirði dagsett 19.febrúar. Þar er fjallað um jarðskjálftann mikla:

Sunnudaginn hinn 25.[janúar] um hádegisbilið gjörði hér um sveitir afarmikinn jarðskjálfta. Kippurinn var í það sinn aðeins einn, en mun hafa varað um fulla mínútu, allt lék á reiðiskjálfi, hús hristust svo, að brakaði í hverju tré og allt sem lauslegt var skrölti til; ilát sem stóðu naumt á hillum eða hirslum duttu ofan, víða hrundi úr veggjum, einkum þó þeim sem hrörlegir voru. Í kirkjunni á Svalbarði í Þistilfirði hrundi altaristaflan, sem fest var upp a 4 krókum, niður og brotnaði; efri krókarnir er að vísu voru nokkuð veikir, höfðu brotnað um þvert. Hestar fældust sem úti voru. Fé hrökk saman í haga. Menn sem voru á ferð eða gangi úti fundu glöggt hvernig jörðin gekk í öldum undir fótum þeirra. Smásprungur komu víða í jörð, svell og hjarn.

Langmestur varð jarðskjálfti þessi í Kelduhverfi og mestar afleiðingar hans. Allur ís brotnaði af Jökulsá frá sjó lengst upp á öræfi, hús skekktust, matur skemmdist. Ný gjá myndaðist eitthvað í miðju hverfinu, að sögn nálægt Grásíðu, varasöm yfirferðar; á tveim stöðum sást þar rjúka upp úr jörðu. Er vonandi að Keldhverfingar lýsi þessum
náttúruumbrotum hjá sér nákvæmlega í dagblöðunum. Annarstaðar hefur ekki jarðskjálfti þessi valdið stórskemmdum eða tjóni, það frést hefur. Hér austan Axarfjarðarheiðar fóru miklir dynkir og skruðningar rétt á undan honum, sem virtust koma úr suðvestri, eins og líka hristingurinn virtist vera frá vestri til austurs.

Bréfið heldur svo áfram og lýsir tíð - fyrst í janúarlok en síðan í febrúar:

Vetrartíðin var hér um sveitir hin æskilegasta allt til janúarloka, þá skipti um. 26. f.m. daginn næsta eftir jarðskjálftann gjörði molludrífu mikla, sem varaði aðeins 3 klukkutíma. Svo aftur stillt og bjart veður til 29., en að kveldi þess dags var loftsútlit skuggalegt. Hinn 30. var skollin á norðaustan kafaldshríð; hafa síðan staðið yfir stórkafalds norðan- og norðaustanhríðar í samfleytta 19 daga, aðeins tvisvar dálítil upprof hinn 4. og 13. þ.m. þó engin veruleg uppbirta fyrr en i dag. Eru því hin mestu kyngi fallin af snjó um þessar sveitir. Frost hafa mátt teljast væg i samanburði við veðurofsann og fannfergið; merki sjást engin til þess að hafís sé í nánd og eigi hefur orðið vart við trjáreka. Margir eru hér á þeirri trú að jarðskjálftinn mikli hafi verið fyrirboði þessarar miklu tíðarumbreytingar, þó að þorvaldur Thoroddsen efist um það í Andvara, að jarðskjálfti geti staðið í nokkru sambandi við tíðarumskipti. Svo virðist þó oftar hafa átt sér stað.

Í sama tölublaði Austra er einnig bréf af Fljótsdalshéraði dagsett 3.mars:

Frá nýári og fram undir janúarmánaðarlok mátti heita öndvegistíð og góðir hagar fyrir sauðfé og hross; síðan brá til norðaustanáttar með ákafri snjókomu og stormi, sem hélst í samfleyttar 3 vikur úrtakalaust, snerist hann þá meir til austurs og snjóaði þá meira um allan efri hluta Héraðsins, og nú síðustu 4 dagana (3.mars) hefur verið bjart veður og kyrrt af norðvestri með 10-18 gráða frosti (á R), en áður í veðrunum var mjög frostlítið (frá 0-6°R). Á þessum tíma hefur fallið svo mikill snjór um Hérað og Jökuldal, að valla eru dæmi til annars eins á jafnstuttum tíma og því haglaust að kalla, það sem til hefur frést, og líklega eins um alla Austfjörðu, þó kvað hafa snjóað minna fyrir sunnan Berufjarðarskarð.

Dagana fyrir 25. janúar bar á öskufalli um efra hluta Fljótsdalshéraðs, og varð fé víða kolótt í haganum, enda sást vottur þess á snjó, en eigi á jörð. Þennan sama dag varð
hér allharður jarðskjálfti úr vestri og fylgdi allhörð reiðarduna, svo hross fældust t.d. á nesjunum i Fljótsdal. Seint í veðrunum varð unglingspiltur, Páll nokkur Hallsson. Skaftfellingur, úti í Skriðdal milli bæja; hann var til heimilis í Flögu.

Norðanfari segir þann 24.febrúar frá snjóþyngslum á Akureyri og í grennd:

Í meir en 3 vikur, að 2 dögum fráskildum, sem hríðar-upprof var, hafa hér fyrir norðan Yxnadalsheiði dag og nótt, verið sífelld norðanhvassviður með mikilli snjókomu og aðfenni, svo að sum hús hér í bænum eru nær því komin í kaf, hvað þá í snjóþungum sveitum. Hvorugur póstanna, að austan eða vestan eru enn komnir hingað. Síðan illviðrin byrjuðu hefir varla orðið á sjó komið og því aflalaust af síld og fiski, en venju framar aflast hér upp um ís á pollinum ...

Ísafold segir af Rangárvöllum þann 4.mars (eftir bréfi dagsettu þann 24.febrúar):

Eftir hina ágætu hálfsmánaðarhláku í janúar frysti aftur og rauk í norðanbálviður 27.jan . Var þá í Landssveit og á Rangárvöllum slíkt sandrok um hálfan mánuð, til ll.febrúar, að líkast var sandkastinu vorið 1882. Ekki ber enn á veiki í skepnum af sandinum, því allir gáfu inni, en jarðir nokkrar fóru svo í kaf við það í sveitum þessum og aðrar skemmdust svo, sem áður voru óskemmdar, að óumflýjanlegt virðist að láta meta þær upp að nýju fyrir þing. Norðanáttin er enn mjög köld og sendin. Allvíða er farið að tala um heyskort, ofan á það sem skorið var í vetur.

Í Norðanfara 31.mars er bréf frá Blönduósi dagsett 24.febrúar:

Veturinn hefir verið góður, en þó mjög stormasamur þangað til um mánaðamótin, þá skipti um, og síðan hafa verið hér látlausar hríðar oft með óstandandi ofveðrum og í dag þegar loksins birti upp sést hafísinn, kominn inn með öllum Ströndum, allt inn að Reykjafirði. Svo fréttist í morgun að talsverður íshroði væri kominn að Skaganum ...

Suðri birtir bréf úr Skaftafellssýslu 19.mars - klakinn var að hluta til afleiðingar austurhlaups Kúðafljóts haustið áður:

Að austan (úr Skaftafellssýslu) er oss skrifað 2. þ.m.: Veturinn hefur mönnum þótt harður yfir höfuð það sem af honum er, en þó langverstur, á sléttlendinu, svo sem í Meðallandi, því par er klaki og ís nær því yfir allt og þar sem jörð gæti sest, þá er hún þakin foksandi, sem bar á í hinu langvinna norðanveðri á þorranum. Þannig hafa jarðir í Meðallandi og Landbroti skemmst svo, að margar jarðir eru skemmdar að þriðjung á túni, slægjum og högum.

Eg verð að nefna helstu orsakirnar til þess, að Meðallendingar eru svo verr en aðrir á vegi staddir. þeirra engi er allt mýrlendi og gátu þeir því ekki í rosunum í sumar heyjað á aðalengi sínu; þar á ofan bættist að í fyrstu byljunum í vetur hljóp Kúðafljót austur um allt Útmeðalland, svo flýja varð með fénað úr sumum húsum; síðan lagði íshellu yfir alla jörð, svo jörð kemur þar ekki upp fyrr en langvinn þíðviðri og vorblíða kemur. Nú er allstaðar hagleysi fyrir fádæmilegan snjó.

Mars: Umhleypingasöm og vond tíð.

Yfirlit Austra:

Marsmánuður. Fyrstu dagana bjartviðri á vestan með 18—20° frosti, oftast bjartviðri til þess 12. og 13. að leysing kom og nokkur jörð, eftir það vestan og norðvestan oftast með miklu frosti þar til hinn 25. að brá til útsynninga með nokkurri snjókomu; 29. og 30. norðvestan bjartviðri; 31. norðvestan él með miklum stormi.

Þann 31.mars birti Norðanfari frétt úr Vopnafirði og af Jökuldal (ódagsetta):

Úr Vopnafirði sjálfum er hið sama að frétta, sem annarstaðar, [...] svo mikill gaddur að engir þykjast muna jafnstórkostlegan. Sumstaðar eru fjárhúsin farin að brotna inn undan snjóþyngslunum, því þar sem lítil mannaráð eru, anna því ekki litlir kraftar að moka burt slíkum ósköpum; það hefir t.d. frést að á Jökuldal væru menn farnir að reka niður 6-8 álna langar spítur ofan á mænir fjárhúsanna til að fínna þau.

Norðanfari birti 17.apríl bréf úr Strandasýslu dagsett 20.mars:

Tíðin hefir verið nokkuð stórkostleg í vetur hér um pláss þó út yfir tæki hinn hvíldarlausi norðanvindur á þorranum, sem mátti heila að stæði með jöfnu ofsaveðri i 3 vikur, en frost var aldrei hér meira við sjóinn en 10° á Reaumur, en sjókuldinn var mikill, þá lagði Kollafjörð allan út fyrir Nesjabæi, og árfreðar urðu þar víða yfir 2 mannhæðir; í þeim stormi varð víða rekavart, en gat óvíða komist að vegna kraps og fjar[ða]freðanna. Síðan norðanveðrinu slotaði, hefir tíðin verið óstöðug en ekki stórgerð. Víðast hér er góð jarðsnöp þegar á hana gefur. 

Apríl: Umhleypingasamt, en hláka og hlýindi síðustu vikuna.

Yfirlit Austra:

Aprílmánuður. Bjartviðri á vestan fyrstu dagana, leysing nokkur hinn 4.; austan og norðaustan öðru hverju með nokkurri snjókomu til hins 12., þá bjartviðri á vestan. Hinn 15. útsynningur sem hélst af og til til hins 20., þá norðaustan með nokkurri snjókomu til hins 26., þá austan leysingar með regni það eftir var mánaðarins.

Ísafold hrósar tíð syðra þann 15.apríl:

Blíðviðri hér síðan á páskum [5.apríl]. Þá mun og hafa komið batinn annarstaðar um land, að því er frekast hefir spurst með póstum, eftir einhvern hinn mesta snjóavetur í manna minnum. Ekki varð hestum komið við; norður yfir Holtavörðuheiði um páskana og varð póstur að fara selflutning á sleðum með koffortin norður yfir, í 3-4 ferðum, með því að ekki fékkst mannafli til að koma þeim í einu lagi. Við hafís hvergi vart.

Norðanfari birtir 22.maí bréf af Melrakkasléttu dagsett 2.maí:

Veðuráttan fremur stirð og mikill snjór ennþá, þó hefur hann talsvert tekið þessa síðustu daga, því það hefur verið frostlaust og austan þokur. Hafís sást héðan fyrst 21 mars en hvarf aftur; síðan kom hann aftur 21.apríl og varð þá landfastur, en ekki er það sem sést annað en hroði, sem aðeins fyllir víkur og voga hér nálægt en íslaust fyrir utan, vonast menn ekki eftir neinu af ísnum í þetta sinn, enda kæmi það sér betur.

Maí: Óhagstæð og köld tíð. Skárra sums staðar í skjóli fjalla syðra.

Yfirlit Austra:

Maímánuður. Austlægur með kulda og þoku til hins 5., þá norðaustanhríðar til hins 10., svo vestan og sólbráð annað slagið til hins 21.að vestanleysing kom. Eftir það norðaustan með snjókomu nokkurri öðru hverju, til hins 28., þá þoka á austan en úrkomulítið út mánuðinn.

Austri segir þann 12.maí (nokkuð stytt hér):

Tíðarfar hér eystra eins og líka allstaðar þar sem vér höfum til frétt er einlagt mjög kalt, og þiðnar litið hinn afarmikli gaddur sem niður kom í mánaðarhríðunum i vetur. Er í mörgum sveitum, bæði á Úthéraði og Fjörðum næstum alveg jarðlaust enn, þótt hálfur mánuður sé af sumri. Upphérað er þó orðið autt fyrir löngu, enda er það altítt að þar sé að mestu snjólaust þótt á Úthéraði og Fjörðum sé haglaust.

Hin kalda þokufulla veðrátta, sem nú er búin að standa um langan tíma, svo að sólar hefur ekki notið virðist benda á að hafís hljóti að vera nálægur. Þó er hreinn sjór út af Langanesi, þar sem ísinn átti að vera landfastur, eins og sagt er i 5. tbl. „Austra". en sú frétt var höfð eftir norskum skipstjóra, er hingað kom á skipi er sneri aftur við nesið af því hann þóttist sjá ís. Líklega hafa það verið Geirlaugarsjónir. Á Eyjafirði var þegar póstur fór þaðan allur pollurinn lagður ísi; kaupskipin komust ekki inn á leguna og var því öllum vörunum ekið úr þeim á sleðum í land.

Þann 22. maí birti Norðanfari bréf frá Seyðisfirði - í því eru hugleiðingar vegna snjóflóðsins mikla sem við skulum líta á:

Seint tekur upp af húsarústunum hér af Öldunni, þó eru alltaf að finnast ýmislegir munir, en margt af því er skemmt og sumt eyðilagt alveg. Enn hafa eigi fundist 2 börn, þó mikið hafi verið leitað, og heppnasta, má telja þá, sem dóu í flóðinu hjá þeim sem náðust teygðir og limlestir, en því betur eru þeir fáir. Það er víst kvenmaður einn, sem missti foreldra sína, er fór verst, og lítur út fyrir að hún verði aldrei jafngóð.  Það er annars hryggilegt að vita til þess, að menn skuli með fávisku sinni hafa bakað sér allan þennan ófagnað. Eða hvað var það annað en skammsýni að flytja búsið eftir fyrra flóðið 1882, um nokkra faðma, og hugsa sér að snjóflóð gæti ómögulega fallið öðruvísi en þá. Barnaskólahúsið átti líka að setjast á það svæði, sem síðasta flóð gekk yfir og munaði einungis einu atkvæði á fundi sem haldinn var, það var sett á annan stað neðar, annars hefði það nú farið.

Verst er þó af öllu að þetta skuli enn sitja fast í höfðum á mönnum, að tanginn eða neðri hluti kaupstaðarstæðisins, sé óhultur fyrir snjóflóðum, enn það er öðru nær en svo sé að margra manna áliti hér. Efri hluti kaupstaðarins, þar sem hinar norsku sölubúðir standa, og Liverpool, er þaðan af síður óhultur. Sumir af þeim sem fengu hús sín skemmd í flóðinu og að mestu eyðilögð, tala um að reisa þau við aftur á sama stað, en heyrst hefir að sýslumaður hafi bannað það. Tveir hafa flutt hús sín alveg burt af Öldunni, þau stóðu skammt frá Liverpool og má vera að fleiri gjöri það, sem búa þar ofan til. Gísli Jónsson gullsmiður ók húsi sínu í heilu lagi ofan á tangann, og ætlar hann að láta þar fyrirberast. Þar skammt frá, er einnig verið að reisa nýtt hús. svo á því sést, að menn þykjast þar úr allri hættu fyrir snjóflóðum, þó sumir séu á hinu gagnstæða.

Júní: Mjög óhagstæð og köld tíð. Kyrkingur í gróðri.

Yfirlit Austra:

Júnímánuður byrjaði með norðaustan hríðum og mikilli snjókomu, var landstæður þann 7., af vestri og suðvestri til hins 18., þá austan og norðaustan til hins 21., svo vestan og suðvestan, var þá eigi úthagi betur gróinn í 9. viku sumars en að það gæti kallast sauðgróður. Þann 24. norðaustan krapahríð með stormviðri, eftir það nokkuð hvassir vestanvindar mánuðinn á enda.

Jónas Jónassen segir frá í Ísafold 10.. 17. og 24.júní, heldur aum sumartíð:

[10.] Þessa vikuna hefir haldist sama norðanáttin með sífelldum kulda og náttfrosti; aðfaranóttina h. 8. gjörði hér alhvítt seinni part nætur og haglhryðjur voru um morguninn; Esjan var alhvít, rétt eins og um hávetur. Í dag [9.] bjart sólskinsveður, logn hér, norðan til djúpanna. Loftþyngdarmælir stendur hátt.

[17.] Um kveldið hinn 9. gekk veður til landsunnanáttar og hefir verið við sömu átt þessa viku, oftast hvass og með mikilli úrkomu dag og nótt, einkum var úrhellisrigning kveldið 13. Við og við hefir hann gengið í vestur-útnorður með haglhryðjum; kalsi hefir verið mikill í loftinu. Í dag landsunnan hvass með regni.

[24.] Alla vikuna hefir hann verið við norðanátt, oftast hægur og bjartur, 21. gekk hann til landssuðurs með regni; aðfaranótt h. 22. snjóaði í Esjuna og var hér hvass fyrri part dags á vestan útnorðan, logn að kveldi. Í dag 23, norðvestan, hvass, dimmur; ýrði regn úr lofti stutta stund fyrri part dags.

Ísafold segir frá tíð í pistli þann 24.júní:

Þetta vor hefir verið eitthvert hið harðasta, er dæmi eru til, víðast um land. Megnustu kuldar fram yfir fardaga og gjörsamlegt gróðurleysi; frostbyljir öðru hvoru, einkum fyrir norðan og á Austfjörðum. Þar, á Austfjörðum, var viku eftir fardaga fullkomið jarðbann í öllum sjávarsveitum frá því fyrir sunnan Mjóafjörð og norður fyrir Vopnafjörð, og það af gömlum gaddi; sást varla á dökkan díl. Mundu fáir trúa slíkum firnum. Á Vestfjörðum sumstaðar, t.d. á Snæfjallaströnd og víðar, voru tún undir fönn um sama leyti. Mundi eflaust hafa orðið kolfellir af fénaði um meiri hluta lands, hefði almenningur ekki verið óvenjuvel undir veturinn búinn víðast, nema á Suðurlandi, en þar kom vorbatinn fyrr en annarstaðar og þó seint og síður en eigi vel.

Í Norðanfara 10.júlí er bréf úr Bjarnarnesi í Austur-Skaftafellssýslu dagsett þann 6. sama mánaðar - á trúlega að vera 6.júní. Blaðið hætti að koma út í lok ágúst). Í bréfinu úr Hornafirði segir m.a.: „Tíðin hefir verið frábærlega köld og stormasöm og aldrei komið votur dropi úr lofti í allt vor, en stöku sinnum hrotið snjókorn í fjöllum, enda verða kýr ekki út látnar hjá þeim, sem geta gefið þeim, en flestir eru alveg heylausir og verða að gjöra sér að góðu að beita þeim þó ekkert sé grasið, og lygnutjarnir allagðar með ís á hverjum morgni, fyrir utan norðan og norðaustan storma, sem stöðugt hefir minnt á, síðan í fyrstu viku þorra, að til þeirra brá. Hér í sveit var sjaldan haglaust í vetur, hefði verið hægt vegna sífelldra storma og snjóbylja, að nota þá, en í nærsveitunum Mýrum og Lóni, voru stöðugar hagleysur lengstum í vetur, og komu hingað töluverðu af hrossum og sauðfénaði, einkum af Mýrunum“.  

Bréfið úr Grímsey - dagsett 14.júlí (á trúlega að vera 14.júní - fyrsta frostlausa nótt júnímánaðar í eynni var þann 9. - lágmarkshiti var -4 stig bæði þann 4. og 5. Ekkert frost mældist þar í júlí, en fjóra daga er þá snjókomu getið):

Veturinn hefur verið veðrasamur í meira lagi, aldrei gefið á sjó, frost stígið hæst, 16°, en þar neðan undir 11-13 og nú allt að þessu 4-5° á hverjum morgni og í fæstum orðum að segja, hefur það verið einhver sá versti vetur. Árna á Sandvík, varð ónýtur í vor bjargpartur sem heitir Fótur og liggur norðan á eynni, en er nú sem Klakastólpi til að líta, fyrir þetta tapar hann þar öllum fugli og eggjum ...

Júlí: Mjög köld og óhagstæð tíð fram eftir mánuðinum, en þá brá til betra, óvenju síðbúin leysingaflóð urðu víða norðanlands.

Yfirlit Austra:

Júlímánuður. Fyrstu dagana kaldur á norðan og norðvestan., þann 4. krapaél norðaustan og snjóaði í fjöll, svo vestan til hins 8. þá norðaustan og austan með kulda til hins 23., komst hann þá suðvestan. Um þetta leyti munu flestir hafa byrjað slátt, þótt lítill væri grasvöxtur 13 vikur af sumri. Suðvestan og vestan þurrkar héldust það eftir var mánaðarins.

Jónas segir frá þann 8.júlí - enn sami kuldinn:

Þessa vikuna hefir verið óstöðugt, hlaupið úr einni átt í aðra, og má segja, að óvenjulegur kuldi sé í loftinu; [Þann] 1. gjörði hér alhvítt skömmu fyrir miðnætti af hagléljum og sama átti sér stað að morgni daginn eftir; þá varð Esjan alhvít niður til miðs rétt sem um hávetur; njóti eigi sólarinnar er hitamælir óðara kominn niður í 5-6 stig á daginn. Í dag 7. hægur á landsunnan dimmur og væta í lofti; mikil úrkoma síðan í gær.

Fróði birtir 10.ágúst bréf úr Patreksfirði dagsett 27.júlí:

Hér lítur almennt út fyrir hið stakasta grasleysi, Svo sem engir eru enn farnir að slá. Fremur var aflalítið á vorinu helst sökum mikilla ógæfta. Það er næstum eintómur steinbítur, sem aflast hefir. Þilskipin hafa aflað dável. Útlit með ástæður almennings framvegis er hið langversta sem nokkru sinni hefir verið. Vorkuldarnir og þurrkarnir hafa dregið úr öllum grasvexti. Frost um nætur var jafnvel fram í þennan mánuð og snjór í fjöll. Óþiðinn snjór enn í dag í giljum á túnum. Mörg þeirra kalin. Úthagar nú fyrst að grænka, eins engjar.

Norðanfari greinir þann 1.ágúst frá batnandi tíð nyrðra:

Í næstliðnar 3 vikur hefir hér nyrðra verið æskileg veðurátta, oftar sunnanátt með hlýindum og stöku sinnum úrkomur, hitinn á daginn í forsælunni orðið mestur 14-16 stig, en á nóttunni 8-11 á R. Vatnavextir hafa því orðið fjarska miklir. Grasvextinum hefir farið furðu mikið fram. 

Þann 8.heldur Norðanfari áfram:

Vatnavextir hafa víða hér norðanlands verið dæmafáir í þessum næstliðna mánuði, einkum þann 28., vegna hinnar miklu fannfergju, sem þá var enn eftir á fjöllum, afréttum  og sumstaðar í byggð, svo að allar stærri ár, sem renna eftir héruðum og margar þverár urðu svo vatnsmiklar að þær flóðu yfir bakka sína, svo víða spilltust slægjulönd og enda bithagi; brýr brotnuðu af þverám og fyrirhleðslugarðar ónýttust, víða hlupu og fram skriður, vegir spilltust, og er þjóðvegurinn yfir Yxnadalsheiði nú sagður illfær. Á Stóruvöllum í Bárðardal hefir skriða hlaupið úr fjallinu og tekið þar part af túninu.

Ágúst: Þurrkar og blíðviðri víðast hvar á landinu.

Yfirlit Austra:

Ágústmánuður. Vestan hægviðri og sólskin til hins 6. þá austan, síðan norðaustan kraparegn í byggð en snjór á fjöllum, svo mikill að nær því var umbrot fyrir hesta. Þann 12. kom veður norðan og norðvestan með stormi öðru hverju til hins 16., svo vestan og og suðvestan. til 22., þá suðlægur með regni til hins 24., svo norðvestan hægviðri til 28., eftir það vestan þerrir.

Fróði birtir 10.október bréf úr Austur-Skaftafellsýslu og Patreksfirði dagsett snemma í september:

[Austur-Skaftafellssýslu 8.september] Tíðin hagfelld, svo að segja úrkomulaus síðan um mánaðamót júlí og ágúst nema nú 3 daga rigning og óveður. Valllendi sprottið með minna móti, en mýrar í meðallagi. Góð nýting á því sem fengist hefur af heyi.

[Patreksfirði 4.september] Tíðin hefir verið góð og stillt um tíma, en lítill þerrir svo fólk á mikið hey úti víða. Töður eru jafnvel eigi allstaðar innkomnar. Óhætt mun að segja, að þær verði helmingi til þriðjungi minni, en í meðalári. Engjar eru víða í langsneggsta lagi. Ameríkanskt heilagfiskisskip strandaði við Barðaströnd er sagt að hafi haft 150,000 pund af heilagfiski.

September: Rigningasamt, einkum austanlands.

Yfirlit Austra:

Septembermánuður byrjaði með suðvestan hægviðri og skúradrögum til hins 4., þá austan af og til með mikilli úrkomu og hvassviðri til hins 16., birti þá upp af norðri og norðvestri með nokkru snjófalli til fjalla, héldust hreinviðri til hins 19. að hann komst austan á ný, mátti heita að óþurrkar héldust stöðugt til 28. að mánuðurinn enti með vestan þurrkum.

Austri segir 22.september frá heyskapartíð og fleiru:

Jafnvel þótt hin afarkalda vortíð héldist stöðugt langt fram eftir sumri, svo að snjóa leysti sumstaðar af túnum ekki fyrr en í júlímánuði, varð þó grasvöxtur á túnum í sumum sveitum ekki afleitur. Og þar sem svo seint tók að gróa, hélt útengi áfram að vaxa allt fram að septembermánaðarbyrjun. Var þá nær því allstaðar hér austanlands, þar sem vér höfum frétt til, engi orðið í meðallagi og víða í besta lagi. Gátu menn því vænst, þótt heyskapur yrði byrjaður með seinasta móti í Múlasýslum, almennt um 15. sumarhelgi, að heyföng kynnu á endanum að verða í meðallagi, ef þerrisamt yrði, og tíð góð langt fram á haust.

En þar sem með september brá til óþurrka og nú hefur að undanförnu allt til 17. þ.m. stöðugt rignt um 2 vikur i fjörðum og á Úthéraði, svo engjar hafa víða fyllst af vatni, en áður var votengi jafnvel í blautara lagi, þó er útlit fyrir að heyafli verði víða með langminnsta móti. Rigningagusa sú sem nú er nýafstaðin gerði mönnum mikinn skaða ekki einungis það er til heyskaparins kom, heldur og það er fisk snerti. Fyrir rigningarnar höfðu margir þvegið mikið út af fiski, sem úr þessu er litlar líkur til að þorni, svo að verslunarvara verði úr, enda hafa þegar margir saltað hann aftur niður. Og var þó mörgum áríðandi skuldanna vegna, að geta sem fyrst komið fiski sínum til kaupmanna. Af Norðurlandi var að frétta með síðasta póstskipi dágóðan grasvöxt, en bæði á Suðurlandi og Vesturlandi þótti mjög illa vaxið, og var þar útlit hið ískyggilegasta, þar sem bæði sjór og land hefur brugðist þar.

Fróði birtir 27.nóvember bréf úr Árnessýslu dagsett 25.september:

Framan af sumrinu voru þurrkar og kuldar til júnímánaðarloka, þá gerði rigningarkafla um nokkra daga, og þá fyrst mátti telja að bithagi kæmi á jörðu; en svo þornaði aftur og kólnaði og kom kyrkingur í allan grasvöxt nema votengi, þau spruttu allvel. Sláttur byrjaði ekki fyrr en um mánaðamótin (júlí-ágúst), fyrr voru tún ekki sláandi; varð þó helmings töðubrestur að jafnaði. Um túnasláttinn var vætusamt og hirtust töður víða nokkuð illa; hefir hitnað í þeim til skemmda. En þá fór útjörð helst að spretta og mun engjaheyskapur í meðallagi, eða nærfellt það í hinum láglendari sveitum. Enda þornaði aftur, svo votengi notaðist að góðum mun. Þó rigndi allmikið í byrjun september svo það fór í vatn aftur.

Í efri og þurrlendari sveitum er heyskapur svo rýr að menn muna eigi slíkt nema ef vera skyldi sumarið 1881, því þá var fádæma grasbrestur; en þó ekki meiri en nú. Þá var aftur nýting á öllu heyi hin ágætasta en nú var hún talsvert misbrestasöm; þá áttu og flestir meiri eða minni fyrningar frá fyrra ári, enn varla nokkur nú. Kál- og kartöflugarðar hafa einnig almennt brugðist; bæði fór það saman með öðru grasleysi og svo reið það baggamuninn að grimmdarfrost gerði tvær nætur saman 12. og 13.ágúst; þá dó allt kartöflugras út, og kál hefir heldur ekki þroskast síðan, fyrr enn nú næstliðna viku litið eitt því nú hefir verið væta og hlýtt veður.

Október: Bærileg tíð. Kalt norðaustanlands.

Yfirlit Austra:

Októbermánuður. Norðaustanstormur og hríðarbyljir til hins 12., fenntu þá og skemmdust mjög hey manna. Hægviðri á norðaustan og vestan þar til hlánaði af suðvestri þann 15., komu þá vestan hreinviðri til 20., þá norðaustan með snjóéljum af og til. 26. austan með kulda regni til 30.; þá suðlægur með úrkomu nokkurri síðustu daga mánaðarins.

Austri birtir 7.nóvember bréf úr Hornafirði dagsett 22.október (stytt hér):

Tíðarfarið á þessu útlíðanda sumri hefur verið gott síðan í júlímánuði því að þá brá til blíðviðra og stillingar, og hefur það haldist til þessa, nema snemma í þessum mánuði kom nokkuð kuldakast, og þá snjóaði nokkuð i fjöll, en mjög lítið á sléttu, en svo hafa nú aftur verið blíðviðri síðan. Grasvöxtur var fremur lítill hér í sumar, einkum voru tún mjög illa sprottin, svo að víða kom þriðjungi minna af þeim en i meðalári. Útengi var líka heldur illa sprottið, en það var að vaxa lengi fram eftir sumri, svo að það varð að lokum um það í meðallagi. En af því að tíðin var svo einstaklega hagfelld um heyjatímann, varð heyskapur almennt undir það í meðallagi. 

Nóvember: Bærileg tíð, nokkur snjór austanlands.

Yfirlit Austra:

Nóvembermánuður. Nærfellt stöðugt austan og norðaustan með krapableytum og áfrerum, stundum mikilli snjókomu og jarðbönnum til hins 14., hlánaði á uppsveitum og í Vopnafirði en ekki á Úthéraði þann 16., þann 17. norðan stormviðri með snjókomu, héldust norður og norðaustur með nokkurri snjókomu til 22., þá vestlægur með frosti nokkru til 25., eftir það austan með miklu regni út mánuðinn, kom þá upp nokkur jörð á Úthéraði.

Austri segir frá tíð og fleiru þann 7. og 28.nóvember:

[7.] Veturinn byrjar heldur harðindalega, á fjöll og heiðar er komið mesta fannkyngi og mun viðast til fjalla vera mjög vont til jarðar. Í byggðum er víðast alautt enn, að fráteknu föli er liggur yfir allt. Sem stendur er gott til haga í sveitum. En hláni ekki, lítur þó út fyrir harðindi. Föstudaginn 30. [október] fórst norsk smáskúta tilheyrandi Hansen kaupmanni á Seyðisfirði, í ofsaveðri úti fyrir Mjóafirði; skútunni var kollsiglt. Menn komust allir af, nema kvenmaður einn, að nafni Ragnheiður Ingimundardóttir; var undir þiljum niðri er skipinu hvolfdi. Hinir mennirnir komust í skipsbátinn.

[28.] Seyðisfirði 27. nóvember. Tíðarfar hefur um tíma verið bærilegt og allstillt, snjó þann er kom snemma í þessum mánuði, tók víða aftur að miklu leyti í byggð; þó er í sumum sveitum, einkum Úthéraði sagt vont til jarðar fyrir sakir storku, og útlit fyrir að jarðlaust verði, ef þar bætir snjó á áður en betur hlánar. 17. þ.m. var ofsa norðanveður hér i Seyðisfirði, bátur og 1 skúr fauk en skemmdust þó ekki mikið. Sama daginn var mesta ólátaveður í Jökulsárhlið sem þar er svo títt af þeirri átt, reif upp viða jarðveg þótt jörð væri frosin, og olli það miklum skemmdum á jörðu það er til útbeitar kemur. Kindur hrakti á stöku stöðum til dauðs. Og fremst i Tungunni á Stórabakka, þar sem norðanveðrin eru engu minni en i Hlíðinni, rotaðist maður er var að ganga við fé; fannst hann meðvitundarlaus úti en raknaði þó aftur við er búið var að flytja hann heim.

Þann 6.janúar 1886 birti Ísafold nokkur haustbréf utan af landi. Tíðar er þar stuttlega getið:

[Barðastrandarsýslu vestanverðri 17.nóvember]: „Hausttíð góð. ... Svo er heyskortur hér mikill eftir sumarið að menn eru nú almennt að fella af fénaði sínum þess vegna“. [Ísafirði 2.desember]: „Tíð í betra lagi til lands, lömb enn óvíða komin á gjöf“. [Húnavatnssýslu 4.desember]: „Tíðarfar gott hér um slóðir til landsins, en ekkert fæst úr sjó“. [Suður-Múlasýslu 11.nóvember]: „Tíðarfar í haust og það sem af er vetri fremur óstöðugt, en þó oftast hægviðri. Nú síðast snjóa- og úrfellasamt. Illt yfir fjöll fyrir póstana, verða að bera allt á bakinu, því ekki verður hesti komið við“. 

Suðri segir 31.desember fréttir af stjörnuhrapi. Þessi drífa sást víða um lönd, er fræg og lesa má um hana í fróðleikspistlum á netinu. Hún sást líka í Reykjavík, en þar var skýjað að miklu leyti og bar minna á:

Óvenjulegt stjörnuhrap. Frá Ísafirði er oss skrifað: Að kvöldi hins 26. og 27. [nóvember] var hér svo mikið stjörnuhrap um allt loftið, að mestu furðu gegndi, einkum síðara kvöldið; loftið var allt í einu leiftri og stjörnuglampinn svo bjartur, að björt rák var lengi eftir hrapið á loftinu í 10—15 sekúndur. Mest bar á þessu kl. 6-7 en hélt þó áfram til kl. 9, að loft þykknaði af landnorðan stormi með regni.

Desember: Tíð var talin allgóð - en umhleypingasamt var.

Yfirlit Austra:

Desembermánuður. Gerði krapastorku svo jarðillt varð og norðaustan hríðar til hins 6. Þá vestlægt og síðan norðaustlægt veður. Hinn 10. sunnan þíðviðri, svo áfreri norðaustan með snjókomu öðru hverju til hins 17., þá suðvestan leysing i 3 daga svo gott varð í högum, skiptust á útsynningar og suðaustan leysing og stormur á mis til hins 26., voru þá á lofti marglit ský nærfellt á hverjum degi með fegurstu regnbogalitum. Þann 26. var leysing með ofviðri á vestan, svo vatn og skara reif sem lausamjöll. Síðan norðvestan og norðaustan hríðar með miklu frosti til hins 30. Þá norðvestan stilling, og hinn 31. norðanveður með stormi og snjókomu.

Austri segir frá tíð 31.desember:

Seyðisfirði 28. desember. Tíðarfar hefur verið óstöðugt, en mjög milt, sjaldan komið mikil frost það sem af er vetrinum. Fyrir jólin voru stórmiklar hlákur af suðvestri, 10 stiga hiti á Réaumur 2 daga í senn. Byggðir eru nú viða næstum sumarauðar og til fjalla hefur snjórinn þynnst mikið. Í sumum sveitum t.d. á Upphéraði og Fjörðum gengur allt fé og hestar enn úti og hefur því ekkert enn verið gefið. Á Úthéraði var orðið hart áður en hlánaði fyrir jólin, hestar víðast komnir í hús og magrir orðnir, og allvíða farið að gefa fullorðnu fé til nokkurra muna.

Þjóðólfur segir þann 1.janúar 1886:

Tíðarfar er alltaf óstöðugt. Vikuna, sem leið, voru hlákur með sunnan- og útsunnanhvassviðri. Á sunnudagsnóttina [27.desember] frysti og kom dálítill snjór. Á mánudaginn var norðanstormur með talsverðu frosti (10°). Á miðvikudagsnóttina [30.] hlánaði aftur. Ofan úr sveitunum að frétta bestu jörð fyrir fénað.

Þann 8.janúar birti Þjóðólfur bréf úr Borgarfirði, dagsett 24.desember:

Það, sem af er vetrinum tíðast landátt; snjór lítill og sjaldan staðið viku lengur. Rigningar miklar. Frost mest mánudaginn 7. þ. m. 12°R. Fullorðnu fé eigi gefið enn; en lömb viðast tekin í fyrstu viku jólaföstu. Nær snjólaust nú. Verslun engin. Tveir kaupmenn (nýir) farið um koll. Lítur út fyrir bjargarskort og bágindi. 

Þann 5. febrúar birti Austri bréf frá Akureyri dagsett 8.janúar - þar segir um tíð fyrir áramót - og glitskýjasýn: 

Seinnihluta desembermánaðar mátti heita hér heldur góð tíð, oft þíður en var þó nokkuð óstillt. Í ofsaveðri 19. des. fauk hér bátur og braut í spón. Daginn eftir fannst í svonefndum Oddeyrarós vogmeri, og náðist hún lifandi, en þess vita menn engin dæmi áður, því hana rekur ætíð dauða og þó heldur sjaldan, og má því heita fágætur fiskur, og veit enginn hvar hún hefst við að jafnaði. Frá miðjum desember og allt að þessum tíma, og þó einkum rétt fyrir jólin, var oft einkennilega fagur litur á suðurloftinu, og þá mest á morgnana kl. 8-10. Skýin voru með regnbogalitum og öllum fegurstu lithreytingum, er hugsast geta. Tóku þessir litir sífelldum breytingum, dofnuðu á einum stað og skírðust á öðrum. Flestir er sáu sögðust aldrei hafa séð fegurri lit á loftinu. Loftið hefur alltaf verið mjög þrungið af vatni, og mun það vera orsök loftbreytinga þessara.

Lýkur hér að segja frá hinu erfiða ári 1885. - Í viðhenginu má finna ýmsar tölur - hitameðaltöl úrkomumagn og fleira.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ámóta staða - en þó heldur hlýrri

Landsynningsskotið í dag (þriðjudag 22.maí) var nokkuð snarpt og úrkoma mikil víða um landið sunnan- og vestanvert. Útlit er fyrir áframhaldandi úrkomutíð á þeim slóðum. Næstu lægðir verða þó varla jafnöflugar og þær síðustu tvær, ( - en engu að síður). 

w-blogg230518a

Norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á fimmtudag og eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar - því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn í fletinum. Litir sýna þykktina, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Sjá má lægðarbylgju yfir landinu á gildistíma kortsins - og síðan þá næstu við Nýfundnaland. Sú á að valda töluverðri rigningu hér á landi á föstudag-laugardag. Að sögn fylgja fleiri í kjölfarið. 

Þó heildarfyrirferð kalda loftsins minnki áberandi með hverri vikunni er það samt þaulsetið. Skipting á milli hlýja og kalda loftsins er nokkuð „eðlileg“ á þessu korti. Kalt loft er yfir þeim svæðum þar sem undirlagið er kalt - og hlýtt þar sem undirlagið er hlýtt. Staðan er því stöðugri en stundum áður - hlýindin yfir Evrópu þurrka yfirborð jarðar og auðvelda þar með þaulsetu hlýrrar hæðar. Snjórinn yfir Labrador og kaldur sjór þar austurundan kæla loftið og búa lægðardraginu kalda frekari framtíð. 

Við sjáum að sérlega hlýtt er yfir Skandinavíu. Þar má sjá að þykktin er meiri en 5580 metrar þar sem mest er - gerist vart betra hér á landi um hásumar. 

En það kemur samt trúlega að því að þessi staða riðlast. Langtímaspár eru stöðugt að gera því skóna að Skandinavíuhæðin hrökkvi til vesturs í áföngum - það myndi bæta veðurlag og hita hér umtalsvert (líka austanlands þar sem tíð hefur þó talist góð í maímánuði). 

Hins vegar hafa þessar spár ekki ræst hingað til og engin vissa fyrir því að þær muni gera það í framtíðinni. Svo er sá leiði möguleiki alltaf fyrir hendi að hæðin renni of langt til vesturs fari hún á skrið á annað borð. Við viljum varla að hún fari alveg vestur fyrir Grænland því sú staða færir okkur kaldasta loft norðurhvels á fáeinum dögum. 

Skammt öfganna á milli - háloftavindar fjörugir. 


Bloggfærslur 23. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1513
  • Frá upphafi: 2348758

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 1319
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband