Misskipting

Undanfarna daga hefur veðurlag um landið vestanvert verið nokkuð óvenjulegt miðað við árstíma, kaldur og nokkuð hvass útsynningur með éljum svo fest hefur snjó á láglendi að næturlagi. Austanlands hefur hins vegar víða verið besta veður og hiti um eða yfir meðallagi. 

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu fimm dagana er +1,9 stig, -2,3 stigum neðan meðallags sömu daga 1961 til 1990, en -3,9 undir meðallagi síðustu tíu ára. Austur á Dalatanga er meðalhiti hins vegar 4,2 stig og er það +2,5 stigum ofan meðallags 1961 til 1990, en +0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mest er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár á Fonti á Langanesi, +0,9 stig. Mest er neikvæða vikið hins vegar á stöð Vegagerðarinnar á Bröttubrekku, -4,4 stig. Í byggð er kaldast að tiltölu í Árnesi, hiti -4,0 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Á þessari öld hefur maí einu sinni hafið göngu sína kaldari en nú í Reykjavík, það var 2003 (hlýindaárið mikla). Árið 2015 voru fyrstu fimm dagarnir jafnkaldir og nú. Í fjarlægari fortíð finnum við að dagarnir 5 hafa 18 sinnum verið kaldari í Reykjavík en nú. Kaldastir voru þeir 1982, þá var að meðaltali -3,3 stiga frost þessa daga og 1979 var frostið -3,0 stig. Hlýjastir voru þeir hins vegar 1928, +10,0 stig, +9,5 stig 1935 og +9,4 í fyrra - stutt öfganna á milli. 

Það er nokkuð auðvelt að finna staka daga í maímánuði svipaða þeim sem við höfum nú upplifað - þó þeir séu að vísu ekki mjög margir á mælitímanum. En ef við leitum að mörgum dögum í röð gerast málin flóknari - veðrið er nefnilega aldrei alveg eins - spilastokkur þess er mjög stór og hendurnar í gjöfinni nánast óendanlega fjölbreytilegar. Eitthvað svipað gerðist þó í maí 1992, 1963 og 1944 og 1914 - en ekki þó það sama og ekki á nákvæmlega sömu almanaksdögum. Í nokkrum tilvikum til viðbótar hafa komið snarpir útsynningsdagar sem hafa strax snúist í norðankulda - vonandi gerist slíkt ekki nú.

Þó versta kuldanum ljúki trúlega um landið vestanvert eftir morgundaginn (sunnudag) virðist vera töluverður órói á svæðinu og efni í djúpar lægðir og úrkomu. Ekki er þó rétt að fjalla of mikið um slíkt að svo stöddu - skemmtideildir reiknimiðstöðvanna eru þekktar fyrir ólíkindi sem svo ekkert verður úr. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 2343338

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 383
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband