Af árinu 1820

Árið 1820 hlaut góða dóma á sínum tíma - og hefði varla plagað okkar tíma heldur, nema að sjálfsögðu vetrarumhleypingar og hálka (eins og venjulega). Ágiskaður ársmeðalhiti í Stykkishólmi er 3,2 stig, -0,3 stigum neðan meðallagsins 1961-1990. Landbúnaður gekk almennt vel, en nokkur aflatregða plagaði. Vart varð við hafís, en hann var ekki mikill við strendur landsins. Svo virðist sem maímánuður hafi verið kaldari en apríl og e.t.v. að tiltölu erfiðasti mánuður ársins. Sjá má ágiskaðan meðalhita einstakra mánaða (sem til næst) í viðhenginu. 

Annáll 19. aldar (Pétur Guðmundsson) segir frá árinu 1820:

Vetur frá nýári var víðast góður fram á góu, síðan umhleypingasamur. Vorið kalt, féll fénaður á ýmsum stöðum, einkum í Árnessýslu. Sumar var vott og hlýtt, varð því grasspretta í betra lagi, en nýting ei að því skapi. Í september gjörði hret nyrðra, en þess varð eigi vart syðra. Haust var að öðru leyti gott með snjóleysu og hægviðrum til ársloka. 

Við vitum með vissu af þremur hitamælum á landinu þetta ár - þeir hafa sjálfsagt verið fleiri. Talsvert vantar þó af mælingum einstaka daga, heila mánuði vantar líka - og úr einum mælinum eru aðeins fáar tölur aðgengilegar hér og nú. 

hitamaelingar_1820

Bláar súlur sýna mælingar Séra Péturs Péturssonar á Víðivöllum í Skagafirði. Hann mældi hita snemma morguns - ekki fjarri þeim tíma sem algengt er að sé hvað kaldastur í sólarhringnum. Af mælingum hans má ráða að nokkurra daga hláka hafi komið í fyrri hluta janúarmánaðar, á undan snörpu kuldakasti sem stóð síðari hluta mánaðarins. Svo vantar athuganir. Apríl hefur verið nokkuð sveiflukenndur, en allslæmt kuldakast er að sjá um og uppúr miðjum maí - og heldur svalt í Skagafirðinum lengst af í júní, En höfum í huga að hér erum við ekki fjarri lágmarkshita sólarhringsins eins og áður sagði. 

Sumarhlýindi ríktu um skeið framan af september og aftur framan af október, en dálítið hret á milli. Um miðjan október kólnaði mikið. Desembertölur Péturs eru ekki margar, en sýna kalda tíð snemma í mánuðinum. 

Þann 1. ágúst hóf Jón Þorsteinsson landlæknir veðurathuganir í Reykjavík, dálitið vantar í árið 1820 - og hitinn sem við sjáum er sá sem mældist á loftvoginni í kringum hádegið. Loftvogin var hins vegar við opinn glugga í óupphituðu herbergi og góð fylgni er við hita utandyra (síðari mælingar sýndu það). 

Þann stutta tíma sem mælingar Jóns og Péturs falla saman eru þær býsna sammála um gang hitans þó munur sé á tölunum. Mælingar Jóns sýna líka að síðari hluti desembermánaðar hefur verið hlýr. Það styður veðurlýsing fræðingsins Thienemann frá Leipzig sem dvaldi á Akureyri frá hausti 1820 og vel fram yfir áramót 1821. Hann mældi hita - en því miður höfum við ekki aðgang þeim mælingum. En hann segir að fyrri hluti desember hafi verið kaldur (ziemlich kalt), frostið hafi þá farið í -14 stig (hvort það er C- eða R-kvarði vitum við ekki). Hins vegar hafi síðari hluti mánaðarins verið mjög hlýr (sehr mild). 

Nú skulum við sjá hvernig ritaðar heimildir taka á árinu, fyrst er nokkuð ítarleg lýsing Brandsstaðaannáls:

Skafhríð og hörkur til 8. janúar þá besta hláka 5 daga og varð auð jörð; eftir það jörð nóg, óstöðugt með blotum, en oft sletti í, stundum frostamikið, en lengst gott veður. Með góu hláka mikil og á miðvikudag kom fjarska lognfönn, er þó bráðum sveif frá, svo ei tók fyrir haga. 4.-5. mars þíða og þá út góu blotar, köföld og óstöðugt. Á einmánuði frostasamt á auðri jörð og tók víða fyrir vatn, seinni part snjóar og gott veður á milli.

Með sumri þíður og fjallaleysing um viku tíma, aðrar vikur miklar hörkur á auðri jörð, þó stillt og allgott til krossmessu, en gróðurlaust utantúns. 15. maí mikið hríðarkast. Lá fönn á viku fyrir hvítasunnu. 28. kom bati og þar eftir góður gróður. 11. júní kom enn kuldahret og voru útheiðar ófærar til fráfærna. Í júnílok voru lömb rekin á lítinn gróður. Með júlí brutust menn suður. Gafst þá besta tíð til grasvaxtar og nota af skepnum, þó vætusamt þætti lestamönnum. Sláttur byrjaði 18. júlí. Náðist hey þá inn strax, er fyrst var slegið. Með hundadögum votviðrakafli til 8. ágúst. Hröktust og ornuðu töður allvíða. Úr því rekjur og þerrir á víxl og yfirhöfuð góð nýting, mikill grasvöxtur og hvað bestur síðan 1797.

Með október fyrsta hret, þó lítið; haustið síðan stillt og gott, frostasamt um veturnætur; eftir það þíður og góðviðri til 17. nóvember., að snjó gerði um lítinn tíma, síðan þíður. Með desember frostamikið á auðri jörð, svo víða þerraði vatn. Eftir þann 10. sunnanátt og blíðviðri, fyrir jól hláka mikil og allar ár þíðar og vatnsmiklar. Blíðviðrið hélst til nýárs. Árferði mátti kalla gott. (s82) 

Klausturpóstur Magnúsar Stephensen lýsir veðráttu svo (við styttum textann dálítið), Klausturpósturinn 1820 (III, 6, bls.100):

[Veturinn] úr því reyndist um allt land einhver hinn mildasti síðan árið 1800, snjóalaus og frostavægur, að fáeinum dögum um árslokin [1819] undanteknum, en þó víða, einkum um Suður og Austurland, mjög svo storma-, umhleypinga- og hrakviðrasamur, svo sjóargæftir og fiskiafli þess vegna böguðust stórum, en varð í góðu meðallagi austan með landi, nema í Landeyjum og við Eyjafjöll, hvar hann varð rýr, aumur á Eyrarbakka, ágætur í Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Selvogi og í Grindavík; um Suðurnes, í Leiru, Garði, Njarðvíkum, á Strönd og í öllum Faxafirði um öll Innnes í rýrara lagi; góður afli tjáist samt gefist hafa Jökulbúum vestra, og eins víða um Vesturland.

Hrökt hey [fyrra sumars] um Suður-, Austur- og mikinn hluta Vesturlands, reyndust fólki skemmd allvíða og dáðlaus til holda og nytjar, urðu því uppgángssöm, ódrjúg og illfóðurgæf, einkum á mýrlendi, sauðfé og lömbum, sem flest gengu fram gjafarlaus í högum, en féllu hrönnum frá heyjum; eins varð fullorðið fé þar hjá mörgum mjög svo grannt, og kýr á mýrarlöndum hormagrar, og féllu margar um Flóa eystra. Einstakar manneskjur í Múlasýslu og syðra urðu úti, hvað í vetrum sem þessum, má sérlegt þykja, og með slys, helst við fótbrot, kal og annað, hefir hann, einkum syðra, jafnast við suma harðari.

Ekki hefir enn þá spurst til hafískomu hér við land, þó er trúlegt, að einhver hrakningur hans hafi nyrðra ekki langt undan landið verið, þar við bjarndýr skal hafa vorðið þar vart, nálægt Siglufirði, en þessi lagt út aftur til hafs, þá menn veittust að þeim; líka boðuðu miklir vorkuldar frá sumarmálum nálægan hafís, en máskje – og látum oss, bræður! vænta hins besta! – náttúruleg nú sem fyrir oss framar en fyrri, til að undanförnu, og að hafísar ekki svo fljótt, stórkostlega eða til lengdar bagi björg vora og bitri oss árferðisins hörku, hnekki gróða jarðar og dragi merg og þrótt úr mönnum og skepnum, því sannað er nú það af ótal siglingamönnum, bæði um Íshöfin norðlægu og suður um Atlantshaf, að frá Norðurlöndum við Grænland, Spitsbergen og víðar séu venjuleg ísahafþök horfin burt seinustu árin þrjú [kannski ritstjóri hungurdiska fjalli betur um það merkilega mál siðar?].

Klausturpósturinn 1820 (III, 12, bls.195):

Síðan [um fardaga] má víðast um land blíðviðri stöðugt og mestu árgæsku, einkum til lands, telja, besta gróður og heyja nýtingu. Afla síðan víða vart í meðallagi; einkum brást laxveiði flestum; haustafli syðra varð þó allgóður. Nyrðra komu þegar í september snjóaáhlaup, en syðra sást vart snjór fram í desember mánuð.

Bessastöðum 3-3 1820 [Ingibjörg Jónsdóttir]:

Vetur hefur verið hér hinn blíðasti og að kalla ekki staðið við snjór, en sífelldar rigningar gengið. (s75)

Reykjavík 3-3 1820 (Geir Vídalín biskup):

Um veðráttufar er það að segja, að vér höfðum, ... , ekkert eiginlegt sumar [átt við 1819], enda höfum vér til þessa ekki haft neinn eiginlegan vetur, því sumstaðar er sagt að lömb hafi gengið úti allt til þessa. (s173)

Gufunesi 15-8 1820 (Bjarni Thorarensen):

Við sveitarmenn lifum nú in floribus þareð grasvöxtur hefir verið góður og nýting á heyi einnig rétt góð. (s84)

Reykjavík 30-9 1820 (Geir Vídalín biskup):

Vetur höfðum vér hér einn þann besta, vor kalt og stirt til hvítasunnu [21.maí], síðan æskilegustu veðurátt, svo að grasvöxtur varð allsstaðar í betra og víða í besta lagi, og þessu sambýður nýtingin, svo eg ætla að allir hér nærlendis séu búnir að fá nóg hey fyrir pening sinn. (s177)

Eins og venjulega gengur ritstjóra hungurdiska ekki vel að lesa dagbókarfærslur Jóns í Möðrufelli (sjálfsagt að kveina undan því) - en þykist þó sjá þetta um árið 1820 - hugsanlega lestrarbjagað (en það má alltaf reyna):

Þann 15. janúar segir Jón um næstliðna viku: Góð, gjörði góðan og hagstæðan bata, tók snjó eftir þann mikla snjó kominn var. Um janúar í heild segir hann m.a. að mánuðurinn megi allur kallast góður. Fyrsta vika febrúar var óstillt, en önnur vikan stillt og góð. Síðan aftur óstillur og trúlega nokkuð grófgerðir umhleypingar, t.d. segir þann 22. febrúar eitthvað á þessa leið: Í nótt gerði aftur sunnan regn og um tíma hvassviðri suðaustan. Framan af í dag regn … bleytufjúk og mikla drífu og síðast um kvöldið mikið frost. Hann telur mánuðinum samt til kosta að góð jörð hafi verið og almennt lítill snjór. Segir líka að trjáreki hafi verið mikill og getur bjarndýrs og að snjóflóð hafi orðið í Hvanndölum. Mars virðist hafa verið umhleypingasamur framan af - oft hláka og regn, en um vikuna sem endaði þann 25. segir hann: Frostasöm í mesta lagi, en þó stillt og góð til jarðar, snjólaus. Apríl hlýtur góða dóma nema síðustu dagarnir og þann 27. er talað um sömu bitru hörkuna og þann 29. var kuldi og mikil hríð.

Maí segir hann í harðara lagi og að mikla fönn hafi gert um tíma og að júní hafi mestallur verið æði loftkaldur, en júlí yfirhöfuð að taka góður - óþurrkar plöguðu í ágúst, en í september var veðrátta kaldsandasöm, en áfellalaus. Október allsæmilegur þó snjóað hafi um tíma. Nóvember var stilltur að veðráttu, og vikan sem endaði 9. desember sögð að sönnu stillt, en ærið frostamikil. Desember í heild gæðagóður, í mánaðarlok lítið föl á jörðu og tíð sem á sumardegi.

Annáll 19. aldar upplýsir að það hafi verið bóndinn í Hvanndölum sem fórst í snjóflóðinu sem getið er. 

Jón Hjaltalín segir frá í tíðavísum (brot):

Vorið stríða stormum að
stefndi hlíða rjóðri,
hérna víða hnekkti það
hauðurs fríða gróðri.

Sumars vætan sveitum í
samt það bæta náði,
gras vel æta gripum því
grundin mæta þáði.
...

Hirtu flestir foldarló
ferska best af löndum,
óþurrk mesta þylur þó
þjóð af vesturströndum.

Haustveðráttan gæðsku góð
grenna mátti trega,
Kári þrátt þó kulda ljóð
kvæði náttúrliga.

Sjóslys voru tíð - eins og venjulega - og nokkrir urðu úti - eða eins og Jón Hjaltalín orðar það nokkuð kaldranalega í tíðavísunum: „Eins um þetta ár sem hin, ýmsir fréttast dauðir“. 

Lýkur hér umfjöllun um árið 1820. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 27
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 425
  • Frá upphafi: 2343338

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 383
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband