Þrálát staða

Tíðin fyrstu viku maímánaðar var heldur leiðinleg hér um landið sunnan- og vestanvert en varla er hægt að kvarta undan veðrinu síðan. Það er þó enn stutt í kulda vesturundan og staðan getur á skammri stund snúist upp í frekari leiðindi. Spár gera líka ráð fyrir nokkuð snörpum lægðagangi í námunda við landið næstu vikuna.

Fyrir nokkru [3.maí] var hér á hungurdiskum fjallað um veðurflokkunarkerfi sem kennt er við danska veðurfræðinginn Ernest Hovmøller. Það var í upphafi ætlað til aðstoðar við veðurspár og var um stund gagnlegt á þeim vettvangi. Það er ómaksins vert fyrir veðuráhugamenn að kynna sér þetta kerfi en með því má á einfaldan hátt flokka veðrið í 27 mismunandi veðurgerðir eða flokka. Reyndar geta flokkarnir verið fleiri eða færri æski notendur þess. 

Rétt eins og nota má aðferðina til að flokka veður einstaka daga ræður hún einnig við veður lengri tíma, hvort sem er viku, mánuð eða ár. Þetta auðveldar mjög leit að sambærilegri stöðu háloftakerfa í fortíðinni. Við getum t.d. spurt hvort veðurlag hafi einhvern tíma verið með svipuðum hætti og nú í maímánuði. 

Nú er það auðvitað svo að varla er nema hálfur maí liðinn - og margt getur breyst til mánaðamóta, og svo er veðrið heldur aldrei eins. Þó 27 flokkar virðist í fljótu bragði vera nokkur býsn er veðurfarið í raun miklu fjölbreyttara en svo að það úrval nægi. Einnig geta mánaðameðaltöl leynt ýmsu - sérstaklega þegar mánuður endar í heild nærri meðallagi. 

Við getum því ekki enn með nokkurri fullvissu gefið maímánuði 2018 þann veðurflokk sem hann mun á endanum lenda í. Samt er það svo að fyrri hluti mánaðarins er mjög eindreginn. Suðvestanáttin hefur verið mjög sterk í háloftunum og loftþrýstingur hefur verið með allralægsta móti að meðaltali. Hefur aðeins örfáum sinnum áður verið ámóta lágur þennan sama hálfa mánuð. 

Flokkurinn sem hefur verið ríkjandi ber einkennistöluna 336 í kerfi Hovmøllers. Talan 3 í fyrsta sæti segir að vestanáttin hafi verið vel yfir meðallagi, talan 3 í öðru sæti að sunnanáttin hafi líka verið vel yfir meðallagi og að lokum segir talan 6 í síðasta sætinu að 500 hPa-flöturinn hafi staðið venju fremur lágt. [Nánar má lesa um flokkunina í áðurnefndum pistli hungurdiska. Þar má einnig í (allstóru) viðhengi finna lýsingu Hovmøllers á öllum flokkunum 27]. 

Ritstjóri hungurdiska hefur skipað öllum mánuðum síðustu 140 ára rúmra til flokks. Upplýsingar frá því fyrir 1949 eru þó ekki alltaf sérlega áreiðanlegar - og fyrir 1920 eru mánuðir líklegri til að lenda nær meðallaginu en raunverulega getur hafa verið. En þar sem við erum ekki í alvarlegum vísindalegum hugleiðingum skulum við ekki hafa mjög miklar áhyggjur af slíku.

Hvaða maímánuðir eru það sem fá þessa einkennistölu - og hvernig var veðurlagi þeirra lýst? 

Við finnum strax 6 maímánuði fortíðar sem eiga töluna 336, árin 1934, 1943, 1978, 1989, 1992 og 2000. Almenn lýsing á þessum mánuðum er í textahnotskurn hungurdiska:

1934: Óhagstæð tíð, óstöðug og úrkomusöm. Gæftir stopular. Hiti nærri meðallagi.
1943: Fremur kalt var lengt af og óvenju óhagstætt tíðarfar. Sáralítill gróður og gæftir tregar.
1978: Fremur óhagstæð tíð. Úrkomusamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Hiti var yfir meðallagi.
1989: Umhleypingasöm tíð og óhagstæð nema sums staðar austanlands. Hiti var í meðallagi.
1992: Nokkuð hagstæð tíð einkum síðari hlutann. Hiti var nærri meðallagi.
2000: Skiptist í tvo mjög ólíka kafla. Fyrri hlutinn var hlýr, þá rigndi syðra, en góðir dagar voru norðanlands. Síðari hlutinn var kaldur og gróðri fór lítið fram.

Ekki eru þessir mánuðir eins, en samt bera lýsingarnar nokkurn svip af því sem nú hefur verið. Fram kemur að maí árið 2000 var eitthvað tvískiptur, en maí 1992 sá eini sem kallaður er nokkuð hagstæður (einkum síðari hlutann). Maí 1943 leynir afspyrnuslæmu og köldu hreti, mjög ólíku því sem nú hefur (enn) verið. 

Eins og áður hefur komið fram hefur loftþrýstingur verið sérlega lágur þennan fyrri helming maímánaðar - og svo virðist eiga að vera áfram. Enn eru það þó fáeinir almanaksbræður hans á fyrri tíð sem eiga ámóta lágan loftþrýsting. Það eru (í augnablikinu) 1934, 1956, 1963 og 1964. Af þessum ártölum hefur 1934 áður verið nefnt, en hin ekki. Í hvaða Hovmøllerflokkum lentu þessir mánuðir? Við vitum um 1934, það var 336, en 1956 er 326 - það er einn af nágrönnum 336, en sunnanáttin er meðalsterk en ekki sterk eins og nú virðist helst stefna í. Maí 1963 er hins vegar merktur sem 226, vestan- og sunnaáttir eru í meðallagi. Maí 1964 var hins vegar annað - merktur sem 126. Þá voru austanáttir ríkjandi í háloftum. 

Lýsingarnar á 1956, 1963 og 1964 eru svona:

1956: Óvenju illviðrasamt miðað við árstíma fór gróðri hægt fram. Hiti var yfir meðallagi.
1963: Kalt og hretviðrasamt lengst af. Gróðurlítið var í mánaðarlok. Hiti var undir meðallagi.
1964: Hagstæð tíð. Gróðri fór þó hægt fram sökum minniháttar hreta. Gæftir góðar. Hlýtt.

Í maí 1964 urðu talsverð umskipti um og fyrir miðjan mánuð. Fyrri hlutinn var þrálát norðan- og norðaustanátt ríkjandi, nokkuð hvöss með köflum, en ekki samt mjög köld. Síðan brá til betri tíðar.  

Miðað við spá næstu tíu daga gæti vel farið svo að meðalþrýstingur mánaðarins verði nærri meti. Gamla metið fyrir mánuðinn er 1000,3 hPa, sett 1875 (óvissa er þó um 1 hPa), en næstlægsta gildið er 1001,2 hPa, meðaltal maímánaðar 1963.  

Meðalsjávarmálsþrýstingur fyrstu 15 daga maímánaðar nú er 995,8 hPa, var 994,8 hPa sömu daga 1963, 996,1 hPa 1964 og 996,4 hPa 1956. Samkeppnin á botninum nokkuð hörð.

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 daga mánaðarins er 5,0 stig, -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1961-1990 og -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn þennan hálfa mánuð er í 13.hlýjasta sæti á öldinni (af 18). Á langa listanum er hitinn í 82. sæti af 142. Hlýjastir voru þessir dagar 1960, meðalhiti 9,4 stig, en kaldastir voru þeir 1979, þá var meðalhiti aðeins 0,3 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta maímánaðar nú 5,8 stig, +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Að tiltölu hefur mánuðurinn til þessa verið hlýjastur á Skjaldþingsstöðum, +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið í Árnesi þar sem hiti hefur verið -1,9 stig neðan meðallags sömu ára. Hiti er almennt ofan meðallags norðaustan- og austanlands.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 43,1 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Magnið er það fjórðamesta á öldinni, sömu almanaksdaga. Sólskinsstundir eru orðnar 80 í Reykjavík, og er það rétt neðan meðallags.


Af árinu 1920

Tíð var lengst af erfið fyrri hluta árs 1920. Óvenjusnjóþungt var um landið sunnan- og vestanvert, svo mjög að veturinn varð að allsherjarviðmiði um snjóavetur, „Snjóaveturinn mikli 1920“. Því miður var snjódýpt hvergi mæld reglulega. Vorið varð þungt og illviðrasamt. Sumarið dauft um landið sunnanlands, en betra nyrðra. Haustið varð hins vegar hagstætt, jafnvel talið afbragðsgott víðast hvar á landinu. 

Kristleifur Þorsteinsson á Stóra-Kroppi segir frá þessum vetri í stuttu máli í ritinu „Úr byggðum Borgarfjarðar“ (2.bindi s.112-113): 

Þá er ótalinn sá veturinn sem er einstakur í sinni röð af fannkyngi og hagleysum. Það er 1919-1920. Þá fór öll jörð í kaf undir margfaldri snjóskorpu. Alltaf hlóð niður dag eftir dag og viku eftir viku. Við og við komu blotar með regnslyddu, sem stóðu einn til þrjá klukkutíma. Við þá seig fannbreiðan saman og fyrir það varð mögulegra að komast yfir jörðina. Víðast varð alhaglaust um miðjan desember og hvergi sá til jarðar fyrr en eftir miðjan einmánuð og þá aðeins lítið eitt í lágsveitum. Um sumarmál fóru framdalabændur að reka hesta sína á haga niður um þær sveitir, er fyrst fengu snapir. Aldrei kom hláka, sem heitið gæti, frá því viku fyrir vetur, þar til fimm vikur voru af sumri. Þá var þó snjór farinn að eyðast af láglendi fyrir sólbráð. Flestar ár lágu undir sama ís í fullar þrjátíu vikur. Og Grímsá í Lundarreykjadal var riðin á ís, sem legið hafði óhreyfður á ánni í þrjátíu og tvær vikur. 

Lík Þórðar bónda á Hæli í Flókadal var dregið á sleða eftir óslitinni fannbreiðu frá Hæli að Reykjadalsá 20.maí. Mótaði þá hvergi fyrir Geirsá, sem var á þeirri leið, svo var fönnin þykk, sem yfir henni lá. Þess má líka geta, að fannir lágu víða í fjallalautum og giljadrögum fram yfir réttir, fóru þá að þiðna fyrir heitum haustvindum. Og vorblómin, sem legið höfðu allt sumarið undir fannfargi, tóku loks að breiða út blómkrónur sínar. 

Fyrstu fimm mánuðir ársins voru kaldir, síðan kom hlýr júní, hiti í júlí og ágúst var í meðallagi og fjórir síðustu mánuðir ársins allir hlýir, október reyndar afburðahlýr, sá fimmtihlýjasti á landsvísu frá upphafi mælinga. 

Mestur hiti mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 11.júní, 23,3 stig, en mest mældist frost á Grímsstöðum á Fjöllum, -27,0 stig þann 14.febrúar. Eitt landsdægurhámark stendur enn frá þessu ári, frá 30.ágúst, en þá mældist hiti á Möðruvöllum 22,6 stig. 

Í Reykjavík finnst við leit enginn óvenjuhlýr dagur, en einn í Stykkishólmi, 25.október. Kaldir dagar finnast 11 í Reykjavík, allir nema einn í fyrstu fimm mánuðum ársins. Sá eini var 23.júlí. Í Stykkishólmi voru 8 dagar óvenjukaldir. 

Fjórtán dagar teljast óvenjusólríkir á Vífilsstöðum á árinu. Þar á meðal í röð 30.apríl til og með 3.maí og þrír í röð 2. til 4.ágúst. Alla dagana má sjá á lista í viðhenginu. Þrátt fyrir hina óvenjusólríku daga í byrjun maímánaðar varð mánuðurinn í heild óvenjusólarrýr. Ef við látum mælingarnar á Vífilsstöðum vera jafngildar síðari mælingum var þetta þriðjisólarrýrasti maí sem vitað er um á þessum slóðum. 

Hæsti loftþrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 17.febrúar, 1036,9 hPa, en sá lægsti í Grímsey 28.febrúar, 946,3 hPa. Meðalmánaðarþrýstingur var óvenjulágur í marsmánuði og sömuleiðis var þrýstiórói einnig óvenjumikill í sama mánuði. Desember var hins vegar óvenjurólegur hvað þetta varðar. Október var óvenjuúrkomusamur sunnanlands, en apríl hins vegar óvenjuþurr. 

Sex dagar skila sér á stormdagalista ritstjóra hungurdiska, 10., 27. og 28.febrúar og svo þrír í röð, 5., 6. og 7.apríl. Lægðin sem olli veðrinu 10.febrúar fór yfir landið og var þá stormur af ýmsum áttum. Þann 27.febrúar var vindur af suðaustri, en af suðvestri daginn eftir. Þann 5. apríl var vindur af norðaustri, en af norðri þann 6. og 7. 

Janúar: Umhleypingasöm og erfið tíð með talsverðum snjó. Kalt.

Veðurstofa Íslands var stofnuð 1.janúar í kulda og trekki. Morgunblaðið lýsir veðrinu þann 4.janúar: „Kuldar miklir hafa verið um allt land undanfarna daga og stórhríðar fyrir norðan“. Og þann 8. segir blaðið:

Umhleypingar hafa verið hér undanfarna daga, rigningar, frost, bleytuhríðar, hagl og þrumuveður til skiptis. Á mánudaginn [5.] var ákaflega hált á götunum og fengu þá margir slæma byltu og hlutu meiri og minni meiðsl. Höfum vér heyrt um tvo, sem gengu úr liði, og eina konu, sem viðbeinsbrotnaði.

Vísir segir þann 14. að Reykjavíkurhöfn sé full af krapi út í hafnarmynni og hana hljóti að leggja ef frostið helst með logni. Þann 21. segir Vísir að í gærkveldi hafi gert ofsaveður af austri og haldist fram á nótt. Símslit hafi einhver orðið - veðurskeyti hafi ekki borist.

Í kringum þann 20. varð maður úti á leið milli Hellna og Sands á Snæfellsnesi. Þann 21. strandaði breskur togari við Garðskaga og þann 21. lenti vélbáturinn Faxi í vandræðum í illviðri á Breiðafirði, en slapp við illan leik inn til Patreksfjarðar. 

Frá Seyðisfirði fréttist þann 24. (Morgunblaðið 28.) að um Austurland allt hafi að undanförnu verið versta ótíð og jarðlaust með öllu. 

Þann 31. janúar segir Tíminn:

Útsynningurinn sem einkenndi tíðarfarið í lok fyrri viku náði fram í þessa með mikilli veðurhæð; á mánudag [26.] bregður til norðanáttar með vægu frosti, sem helst alla vikuna en fer þó aldrei yfir 10 stig. Snjókoma flesta dagana á Austurlandi, annarstaðar lítil.

Febrúar: Mjög óhagstæð og stormasöm tíð með miklum snjó. Kalt.

Þann 1. birtir Vísir fréttir af veðurfréttum - Veðurstofan var að búa um sig - mælir að því er virðist með sístöðuspám í fyrstu - en lesum alla greinina. Athugum að enn var ekkert útvarp - veðurskeytum dreift um landið í gegnum símstöðvar og fréttablöð.

Nákvæmari veðurathuganir. Frá 1. febrúar fylgir veðurskeytunum stutt lýsing á veðurlaginu, eins og það er samkvæmt veðurskeytunum á þeim tíma er athuganirnar eru gerðar. Nú sem stendur eru athuganir þessar gerðar klukkan 6 að morgni, nema á Grímsstöðum klukkan 8. Í veðurskeytalýsingunni verður aðal-áherslan lögð á það, hvernig loftvogin stendur, og ef ástæða þykir til þess, hverjar breytingar hafi orðið á henni 3 síðustu stundirnar, áður en athuganirnar voru gerðar. Af þessu má mikið marka um veðurfarið á næsta dægri eða sólarhring. Ef næstum því sama vindstaðan er á öllu landinu, verður þess einnig oftast nær getið í veðurlýsingunni, á hvaðan hann er. Hins vegar verður það, sem sést beinlínis af veðurskeytunum, svo sem hiti, úrfelli og vindmagn á stöðvunum, eigi endurtekið, nema sérstaklega standi svo á, að ástæða þyki, að vekja athygli á því.

Fyrst um sinn fylgir veðurlýsingunni enginn spádómur um það, hvernig veðrið muni verða. Slíkir spádómar eru nú sem stendur miklum vandkvæðum bundnir, og mundu ekki geta orðið svo ábyggilegir, að þeir kæmu að verulegu gagni. En til þess er ætlast, að þeir, sem hafa áhuga á því að vita um komandi veður, geri sér að venju að athuga veðurlýsingarnar, og reyni að finna í þeim nýjar reglur um veðurfarið. Fer þá varla hjá því, að menn hafi mikið gagn af veðurlýsingunni, er þeir reyna að sjá veðrið fyrir, þó að þeir auðvitað þar fyrir megi eigi vanrækja að athuga þau veðurmerki, sem þeim eru kunn að því að reynast vel.

Vísir segir þann 3. að snjóþyngsli séu nú orðin svo mikil á Hafnarfjarðarveginum að illfært megi heita um hann á bifreiðum. 

Fram á Siglufirði segir þann 8. frá ofsaveðri sem þar hafi gert að kvöldi þ.1. og hafi það haldist fram á nótt með mikilli fannkomu. Síðan hafi verið dágott veður.  

Mikið illviðri gerði þann 10. og 11. þegar mjög djúp og kröpp lægð fór yfir landið.

Fram segir frá veðrinu og afleiðingum þess á Siglufirði og þar í grennd:

Síðari hluta mánudags [9,] gekk í norðaustan byl. Var aðfaranótt þriðjudags og þann dag allan, eitt með mestu afspyrnurokum er hér koma. Fannkoman var mikil, en frostlaust að kalla mátti. Sjórokið gekk hér yfir alla eyrina og langt upp í hlíðar, og brim var svo mikið að menn muna ekki slíkt, telja það hafa verið mun meira en september-brimið 1916. Veðrinu slotaði aðfaranótt miðvikudags [11.] , en hefir þó síðan verið rosafengið. Nokkurt frost síðustu daga, hæst um 8 gráður, samtímis hefur það farið upp í 17 gráður á Akureyri.

Skaðar af völdum brimsins. Ennþá einu sinni hefur orðið hér í Siglufirði töluverður skaði, þar sem brimið sópaði burt hinni stóru bryggju Thorsteinsens úti í Bakka, er það eignatjón svo þúsundum skiptir. Varnargarðurinn hefur og verið mjög hætt kominn; hefur sjórinn grafið sig undir hann á stórum svæðum og brotið hann, og mun hann ekki þola mörg slík áföll, enda gekk óbrotinn sjórinn yfir hann inn á tjarnir, svo hér þarf skjótra aðgjörða, og garðinn þarf að hækka töluvert ef hann á að koma að tilætluðum notum. Eins og stendur þarf fólk úti á grandanum þrásinnis að flytja úr húsum sínum vegna sjávarágangs ef nokkurt brim er að mun. Úr Ólafsfirði er oss sagt að sjórótið á þriðjudaginn hafi gert þar mikinn usla. Sett um skúra og tók út úr einum þeirra nær 5 skipspund saltfiskjar. Mótorbátar sem uppi stóðu rótuðust til og brotnuðu nokkrir talsvert, og tvo róðrarbáta tók brimið. Annars hefur óveður þetta gengið yfir alt land, en fregnir hefur maður ekki af stöðum víðar að.

Austurland segir þann 14. frá veðri á Norðfirði:

Í ofsaveðrinu aðfaranótt 11. þ.m. brann íbúðarhús Vigfúsar Jónssonar til kaldra kola. Varð litlu  bjargað af húsmunum, En mannbjörg varð. Ennfremur fuku þök af húsum, og vélbátur brotnaði. 

Þann 17. segir Morgunblaðið frá því að harðindatíð og jarðbönnum um allt Austurland. „Vélbátar komast ekki hafna milli fyrir óveðrum. Vélbát rak á land á Norðfirði og brotnaði hann í spón. Annan rak á land á Hánefsstaðaeyrunum og brotnaði hann einnig“.

Morgunblaðið getur þess þ.15. að: 

Mastur loftskeytastöðvarinnar í Flatey á Breiðafirði brotnaði í stormi 10. þ.m. Er það mjög bagalegt og má búast við, að nýtt mastur fáist ekki fyrst um sinn.

Tíminn getur þess þann 14. að nokkrir skaðar hafi orðið í ofvirði af austri nú í vikunni. Róðrarskip braut í Vík í Mýrdal og þrír vélbátar ráku á land í Sandgerði. 

Í lok mánaðarins eru daufar fréttir í Morgunblaðinu [þann 27.] - fyrst er rætt um tíð austanfjalls, en síðan í Skagafirði:

Tæplega mun í manna minnum hafa komið annar eins jarðleysuvetur hér sunnanlands eins og nú. Víða hér í austursveitunum urðu menn að taka fé á gjöf um miðjan nóvember, og síðan orðið að gefa inni. Er því ekki að furða, þótt allmjög saxist á heybirgðir manna, enda er nú sagt, að þorri bænda gefi eigi lengur en til miðgóu - í hálfan mánuð enn, eða þá. í mesta lagi þrjár vikur, með því að gefa frá kúm.

Frá Hofsós er símað í fyrradag: - Um langt skeið hefir ekki komið annar eins snjór hér og nú. Er svo komið, að bændur eiga erfitt með alla aðdrætti, og aðrir þeir, sem þurfa að flytja að sér eldivið, hey og aðrar nauðsynjar. Og lítur ekki út fyrir að neinn bati sé væntanlegur í bráð, því enn kyngir snjó niður á hverjum degi. Er nú hríðarveður hið versta með nokkurri snjókomu. Ís eru menn hræddir við. En þó hafa engar fregnir borist um þann vágest ennþá.

Þann 28.birtir Morgunblaðið úr viðtali við Sigurð Runólfsson kaupfélagsstjóra í Borgarnesi:

Það er ekki nema allt illt að frétta, sagði Sigurður. Harðindatíð og slæmar samgöngur. Eg er kominn hingað [til Reykjavíkur] í þeim erindagerðum, að reyna að koma flutningi til Borgarness, en á því eru mikil vandkvæði. Skipin eru hætt ferðum vegna kolaleysis og nær ókleift að komast um Borgarfjörðinn á vélbátum vegna íss. - Er nokkuð talað um heyþrot í sýslunum þarna efra? - Ekki er það nú enn. Flestir eða allir munu hafa nóg hey til innigjafar fram á páska. En þótt menn vildi fá sér einhvern fóðurbæti, þá hamla því flutningavandræði á sjó og landi. Það er nú svo mikill snjór efra, að ófært má kalla bæja milli. Og til dæmis um það get eg sagt yður það, að upp í Norðurárdalnum er fannkyngin svo mikil, að fjöldamargir símastaurar eru algerlega komnir í kaf í fönn.

Mjög djúp lægð kom að landinu í lok mánaðar. Hún olli hláku í Reykjavík. Vísir segir frá þann 29.:

Asahláka var hér í gærdag, mikil rigning og hvassviðri. Af því að snjór var nýfallinn, varð afskaplegur krapaelgur á öllum götum, og rann vatn sumstaðar í kjallara. Loftvog stóð mjög lágt.

Í frétt í Morgunblaðinu 11. apríl er sorgarfregn:

Þrjátíu menn farast. Því miður eru menn nú orðnir úrkula vonar um að þilskipið Valtýr, eign Duus-verslunar muni koma fram. Lagði það út héðan 21.febrúar eða fyrir rúmum sjö vikum og hefir skipsins hvergi orðið vart síðan 28. febrúar. Þá sást til skipsins af öðrum skipum skammt frá Vestmannaeyjum. Er talið líklegt, að skipið hafi farist í ofsaveðrinu 28.-29. febr. Hvergi hefir neitt rekið úr skipinu svo menn hafi orðið varir við og er því ekki fengin sönnun fyrir því að það hafi farist. En útivistin er orðin svo löng, að það er óhugsandi að skipið hafi komist af. Vistir eða vatn hafði skipið ekki nema til venjulegrar útiveru og mundi hvorttveggja fyrir löngu þrotið ef skipið væri ekki liðið undir lok. [Tíminn sagði mennina vera 29].

Mars: Mjög óhagstæð tíð, umhleypingar og jarðbönn. Alloft rigndi þó syðst á landinu, en úrkomuminna og betra eystra. Hiti nærri meðallagi nyrðra, en annars var fremur kalt.

Hríðin í lok febrúar olli símabilunum Morgunblaðið segir frá þeim í fréttum þann 2., 4. og 5. mars:

[2.] Ekkert samband hefir verið við Seyðisfjörð undanfarna daga, svo sem séð verður á því, að Morgunblaðið hefir engin símskeyti fengið frá útlöndum. Símastjóri tjáði oss í gær, að síminn væri slitinn á löngu svæði hér uppi á Kjalarnesi, á alls um 6 kílómetra svæði. Fjöldamargír staurar eru þar brotnir og víða sjást engir þræðir. Þeir eru grafnir í fönn eða foknir á burt. Við Vestmannaeyjar er og heldur ekkert samband og óttast menn mjög að það sé sæsíminn, sem slitinn er.

[4.] Bæjarsíminn hefir gengið úr lagi á nokkrum stöðum, sérstaklega á Bergstaðastræti. Liggur hann þar niðri á löngu svæði og er það bagalegt fyrir símanotendur. Tíðarfar hefir verið nú að undanförnu óvenjulega illt. Mun nú kominn meiri snjór hér í Reykjavík en menn muna eftir. Yrði ekki sældarfæri á götum höfuðstaðarins ef skyndilega gerði hláku.

[5.] Ekki hefir enn verið unnt að gera við símabilanirnar sem eru á aðallínunni norður og vestur. Stöðugir stormar og hríðarveður hefir veríð undanfarna daga og menn lítið getað aðhafst. Á Hvalfjarðarströndinni er bilað mjög víða og á Kjalarnesi. Vantar bæði efni og menn til viðgerðarinnar, en ráðgert er að senda menn og efni á vélbát upp í Hvalfjörð undir eins og veðrið batnar. Gjörla vita menn ekki, á hve mörgum stöðum síminn er bilaður. En hann er bilaður víðast hvar á allri leiðinni frá Kjalarnesi og upp að Stóra-Kroppi, en menn búast og við því, að þar fyrir norðan séu og mikil brögð að skemmdum. Vestmannaeyjasíminn er og slitinn og óttast menn mjög, að það sé sæsíminn sem er bilaður, og þá líklegast að botnvörpungur hafi slitið hann. Efni kvað vera hér fyrirliggjandi til þess að gera við hann, en það verður vitanlega mjög dýr viðgerð, þar sem leigja verður til þess sérstakt skip. Frá landssímanum fengum vér þær upplýsingar í gær, að þetta væri stærsta símabilunin, sem orðið hefði síðan síminn var lagður. Mun líða langur tími uns hann kemst í samt lag aftur alstaðar, en ritsíminn ætti að komast í lag aftur innan skamms. Síminn er allstaðar í lagi norðanlands og eins á Vestfjörðum. Er línan heil að austan alla leið að Stóra-Kroppi.

Í sama blaði er frétt um skipskaða og vandræði:

Í fyrrakvöld lá við sjálft að botnvörpunginn breska þann sem Björn Ólafsson er með, ræki upp í Grandagarðinn, eins og getið var um blaðinu í gær. Fór botnvörpungurinn „Rán" til þess að hjálpa skipinu, en svo óheppilega tókst til, að skipið sigldi á vélbát, sem lá vestur á höfn, og sökkti honum. Þó tókst að draga hann austur að steinbryggju áður en hann sökk. Bátur þessi heitir Elliði og er eign Sigurjóns Ólafssonar útgerðarmanns. Í Sandgerði rak mótorbát á land í fyrradag. Heitir sá Skalli og er af Mýrunum. Að sögn er báturinn mikið brotinn.

Vísir kvartar þann 3. mars:

Fádæma ótíð hefir veríð hér undanfarið og fer alltaf versnandi. Í gær skiptist á stórhríð slydda og rigning. Í nótt var aftakaveður og i morgun hefir gengið á með dimmviðriséljum. 

Tíminn segir frá þann 6.mars (lítilsháttar stytt hér):

Gefur æ ofan snjó á sjó og frýs jafnóðum, því að oftast blotnar í annan daginn. Illviðrin sem gengið hafa undanfarið eru orðin meiri en flestir muna. Tjón margvíslegt var hér i höfninni í ofviðrunum. - Franskur botnvörpungur losnaði og rak á land við hafnargarðinn. „Suðurland“ skemmdist töluvert, siglutré brotnaði o.fl. Skrúfan brotnaði af koksskipinu og vélbátur, hlaðinn heyi og skepnufóðri, sem átti að fara að Gufunesi, sökk með öllu saman. Símarnir hafa verið bilaðir í allar áttir frá Reykjavík undanfarna daga, svo ekki hefir verið hægt að ná sambandi nema til Hafnarfjarðar og Keflavíkur.

Harðindin. Hvaðan, sem heyrist af landinu, eru sömu fréttir: harðindi, jarðbönn og yfirvofandi heyleysi, ef ekki skiptir brátt um tíð. Mun ástandið í mörgum útigangssveitum vera mjög ískyggilegt. Fannkyngi er víða svo mikil að bændur eiga erfitt með alla aðdrætti og póstar verða að fara gangandi yfir heiðar og fjallvegi.

Vísir lýsir leiðindum þann 10.:

Marahláka og rigning var hér seinni partinn í gær. Um miðaftan fór að hvessa ákaflega af landssuðri, en gekk i útsuður seint á vökunni. Flughálka var á götunum og illt umferðar þegar dimma tók. Fólk var eins og fjaðrafok á hálkunni, rennandi og dettandi, og má mikið vera, ef enginn hefir slasast.

Vísir segir þann 12. að bærinn Grafardalur (sagður í Skorradal) hafi verið svo sokkinn í fönn að fólk hafi ekki haldist þar við og hrakist að Draghálsi fyrir um hálfum mánuði. Daginn eftir segir blaðið að snjóþyngsli séu nú svo mikil að skelft hafi yfir girðinguna um íþróttavöllinn, en hún sé um fjögurra álna há (2,5 m). 

Þann 18. mars segir Morgunblaðið frá heyþroti á Snæfellsnesi og skemmdum á hafnargarði í Reykjavík:

Í símtali við Stykkishólm í gær fréttum vér að margir bæir þarna á Snæfellsnesinu væru þrotnir að heyjum og væru farnir að fella eða skera. Og mjög margir bæir væru að leita hjálpar hreppsnefndarinnar. Og einn bær á Skógarströndinni kvað hafa haldið lífinu nú um allangan tíma í nokkrum hrossum á tómum harðfiski. Eru þetta skuggalegar fréttir og þó ekki verri en við var að búast. Og má vænta svipaðra fregna úr fleiri stöðum, ef sama tíðarfari heldur enn áfram og nú hefir verið undanfarið.

Örfiriseyjargarðurinn skemmdist dálítið að innan í útsynningsbriminu síðast í febrúar. Lætur hafnarstjóri gera við skemmdirnar svo fljótt sem auðið er.

Svo kom bloti - og hann olli vandræðum - Morgunblaðið segir frá í nokkrum pistlum:

[20.] Ekki hafði þíða staðið nema nokkra tíma í gær, er flestar götur voru orðnar fljótandi í krapavatni. Mun mörgum standa stuggur af vatnsgangi þeim, sem verður í bænum, ef snögg hláka kæmi.

[24.] Ágæt hláka var í gær, þíðvindi og 6 stiga hiti þegar heitast var. Enda varð víða vötnugt í bænum. Fossandi lækir um göturnar og tjarnir þar sem afrennsli vantaði. Fyrir utan borgarstjóraskrifstofuna var vatnið í kálfa og urðu menn að vaða yfir til þess að komast þangað inn, þangað til vaðallinn var brúaður með löngum stiga og flekum. 

Austurland segir þann 13. frá hrakningum:

Valdór Bóasson frá Reyðarfirði hugðist fara til útlanda með e/s „Island" og lagði af stað að heiman að morgni laugardags 6. þ.m. Hreppti hann villur og hrakninga mikla, lá úti um nóttina í ofsaveðri því hinu mikla er þá var. Kom hann hér laust fyrir hádegi á sunnudag og þótti mönnum undravert að hann skyldi hafa komist lífs af í fárviðrinu, þar eð hann villtist um nóttina á hinum afartorfæra fjallgarði, milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar. Þykir ýmsum sá fjallgarður ill-fær að vetrarlagi að björtum degi og þótt góðviðri sé. 

Fram segir frá skárri kafla í pistli þann 20.mars:

Fremur hæg veðrátta hér í Siglufirði fyrri part vikunnar en töluverð frost. Í gær gekk í landátt og er í dag komin asahláka, sú fyrsta á vetrinum. Fréttir bæði austan og vestan herma hið sama, allstaðar hláka, og er vonandi að framhald verði á henni, því víða mun nú vera orðin brýn nauðsyn á að breytist til um tíðarfar. Um allt land hagleysur, og víða svo mikil fannkyngi að slíks eru engin dæmi, sumstaðar sunnanlands voru símastaurar á kafi í fönn á löngum svæðum.

Mánudaginn 29. mars fórst bátur á Faxaflóa með tveimur mönnum. Vísir (1.apríl) segir að ofsaveður hafi skollið á síðdegis. 

Apríl: Óhagstæð tíð, stormasöm og óvenju mikill snjór á jörðu þó úrkoma væri ekki mikil. Kalt.

Austurland segir þann 10. frá snjóflóðaslysi sem varð þann 6.:

Á þriðjudaginn 6. þ. m. hljóp snjóflóð á bændurna í Viðvík [í Skeggjastaðahreppi] hér í sýslu, Ólaf Grímsson og Sigurð Þorsteinsson. Beið Ólafur bana af, en Sigurður fannst með lífsmarki, en tvísýna er á lífi hans. [Morgunblaðið segir þann 16. slysið hafa verið á Vopnafirði og báðir mennirnir hafi látist, Austurland segir hins vegar þann 15. að Sigurður sé kominn á fætur og slysið hafi orðið í Viðvík]. 

Páskadag bar upp á 4.apríl að þessu sinni. Þá og næstu daga á undan var sæmilegasta veður. Vísir segir þann 3.: „Góðviðri var hér bænadagana og fjöldi fólks á götunum að njóta góðviðrisins eins og á sumardegi. Fram á Siglufirði segir einnig frá blíðu þann 3.:

Indælasta tíð þessa viku, undanfarna daga sólbráð og hitar og væg frost um nætur. Er víða hér í firðinum að byrja að koma upp jörð. Víða í sveitum vestur undan er og sögð komin besta jörð og að sunnan er sögð góð tíð. Vonandi er kominn algerður bati.

En batinn kom ekki heldur skipti aftur til harðinda og nú með slæmum norðlægum áttum. Kast þetta minnir að mörgu leyti á páskahretin frægu 1917 og 1963 en var ívið vægara hvað veðurhörku snertir. 

vi_1920-04-04

Hér má sjá veðurkort sem sýnir veðrið á páskadag 1920, teiknað á hinni nýstofnuðu Veðurstofu Íslands. Þær athuganir sem ritaðar eru með svörtu bleki eru veðurskeyti dagsins, athugun gerð kl.6 að morgni. Þetta eru þær athuganir sem lagðar voru til grundvallar „útlitinu“ sem lesa má neðst á myndinni. Athuganir sem eru ritaðar með bláu bleki voru settar inn alllöngu síðar þegar veðurskýrslur höfðu borist frá stöðvunum. Þær athuganir voru gerðar kl.8. Eins og sjá má af texta „útlitsins“ er hér enginn grunur um yfirvofandi stórhret sem hófst þegar næsta dag. 

Fram segir frá þann 10.:

Sífeld norðanhríð síðan á annan í páskum; hafa menn verið hræddir við að ísinn væri að reka að landi, en ekki mun hann þó nálægur ennþá því stórbrim hefur verið á, og er, eins og að haustdegi. 

Hvasst var í Reykjavík og víðar í rokinu og segir Morgunblaðið frá þann 7. og 8.:

[7.] Í rokinu í fyrrinótt rifnaði járn af svarðarskúr við Spítalastíg. Slöngvaðist járnið á næsta hús, braut þar glugga og dyr og stórskemmdi húsið. Lá og við að meira slys yrði að, því að tveir menn voru að fara inn úr dyrum hússins, sem járnið lenti á, en þeir sluppu aðeins inn áður. 

[8.] Í norðanveðrunum undanfarna daga hafa allmikil brögð orðið að skemmdum á landsímanum - í gær var ekkert samband við Seyðisfjörð og talið að síminn væri víða slitinn milli Akureyrar og Seyðisfjarðar. Talsímasambandi var ekki hægt að ná milli Borðeyrar og stöðvanna þar f'yrir austan til Akureyrar, en aðeins ritsímasambandi. Enn fremur var síminn til Stykkishólms slitinn einhversstaðar á Snæfellsnesi og ekkert samband þangað. Aftur á móti var samband við Vestfirði og sömuleiðis austur í sýslur. Getur vel dregist nokkra daga að síminn til Seyðisfjarðar komist í lag aftur. Bæjarsíminn hefir einnig slitnað mjög víða undanfarna daga, en þó víðast hvar orðið gert við hann jafn harðan.

Stormurinn og gluggarnir. Í ofsaveðrinu í gær [7.] lá við sjálft að alvarlegt slys yrði í Austurstræti. Maður nokkur var á gangi fyrir framan verslun Ásgríms Eyþórssonar. Kom þá allt í einu bylur og svipti glugga úr húsinu og lenti hann á höfði mannsins. Féll hann til jarðar og særðist á höfði. En var þó ekki verr farinn en það, að hann gat gengið til læknis með hjálp tveggja manna.

Þann 4. maí birtir Morgunblaðið bréf úr Skagafirði dagsett 9.apríl:

Vetur þessi hefir verið mesti jarðbannavetur sem komið hefir hér í þeirra manna tíð, sem nú lifa hér. Góðviðri var hér um bænadagana og kom þá allvíða upp dálítil jörð, en á annan í páskum var komin norðanstórhríð með ofsaveðri, fannkomu og frosti og síðan hefir hún haldist. Víða er farið að gefa fénaði mat og ef þessi tíð helst þennan mánuð út, er heyskortur vís hjá fjöldanum.

Þann 10. segir Morgunblaðið frá því að vart hafi orðið við hafís fyrir utan Ísafjörð. 

Harðindapistill er í Morgunblaðinu þann 15.apríl:

Svo sem marga mun hafa grunað, varð kuldakastið síðasta nærgöngult mönnum til sveita. Hefir allvíða frést um heyþrot og bjargarleysi fyrir búfénað manna. Verst mun ástatt í sveitunum kring um Breiðafjörð. Höfum vér nokkurn veginn áreiðanlegar heimildir fyrir því, að þar muni vera búið að skera svo mjög niður sauðfé á mörgum bæjum, að ekki séu nema um 20 kindur eftir á bæ. Og þær við lítil eða engin hey. Kvað Gufudalssveitin hafa orðið verst úti. Hestar hafa verið reknir langar leiðir þar sem helst var vottur einhverrar snapar. En þá skorti hús fyrir þá. Voru þeir þá birgðir í snjóhúsum. Mun það fátítt, ef ekki einsdæmi hér á landi, þó snjóaland sé. Út í eyjar hafa Breiðfirðingar komið allmiklu af fénaði. Verður bann að bjargast þar á guði og gaddi. Matarlitlir munu og Breiðfirðingar vera sumstaðar. Lögðu þeir úr einum hreppi fyrir skömmu út í Flatey að sækja mönnum og skepnum björg. En tepptust í 3 vikur, fengu engan mat og urðu að skera, þegar heim kom, til að létta á heyjum og sjálfum sér til bjargar. Hríðarveður var á Norðurlandi í gær. 

Ísafold segir fréttir úr Svarfaðardal þann 19.apríl:

Tíðarfarið hefir þennan vetur gengið hart að sveitarmönnum, einkum þeim sem hafa bústofn fyrir að sjá, Mun ekki auðmunaður annar eins snjór og nú er hér. Þó hafa snjóþyngsli ekki verið hér svo tilfinnanleg í allan vetur. Verstir hafa verið umhleypingarnir og hlákublotarnir sem brætt hafa annað slagið og síðan hefir allt hlaupið í gadd svo algerð jarðbönn hefir oftast verið nema á skástu útbeitarjörðum. Er því orðinn langur innistöðutími. 

Í sama tölublaði Ísafoldar eru síðan fréttir af hafís:

Norskt hvalveiðaskip lenti í hrakningi norður að Jan Mayen nú fyrir skemmstu. Þar varð fyrir skipinu föst íshella. Skipið fylgdi svo ísröndinni óslitinni suðvestur frá eynni alla leið að Horni. Þar var ísinn landfastur, svo að skipið komst ekki vestur fyrir. Skipstjóri lét þá snúa við og hélt til Siglufjarðar. Þangað kom skipið í gærmorgun. Á leið frá Horni austur með landinu urðu tvær ísspangir fyrir skipinu, þó var sá ís ekki mjög þéttur.

Hafíshrafl fyrir Norðurlandi. Frá Blönduósi var oss símað í vikunni að þaðan sæist hafíshrafl úti í Húnaflóa. Þá sá maður sem var á ferð úr Trékyllisvík til Hólmavíkur, töluvert íshrafl inn undir Reykjarfirði. En veður var dimmt svo ekki sást til hafs, en menn nyrðra byggja að eigi séu mikil brögð að hafís, enn sem komið er, og draga þeir þá ályktun af því að töluvert brim fylgdi norðanstorminum um daginn.

En hafísmagnið reyndist lítið. Morgunblaðið segir þann 24. að víst megi telja að hafís sé enginn að ráði hér við land. Daginn eftir segir blaðið frá því að aðfaranótt 24. hafi verið sú fyrsta frostlausa á vorinu. Götur þíðar og tjarnir ólagðar. 

Fram segir þann 1. maí að þann 24. hafi veður enn snúist til verri vegar „ ... og hefur síðan mátt heita óslitin norðanhríð með töluverðu frosti, heldur kuldaleg sumarveðrátta. Fyrst í dag, að dágott veður má kalla“. 

Morgunblaðið er 1. maí með þær fréttir frá Þingeyri (30.apríl) að þar væri stórhríð öðru hvoru og fannburður nokkur. Þann 4. segir blaðið í fréttum frá Hvammstanga: „Sífelldir norðankuldar ganga hér og haglítið víða“.

Maí: Fremur óhagstæð tíð og köld.

Morgunblaðið segir frá því þann 6.maí að þrjú bjarndýr hafi gengið á land af ísnum á Vestfjörðum og eitt þeirra verið skotið. 

Vísir segir þann 7.maí að snjór hafi fallið í Reykjavík í nótt og í morgun svo jörð varð alhvít. 

Þann 12.maí segir Morgunblaðið fréttir af ísnum á Tjörninni:

Ísinn á tjörninni er nú loks allur bráðnaður og drengir farnir að sigla skútum sínum um hana. Vinna í kálgörðum er að byrja á stöku stað í bænum. Er það óvanalega seint, því um þetta leyti er venja að búið sé að stinga upp garða víðast hvar í bænum.

Þann 14.maí fannst snarpur jarðskjálfti í Reykjavík svo menn fullyrtu að annar meiri hefði ekki orðið síðan 1896. (Morgunblaðið þann 15.maí). 

Tíminn segir frá 15.maí:

Kuldar hafa verið fram yfir miðja viku og hvítnað jörð hér við og við. Brá til landsynnings á föstudag með töluverðri úrkomu og stormi. Í túnum er ekki nema rúmlega orðið ristuþítt og vottar rétt fyrir grænu kögri undir görðum.

Viku síðar segir sama blað frá því að engir garðar muni enn klakalausir. En undir Eyjafjöllum séu tún algræn orðin. 

Þann 20.maí segir Morgunblaðið að daginn áður hafi verið kalt veður og hríðarfjúk öðru hvoru. Enn fannst jarðskjálfti. Sama dag segir Vísir undir fyrirsögninni „Snjóar enn!“:

Snjór kom úr lofti hér í bænum í gær, en festi ekki á jörðu. Á Norðurlandi var talsverð fannkoma i fyrrinótt og jörð alhvít um morguntíma.

Þann 12.ágúst birtir Tíminn pistil undir fyrirsögninni „afleiðingar vetrarins“.

Lengi verður hann í minnum hafður sá langi snjóavetur síðasti. Má nú enn tvennt nefna til marks um harðindin. Annað er það, að tófur hafa orðið hungurmorða a.m.k. á Snæfellsnesi og mun það sjaldgæft. Sáust þær um hábjartan dag niður við bæi á Skógarströnd. Í vor fannst dauð tófa heima við fjárhúsvegg á Hofstöðum í Miklaholtshrepp. Báðar hafa drepist úr hungri. Hitt sem nefna má er það, að víða um land sést nú mjög lítið af rjúpu og halda menn að hún hafi fallið stórkostlega í vetur. Á Skógarströnd er t.d. vant að vera afarmikið um rjúpu. Þar hefir ekki sést nema ein einasta rjúpa í allt vor og sumar. Á ferðalagi sem ritstjóri þessa blaðs fór norður á Akureyri og aftur suður og öðru um Borgarfjörð og síðan yfir Uxahryggi og Mosfellsheiði, sá hann ekki eina einustu rjúpu. Væri fróðlegt að fá um þetta fréttir víðar af landi. — Sömuleiðis væri fróðlegt að frétta um afkomu hreindýra á þessum vetri, og mælist Tíminn til að fá fréttir um það.

Júní: Þurrt fyrri hlutann, en síðan heldur meiri úrkoma. Fremur hlýtt.

Morgunblaðið segir af góðri tíð þann 2. og 6.júní:

[2.] Tún öll hér í bænum og nágrenninu hafa grænkað mjög og sprottið síðustu dagana, og blóm eru að koma upp í görðum.

[6.] Veðrið hefir verið óvenjulega gott síðastliðna viku, en sólskinslítið. eru nú útsprungnar sóleyjar á nokkrum túnum hér í bænum.

Vel viðraði eystra að sögn Austurlands þann 19.júní:

Einmuna tíð er nú hér austanlands, til lands og sjávar og má segja að ágætlega hafi ræst úr vandræðum þeim, sem helst leit út fyrir að almenningi mundi að höndum bera.

Vísir lýsir veðri í Reykjavík þann 17.júní (þann 18.):

Í gær var eitthvert besta og blíðasta veður, sem hér getur komið, sólskin allan daginn og hitinn nær 20 stig í forsælu, meðan heitast var.

Einnig voru góðar fréttir frá Siglufirði þann 12. og 19. júní - Fram lýsir:

[12.] Einstök stilling til lands og sjávar og sterkjuhiti á hverjum degi. Þá er það fyrst í þessari viku að kalla megi að góð jörð sé komin hér til dala. Fjárhöld hér nærlendis eru í allra besta lagi, sem algjörlega má þakka hinum óvenju hagstæða bata.

[19.] Sama góða tíðin og grænkar jörð jafnóðum og snjóa leysir; er víða við sjó kominn besti gróður fyrir allar skepnur. Eru nú fannþyngsli víða til dala hér nærlendis.

Síðan tók heldur síðra við að sögn blaðsins (26.júní):

Síðastliðna sunnudagsnótt [20.júní] gekk í versta norðanstórveður sem hélst fram á mánudag, síðan dágott veður, en heldur kaldara þó þessa viku en undanfarið, samt miðar gróðri vel áfram.

Slys. Í norðangarðinum um síðustu helgi vildi það sorglega slys til að mann tók út af vélskipinu „Flink“ frá Akureyri, fyrir Vesturlandi; náðist hann ekki aftur. Hann hét Stefán Sigmundsson frá Austarahóli, Flókadal í Fljótum, ungur maður ókvæntur. Skipið kom með brotið mastur og illa til reika inn til Ísafjarðar á miðvikudag.

Morgunblaðið segir af leifum af snjóþyngslum í fréttum þann 8. og 16.júní:

[8.] Snjóþyngsli eru enn víða úti um land. Í Reykjarfirði var ekki farið að láta út fé fyrr en í fimmtu viku sumars, og enn kváðu þar vera hús i kafi víða, sem lágt standa.

[16.] Bifreið fór í fyrsta sinni á þessu sumri yfir Hellisheiði í fyrradag. Sagði bifreiðarstjórinn Gunnar Ólafsson, að heiðin mætti heita alófær vegna skafla. Varð hann á tveim eða þrem stöðum að aka langa leið utan við veginn.

Júlí: Óþurrkatíð á Suður- og Vesturlandi, allgóð tíð nyrðra og eystra. Hiti í meðallagi.

Fram segir þann 10.júlí að veðrátta sé hæg og hlý á Siglufirði, en þoka sé um nætur. Úrfelli hafi gert Þann 17. eru þokur tíðar og austanstormar til hafsins en góð tíð til landsins. Viku síðar, þann 24. eru sífelldir stormar til hafsins, þokur og úrfelli þessa viku, og svo kalt að snjóað hefur í fjöll öðru hvoru.   

Morgunblaðið segir þann 25.júlí:

Kuldatíð var svo mikil á Norðurlandi síðari hluta síðustu viku, að í Laxárdal í Skagafirði snjóaði allt ofan að bæ einn daginn. Grasspretta kvað þó vera allgóð, en óþurrkasamt um nokkurt skeið fyrirfarandi.

Ágúst: Óþurrkar á Suður- og Vesturlandi eftir sæmilega þurrkglennu í byrjun mánaðar, en gott nyrðra og eystra. Hlýtt nyrðra, en hiti annars í meðallagi.

Morgunblaðið segir enn frá leifum af snjóalögum vetrarins þann 18.ágúst:

Landlæknir er nýkominn úr eftirlitsferð um Snæfellsnes. Sagði hann tíðindamanni Morgunblaðsins að hann hefði séð vetrarskafla alveg niður við sjó í Berufirði, Króksfirði og Gilsfirði. Í Saurbænum innarlega, þar sem Hvítidalur er hafi verið stór snjóskafl alveg við túnið. Kvaðst hann hafa spurt bóndann þar hvenær tekið hafi af túninu og fengið það svar, að túnið hafi verið orðið alautt í 11. viku sumars. Mun þetta vera nær einsdæmi. Grassprettu sagði landlæknir allgóða víða, en nokkuð misjafna þó. Veturinn síðasti var einhver harðasti vetur sem menn muna.

Morgunblaðið segir þann 24. frá skipsstrandi við Kötlutanga [hugsum til þess að hann var aðeins 2 ára gamall og meiri en nú er] og öðru í Keflavík:

Aðfaranótt sunnudagsins [22.ágúst] strandaði danskt seglskip á Kerlingardalsfjörum vestanvert við Kötlutanga. Veður var hið versta, sjógangur mikill og brim og þoka á. Skipið heitir „Haabet“ og var hlaðið kolum frá Bretlandi til Reykjavíkur. Skipverjar voru alls 7 á skipinu en aðeins 4 þeirra komust lífs af, og er skipstjórinn einn þeirra.

Skipstrand. Í fyrrinótt [spurning hvort það er 22. eða 23.ágúst] rak danska seglskipið „Hebe" á land í Keflavíkurhöfn og brotnaði mjög. Kom það þangað fyrir nokkru, fermt salti til Matthíasar Þórðarsonar, og var nær helmingur farmsins kominn á land. Ofsarok skall á og er skipverjar sáu að skipið var farið að reka, fóru þeir á skipsbátnum í land, en litlu síðar var skipið komið upp í kletta.

Morgunblaðið birtir heyskaparfréttir úr nágrenninu þann 25.ágúst:

Sneggja er sögð í nálægum sveitum og hefir heyskapur yfirleitt gengið illa það sem af er.

Svipað er að heyra hjá Tímanum þann 21.:

Kalið í túnum hér syðra hefir mjög víða reynst að mun verra en í hitt eð fyrra [1918].

September: Nokkuð góð tíð, en úrkomusöm. Fremur hlýtt.

Þann 17. segir Morgunblaðið af berjasprettu:

Hvern góðviðrisdag streymir fólkið héðan úr bænum um þessar mundir upp í Mosfellssveit í berjamó. Segja menn, að óvenjumikið séum krækiber á þessu ári, en bláber hafa eigi þroskast til fulls ennþá.

Þann 24. september segir Vísir af eldingatjóni:

Í morgun sáust hér eldingar í suðri og fylgdu þeim miklar þrumur. Skömmu síðar fréttist, að eldingu hefði slegið niður í símaleiðsluna sunnan til í Hafnarfirði. Kom hún í fjóra símastaura og klauf tvo þeirra að endilöngu niður í jörð, en símasamband slitnaði við allar stöðvar sunnan Hafnarfjarðar. Allir eldingavarar þar á símastöðinni brunnu í sundur, og nokkur símanúmer komust úr lagi. Eldingunni hafði og slegið niður í tún í Hafnarfirði og valdið þar nokkrum jarðspellum.

Morgunblaðið segir þann 25. af aftakaveðri og eldingum:

Aftakaveður var hér í fyrrinótt, rokstormur af suðaustri með úrhellisrigningu. Um kl.8 að morgni voru þrumur og eldingar, en það er sjaldgæft í þessu landi. Sló einni eldingunni niður við Óseyrarlæk við Hafnarfjörð og gerði þar usla nokkurn, braut 7 símastaura meðal annars, en eigi hefir frést um að nokkurt manntjón hafi orðið.

Vísir birtir þann 27. viðbótarfrétt um eldingarnar:

Maður og kona voru að talast við í síma hér i nágrenninu þegar þrumurnar gengu á föstudaginn, og urðu bæði fyrir sterkum rafmagnsstraum af völdum eldingarinnar. Konan kastaðist út i horn frá símanum, en maðurinn hafði eitthvað meiðst. - Fólk ætti að hafa það hugfast, að það er talinn mesti lífsháski að tala í síma í þrumuveðrum og við því varað í símaskránni.

Þann 25. fjallar Tíminn um tíðina:

Síðan í ágústbyrjun hefir heyskapartíð verið afar óhagstæð um allt Suðurland og hey hrakist víða að miklum mun. Um síðustu helgi komu fáeinir þurrir dagar og hjálpuðu þeir mikið. Gátu þá margir náð heyjum og lokið sér af fyrir réttirnar. Síðan um miðja viku hafa verið stórveðursrigningar á hverjum degi. Það var fróðleg mynd um að bera saman heyskapartíðina nyrðra og syðra, að vera staddur niður [við uppskipun úr] Lagarfossi um daginn. Var verið að flytja á land úr skipinu hvanngrænt, ilmandi og ágætlega þurrt hey norðan úr Eyjafirði, en á bæjarbryggjunni voru heyfarmar úr nágrenninu: hálfgert eða algert votaband, gulnað og fúlt hey og stórkostlega skemmt.

Morgunblaðið segir 1.október:

Mjög skiptir í tvö horn um tíðarfar á Norðurlandi og Suðurlandi. Þegar þrumur og eldingar geisuðu hér síðast og ollu skemmdum, og ofsastormur var á, var hið mesta blíðviðri á Norðurlandi, sólskin og logn segir maður í símtali hingað, sem var á ferð yfir Siglufjarðarskarð sama morguninn og eldingarnar voru hér.

Október: Góð tíð og lengst af mjög hlýtt. Mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi.

Morgunblaðið heldur áfram að bera saman tíð syðra og nyrðra í pistlum þann 6., 10. og 15. október:

[6.] Þurrkar voru um helgina síðustu [2. til 3.] og munu menn hafa reynt að nota þá til þess að bjarga einhverju af heyjum sínum. Í gær byrjaði aftur sama votviðrið. Sumstaðar þar sem engjar eru blautar, kvað vera mjög erfitt að bjarga heyinu, því að allt er þar á floti. Bændur hér sunnanlands kvað víða vera mjög illa staddir, vegna þess að heyskapurinn hefir brugðist svo hrapallega. Svo er sagt, að margir muni verða að hætta búskap vegna heyskorts. Heyrst hefir að Hvolhreppurinn eystra sé sérstaklega illa staddur, en nákvæmar fregnir höfum við ekki fengið þaðan.

[10.] Veðrið hefir verið votviðrasamt síðan um síðustu helgi og rignt á hverjum degi. Hlýtt hefir þó verið í veðri oftast nær. Til dæmis var í gær 10 stiga hiti hér. Á Akureyri voru 14 stig og á Seyðisfirði 17 stig í gær kl.4. Menn eru að vona að hann létti upp í dag, eftir þeirri reglu að best sé veður um helgar í óþurrkum.

[15.] Blíðviðri hafa nú verið í allt haust á Austurlandi. Daginn sem Gullfoss lá á Seyðisfirði, voru 19 stig í forsælu þegar heitast var. Ekki hefir hvítnað á fjallatindum ennþá, en óðum þiðnað gömlu fannirnar, sem voru óvenju miklar fram eftir sumri eftir snjóaveturinn síðasta. Austurvöllur sprettur nú óðum í blíðviðrinu og sjást þar nýútsprungnir fíflar.

Morgunblaðið segir þann 21. frá fyrsta snjó haustsins á Akureyri:

Akureyri í gær. Fyrsti snjórinn á haustinu féll hér í fyrradag [18.]. Varð alhvít jörð og vetrarlegt. Annars er veðrið dágott og hefir verið í nær allt haust. 

Vísir segir frá hvassviðri í frétt þann 26.október:

Allmikið hvassviðri var hér í gærkveldi og nótt, en ekki hefir frést um skemmdir af því. Vert er að vekja athygli á því, að margt lauslegt liggur hér umhverfis hús í bænum (einkum þau, sem í smíðum eru), svo sem bárujárn, tómir kassar o.fl. og feyktist sumt af því um göturnar í gærkveldi. Stórslys geta hlotnast af þesskonar hendingum, einkum þegar dimma tekur. Lögreglan þyrfti að láta eigendur hirða allt slíkt rusl, áður en næsta veður feykir því um göturnar.

Nóvember: Góð tíð, fremur þurrt nyrðra. Hlýtt.

Morgunblaðið segir þann 5. frá fyrsta snjó haustsins í Reykjavík: 

Snjór sást hér á jörð í fyrsta skipti í haust í fyrrakvöld seint. En horfinn var hann strax og sól kom upp í gærmorgun.

Vísir segir frá snöggri hálku í sama skipti (4.nóvember):

Flughálka var á öllum götum í morgun. Mönnum og hestum varð víða fótaskortur og bifreiðar komust ekki nema'nokkra faðma upp Bakarastíg og runnu þá aftur á bak niður á jafnsléttu. En þær voru fljótt „járnaðar", keðjum brugðið á afturhjólin og fóru þær svo ferða sinna.

Þann 10. segir Morgunblaðið svo frá því að Tjörnina hafi lagt í fyrsta skipti á vetrinum og daginn eftir er sagt frá snöggri haglhviðu þann 10., líkast því sem smágrjót hryndi úr loftinu. Haglið þótti óvenjulega stórt. 

Fram segir frá þann 6.nóvember:

Síðastliðinn sunnudag [31.október] gerði hér töluvert norðaustanveður með sjógangi, og bjuggust menn við að nú mundi ætla að breyta til um tíðarfar, en það er eins og nú geti ekki orðið vont úr neinu, og datt veðrið niður strax sama daginn, og hefur síðan verið stillt og gott veður, sólskin á hverjum degi og væg frost um nætur, nefnilega, sama einmuna góða tíðin. Til berja var farið hér í Siglufirði i gærdag 5.nóvember og voru berin alveg óskemmd, mun slíkt ekki oft henda.

En heldur lakara var hljóðið í sama blaði viku síðar, 13.nóvember:

Um síðustu helgi reið veturinn í garð, hefur töluverður snjór fallið þessa viku, en frost hafa verið væg. Síðastliðna nótt var hér afspyrnurok stóð austan hér í firðinum, en til hafsins hefur verið norðanveður, og er hér stórbrim í dag, og hríðarveður norðan. Varnargarðurinn er allur meira og minna að eyðileggjast, hafa bæst í hann stór göt, og sprungur víða, í morgun.

Austurland segir frá hinni bestu tíð eystra þann 20.nóvember:

Tíðarfarið hér eystra er nú hið besta, orðið alautt á ný. Einstakt mun það hér á Íslandi, að rósir springi út út í görðum í nóvembermánuði. En eigi fyrir meira en hálfum mánuði, voru tekin hér í garði Stefáns Th. Jónssonar nýútsprungin, erlend rósablóm.

Þann 18. segir Vísir frá illviðri:

Aftaka suðaustanveður gerði hér í gærkvöldi og stóð fram yfir miðnætti. Tvo mótorbáta rak í land við Grandagarðinn; annar þeirra var Valborg frá Akranesi, hinn heitir Álftin. Tvær fiskiskútur slitnuðu úr norðurgarðinum en skemmdust ekki. Tveir mótorbátar sem lágu fyrir akkerum, slógust saman og skemmdust nokkuð.

Þann 20. segir Fram á Siglufirði frá hvassviðrum þar um slóðir, símslitum og hrævareldum:

Norðan-bleytuhríð og rok hélst fram á mánudag [16.nóvember], síðan fremur umhleypingasamt, en frost alltaf mjög væg, og oft hlýtt í veðri. Í Fljótum varð haglaust með öllu nokkra daga, en nú mun þar þó snöp fyrir hross aftur.

Símslit. Í ofsaveðrunum um síðustu helgi hafa símslit og aðrar bilanir á símanum orðið víða um land. Í Fljótum urðu skemmdirnar miklar og á mörgum stöðum, ýmist undan krapþunga á þráðunum, eða þá að veðrið skekkti til og skók staura svo að allt slitnaði niður. Einn staurinn rétt við stöðina í Haganesvík kipptist upp með rótum og fluttist fleiri mannslengdir og skruggur og eldingar riðu gandreið á símanum um Fljótin og gerðu spellvirki. Sambandslaust var héðan úr Siglufirði, frá því á sunnudagsmorgun og þar til í fyrradag, en nú má heita að síminn sé í lagi aftur. Undarlegt fyrirbrigði má það kalla og ekki gott að vita hvað valdið hefur, að eitt kvöldið nú í vikunni, logaði á símaþráðunum á löngu svæði austur af Haganesvik. Veður var hið besta, og var svo bjart af logum þessum sem beit lýsa rafljós. Staurar allir og þræðir voru mjög hlaðnir krap-klessingi og var sjón þessi, sem stóð góða stund hin einkennilegasta. Getur hafa verið leiddar að því, að skeð geti, að við hér í Siglufirði höfum, af ríkdómi vorrar náðar miðlað Fljótungum ljósum þessa kvöldstund frá rafstöð vorri. Hér hefur slíkt hent að símaþræðir hafa logað og sprengingar orðið, ef rafleiðsluþræðir hafa lagst á símaþræðina og í þetta sinn hafi þá með undarlegheitum, þræðirnir logað alla leið inn yfir fjall. án þess þó að vér yrðum varir nokkurra stórmerkja. Ekki skal úr því leyst hér. En í þessu sambandi skal bent á, að mjög hættulegt getur verið að ekki sé svo tryggilega um búið að þræðir þessir geti aldrei „slegist saman“, því sé hugsanlegt að með þessu móti geti borist eldur með símaþráðunum í hús manna, geta hér einhverja góða kvöldstund öll hús símanotenda í þessum bæ, staðið í björtu báli.

Þann 28. segir Morgunblaðið frá hættulegri hálku í Reykjavík. 

Desember: Góð tíð lengst af. Fremur hlýtt.

Enn lýsir Fram á Siglufirði afburðatíð þann 4.desember:

Sama góða tíðin, í dag er hér sunnanhláka og 11 stiga hiti. Til marks um hve einmuna góð og hlý veðrátta hefur verið hér í haust og það sem af er vetrinum má geta þess að: Maður sem kom úr Fljótum hingað til Siglufjarðar síðastliðinn mánudag, 29. nóvember,  tíndi á leiðinni alveg óskemmd ber. Í dag 4. desember eru hér í garði einum blóm („Bellis“) að springa út. Úr sama garði voru í dag teknar upp fullþroskaðar hreðkur (Radiser) sem sáð var til í september. Alt mun þetta sjaldgæft og líklega eindæmi hér norðanlands.

Þann 6. segir Vísir frá því að 11 stiga hiti hafi verið á Seyðisfirði í gær og litlu kaldara á Akureyri. Blaðið bætir því við að það muni fátítt að hiti sé svona hár hér á landi um þetta leyti árs. Daginn eftir segir Vísir frá logndrífu í Reykjavík og nú sé alhvít jörð. 

Morgunblaðið segir frá hríð nyrðra þann 9.:

Stórhríð var á Norðurlandi síðari hluta dag í gær. Er það fyrsta hríðin, sem þar hefir komið, og því algerlega snjólaust þar til þessa. Hefir engin skepna fengið þar strá úr jötu enn nema nautgripir.

Verkamaðurinn á Akureyri segir frá þann 16. desember:

Hvassviðri af suðvestri gerði hér á mánudagsnóttina [13.], er hélst til morguns. Dynjandi rigning fylgdi á eftir. Rúður brotnuðu i húsum og svarðarhlaðar hrundu og skemmdust víða. Á þriðjudagsnóttina féll mikill snjór. Frostleysur alla daga.

Fram segir á aðfangadag:

Norðan-stórhríð, með ofsaroki við og við mátti heita óslitin frá því á laugardag [18.] og fram á miðvikudag [22.], og er nú hér kominn töluverður snjór. Í gær og í dag bjart og gott veður en frosthart nokkuð, var í gærmorgun 13 stig, í dag aftur hlýrra.

Tíminn segir á aðfangadag að frost og stillur hafi verið alla vikuna og að farið sé að taka ís af Tjörninni, en vandræði hafi verið að skapast vegna ísleysis. 

Þann 27. segir Vísir frá jólaveðrinu:

Jólaveðrið var kyrrt og fagurt, frostlítið, heiðskírt, ofurlítill snjór á jörðu og tunglið í fyllingu. Síðdegis í gær gerði austanveður og frostleysu.

Daginn eftir segir blaðið frá því að sjór hafi á flóðinu að morgni þess 27. hlaupið í marga kjallara í miðbænum og valdið skemmdum sums staðar og stórmiklum óþægindum. 

Þann 8. janúar 1921 birti Dagur á Akureyri bréf af Suðurlandi dagsett 12.nóvember. Er þar fjallað um tíðina á árinu fram að því:

Vetur frá nýári með hagbönnum og hrakviðrum svo undrum sætti. T.d. var haglaust í Bessastaðanesi í 9 vikur, en slíkt var ekki áður í minni elstu manna. Í páskavikunni komu upp hagar í öllum lægri sveitum sunnan lands. Við sjóinn varð „þökuþítt“ á túnum, þar sem ekki lágu fannir. Á annan í páskum [5.apríl], þegar brá til norðanáttar, hljóp allt í gadd. Urðu þá miklar skemmdir á túnum, og kom víða fram kal. Þessi kuldahrina hélst til hvítasunnu með litlum hvíldum. Eftir það gerði þurrviðri, sem héldust þar til langt var liðið af júlímánuði, en þá brá til votviðra, sem haldist hafa síðan. Má telja að allan þann tíma hafi aðeins sjaldan sést sól. Nú fyrir viku síðan féll nokkur snjór hér á Suðurlandi og í dag er jörð frosin og hefir snjóað í logni. Þurrviðrin í vor gerðu það að verkum, að áburður nýttist ekki á túnum, svo að þau urðu mjög graslítil og mjög víða var minna töðufall en í meðalári. Vegna votviðra hröktust hey og mór. Útengjar fóru víða undir vatn, svo þær urðu ekki slegnar, og hundruð hesta af lausu heyi, er nú komið í klaka. Mór er víða úti ónothæfur vegna bleytu.

Lýkur hér að segja frá veðri og tíð ársins 1920. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 15. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 70
  • Sl. sólarhring: 405
  • Sl. viku: 1895
  • Frá upphafi: 2350631

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 1695
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband