Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Nokkra daga að jafna sig

Veðrakerfi yfir N-Atlantshafi taka nú fáeina daga í að jafna sig á lægðinni miklu sem hungurdiskar hafa fjallað um í síðustu tveimur pistlum. Lægðin grynnkar óðfluga, ruðningur er enn á köldu lofti í átt til vesturstrandar Evrópu en lítið virðist gerast í námunda við Ísland.

Kortið að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum um hádegi á morgun, mánudag (21. janúar).

w-blogg210113

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin er sýnd með rauðum strikalínum, því meiri sem hún er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs.

Blá ör bendir á 516 dam jafnþykktarlínuna en hún hringar sig í kringum háloftalægðina - og svæði suður af henni. Það er fremur óvenjulegt að svona kalt loft nái suður á þessar slóðir úr vestri (frekar úr norðri). Það er komið yfir Norður-Atlantshafsstrauminn (Golfstrauminn) og hitar yfirborð sjávar nú loftið baki brotnu. Líkanið segir að ekki verði búið að útrýma svæðinu innan við 516 dam línuna fyrr en kl. 6 á þriðjudagsmorgun. Gríðarlegir skúra- og éljaklakkar fylgja kalda loftinu og má búast við illri færð á spænskum og jafnvel Portúgölskum heiðum og í fjallaskörðum næstu daga.

Ísland er hér áfram verndað af fyrirstöðuhæð fyrir austan land - hún er ekki sterk en dugar samt í nokkra daga til viðbótar. Grábleiku svæðin sýna iðuhámörk - iðan er hér mest í löngum borðum sem ekki hreyfast mikið. Við látum frekari umfjöllun um þá bíða betri tíma (eða sleppa þeim alveg).

Þó er skemmtilegt að minnast á það að næsti borði sem berst til Íslands á samkvæmt líkaninu að koma frá Danmörku, þar sem ör bendir á hann. Hann á að renna til norðvesturs meðfram hæðinni og koma upp að landinu á þriðjudag - kannski bætir í úrkomu suðaustanlands - kannski gerist nákvæmlega ekki neitt.

En góður skammtur af kulda er enn yfir Kanada og leitar til austurs. Næsta meginlægð á að verða eitthvað minni en sú síðasta - en síðan fylgja fleiri í kjölfarið.


Úthafslægðin djúpa - stefnumótið

Í gær var fjallað hér um gríðarlega djúpa og krappa lægð sem þá var að myndast langt suðvestur í hafi (og nær ekki hingað). Nú hefur dýpkunin átt sér stað og ástæða til að líta á stöðuna - eða öllu heldur eitt smáatriði hennar - sem er reyndar aðalatriðið. Lægðin dýpkaði um 53 hPa á einum sólarhring og 40 hPa á 12 klukkustundum - það gerist ekki öllu svakalegra.

En fyrst er mjög falleg innrauð gervihnattamynd frá noaa (bandarísku veðurstofunni) sem tekin var um kl. hálfellefu í kvöld (laugardag 19. janúar 2013).

w-blogg200113a

Lægðarmiðjan er á 55°N og 30°V og er orðin hægfara - fer þó fyrst í norður en síðan til norðvesturs, vesturs og suðvesturs. Miklir éljaklakkar eru í vestanofviðrinu sunnan við lægðina en veðrið er þó verst í slóðanum rétt suður og suðaustur af hringrásarmiðjunni, þar er örugglega fárviðri. Þessi slóði er oft kallaður broddur eða stingur lægðarinnar eða að talað er um lægðarsnúðinn.

Við sjáum að skýjabakkinn austan við miðjuna er tvískiptur - fremst fara mjög háreist (hvít) ský þar sem aðalúrkoman er en á eftir fylgir grátt svæði lægri skýja. Þar er jafnvel rof í skýjahuluna. Við svipaðar aðstæður yfir Suðvesturlandi ályktar maður jafnvel að nú hljóti kuldaskilin að hafa farið yfir - en svo er þó ekki - ofsafenginn landsynningurinn heldur áfram af fullum krafti.

Kuldaskilin (eða samskilin ef slíkt á við) fara síðar yfir. Þetta eru þó skrýtin kuldaskil að því leyti að niðurstreymisloft ofan úr efri hluta veðrahvolfs ryðst yfir og klippir efri hluta þeirra frá neðrihlutanum. Kuldaskilin eru því komin lengra uppi en niðri. Hvernig má það vera? Jú, niðurstreymisloftið að ofan er enn hlýrra heldur en loftið í hinum eiginlega hlýja geira lægðarinnar. Sé það aðeins lítillega hlýrra getur loftið orðið verulega óstöðugt og þrumuveður myndast.

En lægðin og dýpkun hennar orsakast af ákveðnu stefnumóti sem við skulum nú líta á - fyrir nördin. Aðrir eru sjálfsagt hættir að lesa fyrir löngu. Það þarf nokkra reynslu til að lesa úr kortum eins og hér eru sýnd - en við einbeitum okkur aðeins að einu atriði - látum önnur ekki trufla.  

w-blogg200113b

Litavalið minnir á 100 ára gamalt málverk - sem ritstjórinn hefur séð en kemur ekki alveg fyrir sig. Horfum nú rólega á kortið sem er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Það er m.a. gert til að gera á stefnumót af því tagi sem við fjöllum um sýnilegt. Gráar línur eru þrýstingur við sjávarmál (venjulegt veðurkort). Mjóslegin ör bendir á lægðarmiðjuna eins og hún var um kl. 9 á laugardagsmorgni. Þrýstingur í lægðarmiðju er um 976 hPa.

Litirnir ráðast af tvennu, annars vegar mættishita veðrahvarfanna og rakainnihaldi (dulvarma) í 850 hPa - látum smáatriðin eiga sig. Á grænu svæðunum eru veðrahvörfin há en rauðu og brúnu svæðin tákna annað hvort að veðrahvörfin séu lág - eða þá að dulvarmi í 850 hPa sé mikill. Smáreynslu þarf til að greina þetta að. Svo vill til að það er auðvelt í tilviki því sem við erum að skoða.

Bókstafurinn K og örin sem frá honum liggur benda á svæði þar sem kalt loft er að ryðjast áfram. Ofan á því liggja mjög lág veðrahvörf - ruðningur lágra veðrahvarfa er hættulegur. Bókstafurinn R og ör hans benda hins vegar á svæði þar sem dulvarmi er mikill. Við gætum sagt að R-svæðið sé hlýr geiri lægðarinnar. Hér eru veðrahvörfin há.  

Á næstu kortum er bent á nákvæmlega sömu atriði - við fylgjumst bara með þeim en skiptum okkur ekki af neinu öðru á kortunum - sama hversu athyglisvert það er.

w-blogg200113c

Hér er klukkan orðin 12 á hádegi (aðeins þrír tímar hafa liðið). Við sjáum að örvarendarnir hafa nálgast og lægðin hefur dýpkað um 9 hPa. Kaldi fleygurinn er eins og brattur veggur.

w-blogg200113d

Hér er klukkan orðin 15 og sprengingin á sér stað, raka loftið og veðrahvörfin lágu snertast, liturinn verður blár. Ofsafenginn snúningur verður til. Lægðin hefur dýpkað um 15 hPa á aðeins 3 klukkustundum.

w-blogg200113e

Kl. 18 eru veðrahvörfin lágu að hringa lægðarmiðjuna sem nú er orðin 943 hPa. Í þessu tilviki skiptir framsókn lágra og þar með kaldra veðrahvarfa trúlega meira máli heldur en rakinn í hlýja loftinu en það var ekki sérlega hlýtt. Lægðin heldur fullum styrk í hálfan sólarhring en grynnist síðan.

Já, blái liturinn yfir Spáni. Það voru þrumuveður hans sem töfðu þar lestarferðir handboltalandsliðsins. En hegðan veðrahvarfanna er ekki ofsafengin á þeim slóðum eins og úti á Atlantshafinu í dag. Rakinn skiptir meira máli heldur en veðrahvörfin - þótt þau séu reyndar óvenju lág yfir Spáni á kortinu, örmjór fingur merktur 720 hPa var yfir Barselóna - vonandi meiddist enginn.


Allt í fjarska (sæmilega öruggri fjarlægð)

Nú ryðst gríðarkalt loft frá Labrador út yfir Atlantshaf í fáeinum gusum. Séu spár réttar munu þar myndast nokkrar mjög djúpar og krappar lægðir næstu vikuna. Sú fyrsta í syrpunni á að ná hámarksstyrk á laugardagskvöld (19. janúar). Lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir seint um kvöldið.

w-blogg190113a

Jafnþrýstilínur eru svartar, strikalínur sýna hita í 850 hPa og litafletir úrkomu. Þetta kort skýrist mjög við stækkun. Gríðarkröpp 941 hPa lægð er rétt neðan við miðju kortsins. Hún er í hámarksafli. Yfir Labradorströnd má sjá -35 stiga jafnhitalínuna í 850 hPa og -5 stiga línan nær hálfa leið yfir Atlantshaf. Henni er spáð allt til Írlandsstranda um hádegi á mánudag og keppir þar við kulda úr hinni áttinni. Það er ábyggilega ekki mjög algengt að svona kalt sé í hreinni vestanátt á Írlandi - nærri því að maður trúi þessu varlega.

Einnig má sjá illviðri yfir Miðjarðarhafi. En Ísland er undir mildri suðaustanátt í jaðri fyrirstöðuhæðar - gæðajaðri (fyrir okkur).

Lægðarmiðjan á í þessu tilviki að berast rólega til norðurs og síðan norðvesturs - langt frá okkur en býr samt til eins konar undiröldu í lofthjúpnum sem berst til allra átta - aðallega til austurs en líka norður til Íslands. Þá herðir og dofnar á suðaustan- eða austanáttinni á víxl. Fleiri ámóta eða litlu minni lægðir munu síðan fara svipaða leið næstu viku til tíu daga - en engin þó nákvæmlega þá sömu. Ráðlegt er að trúa spám varlega marga daga fram í tímann.

Nú tekur nördasvæðið við.

Við lítum á fáein kort til viðbótar. Þau sýna öll ákveðna þætti lægðarinnar og eru klippt úr stærri kortum - batna því ekki mjög við stækkun.

 w-blogg190113b

Hér fer mynd af lægðarmiðjunni, eins og hún er í 850 hPa fletinum. Við getum sagt að gulu fletirnir sýni skil lægðarinnar. Jafnhæðarlínur eru svartar, sú innsta um 840 metrar. Vindörvarnar sýna gríðarmikinn vind. Hann er 100 hnútar (50 m/s) eða meira á svæði suðvestan við lægðarmiðjuna og er svipaður í 925 hPa-fletinum líka en sá flötur er í aðeins 130 m hæð í miðju lægðarinnar. Eins gott að þetta er allt yfir reginhafi.

Næsta kort sýnir aðstæður í 700 hPa.

w-blogg190113c

Jafnhæðarlínur eru svartar. Vindörvar sýna vindinn. Hann er ekki eins mikill þarna uppi í um 2500 metra hæð og hann er neðar. Litafletirnir sýna rakastig, á gráu svæðunum er það yfir 70%, en á þeim brúngulu er það minna en 15% og minna en 5% á þeim dekkstu þeirra. Svo þurrt verður loft ekki nema að það komi að ofan, hátt úr lofti, jafnvel nærri veðrahvörfum. Rauðu og bláu tölurnar sýna upp- og niðurstreymi - við sleppum þeim núna og eins rauðu strikalínunum. Þessi þurri niðurdráttur er oft kallaður þurra rifan í huglíkani sem kennt er við færibönd og hungurdiskar hafa fjallað um fyrir alllöngu. Hann er nærri því fastur liður í ört dýpkandi förulægðum og er tengdur (jæja - látum þær málalengingar bíða).

Svo eru það veðrahvörfin. Hin einu og sönnu eru mjög sjaldan sýnd á kortum en í staðinn er notast við fulltrúa þeirra - nærri því eins. Hann köllum við aflveðrahvörf(e. dynamic tropopause) í subbulegri hagkvæmni. Munur á þessum tveim bragðtegundum veðrahvarfa er yfirleitt ekki teljandi og hungurdiskar greina langoftast ekki á milli - en þar sem mikill niðurdráttur er á veðrahvörfunum greinast tegundirnar tvær að - en allt þetta er aukaatriði.

Við lítum á (afl-)veðrahvörf á tveimur kortum. Það fyrra sýnir þrýstihæð þeirra - og gildir kl. 18 á laugardagskvöldi 19. janúar.

w-blogg190113e

Á bláu svæðunum eru þau í yfir 250 hPa hæð, meir en 10 kílómetrum, á þeim grænu er hæð veðrahvarfanna um 8 kílómetrar, innan við 5 á dökkbrúnu svæðunum, síðan springur kvarði kortsins (viljandi) og talan 954 er sú lægsta sem líkanið sér. En - þetta er við sjávarmál, þrýstingur það er að sögn líkansins innan við 950 hPa. Ritstjórinn hættir sér ekki út í frekari vangaveltur - en skemmtilegt er dæmið.

Hitt veðrahvarfakortið sýnir mættishitann í þeim - þann hita sem loft fengi væri það dregið er niður að sjávarmáli.

w-blogg190113d

Tölurnar eru Kelvinstig (K = C° + 273), þær sýna að mættishiti í kalda loftinu (blátt) er innan við 290 K (17°C), neðri talan sýnir aðeins 6°C. Já, þetta er mjög kalt og kalda loftið er um það bil að hringa lægðarmiðjuna. Gulu fletirnir sýna mun hærri hita og þar með hærri veðrahvörf, 329 K = 56°C - alvanalegt á svæðinu. Inni í lægðarmiðjunni sést hins vegar talan 400 K = 127°C. Ástæða merkingarinnar er sú að líkanið finnur veðrahvörfin ekki (enda neðan sjávarmáls? samkvæmt því sjálfu). Þá er gripið til örþrifaráða og stokkið upp í 96 hPa og leitað þaðan niður á við - þá finnast stundum efri veðrahvörfin. Þetta virðist hafa verið gert hér - (skrýtið, en örþrifaráð er örþrifaráð).

Annars sjást þetta háar tölur alloft á korti þessarar gerðar - í bylgjubroti yfir fjöllum eða í námunda við háloftavindrastir í skrensi (þær skransa líka í kröppum beygjum - rétt eins og bílar). En þetta dæmi er sérlega stílhreint.


Suðaustanáttin hvassa

Kortarýnin heldur áfram - erfið fyrir flesta. Í dag er fjallað um tvö 500 hPa hæðar- og þykktarkort af N-Atlantshafi. Það fyrra sýnir ástandið eins og evrópureiknimiðstöðin segir það verða á hádegi á fimmtudag.

w-blogg170113b

Eins og venjulega sýna heildregnu línurnar hæð 500 hPa flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina, líka í dekametrum. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem er rétt sunnan við landið á norðurleið. Þetta eru mikil vetrarhlýindi. Iðan er sýnt í bleikgráu - en við látum hana ekki trufla okkur að sinni.

Vestast á kortinu (lengst til vinstri) er miðja kuldapollsins sem við köllum Stóra-Bola. Lægðin er býsna djúp, í miðju hennar eru aðeins 4670 metrar upp í 500 hPa flötinn. Mesti kuldinn (minnsta þykktin) er þar í grennd, um 4720 metrar. Vetrarlágmarkið gæti orðið lægra en það er þó ekki víst. 

Næsta mynd sýnir hins vegar spá um samspil hæðar- og þykktarflata 18 klukkustundum síðar, klukkan 6 á föstudegi (18. janúar).

w-blogg170113a

Illviðri má flokka eftir samspili þykktar- og hæðarflata. Þetta er gott dæmi um illviðri undir litlum þykktarbratta. Hér nær 5400 metra jafnþykktarlínan í hring - hún myndar hlýjan hól. Í hólnum er þkktin 5450 metrar þar sem mest er. Hlýir hólar eru mjög algengir - en í þeim er vindur oftast hægur. Hér fara hins vegar saman þéttar jafnhæðarlínur og flöt þykkt. Hvað táknar það?

Við sjáum það á síðasta kortinu, en það sýnir hæð 925 hPa-flatarins (hér í um 500 m hæð) auk vinds og hita í fletinum.

Nú - hér fylltist myndakrókur hungurdiska og skrifum því sjálfhætt. Fylgist með spám Veðurstofunnar.

 


Heiðhvolf og veðrahvolf í takti

Hungurdiskar hafa nú að undanförnu beint sjónum að heiðhvolfinu og atburðum þar. Aðrar fréttastofur tregðuðust við um hríð en tóku loks vel við sér og hafa atburðir heiðhvolfsins nú verið tengdir kuldum í Evrópu og „afbrigðilegu“ veðri vestra í hverjum veðurfréttatímanum á eftir öðrum.

En hér lítum við á tvö norðurhvelskort sem eiga að sýna að heiðhvolf og veðrahvolf eru komin í dágóðan takt.

Fyrst heiðhvolfskortið. Það er úr gfs-spá bandarísku veðurstofunnar og gildir á fimmtudaginn 17. janúar kl. 12.

w-blogg160113a

Ísland er að venju rétt neðan við miðja mynd en greina má útlínur meginlanda í bakgrunni kortsins. Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins eru svartar en hiti er gefinn til kynna með litum. Kvarðinn sést mun betur sé kortið stækkað á skjánum. Við sjáum tvær risastórar lægðir og eina hæð. Sú yfir Ameríku er ivið dýpri, innsta línan þar sýnir 2240 dam (eða 22,4 kílómetra) en innsta línan í Síberíulægðinni er 22,6 km. Innsti hringur um hæðina austur af Íslandi sýnir 23,7 km.

Hitafar í kringum lægðirnar er nokkuð ólíkt. Ameríkulægðin er áberandi kaldari, þar sýna fjólubláu fletirnir meir en -82 stiga frost en frostið er um -35 stig þar sem það er minnst í austurenda Síberíulægðarinnar. Lítið samræmi er á milli hita- og hæðarsviðanna og bendir það til þess að óróleikanum sé ekki lokið. Þar sem er kalt á myndinni er væntanlega talsvert uppstreymi, en loft er á niðurleið á hlýrri svæðunum.

Á þessum tíma árs er langalgengast í 30 hPa og þar fyrir ofan að ein risastór lægð nái yfir mestallt kortið og hún er þá köldust nokkurn veginn í miðjunni. Oftast hallast hringrásin þó til annarrar hliðarinnar og jafnvel má greina 2 til 3 lægðardrög út úr lægðinni með krappari beygjum í hringrásinni.

Það gerist síðan endrum og sinnum að lægðin leggst öll á annað borð og miðjan fer jafnvel suður fyrir 60. breiddarstig eða þá að hún skiptist alveg í tvo misstóra hluta rétt eins og nú. Fyrir utan óregluna sem skapast í hæðarsviðinu hlýnar heiðhvolfið stórkostlega við bylgjubrot og tilheyrandi niðurstreymi. Loftið hlýnar þá mun meira ofar og getur hiti farið í +30 stig í 40 til 50 km hæð. Á erlendum málum er þetta nú orðið kallaðStratospheric Sudden Warming(SSW). Upphaflega gekk það undir nafninu Berliner Phenomenon en þar í bæ varð þess fyrst vart í háloftaathugunum seint í janúar 1952. Ekki á fyrirbrigðið fast nafn á íslensku, við gætum e.t.v. notað leppinn skyndileg heiðhvolfshlýnunþar til annað betra finnst (shh).

Menn tóku fljótt eftir því að oft urðu breytingar á hringrás veðrahvolfsins í kjölfar skyndilegrar heiðhvolfshlýnunar. Heimskautaröstin hafði þá tilhneigingu til að hlaupa í mjög háreistan bylgjugang með tilheyrandi fyrirstöðum á norðurslóðum en útrás á heimskautalofti langt suður eftir meginlöndunum. Hlýnunin og tilheyrandi röskun á hringrásinni - ef hún á sér stað er hins vegar svo fjölbreytt í staðarvali og styrk að erfitt er að negla niður einhver staðbundin áhrif.

En lítum á veðrahvolfskort á sama tíma. Þetta er hið nú alkunna 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem hungurdiskar eru sífellt að kjamsa á. Kortið er einnig úr gfs-líkaninu.

w-blogg160113b

Við höfum nú þegar fyrir nokkrum dögum fjallað nokkuð ítarlega um þessa stöðu og ástæðulítið að gera það í dag - skýringar á táknmálinu má rifja upp með því að endurlesa þá pistla.

Hér er aðeins ætlunin að benda á að kuldapollarnir Stóri-Boli og Síberíu-Blesi eru á kortinu furðu nálægt miðjum 30 hPa-lægðanna á kortinu að ofan. Til hægðarauka hefur staða þeirra verið merkt á þetta kort með tveimur stórum hvítum X-um.  Þótt hringrás veðrahvolfs og heiðhvolfs sé ekki sú sama eru meginöxlarnir nú þeir sömu. Hvolfin eru í takti. Þótt ekkert negli hringrásina í hvolfunum tveimur beinlínis saman er samt léttara að dansa í takt heldur en á misvíxl.

Við ættum nú að sjá að sé lægðarmiðjan í heiðhvolfinu aðeins ein geta bylgjur veðrahvolfsins og kuldapollar gengið nokkurn veginn eins og þeim sýnist í kringum risastóra miðjuna. Skiptist heiðhvolfslægðin í tvennt eins og nú hefur gerst hafa bylgjurnar tilhneigingu til að dansa í kringum hvora miðju fyrir sig og taka þá heldur stærri sveigjur til norðurs og suðurs heldur en ella - bylgjur hvorrar hringrásar um sig rekast þá á á norðurslóðum.

Hæðarinnar sem á efra kortinu er fyrir austan Ísland gætir einnig niðri (dökkt x). Þar hrúgast upp loft að sunnan í mjóum strengjum sem sumir mynda fyrirstöður eða sullast einhvern veginn um heimskautasvæðið hver um annan í öruggri fjarlægð frá kuldapollunum.

Köld bylgja yfir Evrópu er að hrökklast til suðurs á Miðjarðarhaf og veldur þar illviðri. Þótt frekar kalt sé í Evrópu má samt sjá að alvöru heimskautakuldi er nokkuð langt undan á þessu korti. Málið er m.a. það að heiðhvolfslægðirnar gætu verið öðru vísi, það er t.d. ekki óalgengt eftir heiðhvolfshlýnun séu lægðirnar mjög misdjúpar og misumfangsmiklar - þá hlykkjast veðrahvolfsbylgjurnar öðru vísi en nú, e.t.v. með Síberíukulda vestur um Evrópu.

Framhaldið er óráðið og ómögulegt að segja til um það hversu lengi lægðirnar tvær endast eða hvernig þær hreyfast. Við ættum að fylgjast með því - en við verðum líka að hafa í huga að veðrahvolfinu er ekki beinlínis stjórnað að ofan - það gæti því hugsanlega rifið sig út úr dansinum með látum og hrakið heiðhvolfslægðirnar á vergang.


Breytingar á breytileika

Meðan við bíðum eftir næstu tíðindum af ólgunni í vestanvindabeltinu, heiðhvolfinu og við heimskautin skal litið á nördaefni - og það eru ekki einu sinni öll veðurnörd sem hafa áhuga. Eftir hver áramót er sest niður og reiknað út hvernig síðastliðið ár hefur staðið sig. Sumar tölurnar sem koma út úr því segja nákvæmlega ekki neitt einar og sér - en alltaf er gaman að sjá þær í lengra samhengi. Við lítum á þrjár slíkar mælitölur - allar reiknaðar út frá hitamælingum í Stykkishólmi.

w-blogg150113

Fyrsta myndin sýnir hvernig ársmeðalhiti hefur hnikast til frá einu ári til annars. Síðasta talan sem við höfum er munurinn á hitanum árið 2012 og hitanum 2011. Ekki er tekið tillit til þess hvort árið er kaldara en hitt, útkoman er alltaf jákvæð. Ein og sér segir er þessi tala algjörlega marklaus í öllu samhengi en ef sams konar munur er reiknaður út fyrir allt mælitímabilið (sem við ímyndum okkur að nái aftur til 1798) kemur skemmtilegur breytileiki í ljós.

Lárétti ásinn sýnir árin (merkt á tuttugu ára fresti) en sá lóðrétti hitamuninn. Við sjáum að á 19. öld er eitthvað allt annað í gangi heldur en síðar. Þá skjóta gríðarlega köld ár sér inn öðru hvoru. Árið 1892 er það síðasta á tímabilinu. En um miðja tuttugustu öld var á það minnst að eftir það hafi veðurfar bara verið nokkuð skaplegt (þótt við myndum kveina - svo góðu vön).

Tímabilið 1860 til 1870 var sérlega breytilegt - en munum að ef alltaf er jafnkalt (eða jafnhlýtt) verður munurinn frá ári til árs enginn. Tímabilið frá því um eða rétt fyrir 1970 og fram yfir 1980 virðist hafa verið nokkuð órólegt - enda var það þannig í meir en áratug að sléttatöluárin voru sæmilega hlý en oddatöluárin aftur á móti sérlega köld.

Nýja öldin byrjar með fremur litlum breytileika - e.t.v. þeim minnsta á öllu mælitímabilinu. Tuttugustualdarhlýskeiðið mikla virðist taka ámóta dýfu - en þegar betur er að gáð er það ekki síst á árabilinu 1920 til 1930 að breytileikinn er lítill - en vex síðan. Ekki er vert að draga leitnilínu í gegnum safnið (blái ferillinn er aðeins til augnhægðar) frekar að um þrep sé að ræða milli 19. og 20. aldar. Hvað gerist síðan afgang 21. aldarinnar veit enginn.

w-blogg150113a

Þá er það breytileikinn innan ársins, holdgerist hér í mismuni kaldasta og hlýjasta mánaðar. Frostaveturnir 1881 og 1918 skera sig úr með sína ofurköldu mánuði, mars 1881 og janúar 1918. Reyndar voru janúar og febrúar 1881 einnig kaldir. Hér virðist sem spönnin minnki hægt og bítandi mestallt tímabilið. Lágmark er þó árið 1922 en það var sérlega eftirtektarvert - veturinn frekar hlýr og sumarið sérlega kalt. Á árabilinu 1930 til 1940 var frekar hlýtt á sumrum en þá komu líka nokkrir allkaldir vetrarmánuðir.

w-blogg150113b

Og að lokum sjáum við breytileikann frá degi til dags. Þegar kalt er í veðri er hann meiri en annars. Þarna sker kalda tímabilið 1965 til 1985 sig vel úr og virðist svo sem nálægð hafíss norður undan skipti máli. Hæsta gildi 21. aldarinnar á 2005 - en svo skemmtilega vill til að það er einmitt mesta ísár aldarinnar - fram að þessu. [Allt má nú nöfnum nefna]. Einnig sést að „litlu hafísárin“ upp úr 1940 eru ívið hærri heldur en t.d. sá tími sem fylgdi í kjölfarið. Fyrstu 20 ár 20. aldar fylgja hér fast á eftir 19. öldinni í breytileika.

Lítill hafís mun hafa verið hér við land á árunum 1841 til 1852 og er mesta lágmark 19. aldarinnar (það við sjáum af henni) einmitt 1851 og 1852. Sagt er að árin 1844 til 1847 hafi verið alveg íslaus. Ekki er rétt að trúa því alveg því samkvæmt sama mælikvarða (Koch-mælitalan) átti líka að vera alveg íslaust 1933 til 1937 - en smámunasemi veldur því að það getur ekki talist alveg rétt. Borgarís er ekki talinn með.

Mælitölur greinir á um hvert sé íslausasta árið við Austur-Grænland - við látum þann meting eiga sig í bili. Snemma á ævi hungurdiska birtust nokkrar ritgerðir um hafís við Ísland, sem dæmi má nefna umfjöllun um vesturís í nóvember 2010.


Aftur hlýnar

Þegar þetta er skrifað (seint sunnudagskvöldið 13. janúar) er komið talsvert frost víða um land, snertir á tveggja stafa tölu. En það virðist ekki eiga að standa lengi. Mikill gangur er í veðrakerfinu og við skulum rétt sem snöggvast líta á norðurhvelsspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudaginn, 15. janúar.

w-blogg140113

Fastir lesendur vita að hægt er að gera kortið mun skýrara með stækkun. Jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins eru svartar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Liturinn sýnir þykktina, því minni sem hún er því kaldari er neðri hluti veðrahvolfs. Í pistlinum í gær var langt mál um kuldapolla og sérstaklega um þann sem er mest áberandi á kortinu og við höfum valið að kalla Stóra-Bola.

Hann er á sínum heimaslóðum við norðurströnd Kanada. Þykktin í miðju hans er undir 4740 metrum (dekksti fjólublái liturinn). Í gær sáum við að flatarhæðin í miðju lægðarinnar var um 4900 metrar en hefur hér fallið niður fyrir 4800 metra. Það er töluverð dýpkun. Eins og bent var á í gær er hreyfingin nokkurn veginn samsíða vindstrengnum vestan við Bola - eða eins og litla hvíta örin sýnir.

Annar gríðarmikill strengur nær frá Kaliforníu til Nýfundnalands. Sem stendur sjást ekki neinar teljandi bylgjur á honum fyrr en í lægðinni fyrir suðvestan Grænland og kemur við sögu fljótlega hér á landi. Óvenjukalt hefur verið í suðvestanverðum Bandaríkjunum síðustu daga enda ná mörk grænu og gulu flatanna nærri því að Kaliforníuströnd. Svona veður veldur áhyggjum þar í gróðursælum dölum þar sem vaxa appelsínur og vínber. Starfsbræður ritstjórans vestra hafa hins vegar áhyggjur af kalda loftinu norðurundan og mega það svo sannarlega. En alls ekki er útséð um hversu langt kalda loftið berst suður um Bandaríkin - enn er von að þau sleppi að mestu.

Lítill kuldapollur er líka yfir Vestur-Evrópu. Þótt ekki sé hann öflugur veldur hann samt vandræðum því þykktin í miðju hans er niðri í frosti. Við sjáum að hann hreyfist til suðurs og stefnir á Miðjarðarhaf. Einhver leiðindi verða því þar um slóðir síðar í vikunni.

Fyrirstaðan mikla sem beindi til hlýindum til okkar í fyrri viku hefur hér gefið eftir, en ný myndast yfir Skandinavíu sunnanverðri síðar í vikunni. Á kortinu er Ísland komið í hlýja loftið sem verður notað sem byggingarefni í fyrirstöðunnar. Miðgræni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5340 til 5400 metra - það er góð hláka - nema þar sem er bjart og lygnt. Engin þykkt ræður við útgeislun í björtu hægviðri þegar sólar nýtur ekki.   


Enn af kuldapollum

Það má upplýsa að fyrsta uppkast að fyrirsögn pistils þessa var svona: Stóri-Boli setur upp ísaldarhattinn. En það er æsifregnahljómur af slíku orðalagi - lesendur hefja þá lesturinn með þær væntingar að eitthvað mikið sé að gerast en verða síðan fyrir vonbrigðum þegar við tekur eitthvað illskiljanlegt mal um þrýstifleti, hita og þykkt.

En það er samt þannig - kuldapollurinn mikli sem hungurdiskar hafa kallað Stóra-Bola eða Vetur konung setur nú í raun og veru upp sín kuldadjásn.

Auk þess að mæla hita með venjulegum hitamælum og þá í stigum á kvarða er hiti mældur með því að reikna fjarlægð á milli jafnþrýstiflata, svokallaðri þykkt. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið, því meiri er fyrirferð þess, því kaldara því minna fer fyrir því. Hefð er fyrir því að mæla þykktina í dekametrum en rétt eins má nota aðrar lengdareiningar svo sem metra. Ef ekki er annað tekið fram er oftast verið að fjalla um fjarlægðina á milli 1000 hPa og 500 hPa flatanna þegar rætt er um þykktina.

Þrýstingur við sjávarmál er gjarnan ekki fjarri 1000 hPa, fer í aftökum niður í 920 (enn neðar í öflugum fellibyljum) og upp í um 1080 hPa. Þúsundhektópaskalaflöturinn er ofan við athugunarstað sé þrýstingur þar meiri en 1000 hPa, en ekki er hikað við að reikna hann niður í jörðina sé þrýstingur á athugunarstað lægri en 1000. Þykktin sveiflast á milli 4500 og 6000 metra og 500 hPa hæðin sömuleiðis.

En lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýnir 500 hPa hæð og þykkt um hádegi á sunnudag (13. janúar). Að þessu sinni batnar kortið lítið við stækkun.

w-blogg130113a

Kortið sýnir óvenjulegt svæði. Hér er Ísland neðarlega til hægri á myndinni. Útlínur Grænlands ættu að sjást og sömuleiðis kanadísku heimskautaeyjarnar og Hudsonflói.

Á fjólubláa svæðinu öllu er þykktin minni en 4920 metrar og dekksti liturinn þekur svæði þar sem þykktin er minni en 4740 metrar. Það hafa hungurdiskar oft kallað ísaldarþykktina. Við núverandi veðurlag fer þykktin yfir Íslandi sárasjaldan niður í fjólublátt - á ísöld er hins vegar líklegt að ísaldarþykktin hafi heimsótt landið að minnsta kosti endrum og sinnum. Þá hefur 4740 jafnþykktarlínan farið í þau föt sem 4920 metra línan klæðist í dag. Það er út af fyrir sig merkilegt að ísöldin heimsæki enn norðurhvel á hverjum einasta vetri.

Endrum og sinnum sjást enn lægri þykktartölur, allt niður fyrir 4600 metra en slíkt er sjaldgæft. Erfiðlega gengur að fá á hreint hversu lágt þykktin hefur mögulega farið lægst á ísöld - en ekki er víst að það hafi verið öllu neðar.

Á kortinu sjáum við lítinn dökkan blett með "ísaldarþykkt". - En lítum líka á jafnhæðarlínurnar. Sú næstinnsta er merkt með tölunni 498, það eru dekametrar eða 4980 metrar. Línurnar eru dregnar á 60 metra bili þannig að sú innsta sýnir hæðina 4920 metra. Þar sem sú lína sker 4740 metra jafnþykktarlínuna er munur á hæð og þykkt 180 metrar. Þúsundhektópasköl er því að finna í um 180 metra hæð yfir sjávarmáli. Þrýstingur fellur um 1 hPa á hverjum átta metrum. Við deilum 8 upp í 180 og fáum út 22,5 hPa, bætum 1000 við og sjávarmálsþrýstingurinn er 1022,5 hPa - (sem er óþarfanákvæmni).

Hvorki jafnhæðar- né jafnþykktarlínur eru mjög þéttar utanum miðju kuldapollsins og við tökum eftir því að bil á milli línugerðanna beggja er svipað. Þetta segir okkur að þrýstisviðið sé til þess að gera flatt í 1000 hPa og vindur líklega hægur.

Lítum nú á aðra mynd af sama svæði. Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar. Lituðu svæðin sýna nú hitann í 850 hPa á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -20 stig og meiri en -30 stig á dekksta svæðinu.

w-blogg130113b

Landaskipun er sú sama og á efra kortinu, Ísland neðarlega til hægri. Við sjáum kuldapollinn vel á hitakortinu (litirnir) en hann sést varla eða ekki í þrýstisviðinu. Það hringar þó litla lægð með 1020 hPa línunni. Við höfðum reiknað þetta út - og sömuleiðis vissum við fyrirfram að þrýstilínurnar væru ekki þéttar.

Nú um helgins liggur kuldapollurinn hreyfingarlítill. Meðan svo er stendur engin sérstök ógn af honum. En - spár gera ráð fyrir því að hryggur sem nú er yfir Alaska fari að stugga við honum. Það er reyndar farið að sjást á kortinu því ef vel er að gáð er kuldapollurinn ekki alveg samhverfur - miðjan liggur frekar á annað borð heldur en hitt - hún hallar sér á móti hryggnum aðsteðjandi, því meir sem ásóknin er meiri. Þá gerist það að miðja kuldapollsins fer að hreyfast samsíða vindstrengnum þar sem hann er mestur. Kuldapollurinn hefur hefur hreyfst úr stað.

Engin aðsókn sést enn á sjávarmálskortinu. Kalda loftið sem neðst liggur hreyfist lítið sem ekkert þótt kjarni háloftakuldans sé að færa sig. Þetta lága loft liggur því eftir í fyrstu og togar í loftið ofan við - rétt eins og strekkist á bandi sem bundið er í stein - steinninn fer af stað um síðir en strekkir á. En 500 hPa-flöturinn togast niður og reyndar allt fyrir ofan líka. togið merkist alveg upp í veðrahvörf.

Þegar háloftafletirnir síga eflist háloftalægðin að mun og þá myndast misgengi á milli þykktar- og hæðarflata sem býr til þrýstibratta og vind í lægri flötum allt niður að sjávarmáli.

Snúningur jarðar sér reyndar til þess að hreyfibrautir stórra kuldapolla eru gjarnan hringlaga þeir sækja til suðurs en sveigja fljótt aftur til austurs og norðurs. En þeir geta verpt litlum eggjum sem komast mun sunnar.

Spár gera ráð fyrir því að Stóri-Boli fari nú að hreyfast í hringi yfir Kanada norðanverðu og styrkist í leiðinni - vegna veðrahvarfaniðurtogs þegar kalda loftið neðar sullast um meginlandið. Svo virðist sem reikningar eigi erfitt með smáatriðin í þróuninni og sýna mjög misjafnar niðurstöður frá einu spárennsli til annars. Við fáum því fjölmargar útgáfur af framhaldinu á hverjum degi og lítið á þær að treysta nema rétt næstu 2 til 4 daga.


Skilin leysast upp

Úrkomubakkinn sem hefur færst fram og til baka yfir landinu undanfarna daga er nú loksins að trosna upp. Hann sást þó enn vel á Miðnesheiðarratsjá Veðurstofunnar nú skömmu eftir miðnætti (aðfaranótt laugardags 12. janúar)

w-blogg120113

Litakvarðinn sýnir áætlað úrkomumagn - reiknað upp í klukkustundarákefð. Lestur af honum sýnir að úrkoma er varla nokkurs staðar meiri en 0,8 mm/klst.

Smáatriðaspár sýna leifar skilanna fram eftir laugardeginum og þá yfir Suðurlandi. Á laugardagskvöld ryður öllu kaldara loft sér braut inn á landið úr vestri. Lægðin sem stýrir því er þó hálfgerður vesalingur - en greining á þeim vesaldóm verður að liggja á milli hluta - klukkan á ritstjórnarskrifstofunni er orðin enn meira en venjulega.


Vitameinlaust smáatriði

Hér að neðan er fjallað um mjög algengt veðurfyrirbrigði sem stöku sinnum rífur sig upp í skaðræðisveður. Að þessu sinni er það svo ómerkilegt að það tekur varla nokkur maður eftir því. Eitthvað hefur verið minnst á þetta á hungurdiskum áður - en ástæða er til að hamra á því meðan beðið er eftir stóra dæminu.

w-blogg110113a

Fyrsta kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum föstudaginn 11. janúar kl. 18. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur eru strikaðar og má m.a. sjá -10°C línuna sveigjast langt til austurs fyrir sunnan Grænland. Úrkoma síðustu 6 klukkustundir er sýnd með grænum og bláum litum. Dökkblái bletturinn sem rauða örin bendir á táknar 15 til 20 mm á 6 klukkustundum.

Úrkomusvæðið yfir vestanverðu Íslandi sýnir að skilin sem hafa verið að fara fram og til baka yfir landið í dag (fimmtudag) og í gær verða enn viðloðandi á föstudagskvöld.

En úrkomuhnúturinn sem örin bendir á er umfjöllunarefni dagsins. Þar er mjög hvöss norðnorðaustanátt næst jörð - en snýst fyrst í norðvestur og síðan suðvestur eftir því sem ofar dregur yfir norðurhluta hnútsins. Sunnar er háloftaáttin af austsuðaustri. Hverjar eru nú reglur um hlýtt og kalt aðstreymi?

Í hlýju aðstreymi snýst vindur sólarsinnis með vaxandi hæð. Snúningurinn norðnorðaustur (20°) til austsuðausturs (110°) er þannig sunnan til í úrkomuhnútnum og þar er því hlýtt aðstreymi. Í köldu aðstreymi snýst vindur andsólarsinnis með vaxandi hæð. Í hnútnum er snúningurinn norðantil úr norðnorðaustri (20°) til norðvesturs (320°) og yfir í suðvestur (230°) - þar er því kalt aðstreymi. Þar sem hlýtt og kalt aðstreymi kallast á skerpir á hitabratta (jafnþykktarlínur þéttast).

Af þessu má sjá að einmitt við þessar aðstæður geta hlutir gerst. En við fylgjum nú hnútnum í 12 klukkustundir, næsta kort gildir kl. 06 að morgni laugardags.

w-blogg110113b

Þarna sést að hnúturinn (rauða örin bendir enn á hann) hefur hreyfst nokkurn spöl til norðausturs. Með góðum vilja má fylgja honum allt til Færeyja en spáin segir hann verða þar á sunnudag (14. janúar) - það sýnir blá strikaör í grófum dráttum. Lægðin við Írland fer suður á Miðjarðarhaf og litla lægðin á Grænlandshafi fer til austsuðausturs á sama tíma.

Hvað með þetta? Jú, fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til á þennan hátt. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir á sama tíma.

w-blogg110113c

Hér eru jafnhæðarlínur svartar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu og litafletir hita í 500 hPa. Gulu litirnir tákna hlýtt loft en bláir kaldara. Rauða örin bendir á þann stað sem úrkomuhnúturinn okkar er staddur. Stórt S er sett í söðul á kortinu. Söðlar eru eins konar fjallaskörð í þrýstisviðinu. Þar mætast allar vindáttir. Brúna strikalínan er sett við dálítið lægðardrag sem er á austurleið.

Við endurtökum að fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til við söðulaðstæður suður eða suðvestur í hafi. Skammtur af hlýju lofti á norðurleið austan söðuls hittir fyrir kalt sem gengur til austurs eða austsuðausturs fyrir norðan hann. Sé tímasetningin rétt (hittir í hann) geta afdrifaríkir hlutir gerst.

En nú gerist ekkert. Tímasetningin er ekki rétt og loftið að vestan og norðvestan ekki alveg nógu kalt og auk þess á hlýja loftið lítið bakland - stutt er í aðra háloftalægð rétt austan við.

Á þessu korti sér einnig í fyrirstöðuna fyrir austan land sem hefur tekið þátt í að móta veðrið hér síðustu daga. Hún hörfar heldur - sjá má hvernig kalt loft frá meginlandinu (bláa örin) er að hringa hana og þar með verður hún úr sögunni fyrir okkur. Auk þess sækir brúnstrikamerkta lægðardragið á úr vestri.

Næstu fyrirstöðumyndun er spáð hér við land á þriðjudaginn. Er sú miklu veigaminni heldur en fyrri spár gáfu sumar til kynna. Samt hefur hún veruleg áhrif á veður hér á landi (og miklu víðar) fram eftir næstu viku. En líta má á það mál síðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 913
  • Sl. sólarhring: 1117
  • Sl. viku: 3303
  • Frá upphafi: 2426335

Annað

  • Innlit í dag: 813
  • Innlit sl. viku: 2969
  • Gestir í dag: 795
  • IP-tölur í dag: 732

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband