Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
19.10.2017 | 01:22
Illlæsilegt kort -
Enn vitum við ekkert um veður á kosningadaginn 28. október - en reiknimiðstöðvar spá samt og spá og senda okkur sannkallað spáakóf. Við skulum draga eitt kort úr kófinu - ekki auðvelt aflestrar.
Hér má sjá samdregnar hugmyndir evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting á hádegi á kosningadaginn. Litirnir eru nokkuð glannalegir að sjá - en þeir segja til um óvissu spárinnar - en ekkert um veðrið.
Við gefum svörtu, heildregnu línunum fyrst gaum - kannski mest að marka þær (þó ekki mikið). Þær sýna meðaltal sjávarmálsþrýstings 50 samhliða reikniruna - svokallað klasameðaltal. Þetta meðaltal sýnir lægðasvæði austan við land, en hæð yfir Grænlandi - norðanátt sumsé - væntanlega þó ekki mjög kalda. Ráðgjafar reiknimiðstöðvarinnar segja veðurfræðingum að sé þeim stillt upp við vegg (og spá kreist upp úr þeim) sé að jafnaði best að halda sig við þetta meðaltal. - Ritstjóri hungurdiska þarf ekki að spá - og gerir það ekki.
Litirnir sýna hversu þessum 50 spám ber saman um kosningaveðrið. Reiknað er staðalvik 50 þrýstigilda í hverjum punkti. Væru allar 50 spár klasans nákvæmlega sammála væri staðalvikið alls staðar núll og engir litir sjáanlegir á kortinu. Á dökkfjólubláa blettinum við Írland er staðalvikið meira en 18 hPa - samkomulag er afskaplega lítið um kosningaveðrið. Verður lægð á þessu svæði eða ekki?
Sé rýnt í kortið má einnig sjá daufar strikalínur - þar fer svonefnd háupplausnarspá reiknimiðstöðvarinnar - sú nákvæmasta sem hún hefur fram að færa. Til að auðvelda lesendum lífið er hér einnig mynd sem sýnir þá spá á skýrari hátt.
Hér má sjá að hér er eitthvað allt annað á ferð heldur en klasameðaltalið. Ísland í þrýstisöðli - lægðir fyrir norðan og sunnan, en hæðir fyrir austan og vestan. - Erfiðasta þrýstimynstrið.
Við getum auðvitað ekki sagt hér og nú að þessi spá sé della - en haldlítil er hún. Til að sannfæra okkur enn betur um óvissuna er hér líka spá bandarísku veðurstofunnar um veður á sama tíma.
Snarpur útsynningur með skúra- eða slydduhryðjum vestanlands - en dægilegt eystra? Skyldi klasameðaltalið og norðanátt þess verða niðurstaðan? Eins gott að segja sem minnst um það.
17.10.2017 | 21:55
Tíustigafrost
Í morgun (þriðjudaginn 17. október) fór frostið í -10,0 stig í Möðrudal. Þetta er fyrsta tveggjatölustafafrost haustsins í byggðum landsins. Eftir nokkra reikninga ritstjóra hungurdiska kemst hann að þeirri niðurstöðu að tímasetningin sé í meðallagi - reyndar 2 dögum síðar en bæði meðal- og miðdagsetning reiknast síðustu 57 árin - en veruleg óvissa er í ákvörðun slíkra meðaltala.
Þetta er ekki auðveld mynd - (en varla þó erfiðari en mörg illræmd línurit hungurdiska). Hér er reynt að sýna fyrsta dag í tíustigafrosti í byggðum landsins frá 1949 að telja. Lárétti ásinn sýnir árin, en sá lóðrétti dag ársins - þar eru einnig fáeinar dagsetningar, m.a. 15. október sem er meðal- og miðdagsetning fyrsta -10 stigafrosts haustsins. Því neðar sem súlurnar liggja, því fyrr hausts hefur tíustigamarkinu verið náð.
Græn strikalína á að sýna 10-árakeðju. Það flækir mjög samræmi myndarinnar að frá og með 2004 fór mönnuðum stöðvum mjög fækkandi - og þar með dró úr líkum á að einhver þeirra rækist á tíustigafrost - en sjálfvirkum stöðvum fjölgaði mjög - og líkur á að einhver þeirra hitti frostið fyrir jukust. Rauðir punktar og tilheyrandi 10-áralína merkir þukl sjálfvirku stöðvanna.
Svo er annað mál að í gagnalistann vantar dagleg gögn frá fjölda stöðva fyrir 1961 - og sá hluti línuritsins er því ekki sambærilegur við afganginn - snúum því blinda bletti augans að þeim hluta myndarinnar.
Það gerist endrum og sinnum að frost nær -10 stigum í byggð í september. Síðustu 90 árin hefur það gerst 12 sinnum, síðast árið 2003 - sem var reyndar hlýrra en flest önnur. Haustið hefur 10 sinnum lifað út október án tíustigafrosts - síðast í fyrra (2016).
Með góðum vilja gætum við túlkað myndina að ofan á þann veg að á fyrstu 17 árum aldarinnar hafi tíustigafrosts fyrst orðið vart í byggð að hausti um viku síðar heldur en næstu 17 árin þar á undan - og sé sú seinkun hlýindamarki, en ritstjórinn vill samt ekki gera mikið úr raunveru slíkra umskipta.
Þess má að lokum geta að líklega (ekki alveg öruggt) verður dagurinn líka sá fyrsti án 10-stiga hámarkshita á landinu í haust (að undanförnu hefur oft munað litlu).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2017 | 01:29
Erfitt mál (- þetta með úrkomubreytingar)
Þó sæmilegt samkomulag sé um að veðurfar fari hlýnandi hér á landi (alla vega þegar til lengdar lætur) virðist vera talsvert erfiðara að ráða í breytingar á úrkomufari. Eitt af því sem gerir málið snúið er að erfiðara er að mæla úrkomu heldur en hita - mælingar hennar eru enn háðari mælum og mæliaðstæðum heldur en hitamælingarnar.
Myndin sýnir þrjá úrkomuvísa sem ná til landsins alls, búið er að reikna 10-árakeðjur. Blái ferillinn er einfaldastur að gerð. Hann sýnir meðalúrkomu (flestra) veðurstöðva landsins. Við lesum hana af lóðrétta ásnum til vinstri. Meðalúrkoman er reiknanleg aftur á þriðja áratuginn miðjan, en er samt nokkurri óvissu undirorpin framan af. Lágmarkið snemma á 7. áratugnum virðist þó vera raunverulegt og sömuleiðis að úrkoma hafi aukist síðan. Aukningin er töluverð - meiri en 10 prósent alla vega. Leitni er þó í hámarki sé viðmið hafið um 1960 - sem er óeðlilegt - úrkoma var meiri áður.
Rauði ferillinn nær til sama tímabils og sýnir hann hlutfall þeirra daga þegar úrkoma hefur mælst 0,5 mm eða meiri á öllum veðurstöðvum landsins. Einingin er þúsundustuhlutar og við notum líka kvarðann til vinstri til að lesa hann. - Með því að breyta kvarðanum gætum við magnað hreyfingu ferilsins - en við sjáum þó að toppar hans og dældir fylgja toppum og dældum bláa ferilsins að mestu. Ferillinn sýnir líka aukningu úrkomu, síðari hluti ferilsins er hærri í myndinni en sá fyrri - það munar um 30 þúsundustuhlutum (3 prósentum) hvað dagar með meira en 0,5 mm úrkomu eru fleiri nú heldur en 1930 (sé eitthvað að marka myndina) - það hljómar ekki mikið - en eru samt 9 dagar á ári.
Græni ferillinn teygir sig allt aftur til 19. aldar. Hann er þannig fenginn að reiknað er hlutfall úrkomu hvers mánaðar hverrar veðurstöðvar af meðalúrkomu áranna 1971 til 2000. Ársmeðaltal útkomunnar síðan reiknað fyrir allar stöðvar á hverjum tíma og 10-árkeðja loks fundin. Hér er lesið af hægri kvarða - úrkoma virðist hafa aukist um 10 til 20 prósent á tímabilinu.
Kannski við trúum því að eitthvað sé til í því að úrkoma hafi aukist. En satt best að segja virðist ekki mikið samband að finna við hitann - jú, hiti hefur hækkað, en hinar stóru hitasveiflur þessa tímabils virðast ekki skila sér vel í úrkomunni. Það er auðvitað hugsanlegt að úrkoma hér á landi sé meira háð hita á upprunasvæðum hennar heldur en þar sem hún fellur. - En sé svo á það eingöngu við langtímabreytingar - en ekki það sem gerist frá ári til árs.
En lítum nú nánar á ársúrkomu í Reykjavík og tengsl hennar við fáeina aðra veðurþætti.
Hér má sá samband hita og ársúrkomu á árabilinu 1974 til 2016 (þann tíma sem mælt hefur verið í reit Veðurstofunnar). Ekkert bendir til þess að ársúrkoma sé háð árshita. Að reikna aðfallslínu er hálfgerður brandari - en sé það gert sýnist úrkoma vaxa um 5 til 6 prósent á hverja gráðu hækkandi hita. - Ekki svo fráleit tala út af fyrir sig - ef hún byggði á einhverju viti.
Hér er sama mynd - nema hvað hér eru öll ár úrkomumælinga í Reykjavík allt frá upphafi þeirra. Ekkert skárri reikningsleg niðurstaða - en nefnir heldur lægri tölu sem breytingu með hita.
Hér má sjá samband ársúrkomu í Reykjavík og ársmeðalloftþrýstings. Þó talsvert vanti upp á að um gott samband sé að ræða er það samt snöggtum skárra en sambandið við hitann. Það hljómar heldur ekkert illa að segja að því meiri sem lægðagangur er því meiri sé úrkoman. Samkvæmt þessu minnkar úrkoma um 30 mm á ári hækki þrýstingur um 1 hPa.
Þetta er allt tímabilið - svipuð niðurstaða - ekki sérlega góð en samt.
Við leitum nú upp í háloftin. Athugum hvort meta má ársúrkomu út frá stöðunni þar. Vindáttir kunna að ráða nokkru - sem og hæð háloftaflata (kemur í stað sjávarmálsþrýstings). Við notum tímann frá 1921 (kannski aðeins of langt - áreiðanleg háloftagögn ná aðeins aftur til 1949 - það sem eldra er er byggt á endurgreiningu).
Hér hefur punktadreifin kringum aðfallslínuna þést umtalsvert. Lárétti ásinn sýnir ágiskaða úrkomu, en sá lóðrétti hina mældu. Fylgnistuðullinn er hér kominn upp í 0,58 og er orðinn vel marktækur. Styrkur sunnanáttar ræður mestu um úrkomu í Reykjavík - því meiri sem sunnanáttin er því meiri er úrkoman. Áhrif vestanáttarinnar eru einnig nokkur - því meiri sem hún er því meiri er úrkoman. En hæð 500 hPa-flatarins hefur einnig áhrif - því meiri sem hún er því minni er úrkoman. Hæð 500 hPa-flatarins segir nokkuð um uppruna loftsins - því hærri sem hún er því líklegra er að loftið eigi sér suðrænan uppruna - en loft langt að sunnan er gjarnan í hæðarhringrás og því fylgir niðurstreymi sem bælir úrkomumyndun.
Hér er komin ástæða þess að samband er ekki gott á milli hita og úrkomu í Reykjavík - úrkoman kemur í stríðri sunnanátt - en hlýindi fylgja líka háum 500 hPa-fleti - þau hlýindi eru oft þurr í Reykjavík.
Það vekur athygli á myndinni hér að ofan að nokkur ár skera sig úr - úrkoma var þá talsvert meiri heldur en reikningar ætla. Meðal þessara ára eru t.d. 2007 og 2012. Sum veðurnörd muna e.t.v. að einmitt þessi ár komu fáeinir sérlega blautir dagar í Reykjavík - dagar sem einir og sér hækkuðu ársúrkomuna umtalsvert (og spilltu þar með stöðu áranna á myndinni). Ritstjórann rámar í að svipað hafi líka gerst 1931, en hefur ekki athugað 1921 og 1925. Einstakir úrkomuatburðir geta þannig breytt miklu - eru mun þyngri á metum en breytingar hringrásarþátta og hita - jafnvel þótt um öfgar sé að ræða hafa þær lítil áhrif á ársmeðaltöl.
Við skulum að lokum líta á mynd sem sýnir reikningsleifina - muninn á reiknaðri og mældri úrkomu frá ári til árs.
Lárétti ásinn sýnir ár tímabilsins (1921 til 2016), en sá lóðrétti mun á reiknaðri úrkomu og mældri. Því meiri sem leifin er því meiri er mæld úrkoma heldur en sú reiknaða. Sé leifin neikvæð ofmeta reikningarnir úrkomuna.
Tvennt vekur athygli á myndinni umfram annað. Í fyrsta lagi er úrkoma meiri en sú reiknaða nær öll árin á þriðja áratugnum. - Það getur bent til þess að endurgreiningin sé röng á einhvern hátt - nú eða þá það að úrkomumælingar í Reykjavík skeri sig einhvern veginn úr á þessum árum. - Reyndar er það svo að þær gera það. Mælt var við Skólavörðustíg - inn á milli húsa og áhrif vinda á mælingarnar minni en síðar var.
Hitt atriðið er almenn aukning leifarinnar á þessari öld - eru hlýindin ástæða hennar (fylgir rakara loft sunnanáttinni) - eða eru þetta vindáhrif (skilar úrkoman sér betur í mælana vegna minni vindhraða)?
Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru og vísindin að baki harla léttvæg. Auðvitað er ástæða til mun ítarlegri greininga.
Niðurstöður eru þær helstar að úrkoma á Íslandi virðist hafa aukist nokkuð frá því að byrjað var að mæla. Úrkoma er þó ekki beint háð hita hér á landi (gæti verið háð hita á suðlægari breiddarstigum) en ræðst frá ári til árs mjög af stöðu meginveðurkerfa í vestanvindabeltinu. Verði breytingar á legu þeirra eða afli hefur það afleiðingar á bæði úrkomu og hita hér á landi - meiri afleiðingar en hlýnun á heimsvísu ein og sér.
15.10.2017 | 02:50
Enn af Ófelíu
Það er ekki mjög oft sem skýrt og greinilegt fellibylsauga sést á þeim veðurtunglamyndum sem sjá má á heimasíðu Veðurstofunnar (vedur.is). Komist fellibyljir inn í myndarrammann eru þeir oftast orðnir eitthvað ummyndaðir og tættir. En ekki alveg alltaf.
Að sögn fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami er Ófelía 3. stigs fellibylur á þessari stundu, 1-mínútu vindur er áætlaður mestur um 50 m/s með hviðum upp í 60 m/s. En heimskautaröstin er um það bil að taka bylinn upp á sína arma. Röstin þekkist á háskýjabreiðunni sem liggur á myndinni norður frá Ófelíu til Færeyja og þaðan austur til Rússlands.
Enn er ekki vitað hversu lengi augað lifir - en nú má sumsé fylgjast með því á myndum á vef Veðurstofunnar sem uppfærast á klukkustundar fresti. Spáin gerir enn ráð fyrir því að leifar fellibylsins fari nærri Írlandi eða yfir það á mánudag (16. október).
Að sögn heimildamanna er ekki vitað áður um 3. stigs hitabeltisfellibyl á þessum slóðum.
14.10.2017 | 01:16
Bætir hægt í
Við lítum sem oftar áður stöðuna á norðurhveli. Kort dagsins gildir síðdegis á sunnudag, 15.október.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því stríðari er vindurinn. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.
Við getum nú fylgt heimskautaröstinni nokkuð samfellt hringinn. Yfir Evrópu tekur hún mikla sveigju norður fyrir mjög mikla hæð sem á kortinu á miðju yfir Ítalíu. Óvenjuleg hlýindi fylgja henni, þykkt er meiri en 5640 metrar á stóru svæði og sumarhlýindi teygja sig til Skandinavíu.
Í vesturjaðri hæðarinnar má sjá leifar fellibylsins Ófelíu, um það bil að tætast í sundur í röstinni. Þar má sjá að þykktin er á smábletti meiri en 5700 metrar.
Ísland er norðan rastar á flatneskjulegu, en fremur hlýju svæði og kalt loft virðist ekki ógna okkur í bili að minnsta kosti. Kuldinn er nú mun meira áberandi síberíumegin á hvelinu heldur en ameríkumegin, en ameríski kuldapollurinn (hin ungi Stóri-Boli) er þó farinn að þroskast nokkuð og í honum er lægsta þykkt hvelsins alls, um 4980 metrar, alvöruvetur.
Gríðarhlýtt er víða í Bandaríkjunum - þykktin meiri en 5700 metrar á stórum svæðum í austurríkjunum - og meiri en 5760 vestar. Mjög snörp háloftabylgja teygir sig frá Hudsonflóa til suðurs - hún er á hraðri austurleið og mun - rætist spár - færa okkur hlýja en nokkuð stríða austanátt um miðja vikuna.
12.10.2017 | 21:10
Ófelía
Nú líður á hinn hefðbundna fellibyljatíma í Atlantshafi. Tíðin hefur verið venju fremur harkaleg í ár. Svo ber við að einn af smærri gerðinni sveimar nú á fremur óvenjulegum slóðum suðvestur af Asóreyjum. Hefur hann hlotið nafnið Ófelía, að sögn sá öflugasti fellibylur á því svæði síðan fellibylurinn Ivan fór þar um árið 1980. Ritstjóri hungurdiska man vel eftir honum - því kerfið komst langleiðina til Íslands og nokkuð blés við suðurströndina einmitt þegar ritstjórinn var á vaktinni.
Ófelía er smár fellibylur, mjög smár, fárviðri ríkir aðeins á mjóu belti rétt í kringum augað - en bandaríska fellibyljamiðstöðin segir þó að 1-mínútu vindhraði nái um 40 m/s og hviður 50 m/s þar sem mest er, nóg til að valda umtalsverðu tjóni verði eitthvað fyrir.
Myndin er af vef kanadísku umhverfisstofnunarinnar (Environment Canada). Við sjáum hér að kerfið allt, með húð og hári, nær varla stærð Íslands.
Þetta er eitt þeirra kerfa sem orðið geta að öflugum lægðum - hitti það rétt í vestanvindabeltið.
Hér er spákort fellibyljamiðstöðvarinnar fyrir næstu 5 daga. Mikil óvissa fylgir spám sem þessum. Litlir hringir sýna stöðuna kl. 8 á hverjum morgni. Bókstafurinn H táknar að vindhraði sé af fárviðrisstyrk þar sem mest er (32 m/s), en S að hann sé meiri en 20 m/s.
Þessi spá gerir ráð fyrir því að Ófelía komi lítt eða ekki við sögu hér á landi. Evrópureiknimiðstöðin er aðeins austar með kerfið í nýjustu langtímaspá sinni - sendir það beint yfir Írland og Skotland.
Írskir og breskir tístarar og fleiri fréttamiðlar rifja nú upp fellibylinn Debbie sem olli miklu tjóni á Írlandi í september 1961 og setti vindhraðamet - og á víst enn lágþrýstimet septembermánaðar á Írlandi (961 hPa).
11.10.2017 | 02:27
Hvernig miðar haustinu?
Fyrir nokkrum árum (2014) velti ritstjóri hungurdiska haustkomu fyrir sér - og ritaði um í nokkrum pistlum. Hægt er að skilgreina haustkomu á fjölmarga vegu. Einn þeirra möguleika sem ritstjórinn nefndi var að nota meðalhita í byggðum landsins til að skilgreina haustdaga - og telja þá síðan.
Í tilraunaskyni stakk ritstjórinn upp á 7,5 stigum sem viðmiði. Dagur telst haustdagur sé meðalhiti sólarhringsins í byggðum landsins neðan þess. Það gefur auga leið að slíkir dagar koma á stangli allt sumarið - án þess að komið sé haust, en þegar á líður þéttast þeir smám saman. En svo munar auðvitað töluverðu hvort meðalhitinn er t.d. 7,4 stig eða 3,0 stig. Fimm dagar með meðalhita 7,4 stig eru varla jafngildir fimm dögum með meðalhita 3,0 stig. Þeir síðarnefndu eru mun haustlegri.
Hentugast þótti því að skilgreina einskonar haustsummu. Reiknað var hversu langt hiti hvers dags væri neðan 7,5 stiga og síðan lagt saman. Eftir nokkrar vangaveltur (sem lesa má um í fornum hungurdiskapistli) þótti hentugt að segja haust komið (eða skollið á) þegar haustsumman næði 30 stigum. Til að ná þeirri tölu þarf aðeins fjóra daga með hita við frostmark, en 12 daga með meðalhita 5,0 stig.
Að meðaltali fer haustsumman í 30 stig 18. september - og 100 stig 12. október. Á þessu hefur reynst nokkur tímabilamunur - og mikil áraskipti.
En hvernig standa málin nú, 11. október?
Súlurnar sýna haustdagafjölda fyrir 11. október ár hvert. Seinni árin er fjöldi sjálfvirka og mannaða kerfisins borinn saman - og við sjáum að samræmið er gott. Í ár (2017) eru haustdagarnir orðnir 12 - einum fleiri en var í fyrra - langoftast eru þeir orðnir á milli 20 og 30 á þessum tíma - við sjáum reyndar að ástandið á tímabilinu frá 1962 og fram yfir 1990 var talsvert annað en algengast hefur verið hin síðari ár.
Síðari myndin sýnir stöðu haustsummunnar 11. október hvert ár. Haustið er langoftast komið - en fáein ár skera sig þó úr, summan nú er t.d. aðeins komin í 16,3 stig, var 16,4 á sama tíma í fyrra. Hún var einnig lág um þetta leyti 2001 og 2002 og líka sérlega lág árin 1958, 1959, 1960 og 1961.
Þessar tölur segja auðvitað lítið um framhaldið - hér eingöngu settar fram til gamans fyrir nördin og þá aðra sem vilja af einhverjum ástæðum ná hvíld frá dægurþrasinu.
10.10.2017 | 01:25
Lítið lát á millibilsástandi
Veðrið svífur enn í einhverskonar millibilsástandi, eins og leifar sumarsins lifi enn og vilji ekki hleypa haustinu endanlega að. Jú, myrkrið sækir óðfluga á og loftvogin komin af hinum dæmigerðu sumarslóðum. Lægðirnar stórar, feitar, þunglamalegar og snerpulausar - lekur þó af þeim svitinn.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á miðvikudag 11. október. Á því má sjá tvær myndarlegar lægðir skipta öllu hafsvæðinu norðan við 45. breiddargráðu á milli sín. Nokkur vindur er við hornið á Norðuaustur-Grænlandi - þar var að safnast fyrir kaldara loft - en svo virðist sem lægðirnar ætli að flæma það aftur langt norður í höf eins og lenska hefur verið að undanförnu.
Á þessu korti er nokkur gangur í syðri lægðinni og á hún að koma til landsins á fimmtudagskvöld eða síðar - þá búin að taka yfir nánast allt kortið - án verulegrar mótstöðu.
Það er þó ekki þannig að ekkert blási - það gerir það - en vindstyrkur er frekar eins og í slæmum sumarlægðum heldur en af þeirri snerpu sem stundum einkennir þennan árstíma.
Þó þessi októbermánuður hafi byrjað með hlýindum hefur þó ekki verið nærri því eins hlýtt og var í fyrra - við lítum nánar á samanburð síðar.
8.10.2017 | 17:27
Sumarvindar (í 12 km hæð)
Ritstjóri hungurdiska heyrði á dögunum tíst um að vindhraði í 200 hPa-fletinum (12 km hæð) hefði verið með mesta móti á Norður-Atlantshafi í sumar. Það Norður-Atlantshaf sem talað var um er að vísu ekki alveg það sama og oftast er í hugum okkar, en það var samt vissara að athuga hvernig staðan hefði verið yfir okkur - svona til að geta svarað fyrir þetta við árekstur.
Auðvelt var að reikna meðalvindhraða sumarsins yfir Keflavíkurflugvelli og bera hann saman við vindhraða fyrri sumra. Niðurstaðan er sú að ekkert óvenjulegt var um að vera í 12 km hæð yfir okkur.
Hér má sjá meðalvindhraða í 200 hPa-fletinum í júní til ágúst hvert ár frá 1953 til 2017. Vindhraði var með minna móti í sumar. Vindhraði er greinilega mjög breytilegur frá ári til árs - langmestur sumarið 1983, en einnig mikill 1955, 1976 og 1995. Þeir sem hafa góðar fortíðartengingar muna þessi sumur öll annað hvort á eigin skinni eða af afspurn.
En við erum greinilega fyrir norðan öll óvenjulegheit í vindstyrk við veðrahvörfin.
5.10.2017 | 22:21
Tíðindalítið á norðurslóðum
Það er tíðindalítið á norðurslóðum. Það kólnar auðvitað hægt og bítandi en lítið sést þar af einhverju afgerandi þessa dagana.
Myndin sýnir spá bandarísku veðurstofunnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á laugardag, 7. október. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - á mestöllu svæðinu eru þær hvorki margar né þéttar. Litirnir sýna þykktina - grænir og ljósbláir litir allsráðandi - varla hægt að segja að það sjáist í veturinn.
Þó heimskautaloftið sé ekki kaldara en þetta er það samt þannig að usli gæti orðið úr - taki það á rás til suðurs. - Svo kólnar allt veðrahvolfið frá degi til dags - um 1 til 1,5 stig að jafnaði þar sem heiðskírt er. Það þýðir að 500 hPa-flöturinn lækkar, jafnhæðarlínum fjölgar og troðningur vex.
En til þess að gera hlýtt verður hér á landi áfram - þó engin afburðahlýindi.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 899
- Sl. sólarhring: 1114
- Sl. viku: 3289
- Frá upphafi: 2426321
Annað
- Innlit í dag: 799
- Innlit sl. viku: 2955
- Gestir í dag: 782
- IP-tölur í dag: 719
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010