Þrálátur kuldapollur

Kuldapollurinn sem verið hefur í námunda við okkur upp á síðkastið virðist ætla að verða þrálátur. Hann gerir nýja aðsókn að okkur undir helgina - ekki nándar því eins vont veður þó og var um síðustu helgi en honum fylgir heldur leiðinlegur kuldi og reyndar einhver vindur líka. 

w-blogg220720a

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í litum - eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni um hádegi á föstudag, 24.júlí. Græni liturinn er svæði þar sem hæðin er undir 5400 metrum - ekki sérlega lágt að vísu í júlí, en mikil lægðasveigja á jafnhæðarlínunum. Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting - og þar með strekkingsvind sem mun að vísu koma ójafnt niður. Líklega verður úrkoma um landið norðanvert og skýjað víða um land. Það þýðir að næturfrosthætta er ekki mikil - en aftur á móti verður hámarkshiti dagsins ekki hár heldur.

w-blogg220720b

Hér sjáum við þykktina (hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) sýnda með heildregnum línum, en litirnir sýna hita í 850 hPa. Spáin gildir síðdegis á föstudag (24.júlí). Þetta er öllu óvenjulegra heldur en hæðarspáin, þykktin yfir landinu norðanverðu er ekki nema um 5340 metrar - það er að jafnaði ekki nema einn júlídagur af 200 svona kaldur - það er 6 til 7 hvert ár. Að vísu koma dagar af þessu tagi nokkuð í klösum þannig að atburðatíðnin er trúlega enn minni en það. En þetta er þó ekki met - það er 5290 metrar yfir landinu. 

w-blogg220720d

Hér má sjá tíðnidreifingu 500 hPa hæðar og þykktar yfir landinu í júlí 1949 til 2019. Við getum búist við lægri fleti en verið er að spá á 1 til 2 ára fresti (5 prósent mælinga eru lægri), en minni þykkt ekki nema á 6 til 7 ára fresti (eða sjaldnar). 

Hiti í 850 hPa er líka býsna lágur.

w-blogg220720c

Kortið gildir kl.24 á föstudagskvöld og sýnir hæð 850 hPa-flatarins (heildregnar línur), hita í fletinum (litir) og vindörvar sýna vindátt og styrk. Líkanið segir -4 til -5 stiga frost í dökkgrænu blettunum - og um -1 stig yfir Keflavíkurflugvelli.

w-blogg220720f

Það telst kaldur dagur (um þriðjungur daga er jafnkaldur eða kaldari) - en mesta frost sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli er -5 stig. Það var 23.júlí 1963 (dagsetning sem elstu nörd muna). Þó hiti fari vart svo neðarlega nú er hann ekkert langt undan - landfræðilega - sé að marka spána.

Það verður einnig athyglisvert að fylgjast með því hver verður hæsti hámarkshiti dagsins á landinu næstu daga.

w-blogg220720e

Línuritið á að auðvelda okkur hvernig á að meta hvað er óvenjulegt í þeim efnum. Bláu súlurnar sýna gögn sem byggja á mælingum sjálfvirku stöðvanna - og eiga þar með betur við núverandi mælikerfi heldur en þær brúnu (sem að vísu byggja á lengra tímabili - en gisnara athugunarneti). Lóðréttar línur skipta myndinni í þriðjunga - við sjáum að það telst kaldur dagur sé dagshámarkshiti landsins 17 stig eða lægri, en hlýr dagur sé hann hærri en 21 stig. Þetta stendur svo glöggt að það telst óvenjulegt nái hitinn ekki 16 stigum. Við megum líka taka eftir því að bláu súlurnar (nýi tíminn) eru langoftast hærri en þær brúnu í efri hluta hitakvarðans en lægri í þeim neðri. Þýðir þetta að það hafi hlýnað - eða er það fjölgun stöðva sem ræður?

Þetta er orðinn nokkuð langur pistill - en upplýsir vonandi einhverja um eitthvað. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 211
  • Sl. sólarhring: 306
  • Sl. viku: 2036
  • Frá upphafi: 2350772

Annað

  • Innlit í dag: 194
  • Innlit sl. viku: 1822
  • Gestir í dag: 189
  • IP-tölur í dag: 189

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband