Kíkt á kuldapoll

Lægðardragið sem hungurdiskar fjölluðu um í gær er nú (á þriðjudagskvöldi) komið suður yfir landið - eða um það bil. Því fylgir kólnandi veður og er þegar komið talsvert frost á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Eins og vill gerast hærist hins vegar upp í hitahvörfum innsveita á Norðausturlandi og hlýnar þar í bili um leið og vindur vex.

Á þykktarkortum verður kuldinn í hámarki aðfaranótt fimmtudags gildir þykktarkortið hér að neðan klukkan 6 á fimmtudagsmorgni (11. apríl). Evrópureiknimiðstöðin reiknar.

w-blogg100413a

Fastir lesendur kannast við svipinn. Heildregnu línurnar sýna þykktina, því minni sem hún er því kaldara er í neðri hluta veðrahvolfs. Á kortinu er hún lægst yfir hafísnum við Norðaustur-Grænland, 4950 metrar eða svo. Það er 5020 metra jafnþykktarlínan sem gengur inn á Vestfirði og austur um Norðurland. Litafletir sýna hita í 850 hPa, kvarðinn batnar mjög við stækkun. Flöturinn er þarna í um 1350 metra hæð yfir landinu, snertir efstu fjöll.  

Eftir því sem kuldinn breiðir meira úr sér til suðurs á hann erfiðara uppdráttar. Sjórinn er drjúgur við að draga úr honum. Loft er mjög óstöðugt þegar kalt er yfir hlýjum sjó, bæði er skynvarmaflæði frá yfirborði hans mikið auk þess sem talsvert gufar upp af vatni. Sá eimur þéttist þegar loftið lyftist frekar og skilar dulvarmanum aftur.

Næsta mynd sýnir úrkomu í kringum Ísland á sama tíma og þykktarkortið gildir, klukkan 6 á fimmtudagsmorgni. Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar.

w-blogg100413b

Af jafnþrýstilínum og vindörvum má ráða að norðaustanátt er ríkjandi á nærri því öllu kortinu. Úrkomulaust er yfir ísnum og kalda sjónum við Grænland - en fljótlega eftir að loftið sem þaðan streymir kemur út yfir hlýrri sjó byrjar snjókoma eða éljagangur. Litirnir sýna úrkomuákefðina - hún er ekkert sérlega mikil fyrir norðan land en er meiri suðaustur af landinu þar sem kalt loft er líka á ferðinni yfir enn hlýrri sjó.

Litlu þríhyrningarnir sýna að víðast hvar er um klakkaúrkomu að ræða - ýmist éljaklakka eina og sér eða þá sambreyskju klakka- og breiðuskýja. Litlir krossar marka snjókomu - mestöll úrkoman í kringum landið er snjór, enda er frostið í 850 hPa (strikalínur) í kringum -15 stig yfir landinu.

Á kortinu er úrkoman í löngum böndum eða görðum sem hér liggja í aðalatriðum nokkuð samsíða jafnþrýstilínunum. Fari þessir garðar að snúa upp á sig er smálægðamyndun í undirbúningi - og það er einmitt þannig. Reiknimiðstöðvar eru á þessu stigi ekki sammála um annað en að slík lægð myndist fyrir sunnan land á fimmtudag - og hugsanlega önnur vestar, syðst á Grænlandshafi. Örlög þessara lægða eru óráðin.

Bandaríska veðurstofan sendir lægðina upp undir Reykjanes með tilheyrandi snjókomu og síðan hláku - en evrópureiknimiðstöðin er heldur hógværari - lætur lægðina myndast austar og þar með er snjókoma ólíklegri hér suðvestanlands. 

En þetta ræðst að nokkru af öðru háloftadragi sem kemur yfir Grænland á aðfaranótt fimmtudags. Það má sjá á kortinu hér að neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og litir sýna hita í fletinum.

w-blogg100413c

Lægðardragið er merkt með hvítum strikum. Það gangsetur smálægðirnar - eina eða fleiri. Við sjáum að ákveðin norðvestanátt er yfir landinu í 500 hPa, í 700 hPa er vindur norðlægur, en norðaustlægur í lægri flötum. Snúningur á vindi á móti sólargangi með hæð táknar að kalt aðstreymi er ríkjandi í neðri hluta veðrahvolfs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 388
  • Sl. viku: 1582
  • Frá upphafi: 2350209

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1455
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband