Útsynningur í hálfan sólarhring?

Þegar þetta er skrifað (seint á fimmtudagskvöldi) nálgast lægð úr suðvestri. Hún veldur rigningu og hvassviðri megnið af föstudeginum. Eftir að skil hennar fara hér yfir á föstudagskvöld og aðfaranótt laugardags kemur hingað kalt loft frá Kanada í snögga heimsókn. Lítið hefur verið um slíkt í vetur.

Kortið hér að neðan (úr smiðju hirlam) gildir klukkan 6 á laugardagsmorgni. Suðurhluti Grænlands hefur gripið lægðina og stöðvað framrás hennar tímabundið - en aðalúrkomusvæðið er hér komið vel austur fyrir land. Annar úrkomubakki er við Vesturland og kalda loftið fylgir í kjölfarið á honum.

w-blogg190413a

Ef vel er að gáð má sjá að hiti í 850 hPa (strikalínur) er um -5 stig yfir Vesturlandi en -10 jafnhitalínan er suðvestur á Grænlandshafi. Mikið hæðasvæði liggur um Atlantshafið þvert og á að verða á svipuðum slóðum næstu daga ef marka má tölvuspár. Heimskautaröstin liggur norðan háþrýstisvæðisins og ber bylgjur og lægðir hratt til austurs næstu daga.

Lægðin verður ekki lengi kyrrstæð við Grænland en fer síðdegis á laugardag og á sunnudag til austurs fyrir sunnan land. Það þýðir að útsynningurinn stendur mjög stutt við. Raunar er alveg óvíst hvort áttin kemst nema augnablik norður fyrir suðvestur.

Við sjáum kjarna kalda loftsins betur á myndinni að neðan. Hún sýnir hefðbundið þykktarkort, jafnþykktarlínur eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa. Kortið gildir á sama tíma það fyrra, klukkan 6 á laugardagsmorgni.

w-blogg190413b

Mikill fleygur af lágri þykkt liggur til austurs rétt sunnan við Hvarf á Grænlandi en breiðir síðan úr sér til beggja handa. Lægst er þykktin um 5130 metrar við enda bláu örvarinnar á myndinni. Þetta loft stefnir til Íslands en sjórinn hitar það jafnt og þétt á leiðinni, þannig að það verður orðið um 30 til 40 metrum hlýrra þegar hingað er komið. Það samsvarar um 2 stigum.

Hlýi fleygurinn á undan kerfinu (úrkomusvæðið) er ekkert sérlega hlýr (nær ekki 5400 metrum) og fer þar að auki hratt hjá. Varla er því hlýinda að vænta. Taka má eftir því hversu vel Grænland stíflar kuldann vestan við, bæði þykktar- og jafnhitalínur eru sérlega þéttar yfir jöklinum - hann er í þetta sinn áhrifamikill veggur. Gríðarkalt verður á Vestur-Grænlandi um helgina.

Á efra kortinu er næsta lægð yfir Labrador og hreyfist hún hratt til austnorðausturs og á að strjúka suðurströnd Íslands á mánudag. Framhaldið verður í fangi lægðardrags á eftir þeirri lægð - nákvæmlega hvernig er ekki orðið ljóst hér og nú.

Útsynningurinn stendur að þessu sinni ekki nema um hálfan sólarhring - éljaloftið stendur við eitthvað lengur í sunnan- og síðan suðaustanátt meðan lægðin fer hjá. Við erum því varla laus við næturhálkuna á blautum vegum - því miður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 22
  • Sl. sólarhring: 431
  • Sl. viku: 2284
  • Frá upphafi: 2410273

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 2044
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband