Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Norðvestanátt í háloftum

Oft er ljómandi veður hér á landi þegar vindur stendur af norðvestri í háloftunum. Að vísu sjaldan mjög hlýtt - nema yfir hádaginn að sumarlagi og sól nær að skína látlaust daginn út og inn. Slíkt veðurlag er reyndar eitt hið allravinsælasta í heimi nútímans. Eins og áttin gefur til kynna er hæðarhryggur fyrir vestan eða suðvestan land, en háloftalægðarsvæði - kuldapollur norðaustur í hafi.

Þessi staða er oft þrálát - en stundum er hún eins og mjó fjöl reist upp á rönd - fellur fyrirvaralítið með braki - og þá fylgir oft afskaplega leiðinleg og ísköld norðanátt í kjölfarið - langt norðan úr Ballarhafi - óvinsæl mjög. 

w-blogg300318a

Á laugardaginn verður þetta svona (að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar). Hér má sjá jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, sömuleiðis eru þarna hefðbundnar vindörvar, líka fyrir 500 hPa-flötinn og loks hiti í fletinum í litum. 

Hér er dálítill bylgjugangur í fremur vægri norðvestanáttinni eins og lögun jafnhæðarlínanna gefur til kynna. Ekki er langt í hlýja loftið - og ekki í það kalda heldur. Kuldinn fyrir norðaustan land er á suðurleið - rétt svo strýkst við okkur. En næsta bylgja norðvestanáttarinnar á að verða öflugri - ás hennar á að fara yfir okkur aðfaranótt þriðjudags - en sést ekki á þessu korti. Ef við tökum hitaspár alveg bókstaflega kólnar þá verulega (10 til 12 stig). En eins og venjulega vonum við að ekkert verði úr slíku í alvörunni, og verði úr - standi það ekki lengi. 


Tvískiptur mars

Nú styttist í mánaðamótin, mars nærri liðinn og þar með veðurstofuveturinn og vorið tekur við - óráðið að vanda. Mars hefur verið mjög tvískiptur - landsmeðalhiti fyrstu 13 dagana var undir frostmarki - og meðallagi. Þá voru norðaustlægar áttir ríkjandi, nánast alveg úrkomulaust um landið sunnan- og vestanvert og sérlega sólríkt. Um tíma var töluverður snjór um landið norðanvert. Svo skipti um, hiti fór upp fyrir frostmark á landsvísu og hefur verið ofan þess síðan og vindátt oftast sunnan við austur. 

En mánaðarhelmingarnir tveir eiga þó ágæta tíð sameiginlega. Illviðri hafa verið sérlega fátíð og almennt hefur farið mjög vel með veður. 

Nú, þegar þrír dagar lifa af mánuðinum er meðalhiti hans í Reykjavík +2,2 stig, +1,6 stig ofan meðallags sömu daga áranna 1961 til 1990, en +0,6 ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðurinn er því í sjöundahlýjasta sæti (af 18) á öldinni, og í 32. sæti á 144-ára listanum. Hlýjast var 1929, +5,9 stig, en kaldast 1881, -6,0 stig. 

Á Akureyri er meðalhiti það sem af er +0,5 stig, +0,1 stigi ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Að tiltölu hefur mánuðurinn verið hlýjastur á Raufarhöfn þar sem hiti er nú +1,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið við Skarðsfjöruvita þar sem hiti er -0,6 stigum neðan tíu ára meðallagsins. 

Úrkoma hefur mælst 25,2 mm í Reykjavík, það næstminnsta sömu daga á öldinni. Úrkoma var minni á sama tíma 2001. Á Akureyri er úrkoma hins vegar í meðallagi. Sólskinsstundir eru mun fleiri en í meðalári í Reykjavík, hafa mælst 130,3, í 15. sæti á lista sem nær til 106 ára.

Spáð er heldur kólnandi veðri, en bæði skírdagur og föstudagurinn langi verða þó um eða yfir meðallagi hvað hita varðar - sé að marka spár. Laugardagur síðan eitthvað kaldari - og eftir að hann er farinn hjá er mánuðinum lokið. 


Af árinu 1914

Tíðarfar ársins 1914 var heldur leiðinlegt og óhagstætt lengst af, sérstaklega um landið sunnan- og vestanvert. Vorið var talið eitt hið allra óhagstæðasta sem um getur suðvestanlands. Illviðri fjölmörg. Hér verður reynt að rekja helstu veðuratburði ársins með aðstoð veðurmælinga og fréttablaða. Stafsetning er oftast færð til nútímahorfs en orðalagi ekki breytt. 

Janúar var eini hlýi mánuður ársins að tiltölu, að auki var hiti í ágúst og október ofan meðallags. Hiti var rétt neðan meðallags í júlí og september, en annars var kalt í veðri, maímánuður þó sýnu kaldastur. Hæsti hitinn mældist á Seyðisfirði 17. júlí 25,6 stig. Allgóða hitabylgju gerði víða um land um miðjan ágúst. Mesta frost ársins mældist -24,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Það var 14. apríl, er fremur óvenjulegt að mesta frost ársins mælist svo seint að vetri - en kemur þó fyrir. 

Eitt landsdægurhámark stendur enn, þann 15. ágúst fór hiti á Möðruvöllum í Hörgárdal í 25,3 stig, daginn áður fór hiti í 20,3 stig í Reykjavík og er það dægurhámark þar. Sá góði dagur skilar sér líka í hlýrradaganet ritstjóra hungurdiska fyrir Reykjavík, sá eini af því tagi sem veiddist á árinu 1914. Vestur í Stykkishólmi veiddist líka einn hlýr dagur. Var það 16.ágúst. 

Sjö kaldir dagar veiddust í Reykjavík, 8. apríl, 7., 21.,22. og 23. maí og 12. og 13. nóvember. Í Stykkishólmi veiddust tíu kaldir dagar. Fjórir í apríl (7., 8., 28. og 29.) þrír í maí (7., 21. og 22.), 1. júlí, og 11. og 12. nóvember. 

Á stormdagalista ritstjóra hungurdiska eru þetta ár tíu dagar og ekki veiddi hann öll marktæk illviðri - þau voru óvenjumörg á árinu 1914 eins og er rakið hér að neðan. Júnímánuður var alveg sérlega sólarrýr suðvestanlands, sólskinsstundirnar á Vífilsstöðum mældust aðeins 60,9. Þetta er svo lág tala að hún þótti lengi vel varla trúverðug - þar til júní 1988 hafði verið mældur til enda og skilaði aðeins 72,2 stundum, - og tveimur árum áður hafði júní (1986) skilað 80,2 stundum. En svona getur júní verið daufur - hvenær kemur svo sá næsti? 

Sólskinsstundir voru reyndar ekkert sérlega margar í júlí og ágúst heldur - en ekkert þó í líkingu jafn fáar og í júní. Í júlí komu þrír óvenjusólríkir dagar í röð, 25., 26. og 27. og í ágúst sá 4. auk 11. og 12. Samtals má segja að þessir sólardagar - auk hlýindanna sem í kjölfarið fylgdu hafi bjargað sumrinu þetta árið. 

Þann 13. janúar 1915 tók Lögrétta saman yfirlit um árið:

Veturinn frá nýári var allt að því i meðallagi; þó lakari á Vestfjörðum. Vorið vont um alt land, hvíldarlaus kuldatíð, og er það eitt hið versta vor, sem menn muna. Afleiðingar urðu slæmar, fjárfellir víða, einkum sunnanlands og vestanlands, og lambadauði mikill á þessu svæði, og einnig nokkur norðanlands, einkum í Húnavatnssýslu. Jörð greri afarseint. Sumarið var votviðrasamt á Suðurlandi og Vesturlandi. Töður náðust þó viðast hvar með sæmilegri verkun, því meiri hluta hundadaganna var þurrkatíð. Útheyskapur var mjög rýr, sömuleiðis uppskera úr görðum. Norðanlands og austan var sumarið gott, en nokkuð stutt; heyskapur vel í meðallagi og garðávextir sömuleiðis. Haustið var afarrigningasamt og stormasamt sunnanlands og vestan. Varð þar allmikið úti af heyjum, og jafnvel sumstaðar norðanlands líka. Veðrátta var ágæt norðanlands og austan, þegar á leið haustið.

Janúar: Nokkuð stormasamt, einkum á Suður- og Vesturlandi. Nokkur snjór vestanlands. Fremur hlýtt.

Morgunblaðið segir frá snjó í Reykjavík í pistli þann 4. janúar:

Nú fer að verða vetrarlegt hér í Vík. Snjónum hleður niður og karlarnir hafa nóg að gera, þeir er göturnar moka. Snjóplógurinn klýfur mjöllina, hesturinn blæs af mæði og karlarnir stritast við það að vera jafnfljótir. En á strætastéttunum og á götuhornum stendur unga Ísland og hefir sér það til gamans að kasta snjókögglum í eldra fólkið. Það er helsta vetrarskemmtun ungmenna hér í bænum. Enginn sést á skíðum. Þau heyrast ekki nefnd á nafn einusinni.

Suðurland birtir seint um síðir (21. febrúar) fréttir af Langanesströnd:

Stórhríð mikla af útnorðri gjörði hér laugard. 3. þ.m. (janúar), urðu þá fjárskaðar á nokkrum bæjum hér. Þannig fórust á Djúpalæk 9 kindur, á Smyrla-Felli 16 og á Miðfjarðarnesi 24. Í Laxárdal í Þistilfirði fennti um 80 fjár í þessu sama veðri. Af því hafa fundist 47 kindur lífandi og 19 dauðar.

Strax eftir nýárið rak mikinn ís inn á Ísafjarðardjúp og fyllti Skutulsfjörð allt inn á poll. Ingólfur segir frá þann 11.:

Botnvörpuskip mörg voru úti fyrir, innlend og útlend, og flúðu sum inn á Skutulsfjarðarhöfn, en sum komust ekki úr ísnum. Sukku tvö þýsk botnvörpuskip úti á Djúpi 3. jan., en skipverjar komust á báti til lands í Bolungarvík. Flugeldum sást skotið úti í ísnum og heyrðist þeyttur skipslúður, svo að hætt þykir við að fleiri skip kunni að hafa farist. Blindhríð var vestra meðan ísinn rak inn. „Ingólfur Arnarson" komst norður úr ísnum og var á fiski meðan önnur skip lágu teppt. Ísinn rak út 7. þ.m., svo að botnvörpuskipin sluppu út úr Skutulsfirði, en síðustu fregnir segja, að hann hafi rekið aftur inn á Djúpið. Hafþök af ís eru sögð fyrir öllum Vestfjörðum.

En síðan kom betri kafli - mikinn blota gerði á þrettándanum og grynnkaði hann fljótt á fönn sem víða var komin. Morgunblaðið segir frá - fyrst þann 19. og síðan þann 21.:

[19.] Veðrið er nú svo milt hér að því er líkast að komið sé vor. Allur snjór horfinn og Tjörnin auð landa milli. En blautir eru vegirnir og illir yfirferðar. Eru það einkum bifreiðarnar, sem fá að kenna á því. Hafa þær stundum sokkið svo djúpt í aurinn, að þær hafa staðnæmst og engin tiltök að knýja þær áfram með vélunum. En þá hefir þess ráðs verið leitað, að beita hestum fyrir þær og láta þá draga þær út úr ófærunum.

[21.] Í görðum tveim hér í bænum eru hvannir teknar að spretta þessa dagana. Mun það vera fremur sjaldgæft um þennan tíma árs. Tún öll her í nágrenninu grænka og óðum eins og á vordegi væri. 

Norðri segir líka frá góðri tíð þann 24.:

Öndvegistíð hér norðanlands hefir verið nú í hálfan mánuð. Tíðum frostlaust um nætur og snjólaust að verða í sveitum. Í landbetri sveitum hefir hey sparast fyrir beit þennan tíma.

Snjóflóð tók 23 sauðkindur í Héðinsfirði og kastaði þeim á sjó út, biðu þær flestar bana. Bændurnir í Vík áttu þær og varð þetta tilfinnanlegur skaði (dagsetningar flóðsins ekki getið).

Mikið veður gerði þann 27. og 28. Morgunblaðið segir frá þann 29. janúar:

Akranesi í gær (28.): Ofsaveður og stórskemmdir. Í morgun geisaði hið versta veður sem menn muna í 20 ár. Brimið var afskaplegt, og olli það tjóni miklu. Sjógarður mikill og traustur og stakkstæði hjá Böðvari kaupm. Þorvaldssyni eyðilagðist að mestu. Vegur þar i nánd skemmdist einnig mikið. Sjógarður og stakkstæði á Bakkastíg skemmdist til muna. Sjógarður við Lambhúsaland stórskemmdist. Vélbátinn Hegra tók út, lenti á öðrum bát og brotnuðu báðir töluvert. Aðgerðarpallar tveir, báðir úr timbri, brotnuðu og bryggja á Steinsvör laskaðist mikið. Fiskpallur Haraldar Böðvarssonar eyðilagðist alveg. Vélbátinn Elding rak á land og nokkra aðra róðrarbáta. Sjórokið var svo mikið, að hér var eigi fært húsa milli. Átti skemmtun að vera í Báruhúsinu en hætta varð við hana vegna óveðurs.

Og frá Reykjavík: Stormur og ofsabrim geisaði yfir allt Suðurland i fyrradag (27.). Vindurinn var á útsunnan - byrjaði hægt en hvessti þegar á leið daginn, gerði hríðar með köflum og herti þá storminn. Stórstreymt var og gerði brátt eitt hið mesta brim sem komið hefir í mörg ár. - Skemmdir urðu hér töluverðar. Sjórinn skall yfir Grandagarðinn, sem verið er að gera sem byrjun á hafnarmannvirkjunum. Er sá garður næstum kominn út í Örfirisey - að eins nokkrir faðmar eru ófullgerðir. Svo afskaplegt var brimið, að sjórinn braut upp og tók með sér um 500 stikur af járnbrautarteinum þeim, sem lagðir hafa verið um garðinn. Skeði þetta i gærmorgun um kl. 6-7. Teinarnir voru komnir um 600 stikur frá landi út grandann, en aðeins búið að reka niður staura og stoðir á hinu svæðinu, nær alla leið út í Örfirisey. ... Grjót hrundi á nokkrum stöðum úr garðinum — mest úr enda hans, þar sem enn var eigi fullhlaðið í hann. Og eitthvað hafði grjótið raskast undir teinunum. Ennfremur rak á land í Örfirisey pramma þann, sem notaður er við hafnargerðina, en brotnað hafði hann fremur lítið. Tjón þetta er mjög tilfinnanlegt. Varla mun það nema minna en um 6-8 þús. krónum. Er vér í gær komum út á Granda til þess að sjá hvað skemmst hefði, voru þar um 100 manns við vinnu, til þess að koma fyrir járnbrautarteinunum aftur. Og einn yfirmanna þar á staðnum tjáði oss, að eigi væri það fyrirsjáanlegt að þeirri vinnu yrði lokið að öllu fyrr en í næstu viku. Tefur það eigi lítið fyrir áframhaldi hafnargerðarinnar. Skemmdir, aðrar en hér hefir verið sagt frá, skeðu eigi af óveðrinu í fyrradag hér i bænum. Er hætt er við að eitthvað eigum vér eftir að frétta um tjón og skemmdir á öðrum stöðum á Suðurlandi.

Símas1it voru víða um land í gær vegna stormsins og hríðarinnar. Var austurálman slitin milli Kotstrandar og Ölfusárbrúar, og Akraness-síminn slitinn fyrst í gærmorgun, en tókst að gera við hann snemma dags. Milli Hafnarfjarðar og Gerða í Garði voru ótal símaslit og til Borðeyrar var aðeins önnur línan í lagi, hin slitin.

Brim mikið gerði hér í fyrrinótt og olli það ýmsum skemmdum, braut báta og bryggjur, en hafnargarðurinn færðist mjög úr lagi. Flæddi sjórinn inn á götur bæjarins og flutti með sór möl og hnullungssteina, en þang og annað rusl lá þar í hrönnum.

Ísafold birti 7. febrúar langa og merkilega frásögn af tjóni suður í Höfnum í þessu sama veðri:

Aðfaranótt þriðjudags 27. f.m.var hér stórviðri af landsuðri með feikna úrferð. Um morguninn gekk veður til útsuðurs með ofsaroki. Fór þá sjór að gerast æði úfinn og um hádegi var komið stórbrim. Taldi ég vist, að töluverð flóðhæð mundi verða um kvöldið, þar sem stórstreymi var og brimið jókst með hverjum klukkutíma. Klukka tæplega 4 stóð ég úti á svölum húss míns og var að horfa á brimið milli blindhríðaréljanna. Sé ég þá hvar norðan úr Reykjanesröstinni kemur líðandi áfram, eins og blár fjallgarður í fjarska, feiknastór alda. Hefi ég aldrei séð neina líkingu af annarri eins undra-risavaxinni sjón, þau 48 ár, sem ég er búinn að vera hér í Hafnahreppi. Brátt færðist alda þessi nær, og þegar hún var komin innantil við Hafnaberg, fór ég að geta glöggvað mig vel á þessari undrasjón.

Aldan rann nú áfram með feiknahraða, var engu líkara en þar væri komin „Esjan“ með hvítum snjósköflum í efstu brúnum, og brunaði hún áfram, knúð af einhverju undraafli. Öðru hvoru risu upp stórir sjóir á öldunni og steyptust svo hvítfreyðandi fram af henni eins og foss af hamrabrún. Hélt svo aldan hröðum fetum inn Hafnaleir, beina línu á Kirkjuvogshverfið að sjá, svo á móts við Kalmanstjörn var hún hérumbil eina röst frá landi. Hvarf svo skaðræðisgripur þessi sjónum mínum á bak við hæðir þær, sem eru norður af Kalmanstjörn og hylja allan grunnleir fram af Kirkjuvogi. Ég hrósaði happi að ekki var nema hálffallið að. Annars taldi ég víst að Kirkjuvogshverfið hefði fengið óþægilegan skell af bákni þessu, en happið var ekki eins mikið og ég hélt. Alda þessi spurði hvorki um flóð né fjöru. Hún fór sinna ferða, hvernig sem á sjó stóð, æðandi áfram eins og vitlaus ófreskja, drepandi allt, sem á vegi hennar varð, þar til hún skall máttvana niður 50-200 faðma lengra uppi á land en vanalega með stórstraumsflóði.

Kemur hér lýsing menja þeirra er aldan lét eftir sig. Ég fór i morgun inn að Kirkjuvogi til þess að vita hvort fleiri en ég hefðu séð sjó þennan, og jafnframt til að vita, hvort nokkurt tjón hefði hlotist af honum. Þegar ég kom inn að Merkinesi, sem er kirkjujörð mitt á millum Kalmanstjarnar og Kirkjuvogs, sá ég að í öllum sjávargörðum þar var ekki steinn yfir steini standandi, og alt túnið ein stórgrýtisurð. Hélt ég svo inn að Kirkjuvogshverfi og mætti mér þar hin sama sjón, nema öllu verri. Skýrði Ketill bróðir minn mér frá því, að hann, klukkan 4, hefði staðið vestan undir fjárhúsi sínu, sem er nálega 60 faðma frá íveruhúsinu Sér hann þá eftir eitt élið hvar voða-sjór kemur og stefnir beint á land, þóttist hann sjá að sjór þessi mundi verða æði nærgöngul, þó ekki væri nema hálffallinn sjór að, og fjaran öll hvít af snjó, sem sjórinn ekki var farinn að ná til. Tekur Ketill nú til fótanna og hleypur sem má heim til sín, en áður en hann nær forstofutröppum sínum, er sjórinn kominn á undan honum, svartur eins og öskubingur af moldu og grjóti, sem hann reif upp með sér úr túngörðunum um leið og hann sópaði þeim um.

Þegar út fjaraði, sáust menjar þær, sem hann skildi eftir. Nálega enginn steinn yfir steini í öllum sjávargörðum Kirkjuvogshverfisins; fjögur skip, sem stóðu efst upp í naustum, hentust með útsoginu fram á sjó, sum hentust að landi aftur, öll meira og minna brotin, tveir smábátar fóru og sömu leiðina. Fjárhús, sem Vilhjálmur bóndi í Görðum á, sprengdist upp og fylltist af sjó. Í húsinu voru yfir 30 fjár fullorðið og drapst það alt í einni kös þar inni. Sjór þessi umkringdi bæ sama manns (V. J.) svo, að bærinn var eins og þúfa upp úr sjónum, æddi hann inn í bæinn og fyllti öll húsin upp að rúmbríkum, barmafyllti kjallarann og eyðilagði þar alla lífsbjörg V. J., kaffi, sykur, rúgmjöl, rúg, kartöflur og margt fleira, en fólkið slapp út úr bænum undan ósköpum þessum á elleftu stundu. V. J. var fyrir 2 árum búinn að fá útmælda þurrabúðarlóð, 1800 ferfaðma, sem hann síðastliðið ár lauk við að rækta að fullu, en nú sjást lítil merki þess, að þar hafi mannshönd að verki verið: Urð eintóm, stórgrýtisurð, auðn og sandur, það eru menjarnar, sem ófreskja þessi eftirskildi.

Allar jarðir í hreppnum, sem sjávargarðar fylgja, hafa orðið fyrir meiri og minni skemmdum, nema Kalmanstjörn ein. Fram hjá henni fór sjór þessi eins og áður er skýrt frá og raskaðist þar ekki einn steinn í görðum: Um flóðið kl. millum 6 og 7 varð engra stórra sjóa vart, en kl. 9 kom aftur sjór, sem fór yfir allan sjávargarðinn í Junkaragerði, og sópaði honum á pörtum burtu, en gerði þó engin spell á túni. Svæði það á landi, sem aldan mikla rann yfir, mun vera nálægt 1200 faðma með öðrum orðum frá Merkinesi og inn fyrir Kirkjuvogslendingu. Heyrt hefi ég að á Miðnesi hafi orðið miklir skaðar af hafróti þessu, og þykist vita, að Grindavíkurhreppur hafi fengið sinn mæli fullan, þar öldurótið kom alt úr suðurhafinu en ekki af vestri. Þeir, sem fyrir mestu tjóni hafa orðið af öldu þessari eru: Guðmundur Sigvaldason bóndi í Merkinesi, Magnús Gunnlögsson, bóndi í Garðhúsum, Ketill Ketilsson, óðalsbóndi í Kotvogi, Vilhjálmur Ketilsson i Kirkjuvogi og Vilhjálmur Jónsson, bóndi í Görðum. Hefir hinn síðastnefndi orðið fyrir tilfinnanlegasta tjóninu. Jörð hans alveg eyðilögð, fjárstofn allur drepinn og ársforði heimilisins eyddur. Mörg hundruð dagsverk eru hér nú óunnin í túngarðahleðslu, auk þeirrar feiknavinnu, sem liggur i að hreinsa alt stórgrýti, möl og sand af túnunum sjálfum.

Skyldi ekki stjórnarvöldunum íslensku hafa fundist þetta tilfinnanlegt tjón og bótavert, ef Rangvellingar hefðu fengið annað líkt af jarðskjálftum.
Ól. Ketilsson.

Febrúar: Snjóþungt nyrðra, einnig nokkur snjór suðvestanlands. Nokkuð illviðrasamt. Fremur kalt.

Afarmikið norðanveður gerði þann 1. ofan í útsynningsillskuna nokkrum dögum áður. Olli það nokkru tjóni. Morgunblaðið segir frá sköðum sem urðu í veðrinu vestur í Stykkishólmi en kvartar síðan undan færð í Reykjavík:

Stykkishólmi í gær (2.) Stormur mikill geisaði hér í gær (1.). Bryggjan brotnaði mikið - hrundi úr henni; - meta menn skaðann um 1000 kr. Sterling lá við bryggjuna, en varð að fara þaðan; lá nærri, að skipið væri komið upp i kletta. Annað skip, þilskipið Haraldur, eign Tangsverslunar, var nær slitnað upp. Skipið var í vetrarlegu. og átti það eftir aðeins nokkra faðma upp í kletta, er akkerið náði festu í botni. Sterling fór i dag til Flateyjar og Patreksfjarðar.

Snjórinn. Hríðar og stórviðri hafa nú verið hér [Reykjavík] undanfarna daga, og snjónum hefir hlaðið niður. Í fyrrinótt (aðfaranótt 2.) renndi fyrst í skafla og var þá byrjað að moka göturnar. Betra er seint en aldrei. En fyrr hefði þurft að gera eitthvað til þess að bæta færðina, að minnsta kosti á sumum götunum, því viða er illfært yfirferðar. Í mikla briminu, sem gerði hér um daginn, gekk sjórinn á land og flæddi inn á göturnar. Hleypti hann snjónum í krap, sem aldrei fraus vegna seltunnar og er meiri snjór hlóðst ofan á, urðu menn að vaða krapið i miðjan legg á fjölförnustu götum bæjarins eins og t.d. Pósthússtræti. Þetta er að vísu ekki eins dæmi hér og verður áreiðanlega ekki síðasta dæmið heldur. Hér eru nú stikuháir [2 álnir, um það bil einn m] snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins. Engum dettur í hug að hægt muni að aka þeim burtu kemur hláka einhvera daginn. Hvernig verður færðin þá á götunum ? Því getur hvert barnið svarað. Þá verður engum manni fært út fyrir húsdyr öðruvísi en í skinnsokkum eða sjóstígvélum!

Þann 24. febrúar birti Morgunblaðið frétt af snjóflóði á Seyðisfirði 2. febrúar:

Í nótt (2. febr.), féll snjóflóð á Fornastekk, býli í hlíðinni milli Öldu og Vestdalseyrar. Brotnaði íbúðarhúsið og skekktist, en fjós fór alveg, með einni kú, en hún náðist þó lifandi í skaflinum. Tjón á mönnum varð ekki.

Tveir menn urðu úti á Suðurnesjum þann 3. febrúar er hríðarbylur skall skyndilega á. Sömuleiðis varð maður úti í hríð í Reykjavík þann 21. Þann þriðja fórst bátur úr Vestmannaeyjum (Suðurland 7. febrúar). Breskur togari strandaði í dimmviðri við Löngusker á Skerjafirði þann 13. Bátur fórst einnig við Skagaströnd, dagsetningar ekki getið (Vestri 7.febrúar) og í sama blaði segir frá bátsbroti í Dýrafirði þann 3. 

Vísir segir þann 9. að strandferðaskipið Kong Helge hafi séð fáeina jaka við Horn og sömuleiðis undan Dýrafirði. Síðan segir:

Illviðri með afarmikilli snjókomu hafa gengið lengi um Norður- og Vesturland og liggur allstaðar djúpur snjór yfir landinu. Séra Ólafur í Hjarðarholti segir, að aldrei hafi komið þar um slóðir eins mikill snjór, síðan hann kom þar, sem í vetur. Í Hrútafirði eru öll skörð og gil full. Heldur er snjórinn minni er austar dregur. Í Skagafirði er einnig jarðlaust með öllu á stórum svæðum.

Morgunblaðið birtir þann 11. tíðarfréttir frá Akureyri, dagsettar daginn áður:

Tíðin hefir verið hér afarvond til þessa. Ofsastormar af norðri og fannkoma mikil. Er því mikill snjór hér nyrðra um þessar mundir. Vesta og Inqolf hafa legið hér veðurteppt nokkra daga.

Og mikill snjór var líka syðra - og skárra veður um stund - Morgunblaðið segir frá þann 16.:

Skíðamenn bæjarins notuðu mikið góða veðrið og skíðafærðina í gær. Fjöldi ungra manna fóru á skíðum um göturnar og upp fyrir bæinn.

Ísafold hefur þann 21. febrúar eftir Ólafi Ísleifssyni lækni í Þjórsártúni að hann hafi þann 11. greinilega séð aftur til eldanna norðan Heklu þar sem gaus mest árið áður. 

Mars: Nokkur hríðarhraglandi norðaustanlands mestallan mánuðinn, en mjög þurrt lengst af á Suður- og Vesturlandi.

Þjóðviljinn lýsir tíð þann 9. mars:

Um undanfarinn viku tímann hafa nú skipst á stórfeldir blotar, eða dyngt niður kynstrum af snjó.

Vísir birti þann 11. frétt af snjóflóði:

Borðeyri í gær. Snjóflóð féll nýlega skammt fyrir ofan bæinn í Skrapatungu í Laxárdal í Húnavatnssýslu og urðu fyrir því tveir drengir, er þar gengu til rjúpna, annar 16 ára og hinn 13, synir bóndans þar, Jóns Helgasonar. Eldri drengurinn hafði sig við illan leik úr flóðinu og komst heim á bæinn með veikum burðum, allmikið skaddaður. Var þá þegar brugðið við að leita hins drengsins. Sá aðeins lítið eitt á handlegg hans upp úr sjódyngjunni. Hann var meðvitundarlaus er hann var grafinn upp og illa útleikinn af meiðslum. Læknir var þegar sóttur og telur hann lítil líkindi, að hann muni halda lífi.

Eitthvað skárra hljóð var í Borgfirðingum, Morgunblaðið segir frá þann 14. mars:

Norðtungu i gær. Snjór er að miklu leyti horfinn hér í sveitunum. Hann hefir aldrei verið mikill í vetur og hefir algerlega tekið upp i þíðviðrinu síðustu dagana. Dágóður hagi er kominn allstaðar, sem spurst hefir til.

Þann 15. segir Morgunblaðið frá því í frétt frá Blönduósi að mikill ís sé kominn á Húnaflóa, tíð sé ill og með öllu haglaust. Vísir segir sama dag að Kong Helge hafi ekki komist vestur um og hann hafi því farið austur aftur og suður fyrir. Í sama blaði segir frá því að maður hafi beðið bana eftir að snjódyngja féll af húsþaki og ofan á hann á Siglufirði. 

Daginn eftir birtist smápistill frá Húsavík í Morgunblaðinu:

Tíðin er hér afarslæm, harðindi og fannkomur og muna menn ekki meiri snjó. Horfir til  stórvandræða ef ekki kemur bati. Heybirgðir manna mjög litlar og allur matfangaflutningur bannaður vegna ófærðar.

Síðan koma fréttir frá Vestmannaeyjum þann 18. og birtust í Morgunblaðinu þann 19.:

Afskapaveður hefir geisað hér tvo síðustu daga. Stormur og snjór. Símaþræðir margir slitnir og staurar brotnir. Menn sakna eins vélarbáts úr fiskiferð.

Morgunblaðið segir þann 30. frá snjóflóði sem skemmdi símastaura í Mjóafirði þann 28. 

En það komu góðir dagar. Morgunblaðið segir frá þann 31.:

Vorið er komið. Sólskin og sumarblíða var hér í gær, - hið besta vorveður sem hugsast getur. Reyndi hver að njóta þess, sem best hann gat. - Gekk fjöldi fólks við sólarlag vestur á grandagarðinn nýja og alla leið út í Örfirisey, en ungir drengir þreyttu róður á höfninni á bátum, sem góðir menn léðu þeim. En gamla fólkið hristi höfuðið og sagði að enn væri eftir páskahretið - það brygðist sjaldan.

Daginn eftir segir frá því að nóttin eftir sólarlagið fagra hafi verið köld og að víkur undan Kleppi hefði lagt og ófært hefði verið báti milli Klepps og Viðeyjar morguninn eftir.

Apríl: Mjög óhagstæð tíð syðra eftir miðjan mánuð. Snjóhraglandi nyrðra framan af. Talsverður snjór vestanlands í lok mánaðarins. Kalt.

Austri segir frá snjóþyngslum og snjóflóðum eystra í pistli þann 4. apríl:

Snjóflóð komu nokkur hér í firðinum í fyrri viku [Þjóðviljinn segir 8. apríl þetta hafa verið 25. mars]. Eitt á Ströndinni fyrir utan Búðareyri. Tók það 3 símastaura. Annað á Brimnesbyggð, og tók lifrarbræðsluhús, er St. Th. Jónsson kaupmaður átti. Er það allmikill 8kaði. Fleiri smásnjóflóð komu, en gjörðu engan skaða. Snjóþyngsli afarmikil eru nú um mest allt Austurland. Hér á Seyðisfirði hefir ekki komið jafnmikill snjór síðan snjóflóðsveturinn 1885. Skaflarnir ná víða upp á efri hæð húsa i bænum. Bjart og gott veður hefir verið 3 síðustu daga.

Og Þjóðviljinn segir frá einu snjóflóði til viðbótar - sennilega féll það um svipað leyti en fréttin birtist ekki fyrr en 24. maí:

Í aprílmánuði þ. á. skall snjóflóð á brúna á Gilsá í Jökuldal, skammt fyrir ofan Skjöldólfsstaði, og brotnaði brúin, og sópaðist burt.

Vestri kvartar þann 7. apríl: 

„Tíðin afleit undanfarið. Í gær og dag norðanstórviðri með fannkomu og frost í dag var 11° á C“. Og daginn eftir: „Hafís töluvert mikinn sáu Bolvíkingar i gær og í morgun“.

Páskadagur var 12. apríl - þá segir Morgunblaðið:

Fremur sjaldgæft mun það vera, að Tjörnin hér i Reykjavík skuli vera nær botnfrosin um þennan tíma árs. Það er hún nú.

Þann 16. birtust í Morgunblaðinu daufar fréttir frá Húsavík:

Tíðin hefir hér alt að þessu verið hin versta og er þetta einhver hinn harðasti vetur, sem komið hefir nú lengi. Hefir aldrei blotað síðan í janúar og þangað til í dag, en nú er góð hláka. Heyþrot eru víða hér í grenndinni. Eru Keldhverfingar einkum tæpir og sumir alveg heylausir. Þeir hafa pantað 200 bagga af heyi frá Noregi og kemur það núna með Flóru.

Snjóa tók að leysa austanlands um miðjan mánuð - þann 25. birti Austri um það frétt:

Veturinn kvaddi með sólskini og blíðviðri og sumarið heilsaði á sama hátt. Þíðviðri hefir nú staðið yfir í viku, og hefir snjór sigið mikið hér í firðinum, en lítil beit mun komin ennþá. Í Héraði hefir hlákan verið áhrifameiri, einkum á upp-Héraði. Fljótsdalur kvað vera alveg runninn og ennfremur Skógar, og góð jarðarbeit komin á Völlum og Fellum, en leysingin minni er utar dregur. Maður nýkominn sunnan úr Hornafirði segir par einmunatíð svo að flestir hafi verið byrjaðir að sleppa fé sinu þar syðra, og svo hafi verið norður í Berufjörð. Vatnavextir voru þar miklir, svo að illt var yfirferðar.

Þann 27. apríl segir Þjóðviljinn frá því að hafís hafi borist inn á Djúp í dymbilvikunni (5. til 11. apríl). Þá segir í sama blaði:

Lítið eða nær ekkert varð úr skírdags- eða páskahreti að þessu sinni og þó eigi laust við, að ögn hreytti snjó framan af dymbilvikunni, en réðist þó allt betur en á horfðist. Laust eftir páskana gerði og stórfeldar rigningar og þíðviðri, og hefir svo haldist æ öðru hvoru síðan.

Vísir birtir þann 28. frétt frá Akureyri:

Akureyri í gærkveldi. Stórhríð hófst hér síðari hluta dags í dag og er nú blindbylur.

Maí: Sérlega vond tíð og fádæma erfið sauðburði. Snjókoma og krapahryðjur viðloðandi mestallan mánuðinn. Mjög kalt.

Þann 10. birti Morgunblaðið fréttir frá Snæfellsnesi:

Ólafsvík i gær. Ótíð er hér hin mesta. Afli enginn og kenna menn beituleysi. Veður hefir verið svo kalt, að engin síld hefir komið. Útlit hið versta ef ekki batnar mjög bráðlega. Stykkishólmi í gær. Stöðugir kuldar og harðviðri. Skepnuhöld slæm. Fóðurskortur almennur. Fellir fyrirsjáanlegur, ef ekki breytist tíðarfar til batnaðar bráðlega.

Og fréttir bárust af heyskorti í Reykjavík (Morgunblaðið 11. maí):

Heyskortur er orðinn mjög tilfinnanlegur sumstaðar hér í bænum og í nærsveitunum. Má heita heylaust víðast hvar. í Viðey eru 60 kýr í fjósi en aðeins hey til 2-3 daga.

Fjárskaðafréttir sem Ingólfur birti 7. júní, en atburðurinn átti sér stað snemma í maí:

Í Sveinungavík í Þistilfirði hröpuðu 63 kindur fyrir sjávarhamra í hríð eftir sumarmálin. Hefði hver skepna farið, ef unglingspiltur, sem var hjá, fénu, hefði ekki fleygt sér flötum á hamrabrúnina og getað með því stöðvað féð.

Enn bárust hafísfréttir. Austri segir frá þann 16. maí:

Skipstjórinn á „Ingólfi", skýrði oss frá því, að hann hefði siglt í gegn um allmikinn hafís frá Melrakkasléttu til Langaness, nú er „Ingólfur" kom að norðan 12. þ.m. Veður var bjart og stillt, en samt fór skipið eigi nema með hálfum hraða, þar sem ísinn var þéttastur. Ef veður hefði verið dimmt, kvaðst skipstjóri eigi mundi hafa hætt á að leggja skipinu í ísinn. 

Þjóðviljinn segir frá því 19. júní að um þetta leyti hafi hvítabjörn gengið á land á Sléttu og verið skotinn. 

Og 17. maí segir Morgunblaðið:

Patreksfirði i gær. Fiskiskipið „Helga“ rak hér á land í gærkvöldi kl. 8. Hér var þá versta veður á vestan. Skipið rak hliðflatt á ströndina. Er önnur hlið þess eitthvað brotin. Það er vátryggt í Samábyrgð íslands. Dýrafirði i gær. Veður hefir verið hér mjög illt undanfarna daga. Allir vélbátar og öll þilskip liggja inni vegna óveðurs. Í Haukadal liggja 20 þilskip, sem þangað hafa flúið fyrir óveðrinu.

Verst varð uppstigningadagshríðin þann 21. maí og kuldarnir dagana á eftir. Frost fór aðfaranótt þess 23. í -4,6 stig í Vestmannaeyjum. Fréttir bárust víða að: Morgunblaðið 21. maí: „Ísafirði í gær: Hér er ekki sumarlegt nú sem stendur, brunafrost í nótt og fannkoma og snjór yfir allt í morgun eins og um hávetur“. „Sauðárkrók í gær: Fannkoma í dag þriggja þumlunga snjór á láglendi“. Og daginn eftir (22.): „Akureyri í gær: Hér er nú norðan blindhríð. Tók fyrst að snjóa í fyrrinótt og var jörð alhvít í gær ... “. „Blönduósi í gær: Veðrið er hið versta, norðan hríð og kuldi. Brunafrost í nótt ...“. „Ölfusárbrú í gær: Tíð er hér afleit. Feiknafrost í nótt og útlit hið versta. Menn almennt orðnir heylausir. Lömb eru skorin jafnóðum og þau fæðast. Annars er alauð jörð hér“. 

Austri segir frá uppstigningardagshríðinni þar eystra:

Þann 21. þ.m. gjörði snjóhríð, og er kominn töluverður snjór hér í byggð ofan á það sem fyrir var; en  á fjöllum uppi er svo mikill nýr snjór kominn að hann nær hestum í kvið.

Morgunblaðið birti frétt þann 3. júní:

Maður nýkominn að austan segir helstu tíðindi, að á uppstigningardag hafi Þjórsá lagt á svonefndu G1júfri skammt fyrir ofan Þjórsárholt. Þykir þetta einsdæmi í 50 sumur, enda muna elstu menn ekki eftir slíkri nepju.

Ísafold 23. maí:

Alhvít jörð er í Reykjavík í dag þ. 23. maí - Hefir snjóað drjúgum í morgun og haldið áfram í dag. Er þetta óefað algert eins dæmi á þessum tíma árs.

En tveimur dögum síðar segir Morgunblaðið:

Tré í görðum eru víða farin að laufgast. Má það undarlegt heita í þessari veðráttu.

Og í lok mánaðarins bárust enn fréttir að austan. Austri segir frá þann 30. maí:

Ofsaveður af norðvestri gjörði hér í nótt; olli það nokkrum skemmdum hér í bænum, t. d. fuku svalirnar af húsinu Steinsholti. Skip þau sem á höfninni lágu, ráku töluvert fyrir festum undan veðrinu.

Morgunblaðið segir frá veðri í frétt frá Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd 31. maí:

Kalastaðakoti í gær. Hríð var hér í gærdag og jörð alhvít ofan í byggð í dag. Þeir bændur, sem eitthvert strá eiga enn, gefa öllum skepnum. Margir þó komnir á kaldan klaka og láta kýr sínar út gjaflaust, án nokkurs gagns þó. Sauðfé hríðfellur, ekki þó beint af fóðurskorti, heldur sjúkdómum, sem menn álita að stafi af slæmu og litlu fóðri. Lömbin strádrepast jafnharðan og ærnar bera. Frétt frá Norðurárdal hermir að þar séu nú tveir bæir næstum sauðlausir.

Hvítasunnu bar upp á 31. maí og þann 2. júní er bjartara yfir fréttum Morgunblaðsins. Þessi gæði stóðu reyndar ekki lengi:

Óvenjugott veður var hvítasunnudagana hér í bænum. Fjöldi fólks á götunum og margir óku í bifreiðum eða hestvögnum upp í Mosfellssveit - eða þá þeyttust upp að Árbæ á gæðingum sínum.

Júní: Sérlega vond tíð um vestanvert landið, en skárri eystra. Fremur kalt syðra, hiti í meðallagi norðaustanlands. Fjöldi manna drukknaði á sjó við Breiðafjörð snemma í mánuðinum - óvíst hvort veður skipti mestu í því sambandi.

Kalsa gerði á Vestfjörðum þann 6. og sagði Vestri þann 7. að gert hafi norðan stórviðri með kraparigningu svo að fennt hafi víða að sjá. Líklega fórst fiskiskip frá Ísafirði með 10 mönnum í þessu veðri undan Aðalvík. 

Lögrétta segir frá þann 10.:

Hafís er nú mikill fyrir Vesturlandi, en þó ekki landfastur og hefur ekki hindrað skipaferðir. Jafnvel suður á móts við Reykjanes hefur hafís sést nýlega, en langt til hafs er hann. Af nálægð íssins stafar kuldinn og óstöðugleikinn í veðráttunni.

Nú skipti nokkuð í horn, sunnanlands lagðist í rigningar, en betra var nyrðra frá miðjum mánuði. Við gefum fréttum gaum. Morgunblaðið birtir þann 11. og 18. fréttir úr Vestmannaeyjum:

[11.] Vestmanneyjum í gær. Tíðin er hér mjög óhagstæð, gæftir litlar og afli enginn. Fiskþurrkunin gengur svo illa að ekki eru dæmi til annars eins. Er enn eigi kominn einn einasti þurr fiskur í hús, en um þetta leyti í fyrra höfðu Eyjamenn sent mikinn fisk til útlanda.

[18.] Vestmannaeyjum í gærmorgun. Tíðin er enn hin óhagstæðasta. Þurrkleysur og stormar. Margir menn úr landi eru hér veðurtepptir og komast ekki heim til sín. Enginn þurr fiskur kominn i hús enn þá og er það fáheyrt.

Morgunblaðið segir þann 19. í frétt frá Akureyri (í gær): „Hér er enn ofsahiti, 17-18 stig. Er þó á sunnan stormur og leysir nú snjó og klaka óðum. 

Þann 30. birtist frétt í Morgunblaðinu um sílaregn undir Eyjafjöllum:

Í gær kom Lárus Pálsson inn á skrifstofu Morgunblaðsins og með honum Hjörleifur Jónsson frá Skarðshlíð undir Eyjafjöllum, er sagði oss kynjasögu þá, er hér fer á eftir: 20. þ.m. voru tveir menn staddir úti á bæ, sem heitir Miðdælisbakkar undir Eyjafjöllum. Það er um 1 km. frá sjó. Veður var þurrt og þokulaust. Heyrðu þeir þá þyt í lofti, er þeir hugðu vængjaþyt, en sáu þó enga fugla, en í sama vetfangi sjá þeir hvar rignir sílum. Þau voru 40 of öll lifandi. Þegar Hjörleifur frétti þetta, fór hann til fundar við mennina til að sjá sílin, en þau voru þá glötuð. En 26. þ.m. þegar Hjörleifur lagði af stað, fundust 12 til 20 síli á öðrum stað, hér um bil 3 km. frá sjó. Enginn sá er þeim rigndi, en dauð voru þau er að var komið. En Hjörleifur hirti nokkur þeirra og kom með þau i glasi. Sagði hann þau minni en hin, að sögn þeirra, er sáu bæði. Hann lét eitt sílið hér eftir. Það er heilt og óskaddað, 14,7 cm. á lengd. Hin ætlaði hann að sýna Bjarna fiskifræðingi Sæmundssyni. Þess munu að eins dæmi hér á landi, að sílum hafi rignt, en fátítt er það. Má geta þess til, að þau hafi sogast í loft upp í skýstrokk, en síðan borist fyrir vindi til lands.

Í framhaldinu (Morgunblaðið 3. júlí) var rifjað upp að sílum hafi rignt á bæ einum á Kjalarnesi „í fyrra“. Síladreif fannst þar í heyflekk og töldu menn þá að fuglar hefðu að borið - en voru samt ósködduð. 

Júlí: Votviðratíð syðra fram til þ.20., en annars sæmileg tíð. Fremur kalt. 

Þokur voru við Norðurland og tafði hún siglingar. Morgunblaðið segir frá þann 18.:

Akureyri í gær: Hér hafa verið þokur miklar undanfarna daga og hefir ýmsum skipum hlekkst á þess vegna.

Þokan átti þátt í slysi fyrir norðan þann 26. júlí:

Á sunnudaginn fór sex manns frá Glerá, sem er bær skammt héðan skemmtiför yfir í Vaglaskóg. Veðrið var gott um morguninn, en er á daginn leið skall yfir sótsvört þoka, og var hún svo dimm að menn muna ekki aðra eins. Héðan úr bænum sá maður t.d. ekki skipin, sem liggja á Pollinum, rétt fyrir framan landssteina. Fólkið kom úr skóginum seint í gærkvöldi og villtist í þokunni. Vöxtur er í Eyjafjarðará og er hún ill yfirferðar. - Ætlaði það að ríða ána á Leirunni, en lenti of framarlega og fór fram af marbakkanum. Drukknuðu þar tveir menn.

Loksins stytti upp syðra. Morgunblaðið 25. júlí:

Só1skin og ágætisþurrkur var hér í gær. Ógrynni af fiski var breitt til þerris á fiskreitum og húsþökum, og er óhætt að fullyrða að þessi þurrkur hefir verið dýrmætur hér í nágrenninu og öllum einkar kærkominn. Hiti var óvenjulega mikill. Túnasláttur er víða langt kominn á blettunum umhverfis bæinn, en lítið hefir enn náðst inn af töðu.

Rykmengun er ekki nýtilkomin í bænum. Morgunblaðið segir frá þann 31. júlí:

Mo1dryk mikið hefir verið hér í  bænum undanfarna daga, einkum í gær. Það kemur að litlu gagni, þó að göturnar séu vökvaðar, því að bæði rýkur moldin af gangstéttunum og görðum við göturnar.

Þegar þornaði syðra tók að rigna norðanlands og var kvartað undan miklum óþurrkum þar síðari hluta júlímánaðar. 

Ágúst: Þokkaleg tíð norðaustanlands og fram eftir mánuðinum vestanlands, en snerist í óþurrka á Suðurlandi. Fremur hlýtt.

Morgunblaðið lofar heyskapartíðina í pistli þann 19. ágúst:

Heyskapartíð hefir verið svo hagstæð sunnanlands í sumar, að slíks eru ekki dæmi síðan 1907, að kunnugra sögn. Reykvíkingum hefir verið ómetanlegt gagn að þurrkatíðinni, því að nú hefir fiskþurrkun heppnast afbragðsvel  og mjög mikið komið í hús af honum. 

Ingólfur segir frá hugsanlegu jökulhlaupi í Þverá í Rangárþingi um miðjan mánuðinn þann 23. - en þetta bar einmitt upp á hlýindin miklu:

Vatnavextir voru svo miklir í Þverá í Rangárþingi öndverða vikuna sem leið, að Þykkbæingar gátu ekki stundað heyskap á mánudaginn og þriðjudaginn; engjar þeirra voru allar í kafi. En um miðja vikuna tók vatnið að sjatna. Talið, að flóð þetta stafi af jökulhlaupi. 

En svo fór aftur að rigna. 

September: Lengst af óhagstæð tíð. Fremur kalt.

En þurrkinum lauk ótímabært syðra, norðanlands þornaði. Ingólfur segir frá þann 6. september:

Óþurrkar hafa staðið síðan um höfuðdag hér sunnanlands. Sæmilegur þerrir hefir eigi verið nema mánaðartíma í sumar. Náðu flestir töðum sínum (fyrri slætti) með bestu hirðing, en lítið mun víðast hafa náðst at útheyi. Taða (af fyrri slætti) jafnvel úti enn sumstaðar á Suðurnesjum. Horfur um heyskap mjög slæmar, ef ekki breytir um veðráttu bráðlega.

Og Suðurland segir frá daginn eftir:

Stórrigning hér eystra undanfarna daga, óslitinn rosi hálfan mánuð. Voði fyrir dyrum ef ekki rætist úr bráðlega. Almenningur hér ekki búinn að ná inn meir en helming heyskapar og varla það. Feiknin öll af heyjum úti sem liggja undir skemmdum. Votlendar engjar komnar í kaf.  Heyskaða af vatnságangi er getið um í fyrradag á tveimur bæjum í Holtum. Hellnatúni  - um 200 hesta - og í Ási eigi alllítið. Lækur flóði yfir engjarnar og sópaði heyinu burtu.

Annað fyrir norðan. Morgunblaðið segir þann 9.: 

Akureyri í gær: 

Hér er alltaf öndvegistíð; sunnanátt og sólskin í dag og besti þurrkur. Heyskapur gengur ágætlega. Spretta er sæmileg og nýting góð. Má heita að alt af þorni jafnharðan af ljánum.

Illviðri olli tjóni í Vestmannaeyjahöfn þann 10. Brautin á hafnargarðinum brotnaði og vagn fór í sjóinn (Morgunblaðið 11.). 

Allmikið norðanveður gerði fyrir miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá þann 14.:

Geitabergi [í Svínadal] í gær: Norðanhríð var hér i gær (12.). Snjóskaflar á túnum viða nokkuð, t. d. að Fornahvammi. Eru menn jafnvel hræddir um að fé hafi fennt til fjalla. - heyskapur gengur illa - litið af útheyi náð enn. Töluvert kvað hafa fokið af heyi i gær. Grátt í öllum fjöllum í Borgarfirði. Akureyri í gær: Hér snjóaði í fjöll í nótt. Norðankulda-stormur í dag. Sauðárkróki í gær: Hér er hríðarveður og hefir það nú staðið þrjú dægur. Norðanrok, en brim ekki eins mikið og í gær. Bændur fram i Skagafirði eiga mikil hey úti. Er óvíst að þau náist nokkurn tíma inn vegna þess að allar engjar eru þar undir vatni.

Norðri segir þann 15. frá sköðum í veðrinu:

Á laugardaginn [12.] var mikið brim og og stórsjór fyrir Norðurlandi. Braut þá 3 stóra vélabáta í spón á Látrum á á Látraströnd, sem Höfðamenn áttu, og 1 vélabát á Skeri, sem fjórir menn áttu í Höfðahverfi. Manntjón varð ekki. 

Vestri segir líka frá norðanveðrinu - í frétt þann 28.:

Norðanhretið um daginn var eitt hið versta er sögur fara af jafn snemma hausts. Fulla viku var óslitin norðan hríð að heita mátti. Fannkoma varð feiknamikil víða einkum í norðurhreppunum, Sléttu Grunnavíkur- og Snæfjallahreppum; þar var kaffenni alveg niður að sjó - og jafnvel í Önundarfirði voru hnéháir skaflar við sjóinn fyrst. Sagt er að sumstaðar í norðurhreppunum hafi verið farið á á skíðum í fjallagöngurnar. Ekki hefir frést nákvæmlega um fjárheimtu þar, en á Snæfjallaströndinni hafði fé ekki fennt svo teljandi sé. Tíðin. Vestanátt hefir verið síðan norðanstorminum linnti og smáskúrir að öðru hvoru, en annars milt veður. Í nótt 26. þ. m. snjóaði þó í sjó.

Suðurland segir frá sláttarlokum þann 28. september - eitthvað hafa dagsetningar skolast til hjá fréttaritara:

Slættinum er nú að verða lokið hér eystra, hann byrjaði 1-2 vikum seinna en vant er. Grasspretta varð í góðu meðallagi að lokum. Töður náðust í góðri verkun en svo voru stopulir og litlir þurrkar, fram í miðjan ágústmánuð, en góðvíðri. Allir voru að vona eftir þurrki uppúr hundadögunum, en þá tók annað við, samfeldur rosi og stórrigningar, varð vatnsflóð svo mikið hér í Flóa og víðar á láglendinu að varla eru dæmi slíks áður á svo skömmum tíma, og svo snemma sumars. Alt hey sem úti var fór á flot og varð ekki við neitt ráðið fyrir vatni. Flestir áttu úti um helming heyskapar eða meira. Horfurnar voru því um skeið svo ískyggilegar sem framast mátti verða, bersýnilegur voði fyrir dyrum. En svo skipti um allt í einu. Föstudaginn 6. þ. m. [6. september var sunnudagur] brá til norðanáttar og var síðan skarpa þerrir í fulla viku, náðu þá allir heyjum sínum, og þó ekki affallalaust því á sunnud. 8. þ.m. [8. september var þriðjudagur] var afskaplegt rok á norðan fauk þá hey víða til skaða, og margir misstu og talsvert hey í vatn. Þó mun nú mega telja heyfeng hér eystra viðunanlegan nú orðið, og allvel hefir ræst úr eftir því sem á horfðist.

Aftur gerði hret seint í mánuðinum. Morgunblaðið birti þann 29. frétt frá Sauðárkróki:

Sauðárkróki í gær. Hér er köld veðrátta nú sem stendur - ökklasnjór niður í fjörumál og mannheldur ís á hverjum polli. Stórhríð var hér í fyrradag og fyrrinótt, en hríðarlítið í gær. Aftur var stórhríð með frosti í nótt, en nú er heldur að létta. Verður vonandi hríðarlaust í dag.

Október: Óhagstæð tíð syðra, en þokkaleg norðaustanlands. Fremur hlýtt.

Þann 27. birtir Morgunblaðið frétt um árgæsku austanlands, en segir líka frá skipsstrandi í Garði:

Fossvöllum (Múlasýslu) í gær: Hér er nær dæmalaus árgæska, hver dagurinn öðrum betri. Jörð er enn skrúðgræn og alþíð, því engin frost hafa enn komið.

Vélbáturinn Ágúst, sem verið hefir undanfarið varðskip í Garðssjónum, strandaði í fyrrinótt að Vörum í Garði. Ofsaveður var á og báturinn lá fyrir akkerum skammt undan landi. Festar kváðu hafa slitnað og rak bátinn á land. Sjónarvottar þar suðurfrá, sem vér áttum símtal við í gær, kváðu bátinn vera gjöreyddan.

Mikið illviðri gerði vestra þann 29. Morgunblaðið segir frá þann 31.:

Ísafirði í gær: Ofsarok var hér í gær - svo mikið að menn muna eigi annað eins. Lítill vélbátur slitnaði upp fyrir utan Tanga og rak hann til hafs. Þrír bátar réru héðan í gær, en enginn þeirra gat lent hér. Átta botnvörpuskip liggja hér inni fyrir ofsaveðri í hafi. Bolungarvík í gær: Vélbátur fórst hér i gær. Veður var óvanalega illt. Segja menn að roka hafi velt bátnum um. Skeði það rétt fyrir utan víkina. Formaðurinn og 4 menn með honum fórust. Flateyri í gær: Bátar réru hér nokkrir í gær. Lentu þeir í miklum hrakningum. Einn þeirra fórst, en skipshöfninni bjargaði botnvörpungur. Gamlir menn muna eigi annað eins veður.

Nóvember: Nokkuð umhleypinga- og stormasamt. Kalt.

Gott veður var í byrjun mánaðar. Ísafold segir frá þann 4. nóvember:

Síðustu dagana hefir verið frost og stillur. Ágætur íss er kominn á Tjörnina og var þar í gærkveldi mikið um skautaferðir, enda veður til þess, glaða tunglskin og blæjalogn.

Desember: Fremur óhagstæð og snjóþung tíð um mestallt land. Fremur kalt.

Illviðri gerði um mánaðamótin. Austri segir frá þann 5. desember:

Ofsaveður með mikilli fannkomu gjörði s.1. mánudagsnótt; urðu nokkrar bilanir á ljósþráðunum. ljósin slokknaðu snöggvast nokkrum sinnum, og lýstu illa þar til búið var að greiða þræðina daginn eftir. Símaslit urðu og víða um land, samband ekki lengra norður en til Fagradals, og suður á bóginn til Eskifjarðar. 

Morgunblaðið segir þann 5. frá því að fjóra vélbáta hafi rekið á land í Ólafsfirði í veðrinu og allir brotnað. Þeir voru mannlausir. Þjóðviljinn (30. janúar 1915) segir bátana hafa verið þrjá. 

Austri segir frá því þann 18. að þrír hestar hafi þá fyrir nokkrum dögum farist í snjóflóði skammt frá Hjarðarhaga á Jökuldal. 

Rosasamt var á milli jóla og nýárs. Lægðin sem kom að landinu á þriðja í jólum var á meðal þeirra allradýpstu. Þrýstingur á skeytastöðinni í Vestmannaeyjum fór niður í 929,0 hPa. Morgunblaðið segir fréttir frá Vestmannaeyjum þann 30.

Vestmanneyjum í gær: Voðalegt illveður var hér í gær. Stórsjór og brim allan daginn.  Hafnargarðurinn, sem nú er töluvert langt kominn, gjöreyddist af brimi. Er hann með öllu horfinn og ekkert stendur eftir sem þess ber vott að á honum hafi nokkru sinni verið byrjað. Tjón er  mjög tilfinnanlegt.

Vísir segir þann 14. janúar 1915 frá flóðbylgju í Vík í Mýrdal í sama veðri:

Á þriðja i jólum í garðinum mikla, sem skemmdi hafnargarðinn í Vestmannaeyjum kom flóðbylgja allmikil i Vík í Mýrdal, meiri en menn hafa þar sögur af, enda var rokstormur af hafi. Skall bylgjan upp á húsin fyrir neðan bakkann og braut inn hlera og glugga á kjöllurum og fyllti þá, og gekk alveg upp á efstu glugga á húsunum sjávarmegin. Vísir hefir átt tal við Sigurjón Markússon sýslumann, sem býr í einu af húsum þeim, sem standa fyrir neðan bakkann. Gat hann þess, að vegurinn hefði skemmst mikið, en er nú lagaður aftur, og þegar særinn féll út aftur hafði hann tekið með sér úr kjöllurunum ýmislegt lauslegt, svo sem kol, sláturtunnur og kjöttunnur, sem tapaðist alveg. Stórskemmdir urðu ekki af flóðinu. en talið víst, að öll húsin fyrir neðan bakkann hefðu farið, ef stórstreymt hefði verið. Þetta var kl. 3-4 um daginn, en þar eð menn bjuggust við miklu sjávarróti höfðu allir bátar verið fluttir á óhultan stað, og mundu þeir allir hafa farið, ef þeir hefðu verið í venjulegum uppsátrum. Allmiklu af kjöttunnum, sem fara áttu til Vestmannaeyja og geymdar voru fyrir neðan bakkann, varð komið undan í tæka tíð.

Maður varð úti á Breiðadalsheiði þann 29. og annar neðan við Kolviðarhól. 

Lýkur hér að segja frá þessu tíðarerfiða ári. Ýmsar tölulegar upplýsingar fá finna í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Páskahret - eða?

Sannleikurinn er sá að þeir sem reyna mikið geta oftast fundið eitthvað sem kalla má páskahret ársins - alla vega í spám. Hins vegar hefur ekkert páskahret sem nær nokkru máli gert hér á landi síðan á skírdag 1996. Nú er dymbilvika hafin og allt sem mögulega getur tengst kulda eða snjó í þeirri viku - og þeirri næstu verður tengt hugtökunum hreti og páskum. 

Jú, það má í dag finna spár sem gera ráð fyrir kulda. Sú sem er einna mest krassandi gildir á annan dag páska - eftir viku. Tillaga evrópureiknimiðstöðvarinnar er hér að neðan.

w-blogg260318a

Hiti í 850 hPa-fletinum er sýndur með litum, spáð er að hann verði neðan við -18 stig yfir landinu norðanverðu. Jafnþykktarlínur eru heildregnar - það er 5080 metra línan sem liggur um landið þvert. Alvöru vetur. 

En langtímaspár hafa ákveðna tilhneigingu til að ýkja kulda og meðalspáin sem gildir á sama tíma (50 spár) segir þykktina verða 5016 metra - kalt að vísu en ekki nærri því eins og spáin hér að ofan segir.

Bandaríska spáin nú í kvöld er reyndar enn kaldari - þykktin yfir miðju landi ekki nema 5040 metrar og þar að auki er hún að gefa til kynna mögulegt hríðarveður á Suðurlandi. 

Heldur er þetta nú vafasamt allt saman - en langtímaspár eru stöku sinnum réttar. Við bíðum og sjáum hvað setur.


Af árinu 1805

Þá er farið til ársins 1805 (löngugleymt ár - öllum hér á Fróni). Það var eitt af hægstæðari árum síns tíma - upplýsingar þar um þó öllu rýrari en við eigum nú að venjast. Með vissu er aðeins vitað um hitamælingar á einum stað á landinu, hjá Sveini Pálssyni náttúrufræðingi og héraðslækni á Kotmúla í Fljótshlíð. Mælingar Sveins eru þó ekki samfelldar því hann varð starfa sinna vegna að ferðast út og suður um stórt hérað. Vitað er um fleiri hitamæla á landinu, en nær ekkert hefur spurst til skráninga á mælingum þeirra. 

Við hefjum leikinn með því að líta á hitamælingar Sveins.

w-ar1805-Hiti-Kotmúla_1805

Hver mánuður er merktur þann 15. Lóðrétti ásinn sýnir hita. Mælt er um miðjan dag (rautt) og að kvöldlagi (grænt) allt árið, en líka að morgunlagi (blátt) frá og með mars til og með september.

Taka má eftir því að hlýtt var í janúar, aldrei mikið frost, en frost er heldur meira í febrúar, en ekki samfellt. Þá kemur aftur hlákukafli og fór hiti í 12,5 stig um miðjan dag þann 13. mars. Mikið frost gerði fyrstu dagana í maí, stóð þó ekki lengi og hlýir dagar fara að sjást. Nokkrir kaldir morgnar komu seint í ágúst og líka var kalt á daginn um tíma um og upp úr miðjum september. 

Sveinn var mikið á ferðalögum á haustin og vantar þá mikið í mælingarnar, en þegar þær byrjuðu aftur var orðið nokkuð kalt, og mesta frost ársins mældist síðan á aðfangadagskvöld, -15 stig. 

Loftvog Sveins var illa kvörðuð, sýnir breytingar frá degi til dags vel, en erfitt er að vita hver raunveruleg meðaltöl eða útgildi eru. Lægst stóð lofvog hans 1805 í 942,8 hPa þann 17. janúar og hæst þann 1047,1 hPa þann 14. nóvember. Honum finnst síðari talan óvenjulegri en sú fyrri og getur þess að þessi mikli þrýstingur hafi ekki staðið lengi. 

Hann getur um næturfrost bæði 29. og 30. maí (rétt fyrir hvítasunnu) - og síðan 12. júní líka. Aftur gerði næturfrost 27. ágúst og þá spilltist grænmeti í görðum. Dagsetningar þessar teljast varla mjög óvenjulegar í Kotmúla.

Jöklafýlu getur hann um þann 9. október - kannski að þá hafi gert hlaup í einhverja jökulá Mýrdals- eða Vatnajökuls. Það vekur athygli hversu oft gerði þrumuveður í Fljótshlíðinni á þessu ári - en reyndar eru þrumuveður algengari í þessum landshluta en víðast hvar annars staðar. 

Ítarlegustu aðgengilegu lýsingu á tíðarfari ársins er að finna í Brandstaðaannál (blaðsíðutöl í prentaðri útgáfu í svigum):

Sama góðviðri, nokkru óstöðugra, hélst í janúar; vatnsföll auð og hálfþíð jörð. Vermenn fóru Blöndu á þíðu og Svínavatn var ei óhætt að fara. Varð oft ójárnað riðið til kirkju yfir ár og langa leið. Með febrúar lagði vel með stilltum frostum. Var næg jörð til góu. Í byrjun hennar kom hríðarkafli. Lá fönn sú á um 3 vikur og það var allur gjafatíminn, hvar haggott var, þó þriðju viku góu sólbráð og lítil snjókoma; þá til sumarmála vorveðrátta, stundum rosasamt á vestan.

Með sumri skipti um til landnyrðings með frosti og kulda, þó snjólaust utan á [kóngs-] bænadaginn. 12. maí til 14. maí mikil rigning, gréri þá fljótt. Mjög þokusamt síðla í maí og mesta stórrigning á hvítasunnu 2. júní. Runnu víða á skriður til skemmda og ár upp á engjar. Þar eftir kuldi og hret í sömu viku og annað síðar. Frá 13. júní til sláttar mikið góð tíð og grasvöxtur á hvers kyns jörðu. Hann byrjaðist í 12. viku sumar. Fengust þurrkar og besta töðufall síðan 1797. Með 17. viku [kringum 10. ágúst] byrjaði óþurrkakafli og stórrignt. Varð ei þurrkað um 2 vikur. Þar eftir góð heyskapartíð. 11. sept. enn ein stórrigning og gott á eftir.

Um réttir, 19. sept. mikil norðanhríð. Tók fljótt upp aftur þann snjó. Haustið allt þíðusamt, en oft rigning, einkum á Mikaelsmessu [29. september]. Urðu allar smáár án snjóleysingar ófærar, lak og streymdi nálega í hverju húsi. Sunnudaginn fyrir jólaföstu [24. nóvember] gjörði annað vatnsflóð. Kom þá rigningin ofan í lognfönn, svo lækir og smáár urðu óreiðar, svo enginn mundi slíkan vöxt á hausttíma. Þangað (s49) að var sumarveður og ær víða mjólkaðar á hverjum degi. Fimmtudaginn eftir [28.] lagði að snjó og hörku. Á jólaföstu gjörðu blotar þrír jarðskarpt. Á aðfangadaginn var mikil frostgrimmd og. 21. des. stórhríð á norðan. Lítið var fé gefið fyrir nýár, þar vel var beitt. (s50)

Ber ekki illa saman við atburði í mælingum Sveins í Kotmúla. En lítum á fleiri heimildir. Geir Vídalín biskup segir nokkuð frá tíðinni í fjórum bréfum - (það síðasta sem hér er vitnað til er frá 1806). Geir bjó um þessar mundir á Lambastöðum á Álftanesi. 

Lambastöðum 19-3 1805 (Geir Vídalín biskup): Haustið (1804) var í því heila gott, þó nokkuð stormasamt, sem veturinn síðan svo góður, að enginn man hans líka. Sá í fyrra (1804), sem var besti vetur, má heita harður hjá þessum. Frostleysur, hægur vestanþeyr og sunnangolur hafa verið vort veðurlag. Einstaka sinnum hafa (s37) komið norðanveður, en mót venju frostlítil eða alls frostlaus, og til frekara merkis hér um gengu út sumstaðar geldar kýr í Rangárvalla- og Árnessýslu allt til jóla með gjöf í annað mál og allt til þessa hef eg séð hér græn blöð á baldursbrá og fíflablöðkum (eða hvað það nú heitir ... ) ... Akureyrarskip, ... strandaði fyrir Sléttu norður, varð mannbjörg, en hvað um góssið líður, veit eg ekki. ... Flóð kom hér í logni í þessum mánuði, sem gjörði skaða, einkum í Hafnarfirði hjá Sivertsen. Gekk það upp á pakkhús hans og skemmdi þar bæði salt og mjöl, þó ekki til riða. [viðbót Ad. pag 2: Veðurátt hefur um þessa daga verið stirð og rosasöm, þó oftast frostlítið]

Lambastöðum 4-9 1805 (Geir Vídalín biskup): ... þetta yfirstandandi ár hefur verið til lands eitt það æskilegasta, vorið einkar gott, því ein tvö smáíhlaup telur maður ekki. Sumarið eftir því, og grasvöxtur sá allra besti, einkum á valllendi, hafa sumir fengið helmingi, sumir þriðjungi meiri töðu en í fyrra, og er hún nær allsstaðar komin græn í garð. Síðan túnaslætti lauk hefur hér verið úrkomusamt, þó góðir þurrkar í millum. ... (s48) Sömu árgæsku er að frétta að norðan og austan, en þá á móti hefur hér verið stakt aflaleysi, svo tómthúsfólk er allareiðu á hjarni ... (s49)

Lambastöðum 22-9 1805 (Geir Vídalín biskup):: Síðan á leið hefur sumarið verið óþurrka- og rosasamt og heyskapur á útengi þess vegna lukkast miður en á horfðist. (s54)

Lambastöðum, byrjað 2. páskadag 1806 [7. apríl] (Geir Vídalín biskup):: Haustið var regna- og stormasamt, svo útigangspeningur níddist sérílagi. Þó sást hér varla snjóföl fyrr en með sólstöðum.

Um tíðina í Reyðarfirði/Eskifirði austur á landi segir frú Gytha Thorlacíus frá góðri tíð og góðri sprettu í kálgarði sínum: 

Resten af denne Vinter [1805], der ikke var streng, gik rolig hen. (s34) Sommeren 1805 var meget mild, og Haven ved Gyththaborg florerede ret til Gleede for dens omhyggelige Dyrkre. (s35) 

Eins og venjulega gengur ritstjóra hungurdiska illa að komast fram úr smáatriðum texta dagbókar Jóns Jónssonar á Möðrufelli, en sér þó að hann talar vel um febrúar, hann hafi verið góður og stilltur, en tíðast æði snjór - væntanlega sá sami og Björn á Brandstöðum segir hafa fallið í góubyrjun. Mars var yfrið hagstæður og þurrkasamur. Vel heyjaðist þetta sumar þar nyrðra. Jón segir september hafa verið yfir höfuð góðan og hlýjan fyrir utan stórt áfelli sem gerði þann 19. - útnorðan stórhríð með mikilli snjókomu, en frostlint hafi verið. Nefnir hann og miklar rigningar og hlýtt veður í septemberlok. Desember segir hann ærið veðráttuharðan mestallan, en jarðir þó nógar. Björn minntist einnig á hríðina 19. september. 

Björn á Brandstöðum minnist á skriðuföll um hvítasunnu. Það gerir líka séra Þórarinn Jónsson í Múla í tíðavísum sínum:

Vorleysinga ákefð öll,
Allnær hvítasunnu,
Skriðu og vatna skæð um föll
Skaða’ á byggðum unnu.

Annáll Gunnlaugs Jónssonar á Skuggabjörgum í Deildardal í Skagafirði hefur (að því er ritstjóri hungurdiska best veit) ekki verið prentaður enn. Ólafur Jónsson höfundur ritsins „Skriðuföll og snjóflóð“ hefur plægt í gegnum annál Gunnlaugs og má í ritinu lesa þessa tilvitnun þaðan:

Annan júní kom stórfelld rigning, hlupu þá fram skriður víða norðanlands, sem skemmdu bæði tún og engjar í Svarfaðardal, helst á Urðum og Hreiðarsstöðum og aftur í september á Búrfelli og Skeiði. Einna mest varð þó skriðufallið á Bjarnastöðum í Kolbeinsdal, þar hljóp yfir og í kringum allt túnið áðurnefndan 2. júní. Fólk skaðaði ekki. Um Mikaelsmessuleyti hljóp fram mesta skriðan, sem tók Nýjabæ í Hörgárdal gjörsamlega, og færði hann ofan í Hörgá með skepnum og fjórum manneskjum [bónda, húsfreyju og tvö börn þeirra] sofandi í rúmum sínum. Um sama leyti fórst fjöldi fjár á afréttum í skriðuföllu, og víða um land skemmdu þær stórkostlega. 

Ólafur vitnar einnig í annál Hallgríms djákna Jónssonar (sömuleiðis óprentaður). Þar segir um skriðuföll 1805:

Þar að auki stórskemmdust allar jarðir í Myrkár- og Bakkasóknum af skriðuhlaupum á engjar þeirra og bithaga, og allir nærliggjandi afréttardalir. Hörgá flaut sem fjörður brekkna á milli og bar leirdyngjur og hnausa á allt flatlendi, svo engjar skemmdust um tíma frá öllum bæjum í dalnum, en náðu sér þó aftur síðar. Sama var tilfellið í Svarvaðardal, hvar tíu jarðir fordjörfuðust, flestar stórkostlega utan og innan túns í Vallna- og Urðakirkjusóknum. Einkum Skeið. Frammi í Eyjafirði urðu og fimm jarðir fyrir sömu háskatilfellum. 

Er mikilvægt að annálar þessir og verði lesnir af fagmönnum og síðan prentaðir þannig að óreyndir jarðvísindamenn og aðrir byrjendur í handritalestri (eins og ritstjóri hungurdiska) þurfi ekki allir að lesa úr sér augu og vit við þá iðju. 

Að auki vitnar Ólafur Jónsson í frásögn af skriðuföllum í Nýjabæ í þjóðsagnasafninu Dulsjá (útgefið 1937) - en við látum lesendur um að finna þá sögn. 

Einnig er í fáeinum erindum fjallað um Nýjabæjarskriðuna í tíðavísum séra Þórarins í Múla og segir svo að auki:

Datt á víðar dali’ um kring
Dapurt efni nauða:
Afrjettanna umbilting
Olli fjenu dauða.

Skepna dregin allmörg ein,
Engum sætti griðum,
Marin, kramin, brotin bein,
Burt úr ám og skriðum.

Haustrigningar, mæla menn
Mörgum kæmi’ að grandi;
Skal og af þeim skeður enn
Skaði’ á Suðurlandi.

Jón Hjaltalín segir í tíðavísum sínum um haustið 1805:

Haustveðráttan hefur góð
heita mátt, en regna flóð
ofan þrátt þó lak á lóð,
líka brátt um vindur óð.

Þetta var í heildina hagstætt ár. Meðalhiti í Stykkishólmi hefur verið áætlaður 3,2 stig, 0,6 stigum ofan meðallags 30 ára um þær mundir. Mælingar Sveins eru notaðar við þá ágiskun - þó talsvert vanti inn í þær. Tölurnar má sjá í viðhenginu - og áætlun fyrir Reykjavíkurhita líka (en aðeins til gamans). Þar sést að janúar var mjög hlýr - og júlí allhlýr - aðallega frostin í desember sem draga árshitann nokkuð niður. 

Þorvaldur Thoroddsen segir engan hafís hafa gert vart við sig árið 1805 - og við trúum því þar til annað sannast. 

Lokið er nú umfjöllun um árið 1805 - þá var Napóleon upp á sitt besta. 

Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á texta Brandstaðaannáls. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vestanáttin nálgast - en hefur það líklega ekki

Eindregnar austlægar áttir hafa verið ríkjandi í þessum mánuði - og engin alvöru vestanátt sýnt sig þó rétt hafi andað af vestri stund og stund síðustu vikuna. 

w-blogg240318a

Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á mánudag (26. mars). Þá leitar kalt loft úr vestri af nokkrum þunga inn á Grænlandshaf og í átt til okkar. Austanloftið heldur hins vegar vel á móti svo úr verður nokkur spenna.

Spár gera ráð fyrir því að megnið af kalda loftinu fari til suðausturs án þess að komast nokkru sinni hingað, en aftur á móti er alveg mögulegt að hluti þess nái að troða sér inn á landið suðvestanvert á aðfaranótt þriðjudags. Það stendur reyndar svo glöggt að spennings gætir meðal þeirra sem ákafast fylgjast með veðri. 

Á undan skilunum er landsynningshvassviðri - vonandi ekki mikið meira en það - með rigningarslagviðri og hugsanlegum leiðindum á heiðavegum og við fjöll. Á eftir skilunum er hægur vindur og snjókoma eða slydda. Nú gæti svo farið að skilin taki upp á því að hreyfast fram og til baka um stund - áður en þau hörfa svo aftur á haf út. Alltaf dálítið sérkennilegt - þó varla sé hægt að kalla mjög óvanalegt. 


Af árinu 1881

Reynum þá við hið fræga ár 1881. Ritstjóri hungurdiska hefur áður ritað langt mál um veðrið frostaveturinn mikla 1880 til 1881 og verður það ekki endurtekið hér að marki. Hins vegar verður fjallað um afgang ársins sem reyndar telst ekki hafa verið slæmur miðað við það sem á undan var gengið - og það sem á eftir kom. Vori og sumri 1881 er oft ruglað saman við 1882. Vonandi tekst að slá eitthvað á þann misskilning. 

Eins og venjulega fylgir yfirlit með tölum ársins í viðhengi þessa pistils. Í beinum tilvitnunum hér að neðan er stafsetningu oftast vikið við til nútímaháttar - en orðalagi ekki breytt. Fáein ókunnugleg orð sýna sig en eru flest auðskilin. 

Veturinn 1880 til 1881 er sá langkaldasti sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga hér á landi. Í Stykkishólmi er desember 1880 kaldasti desember sem vitað er um, febrúar 1881 er kaldastur allra febrúarmánaða og mars langkaldastur allra marsmánaða. Janúar 1918 var kaldari en janúar 1881, en aðrir mánuðir vetrarins 1917 til 1918 eru ekki hálfdrættingar á við sömu mánuði 1880 til 1881. 

Við sjávarsíðuna suðvestanlands voru frostin ekki alveg jafnmikil og annars staðar. Í Reykjavík virðist t.d. hafa verið kaldara í febrúar og mars 1866 heldur en 1881 og fleiri febrúarmánuðir finnast sem voru kaldari í Reykjavík heldur en 1881. Sama má segja um Vestmannaeyjar. 

September var eini mánuður ársins sem má teljast hlýr, hiti í október og nóvember var í rétt rúmu meðallagi áranna 1931 til 2010 og apríl, maí og desember rétt undir. Aðrir mánuðir teljast kaldir. Reyndar var það svo að í apríl og maí var hiti nokkuð ofan meðallags suðvestanlands, en undir því um landið norðaustanvert. Hæsti hiti ársins mældist á Valþjófsstað í Fljótsdal, 21,5 stig þann 18. júní og um svipað leyti á Bergstöðum í Svartárdal í Húnavatnssýslu. Hiti komst einnig í 20 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3. september. 

Mesta frost ársins mældist á Siglufirði þann 21. mars, -36,2 stig, það mesta sem vitað er um í marsmánuði hér á landi. Þann 1. apríl mældist frostið á sama stað -30,2 stig, það mesta sem mælst hefur á landinu í aprílmánuði. Eins og gengur eru ákveðin vafaatriði í kringum þessi Siglufjarðarmet - og sömuleiðis er það óþægilegt að engar mælingar voru gerðar í mars 1881 á stöðvum sem eiga flest lágmarkshitamet landsins. Formlegar mælingar ekki hafnar á Akureyri, og mælingar í mars vantar alveg innan úr Eyjafirði í þessum marsmánuði, voru gerðar til febrúarloka í Saurbæ og frá og með apríl á Hrísum. Athuganir á Grímsstöðum á Fjöllum hófust ekki fyrr en í ágúst og ekkert var opinberlega mælt í Þingeyjarsýslum - en óopinberar mælingar nefna -40 stig. Kvikasilfur frýs hins vegar við -39 þannig að erfitt er að samþykkja slíkar tölur þó réttar kunni að vera. 

Við látum hér fylgja brot úr gömlum skrifum ritstjóra hungurdiska um hitamæla á Siglufirði. 

Á Siglufirði var enginn lágmarksmælir, á venjulegum mæli fór hiti niður í -36,2°C kl. 9 og 22 þann 21. mars 1881 (-36,0°C lesnar, -0,2°C leiðrétting). Tveimur dögum áður hafði verið skipt um hitamæli. Eldri mælir var kvarðaður eftir Réaumur-stiga og í athugasemd sem fylgir 26. og 27. janúar sama ár kemur fram að hann nái ekki neðar en -27°R (-33,8°C) sem mældust á báðum athugunartímum báða þá daga. Er sú tala tilfærð í lista þó að athugunarmaður telji að frostið hafi verið 2°R meira eða -36,2°C („26. og 27. var Frost vistnok 2° mere end anfört, en Thermom. maaler ikke mere end 27°R“).

Tvær gráður eru auðvitað ágiskun, en föst leiðrétting °R-mælisins var -0,4°R og telst frostið því að minnsta kosti -34,3°C. Athugunarmaður lætur þess og getið þessa daga að frost hafi verið 32°R til 35°R inn til landsins („Samtidigt skal Frost have været lengere inde i Landet 32 á 35°R“), -32°R jafngilda -40°C og -35°R eru -43,8°C. Mælingar á Siglufirði stóðu aðeins skamma hríð í þetta sinn, eða frá ágúst 1880 til desember 1881, og er ekki alveg víst að skýli hafi verið notað þannig að tölurnar gætu verið heldur lágar af þeim sökum.

Sunnanlands fréttist lægst af -28,5 stigum sem séra Valdimar Briem las af mæli á Hrepphólum þann 22. Frostið fór mest í -23,0 stig í Reykjavík. 

Leit að hlýjum dögum ársins í Reykjavík og Stykkishólmi skilaði engu, en listi yfir kalda daga er auðvitað sérlega langur, á Reykjavíkurlistanum eru 25 dagar (8 í janúar, 1 í febrúar, 10 í mars, 2 í júní, 1 í júlí, 2 í ágúst og einn í október) og 22 sinnum var lágmarkshiti í Reykjavík -14 stig eða lægri. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir 51. 

Árið var mjög þurrt um landið norðan, vestan, og suðvestanvert - ársúrkoma í Stykkishólmi mældist ekki nema 380 mm, sú minnsta sem þar hefur mælst og fyrstu átta mánuðina ekki nema 135 mm samtals. Þurrkur af þessu tagi væri áhyggjuefni nú á tímum - af ýmsum ástæðum. Snjólétt var lengst af þrátt fyrir kuldana - vegna úrkomuleysis. Mikið hríðarveður gerði þó víða vestanlands í byrjun marsmánaðar með miklu aðfenni á bæjum. 

Eins og áður sagði má finna nánari veðurlýsingu fyrstu þrjá mánuðina í eldri grein ritstjóra hungurdiska. 

Janúar: Óvenjulegir kuldar, hláku brá þó fyrir fyrstu vikuna.

Verst varð veðrið undir lok mánaðarins, svokallaður Phönixbylur þegar póstskipið Phönix fórst undan Skógarnesi á Snæfellsnesi. Gríðarlegt tjón varð í veðrinu, mest á Vestfjörðum. Ný timburkirkja fauk á Núpi í Dýrafirði og kirkjan á Söndum færðist til. Tugir báta, stórir og smáir, fuku í naustum og hjallar og vindmyllur brotnuðu. Tuttugu og sex bátar brotnuðu við Ísafjarðardjúp. Víða komust menn ekki í peningshús í nokkra daga. Sand reif upp og grassvörður flettist af jörðu þar sem jörð stóð upp úr klaka. Túnið á Núpi varð fyrir miklu tjóni af möl og grjóti. Kona varð úti við Hrólfsstaði í Blönduhlíð. Skip frá Hnífsdal með sex mönnum fórst (dagsetning þess óviss). Stórtjón varð af sandfoki á Rangárvöllum.

Þetta veður sést illa í bandarísku endurgreiningunni - þið sem flettið í henni sjáið þar eitthvað allt annað en raunveruleikann. Það á reyndar við fleira þennan vetur - svo ekki sé talað um árin á undan. 

Febrúar: Óvenju kalt og þurrt lengst af. Þó hlánaði um stund um þ. 20. og gerði mikið flóð í Reykjavík svo ekki varð farið um hluta miðbæjarins nema á bátum. Bleytan fraus síðan illa. 

Við skulum líta á bréf úr Skaftafellssýslu dagsett 24. febrúar (við lok febrúarhlákukaflans) og birtist í Þjóðólfi þann 2. apríl:

Tíðarfar hefir verið síðan með jólaföstu mjög stórfengt, ýmist óminnilegir stormar af ýmsum áttum, eða þá óhóflegar frosthörkur. Snjókomur hafa aftur á móti verið fremur litlar, enda hefir þess lítið gætt, þótt snjó hafi drifið, því stormarnir hafa jafnharðan feykt honum, byljir því verið mjög tíðir og stundum dægrum saman.

Við sleppum þar til síðar fréttum af illviðri í desember, en síðan heldur bréfið áfram:

Annað veður kom hér, og sem einnig má heita óminnilegt, einkum að frosthörkunni, er því fylgdi, það var bylur af norðri hinn 28. og 29. janúar með miklum fannburði og frosti 16—18°R. Næstu daga á undan eða hinn 26. og 27. hafði verið hægt veður en frostið 19—22°R. Frostið er miðað við Álftaverið, sem er suðurundir sjó, svo nærri má geta, hve mikið það muni hafa orðið til fjalla. Yfir höfuð hafa frostin verið löng og hörð með litlu millibili allan desember og janúarmánuð, vikum saman 16—18° frost R. Þó tíðin hafi verið svo stórfelld, hafa þó oftar verið bærilegir hagar, ef þeir hefðu orðið notaðir veðursins vegna. Sumstaðar heldur lítið gefið, einkum í Fljótshverfi og á Síðu, aftur hefir verið gjaffelldara í Leiðvallahreppi.

Þessum miklu stormum hefir og að vonum fylgt sandfok mikið og skemmdir á jörðum; einkum eru brögð að því í Meðallandi og Álftaveri. Þess er tilgetið að lítið gagn muni verða í túnum og maturtagörðum á nokkrum bæjum í Út-Meðallandi, og hefir sandurinn safnast svo á túnin og kringum bæina af þeirri orsök, að Kúðafljót fór í hinum fyrstu frostum austur úr farvegi sínum og flóði yfir allt mýrlendi milli bæja, síðan hljóp allt í eina íshellu og ekkert stóð upp úr henni, nema bæirnir og túnbalarnir, þegar nú stormarnir komu og sandfokið, hafði sandur hvergi viðnám á ísunum og safnaðist því á túnin kringum bæina og undir garða. Sandfok þetta kom einkum með austanstormi, austan úr sandgára þeim, sem gengur á Meðallandið að austan og mestu spillir, og náði það nú út yfir allt Meðalland og Álftaver og tók þannig höndum saman við sandfokið að utan úr Bolhraunum og af Mýrdalssandi. Álftaverið fyrir sunnan Landbrotsá hefir tekið nokkrar skemmdir af þessum sandi. Með vorgróðri koma fyrst algjörlega í ljós þær skemmdir sem orðið hafa.

Hafís kom hér um mánaðamótin (janúar og febrúar), fyrst hrafl nokkurt, en síðan hella mikil, svo að ekki sást til sjávar út yfir af kampinum, hefir hún því eflaust náð út á 30—40 faðma dýpi. Hella þessi var hér aðeins rúma viku, og fór ísinn að heita allur í strauminn aðfaranótt hins 14. þ.m. Engin höpp komu hér með ís þessum, en sést hafa 2—3 bjarndýr (rauðkinnar) 1 í í Núpsstaðaskógi, 2. á svonefndum Brunasandi, austast á Síðunni, og hið 3. jafnvel í Landbroti milli Arnardranga og Gamlabæjar. Austan úr Suðursveit hefir sú fregn borist, að ísinn hafi flutt með sér tvo hvali (sléttbaka), hafi annar þeirra náðst og verið 90 ál., en hinn ekki nema að litlu leyti. Einnig er talað um bjarndýr fyrir austan sand. Nú hefir blíðu bati staðið rúma viku og jörð víðast uppkomin, þó hún sé ísug að vonum.

Mars: Kaldasti mánuður sem mældur hefur verið á Íslandi. Þrátt fyrir kuldana voru talsverðir umhleypingar og illviðri mikil. Eftirminnilegur hríðarbylur snemma í mánuðinum. 

Norðanfari birti þann 30. apríl fréttapistil af Suðurnesjum - þar er sitthvað fróðlegt um tíðina (hér lítillega stytt):

Árið byrjaði með hagstæðri hláku, og stóð svo framyfir þrettánda að útigangsfénaður hafði fjörubeit góða, og hresstist mikið en svo byrjuðu aftur frosthörkurnar þ. 11. janúar og fóru úr því vaxandi með miklum gaddi, hrímfalli og norðanveðri; þangað til hafði mikill afli fengist á lóðir af þorski. Þann 25, (á Pálsmessu) var mjög mikill gaddur þó tók frostgrimmdin yfir dagana 28.-29. og 30., voru þá lagðar allar víkur með sjónum, og allar fjörur þaktar ísjökum og íshrönnum, og af því að stórstreymt var, gjörði sunnudagsnóttina þ. 30. afar mikið sjávarflóð með mesta norðanveðri sem menn muna að komið hafi í langan tíma, gekk þá sjór uppá tún víða í Garði helst fyrir innan Skaga, og sumstaðar upp að bæjum, kastaði upp óvenjulega mikilli gengd af ufsa og karfa með íshroðanum; eru það fá dæmi, að þessi ufsi var tíndur á bæjum svo hundruðum og þúsundum skipti, uppá túnum og kring um bæi, og varð af þessu mikil björg, fór nú óðum að leggja sjóinn, með því líka að stórar íshellur bárust að landi, að ofan og innan, var nú gengið yfir Stakksfjörð (fyrir utan Keflavík) og inn að Keilisnesi á Vatnsleysuströnd, og hefi ég ekki lesið að slíkt hafi við borið síðan árið 1699. Sjófuglar fundust dauðir með sjónum og sumstaðar lifandi frosnir niður á ísnum. Hafði í þessu kasti verið riðið yfir Hvalfjörð, og líka úr Reykjavík gengið upp á Kjalnes, og þaðan upp á Akranes. Frost mun hafa stigið 18—20°.

Þann 14. febrúar gekk af norðanáttinni til útsuðurs með snjókomu. Þá leystist allur ís frá landi, allt frá Skaga inn að Hólmsbergi, og um morguninn sást enginn ísreki, heldur auður sjór, og þótti furðu gegna eftir slík hafþök sem orðin voru. Allt til þessa höfðu menn frá Keflavík og Njarðvíkum verið að ganga ísinn inn á Vatnsleysuströnd, þó að glæfraför væri. Á Kyndilmessudaginn [2. febrúar] lögðu 3 menn á stað frá Bergvík í Leiru og ætluðu til Reykjavíkur, stefndu þeir á Brunnastaðatanga, en þar hafði ís losnað frá landi og komust mennirnir í lífsháska, féll þá einn af þeim í sjó og drukknaði þegar, ...

Nóttina þess 7. [mars?] rak íshelluna með austanátt að landi hér svo hafþök urðu eins og áður, sem ekki sá út yfir, og er nú sem stendur bjargarlaust fyrir skepnur bæði með sjó og á landi og lítur eigi út fyrir annað en hér í hrepp verði mesti skepnufellir, ef ekki kemur bráður hati. Síðan ég reit yður seinast má segja að sömu hörkur hafi haldist við, þó ekki með sama gaddi eins og á þorranum, en meiri snjókoma og tíðara hríðarveður á öllum áttum; þess vegna hafa sjógæftir verið mjög stirðar. Fiskur verið nægur fyrir, nýlega varð vart við loðnuhlaup í Höfnum og fiskaðist þá mæta vel nokkra daga, ...

Hafís mikill hafði komið fyrir austurlandinu, svo ekki sást út yfir, og komst út undir Eyrarbakka, en stóð ekki lengi við. Á hafísnum eystra, höfðu komið á land 2 bjarndýr þau voru 6 unnin seinast þegar fréttist.

Þjóðólfur birti bréf úr Árnessýslu dagsett 23. apríl þann 4. júní. Þar segir frá bylnum 5. mars:

Fyrri hluta góunnar gjörði þíðu við og við, en í miðgóu harðnaði aftur, og það svo snögglega að upp úr blíðviðrishláku rak í ofsabyl með frostgrimmd og fjúkburði svo að segja svipstundu. Fénaður var í haga víðast, því þetta var um miðjan dag (5. mars) varð þá margur naumt fyrir að ná skepnum heim að húsum; hrakti fé víða og fengu margir stórskaða. Mest kvað að því um Biskupstungur og utanverðan Hrunamannahrepp, því þar var veðrið harðast. Frá einum bæ tapaðist um 100 fjár í Brúará. Frá öðrum bæ töpuðust 30 í sömu á. Frá einum bæ í Laugardal töpuðust 40 í ós nokkurn. Margir missa kringum 20 enn margir nokkuð minna. Í miðjan einmánuð kom bati og hefir síðan verið besta tíð; svo þó veturinn væri harður endaði hann vel.

Hér að neðan er kort (riss) úr ritgerð ritstjóra hungurdiska um frostaveturinn mikla. Sýnir það veðrið að morgni 5. mars. Lægðardragið snarpa sem liggur um landið hafði gert það í nokkra daga og eitthvað sveiflast fram og til baka - en norðaustanáttin smám saman styrkst að afli. Sunnan dragsins var hláka, en frostofsi norðan þess. Allt bendir til þess að suðvestanátt hafi verið í háloftunum. Síðdegis þann 5. hörfaði sunnanáttin loks alveg suður af landinu.

w-1881-03-05i

 

Apríl: Hagstætt tíðarfar. Fyrsti dagur mánaðarins var mjög kaldur, en síðan gerði hægar hlákur. Stakir kaldir dagar komu þó á hafíssvæðunum.

Fróði á Akureyri segir frá batnandi tíð þann 8. apríl - og svo enn þann 18.

Veðrátta er hér mildari þessa viku. Á sunnudaginn [3.] var þítt og seig snjórinn mikið; í gær var allgóð hláka. Mun nú þegar komin upp jörð hér í Eyjafirði og einnig í snjóléttari sveitum Þingeyjarsýslu.

[18.] Veðrátta var alla næstliðna viku hin blíðasta og hagstæðasta, og hefir snjóinn mjög tekið; ísinn hefir leyst sundur út í fjarðarmynninu og hafísinn er út: fyrir var rekið til hafs, en lagísinn situr enn á firðinum, enda var hann orðinn ákaflega þykkur.

Þann 18. maí birti Norðanfari bréf úr Axarfirði dagsett 12. apríl:

Frá 15. janúar þ.á. og til 23. s.m. voru hér fjarska frost, 25 til 30 stig, en nóttina hins 30. s.m. dyngdi hér niður ógrynni af fönn, svo ekki varð komist um jörðina, en daginn eftir hvessti og reif snjóinn svo að góð jörð kom hér upp. Dagana kringum góukomuna blotaði og kom upp góð jörð, en bráðum breyttist veðrið aftur í sömu brunana, en samt hélst snöpin til 5. mars, dreif þá enn niður mikla fönn, að því búnu blotaði dálítið en frysti bráðum aftur, svo öllu hleypti í gadd og jarðbönn til hins 6. apríl, en síðan hefir hver dagurinn verið öðrum blíðari og betri og hnjótum að skjóta af nýju upp svo að hér í firðinum er nú orðið hálfautt og margir sem ekkert gefa, enda var hér orðin mesta þröng af heyleysi. Ekkert rót er á hafísnum, sem legið hefir hér við land síðan á jólaföstu.

Þjóðólfur segir þann 9. maí fyrst frá aprílveðrinu í Reykjavík en síðan koma almennar fréttir víðar að:

Þegar með byrjun þessa mánaðar skipti algjörlega um veðráttufarið og má svo segja, að í þessum mánuði hafi verið óvenjulega hlý og hagstæð tíð bæði á sjó og landi. Næstum allan mánuðinn hefir vindur verið við austur-landnorður stundum með talsverðri rigningu. Oftast hefir verið logn eða hæg gola. Stöku sinnum hefir veður verið hvasst á landsunnan kafla úr degi t. a. m. 13., 28., nokkra daga hæg vestangola með nokkru brimi ... 

Innlendar fréttir og skipakoma. Síðan 23. f.m. hefir tíðin verið hin æskilegasta hér á Suðurlandi, tún eru farin að grænka. Fyrir norðan kom að sönnu batinn á sama tíma sem hér og vestra, en þar voru meiri snjóar, og þurfti því lengri tíma til að jörð kæmi upp, þó er það von manna, að ekki verði teljandi, hvað þar af skepnum, eftir því sem áhorfðist, þó mun Skagafjörðurinn ekki sleppa fyrir talsverðum skepnumissi, einkum hrossa. Sagt er að hafísinn liggi alveg frá Hornströndum vestra að Langanesi nyrðra, og talsvert ofan með Austfjörðum og svo mikill, að allir firðir eru fullir og sést ekki út yfir af háfjöllum. Fjöldi af bjarndýrum er sagt að fylgi ísnum, og hákarl er sumstaðar veiddur upp um hann, og var fyrir skemmstu farið með marga hesta út á 50 faðma djúp til að sækja hákarla, sem veiðst höfðu.

Maí: Fremur hagstæð tíð. Kuldakast gerði þó norðanlands um miðjan mánuð með nokkru frosti.

Nokkrir vatnavextir urðu í vorhlákunum. Fróði birti 30. júlí frétt úr Þórsnesþingi eftir bréfi í júní. Þar segir meðal annars:

Með aprílmánuði skipti um og gerði einn hinn hagstæðasta bata, sem hugsast kunni. Um páskana  [páskadagur var 17. apríl] komu kaupförin í Stykkishólm og var þá þannig bætt úr þörfinni fyrir menn og skepnur. Maímánuður varð mjög kaldur ... og tún kalin til skemmda. ... Þann 10. maí gjörði hér vestra stórflóð og féllu skriður og spilltu jörðum. Mest kvað að skriðu þeirri, sem féll að Fjarðarhorni í Helgafellssveit. Hún tók af heygarð og fjós, drap 2 nautgripi, tók með sér vegg undan baðstofunni og eyðilagði túnið að mestu. Við sjálft lá, að manntjón yrði, og það meira enn minna, því ferðamenn voru veðurfastir á bænum.

Júní: Köld, en ekki óhagstæð tíð.

Júlí: Áfallalítil tíð og fremur hagstæð. Nú kom í ljós að tún voru illa farin eftir bæði frost, kal og litla úrkomu. Fróði segir frá 28. júlí:

Grasspretta hefir á þessu sumri mjög brugðist hér norðanlands, einkum eru þurrlend tún afarilla sprottin, en tún þau, er vatni varð veitt á, og flæðiengi hefir sprottið sæmilega. Grasbresturinn er eðlileg afleiðing þess, að sumarið hefir allt að þessu verið mjög kalt; einnig mun grasmaðkur, sem venju fremur hefir borið mikið á, mjög hafa spillt grasvextinum.

Ágúst: Fremur hagstæð tíð en heldur köld, stundum mjög kalt við norðurströndina.

Ísafold lýsir tíð stuttaralega þann 25. ágúst:

Að norðan og austan fréttist, að af túnum hafi fengist frá þriðjungi til helmings töðu minna en í fyrra. ... Afli hér sunnanlands er lítill sem enginn, enda eru allir önnum kafnir við heyskap, sem sumstaðar reynist harla lítilfjörlegur, og heldur verri, en til sveita. Tíðarfar hefir verið þurrt yfir höfuð, en heldur kalt.

Þjóðólfur tekur í sama streng þann 7. september:

Ekki er um annað talað enn heyleysið, bæði nær og fjær, og engar nýlundur heyrðust nú með póstunum, sem eru nýkomnir að vestan og norðan, nema hvað vestanpóstur segir hafísinn nálægt ströndum vestra ekki lengra burtu en á 60 faðma dýpi, en nú brá til sunnanáttar með deyfu með höfuðdeginum og hefir hér verið hvassviðri nokkra daga, og mun það reka hann frá, enda eru hlýindi nú í veðrinu meiri enn hefir verið og tún eru að grænka sem óðast. — Nú er búið að selja hið stóra skip, sem rak á land í Höfnunum syðra, nálægt Þórshöfn; er það óefað hið stærsta skip sem sést hefir hér á landi; sagt er að það sé 47 faðma langt og 7 faðma breitt, þrímastrað og með þrem þilförum.

Takið sérstaklega eftir því að blaðið segir að tún séu að grænka - og það er 7. september. Engar úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík þetta sumar en vestur í Stykkishólmi var aðeins einn dagur samtals í júlí og ágúst þegar úrkoman mældist 1 mm eða meira. Einhverrar úrkomu varð þó vart í 19 daga í Stykkishólmi þessa mánuði, en ekki nema 7 í Reykjavík. Ástandið var ívið skárra á Eyrarbakka. Í fréttinni er einnig minnst á skipið mikla og mannlausa sem rak í Höfnum og frægt er. 

September: Hlýtt í veðri og tíð hagstæð, nokkuð úrkomusamt, einkum síðari hluta mánaðarins. Eins og áður sagði var september eini hlýi mánuður ársins. Föstudaginn 16. september gerði storm af landsuðri og var „afspyrnurok um nóttina“ eins og Þjóðólfur orðar það þann 18. Þá hlekktist skipi á á sundunum í Reykjavík og einnig varð óhapp í Borgarnesi:

Sömu nótt tók vöruskip kaupmanns Jón Johnsens í Borgarnesi að reka þar á höfninni, og lét skipherrann þá höggva möstrin úr skipinu, og rak það samt útaf höfninni og staðnæmdist á sandeyrum vestanvert við nesið; laskaðist skrokkur skipsins ekkert og vörurnar, sem í því voru, skemmdust ekki, en það var hálffermt af ýmsum vörum, því skipið var fyrir 4 dögum komið frá Bergen, hlaðið nauðsynjum. 

Norðanfari segir 26. október frá því að bátur úr Hrísey hafi farist á Eyjafirði aðfaranótt þess 29. september í suðvestanstórviðri og með honum 7 menn. Sömu nótt drukknaði norðmaður sem var við síldveiðar á svipuðum slóðum. 

En þó sprettan hafi verið rýr var heyskapartíð góð eins og segir í bréfi úr Þórsnesþingi á Snæfellsnesi 10. september og birt var í Fróða 15. október:

Heyskapartíðin, sem nú er að enda, hefir verið hér um sveitir ein hin hagstæðasta, þurrviðrasöm og hvassviðralítil; heilsufar manna hefir einnig verið hið besta og þessar tvær greinir hins „daglega brauðs“, „hagstæð veðrátt" og „góð heilsa“, hafa stutt mjög að því, að heyafli verður að jafnaðartali að útheyjum til nálægt meðallagi. Allstaðar þar, sem slægjur hafa orðið notaðar til fjalllenda, hefir heyjast vel; aftur á móti er heyafli þar mjög lítill, sem á valllendi og þurrlendar mýrar hefir orðið að ganga. Tún og engjar hafa hvarvetna brugðist, og af þeim fengist aðeins frá fjórða hluta til helmings við meðalár.

Í bréfi úr Eyjafirði sem birtist í Þjóðólfi 18. október og dagsett er 26. september segir:

Síðan um höfuðdag (29. ágúst) hefir hér norðanlands mátt heita öndvegistíð. Nýting hefir allstaðar verið hin besta hér nyrðra sem annarstaðar. Töður eru litlar; þó ætla ég að meðaltals muni töður eigi vera einum þriðjungi minni enn í meðalári. Allar harðbalajarðir, einkum í snjóléttum sveitum, eru hinar aumustu, og má svo kalla, sem á nokkrum bæjum, t.d. fremst í Eyjafirði og hingað og þangað hafi nálega enginn útheyskapur orðið í sumar, og allt harðvelli hefir brugðist meira eða minna. Maðkur og kal og þurrkur eru orsakirnar til þessa. Aftur hefir mýrlendi sprottið, sumt í meðallagi, sumt allvel, en flest í lakara meðallagi. Heiðarmýrlendi hefir á flestum stöðum verið í góðu lagi og sumstaðar ágætt. Alt þetta bendir til hins sama, að kuldi og þurrkur, auk maðksins og kalsins, eru tilefnin til grasbrestsins.

Október: Óróleg úrkomutíð vestanlands framan af, en síðan hægari tíð og hagstæð.

Enn eitt kaupskipið lenti í vandræðum aðfaranótt 1. október. Norðanfari segir frá því 26. október:

Aðfaranótt hins 1. október síðastliðinn sleit upp kaupskip í suðvestanveðri, er lá á Hofsóshöfn í Skagafirði og tilheyrði verslun kaupmanns L. Popps á Hofsós og Grafarósi; til allrar hamingju var búið að flytja úr því allar útlendu vörurnar en að eins komnar í það nokkrar tunnur af kjöti og töluvert af saltfiski 12. þ. m. var haldið uppboð á strandi þessu, skipskrokkurinn með möstrunum seldist fyrir 600 kr.

Í Norðanfara 12. janúar 1882 er bréf frá Patreksfirði dagsett 31. október:

Um höfuðdag skipti um tíðarfarið, komu þá sífeldar rigningar og stormar miklir af suðri, einkum er áleið haustið, og þá urðu rigningarnar einnig stórfelldari. Hálfum mánuði fyrir vetur féll hér um allt töluverður snjór, en hann tók upp viku siðar. Síðan hefir verið hið mesta blíðviðri, logn og hreinviðri, ýmist lítið eða ekkert frost og aftur talsverður hiti.

Nóvember: Nokkur norðanskot, en þau voru ekki mjög köld.

Tíðinni nyrðra er lýst í Fróða þann 19. nóvember:

Haustveðrátta var hér hin æskilegasta; snjór enn eigi fallið til muna, og frost sjaldan verið mikið eða langvarandi; sauðfé hefir því enn eigi verið gefið svo teljanda sé.

Og Þjóðólfur segir m.a. um nóvembertíðina í Reykjavík (24.12):

Veðuráttan í þessum mánuði hefir verið að miklum mun betri en í sama mánuði umliðið ár, en hefir þó eins og þá verið stormasöm og óstöðug (einkum síðari hlutinn). ... Snjór hefir svo að kalla enginn fallið hér í bænum. 

Desember: Fremur óróleg tíð, einkum eftir þ.10. Mikil úrkoma austanlands.

Fróði segir frá tíðinni fyrir norðan í pistli 10. janúar 1882:

Veturinn fram að nýári hefir mátt heita mildur hér um sveitir; frost veru eigi mikil og oftast hefir verið snjólítið í Eyjafirði; miklu meiri hefir snjórinn verið austur í Þingeyjarsýslu; en vestur í Skagafirði hefir hann verið minni enn hér.

Þann 23. febrúar birtist í Norðanfara bréf dagsett 10. janúar á Seyðisfirði, þar segir m.a.:

Allt fram að nýári var hér enginn eiginlegur vetur, jörð nálega alltaf marauð eða því sem næst, og mjög sjaldan frost að nokkrum mun. Hinsvegar hefir veðurátt stöðugt síðan í haust, verið ákaflega óstillt og umhleypingasöm. Heybirgðir almennings eftir sumarið urðu yfir höfuð með langminnsta móti; einkum var í haust og sumar almenn umkvörtun um allt Austurland um hörmulega lítinn töðuafla, enda var alveg óvanalega mörgum nautgripum víðsvegar að slátrað hér á Seyðisfirði. Vandræði með útheyskapinn voru ekki nærri því eins almenn. Verst gekk hann á Upphéraði og til fjarða, miklu betur á Úthéraði og í sumum norðurfjörðunum. Hefir merkilega vel viljað til, að svo einstaklega vægur vetur eins og þessi hefir verið fram að áramótum, skyldi koma eftir slíkt bágindasumar og þetta síðasta.

Í bréfi úr Eyjafirði sem birtist í Þjóðólfi 21. febrúar 1882 kemur líka fram að snjóþyngsli hafi verið norðaustanlands í desember: 

Hélst hin sama veðurblíða til 25. nóvember; en þá gerði hér mikla bleytuhríð á austan. Alla jólaföstuna hefir verið umhleypingasamt, ýmist snjóað eður blotað. Veðurstaðan hefir nálega einlægt verið austlæg, frá landnorðri til landsuðurs, sem oftast með fjúki, en sjaldan vestlæg, og þá oftast með þýðvindi. Með austlægri átt er snjókoma og annars öll úrkoma mikil í Þingeyjarþingi, minni í Eyjafirði, en þó talsverð í framfirðinum út að Hörgá, en mjög lítil eður engin í Skagafirði og Húnaþingi; aftur er þar verri vestlæga áttin en hér og þá einkum norðar. Hér í Eyjafirði varð því sumstaðar jarðlítið eður alveg jarðlaust 7 vikur af vetri, og fyrr í Þingeyjarþingi; en í vestursýslunum hefir einlægt verið hin besta tíð og nálega snjólaust enn þá. Heybjörg manna hér um sveitir ætla ég á víðast hvar í góðu lagi. Úthey reynast úrgangssöm, sem og von er, bæði sakir sinu og jarðskafa, því sneggjan var svo mikil í sumar.

Þjóðólfur segir frá því 16. janúar 1882 að síðustu tvo daga ársins hafi verið fagurt veður í Reykjavík og vindur hægur af austri. 

Í Fróða 27. janúar 1882 er fróðlegur og harlasvartsýnn pistill sem ber yfirskriftina „Eyðileggingin í Skaftafellssýslu“ og er úr „bréfi frá fræðimanni, er þar fór um næstliðið sumar“.

Illa líst mér á Skaftafellssýslu að flestu leyti, og það hygg ég, að engum mennskum krafti sé unnt að stemma stigu fyrir landrofi jökla og jökulvatna þar; að því myndi enda reka fyrir doktor Grími Thomsen, þótt hann sé ef til vill kraftaskáld, að landvættir þar eru enn rammar og ýfast við hinni nýju kynslóð. Síðan ég fór síðast um Skaptafellsýslu, fyrir rúmum 10 árum, hafa þessi landspjöll orðið: Fyrst Hafursáraurarnir í Vestur-Mýrdal; þeir ná nú alla leið frá Steigarhálsi að austan og nálega vestur til Péturseyjar, og frá fjalli til fjöru að kalla má; liggja þannig allir láglendisbæirnir við sjóinn fyrir ágangi árinnar, enda mun þess ekki langt að bíða, að eyrar hennar færist gjörsamlega að sjó fram, líkt og Sólheimasandur.

Þaðan frá austur eftir eru landrof eigi teljandi fyrri enn í Meðallandi, Landbroti og á Síðu; eyðist einkum suðaustur jaðarinn á sveitum þessum af grjóti og sandfoki á vetrum í suðaustanveðrum, sem þar koma mjög áköf. Ég sá grjótröst með fram öllu hrauninu, er runnið hefir fram austan megin Síðu, og sagði fylgdarmaðurinn mér, að röst þessi hefði öll komið í einu veðri, og er þó afarlangur vegur af söndunum upp að hrauninu; en svo víkur við, að allt grjótið rennur eftir ísum að sléttlendinu. Þar næst eru engjaspjöll í Öræfum allt austur fyrir Ingólfshöfða af völdum Skeiðarár, og ná þannig nú orðið saman Skeiðarársandur og Breiðumerkursandur rétt fyrir austan höfðann. Má þannig telja einn sand frá Höfðabrekku og austur undir Hornafjörð.

Í Suðursveit eru og mikil engjaspjöll, bæði á sléttlendinu austan fram við Breiðumerkursand, þar sem Fellshverfi var fyrir skemmstu, og svo á austanverðum Steinasandi, sem er í miðri sveit, og spillir hann einkum engjum Kálfafellsmanna, og er þær eru eyddar, þá Kálfafellstaðar. Hornafjarðarfljót, Heinabergsvötn og Kolgríma gera og mikinn usla og til ég víst er fram líða stundir, að allar Mýrar takist af, og verður þá engin sveit óskemmd í allri Skaftafellssýslu, nema Skaptártungur og Nes í Hornafirði.Mun þetta þykja ljót lýsing, en hún er því miður sönn.

Lýkur hér umfjöllun um veður og tíðarfar ársins 1881. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stuttar fréttir af bláa blettinum

Spurt hefur verið um líðan „bláa blettsins“, en það nafn fengu eitt sinn neikvæð sjávarhitavik í Norður-Atlantshafi. Þau urðu mjög áberandi eftir veturinn 2013 til 2014 og bættu enn í sig næsta vetur þar á eftir en hafa síðan aðallega verið á hægfara undanhaldi. Síðastliðið haust mátti heita að þau væru horfin. Það var þó áður en vindar vetrarins fóru að blanda upp þeim sjó sem hlýnaði að sumarlagi og því sem undir lá, leifunum af neikvæða vikinu. 

Í vetur hafa lengst af ríkt væg neikvæð vik á svæðinu fyrir sunnan og suðvestan land, svipað og sjá má á kortinu hér að neðan. Þetta er reyndar spá um sjávarhitavik næstu viku, en ekki mun muna miklu á þeim og raunveruleikanum hvað sjávarhita varðar.

w-blogg230318a

Bláu litirnir sýna neikvæð vik, sá ljósasti reyndar svo væg að varla er að telja, á bilinu -0,2 til -1,0 stig. Stærri neikvæð vik en -1,0 er aðeins að finna á örlitlu svæði nærri 58 gráðum norður, 30 gráðum vestur. Norðursjór er hins vegar mjög kaldur sem stendur vegna ríkjandi austankulda að undanförnu.

Einnig eru allstór, en ekki umfangsmikil, neikvæð vik undan Vestur-Grænlandi. Gagnagrunnur sá sem notaður er til samanburðar við reikning vikanna er þó mjög ótryggur rétt við ísjaðarinn og á þeim svæðum sem venjulega eru ísi þakin. Ís hefur hins vegar verið með mesta móti við Vestur-Grænland og búast má við neikvæðum vikum þar þegar hann fer að bráðna að ráði - en gætu jafnað sig snemmsumars ljúki bráðnun fyrir þann tíma. 

Hins vegar eru enn allstór jákvæð hitavik í sjávaryfirborði fyrir norðan land, allt til Svalbarða og sömuleiðis um þessar mundir suður og austur af Nýfundnalandi. Ís er með allra minnsta móti austan Grænlands um þessar mundir. 

Fróðlegt verður að fylgjast með þróuninni í vor og sumar. 


Af árinu 1913

Hér er fjallað um tíðarfar og helstu veðurviðburði ársins 1913. Árið þótti mjög umhleypingasamt og mælingar taka undir það. Sérlega sólarlítið var í Reykjavík. Mars, júní og nóvember teljast kaldir - enginn mánuður hlýr þó hiti fjögurra þeirra (janúar, febrúar, apríl og júlí) hafi verið ofan langtímameðaltals. Sá síðastnefndi var talsvert hlýrri um landið norðan- og austanvert heldur en suðvestanlands. Ársmeðalhiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 í Reykjavík og á landsvísu, en lítillega neðan þess á Akureyri. Í viðhengi er skrá um meðalhita einstakra mánaða, úrkomu og fleira. 

Allmargir hlýir dagar komu á Norðaustur- og Austurlandi um sumarið, mesti hiti ársins mældist 28,0 stig í Möðrudal 5. ágúst - en sú mæling hlýtur ekki náð fyrir augum ritstjóra hungurdiska (kontórista í Reykjavík). Fjölmargar grunsamlegar hámarksmælingar eru til úr Möðrudal þessi ár. Svo virðist samt sem að sól hafi ekki skinið beint á mælinn - frekar að veggskýlið hafi verið opið og einhver hlýr veggur nærri því hafi náð að spilla mælingu, rétt eins og verða vill í görðum nútímans. Veðurathugunarmaður [Stefán Einarsson] segir að hiti í sólinni hafi verið 36 stig (algjörlega merkingarlaus tala). Eftirlitsmaður dönsku veðurstofunnar var þarna á ferð sumarið 1909 og sagði frá göllum skýlisins. Næsthæsta tala ársins 1913 er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, en þar komst hiti í 24,2 stig þann 19. júní. Mesta frost ársins mældist á Grímstöðum á Fjöllum 2. desember -24,4 stig (sjá þó umfjöllun hér að neðan). 

Fáein veðurmet ársins standa enn. Þar má helst telja lægsta loftþrýsting sem mælst hefur í marsmánuði hér á landi, 934,6 hPa. Í athugasemd í veðurskýrslu fyrir marsmánuð 1913 segir veðurathugunarmaður á Akureyri [Hendrik Schiöth] að lágmarksmælir hans hafi sýnt -23,0 stiga frost aðfaranótt þess 17. Þetta var ekki viðurkenndur mælir - og sýndi ef til vill lítillega lágar tölur, en sé mælingin rétt er þetta jafnmikið frost og mest hefur mælst hefur á Akureyri í mars frá upphafi samfelldra mælinga þar haustið 1881. Hin -23,0 stiga mælingin er frá því í mars 1969. Stöðin á Akureyri rétt missti af frostavetrinum mikla 1880 til 1881, en til eru einkamælingar frá staðnum þar sem -33,0 stiga frosts er getið í mars það ár (trúlega nærri lagi). Svo mældist -35,6 stiga frost á Akureyri í mars 1810. 

Það er athyglisvert að í veðurskýrslu Möðruvalla (í Hörgárdal) í sama mánuði og sama dag, þann 17. mars, segir að lágmarksmælir hafi sýnt -25,0 stig, en athugunarmaður [Jón Þorsteinsson] setur spurningarmerki við töluna sem svo „kontóristi“ dönsku veðurstofunnar breytir í -19,0 stig. Síðari tíma mælingar á sjálfvirkum veðurstöðvum sýna hins vegar svo ekki er um villst að þessar tvær tölur (-23 stigin á Akureyri og þessi) - sem eru óþægilega lægri en mælingar á hefðbundnum athugunartímum, gætu vel verið réttar. Það er t.d. alkunna að hegðan hita á Akureyri í hægum vindi getur verið með þessum hætti. Það sýnir samanburður mælinga á flugvellinum og á lögreglustöðinni mætavel.  

Engir sérlega hlýir dagar fundust á árinu í Reykjavík eða Stykkishólmi, en ekki margir kaldir heldur, aðeins 5 í Reykjavík (16., 17. og 22. mars, 18. maí og 4. desember), en fjórir í Stykkishólmi (16. mars, 17. maí og 20. og 21. október).

Árið var mjög illviðrasamt eins og áður sagði og komast 16 dagar inn á stormdagalista ritstjóra hungurdiska. Ekki voru nema fjórir sérlega sólríkir dagar á árinu í Reykjavík, tveir í maí, auk 1. júní og 3. ágúst. Síðastnefndi dagurinn bjargaði því sem bjargað varð af sumrinu suðvestanlands þetta ár. 

Ísafold dró saman yfirlit um veðurlag ársins og birti 4. febrúar 1914:

Árið byrjaði fremur blítt, en þegar leið á fyrsta mánuðinn komu hret og stormar af ýmsum áttum, sem hélst fram í mars, en frostalítið og snjólétt, og aldrei nein aftakaveður, vorið fremur kalt og vindasamt. Sumarið varð aftur breytilegra. þegar tillit er tekið til alls landsins. Þar sem Norðlendingar og Austfirðingar muna naumast aðra eins blíðu, en Sunnlendingar naumast eins mikla óþurrkatíð og sólarleysi. Olli þetta Sunnlendingum þungrar áhyggju út af fiskverkun sinni, og um tíma var útlitið afar-ískyggilegt, þar sem nokkrir kaupmenn urðu að borga bætur fyrir að geta ekki afhent fisk sinn, sem þeir höfðu selt áður, á réttum tíma. En þá hjálpaði eftirspurnin á fiski vorum, sem alt af fer vaxandi, ár frá ári, svo að kaupmenn munu að síðustu naumast hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, þar sem hægt var að selja fiskinn á öllu verkunarstigi fyrir mjög hátt verð. Að vísu voru ekki miklir stormar um sumarið, né fram eftir haustinu hér á Suðurlandi, en sama veðurreynd hélst yfir októberlok, en þá byrja stormar, snjókoma og alls konar illviðri, sem helst til nýárs óslitið að heita má. Og um hátíðarnar verða menn fyrst varir við hafís út af Vestfjörðum, sem óðum berst upp að landi, en hverfur brátt aftur.

Janúar: Mjög stormasamt, sums staðar snjóar sem þó stóðu stutt við hverju sinni. Miklar rigningar á Austurlandi. Fremur hlýtt.

Vestri þ.14. (á Ísafirði):

Í rokinu 9. þ.m. fauk hlaða með 60 hestum af heyi og þak at fjárhúsi í Breiðadal í Önundarfirði hjá Þórði Sigurðssyni bónda þar. Mest allt heyið tapaðist en féð stóð eftir í hústóftinni.

Veðravíti mesta hefir verið hér undantarna daga en þíðviðri svo jörð er orðin víða auð. Aðfaranótt sunnudagsins rak vélarbátinn Freyju á land hér yfir á hlíðinni en náðist fram daginn eftir alveg óskemmd. Þá fauk og geymsluhús sem O. G. Syre byggði hér inn á Torfnesinu í sumar.

Í sama veðri fórst bátur frá Ísafirði með fimm mönnum á. Fréttir greinir á um það hvort það var 9. eða 10. sem báturinn fórst. 

Þann 20. bætir Vestri enn við fréttum af veðrinu þann 9.:

Í veðrinu 9. þ. m. urðu allmiklir skaðar af veðri hér vestanlands. Meðal annars fuku þök af hlöðum í Skálholtsvík og Guðlaugsvík í Strandasýslu, og Reykhólum, Stað og Hríshóli Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu.

Ingólfur þann 14.:

Veðrafar var all-óstöðugt vikuna sem leið. Annan sólarhringinn mokaði niður lognmjöll, er hvarf síðan á einni þeynótt. Gekk svo tveim sinnum. Á laugardagskveldið [11.] og um nóttina eftir var ofsaveður af suðaustri. Sökk vélarbátur á Viðeyjarhöfn. Eimskipið „Sjöalfen" rak af Reykjavikurhöfn upp á Örfiriseyjargranda, en „Geir" náði því út óbrotnu. Smáskemmdir urðu á nokkrum húsum.

Austri flytur þann 18. janúar fréttir af rigningum eystra:

Rigning hefir verið nálega á hverjum degi síðan um áramót, svo að marautt varð í byggð alstaðar hér á Austurlandi, en á fjöllum uppi hefir verið frost og sett niður snjó og gjört ófært með hesta yfir að fara og illfært gangandi mönnum. Vatnavextir urðu svo miklir sem í mestu vorleysingum og gjörðu usla all-mikinn víða; og skemmdir urðu af rigningunum, þannig, að fjárbús og heyhlöður (torfhús) hrundu á nokkrum bæjum á Héraði, og 2 kindur drápust á einum bæ, urðu undir húshruninu. Skemmdir á heyjum munu hafa orðið víða og sumstaðar töluvert miklar. Vöxturinn i Lagarfljóti var svo mikill, nú er Vopnafjarðarpóstur fór þar um 14. þ. m.. að fljótið flæddi langt yfir svifferjuna, sem sett hafði verið á land upp. Í nótt snjóaði lítið eitt.

Lögrétta segir af veðri þann 29.:

Það er nú mjög hlýtt, og hefur verið svo nær allan janúarmánuð. Í dag er rigning.

Febrúar: Mjög illviðrasamt, einkum á S- og V-landi. Fremur hlýtt.

Umhleypingarnir héldu áfram. Vísir segir þann 3. að meiri snjór hafi fallið í Reykjavík þá um nóttina en dæmi séu um fyrr í vetur. 

Suðurland segir af veðri í frétt þann 11. febrúar:

Veðurátta hefir verið afarbyljótt síðastliðna viku. Norðankafaldsbylur á fimmtudaginn [6.], frostlítill þó. Sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla, var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. ... Á sunnudagsnótt [9.] og mánudagsnótt [10.] var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land sunnudagsmorgun, svo ekki hefir um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust brott á laungum svæðum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni, enda fylltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar skemmdust og til muna. Tjón það er hér hefir orðið á Eyrum af sjógangi þessum, mun nema svo þúsundum króna skiptir. Til allrar hamingju var smástreymt. Hætt við að meira hefði að orðið um skemmdirnar ef stórstreymt hefði verið.

Enn fleiri skemmdir urðu í þessum veðrum. Suðurland heldur áfram - fyrst þann 15. febrúar og síðan þann 22.:

[15.] Nýbyggð hlaða fauk í Gaulverjabæ, einnig skemmdist hlaða í Kaldaðarnesi, þak skemmdist á framhúsinu á Kolviðarhól. Hvítá hefir stíflast fram undan Kiðjabergi og runnið eitthvað út yfir Flóann. Er ekki að furða þó henni gremjist seinlæti mannanna. ... Veðráttan afar rosasöm alla þessa viku, sífeld hafátt, sandbyljir, og hregg og hríð, frostlaust þó. Hefir varla verið útkomandi fyrir ólátum í veðrinu. Varð Spóa tetri það að flökta milli húsa, og var hann nær kafnaður í sjóroki og sandbyl. Raulaði hann þá með sínu nefi: Ennþá Kári óður hvín, æðir sjár á löndin. — Ógna bára yfir gín, Er í sárum ströndin.

[22.] Auk þess er getið var í síðasta blaði um skemmdir af ofviðrinu, hafa borist fregnir um að fokið hafi 2 heyhlöður í Útey í Laugardal, heyhlaða í Eyvík í Grímsnesi, þak rauf og af baðstofu á Hesti í sömu sveit. Ýmsar minni háttar skemmdir hafa orðið hér eystra á húsum og heyjum. Í Stykkishólmi rak tvær fiskiskútur á land og brotnuðu þær mjög. Á Heilsuhælinu á Vífilstöðum rauf veðrið nokkrar járnplötur af þakinu og braut 4 glugga. Líklegt er að víðar hafi tjón orðið af veðri þessu, en ennþá hafa borist fregnir af.

Vestri (14.) birtir einnig fréttir af tjónum í þessum veðrum:

Ofviðri með hríð eða rigningu á víxl hafa gengið við og við undanfarið og sumstaðar valdið tjóni, t. d. í Álftafirði er sagt að fokið hafi tveir bátar litlir og hjallur í Eyrardal. Síminn hefir alt af verið að slitna öðru hvoru og því oft og tíðum ekkert samband við Suður- eða Norðurland. ... Steinunn Guðbrandsdóttir, kona Jóns járnsmiðs Guðmundssonar á Miðjanesi á Reykjanesi varð úti mánudag 3. þ.m. Hafði hún farið til næsta bæjar og þegar hún var komin langt á leið heim aftur skall á áhlaupsbylur svo hún fann ekki bæinn.

w-blogg220318-1913i

Myndin sýnir þrýstirita úr Stykkishólmi fyrri hluta febrúar 1913. Hver lægðin á fætur annarri gengur hjá. Sú sem best sést í Stykkishólmi gekk hjá þann 12. Meira tjóns er þó getið úr lægðinni sem fór hjá þann 9. - og sú sem fór hjá þann 6. skilar mestum þrýstibratta í endurgreiningum og töflum ritstjóra hungurdiska. Veðrið þann 12. vegur hins vegar þyngst á stormdagalista ritstjórans. 

Óljósar fregnir voru einnig um að ung stúlka hafi um svipað leyti) orðið úti á leið í skóla.(Þjóðviljinn 22. mars). 

Suðurland birtir þann 1. mars bréf úr Fljótshlíð dagsett þann 10. febrúar, þar segir m.a.:

Síðan veturinn kom hefir tíðin verið mjög umhleypingasöm. Með fyrsta móti farið að gefa fullorðnu fé, flestir með jólaföstu, og síðan óslitin gjafatíð. Tvisvar hefir hér drifið niður afar mikinn snjó, en Kári hefir ekki svikist um að skila honum burtu, og fylla með honum hvert gil sem til er, því stormhrynur af austri hafa verið mjög tíðar og snarpar. Nú í síðasta austanbylnum kæfði í Þverá svo hún stíflaðist og rann svo fram yfir aurana, sem er beitiland frá Teigi og Hlíðarenda, og urðu fjármennirnir að brjótast fram yfir vatnið á hestum og tók vatnið oft á herðatopp. En það var ekki nema í nokkra daga, því þegar hlákan kom, hreinsaðist ám og fór i farveginn.

Þann 20. kemur fram í Vestra að í veðrinu þ.12. hafi vélbátur fokið og brotnað í Súgandafirði og þak tekið af húsi á Suðureyri og fleiri skemmdir orðið þar. 

Þann 17. strandaði strandferðaskipið Vesta á Hnífsdalsskerjum (þar sem sumir vilja nú byggja flugbraut). Veður var kyrrt, en svartahríð var á. Mannbjörg varð. Vestri segir frá þessu þann 18. Skipið náðist síðar út. 

Lögrétta segir þann 19.:

Enskur sjómaður, sem verið hefur hér við land í 20 ár, segir, að önnur eins stórviðri og stórsjó hafi hann aldrei fengið og í veðrakaflanum, sem nú er nýlega afstaðinn. Fréttir hafa komið um mikil slys á sjó á útlendum skipum. 

En tíð batnaði talsvert eftir illviðrakaflann Lögrétta segir þann 19. að veður hafi verið gott síðustu dagana og snjó hafi tekið upp að mestu hér syðra. Þann 26. bætir blaðið við:

Góðviðri stöðug hafa nú verið um tíma, hlýindi eins og á vori, en rigning öðru hvoru.

Austri segir þann 1. mars af góðri tíð eystra „svo marautt varð að heita mátti í byggð bæði í Fjörðum og Héraði.“

Mars: Umhleypingasamt. Snjólétt sums staðar suðvestanlands, en annars snjóþungt. Fremur kalt. Talsvert var um skipskaða og manntjón á sjó, en verður það ekki rakið hér í neinum smáatriðum. Bátur úr Ólafsvík fórst með 10 mönnum þann 8. í landsynningsillviðri. Strandferðaskipið Mjölnir rakst á sker og strandaði við Látur á Látraströnd þann 14. og laskaðist nokkuð. Aftakahríð var og skyggni lítið. Í sama veðri rak fiskiskip Thorsteinssonfélagsins upp á Þingeyri og brotnaði þar.(Þjóviljinn segir þetta hafa gerst á Patreksfirði) Annað skip sama félags rak upp á Bíldudal. Í einhverju þessara veðra rak norskt skip á land í Vestmannaeyjum. Mikið veiðarfæratjón varð í þessum illviðrum í fyrrihluta marsmánaðar. 

Sérlega djúp lægð kom að landinu fyrstu daga marsmánaðar. Þrýstingur í Reykjavík fór þann 4. niður í 934,6 hPa og hefur aldrei mælst lægri í marsmánuði á landinu. 

Vísir segir frá þann 4:

Afskaplegt illviðri var í nótt og helst enn. Austan grenjandi stórhríð og stólpa-rok Símaþræðir slitnuðu svo tugum eða hundruðum skiptir. Frakknesk skúta var nærri strönduð á Grandanum; hafði rekið langa leið um höfnina, en festi þá í botni svo að hreif. Loftþyngdarmælir stóð svo lágt í morgun, að miðaldra menn muna ekki annað eins. ... Ekki þarf að „kvíða“ því, að Ingólfur komi að ofan með póstana í dag og engin kemur veðurskýrslan.

Ingólfur er flóabáturinn, enginn póstur ofan úr Borgarnesi með honum - og símþræðir sem bera áttu veðurskeytin að vestan, norðan og austan slitnir. 

Norðaustanofsaveður var á Siglufirði - líklega þann 4. eða 8. og fauk þá þak af húsi og gluggar brotnuðu í tveim eða þrem húsum (Norðri þ.12). 

Suðurland segir frá þ.22. og 29.:

[22.] Veðrátta köld og stormasöm þessa viku, eins og áður, en snjókoma engin. Mesta frost er hér hefir komið á vetrinum, var á mánudagsmorguninn [17.], 18 stig á Celsius. Snjór er mikill á jörðu, og eyðast munu hey allmjög nú hér í austursveitum. Fjárskaða er getið um á Reynifelli á Rangárvöllum. Um hundrað fjár hafi ýmist hrakist i vötn eða fennt, jafnvel getið um fjárskaða víðar þar, en fréttin óljós.

[29.] Veðrátta er óstöðug og ofsafengin eins og áður, þangað til nú síðustu dagana, blíðviðri í gær, jörð orðin alauð hér í lágsveitum. Ekki gefur þó á sjó hér fyrir brimi. Hornafjarðarós lokaður af sandi, komið hátt sandrif þar sem ósinn var áður. Nýr ós hefir myndast á öðrum stað, en ókunnugt ennþá hvort hann muni vera skipgengur.

Í Austra þann 26. apríl er alllöng frásögn af hrakningum Svínfellinga í fjöruferð sem þeir lögðu upp í 13. mars. Í lok frásagnar er þess getið að í sama veðri hafi orðið úti allir sauðir Svínfellinga, nokkrir tugir þeirra fórust. Ingólfur (1. apríl) segir veðrið hafa verið svo mikið að heimafólk hafi ekki treyst sé milli bæjanna í Svínafelli, en þeir standa saman með fárra faðma bili milli bæjardyra. Í sama veðri hafi og fennt fé á Rangárvöllum. 

Páskarnir voru snemma 1913, páskadagur 23. mars. Austri segir frá því að rétt áður hafi 2 frönsk fiskiskip sokkið út af Fáskrúðsfirði, en mannbjörg hafi orðið.  

Þjóðviljinn segir frá því 9. apríl að vitinn á Brimnesi eystra hafi eyðilagst nýlega í ofsaroki og sjógangi. Dagsetningar er ekki getið. 

Um páskaleytið varð vart við hafís við Sléttu og Langanes. 

Apríl: Hagstæð tíð, en úrkomusöm. Fremur hlýtt.

Vísir 6. apríl:

Ísafirði, föstudag [4. apríl]. Í morgun var afarsnarpur hvirfilbylur á Önundarfirði, en stóð ekki nema augnablik. Hann reif þak af hlöðu, er Kristján Ásgeirsson verslunarstjóri átti og tók mikið af heyi. Hann reif í háa loft nokkra báta og mölbraut þá, fjöldi af rúðum brotnuðu í húsum. Jarðfastur, digur stólpi sviptist sundur og alt lék á reiðiskjálfi, sem í hörðum jarðskjálftakipp. Þetta var um kl. hálf níu.

Bátabrot urðu í veðri vestur í Djúpi á sumardaginn fyrsta, bátur fórst en mannbjörg varð, annan bát rak upp í Bolungarvík og fjórir mótorbátar brotnuðu í Hnífsdal. Þann dag var talað um blíðskaparveður í Reykjavík. 

Norðri segir í frétt þann 3. maí:

Til sjávarins hafa verið miklar ógæftir. Hákarlaskipin bæði af Eyjafirði og Siglufirði eru aflalaus. Endalaus austandrif, segja þau, svo aldrei hefir verið leguveður þenna hálfa mánuð, sem þau hafa verið úti. Til landsins hefir verið votveðrasamt, en meira rignt en snjóað í byggð. Næturfrost sjaldan umliðna viku og tún að byrja að grænka. Ávinnsla á túnum mun þó naumast byrjuð sakir votviðra.

Þjóðviljinn segir frá því 10. maí að seinast í apríl hafi orðið mikil símslit viða á Norðausturlandi, á Dimmafjallgarði, Smjörvatnsheiði og Fjarðarheiði. Sömuleiðis á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og í vestur í Dýrafirði hafi nokkrir símastaurar svipst í sundur í ofsaveðri. 

Skeiðarárhlaup hófst þann 6. apríl og eldgos nærri Heklu þann 25. Talsverðir jarðskjálftar urðu í upphafi eldsumbrotanna og flýði fólk hús á Rangárvöllum, minnugt jarðskjálftans mikla í maí árið áður. Í frétt Vísis þ.27. segir frá Eyrarbakka: „Svo virtist, sem Hekla sjálf væri farin að loga, en það sést ekki glöggt. Snjórinn bráðnar óðum af henni og er hún nú auð efst“. Síðar var sagt að snjórinn á fjallinu hefði ekki bráðnað - en hulist ösku frá eldstöðvunum. - Gosið er að jafnaði ekki talið með Heklugosum - en um það má sjálfsagt deila. 

Þann 29. apríl segir Vísir í frétt frá Eyrarbakka að Jökulsá á Sólheimasandi hafi verið þurr að kalla síðan um nýár, eða aðeins sem lítill bæjarlækur. Þykir það mjög undarlegt að áin sé stífluð svo lengi. 

Maí: Hagstæð tíð fyrstu vikuna, en síðan fremur óhagstæð. Mjög þurrt víðast hvar. Allmikið hret eftir miðjan mánuð. Hiti í meðallagi mánuðinn í heild. 

Þjóðviljinn segir þann 10. maí að tíðin hafi verið „mjög hagstæð að undanförnu, enda ræktuð jörð orðin græn, og koma úthagarnir brátt á eftir, að vænst er“. Þann 13. maí segir Ingólfur að veðrátta hafi verið ágæt um land allt síðan á sumarmálum. Hvítasunna var þann 11. maí og úr því hrakaði veðri, Norðri segir frá þann 21.:

Eftir hvítasunnu brá til norðan og norðaustanáttar með kulda og snjókomu eða rigning og frosti um nætur. Lítill gróður er því enn kominn og gefa verður lambfé. 

Og Ingólfur daginn áður (20. maí):

Í gær og fyrradag var hörkustormur norðan hér sunnanlands með allmiklu frosti um nætur. - í öðrum landsfjórðungum var víða snjókoma og hlýtur hret þetta að hafa kippt úr gróðri. Nú er komið gott veður aftur.

Júní: Mjög óþurrkasamt á S- og V-landi, en þurrt eystra. Snjókoma fyrstu dagana norðaustanlands. Fremur kalt.

Ekki gott hljóð í Austra þann 7. júní:

Tíðarfar stöðugt ömurlegt, norðanstormur og kuldi á degi hverjum og snjór fellur á fjöll og ofan í miðjar hlíðar.

Hretsins gætti líka syðra, Ingólfur segir frá þann 3. júní:

Norðan-garður hefir verið síðan á föstudag [30. maí], og frost flestar nætur. Í Dölum gránaði á laugardaginn niður i byggð. Í Húsavik nyrðra var snjókoma í gær og tún hvít af snjó. Í Hrútafirði eru tún farin að grána aftur sakir kulda. Nú er veðráttan aftur farin að batna.

En svo tók tíð að skána og þann 18. júní segir Norðri frá góðviðri og hita þar um slóðir síðustu daga - og hæsti hiti ársins mældist einmitt nyrðra næstu daga á eftir eins og getið var í inngangi hér að ofan. 

Austri segir frá ísbirni þann 21. júní:

Ísbjörn var skotinn fyrir utan Heyskála í Hjaltastaðarþinghá s.1. sunnudag [15.júní]. Höfðu menn fyrst orðið varir við bangsa daginn áður og skotið þá á hann mörgum haglaskotum, án þess að honum yrði meint af, þótt í fárra faðma skotmáli væri. En þá kom Einar Vigfússon prests Þórðarsonar á Hjaltastað með kúluriffil, og lagði björninn að velli í fyrsta skoti. Björninn var allstór og í góðum holdum; vóg skrokkurinn af honum 226 pund. Þykja þetta óvenjuleg tíðindi, og vita menn eigi gjörla hvernig björninn hefir hingað komið; telja líklegast að hann hafi komist upp á Langanes í vor með ísnum, sem hvalveiðamenn sáu þar. En eigi höfum vér frétt að víðar hafi sést til bjarnarins, en í Hjaltastaðarþinghánni.

Júlí: Mjög óhagstæð óþerristíð á Suður- og Vesturlandi, sérstaklega er á leið, en ágæt tíð norðaustanlands. Fremur hlýtt, einkum nyrðra.

Fréttir af veðri voru líka með misjöfnum blæ eftir landshlutum. Norðanlands var hljóðið gott. Norðri segir:

[Þ. 4. júlí] Síðan skipti um veðráttu um miðjan f m. hefir verið hagstætt tíðarfar fyrir grassprettu, þó nokkuð þyki þurrkasamt. Búist er við að tún verði víðast í meðallagi. Margir fara að slá það af túnum sem á að tvíslá. Votengi og flæðaengi sprettur nú sem óðast. Hiti og leysing mikil hefir verið til fjalla næstliðna daga, flæða því ár allvíða yfir engjar.

[Þ. 26. júlí] Ágætur hey- og fiskþurrkur þessa dagana. Grasspretta öll raklend tún í sæmilegri rækt hafa sprottið vel í sumar. Engjar nú óðum að spretta og horfur með heyskap bænda í besta lagi.

Syðra gætti fyrst nokkurrar bjartsýni. Suðurland segir frá þann 12. júlí:

Grasvöxtur er með minna móti i öllum sveitum hér sunnanlands, og líklega víðar. Er það eðlileg afleiðing af kuldanum í vor. Ágætt grasveður heflir verið undanfarna daga, svo það er góð von um að betur skipist um grasvöxtinn en áhorfðist um tíma. Vatnavextir með mesta móti eru sagðir í eystri Rangá í vor og í vetur seinni partinn, er hún nú sögð ill yfirferðar. [Athugsemd ritstjóra hungurdiska Ef til vill hafði eldgosið eitthvað með það að gera].

Vestri þann 25. júlí:

Tíðarfar rigningasamt, en annars hlýtt í veðri. Hundadagarnir byrjuðu með úrkomu og spá fróðir menn, að það muni haldast fyrst um sinn.

Ágúst: Mikil votviðratíð um allt sunnan- og vestanvert landið. Góð tíð norðaustanlands. Hiti í meðallagi.

Eystra héldu menn áfram að dásama tíðina, Austri segir 2. ágúst frá indælustu veðráttu, „sannarleg sumardýrð og blíða“. 

Syðra var hljóðið síðra, þó sumir hafi fengið nokkuð bjartsýniskast við daginn bjarta, 3. ágúst. Lítum fyrst á pistil sem birtist í Suðurlandi 2. ágúst:

Stöðugir óþurrkar hafa gengið hér syðra síðan sláttur byrjaði, svo að fáir eða engir hafa náð inn neinu af þurrheyi. Mun vera mjög langt síðan að ekki heflir verið búið að ná neinu heyi um þetta leyti. Sagt er að einhverjir hafi tekið saman töðuna til súrheysgerðar; gott að geta brugðið því fyrir sig þegar tíðin er svona. Taða er víða orðin mjög hrakin og liggur undir stórskemmdum ef ekki rætist úr mjög bráðlega. Útislægjur fyllast nú óðum af vatni þær sem fyllst geta, og eru auk þess víða illa sprottnar. Það horfir því hið versta við með heyskapinn í þetta sinn.

Svo virðist sem sveitir austanfjalls hafi fengið einhverja sæmilega daga - og betri en komu við Faxaflóa og annars staðar á Vesturlandi því ekki er alveg sama svartsýnishljóð í Suðurlandi þann 16. ágúst:

Ágætan þurrk gerði sunnudag 3. ágúst, og hélst hann alla vikuna. Á þeim tíma munu flestir eða allir hafa náð öllu því heyi sem þá var laust. Var þess orðin mikil þörf. Rættist vel úr, eftir því sem áhorfðist, og var það mikil heppni að fá svo góðan þurrk á þeim tíma. Um síðustu helgi [10. var sunnudagur] brá aftur til óþurrka og hafa þeir haldist síðan; oft stórrigningar og stormur.

Umsögn og fréttir úr Austra, 30. ágúst:

Vandræðatíð. Sunnanlands gengur heyskapar afarilla vegna óþurrka. Viða við Faxaflóa innanverðan eru allar töður úti enn, meira eða minna skemmdar. Austanfjalls hafa töður náðst inn víðast hvar, en mjög skemmdar, þar sem snemma var slegið; óvíða er úthey þar komið í tóft, svo að nokkru nemi; sumstaðar verður ekki átt við heyskap fyrir vatnsaga; glöggur maður nýkominn að austan segir (19. þ. m,) að vel geti svo farið, að útheyskapurinn verði ekki í mörgum sveitum Árnessýslu meiri en þriðjungur á við það, sem gerist í meðalári. Vestan af Snæfellsnesi (úr Miklaholtshreppi) er skrifað 17. þ.m.: „Mjög er erfið veðráttan hér nú, eigi búið að ná neinu heyi ennþá; horfir því til vandræða bæði með hey og eldivið".

Ingólfur segir þann 5. frá þurrkdeginum þann 3.:

Óþurrkar miklir hafa verið hér sunnanlands langa lengi og ekki komið þerridagur nema á sunnudaginn 3. þ.m. Þá var sólskin og heiðskírt allan daginn. Síðan hefir ekki rignt hér en verið þerrilítið. Margir hafa náð inn allmiklu af heyi þessa dagana, en mjög mikið er úti og farið að skemmast. — Munu varla hafa verið slíkir óþurrkar síðan 1901. Norðanlands og austan er öndvegisveðrátta, sunnanátt og hitar síðan fyrir miðjan júní og grasspretta í betra lagi.

Þann 9. ágúst er hafísfregn í Norðra:

Hafís er nú að hrekjast upp á mótorbátamiðum Eyfirðinga. Bátar frá Svarfaðardal misstu nú í vikunni allmikið af lóðum fyrir ísrek. 3. þ. m. var gengið upp á fjöllin vestan við Siglufjörð og sáust þaðan ísbreiður fram á hafinu.

September: Fremur hagstæð tíð, ekki þó langir þurrkkaflar s-lands og vestan. Fremur hlýtt.

Ingólfur gefur gott yfirlit um tíðina í pistli 16. september:

Veður hefir nú loks breyst til hins betra hér syðra, verið hið fegursta síðustu dagana, logn og heiðskír himinn. Fyrir helgina gerði norðan garð og gránaði í fjöll. Á Norðurlandi og Vestfjörðum hafði hvítnað niðrí sjó sumstaðar. Veðrátta hefir verið hin ágætasta norðanlands og austan alt síðan í vor; graspretta í besta lagi. Jafnvel norður í Grímsey hafa verið meiri hlýindi en menn muna. Sunnan lands og vestan hafa óþurrkar verið með fádæmum. Heyskapur því í lakasta lagi víða. Einn bóndi við Safamýri eystra hefir t. d. ekki heyjað nema 400 hesta f sumar, en í fyrra 1400; mýrin hefir verið í kafi í vatni.

Síðan vitnar Ingólfur í bréf úr Staðarsveit sem Vísi hafði borist (en ritstjóri hungurdiska finnur ekki þar). Í bréfinu segir að taða öll sér stórhrakin og mikil hey fokin. Daginn sem bréfið var ritað (12. september) fuku nokkur hundruð hestar á Staðarstað, Ölkeldu og Fossi. 

Norðri segir frá hretinu í frétt þann 17.:

Veðrátta. 12. þ. m. gekk í norðangarð með snjókomu svo hætta varð heyvinnu í tvo daga, á mánudaginn birti upp og hefir síðan verið allmikið frost um nætur, en snjór liggur yfir ofan undir bæi.

Í Þjóðviljanum þann 30. september er bréf frá Hornströndum, dagsett 7. sama mánaðar þar sem tíðarfari vors og sumars þar um slóðir er lýst:

Vorið, næstliðna. var hér mjög kalt, og því og gróðurlítið. Snjóþyngslin, á sumum bæjum, svo mikil, að eigi var nægileg fjárbeit komin upp um miðjan maí. Hér við bættist og að í enda malmánaðar, skall hér á ofsa-stormur, með blindkafaldshríð, er hélst í níu daga, alhvíldarlaust, að kalla, svo að allar skepnur, jafnvel hestar, stóðu á gjöf. Af hreti þessu leiddi það og, að eggja-tekjan eyðilagðist að mestu leyti, og fugltekjan varð í lakara lagi, því að þegar snjóinn leysti, fóru eggin víða fram af bergstöllunum. Um miðjan júní, skipti um veðráttu, og var hiti um daga, en frost um nætur, uns algjörlega kom inndælis sumarblíða, með byrjuðum júlí, sem haldist hefur síðan til þessa. Vegna þess, hve seint leysti, varð grassprettan hér í lakara lagi, og er heyaflinn þó nú víðast orðinn í meðallagi.

Úr Jökulfjörðum var aðra sögu að segja þó stutt sé á milli. Þjóðviljinn segir frá því þann 14. nóvember:

Úr Jökulfjörðum hafa nýlega borist þessi tíðindi: Þar var mjög þurrkalítið, og tíðin afleit, í júlí og ágúst, og fram í miðjan september, er loks skipti um, og gerði tíð góða. Hröktust hey manna í Jökulfjörðum að mun, og heyskapurinn var yfirleitt i minna lagi. Á Ströndum, austan Horns, var tíðin á hinn bóginn betri, og nýting heyja þar þolanleg. - En nokkuð af heyi - og þó eigi að mun - misstu menn þar, því miður; i vestan-roki, er þar gerði.

Austri birtir þann 18. október bréf dagsett í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu 30. september og er sumartíðinni lýst - þar fór seinna að rigna en vestar:

Nú er tekið að hausta og heyskap lokið hjá almenningi, og mun hann víða hafa orðið í góðu meðallagi eða betri, enda voru framan af sumri sífelldir þurrkar, allt að 12. degi
ágústmánaðar — svo að víða varð jafnvel bagi að vatnsleysi, lækir og lindir þurrar. — Og nýttist það hey vel, sem þá aflaðist, en grasvöxtur var að vísu í minna lagi lengi frameftir, einkum á túnum og harðvelli (góður á flóðengi). Síðara hluta ágústmánaðar og framan af þ. m. voru stopulir þurrkar, en 11. -12. sept. snerist í norðurátt og gjörði norðanrok mikið, sem feykti sumstaðar heyjum, en varð þó mörgum að miklu gagni með þerridögum þeim, er á eftir komu. þá hrakti 15 nautgripi úr Skógey í Nesjum út i Hornafjörð, og komust aðeins 2 lífs af (annar á Akurey langt úti í firði), en sumir fundust dauðir í fjörum, og vantar þó fleiri. Skógey er nú svo sandorpin, að mælt er að þar hafi aðeins fengist hey á 10 hesta í sumar, en áður svo hundruðum skipti. Síðan 18. september sífelld votviðri að kalla til næstu helgar, er sólskin kom og þerrir, sem orðið hefir mörgum að góðum notum.

Október: Fremur hagstæð tíð lengst af, en nokkur skakviðri. Hiti nærri meðallagi. Bátskaðar urðu nokkrir með manntjóni. 

Norðri tíundar góðviðri þann 16. október:

Góðviðrið hefir haldist að þessu, svo fjárrekstrar og öll hauststörf hafa gengið mjög greiðlega. Saltfiskur hefir verið stöðugt breiddur og þurrkaður að öðru hverju.

Og Vísir sama dag í frétt frá Akureyri:

Góðviðri svo mikið á þessu hausti hér Norðanlands síðan hretinu létti um miðjan september að elstu menn segjast ekki muna slíka haustveðráttu. Kýr ganga enn víða úti og er ekki gefin nema hálf gjöf.

Mikið norðan- og norðaustanveður gerði um nær allt land þann 19. og 20. október. Margskonar tjón varð. Austri segir frá þann 25.:

Aðfaranótt hins 20. þ. m. gjörði ofsaveður um allt Norður- og Austurland. Fylgdi veðrinu fannkoma mikil, bleytuhríð í byggð, en frostkul til fjalla. Setti þó niður mikinn snjó, enda hélt áfram að snjóa til hins 23. þ. m.. og var síðari dagana frost nokkurt. Áttu menn erfitt með að ná saman fé sínu, því ófærð kom strax mikil en fé upp um öll fjöll hér í Seyðisfirði, þar sem vanrækt hafði verið að ganga á réttum tíma. Stóð féð í sveltu í fleiri daga hingað og þangað á fjöllunum, en mun nú flestu náð til byggða fyrir vasklega framgöngu einstöku manna. Símaslit varð i veðrinu á mánudaginn víða um land. Hér eystra, á túninu á Egilsstöðum þar sem 4 símastaurar brotnuðu, og á Haug, er síminn slitnaði niður af mörgum staurum. En mestar skemmdirnar á símanum urðu við Héraðsvötnin, þar brotnuðu 8 símastaurar. Er það óvenjulega mikið tjón, og einstakt á því svæði. Fljótlega varð þó hægt eð gjöra við skemmdirnar svo að samband náðist héðan til Akureyrar daginn eftir svo og til Suðurfjarða og til Beykjavíkur á þriðja degi. 

Ingólfur segir frá veðrinu syðra:

Fádæma ofviðri og brim. Skip og bátar brotna hrönnum. Á sunnudaginn var [19.] gekk í norðanátt og hvessti veðrið eftir því sem á daginn leið. Mánudagsnóttina herti veðrið mjög og varð svo mikið rok seinni hluta nætur og á mánudagsmorguninn fram um miðjan dag, að sjaldan koma slík. Sjórokið var svo mikið yfir Reykjavíkurbæ,að húsin voru blaut utan, nálega í öllum bænum. Á Austurstræti voru pollar eftir rokið og ekki sá til Engeyjar þegar hvassast var, þó úrkoma væri engin né þoka. Brim var svo mikið, að margir Reykvíkingar þóttust ekki þvílíkt muna. - Sumir jöfnuðu veðri þessu við norðangarðinn mikla þegar „Fönix" fórst, frostaveturinn mikla 1881, en það skildi, að þá var samfara 22 stiga frost, en nú var frostlaust.

Nokkra uppskipunarbáta sleit upp hér á höfninni og rak í land. Einn þeirra brotnaði í spón og flestir hinna munu hafa skemmst meira eða minna. Marga báta fyllti á höfninni, svo ekki sá nema á hníflana upp úr bárunni. Sumir voru á hvolfi. Tveir vélarbátar sukku úti á höfn. Annan átti Frederiksen kaupmaður, hinn Guðmundur Gíslason. Annan vélarbát Frederikseus kaupmanns rak í land vestan við „Duus-bryggju". Þá braut brimið framan af Duusbryggju og Völundar-bryggju, Garðarsbryggju o. fl. Austanvert á höfninni lágu þrír kola-„barkar". Tvo þeirra átti Chouillou kaupmaður og sleit annan upp seint um nóttina og rak upp í vikið milli Garðarsbryggju og Sjávarborgar.

Tveir menn voru í skipinu og héldu þar vörð, annar Norðmaður er Pétur Anton Olsen heitir, roskinn að aldri; hinn er unglingsmaður sem heitir Kristján, sonur Jóns Kristjánssonar næturvarðar í Völundi. Þegar skipið kenndi grunns, nálægt kl. 5 flatti það með landinu og lagðist á hliðina, svo að þilfarið horfði út og stóðu siglustúfarnir út í brimið. Mennirnir komust upp á borðstokkinn aftur undir skut og héldu sér þar í kaðla, sem fastir voru í borðstokknum, en brimið skelltist yfir þá í ólögunum. Þegar birti af degi var farið að leitast við að bjarga mönnunum, og var skotið út báti í vari skipsins, en hann fyllti hvað eftir annað. Loks tókst að komast á flot er fjara tók nálægt kl. 11; lágu þeir félagar á kaðli í bátinn og komust slysalaust í land. Olsen var þjakaður mjög og fluttur á sjúkrahús, en hinn vel hress. ...

Barkurinn sligaðist inn um miðjuna og skolaði miklu af spýtnarusli úr honum i land. Síðan hefir hann brotnað miklu meira. Skip þetta var gamalt, bar um 1200 smálestir, en ekki mun hafa verið í því nú nema svo sem 400 lestir kola. „Valurinn", botnvörpuskip Miljónarfélagsins lá í vetrarlægi innanvert við höfnina og tók að reka þegar veðrið
harðnaði. Um hádegi rak hann upp í grjót innan við bústað Brillouins ræðismanns og brotnaði svo að hann er talinn ónýtur.

Víða urðu smáskemmdir á girðingum og gluggum, án þess talið sé. Hjallur brotnaði í Kaplaskjóli og fauk út á sjó. Símar eru slitnir, svo að ekki hefir frést enn af Vestfjörðum né Norðurlandi, en hætt við, að þar hafi orðið tjón viða, því að hríð hafði verið komin nyrðra á sunnudagskveldið. Sagt er að vélarbáta hafi rekið á land í Keflavík. Í Leiru hafði rekið upp vélar-bát þeirra Eiríks í Bakkakoti, er hafður hefir verið til landhelgisgæslu þar syðra. Í Garði hafði einnig rekið upp vélarbát.

Ingólfur birti þann 6. nóvember bréfkafla frá Snæfellsnesi þar segir m.a.:

Sumarveðráttan hefir verið afskapleg; sífeldar rigningar frá því um miðjan júlí til septemberloka. Örfáir upprofsdagar á öllu sumrinu, einn og einn í bili og ein vika sem lítið rigndi, en þó var þerrilaust að kalla. Annars hefir alltaf rignt dag- og nótt. Heyskapur er því almennt lítill og hey víða skemmd. Heyskaðar urðu af norðanveðrum tvívegis, en eigi eru þeir eins stórfelldir eins og blöðin hafa af látið. Almennt munu bændur hér um slóðir hafa misst frá 10-15 hesta hver, í seinna veðrinu, en í hinu fyrra naumast eins mikið. En mikið hafa hey ódrýgst á ýmsan hátt í sumar og er tjónið allmikið, þótt eigi sé orðum aukið. Um næstliðna helgi gerði hér óskaplegt norðanveður með snjóhrakningi og heljarfrosti, sem stóð fulla tvo sólarhringa. Fjártjón varð hvergi stórkostlegt, að því er frést hefir, en víða hrakti þó eitthvað af sauðkindum í vötn og hættur. Munu flestir bændur hafa misst þannig eitthvað af fé sínu en engir mjög margt. Í fjöllum hlýtur margt sauðfé að hafa dáið, því að fjárheimtur voru almennt slæmar og fé sást á fjöllum eftir fjallgöngur. Símslit urðu svo mikil á línunni milli Staðarstaðar og Búða, að líklega eru fá dæmi slíks í byggðu héraði.

Í sama tölublaði segir Ingólfur frá því að særok í norðanveðrinu þann 20. hafi verið svo mikið í Hvalfirði að það hafi borist suður yfir allan Reynivallaháls og á jörð í Vindási efst í Kjós. 

Morgunblaðið segir frá því 3. nóvember (það byrjaði að koma út þann 2.) að Baron Stjærnblad, skip Sameinaða gufuskipafélagsins, hafi lent í hrakningum í illviðrinu, einnig segir af vandræðum á Hornafirði:

„Baron Stjærnblad“ lá á Blönduósi þ. 19., en varð þaðan að flýja vegna óveðurs og brims; lét skipið síðan í haf og ætlaði inn á Hólmavík, en komst eigi fyrir blindhríð. Brotsjóir miklir gengu yfir skipið, brutu stjórnpallinn og skoluðu burt öllu, sem á þiljum var. Skipið missti einnig björgunarbát sinn og margt fleira. Mikið af vörum var í skipinu - mest kjöt; hentust tunnurnar til í lestinni og brotnuðu. Var skemmda kjötið síðan selt á Blönduósi á uppboði. Skipið liggur þar enn og fermir kjöt, en búist er við áð það haldi til útlanda innan fárra daga.

Gufuskipið Súlan, eign Otto Tulinius kaupm. og konsúls á Akureyri, var statt á Hornafirði í veðrinu mikla um daginn og var að sækja þangað kjöt og skinn. Hafði innanborðs 1800 gæruknippi og 300 tunnur af kjöti. Lá hún þar fyrir festum milli tveggja eyja. Veðrið og stormurinn bar skipið upp í aðra eyna. Símað var hingað eftir Geir til hjálpar og brá hann þegar við og fór austur. Er austur kom, var búið að tæma skipið og það komið á flot.

Vísir segir frá því þann 26. að í óveðrinu á miðvikudaginn [22. október] hafi tveir vélbátar og bátabryggja brotnað á Dalvík. 

Fréttir bárust áfram af sköðum í illviðrinu - fjárskaðar virðast hafa orðið nokkrir, en dagsetningar ekki nefndar - fleiri koma til greina. Austri segir frá því að fé hafi farist í Eiða- og Hjaltastaðaþinghám, í Mjóafirði og Skriðdal og Vestri (18.nóvember) frá fjársköðum í Strandasýslu. 

Nóvember: Hagstæð tíð framan af, en síðan miklir umhleypingar og nokkur snjór. Fremur kalt.

Eftir þann 10. gekk til umhleypinga og var oft leiðindaveður þó engin aftök fyrr en þann 22. Á þessum tíma var mjög kvartað undan hálku í Reykjavík og hálkuslys voru tíð. 

Þann 25. mátti lesa eftirfarandi frétt í Morgunblaðinu - ritstjóri hungurdiska veit ekki hvað hér er um að ræða:

Hálkan: 17 manns keyptu blývatn i lyfjabúðinni i gær, fyrir hádegi - höfðu dottið á hálkunni.

Þann 15. fórst maður í snjóflóði í Skjóldal í Eyjafirði - var á rjúpnaveiðum. 

Talsvert snjóaði í þessum umhleypingum og segir Suðurland frá þann 21.:

Veturinn hefir þegar tekið héruðin hér eystra ómjúkum tökum. Snjókoma hefir verið mikil nú undanfarið. Er nú alt hulið þykkri snæbreiðu frá fjöru til fjalls og mun í flestum sveitum hér hagbann fyrir allan fénað, eru frost ennþá fremur væg.

En þann 22. gerði mikið illviðri. Svo segir í Morgunblaðinu þann 23.:

Ofsarok af norðaustri var hér i Reykjavik i gær, með fannkomu um morguninn, en rigningu er á leið daginn. Símslit eru á tveim stöðum hér á landi nú. Ekkert samband við Eyrarbakka og Stokkseyri og slit einhverstaðar milli Borðeyrar og Stykkishólms.

Akureyri í gær. Óveður mikið skall á kl. 3 í dag, suðaustanstormur með hláku. Ceres lá hér við hafskipabryggjuna og braut eitthvað úr henni. Háflóð var skömmu á eftir og skall sjórinn í sífellu yfir bryggjuna og langt upp í stræti. Skemmdir annars litlar.

Þann 26. til 27. gerði annað illviðri. Þá strandaði breskur togari við sandrif austan Víkur í Mýrdal og úr Vestmannaeyjum bárust fregnir af óvenjumiklum vestanstormi og stórsjó. „Menn muna varla eftir öðru eins veðri í mörg ár“. Í þessu veðri urðu enn mikil símslit á Austurlandi. 

Þann 29. fór kröpp lægð norður með Austurlandi og olli hvassviðri og tjóni. Austri segir frá 6. desember:

Ofsaveður með mikilli fannkomu gjörði s.l. laugardag (29. nóvember) um allt Austur- og Norðurland. Munu töluverðir skaðar hafa orðið í því veðri. Hér á Seyðisfirði löskuðust bryggjur og einn mótorbát rak á land á Vestdalseyri; en bátinn bar upp i mjúkan sand, svo hann skemmdist ekkert að mun. Á Mjóafirði brotnaði bryggja og mótorbátur, er Gunnar Jónsson bóndi í Holti átti. Er það mikill skaði, því báturinn var óvátryggður. Er þetta annar mótorbáturinn sem Gunnar bóndi missir á 4 árum. Fyrri mótorbáturinn fórst með fjórum mönnum í fiskiróðri fyrir 4 árum. Á Norðfirði höfðu og nokkrir mótorbátar laskast meira og minna, Fjárskaðar urðu nokkrir. Mestir er vér höfum tilspurt í Fjallseli hjá Einari bónda Eiríkssyni, er missti um 80 fullorðnar kindur. Hrakti þær í lækjargil og skefldi þar yfir þær.

Þann 1. desember segir Morgunblaðið frá því að flóabáturinn Ingólfur hafi daginn áður gert þriðju tilraunina til að komast upp í Borgarnes. Hafi lagt í hann á hádegi en mætt stórsjó og blindhríð fyrir utan Eyjar og varð því að snúa við. Einnig er þess getið að eftirhermur Bjarna Björnssonar hafi farist fyrir sökum óveðurs. Daginn eftir er þess getið að hlið á fiskverkunarpalli hafi fallið í illviðrinu á Akranesi þennan sama dag.

Mjög kólnaði í kjölfar þessa illviðris. 

Desember: Fremur óhagstæð umhleypingatíð með nokkrum snjó. Hiti nærri meðallagi. Maður varð þá úti í Skaftártungu - dagsetningar ekki getið (t.d. Ingólfur þ.11. desember).

Suðurland segir frá snjó þann 6. desember. Þar er orð sem ritstjóri hungurdiska minnist þess ekki að hafa séð annars staðar (hvers konar?):

Snjókynngi mikil hér sem annars staðar, þó ekki séu hinir illræmdu árekstursskaflar komnir ennþá.

Ísafold lýsir tíðinni þann 17. desember:

Veðrátta er með afbrigðum leiðinleg, sífeldir umhleypingar og dimmviðri. Myrkara skammdegi en þetta hefir eigi yfir Reykjavík gengið margt ár.

Snarpt illviðri ársins gerði þann 18. desember þegar kröpp lægð fór hjá. Morgunblaðið segir frá þann 19.:

Ofsarok var hér i allan gærdag. Fyrst á sunnan og snerist svo i útsuður er á leið daginn og hvessti þá fyrir alvöru. Skulfu húsin og lá sumum við að fjúka, en sjónum rótaði veðrið frá grunni og gerðist af voðabrim. Er þetta líkt veður og mannskaðaveðrið mikla þegar „Ingvar“ strandaði hér á Viðeyjargranda [7. apríl 1906]. Ekki er þó enn kunnugt um að það hafi valdið tjóni, en búast má við því að skip hafi komist í hann krappan einhversstaðar.

Morgunblaðið segir frá því (þ.30.) að veðrið hafi einnig brotið bát norður á Þórshöfn. 

Suðurland segir af sama veðri í frétt þann 23.:

Ofsaveður mikið af útsuðri var hér eystra fimmtudaginn 18. þ. m. Hús léku á reiðiskjálfi og bjuggust menn við hverskonar spjöllum af veðrinu á hverri stundu. Ekki hefir þó frést enn um að skemmdir hafi orðið hér í sveitum nema á einum bæ í Villingaholtshreppi, Vatnsenda. Þar fauk járnþak af fjárhúsi og hey hlöðu og um 30 hestar af heyi.

Nokkrar fréttir bárust af hafís í desember, þann 21. birti Morgunblaðið frétt frá Ísafirði frá því daginn áður:

Fregnir ganga hér um bæinn að hafís sé mikill hér í nánd, og að hann sé landfastur orðinn bæði við Brimnes og út af Súgandafirði að vestan. Margir botnvörpungar liggja hér á höfninni og segja þeir mikinn ís fyrir utan.

Sama dag segir Morgunblaðið frá hafnarframkvæmdum í Reykjavík:

Grandagarðurinn er nú kominn nær út i Örfirisey. Mundi hafa verið kominn alla leið ef tíð hefði verið góð, en nú hafa illviðrin tafið fyrir um langa hríð. Frost og snjór hefir tafið fyrir upptöku grjótsins og brimið hefir hamlað verkamönnum frá að vinna við það að reka niður stólpana.

Mikið snjóaði um jólin og Vestri segir þann 28. frá aftakahríðarbyl á fyrsta og annan jóladag og að skemmdir hafi þá orðið á bátum bæði á Ísafirði og í Hnífsdal (líka í Vísi). Maður varð þá og úti á Barðaströnd annan jóladag þegar stórhríð mikil með ofsaveðri og fannburði brast á um miðjan dag. Ingólfur segir frá þann 18. janúar 1914: „Er mikið látið af grimmd veðursins á Vesturlandi og í Húnaþingi. Messufólk allt veðurfast til næsta dags á Breiðabólstað á Skógarströnd og Stað á Reykjanesi vestra“. Mun festan hafa orðið eftir messugjörð á annan dag jóla. 

Jólin voru hvít í Reykjavík. Svo segir Ísafold þann 27. desember:

Á aðfangadag tók að snjóa allmjög, og á Jóladagsmorgun var kominn knéhár snjór. Hvít jól — rauðir páskar — segir máltækið. 

Norskt fiskflutningaskip strandaði við Akranes þann 28. desember (Lögrétta 1. janúar 1914).

Lýkur hér að segja frá veðurlagi og veðri ársins 1913.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af (íslenska) vetrarhitanum í góulok

Í gær (þriðjudag 20. mars) hófst einmánuður, síðasti mánuður íslenska vetrarmisserisins, en það hefst sem kunnugt er með fyrsta vetrardegi seint í október og stendur til sumardagsins fyrsta - seint í apríl. 

Almannarómur segir veturinn nú hafa verið kaldan fram undir þetta. Sannleikur þess máls fer nú dálítið eftir því hvernig á það er litið. Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað meðalhita vetrarins til þessa - frá fyrsta vetrardegi og til síðasta góudags - í Reykjavík. Hann reyndist vera +0,7 stig, -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og næstlægstur sama tíma á öldinni. Kaldari voru þessir mánuðir veturinn 2001 til 2002, +0,6 stig.

En sé meðaltalið miðað við lengri tíma, t.d. árin áttatíu frá 1931 til 2010 reynist hitinn nú vera nákvæmlega í meðallagi. 

w-blogg210318i

Myndin sýnir meðalhita tímans frá fyrsta vetrardegi til góuloka í Reykjavík á árunum 1872 til 2018. Fáeina daga vantar inn í nokkur ár snemma á öldinni og hefur enn ekki verið bætt úr því. Við sjáum að flestir vetur á tímanum 1881 til 1920 voru kaldir, síðan tók hlýrra skeið við - reyndar nokkuð breytilegt, en fjórir vetur skera sig úr með hlýindi, 1928 til 1929, 1941 til 1942, 1945 til 1946 og 1963 til 1964. Þá tók aftur við svalari tími - þó ekki eins kaldur og hafði ríkt milli 1880 og 1890. Kaldast á síðari tímum var í Reykjavík upp úr 1980. Frá og með 2002 hlýnaði aftur og hefur haldist hlýtt síðan. Á þessu seinna hlýskeiði eru það veturnir 2002 til 2003 og 2016 til 2017 sem skera sig úr - svipað og þeir fjórir sem hlýjastir voru á fyrra hlýskeiði. 

Hvað næst gerist vitum við að sjálfsögðu ekki en ef við tökum fyrra hlýskeið okkur til fyrirmyndar fer að vera með nokkrum ólíkindum hversu langur tími er nú liðinn frá síðasta kalda vetri - með meðalhita þessara fimm mánaða undir núllinu. Sá síðasti slíkra var 1996 til 1997. Á fyrra hlýskeiði liðu mest 13 ár á milli vetra með hita undir núlli, en nú eru þeir sum sé orðnir 21 í röð. 

En einmánuður lifir enn - sumardagurinn fyrsti er ekki fyrr en 19. apríl. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 184
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband