Maí - sumarið

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska gefið sumarveðráttunni einkunn. Einkunnagjöfin nær til mánaðanna júní til ágúst. Því hærri sem einkunnin er því betra telst sumarið. Í maílok í fyrra athugaði hann hvort viðeigandi væri að nota sams konar aðferð til að meta veðurlag maímánaðar. Niðurstaðan varð reyndar sú að aðferðin ætti ekki alveg við þennan mánuð. 

Nú þegar er ljóst að maímánuður 2018 mun, hvað Reykjavík og Suðvesturland varðar, fá mjög laklega einkunn, einhverja þá aumustu sem um getur. Það getum við þegar fullyrt þó enn sé síðasti þriðjungur mánaðarins eftir. 

En spáir slík einkunn einhverju um sumarið í heild? Svarið er neitandi - hún segir ekki neitt.

w-blogg210518

Hér má sjá dreifirit sem sýnir samband einkunnar maímánaðar og sumareinkunnar sama ár. Hæsta mögulega einkunn eins mánaðar er 16, en sumarsins 48. Lárétti ásinn sýnir einkunn maímánaðar, en sá lóðrétti sumareinkunnina. Við vitum ekki hver maí 2018 lendir, en líklega einhvers staðar langt til vinstri á myndinni, t.d. nærri lóðréttu strikalínunni. 

Við sjáum strax að ekkert marktækt samband er á milli maí- og sumareinkunna. Maí 1984 fékk laka einkunn (2) - sumarið líka, en maí 1991 fékk líka laka einkunn, en sumarið var vel yfir meðallagi. Við sjáum að lakasta sumarið (1983) var maí með einkunn yfir meðallagi (9). 

Þeir svartsýnustu geta þó ef þeir vilja tekið eftir því að ekkert ofursumar (að gæðum) hefur fylgt slökustu maímánuðunum). En það kemur að því fyrr eða síðar.

Gæðaeinkunnin samanstendur af fjórum þáttum, hita, sólskinsstundafjölda, úrkomumagni og úrkomudagafjölda. Lægsta einkunn í hverjum flokki er núll, sú hæsta fjórir. Það er þegar ljóst að varla verður annað að sækja en núlleinkunn í úrkomuflokkunum tveimur - sama hvað verður til loka mánaðar. Enn eru hins vegar möguleikar á einhverjum stigum í hita- og sólskinsflokkunum, ekki ólíklegt að eitt stig fáist í hvorum þeirra, gæðaeinkunn maí yrði þá 2, og hefur aðeins einu sinni orðið slakari (1). Það var 1992. Á landsvísu fékk sá mánuður reyndar ekki svo slæma dóma. Veður var skárra norðaustanlands rétt eins og nú.  


Fyrstu 20 dagar maímánaðar

Þegar 20 dagar eru liðnir af maí 2018 er meðalhiti hans +5,1 stig í Reykjavík, -0,5 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1961-1990, og -1,4 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 16.sæti af 18 á öldinni (kaldara var sömu daga 2012 og 2015). Á langa listanum er hitinn í 92.sæti af 142. Tuttugu fyrstu dagar maímánaðar voru hlýjastir árið 1960 þegar meðalhitinn var 9,3 stig, en kaldastir 1979, +0,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tuttugu dagana +6,2 stig, +1,8 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990 og +0,7 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti fyrstu 20 daga mánaðarins er ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin á 45 stöðvum af 124 sem meðaltal eiga. Mest er jákvæða vikið á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, +2,3 stig, en það neikvæða er mest í Árnesi -1,8 stig.

Úrkoma hefur mælst 73,0 mm til þessa í mánuðinum í Reykjavík, það mesta sömu daga á þessari öld, en hefur fjórum sinnum áður mælst meiri sömu daga, 1991, 1989, 1901 og 1988. Þar sem þriðjungur mánaðarins er enn eftir á hann nokkra möguleika á að verða sá úrkomusamasti, en þá þurfa að koma 53 mm eða meira í mælinn það sem eftir er. Úrkomudagafjöldi er einnig óvenjulegur, mánaðarmetið er 28 dagar, styttra er í met í fjölda „1 mm eða meira“, metið þar er 23 dagar, en sýnist sem talan nú sé þegar orðin 17 - og úrkomutíð er spáð áfram.

Sólskinsstundir hafa til þessa mælst 103 í Reykjavík, 17 stundum færri en að meðaltali 1961-1990, hafa 37 sinnum mælst færri sömu daga, en hafa verið fleiri 67 sinnum.

Loftþrýstingur er óvenjulágur, nú jafnlágur og sömu daga 1963, en þó er enn mjög óráðið hvort um met verður að ræða eða ekki í lok mánaðar.

Hvítasunnudagur hefur ekki mjög oft verið kaldari en nú á Suðvesturlandi (síðast líklega 1995 - þá 4.júní), en 20.maí hins vegar oft (meir en 30 sinnum svo vitað sé). 

Það má gjarnan koma fram að fyrstu tuttugu dagar maímánaðar hafa ekki nema tvisvar verið hlýrri á Dalatanga heldur en nú síðustu 70 árin. - Á Akureyri hafa þeir 19 sinnum verið hlýrri en nú, en 49 sinnum í Reykjavík.


Bloggfærslur 21. maí 2018

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 25
  • Sl. sólarhring: 56
  • Sl. viku: 516
  • Frá upphafi: 2343278

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 468
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband