Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
31.10.2017 | 20:33
Októberhiti
Nú má október heita liðinn og reyndist mjög hlýr - þó ekki alveg jafnhlýr og október í fyrra.
Myndin sýnir landsmeðalhita í byggð í október aftur til 1870. Ritstjóri hungurdiska reiknar landshita sér til hugarhægðar um hver mánaðamót. Við sjáum að október 2017 er meðal þeirra allrahlýjustu - telja má 7 hlýrri og þann 8. jafnhlýjan. Kosið var til Alþingis í þremur þessara sérlega hlýju mánaða.
Það má alltaf klóra sér í höfðinu yfir því hvers vegna hitalínurit októbermánaðar er að sumu leyti öðruvísi en línurit flestra annarra mánaða. Kuldinn í lok 19. aldar er ekki jafneindreginn og samfelldur eins og í flestum mánuðum öðrum, jú, við getum séð 20.-aldarhlýskeiðið mikla, en núverandi hlýskeið byrjaði ekki fyrr en í október í fyrra - en í flestum mánuðum öðrum kringum aldamótin. Um framhaldið vitum við auðvitað ekkert. - Nú, svo er aðkenning að októberhlýskeiði snemma á síðustu öld - sem varla sér stað í öðrum mánuðum ársins. Þá komu þrír mjög hlýir októbermánuðir með skömmu millibili, 1908, 1915 og 1920 (en líka sá kaldasti, 1917).
Fyrstu 10 mánuðir ársins 2017 hafa verið mjög hlýir, það sést vel á myndinni hér að neðan.
Það er aðeins tvisvar sem þeir hafa verið hlýrri en nú, 2003 og 2014, og auk þess einu sinni jafnhlýir, 1939. Vegna þess hversu október í fyrra var hlýr taldi ritstjóri hungurdiska nær vonlaust að árið í ár næði því að fara fram úr 2016, - líkurnar á hlýjum október væru svo litlar - en nú er hann ekki jafnviss. Sýnist honum (í fljótu bragði) að verði nóvember og desember samtals 1,3 stigum yfir meðallagi þessara mánaða síðustu tíu árin verði árið 2017 það hlýjasta á landinu frá upphafi mælinga. - Ekki líklegt - en alveg innan þess mögulega.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2017 | 14:19
Meinlítið?
Þó þess yrði ekki svo mjög vart voru talsverð átök í háloftum yfir landinu í gær (laugardag 28. október) og í fyrradag. Við fengum þó hitann mikla í Kvískerjum og ný októbervindhraðamet á tveimur stöðvum. Ný októberhámarkshitamet voru sett yfir Keflavíkurflugvelli. Átök þessi bárust svo suðaustur til Evrópu og þar gengur nú yfir mikið hvassviðri sem veldur ýmsu tjóni - vonandi þó ekki meiriháttar.
Nú hafa mestu áttökin gengið hjá og við tekið að því er virðist meinlaust veður. Alla vega sýnir spákort morgundagsins (mánudags 30. október) ekki mikil illindi hér við land.
Spáin sem er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.18 síðdegis. Nokkuð sumarleg staða í námunda við okkur að öðru leyti en því að hiti í 850 hPa (litaðar strikalínur) er auðvitað um 5 stigum lægri heldur en dæmigert er á sumrin. En þrýstilínur eru fáar. Grunnar lægðir eru vestur af landinu og fyrir sunnan land. Þær hreyfast báðar til norðausturs.
Fyrir tæpri viku sáu reiknimiðastöðvar ámóta stöðu í spám sínum, en munurinn var bara sá að stefnumót þessara tveggja ekkisvoveigamiklu lægða átti að skila verulegu norðanillviðri hér á landi. - Hlýja loftið að sunnan (austan við syðri lægðina) átti að mæta því kalda úr norðvestri á réttum stað. - En nú virðist sem svo að stefnumótið misfarist - og nær ekkert verði úr.
Að stefnumót veðrakerfa misfarist er í reynd algengara en að þau heppnist - það er til allrar hamingju ekki svo oft að allt fari á versta veg í veðrinu.
Í vesturjaðri kortsins má sjá mikið veðurkerfi - þéttar þrýstilínur og mikla úrkomu. Þarna fara leifar hitabeltisstormsins Philippe - sem varla varð til áður en vestanvindabeltið át hann.
28.10.2017 | 17:29
Ný októberhitamet í háloftum
Hitamet októbermánaðar voru slegin í háloftaathugun yfir Keflavíkurflugvelli um hádegi í dag (laugardag 28. október), bæði í 500 hPa og 400 hPa. Hiti í 500 hPa fór í -10,6 stig (eldra met -11,1 stig frá 1987 og 1991, en hiti í 400 hPa í -20,8 stig, eldra met var -21,7 stig (líka frá 1987 og 1991). Frostmarkshæð á miðnætti var í 3490 metrum yfir Keflavík(hærra en hábunga Grænlands) - það mun nærri októbermeti, en (óábyrgir) skyndireikningar ritstjóra hungurdiska benda þó til þess að metið hafi ekki verið slegið.
28.10.2017 | 02:17
Hlýr október
Október hefur verið óvenjuhlýr og þar að auki hefur lengst af farið vel með veður. Hlýindin voru þó enn meiri í október í fyrra - sá mánuður var eiginlega út úr kortinu eins og sagt er - en þá var úrkoma einnig óvenjumikil um landið sunnan- og vestanvert og gekk á með töluverðum slagviðrum. Rigningin hefur núna verið langmest á Austfjörðum og á Suðausturlandi - úrkomuhryðjan mikla þar í lok september var þó mun meiri en októberúrkoman til þessa.
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 27 daga mánaðarins er 6,9 stig, 2,2 ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,6 ofan meðallags síðustu tíu ára, það næsthlýjasta á öldinni (sömu dagar voru þó ámóta hlýir 2001 og 2010 og ekki ljóst hvert lokasæti verður). Á 142-ára samanburðarlistanum eru dagarnir nú í 11. til 12.hlýjasta sæti.
Staðan fyrir norðan er svipuð, meðalhiti á Akureyri 6,0 stig, 2,0 stigum yfir meðallagi sömu daga síðustu tíu árin.
Úrkoma í Reykjavík er óvenjulítil - sérstaklega sé miðað við hversu hlýtt hefur verið - og hefur mælst 39,5 mm sem er nálægt helmingi meðalúrkomu. Á samanburðarlista sem nær til 120 ára er úrkoman í 105. sæti. Sólskinsstundafjöldi er hins vegar nærri meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma hingað til í mánuðinum mælst 53,7 mm sem er í rétt rúmu meðallagi.
Dagurinn í dag (föstudagur 27. október) varð nokkuð merkilegur. Hámarkshiti fór í 21,3 stig í Kvískerjum í Öræfum og 22,1 stig á stöð vegagerðarinnar á svipuðum slóðum. Á báðum stöðvunum er þetta hæsti hiti ársins. Það er óvenjulegt að hæsti hiti á veðurstöð mælist í október - en hefur þó gerst nokkrum sinnum áður (mars er eini mánuður ársins sem aldrei hefur átt hæsta hita ársins á veðurstöð hérlendis). Rétt er að halda því til haga að þrátt fyrir háan hita á Kvískerjastöðvunum er varla hægt að tala þar um einhverja blíðu því þar geisaði ofsaveður um svipað leyti (29,4 m/s og hviður 44 m/s). Tuttugustigum verður vart haldið uppi í október nema með ofbeldi.
Í nótt fór hiti í 10,4 stig á Brúarjökli - það er einnig hæsti hiti ársins þar á bæ.
Þetta eru líka hæstu hámörk í október síðan 22,6 stig mældust á Dalatanga þann 26. árið 2003, en októbermetið er 23,5 stig - (1. október 1973). Þetta eru auðvitað landsdægurhámörk þess 27., en takið eftir því að hefði mælingin lent á gærdeginum (eins og hún hefði gert hefði árið 2017 verið hlaupár) væri ekki um dægurmet að ræða.
Víðar var hvasst en í Kvískerjum. Tvö mánaðarvindhraðamet voru sett á sjálfvirkum stöðvum, á Reykjum í Fnjóskadal - þar hefur ekki orðið svona hvasst í október síðan mælingar hófust þar árið 2000, 21,0 m/s, og á Brú á Jökuldal (22,7 m/s). Þar byrjaði sjálfvirka stöðin 1998.
Það sem af er mánuði er hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á öllu landinu, mest er hitavikið á Haugi í Miðfirði og Húsafelli, +2,3 stig, en minnst á Hellu á Rangárvöllum og í Þykkvabæ, +0,8 stig. Allir þessir staðir eru gæfir til næturfrosta í hægum vindi, en eitthvað veldur því þó að frostin hafa nú verið eitthvað fleiri að tiltölu - eða snarpari - í Rangárvallasýslunni heldur en sitt hvoru megin Tvídægru.
Árið hefur líka verið mjög hlýtt - hitinn í Reykjavík er nú í kringum það 5. hlýjasta, svipuð staða er á Akureyri og austur á Dalatanga er árið það sem af er það hlýjasta sem vitað er um - en tveir mánuðir eru eftir af árinu og allsendis óvíst hvað þeir bera með sér.
26.10.2017 | 20:56
Af hlýju lofti
Nú er sérlega hlýtt loft austan suðurodda Grænlands - mestu hlýindin komast reyndar ekki hingað til lands en vel er þess virði að líta á stöðuna.
Þetta kort er úr líkani dönsku veðurstofunnar (og reiknað í kjallara VÍ). Það sýnir hæð 850 hPa-flatarins og hita í honum kl.03 í nótt (aðfaranótt föstudags 27. október). Jafnhæðarlínur eru heildregnar og er 850 hPa flöturinn í rúmlega 1400 metra hæð yfir Íslandi. Litirnir sýna hita og er hann meiri en +16 stig á blettum undan Suður-Grænlandi. Næði þetta loft til jarðar yrði hitinn í því meiri en 30 stig.
Mesti hiti sem mælst hefur í 850 hPa yfir Keflavíkurflugvelli í október er +10,8 stig - en hefur nær örugglega orðið hærri en það einhvers staðar yfir landinu - þá líklega austan- eða norðaustanverðu. Sé kortið stækkað má sjá töluna 13,1 stig við Öræfajökul - tilefni í 27 stig á Kvískerjum? Ekki skulum við þó reikna með nærri því svo hárri tölu - en þó er alltaf verið að segja að miði sé möguleiki og miðinn er til - bara eftir að draga. Veðurnörd munu fylgjast vel með hámarkshitatölum veðurstöðvanna meðan hlýindin ganga hjá.
Við skulum taka eftir því að loft í 1400 metra er á uppleið yfir Vesturlandi - og er því kaldara þar í þeirri hæð heldur en eystra, þar sem niðurstreymi ríkir.
En allramestu hlýindin standa ekki lengi - þau gefa fyrst eftir neðantil þannig að hlýindahámarkið í 500 hPa verður ekki fyrr en á laugardag. Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi þann dag.
Greina má útlínur Íslands undir vindstrengnum mikla. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og vindátt og vindstyrkur sýndur með hefðbundnum vindörvum. Hiti er sýndur með litum. Spáin gerir ráð fyrir því að hiti fari upp í -9 stig yfir Keflavík um hádegi á laugardag. Fari svo yrði það nýtt októberhitamet. Mesti hiti sem mælst hefur í 500 hPa yfir Keflavík í október er -11 stig. - En hvort háloftaathugun hittir rétt í stað og tíma til að næla í met er svo annað mál (og spáin að sjálfsögðu ekki gefin).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2017 | 23:11
Af austanátt
Það er eitt af einkennum íslensks veðurlags að austanátt er ríkjandi í neðstu lögum veðrahvolfsins, en vestanátt ofar. Ritstjóri hungurdiska hefur ítrekað um þetta fjallað - og mætti e.t.v. gera enn meir af því.
Þó þessi áttaskipan sé algengust eru stakir dagar með austanátt í háloftum mjög algengir, jafnvel að austanátt ríki efra í marga daga í röð. Aftur á móti er sjaldgæfara að meðalvindátt heils mánaðar nái því að verða austlæg þegar komið er upp í um 5 km hæð - kemur þó fyrir.
Við skulum nú líta á riss sem dregur fram austanáttarmánuði (í háloftum) yfir landinu frá 1949 til og fram á okkar daga (2017).
Myndin er þannig gerð að sé meðalátt mánaðar vestlæg er sett örstutt strik efst á myndina, en sé hún austlæg er lína dregin niður í gegnum hana. Lárétti ásinn sýnir ártöl, 1949 er lengst til vinstri - en 2017 lengst til hægri.
Flestir munu taka eftir því að bláu strikin eru mun þéttari síðustu tíu árin en yfirleitt annars á tímabilinu.
Við vitum auðvitað ekki hvort þetta er eitthvað merki tengt almennum veðurfarsbreytingum eða bara tilviljun. Ritstjóranum finnst líklegast að um tilviljun sé að ræða - enda um tíu ár síðan hann skrifaði pistil um það hversu óvenjulangdregin vestanáttin hefði þá verið (sjá langa grænleita bilið á árunum 2005 til 2007).
Nú er ekki öll austanátt eins - almennt er veðurlag þó oftast rólegra hérlendis sé austanátt efra heldur en þegar vestanáttin ólmast. Í austanáttarmánuðum eru rigningar oftast meiri austanlands en gengur og gerist. En lega háloftavinda skiptir höfuðmáli fyrir veðurlag hér á landi - og þeir eru stundum nokkuð þrálátir í sínum rásum.
22.10.2017 | 21:42
Breytingar í nánd - eða?
Ekkert veit ritstjóri hungurdiska um það - en reiknimiðstöðvar eru að gefa eitthvað slíkt til kynna. Lítum fyrst á spákort sem gildir síðdegis á morgun (mánudag 23. október).
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykkt er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Mikil lægð er fyrir sunnan land. Hún dýpkaði svo hratt í gær (laugardag) að varla hefur annað eins sést um hríð. Mátti m.a. sjá þrýsting falla um meir en -30 hPa á þremur klukkustundum þar sem mest var - slíkt yrði íslandsmet kæmi það fyrir hér. - En lægðin er fljót að grynnast. Hér á landi er austsuðaustanátt í háloftunum - eins og oft áður að undanförnu. Í þessu veðurlagi berst úrkoma inn á Austfirði og Suðausturland, en víðast hvar annars staðar er frekar meinlaust.
Til að búa til illviðri í háloftastöðu sem þessari þarf kalda útrás úr norðurhöfum - slíkt er alls ekki óalgengt - en virðist ekki vera á borðinu í þetta sinn því lítið er að sjá á kortinu öllu nema mikil hlýindi - blár litur aðeins við Norður-Grænland. Eitthvað af því kalda lofti mun vera í neðstu lögum þar suður með ströndinni en ekki nægilega mikið til að það sjáist skýrt á þessu korti. Þó er strekkingur við Brjústerhorn og nyrst norðantil í Grænlandssundi - nær jafnvel um tíma inn á Halamið.
En þetta á víst allt að raskast (sé að marka reiknimiðstöðvar) - því veldur mikil ólga handan heimskauts og á föstudag á staðan að vera orðin svona.
Hreint viðsnúin staða. Í stað austsuðaustanáttar er komin hvöss vestnorðvestanátt. Mikill hæðarhryggur í stað lægðar fyrir sunnan land. Hæðarhryggnum fylgja ólíkindaleg hlýindi austan Grænlands, þykkt er þar spáð í 5670 metra - myndi að sumarlagi gefa möguleika á 30 stiga hita þar undir (en það er ekki sumar). Reyndar verður að teljast líklegt að reiknimiðstöðin sé heldur að ofgera hlýindin. En bandaríska veðurstofan er nú sömu skoðunar - í bili að minnsta kosti.
En við sjáum líka að kalda loftið hefur sótt að norðan við - og sterkur háloftavindur eins og hér er spáð er fljótur að skjóta upp kryppum og sveigjum sem gefa ekki bara tilefni til mikilla hlýinda heldur líka hvassviðra og kulda af verri gerðinni. - Margir möguleikar á slíku uppi - enginn þó óhjákvæmilegur.
22.10.2017 | 13:24
Fyrsta frost haustsins á Veðurstofutúni
Í morgun (sunnudag 22. október) fraus í fyrsta skipti í haust á mælum á Veðurstofutúni. Hiti fór niður í -0,2 stig á sjálfvirka mælinum, en -0,1 stig í skýlinu. Þá voru liðnir 180 dagar frá síðasta frosti. Ritstjóra hungurdiska sýnist að þetta sé þriðjalengsta frostleysa sem vitað er um í Reykjavík. Hún varð lengri í fyrra (200 dagar) og 1939 (201 dagur). meðaltalið er um 145 dagar.
Á Akureyri varð frostleysan nú 140 dagar - það er meir en 20 dögum lengri tími en í meðalári, en alloft hefur þó liðið enn lengri tími þar milli síðasta frosts á vori og þess fyrsta að hausti, í fyrra t.d. 159 dagar.
Allmargar stöðvar landsins eru enn frostlausar í haust. Á átta stöðvum hefur hiti ekki enn farið niður fyrir 3 stig (Bjargtangar, Vattarnes, Garðskagaviti, Ólafsvík, Seley, Surtsey, (við) Akrafjall og Hvalnes).
Þá er spurning hvenær fyrst verður alhvítt í Reykjavík - meðaldagsetning (1961 til 2010) er 6. nóvember.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2017 | 15:12
Íslenska sumarið 2017
Í dag eru misserahvörf, fyrsti vetrardagur. Sumarið 2017 liðið og vetur tekur við. Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum velfarnaðar og vonar að nýhafið vetrarmisseri fari vel með land og þjóð.
Sumarið var hlýtt eins og við fáum að sjá á myndunum sem fylgja þessum pistli. Sú að ofan sýnir hita sumarsins í Reykjavík frá 1921 til 2017. Það nýliðna er í flokki þeirra allrahlýjustu - aðeins 5 marktækt hlýrri og fáein til viðbótar jafnhlý. En tímabilaskiptingin æpir á okkur.
Sveiflur frá ári til árs eru heldur meiri á Akureyri en í Reykjavík.
En annars er myndin svipuð (nær þó hér ekki nema aftur til 1936). Á tímabilinu hefur sumarmisserið aðeins þrisvar verið hlýrra á Akureyri heldur en nú (2014, 1941 og 1939) - en jafnhlýtt var þó í fyrra og sömuleiðis 2004.
Í Stykkishólmi getum við reiknað aftur til 1846.
Hér sjáum við vel afturfyrir hlýindin fyrir miðja 20. öld. Nýliðið sumar er í hópi þeirra allrahlýjustu.
Við lítum líka á tölur fyrir landið allt aftur til 1949 og sjáum
að hiti í sumar var lítillega lægri en í fyrra og í flokki þeirra allrahlýjustu.
Við getum líka reiknað meðalvindhraða í byggðum aftur til 1949. Fyrri hluti tímabilsins er að vísu ekki alveg sambærilegur hinum því logn var þá oftalið og lækkar sá háttur meðaltölin eitthvað. En miðað við síðustu áratugi telst sumarmisserið 2017 hafa verið mjög hægviðrasamt.
Úrkomuuppgjör verður að bíða betri tíma.
20.10.2017 | 22:39
Norðan við mesta óróann
Nú eru miklar sviptingar suður á Atlantshafi. Við heyrum vel í þeim af svo má segja - leifar af úrkomusvæðum komast til landsins og hiti verður áfram á góðu róli.
Norðurhvelsspákort sem gildir síðdegis á laugardag (21. október) sýnir stöðuna.
Eins og venjulega sýna heildregnu línurnar hæð 500 hPa-flatarins, því þéttari sem þær eru því hvassara er í háloftum. Litir sýna þykktina en hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra erf loftið.
Mjög hlýr hæðarhryggur er skammt austan við land, styrktur af lægð við Bretland. Henni fylgir mikið illviðri sem þarlendir kalla Brian. Næsta bylgja vestan við er austan Nýfundnalands - þar er lægð í nær sjaldséðum foráttuvexti. Við sjáum hvernig hlýr geiri þversker þéttan háloftavindinn og endar í mjóum fleyg.
Hlýja loftið í lægð þessari á ættir að rekja til jaðars hitabeltisins - hafði burði til að bera fellibyl, en ekkert varð úr vegna vindsniða sem kom í veg fyrir þá tengingu milli raka í neðstu lögum og veðrahvarfa sem nauðsynleg er slíkum kerfum. - En ritstjóri hungurdiska hefur notað orðið hvarfbaugshroði sem samheiti suðlægra veðurkerfa. Það er dálítið merkilegt til þess að hugsa að þetta ákveðna kerfi hefur ekki fengið sérlega mikla athygli undanfarna daga - þrátt fyrir afl þess. Ástæðan er sennilega sú að hitabeltiskerfi sem fær nafn virðist þar með verða að poppstjörnu sem fylgst er með - sama hversu ómerkilegt það annars verður.
Aftur á móti fær kerfi sem ekki nær hitabeltistign mun minni athygli - jafnvel þótt það sé sérlega öflugt.
Lægðin sém hér um ræðir á að dýpka í kringum 57 hPa á einum sólarhring, úr 995 hPa á miðnætti aðfaranótt laugardags í 938 hPa á miðnætti á laugardagskvöld. Þær eru ekki margar sem toppa þann árangur. Reyndar er trúlegt að evrópureiknimiðstöðin ofgeri dýpkunina aðeins og hún verði e.t.v. ekki alveg svona mikil (það getur bara varla verið).
En kortið hér að neðan sýnir hugmyndina á sunnudagsmorgunn kl. 6.
Talan sem stendur við lægðarmiðjuna er 936 hPa. Bandaríska veðurstofan er ekki svona afgerandi - en það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Lægðin á síðan að grynnast ört. Leifar af úrkomusvæði og vindstrengjum munu berast hingað til lands - slíkur er atgangurinn - en aðalsýningin verður afstaðin. Nokkra daga tekur síðan að hreinsa til á svæðinu.
Hvað síðan gerist er enn allsendis óvíst og spár mjög misvísandi. Erlendir veðurbloggarar og tístarar tala um fellibylinn Lan sem nú grasserar fyrir sunnan Japan sem vandræðavald í langtímaspám. Hann gefur stóran skammt af hlýindum norður í heimskautaröstina eins og sjá má á kortinu hér að neðan (úr ranni bandarísku veðurstofunnar). Það gildir síðdegis á sunnudag.
Athugið að hér erum við að horfa á Norður-Kyrrahaf. Kortið gildir síðdegis á sunnudag (22. október). Þá á fellibylurinn Lan að vera við Japan og austan hans streymir gríðarlega hlýtt loft til norðurs í átt að röstinni. - Það mun sparka í kuldapollinn sem hér er yfir Alaska - og hann síðan slást í það sem austan við er. Það er sá samsláttur sem mun hafa áhrif hér á landi síðari hluta vikunnar - og er eitthvað erfitt að reikna.
En það kemur víst í ljós hvað úr verður.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.12.): 129
- Sl. sólarhring: 181
- Sl. viku: 3186
- Frá upphafi: 2424681
Annað
- Innlit í dag: 108
- Innlit sl. viku: 2870
- Gestir í dag: 102
- IP-tölur í dag: 102
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010