Misskipting

Undanfarna daga hefur veðurlag um landið vestanvert verið nokkuð óvenjulegt miðað við árstíma, kaldur og nokkuð hvass útsynningur með éljum svo fest hefur snjó á láglendi að næturlagi. Austanlands hefur hins vegar víða verið besta veður og hiti um eða yfir meðallagi. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm dagana er +1,9 stig, -2,3 stigum neðan meðallags sömu daga 1961 til 1990, en -3,9 undir meðallagi síðustu tíu ára. Austur á Dalatanga er meðalhiti hins vegar 4,2 stig og er það +2,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en +0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mest er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár á Fonti á Langanesi, +0,9 stig. Mest er neikvæða vikið hins vegar á stöð Vegagerðarinnar á Bröttubrekku, -4,4 stig. Í byggð er kaldast að tiltölu í Árnesi, hiti -4,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á þessari öld hefur maí einu sinni hafið göngu sína kaldari en nú í Reykjavík, það var 2003 (hlýindaárið mikla). Árið 2015 voru fyrstu fimm dagarnir jafnkaldir og nú. Í fjarlægari fortíð finnum við að dagarnir 5 hafa 18 sinnum verið kaldari í Reykjavík en nú. Kaldastir voru þeir 1982, þá var að meðaltali -3,3 stiga frost þessa daga og 1979 var frostið -3,0 stig. Hlýjastir voru þeir hins vegar 1928, +10,0 stig, +9,5 stig 1935 og +9,4 í fyrra - stutt öfganna á milli. 

Það er nokkuð auðvelt að finna staka daga í maímánuði svipaða þeim sem við höfum nú upplifað - þó þeir séu að vísu ekki mjög margir á mælitímanum. En ef við leitum að mörgum dögum í röð gerast málin flóknari - veðrið er nefnilega aldrei alveg eins - spilastokkur þess er mjög stór og hendurnar í gjöfinni nánast óendanlega fjölbreytilegar. Eitthvað svipað gerðist þó í maí 1992, 1963 og 1944 og 1914 - en ekki þó það sama og ekki á nákvæmlega sömu almanaksdögum. Í nokkrum tilvikum til viðbótar hafa komið snarpir útsynningsdagar sem hafa strax snúist í norðankulda - vonandi gerist slíkt ekki nú.

Þó versta kuldanum ljúki trúlega um landið vestanvert eftir morgundaginn (sunnudag) virðist vera töluverður órói á svæðinu og efni í djúpar lægðir og úrkomu. Ekki er þó rétt að fjalla of mikið um slíkt að svo stöddu - skemmtideildir reiknimiðstöðvanna eru þekktar fyrir ólíkindi sem svo ekkert verður úr. 


Bloggfærslur 6. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 1844
  • Frá upphafi: 2348722

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1615
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband