Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Útsynningur í hálfan sólarhring?

Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) nálgast lægð úr suðvestri. Hún veldur rigningu og hvassviðri megnið af föstudeginum. Eftir að skil hennar fara hér yfir á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags kemur hingað kalt loft frá Kanada í snögga heimsókn. Lítið hefur verið um slíkt í vetur.

Kortið hér að neðan (úr smiðju hirlam) gildir klukkan 6 á laugardagsmorgni. Suðurhluti Grænlands hefur gripið lægðina og stöðvað framrás hennar tímabundið - en aðalúrkomusvæðið er hér komið vel austur fyrir land. Annar úrkomubakki er við Vesturland og kalda loftið fylgir í kjölfarið á honum.

w-blogg190413a

Ef vel er að gáð má sjá að hiti í 850 hPa (strikalínur) er um -5 stig yfir Vesturlandi en -10 jafnhitalínan er suðvestur á Grænlandshafi. Mikið hæðasvæði liggur um Atlantshafið þvert og á að verða á svipuðum slóðum næstu daga ef marka má tölvuspár. Heimskautaröstin liggur norðan háþrýstisvæðisins og ber bylgjur og lægðir hratt til austurs næstu daga.

Lægðin verður ekki lengi kyrrstæð við Grænland en fer síðdegis á laugardag og á sunnudag til austurs fyrir sunnan land. Það þýðir að útsynningurinn stendur mjög stutt við. Raunar er alveg óvíst hvort áttin kemst nema augnablik norður fyrir suðvestur.

Við sjáum kjarna kalda loftsins betur á myndinni að neðan. Hún sýnir hefðbundið þykktarkort, jafnþykktarlínur eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa. Kortið gildir á sama tíma það fyrra, klukkan 6 á laugardagsmorgni.

w-blogg190413b

Mikill fleygur af lágri þykkt liggur til austurs rétt sunnan við Hvarf á Grænlandi en breiðir síðan úr sér til beggja handa. Lægst er þykktin um 5130 metrar við enda bláu örvarinnar á myndinni. Þetta loft stefnir til Íslands en sjórinn hitar það jafnt og þétt á leiðinni, þannig að það verður orðið um 30 til 40 metrum hlýrra þegar hingað er komið. Það samsvarar um 2 stigum.

Hlýi fleygurinn á undan kerfinu (úrkomusvæðið) er ekkert sérlega hlýr (nær ekki 5400 metrum) og fer þar að auki hratt hjá. Varla er því hlýinda að vænta. Taka má eftir því hversu vel Grænland stíflar kuldann vestan við, bæði þykktar- og jafnhitalínur eru sérlega þéttar yfir jöklinum - hann er í þetta sinn áhrifamikill veggur. Gríðarkalt verður á Vestur-Grænlandi um helgina.

Á efra kortinu er næsta lægð yfir Labrador og hreyfist hún hratt til austnorðausturs og á að strjúka suðurströnd Íslands á mánudag. Framhaldið verður í fangi lægðardrags á eftir þeirri lægð - nákvæmlega hvernig er ekki orðið ljóst hér og nú.

Útsynningurinn stendur að þessu sinni ekki nema um hálfan sólarhring - éljaloftið stendur við eitthvað lengur í sunnan- og síðan suðaustanátt meðan lægðin fer hjá. Við erum því varla laus við næturhálkuna á blautum vegum - því miður.


Úrkomubakki dagsins

Í dag (miðvikudaginn 17. apríl) var mjór úrkomubakki yfir landinu suðvestanverðu. Hann hreyfðist lítið, en en endurnýjaði sig sífellt í heilan sólarhring. Þá fór hann að þokast suður og leysast upp. Bakkinn sást vel á veðursjá Veðurstofunnar og myndin hér að neðan er frá því klukkan 18.

w-blogg180413a

Litakvarðinn sýnir endurkast ratsjárgeislans af úrkomunni. Ef vel er að gáð má einnig sjá endurkast geislans frá stöðinni ofan Fljótsdals eystra af jöklum Bárðarbungu og Kverkfjalla. Greinilega sést að úrkoma er mjög mismikil í úrkomubakkanum yfir Suðvesturlandi - kögglar í úrkomusvæðum benda til þess að þar sé klakkavirkni. Miklir éljaklakkar myndast og eyðast á víxl í mjög óstöðugu lofti.

Eins og oft hefur verið fjallað um á hungurdiskum áður myndast nær öll úrkoma hér á landi sem snjór. Snjórinn bráðnar síðan falli hann niður fyrir frostmarkshæð. Bráðnunin útheimtir orku sem tekin er af varma loftsins og það kólnar. Sé vindur hægur lækkar og lækkar frostmarkshæðin haldi úrkoman áfram og loks fellur snjór á jörð. Við þessar aðstæður er því að öðru jöfnu kaldast þar sem úrkoman er mest.

En við skulum líta til lofts og athuga ástandið hærra í lofthjúpnum á sama tíma og myndin sýnir, klukkan 18. Þetta er sýn evrópureiknimiðstöðvarinnar. Fyrst er það 925 hPa-flöturinn. Í dag var hann í um 640 metra hæð yfir Reykjavík.

w-blogg180413b

Heildregnar línur sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), litafletir marka hita (kvarðinn skýrist mjög við stækkun) og vindörvar sýna vindhraða og stefnu. Tveimur brúnum örvum hefur verið bætt inn á myndina til að leggja áherslu á vindáttina sitt hvoru megin lægðardrags sem merkt er með rauðu striki. Úrkomubakkinn er aðeins austan við lægðardragið. Séu vindstefnur teknar bókstaflega má sjá að austanáttin reynir að þoka kerfinu til vesturs.

Vindar ofar í lofthjúpnum eru þó ekki sammála þeirri skipan mála. Áður en við yfirgefum þessa mynd má benda á að á henni hækkar hiti að jafnaði í áttina að lægri fleti, það er áberandi hlýrra fyrir sunnan land heldur en norðan þess. Flöturinn stendur hærra fyrir norðan en sunnan. Hlý tunga fylgir lægðardraginu.

En lítum á ástandið í 500 hPa. Þar er litakvarðinn annar (athugið hann með stækkun).

w-blogg180413c

Hér er líka lægðardrag - aðeins vestar en á hinni myndinni. Vindáttir eru samt ólíkar. Vestan lægðardragsins er norðvestanátt, var úr norðri á hinni myndinni. Vindsnúningur frá norðri til norðvesturs með hæð táknar kalt aðstreymi. Austan dragsins er suðvestanátt, var úr austri á hinni myndinni. Hér blæs vindur sumsé úr nærri andstæðum áttum. Þá er erfitt að meta hvort aðstreymið er hlýtt eða kalt - við þurfum einhverjar upplýsingar úr flötunum á milli til að sjá hvorn hringinn vindsnúningurinn gengur.

Í þessu tilviki upplýsist það ekki - því logn er á mestöllu bilinu frá 1 km og upp í 4 km (ekki sýnt hér). En - við sjáum samt (með góðum vilja) að vindur í neðstu lögum reynir að beina lægðardraginu og þar með uppstreyminu í því til vesturs. En þetta sama uppstreymi hittir fyrir suðvestanátt ofan við - og þar er aðstreymið kalt. Í grófum dráttum má segja að köldu lofti sé dælt inn í uppstreymið ofanvert - og þar með helst það og úrkoman við.

En þessu fína jafnvægi linnir - og þegar þetta er skrifað er hætt að snjóa í Reykjavík og veðursjáin sýnir að úrkomubakkinn hefur hörfað til suðausturs.

Staða sem þessi er mjög algeng - vetur, sumar, vor og haust. Sé úrkomuákefðin nægilega mikil snjóar, jafnvel í fyrrihluta júnímánaðar og snemma í september. Ritstjóranum er ekki kunnugt um snjókomutilvik af þessu tagi yfir hásumarið - en einu sinni er allt fyrst, bíðum við nógu lengi.

En takið eftir því á 500 hPa myndinni að þar kólnar inn að lægri fleti - öfugt við ástandið í 925 hPa. Köld tunga fylgir lægðardraginu í þessari hæð - öfugt við 925 hPa. Athyglisvert ekki satt?


Snjóhula í apríl

Um þessar mundir er snjóþungt um landið norðaustanvert og alhvítt er einnig víða eystra og á Vestfjörðum norðanverðum. Hins vegar er snjólítið syðra þrátt fyrir að enn komi dagar þar með alhvítri jörð. Bíða verður nokkuð fram yfir mánaðamót til að hægt sé að gera snjóhulu aprílmánaðar og vetrarins alls upp. Hér verður því eingöngu rýnt í fortíðarspegilinn.

Meðaltal snjóhulu aprílmánaða áranna 1971 til 2000 er 62 prósent á Norðurlandi en ekki nema 27 prósent syðra. Nærri tveir af hverjum þremur apríldögum eru því alhvítir norðanlands en aðeins fjórði hver dagur á Suðurlandi. Fyrstu tólf aprílmánuðir nýrrar aldar hafa verið snjóléttir, snjóhula á Norðurlandi er 45 prósent þessi ár, en ekki nema 15 prósent um landið sunnanvert. Syðra er aðeins einn dagur af sjö alhvítur í apríl.

Í Reykjavík eru að meðaltali aðeins 3,5 alhvítir dagar í apríl (miðað við 1971 til 2000) en 11 á Akureyri. Hvernig sem framhaldið verður er ljóst að veturinn 2012 til 2013 (haustið innifalið) verður snjóléttur í Reykjavík, en er nú þegar orðinn sá snjóþyngsti á Akureyri frá 1999.

Snjóþyngstu aprílmánuðirnir (frá og með 1924 að telja) eru þessir á Norðurlandi (í prósentum). Norðurland er hér í víðum skilningi, svæðið frá Önundarfirði í vestri til Vattarness í austri.

ármánN-land
1983493
1990492
1953491
1951490
1995489
1947487

Hvort apríl 2013 nær að skjóta sér upp í toppsæti verður að koma í ljós. Tölurnar fyrir Suðurland (frá Dýrafirði í vestri suður og austur um til Fáskrúðsfjarðar eru mun lægri:

ármánS-land
1990470
1983456
1949456
1951453
1961450
1989447

Þarna er apríl 1990 langefstur á blaði og langt (14%) í þá tvo jafnhæstu. Apríl 1990 var svo sannarlega óvenjulegur mánuður.

Þegar þetta er skrifað (seint að kvöldi 16. apríl) er úrkomubakki yfir Suðvesturlandi - hugsanlegt er að úr honum snjói á þeim slóðum, en sólin er fljót að bræða þunnan snjó.

Ef litið er til fjalla um landið suðvestanvert má sjá að snjór er sérlega lítill að minnsta kosti neðan við 600 metra hæð. Fannir sem venjulega eru stórar í lok vetrar eru nú með rýrasta móti og verði vorið sæmilega hlýtt munu þær hverfa á fáeinum vikum. Svæði í yfir 700 til 800 metra hæð sem sést til héðan frá láglendinu eru hvít ennþá og ekki vitað hvort sá snjór sem sést er aðeins nýtt skæni eða hvort eitthvað efnismeira leynist undir.

Næstliðnar vikur hafa verið óvenjuþurrar í Reykjavík og nágrenni, úrkoma síðustu 30 daga hefur mælst aðeins 10 mm (þar af aðeins 1,5 mm í apríl). Úrkoma hefur aðeins einu sinni verið minni á sama 30-daga tímabili. Það var 1979.


Hitasveiflurnar á laugardaginn (13. apríl)

Hvaða hitasveiflur? Flestir koma sennilega af fjöllum. Í lok dags á laugardaginn var (13. apríl) kom í ljós að hæsti hiti á landinu þann daginn hafði mælst á sjálfvirku stöðinni á Mánárbakka og næsthæstur í Grímsey. En hámarkshitinn á mönnuðu stöðinni á fyrrnefnda staðnum var aðeins 2,6 stig. Um þetta spurði Óskar Sigurðsson í athugasemd á hungurdiskum, fleiri voru líka frekar hissa og ritstjórinn líka.

Hér er litið aðeins betur á málið. Til þess notum við athuganir sjálfvirku stöðvanna sem gerðar eru á 10-mínútna fresti. Hiti er reyndar mældur á mínútufresti og hæsti hiti innan hverra næstliðinna 10-mínútna er talinn sem hámark þeirra. Oftast er sáralítill munur á hámarki og lágmarki innan sömu tíu mínútna. Það kemur frekar á óvart að hitinn í hefðbundna skýlinu á Mánárbakka skyldi ekki vera nær hámarki sjálfvirku stöðvarinnar - en nokkur munur er á viðbragðstíma skýlis og hólka.

Fyrst er Mánárbakki.

w-blogg160413a

Lóðrétti ásinn sýnir hitann, en sá lárétti tíma sólarhringsins. Fyrstu 7 klukkustundirnar er lítil hreyfing á hitanum, en þá fellur hann snögglega um nærri 2 stig áður en hann fer að stíga jafnt og þétt. Rétt fyrir klukkan 14 stekkur hann upp mörg stig og dettur síðan niður aftur skömmu síðar. Allur atburðurinn stendur innan við 30 mínútur. Rétt fyrir klukkan 16 hækkar hitinn snögglega aftur og síðan jafnt og þétt til klukkan 16:50 og fer þá í hámark dagsins 6,2 stig. Á næstu 10-mínútum fellur hann síðan niður í 0,9 stig.

Næsta mynd sýnir það sama - en rakastigið að auki (hægri kvarði í prósentum).

w-blogg160413b

Grái ferillinn er hámarkshitinn eins og áður, en sá rauði sýnir rakastigið. Við sjáum greinilega að rakastigið fellur umtalsvert um leið og hitatopparnir tveir ganga yfir. Þessi hegðan bendir ótvírætt til þess að þurrara og hlýrra loft að ofan sé að blandast niður í stöðvarloftið. Svona sveiflur eru ólíklegar sé einhver teljandi vindur (þó eru til dæmi um það) og líka ólíklegar í stafalogni.

Síðasta myndin sýnir hitabreytingar í Grímsey, í Ólafsfirði og við Mývatn þennan sama dag. Athuga ber að hitakvarðinn er annar vegna þess hversu mikið frostið er við Mývatn. Hitasveiflurnar sýnast því minni heldur en á Mánárbakkaritunum.

w-blogg160413c

Í Grímsey kemur aðeins einn hitatoppur, milli klukkan 13 og 14. Stærð hans er um 5 stig, heldur minni en á Mánárbakka. Grímsey er líka langt frá öllum fjöllum en nærvera þeirra stóreykur á líkindi atburða af þessu tagi.

Á Ólafsfirði eru stóru topparnir þrír - og að auki er ámóta áberandi dæld (lágmark) um kl. 20. Við Mývatn er einn toppur mestur (um 5 stiga sveifla). Hann gengur yfir um klukkan 13.

Nokkuð langt var frá því að tölvuspár næðu að spá þessum hita. Hins vegar fór kröpp smálægð til vesturs fyrir norðan land fyrr um daginn og í henni var greinilegt mættishitahámark - um 5 stig í lægðarmiðju í 850 hPa-fletinum. Þetta er ekki alveg nóg til að skýra hámörkin í Grímsey og á Mánárbakka. Trúlega hefur slóði af hlýju lofti (sem tölvurnar sáu ekki) legið yfir norðurströndinni í kjölfari lægðarinnar og honum slegið niður fyrir hitahvörf (jafnvel fleiri en ein yfir landi) sem hafa þá legið yfir svæðinu.

Skemmtilegt ekki satt? En er þetta algengt? Já, furðualgengt þegar litið er á landið í heild og stundum stórgerðara heldur en þetta dæmi sýnir. En þetta er sjaldgæft í Grímsey. Þakka Óskari fyrir að ýta á málið.


Illviðratíðni í apríl (örstuttur fróðleiksmoli)

Þótt illviðri séu stundum hörð í apríl og geti stöku sinnum skákað vetrarveðrum er tíðni þeirra mun minni heldur en í mars. Það sést í hvaða illviðramæli sem vera skal, t.d. þeim sem taflan hér að neðan byggir á.

Tekinn var saman fjöldi daga þegar hámarksvindhraði hefur náð 20 m/s á að minnsta kosti 15% veðurstöðva. Frá 1949 fundust alls 1528 slíkir dagar. Þeir dreifast mjög ójafnt á mánuði eins og taflan sýnir.

mánillviðradaghlutfall
jan29915,1
feb28015,5
mar21811,0
apr723,8
maí231,2
jún150,8
júl50,3
ágú90,5
sep603,1
okt1316,6
nóv1819,4
des23511,8

Dagarnir eru flestir í janúar, því næst í febrúar og desember. Reyndar er febrúar styttri en hinir mánuðirnir og þegar búið er að leiðrétta fyrir því fer hann rétt upp fyrir janúar sem illviðrasamasti mánuður ársins á þessu tímabili.

Fyrri dálkur töflunnar sýnir einfaldlega fjölda illviðradaga á 64 ára tímabilinu, en sá aftari sýnir líkurnar á að einhver dagur í mánuðinum sé illviðradagur af þessu tagi. Það eru um 15% daga í janúar og febrúar, rúmlega einn af sjö að jafnaði.

Mars er svipaður og desember, nóvember litlu lægri, en apríl og september mun neðar í talningunni. Í apríl ekki nema fjórir dagar af hundrað - rúmlega einn í mánuði. Maí er síðan enn neðar. Illviðri eru fátíðust í júlí og ágúst.

Flestir voru illviðradagarnir í apríl 1953, fimm talsins. Samkvæmt þessu máli voru verstu veðrin þessi:

 ármán dagurátt
12011410suður
21990411suðvestur
31992424norðaustur
4195342norður
51990425norðvestur
61971417norðaustur
7196943suðvestur
81990426norðvestur
9195343norður
101995412suðvestur
111963410norðaustur
121963411norður

Þetta eru tíu veður - en tólf dagar, tvö veðranna eiga tvo daga hvort á listanum. Efst er illviðrið mikla þann 10. apríl 2011. Um það var fjallað á hungurdiskum á sínum tíma, bæði 10. og 11. apríl


Opin staða í nokkra daga

Lægðasvæðið djúpa suður í hafi (sérlega djúpt miðað við árstíma) sendir nú úrkomukerfi í átt til landsins. Þegar þetta er skrifað (seint á laugardagskvöldi) eru lægðarmiðjurnar orðnar tvær og eiga að snúast í kringum hvora aðra næstu daga jafnframt því að hreyfast til norðausturs fyrir suðaustan land. Norðanáttin heldur því áfram - verður þó eitthvað austlægari meðan kerfið er sunnan við land.

Það er þónokkur ruðningur í þessu og ekki ljóst hvað úr verður síðar í vikunni. Við lítum á norðurhvelskort sem sýnir hæð 500 hPa flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litafletir) eins og evrópureiknimiðstöðin ætlar hana verða um hádegi á mánudag (15. apríl).

w-blogg140413a

Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún sýnir norðurhvel jarðar suður fyrir 30. breiddarbaug. Við sjáum gríðarbreitt lægðardrag ná vestan frá Kanada alveg til Evrópu. Sú breyting hefur orðið frá stöðunni að undanförnu er að heimskautaröstin sveigir nú til norðausturs um Bretlandseyjar og Skandinavíu. Mikill kuldapollur er við norðurskautið - en hefur grynnst áberandi mikið á undanförnum vikum. Rétt grillir nú í fjólubláa, kaldasta litinn - en hann mun næstu vikurnar koma og fara á víxl.

Lítill vindur er í háloftunum yfir Íslandi (jafnhæðarlínur mjög gisnar) en vanir kortalesendur sjá greinilega að þykktarbratti er töluverður (litir eru þéttir - það sést betur sé kortið stækkað) á þeim slóðum. Þykktarbratti án vinds í háloftum táknar að vindur er því meiri í neðstu lögum - hér úr norðaustri. Norðaustanáttin heldur því áfram.

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár á annan mánuð - þessa vikuna verður hann hins vegar lágur. Einhver tilbreyting í því? Loftþrýstifallið er reyndar hluti af talsverðu losi á heildarhringrásinni og meðan breytingin gengur yfir er staðan opnari heldur en verið hefur. Um mánaðamótin mars-apríl í fyrra hrökk hringrásin milli gíra, eftir 14 mánaða sunnanátt skipti yfir í norður og austur. Skyldi breyting verða nú?

 


Frekar óvenjulegt (en ekki út úr korti)

Síðdegis í dag (föstudag 12. apríl) gat að líta óvenjulegt skýjafar við Faxaflóa. Háreistir éljaklakkar fóru um sviðið. Þeir óðu upp - varla búnir að myndast þegar öll úrkoman var fallin úr þeim - harla rýr að vöxtum enda var rakastig í Reykjavík á sama tíma innan við 40%. Sól skein á milli klakkanna og í gegnum éljadrögin - í norðanáttinni. Vont að geta ekki sýnt myndir af þessu en það er varla hægt að mynda allt - mikið vantar upp á heildaráhrifin.

En hvað um það. Kortið hér að neðan má minna á þetta ástand. Ekki er þó beinlínis hægt að sjá það af kortinu einu saman. Það gilti klukkan 15 í dag (þegar klakkarnir voru upp á sitt besta).

w-blogg130413a

Tvennt er kunnuglegt á kortinu, þarna eru venjulegar vindörvar og sýna vind í 10 metra hæð og sömuleiðis má sjá hefðbundnar jafnþrýstilínur taka sinn venjulega norðaustanáttarsveig yfir landinu. Litafletirnir sýna hins vegar hæð efra borðs jaðarlagsins svonefnda. Lítillega er um það fjallað í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Þar segir m.a.: Jaðarlagið er skilgreint sem sá hluti veðrahvolfsins sem er undir svo nánum áhrifum frá yfirborði jarðar að fréttir af breytingum þar geti borist á klukkustund eða minna í gegnum allt lagið.

Bláu litirnir sýna þunnt jaðarlag - efra borðið er ekki nema í um 200 metra hæð yfir sýndarVatnajökli líkansins. Rauði liturinn við vesturströnd Íslands táknar þykkara jaðarlag, hæst er í það í punkti rétt við Reykjavík, 2742 metrar (nákvæmt skal það vera). Á svona korti sýna rauðu svæðin sérlega óstöðugt loft - í dag var hrært svo ört að varla var hægt að fylgjast með.

En það er fleira óvenjulegt á ferðinni. Þar er sérlega djúp lægð  - langt vestur af Írlandi. Öllu lægri tölur sjást ekki í apríl. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hádegi á laugardag. Táknmál þess er kunnuglegt, jafnþrýstilínur, úrkoma og hiti í 850 hPa-fletinum (strikalínur).

w-blogg130413b

Lægðin hefur áhrif á mjög stóru svæði og þar á meðal á Íslandi en ekki fyrr en á sunnudag - þá farin að grynnast (en leiðindi samt). Við sjáum tvær smálægðir á kortinu við Ísland, önnur er fyrir suðaustan land var nokkuð öflug í dag (föstudag) en farin að grynnast um hádegi á morgun - kannski kemur hún aftur til vesturs með Suðurlandi. Hin lægðin er við Vestfirði - býsna kröpp og er þarna á leið til suðvesturs.

Þótt lægðin suður í hafi sé óvenjuleg er ástandið í 500 hPa jafnvel enn óvenjulegra. Þetta er spá bandarísku veðurstofunnar (fyrir fljótfærni ritstjórans).

w-blogg130413c

Hér eru jafnhæðarlínur heildregnar, en rauðar strikalínur sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Miðja kuldapollsins sem valdið hefur köldu veðri undanfarna daga er þarna rétt undan Vesturlandi. Það er 5100 metra jafnþykktarlínan sem kemur inn á land. Þessi þykkt er dæmigerð fyrir kaldan útsynning að vetrarlagi - suðvestanátt er reyndar við Suðvesturland í þessari hæð - en hún nær ekki niður orðin að veikri norðvestanátt við jörð (sjá efra kort).

En 500 hPa-hæðin í lægðarmiðjunni suður í hafi er 4980 metrar (ösmár hringur) - það er óvenjulegt svo sunnarlega undir miðjan apríl. Aðeins hálfur mánuður tæpur í sumardaginn fyrsta.


Úrkomubakkar

Þegar kalt loft umlykur landið eins og nú eru úrkomubakkar af ýmsu tagi vanir að skjóta upp kollinum. Sumir þeirra vefjast upp í kringum smálægðir. Mesta furða er hversu vel tölvuspárnar ná þessu nú á síðustu árum.

Harmonie-líkanið sem Veðurstofan er nú með í tilraunarekstri er eitt þeirra. Það nær að vísu ekki nema rétt út fyrir Ísland, utar ræður evrópureiknimiðstöðin öllu. Út úr líkaninu eru teknar upplýsingar um fjölmarga veðurþætti á klukkustundar fresti. Hér að neðan er eitt þessara korta.

Það sýnir sjávarmálsþrýsting, vind og úrkomu klukkan 18 síðdegis á föstudegi 12. apríl.

w-blogg120413a

Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Einnig má merkja daufar bláar strikalínur og sýna þær hita í 850 hPa-fletinum - þar er kalt frostið um -15 stig yfir Reykjavík. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og stefnu. Lituð svæði sýna úrkomuákefð - klukkustundarúrkomu. Tveir úrkomubakkar eru áberandi. Annar þeirra er rétt fyrir sunnan land og er að skila upp í 10 mm úrkomu á einni klukkustund þar sem mest er. Það er mikil snjókoma.

Hinn bakkinn er við norðurströndina. Af kortunum fyrir og eftir má ráða að þessi bakki kemur úr norðaustri og gengur til suðvesturs inn á land - en leysist upp að mestu þegar inn á landið kemur. Annars eru snjókomubakkar nokkuð algengir á þessum slóðum og geta við bestu skilyrði setið þar fastir langtímum saman. Eins og kunnugir vita er oft snjókoma á annesjum norðvestanlands þótt bjart veður sé þar inni í sveitum. Það eru fleiri en ein ástæða fyrir því að þessu er svona háttað og eitthvað hefur verið um það fjallað á hungurdiskum áður.

Á klukkustundarkortum verða éljabakkar oftast mjög mjóslegnir - sé úrkoma þriggja klukkustunda lögð saman verða þeir breiðari, smyrjast út. Við lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á sama tíma - nema að hér er safnað saman þriggja klukkustunda úrkomu.

w-blogg120413b

Báðir úrkomubakkar harmoniekortsins eru til staðar á þessu korti. Bakkinn veið Norðurland er útsmurðari en hámarkið í honum er 1,5 til 3,0 mm á þremur tímum. Blái liturinn í bakkanum suðurundan sýnir 5 til 10 mm á þremur klukkustundum. Það er samt þónokkur snjókoma. 

Á þessu korti má einnig sjá úrkomutegund. Örsmáir krossar (kortið batnar við stækkun) tákna snjókomu en þríhyrningar klakkaúrkomu (él eða sambreyskju élja og breiðuúrkomu). Hér nær úrkoman aðeins inn á land - þar eru engir þríhyrningar. Sennilega kembir bliku fram af bakkanum. Það kemur í ljós hvort úrkoman kemst inn á land í raun og veru.

Síðasta kort dagsins sýnir klakkaþátt úrkomunnar eingöngu - á heldur stærra svæði.

w-blogg120413c

Klakkaúrkoman nær ekki inn á land (hvort hún svo gerir það er annað mál). Bakkinn hringar sig í kringum nokkuð krappa smálægð sem á að fara í hringi fram á laugardag. Spárnar segja aðra smálægð myndast fyrir norðaustan land og að hún að fari til vesturs skammt úti af Vestfjörðum síðdegis á laugardag. Það er ansi vel af sér vikið reiknist þetta allt rétt.

Fyrir ofan lægðina fyrir sunnan land er suðvestanátt í háloftum og kembir fram af háreistum skýjum éljabakkans. Skýjaglópar fylgjast auðvitað með því í bjartviðri. Alltaf nóg að sjá.


Norðaustanátt

Þegar þetta er skrifað (á miðvikudagskvöldi 10. apríl) er komið frost um land allt - líka í Surtsey. Sólin bætir væntanlega í hitann yfir hádaginn á morgun - alla vega sunnan undir vegg á Suðurlandi. Í pistlinum í gær var gefið í skyn að vald kuldapollsins yrði hvað mest undir morgun á fimmtudag og nýjar spár eru á svipaðri skoðun.

Á gervihnattarmyndinni hér að neðan má sjá næsta dæmigert skýjafar í norðaustanáttinni. Hún er numin laust fyrir kl. 23 nú í kvöld. Hún batnar talsvert við stækkun.

w-blogg110413

Léttskýjað eða heiðskírt er yfir mestöllu landinu vestanverðu. Allaf má dást að bólstraskýjalestunum. Hér eru þær áberandi bæði fyrir norðan og vestan land. Þær haldast saman jafnvel í hundruð kílómetra, geta meira að segja sveiflast til án þess að ruglast. Auðveldast er að hugsa sér að lóðrétt iða loftsins geri þetta mögulegt. Ímyndum okkur langar raðir skopparakringla berast rólega áfram með vindinum. Þeir sem leikið hafa sér að skopparakringlum - eða fært þær sér í nyt í snúðáttavitum vita að þær eru býsna stöðugar á stefnunni. Iðan varðveitist von úr viti - en þolir samt ekki alveg hvað sem er t.d. þegar vindrastir lenda saman hlémegin í landslagi.

Þegar kemur nokkuð í suðvestur af landinu verður lestamynstrið grófara og riðlast að nokkru enda stendur grautargerð þar yfir, hafið kyndir undir og býr til óreglu og ólgu í lóðréttri hringrás og spillir fyrir kerfisbundnum hreyfingum skopparakringlanna.

Nú - svo er talsverður skýjabakki sunnan við landið og má þar jafnvel sjá dálitla lægð beint suður af Eyrarbakka. Tölvuspár eru með lægð þessa inni þótt lítil sé og senda hana í hæga hreyfingu til suðurs og verður hún þá úr sögunni. Hins vegar myndast önnur í stað hennar og á svipuðum slóðum á morgun eða aðfaranótt föstudags. Það er sannarlega erfitt að fylgjast með þessum smálægðum myndast og eyðast - ekki er nóg að horfa á myndir eða kort einu sinni á dag - þá fer maður um leið að ruglast á lægðasystrum.

Lægðin sem myndast á morgun á að verða býsna kröpp. Reiknimiðstöðvar eru allar með hana - en gera misjafnt úr. Sennilega kemur hún eitthvað við sögu hér á landi á sinni æfi - það gæti falist í hvassviðri og snjókomu - en aðeins í Vestmannaeyjum og í Mýrdal - en snjókoman gæti líka náð langt inn á land - svo er ekki víst að vart verði við neitt. Hér er auðvitað ekki tekin nein afstaða til þess hver raunveruleikinn verður - en veðurnörd fylgjast auðvitað með veðurspám.

Rétt er líka að benda á háskýin þunnu og hvítu í efra vinstra horni myndarinnar. Þau fylgja háloftalægðardraginu sem bent var á í pistli gærdagsins. Ef því tekst vel til ýtir það undir síðari smálægðina og veldur því að hún verður mun kraftmeiri en sú sem við sjáum á myndinni að ofan.

Svo er þetta með laugardagslægðina stóru - í gær var henni spáð niður í 943 hPa vestur af Írlandi. Slík tala er mjög óvenjuleg í apríl (Íslandsmetið í lágþrýstingi í apríl er um 951 hPa). Spáin í dag (miðvikudag) er ekki eins krassandi - en samt 952 hPa og það er líka óvenju lágt. Lægðin sjálf kemur ekki hingað - en við fáum veðragarða úr henni hingað norður. Það hlýnar þá kannski eitthvað? Eða styrkist norðaustanáttin með einhverjum áframleiðindum?


Kíkt á kuldapoll

Lægðardragið sem hungurdiskar fjölluðu um í gær er nú (á þriðjudagskvöldi) komið suður yfir landið - eða um það bil. Því fylgir kólnandi veður og er þegar komið talsvert frost á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Eins og vill gerast hærist hins vegar upp í hitahvörfum innsveita á Norðausturlandi og hlýnar þar í bili um leið og vindur vex.

Á þykktarkortum verður kuldinn í hámarki aðfaranótt fimmtudags gildir þykktarkortið hér að neðan klukkan 6 á fimmtudagsmorgni (11. apríl). Evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg100413a

Fastir lesendur kannast við svipinn. Heildregnu línurnar sýna þykktina, því minni sem hún er því kaldara er í neðri hluta veðrahvolfs. Á kortinu er hún lægst yfir hafísnum við Norðaustur-Grænland, 4950 metrar eða svo. Það er 5020 metra jafnþykktarlínan sem gengur inn á Vestfirði og austur um Norðurland. Litafletir sýna hita í 850 hPa, kvarðinn batnar mjög við stækkun. Flöturinn er þarna í um 1350 metra hæð yfir landinu, snertir efstu fjöll.  

Eftir því sem kuldinn breiðir meira úr sér til suðurs á hann erfiðara uppdráttar. Sjórinn er drjúgur við að draga úr honum. Loft er mjög óstöðugt þegar kalt er yfir hlýjum sjó, bæði er skynvarmaflæði frá yfirborði hans mikið auk þess sem talsvert gufar upp af vatni. Sá eimur þéttist þegar loftið lyftist frekar og skilar dulvarmanum aftur.

Næsta mynd sýnir úrkomu í kringum Ísland á sama tíma og þykktarkortið gildir, klukkan 6 á fimmtudagsmorgni. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar.

w-blogg100413b

Af jafnþrýstilínum og vindörvum má ráða að norðaustanátt er ríkjandi á nærri því öllu kortinu. Úrkomulaust er yfir ísnum og kalda sjónum við Grænland - en fljótlega eftir að loftið sem þaðan streymir kemur út yfir hlýrri sjó byrjar snjókoma eða éljagangur. Litirnir sýna úrkomuákefðina - hún er ekkert sérlega mikil fyrir norðan land en er meiri suðaustur af landinu þar sem kalt loft er líka á ferðinni yfir enn hlýrri sjó.

Litlu þríhyrningarnir sýna að víðast hvar er um klakkaúrkomu að ræða - ýmist éljaklakka eina og sér eða þá sambreyskju klakka- og breiðuskýja. Litlir krossar marka snjókomu - mestöll úrkoman í kringum landið er snjór, enda er frostið í 850 hPa (strikalínur) í kringum -15 stig yfir landinu.

Á kortinu er úrkoman í löngum böndum eða görðum sem hér liggja í aðalatriðum nokkuð samsíða jafnþrýstilínunum. Fari þessir garðar að snúa upp á sig er smálægðamyndun í undirbúningi - og það er einmitt þannig. Reiknimiðstöðvar eru á þessu stigi ekki sammála um annað en að slík lægð myndist fyrir sunnan land á fimmtudag - og hugsanlega önnur vestar, syðst á Grænlandshafi. Örlög þessara lægða eru óráðin.

Bandaríska veðurstofan sendir lægðina upp undir Reykjanes með tilheyrandi snjókomu og síðan hláku - en evrópureiknimiðstöðin er heldur hógværari - lætur lægðina myndast austar og þar með er snjókoma ólíklegri hér suðvestanlands. 

En þetta ræðst að nokkru af öðru háloftadragi sem kemur yfir Grænland á aðfaranótt fimmtudags. Það má sjá á kortinu hér að neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og litir sýna hita í fletinum.

w-blogg100413c

Lægðardragið er merkt með hvítum strikum. Það gangsetur smálægðirnar - eina eða fleiri. Við sjáum að ákveðin norðvestanátt er yfir landinu í 500 hPa, í 700 hPa er vindur norðlægur, en norðaustlægur í lægri flötum. Snúningur á vindi á móti sólargangi með hæð táknar að kalt aðstreymi er ríkjandi í neðri hluta veðrahvolfs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband