Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Býsna kalt - en vonandi ekki svo hvasst

Næstu daga er spáð allmiklu kuldakasti. Þykktin yfir Suðurlandi á að fara niður í 5080 metra á fimmtudag (11. apríl) eða aðfaranótt föstudags og enn neðar fer hún fyrir norðan, jafnvel niður i 5000 metra. Þetta eru vetrartölur. En þegar þetta er skrifað er bara mánudagur og það er oft þannig að sjórinn er drýgri við upphitun heldur en líkön gera ráð fyrir svo marga daga fram í tímann. En verði hlýrra en líkön gera ráð fyrir má gjarnan einnig gera ráð fyrir því að greiðsla í formi meiri úrkomu eða hvassari vinds verði að koma í stað kuldabroddsins sem sleppt er.

Enda deila líkön um þetta atriði - nær snjókomulægð sér á strik undan Suðvesturlandi eða ekki - eða grefur hún um sig annars staðar?

Á miðvikudaginn gerir evrópureiknimiðstöðin ráð fyrir slíkri lægð ekki langt suðaustur af Vestmannaeyjum eins og sjá má á 925 hPa-kortinu hér að neðan.

w-blogg090413a

Jafnhæðarlínur eru heilstrikaðar, vind og stefnu hans má ráða af vindörvunum, en litafletir sýna hitann. Kortið batnar talsvert við stækkun. Við sjáum vel mikinn hitabratta yfir landinu og í námunda við það. Þegar þetta er skrifað gerir reiknimiðstöðin ráð fyrir því að lægðin litla hörfi frekar til suðurs og komi ekki aftur upp að landinu fyrr en á laugardag - þá nærri uppétin af mikilli lægð suður í hafi. Sú lægð á þá að fara niður í 942 hPa. Þetta er svo lág tala í apríl að full ástæða er til að efast um að spáin rætist. En maður veit aldrei.

Á þriðjudag, 9. apríl er 50 ára afmæli upphafs páskahretsins mikla 1963. Eins og minnst var á í pistli í gær er ættarsvipur með stöðunni nú og þá. Í bæði skiptin veldur lægðardrag sem kemur yfir Grænland úr norðvestri norðankasti. Er þessi samlega - sama almanaksdag - fyrst og fremst merki um það hversu algeng staða sem þessi er. Af því að þetta veðurkerfi - norðvestandragið - sést mjög illa á hefðbundnum veðurkortum fyrr en veðrið er rúmlega skollið á er þess nærri því aldrei getið í almennum veðurfréttum t.d. í sjónvarpi. Það skellur bara á eitthvað norðanveður af tilefnislitlu.

Flestum er auðvitað alveg nákvæmlega sama hvað veldur - bara að norðanáttinni sé rétt spáð. Ritstjórinn ber fulla virðingu fyrir þessu viðhorfi - en finnst sagan samt auðlærðari ef upplýsingar um veðurkerfi fylgja.

En í viðhengjum eru upplýsingabrot um páskahretið 1963. Textaskjalið inniheldur lista um meðal-, hámarks- og lágmarkshita á landinu fram eftir apríl 1963 auk meðalvindhraða. Snerpa veðursins sést vel í þessum lista. Annað pdf-skjalið sýnir Íslandskort frá kl. 9 til 21 þann 9. apríl. Þar geta vanir menn fylgst með veðrinu á 3 klukkustunda fresti og þeir elstu rifjað upp hvar þeir voru þennan dag. Hitt pdf-skjalið sýnir aftur á móti hvernig amerísku endurgreiningarnar tvær taka á veðrinu í 500 og 1000 hPa klukkan 18 þennan dag.

Hvorug greiningin nær veðrinu alveg, sú sem er í hærri upplausn (merkt ncep) nær háloftaástandinu mun betur, en 20. aldargreiningin er nokkuð langt frá sanni í háloftum. Í 1000 hPa liggur sannleikurinn einhvers staðar milli greininganna tveggja. Báðar ná þær þó þeim gríðarlega vindstreng sem fylgdi veðrinu - og vindátt er ekki fjarri lagi.

Vonandi að einhverjir hafi gaman af.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lægðardrag úr norðvestri

Háloftalægðardrög sem koma úr norðvestri yfir Grænland eru leiðinleg á öllum árstímum. Ekki þó alveg öll því það skiptir mjög miklu máli hvar og hvernig þau fara yfir jökulinn. Fleira skiptir líka máli t.d. hversu mikið af köldu lofti er í „biðstöðu“ yfir ísaslóðum austan Grænlands. Ekki er ætlunin hér að greina það í smáatriðum. Mörg verstu hret sem gerir hér á landi að vor- og sumarlagi eru þessarar ættar. Meinlausu lægðardrögin eru þó miklu fleiri - og svo allt þar á milli.

Lítum á mynd sem sýnir þrjár dæmigerðar leiðir lægða sem koma úr norðvestri. Kortagrunnurinn er eftir Þórð Arason.

w-blogg080413aa

Hér sjást þrjár dæmigerðar leiðir. Sú austasta (dökkbláa) sýnir drag  (lægð) sem rennur hjá án þess að aflagast mikið af Grænlandi. Þá kemur veggur af köldu lofti suður yfir land. Snögglega skiptir úr hægviðri og yfir í hvassa norðan- eða norðaustanátt. Lægð myndast þá um síðir fyrir suðaustan land eða jafnvel enn sunnar.

Komi lægðardragið yfir Grænland vestar, nær fjallgarðurinn betra taki á því og skerpir á draginu. Þá myndast lægð yfir landinu eða fyrir vestan það og að baki hennar gengur í hvassa norðaustanátt. Þriðja leiðin, sú syðsta, er að jafnaði hagkvæmust. Þá myndast lægð fyrir vestan land og fer e.t.v. ekki langt til austurs. Hugsanlegt er að landið sleppi við norðaustanáttina. (En samt hafa nokkur allra verstu veðrin farið þessa leið).

Þetta er allt saman ansi mikil einföldun - ekki síst vegna þess að drögin eru svo misöflug þegar þau koma að Grænlandi - eins skiptir mjög miklu máli hver breidd og krappi þeirra er.

Nú stefnir í að eitt þessara draga komi að landinu á þriðjudaginn og fari suðaustur fyrir land. Það bregður þó út af myndinni hér að ofan þannig að annað kemur óþægilega stutt á eftir því og truflar myndina. Það er alltaf eitthvað sem gerir það.

En lítum á 500 hPa-kort sem sýnir hæð flatarins ásamt vind og hita í honum um hádegi á þriðjudag (9. apríl).

w-blogg080413a

Þetta lægðardrag er býsna skarpt og er á leið til suðausturs. Á eftir því fylgir gusa af köldu lofti beint úr norðri. Þetta minnir dálítið á kuldakastið í byrjun marsmánaðar - en ekki eins slæmt. Við sjávarmál (ekki sýnt) er lægð að myndast undan Vestfjörðum. Lægðin er þó mjög flöt á annað borð - suðvestanátt varla til á suðausturhlið hennar - en allhvöss eða hvöss norðaustanátt er á hitt borðið. Sú norðaustanátt fylgir síðan lægðinni á leið hennar suðaustur og nær um síðir um land allt.

Í marskastinu komst kalda loftið vel suður fyrir land - en hlýja loftið sótti síðan aftur á af eftirminnilegu harðfylgi. Þá myndaðist lægðardrag sem fór hægt til vesturs við Suðurland - en lokuð lægð sýndi sig ekki fyrr en vestur undir Grænlandi - svo mikil var norðaustanáttin.

Núna virðast svipaðir hlutir eiga að gerast. Þó þannig að þriðjudagslægðin grafist niður undan Suðvesturlandi og taki það hlutverk sem lægðardragið hafði í marskastinu. Í dag spáir evrópureiknimiðstöðin því að lægðin fari suður á um 62 gráður norðurbreiddar síðdegis á fimmtudag en snúi þá við og takist á við kalda loftið með tilheyrandi slyddu eða hríð.

Þótt þetta sé allt með vægari hætti heldur en í marsveðrinu eru átök komandi viku samt talsvert sjónarspil sem alla vega sum veðurnörd ættu að hafa gaman af að fylgjast með. Víst er að hefði vikan sem nú fer í hönd verið dymbilvika hefði þessi atgangur kallast páskahret.

En á þriðjudaginn (9. apríl) eru nákvæmlega 50 ár frá frægasta páskahreti á síðari hluta 20. aldar. Það var sömu ættar og hretið okkar. Lægðardrag kom úr norðvestri yfir Grænland og fór suður um land. Á kortinu hér að neðan má sjá útgáfu amerísku ncep-greiningarinnar af lægðardraginu - á hádegi 9. apríl 1963, sama mánaðardag og myndin hér að ofan.

w-blogg080413b

Jafnhæðarlínur eru dregnar með sama bili og þær eru á nútímakortinu. Sjá má að hér er um miklu verri stöðu að ræða heldur en í dag. Á fyrra korti eru 4 jafnhæðarbil sem þekja Ísland en átta á þessu. Þó er það svo að í greiningunni vantar upp á snerpu raunveruleikans.

Hungurdiskar munu einhvern næstu daga fjalla meira um páskahretið mikla - ef hretaþrek ritstjórans endist.


Meinlaust aprílveður

Þetta meinlausa veður í dag (laugardag) verður víst að flokkast undir kulda. Hámarkshiti á landinu rétt skreið yfir 5 stig og lægsta lágmarkið um -20 stig (á Brúarjökli). Á miðnætti var -14 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum og frost á láglendi um nánast allt land. Dægursveifla var lítil um landið vestanvert í skýjuðu veðri og norðaustanlands dregur snjórinn úr dægursveiflunni þar sem hann liggur. En vindur er hægur og veðrið því meinlaust (að slepptri laumulegri hálku sem varast ber).

Spákort morgundagsins (sunnudags 7. apríl klukkan 18) er líka rólegt að sjá. Það er fengið úr hirlam-líkani því sem danska veðurstofan rekur.

w-blogg070413

Mikið háþrýstisvæði er í námunda við Ísland og norður í höf en kröftug en þó minnkandi lægð suður af Grænlandi. Enn er frekar svalt í Evrópu, snjókomu spáð í Skotlandi og Írum þykir kalt - írska veðurstofan varar við kulda í nótt. Þýska veðurstofan er einnig í kuldagír. Þegar nánar er að gáð sjáum við -5 stiga jafnhitalínuna (blá strikalina) þvælast yfir Bretlandi og suður á Þýskaland.

Við sitjum við -10 línuna, hún er rétt norðan við land á kortinu. Þetta breytist lítið á mánudaginn í námunda við okkur. Á þriðjudaginn færist kuldinn í aukana og vindur vex, en ekki er enn hægt að sjá hvort hægt verður að tala um hret. Orðið felur í sér eitthvað meira heldur en hita rétt undir meðallagi og hægan vind. Páskarnir eru liðnir þannig að ekki er hægt að tala um páskahret - ætli hrafnahret sé það næsta í langri röð vorhretanafna?

Spár í dag (laugardag) eru heldur vægari varðandi hretið heldur en var í gær (sjá næsta pistil á undan þessum) - vonandi heldur sú þróun áfram. En það munar samt um 4 til 5 stiga kólnun frá því sem var í dag og öllu meiri vind.


Veturinn klórar í bakkann

Veturinn á norðurslóðum klórar nú aðeins í bakkann en vonandi fer hann samt ekki að halda upp á 50 ára afmæli páskahretsins mikla 1963 á þriðjudaginn (9. apríl). Dálítill ættarsvipur er samt með stöðunni nú og þá - en nei. Við lítum samt á norðurhvelskort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á sunnudag (7. apríl).

w-blogg060413a

Ísland er fyrir miðju rétt neðan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Þar sem þær eru þéttar er hvasst í 500 hPa. Þykktin er sýnd með litaflötum, fjólublái bletturinn er yfir Svalbarða - þar er þykktin minni en 4920 metrar.

Ísland er í norðvestanátt, hæðarhryggur er vestan við land og við í heldur kaldara lofti heldur en verið hefur, það er græni liturinn sem hefur verið að sleikja okkur síðustu dagana. Langt er suður í sumarið - á sumrin viljum við helst að þykktin sé meiri en 5460 metrar (sandguli liturinn). Hún er það hins vegar ekki alltaf hvorki á þeim tíma né öðrum. Við verðum samt að gera einhverjar kröfur.

Það sem við viljum ekki er að kuldapollurinn stóri fari að senda okkur lægðardrög úr norðvestri og norðri - 1963 má segja að hann hafi komið til okkar í heilu lagi. Með hjálp þó, kringlóttir kuldapollar hreyfast yfirleitt ekki langt nema að þeir séu aflagaðir af tilfallandi lægðardrögum - eða hæðarhryggjum.

Örin á kortinu bendir á mjög smáa háloftalægð sem liggur í buktinni norðantil í Baffinsflóa. Hún er (ef trúa má spánum) einmitt að myndast núna (seint á föstudagskvöldi). Það gerist þannig að lægðardrag í jaðri kuldapollsins mikla teygist með mjög kalt loft í farteskinu vestur á Norður-Grænland, þar missir kalda loftið fótanna og bókstaflega dettur fram af jöklinum.

Á þeirri eyðiströnd ganga jöklar í sjó fram og lítið er um veðurstöðvar - hvort þar gerir fárviðri hefur ritstjórinn ekki græna glóru um. Niðurstaðan er sú að loftið tekur veðrahvörfin með sér niður í fallinu - spáin segir alveg niður að sjávarmáli. Hér verður að vísu um sýndarveðrahvörf að ræða - hin einu og sönnu hrökkva til baka. Þetta er eins og veðrahvörfin slitni í sundur og verði tvöföld.

En við lítum á hið skemmtilega veðrahvarfakort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ísland er við Í-ið á myndinni og Baffinsland við B-ið. Litakvarði og tölur til aðstoðar sýna hversu hár þrýstingur er við veðrahvörfin. Á okkar slóðum eru þau á þessum árstíma yfirleitt á bilinu 300 til 200 hPa. Hér þarf að athuga að því lægri sem talan er því hærri eru veðrahvörfin - þrýstingur fellur með hæð.

w-blogg060413b

Þetta kort gildir á morgun - laugardag 6. mars kl. 12, sólarhring á undan norðurhvelskortinu að ofan. Í lægðinni (hvítur blettur) miðri stendur talan 1004 (hPa). Svona lága tölu hefur ritstjórinn ekki séð á þessum kortum áður. Veðrahvörfin geta farið niður fyrir 900 hPa í dýpstu lægðum á vetrum - þegar þær eru í óðavexti. Hér er þó ekki um slíkt að ræða heldur er um fjallaáhrif að ræða - Grænlandsjökull sýnir afl sitt. Lægðin er ekki nema 1004 hPa djúp. Ekki er víst að líkanið hafi þetta alveg rétt eftir - líkön eiga oft bágt í námunda við fjöll.

Þessi einkennilega lægð grynnist síðan næstu daga og veðrahvörfin jafna sig að nokkru. Háloftalægðin litla verður gripin af næsta lægðardragi úr norðvestri og á það kerfi að fara suðaustur um jökulinn í átt til okkar. Mun þá kalt loft (ekki það sama og í fyrri umferð) detta aftur niður af jöklinum en núna okkar megin. Dragast þá veðrahvörfin enn niður - reiknimiðstöðin segir niður í 800 hPa um hádegi á þriðjudag. Hér greinir spár og reiknimiðstöðvar á um framhaldið - kannski gerir kuldakast þrátt fyrir allt - á afmælisdaginn sjálfan.


Hlýtt (- miðað við hvað það er kalt)

Fyrirsögnin virðist við fyrstu sýn vera hálfgerð rökleysa en stenst samt nánari skoðun. Undanfarna daga hefur verið mjög hlýtt um hádaginn víða á Suður- og Vesturlandi (og jafnvel víðar). Sönn vorblíða, þætti ágæt í maí, hvað þá í byrjun apríl eins og nú. En hitinn snarfellur að kvöldi í bjartviðri. Þurr jörð ýtir líka undir stærð dægursveiflunnar. Norðaustanlands fer orkan aðallega í snjóbræðslu.

En yfir landinu er ekkert sérstaklega hlýtt. Reiknilíkön segja mættishitann í 850 hPa varla ná 10 stigum þar sem hlýjast er.  Þykktin er líka ekkert sérlega mikil - 5270 metrar yfir Suðvesturlandi. Ekki er að vænta hárra hitatalna við það gildi. Við getum gengið út frá því að síðdegishitinn í dag (fimmtudaginn 4. apríl) hafi verið um það bil jafnmikill og þykkt og mættishiti þola. Til þess að sú aðstaða skapist þarf loftið í raun að vera í óræðu jafnvægi sem heitir. Þá er það eins nærri því að vera óstöðugt og hægt er án þess að það fari að bylta sér og mynda skúrir eða él.

En reyndar varð vart við síðdegisskúrir í dag um landið sunnan- og vestanvert þannig að sums staðar hefur hlýnað meira en jafnvægið þoldi. Nú er loftþrýstingur hár - var í dag um 1030 hPa. Næstu daga er því spáð að kalda loftið nái undirtökum og sumar spár gera ráð fyrir talsverðu kuldakasti upp úr helginni.

En látum þær framtíðarspár eiga sig - það er nægur tími til að líta á þá stöðu síðar - ef af verður. En við skulum þess í stað líta á spár fyrir morgundaginn - föstudaginn 5. apríl. Við tökum mið á ástandið klukkan 18 síðdegis. Kortin eru úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg050413a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), hita í 850 hPa (strikalínur) og úrkomu. Litirnir sýna hversu áköf úrkoman er. Dökkgræni liturinn sýnir svæði þar sem úrkoman milli klukkan 15 og 18 hefur verið á bilinu 1,5 til 3,0 mm í líkaninu. Einnig má sjá smá tákn, krossar sýna hvar spáð er snjókomu, en þríhyrningar svæði þar sem úrkoman er klakkakyns (skúrir eða skúrasambreyskja).

Úrkomusvæðið nær yfir mestallt landið sunnanvert og er það stórt að það lokar alveg fyrir sólskinið. Fremur kalt er í úrkomunni og haldi hún áfram fram á nótt er líklegt að hún breytist í snjókomu. Á kortinu er snjókoma sýnd suðaustanlands þegar klukkan 18 - en á því svæði þarf að hafa í huga að Vatnajökulshálendið er umfangsmeira (en lægra) í líkaninu heldur en í raunveruleikanum.

Sé spáin rétt stafar úrkoman ekki aðeins af því að landið hitnar um hádaginn (eins og úrkoman sem féll í dag - fimmtudag) heldur kemur fleira til. Við þurfum að líta á tvö kort til viðbótar til að átta okkur á því. Tökum fyrst eftir því að á kortinu að ofan er ákveðin suðaustanátt við Suðvesturland en austnorðaustanátt yfir Breiðafirði og Vestfjörðum. Loft af ólíkum uppruna á stefnumót.

Kortið hér að neðan sýnir hæð 925 hPa-flatarins auk vinda og hita í honum.

w-blogg050413b

Hér sýnir fjólublái liturinn svæði þar sem frostið er meira en -16 stig. Hér er vindáttum við landið háttað á sama veg og á grunnkortinu að ofan. Uppi í 500 hPa (rúmlega 5 kílómetra hæð) er talsvert öðruvísi staða. Hún sést á kortinu hér að neðan.

w-blogg050413c

Hér er hæðarhryggur fyrir vestan land en öflug og köld háloftalægð fyrir austan. Á milli þessara kerfa er norðvestanátt - öflug fyrir austan land en vægari yfir Vesturlandi. Vegna þess að loftið kemur af Grænlandi má gera ráð fyrir því að það sé þurrt.

Hér er staðan sú að frekar rök suðaustanátt gengur inn undir þurra norðvestanátt. Slíkt ástand dregur úr stöðugleika og sé loftið nærri því að vera óstöðugt þegar stefnumótið verður má gera ráð fyrir því að það fari að velta. Þetta er líkleg ástæða þess að því er spáð að úrkomusvæðið lifi kvöldið af og það endist nóttina og jafnvel lengur. Þetta gerist þrátt fyrir það að loftþrýstingur sé mjög hár og engin lægða- eða skilakerfi í nánd.

Þessa greiningu ritstjórans á ástandinu verður þó að taka með varúð - hún er ekki endilega rétt. Hér er upplagt að rifja upp að rakt loft er léttara heldur en þurrt. Flestum finnst augljóst að sitji kalt og hlýtt loft hlið við hlið fleygist það kalda undir það hlýja og lyfti því. Þetta er algengasta skýringin á tilvist kuldaskila. Það þykir ekki eins augljóst að sitji þurrt og rakt loft hlið við hlið fleygist það þurra undir það raka og lyfti því (með þeim afleiðingum að dulvarmi losnar og auðveldar uppstreymið frekar). Skil af þessu tagi eru ekki algeng hér á landi - en vestur á sléttum Ameríku gegnir öðru máli. Þurra línan (dry line, eins og þarlendir kalla skilin) er þar alræmd í ógn sinni þegar hlýtt loft að vestan mætir röku að sunnan. Áhugasamir gúggli dryline eðadry line.


Á einmánuði

Einmánuður er síðastur útmánaða að gömlu íslensku tali og þar með einnig síðasti mánuður vetrarmisseris. Hann hefst á þriðjudegi í 22. viku vetrar og er oft kenndur við yngissveina rétt eins og þorri við húsbónda, góa við húsfreyju og harpa við yngismeyjar. Eitthvað er þetta nú samt grunsamlega snyrtilegt. Einmánaðarnafnið er dularfullt - einn mánuður til sumars? En tvímánuður heitir fimmti mánuður sumars - tveir mánuðir til vetrar? Grunsamlegt með ólíkindum.

Einmánuður í ár hófst þriðjudaginn í dymbilviku, 26. mars. Við lítum nú á hitafar hans frá 1846 að telja eins og það birtist í morgunhitanum í Stykkishólmi. Hvaða ár skyldu státa hlýjasta og kaldasta einmánuði?

w-blogg040413.

Hér sker einmánuður 1859 sérstaklega í augu, meðalhitinn var -10,6 stig. Vetur þessi er frægur að endemum, kallaður því eftirminnilega nafni álftabani. Einmánuður hófst 22. mars þetta ár og páskadag bar upp á 24. apríl, sunnudag eftir sumardaginn fyrsta. Þá linaði loksins. Frostið var talsvert minna í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi þegar harðindin stóðu sem hæst.

Nítjánda öldin á einnig þá einmánuði sem eru í 2. til 5. sæti kuldans. Köldustu einmánuðir 20. aldar voru 1902 og 1951.

Hlýjastur einmánaða samkvæmt þessum mælikvarða kom líka á 19. öld - aldrei þessu vant. Það var árið hlýja 1880 en það endaði raunar með ósköpum - kaldasta desember allra tíma. Hefndist þá aldeilis fyrir blíðuna. Um annað og þriðja sætið berjast einmánuðir áranna 1929 og 1923 - jafnir. Eldri veðurnörd muna vel hinn einmunagóða einmánuð ársins 1974. Þá var ritstjórinn í Bergen í Noregi og upplifði þar nær hlýjustu útmánuði á þeim slóðum.

Kuldinn 1859 gerir ásýnd línuritsins flatari heldur en efni standa til og leitnin sést ekki mjög vel. Hún reiknast þó 1,2 stig á öld.

Dagsmeðalhiti í Reykjavík liggur ekki alveg á lausu nema aftur til 1949. Á tímanum síðan var einmánuður auðvitað hlýjastur 1974, en 2003 í öðru sæti. Langkaldastur var einmánuður 1951.


Enn einn hlýindavetur liðinn

Á Veðurstofunni nær veturinn yfir tímabilið desember til mars. Það tímabil á betur við hérlendis heldur en alþjóðaveturinn desember til febrúar. Reyndar var það svo í nágrannalöndunum að mars 2013 varð kaldari heldur en vetrarmánuðirnir hver um stig. Það hefur gerst hér líka að vormánuðurinn apríl hafi verið kaldasti mánuður ársins.

Samkvæmt gamla íslenska tímatalinu nær veturinn yfir allan tímann milli fyrsta vetrardags og sumardagsins fyrsta. Hvar núlíðandi vetur lendir í metingi á þeim vettvangi verður að sýna sig. Fyrirfram má þó segja að þar sem nóvember var rétt í rúmu meðallagi hér á Suðurlandi er varla að árangurinn verði jafngóður og veðurstofuveturinn státar nú af.

Það eru aðeins þrír vetur sem hafa gert betur í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga þar 1871. Einn vetur á eldra mæliskeiði Reykjavíkur (1823 til 1854) blandar sér í flokk þeirra allra hlýjustu. Það er 1847.

En lítum á meðalvetrarhitann á mynd.

w-blogg030413

Þrepið 2003 verður nú sífellt áþreifanlegra - en ekki megum við þó halda að við stöndum á því um alla framtíð. Kuldinn í nágrannalöndunum í austri sýnir að hitann má að minnsta kosti að einhverju leyti þakka afbrigðilegum hringrásaraðstæðum. Fyrirstöðuhæðin góða sér um sitt.

Í mars var hún þó vestar heldur en í janúar og febrúar. Svo virðist sem hún lifi áfram um sinn - en þetta er nú orðin býsna löng syrpa.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hiti í mars yfir meðallagi - loftþrýstingur óvenju hár

Hiti í mars var yfir meðallagi á Suður- og Vesturlandi en rétt undir því norðanlands og austan. Hér er miðað við árin 1961 til 1990. Sé miðað við síðustu tíu ár (2003 til 2012) var mánuðurinn í kaldari kantinum, 1 stigi undir meðallagi á Suður- og Vesturlandi en 2 til 2,5 undir á Norðausturlandi.  En nánari samantekt kemur væntanlega frá Veðurstofunni áður en langt um líður. Sömuleiðis er bent á umfjöllun nimbusar um mánuðinn og sömuleiðis pistil Emils Hannesar um hita í mars.

Heldur merkari er loftþrýstingurinn. Í Reykjavík var mánaðarmeðaltalið 1019,7 hPa, hærra en nokkru sinni í mars síðan 1962 og þar á undan 1916. Háþrýstingur á Íslandi kemur oft illa niður á hita  í Evrópu norðan- og vestanverðri. Bretar telja mars nú þann kaldasta frá 1962, atburðum ber saman hér og þar. Aftur á móti var þó nokkru kaldara hér á landi í mars 1962 heldur en nú.

Í háloftunum var vestnorðvestanátt ríkjandi í mars, en austnorðaustanátt nærri sjávarmáli. Við lítum betur á þau mál síðar.


Skilagleði

Í framhaldi af súpumynd gærdagsins á hungurdiskum má hér sjá sjávarmálsgreiningu bresku veðurstofunnar nú síðdegis í dag (páskadag 31.3. 2013 kl.18). Þar ríkir að vanda mikil skilagleði og þarf varla fleiri athugasemda við.

w-blogg010413

En þetta er svosem ekki ólíkt því sem haldið var að ritstjóranum í Björgvin fyrir nærri 40 árum. Að drepa skil var synd. Jafnvel var höstuglega spurt úr hverju þau hefðu drepist ef vantaði upp á töluna og dánarorsökin var ekki kristalklár. Nú á dögum er almenningi hlíft við tölvuspám eins og t.d. þessari hér að neðan.

Hún sýnir hæð veðrahvarfanna (í hPa) á sama tíma og kortið hér að ofan. Það er evrópureiknimiðstöðin sem reiknar. 

w-blogg010413b

Myndin batnar við stækkun. Sjá má útlínur Íslands inni í bláa flekknum rétt ofan við miðja mynd. Norðurhluti Spánar er lengst niðri í hægra horni.

Á myndinni sýnir blái liturinn há veðrahvörf - oftast hæðarhryggi eða fyrirstöðuhæðir. Guli liturinn sýnir lág veðrahvörf. Brúnt, fjólublátt og hvítt sýnir þá staði sem þau eru allra lægst. Yfir Íslandi ná veðrahvörfin upp í 195 hPa, í dag um 11,3 kílómetra hæð. Hvíti bletturinn sýnir að þar ná veðrahvörfin niður í 750 hPa, í dag um 2300 metra hæð.

Sunnan Íslands eru margar dældir í veðrahvörfin og auk þess langir borðar þar sem skiptast á hærri og lægri gildi. Þetta er auðvitað alveg jafnmikil súpa fyrir óvön augu og skilagleðikortið sýnir. Sennilega veldur litasúpan enn meiri ógleði heldur en skilasystir hennar hjá almennum lesendum - þeir verða bara að afsaka vondan smekk og óeirð ritstjórans.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 43
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 441
  • Frá upphafi: 2343354

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 396
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband