Októberhiti

Nú má október heita liðinn og reyndist mjög hlýr - þó ekki alveg jafnhlýr og október í fyrra. 

w-blogg311017a

Myndin sýnir landsmeðalhita í byggð í október aftur til 1870. Ritstjóri hungurdiska reiknar landshita sér til hugarhægðar um hver mánaðamót. Við sjáum að október 2017 er meðal þeirra allrahlýjustu - telja má 7 hlýrri og þann 8. jafnhlýjan. Kosið var til Alþingis í þremur þessara sérlega hlýju mánaða. 

Það má alltaf klóra sér í höfðinu yfir því hvers vegna hitalínurit októbermánaðar er að sumu leyti öðruvísi en línurit flestra annarra mánaða. Kuldinn í lok 19. aldar er ekki jafneindreginn og samfelldur eins og í flestum mánuðum öðrum, jú, við getum séð 20.-aldarhlýskeiðið mikla, en núverandi hlýskeið byrjaði ekki fyrr en í október í fyrra - en í flestum mánuðum öðrum kringum aldamótin. Um framhaldið vitum við auðvitað ekkert. - Nú, svo er aðkenning að októberhlýskeiði snemma á síðustu öld - sem varla sér stað í öðrum mánuðum ársins. Þá komu þrír mjög hlýir októbermánuðir með skömmu millibili, 1908, 1915 og 1920 (en líka sá kaldasti, 1917). 

Fyrstu 10 mánuðir ársins 2017 hafa verið mjög hlýir, það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg311017b

Það er aðeins tvisvar sem þeir hafa verið hlýrri en nú, 2003 og 2014, og auk þess einu sinni jafnhlýir, 1939. Vegna þess hversu október í fyrra var hlýr taldi ritstjóri hungurdiska nær vonlaust að árið í ár næði því að fara fram úr 2016, - líkurnar á hlýjum október væru svo litlar - en nú er hann ekki jafnviss. Sýnist honum (í fljótu bragði) að verði nóvember og desember samtals 1,3 stigum yfir meðallagi þessara mánaða síðustu tíu árin verði árið 2017 það hlýjasta á landinu frá upphafi mælinga. - Ekki líklegt - en alveg innan þess mögulega. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það ekki borin von, meistari Trausti?
Nóvember og desember í fyrra voru með hlýjasta móti, a.m.k. hvað Reykjavík varðar. Nóvember sá 5. hlýjasti frá 1995 og desember sá næsthlýjasti á sama tíma!
Og nóvember ætlar að byrja með miklu kuldakasti í ár ...

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 31.10.2017 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 35
  • Sl. sólarhring: 135
  • Sl. viku: 1784
  • Frá upphafi: 2348662

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1563
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband