Bloggfærslur mánaðarins, mars 2018

Meðalháloftakort ársins 2017

Við lítum nú á kort sem sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins á Norður-Atlantshafi árið 2017 og vik hennar frá meðallagi áranna 1981 til 2010.

w-blogg210318a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, en litir sýna hversu mikið hún víkur frá meðallagi. Bleiku litirnir vísa á hæð yfir meðallagi, en bláir sýna hvar hún var undir því. Af vikamynstrinu má ráða afbrigði háloftavinda. 

Jákvæð vik eru ráðandi á mestöllu svæðinu. Hvort við sjáum hér hina almennu hlýnun veðrahvolfsins eða eitthvað meira staðbundið getum við ekki sagt út frá þessari einu mynd. Hin almenna hlýnun ein og sér belgir veðrahvolfið út og hækkar þar með alla háloftafleti. Segjast menn hafa séð þessa hækkun í heimsmeðaltölum. 

Staðbundin hæðarvik og vikamynstur ráða mjög miklu um hitafar frá ári til árs. Ef jákvæð vik eru meiri fyrir norðan land en sunnan, eins og hér, táknar það að austlægar áttir hafa verið algengari í háloftum en þær eru að jafnaði. Við slík skilyrði er úrkoma tiltölulega mikil austanlands miðað við meðallag, en minni vestanlands. Austlægu áttirnar eru að jafnaði hlýrri en þær vestlægu. 

Árið áður, 2016, var austanátt líka meiri en að meðaltali á árunum 1981 til 2010.

arsskyrsla_2016-hlyindi-a

Hér mótaði „kaldi bletturinn“ sunnan Grænlands kortið að nokkru, sem hann gerði hins vegar ekki á síðasta ári. En austlægar áttir voru líka mun tíðari en venjulega árið 2016 og við landið er háloftastaðan býsnalík. Hæðarvikið þó lítillega meira 2016 heldur en 2017. 

Þykktarvik (ekki sýnd hér) voru líka ívið meiri 2016 heldur en 2017 og fyrra árið aðeins hlýrra heldur en það síðasta - á landsvísu munaði 0,3 stigum á árunum tveimur. 

Meira munar greinilega á árunum austur í Skandinavíu þar sem norðanáttir virðast hafa verið mun tíðari 2017 heldur en var 2016 og hæðin líka minni. 

Ekkert vitum við um þróunina næstu árin, en vísast mun veðrið eins og venjulega taka upp á einhverju óvæntu. 


Staðan eftir fyrstu 20 daga marsmánaðar

Talsverð umskipti urðu í veðrinu fyrir viku, það hlýnaði alla vega umtalsvert þannig að hiti í mánuðinum er sem stendur ofan við meðallag síðustu tíu ára víða á landinu, þar á meðal í Reykjavík. Meðalhiti fyrstu 20 dagana er þar +1,6 stig og er það +0,4 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ára og +0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og í 7. sæti hita á öldinni. Á 144-ára listanum er hitinn í 40. sæti.

Dagarnir 20 voru í Reykjavík hlýjastir 1964, meðalhiti þá 6,4 stig, en kaldastir voru þeir 1891, -5,8 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 dagana -0,3 stig, -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en +0,6 ofan meðallags áranna 1961-1990.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Þingvöllum, hiti +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Hveravöllum, -0,9 stig neðan meðallags.

Mánuðurinn telst enn mjög þurr syðra, úrkoma hefur mælst 9,8 mm í Reykjavík og er það um 15 prósent meðalúrkomu. Sömu dagar hafa aðeins fimm sinnum sýnt minni úrkomu en nú, síðast 1999. Úrkoma norðanlands er ofan meðallags.

Sólskinsstundir hafa ekki mælst margar síðustu daga í Reykjavík, en eru þó orðnar 105,2 og hafa mælst fleiri aðeins fimm sinnum, flestar 1947, 142,9.

 


Af árinu 1833

Nú förum við enn lengra aftur í tíma en við höfum áður gert á þessum vettvangi, til ársins 1833. Í fljótu bragði virðist sem að ekki sé miklar fréttir að hafa af veðri frá því ári. Þorvaldur Thoroddsen er óvenjustuttorður í umfjöllun sinni og byggir langmest á yfirliti sem birtist í Skírni 1834, en nefnir líka tíðarvísur séra Jóns Hjaltalín sem heimild. 

En það er meira. Hiti var mældur á fjórum stöðum á landinu þetta ár. Jón Þorsteinsson var einmitt að flytja mælingar sína (og aðsetur) úr Nesi við Seltjörn inn í Reykjavík. Það var 18. október sem hann flutti, líklega í hús sem stóð þar sem nú er Ránargata - [Doktorshús] en er þar ekki lengur. Sömuleiðis athugaði Páll Melsteð (Þórðarson) allt árið á Ketilsstöðum á Völlum. mældi hita og loftþrýsting eins og Jón auk þess að lýsa veðri stuttaralega. Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum athugaði einnig þar til í lok júní - en aðeins tölur hafa varðveist - engar aðrar upplýsingar um veður. Grímur flutti þá til Danmerkur, en kom aftur til Möðruvalla 1842 - og lenti þar í leiðindum sem kunnugt er. Sveinn Pálsson mældi í Vík í Mýrdal - nokkuð stopult að vanda og seint í ágúst brotnaði hitamælir hans (hann fékk nýjan í janúar árið eftir). Svo er að skilja að eitthvað hafi fokið á hann og brotið. 

Fáeinar samfelldar veðurdagbækur eru einnig til frá þessu ári. Tvær voru haldnar í Eyjafirði, önnur af Ólafi Eyjólfssyni á Uppsölum í Öngulstaðahreppi, en hin inni á Möðrufelli í sömu sveit af Séra Jóni Jónssyni. Sveinn Pálsson náttúrufræðingur og læknir í Vík í Mýrdal hélt einnig veðurbók þetta ár. Sjálfsagt hafa fleiri gert það þó þau skrif hafi ekki komið fyrir augu ritstjóra hungurdiska. Veðurbækur þeirra Jóns og Sveins eru erfiðar aflestrar. 

Annálar eru líka fleiri en einn. Aðgengilegastur er svonefndur Brandstaðaannáll, ritaður af Birni Bjarnasyni sem lengst af var bóndi á Brandstöðum í Blöndudal, en bjó þó árin 1822 til 1836 á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal. Björn segir margt af veðri í annál sínum sem hefur verið prentaður og gefinn út í heild.  

Séra Pétur Guðmundsson prestur (og veðurathugunarmaður) í Grímsey tók saman annál 19.aldar og náði hann frá upphafi hennar fram til um 1880, en var prentaður og gefinn út smátt og smátt fyrir 70 til 90 árum. Annáll Péturs er mjög gagnlegur sérstaklega vegna þess að hann hafði undir höndum eitthvað af samantektum sem ekki eru á hvers manns borði nú - en munu samt vera til í skjalasöfnum. 

ar_1833t

Lítum fyrst á yfirlit Skírnis um árið 1833, en það birtist í 8. árgangi hans 1834 (s60):

Á Íslandi var árferð á þessu tímabili góð, og almenn velgengni drottnandi, þegar á allt er litið. Veturinn 1833 var einhver enn veðurblíðasti um land allt; vorið gott nyrðra, og snemmgróið, en tirming [oftar ritað sem tyrming = uppdráttur, vesöld] kom síðan í grasvöxt nokkur af næturfrostum og kulda, er gekk yfir með Jónsmessu, og spratt útengi heldur lélega, en tún betur, en vel hirtust töður manna eystra og víðast nyrðra. Fiskiafli og annar veiðiskapur var lítill nyrðra, og sumstaðar engi, en syðra urðu góðir vetrar- og vorhlutir; veðrátta var þar miður enn nyrðra, þó var þar grasvöxtur vel i meðallagi, en töður hröktust mjög til skemmda af rigningum, en að öðru leyti var veður hlýtt og góðviðri. Skepnuhöld voru um allt land í góðu lagi, og kom peningur snemma í gagn.

Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum í Húnavatnssýslu virðist, í bréfi sem hann ritar 8. ágúst 1834, telja Skírni hafa verið heldur snubbóttan (bréfið má finna í Andvara 1973):

Um árferði það, er Skírnir telur hér á landi á bls. 60, skipti í síðustu viku sumars, eða þó fyrri, nefnilega þann 14. október, þá snjóhríð gjörði víða með hafróti og ofsastormi, er braut skip og drap víða sauðfé manna norðan og vestan lands, þó mest í Ísafjarðarsýslu. Frá þeim degi varð líka haglaust fyrir útigangspening í ýmsum sveitum, og yfir höfuð var vetur mjög 'þungur víða vestan- og hvarvetna norðanlands ... 

Brandsstaðaannáll er mikið til sammála Skírni - og svo Hallgrími - gerir heldur minna þó úr júníkuldum en Skírnir - og nefnir 13. október en ekki þann 14. - sem skiptir auðvitað engu (blaðsíðutöl í prentaðri útgáfu í svigum):

Vetur frostalítill, blotasamt, svo þeir voru 20 komnir með þorra. Á honum og góu var oftast stillt veður, stundum þíða, lítill snjór og aldrei haglaust. Eftir jafndægur vorblíða. Með maí kom nægur gróður. Mátti þá túnvinna vera búin. Tvö skammvinn kafaldsköst komu í apríl. Í júní mikill gróður, svo bifinkolla sást þann 15. Góðviðri og hitar um lestatímann. Sláttur hófst 15. júlí. Var þá rekjusamt. 21. júlí, sunnudag, kom víða ofan í (s108) þurra töðu, sem lengi hraktist og skemmdist eftir það.

Í ágústbyrjun hirtu allir misjafnt verkaða töðu. Eftir það gæða heyskapartíð, oft sterkir hitar, en rigningar litlar, er við hélst til 10. okt. Þann 13. lagði snjó á fjallbyggðir og heiðar, er ei tók upp um 36 vikur, þó snöp héldist þar til jólaföstu. Var þá langur vetur með jarðleysi á jólaföstu um Laxárdal og fjallbæi, en til lágsveita auð eða næg jörð til nýárs. Meðalveðurlag, en frostamikið á jólaföstu. Hrossagrúi safnaðist mikill á útigangssveitirnar. Sumir tóku líka sauði á beit úr hagleysisplássunum. Ársæld var mikil og gagn skepna í besta lagi, (s109) ...

Jarðeplaræktin var nú hjá stöku bændum í miklum framförum þessi góðu ár. Í Ási og Þórormstungu [þessir bæir eru í Vatnsdal] var það mest, 20-20 tunnur á þessu ári. (s111)

Ekki gengur ritstjóranum vel að lesa dagbók Jóns í Möðrufelli, en sér þó að hann segir janúar hafa verið yfirhöfuð mikið góðan mánuð og febrúar hafi mestallur verið ágætur að veðráttu. Júní var mikið þurr og oftast loftkaldur að sögn Jóns, júlí mjög þurr framan af en vætur síðari partinn. September var góður yfir höfuð að kalla og nóvember dágóður. 

Brot úr samtímabréfum staðfesta þessar lýsingar:

Ingibjörg Jónsdóttir á Bessastöðum segir í bréfi 2. mars:

Vetur hefur verið frostalítill en vindasamur. Skriður hafa fallið, einkum þó í Borgarfirði. Þó held eg að sýslumaður hafi ekki orðið undir þeim. 

Einkennileg athugasemdin um sýslumann, en sýslumaður borgfirðinga var þá Stefán Gunnlaugsson. Hann byggði sér reyndar nýtt hús á árinu, í Krossholti utan við Akranes - kannski hann hafi orðið fyrir einhverju skriðutjóni veturinn 1832 til 1833 þegar allt kemur til alls? 

Skriður þessar féllu reyndar ekki á árinu, heldur fyrir áramót, m.a. á Húsafelli - kannski við lítum einhvern tíma til ársins 1832? 

Bjarni Thorarensen segir í bréfi sem dagsett er í Gufunesi 12. september:

Með nýtingu á heyi hefir á öllu Suðurlandi árað báglega, en grasvöxtur hefir þarámóti verið í besta lagi. (s213) 

Og Gunnar Gunnarsson í Laufási við Eyjafjörð segir í bréfi sem dagsett er 2. október:

Mikil þurrviðri ásamt sterkum hita hafa oftar viðvarað í sumar frammí miðjan ágúst, við það skrælnuðu og brunnu hólatún, svo grasbrestur varð víða allmikill. Þó vegna góðrar nýtingar held eg að heita megi að heyskapur yfir höfuð hafi náð meðallagi.

Gunnar skrifar svo 7. febrúar 1834: 

Sérstaklega umhleypingasamt og óstöðugt hefur veðráttufarið verið síðan í haust til þessa, með sterkum stormum og áhlaupa hríðarbyljum, þó sérílagi keyrði fram úr öllu góðu hófi bæði með rigningu og þaráofan öskukafaldshríð þann 14. og 15. október næstliðinn þegar Herta fékk slysin – fékk þá svo margur sveitabóndi stórvægilegan skaða á skepnum sínum, sem hröktu í vötn og sjó og frusu. Þó urðu ekki mikil brögð að því hér í Norðursýslu, meiri í Eyja- og Skagafjarðar- en mest í Húnavatnssýslum. Jarðbönn hafa sumstaðar viðvarað síðan um veturnætur, svosem í Bárðardal og víðar fram til dala, sumstaðar síðan með jólaföstu, en almennust hafa þau verið til allra uppsveita, ... 

Hvaða óhapp það var sem henti briggskipið Hertu hefur ritstjórinn ekki enn fengið upplýst. Frost var ekki mikið á veðurstöðvunum tveimur í þessu októberáhlaupi.  

Gaman er að líta á fáeinar tíðarvísur fyrir 1833 eftir Jón Hjaltalín:

Góða tíð, er fór nú frá,
Fékk oss vetur bestann
Glóðar lýði söknuð sá
Sent því getur mestann

Eins var vorsins tíð að tjá
Töm á heppnum sporum,
Meins og horfins fárið frá
Flúði skepnum vorum.

Svelti fár um vagna ver
Vægðin lýði gladdi
Velti-ár má heita hér
Horfin tíð er kvaddi.

...

Blítt var sumar, en gat ei
Yrju viður spornað,
Títt því gumar hlutu hey
Hirða miður þornað

Haustdaganna gnýr sem gall
Gripum háði víða
Laust svo manna hey um hjall
Hrakning náði líða.

Tók oss gripið ægir af
Orku ríkan kvíða,
Tók út skip, en hjörð í haf
Hrakti líka víða.

Ekki flækjast margir dagar ársins 1833 í það net ritstjóra hungurdiska sem hann notar til að veiða kalda og hlýja daga í Reykjavík. Enginn mjög hlýr dagur (á okkar tíma mælikvarða) skilaði sér og aðeins fjórir kaldir. Hiti náði þó einu sinni 20 stigum í Reykjavík, það var 7. júlí. Kaldastur var 6. febrúar, líklega kaldasti dagur ársins á landsvísu. Frostið í Reykjavík fór í -16 stig, -21 á Ketilsstöðum, það næstmesta sem þar mældist þau ár sem mælingarnar stóðu og frostið var -24 stig hjá Grími á Möðruvöllum. Sveinn í Vík mældi -15 stig - það langlægsta á árinu hjá honum. 

Veðurlýsing Ólafs í Uppsölum er svona 5. til 7. febrúar:

5. febrúar: Norðanhríð og heljarfrost. 6. febrúar: Sunnankylja og gnístandi frost, heiðríkur fyrst, þá þykknandi. 7. febrúar: Kyrrt, fjallabjartur frameftir, þá norðanhríð. Mikið frost. 

Tveir sérlegir kuldadagar sýna sig í júlí í Reykjavík, 24. og 25. Þá létti þar til um stund, lágmarkshiti fór niður í 2,5 stig þann 24. og Jón Þorsteinsson getur þess að frost muni hafa verið til fjalla. Nætur urðu ekki eins kaldar í skýjuðu veðri á Norður- og Austurlandi og fóru hlýnandi. Ólafur segir þann 26.: Kyrrt og blítt, stundum regn frameftir, sólskin í bland og mikill hiti. Sunnan áliðið. Sveinn getur ekki um kulda. 

Heldur svalt og blautt var í hafátt sunnanlands næstu daga. Þrýstingur í Reykjavík fór í 1030,6 hPa þann 30. júlí, það er ekki mjög algengt, gerist aðeins á 10 til 15 ára fresti að jafnaði að þrýstingur á landinu nái 1030 hPa í júlí - og nú eru um 40 ár síðan það gerðist síðast. Þennan dag 1833 var nokkuð stríð suðvestanátt austur á Héraði og mistur í lofti - væntanlega sandfok af hálendinu. Daginn eftir fór hiti þar í 23 stig á R-kvarða (28,7°C), sá langhæsti sem Páll á Ketilsstöðum mældi. Þann dag fór hiti í Reykjavík hæst í rúm 13 stig í suðvestanátt og skúraveðri. Stíf vestanátt var hjá Sveini í Vík hiti um 12 stig.  

Fjórði sérlegi kuldadagurinn í Reykjavík var 31. ágúst. Þá segir Ólafur: Sami kuldi og éljaleiðingar, stundum sólskin. 

Í annál 19. aldar séra Péturs í Grímsey má sjá að slysfarir og drukknanir af völdum veðurs hafa verið með minna móti þetta ár og ekki nema einn maður varð úti, sé að marka annálinn. Það átti sér stað í Hestsskarði, gömlu leiðinni milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar 20. október. 

Þorvaldur Thoroddsen segir blákalt: „ ... þá kom enginn ís“. Um það er þó varla hægt að fullyrða, en við skulum trúa því. Við vitum að sunnanáttir voru óvenjutíðar í janúar og að loftþrýstióróavísir gefur til kynna að febrúar hafi verið rólegur - þó loftþrýstingur hafi verið undir meðallagi. Hægar austan-og norðaustanáttir ríkjandi. 

Á Bretlandseyjum var febrúar í flokki þeirra blautustu og maímánuður einn þeirra hlýjustu, en sumarið almennt illviðrasamt þar um slóðir. 

Við höfum þarmeð náð sæmilegum tökum á tíðarfari ársins 1833 og enn mætti gera betur. Í viðhenginu er smávegis af tölulegum upplýsingum frá árinu 1833. Það má m.a. sjá að slétttölumánuðir voru kaldari en oddatölumánuðirnir og fyrrihluti ársins talsvert hlýrri en hinn síðar. Enginn mánuður var mjög þurr í Reykjavík, febrúar og júní þó sýnu þurrastir og úrkoma var heldur ekki mjög mikil í desember. Janúar var mjög úrkomusamur - og maí var það að tiltölu. Einnig var úrkomusamt í ágúst. 

Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á veðurtexta Brandstaðaannáls.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Evrópskur austankuldi - tvö dæmi frá stríðsárunum

Austankuldi hrjáir hluta Evrópu þessa dagana. En eins og oft hefur verið talað um hér á hungurdiskum áður er það langt í frá nýtt fyrirbrigði. Meginlöndin eru kaldari en höfin á vetrum og austanáttin því kaldari en vestanáttin í Evrópu lengst af vetrar. Þessu er öfugt farið að sumarlagi - þá er austanátt hlýrri á meginlandinu heldur en svalinn vestan af sjónum. Má segja að sumar sé gengið í garð í Evrópu þegar austanvindur verður hlýrri en sá úr vestri. 

Það er hins vegar mjög breytilegt frá ári til árs og jafnvel frá einum áratug til annars hversu algeng austanátt er að vetrarlagi á meginlandinu. Evrópa er í vestanvindabelti lofthjúpsins og vestanáttin þá hin „eðlilega“ ríkjandi vindátt og vestanvindabeltið raunar mun öflugra á vetrum heldur en að sumarlagi. En landa- og fjallgarðaskipan truflar bylgjuganginn - og bítur þar hvert í annars hala. 

Miklir kuldar í Ameríku - sem t.d. geta stafað af hlýindum á Kyrrahafi snúa vestanvindunum norður á bóginn yfir Atlantshafi og þeir eru því iðnari en venjulega við að flytja varma norður á heimskautaslóðir og Evrópa „gleymist“ - Síberíukuldi á því greiðari leið vestur um heldur en venjulega. - Reyndar er erfitt að fullyrða um það hvað veldur hverju í þessu flókna kerfi. 

En á árum síðari heimstyrjaldarinnar hittist þannig á að austankuldinn átti greiða leið til vesturs þrjá vetur í röð, 1940, 1941 og 1942. Í gömlum hungurdiskapistli, 18. janúar 2011, var gerður samanburður á hita hér á landi og á Álandseyjum á 5. áratugnum. Allir þessir vetur þrír verða að teljast hagstæðir hér á landi þó auðvitað væri alls ekki um samfellda blíðu að ræða - frekar en venjulega. 

En við skulum til gamans líta á tvö veðurkort frá þessum tíma, annað frá 18. janúar 1940, en hitt frá 25. janúar 1942. Kortin eru fengin úr þýskri kennslubók í veðurfræði, útgefinni 1948. Höfundur hennar, Richard Scherhag, varð síðar mjög þekktur fyrir brautryðjendarannsóknir á veðurfræði heiðhvolfsins, heimsþekkur á sínu sviði.

scherhag_1940-01-15

Fyrra kortið sýnir stöðuna 15. janúar 1940 og þar með einhverja öflugustu hæð sem nokkru sinni hefur sést yfir Grænlandi - svo virðist sem hæðin teygi sig um allt heimskautasvæðið. Bandaríska endurgreiningin nær hæðinni ekki alveg, alla vega er þrýstingur þar ekki 1064,8 hPa í Myggbukta á Norðaustur-Grænlandi, en sagt er að það sé hæsti þrýstingur sem mælst hefur í því landi (sagt án ábyrgðar). Í janúar 1940 flæddu veðurskeyti enn frjálst frá Íslandi og Grænlandi til Þýskalands - en Bretland er autt frá þeim séð - og eins var vetrarstríðið á fullu í Finnlandi - hvort það hefur algjörlega teppt veðurskeyti þennan daga veit ritstjóri hungurdiska ekki. 

En gríðarlega öflug skil eru á milli austankuldans og vestanloftsins við Eystrasalt, sýnist vera -17 stiga frost í Riga í Lettlandi, en +1 stigs hiti í Memel - sem nú er í Litháen. 

Síðara kortið sýnir minna svæði - en nær lengra suður.

evropa_1942-01-25_scherhag

Aldeilis kaldur dagur við Eystrasalt og langt suður um Evrópu og ekki bara kalt heldur er víða hvasst líka. Þjóðverjar virðast hafa fengið veðurskeyti víðast úr Evrópu - nema Bretlandi (og ekki heldur frá Íslandi) - enda réðu þeir flestu. Skipaskeytin gætu verið frá herskipum eða jafnvel kafbátum. Þarna er hitamunurinn hvað mestur í Hollandi, austanhvassviðri eða stormur, snjókoma og -10 stiga frost norðan skilanna, en vestanstinningskaldi eða allhvass vindur og +3 stiga hiti sunnan þeirra - skammt á milli. 

Scherhag er þarna í texta að vísa til mikils kuldapolls en miðja hans gekk þessa daga vestur eftir Eystrasalti með einhverri lægstu þykkt sem mælst hefur á þeim slóðum. [Rétt að taka fram að þykktartölur sem tilfærðar eru í bókinni eru of lágar miðað við þann kvarða sem við nú notum (og hefur verið notaður á alþjóðavísu frá 1949)].  


Þokubakkar

Reiknilíkön nútímans reyna líka að spá þoku. Það virðist stundum ganga - stundum ekki. Þokan er erfið viðfangs. 

Í spárunu frá því í hádegi í dag (laugardag 17. mars) tók ritstjóri hungurdiska eftir því að verið er að spá nokkru frosti yfir sjó við norðausturströndina á morgun sunnudag. Þetta er frekar óvenjulegt í hægum vindi því sjávarhiti á þessum slóðum er yfir núllinu. Sá hiti ætti að sjá til þess að trauðla frjósi þar í 2 m hæð. 

En svo virðist standa á að fyrst kólnar þetta loft yfir landi í nótt, streymir út yfir sjó og þar myndast þunn þoka. Við efra borð hennar getur kólnað mjög hratt við útgeislun og rétt hugsanlegt að blöndunin - sem verður vegna bæði hitunar að neðan - og kólnunar að ofan hafi ekki alveg undan útgeisluninni þannig að hiti haldist neðan frostmarks um stund. 

w-blogg170318a

Kortið sýnir hita í 2 m hæð kl. 14 á sunnudag. Við sjáum þessa einkennilegu frostbletti á Þistilfirði, Bakkaflóa og við annes á Austfjörðum. Sólin hefur hins vegar hitað strendurnar og náð upp blöndun þar - hreinsað burt næturkuldann.

Næsta kort sýnir mismun á 2 m hita og hita í 100 metra hæð í líkaninu. Kort sem þetta sýna grunnstæð hitahvörf mjög vel.

w-blogg170318b

Á gulu svæðunum er 2 metra hitinn hærri en í 100 metra hæð - þar er væntanlega snjólaust á landi í líkaninu og sólarylur vermir land. Þar sem gult er langt úti á sjó er sjórinn einfaldlega hlýrri en loftið í 100 metra hæð - og engin þoka að þvælast fyrir með sinn útgeislunarflöt.

Á Þistilfirði er hiti í 2 m hæð 4 til 5 stigum lægri en í 100 metra hæð. 

Líkanið reynir líka að gist á það hvar er þoka (rakastig 100 prósent í 10 metra hæð).

w-blogg170318c

Jú, ekki ber á öðru á svörtu svæðunum segir líkanið að meir en 90 prósent líkur séu á þoku og falla þau vel saman við frostbletti fyrstu myndarinnar. 

Hvort þokan svo sýnir sig í raun og veru á morgun er svo annað mál. 


Mánaðarhitinn mjakast upp á við

Nú má hálfur mars heita liðinn. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana er +0,1 stig, -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára, en -0,6 neðan meðallags áranna 1961-1990. Hitinn er í 15. sæti af 18 meðal marsmánaða á öldinni og í 77. sæti á 144-ára listanum. Þar er mars 1964 í langefsta sæti, meðalhiti fyrrihluta marsmánaðar það ár var 6,6 stig í Reykjavík - það sama og meðalhiti nýliðins dags (þ.15.) nú. Kaldastur var fyrrihluti mars árið 1891, þá var meðalhiti -7,7 stig. Við þurfum vonandi að bíða eitthvað eftir því að slík marsbyrjun endurtaki sig, en líkur á slíku eru auðvitað samt ekki núll - munum það.

Meðalhiti mánaðarins, það sem af er, er -1,9 stig á Akureyri, -1,0 stig undir meðallagi 1961-1990, en -2,0 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. Hiti er undir meðallagi síðustu tíu ára um land allt, minnst -0,2 stig við Lómagnúp og -0,3 stig á Raufarhöfn. Kaldast að tiltölu hefur verið á Hveravöllum þar sem hiti er -3,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Úrkoma hefur nú mælst 3,0 mm í Reykjavík í mánuðinum, tuttugastihluti meðalúrkomu sömu daga og það minnsta sömu almanaksdaga á öldinni, en hefur þrisvar mælst enn minni, 1952, 1937 og 1962. Síðasttalda árið hafði engin úrkoma mælst þegar mánuðurinn var hálfnaður. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 45 mm - hátt í tvöfalt meðallag. 

Sólskinsstundirnar í Reykjavík eru orðnar 100,4. Þær voru jafnmargar í fyrri hluta marsmánaðar 1937 (100,2), en talsvert fleiri 1947 (117,3) og mun fleiri 1962 (134,7). Það er 1947 sem á marsmetið, 218,3 sólskinsstundir mældust þá í Reykjavík. 


Af árinu 1923

Ekki gott að segja hvenær hlýindaskeiðið mikla sem ríkti um og fyrir miðja tuttugustu öld byrjaði. Kannski strax haustið 1920, en eftir 1920 bar lítið á köldum vetrum og slæmum hríðarbyljum fækkaði. En veðurlag áranna 1921 til 1924 var ekki alltaf upp á það besta, vorin flest heldur dauf, sumrin löngum köld og haustin ekkert sérstök. Það er alla vega ekki fyrr en í baksýnisspeglinum að hægt hefur verið að tala um að hlýindaskeið hafi verið gengið í garð 1923. 

Hlýju mánuðirnir voru ekki nema þrír þetta ár, febrúar, mars og apríl. Mars reyndar sérlega hlýr, þá sá hlýjasti frá upphafi mælinga á Akureyri (1882), frá 1880 í Reykjavík og síðan 1856 í Stykkishólmi. Febrúar var sá næsthlýjasti frá upphafi mælinga á Akureyri - en var á landsvísu lítillega kaldari en febrúar 1921. Aftur á móti var óttalega kalt í ágúst og nóvember 1923. Aðeins tveir marsmánuðir hafa síðan verið hlýrri heldur en mars 1923, það var 1929 og 1964.  

Ekki komu neinar afgerandi hitabylgjur um sumarið, hiti komst þó í 23,5 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal seint í júní. Engin dagur telst sérlega hlýr í Reykjavík, ekki heldur í Stykkishólmi. Mesta frost ársins mældist á nýársdag, -24,5 stig, bæði á Grænavatni í Mývatnssveit og í Möðrudal. Sjö dagar teljast sérlega kaldir í Reykjavík, 27. og 28. janúar, 13. og 14. nóvember, 23. og 30. ágúst og 26. júlí. Síðastnefndi dagurinn var reyndar kaldastur þeirra allra sé hiti mældur í staðalvikum og þar með tekið tillit til árstíma.

Þrettán dagar teljast óvenjusólríkir í Reykjavík - en komu á stangli frekar en í samfelldum syrpum. Illviðri voru allmörg, mest tjón varð í janúar eins og við sjáum nánar hér að neðan. 

Við förum nú í gegnum árið með aðstoð blaðafrétta og fleiri heimilda. Tölulegar upplýsingar ýmsar er að finna í viðhenginu - mistorræðar að vísu. 

Janúar: Umhleypinga- og illviðrasamt, einkum um landið vestanvert landið. Fremur kalt.

Fyrst eru tvær stuttar klausur úr Morgunblaðinu 13. janúar:

Afbragðstíð hefir verið á Norðurlandi síðan um jól, segir í símfrétt frá Akureyri í gær hreinviðri og frost vægt flesta dagana.

Ístaka hefir verið mikil á Tjörninni undanfarna daga. Var orðin mikil þörf fyrir ís hér, því öll íshúsin voru tæmd fyrir löngu. Þau munu sum hver vera um það bil að fyllast nú.

Þann 13. sáust glitský víða um landið norðan- og norðaustanvert - á Héraði austur líka þann 15. og 23. Benedikt Jóhannsson veðurathugunarmaður í Staðarseli við Þórshöfn segir m.a. þ.13:

Þrjú gylliniský í vestri. Gylliniský virðast oft vita á þráláta storma og ofsaveður ú þeirri átt sem þau sjást í. 

Þetta reyndist rétt í þessu tilviki því nú dró til tíðinda. Morgunblaðið segir frá mánudaginn 15. janúar undir fyrirsögninni „Manntjón og skipskaðar“:

Í fyrrinótt gerði svo mikið ofviðri á útsunnan, að eigi hefir annað eins orðið.um langt skeið. Mun það hafa gengið yfir mestan hluta landsins, en eigi hafa enn fengist neinar fregnir utan af landi um skemmdir af þess völdum, því ein af afleiðingum óveðursins er sú, að símasambandslaust varð með öllu við hverja einustu landsímastöð nema Hafnarfjörð - Þangað liggja fjórar talsímalínur og stóðst ein þeirra veðrið. Síðdegis í fyrradag var veður orðið allhvasst með nokkurri snjókomu og herti eftir því sem á leið kvöldið. Um miðnætti var komið ofsarok og í éljunum un nóttina mun vindurinn hafa orðið með því mesta, sem orðið hefir hér í mörg ár. Hélst þetta ofsaveður þangað til fyrri partinn í gær, en þá tók að lægja og var veðrið orðið sæmilegt aftur í gærkvöldi.

Hér á höfninni hefir veðrið gert meiri usla en nokkurntíma eru dæmi til áður. Má til fyrst nefna, að hafnarvirkin sjálf, sem eigi hafa orðið fyrir teljandi áföllum síðan þau voru byggð, hafa nú laskast stórkostlega. Örfiriseyjargarðurinn hefir brotnað á 50-60 metra svæði. Eins og kunnugt er var garðurinn gerður þannig að hlaðinn var breiður grjóthryggur upp undir venjulegt sjávarborð, en ofan á honum byggður steinlímdur garður, þykkur úr stóru, höggnu grjóti, þessi garður hefir rótast burt í sjávarganginum og virtist hann þó rammbyggilegur. Má af þessu marka, hve sterkur sjórinn hefir verið inni á sjálfri höfninni. Grandagarðinn hefir hinsvegar ekki sakað, og hefir þó miklu sterkari sjór mætt á honum. - Sumar bryggjurnar við höfnina hafa skemmst, en þó ekki stórvægilega.

Skip þau, sem lágu á höfninni hafa mörg skemmst og nokkur eyðilagst alveg. Björgunarskipið Þór lá við Hauksbryggju, vestast í höfninni, er ofviðrið skall á, en losnaði þaðan og tók að reka um. Varðmaður var í skipinu og gat hann ekki við neitt ráðið, svo tókst til, að skipið rak beint út um hafnamynnið, en eigi er oss kunnugt, hvort það hefir gert öðrum skipun tjón á þeirri leið. Rak það hraðan undan þangað til það strandaði inni á Kirkjusandi, rétt hjá húsum Íslands-félagsins þar. Er fjara þar grýtt og var þess skammt að bíða að gat kæmi á skipið. Vegna óveðurs var ekki hægt að fást neitt við björgun í gær og er hætt við að Þór skemmist svo, að eigi verði hægt að gera hann sjófæran aftur. Við Örfiriseyjargarðinn lá fjöldi skipa, gufuskipin Skjöldur og Rán, margir kútterar og vélbátar. Þegar komist varð út að skipum þessum seinnipartinn í gær, sást fljótt að mörg þeirra höfðu skemmst, en eigi var í fljótu bragði hægt að dæma um, hve mikið kveður að skemmdunum. Rán stóð að aftan, en mun þó hafa verið óbrotin, Skjöldur virtist lítið hafa færst úr skorðum og vera óskaddaður, kútter Hákon nokkuð brotinn, Sigríður og Hilly lítið brotnar. Vélbáturinn Valborg var brotinn og sokkinn og mun mega teljast úr sögunni og sama er að segja un flutningaprammann Christine, eign G.J.Johnsens konsúls, sem einnig var þarna við garðinn. Ýms skip voru þarna óskemmd.

Vélbáturinn „Oskar“, sem áður var eign landssjóðs og var þá í flutningum fyrir vitamálastjórnina, en nú var orðinn eign nokkurra Keflvíkinga, sökk hér í höfninni og hafði nýlega fengið aðgerð. Átti hann að fara að halda suður og voru fjórir menn í bátnum. Þessi bátur brotnaði í spón úti við Örfiriseyjargarð og sökk skammt fyrir vestan hafnarmynnið. Að því er vér höfum frétt höfðu mennirnir allir komist úr bátnum upp á hafnagarð enn en ekki getað haldist þar við vegna sjógangs. Tók tvo mennina út þaðan og drukknuðu þeir, en hinir tveir, skipstjórinn og vélamaðurinn komust á sundi upp í Skaftfelling eða Rán og var bjargað þaðan síðdegis í gær. Auk þessa hafa nokkrir smærri vélbátar strandað eða sokkið, en eigi eru enn fengnar ábyggilegar fréttir um hverjir þeir eru eða hve margir. Við Laugarnes hefir rekið flak af bát og í Viðey hefir Vélbátinn „Áfram" rekið á land ennfremur mun bátur hafa sokkið skammt frá Slippnum.

Af milli tíu og tuttugu prömmum sem láu á höfninni nú voru ekki nema fjórir eða fimm á floti eftir veðrið, en óvíst er hvort þeir sem sokknir eru hafa skemmst til muna er enn óvíst. Er líklegt, að takast megi að ná þeim upp aftur óskemmdum eða lítt skemmdum. Vélbátnum Emma var bjargað er hann var að sökkva úti í hafnarmynni og var hann dreginn upp í fjöru og liggur þar, mikið laskaður og allur lekur. Bátinn „Björg“ rak upp á Zimsens-bryggju og náðist hann þaðan lítið skemmdur. Lagarfoss slitnaði frá vestri hafnarbakkanum um kl.5 í fyrrinótt og tók að reka, Má það heita vel unnið verk, að skipverjum tókst í öllu ofviðrinu að leggja skipið upp að nýja hafnarbakkanum; og festa það þar. Stýri skipsins hefur brotnað talsvert og er nú verið að rannsaka hve miklar skemmdirnar eru. Undir öllum kringumstæðum tefst skipið að mun við áfallið.

Loftskeytastöðin hafði gott samband framan af deginum í gær, en seinnipartinn bilaði stóra loftnetið og fór að slást við rafljósaþræðina svo að illkleyft varð að taka á móti skeytum. Um hádegi í gær lá Botnia til drifs fyrir utan Vestmannaeyjar, en Gullfoss var um 240 kílómetra undan eyjum. Má gera ráð fyrir, að Botnía hafi komist inn til Vestmannaeyja í gær kvöldi og er líklegt að Gullfoss sé kominn þangað nú. Einhverjar smávegis skemmdir höfðu orðið á Botniu en annars var alt í besta gengi á skipunum.

Í Hafnarfirði sleit upp tvo báta í fyrrinótt, Annar þeirra, Gunnar eign sameignarfélags í Hafnarfirði brotnaði í spón. Hinn báturinn, Solveig, strandaði fyrir framan verslunarhús Egils Jacobsen í Hafnarfirði og mun vera hægt að ná henni út. Í Vestmanneyjum hafa eigi orðið neinir skaðar svo teljandi sé enda er höfnin þar í skjóli í þessari átt. Símasamband náðist aftur við Stokkseyri og Eyrarbakka og Þjórsá í morgun. Hefir veðrið ekki orðið eins sterkt þar og orðið hefir hér og skemmdir ekki teljandi.

Rafstöðin. Í gærkvöldi kæfði í árnar og fór að draga af ljósunum um kl.7 en kl. rúmlega 8 slokknaði alveg. En eftir skamma stund tókst að fá svo mikinn straum, að hægt var að halda nokkurn veginn birtu á ljósum í húsum, með því að slökkva á öllum götuljósum.

Hafnargarðurinn: Þegar farið var að rannsaka skemmdirnar á hafnar garðinum reyndust þær meiri en álitið var í fyrstu. Er garðurinn brotinn á alt að 150 metra svæði. Bárujárnsskúr sem stóð við eystri hafnargarðinn ofarlega, tók veðrið í gær og fleygði langar leiðir. Liðaðist hann allur í sundur. Ljósker og perur brotnuðu á löngu svæði í fyrrinótt við eystri hafnargarðinn og símasamband hefir víða raskast við veðrið.

Daginn eftir (þann 16.) birtust frekari fréttir af veðrinu í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að tvo báta rak upp í Sandgerði, en aðrar verstöðvar á Suðurnesjum hafi sloppið furðuvel frá veðrinu. Þak fauk af tveimur húsum í Vestmannaeyjum og tvö hús löskuðust í Hafnarfirði af völdum veðurs og brims.

Þann 19. birtust í Morgunblaðinu fréttir vestan frá Sandi. Þar hafi nýr brimbrjótur hrunið. Það reyndist ekki alveg rétt því garðurinn var í byggingu og aðeins hrundu tréstöplar fylltir grjóti í skarði sem enn var í honum. Hins vegar gekk sjór um skarðið inn á bátaleguna og rak þrjá vélbáta á land og brotnuðu þeir mikið. Síðari fregnir (Vísir 20. janúar) sögðu að grjóthrun úr bráðabirgðastöplunum hafi skemmt bátana. Sagt er að fimm menn hafi drukknað við tilraunir til að bjarga bátunum frá skemmdum og að veðrið hafi þar með drepið ellefu menn, sjö íslendinga og fjóra englendinga. Þeir síðarnefndu fóru út af tveimur togurum sem fengu á sig brotsjói við Látraröst. Einnig sökk bátur á legunni á Súgandafirði. 

Þann 18. janúar gerði litlu minna veður, líka af vestri, en ekkert er minnst á tjón í tengslum við það - en hlýtur að hafa orðið eitthvað. 

Þess er getið í Morgunblaðinu þann 26. að mikinn fisk hafi rekið á land suður með sjó eftir illviðrið, m.a. á fjórða þúsund af Keilu. 

Skaðarnir á Reykjavíkurhöfn ollu miklum áhyggjum og þurftu verkfræðingar að taka á sig mikla gagnrýni fyrir meinta vanhönnum. 

Í veðrinu reif ís úr Grænlandssundi og upp undir Vestfirði. Stakir jakar komust inn á Önundarfjörð (Morgunblaðið 28. janúar) - en ísinn hvarf fljótt aftur. 

Samkvæmt upplýsingum Benedikts í Staðarseli var það nóttina milli þess 26. og 27. sem þar gerði ofsastórhríðarveður af norðvestri. „Er það eitt með mestu veðrum er hér hafa komið og ég man eftir“, segir Benedikt. Þá flæddi út 93 kindur á bænum Álandi í Þistilfirði og fórst það allt, auk þess sló tryppi niður til dauðs um nóttina. Morgunblaðið segir frá því 11. mars að sextíu kindur hafi náðst sjóreknar nokkru síðar.

Myndirnar tvær hér að neðan sýna blöð úr þrýstirita Stórhöfða í Vestmannaeyjum í janúar 1923, vika er á hverju blaði. Mánuðurinn hófst á austanátt sem síðar snerist í norður. Mjög hvasst varð á Stórhöfða, 11 vindstig talin af austri að kvöldi nýársdags. Grófgerður óróinn á þrýstiritinu er dæmigerður fyrir stórar flotbylgjur sem myndast yfir fjöllum landsins. Þær fara að sýna sig á Stórhöfða þegar vindur snýst úr hreinni austanáttinni yfir í norður. Samskonar óróa má oft sjá í norðanátt í Reykjavík vegna bylgjugangs yfir Esjunni eða yfir fjarlægari fjöllum. 

Slide1

Á neðri hluta myndarinnar sést illviðrið 13. til 14. mjög vel. Hér er líka mikill órói, en öðru vísi og myndar breiða blekklessu þegar ritinn tekur stórar sveiflur í sífellu - trúlega vegna mismunandi sogs í húsinu eða hristings þess. Einingar á blöðunum sýna þrýsting í mm kvikasilfurs. 

Síðari myndin sýnir dagana 15. til 28. janúar. Þá gengu fjölmargar lægðir yfir landið eða fóru hjá í nágrenni þess. Greinilega var oft mjög hvasst á  Stórhöfða og þrýstibreytingar voru mjög snarpar. Nú á dögum hefði þetta tíðarfar tekið í - rétt eins og það gerði þá.

Slide2

Febrúar: Fremur þurrviðrasamt vestanlands og norðan eftir miðjan mánuð, en annars úrkomusöm tíð. Hlýtt.

Mikið norðanillviðri gerði dagana 4. til 6. febrúar og rétt eins og í janúarveðrunum varð mesta tjónið á legum og í höfnum. Morgunblaðið segir frá þann 14. febrúar:

Um fyrri helgi gerði aftakanorðanbyl á Norðurlandi, með mikilli snjókomu og veðurhæð. Varð veðrið mest á mánudaginn [5.] og gerði þá ýms spell á bátum og bryggjum. Á Dalvík við Eyjafjörð gerði feiknabrim, og braut það tvær af bryggjum þeim, sem þar eru, og munu þær hafa gereyðilagst. Ennfremur sökk þar á legunni mótorbátur. Hefir það að vísu komið fyrir áður, að bátar hafa sokkið þar, en þeir hafa jafnan náðst upp aftur, og eru því líkindi til, að eins verði um þennan. Á Sauðárkróki urðu og miklar skemmdir á bryggju. Gerði þar þvílíkt brim, að slíkt hefir ekki komið þar í fjöldamörg ár. Braut það upp ísinn á Héraðsvötnunum að vestanverðu. En hann rak vestur með söndunum og lenti hver jakinn óðrum meiri á bryggjunni og braut hana stórkostlega. Um aðrar skemmdir hefir ekki frést að norðan. En búast má við, að eitthvað hafi orðið að annarsstaðar, því veðrið var hið afskaplegasta.

Benedikt í Staðarseli segir um veðrið þann 5. febrúar:

Þann 5. var hér stórhríðarveður með stormi, var þá svo mikið brim að sjór gekk langt á land upp milli flestra húsa á Þórshöfn, sem ekki hefur skeð svo elstu menn muna nema tvisvar áður, braut sjór þar bryggjur og gerði fleiri skemmdir. 

Einnig birtust um síðir fréttir af mannskaða vestur í Djúpi í þessu sama veðri, þar sem bátur fórst eftir að hafa kennt grunns við Melgraseyri. Þrír menn fórust, en tveir björguðust. 

En nú batnaði tíðin og Vísir segir þann 14. febrúar:

Öskudagurinn er í dag. Hann á að eiga „18 bræður" og þarf þá ekki að kvíða næstu dögum, því að nú er vorblíðuveður.

Eldsumbrot voru í Öskju í mánuðinum, en af þeim bárust litlar fréttir nema hvað til þeirra sást úr Þingeyjarsýslum (Vísir 27. febrúar)

Mars: Hagstæð tíð, en úrkomusöm á Suður- og Vesturlandi. Mjög hlýtt.

Fréttir af hagstæðri tíð bárust úr flestum landshlutum. Morgunblaðið segir þann 16. mars:

Afbragðstíð hefir verið um gjörvallt Norðurland undanfarinn mánuð. Var sagt í símtali við Akureyri í gær, - að heita mætti sumartíð þar nyrðra.

Og Tíminn þann 31. mars:

Einmunatíð um allt land, þítt í byggð dag og nótt viku eftir viku. Undir Eyjafjöllum eru tún farin að grænka mikið. Í Mývatnssveit er búið að sleppa bæði ám og gemlingum.

Í Morgunblaðinu 4. apríl:

Til marks um það, hve afbrigða góð tíðin hefir verið norðanlands, síðari hluta vetrar, má geta þess, að í einni sveit í Eyjafirði utanverðum, var farið að taka mó fyrir rúmri viku síðan. Er slíkt gert þar venjulega síðast í maí og í byrjun júní. Klaki var engu meiri í jörð nú í marsmánuði en áður í júnímánuði.

Þann 17. mars sér Tíminn ástæðu til að hnýta út í ferð Þorkels Þorkelssonar veðurstofustjóra til útlanda árið 1921:

Fyrra árið er Þorkeli Þorkelssyni veittur 2047,50 kr. styrkur til þess að sækja veðurfræðingafund. Hvar er heimildin? Og flestum mun þykja nóg „húmbúgið" með veðurathugana og löggildingarstofuna, þó að ekki sé bætt ofan á.

Þess má geta að fundurinn sem Þorkell fór á fjallaði m.a. um veðurskeyti frá Íslandi og möguleika á ódýrum lausnum í því sambandi. Undanþágur fengust varðandi lengd skeyta og sendingartíma þannig að sparnaður náðist - auk þess sem Þorkell hefur örugglega haft gott af því að hitta menn sem áttu við svipuð vandamál að stríða. Annars er það reyndar makalaust hversu undanþágufíknir íslendingar eru á flestum sviðum.

Apríl: Fremur hægviðrasöm og góð tíð eftir fyrstu vikuna. Sólríkt nyrðra. Hlýtt. Undir lok mánaðar kólnaði nokkuð. 

Páskar voru 1. apríl 1923 (rétt eins og 2018). Í páskavikunni bárust fréttir af eldsumbrotum norðan Vatnajökuls (væntanlega í Öskju). Morgunblaðið segir 5. apríl (nokkuð stytt):

Í páskavikunni þóttust ýmsir sjá þess merki, að eldur mundi vera uppi í óbyggðum austur. Hér suður með sjó féll þá aska, svo að brá sást á tjörnum af vikrinu og loftið var mórautt, eins og venja er til, þá er öskureykur berst í lofti. ... Það einkennilegasta við eldgos þetta er það, að enn veit enginn með fullri vissu hvar það er.

Veðurathugunarmenn norðaustan- og austanlands sögðu frá mikilli móðu í lofti og í Papey varð vart við öskufall bæði þann 17. og 27. mars. 

En blöðin birtu áfram fréttir af gæðatíð. Dæmi er úr Morgunblaðinu þann 27. apríl:

Bifreiðum er nú orðið fært um alla þá vegi hér nærlendis, sem þær eru vanar að fara að sumarlagi; - meira að segja er Þingvallavegurinn, sem vanur er því að vera lengi að  þorna á vorin orðinn akfær.

Þann 28. apríl birtir Morgunblaðið bréf frá Skagaströnd. Þar segir m.a.:

Veturinn í vetur hefir verið sá langbesti, það af er öldinni, og þótt lengri tími sé til nefndur. Elstu menn hér muna ekki vetur slíkan. Þannig var Góa sérstaklega mild, kyrr og þurr. Í eitt skipti gerði snjófölva á láglendi, grasfellir, en oftar snjóaði á fjöll. Marga daga Góu 8 - 11 stiga hiti á C um hádegisbilið, undan sól, móti norðri. Nú farinn að sjást grænn litur af nýgræðingi á húsaþökum sólarmegin, í hlaðvörpum og ræktarbestu blettum túnanna. Vallhumall, ljónslöpp, rjúpnalauf og steinbrjótur farin að spretta til bragðbætis kindamunnunum, og víða sprungið út á víðir. Þetta veðurfar undrast allir, og margir lofa gjafarann allra gæða, þegar þeir eru að útmála veðurblíðuna fyrir grannanum. En bak við aðdáunina er óttinn. Óttinn fyrir því, að „Harpa hennar jóð, herði á veðráttuna".

Það gerðist líka - 

Morgunblaðið birti þann 13. maí bréf af Berufjarðarströnd þar sem þess er getið að 27. og 28. apríl hafi þar gert mikla austanhríð og sett niður mestu fannir alls vetrarins ofan á algræn tún og litkaðan úthaga.  

Maí: Óhagstæð og nokkuð illviðrasöm tíð. Mjög þurrt syðra. Fremur kalt.

Þann 6. maí segir Morgunblaðið:

Stórviðri af norðri gerði hér í fyrrinótt með allmikilli snjókomu, svo fjöll voru snjóhvít niður í sjó. Mun fannkoma hafa orðið nokkur víðast á landinu. Úr Árnessýslu var símað, að þar hefði komið skóvarpssnjór. Í Húnavatnssýslu var sögð allmikil stórhríð í gærmorgun, en í Eyjafirði var sagt gott veður. Kemur kuldakast sér illa á þessum tímum. Eru menn hræddir um að fé hafi fennt í Húnavatnssýslu. Höfðu 4 menn farið frá einum bæ að smala fé, sem búið var að sleppa, og fundu mjög fátt.

Þann 9. maí bárust frekari fréttir og ekki góðar:

Menn töldu það ekki ólíklegt, að norðangarðurinn, er skall á fyrir helgina síðustu, mundi einhversstaðar gera usla á skipum eða mönnum. Bæði var það, að veðrið skall á mjög fljótt, og eins hitt, að því fylgdi frost og stórhríð, og var hið harðasta. Nú hefir það frést, að uggur manna um þetta hefir ekki verið ástæðulaus. Þrjú seglskip og tveir vélbátar hafa rekið á land, og einn maður drukknað. Er þó ekki frétt alstaðar að enn. [Síðan rekur blaðið nánari fréttir af þessum fimm skipsköðum - mikil frásögn]. 

Að morgni þess 7. var alhvítt í Reykjavík og mældist snjódýpt 10 cm. 

Í lok mánaðarins varð aftur vart við hafísslangur úti af Vestfjörðum og í júníbyrjun lokaðist um stund fyrir siglingaleið við Horn og hindraði róðra úr Aðalvík. 

Júní: Óþurrkar á Suður- og Vesturlandi, en góð tíð nyrðra. Hiti í meðallagi.

Tíð virðist hafa verið áfallalaus í júní og grasspretta ágæt í rekjunni. En heldur var útsynningurinn kaldur í kringum þann 20. snjóaði þá í fjöll og krapaskúrir gerði á láglendi. Sums staðar norðaustanlands festi snjó um stund þann 18.

Vísir birti þann 29. júní jákvæðar fréttir af kríuvarpi:

Kríuvarp virðist ætla að verða ágætt hér sunnanlands að þessu sinni, en þrjú undanfarin ár, má heita að það hafi algerlega brugðist.

Júlí: Stopulir þurrkar um mestallt land. Fremur kalt. Ólafur Sveinsson athugunarmaður á Lambavatni kvartar undan tíðinni í júlískýrslu sinni:

Allan síðari hluta mánaðarins sífelldur kuldablástur með krapa. 

Helkalt var á þessum tíma í þokum við Húnaflóa. Nokkra daga undir lok mánaðar var varla að hámarkshiti dagsins á þeim slóðum slefaði í 5 stig. Hafís kom í flóann um miðjan mánuð og sáust jakar líka á Skagafirði. 

Morgunblaðið segir frá þann 20. júlí:

Óþurrkar valda nú miklu tjóni hér og margs konar óþægindum. Grotnar taða niður á túnum Og fiskur liggur óþurrkaður í stöflunum. Verður það tjón ekki metið með tölum, sem langvarandi rigningar valda nú. Óþurrkasamt mun vera víða annarsstaðar en hér um þetta leyti, en hvergi þó jafn slæmt, eftir því, sem til hefir frést.

Ágúst: Óþurrkasamt um mestallt land, einna þurrast á Vestfjörðum. Fremur kalt og undir lok mánaðar gerði norðanhret.

Skástu fréttirnar bárust að vestan, t.d. þær sem birtust í Morgunblaðinu þann 22. ágúst:

Frá Vestfjörðum var símað í gær, að þar hefði verið undanfarna daga afbragðs tíð, brakandi þerrir, sólskin og hlýjur.

En austur undir Eyjafjöllum gerði stórviðri þann 5. og fuku þar hey á nokkrum bæjum. 

September: Haustaði snemma, gerði tvö mikil illviðri í fyrri hluta mánaðarins, það fyrra af suðvestri og vestri, en hið síðara af norðri. Allgóð uppskera úr görðum. Kalt.

Í illviðrinu þann 3. urðu töluverðir heyskaðar norðanlands og undir Eyjafjöllum og í Fljótshlíð (og sjálfsagt víðar) í norðanveðrinu þann 12. Líklega var það í veðrinu þann 3. sem bát rak upp í Hafnarfirði. Þá fórust einnig 4 menn á sjó í Siglufirði, voru að flytja möl á bát yfir fjörðinn þegar veðrið hrakti bátinn út úr firðinum og sökkti honum að lokum. 

Alhvít jörð á Núpi í Dýrafirði þann 12. Þá gránaði einnig í sjó á Ströndum, allt inn í Hrútafjörð og víða inn til landsins á Norður- og Austurlandi. Sagt var að fé hefði fennt. 

Þungt var í þingeyingum í bréfi dagsettu 20. september og Morgunblaðið birti 2. október:

Óþurrka- og úrkomusumar hér. Eitthvert hið mesta í manna minnum; hefir rignt nálega alla daga síðan um sumarmál; hríðar nærri daglega síðan rétt eftir höfuðdag, hey úti og fuku víða í fárviðri rétt ettir messu Egedíusar [átt við veðrið 3. september]. Spretta ágæt á túnum og þurrengi og í sáðgörðum.

Betra hljóð var í Borgfirðingum. Tíminn birti þann 27. október bréf úr Mýrasýslu dagsett 8. október:

Tíðin er framúrskarandi góð, alltaf blíðviðri í haust. Heyskapur góður í sumar, einkum þar sem þurrlent var, því þar var vel sprottið, en mýrar síður. Tún voru með allra besta móti. Nýting ágæt, nema töður hröktust dálítið. Sauðfé er í haust með vænsta móti, dilkar hafa almennt 15—18 kg. af kjöti til jafnaðar.

Um mánaðamótin ágúst/september fundust nokkrir jarðskjálftakippir í Reykjavík. Morgunblaðið segir þriðjudaginn 4. september:

Jarðskjálftakippir fundust hér í bænum á föstudagskvöldið og á laugardaginn. Við fyrirspurn á veðurathugunarstöðinni kom það í ljós, að jarðskjálftamælirinn, sem hingað var keyptur hér á árunum, er ekki í standi, svo að frá honum er einskis fróðleiks að vænta. Hvað veldur?

Svarið kom daginn eftir og sýnir vel eins og margt annað hversu náttúra Íslands og rannsóknir á henni gleymdust þegar sjálfstæði var náð (eins og Þorvaldur Thoroddsen hafði séð fyrir):

Veðurathuganastofan hefir beðið að láta þess getið, út af því sem stóð hér í blaðinu í gær um jarðskjálftamælirinn, að það væri eingöngu að kenna naumum fjárframlögum þingsins, að mælirinn væri ekki notaður. Til þess að nota hann eru nú á þessum fjárlögum veittar kr. 500. En forstöðumaður veðurathugunarstofunnar, Þorkell Þorkelsson, kveður ómögulegt að láta hann ganga fyrir svo lítið. Vildi harm fá helmingi hærri upphæð en veitt er, því sérstakt herbergi þarf fyrir hann, upphitað, og nokkurt eftirlit. En þeirri beiðni segir hann að þingið hafi ekki sinnt. Sömuleiðis hefir hann snúið sér til ríkisstjórnarinnar í þeim erindum, að hún veitti þessa litlu upphæð, svo hægt væri að nota mælirinn. En þar hefir ekkert fengist. Er það þó ekki vansalaust landinu, að eiga mælirinn, og tíma ekki að verja einum þúsund krónum til þess að hægt sé að nota hann. Hann liggur nú vestur í Stýrimannaskóla, gagnslaus, því Páll Halldórsson neitaði að gæta hans fyrir svo lítið fé, sem til þess var veitt. Útlendingar, sem af þessu vita, eru forviða á þessu tómlæti.

Október: Úrkomusamt fyrir norðan og úrkoma jafnvel talin til vandræða norðaustanlands. Tíð talin fremur óhagstæð í öðrum landshlutum einnig. Fremur kalt.

Þann 20. nóvember birti Morgunblaðið bréf úr Þingeyjasýslu sem lýsti hausttíðinni:

Hér í sýslu hefir haustið verið afskaplega illviðrasamt, aldrei þornað af strái eða steini, hey og eldiviður stórskemmst, og hey úti á sumum bæjum, alauð jörð oftast í lágsveitum. Hugðu sumir að skipta mundi um með vetrarkomu eftir missiris votviðri, en ekki bólar á batanum þeim.

Nóvember: Óhagstæð tíð. Fremur þurrviðrasamt um sunnanvert landið. Kalt.

Í kuldunum um miðjan mánuð hikstaði rafmagnsframleiðsla í rafstöðinni nýju við Elliðaár. Nokkrar fréttir voru af því ástandi í blöðum og segir Morgunblaðið þann 13.:

Rafveitan brást í gærkvöldi og varð ljóslaust um allan bæ klukkan tæplega 9. Hafði grunnstingull komið í árnar skammt fyrir neðan Elliðavatn og stífluðust þær alveg. Eru hinar tíðu stíflanir að kenna því, að vatnsrennsli er óvenjulega lítið í ánum um þessar mundir, vegna undanfarandi úrkomuleysis.

Og frekari skrif birtust um sama mál þann 22.:

Mjög hefir skort á það allmörg kvöld undanfarið, að rafljósin væru í því lagi, sem þau geta verið og eiga að vera. Hefir mátt heita, að þau slokknuðu til fulls við og við, þegar öll ljós hafa verið kveikt í bænum. Er þetta að kenna vatnsleysi i ánum. En það er aftur afleiðing af rigningarleysinu. „Haustrigningarnar hafa brugðist", eins og það er kallað. En íhugunarvert er það, ef að rafmagnsstöðin kemur ekki nema að hálfu um notum, ef haustrigningar eru minni eitthvert árið en venjulegt er.

Hvort þetta leiddi til einhverra mótvægisaðgerða af hálfu rafveitunnar, svosem bóta á miðlun úr Elliðavatni veit ritstjóri hungurdiska ekki - en ekki er það ólíklegt. 

Tveir menn fórust í brimi á Borgarfirði eystra þegar þeir reyndu að bjarga bátum frá sjó. Blaðið Hænir segir þetta hafa verið þriðjudaginn 13. nóvember.

Þann 2. desember birti Morgunblaðið fréttir af snjóalögum, fyrst úr bréfi úr Skagafirði 22. nóvember, en síðan nýjar fréttir austan úr sveitum:

Úr Skagafirði er skrifað 22. fyrra mánaðar, að þar sé kafsnjór um allt og engir möguleikar að komast um jörðina nema á skíðum; sé því gersamlega jarðlaust og allar skepnur á gjöf. - Snjólétt er enn austur um sveitir að því er maður segir, nýkominn að austan. 

Þann 29. nóvember týndust tveir bátar í róðri á Reyðarfirði í vondu veðri (Hænir segir frá þessu 8. desember). Fleiri mannskaðar urðu við sjó en verða ekki tíundaðir hér. 

Desember: Umhleypingatíð. Talsverður snjór suðvestanlands. Fremur kalt.

Í bréfi úr Suður-Þingeyjarsýslu sem dagsett er 17. desember og birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 1924 segir um hausttíðina þar nyrðra:

Héðan eru þær fréttir helstar, að tíðin hefir verið, frá því síðan rétt fyrir höfuðdag, stórkostlega ill. Svo rammt kvað að krapahríðum í alt haust, og fram í nóvember, að ekki var unnt að þurrka lambsbjór á þönum. Eldiviður og hey stórskemmt, það sem ekki var undir járni. Síðan krapahríðum lauk, sífelldar hríðar og byljir, jarðbönn svo að segja um allar sveitir síðan um veturnætur. - Mér dettur í hug þegar ég les árferðisannál Þorvaldar fróða, að stundum muni hafa sést yfir á fyrri dögum, að segja greinilega frá veðráttu, þegar engin blöð voru til, þar sem nú svo er um Akureyrarblöðin, að af þeim verður alls ekki séð, að þetta síðasta sumar eða haust, hafi verið tíðarfar, sem fádæmum sætir. Sú óhemju bleyta, sem úr loftinu vall hér norðanlands í sumar og haust, kom öll úr norðaustri og er þess þá að vænta, að sunnanlands og vestan, hafi betur blásið. Það var til nýlundu í sumar hér í Þingeyjarsýslu, að skógarþrestir óteljandi voru heima við bæi og jafnvel inni í húsum allt fram að veturnóttum. Rjúpur voru og nærgöngular síðari hluta sumars, ég tala nú ekki um mýs, þegar haustaði.

En hátíðaveðrið var gott sagði Tíminn í pistli þann 29. desember:

Hátíðaveðrið hefir verið með afbrigðum skemmtilegt hér um slóðir, mesta kyrrð á veðri og frostlítið.

Árinu lauk hins vegar með illviðri, Vísir segir frá 2. janúar 1924:

Álfadansinn fórst fyrir á gamlárskveld, sökum stórviðris og rigningar. 

Var hlýskeiðið hafið eða ekki?


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fremur hlý suðaustanátt

Nú er helst útlit fyrir að fremur hlý suðaustanátt verði ríkjandi hér á landi næstu daga. Hún er með óvenjulegra móti að því leyti að lægðasveigur er lítill, jafnvel að hæðarsveigs gæti. Það þýðir að úrkoma verður langmest áveðurs við fjöll (eins og suðaustanlands), en mun minni í landvindinum. Þar sem þurrt verður og jörð er auð gæti hiti komist furðuhátt einhvern næstu daga, jafnvel í tveggja stafa tölur þar sem best lætur - og er það óvenjulegt á þessum tíma árs.

Hér að neðan er spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á föstudag. 

w-blogg150318a

Hér er lægðin fyrir sunnan landið farin að grynnast og farið að draga úr vindi og úrkomu hér á landi. Enn rignir þó talsvert suðaustanlands sé að marka spána.

Öflug hæð er yfir Skandinavíu og beinir hún mjög köldu lofti til vesturs um Evrópu norðanverða. Það verður komið til Danmerkur á föstudag, en heldur síðan áfram til Englands, Frakklands og jafnvel suður til Spánar. 

Ekki vitum við enn hversu lengi hlýindin endast hér á landi né heldur hvað tekur við af þeim. 


Vorskref

Nú líður senn að jafndægrum á vori. Þá fer að hlýna að mun á meginlöndum í syðsta hluta tempraða beltisins - en á sama tíma gefur kuldinn á norðurslóðum lítt eftir - og sömuleiðis er hafið lengur að taka við vorinu heldur en þau svæði þar sem fast er undir fótum.

w-blogg120318a

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar á þessu korti, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Spáin gildir síðdegis á miðvikudag, 14. mars.

Einhvern veginn virðist það græna - sem getur á þessum árstíma vel staðið fyrir einskonar vor - hafa heldur breitt úr sér miðað við það sem var fyrir ekki svo löngu. - En langt er enn í efnismikla gula sumarliti. Og hinn fjólublái litur vetrarkuldapollanna er enn býsnaútbreiddur á norðurslóðum. 

En blái liturinn er hér að hrekjast frá Íslandi undan grænum - í bili að minnsta kosti og boðar slíkt heldur hlýrri tíð á meðan. 

Það þýðir þó ekkert enn að vænta vors í alvöru - í stöku ári getur það að vísu komið snemma, en eins og sjá má er líka mjög stutt í mikinn kulda og hann getur vel tekið upp á því að ryðjast til suðurs í mjóum skyndisóknum. 

Almenna reglan er sú að þegar meginlöndin hlýna - en hafið tregðast við - verður meðalvindátt í háloftum yfir okkur vestlægari - febrúar og fyrri hluti marsmánaðar eiga sunnanáttahámark, styrkurinn breytist hins vegar lítið fyrr en í kringum sumardaginn fyrsta að skyndilega dregur úr. 

Meðalhiti hér á landi er svipaður allan veturinn - allt frá miðjum desember þar til um mánaðamót mars/apríl. Mars að vísu um hálfu stigi hlýrri að meðaltali en janúar og febrúar. Á landsvísu er hann þó kaldasti mánuður ársins um það bil fimmta hvert ár.

Í marslok fer að muna svo um sól að bæði land og loft fara að hitna. Á landsvísu er meðalhiti í apríl um 2 stigum hærri en í mars, og í maí er hann 3,5 stigum hærri en í apríl. Svo munar um 3 stigum á maí og júní og tæpum tveimur á júní og júlí. Að meðaltali er hlýjast á milli 20. júlí og 10. ágúst. Vorið birtist að jafnaði fyrst undir Eyjafjöllum, gægist síðan fyrir hornið vestur á Rangárvelli - og stekkur síðan yfir á höfuðborgarsvæðið - aðrir landshlutar þurfa oftast að bíða lengur - en fá þó stundum hlýjustu dagana - en aðeins einn eða fáa í senn. 

Hvernig til tekst í vor vitum við auðvitað ekkert um. 


Í háloftasöðli

Oft er talað um hæðir, lægðir, hæðarhryggi og lægðardrög í þrýstilandslagi, en sjaldnar um söðla. Þrýstisöðull er þar sem þrýstingur lækkar til tveggja andstæðra átta, en hækkar til hinna tveggja sem þvert á þær fyrri liggja. - Þetta er einskonar „fjallaskarð“ eða dalamót.

Um þessar mundir hagar þannig til að yfir landinu er söðull í háloftum, þó við sjávarmál sé eindreginn brekka eða hlíð utan í hæðinni yfir Grænlandi - sem hallar í átt að lægðasvæði suðurundan og yfir Bretlandseyjum.

w-blogg110318ia

En í háloftunum er engin hæð yfir Grænlandi - þar er lægð, full af köldu lofti. Lægðir eru einnig fyrir sunnan land (rétt eins og við sjávarmál). Hæð er vestur yfir Labrador og þaðan teygir hryggur sig í átt til Íslands - og sömuleiðis má greina veikan hrygg frá Norðursjó til norðvesturs og í átt til Íslands. Ísland situr í söðli á milli þessara kerfa. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin er sýnd með litum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. 

Það er nokkuð kalt norðurundan, en fremur hlýtt sunnan við - engin sumarhlýindi þó. Spár gera nú frekar ráð fyrir því að hlýja loftið sæki heldur á næstu daga - en án þess að það kalda gefi mikið eftir. Þó að eitthvað hlýni verður því ekki langt í kalda loftið - og lítilla grundvallarbreytinga að vænta á stöðunni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband