Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020
16.7.2020 | 02:10
Hálfur júlí
Hálfur júlí. Flest nærri meðallagi hlýindaskeiðsins okkar.
Meðalhiti í Reykjavík er 11,1 stig, -0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,3 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og er hitinn í 11.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2007, meðalhiti þá 13,3 stig, en kaldastir voru þeir 2013 og 2018, meðalhiti 9,6 stig. Á langa listanum er hitinn í 57.sæti (af 146). Hlýjastir voru sömu dagar 1991, meðalhiti 13,5 stig, en kaldastir 1874, meðalhiti þá 7,7 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins 10,8 stig, -0,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en í meðallagi síðustu 10 ára.
Að tiltölu hefur verið hvað hlýjast á Suðausturlandi, hiti er þar í 3.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur hins vegar verið á Austfjörðum, hiti í 16.hlýjasta sæti - allmikill röðunarmunur. Önnur spásvæði raðast þarna á milli.
Sé litið á einstakar veðurstöðvar hefur að tiltölu verið hlýjast á Bíldudal og í Sandbúðum, hiti +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast (að tiltölu) hefur verið í Oddsskarði, hiti þar -1,3 stigum neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 28,2 mm í Reykjavík, það má heita í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 7,5 mm, tæpur helmingur meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa mælst 92,5 í Reykjavík, má heita í meðallagi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2020 | 23:43
Leiðindi í kortunum
Nú nálgast lægð landið, verður óvenjudjúp miðað við árstíma ef trúa skal spám - þó ekki metdjúp. Henni virðist ætla að fylgja þó nokkuð illviðri miðað við árstíma - það gefa öfgavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar alla vega til kynna.
Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og þuklar jafnframt á útkomunni og segir frá ef farið er nærri eða fram úr því sem mest hefur orðið í samskonar spám sem ná til síðustu 20 ára. Oft er ein og ein af spánum 50 með eitthvað útogsuðurveður - og telst það ekki til tíðinda.
En stundum gefur stór hluti spánna 50 til kynna að eitthvað óvenjulegt kunni að vera á seyði. - Líkur á því að svo sé raunverulega aukast eftir því sem styttra er í hið óvenjulega. Reynslu þarf til að geta notað þessar upplýsingar í daglegum veðurspám. Sú reynsla mun byggjast upp - og til munu þeir sem orðnir eru vanir menn.
Nú ber svo við að vísar þriggja veðurþátta, hita, úrkomu og vindhraða, veifa allir fánum í spám sem gilda á föstudaginn kemur, 17.júlí.
Hér er reynt að spá fyrir um hvort 24-stunda úrkomumagn er nærri metum. Tveir vísar eru sýndir - hér kallaðir útgildavísir (lituðu svæðin) og halavísir (heildregnar línur). Líkanið veit af árstíðasveiflu úrkomunnar - sömuleiðis veit það að úrkoma á vestanverðu Norðurlandi er að jafnaði mun minni heldur en sunnanlands.
Hér verða vísarnir ekki skýrðir frekar, en þess þó getið að veðurfræðingum er sagt að hafa varann á ef útgildavísirinn (litirnir sýna hann) fer yfir 0,9 - og sömuleiðis ef halavísirinn (nafnið vísar til hala tölfræðidreifingar) nálgast 2,0 - hér rýfur hann þau mörk á allstóru svæði (heildregnu línurnar) og fer alveg upp í 3,8 við utanvert Ísafjarðardjúp. Útgildavísirinn er stærri en 0,9 á allstóru svæði líka - dekksti brúni liturinn.
Orðið útgildavísir er þýðing á því erlenda extreme forecast index, EFI, en halavísir reynir að íslenska shift of tail, SOT. - Þýðingar þessar hafa ekki öðlast hefðarrétt (né annan) og aðrar (og vonandi betri) munu e.t.v. sýna sig síðar.
Útgildavísar evrópureiknimiðstöðvarinnar auðvelda mjög mat því hversu óvenjulegir veðuratburðir sem koma fram í spám eru. Vísarnir byggja á reynslu - vita hversu algengt það veður er sem verið er að spá. Það er hins vegar með þessa vísa eins og annað, rétt er að trúa þeim ekki í blindni og greinilegt að talsverða reynslu þarf til að meta þær upplýsingar sem þeir vísa á. Fullvíst er að vaktveðurfræðingar Veðurstofunnar eru frekar með fingur á púlsinum hvað þetta varðar heldur en ritstjóri hungurdiska (hann er alinn upp í öðrum heimi).
En hitavísar eru líka óvenjulegir. Á dökkfjólubláa svæðinu er verið að spá metkulda (miðað við árstíma - síðustu 20 ár eða svo). Rætist þetta mun snjóa á fjallvegum á Vestfjörðum - og Drangajökull fá gott fóður.
Vindavísar eru líka háir - ekki alveg jafnískyggilegir og hinir - svo ber að hafa í huga að líkanið veit af því að vindur er að jafnaði minni í júlí heldur en að vetrarlagi - sá vindur sem spáð er kæmi varla eins sterkt fram á vísum í janúar.
Sé litið á mælitölur eins og þykkt, sjávarmálsþrýsting, hæð 500 hPa-flatarins og hita í 850 hPa-fletinum virðist ritstjóra hungurdiska að það sé ekki verið að spá metum - en hann tekur þessa vísa þó alvarlega þannig séð. Ámóta veður gerði kannski síðast snemma í júlí 2014 - ef einhver skyldi muna það. Þá var talsvert um skriðuföll - bæði á Vestfjörðum, Norðurlandi og á Austfjörðum - auk þess sem hvassviðri olli ferðafólki vandræðum og setti strik í reikninginn við mótshald.
En eins og venjulega tekur ritstjóri hungurdiska fram að hann stundar ekki veðurspár lengur. Það gerir Veðurstofan hins vegar (og fleiri til þess bærir aðilar). Eru þeir sem eitthvað eiga undir veðri hvattir til þess að fylgjast vel með spám og hugsanlegum aðvörunum og láti hugleiðingar hungurdiska ekki trufla sig.
14.7.2020 | 00:22
Illviðrið 9. til 10.júlí 1970
Mjög kalt var í júlímánuði fyrir 50 árum. Vorið hafði verið umhleypingasamt, miklar rigningar syðra í maí og tíð talin óhagstæð, en skárri norðaustan- og austanlands. Ritstjóra hungurdiska er það minnisstætt að þessum maímánuði fylgdi annað bragð en öðrum almanaksbræðrum hans um þessar mundir. Svo var auðvitað hið óvænta Heklugos sem hófst í maí - alveg utan dagskrár. Júní var almennt talinn hagstæður - þó voru þurrkar taldir til ama norðaustanlands og víða var kal í túnum. Oft var kalt við sjávarsíðuna um vestanvert Norðurland eftir hafís vetrarins.
Ágúst þótti nokkuð hagstæður víðast hvar - en þarna inn á milli skaust hinn kaldi og illviðrasami júlímánuður. Á fjölmörgum veðurstöðvum varð hann hinn kaldasti sem menn þekktu og situr enn í því sæti. [Í viðhenginu er listi sem sýnir í hvaða kuldasæti mánuðurinn er á þeim stöðvum þar sem mælingar voru gerðar].
Nokkur hríðarveður gerði á heiðum og það snjóaði jafnvel líka í byggð. Umferð á hálendinu var þó mun minni en gerist nú á síðari árum, en hrakninga ferðamanna var getið í fréttum í öllum þessum veðrum og ófærðar á fjallvegum bæði norðaustanlands og á Vestfjörðum.
Myndin sýnir lægsta loftþrýsting á landinu á þriggja klukkustunda fresti allan mánuðinn (rauður ferill). Við sjáum að fáein myndarleg lægðakerfi gengu yfir, það öflugasta þann 16. og 17. Grái ferillinn sýnir mun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu á hverjum tíma. Þarna má sjá þrjú veruleg illviðri. Það er hið fyrsta af þessum þremur sem er til lauslegrar umfjöllunar hér, norðanillviðrið 9. til 10. Þá varð bruninn hörmulegi á Þingvöllum sem minnst var nú á dögunum. Lægðin sem kom um miðjan mánuð - og var sú dýpsta olli aðallega útsunnanhvassviðri - nokkuð sem er óvenjulegt á þessum árstíma, óvenjulegra en norðanveðrin. Síðasta illviðrið gerði þann 22. og 23. - af norðri og norðaustri. Í norðanveðrunum báðum snjóaði langt niður í hlíðar - og jafnvel niður í byggð eins og áður sagði - og í lok útsynningsveðursins líka.
Gervihnattamyndir þessara ára voru öllu óskýrari en þær sem við nú eigum að venjast. Hér má sjá ljósmynd sem tekin er um hádegi 9.júlí. Þá var lægðarsveipur á leið til norðvesturs og síðar norðurs fyrir suðaustan land. Sennilega eru þarna fleiri en ein lægðarmiðja. Landið rýfur þunnan blikubakka í vesturjaðri lægðakerfisins - og má með góðum vilja sjá til jarðar á Suður- og Vesturlandi. Þéttari bakki er síðan þar fyrir austan og var hann á ákveðinni leið til vesturs síðdegis og að kvöldi þessa dags.
Endurgreining japönsku veðurstofunnar sýnir stöðuna nokkurn veginn eins og hún var um miðnætti - að kvöldi fimmtudagsins 9. Greiningin nær úrkomunni á landinu norðaustanverðu mjög vel [hún mældist mest 43,7 mm á Húsavík] - en missir hins vegar alveg af úrkomubandinu sem teygði sig til suðvesturs um vestanvert hálendið allt til Suðvesturland - en það var hið óvenjulega við þetta veður.
Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins kl.18 þann 9 - þykktin er að vanda sýnd með litum. Djúp háloftalægð er fyrir suðaustan land og virðist beina mjög hlýju lofti úr austri í átt til landsins. Efri hluti þessa hlýja loftstraums hefur náð yfir landið og valdið úrkomunni suðvestanlands - neðar var mjög kaldur straumur lofts úr norðri, sem ekki sést vel á þessari mynd - og endurgreiningin vanmetur.
Kortið (skýrist heldur sé það stækkað) sýnir veðurathuganir á miðnætti að kvöldi þess 9. Úrkoma [grænmerkt] nær þá allt suður að Eyrarbakka og sömuleiðis er úrkoma í Reykjavík (talin skúr þar). Rokhvasst er á Stórhöfða (55 hnútar - um 28 m/s) og úrkoma í grennd. Hríð er á Hveravöllum og hiti aðeins um frostmark. Á Akureyri er hitinn aðeins 5 stig og 3 stig á norðanverðum Vestfjörðum.
Þegar úrkomumælingar lágu fyrir um morguninn kom í ljós að hún var 36,1 mm á Þingvöllum eftir nóttina. Á Mógilsá í Kollafirði var hún enn meiri, 41,5 mm. Á Reykjavíkurflugvelli mældist hún aðeins 2,3 mm, en 16,2 mm í Elliðaárstöðinni - skammt undan, 29,6 mm á Mosfelli og 16,3 í Stardal. Slydda var um nóttina á þeim stöðvum sem úrkoma var mest - í þann mund sem hún var áköfust. Í Stardal var ekki snjór á túninu um morguninn, en alhvítt niður í fjallsrætur segir athugunarmaður. Ekki festi á Þingvöllum, en svo vildi til að landsmót hestamanna var að hefjast í Skógarhólum. Þar urðu verulegir erfiðleikar um nóttina og gránaði jörð - alhvítt varð að sögn í Bolabás undir Ármannsfelli. Það fréttist af hrossum sem drepist höfðu í vosbúð, og ekki nema fjórðungur tjalda uppistandandi eftir nóttina. Tjaldið hafði fokið ofan af hollendingunum sem komu að brennandi húsinu og gerðu síðan viðvart.
Klippan hér að ofan er bakhlið dagblaðsins Tímans og fengin af timarit.is. Þar er fjallað um ástandið við Skógarhóla þá um morguninn.
Fréttin af brunanum er ritstjóra hungurdiska minnisstæð - og í röð þeirra óvæntustu sem hann man. En honum er líka minnisstæð loftsýn sem hann varð vitni að kvöldið áður.
Hafði verið við kvikmyndasýningu í Borgarnesbíói - en man ekki hvaða mynd var þar sýnd. Sýningu lauk ekki fjarri kl.23 um kvöldið. Þegar komið var út var einkennileg birta - og fólk stóð og horfði í norðvesturátt til sólarlagsins. Þar blasti við sýn sem ritstjórinn hafði aldrei séð áður og hefur aldrei aftur séð síðan - ljósgræn sól - í nokkru mistri - skein frá skýlítilli himinræmu við Ljósufjöll á Snæfellsnesi undir blikubakkann áðurnefnda. Þegar komið var á holtið heima - ekki langt frá samkomuhúsinu - blasti önnur sýn við, í þetta sinn í gagnstæðri átt - reyndar í átt til Þingvalla - sýndist sem þar væri gríðarhá kirkjuhvelfing ljósboga prýdd - ógleymanlegt.
Löngu síðar áttaði ritsjórinn sig á því hvað hér var á ferðinni. Blikubakkinn var nokkuð vindskafinn - en úr honum féll úrkoma sem gufaði strax upp skammt neðan hans - þó nægilega langt neðan við til að regnbogi myndaðist - en það var erfitt að gera sér grein fyrir því - aðeins hæsti hluti bogans var sýnilegur - að auki gerði hin grænleita birta sólar bogann torkennilegan.
Bogabrot af þessu tagi hefur ritstjórinn séð síðar - og þar með hvelfinguna miklu - en í þó í öllu eðlilegra sólsetri - líka eftirminnilegt að sjá regnboga þar sem er eiginlega enginn annar litur en rauður. Þetta er ekki algengt - en ekki þó sárasjaldgæft eins og sólin græna. Ekki er gott að segja hvers vegna sólin tók sér þennan lit - hélt lengi vel að þetta væri ryk eftir hálendisvinda og uppblástur dagsins - en er þó ekki alveg viss. Þetta gæti t.d. verið reykur - annað hvort eftir skógarelda einhvers staðar í annarri heimsálfu - nú eða þá einhverjar loftkenndar afleiðingar Heklugossins sem nýlokið var - ekki gott að segja.
Rifja má upp að þessi jökulkaldi júlímánuður ýtti undir hugmyndir um kólnandi veðurfar. Til gamans birtum við hér klippu úr grein sem birtist í Tímanum þann 25.júlí þetta ár og framhald hennar kom í sama blaði daginn eftir. Áhugasamir geta lesið á timarit.is.
11.7.2020 | 01:56
Fyrstu tíu dagar júlímánaðar
Meðalhiti fyrstu 10 daga júlímánaðar er 11,0 stig í Reykjavík, það er -0,1 stigi undir meðallagi sömu daga áranna 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og í 12.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar 2009, meðalhiti þá 13,4 stig, en kaldastir voru þeir 2018, meðalhiti 9,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 62.sæti - af 146. Kaldastir voru þessir sömu dagar 1874, meðalhiti 7,6 stig, en hlýjastir 1991, meðalhiti 14,0 stig.
Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins er 10,1 stig á Akureyri, -0,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Miðað við röðun hefur verið langhlýjast á Suðausturlandi, þar eru dagarnir tíu í þriðjahlýjasta sæti, en á Norðausturlandi, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum er hitinn í 16.hlýjasta sæti - þannig að talsverður munur er á landshlutum.
Á einstökum stöðvum er jákvæða vikið miðað við síðustu tí ár mest á Bíldudal, +1,5 stig, en neikvætt vik er mest á Vatnsskarði eystra, -2,1 stig.
Mjög þurrt hefur verið um meginhluta landsins. Úrkoma hefur aðeins mælst 2,8 mm í Reykjavík og hefur aðeins 12 sinnum mælst minni sömu daga. Enn þurrara hefur verið á Akureyri, þar hefur úrkoma aðeins mælst 0,1 mm. Tvisvar hefur hún engin mælst sömu daga. Það var 1963 og 1990.
Í Reykjavík eru sólskinsstundirnar orðnar 85,2 og er það yfir meðallagi, en vantar þó mikið á met sömu daga 1957, 131,4 stundir.
5.7.2020 | 20:59
Kaldasta svæði norðurhvels
Þannig hagar til um þessar mundir að kaldasta loft norðurhvels hefur sest að í námunda við okkur. Kannski hefur aðsókn hlýinda frá Síberíu hrakið það hingað. Við erum þó fremur heppin - alla vega enn sem komið er. Allrakaldasta loftið er vel fyrir austan land og þeir stríðu vindar sem því fylgja eru einnig fjarri okkur - alla vega í bili.
Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins eins og evrópureiknimiðstöðin spáir henni síðdegis á morgun, mánudag. Af línunum má ráða vindstefnu og vindhraða. Hér við land er áttin norðvestlæg - við erum á mörkum niðurstreymis austan við Grænland og norðanstrengs austan þess - heldur kalt er í honum og hann snertir landið norðaustanvert.
Litirnir sýna þykktina, en hún mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Við vildum helst vera í gulu litunum á þessum tíma árs - en nokkuð langt er í þá - en það er þó ljósasti græni liturinn sem þekur mestallt Ísland - það er ekki svo slæmt. Lítill, dökkgrænn blettur er hins vegar rétt vestan Noregs - og vill svo til að það er kaldasti blettur á öllu Norðurhveli á morgun (litlu hlýrra er þó vestan Grænlands).
Aðalhringrásin á hvelinu er mjög veikburða (stóri punktalínuhringurinn) - eins og algengt er á þessum tíma árs. Aftur á móti er öflugri hringrás mörkuð með minni punktalínuhring. Mestallur kuldi norðurhvels hefur safnast saman innan hans og þar sunnan við eru stríðir háloftavindar úr vestri - óvenjustríðir miðað við árstíma - og senda illviðri inn yfir Bretlandseyjar, Norðursjó og mestalla Skandinavíu. Á þeim slóðum er veður því með hryssingslegasta móti þessa dagana.
Það þarf að minnsta kosti fáeina daga til að breyta þessari meginstöðu. Það getur gerst á ýmsa vegu - t.d. gæti kuldapollurinn vestan Grænlands styrkt sig í sessi og snúið vindátt hér á landi - kannski kemur hlýtt loft langt úr suðvestri inn í hringinn - eða eitthvað annað.
Í veðurlagi sem þessu í júlí er sólin dugleg að deginum og nær hitanum furðuvel upp - en kalt er að jafnaði að nóttu. Þar sem skýjað er er harla svalt í veðri - jafnvel um miðjan dag. Lágmarksdægurmet falla frekar en hámarksmet - og meira að segja hafa fáein júlístöðvalágmarksmet fallið undanfarna daga.
1.7.2020 | 17:06
Meira af júní
Júní var óvenjuhlýr víða í Skandinavíu, á landsvísu sá næsthlýjasti í Noregi (aðeins 1953 var hlýrri) og víða þar í landi var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga. Þessi afbrigði koma vel fram á þykktarvikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur strikaðar (mjög daufar) og þykktarvik eru lituð. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þykktarvikin yfir Noregi eru sérlega stór, meir en 90 metrar, jafngildir það meir en 4 stiga viki - enda var vik frá meðaltalinu 1961 til 1990 +4,8 stig í Þrándheimi (kortið miðar við 1981 til 2010).
Eins og kom fram hér á hungurdiskum í gær var júní einnig hlýr hér á landi - þó ekki væru þau hlýindi afbrigðileg á neinn hátt. Við getum séð að fremur svalt hefur verið í Baskalandi og Frakklandi sunnanverðu - og sömuleiðis á Vestur-Grænlandi, ekki eru neikvæðu vikin á þessum slóðum þó stór.
Sunnanáttin í háloftunum var ívið yfir meðallagi júnímánaðar hér á landi - og því var tiltölulega hlýrra norðaustanlands heldur en á Suðvesturlandi.
Meðalhiti í Reykjavík var 10,2 stig (bíðum þó hins opinbera stimpils). Á þessari öld hefur meðalhiti oftast verið ofan 10 stiga í júní, en við sem eldri erum munum vel að það gerðist aldrei á árunum 1967 til 1997. Á Akureyri var meðalhiti nú rúmlega 11 stig, í 10. til 11. hlýjasta sæti frá upphafi samfelldra mælinga þar 1881.
Nú hefur orðið mikil breyting í Skandinavíu, þar í gær alveg sérlega djúp lægð yfir Finnland miðað við árstíma. Finnska veðurstofan þurfti að gefa út rauða vindviðvörun á ákveðnum svæðum. Útlitið er ekki sérlega gott þar um slóðir næstu daga. Óvenjukalt loft - miðað við árstíma er á ferð austan við Ísland og ef trúa má spám mun það verða viðloðandi þar næstu daga - jafnvel lengur. Eitthvað teygir þetta kalda loft sig í átt til okkar - en vonandi sleppum við þó að mestu leyti. Það verður hins vegar áfram spennandi að fylgjast með lægðaganginum yfir Skandinavíu - hvort þrýstingur fer þar aftur niður fyrir 980 hPa eins og hann gerði í gær. Það er ekki algengt eftir Jónsmessu.
Bolli Pálmason gerði kortin.
Kortið sýnir þykktarvikin næstu 10 daga - eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að þau muni verða.
Þetta eru gríðarleg umskipti, en miklu minni hér á landi heldur en fyrir austan land. Eins og sjá má er hitavikið við Þrændalög hátt í -6 stig, en verður samt varla svo mikið á veðurstöðvunum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.4.): 34
- Sl. sólarhring: 243
- Sl. viku: 1647
- Frá upphafi: 2458888
Annað
- Innlit í dag: 32
- Innlit sl. viku: 1518
- Gestir í dag: 32
- IP-tölur í dag: 32
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010